Pepe Reina kveður (aftur)

Ferill Pepe Reina sem leikmanns Liverpool lauk formlega nú í þessari viku en félagsskipti hans til Bayern Munhen voru staðfest. Þar hittir hann fyrir Guardiola sem var fyrirliði Barcelona er Reina var á mála hjá þeim.

Reina sendi frá sér kveðjubréf til stuðningsmanna Liverpool og er óhætt að segja að það var töluvert betur orðað hjá honum heldur en þegar hann gerði slíkt hið sama fyrir ári síðan og biturleikinn öllu minn núna. Það er mikið gott enda Reina toppmaður og á ekkert nema gott skilið frá stuðningsmönnum Liverpool. Hann er langbesti markmaður Liverpool síðan ég fór að horfa á fótbolta af einhverju viti og tölfræðin yfir fyrstu ár hans hjá félaginu staðfesta það.

Reina hefur verið á mála hjá Liverpool síðan 2005 og hann var frábær í markinu hjá mjög góðu liði árin 2005-2009. Svosem engin vísindi að markmenn spili vel þegar allir fyrir framan þá eru að gera það líka en hann var engu að síður betri en markmenn Liverpool undir stjórn Houllier sem þó höfðu oft mun fjölmennari vörn fyrir framan sig. Reina var fljótur að koma bolta í leik og á nokkrar stoðsendingar eftir frábær útspörk á fljóta sóknarmenn Liverpool. Fyrstu ár Reina hjá Liverpool var einfaldlega ekkert vafamál með þessa stöðu, Reina var bara markmaðurinn og enginn átti glætu í að breyta því.

Reina dalaði í takti við samherja sína á lokatímabili Benitez og var skugginn af sjálfum sér eftir það sem leikmaður Liverpool og hefur í raun aldrei náð sömu hæðum aftur. Ástæðunni fyrir þessu hafa menn verið að velta fyrir sér síðan og er erfitt að greina hvað gerðist annað en að liðið versnaði til mikilla muna.

Hungrið virðist þó hafa yfirgefið Reina og það er afar vont í hans tilviki enda kom hann til Liverpool fullur af orku og baráttuvilja. Hann fékk ef ég man rétt gríðarlega góðan samning á meistaradeildarlaunum undir lok valdatíma Gillett og Hicks og var sá samningur aldrei í takti við framlag Reina í kjölfarið. Spurning hvort að hungrið hafi eitthvað dvínað ósjálfrátt er þessi samningur var í höfn og Liverpool komið með Roy Hodgson og alveg nýtt staff með honum? Aðstoðarstjóri Hodgson, Mike Kelly er markmannsþjálfari og var líklega engu minni skaðvaldur en Hodgson sjálfur. Þeir stoppuðu þó bara stutt við og Dlaglish tók við með nýtt starfslið og nýjar áherslur. Skömmu seinna kom Rodgers enn á ný með nýtt starfslið og alveg nýjar áherslur. Það þarf ekki að koma svo mikið á óvart að Reina, Agger og Skrtel hafi dalað undanfarin ár (svo dæmi sé tekið), stöðugleikinn var nákvæmlega engin og stefnan ekki skýr.

Utan vallar var Reina mjög vinsæll meðal stuðningsmanna Liverpool og það má ekki gleymast að hann var óhræddur við að tjá sig um málefni félagsins utan vallar þegar Hicks og Gillett voru að reyna hreinsa félagið innanfrá upp í skuldir. Hann lét meira að sér kveða fyrir hönd félagsins heldur en flestir samherjar hans gerðu, sumir þeirra hefðu virkilega mátt taka hann sér til fyrirmyndar þar og höfðu sterkari rödd innan félagsins.

Eins má alls ekki gleyma að Reina var árið 2009 einn heitasti markmaðurinn í boltanum og hefði hæglega getað yfirgefið Liverpool á okkar verstu tímum en gerði það ekki. Samningurinn sem hann var með hjá Liverpool hefur auðvitað hjálpað til þar en engu að síður verður manni ávallt hlýtt til þeirra leikmanna sem héldu tryggð við félagið í upphafi þessa áratugar.

Eftir að FSG keypti Liverpool hefur Reina spilað undir stjórn Hodgson, Dalglish og Rodgers. Satt best að segja bjóst ég við því að hann myndi finna sig aftur undir stjórn Rodgers og held ennþá að hann myndi gera það ef kringumstæður væru öðruvísi. Eitthvað virðist hafa komið uppá í samskipum þeirra þó mig gruni að þessi kalda öxl Rodgers sé að stóru leiti tilmæli frá FSG sem hafa lengi viljað losna við þennan launapakka.

Fyrstu ár FSG voru þeir með þennan rándýra markmann á launum sem varði nánast ekkert aukalega og liðið lak ítrekað inn mörkum, það þarf alls ekki að koma á óvart að Reina hafi aldrei átt séns undir stjórn FSG og sést það best á lánssamningi hans í fyrra og kaupverði hans núna. Samningurinn sem Reina var á hjá Liverpool er nákvæmlega samningur sem FSG leggur upp með að gera ekki við sína leikmenn, ekki nema þá allra bestu sem oftar en ekki hafa þá unnið fyrir honum. Reina var búinn að gera það hjá Liverpool að mörgu leiti en var afar óheppinn með tímasetningu á hátindi ferilsins hjá Liverpool.

Endalok ferils Reina hjá Liverpool eru sorgleg, þetta átti að vera okkar markmaður næstu 4-5 árin til viðbótar hið minnsta. Svo verður ekki og líklega er það til marks um hversu djúpa lægð ferill Reina er kominn að hann endar á varamannabekknum hjá Bayern í Munhen þar sem fyrir er langbesti markmaðurinn í heiminum í dag. Hann hefur verið í þessu hlutverki hjá Spænska landsliðinu mest allann sinn feril og ávallt verið valinn vinsælasta “stúlkan” en það er sorglegt að hann ætli að taka það hlutverk líka hjá Bayern. Markmaður í hans gæðaflokki og á hans aldri á að vera í byrjunarliðinu í hverjum leik, ekki sitja á bekknum og hugsa um nú þegar mjög þéttsetna bankabókina.

Hvað um það, þetta er hans val. Hann á ekkert nema gott skilið frá stuðningsmönnum Liverpool og verður ávallt vel tekið á Anfield og hans verður alltaf fyrst og fremst minnst sem leikmanns Liverpool er ferlinum líkur, eins af okkar bestu markmönnum í seinni tíð.

31 Comments

  1. Kveð kappann með söknuði, frábær markmaður og góð manneskja.

  2. Get nú ekki tekið undir það að þetta hafi alfarið verið hans val. Veit ekki betur en hann hafi sjálfur sagt að hann myndi halda aftur til liverpool og vinna sína vinnu og virða samninginn sinn þegar það var ljóst að hann færi ekki alfarið til Napoli. Kannski er það bara ég en finnst það alveg greinilegt frá því að Brendan tók við hafi hann ekki átt upp á pallborðið hjá honum enda var hann ekki valinn í þennann ameríku hóp. Kem til með að sjá mikið á eftir honum og sé framm á það að Mignolet þurfi annað tímabilið í röð ekki að hafa neitt fyrir því að halda stöðu sinni í byrjunarliðinu þar sem hann fær enga samkeppni. En ætla ekkert að deila á Rodgers hann veit örugglega hvað hann er að gera og hefur allt mitt traust. En leiðinlegt að sjá á eftir góðum markmanni, karakter hefur sína kosti og veikleika en öðruvísi markmaður en Mignolet þar sem hann er dæmigerður sweeper keeper og einstaklega góður á boltan og það hefur hann framyfir belgan okkar. og hefði verið frábært fyrir mignolet að fá að læra af honum einn vetur. En hann er farinn yfir i sennilegast besta félagslið evrópu í dag svo eitthvað sjá menn í honum það er allavega ekki hægt að segja að hann sé að taka skref niður á við.

  3. Takk fyrir allt Reina!
    Haldið þið að hann eigi eftir að slá til Robben aftur?

  4. Nr. 3

    Svo lengi sem Neuer er í markinu hjá Bayern er þetta move hjá Reina ekkert nema skref niður á við og það verulega djúpt. Það er ekkert merkilegt fyrir markmann í hans klassa að vera varamarkmaður hjá FC Bayern. Dudek fór frá Liverpool á bekkinn hjá Real Madríd t.a.m.

  5. Flott kveðja frá Pepe, öllu betur heppnuð en sú fyrri. Karlinn lagði sig alltaf allan fram fyrir félagið okkar og verðskuldar bara gott frá félaginu og stuðningmönnum. Gangi þér allt í haginn í Þýskalandi, mikli meistari!

  6. Klassa markvörður og klassa karakter. Takk Pepe fyrir allar góðu stundirnar og …

    You will never walk alone.

  7. Hvernig færðu það út að það sé skref niður á við. Hann er þó í hóp hjá bayern.

  8. Ég myndi nú frekar sætta mig við að sitja á bekknum fyrir Neuer heldur en að þurfa vera fyrir aftan Brad jones í goggunarröðinni hehe. Og þó Liverpool sé klárlega stærsta og besta liðið á Englandi:) þá er Bayern einn af 2-3 stærstu klúbbum í heimi. Dudek er nú töluvert annað dæmi hann var að mínu mati komin af léttasta skeiðinu og það lang besta í stöðunni fyrir hann klára ferilinn í 40 stiga hita á sólarströnd hja einu allra besta liði heims á þeim tíma og sennilega á 3fallt hærri launum.Það er klárlega ekki skref niður á við. En þetta er búið og gert og kemur annar dagur eftir þennann:)

  9. Kveð PEPE með söknuði, enda hef ég átt margar góðar minningar með honum þegar hann var leikmaður LIVERPOOL. Þessi leikmaður er frábær karakter og til mikillar fyrirmyndar fyrir okkar félag. Ég þakka honum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir LFC.

    Gangi þér sem allra best PEPE, nema á móti LFC.

    YNWA

  10. Farvel meistari Reina. Það voru forréttindi að sjá þig live hlaupa 100 metrana á undir tíu sek til að fagna marki N’cog gegn Scum 25/10 2009.

  11. Leiðinlegt að hann sé farinn enda flottur karakter og góður markmaður. Það má samt ekki gleyma því að þessi sala held ég að sé eingöngu viðskiptalegs eðlis, allt svo að losa hann af launaskrá þar sem að hann var ekki á neinum slor launum! Hugsa að BR hefði kosið að vera með bæði reina og mignolet til taks en það hafi bara hreinlega ekki verið í boði.
    Takk fyrir mig Reina, það eru foréttindi að hafa fengið að horfa á þig í rauða litnum í öll þessu ár.

  12. Haukur – hann hefur ekki verið kostur hjá LFC í rúmt ár núna. Það er nó breiner að þetta er skref niðrá við, fara úr því að vera byrjunarliðsmaður hjá Napoli yfir í að vera varaskeifa hjá Bayern.

    Reina er einn af mínum uppáhalds síðustu~7 árin eða svo. En hans tími hjá LFC var liðinn. Tímabilin undir Kenny og svo árið hjá Rodgers þá var hann slakur. Stóð frosinn á línunni trekk í trekk og það liðu mánuðir og ári á milli þess sem þú gast sagt eftir leik, hann bjargaði stigum fyrir okkur þarna. Ég er ekki enn sannfærður um Mignolet en hann vann fleiri stig fyrir okkur í fyrra (a.m.k gegn Stoke og Aston Villa) en Reina hafði gert árin þar á undan.

    Dream scenario er auðvitað að hann hefði haldið áfram 2006-2008 standardi sínum og væri enn hjá LFC að spila eins og einn besti markmaður heims, þá væru allir glaðir. Reyndar hefði það líklega tryggt honum draumamúvið til Barca, en það er önnur saga.

    Ástæða þess að hann átti ekki afturkvæmt er því afar einföld, víst menn eru að horfa til USA túrsins nú í sumar. Stór hluti er vegna fyrri frammistöðu en helst er það þetta fáránlega bréf sem hann skrifaði í fyrra þegar hann fór til Napoli eftir að hafa pissað utan í Barcelona í 12-18 mánuði+ þar á undan.

    Annars á Reina allt gott skilið frá okkur. Hélt tryggð við klúbbinn á erfiðum tímum og verið heilt yfir frábær leikmaður og karakter.

  13. Eg man nu ekki betur en Reina teldi sig vera a leid til Barcelona ( eins og Eythor sagdi) i fyrra, tegar hann svo for ad tala um i vetur ad koma aftur sagdi Rodgers menn kvedja ekki og koma svo bara aftur, common vid erum Liverpool menn geta ekki bara labbad inn og ut eins og teim listir ad tvi ad barca vill ta ekki.
    Eg sakna hans ad vissu leiti langar flottar spyrnur og fljotur ad koma boltanum i leik, en sidustu ar var tad tannig ad ef tad komst madur inn fyrir vornina var tad mark hann einhvern veginn missti touchid.

  14. Takk fyrir Reina mörg eftirminnaleg moment hjá honum á Anfield.Rodgers vill hann bara ekki því miður er kannski betri goalie en Mignolet,enn er ekki verið að byggja upp þó ég skilji ekki öll kaupin sem hafa verið gerð, en eins og Rodgers setur þetta upp þá er verið að styrkja hópinn fyrir fleiri leiki en voru á síðasta seasoni verðum við ekki að treysta kallinum. Væri samt gaman að ná í topp vinstri bakvörð og striker td Falcao.

  15. Það þarf klárlega mann í liðið sem getur veitt Mignolet samkeppni. Hann hefur of marga veiklega og sá stærsti er líklega það hvað hann lætur lítið í sér heyra á línunni og það er stór veikleiki markverðir verða að öskra og drífa varnarlínuna áfram. Virðist bara vera almennt stemningslaus og leiðinlegur gaur.

  16. Smá off topic spurning,

    Veit einhver um síðu (íslenska eða enska) sem svipar til Leikurinn.is sem var uppi fyrir um fimm árum síðan þar sem maður gat tippað á úrslit leikja í ensku deildinni og fengið stig fyrir rétt úrslit yfir allt tímabilið?

  17. Megi Reina ganga vel á nýjum vettvangi, skil reyndar ekki af hverju svona góður markvörður vill vera varamarkvörður ekki eldri en þetta en hann um það.

    Reina átti mörg frábær ár hjá okkur og hann mun aldrei gleymast hjá okkar stuðningsmönnum, hann verður ávallt velkomin aftur í heimsokn á Anfield og þakka eg honum bara fyrir vel unnin störf.

  18. Reina í minningunni mun hann verða einn af þeim Legends í sögu Liverpool. Hann var frábær fyrstu árinn sem hann spilaði með Liverpool. Oft sem hann átti ótrúlegar markvörslur og bjargaði oft leikjum fyrir okkur. Áður enn hnignun Liverpool byrjaði þá var liðið okkar eitt besta varnalið í Evrópu. Carragher-Hyppia voru eitt besta miðvarðapar í evrópu fyrir framan þá voru ekki ómerkilegri leikmenn enn Alonso – Macherano sem voru í World Class elítunni. Þegar þú ert með góða leikmenn fyrir framan þig þá er léttara að vera markmaður. eftir að hnignun Liverpool hófst með kaupum á Leikmönnum eins og Paul Konchesky Christian Poulsen og fleiri vafasamir leikmenn þá ósjálfrátt Bryjaði Reina að dala. Persónulega sé mikið eftir Reina Held að samkeppni sé holl um markvarðastöðunna. Arsenal – chelsea M-City eru öll með hörku markmenn sem berjast um sæti í liðinnu, Þar er ekkert elsku mamma ef þú ert að gera mistök. Flest topplið Evrópu eru með sterka keppni á milli markvarða. Það er margt sem maður finnur að leik Mignoelt í markinnu. Sama er með Reina Held að við þurfum ekkert að telja upp atriðinn það vita flestir hvað þessir menn geta. Ég hefði viljað sjá 1 tímabil í viðbót með Reina, Loksins erum við komnir með flottan hóp sem gerir það léttara að vera markmaður í Liverpool annað enn 2009-2013 sem menn virðast dæma hann út frá.

  19. Að mínu mati er Reina allan tíman mun betri markmaður Mignolet. En þá er ég að horfa á það þannig þegar Reina var upp á sitt besta og Mignolet eins og hann er í dag. Ef Mignolet stígur skrefið fram á við þá tekur hann verðskuldað sæti Reina en hann verður að gera það. Þetta var og er vafasamt bet hjá Rodgers og Liverpool að skipta Reina út fyrir Mignolet og aðeins tíminn mun segja hvort það hafi borgað sig. Annars óska ég Reina velfarðnað og þakka fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur. ….. Og Mignolet haltu þig á tánum!!

  20. Afsakið að breyta um umræðuefni en hversu magnað væri það að Reus myndi spila fyrri hálfleik á morgun með Dortmund en í hálfleik inn á miðjum Anfield myndi hann skrifa undir 5 ára samning og eins og gefur að skilja vera kynntur sem leikmaður Liverpool í leiðinni. Í seinni hálfleik myndi hann svo spila í rauðum búningi.

    Þette er eitthvað sem er að fara að gerast.

  21. Kl hvað er leikurinn a morgun ?
    12.15 a uk time er þa ekki ?

    Er það 11.15 i fyrramálið hja okkur þa eða ?

    Er einhver með þetta a kristaltæru ?

  22. Mr.Maggi… sorry, en þetta er heimskulegasta pæling sem eg hef heyrt

  23. viðar skjóldal……

    Ef maður fer inná “framundan í beinni” á stöð2 þá segir þar að útsendingin byrji 11:05 🙂

  24. Leikur í dag, vika í að leikar hefjast, og óvenju rólegt yfir öllu.

    Það verður virkilega gaman að sjá spá drengjanna á Kop.is um komandi tímabil.

  25. Byrjunarliðið

    Liverpool team to play Dortmund: Mignolet, Manquillo, Johnson, Skrtel, Lovren, Gerrard, Can, Henderson, Sterling, Coutinho, Sturridge.

    Varamenn:
    Jones, Kelly, Toure, Sakho, Coates, Enrique, Lucas, Allen, Suso, Ibe, Lambert.

    Spennandi!

  26. Reina var frábær … algjörlega frábær fyrir Liverpool. Mun aldrei skilja af hverju endalok hans hjá liðinu urðu eins og raun ber vitni.

    Sýnist á öllu – því miður – að markmannsstaðan hjá okkur sé talsvert verr mönnuð en hjá keppinautum okkar.

    Áfram Liverpool!

Manquillo kominn (Staðfest!)

Uppfært: Liverpool – Dortmund 4-0