Undirbúningstímabil

Í gær má kannski segja að hið formlega undirbúningstímabil hafi stigið inn á næsta skref.

Fyrsti hluti tímabilsins er alltaf að taka á móti mönnum úr sumarfríi, þeir fara í alls konar mælingar á fyrstu dögunum tengda líkamsástandi þegar úr fríi er komið. Hér einu sinni var það bara að stíga á viktina en mér skilst að töluvert meira sé í lagt nú en áður og ólíklegustu mælingar á vöðvastærð, fituprósentum alls konar og mælingar á vítamín og fitusýruinnihaldi í blóði svo eitthvað sé nefnt.

Útfrá mælingunum fara svo þrekþjálfarnir í að setja upp næsta skref, þrekprógrammið sem keyrt er í gang þegar allt er klárt. Um 85% af því er miðað við hópinn en um 15% er svo einstaklingsmiðað…svona almennt séð, hef því miður aldrei verið á undirbúningsæfingum hjá Liverpool en þetta er víst ca. svona.

Þetta þrekprógramm er nú í gangi og verður út júlímánuð hið minnsta. Það er alltaf meira vesen á “sléttu tölunum” í ártölunum því að þá er stór hópur leikmanna oft í burtu í landsliðsverkefnum og eins var nú. Sjö með Englandi, einn með Belgíu, Spáni, Frakklandi, Fílabeinsströndinni og Úkraínu Úrúguay (jú víst…Coates). Mér skilst þó að nú sé tæknin orðin slík að þrekteymi félags- og landsliða séu í sambandi á meðan á svona mótum stendur og skiptist þá á alls konar tölum.

Sérlega gaman var að sjá að Rickie Lambert ákvað að mæta snemma til æfinga á Melwood, fór í örstutt sumarfrí eftir Brasilíu og hefur tekið þátt í æfingum síðustu daga, staðráðinn í að sanna sig á nýjum stað.

Í gær var svo fyrsti æfingarleikurinn, gegn fínu Bröndbyliði í Danmörku, liði sem leggur af stað í sinn fyrsta deildarleik nú um helgina og því á lokapunkti undirbúningstímabilsins. Ég sá ekki leikinn beint, en fékk SMS frá ágætum vini sem ekki heldur með okkar dásamlega liði.

“Niðurtúrinn er byrjaður vinur, one season wonders!” – svo dásamlegt orðið hvað aðrir aðdáendur en við velta sér uppúr hvernig okkur gengur. Ég semsagt reiknaði með stórum skelli og allt í volli. Tók mér svo tíma til að horfa á leikinn þegar heim var komið seint í gærkvöldi og ég var bara nokkuð glaður.

Því þrátt fyrir 1-2 tap fannst mér margt líta vel út. Það er auðvitað leiðinlegt að hafa tapað en það er í raun líka jákvætt á undirbúningstímabili að sjá hvar vantar. Í gær náttúrulega hrópaði á mann hve auðvelt var að skora á vörnina okkar og markmanninn. Það hefur Rodgers ritað í bókina sína, en var eitthvað sem við eigum alveg að vera farin að venjast. Við vorum ekki með okkar bestu hafsenta eða djúpa miðjumann og gapið var töluvert…og svo er Brad Jones ekki nógu góður markmaður. Fínn drengur án vafa, en ekki nógu góður í marki að mínu áliti.

En hvað var þá jákvætt? Í mínum huga var frábært að sjá Coutinho spila fótbolta. Með allri virðingu fyrir öllum hans löndum þá held ég að í fótum hans muni margt liggja varðandi framtíð Brassa. Þessi strákur er svo skapandi og flottur að hann bara á að fá að stilla strengina okkar í vetur. Það væri svo óskandi að hann og Lallana nái saman – þá verðum við heldur betur með skapandi miðju!

Næst kom jákvætt í röðinni að fylgjast með Jordan Ibe. Sá er árinu yngri en Sterling en er eiginlega bara kópía af Raheem þegar hann braust inn í liðið. Ótrúlegur sprengikraftur og hraði með mikilli tækni, en ennþá ekki nógu góður að klára færin sem hann skapar sér. Átti markið okkar skuldlaust og átti að koma okkur yfir stuttu síðar. Ef hann heldur svona áfram í sumar vill ég halda honum á Anfield næsta tímabil og lána hann ekki neitt.

Þessir tveir skinu skærast en ég var líka glaður með Wisdom og Suso (utan þess að Suso gaf fyrra mark Bröndby einn og sér) auk þess sem mér fannst reynslumennirnir hlaupa vel í gegnum leikinn. Auðvitað er erfitt að sanna sig og það fengu margir hinna ungu að reyna, Teixeira, Coady og Adorjan ollu mér vonbrigðum en þeir munu mögulega fá mínútur líka á laugardaginn gegn Preston til að sanna sig.

Eftir þann leik er svo næsta skref, ferðin til Ameríku. Þá mæta þeir sem fengu lengra frí til leiks og taka þá tólf sæti umfram þau sem voru tekin frá í vélinni til Danmerkur í fyrradag. Í dag var tilkynnt hverjir fara með í þann túr og þar bætast líka við þeir Can, Enrique og Markovic sem ekki fóru með í fyrsta leikinn heldur.

Það þýðir að fimm fara ekki með til Ameríku sem voru með í gær og reikna má þá með að séu búnir að fá þau skilaboð að þeir séu enn aðeins frá aðalhópnum. Það eru þeir Kristian Adorjan sem ég held að verði nú losaður frá félaginu, Brad Smith sem talinn er líklegur til að fara á lán nú á næstu dögum, markaskorarinn Kris Peterson, Kevin Stewart sem við fengum nýlega frá Tottenham og Jordan Rossiter en þessir þrír munu í staðinn fara á fullt að æfa með U-21s árs liðinu okkar og leika einhverja æfingaleiki á þeim vettvangi.

Það að fara nú til Ameríku með 33 leikmenn segir okkur það að hópurinn okkar er býsna stór. Í hópnum eru bara tveir sem hægt er að segja að séu algerlega óreyndir, fjórði markmaðurinn Darren Ward og miðjumaðurinn Adam Phillips sem er fæddur árið 1998 og er talið gríðarlegt efni.

Undirbúningstímabil skiptir því miklu máli þegar kemur að því að koma líkamanum í stand og hverjir eru nógu góðir líkamlega og andlega til að spila með liðinu. Tíu daga túr til Ameríku á að skera úr um það að einhverju leyti, því þegar kemur að ákveðnum degi mega aðeins 25 leikmenn fá skráningu í keppnir. Miðað við hópinn til Ameríku þá munu 8 leikmenn ekki fá skráningarpappíra. Miðað við umræður á netinu erum við enn líklegir til að bæa við okkur og þá þarf enn að fækka í hópnum.

Vissulega eru enn ungir menn, undir 21s árs aldrinum sem ekki þarf að skrá en það er alveg ljóst að í Ameríkuferðinni munu margir fá mínútur sem er verið að nýta til að sjá hvort að viðkomandi er til í slaginn. Það er lykilatriðið í undirbúningstímabili hvar sem er í heiminum en ennþá frekar á svo stuttu undirbúningstímabili og félagið fær, í raun bara um mánuður með alla leikmenn félagsin.

Svo að með þetta í huga skulum við horfa til þess hvað er að gerast í klúbbnum okkar, það er bara engin ástæða til að grafa sig í skurð eða hoppa upp í himinn þegar maður horfir á leikina. Að auki passa sig á að sýna virkilega yfirvegun í öllum lestri á alls konar aðstæðum í leikjum, kringum þá eða á netinu.

Þetta heitir jú “Silly season” út af einhverju!

39 Comments

  1. Ha, var Coates að spila á HM fyrir Úkraínu? Var Úkraína yfir höfuð á HM??…hvað þá með Sebastian Coates innanborðs?? 🙂

  2. Voru menn að lesa fréttur um flugvélina þarna í úkraínu rétt áður en þetta var skrifað?

  3. Þess má reyndar geta að í þessum hópi eru bara 20 leikmenn sem teljast “yfir 21 árs” og þarf að skrá í 25 manna leikhópinn. Aðrir sem eru “yfir 21 árs” en ekki í þessum ameríkuhópi eru Aspas, Assaidi og Alberto. Sennilega verður enginn þeirra í 25 manna hópnum þannig að við megum í rauninni bæta 5 manns í hópinn ennþá fyrir utan alla “undir 21 árs” leikmennina.

  4. Takk fyrir leiðréttinguna…vissulega Úkraína ofarlega í hausnum á manni í dag!

    Eins og ég segi þá eru margir í hópnum í U21s árs reglunni, en ég held að 31 af þessum leikmönnum telji sig vera leikmenn aðalliðsins. Kannski má bæta Texeira við þann hóp sem myndi sætta sig við að vera utan við það, en ég held að þar með sé það upptalið og á þeim nótum er ég að meina að við þurfum að fækka í hópnum.

    Líklegasta í þeirri kategoríu tel ég vera Kelly, Coates, Toure, Reina og síðan af þeim yngri bæði Coady og Robinson. Þá strax hljómar þetta allt öðruvísi en svo er spurning hvaða stöðu leikmenn eins og Borini og Lucas verða í að ferðinni lokinni.

  5. Horfði á leikinn gegn dönunum og fannst okkar menn fínir. Sérstaklega ef litið er til þess að aðeins 2 leikmenn eiga tilkall í byrjunarlið með öllum heilum.

    Margir ungir voru að heilla og þá sérstaklega Ibe, eins og nefnt hefur verið. Sá verður að öllum líkindum frábær leikmaður í framtíðini.

    Svo hefur maður vissar áhyggjur af öðrum, t.d. Martin Kelly. Honum virðist bara fara aftur mv. það sem sást fyrir tvem tímabilum. Þá er ég einnig að taka leikinn með gegn Norður-Írunum um daginn.

    Er sammála með Brad Jones. Hann er engan veginn nægjanlega góður markmaður. Myndi vilja hafa Reina og Mignolet að berjast um þetta í vetur.

  6. Tek undir að coutinho var afar sprækur og drengurinn virtist vera með hugann við efnið sem er afar jákvætt. Ibe kom inn með mikinn sprengikraft. Á síðasta undirbúningstímabili fannst mér ibe standa sig mun betur heldur en sterling og vildi bara sjá hann fá mínútur með aðalliðinu í deildinni en þær urðu fáar og hann virtist þurfa meiri tíma . Ég mun samt spenntur fylgjast með honum á undirbúningstímabilinu núna, það er ljóst að ekki fá margir ungir sénsinn með liðinu í vetur (umfram þá sem spiluðu í fyrra og markovich og can) en það væri geggjað ef það væri hægt að gefa einum eða tveimur reglulegar mínútúr í vetur.

    Maður hlítur að vera klikkaður að pæla svona mikið í fyrstu undirbúningsleikjum hjá liðinu sínu en þetta er bara svo yndislega skemmtilegt að horfa á 🙂

  7. Þessi grein er fín og ég hef oft pælt í þessu á seinustu árum
    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/how-much-good-pre-season-matter-7446323
    Alveg frá því ég byrjaði að fylgjast með Liverpool hefur undirbúningstímabilið sagt mikið um það hvernig næsta tímabil spilast, þó það að sjálfsögðu tengist ekki beint. Mér fannst einmitt Ferguson oft afskrifa Liverpool strax á undirbúningstímabilinu þegar illa gekk og það fór oft í taugarnar á manni.
    Þetta var samt bara fyrsti leikurinn og segir i raun ekki mikið þar sem það vantaði marga en ég vona að menn taki marga sigurleiki í undirbúningnum því það virðist hjálpa að starta tímabilinu vel.

  8. Man bara í fyrra að þá var Manu alltaf að tapa fyrir eitthverjum Tælenskum liði og svoleiðis bulli. Það heldur betur kom á daginn að það var eitthvað að.

  9. eg vil klarlega að Ibe verði hja okkur í vetur. það er bara frábært vopn að eiga þessa eldflaug til að koma innaf bekknum og mæta þreyttum varnarmönnum 🙂

  10. Nú var fyrirliði þjóðverja að tilkynna það að hann væri hættur með landsliðinu. Vonandi gerir fyrirliði enska landsliðsins það sama, enda engin framtíð í því með þennan útbrunna ellibelg við stýrið.

  11. Sammála punktinum hjá Kalla #7 , undirbúningstímabil geta oft sagt mjög mikið um hvernig liðið mun standa sig. Menn eru oft fljótir að dásama liðið ef vel gengur en þegar illa gengur þá berst talið jafnan að því að einungis sé um æfingaleik að ræða og svo fram eftir götunum.

    Ég tek mikið mark á undirbúningstímabilinu en vissulega er það erfiðara á HM/EM árum þar sem stóran hóp vantar í upphafi undirbúningstímabilsins. En við sjáum það betur eftir næstu helgi þegar allir ættu að vera mættir.

    Í framhaldi af því þá fannst mér nokkuð gaman að sjá hversu vel Coutinho, Ibe og að einhverju leiti Flanagan voru í leiknum því það voru menn sem raunverulega verða hluti af hópnum í vetur (spurning með Ibe reyndar). Einnig var nottla skrtel að spila líka og lucas. Vonbrigði að Borini skuli ekki vera sprækari en lakt undirbúningstímabil mun væntanlega draga verulega úr líkum á því að hann spili næsta vetur.

  12. Er úti öll von um að Reina og Mignolet keppi um stöðuna í búrinu? Hefði verið hrikalega gott að hafa alvöru samkeppni um sú stöðu.

  13. Sammála #13 – Það er allt of mikið um það að lið séu með of mikinn mun á milli markmanna og annar sé stimplaður aðal og hinn vara. Ég myndi vilja sjá okkur halda Reina því hann og Mignolet eru mjög ólíkir og geta nýst misvel gegn mismunandi liðum. Bara eins og Agger og Sakho, við myndun frekar spila Sakho gegn einhverjum kraftframherja og eins myndi ég frekar spila Reina gegn liði sem beitir mikið af háum boltum inn í teig en Mignolet gegn liðum sem beita mikið af gegnumbrotum og ef kantmenn leita mikið inn í skot.

    Þetta er mín skoðun og hefur lengi verið í markmannsmálum!

  14. Eg er nú bara alveg pinu spenntur fyrir Loic Remy ef hann fæst a einhverjar 8 milljónir .

  15. Alveg til verra “Value for money” en Remy á 8m. Spurning hvort hann sé ekki með óraunhæfar launakröfur

  16. Nr. 18

    Kristinn Geir ofurhetja Kop.is í þessum málum fer vonandi í málið. Þetta er þó að mínu mati ekkert stórmál strax enda verða minningarnar um Suarez sem leikmanns Liverpool jákvæðar. Þ.e.a.s. þetta er ekkert Torres/Owen stress 🙂

  17. Maður er nú bara að verða hálfpirraður þvi það virðist ekkert vera að gerast þessa dagana i leikmannamalum, eftir að Markovic kom virðist lítið vera i Gangi. Maður vill fá meira 🙂

  18. er þetta bloggsíða um væl . hvernig nenniði að blogga um væl og hvernig nenniði að lesa þessa steypu ?

  19. Sæl öll,

    Ég var staddur á fyrsta leik undirbúningtímabilsins hérna í Koben. Það var alveg frábært stemming á vellinum og greinilegt að Brøndby á þéttann hóp af stuðningsmönnum sem sungu hástöfum: Við höfum aldrei tapað fyrir Liverpool (ég er ekki sá sleipasti í dönskunni og spurði danskan Brøndby stuðningsmann sem sat við hliðina á mér hvað þeir væru að syngja og fékk þaðan þessar upplýsingar). Þetta er sem sagt frá því að Liverpool mætti Brøndby í UEFA 1995 þar sem fyrri leikurinn fór 0-0 og seinni leikurinn 0-1 fyrir Brøndby á Anfield.

    Veðrið var frábært og ég fékk miða af netinu sem ég keypti af ársmiðahafa Brøndby , fékk því kveðjuna „sæll granni“ frá sessunaut mínum sem hélt að ég væri nýji nágranni hans í ársmiðastúkunni.

    Það sem var skemmtilegast við fyrri hálfleikinn var klára okkar maður Coutiniho í fyrrihálfleik sem var svo LANG besti maður vallarins að maður var alveg á tánum þegar hann fékk boltann. Það var algjör synd hvað Borini var úr takt við hann, því ef þeir hefðu náð saman hefðu þeir auðveldlega náð að slátra vörninni hjá Brøndby . Það var aftur á móti svolítið leiðinlegt að fara 1-0 undir inn í hálfleikinn. Það sem var moment fyrri hálfleiks var þegar „Brøndby ungstyrnið“ Agger tók á rás upp völlinn og reyndi við markið við fögnuð allra á vellinum.

    1-0 undir í hálfleik og fátt í okkar leik sem var eitthvað til að hrópa húrra fyrir. Í seinni hálfleik var skipt um lið. VÁÁÁ hvað Ibe er spennandi. Ég var drullu svekktur að fá ekki að sjá Can því ég var innilega að vona að hann yrði í hópnum. Þau vonbrigði hurfu þegar ég fékk að sjá Ibe… þessi drengur er stórkostlegur! Þessi kraftur, tækni og snerpa er bara draumur! Ég segi eins og sumir hérna, ég vona innilega að hann verði ekki lánaður og fái að koma inn á í sem flestum leikjum í vetur því hann er klárlega næsti Sterling hjá okkur (já Sterling er orðinn það góður að við getum farið að tala um hann á þessum nótum). Okkar menn jöfnuðu svo strax eftir hálfleikshlé því Brøndby átti ekkert svar við Ibe. Leikurinn róaðist mikið í framhaldi og það var ekki fyrr en í uppbótartíma að Brøndby menn skorðuðu flott mark og unnu verðskuldaðan sigur.

    Það var í raun ekkert að marka úrslitin því aðalliðsmenn okkar voru flestir fjarverandi. Margt spennandi við ungu mennina og alveg óhætt að hlæja að stuðningsmönnum annara liða sem nota tækifærið til að gera grín að okkur þegar „Liverpool-Reserve“ tapar fyrir vel skipulögðu liði Brøndby

    Ég er að minnsta kosti mjög spenntur fyrir næsta tímabili. Mér finnst Rogers hafa sýnt það á þessum „stutta“ tíma sem hann er búinn að vera með liðið að hann nær vel til leikmanna og ég er ekki vott hræddur um að hann lendi í sömu vandræðum og Spurs lentu í í fyrra, hann einfaldlega veit hverju hann er að leita að. Að þessu sögðu, þá mun hann þurfa tíma til að stilla strengina þannig að við fáum að „heyra the 5th symphony“ sem þetta lið getur klárlega framkallað, ég tala nú ekki um ef við eigum eftir að sjá stór nöfn bætast í hópinn!

    Ég hlakka að minnsta kosti mikið til næsta tímabils.

    Kveðja úr 29°C hérna í Koben
    Egill Jóhanns.

  20. Takk fyrir pistilinn Egill.

    Hef fulla trú á Kristni Geir 🙂

    YNWA

  21. Nú er BR bara að leita að “réttu” löppunum undir borðið, ekki bara að kaupa til þess að kaupa eins og sumir gera oft. Það er ánægjulegt.

  22. Finnst engum hérna skrytið að okkar menn hafi alveg hætt við Konoplianka ? hann var svo gott sem komin til okkar i januar og þa fyrir 16 milljónir ef eg man rett, nu segir sagan að hann se laus fyrir 12 milljonir en okkar menn ekkert að reyna fa hann lengur. Geri mer grein fyrir þvi að Markovic er svipaður leikmaður og liklega kæmu þeir ekkert báðir en er Markovic svona miklu betri en Konoplianka eða ?

  23. Búið að samþykkja 14m tilboð Sunderland í Borini. Ef við Seljum Assaidi á 7m til Stoke þá eru þeir tveir að kosta svipað og Kroos! Allavega eitthvað annað en vanalega útsalan (eða lán) á drasl leikmönnum okkar meðan við höfum þurft að horfa á manu selja Richardson á 10m punda eða eitthvað álíka fáranlegt.

  24. jabb Borini a leið til Sunderland a 14 milljónir punda, það finnst mer frabær viðskipti hja okkar mönnum ef þau ganga eftir. að fa meira fyrir hann en við borguðum fyrir hann er bara frabært.

    og assaidi að fara til stoke fyrir allt að 7 kúlur. ef rett reynist að okkar menn græði a þessum tvemur leikmönnum þa er það algerlega geggjað.

    Allavega 100 prósent klart að það er framherji a leið til okkar í stað Suarez og Borini en hver það er a eftir að koma i ljos, mer lýst betur a Remy en Bony en auðvitað væri gaman að fa eitthvað alvöru, Benzema , Higuain eða Reus 🙂

  25. Að fá um 20m fyrir tvo útlánsmenn frá síðasta tímabili væri helvíti magnað.

  26. Góður business að selja Borini á 12m + 2m í add-ons þar sem við greiddum 10m fyrir hann.

  27. The 23-year-old Borini becomes the second Liverpool striker to depart the club this month, following Luis Suarez. Their combined sale of £89 million significantly swells Brendan Rodgers’ transfer kitty 🙂

  28. nú logar allt a twitter um að Remy se að koma og hafi samþykkt 5 ára samning við okkur.

    mun Rodgers láta duga að hafa Sturridge , Lambert og Remy eða a einn senter eftir að koma í viðbót ?

  29. ja snilld…suarez út og remy inn…er ekki frekar hægt að gefa þennan pening i eitthvað gott málefni ? remy er ekki leikmaður sem er að fara að vinna leiki fyrir okkur

  30. Frábært að fá Remy. Hann er bestur upp á toppi en getur líka spilað sem second-striker ef við þurfum að sækja, þá í svipuðu leikkerfi og þegar Suares og Sturridge spiluðu hlið við hlið.

    Ég ætla að taka svo stórt upp í mig og segja að Remy eigi eftir að tryggja sig í sessi sem fremsti senter og setja Sturridge á bekkinn.
    Algjörlega frábær kaup!!

  31. Smá Innskot hérna, en er ekki málið að gá hvort að Agger geti spilað á miðjunni? Held að hann gæti spilað frábærlega þar enda er hann bæði með Góðan Vinstrifót og líka mikinn styrk.

  32. Agger er ekkert að fara að spila á miðjunni… SHIT!

    En Liverpool eru allavega að græða nóg núna undanfarið á leikmannasölum og meistaradeildar peningur. Vil samt bara ekki að það sé farið og keypt eitthvað drasl útum allt bara til að kaupa, eitthverja marquee drullu signings. Ef eitthvað “marquee” nafn vill koma til Liverpool, af hverju er þá ekki búið að kaupa það nafn af hinum risunum sem kaupa allt frá okkur? Þýðir ekkert að keppa við þetta peningalega, þurfum að vera klárari og kaupa leikmenn með potential og fá þá sem við þurfum í liðið.

    Las einhverja grein um daginn, fyrir svoldnu síðan, örugglega linkaða héðan sem sýndi með eitthverjum rannsóknum sem ég veit ekkert hvernig voru gerðar, að það væri betra fyrir árangurinn að styrkja veikustu stöðuna frekar en að kaupa eitthverja stórstjörnu. Því það væri oftar sem veiki hlekkurinn tapar stigum heldur en stjarnan vinnur stig. Eða það var minnir mig niðurstaða greinarinnar og alltof oft verið talað um þetta hérna á spjallinu.

    Samt eru menn alltaf að rífa sig um að kaupa þessi drullu nöfn. Það þýðir ekkert nema meiri launakostnaður og kostnaður í að fá þessa gæja.

    Þetta er samt ekki plan til langs tíma, bara núna, tímabundið. Ef við síðan förum að standa okkur í meistaradeildinni og tryggja okkur top4 ár eftir ár, þá fer að koma að því að við getum fengið stóru nöfnin. Ekki núna.

    Ég hugsaði um að sleppa því að pósta þessu, óttalegt raus og leiðindi, eflaust ekkert til í þessu hjá mér. En ákvað að setja þetta inn svona og sjá viðbrögð 🙂

Lazar Markovic boðinn velkominn

Remy inn, Borini út