Veikasti hlekkurinn – vinstri bakverðir

Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn segir máltækið og hjá Liverpool hefur of oft verið auðvelt að finna þennan veika hlekk sl. 20 ár. Þetta er auðvitað ekki alveg svona einfalt og við getum ekki skellt öllum óförum Liverpool á vinstri bakverðina en á móti er alveg ástæða fyrir því að margir stuðningsmenn Liverpool fylgjast nú afar grannt með fréttum af væntanlegum kaupum okkar á nýjum manni í þessa vandræðastöðu.

Sá sem langmest er orðaður við okkur er Alberto Moreno, 21 árs sókndjarfur bakvörður sem varð Europa League meistari á dögunum með Sevilla frá Spáni og hefur verið lykilmaður í þeirra liði. Fljótt á litið virðist hann tikka í öll boxin og ætti að hafa það fram yfir forvera sína að líklega smellpassar hann í þankagang þjálfarans. Moreno var í 30 manna hópi Spánverja fyrir HM en er fyrir aftan menn eins og Jordi Alba og Azpilicueta enn sem komið er. Hann er sagður nánast öruggur um að komast í liðið á endanum og óþarfi fyrir okkur að flækja þetta eitthvað, hann yrði langmest spennandi bakvörður sem Liverpool hefur keypt í tvo áratugi komi hann til Liverpool

Undanfarin ár og áratugi hafa tölfræðinördar verið að setja mark sitt mun meira á knattspyrnuheiminn. Hin frábæra bók The Numbers Game sýndi t.a.m fram á það út frá tölfræði að gamla tuggan un veikasta hlekkinn á alveg jafn vel við í fótbolta, það er mikilvægara að veikasti hlekkurinn í liðinu þínu sé sterkur heldur en að sterkasti hlekkurinn sé afburðarleikmaður.
Hér er frábær grein frá Bandaríkjunum sem tekur dæmi um þetta úr MLS deildinni.
Hér er svo frábært review frá Simon Kuper (Socceronmics) um The Numbers Game (Lesið endilega þessar greinar, færslan er hinsvegar ekki um þetta).

Auðvitað er ekkert í fótbolta alveg svona svart og hvítt, Luis Suarez náði nánast að afsanna þessa kenningu í vetur… en gerði það ekki. Vörnin var okkar veiki hlekkur og hún núllaði út sóknina, engin staða var meira vesen en einmitt staða vinstri bakvarðar, rétt eins og venjulega.

Aaron Cutler á vefsíðunni This Is Anfield skoðaði lauslega sögu þessarar stöðu hjá Liverpool rúmlega tvo áratugi aftur í tímann og ég ætla að gera það einnig hér með hans pistil til hliðsjónar.

Við þurfum að fara ansi langt aftur til að finna vinstri bakvörð á mála hjá Liverpool sem var talinn meðal þeirra bestu í boltanum. Síðast þegar liðið vann titilinn vorum við með Staunton, Harkness (ungan) og Burrows (meiddan) í hópnum og Gary Ablett spilaði mest allt tímabilið. Enginn þeirra fór sérstaklega á spjöld sögunnar þó allir hafi þeir verið góðir liðsmenn.

Á tíunda áratugnum var það sæmilegur Norðmaður sem stóð uppúr sem okkar helsti vinstri bakvörður og á síðasta áratug var það annar Norðmaður sem stóð uppúr. Hvorugur hefði komist í liðin sem Liverpool var að keppa við. Núna virðist vera áratugur Spánverja og það eitt er góð þróun. Nánast allir vinstri bakverðir Liverpool hafa átt í meiðslavandræðum á einhverjum tímapunkti þó sumir hafi hreinlega verið hjá klúbbnum á röngum tíma hjá röngum stjóra.

Greame Souness tók við liðinu 1991 og kemur líklega fáum á óvart að þar byjuðu vandræðin fyrir alvöru. Skotinn vildi herða varnarlínuna og fékk til þess mann sem helst minnir mig á hinn ógleymanlega Ron Benson fyrrum varnarmann Plymoth Argyle.

Julian Dicks (1993-94 / Leikir: 28 Mörk: 1)
Líklega eru kaupin á Dicks svipað dæmigerð fyrir Souness og Konchesky voru fyrir Hodgson. Öskra hreinlega á mann meðalmennsku og hvorugur komst nokkurntíma í plön nýs stjóra. Dicks var ruddi sem kom frá West ham og þangað sendi Roy Evans hann aftur um leið og hann tók við af Souness. Dicks náði engu að síður aðeins að tóna leik sinn niður er hann spilaði hjá Liverpool og fór aldrei í leikbann. Hann gat ekki blautan fyrir því.

Stig Inge Bjornebye (1992-00 / Leikir: 184 Mörk: 4)
Líklega heilt yfir besti vinstri bakvörður Liverpool á tíunda áratugnum og ein bestu kaup Souness sem stjóri Liverpool. Hvorugt er hægt að flokka sem mikið hrós enda Björnebye seint talinn vera í heimsklassa.

Hann fann sig vel hjá Roy Evans í 3-5-2 leikkerfinu þar sem hann hafði svipað miklar sóknarskyldur og varnarskyldur enda mjög góður í fyrirgjöfum og lagði ófá mörkin upp fyrir Fowler og Collymore.

Bjornebye var ágætlega solid leikmaður en ef ég man rétt var vörn Liverpool þekkt fyrir að mígleka og var það einn af helstu veikleikum Roy Evans. Undir lokin var Bjornebye í meiðslavandræðum og náði aldrei að heilla Houllier sem lánaði hann til Noregs áður en Souness keypti hann aftur árið 1999, nú til Blackburn.

Annar Souness maður í þessari stöðu var Steve Harkness sem átti nokkra spretti með Liverpool á meiðslahjáðum ferli frá 89-99. Houllier seldi Harkness til Souness sem þá var með Benfica og hann fór einnig með honum til Blackburn.

Steve Staunton (1986-91 og 1998-00 / Leikir: 148 Mörk: 7)
Tæplega 150 leikir á sjö tímabilum segir aðeins söguna fyrir Staunton hjá Liverpool, hann var á mála hjá klúbbnum er hann var ungur og kom svo aftur tvö tímabil, keyptur er Houllier og Evans voru saman með liðið 1998. Fyrsti vinstri bakvörðurinn af fimm sem Houllier keypti á sex árum til Liverpool.

Hann var byrjunarliðsmaður hjá liðinu tímabilið 1998/99 er liðið hafnaði í 7. sæti og Roy Evans hætti. Staunton komst aldrei í liðið seinna endurkomutímabilið sitt er Houllier fór einn með stjórnun liðsins. Persónulega man ég ekkert eftir honum sem leikmanni Liverpool (bara Villa og Írlands) nema þegar hann fór í markið gegn Everton. Það var einmitt síðasti tapleikur Liverpool á heimavelli gegn Everton.

Solid leikmaður sem ég hefði haldið að Houllier gæti notað meira og líklega hefði hann gert það ef ekki hefði verið fyrir Jamie Carragher.

Djimi Traore (1999-06 / Leikir: 141 Mörk: 1)

Houllier sparaði aldrei stóru orðin í samlíkingum sínum sem allar eiga það sameiginlegt að engin þeirra var nærri raunveruleikanum. Djimi Traore var t.a.m. næsti Marcel Desailly í Houllierlandi.

Hlaupastíllinn minnti á stórvin minn Aly Cissokho, það var alltaf eins og hann væri að reyna ná jafnvægi eftir að hafa verið hrint og spilamennskan passaði mjög vel við það. Houllier henti honum jafnan í vinstri bakvörðinn þar sem mistökin hans kostuðu okkur vissulega færri stig en á móti var hann meö öllu vonlaus sóknarlega og bætti engu við þar. Ekki skrítið kannski enda Traore aldrei nokkurntíma bakvörður, ég myndi flokka hann sem svipað mikinn bakvörð og Martin Skrtel.

Stórglæsilega aulalega sjálfsmarkið hans í bikarnum gegn Burnley er það sem helst situr eftir í minningunni um hann og myndi líklega vera það eina sem við myndum muna af honum hefði hann ekki tekið upp á því undir lok ferils síns hjá Liverpool að vinna Meistaradeild Evrópu! Ekki nóg með það heldur var hann í byrjunarliðinu í úrslitaleiknum rétt eins og gegn Juventus og Chelsea á leiðinni til Istanbul. Hann á klárlega sinn þátt í þeim stórkostlega degi þó hann hafi reyndar verið afleitur fyrstu 45 mínútur leiksins.

Sá dagur breytti ótrúlega mörgu fyrir alla leikmenn Liverpool, allir sem tóku þátt í þessum leik skráðu sig með bleki í sögubækur Liverpool. Fyrir leik var ekkert sem benti til þess að leikmenn eins og Dudek, Smicer og hvað þá Traore myndu gera það. Vantar bara Igor Biscan þarna sem átti mikinn heiður af því að koma Liverpool í þennan leik. Það er ótrúlega stutt á milli í fótbolta og einhvernvegin spilaðist þetta þannig að Djimi Traore er cult hetja hjá Liverpool, það reyndar tekur það enginn af honum að hann lagði sig allann fram.

Christian Ziege (2000-01 / Leikir: 32 Mörk: 2)
Hér er eitt besta dæmið um vinstri bakvörð sem var bara á röngum tíma hjá Liverpool undir stjórn stjóra sem hentaði honum alls ekki. Ziege fékk aldrei að sýna það hjá okkur en hann er líklega einn besti vinstri bakvörðurinn sem Liverpool hefur haft á launaskrá sl. 25 ár.

Mögulega eru einhverjir ekki sammála mér en það fór virkilega í taugarnar á mér á þessu tímabili Ziege hjá Liverpool að Houllier notaði Jamie Carragher jafnan í vinstri bakverði og ef Ziege spilaði var það oftar en ekki fyrir framan Carragher. (Ziege spilaði 16 deildarleiki). Sóknarlega var Liverpool því ekki með á vinstri vængnum og í stað þess að hlaupa upp vænginn var mun algengara að sjá boltann fljúga beint úr bakverði á svæðið í kringum Emile Heskey. Þetta svosem virkaði þetta tímabil og liðið stóð sig vel, Carragher fór í hægri bakvörðinn tímabilið á eftir (fyrir Babbel) og Riise var keyptur.

Ziege var alinn upp hjá Bayern Munhen þar sem hann var í sjö ár áður en hann var seldur til AC Milan. Þar gekk honum ekkki nægjanlega vel og var seldur til Middlesborough. Hjá Boro var hann frábær og Houllier keypti hann til að leysa vandræðastöðuna okkar. Liverpool fékk meira að segja sekt fyrir að tala við hann í leyfisleysi.

Hann var 28 ára þegar hann var hjá Liverpool, ferill hans þar hefði átt að vera töluvert lengri. Hann fór hinsvegar til Tottenham eftir þetta eina tímabil og var þar þrjú tímabil.

Gregory Vignal (2000-05 / Leikir: 20)
Þessi strákur var mjög óheppinn með meiðsli sem eyðilögðu alla möguleika hans hjá Liverpool. Hann var töluvert efnilegur og ágætur bæði sóknarlega sem og varnarlega. Samkeppni um stöðu og meiðsli komu hinsvegar í veg fyrir að ferill hans næði flugi. Hann spilaði bara 20 leiki á 5 árum hjá félaginu.

John Arne Riise (2001-08 / Leikir: 348 Mörk: 31)
Verum heinskilin, þegar við hugsum til baka til síðasta áratugar er Riise nokkurnvegin eina nafnið sem kemur upp í hugan þegar við hugsum til vinstri bakvarða.

Hann kom 21 árs eftir gott tímabil með Monaco í Frakklandi og byrjaði með miklum látum, sérstaklega var hann spennandi sóknarlega. Hver sem er hefði reyndar verið spennandi sóknarlega eftir 1-2 ár af Carragher í vinstri bakverði.

Heilt yfir var Riise ágætlega stöðugur hjá Liverpool og varnarsinnaður fótbolti með varnarlínuna mjög aftarlega hentaði honum vel. Hann var partur af mjög solid varnarlínu Liverpool 2001/02 er liðið var nálægt því að vinna titilinn. Hann gleymdi sér þó oft í sóknarleiknum sem kom niður á honum varnarlega.

Seinustu tvö tímabil Houllier dalaði Riise líkt og mest allt liðið og það var reyndar líklega alltaf hans mesti galli, hann bætti sig allt of lítið eftir að hann kom til félagsins sem mjög spennandi 21 árs sóknarbakvörður.

Ferill hans náði aftur flugi þegar Benitez tók við og var Riise fastamaður í liðinu hjá honum þó meiðsli keppinauta hans hafi hjálpað aðeins til hvað það varðar.

Síðasta tímabil Riise var hinsvegar með öllu ömurlegt og í stað þess að vera þróast á besta aldri knattspyrnuleikmanns virist Riise vera að fara mjög hratt aftur, eða þá sem er líklegra, liðið var orðið mun betra en Riise, hann var orðinn veikasti hlekkurinn í keðjunni. Sjálfsmark í uppbótartíma gegn Chelsea á Anfield í undanúrslitum Meistaradeildarinnar kórónaði þetta lokatímabil Riise hjá félaginu. Gleymum því þó ekki að hann skoraði líka nokkur frábær mörk fyrir Liverpool, fá mikilvægari en á Nou Camp er Liverpool sigraði heimamenn eftirminnilega.

Björnebye á tíunda áratugnum og Riise á þeim síðasta sem bestu og traustustu bakverðir Liverpool. Er það furða að þetta hafi verið vandræðastaða? Getur verið að þarna sé líka að finna ástæðu þess að vinstri kanturinn hefur einnig verið vandræðastaða í svipað langan tíma?

Fabio Aurelio (2006-12 / Leikir: 134 Mörk: 4)
Ef og hefði maður, úff, ef og hefði. Þessa fáu leiki sem Aurelio gat spilað milli þess sem hann var meiddur sáum við að Benitez var búinn að leysa þessa vandræðastöðu. Aurelio var mjög góður á boltann, sérstaklega ef við berum hann saman við Riise og með frábæran vinstri fót.

Aurelio spilaði aðeins 134 leiki samtals á sex tímabilum hjá Liverpool þökk sé svo miklum og þrálátum meiðslum að hann lét Harry Kewell líta út fyrir að vera bara sæmilega hraustur.

Hann náði nokkrum góðum sprettum tímabilið 2008/09 en aldrei löngum köflum. Það er engu minna pirrandi að vera með svona eilífðarmeiðslapésa í þessari stöðu heldur en lélega leikmenn og það var í raun ótrúlegt hversu lengi Liverpool var að treysta á hann sem fyrsta eða annan kost í þessa stöðu. Fengum það alltaf í bakið.

Emiliano Insua (2007-11 / Leikir: 62 Mörk: 1)
Ferill Insúa sem í dag er 25 ára gamall hefur aldrei náð neitt sérstöku flugi eftir að hann fór frá Liverpool, Roy Hodgson er nafn sem ég lít á eins og hvert annað blótsyrði lét þennan mjög efnilega bakvörð fara frá félaginu til að greiða leið Paul Konchesky til Liverpool. Hversu mikið er hægt að geirnegla Roy Hodgson og hans hugmyndafræði í leikmannaviðskiptum?

Liverpool gafst allt of fljótt upp á Insúa og líklega væri hann ennþá fastamaður í hópnum hjá okkur hefði hann verið áfram, Insúa var a.m.k. mjög óheppinn með tímasetningu er hann var að koma upp hjá Liverpool. Við höfum ekki keypti mikið betri leikmann en hann síðan hann fór, alls ekki betra back-up a.m.k. enda fór það svo að hann fann sig mjög vel hjá Sporting í Portúgal og var seldur til A. Madríd þar sem hann er núna sem back-up leikmaður.

Insúa var annars frekar óheppinn hjá Liverpool, hann fékk traustið í desember 2008 eftir góða frammistöðu með varaliðinu. Dossena sem kom til Liverpool fyrir Riise var alls ekki að finna sig á Englandi og Aurelio sem var fyrsti kostur meiddist að vanda fljótlega. Líklega voru þeir báðir meiddir á sama tíma þegar Insúa fékk tækifærið og spilaði nokkra leiki í aðalliðinu. Pressan var líklega of mikil á 20 ára strák til að höndla það og og hann missti sæti sitt aftur þegar Aurelio kom til baka. Góð reynsla fyrir hann samt og hann var jafnan í hópnum og spilaði nokkra leiki tímabilið á eftir.

Um sumarið var Benitez látinn fara og Roy Hodgson tók við, eins fóru þeir Aurelio og Dossena sem gerði Insúa að eina vinstri bakverði Liverpool. Þrátt fyrir það var sala til Fiorentina samþykkt í júlí (en klúðraðist). Hann var ennþá á mála hjá Liverpool ágúst og augljóslega aldrei í plönum Hodgson sem lánaði hann frekar til Galatarsaray.

Ray Hodgson var með lausn við því að missa alla vinstri bakverðina á einu bretti, hann fékk Paul Konchesky frá Fulham og samdi aftur við Fabio Aurelio sem var farinn frá Liverpool eftir að hafa hafnað pay as you play díl sem Benitez bauð honum. Hodgson hafði þetta að segja er hann samdi við Aurelio TIL TVEGGJA ÁRA:

“I was quite surprised when I found out he was fully fit and hadn’t been offered a new contract, so I think it was a bit of an obvious thing to do. I said, ‘rather than move to another Barclays Premier League club why don’t you stay with us?’

Hvernig fékk þessi hál****i vinnu sem stjóri Liverpool?

Aurelio meiddist eftir þrjá Europa League leiki (í september) og spilaði lítið sem ekkert undir stjórn Hodgson. Insúa spilaði mun meira hjá Gala á sama tíma allt þar til Hagi tók við liðinu og sagðist ekki vilja nota lánsleikmenn.

Insúa vildi koma aftur í janúar þegar Dalglish tók við liðinu og flestir bjuggust við því að Dalglish myndi halda Insúa er hann kom aftur úr láni. Það varð ekki og Insúa látinn fara. Þess í stað fengum við Jose Enrique og treystum á Aurelio sem back up!

Hversu oft er hægt að framkvæma sömu mistökin?

Andrea Dossena (2008-10 / Leikir: 31 Mörk: 2)
Það segir líklega margt um vandræði okkar hvað vinstri bakverði varðar að það dugði ekki að kaupa landsliðsbakvörð frá Ítalíu, hann var alveg vonlaus. Dossena kom 27 ára frá Udinese í stað Riise og átti að hafa hraða og líkamsbyggingu til að ráða við enska boltann. Hann var í staðin meðalmennskan uppmáluð og náði aldrei hraðanum á Englandi, ekki einu sinni nálægt því.

Dosseana skoraði þó glæsileg mörk gegn United og Real í sömu vikunni, mikið meira var það þó ekki og hann var farinn í janúar 2010.

Paul Konchesky (2010-11 / Leikir: 18)
Það er ekki annað hægt en að vorkenna Konchesky smá, hann fékk draumatækifærðið að fara til stórliðs og lagði sig allann fram hjá Liverpool. Ekkert út á hann að setja persónulega en guð minn góður hvað hann var langt frá því að vera nógu góður til að spila fyrir Liverpool.

Roy Hodgson gerði sitt allra besta til að breyta Liverpool í Fulham og virtist ekki hafa frétt af því að hann væri kominn á hærra level. Ennþá sé ég “spekinga” reyna halda því fram að hann hafi fengið ósanngjarna meðferð hjá stuðningsmönnum Liverpool og að honum hafi verið gefinn of lítill tími. Enginn þessara “spekinga” heldur reyndar með Liverpool.

Versta við kaupin á Konchesky var að þau kostuðu peninga plús tvo efnilega leikmenn, annar þeirra er fastamaður í liði Fulham.

Mamma Konchesky tók gagnrýninni sem sonur hennar var að fá ekkert of vel og lét aðeins í sér heyra (og hjálpaði vinsældum hans hjá Liverpool ekki neitt).

To all you Liverpool scouse scum out there, never mind the cockney ****, take a real look at your team. Stop living off the past, the team are ***. If anyone made a mistake it’s the cockney ****, who never should have left Fulham.

Jose Enrique (2011 – / Leikir: 82 Mörk: 2)
Það er eitthvað undarlegt við Enrique og síðasta tímabil var fullkomlega hræðilegt hjá honum, allar viðvörunarbjöllur eru hringjandi um að enn á ný séum við með stóran veikleika í þessari stöðu. Enrique var meiddur nánast allt þetta tímabil og það er bara of algengt fyrir vinstri bakverði Liverpool. Núna verðum við að læra og kaupa inn betri leikmann, vonandi er það einmitt það sem verið er að gera.

Enrique er samt fínn leikmaður og okkar besti kostur í þessa stöðu þegar hann er heill. Hann byrjaði mjög vel undir stjórn Dalglish og var mjög flottur fram að áramótum. Eftir áramót 2011 virtist hann tapa öllum hæfileikum til að spila knattspyrnu, ótrúleg dýfa sem hann tók eftir áramót það tímabil og hann hefur eiginlega aldrei náð sér aftur.

Hann væri flott cover á næsta tímabili nái hann að hrista af sér meiðslin en það má alls ekki leggja upp með að treysta á hann aftur sem fyrsta kost. Hann er hvorki nógu góður né stabíll í það.

Aly Cissokho (2013 / Leikir: 17)
Orðum þetta svona, hann er á besta aldri, fyrrum landsliðsmaður Frakka og fékk tækifæri á að fara til stórliðs í Englandi til að berjast um stöðu við Jose Enrique. Barátta sem maður vissi ekki fyrirfram hvor myndi vinna. Eini keppinautur hans um stöðuna meiðist allt tímabilið og hann nær samt ekki að tryggja sér sæti í byrjunarliðinu, frekar er 21 árs hægri bakvörður sem ekkert lið vildi fá á láni fyrir stuttu settur í hans stöðu. Strákur sem er ekki góður sóknarlega og ekkert sá besti heldur varnarlega.

Minn maður er svo sannarlega með hjartað á réttum stað og sá langaði að standa sig vel hjá Liverpool. En þegar Jon Flanagan slær þig úr liðinu í rangri stöðu er þetta alls ekki að ganga hjá þér.

Einhversstaðar í Milan borg er tannlæknir sem ennþá fær jólakort frá AC Milan, það sem þeir spörðu sér 15m árið 2009.


Þetta er listinn, auðvitað hafa fleiri leikmenn spilað leiki í vinstri bakverði (t.d. Jon Flanagan, Martin Kelly, Glen Johnson, Daniel Agger, Alvaro Arbeloa og Carra) en þetta eru þeir vinstri bakverðir sem félagið hefur lagt upp með undanfarina tvo áratugi eða svo.

FSG vill kaupa leikmenn áður en þeir verða stórstjörnur, þeir eiga að verða stórstjörnur hjá Liverpool. Ef að Luke Shaw er næsta stjarna Englendinga í vinstri bakverði þá er ekkert vitlaust að áætla að Moreno sé næsta stjarna Spánverja í þessari stöðu. Báðir eru komnir inn í myndina hjá landsliðinu og hvorugur að spila fyrir stærstu félögin í heimalandinu, enn sem komið er.

Það er aldrei hægt að vita með vissu hvernig nýjir leikmenn standa sig og það er alls ekkert víst að Moreno yrði öðruvísi en þeir leikmenn sem við höfum listað upp hér Riise var t.m.a. líka með glimmrandi profile þegar hann kom til Liverpool.

Engu að síður gerir reynsla okkar af þessari stöðu það að verkum að ég er langmest spenntur fyrir kaupunum á Alberto Moreno það sem af er þessu sumri og vona heitt og innilega að þetta gangi í gegn sem fyrst. Þetta er fyrsti alvöru spennandi bakvörðurinn sem orðaður er við Liverpool í mjög langan tíma.

Aðrir kostir eins og Rayn Bertrand eru vonandi ekki til umræðu, þeir myndu bara lengja þann tíma sem þessi staða myndi flokkast sem okkar veikasti hlekkur.

19 Comments

 1. Koma bakvarða mikið fagnaðarefni hjá Liverpool enda það sem fyrir er vanalega svo lélegt að betra væri að spila tveimur færri. Hef aldrei séð Moreno spila en samt spenntur. Vil fá sambærileg kaup hægra megin en… fyrst þarf að losna við þann sem fyrir er og það er ekkert lið að fara að borga peninga fyrir hans þjónustu.

  Annars finnst mér hægri bakvarðarstaðan í gegnum tíðina alls ekkert minna til vandræða. Man eftir einu góðu tímabili frá Babbel og rest hefur verið handónýtt drasl þann tíma sem ég hef horft á liðið.

 2. er mjog spenntur fyrir Moreno og hlakka til að sja hann i rauðu treyjunni..

 3. Jón!! Fannst þér Finnan vera lélegur kostur ??? Einn stöðugasti varnarmaður sem spilað hefur með Liverpool síðustu áratugina…

 4. Svo kom Arbeloa lika sem var mjög góður bakvörður.
  Synd að hafa misst hann til Real.

 5. #4 og ekki var Arbeloa verri kostur, þvílíkur leikur þegar hann stoppaði Messi heilan leik.

  Annars flottur póstur og klárlega sú staða sem Liverpool þar að styrkja. Ef félagið eyðir 22 milljónum evra í vinstri bakvörð sem er 21 árs hljóta þeir að vera horfa til næstu 10 ára sem er mjög gott. Flott er Enrique er svo áfram sem backup bara.

 6. maður heyrði aldrei neitt af því hverskonar meiðsli þetta væru hjá Enrique á síðasta tímabili. Er eitthvað vitað hvenær hann kemur til baka eða hvort þetta hafi með eitthvað ann að gera en meiðslin af hverju hann var svona lítið með á síðasta tímabili? Þunglyndi jafnvel eða annarskonar veikindi?

 7. hvort þetta hafi með eitthvað annað að gera en meiðslin átti þetta að vera

 8. Draumur ef Moreno er ad koma tha vantar bara Lallana og haegt ad loka buddunni nokkud sattir.

  Sturridge Suarez Sterling
  Henderson Gerrard Lallana
  Moreno Sakho Skrtel Flanagan
  Mignolet

 9. Þessi pistill er frábær lesning eins og vanalega hjá ykkur en ég verð nú að segja að mér finnst nú full hart að nafna mínum vegið.

 10. góð grein, okkar fyrsti alvöru biti þetta sumarið ef við náum að landa honum, og vonandi þá ekki síðasti stóri bitinn. Verð hinsvegar að lýsa smá áhyggjum af því hvað þetta er allt að taka langan tíma, Liverpool hefur jú verið í tómu rugli í síðustu leikmannagluggum og mikið vona ég að við séum ekki að klúðra þessu með áframhaldandi rugli.

 11. Það er náttúrulega alveg drepfyndið að Djimi Traore eigi verðlaun heima hjá sér fyrir að hafa unnið Meistaradeildina. Þetta er eins og að Geirmundur Valtýsson fengi Grammy verðlaun.

 12. Draumabyrjunarlið í haust:

  Mignolet/Reina
  Johnson – Lovren – Sakho – Moreno
  Gerrard
  Henderson – Coutinho/Sterling
  Sturridge – Suarez – Sanchez

  Bekkur: Reina/Mignolet – Coutinho/Sterling – Skrtel – Allen – Can – Flanagan/Enrique – Lambert

  Utan hóps: Borini, Ibe, Ilori, Toure, Wisdom, Teixeira, Flanagan/Enrique

  Seldir: Lucas, Agger, Aspas, Alberto (lán), Suso (lán-vonandi). Coates, Kelly, Assaidi.

  Rökstuðningur: Ég held það væri ekkert sérstaklega slæmt að fá Reina bara til baka. Hann setur pressu á Mignolet og gæti jafnvel tekið stöðuna frá honum. Ef við fáum nýjan hafsent tel ég líklegast að Agger hverfi á brott. Þótt hann sé mikill Liverpool maður og hann hafi þjónað vel, held eg að hann sé kominn á endastöð hjá klúbbnum. Hann var eini leikmaður Liverpool í vetur sem bætti sig ekki undir stjórn Rodgers.

  Sama gildir um Lucas, maður vill honum vel og ég vildi óska þess að hann gæti verið áfram, en með tilkomu Emre Can og viðveru Joe Allen, sé ég ekki að þeir séu að fara að halda honum.

  Ef við fengjum Alexis Sanchez þá held ég við hefðum ekkert að gera við Lallana.

  Hægt er að setja spurningarmerki við miðjuna, að hún sé of veik varnarlega, en ég held að það verði ekki hægt að hafa bæði Coutinho og Sterling út úr byrjunarliðinu.

  Þetta eru bara svona sumarpælingar.

 13. KING DJIMI!

  Takk fyrir þetta Babú. Þetta var einn fyndnasti pistill sem ég hef lesið frá þér lengi. Enda um stórkostlega upptalningu á vinstri bakvörðum sl. 25 ár að ræða. Hversu mikið vesen getur verið á einni stöðu?

  Ég sé enn eftir Insúa-sölunni. Sá drengur hefði mátt fá tækifæri til að vaxa aðeins í stöðuna hjá okkur. Að sama skapi sé ég ÓTRÚLEGA mikið eftir Alvaro Arbeloa. Okkur vantar mest af öllu í heiminum svoleiðis karakter í dag, þessa Azpilicueta-týpu sem getur leyst allt sem hann er beðinn um í vörninni.

  Moreno er mjög spennandi og ég skil vel að okkar menn hafi reynt við hann frekar en Luke Shaw. Framtíðar vinstri bakvörður Spánverja er helmingi ódýrari en framtíðar vinstri bakvörður Englendinga í sumar? No brainer að reyna frekar við Spánverjann.

  Ég vona að þessi mál klárist og að þarna sé komin lausn til margra ára. Vandinn er þó alltaf sá að ef Moreno kemur og slær í gegn munu Real og Barca alltaf koma bankandi fyrr en síðar (eins og gerðist með Arbeloa (en þó ekki með Josemi)).

  Sjáum hvað setur. Moreno lítur vel út.

 14. Mér lýst vel á Moreno en miðað við fréttir í dag virðist það ekki vera jafn pottþéttur díll og hann átti að vera í gær. Það gæti verið að hann komi ekki en hvaða möguleikar eru fleiri í stöðunni?

  Ég persónulega væri til í Ricardo Rodriguez frá Wolfsburg, hann er bara 21 árs og stóð sig mjög vel á síðasta tímabili.

  Mig langar ekki í Luke Shaw þar sem hann væri allt of dýr miðað við gæði.

  Mér dettur enginn annar í hug í svipinn en hvort sem Moreno kemur eða ekki þá treysti ég stjóra Liverpool, aldrei þessu vant, algjörlega til þess að finna besta kostinn í stöðunni.

 15. “Full-backs are the bass players of football. Every so often you might get a Paul McCartney or even a Sting — people who can do more than quietly pluck to the beat. Usually, though, they are Bill Wyman, who left the Rolling Stones and nobody even noticed. It does not sit well with fans when their clubs shell out top dollar for a position that is often peripheral.” Steven Kelly af Soccernet.

  Ég segi bara að ef menn ætla að kaupa fúlbakk, þá verður sá hin sami að vera betri en Jon Flan Basten , annars er tilgangslaust að vera að eyða peningum í viðkomandi. Og miðað við síðasta vetur, þá þrengir það töluvert hringinn. Luke Shaw heðfi t.d ekki meikað mikið sens.

 16. Eins og Carragher sagði sjálfur:

  “There’s only two things for a full-back. You’re either a failed winger or a failed centre-back, no-one wants to grow up and be a Gary Neville”

 17. ég vil gefa Konchesky annan séns, hann á bara eftir að vaxa undir stjórn Brendan!!! ÁFRAM KONCHESKY

 18. Mér finnst Stephen Warnock gleymast í þessari umræðu. Ég hefði viljað halda honum lengur á sínum tíma. Hann hefði aldrei orðið nein stjarna en hann hefði klárlega verið solid í hóp og jafnvel náð að klóra sig upp í byrjunarlið eða amk veita Riise einhverja samkeppni.

Könnun: Hverjir vinna HM?

Kop.is Podcast #62