Rodgers 2012-2014

Brendan Rodgers skrifaði í vikunni undir nýjan samning við Liverpool. Hann hefur verið hjá okkur í tvö ár núna og átti bara eitt eftir af samningi sínum. Hann hefur ná að stimpla sig inn með miklum látum hjá Liverpool og gjörbreytt gengi liðsis. Innkaupastefnan undanfarin ár hefur í besta falli verið gríðarlega pirrandi og gerir það árangur Rodgers ennþá glæsilegri, hann hefur í hreinskilni náð einum leikmannaglugga þar sem liðið var styrkt að einhverju viti.

Það orð fer af Liverpool undir stjórn Rodgers að hann gefi ungum mönnum mun meiri séns en áður var gert og það langaði mig aðeins að skoða nánar með því að bera saman hópinn sem hann fékk í arf þegar hann tók við í maí 2012 við þann sem var að klára tímabilið núna í maí 2014.

Tek það fram strax að það kom mér á óvart hversu lítill munur er á aldri liðsins hans Dalglish vs Rodgers og líklega þyrfti ég að skoða þetta aftur og bera saman hópinn nú vs þann sem FSG tók við þegar þeir keyptu félagið. FSG undir stjórn Dalglish tók mjög mikið til og yngdi hópinn áður en Rodgers tók við og eru að halda þeirri þróun áfram. Rodgers ætti að búa að því að nú er komin mun markvissari innkaupastefna.

Þetta er ekkert hávísindalegur samanburður og hér er aðeins skoðað deildarleiki. Þeir sem eru merktir með gráum lit eru þeir leikmenn sem spiluðu meira en 10 leiki á tímabilinu.

Markmenn
Markmenn
(Hægt er að stækka mynd með því að smella á hana)

Mignolet spilaði alla leikina á þessu tímabili og yngir liðið í þessari stöðu um 3 ár. Þetta hefur ekkert að segja með stöðuna per ce enda 29 ára enginn aldur fyrir markmann en Mignolet hefur það fram yfir Reina að hann hefur hungur sem Reina virðist vera búinn að glata og virðist vera á uppleið öfugt við Reina. Breyting afar mikið í anda FSG, hvort sem þetta heppnast eða ekki verður tíminn að leiða í ljós. Ég hef mínar efasemdir.

Varnarmenn
Varnarmenn
(Hægt er að stækka mynd með því að smella á hana)

Hér kemur smá á óvart að meðalaldur varnarmanna hefur hækkað lítillega frá lokatímabili Dalglish. Ef við miðum bara við byrjunarliðsmenn er aldurinn nánast sá sami eða 27,3 ára sem er flottur aldur á varnarlínu.

Það sem helst gerist milli ára er að þrír leikmenn (Johnson, Skrtel og Agger) sem voru byrjunarliðsmenn þá og nú hækka um tvö ár í aldri. Enrique dettur út núna en inn kemur jafn gamall Cissokho. Kelly og Flanagan vega hvorn annan út líkt og Carragher og Toure gera milli ára. Mamadou Sakho stendur þar með útaf sem aukamaður en Rodgers notaði fleiri menn oftar en tíu sinnum á þessu tímabili en Dalglish þurfti að gera.

Þetta segir þó nokkuð um vandræði okkar manna í vörninni í vetur enda liðið að spila 8 leikjum minna í heildina en lið Dalglish gerði 2012. Liverpool spilaði samtals 5 bikararleiki undir stjórn Rodgers á síðasta tímabili á meðan Dalglish spilaði alla bikarleiki sem í boði voru 2011/12 eða 13 leki. Þannig að 2011/12 spilaði Liverpool samtals 51 leik á meðan þeir voru 43 tímabilið 2013/14.

Dalglish þurfti engu að síður að glíma við þó nokkur meiðslavandræði í vörninni, Carrgaher og Agger voru töluvert meiddir ásamt Johnson sem opnaði dyrnar fyrir Martin Kelly og Jon Flanagan. Á móti þurfti Rodgers nánast alltaf að breyta vörninni milli leikja og hafði nánast aldrei sinn aðal vinstri bakvörð tiltækan og munar heldur betur um minna.

Engu að síður ljóst að Rodgers hefur lítið sem ekkert náð að styrkja varnarlínuna m.v. hópinn sem hann tók við, reyndar mikið til sömu menn ennþá í liðinu bara tveimur árum eldri. Árangur okkar varnarlega í vetur staðfestir þetta. Sakho er sá eini sem hefur verið keyptur inn og styrkir okkur til framtíðar á meðan Jon Flanagan er líklega sá eini sem hefur eitthvað hækkað í virði af varnarmönnunum okkar undanfarin 2 ár.

Miðjumenn
Miðjumenn
(Hægt er að stækka mynd með því að smella á hana)

Hér verður þetta öllu áhugaverðara, miðjumenn liðsins nú með 10 leiki eða meira eru rúmlega ári yngri að meðaltali en við höfðum 2012 og virði hópsins er líklega helmingi meira. Þeir eru ca. hlið lið hlið hjá mér sem hægt er að bera saman (huglægt mat).

Gerrard var mikilvægari á þessu tímabili en 2012 þegar hann byrjaði bara 12 deildarleiki, munaði reyndar um minna þar fyrir Dalglish. Coutinho er miklu verðmætari og var að spila þrefalt fleiri leiki en 31 árs gamall Maxi Rodriguez sem fór á frjálsri sölu stuttu seinna.

Framlag Henderson undir stjórn Dalglish er stórlega vanmetið þó ekki hafi hann náð að skína líkt og hann gerir nú. Rosaleg vinnusemi í honum en stökkið var stórt frá Sunderland til Liverpool og hvað þá þar sem honum var spilað úr stöðu. Segir sitt að hann spilaði samt 37 af 38 deildarleikjum undir stjórn Dalglish. Núna má færa rök fyrir því að það hafi kostað okkur titilinn að missa Henderson í lokin. Virði hans er a.m.k. töluvert meira núna en það að vera skiptimynt fyrir Clint Dempsey, eitthvað sem ég trúi ekki ennþá upp á Rodgers/FSG.

Victor Moses fékk mann til að sakna Stewart Downing og það heilan helling. Rodgers náði að nýta Downing ágætlega í eitt ár reyndar og fékk fínan aur fyrir hann. Svosem ekki alveg hægt að bera þessa menn saman.

Meiðsli Lucas Leiva kostuðu Dalglish langmest 2011/12 og voru reyndar ennþá að kosta okkur á þessu tímabili, munurinn er að nú höfum við mun betra back up. Jay Spearing spilaði 16 leiki og Shelvey 20 ára spilaði 13 leiki. Báðir allir af vilja gerðir en ekki helmingurinn af því sem við misstum í Lucas.

Joe Allen er síðan bæting á Charlie Adam, sérstaklega ef við horfum til framtíðar, efa að margir spái Adam bjartari framtíð en Allen.

Sprengjan er síðan Raheem Sterling, hann fékk smjörþefinn hjá Dalglish en sprakk út í ár og hækkar líklega einn og sér virði miðjunnar okkar nú vs þá um helming.

Þá er ótalið það sem við eigum í yngri flokkum, mun meira virði þar en fyrir 2 árum og líklega lækkar meðalaldurinn enn frekar næstu ár komi 1-2 upp þaðan.

Sóknarmenn
Sóknarmenn
(Hægt er að stækka mynd með því að smella á hana)

Hér hafa orðið kraftaverk og virði leikmanna rokið upp á sama tíma og meðalaldur þeirra sem spiluðu 10 leiki eða meira lækkaði um 2,1 ár.

Það verður ekki tekið af Comolli og Dalglish að þeir voru við völd þegar Suarez var keyptur. Til að sanna regluna um að 50% leikmannakaupa heppnist var Carroll keyptur á sama tíma. Frábær viðskipti ef við horfum á þetta núna. Suarez inn ásamt 17,5m til baka fyrir Carroll í staðin fyrir Torres og Babel. (Hægt að setja Henderson og Downing eins upp).

Suarez var engu að síður einn mesti höfuðverkur Dalglish á seinna tímabili hans, þó deila megi (vel og lengi) um það hversu mikið það var honum sjálfum að kenna. Hann fékk samtals 9 leikja bann og setti á sama tíma ný viðmið í að skapa sér færi og sóa þeim. Okkar langbesti maður samt með 17 mörk og 11 stoðsendingar. En bara 11 mörk og 6 stoðsendingar í deildinni. Virði hans í maí 2012 var líklega 1/4 af því sem það er í dag.

Andy Carroll var svo innilega ekki í plönum Rodgers að hann var frekar lánaður í staðin fyrir ekki nokkurn mann fyrsta tímabil Rodgers (eitthvað sem lækkar kostnað Liverpool af honum enn frekar). Daniel Sturridge kom í staðin hálfu ári seinna og ég skal hundur heita ef hann kostar ekki a.m.k. 35m núna og líklega yrði slíku boði ekki einu sinni svarað. Hann kom á lægri fjárhæð en West Ham borgaði okkur fyrir Carroll. Umboðsmaður Andy Carroll tekur líklega undir með okkur að fótbolti getur verið dásamlegur stundum.

Iago Aspas nýttist okkur enganvegin eins vel og Bellamy og Kuyt gerðu og okkur vantar sambærilega menn á næsta tímabili þegar leikjaálagið verður meira. Borini, Sterling og Ibe fara líklega langt með að fylla þeirra skarð reyndar.

Suarez, Sturridge og Ibe eru svakaleg bæting á sóknarlínunni 2012. Eini kostnaðurinn við þessa bætingu var í Borini og Aspas, eitthvað sem við fáum mjög líklega til baka og rúmlega það.

Samantekt
Ef við tökum allann hópinn og berum saman meðalaldur þá var hann 26 ára tímabilið 2011/12 en 25,12 ára tímabilið 2013/14. Ef við tökum bara þá leikmenn sem spiluðu 10 leiki eða meira þá var meðalaldurinn 26,7 ára 2011/12 en 25,8 ára 2013/14.

Markmaðurinn okkar er líklega mun meira virði.
Vörnin er aðeins meira virði en þó aðallega vegna kaupanna á Sakho.
Miðjan er miklu verðmætari í dag þökk sé Coutinho, Henderson, Sterling, Allen og þeim sem eru á láni eða í yngri flokkum.
Sóknarlínan er miklu meira virði.

Þetta er nokkuð magnað m.v. að manni finnst Liverpool hafa átt einn góðan leikmannaglugga af fjórum síðan Rodgers kom til liðsins.
Sumar 2012: Borini, Allen og Assaidi hafa lítið bætt liðið þó líklega hafi enginn þeirra fallið í verði. Nuri Sahin bætti heldur engu við. Út fóru dýrir póstar sem lækkuðu kostnað en nýttustu liðinu betur.

Janúar 2013: Coutinho og Sturridge sneru dæminu við hjá Liverpool og eru ein bestu leikmannakaup Liverpool í áraraðir. Texieira kom á sama tíma og bætist vonandi við þessa upptalningu von bráðar. Sá hefur getuna til þess.

Sumar 2013: Toure, Aspas, Mignolet, Alberto, Ilori, Moses, Cissokho og loksins Sakho sem spilaði heila 17 leiki í vetur.
Mignolet kom fyrir Reina, erfitt að bera þá saman enda að spila mjög mismunandi kerfi hjá Liverpool en belginn var að fá mun fleiri mörk á sig en Reina hefur nokkurntíma gert hjá Liverpool. Þegar Reina var upp á sitt besta var Liverpool að fá á sig 27-28 mörk á tímabili, Mignolet sem margir telja mikla bætingu fékk á sig 50 núna.

Downing fór líka og var Moses mikil veiking í hans stað. Meira að segja Assaidi eða Suso væru betri en Moses. Aspas er mun verri en Borini og Carroll sem fóru báðir úr hóp í hans stað, Shelvey var mun betri en Alberto og Carragher er betri en Toure.

Til lengri tíma litið losaði félagið sig við dýra pósta sem nýttust ekki nógu vel en fyrir þetta tímabil var bætingin á hóp ekki mikil, nema þá að þetta auðvitað opnað leið inn fyrir unga leikmenn.

Janúar 2014: Enn náði Liverpool að klúðra sínum helstu skotmörkum og gerði á endanum ekkert í þessum glugga. Rodgers hefur aldrei fengið þá leikmenn sem helst er lagt er út með að ná síðan hann kom (svona af því sem við vitum í gegnum fjölmiðla nema í janúar 2013. Gylfi Sig og Dempsey voru saga aulalega sumarsins 2013, Mkhitaryan, Willian og Costa sumarsins 2013 og Konoplyanka og Salah janúar 2014.

Hvernig honum tókst samt að koma Liverpool í meistaradeildina og hársbreitt frá titlinum er með hreinum ólíkindum. Þær mannabreytingar sem orðið hafa á hópnum síðan Rodgers tók við gefa alls ekki til kynna þetta stökk sem við tókum og þessi árangur gerir það að verkum að maðurinn verðskuldar nýjan samning svo sannarlega.

Vonandi höfum við (og FSG) þá þolinmæði sem þarf ef það kemur smá bræla á köflum á næsta tímabili, það er meira en viðbúið að liðið sýni einhverja vaxtaverki þegar það bætir sig á þessum hraða með svona litlum sjáanlegum breytingum. Þetta verða engir 43 leikir á næsta tímabili, það er ljóst.

Hvað getur maðurinn eiginlega bætt þetta lið mikið með almennilegum leikmannagluggum? Sturridge og Coutinho eru líklega fyrsta vísbending…

10 Comments

 1. Takk fyrir skemmtilegan pistil Babú.

  bara fyndið að skoða hvað hópurinn er miklu verðmætari i dag en fyrir 2 árum 🙂

  Skulum vona að það se núna komin tími a góðan sumarglugga í leikmannakaupum. Mer lýður þannig að ef Rodgers fengi 3-4 sterka leikmenn auk þess að fa nokkra til baka úr láni að þa gæty okkar menn farið alla leið næsta vetur 🙂

 2. Snilldar pistill Babu sem sýnir vel og greinilega þá ótrúlegu bætingu á árangri liðsins þrátt fyrir litla bætingu á hópnum sem slíkum.

  Þessi leikmannagluggi verður sá mikilvægasti sem við munum upplifa. Höfum 2x áður verið í 2 sæti í deildinni og í kjölfarið komu vægast sagt mjög slakir leikmannagluggar sem hægðu á framförum liðsins.

  Nú þurfum við bara að treysta FSG og Rogers, þó við höfum ekki endilega verið ánægðir með það sem hefur gerst í leikmannamálum síðustu 2 ár. Held að þessi gluggi verði allt öðruvísi. Núna höfum við aftur CL sem laðar meira að og held að meira af peningum verði settir í leikmannakaup heldur en oft áður.

  Hrikalega spennandi tímar framundan og algjör forréttindi að fylgjast með okkar ástsæla félagi.

  YNWA

 3. Flottur pistill! Takk fyrir það. Alltaf snilld að fá að lesa svona vandaða pistla frá ykkur.

  Þó held ég að Gerrard hafi elst um tvö ár milli maí 2012 og 2014 eins og flestir aðrir í liðinu. :o)

  kv
  HS

 4. Nr. 3

  Ég er ekki alveg að skilja þetta með Gerrard? Ekki að það þurfi að taka það fram að Gerrard er auðvitað tveimur árum eldri núna en hann var 2012.

  Kom inná að hann hefði spilað lítið 2012 og því verið mun mikilvægari á þessu tímabili (2014) en hann var á lokatímabili Dalglish. Skiptir ekki öllu hvort hann hækkar eða lækkar í verði hvað þetta varðar enda ekkert til sölu.

  En er mér að yfirsjást eitthvað augljóst klúður í þessu?

 5. Það sem hann er að benda á er að þú skráðir Gerrard sem 32 ára 2012 og 33 ára 2014 :p á meðan aðrir eldast um tvö ár á milli tveggja ára 🙂 bara innsláttarvilla hjá þér 😉

 6. Flottur pistill og gott að Rodgers sé búinn að skrifa undir nýjan samning. Held að það styrki stöðu klúbbsins töluvert.

  Það er alveg klárt mál að í sumar er Liverpool mun eftirsóknarverðari klúbbur að ganga til liðs við en fyrir ári síðan. Bæði tók liðið þátt í kapphlaupinu um meistaratitilinn í vetur og spilar í meistaradeild næsta vetur en einnig er verið að spila dúndurbolta og það hljóta menn að horfa í. Hvern myndi svo ekki vilja vera í sama liðið og Luis Suarez?

  Síðustu tvö ár má segja að félagið hafi verið með allt “niðrumsig” á leikmannamarkaðnum, ef undanskilin er janúarglugginn þegar Coutinho og Sturridge voru fengnir. Aftur og aftur hefur maður séð klúbbinn gera í buxurnar þegar kemur að því að loka samningun við félag/leikmann sem stjórinn vill fá til liðs við sig. Núna vonar maður innilega að slíkt sé að baki en vissulega kætist maður ekki yfir leikmannakaupum félagsins fyrr en maður sér viðkomandi leikmann á Melwood haldandi á rauðu treyjunni með pennann í hönd.

  Hvað Reina varðar þá er ég ekkert viss um að Mignolet sé betri og það sást í vetur að betri varamarkvörður hefði fengið sénsinn. Mignolet hefur þó vaxið en eins og bent er á í pistlinum fékk Mignolet á sig 50 mörk í vetur en t.a.m. fékk Reina aðeins á sig 43 veturinn á undan. Sem allir geta verið sammála um að hafi verið hans versta tímabil síðan hann kom.

  Ef litið er til þess að Reina hefur spilað vel í vetur með Napoli og varð m.a. eftirminnilega bikiarmeistari ásamt því að eyðileggja hið margrómaða vítamet Balotelli þá má ætla að Rodgers íhugi allavega að fá hann til baka.
  Ef laun Reina og Mignolet eru skoðuð m.t.t. framlags þeirra til liðsins þá hlýtur Mignolet hins vegar að hafa vinninginn þar sem laun hans eru töluvert lægri en hjá Reina mv. 7 marka mismun á árum. Einnig ber að líta á mismunandi leikstíl liðsins milli þessara tveggja tímabila þar sem að stóran hluta þessa tímabils sem leið vorum við að spila með nánast tvo framherja á kostnað miðju/kantmanns sem hlýtur að þýða það að við erum ekki eins þéttir til baka.

  Ég persónulega treysti ekki nokkrum manni betur til að ákveða hvernig þessum málum er háttað heldur en Brendan Rodgers. Ég vona hins vegar að hans ákvarðanir í leikmannamálum verði virtar og að könunum vaxi snarlega pungur til þess að ná loksins í þá leikmenn sé stjórinn vill fá.

 7. Flottur pistill Babu.
  Alltaf gaman af því þegar að pennar kop.is taka sig til og fræða okkur um gengi liðsins.

  Ég hef verið að spá í þessu nákvæmlega, þ.e.a.s framfarir í hverri stöðu fyrir sig.

  Mignolet fyrir Pepe Reina er ekki mikil styrking en hinsvegar var sá fyrrnefndi að taka hrikalega mikilvægar vörslur á þessu tímabili þó svo hann hafi fengið mun fleiri mörk á sig en Reina.
  Í mínum augum eru þeir á pari.

  Vörninn er viss capituli fyrir sig.
  Bakvarðarvandamál okkar hafa verið í langan tíma í hálfgerðu lamasessi. Í dag eru það Johnson og Flanagan sem eru aðalmennirnir og persónulega finnst mér Flanagan vera hrikalega mikið efni, á barmi þess að vera hrikalega góður varnarmaður. Johnson hefur einhvernvegin farið hratt afturábak í sinni þróun. Það væri lang best, að mínu mati, ef að það væri keyptur vinstri bakvörður sem er góður og Enrique geti verið að atast í með sæti í liðinu, þ.e.a.s ef að Enrique verður aftur leikhæfur.
  Þá myndi Flangan flengja Johnson allhressilega og vinstribakvarðarstaðan í þokkalegum málum.
  Miðverðirnir eru þokkalegir, bara ekki nægilega stabílir. Persónulega finnst mér muna mest um Meistara Carragher. Munurinn á honum og Toure sem átti að koma inn sem reynsluboltinn, hann er svakalegur. Toure var einfaldlega stressaður í hvert skipti sem hann fékk boltann og maður var aldrei rólegur fyrr en hann lét hann frá sér. Klárlega styrking samt að fá Sakho inn en hann er hinsvegar líka útum allt og tekur stundum misgáfulegar ákvarðanir.

  Miðjan er einfaldlega mun sterkari heldur en fyrir tveimur árum síðan og á bara eftir að styrkjast. Gerrard hefur fengið aðra rullu sem hann mun endast í mögulega þrjú ár til viðbótar. Allen á enn eftir að koma inní þetta lið með það sem hann hefur uppá að bjóða enda hefur hann nánast einungis komið inn sem varamaður nema í 15 leikjum og hefur oftar en ekki verið maðurinn sem fer útaf ef eitthvað þarf að styrkja.
  Coutinho og Henderson eru svo hrikalega góðir leikmenn sem liðið má ekki við því að missa. Ég hef fulla trú á því að ef að Henderson hefði verið með alla leið þá hefðu sumir leikir farið öðruvísi en þeir gerðu. Vinnslan sem hann býður uppá er endalaus. Coutinho hefur svo hæfileika sem þessu liði hefur lengi vantað. Hrikalega mikilvægur fyrir okkar menn á komandi tímabili.

  Framherjarnir eru svo augljós bæting. Allavega þeir þrír sem mætt hefur mest á. Essin þrjú tæta hvaða vörn sem er í sundur með hraða sínum og útsjónasemi.
  Suarez er auðvitað fótboltamaður sem hægt væri að tala um heilu sólahringana og vita allir allt um hann.
  Sturridge var hinsvegar óskrifað blað fyrir þetta tímabil og hafði aldrei fengið almennilegan séns hjá neinu liði nema Boltan þar sem hann var á láni. Þvílík gersemi sem við duttum niðrá þar með þeim leikmanni. Það var eins og hann hafi verið mótaður fyrir þetta Liverpool lið sem verið er að móta.
  Sterling kemur svo upp í gegnum unglingstarfið og er ein skærasta stjarna enska boltans í dag. Tekur stöðugum framförum leik frá leik og er að fara að spila hrikalega stóra rullu fyrir England í sumar held ég.

  Svo er auðvitað hægt að taka Ibe, Borini, Aspas, Llori, Coates (veit einhver eitthvað um hann???) og Teixeira fleiri og fleiri.

  Hinsvegar tel ég að þetta sumar verði eitt það stærsta sem við munum upplifa hjá Liverpool. Gengi okkar manna á HM mun standa uppúr sem og leimannakaup. Stórt nafn sem hefur sannað sig kemur inn, vitiði til.

  YNWA – In Rogers we trust.

 8. “meiðsli Lucas voru reyndar ennþá að kosta okkur á þessu tímabili” flottur pistill Babu….en þessi orð þín lýsa algerri blindni á Lucas……….Liverpool tók 11 leikja sigurgöngu vegna þess að Lucas meiddist og Gerrard var færður niður í holuna , segi ég

Opinn þráður – Uppfært: Rodgers framlengir

Kop.is Podcast – Hringborðið 2014