Lokabardaginn, á morgun – Newcastle

Þá er komið að því, lokaleikur tímabilsins 2013-2014 og vitið þið hvað? Liverpool á ennþá séns á að vinna Englandsmeistaratitilinn, spáið í því. Þetta verður síðasti leikurinn á algjörlega frábæru tímabili þar sem okkar menn hafa svo sannarlega heillað, ekki bara okkur stuðningsmenn Liverpool FC, heldur gjörsamlega ALLA upp úr skónum. Þeir sem halda öðru fram eru hreinlega blákalt að ljúga, einfalt mál. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fylgja þessu liði mjög lengi, upplifað sæta sigra og frábær fótboltalið. En ég verð að segja það alveg eins og er að þetta lið sem hefur spilað þetta tímabil er það skemmtilegasta sem ég man eftir og þarf þá mikið til. Það er hreinlega ótrúlegt að sjá hversu umbreytingin hefur verið mikil á svona stuttum tíma.

Höfum eitt á tæru, alveg sama hvernig fer á morgun, liðið verður hyllt á Anfield. Ég er ekki að segja að það verði ekki örlítið meiri stemmning ef hið ótrúlega myndi gerast, en það verður stemmning. Þessir drengir verða hylltir út fyrir Ósonlagið fyrir það hvað þeir eru búnir að gefa okkur þennan veturinn. Við höfum gagnrýnt ýmislegt í vetur, verið óánægð með sumt og allt það, en heilt yfir þá geta Poolarar ekki annað en brosað hringinn. Klukkan 14:00 verður flautað til leiks í öllum leikjum í deildinni, en það eru engu að síður bara 2 sem skipta máli, allt annað er ráðið. Það er ljóst hverjir falla. Það er ljóst hvaða lið fara í Meistaradeildina. Það eina sem ekki er ljóst er hverjir verða meistarar, og þar snýst þetta um 2 lið. Milljarðalið Manchester City og svo LIVERPOOL FC!. Ég veit það að ég ætla mér að njóta þess í botn að halda í smá von, City spila heima gegn rútufyrirtækinu Hamrar and sons, og við spilum heima gegn stórmeistaranum Alan Pardew og frönsku börnunum hans.

Áður en farið verður í að skoða okkar menn, þá get ég ekki annað en fjallað aðeins um leik City og West Ham. Ef þetta væri öfugt, þ.e. að við værum efstir og værum að fara að spila gegn West Ham undir stjórn Sam Allardyce og það á Anfield, værum við alveg óhræddir við þann leik? Ekki séns í helv… Sammy vinur minn er nefninlega algjör sérfræðingur í að gjörsamlega að eyðileggja allt sem heitir leikplan andstæðinganna með sínum stórkallabolta og vel spilandi lið eiga oft í erfiðleikum gegn þeim. Við erum sko að tala um London bus, tveggja hæða og alles. Ekki það að ég tel gæði City vera einfaldlega of mikil til að hið ótrúlega gerist, en svo sannarlega verður maður spenntur og ótrúlegri hlutir hafa alveg gerst í fótboltanum. Ég man eftir einum þann 25.05.05, hver bjóst við því í hálfleik að Liverpool væri að fara að verða Evrópumeistari. Meira að segja þá var maður búinn að sætta sig við hlutina þá, þ.e. maður var í rauninni bara þakklátur fyrir að hafa komist þetta langt. Svipað er uppi á teningnum núna.

Þetta West Ham lið má bara alveg gera okkur risa greiða. Fyrirliðinn þeirra er grjóthaður Poolari, hann var bara einn af stuðningsmönnum liðsins í Istanbul, já Kevin Nolan er fæddur í Liverpool og hefur í gegnum tíðina ekkert verið að fela það hvað er hans lið (fyrir utan liðið sem hann spilar með í hvert og eitt skipti). Við erum líka að horfa á það að Joe Cole er í þessu liði West Ham. Ekki nóg með það, heldur eru tvær mestu peningasóanir Liverpool í sögunni, partur af liðinu. West Ham borguðu okkur fáránlega mikla peninga fyrir Downing og Carroll og því alveg spurning hvort þeir ættu eitthvað að gera okkur einhvern greiða í viðbót. Sem betur fer spila stjórnarmenn liðanna ekki leikina og svo sannarlega munu þeir Carroll og Downing borga upp kaupverðin sína á einu bretti ef þeir redda þessum leik á morgun. Ég mun klæðast Carroll treyjunni minni á morgun, það er FACT.

En þá að okkar drengjum. Newcastle eru í heimsókn og ef það er eitthvað lið sem ég væri til í að velja mér í lokaumferð á Anfield, þá er það þetta lið. Yfirleitt eru leikir þessara liða alveg stórbrotin skemmtun, en mér er til efs að getumunurinn ná milli þessarra liða hafi verið svona mikill áður. Pardew og co tóku þá stórfenglegu ákvörðun að selja sinn besta mann í janúar, Jóa Kebab, og það ekkert á neina fáránlega upphæð. Það hefur enginn haft fyrir því að segja þessum gaurum að það sé alveg hægt að nota svona glugga í að styrkja lið, allavega hægt að halda í horfinu. Þeir virðast vissir um að besta leiðin sé að veikja sig. En jæja, gott og vel, ég öfunda Newcastle menn ekki, hvorki af eiganda sínum né stjóranum. Þetta Newcastle lið hefur verið algjörlega vonlaust, vonandi heldur það áfram á morgun. Það er nokkuð sama á hvaða part liðsins er horft, þeir eru meðalmennskan alls staðar. Loic Remy er sóknarmaðurinn þeirra (já virðist vera sá eini) og hef ég allavega alls ekki heillast af honum. Þeir eru með fína bakverði, og ágætis leikmenn hér og þar, en gæðin eru bara meðal um allan völl.

Newcastle vann síðasta leik á sínum heimavelli gegn Cardiff, sem eru í neðsta sæti deildarinnar. Þar á undan voru þeir búnir að tapa heilum 6 leikjum í röð og líklegast er það eingöngu fjárhagslegs eðlis ástæður sem gera það að verkum að Pardew skuli ennþá vera í starfi. Það er ekkert um að ræða litlar upphæðir þegar þú þarft að borga upp samning til 33ja ára. Cisse er meiddur hjá þeim en annars held ég að menn verði bara fullskipaðir. Newcastle menn hafa fengið 8 mörkum meira á sig en okkar menn, en sturlaða staðreyndin er sú að þeir hafa skorað 57 mörkum minna en okkar menn, FIMMTÍU OG SJÖ MÖRK. Hvað segir það okkur um okkar stórkostlegu menn?

Og talandi um okkar yndislegu sveina. Ég hlakka gríðarlega mikið til að setjast í sætið mitt á Spot á morgun og dást að þessum drengjum sem hafa skemmt mér svona suddalega mikið í vetur. Ég mun njóta þess að vonast eftir kraftaverki hjá West Ham, en ég mun fyrst og fremst njóta þess að sjá okkar drengi sýna snilld sína á vellinum. Hafið þið heyrt villtari draum en þennan sem hér fer á eftir? Lokið augunum og hugsið um það þegar Joe Cole platar Kolarov með því að láta boltann fara á milli fóta sér og beint á Downing. Sá verður með engan valkvíða og flengir boltanum beint á pönnuna á Andy Carroll þannig að taglið eykur kraftinn í skallanum um c.a. helming og Joe Hart á engan möguleika á að verja þetta. Allt þetta gerðist á nítugustu mínútu og þetta er fyrsta og eina mark leiksins. Á meðan var Liverpool að strauja yfir Newcastle á Anfield þar sem Luis Suárez gerði sér lítið fyrir og setti fernu í 6-0 sigri liðsins. Þar með varð hann sá leikmaður sem hefur skorað mest af mörkum frá stofnun Úrvalsdeildarinnar og Liverpool það lið sem mest hefur skorað á einu tímabili. Þyrlan lendir með bikarinn fræga og Captain Fantastic hefur hann á loft. OK, OK, blautur og góður draumur. Má það ekki? Að láta sig dreyma?

En skoðum okkar menn aðeins betur. Jordan Henderson er kominn úr banni, hversu freaking fáránlega mikið höfum við saknað þessa drengs? Ef titillinn vinnst ekki, þá byrja menn að skoða hvar hlutir klúðruðust, sér í lagi þar sem munurinn er svona lítill. Ein af ástæðunum er klárlega í mínum huga sú staðreynd að Jordan Henderson var ekki með gegn Chelsea. Hver hefði trúað því fyrir 2 árum síðan að þessi drengur væri orðinn svona fáránlega góður og mikivægur. Ég reikna með að honum verði þrykkt beint inn í liðið aftur og að við sjáum Lucas fara aftur á bekkinn. Þrátt fyrir 3 ferleg mörk gegn Palace, þá býst ég við óbreyttri vörn og í rauninni að þetta verði eina breytingin á liðinu og að það verði því svona:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan

Gerrard
Joe Allen – Henderson
Sterling

Suarez – Sturridge

Bekkur: Jones, Agger, Coutinho, Aspas, Moses, Cissokho, Lucas

Okkar sterkasta lið fyrir utan José Houdini sem tókst frábærlega til í töfrabragðinu sínu, eiginlega of vel, enda ekki fundist aftur eftir það. Þessi bekkur hjá okkur er bara þræl sterkur, fyrir utan eitt atriði, ég væri algjörlega til í að hafa mann eins og Borini þarna líka. Það er allavega ljóst að fyrir utan þennan mannskap, þá er fátt um fína drætti. Því þarf að redda í sumar, en við gerum það ekki fyrir morgundaginn, það er alveg morgunljóst. Á morgun snýst þetta fyrst og fremst um eitt hjá þessum köppum. Njóta augnabliksins og njóta þess þegar stuðningsmennir þakka þeim fyrir frábæra leiktíð. Hvað er betra en að kveðja með stæl, með góðum sigri? Ég er alveg pottþéttur á því að þeir vilja klára tímabilið með látum. Ég fer á Spot á morgun, hvert ferð þú? Ég veit að Babú ferðaðist fleiri þúsund kílómetra til að horfa á leikinn á pöbb þar sem engin sæti verða í boði, en það er bara misjafnt hversu langt menn teygja sig eftir réttri tegund af öllara. Babú, ég vil heyra öskur frá þér á morgun, svona alvöru “égkemstekkiinnávöllinn” öskur.

Ég spái hörkuleik að vanda, ég ætla bara í alvöru að halda mig við drauminn og spá 6-0 sigri. Ég ætla bara líka að halda mig við drauminn og spá því að Luis Suárez skori fernu í leiknum. Ég ætla bara líka að halda mig við drauminn og spá því að West Ham taki City 0-1 með marki frá Andy Carroll. Ég ætla svo að spá því að Sturridge og Sterling skori hin 2 mörkin fyrir okkar menn. Þeir sem álíta mig bilaðan, þá er það ekkert sem ég segi eða geri sem kemur til með að breyta þeirra áliti á minni bilanatíðni, ég vil bara benda mönnum á að þýða “slóganið” okkar sem hefur verið haldið mikið á lofti að undanförnu, MAKE US DREAM. Það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera.

Síðasta upphitun tímabilsins, við erum hvergi nærri hættir hérna á Kop.is, en ég vil engu að síður þakka ykkur lesendur góðir fyrir samfylgdina á tímabilinu. Ekki nóg með að drengirnir okkar hafi verið frábærir, heldur hefur þetta Kop.is samfélag verið frábært og er alltaf að verða betra og betra (er það hægt?). Takk fyrir að lesa og hlusta. Yfir og út (í bili)

Poetry in Motion…

37 Comments

 1. Meðan enn er von, þá er möguleiki. Ég vona enn, og læt mig dreyma um “rétt” úrslit fyrir okkur á morgun.

  Ég upplifði hörmungina þegar arsenal tók frá okkur titilinn á síðasta leikdegi tímabilið 88-89.

  Man enn eftir þegar ég eyðilagði skóhilluna heima hjá mér eftir þann leik 😉

  ALLT getur gerst, og leyfi mér enn að dreyma 🙂

 2. Höddi B #2

  Ég man líka! Er ekki bara sanngjarnt að við fáum þetta okkar megin á morgun!?

 3. Ég ætla að mæta á Spot, klappa fyrir liðinu mínu og frammistöðu þess í vetur, ég vonast eftir stórum sigri og allt umfram það er plús.
  Ég reikna ekki með Englandsmeistaratitlinum og er himinlifandi með annað sætið úr því sem komið er en ennþá er pínulítil von. Þess vegna dettur mér ekki í hug að fara í fýlu og vera fjarverandi ef það ótrúlega gerist. Ég man vel eftir stöðunni 25. maí 2005 um hálf átta leytið um kvöldið.

 4. Ég er sko fyrir löngu búinn að fyrirgefa Liverpool tapið ámóti Arsenal 1989.

  1.þeir urðu bikarmeistara 1989 í frábærum leik gegn Everton
  2. Þeir unnu titilinn árið eftir(ef þeir hefðu ekki gert það þá hefði þetta verið c.a 100 sinnum verra)
  3. Þeir eru búnir að vinna nokkra dramabikara 2001, 2005 og 2006 standa uppúr í dramanu.

  Ég er á því að við lyftum engum bikar á morgun en þetta verður frábær dagur til þess að fagna með okkar frábæra liði sem hefur gert þetta að skemmtilegasta tímabili í deildinni síðan 1990. Öll mörkinn, allir sigrarnir gegn stóru liðunum og gegn Man utd, sóknarfótbolti í fyrirrúmi og það sem er merkilegasta af öllu án þess að einhverjir nýjir leikmenn leika stór hlutverk út á vellinum.

  Þetta er búið að vera frábært og spái ég því að leikmenn vilja enda mótið á jákvæðum nótum og klára þennan leik 5-0 með frábæri spilamennsku. Ég vona að Rodgers taki með sér einn efnilegan strák grísling úr U21 eða U18 árs liðinu okkar og leyfi honum að upplifa stemninguna og gefi honum kannski 10-15 mín.

  YNWA ,
  Takk fyrir tímabilið KOP.is þið gerið gott tímabil enþá betra

 5. #1 olís í Borgarnesi sýnir leikina á efri hæðinni, þar er yfirleitt góð stemning.

 6. Nú væri auðvitað snilld að skoða aftur áheit fyrir morgundaginn. Mitt áheit stendur a.m.k. óhaggað, þ.e. 2000 kall fyrir sigurleik hjá okkar mönnum, og upphæðin tvöfaldast ef liðið vinnur titilinn.

  Ég vil hvetja fólk til að heita á góðgerðarsamtök að eigin vali, og gjarnan að láta fylgja með einhvern bónus ef titillinn skyldi nú detta í hús.

  Þetta er nefnilega ekki búið.

 7. City fara í West ham með því hugarfari að þeir komast upp með jafntefli, það er hættulegt og getur komið þeim um koll,

  Við mætum Newcastle með því hugarfari að ljúka vel frábæru móti þar sem við fórum verulega fram úr væntingum, þeir eru bara að fara á völlinn til að skemta sér og öðrum, og enginn pressa.

  ég held að það sé alveg möguleiki á að titillinn komi heim á morgun, jafnvel þó að líkurnar segi að hann verði í útlegð í mansester enn eitt árið.

 8. Sammála hverju einasta orði. Þetta tímabil er búið að vera gjörsamlega framar vonum og ein stór skemmtun. Stoltur af liðinu og annað sæti er frábært. Ég tippa á að Agger starti þó á morgun á kostnað Sacho.

 9. Ég held að kannski var það ekki versta í heimi að fá aðeins 1 stig gegn palace.

  Fótboltasagan segjir manni að það truflar oft lið að þurfa bara 1 stig úr leik. Tala nú ekki um sókndarft lið eins og Man city. Ef þeir hefðu þurft 3 stig þá hefðu þeir bara keyrt á fullu allan leikinn en ég er ekki 100% viss um að þeir gera það á morgun vitandi það að jafntefli dugar.

 10. Ef liverpool veður meistari á morgun þá heiti ég því að ég mun fá mér full sleve Liverpool tatto.
  Og ef það verður Carroll sem verður sá sem hjálpar okkur til þess þá mun hann fá sitt pláss þar með.

 11. Ég trúi enn að það óvænta getur skeð. West Ham vinnur City og við rústum Newcastle.

 12. Liverpool áttu svo mikið tækifæri á dósinni í ár en það fór á móti chelsea, fáum ekki annað í bráð

 13. Í jafnri toppbaráttu þá áttu Chelsea og Man City mikið tækifæri á dósinni. Ef Man City hefði klárað Sunderland hefði dósinn verið þeira. Ef Chelsea hefði klárað sína leiki þá hefði titilill verið þeira, Ef Liverpool hefðu unnið Chelsea og Palace þá væri titilinn þeirra.

  Það er alltaf hægt að segja svona en staðreyndinn er bara svona að fyrir loka umferðina er Chelsea dottið úr baráttunu, Liverpool eru tveimur stigum á eftir og Man City er með þetta í sínum höndum.

 14. Sæl veriði. Ég fékk spennufall tímabilsins eftir síðasta leik og var dofinn fyrir fótbolta í dágóðan tíma. Fullur af aðdáun og stolti en svo svekktur samt. En sama hvernig fer á morgun er þetta búið að vera æðislegt og að hafa þessa síðu til að styðja sig við er algjörlega óviðjafnanlegt. Takk æðislega Kop.is fyrir að leyfa okkur að njóta þessa fallega draumaskrínis, og það án endurgjalds. Og jafnvel þó að við lendum ekki titlinum á morgun þá fáið þið bikarinn heim enda sannir meistarar. Takk fyrir mig!!!

 15. Þvílíkur morgundagur sem framundan er! Man shitty er í vonlausri aðstöðu, þeir vinna og allir bara yfta öxlum og….. svo what, dýrasti hópurinn, hæsti launareikningur áttu að gera þetta. LIVERPOOL vinnur eða í öðru sæti og allir eru í skýjunum (nema shitty menn). Skemmtilegasta liðið, uppaldnir leikmenn og ungmennafélagsandinn svífur yfir vötnum. Ég trúi fram á síðustu mínútu!

 16. ” Lokið augunum og hugsið um það þegar Joe Cole platar Kolarov með því að láta boltann fara á milli fóta sér og beint á Downing. Sá verður með engan valkvíða og flengir boltanum beint á pönnuna á Andy Carroll þannig að taglið eykur kraftinn í skallanum um c.a. helming og Joe Hart á engan möguleika á að verja þetta. Allt þetta gerðist á nítugustu mínútu og þetta er fyrsta og eina mark leiksins. Á meðan var Liverpool að strauja yfir Newcastle á Anfield þar sem Luis Suárez gerði sér lítið fyrir og setti fernu í 6-0 sigri liðsins. Þar með varð hann sá leikmaður sem hefur skorað mest af mörkum frá stofnun Úrvalsdeildarinnar og Liverpool það lið sem mest hefur skorað á einu tímabili. Þyrlan lendir með bikarinn fræga og Captain Fantastic hefur hann á loft. OK, OK, blautur og góður draumur. Má það ekki? Að láta sig dreyma?”

  🙂 snilld 🙂

 17. Sælir meistarar. Er einhver hér sem getur bent á bar í Boston þar sem leikurinn gæti verið sýndur. Menn virðast vera full rólegir yfir þessum leik, í það minnsta i miðborginni og opna staðina kl. 11 (leikurinn kl 10 á staðartíma).

  ábendingar vel þegnar

 18. Liverpool getur orðið meistari í lokaumferðinni á morgun.

  – Bara að geta sagt þetta gerir tímabilið frábært. Hvernig sem fer, þá verður fagnað.
  Takk fyrir mig.

 19. Ég hef lítið commentað undanfarið, en það sem ég er ánægður með þessa stöðu, úff!

  Við erum í 2. sæti fyrir lokaumferðina og getum orðið meistarar á morgun! Það með eitt yngsta lið deildarinnar, jafnbesta framherja og knattspyrnumann heims o.s.frv.

  Sama hvernig leikirnir fara á morgun, verð ég 110% sáttur og fullnægður. Þetta er svo langt umfram væntingar að ég er gjörsamlega bergnuminn (sem væri frábær þýðing á “stoned”) – og ég vil taka fram að ég er ekki stoned, þótt ég sé búinn með nokkra bjóra. 🙂

  Að sjálfsögðu vona ég að Carroll, Downing, Cole, Nolan og félagar standi sig, en ég býst ekki við miklu. Bara að sá möguleiki að við verðum meistarar lifi fyrir lokaumferðina samt? Eruð þið ekki að grínast? Ég á vart orð til að lýsa því hve stoltur og ánægður ég er! Áfram Liverpool FC!

  You’ll Never Walk Alone og megi lærisveinum Stóra Sáms vegna sem best!

 20. Gríðarlega ánægður með tímabilið. Laaaangt umfram væntingar í byrjun tímabilsins. Og þvílíkir sigrar, Arsenal étið og ælt. Tottenham tuggið í tætlur…….gat ekki stuðlað MU þannig að það væri birtingarhæft 🙂

  Sigur á Newcastle yrði góður endir á æðislegu rönni.

  Vil þakka KOP skríbentum og PODCAST mönnum fyrir skemmtileg skrif og frábær POD köst. Kíki á KOP.IS nær daglega og oft á dag núna undir lokin.

  Allt stress farið hjá mér. Mun horfa á Newcastle leikinn með bjór í hönd.

  Ef eitthvað gerist meira en sigur yfir Newcastle,

  Que sera sera, what ever will be, will be………… mun ég hoppa gargandi af gleði.

  Baráttukveðja,,,,,,,

 21. Snilldar leikskýrsla! Alltaf jafn gaman að koma hingað inn og lesa það sem þið skrifið 🙂
  Hlakka rosalega til að sjá leikinn og fagnaðarlætin í Liverpool borg

 22. ……. og hugsið ykkur ef Kopararnir gætu svo bara tekið drauminn úr upphituninni og límt hann sem staðreynd inn í leikskýrsluna!

 23. The last time Austria won the Eurovision song contest before last night was 1966…
  When:
  England won the World Cup
  Liverpool won the old Division 1
  Atletico Madrid won La Liga
  Real Madrid won the European Cup

  Ekkert langsótt…

 24. Erum með einn aukamiða á leikinn. Verðið er 1000 £ ( því miður ) sími 820-6010

 25. er i sumarbustað i grimsnesi, akvað að vera einhversstaðar i friði ef Gerrard lyftir dollunni. keyptum áskrift af sportinu a fimmtudag en hún datt út nokkrum timum seinna, nuna 3 dogum seinna var áskriftin loks að detta inn aftur eftir morg símtöl við 365 siðan a fostudagsmorgun

  það er enn séns a bikarnum og ja eg fekk aftur trúnna a þessu, við tökum þetta i dag 🙂

  ps suarez skorar þrennu a eftir 🙂

 26. Staðfest byrjunarlið: Mignolet, Johnson, Skrtel, Agger, Flanagan, Henderson, Gerrard, Allen, Sterling, Suarez, Sturridge

 27. Sælir félagar

  Til hamingju með stöðuna. Í lokaumferð tímabilsins á Liverpool möguleika á meistaratitli og er öruggt með 2. sætið. Þetta er frábært. Og ekki er það verra að liðið á möguleika á að setja markamet í ensku deildinni sem er magnað. Ég fellst á spá Steinasvona nokkurnveginn og í eina skiptið í vetur spái ég ekki 3 – 1 heldur 7 – 1 og er gríðarlega ánægður með liðið okkar.

  Það er nú þannig.

  YNWA

Risapottur ReAct! [auglýsing]

Liðið gegn Newcastle