Opinn þráður – Everton

15 apríl sl. var árleg minningarathöfn á Anfield til að minnast þeirra 96 sem fórust á Hillsborough fyrir 25 árum. Þessi atburður hefur auðvitað breytt ansi miklu í fótboltaheiminum og auðvitað haft gríðarleg áhrif í Liverpool borg. Eitt af því er viðhorf mitt gagnvart næstu nágrönnum, Everton.

Eðlilega er Everton andstæðingur númer eitt hjá þeim sem búa á svæðinu og umgangast stuðningsmenn Everton daglega en fyrir mér er andúðin á Everton ekkert yfirþyrmandi. Þeir sem muna betur eftir baráttu liðanna á toppi deildarinnar og ólust upp með Everton sem helsta keppinaut Liverpool horfa á þetta öðruvísi, Maggi og SSteinn kvitta upp á það. Persónulega man ég ekki eftir mjög mikilli samkeppni þessara liða nema þá helst núna undanfarin ár um sjötta sætið sem bara skiptir ekki máli og þeir fáu Everton menn sem ég þekki eru flestir toppmenn. Ég umgengst ekki einn Everton mann dagsdaglega og BK Kjúkling borða ég t.a.m. af bestu list. 🙂

Hillsborough slysið var auðvitað alveg jafn mikið áfall fyrir stuðningsmenn Everton og það var fyrir stuðningsmenn Liverpool. Bæði vegna þess að þetta voru auðvitað jafn mikið þeirra ættingjar, vinir eða vinnufélagar sem fórust og eins vegna þess að þeir gerðu sér grein fyrir að hefði drátturinn farið öðruvísi hefði þetta auðveldlega getað komið fyrir þá, þeir voru að spila hinn undanúrslitaleikinn á sama tíma. Frá því ég byrjaði að horfa á fótbolta hefur Hillsborough skugginn alltaf verið yfir og fyrir mér hefur þetta alltaf verið sameiginlegt hjá bæði Liverpool og Everton og stuðningur þeirra algjör frá upphafi. Pat Nevin fyrirliði Everton skoraði sigurmark Everton og kom þeim í úrslit ´89, hann neitaði að tala um leikinn við fjölmiðla eftir leik enda hugurinn eingöngu hjá stuðningsmönnum Liverpool.

Opinbera síðan er með góða greiningu á hvernig þessi harmleikur hefur sameinað liðin sem ég mæli eindregið með, mjög góð lesning.

Anfield var opnaður fyrir þá sem vildu syrgja strax 15. apríl og þar voru mjög margir í bláum búningum. Blóm, búningar, treflar og annað voru hengd á markið við Kop stúkuna en fjölmargir Everton menn fóru hinumegin á völlinn og gerðu markið við Annie Road endan blátt, þar stóðu þeir á Anfield (og gera enn).

Bæði lið mættu í allar minningarathafnir í kjölfar Hillsborough og stuðningsmenn auðvitað einnig. Mile of Scarves er líklega eitt flottasta framtakið en stuðningsmenn liðanna söfnuðu yfir 4.000 treflum og bundu þá saman alveg frá Goodison Park yfir á Anfield Road.

http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2605150/Hillsborough-25th-anniversary-memorial-Latest-pictures-updates-Anfield.html
Mynd af vef Daily Mail.

Undanfarin ár hafa augu mjög margra verið opnuð fyrir því sem stuðningsmenn Liverpool og Everton vissu vel varðandi Hillsborough og óþarfi að fara yfir það hér. En fyrir fimm árum virtist þessi barátta vera fyrir alvöru töpuð og engin von um að þeir látnu og ættingjar þeirra fengju nokkur réttlæti. Vonarglætan kom frá grjóthörðum stuðningsmanni Everton og þingmanni í þokkabót. Engum pólitíkus hafði verið leyft að segja orð á minningarathöfn um Hillsborough áður. Aðsóknarmet var slegið þennan dag í minningarathöfnina í tilefni 20 ára afmælisins og þingmaðurinn, Andy Burnham fékk þær móttökur sem hann líklega bjóst við að fá. Þetta sýndi honum að (það sem hann vissi fyrir) að þó baráttan væri strand væri enginn áhugi á Merseyside að gefast upp og hætta baráttunni fyrir réttlæti, það væri hreinlega ekki í boði.

Ástæða þess að hann fékk boð um að tala á 20 ára afmælinu var vegna þess að hann var þegar byrjaður að vinna að því að enduropna Hillsborough málið og hann var enn sannfæraðri eftir þennan dag. Hér má lesa hans hlið á þessum degi og hans aðkomu. (Varúð hann hrósar Gordon Brown)

Hér er svo hægt að lesa dagbók sem Burnam skrifaði í Guardian um vikuna þegar Óháða Hillsborough nefndin skilaði af sér sínum niðurstöðum þremur árum seinna. Færslan byrjaði svona:

Friday 7 September

It’s the start of the seven most important days I will have in politics and my main worry is that people have not yet woken up to the enormity of what’s coming. All the talk in the papers is the fallout from the reshuffle.

I feel the need to get in early and set the right tone. So I call my old friend David Conn. It was his Guardian article on the amendment of police statements in the runup to the 20th anniversary that prompted me to set up the Hillsborough Independent Panel.

I tell him that, together with Steve Rotheram, Maria Eagle and Derek Twigg, I’m calling for a national apology for Hillsborough from the prime minister.

Eftir að nefndin hafði skilað af sér sínum niðurstöðum og forsætisráðherrann beðið opinberlega afsökunar fór Burnham til Liverpool og var viðstaddur þegar fjölskyldurnar fengu skýrsluna. Mikil gleði þeirra á meðal og í kjölfarið fór hann á barinn. Þá heimsókn orðaði hann svona og gæti ekki lýst tengingu Liverpool og Everton mikið betur

Steve Rotheram suggests a quick pint in the Ship and Mitre at the top of Dale Street before heading home. Atmosphere in there is brilliant. Seems to be an impromptu gathering of many inspirational people who have helped along the way. Even Mick Jones from the Clash, who did the Justice Tonight tour, has travelled up to be there. Everyone is very generous to me but, just in case it’s going to my head, I leave to a hearty rendition of “blue and white shite”. I love this city. Normal service resumed.

Dagbókina endaði hann svo á þessum orðum

One email catches my eye. It’s just five words long: “You’re alright, for a bluenose.” That’s good enough for me.

Andy Burnham fékk að koma aftur í pontu núna á 25 ára afmælinu. Móttökurnar sem hann fékk núna voru töluvert mikið betri en síðast og hans ræða fannst mér sú besta af þeim öllum. Bill Kenwright eigandi Everton hélt frábæra ræðu í fyrra og ítrekaði stuðning Everton. Roberto Martinez hélt ræðu núna í ár og tilkynnti að komið yrði upp minningarreit á Goodison til minningar þeirra 96 sem létust.

Við félagarnir hér á kop.is vorum á Anfield í maí sl. þegar Everton kom í heimsókn og tókum þátt í þessari mosaic mynd sem beint var að stuðningsmönnum Everton vegna stuðnings þeirra í tengslum við Hillsborough.

https://www.youtube.com/watch?v=W-W7T5B_iFE

The Bitters eru þeir kallaðir af stuðningsmönnum Liverpool og líklega er það ekki alveg að ástæðulausu. Þeir hafa alveg ástæðu til að vera orðnir vel þreyttir á Liverpool undanfarin ár og áratugi. Reyndar frá stofnun Liverpool. Líklega er þetta best orðað svona af einum stuðningsmanni Everton

“Whenever we do something good they go one better. What happened last time we finished 4th?”

Þegar Everton var upp á sitt allra besta og að vinna til verðlauna var Liverpool með besta lið í heimi. Barátta liðanna var mögnuð og Liverpool ekkert alltaf ofan á í þeirri baráttu en öllu oftar. Liðin fóru saman á Wembley ´86 þar sem Liverpool vann þá. Sama gerðist ´89 þó sá leikur hafi kannski skipt stuðningsmenn liðanna minna máli. Mjög viðeigandi að þessi lið hafi mæst í úrslitum þessarar keppni svo stuttu eftir Hillsborough.

Tímabiið sem Heysel slysið átti sér stað og bann var sett á öll ensk félög í Evrópu var Everton meistari. Árin á eftir var Everton líklega með besta lið sem þeir hafa haft en fékk ekki að spila í Evrópu. Ég fór yfir Heysel hérna og þó það hafi verið töluvert ódýrt að skrifa þann harmleik eingöngu á stuðningsmenn Liverpool er ljóst að Everton menn hugsuðu þeim þegjandi þörfina.

Núna í seinni tíð hefur Liverpool alltaf verið fyrir þegar Everton sér vonarglætu. Árið 2005 var frábært fyrir þá, liðið náði 4. sæti í deildinni og var fyrir ofan Liverpool. Auðvitað vann Liverpool þá meistaradeildina aftur eftir 21 árs pásu, m.v. núverandi reglur hefði þetta þýtt að Everton fengi ekki þáttökurétt í meistaradeildinni. Þeir sluppu við það en féllu úr leik í umspili fyrir riðlakeppnina og fóru því ekki í sjálfa meistaradeildina.

Þegar Liverpool var stórlaskað að jafna sig eftir tíma Hicks og Gillett drógust liðin saman í undanúrslitum bikarsins. Liverpool gat ekki rassgat í deildinni og Everton sá alvöru séns á að slá þeim rauðu við. Það tókst ekki og líklega til að gera þetta enn verra fyrir Everton menn var Dalglish aftur farinn að stjórna Liverpool. Það sem þeir hljóta að hata hann.

Liðin hafa verið saman á töflunni í lok fimm af síðustu sex tímabilum og núna síðustu tvö hefur Everton verið fyrir ofan en alltaf í sætum sem skipta engu máli.

Núna þegar álögum Sir David Moyes hefur loksins verið aflétt af Everton og liðið tekur skref uppá við í töflunni og eygir baráttu um sæti í meistaradeildinni er auðvitað besta ár Liverpool í áraraðir og liðið í toppbaráttu. Hversu dæmigert er það fyrir Everton menn?

Það eru ullarhattar meðal allra stuðningsmannahópa og margir geta líklega sagt hryllingssögur af samskiptum sínum við þá bláu. Persónulega héðan af Íslandi hef ég ekki náð að byggja upp mikið óþol gagnvart þeim enda afar lítið í návígi við þá og ekki höfum við farið svo illa út úr viðureignum liðanna. Ekki einu sinni þegar þeir voru upp á sitt allra besta.

Því meira sem ég les mig til um Hillsborough hinsvegar, því meiri virðingu ber ég fyrir Everton.

http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2202032/Hillsborough-papers-revealed-Police-attempted-blame-Liverpool-fans-disaster.html
Mynd af vef Daily Mail

18 Comments

  1. Nú ég sé ekki betur enað Morgunblaðið taki það sérstaklega fram að lögreglan opnaði hlið fyrir 2000 manns sem höfðu safnast saman fyrir utan það eftir að leikur hófst og að þeir hafi verið miðalausir. Hvort tveggja hluti af yfirhylmingu Yorkshire Police.

  2. Hörmulegt slys og magnað að sjá þessar tilfinningar sem hafa einkennt okkar stuðningsmenn.En þetta er allt eins og handrit.Eftir öll þessi ár fá stuðningsmenn og fjölskyldur uppeisn æru,sigra í raun rotið kerfi og verða síðan meistarar og sigra rotin lið eins og city og chelsea.Það væri ótrúlega sætt að sigra chelsea þar sem þeir stálu bæði williams og sallah af okkur.

  3. veit ekki hvort það sé hægt að bæta inní síðasta komment mitt en Sterling og Sturridge voru tilefndir sem besti ungi leikmaðurinn

  4. Finnst alltaf eins og Everton sé litli bróðir Liverpool. Liðin meiga atast í hvort öðru en ef aðrir fara að atast í Everton eða þeim gengur illa þá stend ég með þeim.

    Virði Everton mikið fyrir þeirra stuðning.

  5. Hjartanlega sammála þér Babu. Aldrei getað hatað Everton af sömu ástríðu og SSteinn. Manchester United hinsvegar er alveg á pari við óþol SSteins gegn Everton.
    Er líka sammála því að með árunum ber ég meiri og meiri virðingu fyrir þeim bláu og vona í raun að þeir nái fjórða sætinu í ár. Hafa allavega verið að spila nógu góðan bolta til að eiga það skilið.

  6. eg verð að taka undir það að Everton er hja mer að fa meiri og meiri virðingu.. virðast algjörir toppmenn þeirra aðdáendur, einnig komnir i dag með flottan stjóra og spila skemmtilega knattspyrnu.. eg myndi óska þess að þeir næðu 4 sætinu a kostnað arsenal en eg se það svo sem ekki gerast þvi miður.

    ef það eru einhver lið sem eg gersamlega HATA út af lífinu þa eru það auðvitað Man Utd nr 1-2 og 3 og a eftir þeim kæmi Chelsea i sætum 3- 10 …

  7. Allir Everton menn sem ég þekki eru hinir vænstu gaurar. Mér finnst ég geta greint týpur eftir því hvaða lið þeir styðja. ManU menn eru t.d. auðþekkjanlegir á FM957 útlitinu, tanaðir og finnst Beyoncé vera gjöf Guðs til tónlistarinnar. Arsenal menn eru gjarnan menntamenn og fagurkerar en við Púlarar erum hálfgerðir “bolir inni við bein” rétt eins og Everton dúddarnir.

    Ég gæti haft löng skrif um þetta með rökstuðningi og tilgátusmíði. Alla vega, það er fínt að drekka bjór með Everton mönnum og sötra rauðvín með Arsenal mönnum en mér þykir lítið varið í að orkudrykkjaþamb með ManU liðum.

    Það ber að þakka fyrir þessa fínu grein sem er viturleg að mínum dómi. Það kemur fyrst í ljós út hvaða efni fólk er gert þegar strítt er við mótlæti. Framkoma Everton fólksins er stórmannleg og minnir á að það býr fegurð og kærleikur í sorginni.

    Það væri mjög við hæfi ef Liverpool sigraði PL og Everton kæmist í Meistaradeildina. Réttlætið á að sigra og þeir réttlátu eiga að uppskera.

  8. Guderian með comment ársins: “Alla vega, það er fínt að drekka bjór með Everton mönnum og sötra rauðvín með Arsenal mönnum en mér þykir lítið varið í að orkudrykkjaþamb með ManU liðum.”

  9. Jæja ef Sturridge er ekki með þá eru tveir vagmöguleikar.

    1. Gerrard, Allen Lucas miðja(frekar neikvæð) með Coutinho,Sterling, Suarez fyrir framn

    eða

    2. Gerrard, Allen, Couthinho miðja með Aspas/Moses, Sterling og Suarez.
    Líklegast Moses

    Hvað vilja menn sjá?

  10. Vil helst ekki sjá Aspas og Moses nálægt byrjunarliðinu.

    Aspas átti eitthvað stjörnuviðtal á versta tíma um daginn auk þess að hafa sýnt nákvæmlega ekki neitt. Moses hefur hæfileika en nennir þessu bara ekki sem er verra en að hafa ekki hæfileikanna.

    Spurning hvort það sé ekki hægt að fá Ibe til baka frekar – myndi alltaf koma meira úr honum en A&M. Kannski Teixeira eða Alberto. Ég held samt að Sturridge sé alltaf að fara að spila þennan leik. Ef ekki vil ég frekar Lucas eða unglinga en hina tvo. Bara allt frekar en þá.

  11. Rétt að taka fram varðandi tengingu liðanna vegna Hillsborough að flest öll önnur lið sýndu einnig gríðarlegan klassa strax í kjölfarið.

    Arsenal braut reglur enska knattspyrnusambandsins sem var með hausinn á bólakafi upp í rassgatinu og hætti á að missa stig í toppbaráttunni þegar þeir neituðu að spila deildarleik stuttu eftir Hillsborugh af virðingu við þá látnu. FA fór fram á að leikurinn færi fram.

    United styrkti minningarsjóð þeirra sem fórust strax mjög veglega og Alex Ferguson bauð hvaða leikmann United sem er til að aðstoða leikmenn Liverpool við að heimsækja aðstandendur þeirra látnu sem og þá slösuðu.

    Endalausar sögur í þessum dúr. Sjá brot af því hér.

  12. Sælir félagar

    Allir þeir sem eitthvað hafa dvalið í Liverpool borg vita að allar fjölskyldur eru klofnar í Liverpool- Everton stuðningmenn.

    Ég var í Liverpool í mánaðartíma og bjó inni á fjölskyldu þar. Þar var mér sagt að engin fjölskylda í borginni væri bara Liverpool eða bara Everton. Þessi fjölskylda sem ég bjó hjá var nokkuð stór og þar var strákur (15 ára) sem var byrjaður að æfa með Liverpool en hafði æft með Everton alla yngstu flokkana.

    Mamma hans var Everton og pabbi hans Liverpool. Allur hans frændgarður skiptist alla vega milli þessara tveggja liða. Hann átti systkini sem skiptust milli liða og svona er þetta um alla borg þó stuðningmenn Liverpool séu fleiri. Berum virðingu fyrir góðum andstæðingum okkar sem sýna drengskap á ögurstundu.

    Það er nú þannig

    YNWA

  13. Frábær pistill, takk fyrir mig.

    Algjörlega sammála mönnum hér að Everton hafa öðlast meiri virðingu á þessu tímabili og auðvitað hafa stjóraskiptin mikið til um það að segja. Martinez var með frábæra ræðu á Hillsborough minningarathöfninni og hann virkar afar viðkunnalegur fír. Auðvitað hefur frábær fótbolti þeirra í vetur haft mikið um þetta að segja enda fáir sem nenna kick and run bolta eins og moyes, fat sam og pulis bjóða upp á.
    Ég virkilega, virkilega vona að Everton nái fjórða sætinu í stað arsenal. Það væri líka sterk skilaboð til fótboltaheimsins að í Liverpool eru tvö sterk lið og leikmenn ættu vitanlega að horfa þangað hýrum augum enda er fótboltinn hjartans mál hjá borgarbúum þar.

    Fyrst að fólk er að tala um ,,hatursstigin” að þá er manjhú auðvitað nr.1. Chel$kí númer 2 og tottenham hotsmurfs nr.3.

    Það er nú bara þannig sko 🙂

  14. Hvað Hillsbourgh-slysið varðar, þá horfði ég á leikinn í beinni útsendingu og varð vitni af þessum harmleik, það mun alltaf sitja í mér, að sjá fólk þjást svona er eitthvað sem mun aldrei líða manni úr minni. Ég man vel að fyrst héldu menn að enn ein slagsmálin væru að brjótast út en fljótlega kom í ljós að svo var ekki. Sá Heysel einnig og það var ótrúlega sorglegur atburður einnig. Sá leikur átti aldrei að fara fram þann daginn.

    Byrjunarliðið á móti norwich: Treysti Moses 100% til að stökkva inn í liðið núna ef Sturridge forfallast. Hann býr yfir góðum gæðum og hraða og getur vel skorað mörk.
    Finn að púlsinn hækkar ört þegar ég fer að hugsa um þennan leik, úff!!

  15. Ég væri algjörlega til í að sjá Everton enda í 4. sæti. Ekki olíufélag + klassaþjálfari. Það verður æ erfiðara að hata þá!

Meistaradagar í ReAct! [auglýsing]

Norwich City á páskasunnudag