Norwich City á páskasunnudag

Erum við viss um að staðan í deildinni sé rétt? Erum við ekki bara að misskilja eitthvað hérna? Þið fyrirgefið en ég verð aðeins að fara yfir það sem gengið hefur á frá áramótum til að ná áttum á þessu öllu saman.

2014: 15 LEIKIR

Áramót 2013/14: Liverpool er í 5. sæti deildarinnar, sex stigum frá Arsenal á toppnum. Liðið sat í toppsætinu í haust og aftur um jólin, okkur til óvæntrar ánægju, og við erum almennt brosandi yfir því að liðið virðist vera á góðri siglingu í baráttunni um topp-4. Liðið rann hratt aftur á bak milli hátíða með tveimur tapleikjum gegn Manchester City og Chelsea. Við kvörtum yfir að dómgæsla hafi kostað okkur í báðum viðureignum en sannleikurinn er að bæði lið skoruðu tvö góð mörk á okkar menn og við segjum öll í kór að liðið geti ekki unnið leiki þar sem það fær á sig tvö mörk. Við erum alveg með það á hreinu.

1. janúar. Hull á Anfield. 2-0: Árið byrjar með sigri í tíðindalitlum leik. Agger og Suarez skora mörkin í fjarveru Sturridge, sem er búinn að vera meiddur í rúman mánuð, og í fjarveru Gerrard fær Suarez að bera fyrirliðabandið sem verðlaun fyrir magnaðan desembermánuð þar sem hann setti met með 10 mörkum á einum mánuði.

12. janúar. Stoke City á Britannia. 5-3: Eftir sigur á Oldham í bikarnum mætir liðið á einn af sínum hötuðustu völlum. Hér töpum við alltaf stigum, nema hvað að í ár er einhver sturlun í gangi og Liverpool skorar fimm mörk. Charlie Adam og Peter Crouch skora fyrir Stókarana en Sturridge er mættur aftur og hann og Suarez eru geðveikir. Þeim halda engin bönd í vetur og Sturridge skorar mark eftir að hafa haldið boltanum á lofti eins og selur með nefinu frá endalínunni. Við klípum okkur, hvað í andskotanum vorum við eiginlega að horfa á?

18. janúar. Aston Villa á Anfield. 2-2: Ömurlegur fyrri hálfleikur, einn sá versti undir stjórn Rodgers. Sturridge og Gerrard bjarga jafnteflinu en liðið virðist ekki hafa nægt púður í byssunum til að skora sigurmark þótt þeir hafi hálftíma til þess eftir að jafna. Rodgers prófar að nota Gerrard aftast á miðjunni og hann er ömurlegur. Við erum sultusvekkt, heimtum að Gerrard spili aldrei aftur þarna og að nú bara verði að kaupa þennan Konoplyanka frá Úkraínu til að auka sóknarmöguleikana, annars fer illa í vetur. Við erum alveg með það á hreinu.

28. janúar. Everton á Anfield. 4-0: Eftir sigur á Bournemouth í bikarnum kemur fyrsti stórslagur ársins. Everton hafa bara tapað tvisvar í vetur og við erum skíthrædd við þennan leik, þótt við séum of stolt til að segja það upphátt. Sturridge er geðveikur, skorar tvisvar og klúðrar víti þegar hann hafði séns á að tryggja þrennuna. Er svo eigingjarn í næsta færi á eftir, skýtur þegar hann átti að gefa og er tekinn út af með það sama. Erum við í alvöru að skammast út í Sturridge fyrir að hafa skorað tvennu gegn Everton? Skiptir engu, við slátrum þeim og setjum smá bil á milli okkar í deildinni. Þeir eiga ekki eftir að sjá okkur aftur í töflunni.

2. febrúar. West Brom á The Hawthorns. 1-1: Djöfulsins klúður. Suarez og Sturridge skapa forystu í fyrri hálfleik og liðið virðist vera að sigla þessu nokkuð rólega í höfn þegar Kolo Touré ákveður að bæta lýsingarorðinu kærulaus á ferilskrána sína. West Brom veitir ekki af jólagjöf í febrúar í sinni baráttu en þetta eru tvö töpuð stig. Við erum enn í topp-4 en 8 stigum á eftir Arsenal og ekkert útlit fyrir að það bil verði brúað ef liðið ætlar að gefa stig gegn liðum eins og West Brom og Villa í ár.

8. febrúar. Arsenal á Anfield. 5-1: HVAÐ?!? Geturðu sagt þetta aftur? Fimm eitt?!? Annar heimaleikurinn í röð þar sem stórlið er tekið og gjörsamlega kjöldregið. Staðan er orðin 4-0 eftir 20 mínútur, tölfræði sem er svo ótrúleg að ég þarf nokkur ár til að trúa henni. Menn spá því að þessi sigur komi okkur á beinu brautina í baráttunni um topp-4 og menn spá því líka að Arsenal-lið sem getur tapað svona illa úti gegn keppinautum sínum vinni titilinn ekki í ár. Við erum alveg með það á hreinu.

12. febrúar. Fulham á Craven Cottage. 3-2: Þetta er í raun fyrsti leikurinn þar sem menn segja upphátt orðin „af hverju ekki?“ Liðið lendir tvisvar undir og vörnin er úti að aka en á einhvern hátt nær liðið í sigur í uppbótartíma í leik sem hefði alltaf tapast í fyrra og hittífyrra. Gerrard setur vítið í blálokin og rífur sig úr treyjunni en menn gera ekki svoleiðis fyrir fjórða sætið. Er þetta lið að stefna hærra? Eigum við þá að horfa hærra líka? Það getur ekki verið. Við erum jú einu sinni Liverpool. Við vinnum ekki deildina.

23. febrúar. Swansea á Anfield. 4-3: Eftir svekkjandi tap gegn Arsenal í bikarnum mæta gömlu lærisveinar Rodgers á Anfield og enn og aftur sjáum við Liverpool vinna leik sem það hefði sennilega tapað stigum í fyrir ári síðan. Miklu betri í fyrri hálfleik, miklu verri í seinni hálfleik en samt finnur liðið einhvers staðar sigurmark. Jonjo Shelvey minnir á sig með mögnuðu marki en Jordan Henderson er betri og gerir betur með tvennu. Eftir leik horfi ég með Sigursteini kollega mínum á Kop.is á stuðningsmennina syngja “Poetry in motion” í fyrsta skiptið. Við Steini ákveðum að horfa bara upp fyrir okkur fram á vorið og njóta þess í botn að vera yfir höfuð með í umræðunni um titilinn. City eða Chelsea eru samt alltaf að fara að vinna þennan titil, það erum við með á hreinu. En það er gaman að fá að fljóta með.

1. mars. Southampton á St. Mary’s. 3-0: Fram undan eru þrír erfiðir útileikir. Southampton hafa verið erfiðasta liðið fyrir Rodgers að ná tökum á, erkifjendur United munu selja sig dýrt á Old Trafford og Cardiff spila stórkallaboltann sem við höfum oft átt erfitt með. Menn gera sér vonir um á bilinu 4-7 stig í þessum leikjum. Bjartsýnni menn eru afskrifaðir hratt. En svo vinnur liðið bara ÞRJÚ núll á St Mary’s. Létt. Easy, who are ya? Hvað er eiginlega að gerast hérna? Þessi leikur er svo óspennandi að ég horfi á hann heima með öðru auganu, eins og ég sé bara vanur því að mínir menn slátri Southampton. Hvað er eiginlega að gerast hérna?

16. mars. Manchester United á Old Trafford. 3-0: United eru svo lélegir í aðdraganda þessa leiks, og Liverpool svo góðir, að ég spái Liverpool nánast skyldusigri í þessum leik. Liverpool mætir á Old Trafford og vinnur í leik sem er eiginlega aldrei í hættu og sigurinn gæti verið stærri. Gerrard tekur Sturridge á þetta og klúðrar þrennunni úr víti. Suarez skorar lokamarkið og fagnar með Gerrard fyrir framan Patrice Evra. David Moyes er enn stjóri United eftir leikinn. Þeir voru efstir í fyrra og eru núna í sjöunda sæti. Við vorum í sjöunda sæti í fyrra en erum núna fjórum stigum á eftir Chelsea í efsta sætinu og farnir fram úr Arsenal, sem virtist langsótt fyrir fimm vikum síðan. Menn klípa sig, fast, en vakna ekki.

22. mars. Cardiff City á Cardiff City Stadium. 6-3: Cardiff eru að fara að falla og Óli Gunnar LOLskjær er í fýlu út í Liverpool. Skiptir engu. Þeir komast tvisvar yfir en auðvitað vinna okkar menn samt, skora sex eins og ekkert sé. Suarez hleður í þrennu enda fáránlega langt síðan síðast (desember, það er langt ef þú heitir Luis Suarez). Menn eru opinberlega byrjaðir að telja sigurleikina og liðið var að taka þrjá í röð á útivelli eins og ekkert sé. Enginn trúir því sem er í gangi.

26. mars. Sunderland á Anfield. 2-1: Liðið er hyllt á leiðinni inná Anfield eins og sigursæl herfylking hafi snúið heim eftir landvinninga. Sem er nákvæmlega það sem marsmánuður var. Liðið hefur ekki spilað á Anfield í mánuð og hér sést örla á eilitlu stressi yfir stöðunni. Sigurinn hefst með herkjum, sá sjöundi í röð, og liðið er skyndilega bara stigi á eftir Chelsea í toppsætinu. City eiga þó tvo leiki til góða. Bæði þessi lið koma á Anfield í apríl. Getur liðið haldið dampi þangað til og gert þá leiki spennandi?

30. mars. Tottenham á Anfield. 4-0: Sennilega auðveldasti sigur tímabilsins. Tim Sherwood situr allan leikinn uppí stúku og segir eftir leik að það hefði engu skipt þótt hann mætti í vinnuna á hliðarlínunni. Gæðamunurinn á liðunum er algjör. Við unnum þá samt 5-0 á útivelli í desember, sem er ennþá betra. Allir hlæja að Tottenham. Þeir héldu að þeir væru með’etta. Þeir eru ekki með’etta.

6. apríl. West Ham á Upton Park. 2-1: Allir eru skíthræddir við þennan leik. Big Sam kann að leggja rútunni og sækja á 4-5-skallatennis leikkerfinu og hann hatar Liverpool. Allir eru sannspáir þar sem þessi leikur er stórkostlega erfiður. Þeir fá gefið ruglmark ársins rétt fyrir leikhlé og allt virðist borðleggjandi fyrir eitt stykki gamaldags hrun eftir hlé en í staðinn eru okkar menn bara með tök á öllu, sækja forystuna á ný og sigla þessu svo í höfn. Síðan hvenær er Liverpool-liðið svona yfirvegað? Þetta er níundi sigurleikurinn í röð. Gengið í deildinni er svona: WWW WWW WWW og liðið er komið í toppsætið. City á enn leiki til góða en Chelsea töpuðu óvænt fyrir Crystal Pulis. Hvað er að gerast hérna?

13. apríl. Manchester City á Anfield. 3-2: Tilfinningaþrungin vika þar sem Hillsborough-rannsóknin er í fréttunum og deildir um alla Evrópu minnast þess að 25 ár eru liðin frá þeim skelfilega harmleik. 24 ár eru liðin síðan Liverpool vann titil og það virðist ákveðin symmetría í þessum tveimur löngu biðum eftir deildartitli og réttlæti fyrir hina 96 og fjölskyldur þeirra. Tilfinningarnar flæða yfir um eins og í sjóðandi potti á fallegum sunnudegi á Anfield. Okkar menn eru frábærir í hálftíma, svo eru City-menn frábærir í hálftíma, svo er þetta lokasprettur þar sem winner takes it all. Og winnerinn er Phil Coutinho. Allt ætlar um koll að keyra, leikirnir sem City eiga inni gilda ekki lengur, sigurleikirnir eru orðnir tíu, Gerrard tárast í leikslok og heldur svo þrumuræðu yfir liðinu inná vellinum. Þetta er of mikið. Ég get þetta ekki lengur. Liverpool FC er fjórum leikjum frá því að gera hið ómögulega.

Og þá komum við að Norwich. City gerðu óvænt jafntefli við Sunderland á heimavelli í vikunni og því eru okkar menn í enn sterkari stöðu. Staðan, í hnotskurn, er þessi: þrír sigrar og jafntefli gegn Chelsea skila titli sama hvað Chelsea og City gera í sínum leikjum. Misstígi liðið sig einhvers staðar gegn Norwich, Crystal Pulis eða Newcastle verður liðið að vinna Chelsea eða treysta á að önnur lið hirði af þeim og City stig. Þetta er áfram erfitt en á einhvern ótrúlegan hátt virðist þetta allt vera að falla meira og meira með okkur með hverri umferðinni sem líður.

Einn leik í einu segja samt Brendan Rodgers og Steven Gerrard og allir aðrir.

NORWICH CITY

Andstæðingarnir á páskasunnnudagsmorgun eru Norwich City. Þeir eru það lið sem Rodgers hefur gengið best með síðan hann kom til Liverpool; í þremur deildarleikjum gegn þeim höfum við unnið 5-2 úti, 5-0 heima og svo síðast 5-1 heima í desember. Suarez hefur skorað þrennu, eitt og fernu gegn þeim auk þess sem hann skoraði þrennu gegn þeim vorið 2012 undir stjórn Dalglish. Rodgers er því með 9 stig af 9 mögulegum og markatöluna 15-3 í þremur leikjum og Suarez er með 11 mörk í 4 síðustu leikjum gegn Kanarífuglunum. Vá.

Annars er skemmst frá því að segja að Norwich eru í stórkostlegum vandræðum. Þeir héldu sér uppi nokkuð örugglega á fyrsta ári sínu í Úrvalsdeild undir stjórn Paul Lambert. Hann fór frá þeim og tók við Aston Villa fyrir tveimur árum og í staðinn var Chris Hughton ráðinn. Hann hélt þeim einnig nokkuð örugglega uppi í fyrra og byrjaði ágætlega í vetur, var örugglega um miðja deild eða þar rétt fyrir neðan þar til í febrúar en síðan þá hefur liðið hrunið og náð aðeins í 8 stig úr 11 síðustu leikjum. Hughton var rekinn í síðustu viku og unglingaliðsþjálfarinn Neil Adams fékk í staðinn það verkefni að halda liðinu fyrir ofan fallsætin. Þeir eru í 17. sæti í dag, tveimur stigum frá fallsætinu, og hafa ekki verið í fallsæti síðan að þeir laumuðust rétt snöggvast niður í 18. sætið í 9.-10. umferð en fóru svo upp aftur.

Hvers vegna eru þeir þá að panikka svona? Af því að síðustu fjórir leikir þeirra í deildinni eru svona:

 • Liverpool (h)
 • Man Utd (ú)
 • Chelsea (ú)
 • Arsenal (h)

Shit. Með öðrum orðum, þá nægir Fulham fyrir neðan þá í raun einn sigur og þá er bara orðið nokkuð líklegt að Norwich nái ekki í stigið sem þeir þurfa til að halda sér uppi. Þetta leikjaplan gerir það að verkum að þeir eru að halda í síðustu hálmstráin um helgina, þrátt fyrir að vera enn ekki í fallsæti. Skrýtið en satt.

Adams gerði miklar breytingar á liðinu í sínum fyrsta leik um síðustu helgi, þar sem þeir heimsóttu einmitt Fulham og töpuðu 1-0. Hann stillti upp 4-5-1, lagði mikla áherslu á miðjuleikinn og setti framherjann Ricky van Wolfsvinkel inn í framlínuna en sá hafði misst traust Hughton fyrr í vetur. Van Wolfsvinkel kostaði slatta síðasta sumar og var hátt skrifaður og til mikils ætlast. Hann skoraði mark í fyrstu umferð deildarinnar en hefur ekki skorað síðan fyrir Norwich, en Adams virðist ætla að veðja á að hann geti komið stjörnustrækernum sínum í gang og að sá muni vinna kraftaverkið sem þeir þurfa.

Í leiknum gegn Fulham voru þeir meira með boltann og talsvert betri aðilinn í leiknum. Felix Magath, stjóri Fulham, talaði um að hans menn hefðu ekki átt sigurinn skilið og hann væri því ekki ánægður í leikslok, sem segir sitt um frammistöðu Norwich. Þeir hefðu átt að skora nokkur mörk í leiknum en með framherja í dauðadái og miðjumenn sem skortir sjálfstraust er erfitt að stíga lokaskrefið.

Ofan á þetta bætist svo að vörnin hjá þeim er sennilega sú lélegasta í deildinni í vetur (ásamt Fulham sem hafa fengið flest mörk allra liða í stóru deildum Evrópu á sig). Og svo er Luis Suarez á leiðinni í heimsókn.

Ég býst engu að síður við að Norwich selji sig dýrt í þessum leik. Þeir gætu valdið okkur vandræðum á miðjunni og ef van Wolfsvinkel tæki upp á því að hrökkva í gang gegn okkur yrði maður hreinlega bara að yppa öxlum og segja að einhvers staðar hlaut þetta að hætta að rúlla fyrir okkur.

Ég er hins vegar á því að Liverpool á alltaf að skora fleiri mörk á þessa vörn en þeir skora á sjóðheita miðverði okkar. Víkjum okkur að því sem öllu máli skiptir, Liverpool-liðinu.

LIVERPOOL

Brendan Rodgers sat blaðamannafund á fimmtudag og sagði fátt óvænt: Jordan Henderson er í leikbanni og Daniel Sturridge er tæpur í þennan leik, allir aðrir sem hafa verið heilir eru það áfram. Hann hefur í raun enga ástæðu til að breyta byrjunarliðinu, og hefur ekki verið að breyta sigurliði mikið í vetur, nema vegna þess að Henderson og væntanlega Sturridge eru ekki tiltækir í byrjunarlið í þetta sinn. Ég vona að þeir setji Sturridge á bekkinn frekar en að taka einhverja sénsa svo hann geti byrjað. Ég vil frekar hafa hann á bekknum eða uppí stúku gegn Norwich og heilan gegn Chelsea en að taka séns og missa hann út tímabilið.

Ekki skilja það svo að ég sé að horfa meira á Chelsea. Sturridge hefur hvort eð er verið mistækur í síðustu 2-3 leikjum sínum og það gæti komið liðinu ágætlega að vera án hans gegn fimm manna miðju sem leggur áherslu á að vinna baráttuna um boltann.

Ég spái því einmitt að Rodgers muni nota tækifærið og setja inn tvo miðjumenn í stað Henderson og Sturridge, þétta miðjuna með góðan pakka á bak við Suarez frammi. Hinn valkosturinn er að setja annað hvort Victor Moses eða Iago Aspas inn í liðið og ég sé það ekki gerast; Moses yrði alltaf að víkja aftur gegn Chelsea þar sem hann má ekki spila gegn þeim, sem myndi koma meira róti á liðið, og Aspas er bókstaflega sá eini sem hefur verið að kvarta yfir litlum spilatíma sem hefur gert það að verkum að hann hefur varla fengið að hita upp, hvað þá spila, fyrir Rodgers síðan hann fór í blöðin.

Ég spái því að Joe Allen og Lucas Leiva komi báðir inn við hlið Steven Gerrard í þessum leik. Allen er sá besti sem við eigum til að halda uppi svipaðri pressu og Henderson hefur verið að gera og Lucas sýndi gegn West Ham að hann getur alveg spilað fyrir framan Gerrard á miðjunni, en hann bjó til sóknarfærið sem við fengum sigurvítið úr í þeim leik.

Það er annað mikilvægt við að setja þá báða inn og það er að við getum ýtt sjóðheitum Sterling og Coutinho enn framar á völlinn í fjarveru Sturridge. Vörnin verður óbreytt og með þessum breytingum ættum við að sjá þessa leikaðferð á sunnudaginn:

BlWGBIVIgAAHMD7

MÍN SPÁ

Maður fyrir mann erum við með betra lið en Norwich. Betri markvörður, betri vörn, betri miðja og margfalt betri framherji. Okkar leikmenn hafa miklu meira sjálfstraust í dag, knattspyrnustjórinn okkar er að starfa á algjörri hámarksgetu á meðan þeirra stjóri er ungur og að reyna að ná tökum hratt á drulluerfiðri stöðu. Ofan á það bætist að Norwich eru happamótherjinn okkar og að Luis Suarez, einn þriggja bestu leikmanna heims í dag, elskar fátt meira en að mæta þessu liði og virðist skora að vild gegn þeim (þ.m.t. tvisvar frá miðju síðustu tvö árin. TVISVAR!).

Af hverju er maður þá svona stressaður fyrir þennan leik? Af því að það er svo mikið undir. Jafntefli eða tap hér gerir stöðuna aftur erfiða fyrir okkar menn og stillir liðinu upp við vegg varðandi það að þurfa sigur gegn Chelsea. Sumir eru kannski hræddir við að það er nákvæmlega allt á pappírnum okkur í hag fyrir þennan leik en ég er hræddari við stressið sem verður á liðinu í þessum fjórum umferðum.

Liðið vantar eitt stig til að tryggja topp-4 og einn sigur til að tryggja sig á meðal þriggja efstu í vetur. Það er ótrúlegt eitt og sér, og enn ótrúlegra er að vera efstir og í hörkubaráttu um titil á lokametrunum, en þetta lið okkar er engu að síður ungt og þótt þarna séu að störfum íþróttasálfræðingar og hvaðeina þá bara hlýtur pressan einhvern tímann að segja til sín. Hún gerði það næstum því í seinni hálfleik gegn Sunderland og hún gerði það klárlega eftir hlé gegn City um síðustu helgi. Í bæði skiptin náðu menn samt að grafa djúpt og finna það sem til þarf til að klára leikinn.

Ég ætla að spá því að stressins vegna muni þetta ekki vera jafn auðvelt verkefni fyrir liðið og Norwich hafa venjulega verið. Það kæmi mér ekkert á óvart að sjá óvandaðar sendingar, lítinn rythma í spilamennskunni og jafnvel óvenjulegan klaufaskap fyrir framan bæði mörk. Þeirra séns er að skora á undan og vona að okkar menn fari á taugum, sem er í raun ekkert svo fjarstæðukennd von miðað við pressuna á Liverpool.

Engu að síður ætla ég að spá okkur sigri. Liðið verður kannski stressað en það hefur verið að sýna að það hefur karakter og hæfileika til að klára leikina, líka þegar þeir eru ekki að falla með okkur eða hlutirnir eru ekki að ganga vel (Fulham, Cardiff, Sunderland, City). Þetta verður þungt próf en okkar menn munu standast það. Við vinnum þetta 3-1 með tveimur mörkum seint í leiknum. Suarez skorar en ekki þrennu.

Þrjú stig á sunnudaginn, ég hef fulla trú á því. Og áfram syngjum við, poetry in motion, tra lala lala …

Áfram Liverpool!

170 Comments

 1. Flott upphitun að vanda. Þurfum ekkert að vera stressaðir fyrir þessum leik. 5-0 og Suarez setur fimmu og bætir sinn besta árangur í deildinni til þessa.

 2. From seventh to the top
  Make us dream says the kop
  We shall stand together
  Cause we‘ll never walk alone
  Well fight to the end its true
  Cause after all we are liverpool
  Its a poetry in motion they say
  We shall be crowned champions we pray.
  3-2 fyrir liverpool!

 3. Allt bendir til sigurs í þessum leik, það verður þó miklu erfiðara en menn gera ráð fyrir og aldrei þessu vant mun Suarez ekki skora. Ég spái sigurmarki úr óvæntri átt, Lucas skorar á 83. mínútu í 0-1 eða 1-2 sigri.

  En auðvitað vona ég samt að Suarez skori fimm mörk í 0-7 sigri.

 4. Ahverju ætti maður ekki að vera hrikalega stressaður fyrir hvern einasta leik þegar hver einasti leikur er úrslitaleikur um 1 sætið. City missteig sig gegn Sunderland flest allir töldu það örugg 3 stig.
  Trúi því að Liverpool verði kominn með 80 stig áður en við mætum chelsea.

 5. Komið að næsta leik. Stress, aftur 🙂 en líka eftirvænting því við eigum besta sóknarlið í heimi í dag. Ég vona að stressið verði ekki gleðinni yfirsterkari og að við vinnum þennan leik. Vona að við höldum hreinu, og að við náum að setja þó það væri ekki eitt, en við VERÐUM bara að vinna því eftir þennan leik er cel$ki.

  Vonandi getum við haldið áfram að dreyma eftir þennan leik, og áfram sunderland og Borini 🙂

 6. Klassaupphitun að vanda. Gaman að lesa um pælingarnar í kringum þetta frá áramótum.

  Þetta verður ekkert mál. 5-0 sigur, upprúllun af bestu gerð. Þetta lið hefur ýtt stressfaktornum í burtu trekk í trekk og gerir það líka núna. Fullkomlega sammála með uppstillinguna, þetta velur sig nánast sjálft.

  Gleðilegan páskadag, dömur og herrar.

 7. Þessi upphitun er jafn góð og spilamennska liðsins hefur verið í vetur; frábær. Erfiður leikur, rétt eins og Gerrard sagði um daginn; „City leikurinn er ekki sá sem ég kvíði mest fyrir, heldur Norwich leikurinn.“

  En maður lifir í voninni um hagstæð úrslit.

  YNWA!

 8. Ég fór að gamni mínu inná spjallsíðu hjá Norwich stuðningsmönnum. Þar var upphafspósturinn á þá leið að þeirra besti möguleiki væri stress faktorinn hjá okkar mönnum. Sá sem það ritaði vildi meina að hann greindi veikleikamerki í ræðu okkar kæra fyrirliða eftir leikinn gegn City, sagði hann augljóslega örvæntingafullan að ná loks að landa titlinum. Bæði það og sú gríðarlega pressa sem fylgir því að vera í bílstjórasætinu gæti orsakað að leikmenn geri mistök og taki órökréttar ákvarðanir.

  Er ég las áfram niður síðuna varð mér fljótt ljóst að aðrir stuðningsmenn Norwich deildu ekki sömu skoðun og töldu flestir að þetta væri eingöngu spurning um hversu stórt þeir tapi :).
  Vonum að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér þó svo að ég sé skíthræddur við þennan leik.

  Þessi leikur ætti að vera sá léttasti af síðustu fjórum en því miður eru engir auðveldir leikir í þessari deild. Við gerum kröfu um sigur en ég myndi vilja vinna þetta sannfærandi og senda þannig skilaboð til keppinautanna. Ég ætla að gerast svo kræfur að spá okkur 0 – 4 sigri en yrði ekki hissa ef við myndum eingöngu merja þetta með einu marki.

 9. Flott upphitunn. Þetta er mikilvægasti leikur tímabilsins, eins og allir aðrir þegar að þeim kemur héðan af. Sammála með byrjunarliðið.

  Annars duga 3 sigrar og 1 jafntefli óháð því gegn hverjum það er, ekki að það skipti miklu. Mikilvægi þess að sigra þennan leik er líka að geta farið í Chelsea leikinn og dugað jafntefli, eða réttara sagt til að þvinga Mourinho í stöðu til að sækja – sem hann kann auðvitað ekki.

  Var að renna yfir hópinn hjá Norwich og þetta er einstaklega hæfileikasnauður hópur. Annars ætla ég að spá því að Norwich verði með 5 í maður á mann dekkingu á Suarez og Sterling skori þrennuna og Skrtel&Coutinho með sitthvort, 0-5.

 10. Sælir félagar, er ekki Suarez kominn með 5 gul spjöld eftir spjaldið á sunnudag? Ætti hann því ekki að vera í banni á móti Norwich? Er einhver hér sem getur sagt mér hvort þetta sé rétt?

  Heyrði þetta bara frá vinnufélaga í dag og fór að pæla. En það virðast allir fréttamiðlar tala um að Suarez spili um helgina.

 11. Björn Kr. #12,

  Það þarf 10 spjöld fyrir annan sunnudag í apríl svo 5 stk eru víðs fjarri því að baka honum neins konar vandræði. 🙂

 12. Ef maður er ekki stressaður þegar maður er búinn að fara í rússíbana ferð með liverpool í 24 ár og hefur sú leið oftast ekki ferið mjög hátt en alltaf niður með reglulegu millibili.
  Það eru 4 umferðir eftir og við enþá með í baráttuni um titilinn og eiginlega með allt í okkar höndum( en “ljót orð að eigin vali” mourinho er auðvita líka með þetta í sínum höndum).
  Þeir sem hafa verið með mér í þessu ferðalagi( Liverpool aðdáendur síðustu 24 ár) skilja hvað ég er að tala um og hvað þetta getur stundum farið á sálartetrið að ná aldrei að vinna deildina. Þeir sem segjast ekki vera stressaðir fyrir næsta leik hafa einfaldlega ekki átt miða í þessa ferð og voru líklega í rólaheitunum í Parísarhjólinu.

  Þessi leikur er gríðarlega mikilvægur og þótt að allt bendir til þess að ef bæði lið leika á sinni getu þá vinnum við þá er maður búinn að sjá lið klúðra Englandsmeistaratitlum ár eftir ár á einhverjum svona fyrir fram léttum leikjum og ég tala nú ekki um að saga Liverpool síðan 1990-91 í deildinni er saga um næstum því góð tímabil og alltaf eitthvað klúður.

  Maður verður stressaður allt tímabilið og vona ég að strákarnir takist að næla sér í 3 stig á sunnudaginn, því það gerir það að verkum að Chelsea þarf að vinna liverpool á Anfield. Mourinho er ekki mikið fyrir það að opna leik sinna manna og setur það okkur í lykilstöðu(það þarf ekki annað en að sjá leik Chelsea – PSG þar sem Chelsea þurfti tvö mörk, það tókst hjá þeim en þetta var skelfilegur leikur hjá þeim og gátu þeir ekki opnað vörnina).

  Það sem gerir mig pínu minna stressaðan fyrir þessum leik er leikur Man City gegn Sunderland, það vantaði allan kraft í þá og maður hefur það á tilfininguni að þeir eiga eftir að tapa fleiri stigum á tímabilinu(sjá Everton og Palace úti). Það gerir það að verkum að ef okkar menn drulla á sig á Sunnudaginn og tapi fyrir Norwitch þá dugar okkur sigur í leiknum þar á eftir á Anfield til þess að koma okkur aftur á toppinn.

  Mín spá: Við byrjum af krafti en Norwitch ná að lifa af fyrstu 20 mín og leikurinn róast aðeins. Þeir eru þéttir tilbaka en eru duglegir að keyra á okkur þegar við vinnum boltan. 0-0 í hálfleik. Við erum meira með boltan og Suarez er gjörsamlega í spennutreyjuþarna á vellinum þar sem þeir ætla ekki að láta hann skora í dag. Við opnum okkur of mikið og þeir komast yfir 1-0 á 72 mín. Þá loksins fer Liverpool liðið í gang, liðið sækir og sækir og viti menn það er Joe Allen sem jafnar leikinn á 85 mín og þrátt fyrir ótrúlega sóknir af okkar hálfu þá endar þetta 1-1.
  Við verðum enþá á toppnum jafnir Chelsea fyrir næstu umferð og Man City aðeins 4 stigum á eftir og eiga leik inni. Nú er bara að klára Chelsea á heimavelli en allt um það í næsta þætti af “Gerrard og leitinn af bikarnum”

 13. Þetta er mikilvægasti deildarleikur Liverpool einfaldlega vegna þess að þetta er næsti deildarleikur liðsins. Allir leikir gefa 3 stig og við þurfum 3 stig gegn Norwich til að halda þessari rússíbanaferð áfram. Hún er stressandi en mikið djöfull er hún skemmtileg!
  Engu að síður spái ég, eins og alltaf, 1-3 tapi.

 14. Ég er hræddur um vesen gegn Norwich því með hverjum glæstum sigrinum styttist í tapleik. Á móti kemur að liðið er á sigurbraut og það kemur okkur vonandi yfir þennan þröskuld.

  Spá: sigur, sigur, jafntefli, sigur = titill…

 15. Þetta verður erfiður leikur eins og allir leikir í þessari frábæru deild. Við höfum sýnt ótrúlegan karakter í vetur og ólíkt undanförnum árum erum við að klára leiki. Ég held að það verði ekki breyting á og við klárum Norwich þó það verði ekki auðvelt.

  Það er eitthvað í loftinu og ég er sannfærður um að við munum verða meistarar í vor, eitthvað sem mann dreymdi ekki um í haust. Hver leikur er bikarúrslitaleikur eins og leikmenn hafa verið duglegir að benda á. VIð eigum eftir að klára fjóra síðustu WDWW og Gerrard lyftir bikarnum 11.maí.

  YNWA

 16. Shit.
  Ég var að ferma í gær og var frekar STRESSAÐUR að fara að gefa 100 manns að éta og allt myndi klárast eða vera vont en sem betur fer gekk það allt vel. Svo kem ég hèr í rólegheitunum inná Kop.is ( bestu netsíðu á Ísl.) og fer að lesa þessa upphitun og comment-inn á eftir, uppskeran meira stress en við það að fara að ferma. Þannig að það ég ætla bara að gera ráð fyrir því að þetta fari allt á besta veg eins og veislan, fá mér svo páskaegg yfir leiknum og njóta sigurs með 2-3 marka mun hjá okkar mönnum.
  Gleðilega páska.

 17. 0-5 Suarez með fernu og Gerrard með eitt úr víti , ekkert kjaftæði 🙂

 18. Vil sjá Sunderland taka stig á móti Chelsea á morgun. Ef það gerist, megið þið heimsækja mig á deild 14EG á Landspítalanum!

 19. Spái þessu 4-1 fyrir okkar mönnum. Ótrúlega lítið stressaður yfir þessum leik, aldrei þessu vant.

 20. Við erum 100 sinnum betri en Norwich og það vita allir, en það hjálpar mér bara ekki neitt, ég bara sef ekki tveimur dögum fyrir leik…..Úfffff..

 21. Flott upphitun að vanda.

  Sammála með uppstillinguna, þetta fer 6-0, Suarez með öll.

 22. Ég spái því að Norwich gefi leikinn fyrirfram 0 – 3 þar sem þeir vilja ekki að varnarmenn þeirra fái taugaáfall við það að mæta Luis Suarez aftur.

  Enda bíður þeirra auðveldara verkefni á Old Trafford næstu helgi.

 23. Thetta er skyldusigur en pressan er mikil og tad vantar 2 mikilvaega menn…thannig ad eg spai bara 4-1

 24. Ég hélt að leikurinn væri í dag F### þarf ég að bíða í sólahring s### jæja sammála með að betra er að hafa Allen og Lucas inná frekar en að hafa Moses,hann er ekki alveg með hugann við þetta enda chel$kí leikmaður leikurinn fer1-5 fyrir betra liðinu!

 25. Ég held að stressið í mér sé samt að mestu tilhlökkun. Ég á eftir að fara í þrjú erfið próf og eina “prófferð” áður en titlinum verður lyft í mótslok. Ég trúi því að Gerrard lyfti titlinum.

  Þessi leikur má alls ekki tapast! Ef við náum bara jafntefli, þá vinnum við Chelski – ekkert mál (og hina tvo auðvitað). Sigur heldur okkur áfram í sætinu góða og tilhlökkunin minnkar ekkert. Ég trúi.

  Frábær upphitun KAR, þú ert meistari mikill.

  Ég spái 1:4 – Suarez með tvö, Skrtel með eitt og eitt sjálfsmark.

 26. Sæl og blessuð.

  Þetta er ekki flókið. Áhyggjur af morgundeginum eru óþarfar. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur eins og þar stendur og þetta lið okkar er af þeirri hlaupvídd að það er móðgun og kinnroði að efast um gengi þeirra og farsæld á móti litlu gulu páskaeggjaungunum á morgun.

  Auðvitað getur allt komið fyrir. Rauð spjöld geta farið á loft, lykilmenn geta fengið takka í legg, skorað sjálfsmörk eða loftsteinum getur rignt yfir leikvanginn. Við skulum ekki láta áhyggjur af slíku eyðileggja eftirvæntinguna eftir heimsókn okkar til Norðurvíkur þar sem litadýrðin undirstrikar vorið í bítlaborginni.

  Sjimpansastressið verður allt hjá þeim fagurgulu og grænu. Okkar menn hafa nú þegar talað sinn Bóbó til í rólegheitum, rétt honum banana og minnt hann á að þetta er ekki vettvangurinn til þess að taka stjórnina. Þeir gera eins og CF lagði upp með að loknum síðasta leik. Það verður agressjón frá fyrstu sekúndu, háspennugegenpresse og ekkert gefið eftir. Enginn dauður tími. Norðurvíkingar fá ekki hjálp til að standa á lappir fyrr en að leik loknum. Boltapósessjón verður 80% og ég nenni ekki einu sinni að telja mörkin sem nafni og co. munu skora, en þau verða ófá.

 27. Ég hef áhyggjur af 11.maí. Frúin á afmæli en ég vonast til að vera “aðeins” í bjór á Spot.

 28. Vinni Liverpool næstu fjóra leiki verða þeir krýndir Englandsmeistarar þann 11 maí. Þessi tilhugsun er galin, en samt sem áður staðreynd. Samt þorir maður ekki að láta sig dreyma ef þeir skildu misstíga sig eitthvað í þessum leikjum sem eftir eru, því það væri svo óendanlega sárt ef þetta skildi renna úr höndum okkar á allra síðustu metrunum.

  Okkar menn verða að vinna Norwich á morgun, svo einfalt er það bara. Ég höndla ekki jafntefli og að við verðum á toppnum á markamun þegar við mætum Chelsea um næstu helgi. (Að því gefnu að Chelsea vinni sinn leik í dag.) Hjarta mitt mun ekki þola svoleiðis pressu á þessari stundu.

  Helst af öllu þurfum við nauðsynlega að vinna Norwich og svo Chelsea um næstu helgi. Þá mættum við misstíga okkur gegn Palace, sem er jú leikurinn sem ég er lang-mest hræddur við af þeim leikjum sem eftir eru. Það væri sko alveg eftir því að herra Pulis myndi gera okkur skráveifu á lokasprettinum.

 29. Sæl bræður og systur.

  Mig langar að byrja á smá skilaboðum til hans Eiríks Márs nr #31#…segðu konunni þinni að hún hafi átt afmæli á hverju ári frá því þið kynntust og mun vonandi eiga afmæli á hverju ári hér eftir…EN það eru 25 ár síðan Liverpool varð meistari og ef það myndi gerast núna 11. maí þá er ekki víst að það gerist á næsta ári. Bjóddu frúnni bara með í partý og hún mun skemmta sér alveg konunglega enda Poolarar skemmtilegasta fólk sem ég þekki.

  Þúsund þakkir fyrir frábæra upphitun sem stressaði mig bara meira , ég get ekki lengur nagað neglur ( ja nema gerfineglur) er komin með stutt hár, eftir hárreytingar síðusut vikna.Ég held ég sé með magasár af spenningi og þeir fáu vinir sem ég átti hafa gefist upp a mér þar sem hugsa og tala bara um næsta leik og ef og ef ekki og þegar ….. Þetta er samt dásamlegt líf og ég gæti ekki hugsað mér að hafa annað áhugamál en Liverpool ég er svo stolt þegar talað er um liðið okkar í dag og öllum leikmönnum hrósað í bak og fyrir . Ég er líka svo heppinn að vera stuðningsmaður fótboltaliðs í fremstu röð og þar eru stuðningsmennirnir þekktir fyrir að ganga aldrei einir þannig að þó að mínir vinir hafi ekki nennt þessu rölti með mér þá veit ég að við erum mörg á sömu göngu og göngum ekki ein.

  Ég er alveg jafn stressuð fyrir leikinn á morgun og ég var fyrir leikinn síðasta sunnudag, hvenær kemur bakslagið? Vonandi bara 10 mín í lokin þegar okkar menn eru með góða forystu en eins og áður ætla ég að treysta rauðklæddu stríðsmönnunum okkar fyrir þessu og njóta þess að horfa á þá spila (sundurspila) við (að)Kanarífuglana.

  In Brendan We Trust.

  Þangað til næst
  YNWA

 30. Sælir kop stjórnendur. Er einhver möguleiki á að þið búið til kop.is “icon” fyrir snjallsíma & spjaldtölvur? Þá meina ég svona merki ef maður vill hafa linkinn á kop.is á desktopinu/heimaskjánum. Eða jafnvel kop.is app 😉

 31. Top. Top. Upphitun!

  Ég er sammála KAR með byrjunarliðið. Það þarf klárlega tvo til þess að bæta upp fyrir yfirferð Henderson, víst hann er í banni. Og ég vil alltaf sjá þá tvo, Lucas og Allen, inn í stað Moses og/eða Aspas. Ekki bara að þeir búi yfir meiri gæðum heldur held ég að hungrið í þeim sé meira, skili meira til liðsins.

  Þetta verður virkilega erfiður leikur. Botna ekkert í þessum spádómum uppá 5-7 marka sigri. Ég ætla að halda mig við mína spá frá því í síðasta podcasti, 1-3. Lykilatriði að skora fyrst.

  Koma svo! 11 í röð!

  YNWA

 32. Maður er alltaf smeykur við leiki sem ættu að vera unnir fyrirfram, þeir eru það sjaldnast. Manni sýnist á því sem BR og co eru að segja að þessi leikur verði tæklaður af fullri alvöru, en svo veit maður aldrei hvað nákvæmlega er að gerast inni í hausnum á leikmönnum. Ég ætla því að vera svartsýnn um þennan leik svona fyrirfram, en tek fagnandi sokkatroðslum að venju.

 33. Sælir félagar

  Í þeirri stöðu sem liðið okkar er í í dag eru allir leikir átakaleikir og okkur erfiðir. Að vísu er ekkert sem segir að við vinnum ekki í þessum leik en samt. Stressið og áhyggjurnar eru fyrir hendi hjá okkur stuðningmönnum og kvíðablandin tilhlökkun fylgir hverjum leik.

  Ég vona bara að BR nái að mótívera leikmenn jafn vel og í undanförnum leikjum og það skili þeim sigri sem eðlilegur er. Að því sögðu spái ég 1 – 3 í mögnuðum baráttuleik þar sem ekkert fæst gefins og lítið ódýrt.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 34. Draumurinn í upphafi tímabilsins var fjórða sætið.

  Núna er miklu stærri draumur í gangi …… en ég yrði helsáttur við ekkert meira en þriðja sætið. ( Enga bankagræðgi félagar ).

  Ferðalagið hefur verið frábært, eftir flesta leiki hefur maður verið gargandi af gleði. Þvílík spilamennska og hrikalega skemmtilegur fótbolti.

  Eftir sigurleik hafa vinnufélagarnir hafa fengið köku í mánudagskaffinu og segjast allir farnir að halda með Liverpool!

  Ég er búin að lofa vinnufélögunum matarboði, ef, (þegar 😉 Liverpool vinnur titilinn. Þríréttað og alles….

  Stressið er farið, ég er sultuslakur og kíki reglulega á töfluna…..

  http://www.liverpoolfc.com/match/league

  og af einhverjum ástæðum þá fer ég að brosa af gleði…….

  Ég trúi……

  ( dreymdi um daginn fótboltaleik og staðan var 9-1 fyrir Liverpool….. sko, meira að segja alvörudraumarnir eru góðir……. )

 35. Er jafn stressaður fyrir þennan leik eins og alla aðra leiki í þessari úrslita runu. Suarez er ekki búin að skora eitt einasta mark fyrirfram og eins og sést hefur á leikjum Chelsea og City að þá er hægt að tapa stigum á móti litlu liðunum.

  PS. Sammála #35 með iconið á snjalltæki. notaði þetta hérna á síðu sem ég er með (leikhaf.is ef einhver hefur áhuga) og það er að svínvirka og einfalt í uppsetningu og notkun.
  http://irama.org/web/cms/wordpress/plugins/custom-app-icons/

 36. Mögulega jákvætt að C.Palace eru búnir að tryggja sæti sitt í ensku deildinni og gæti verið að vilji þeirra minnki fyrir leikinn gegn Liverpool, vonandi verður þó viljinn mikill fyrir City leikinn hjá þeim 😉

  Svo vona ég bara að okkar menn taki Norwich á morgun sama hvernig það verður gert, hvort það verður 0-9 eða að við vinnum 0-1 og skorum með rangstæðumarki eða víti sem var ekki víti, mér er bara alveg sama svo framarlega sem við vinnum helvítis leikinn.

 37. Frábær upphitun, maðu er svo kröfuharður að ég er enn smá pirraður yfir þessu klúðri gegn WBA og ömurlegu fyrri hálfleik gegn Villa. Höfum bætt þetta upp auðvitað í öðrum leikjum.

  En svona spádómar stressa mig smá upp og það er gjörsamlega búið að jinxa Suarez út úr leiknum.

  Nr. 1
  Þurfum ekkert að vera stressaðir fyrir þessum leik. 5-0 og Suarez setur fimmu og bætir sinn besta árangur í deildinni til þessa.

  Nr. 7
  Þetta verður ekkert mál. 5-0 sigur, upprúllun af bestu gerð. Þetta lið hefur ýtt stressfaktornum í burtu trekk í trekk og gerir það líka núna.

  Nr. 10
  Var að renna yfir hópinn hjá Norwich og þetta er einstaklega hæfileikasnauður hópur. Annars ætla ég að spá því að Norwich verði með 5 í maður á mann dekkingu á Suarez og Sterling skori þrennuna og Skrtel&Coutinho með sitthvort, 0-5

  Nr. 11
  Flott upphitun. 0-7

  Nr. 20
  0-5 Suarez með fernu og Gerrard með eitt úr víti , ekkert kjaftæði 🙂

  Nr. 22
  Spái þessu 4-1 fyrir okkar mönnum. Ótrúlega lítið stressaður yfir þessum leik, aldrei þessu vant.

  Nr. 24
  Sammála með uppstillinguna, þetta fer 6-0, Suarez með öll.

  Nr. 25
  Ég spái því að Norwich gefi leikinn fyrirfram 0 – 3 þar sem þeir vilja ekki að varnarmenn þeirra fái taugaáfall við það að mæta Luis Suarez aftur.

  Nr. 26
  Thetta er skyldusigur en pressan er mikil og tad vantar 2 mikilvaega menn…thannig ad eg spai bara 4-1

  Nr. 27
  spái 0-4 🙂

  Nr. 28
  leikurinn fer1-5 fyrir betra liðinu!

  Nr. 29
  Ég spái 1:4 – Suarez með tvö, Skrtel með eitt og eitt sjálfsmark.

  Það er engu að síður ekki í boði að tapa stigum í þessum leik, óttast að þetta verði barátta og stress í ætt við West Ham, Fulham og Sunderland leikina. Óttast mikið fjarveru Henderson en held að hún verði dýrari gegn Chelsea en í þessum leik. Segi 1-2 sigur.

 38. Varðandi WBA og Villa klúðrin, þá held ég að þau hafi í raun verið nauðsynleg í þessu bataferli öllu. Þarna var Gerrard að venjast þessu nýja hlutverki, og þurfti bara nokkrar atrennur til að finna fjölina sína sem hann svo sannarlega gerði. Það má líka þakka fyrir að það fengust þó tvö stig úr þessum leikjum.

 39. Ef einhver vill horfa á háklassa sóknarbolta þá er West Ham – Crystal Palace í beinni útsendingu! Hvílík skemmtun sem sá leikur hlýtur að vera. Palace leiðir öruggt 1-0 með marki úr víti.

 40. Mín spá er 1-2 fyrir Norwich, að missa Henderson á eftir að kosta okkur á morgun.

 41. Það var einhver sem deildi svo skemmtilegum hringitón um daginn hérna. Mér datt strax í hug að klippa lagið sem gefið var út um daginn, We are Liverpool (poetry in motion) þannig að það kæmi út sem góður hringitónn. Hér er afraksturinn:

  Fyrir iphone notendur:
  https://www.dropbox.com/s/20hy4p5lcdjguaw/We%20are%20liverpool%20ringtone.m4r

  Hér er svo mp3 skráin:
  https://www.dropbox.com/s/58trdjceg2qso7b/We%20are%20liverpool%20ringtone.mp3

  Enjoy 🙂

  Annars spái ég 0-2 sigri okkar manna þar sem Suarez er með annað markið og Raheem litli Sterling setur hitt!

 42. Sælir aftur félagar

  Ég gleymdi að þakka fyrir frábæra upphitun í athugasemd hér áðan. Það er hér með gert og eins og venjulega klikka þessir kop.is strákar ekki, takk fyrir mig.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 43. Connor Wickham er að gera sitt allra besta til þess að tryggja okkur titilinn. Þvílíkur fagmaður og það gæti endað þannig að þökk sé honum verða Liverpool EPL champions !!!!!

 44. Ramires snýr sér, horfir á einhvern sunderland leikmann, bíður smá, slær hann svo og hleypur áfram. Er enginn í þessu liði sem er merkilegri en þetta? Eðlilega ætti hann að vera í banni gegn Liverpool.

 45. Ramires sló Erikson, beint fyrir framan dómarann, heppinn að vera enn inná, þetta hlýtur að vera skoðað af FA, og hann þar með úrskurðaður í bann, en við erum að tala um FA, þeir hugsa með rassg….

 46. Ég læt það nú vera að það sé Wickham að þakka ef við vinnum deildina. En ég er ekki frá því að Liverpool ætti að senda honum ostakörfu og rauðvín við lok tímabilsins ef Che – Sun fer svona.

 47. Nú bara man ég þetta ekki, man einhver eftir dæmum þar sem menn fá bann fyrir svona eftir leik? Ég veit ekki hvernig Mike Dean sá þetta ekki en þetta var alltaf viljandi og mögulega meira en þriggja leikja bann? Það að hann dæmdi ekki á þetta og gaf ekki spjald sýnir að hann sá þetta ekki.

  Ef að Suarez fékk tíu leiki fyrir að narta í Ivanovic…

 48. Djöfull eru lánsmenn okkar að reynast félaginu vel 🙂 Flottur Borini, núna er það bara að halda þessu.

 49. Úfff…… 26-4 í skotum …. maður þorir eiginlega ekki að fylgjast með…. 🙂 Ef Ramires fær ekki bann fyrir þennan óhroða þá er FA steingeldir..

 50. Hólý Mólý….. Borini búinn að skora… Ætli Torres taki sig til núna og taki tvö í lokin -_-

 51. Vá hvað leikurinn á morgun er orðin mikilvægur. Hef sjaldan verið eins stressaður eins og síðustu tíu í þessum leik.

 52. Vá, ekki er þetta virkilega að gerast?… Vona að Sunderland haldi sér uppi, þeir eru greinilega á okkar bandi

 53. Nú á Sunderland inni hjá okkar mönnum að við vinnum Norwich á morgun…. 🙂 Ja…. hérna hér…. Þvílíkt afrek hjá Sunderland… Þeir eiga orðið inni fyrir því að halda sér í PL eftir síðustu tvo leiki! 🙂

 54. Meirháttar úrslit fyrir okkur. Núna bara vinna Norwich sannfærandi..

 55. Jæja þá er Vorinu hefur betur búin að borga sig upp. Svo finnst mér að Liverpool ætti að íhuga að kaupa Connor Wickham fyrir frammistöðu sína í síðustu 2 leikjum

 56. Nú er lágmarks kurteisi af okkar hálfu að vinna Norwich og hjálpa þannig Sunderland að halda sæti sínu í deildinni 🙂

 57. Ætli maður geti ekki Fedexað Connor Wickham og Fabio Borini Nóa páskaegg sem þeir fengju á morgun? 🙂

 58. Kæra Sunderland!! Ykkur er hér með fyrirgefið sundbolta atvikið hérna um árið.
  Ykkar einlægur Kalli.

 59. Ég legg til að FSG fjármagni reisn á styttum af þeim félögum, Wickham og Borini, fyrir utan Stadium of Light.

 60. Skrifað í Skýin, auðvitað Liverpool maður sem að sekkur chelsea. Booooooorini

 61. Þetta mark hjá Borini er mikilvægasta mark hans fyrir Liverpool !

 62. Þetta er ótrúlegt. Chelsea var að tapa fyrir neðsta liðinu í deildinni Á HEIMAVELLI! og ef við pungum út 3 stigum á morgun þá eigum við séns að komast 8 STIGUM YFIR CHELSEA EF VIÐ VINNUM ÞÁ! Þetta er draumur. Þetta er ekki að gerast. Hvað er í gangi?

 63. Rodgers vissi þetta allan tíman, hann sá að Man City og Chelsea áttu Sunderland í lokaumferðunum svo að hann lét Sunderland fá Borini til þess að hjálpa til í deildinni.

  Nú er bara staðan svoleiðis að við erum komnir í dauðafæri.
  Ef við náum sigri á morgun þá erum við 5 stigum fyrir ofan Chelsea fyrir leikinn gegn þeim.

  Við þurfum samt að átta okkur á því að Man City eru enþá í baráttuni og ef þeir vinna rest(sem er alls ekki öruggt með leiki gegn Everton og Palace úti) þá verðum við að vinna 3 og gera jafntefli.

  Þetta er langt í frá búið en ég vill persónulega þakka Sunderland fyrir þeira framlag í þessari keppni.

 64. Við getum verið með 5 stiga forystu á toppnum á morgunn, 9 stig á City sem þó á 2 leiki (en pressan af þessum 9 er auðvitað talsverð)!

 65. Sælir enn og aftur félagar

  Frábær niðurstaða á brúnni og ef okkar menn halda haus þá getur fátt komið í veg fyrir titil þann 11. maí.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 66. Legg til að stjórn Liverpool kaupi sundbolta handa öllum Sunderland aðdáendum!

 67. Varðandi leikinn á morgun… ég spái 1-2 sigri…. Moses með sigurmarkið 😉

 68. þurfum að ná markatölunni upp a mrg ef við töpum fyrir chelsea þá eru man city í bílstjóra sætinu á markatölu

 69. Það sem gerir þessi úrslit og leikinn á morgun svo mikilvæg er að ef við náum 5 stiga forystu á Chelsea fyrir leikinn gegn þeim þá er nánast öruggt að allur þeirra fókus verður á meistaradeildinni. Leikurinn á morgun gæti því verið meira en þriggja stiga virði.

 70. Vááá… við erum að tala um að Móri hafði ALDREI tapað heimaleik með Chelsea í deildinni þangað til í dag, 77 leiki í röð var hann ekki búinn að tapa í !!!!
  Borini á láni frá Liverpool skorar sigurmarkið.

  Væri hægt að skrifa þetta handrit eitthvað betur 🙂

 71. Borini ad standa fyrir sínu ! Tetta losar ögn um pressuna fyrir morgundaginn. Ef 3 stig detta í hús á morgun, tá hefur tetta alveg litid verr út hjá okkur sídustu 24 árin… Margt jákvætt í tessu í dag. Neikvædni og væl í gangi hjá Chelsea sem er ekki gott veganesti fyrir heimsókn í feiknarvirkid á Anfield um næstu helgi. Svo Palace ad vinna og eru tarmed búnir ad gulltryggja sig í deildinni sem getur breytt adstædum til muna á Selhurst Park eftir tvær vikur.

  The dream goes on

 72. mikilvægasta mark hjá nokkrum Liverpoolmanni í 24 ár and THE DREAM GOES ON !

 73. Ég á hreinlega eftir að gera upp við mig hvort mér finnst meiri bjánar, þeir sem telja Mourinho svalan gaur, eða Móri sjálfur…

 74. Vá.

  Nú erum við í dauða-, dauða-, dauðafæri…

  Skil bara alls ekki hvað er í gangi þessa dagana, Sunderland af öllum liðum…

 75. Hversu mikil kaldhæðni væri það ef Moses skoraði sigurmarkið á morgun??? 🙂

 76. BTW ef einhver er að halda því fram að þetta hafi ekki verið vítaspyrna þá sést greinilega að azpiliqueta eða hvað hann nú heitir sópar löppunum undan Sunderland manninum reyndar með vinstri hælnum en sópar undan sóknarmanninum löppunum. víti allan, daginn vel við hæfi að óska dómaranum til hamingju móri:)

 77. úbbs er einhver með MOTD linkinn góða, svo maður geti séð í beinni?

  Annars spennandi. Er þó enginn efasemdarmaður hvað leikinn á morgun varðar. Allt of gott mændsett í þessu liði og þeir eiga eftir að láta Norðvíkingunum eftir streituna, óskipta.

 78. Nú er Liverpoolmanna að halda haus og halda áfram á fullu að spila sóknarleikinn sinn. EF sigur næst á morgun þá duga 7 stig úr 3 síðustu pottþétt. EF City tapar einhvers staðar stigum í viðbót þá duga 6 stig í viðbót. Ég bið til Guðs um að Everton rétti okkur hjálparhönd og mögulega WBA á mánudag. Koma svo Poolarar!! Koma svo Pepe Mel! Koma svo Chris Brunt! Koma svo Lukaku og Ross Barkley!! Nú fer Suarez aftur í gang og við klárum þetta!!!
  Góður Guð og Fowler og allir hinir! Megi svo verða…
  Sofið vel í nótt félagar og megi Guðirnir vera með okkur.

 79. Eins og fyrirliðinn kom inná þá jafna svona ákvarðanir sig út á heilu tímabili, en ég skil vel að Chelsea menn hafi verið ósáttir við þennan vítaspyrnudóm, var auðvitað tómt rugl. En ég hef ekki nokkrar áhyggjur af Norwich leiknum, það verður bara sigur og ekkert kjaftæði.

  Að því gefnu með 80 stig í hús, erum við þá að tala um að tveir sigrar og eitt jafntefli dugi í dollu ?

 80. Dísus kræst! Þessi úrslit í dag eru EKKI til þess falin að minnka stressið hjá manni. Á pottþétt eftir að eiga vont með að sofna í kvöld!

  Við erum eins og Maggi orðaði það, í algeru dauðafæri við að ná að landa dollunni!!

  En strákar, hvað um þennan vítaspyrnudóm? Var hann réttur??

 81. #43 Ástæða þess að ég spái 0-7 er að ef að markatalan ræður þá verðum við að gera betur en Man. City.

 82. Þessi vítaspyrnudómur var hæpinn fannst mér. En hverjum er ekki drullusama? Mourinho á ekkert karma inni. Og þrátt fyrir vítið hefðu þetta alltaf verið tvö töpuð stig hvort sem er.

  Núna þurfum við að halda haus og klára leikinn á morgun. Þetta verður erfiðasti leikurinn gegn Norwich í langan tíma og ég er ekki að sjá Suarez þrennu í kortunum – Við þurfum bara sigur!

 83. Laukrétt hjá þeim í MOTD. Þetta er púra víti. Hann tekur hann niður með hælnum og enginn leikmaður chelsea (inn á vellinum) mótmælir. Borini cool as ice á punktinum!

 84. var að horfa á MOTD í beinni þar sem verið var að fjalla um leik Chelsea – Sunderland. Bæði Hansen og Shearer eru 100% á því að þetta var hreint og klárt víti. Sýna líka atvikið frá öðru sjónarhorni, alveg krystaltært víti. Ekkert flóknara. Skil ekki þessa stæla í Mourinho og svona framkoma eins og í viðtalinu áðan er ekki honum til framdráttar. Þeir fjölluðu sérstaklega um hegðun Mourinho áðan.

 85. Ég er yfirvegaður og lít kalt á hlutina. Ég læt ekki úrslit annarra leikja koma mér úr jafnvægi. Ég er fókuseraður á næsta leik okkar manna. Norwich. Ég sendi alla mína strauma til liðsins míns, sama hvað er í gangi annars staðar. 3 stig og ekkert kjaftæði. Snowstorm from the very first minute.
  Ég er slakur og ég er einbeittur … ÉG ER AÐ MÍGA Á MIG SHIT SHIT TAKIÐ NÆSTA LEIK OG FOKK MEIKIÐ STATEMENT!!!

  YNWA

 86. Sælt veri fólkið – veit einhver hvort það verði hægt að horfa á leikinn einhversstaðar á Selfossi á morgun? Nenni ekki að standa í streamstússi í svona krúsjal leik… lítið að frétta á vefnum hjá Hvítahúsinu.

 87. Jesús (viðeigandi upphrópun í tilefni dagsins), er Mourinho í alvöru að ýja að því að það sé eitthvað bias í dómgæslunni gegn Chelsea eða með Liverpool undanfarið?

  Ég horfði uppá eitt mesta soft rauða spjald í langan tíma um síðustu helgi í leik Swansea og Chelsea. Viku áður fékk Liverpool á sig eitthvert ólöglegasta mark sem ég man eftir í langan tíma.

  Þetta er maðurinn sem pressan dýrkar, fyrir “sniðug” svör sín, og hvað hann er klár að “taka pressuna af leikmönnum”, en er á endanum bara tapsár bjáni (hann er enn að röfla af og til um markið hjá L. Garcia 2005) sem kemst upp með að þvaðra eintóma steypu ár eftir ár. Mér sýnist að núna hafi sjónvarpsmenn í englandi fengið nóg og vísað bullinu í honum heim til föðurhúsanna.

  Honum líður eflaust kjánalega að horfa upp á lið með margfalt minna fjármagn, vera bæði betra en sitt lið og spila skemmtilegri knattspyrnu, en að það brjótist fram í svona barnalegri gremju gerir ekkert annað en að ljóstra upp hans innri manni, svo ég taki mér orð Bubba Morthens í munn; Hann er bara lítill maður, og krumpaður að innan. Ég minni á að hann ber ábyrgð á því að norðmaðurinn Tom Henning Ovrebo þurfti að hætta dómgæslu eftir árás Mourinho árið 2009, svo þetta er ekkert nýtt fyrir honum

  Í guðanna bænum, völtum yfir þetta lið um næstu helgi, en byrjum á Norwich

 88. Árið var 1991 Liverpool var á toppi Ensku úrvaldsdeildarinar eftir að hafa unnið fyrstu 8 leikina sína í deildinni. Liðið var núverandi meistara og Daglish að gera það gott. Viti menn næsti leikur var útileikur gegn Norwitch sem voru ekki með merkilegt lið(enduðu í 15.sæti í deildinni).
  Gary Gillespie kom Liverpool yfir eftir 2 mín en Ruel Fox jafnaði eftir 7. mín. Helvítis Norwitch skemmti þetta frábæra run hjá Liverpool.
  Þetta tímabil hætti Daglish sem stjóri og við höfum ekki unnið titilinn síðan og var þetta fyrsta tímabilið sem hann kom ekki í hús.

  Afhverju er ég að nefna þetta? Jú af því að þessi hel.. leikur var alltaf til á VHS hjá Ömmu og Afa þegar ég var að alast upp og horfði ég á hann 100 sinnum. Ég var 10 ára þegar hann fór fram og hef ég alltaf haft smá slæma tilfiningu fyrir Norwitch út af þessu.

  Nú er kominn tími til að hefna fyrir þessa VHS spólu sem stopaði frábæra byrjun hjá liverpool og væri ég til í að eiga DVD af Norwtich vs Liverpool frá 20.apríl 2014 þar sem liverpool kom sér í 5.stiga forskot í deildinni þegar 3 umferðir voru eftir.

  Koma svo Liverpool, haldið áfram að láta okkur dreyma. YNWA

 89. Greinilega stemning og spenna hér á kop.is. 138 komment og leikurinn ekki einu sinni byrjaður!

 90. 1000% víti.

  Og stærstu dómaramistök leiksins voru að reka ekki Ramirez útaf.

  Mourinho er óvenju snemma að þessu sinni búinn að koma sér í vond mál hjá pressunni og alveg morgunljóst að þessi ummæli hans eru mikil mistök. Mikil.

 91. Það er ljóst að fíflið Ramires spilar ekki fleiri leiki á þessu tímabili. Megi bann hans vera sem lengst.

 92. Af hverju er MOTD ekki enn komið inn á þessum síðum?
  Tæpir 2 tímar síðan þættinum lauk… veit einhver um link á helvítið?

 93. Maðurinn er bjáni, flínkur bjáni vissulega en spennan er orðin svo mikil að mig langar helst til að leggjast í gólfið og gráta, geri það vonandi 11.maí!!

 94. Hvernig svo sem þetta fer á morgun, er ljóst að við erum með feykilega sterkan grunn til að byggja á til framtíðar. Rodgers er bara 41s árs, Sterling er 19 ára, Coutinho 21 árs, Henderson 23ja, Allen, Sakho & Sturridge 24, Mignolet 26, Suarez og Lucas 27. Gerrard á 3 – 5 ár eftir í sinni stöðu, sjáið bara Pirlo. Damn, hvað það geta verið góð ár framundan ef rétt er haldið á spöðunum.

  YNWA!

 95. #35 Náðu þér í Windows phone og njóttu þess að hafa cover mynd kop.is sem icon. Einföld snilld.

  Þetta verður eitthvað á morgun. Eins gott að leikurinn sé kl 11. Get ekki beðið lengur 🙂

 96. 1000 kall á Liverpool, Man City eða Chelsea skila

  20.000 á Chelsea
  3.500 á Man City
  250 á Liverpool. 250!!!!!!!!!!!! Þetta er ótrúlegt.

 97. Þetta er nákvæmlega það sem Rodgers sagði um daginn. Öll liðin eiga eftir að tapa stigum það sem eftir er móts. Þetta er fáránlega spennandi endasprettur og smá stress farið að segja til sín auk þess sem fallbaráttan blæs adrenalíni í æðar neðstu liðanna.

  Þetta er langt frá því að vera í hús en jeremías hvað þetta er gaman!

 98. Held að markmaður Sunderland eigi páskaeggið meira skilið en Borini, þvílíkar bjarganir í þessum leik, leik þar sem Mórarnir voru betri.
  Síðan þessi vítaspyrna, Jesús Pétur hvað hún er léleg en sem betur fer virkaði hún, minnir að ég hafi séð Borini áður taka svona hálfkáksspyrnu og það er ekki að gera sig.

 99. Norwich hefur skorað 26 mörk í 34 leikjum og eiga fáránlega erfiða leiki framundan. Eru dæmdir til að falla. Held að allir í liðinu geri sér grein fyrir því, verandi með unglingaþjálfara. Eftir 0-2 gefast þeir endanlega upp og horfa í gaupnir sér. Því segi ég enn og aftur 0-7. Horfði einhvern tíma á Newcastle taka svona botnlið 9 eitthvað.

 100. 133 þú skalt athuga Frón eða 800 bar báðir staðirnir á Austurvegi

 101. Life is great! Liverpool is greater!
  Þegar leikmenn á láni eru að skila svona af sér þá er erfitt að muna betri lið og liðsheild í háa herrans tíð.

  En með vítið hjá honum… Er ég sà eini sem fekk golfsveiflu Charles Barkley í hugann?? ( must see fyrir þá sem ekki þekkja til)
  http://youtu.be/NxLkEPb5DzI

 102. Ingi Björn, ég er með Windows síma, hvernig get ég notið þess að hafa cover mynd kop.is sem icon?

 103. gæti einhver sent mér link eða app sem ég get streamað leikinn í iphone það væri algjör snilld verð i berlín þegar leikurinn er í rútu 😉

 104. gæti einhver sent mér link eða app sem ég get streamað leikinn í iphone það væri algjör snilld verð i berlín þegar leikurinn er í rútu 😉

 105. #54 hann sló svían Sebastian Larsson, eflaust einhver búnn að leiðrétta það á undan 🙂 las i flýti yfir….

  En ég segi hérna heima við alla 7 strákana mín að núna erum við komnir með í það minnsta 2 fingur á dolluna, þeir skilja þetta þegar ég verð lagður inn á hjartadeild 11 maí….. YNWA!!!!

 106. Þetta stress er ekkert eðlilegt. Ég er búinn með páskaegg sonarins og enn yfir tveir tímar í leik! !!!

 107. Shit vaknaði í morgun og setti You’l never walk alone á phoninn kl 8 er svo spenntur að orð fá ekki lýst, átti erfitt með að sofna í gær og var mér hugsað hvernig ætli liðið sé það ru nú þeir sem að eru að fara að spila leikinn. Ég hef engar áhyggjur af þessum leik, né næsta mestu áhyggjurnar hef ég af CP leiknum. Þetta verður auðvelt 0-5 KOMA SVO

 108. Ákvað að taka Guderian á þetta og spilaði YNWA á píanóið í morgunsárið, maður gerir allt til að hjálpa til.

  Og svo mæli ég með af mannúðarástæðum, að Sunderland fái að halda sæti sínu í deildinni.

 109. Þeir sem munu vitja að Liverpool í dag munu sjá þá á Anfield Road.

  Þar verður upprisa !

  Gleðilega páska !

Opinn þráður – Everton

Byrjunarliðið gegn Norwich mætt