Aprílgabbið!

Djöfull plötuðum við á Kop.is ykkur í ár!

Við höfum í allan vetur staðið fyrir hnitmiðuðu gabbi sem nær hámarki sínu í dag. Í dag ættu allir lesendur Kop.is að kíkja á fótboltafréttirnar og vakna upp af ljúfum draumi.

Hélduð þið að Liverpool hefði í alvöru farið úr 7. sætinu í 1. sætið og titilbaráttu, á einu ári? Og að meistarar United hefðu farið úr 1. sætinu í 7. sætið? Og að David Moyes hefði tekið við United eftir að Fergie fór á eftirlaun?

Djók!

Hélduð þið í alvöru að Daniel Sturridge væri 20-marka maður og að Luis Suarez væri að setja markamet í deildinni?

Djók!

Hélduð þið í alvöru að Liverpool væru bara að spila fantasý-fótbolta, bæta markamet hægri vinstri, strauja alla erkifjendur sína með stórum sigrum í vetur og að allt væri bara gott og frábært?

Og að einhver Brendan Rodgers frá litlu liði í Wales gæti stýrt þessu öllu í þetta magnaða ástand?

Djöfull eruð þið vitlaus að láta plata ykkur svona!

AuehLPQCAAA5YfL

Nei í alvöru talað, þá er óþarfi að vera með aprílgabb á Kop.is í ár því maður er stöðugt að klípa sig yfir þessu tímabili.

Hérna er annars meistari Pep að hrósa Liverpool:

https://www.youtube.com/watch?v=4vQ7PXree70

Pep hlakkar til að sjá okkur í Meistaradeildinni. Ég líka.

Þetta er opinn þráður – ræðið það sem þið viljið.

36 Comments

  1. Við lifum á spennandi tímum kæru vinir, aðeins sex leikir eftir af mótinu, sex sigrar frá sögulegum og eftirtektarverðum árangri sem Carragher lýsti yfir að yrði jafnvel stærri en Istanbul. Þeir eru ýmsir x-faktorarnir sem geta ráðið úrslitum um það hver vinnur þetta mót á endanum. Til að nefna nokkur dæmi:

    Reynslan af því að vinna titil, sem City og Chelsea hafa, en ekki við.

    Jose Morinho, af því að þegar upp er staðið hefur hann tilhneigingu til að vinna. Punktur.

    Breidd Man City. Þetta er næstum eins og að láta 3. flokk spila í 4. flokki. En dugir það?

    Pressan á City. Væntingar til 3. flokks liðs sem keppir í 4. Flokki eru miklar. Höndla þeir það?

    SAS, sem geta og hafa unnið leiki upp á sitt einsdæmi. Klárar það mótið?

    Steven Gerrard. Þetta er sénsinn hans. Hann gæfi hægri fótinn fyrir titilinn og það munar um minna.

    Áhyggjuleysi og flæði Liverpool liðsins. Haldi það til enda eigum við flottan séns.

    Þetta síðasta, að halda þessari næstum barnslegu sýn á leikinn sem Liverpool og Rodgers hafa gert svo frábærlega í vetur, er að mínu mati eitt af lykilatriðum það sem eftir er móts. Í golfi tala þeir sem ná óvæntum árangri eða ótrúlegum hring oft um að þeim hafi tekist vel að „get out of their own way“. Þ.e. þeir ná að halda hreinum hug, hugsa um ekkert annað en næsta högg, passa sig að reikna ekki saman skorið sitt og vita jafnvel ekki hver staðan er í mótinu. Allt til að forðast truflanir, forðast að hugsa um hvað er í húfi, forðast að missa frá sér þetta dýrmæta ástand þar sem þú framkvæmir hugsunar- og áreynslulaust og allt gengur upp, að því er virðist af sjálfu sér. Þetta er dýrmætt hugarástand, því um leið og kylfingurinn fer að telja höggin, gangast upp í árangrinum, hugsa um hvað forgjöfin muni lækka ef hann nær að klára hringinn með sömu spilamennsku, þá eykur hann pressuna á sig. Með væntingunum myndast vitund um allt sem getur farið úrskeiðis, allt sem tapast ef þetta ástand yfirgefur þig og vonbrigðin sem þú þarft að lifa með. Öll smáatriðin sem þarf til að slá frábært högg verða þér óþægilega ljós, hreyfingarnar fara að verða ofurmeðvitaðar og handstýrðar og um leið og smá hikst skýtur upp kollinum, er þetta búið.

    Það sama á við um Liverpool núna. Liðið er líklega að spila á algjörri hámarksgetu og ef sú spilamennska og árangur á að halda til enda þarf að vernda þetta hugarfar. Það er augljóst að menn eru að reyna eins og þeir mögulega geta að fara ekki framúr sér, tala bara um næsta leik, leggja áherslu á að pressan sé öll á hinum því þeir hafi aldrei gert ráð fyrir að vera í þessari baráttu, þeir séu í raun bara glaðir að fá að vera með. Og ekki að ástæðulausu. Því um leið og hugmyndin fer að skjóta rótum á meðal leikmannanna um að titilinn sé þeirra til að tapa, þá mun leikur liðsins detta niður um klassa, verða hikstandi, slitróttur og varkár. Og þá er stutt í vonbrigðin.

    Ég hafði áhyggjur af því að þetta væri að gerast á móti Cardiff þegar við lentum tvisvar undir, og var að sama skapi ofsakátur með þá ró og trú sem birtist í þessum sex mörkum sem rúlluðu inn að því er virtist án fyrirhafnar eftir því sem leið á leikinn. Það var líka mögulegt að Sunderland leikurinn væri dæmi um að hugarfarið væri aðeins farið að spillast en líklega var það meira taktík Sunderland en nokkuð annað. Tottenham leikurinn slökkti svo sem betur fer allar áhyggjur af því að spilamennskan eða hugarfarið væri eitthvað að gefa eftir.

    En nú erum við á toppnum og það sem meira er, mótið í okkar höndum. Og þá fer fyrst að reyna á. Þess vegna verður það líklega snúnasta og mikilvægasta verkefni Rodgers og Steve Peters, (íþróttasálfræðingsins) það sem eftir lifir móts að halda hausnum á leikmönnunum í réttu standi, þ.e. glöðum og kátum yfir því að vera í þessari stöðu, fókuseraðir á hvert verkefni fyrir sig, einbeittir í öllum undirbúningi og svo hreinir og tærir í því að gera sitt allra besta í hvert skipti sem farið er út á völlinn. Á hinn bóginn þarf að forða þeim frá „their inner chimp“, eins og Peters kallar það, þ.e. áhyggjum yfir því að klúðra risa tækifæri, sem má vera að gefist ekki aftur í bráð.

    http://www.chimpparadox.co.uk/

    Sjálfur ætla ég að leggja mitt af mörkum með því að trúa óhikað og efasemdarlaust. Því ef sú fölskvalausa gleði, samhugur og trú sem ríkir nú um stundir á meðal Liverpool stuðningsmanna á Íslandi, í Malasíu, Ástralíu, London og auðvitað á Merseyside, getur aðstoðað við að blása upp þá gleðiverndarsápukúlu í kringum liðið sem þarf til að það haldist glatt, ferkst, bjartsýnt og tært í nálgun sinni á leikinn, þá ætla ég að leggja mitt af mörkum.

    Ég trúi.

  2. Guardiola var með eitt gott Apríl gabb þar sem hann segir frá því að Manchester United eigi möguleika á að vinna Bayern Munchen í Meistaradeildinni í kvöld, Góður.

  3. Sæl og blessuð og gleðilegan fyrsta apríl.

    Wheelan, ég er einmitt að lesa bókina hans Péturs um simpansann innra með okkur.

    Þetta er skemmtilegt og hægt að spegla ýmsa mannlega hnökra í þessu ljósi. Hann leggur samt áherslu á að við eigum ekki að bæla apakrílið niður, hvað þá afneita því – heldur lifa í sátt við það en gæta þess um að það taki ekki stjórnina. Framheilinn, sá mennski á að taka stóru ákvarðanirnar en sá frumstæði, limbic parturinn, hefur alveg sitt hlutverk. Stundum þarf jú að berjast, forða sér og jafnvel frjósa – ef því er að skipta. Hinir grænu vellir eru ekki svo frábrugðnir frumskóginum sem apaheilinn er hannaður fyrir.

    Hver veit nema að nafni hafi einmitt verið að vísa til þeirra í þessu eftirminnilega fagni:

    https://lh4.googleusercontent.com/-VEpzGbMqJrs/UtLl6clMAqI/AAAAAAAAANk/Kf9tWA0wA3w/s456/HULK.gif

    🙂

    Nú skulum við bara vona að okkar menn falli ekki í þá gryfju sem Hamlet talar um í einræðunni frægu: “Á einbeitninnar holla litarhaft, slær sjúkum fölva úr hugans kalda húmi.” Einhvern veginn sé ég fyrir mér fölbláa tóna þegar ég les þessi orð. Ekki þá heilnæmu og eldrauðu sem falla betur að okkar smekk.

  4. Gott að west ham vann í gær, þeir eru þá orðnir nokkur safe um að falla ekki. Það verður samt erfitt að mæta þeim á “frímerkinu” þeirra nk. sunnudag. celski og shitty verða bæði buin með sína leiki og það er vonandi að við fáum góð úrslit úr þeirra leikjum. Ég tek alveg undir það með Rodgers að öll þessi þrjú lið sem eru á toppnum eiga eftir að tapa stigum, vona bara að við töpum ekki of mörgum.

    Næsti leikur er west ham, og það verður barátta við carrol og hálofta fótboltan hans sam.

    6 bikarúrslitaleikir eftir ! ! !

  5. Sæll Lúðvík og takk fyrir innleggið, þetta og önnur sem þú leggur til hér á kop.is af miklu örlæti og innsæi. Ég er fan.

    Ég held að það sé óhætt að slá því föstu að því meira sem leikur verður að list, því minna á sjimpansinn að leggja til málanna. Og af því leiðir að hann á lítið sem ekkert erindi upp á dekk þegar liðið okkar er í s.a.essinu sínu.

    En auðvitað getur sú staða komið upp að við þurfum að leggja listamanninn tímabundið til hliðar og hleypa apaskottinu að til að æsa upp í okkur tímabundna frumhvöt, til dæmis gegn feita Sam og skálkunum hans eða í kartöflugörðum krystalshallarinnar.

    Vonandi ekki samt.

  6. Veit einhver hvort leikurinn í kvöld eða á morgun sé í opinni dagskrá?

  7. eg er drulluhræddur við west ham leikinn, eg var reyndar.lika drulluhræddur við southampton , man utd , cardiff og tottenham en eg hef akveðið að ef okkar menn vinna west ham þa mun eg trua þvi að liðið sigli titlinum heim, þangað til stefni eg afram a 3 sætið 😉

    afram bayern svo i kvöld 🙂

  8. Maður sér í fréttum í dag að það eru margir sem að vilja fá sneið af þessari velgengnisköku okkar manna. Þannig eru Portsmouth búnir að grafa upp klausu um að þeir eigi hjá okkur 1m punda ef að við lyftum titlinum með Glen Johnson innan liðsins.

    Þá las ég um helgina að við munum þurfa að punga út hátt í 4-5m punda fyrir Raheem Sterling á næstu misserum. Við greiddum QPR 600.000 pund fyrir hann á sínum tíma auk vilyrða um feitar summur í viðbót ef við náum ákveðnum árangri og ef hann nær ákveðnum leikafjölda. Þetta kemur svosem ekki að sök, því að það má hæglega verðleggja hann á 30-40m punda (í samanburði við þær 15-20 sem Utd vill fá fyrir Cleverley).

    Það er ljóst að það gætu verið fleiri menn í okkar röðum með slíkar samningsviðbætur – og því má gera ráð fyrir að við munum þurfa að setja eitthvað af transfer budget-i sumarsins í að klára að uppfylla slíkar klausur ef að við munum sigla skútunni í höfn þetta árið.

    Hefur einhver hérna hugmyndir um hvaða upphæðir við gætum verið að tala um – og þá mögulega hvaða leikmenn eiga í hlut?

  9. Hvort haldiði að það verði meira djók:

    a) Að sjá Búttner reyna að stoppa Robben.
    b) Að sjá Jones reyna að stoppa Ribery.

  10. EF við verðum englandsmeistarar í vor þá fowler hjálpi hinum liðunum á komandi tímabilum.

    lang flestir í liðinu eiga bara eftir að verða betri með tímanum.

  11. Magnad hvad naungi a hlidarlinunni getur haft mikil ahrif a gengi lids….kemst eiginlega ekki yfir tad. Se fyrir mer Brendan taka Ferguson a thetta og vera i 30 ar. Tad vaeri godur draumur!!

  12. #13
    Það er ljóst að það gætu verið fleiri menn í okkar röðum með slíkar samningsviðbætur – og því má gera ráð fyrir að við munum þurfa að setja eitthvað af transfer budget-i sumarsins í að klára að uppfylla slíkar klausur ef að við munum sigla skútunni í höfn þetta árið.

    Það er ábyggilega örlítil % m.v peningin sem fæst fyrir að sigra EPL + að komast í Meistaradeildina svo ég hef nú ekki miklar áhyggjur af sumarkaupunum peningalega séð. Auk þess mun FSG ábyggilega verðlauna þá með því að leggja vænan bónus ofan á þennan árangur þeirra.

  13. Hálfleikur.

    Barcelona 0
    Atletico Madrid 0

    Man United 0
    Bayern München 0

    Var einhver að kalla eftir smá Liverpool í þessa deild?

  14. Ég vill nýta tækifærið og þakka umsjónarmönnum kop.is fyrir frábæra síðu. Ég finn ekki skemmtilegra lesefni en pistlana hér inni og fer oft á dag hingað inn í þeirri von um að geta lesið nýjan pistil. Þið eigið mikið hrós skilið, takk.

  15. #2 Ákvað að velja þetta enska lið og þvílíkt sem það er erfitt. Roy kallinn á erfitt val fyrir höndum. Hann getur ekki litið framhjá Lallana Lambert og Jay Rodriguez ekki Sterling né Sturridge né Rooney. Hann gæti skilið Welbeck eftir heima eða tekið hann jafnvel líka með. Vörnin fer hann eflaust bara með 1 hægri bakvörð Johnson og svo Jones sem backup, vinstri er spurning hver fer með Baines. Hvort það verður Cole eða Shaw. Þetta var allavega mjög erfitt og ég náði með herkjum að velja þetta. Hins vegar þá þurfti ég að skilja marga góða leikmenn eftir.

    Að leikjum kvöldsins, guð minn góður hvað Bayern spilaði ömurlegan bolta. Ég nenni ekki að horfa á sendingu eftir sendingu eftir sendingu og engin færi, þá vil ég frekar Liverpool boltan. Meistaradeildar Moyes lagði leikinn rétt upp og náði í fín úrslit. Ég sé hann ekki komast áfram, en hann slapp við þá niðurlæingu sem allir voru búnir að spá Man Utd.
    Barca vs A.Madrid var svo frábær leikur og ætti engin að láta seinni leikinn framhjá sér fara, vonandi verður einhver aðeins betri dómari í þeim leik.

  16. Sæl öll, kæru Liverpoolaðdáendur nær og fjær.
    Sigfús svartsýni hér á ferð :=)

    Veit ekki með ykkur en er ekki leikurinn á móti WH leikurinn sem allir hræðast ?
    Ég segi að þetta sé leikurinn þar sem okkar leikaðferð mun lenda á vegg.
    Munum eftir því hvernig WH náði í stigið á móti Chelski fyrr í vetur.
    Held að dómari leiksins hafi farið oftar fram yfir miðju en leikmenn WH í þeim leik, enda var Jose ekki glaður með þá leikaðferð WH.
    Sé ekki hvernig við munum ná að loka á þeirra kantspil (þá og þegar þeir fara allir úr sínu eigin boxi 🙂 ) og svo með sendinguna á Carroll, sem mun líklega eiga leik lífs síns á sunnudag.
    Svo munum miðjumenn og hafsentar WH mynda nýjan Berlínarmúr fyrir framan boxið hjá WH, þannig að Brassinn og Suarez munu líta út eins og bilaðar hunangsflugu á meðan leik stendur.
    Ef við hinsvegar náum á þá marki, jafnvel tveim, þá er það mín skoðun að “léttu” leikirnir á móti Chelskí og ManCity muni vinnast.

    Sem sagt, leikurinn á móti WH er annar af úrslitaleikjunum tveim sem eftir eru þetta seson.
    Hvað segið þið ?

  17. Bayern er orðið Barcelona 2.0, ömurlegt að horfa á þennan bolta, en Barcelona eru orðnir skemmtilegri eftir að Pep fór frá þeim.

  18. Sæl öll.

    Ég vona og ég vona….en samt sem áður held ég að 2-4 sætið verði okkar og ég verð alveg helsátt við það en samt sem áður innst inni í höfðinu á mér er sú hugmynd að liðið mitt gæti orðið meistarar það er voða langt í þessa hugsun en stundum stekkur hún fram og þá fæ ég hraðan hjartslátt, sviti sprettur út hjá mér og sú hugsun kemur ” hvernig getum við fagnað meistaratitli?

    Við hjónin höfum oft heitið á Strandarkirkju fyrir góð úrslit og oft greitt með glöðu geði fyrir góð úrslit, við ákváðum að heita á Strandarkirkju 10.000 kr. ef titillinn verður okkar og trúi því hver sem vill að þá upphæð munum við greiða með svo mikið bros á vörum.

    En það er næsti leikur sem er við West Ham óþægindatilfinningin lætur á sér kræla og ég tek til við fyrri iðju að lofa öllu, heita á allt og alla og leita allra neikvæðra upplýsinga um West Ham. Þessi tilfinning hefur reyndar komið fyrir alla síðustu leiki og okkar menn hafa sýnt mér að ég hef SVOOOOOO rangt fyrir mér. Ég vona svo sannarlega að svo verði um helgina og að ég þurfi að greiða Strandarkirkju nokkrar krónur eftir helgi.

    Ég vona að okkar flottu Poolarar fari heim með öll stigin 3 og skori fleiri mörk en andstæðingurinn.

    Þangað til næst
    YNWA

  19. Erum við ekki aðeins að ofmeta þetta West Ham lið. Ef við spilum eðlilega eigum við að klára þennan leik. Ég sé enga ástæðu af hverju við förum að hökta núna. Þeir ættu að vera hræddir við heitasta og besta liðið í Evrópu í dag ! Stór orð en sönn. Er fullviss að við myndum slá út öll liðin sem eru eftir í 8 liða úrslitum CL.

    Við eigum að bera höfuð hátt og vera stolt af okkar liði. Titillinn er að koma heim eftir 24 ára eyðimerkurgöngu. Ef ég man rétt vorum við í kapphlaupi við Aston Villa vorið 1990.
    Það eru forréttindi að halda með Liverpool í dag og ekki síður að hafa aðgang að þessari frábæru síðu sem á engan sinn líka, það leyfi ég mér að fullyrða !

  20. Því miður munum við gera 0-0 jafntefli við west ham ég var bjartsýnn fyrir síðustu 4 útileiki en það er einhvað sem á eftir að gerast þarna sem gæti kostað titilinn en svo munum við vinna man city og komast á hörku skrið en spurning hvort það dugar ! :S

  21. Það kom sér vel að West Ham unnu síðasta leik, því nú sigla þeir lygnan sjó um miðja deild. Ég verð fyrst smeykur við að þurfa að heimsækja stóra Sám ef hann er í bullandi fallbaráttu.

    BR hefur þó fundið árangursríkar leiðir gegn þessum varnarsinnuðu háboltaliðum. Það er meira en Benitez, Houllier og seinni tíðar Dalglish gátu gert.

  22. Fyrst þtta er opinn þráður, set ég þetta hér. Vonandi er það í lagi, kæru síðuhaldarar! Ég vil sjá þetta fara í góðar hendur og þetta er klárlega vettvangurinn til þess. 🙂

    Ég á 20.000 kr inneignarbréf hjá ReAct sem ég er til í að láta fyrir rétt tæplega þá upphæð. Fyrir bréfið má festa kaup á ’13-’14 treyju (10.990), ’12-’13 treyju (4.990) og fleiri hlutum, svo dæmi séu tekin! Ef einhver býður mér 18.500 krónur, fær hann bréfið án vífilengja. Sakar ekki að bjóða aðeins minna, en ég mun þá bara svara þeim póstum ef enginn býður 18.500 og þá mögulega bara hæstbjóðanda.

    Ég á einnig auka eintök af Íslensk knattspyrna 2012 og 2013 sem færu á 1500 (2012) og 2000 (2013) kr, ef einhverjir eru áhugasamir. Ég held að nýjasta bókin kosti enn 3.999 kr. 🙂

    Netfangið hjá mér er jollis hjá gmail punktur com. Ég er á Seltjarnarnesi og myndi helst kjósa reiðufé við afhendingu. Ætti að geta mælt mér mót við kaupanda miðsvæðis í borginni og væri einnig til í að hitta viðkomandi í ReAct, ef viðkomandi skyldi finnast eitthvað vafasamt við þetta. Þetta er alveg skothelt.

    Ég pósta annarri athugasemd strax og þetta er frágengið, svo enginn hafi samband í erindisleysu. Kíkið því neðar áður en þið hafið samband.

Liverpool 4 – Spurs 0

Rússibaninn framundan