Liverpool – Sunderland 2-1

Okkar menn tóku á móti Sunderland í kvöld og verður að segjast að liðið hefur oft leikið betur. Það byrjaði vel, það voru líka þessar frábæru móttökur sem okkar menn fengu fyrir utan völl, eftir mánuð í útileikjaprógrammi og maður vonaði að þetta myndi gefa mönnum búast fyrir leikinn!

.

Byrjunarliðið í kvöld var óbreytt frá því í sigrinum á Cardiff:

Mignolet
Johnson – Skrtel – Agger – Flanagan
Henderson – Gerrard – Allen – Coutinho
Suarez – Sturridge

Bekkur: Jones, Sakho, Cissokho, Lucas, Moses, Sterling, Aspas.

Leikurinn fór rólega af stað, bæði lið voru að þreifa fyrir sér. Sturridge fékk jú aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Suarez tók spyrnuna en skotið fór naumlega yfir, that´s it eiginlega. Svona bragðdaufan hálfleik hefur maður ekki séð í langan langan tíma.

Á 38 mínútu dró loksins til tíðinda. Suarez fékk stungu innfyrir vörn Sunderland, var kominn einn í gegn en var tekinn niður á vítateigsboganum af Vergini, varnarmanni Sunderland. En Friend, vinur okkar, ákvað að gefa honum bara gult spjald. Það eru víst reglurnar í hans handbók.

Gerrard var alveg sama, hann „stal“ aukaspyrnunni af Suarez og setti boltann fast ofarlega í markmannshornið, Mannone hafði tekið skrefið til hægri og náði ekki að verja. 1-0 og manni hálf létt. 11 mark fyrirliðans á leiktíðinni staðreynd!

Stuttu síðar fékk Suarez sendingu upp vinstra meginn, lék á Vergini sem henti sér niður í tæklinguna, tók Suarez niður þegar hann var kominn framhjá honum og að stefna inn í teiginn. Friend dæmdi brot og þá fékk hann Vergini loks að fara útaf…. ekki? Í alvöru Friend? Ætla ekki einu sinni að skella í vina brandara fyrir þig.

Einum leiðinlegasta hálfleik tímabilsins lokið.

Síðari hálfleikur byrjaði með látum. Sturridge fékk þá boltann frá Henderson, hægra meginn í teignum. Lagði boltann á vinstri fótinn og smurði honum í fjærhornið, boltinn hafði reyndar viðkomu í varnarmanni Sunderland, 2-0. Og game over hélt maður. Aldeilis ekki.

Rétt eftir markið átti Cattermole lélega sendingu sem að Suarez komst inn í og hljóp á vörn Sunderland en féll í skotinu, virðist sem að Cattermole hafi farið í hann þegar hann ætlaði að fara skjóta. Það sauð á mér fyrst, en það sást ekki mikið í endursýningunni, en þurfti ekki mikið til þegar hann var í skotinu. Ekkert dæmt og Anfield lét í sér heyra.

Stuttu síðar kom eitt af mómentum leiksins, en Gummi Ben útskýrða það fyrir okkur afhverju Altidore er oft kallaður ískápurinn, sem er aðalega af því hann er svo kaldur í markaskorun. Ég hló.

Sunderlandmenn komust aðeins inn í leikinn eftir að Johnson og Ki komu inná. En það var einmitt Johnson sem lagði boltann út í miðjan teig á Cattermole sem átti fínt skot í slánna. Menn orðnir heldur rólegir fyrir minn smekk og miðjan varla til staðar.

Á 68 mínútu tók Sturridge uppá því sama og setti boltann í slánna á marki Sunderland.

Eftir þetta vorum við fallnir allt of aftarlega og spilamennskan út úr öftustu línu var vandræðileg, at best. Það var mark í loftinu og það kom svo loks á 74 mínútu þegar Sunderland menn fengu hornspyrnu eftir þunga sókn. Boltinn fór framhjá öllum í vítateignum og til Ki, sem Flanno ákvað að sleppa að elta og horfa frekar á boltann og staðan því 2-1. Frábært.

Þegar þarna var komið við sögu var maður búinn að garga á skiptingu í þó nokkurn tíma, miðjan hjá okkur fallin alltof aftarlega og hvorki Suarez né Sturridge að ná sér á strik. Hefði viljað fá Lucas og Sterling inn mikið fyrr. Skiptingin kom samt að lokum þegar Sturridge fór útaf á kostnað Sterling.

Það sem eftir lifði leiks sóttu Sunderland menn. Þeir voru nálægt því að jafna eftir hörmulegan varnarleik Glen Johnson, sem btw hefði ekki náð að taka miðju á réttan leikmann svo slakur var hann. Hann braut á Colback, aukaspyrnuna tók hinn Johnsoninn, sendi stórhættulegan bolta inná markteig. O´Shea skallaði boltann rétt framhjá og Altidore var hársbreidd frá því að ná til boltans. Það voru ansi mörg hjörtu sem tóku aukaslag þarna.

En við héldum boltanum vel það sem eftir lifði venjulegs leiktíma og þær þrjár sem bætt var við og gríðarlega mikilvæg 3 stig í hús!

Pælingar

Við vorum lélegir í dag. Þetta var þó sanngjarn sigur, þó tæpur hafi verið. En sá sem ætlar að missa sig í neikvæðninni þegar liðið er í öðru sæti eftir 31 deildarleik og stigi frá toppsætinu er eitthvað galinn. Við erum taplausir í deild á árinu 2014 (það er 26. mars þegar þetta er skrifað) og þetta var sjöundi sigurleikurinn í röð.

Árangurinn í deildinni það sem af er ári 2014 er 10-2-0 með markatöluna +24 (40-16).

Öll lið í heiminum eiga slaka leiki öðru hverju. En ekki öll lið komast á svona run eins og við erum á þessa stundina. Það er búið að ofdekra okkur og spila frábæra knattspyrnu, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Nú snýst þetta um úrslit og í kvöld féllu þau okkar megin. Mér er skítsama um varnarleik Flanno. Þetta snýst bara um stigasöfnun á þessum tímapunkti.

Þar að auka sluppum við með meiðsli, Gerrard forðaðist gula spjalið, Sturridge (og þar með báðir okkar framherjar) er kominn yfir tuttugu marka múrinn og síðast en ekki síðst, við getum líka unnið ljótt – það er ómetanlegt. Þetta gegn ágætis liði Sunderland sem er að berjast fyrir lífi sínu.

Glasið mitt er allavega hálffullt.

Maður leiksins

Aldrei verið jafn erfitt. Mér fannst enginn áberandi góður og liðsheildin var heldur ekkert spes. Líklega fær Coutinho mitt atkvæði. Af okkar þremur skyttum þarna frammi fannst mér hann sprækastur. Hann var óheppinn að fá ekki víti þegar O´Shea sparkaði hann niður og átti marga fína spretti.

Bring on Spurs!

75 Comments

 1. sunderland voru alltof góðir í þessum leik og okkar menn hefðu getað nýtt færin betur en 3 stig í hús !

 2. Ég er að segja það, ég fékk hjartsláttartruflanir þegar Sunderland klikkuðu á DAUÐAfærinu í restina!

  Úff… Þetta tók verulega á EN við erum sko í bullandi bullandi toppbaráttu og er það ekki lovlý!

  Now you’re gonna beleave us, we´re going to win the league!

  Y.N.W.A!!!

 3. Já þetta var nú það daprasta í nokkurn tíma. Rodgers hefði átt að bregðast við skiptingunum hjá Sunderland með því að setja Lucas inn – fara í 4-5-1 bara. En þetta hafðist, þrjú stig í höfn og meistarabaráttan heldur áfram. Jákvætt að vinna þrátt fyrir slakan leik. Coutinho maður leiksins fyrir mína parta og svo auðvitað vörnin fyrir að halda út.

 4. Langt síðan gamli, taugaveiklaði Liverpúllarinn tók sig upp í mér. Ég var hreinlega orðinn lítill í mér undir lokin.

 5. Fyrsta skipti í 50 ár sem tveir framherjar hjá Liverpool ná 20 mörkum ! !

  Höldum áfram að dreyma. Það þarf líka að vinna ljótu leikina, ekki alltaf hægt að vinna 5-1.

  YNWA

 6. ‘o já bara drullu ánægður en samt rólegheit yfir Liverpool mannskapnum, ekki alltaf hægt að skora þrennu.

 7. Sagði fyrir leik að mér væri nokk sama með markaskorið svo framalega sem þrjú stig kæmu í hús, það hafðist í þetta sinn, naumlega þó.

  Segir leikurinn í kvöld okkur ekki að við séum búin að vera svolítið dekruð í markaveislunni síðustu vikur?

 8. “When they said cup finals they weren’t kidding. 7 more to go :-)”

 9. spáði þessum leik 2-1 hafði rétt með sturridge en ekki sterling. Koma svo Liverpool!!!

 10. Vond frammistaða liðsins í kvöld. Nánast sama hvar stigið er niður fæti í liðinu. EN….3 stig stórkostleg niðurstaða eftir kvöldið. Við verðum að detta aftur í gírinn fyrir næsta leik því þetta var vond frammistaða. Maður leiksins að mínu mati Skrtel.

 11. Úffff…..

  Þetta var erfitt að horfa á. En 3 stig er það eina sem telur og enn heldur sigurgangan áfram. Þetta er kannski ímyndun í mér en mér fannst leikmenn vera orðnir ansi þreyttir síðustu 20 mínúturnar. Mér fannst detta allt spil úr mönnum og Sunderland tók bara leikinn gjörsamlega yfir.

  Við vorum að spila fyrir 4 dögum og eigum annan leik eftir 4 daga. Hópurinn er ekki stór, flott byrjunarlið, og ekkert of margir valkostir á bekknum. Ég vona að þreyta sitji ekki í liðinu á sunnudag gegn Spurs. Þann leik verðum við að vinna rétt eins og alla sem eftir eru!

 12. Sigur hafðist þó ekki hafi þetta verið fallegt! En það þarf líka að vinna þessa leiki, Suarez ekki alveg með miðið í lagi í leiknum en þá eigum við bara aðra snillinga sem stíga upp, Sturridge og Gerrard! Mitt mat er að Coutinho hafi verið maður leiksins, einn besti leikur sem ég hef séð hjá honum lengi…

 13. Þetta er að fara að gerast. Það smellur allt hjá okkur líka tæpu sigrarnir eru skila sér. Endum á toppnum loksins með tvo markahæstu að auki 🙂

 14. Hrikalega mikilvæg 3 stig þó tæp þau voru. Flanagan allveg úti á þekju í marki kattana og það þarf að kenna sturridge að gefa með sèr. Maður leiksins coutinho virkilega flottur

 15. Af hverju líður manni eins og Liverpool hafi Tapað í kvöld? Þegar Anfield leikvangurinn breytist í Stadium of light síðasta Hálftíman og Brendan Rodgers Allveg Frosinn á hliðalínunni. Það voru 3 leikmenn á bekknum Sakho, Cissokho, Lucas Sem hefðu getað komið inn á. Við erum búnir að vera dásama Gerrard sem Djúpi varnasinnaði leikmaðurinn sem Væri að blómstra! Sunderland voru frábærir eftir Adam og ki Komu inn á og breyttu leiknum

  Ákvað að eyða óþarflega dónalegri útgáfu á gagnrýni á það að Rodgers brást ekki við með skiptingum, engin ástæða til að nota gróft orðbragð til að lýsa því, að öðru leyti er pósturinn fínn svo ég leyfi þeim hluta að standa – MAGGI

  Enn Ljótustu heppnustu 3 stiginn okkar í langan tíma… GOtt að taka svona leik strax því ef Tottenham hafði mætt okkur svona getulausum þeir hefðu Slátrað okkur. Svo margt hægt að segja um þennan leik enn Mikið djöfull er sætt að sigra ljótan leik.

 16. Menn virtust vera á hælunum en gerðu samt einhvernvegin það sem þurfti, það var eins og menn væru að spara sig fyrir komandi átök en snilldar 3 stig.

 17. Sunderland parkeradi rutunni og skoradi eftir horn. Leikskipulagid theirra var gott en their topudu leiknum. Liverpool med lettan sigur.

 18. Gott að missa þetta ekki niður. Þarf maður að vera stressaður fyrir leikinn á laugardaginn?
  Það var engu líkara en okkar menn hefðu verið búnir með bensínið eftir 60 mínútur.

  Svo er bara tímaspursmál hvenær Aggerinn dettur út úr byrjunarliðinu, trúi ekki öðru en Sakho haldi betri fókus í 90 mínútur.

 19. Frábær sigur gegn Sunderland liði sem var vel skipulagt og börðust allt til enda.
  Fyrirhálfleikur var erfiður fyrir okkur þeir voru með 5 manna varnarlínu með tvo djúpa miðjumenn alveg ofaní þeim svo að það ver gjörsamlega ekkert pláss til að gera eitthvað.
  Boltinn gekk ekki alveg nógu hratt og fannst mér við nokkuð klaufskir á boltanum. vorum að missa hann trekk í trekk eftir lélega fyrstu snertingu.
  Eftir annað markið þá opnaði aðeisn leikurinn og fannst mér bara tímaspurs mál að við myndum skora þriðja markið það kom aldrei og gáfum við færi á okkur þegar nokkrir leikmenn voru orðnir ákafir að klára leikinn með þriðjamarkinu á kostnað skipulagst.
  Eftir að þeir skoruðu þá var greinilega mikið stress en þetta hafðist.
  3 stig í leik sem við vorum betri en höfum séð okkur undanfarinn ár missa niður í jafntefli, þetta var samt meistarasigur að spila ekki betur en þetta en ná í 3 stig.

  Mignolet 6 – virkaði ekki mjög traustur þarna aftast en varði ágætlega í fyrihálfleik.
  Flanagan 5 – var í vandræðum í þessum leik.
  Skrtel 9 – en og aftur kóngurinn í vörninni,
  Agger 8 – átti fínan leik í dag
  Glen 6 – virkaði pínu þreyttur síðustu mín og opnaðist dálítið svæðið hans en maður hefði viljað sjá hann beitari sóknarlega enda einn af fáum sem fékk pláss til þess að taka menn á í fyrirhálfleik
  Gerrard 7 – ekki hans besti leikur en flott mark og ekkert gult spjald
  Henderson/Allen 7 – berjast, hlaupa úr sér lungun en þegar við erum svona mikið með boltan þá er þeira styrkur ekki að opna varnir andstæðingana eða skora mörk. Spila samt mikilvægt hlutverk.
  Coutinho 8 – flottur leikur hjá stráknum en var alveg sprunginn undir lokinn og spurning um hvort að ferskari fætur hefðu getað hjálpað okkur varnarlega
  Sturridge 7 – alls ekki merkilegur leikur en flott mark
  Surarez 7 – var ekki alveg nógu góður á boltan í dag og lét dómaran pirra sig dálítið með því að ekki gefa honum aukaspyrnur þegar hann átti rétt á því.

  Sterling 6 – bara solid

  Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur.
  7. leikir eftir
  1. stig í Chelsea
  2 stigum yfir Man City(þeir eiga tvo leiki inni)
  5 stigum yfir Arsenal( í baráttuni um 3.sætið)
  11 stig á Everton (í baráttuni um meistardeildarsæti, þeir eiga leik inni)
  12 stig á Tottenham (í baráttuni um meistaradeildarsæti)
  17 stig á Man utd ( bara til þess að sýna það að við erum að brilla og þeir eru að drulla á sig).

  Það er bara næsti leikur ámóti Tottenham og get ég lofað ykkur að þeir eru ekki að koma til þess að pakka í vörn eins og Sunderland í 90 mín. (það verða fullt af mörkum og vona ég að við skorum meiri hlutan).

  YNWA

 20. Nú eru sjö leikir eftir af deildinni, og sex þeirra á sunnudegi, hvað finnst mönnum um það???

 21. Skelfilega erfitt. En topp kredit til Söndaranna. Poyet mætti taktískt frábærlega til leiks. Með 5 manna varnarlínu, djúpa miðju og tvo stóra sterka Framherja. Náðu elgerlega að núlla okkur niður.
  Það sagt þá var rosalega jákvætt að klára þetta, það er ekki hægt að spila heimsklassa fótbolta í hverjum einasta leik, það koma dýfur inn á milli. Vonandi að þær verða dýpri en þetta.

  7 to go!!!!!!!!!

 22. #20 Agger skilaði sínu þokkalega í dag. Var annar af tveimur góðum miðvörðum sem þurftu trekk í trekk að fá keyrslu á sig þegar líða tók á leikinn. Var í baráttunni í horninu sem við fengum mark á okkur en í raunninni ekkert hægt að skammast út í hann. Myndi setja spurningamerki við Flanagan þar, enda fannst mér hann stíga allt of langt fram.

  Agger, Skrtel og Coutinho komust best frá í dag. Suarez var ARFAslakur, Glen Johnson átti dapran dag og aðirir koma rétt undir pari.

  Þessi spilamennska kemur mönnum vonandi á jörðina fyrir Tottenham.

  YNWA

 23. Ekki væri eg til i ad vera i tottenham nuna þar sem suarez skoradi ekki i dag og þad sast langar leidir hvad hanm var ordinn pirradur a þvi og er ad fara setja svo 6 a moti þeim

 24. Frábær skítasigur en mjög skrítið að Brendan brást ekki við pressuni frá Sunderland og markið svo sannarlega búið að liggja í loftinu. En fjörið heldur áfram og fínt að vera búin með einn lélegan leik og nú koma 7 góðir.

  Verð samt að segja eitt neikvætt. Glen Johnsson að drepa hverja sóknina á fætur annarri hjá Liverpool sérstaklega í fyrri hálfleik. Stoppar alltaf og drepur niður allt tempó. Hefur aldrei fundist þetta jafn greinilegt og í þessum leik. Hrikalega pirrandi einmitt þegar maður vill fá keyrslu á Sunderland vörnina og ekki voru sendingarnar hans merkilegar. En vonandi fer hann að hita því við höfum klárlega engan betri eins og er.

 25. Það góða við þennan sigur er að hann telur 3 stig. Nákvæmlega eins og sigurinn á Old Trafford. Og allir sigrar í vetur.

  Þetta var ljótur sigur en svei mér þá ef hann er ekki aðeins sætari fyrir vikið.

  Mitt glas er enn hálffullt – aðeins að bæta í það meira að segja !

  En mikið rosalega var vinur okkar Kevin Friend ekki að hjálpa til í kvöld. Mig minnir að Babú hafi nefnt það hér einu sinni eða oftar og ég alltaf tekið undir með honum, að þessi dómari eigi ekki sérlega vingott við okkur. Þvílík dómgæsla í þessum leik. Maðurinn var gjörsamlega úti á túni með ákvarðanir sínar í þessum leik(sem fólust að mestu leyti í að gefa okkur ekki réttmætar aukaspyrnur og fleira til).

  Sorrý – ég gleymdi mér. Farinn að kvarta yfir dómgæslunni og við unnum samt. Mikið djöfulli erum við með gott lið.

  Einbeita sér að því. Þá verður þetta auðveldara.

  YNWA – Make us Dream

 26. Ótrúlegt, maður sat mjög afslappaður þegar við drekktum manjú á OT og fannst aldrei að okkur væri ógnað. Sunderland heima gaf manni næstum renni-skít.

 27. Ég skil ekki beint þessa neikvæðni í mönnum. Þetta var frábær leikur, og þetta er enganvegin liðinu að kenna að leikurinn varð spennandi síðustu 20 mínúturnar. Við stjórnuðum leiknum í 70 mínútur, alveg fram að skiptingum Sunderland, þar sem að Rogers gerði sig sekan um taktísk mistök við það eina að bregðast ekki við gengi leiksins.

  Fyrst ákvað Rogers ekki að bregðast við skiptingunum, þar sem að hann reiknaði með að liðið gæti haldið áfram sóknarbolta. Eftir markið valdi hann síðan að skipta Sterling inn í stað Lucas/Sakho, aftur í von um að reyna að ýta undir sóknarbolta.

  Það að kenna liðinu um eitt né neitt er heimskulegt, þetta var frábær spilamennska. Það eru tvær ástæður fyrir spennunni í lokin. Dómaraleiðindi í sambandi við fullt af vafasömum atriðum í hag Sunderland (aukaspyrnur og spjöld), óheppni (Suarez fyrir skot Sturridge) og mest af öllu taktísk mistök hjá Rogers.

  Mér fannst annars alveg frábært að sjá Johnson halda áfram að spila frábærlega, steig varla feilspor allan leikinn, hvorki varnarlega né sóknarlega og manni fannst hann alltaf líklegur til að gera eitthvað stórkostlegt. Það er ekki oft sem að hann hefur spilað tvo leiki í röð vel, þannig að mér finnst ekkert smá gaman að sjá hann fylgja frábærum leik helgarinnar eftir með góðum leik í kvöld.

  En þrjú stig í hús, sem er náttúrulega frábært, og vonandi getum við endurtekið síðasta leik okkar gegn Tottenham og bætt við þrem stigum í viðbót!

 28. Það segir allt sem segja þarf að sumir séu hálf fúlir eftir 2-1 sigur.

  en ég sjálfur ég var hreinlega búinn að gleyma því hvernig það var að vera stressaður síðustu 10 mín og djöfull verður gaman að horfa á Stevie G taka við dollunni í Maí

 29. ArnarÓ #31, þú verður að benda mér á allt þetta frábæra sem Johnson var að gera í kvöld. Hægði oft á sóknum þegar loksins náðist hraði og gott flæði. Lélegar sendingar trekk í trekk. Fínn varnalega kannski.

 30. Hlakka til að lesa skýrsluna frá Eyþóri og hvernig aðrir kop pennar sáu þennan leik,,,,,

 31. Það er léttir að hafa klárað þennan leik, manni stóð ekkert á sama á tímabili. Maður er orðinn svo góðu vanur að maður þarf að slá sig rækilega utan undir til að vera glaður með bara 2-1 sigur. Þetta er auðvitað frábært að vinna þennan leik og alls ekki með bestu frammistöðunni. Þeir sýndu í kvöld að þeir geta líka unnið leiki án þess að vera að spila sinn besta leik sem er í raun þegar maður spáir í því alveg stórkostlegt. Ég er þó enn með báðar fætur á jörðinni er varðar allt tal um titil. Vinni þeir Tottenham um helgina gæti ég aftur mögulega tekið á smá flug með litlu tá.

 32. Frábært að fá 3 stig út úr ljótu leikjunum. Hvað haldiði að Manjú hafi unnið marga ,,ljóta” sigra? Til að verða meistarar verðum við líka að fá ljótu stigin. Ég er glaður.

 33. Það er svo mikil stemning í liðinu, maður getur ekki annað en brosað með þeim félögum.

  [img]http://giant.gfycat.com/UnkemptSpottedCricket.gif[/img]

 34. Mikið af bull kommentum hérna. Fannst liðið spila fínan leik á móti lið sem lá mjög aftarlega. Flottar syrpur hjá okkar mönnum, nokkur glæsilegt tilþrif hjá Suarez og bara í heild flott spilamennska. Frábær 3 stig í hús.

 35. Full erfiður leikur í lokin, átti bágt með mig í vinnunni =)

  En 3 stig og skemmtileg staðreynd að við erum taplausir síðan 29. des í deildinni ! Ekki slæmt það !

  And now they are gonna believe us ! We’re gonna win the league !

 36. AFsakið orðinn sem fuku úr mér….. Stundum hleypur maður langt fram úr sjálfum sér í bræðinni 🙁 Maggi high five fyrir að siða mig til 🙂

 37. Flottur sigur. Beggi ertu ekki öruglega ManU maður ? Ef ekki þá snýst fótboltaleikur um að skora fleiri mörk en andstæðingurinn

 38. Þetta var rosalega mikilvægur sigur, skiptir nákvæmlega engu hvernig þetta hefst svo lengi sem það hefst.

  Sunderland var nýbúið að skipta um stjóra fyrir fyrri leik liðanna og sá leikur var svipað erfiður og þessu. Poyet lagði þetta upp eins og sannur sonur Steve Bruce og Tony Pulis og það eru oft okkar erfiðustu leikir. Fimm varnarmenn og tveir djúpir miðjumenn með tvo tröllkalla upp á toppi.

  Það var þó enginn frá Sunderland sem var erfiðasti andstæðingur okkar dag. Kevin Friend er svo lélegur dómari að ég er farinn að halda það í fullri alvöru að hann fari ekki hlutlaus inn í Liverpool leiki. Hann er svona lélegur í hverjum Liverpool leik og þetta í kvöld var bara dæmigerður leikur hjá honum. Af mörgu slæmu var þetta með þeim afleitara frá dómara á þessu tímabili.

  Toppaði næstum þegar hann rak Spearing útaf gegn Fulham fyrir að vinna tæklingu og spjaldaði svo Bellamy seinna í sama leik fyrir að láta Dempsey skalla sig.

  Höfum við ekki sloppið ágætlega við þennan mann í vetur? Legg svonalagað ekki á minnið en ég vona að það verði framhald á.

  Coutinho var valinn maður leiksins á LFC TV og Sky. Var alls ekki mitt val í þeirri deild og mér fannst ekki koma mikið út úr því sem hann var að reyna sóknarlega. En mögulega var ég ekki mikið með hugann við einstaka frammistöður leikmanna í öllu stressinu, Gerrard a.m.k maður leiksins fyrir mér. Braut ísinn og stjórnaði miðjunni í þessum leik.

  Glen Johnson fannst mér með öllu afleitur í dag, hann hitti varla sendingu á samherja og skotin voru jafnvel verri. Allt liðið var reyndar með hræðilega skotnýtingu í dag og hittu varla markið. Rodgers var svo ekkert að bregðast við því þegar Sunderland setti tvo kantmenn inná og náði yfirhöndinni í leik sem við áttum að vera búnir að klára.

  Undir lokin skil ég síðan ekki afhverju það voru ekki gerðar fleiri skiptingar, liðið var undir mikilli pressu, stutt síðan liðið spilaði leik með sama byrjunarliði og við höfum sjaldan verið með betri bekk í vetur. Skiptir samt ekki máli núna þar sem þetta hafðist.

  Þessi leikur kemur félögum mínum frá síðasta podcast þætti vonandi aðeins nær jörðinni. Vonandi fara þeir svo aftur á flug í næsta leik.

  Tottenham er í pásu núna meðan Liverpool er að taka síðasta leikjaálag þessa tímabils með þremur leikjum á átta dögum. Vonandi hefur það ekki áhrif á sunnudaginn. Þessi sigur setur okkur 12 stigum á undan Tottenham og við höfum 45 mörk í plús. Þannig að við erum svo gott sem lausir við þá enda aðeins sjö leikir eftir hjá báðum liðum.

  En aftur, frábært að taka 3 stig sjöunda leikinn í röð. Hörku karakter líka í liðinu og vel gert að brjóta þennan varnarmúr gestana niður. Þetta var ekkert á topp 10 yfir leiki Liverpool í vetur en engu að síður mjög mikilir yfirburðir mest allann leikinn.

 39. Jhonson var svakalega slakur, ekki oft sem hann er skárri varnarlega en sóknarlega. Er hann farinn að dala for good eða er hann bara í krísu ? Frábær sigur!

 40. Byrjuðum mjög vel og láum í sókn, sóknir Sunderland mjög stuttar og bitlausar. Svo kom tímabil þar sem við misstum boltann mikið fyrir utan teig og klúðruðum þannig sóknunum, spilaðist svolítið þannig þar til að Gerrard skoraði mikilvægt mark.
  Seinni hálfleikur byrjaði vel, en þegar seinna markið kom var eins og einbeitingin hefði farið, hefði viljað sjá Rodgers gera skiptingu strax á 55. mín.

  Glen var líflegur, en lélegur að mínu mati. Flanagan varðist vel í fyrri hálfleik, setti stórt strik í reikninginn að fylgja ekki Ki í markinu og það fylgdi svolítið eftir, hann einhvernveginn komst ekki í takt við leikinn aftur eftir það. Agger og Skrtel fínir, vörðust vel.
  Gerrard flottur, greinilega að passa sig að vera ekki af aggrisívur, en hann verður sennilega að taka einhverja sénsa á sunnudaginn, Fernandinho verður erfiður.

  Suarez sennilega lélegastur okkar manna í dag, alltof eigingjarn. Sturridge var ekkert mikið betri, hann skoraði samt mark, var mun minna í boltanum. Coutinho bestur á vellinum og Allen&Hendo skiluðu fínni vinnu á miðsvæðinu. Ekkert út á Mignolet að setja, varði mjög vel í fyrri hálfleik.

  Mjög góð 3 stig í erfiðum leik. Þegar að maður býst við auðveldum sigri fær maður hjartsláttartruflanir í lok leiks.

 41. Hjó sérstaklega eftir einu í umfjölluninni: “Við erum taplausir í deild á árinu 2014 (það er 26. mars þegar þetta er skrifað)”

  Einblínum á þetta félagar. Einungis þetta. Í dag er ástæða til að gleðjast yfir því að við eigum gott (og skemmtilegt) fótboltalið. Stundum er staða til þess að njóta stundunarinnar – ég tel það eiga við í dag.

 42. Agalega væri gaman að komast í lyfjakokteilinn sem Kevin no Friend of mine er að éta í Liverpool leikjum, honum virðist vera slétt sama um allar reglur boð og bönn þegar það kemur að meintum brotum á okkar menn…. annars góð 3 stig í hús, góð skýrsla, og síðast en alls ekki síst, gott lið sem skilaði því sem skila þurfti

 43. Sæl og blessuð.

  Gott að þetta skyldi sleppa fyrir horn. Leikplanið fyrir svona rimmur er einhvern veginn svona: #1: Sigra (bónus ef mörg mörk hrynja inn) #2 passa meiðsli #3 passa spjöld.

  Þess vegna hvíla menn afturbrennarann í svona leikjum. Var það ekki einmitt svona hálfvelgja sem var á undan stórsigrum á Tottenham og Arsenal? Í þeim leikjum fýra menn út á fullu blasti og þá sjáum við líka allt annað lið. Þannig verður það vonandi á sunnudaginn.

  Vandinn við þessa formúlu er svo auðvitað sá að hætta er fyrir hendi að eitthvað fari úrskeiðis, eins og gerðist næstum því í gærkvöldi. Mikill léttir að þetta skyldi sleppa en við skulum gæta okkar á því að dæma ekki liðið út frá því.

  Annars er ég sammála því sem hér hefur komið fram að Jónsson var skelfilegur í leiknum og það er eitthvað í ólagi þegar Allen minn blessaður er farinn að bera upp sóknirnar eins og gerðist á köflum í leiknum. Nafni var eins og gömlu efnispiltarnir úr 5. flokki sem aldrei gáfu boltann en skiluðu svo sem ekki miklu. Minn ágæti Sturridge var hálfsofandi. Þá hefði ég viljað fá Sakho inn í þennan leik og ég skil ekki hvers vegna hann fékk ekki að reyna sig í gær.

  Stutt í næsta leik og ég skil í sjálfu BR vel ef hann hefur sagt piltunum að taka því rólega. Ég er þess fullviss að hann á eitthvað uppi í erminni sem hann vill ekki sýna þeim Þrándheimsmönnum alveg strax.

 44. Ég held að maður verði bara að vera þakklátur að Friend var að dæma leikinn við sunderland en ekki city eða chelski leikina, þar sem það yrðu erfiðir leikir til að spila móti dómaranum líka.
  Ég held að það sé augljóst að friend er e-h illa við okkar menn!

  Annars góður sigur í erfiðum leik, gegn andstæðingi sem er í fallbaráttu, svo maður hlýtur bara að gleðjast yfir því.

  Stefnan tekin á tottara-flengingu!
  Get ekki beðið!

 45. Náði leiknum öllum í nótt og var glaður að vera pressulaus að horfa á hann vitandi úrslitin.

  Getum alveg verið viðbúin svona leikjum, milljón lið hafa klikkað þegar toppbaráttupressan kemur upp, það er beinlínis allt annað að vera keppa um sæti í topp fjórum heldur en að keppa um sigur í deildinni. Margir leikmenn voru greinilega stressaðir í byrjuninni og auðvitað var það fyrirliðinn sem kippti okkur úr “djeilinu” með sennilega einu mikilvægasta marki ferilsins því let’s face it sennilega vorum við ekki að fara að skora fyrsta mark gærkvöldsins úr opnu spili eins og við lékum…þó við höfum haldið boltanum og flutt hann ágætlega um voru menn stressaðir á síðasta þriðjungnum.

  Alls konar skoðanir á leikmönnum hvort þeir voru góðir eða slæmir. Mér fannst val Eyþórs á manni leiksins rétt og var óskaplega glaður að sjá frammistöðu Coutinho eftir misjafnt gengi að undanförnu. Öll miðjan skilaði sínu, vörnin slapp til en sóknin átti ekki góðan dag.

  Það að vinna svona leiki býr til meistaralið og leikmenn.

  To grind out results makes you a man!

  Eina sem ég ergi mig á okkar dásamlega stjóra er hversu lítið hann nýtir skiptingar, hefði verið búinn að arga skjáinn minn í drep til að fá Lucas og Sakho inn í þennan leik…ef O’Shea hefði jafnað þarna í lokin hefði líðanin í dag verið önnur og spurningarnar stærri.

  Ég held líka að við eigum ekki að gleyma því að það hefur verið öðruvísi fyrir okkar menn að spila á Anfield í gær eftir 33ja daga hvíld frá þeim dásamlega velli, það er bara svoleiðis að heimaleikur er fyrst og fremst sterkur ef þú ert kominn inn í “hefð” og “reglu” af því að spila þar. Slíkt rof á heimavelli hefur oft verið erfitt því eftirvæntingin hjá aðdáendum byggir líka upp mikla pressu…

  Svo að taka þessi þrjú stig var gríðarlega mikilvægt, í raun held ég að þetta séu ein mikilvægustu stigin á árinu 2014, ef ekki bara á leiktímabilinu.

  Svo að brosið í dag er allan hringinn!

 46. Svolítoð týpiskur leikur. Menn ekki alveg með hausinn á réttum stað af þvi að Sunderland er lítið lið. Á sama tíma eru stóru liðin tekin í bakaríið. En við sluppum í þetta sinnið, vel gert þrátt fyrir allt.

 47. Sammála Magga, eins og endranær. Ég var óskaplega glaður að sjá frammistöðu Coutinho en það er samt svo að hann virðist missa sjálfstraustið innan vítateigs. En þvílíkt spil í manninum. Frammistaða Mignolet veldur smá áhyggjum, frosinn á línunni og ekki með góðar staðsetningar, eins og í markinu. Svolítið stressandi að horfa á hann koma boltanum frá sér en t.d. Reina. Miklu meiri spilabolti í Reina. Annars frábær sigur.

 48. Sko burt séð frá öllu þá fannst mér Liverpool lélegir og styrkleikamerkið er rosalega mikið að vinna leik þrátt fyrir að spila ekki vel. Fannst mikið stress í gangi mönnum hélst illa á bolta og hittu ekki á samherja. Flanno spilaði alls ekki vel og átti alla sök á markinu þegar hann ákvað að horfa bara á. Ég skil ekki alla þessa gagnrýni á Johnson. Hann hélt boltanum nánast í 3 mín ásamt Suarez og Henderson við hornfánan í lok leiks. Einnig miðað við tölfræði þá hitti hann alveg á samherja í ca 80% tilfella 🙂 Skulum alveg róa okkur á gagnrýni.
  Þá er það eini maðurinn í leiknum sem á skilið gagnrýni en fær hana ekki. HVers vegna ekki? Jú því hann er bestur í heimi, Suarez var ömurlegur í þessum leik og ég hætti að telja þegar hann rann á rassinn í 5 sinn. Hann var ekki líkur sjálfum sér og vonandi að pressa sé ekki að fara með hann. Vonandi kemur þessi stórkoslegi leikmaður til bkaa gegn Tottenham dýrvitlaus.
  Heilt yfir ekki góð frammistaða en hins vegar flottur og mikilvægur sigur eins og þeir eru allir.
  ÁFRAM LIVERPOOL

 49. Nr. 56

  Suarez fékk aukaspyrnuna sem skilaði fyrra markinu. Hann átti að fá a.m.k. tvær aðrar á sama stað.

  Það er með öllu óskiljanlegt að hann hafi ekki náð einum varnarmanna Sunderland af velli svo rosalegu basli átti hann með að stoppa hann.

  Þetta var ekki besti leikur Suarez og hann var að klúðra nokkrum sóknum, hann skoraði ekki þrennu heldur en að segja hann okkar versta mann í gær og með öllu ömurlegan er vanhugsað í meiralagi að mínu mati.

  Það var ekki hans sök að áhrif hans á þennan leik voru ekki meiri, Kevin Friend sá um það.

 50. Var hissa á að sjá ekkert til Lucas Leiva í þessum leik, spurning hvort að menn séu að fara með hann eins og fragile varning, en ég held það sé mikilvægt að fá hann inní þessa lokaleikjatörn. Gerrard er auðvitað fyrir en það ætti að vera hægt að finna móment til að hvíla hann og Lucas hefur meiri reynslu þarna í djúpinu.

 51. Flottur sigur og kommentin hér og sjálf tilfinningin reflectaði ekki alveg hvernig þessi leikur var. Við vorum með mikla yfirburði í sjálfum leiknum nánast allan tímann og samt sem áður voru menn að eiga almennt séð einn sinn slakasta dag mjög lengi. Menn voru að missa boltann frá sér í tíma og ótíma þegar þeir voru að móttaka bolta og fara af stað með hann. Heilt yfir menn ekki á tánum fannst mér, en engu að síður himinn og haf á milli þessarra liða.

  Friend er auðvitað bara frá einhverjum allt öðrum heimi en aðrir, svei mér þá, fyrir þennan leik og eftir hann, þá er ég sammála Babú með það að hann fer meira í mínar fínustu heldur en sjálfur Howard Webb og þá er nú mikið sagt. Hvernig í ósköpunum þetta var ekki game over eftir rúmlega hálfan fyrri hálfleikinn, það er bara með ólíkindum. Ekki einu sinni, heldur tvisvar átti hann að reka sama manninn af velli og þá hefði þetta bara verið alveg búið.

  Eitt skil ég ekki hjá Brendan svona almennt séð, og það er notkun hans á varamönnum og skiptingum. Lucas hefði verið svo kjörinn inná þarna í lokin, bara til að geta haldið boltanum innan liðsins og byggt upp spil að aftan. Eins fannst mér þessi skipting á Sturridge og Sterling frekar skrítin og mér fannst við detta talsvert úr gír við hana.

  Annars botna ég ekki alla þessa gagnrýni sem Glen Johnson fær í þessum leik. Hann átti ekki sinn besta leik, alveg langt frá því, en það voru margir sem voru á svipuðu level og neðar en hann. Hann var að keyra mikið upp, var í sama pakka og Sturridge, Suárez, Allen, Henderson etc. að vera oft á tíðum með ónákvæmar sendingar og missa boltann frá sér. Eins nokkur skot út úr kú. En það sem ég botna ekki, er af hverju hann er tekinn út fyrir sviga og sérstaklega fjallað um hans “ömurlegheit”. Flanagan kostaði markið sem kom öllu í uppnám og var síður en svo öflugri fram á við. En hann er ungur og allt það, en á það að telja þegar verið er að meta frammistöður í einstaka leikjum? Eins með Suárez, menn að tala um að hann hafi verið mjög dapur, engu að síður þá var hann að gera fullt af hlutum. Hann var kannski dapur á sinn mælikvarða, en hann var samt einn af bestu mönnum vallarins.

  En sammála Magga með að þetta var alveg óskaplega mikilvægur sigur og það skiptir nákvæmlega engu máli hvernig hann vannst, ef eitthvað er þá gerir svona sigur okkur enn sterkari fyrir komandi átök. Maður vonar það allavega.

 52. Skemmtilega saga frá leiknum við utd um daginn. Stuðningsmenn utd voru kokhraustir og sungu “We are Manchester United”. Okkar menn svöruðu “You’re going to have to prove it.”

 53. Sælir félagar

  Ég er ánægður með stigin þrjú.
  Ég er ánægður þegar okkar menn sigra þó þeir séu ekki að spila vel.
  Ég er ánægður með að þessum leik skuli lokið því það hlaut alltaf að koma að honum.
  Ég er ánægður að okkar menn skuli klára þennan down leik með sigri
  Ég er ánægður að fá ekki þennan down leik á móti MC til dæmis.
  Ég er ánægður því öll lið og líka okkar lið eiga svona leiki inn á milli og við því er ekkert að gera hvað sem hver segir.
  Ég er ánægður

  Það er nú þannig.

  YNWA

 54. Tek undir með Sigursteini, ég skil ekki alveg þessa gagnrýni á Glen Johnson hérna. Mér fannst hann fínn í þessum leik.

 55. það er engin ástæða að tapa sér yfir þessum leik, við vorum klárlega betri aðilinn og í raun var ekki svo mikil hætta frá þeim. við eru bara orðnir svo góðu vanir. meistaralið undanfarrinna ára, og keppinautar okkar á þessu ári hafa oft spilað verrir leiki og slefað í öll stigin, litla liðið í mansester er þekkt fyrir það. þetta hefur ekki verið að koma fyrir okkur svo mikið auk þess að við höfum verið dálitið ofdekraðir á þessi leiktið og þess vegna ekki vanir svona smá andvara í andlitið.

  höldum ró okkar og sýnum spurs hvar Daniel keypti ölið á sunnudag.

 56. 58 Babu þó svo að Suarez fiskaði aukaspyrnua og “rautt í leik” á leikmann Sunderland gerði hann lítið sem ekki neitt. Hann var í raun dálíitð einspilari og gerði ekki mikið. Hann var mjög slakur á sinn mælikvarða og pirraðist fljótt. Hann þarf svo að fara fá sér aftur nýja skó til að spila í enda rann hann oft á rassinn.

  Sammála Sigursteini með Flanagan að það megi alveg benda á hann, enda þessi mistök hans alveg svakalega barnaleg og eiga ekki að sjást í liðið eins og Liverpool.

 57. Nú hefur gengi okkar manna verið frábært á tímabilinu.

  Spurning dagsins er: Ef Liverpool vinnur alla þá 7 leiki sem eftir eru á þessu tímabili, um hve mörg stig ná þeir að bæta árangur sinn frá leiktíðinni 2008/9?

 58. Það er mjög eðlilegt að spá okkur 3. sætinu, enda líklegasta niðurstaðan sé litið til leikmannahópa, reynslu af toppbaráttu og jafnvel leikjaprógrammi.

  Ef ég ætti að skjóta á líkur á að vinna titilinn yrði það einhvern vegin svona:

  City 40%
  Chelsea 35%
  Liverpool 20%
  Arsenal 5%

  Sem þýðir að ef mótið yrði klárað frá þessum tímapunkti 100 sinnum, myndi Liverpool vinna í 20 skipti. Sem er alveg ótrúlega góð staða. Ef einhver hefði spurt mig eftir Chelsea leikinn um jólin hefði ég gefið okkur 3-5% líkur. Og með hverjum sigurleiknum vaxa þær.

  Svo má ekki gleyma því að þó árangurinn hafi verið frábær, eru samt gloppur inn á milli í frammistöðu. Tæpir á móti Fulham, erfiður fyrri hálfleikur á móti Southampton, vondur fyrri hálfleikur á móti Cardiff, frekar daufur leikur á móti Sunderland. En góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það er alveg sérstakur meðbyr í gangi þessa dagana, sem vonandi fleytir okkur langt. Og líka sá dýrmæti eiginleiki að gera nóg til að vinna leikina. Þetta lið mætir alltaf í standi inn í stórleikina, þess vegna held ég að Tottenham verði ekki fyrirstaða á sunnudaginn, en West Ham úti gæti hins vegar orðið hættulegur leikur.

 59. Sérfræðingarnir á BBC tala allir nema einn um að titilbaráttan eigi eftir að ráðast á Anfield, þegar Liverpool mætir Chelsea og City. Þetta verða auðvitað sex stiga leikir og ef liðið okkar klárar bæði liðin þá verður það öruggt í annað sætið og háspenna um fyrsta sætið.

Liðið gegn Sunderland

Opinn þráður – photobomb