Swansea menn mæta á Anfield

Eftir fyrsta tap okkar manna á árinu 2014 um síðustu helgi hafa okkar drengir haft heila viku til að undirbúa heimsókn fyrrum lærisveina Rodgers, Walesverjanna í Swansea City.

Eins og flestum lesendum má vera ljóst þá ákvað Kop.is gengið að þar færi leikur sem þarfnaðist öflugs stuðnings úr stúkunni og á vellinum verða 34 einstaklingar úr okkar ranni sönglandi og dansandi og trallandi, ákveðin í að skila stigunum þrem heim.

Einhverjar áhyggjur hafa verið af því að Kristján Atli hafi ekki fengið að sjá mikið af mörkum okkar manna í eigin persónu í síðustu heimsóknum hans, en mér skilst á Babú að einhver hafi ætlað að fórna sér í það að hugsa einhverja lausn ef ekkert mark er komið eftir fyrstu 45….en þessi texti er líka settur upp til að brjóta jinxið hjá okkar góða félaga. Tutututututu og fótbrotnaðu bara Kristján minn!

En að leiknum.

Swansea menn hafa átt misjöfnu gengi að fagna og skiptu um stjóra nú nýlega. Michael Laudrup náði einhvern veginn aldrei hylli hjá þessum klúbb, þrátt fyrir að vinna einn bikar og eftir einhvers konar störukeppni milli hans og eigenda liðsins um framhald samstarfsins ákvað eigandinn Huw Jenkins að nóg væri komið, rak Laudrup með e-mail og réð tímabundið Garry Monk. Huw er einn af betri vinum Rodgers í boltanum og Monk var fyrirliði félagsins allan tíma hans hjá Swansea svo að óhætt er að segja að fram fari bræðrabylta á Anfield á morgun.

Frá því að Monk tók við hefur liðið ekki tapað leik í deildinni (bara 2 búnir sko), féllu út úr bikarnum gegn Everton þar sem þeir stilltu upp veikara liði og gerðu svo 0-0 jafntefli heima gegn Rafa og félögum frá Napoli í fyrri Evrópudeildarviðureign í 32ja liða úrslitum þeirra keppni. Ágæt byrjun klárlega.

Það er að mínu mati gott að þeir eiga enn möguleika gegn Napoli, þangað munu þeir halda í næstu viku fyrir seinni leikinn og ég held að þeir séu með annað augað á þeim leik á Anfield. Þeir sitja nú í 10.sæti deildarinnar og leikmannahópurinn sennilega ekki nægilega öflugur til að koma þeim mikið ofar en það, þeir allavega eru langt frá öllum Evrópusætismöguleikum og það mun þýða að Napoli leikurinn er þeirra stærsti framundan. Sem hjálpar okkur.

Ég held að frekar erfitt sé að átta sig á hvort að við sjáum leikmannahópinn sem spilaði gegn Everton eða Napoli (8 breytingar milli leikja) á sunnudaginn og ég ætla því að láta vera að stilla upp liðinu þeirra. Held þó og vona að við fáum að sjá Jonjo spila á Anfield, líka hans vegna, því hann var vinsæll hjá fólki og má alveg fá klapp.

Að okkar mönnum.

Á blaðamannafundi Brendan Rodgers í vikunni kom í ljós að Glen Johnson er kominn á fulla ferð, segist ekki hafa verið í betra standi um langan tíma og því tilbúinn að klæðast rauðu treyjunni á ný. Enn fréttist ekki neitt af meiðslum Enrique og Sakho, Lucas enn um 4 vikur í burtu.

Aðrir leikmenn eru heilir, Agger hefur ekki fengið neitt bakslag og Hendo er annað hvort kominn með léttara gifs á hendina eða alveg laus við það. Svo að staðan í leikmannahópnum hjá okkur hefur ekki verið eins góð býsna lengi. Ég ætla að prófa að stilla liðinu upp á þennan veg:

Mignolet
Johnson – Skrtel – Agger – Flanagan
Henderson – Gerrard – Coutinho
Suarez – Sturridge – Sterling

Glen, Mignolet og Hendo koma því að mínu mati inn í leikinn í stað Jones, Allen og minns manns Cissokho sem setjast á bekkinn.

Ég held að Rodgers meti Flanno framar Aly og þrátt fyrir ágæta innkomu Allen gegn Arsenal þá slátraði þessi miðjuuppsetning bæði Everton og Arsenal og því engin ástæða til að breyta því.

Með Glen í bakverði erum við komin með sóknarógn upp vængina enn frekar en í þessum leikjum og það auðveldar mótherjum okkar ekki verkið. Það er morgunljóst að við munum sjá okkar lið hápressa frá fyrstu mínútu ofarlega á vellinum og pinna þá aftarlega á völlinn.

Það er þannig núna að manni finnst í raun spurningin alltaf snúast um það hvernig andstæðingurinn þolir þessa pressu og þá um leið hvort að okkar lið hefur þolinmæði ef að ekki gengur strax að skora mark eða mörk. Ég met það þannig að í þessum leik verði ekki sama leifturbyrjunin uppi á teningnum og hefur verið í síðustu leikjum því Swansea munu ólíkt Everton og Arsenal setjast aftarlega á völlinn og reyna að leggja rútu í teignum. Sem stundum hefur reynst okkur erfitt.

Að því sögðu þá held ég að Napoliskugginn muni líka vofa það fast yfir að við ætlumst enn frekar til öruggra þriggja stiga sem gætu fært okkur nær fyrsta sætinu og lengra frá sætunum þarna neðan við Meistaradeildina, því leikir Everton og Tottenham um helgina gætu hæglega reynst þeim erfiðir.

Mín spá er að við skorum fyrsta markið rétt fyrir hálfleik og Kristján minn fái því hamborgarafrið í hléinu og í seinni fáum við tvö mörk í viðbót. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að við höldum líka hreinu svei mér þá.

Mín spá er því 3-0 sigur sem fær okkur til að gleyma Arsenaltapinu.

KOMA SVO!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

42 Comments

  1. Ég vona að Coutinho verði fyrir framan Hendo og SG, finnst það virka betur þannig.

  2. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun Maggi og bestu kvðjur til okkara manna á Anfield. Mér er nokk sama hvernig þessu verður stillt upp. Mér líst ágætlega á uppstillingu Magga og tillaga Brekkusnigils hér fyrir ofan er líka góð. En hvað sem verður ofan á þá verpðum við að vinna þennan leik og gerum það. 3 – 1 er mín spá og kemur ef til vill ekki á óvart.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. vinnum 4-1 .. suarez með þrennu og sturridge með eitt…

    og ja liðið verður nkl eins og maggi setti það upp 😉

  4. Ég ætla að vera neikvæður spá 0-1 tapi hjá okkar mönnum, svona A.Villa, Hull dæmi eitthvað. Fæ þetta vonandi í bakið. Stressaður og vonast eftir jinx-i á spánni hjá mér.

  5. Ég ætla ekki að gefast upp alveg strax: Veit einhver um stað í Rågsved (Bandhagen) í Stokkhólmi sem sýnir leiki í ensku?

  6. ég ætlast til að vinna Swansea á heimavelli sama hvort þeir séu að fara að spila Evrópuleik eða ekki í næsta leik á eftir.

    Of sjaldan sem LFC heldur hreinu, spái þessu 4:1

  7. Suarez er ekki búin að skora í þremur leikjum í röð…..sem þýðir væntanlega að hann er að fara skora 3 og leggja upp einhvað…hann er bara þannig gaur.

    Spái markasúpu 5-2 þar sem Skrtel og Agger ná að spila frábærlega en samt gera þessi 2 klassísku mistök sem gefa mörk.

  8. Mikil breyting á vörninni ef spáin hjá þér reynist rétt. Sjaldan gott.

    Finnst persónulega Aly hafa verið að spila vel í vörn undafarna leiki. Mundi halda honum í bakverðinum.

    Skrtel er fyrstur inn í miðvörð (þrátt fyrir allt) og þá er þetta bara spurning um hvort hann spili betur með Agger eða Toure sér við hlið. Agger gerir ekki færri mistök en Toure m.v spilaðar mín.

    Finnst eins og Johnson komi oftast sprækur úr meiðslum og þar sem kominn er tími á allavega einn leik í hvíld hjá Flano þá tel ég það góð skipti.

    Mikið vona ég það rætist úr Sakho kaupunum. Þangað til hann er heill vonsat ég eftir smá stöðuleika í vörninni.

    Spá 2-2

  9. Þetta gæti svo auðveldlega orðið einn af þessum leikjum sem Liverpool ætti að vinna, verður meira með boltann, á fleiri skot á mark og allt það, en endar svo með jafntefli eða tapi. Bíð spenntur eftir sokknum.

  10. Tek undir með Daniel her að ofan, þetta gæti orðið leikur þar sem við mætum í ekki með hausinn í lagi og tapað stigum. Vonandi er vilji BR til þess að vinna sína gömlu félaga mikill og að hann vilji aðeins sýna og sanna að hann sé nú hjá miklu stærri klúbb, með allri virðingu fyrir Swansea.

    Þeir spiluðu leik á fimmtudaginn og ættu því að vera ekki eins ferskir og okkar leikmenn.

    Vonandi náum við að halda hreinu. 2-0 spá mín, Suarez og Hendo með mörk okkar.

  11. fannst reyndar líklegt að kæmi mark frá öðru hvoru liðinu.. bjóst reyndar meira við því frá Everton, þar sem mér fannst þeir aðeins grimmari .. En já, viðbjóðslegt.

  12. Jæja öll 3 toppliðin með sigra, þannig að við verðum að vinna á morgun!

  13. Öll liðin fyrir ofan okkur með sigra í dag. Tottenham andar líka ofan í hálsmálið á okkur þannig að krafan um sigur er enn meiri núna en hún var fyrir leiki dagsins. Ég hef fulla trú á því að við klárum þennan leik af nokkru öryggi. Segi 3-1 eftir erfiða fæðingu. Góða skemmtun kopparar, vonandi tökum við eftir ykkur í tv-inu.

  14. Vond úrslit í dag en Liverpool á bara að passa sig á því að einbeita sér að sínum leik.

    Eina jákvæða við daginn er að Everton er endanlega úr leik í baráttu um 4. sætið. Þetta er nú bara á milli okkar og Spurs.

    Er sammála Magga með uppstillingu á byrjunarliðinu. Þetta verður, eins og allir þeir leikir sem framundan eru, mjög erfitt. Okkur gengur stundum illa með lið sem liggja aftarlega á móti okkur. Ég er samt nokkuð viss um að okkar menn mæti einbeittir og dýrvitlausir í þennan leik frá 1. mínútu. Mikilvægt að skora snemma svo þeir opni sig og þá klárum við þá nokkuð auðveldlega.

    4 – 1. Suarez og Sturridge skipta þessu bróðurlega á milli sín.

    Koma svo LFC!!

  15. Oft á þessari leiktíð þegar allir okkar helstu aðstæðingar sigra þá gerum við það ekki en við vonum að við náum að klára leikinn á morgun.

    Swansea eru hættulegur andstæðingur, þeir vilja halda boltanum og spila rólegan bolta sem getur drepið stemninguna á vellinu.
    Við erum alltaf líklegir til þess að skora en við erum líka alltaf líklegir til þess að fá á okkur mörk.

    Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að vinna leikinn á morgun því að prógramið okkar framundan er virkilega erfit. Ég vona að menn mæta dýrvitlausir og með blóðbragð í munninum.

  16. ÉG SPYR…….. er GUDERIAN búinn að taka YNWA á píanóið fyrir þennan leik??

  17. Eina jákvæða við úrslitin í dag er að. Ardiff tapaði þannig að líkurnar á losna við þennan fáránlega eiganda þeirra úr deildinni aukast töluvert.
    Annars hljótum við að klára Swansea á heimavelli. Segi 3-0 og Suarez opnar markareikninginn aftur.

  18. #26 Mjök er mér tregt um tungu at hræra og þungt vægi ljóðpundara eins og Egill kvað forðum. Enda er ég í fokkings Skorradal og þar hefur aldrei verið píanó eða annað fimbulgargan svo að gleggstu menn muni.

    Nú er í gangi plan B enda á ég ekki von á að vera í ökuhæfu ástandi fyrr en seint á morgun. Sem sagt hér í þessum helvítis bústað er ég búinn að grafa upp barna ukulele og nú í þessum töluðu orðum að æfa YNWA á garminn. Algjörlega vonlaust verkefni og mjög líklega verð ég í senn vina- og konulaus eftir baráttuna við ukuleli’ð. Ég verð alla vega skinnlaus á puttunum en ef við löndum sigri á morgun skal ég brosa framan í plástrana.

    Mín spá er þ.a.l. erfiður leikur þar sem allt getur gerst.

  19. Guderian. Ég er í Skorradal líka þó ég komi seint með að lýsa þessum stað sem fokkings. Værirðu til í að spila þetta úti á palli aldrei að vita nema þá verði tekið undir í dalnum.

  20. Ég er alvarlega að spá í að fara í bíltúr í Skorradalinn með hljómborð með mér, bara til að Guderian geti nú spilað YNWA.

  21. Sælar elskurnar.

    Hef ekki góða tilfinningu fyrir þessum leik og óttast hið versta. Sé fyrir mér rautt spjald í upphafi, lykilmenn borna meidda af velli, stangarskot, sláarskot, grátandi framherja og varnarmenn með höfuð grafið í grassvörð.

    Hugga mig þá við þann spádóm að völvuspáin mín hljóti að rætast. Samkvæmt henni töpum við aðeins tveimur stigum til viðbótar það sem eftir lifir móts. Nánari útfærsla á þeirri spá er á þá leið að hin glötuðu stig komi á hinu Gamla Trafarvaði þar sem rauðir skrattakollar jafna á elleftu stundu og nítugustuogfimmtu mínútu.

    Hina leikina sigrum við.

    Ónotakenndin er því ekki nema tilfinning, frumstæður ótti sem blundar einhvers staðar á þeim slóðum þar sem skriðdýrstaugarnar liggja grafnar undir hverju laginu af öðru af skynsemi og upplýstri hugsun í heilaberki, dreka og hvað þetta nú heitir allt.

    Ég ætla samt að leyfa þessum rakalausa gamla ónotakvíða að blunda í katakombum hugans þangað til flautað verður til leiksloka og niðurstaðan liggur fyrir, skýr og óbreytanleg. Það er ógætt næra óttann stöku sinnum. Þá verður gleðin enn meiri þegar vel gengur.

  22. #32 Að sjálfsögðu er Skorradalurinn himnaríki og ekkert fokkings nápleis eins og skilja mátti af vanhugsuðu og illa orðuðu rauðvínslegnu innleggi. Nettur pirringur enda er ég ömurlegur á ukuleke. Hvar ert þú nú Gréta Mjöll? Hvar ert þú nú Svavar Knútur?

    En núna er gamli í góðu skapi enda skín sólin, leikur framundan og lífið er yndislegt. Að sjálfsögðu verður YNWA spilað af öllum mætti og miklum áhuga úti á palli rétt fyrir leik. Þannig að legðu við hlustir kæri félagi og við syngjum saman til sigurs!

    Og svo ég aftur vitni í góðan Borgfirðing held ég að okkar menn taki á Svönunum eins og sjálfur Egill Skallagrímsson væri í yfirfærðri merkingu: Þat mælti mín móðir, at mér skyldi kaupa, fley ok fagrar árar, fara á brott með víkingum, standa upp í stafni, stýra dýrum knerri, halda svá til hafnar, höggva mann ok annan.

  23. Eftir fyrri úrslit helgarinnar hjá liðunum fyrir ofan okkur og liðinu sem situr nú í 6 sæti deildarinna þá finnst mér það afar líklegt að okkar menn misstígi sig í dag og allir hér verði brjálaðir :/

  24. The Liverpool team in full is: Mignolet, Johnson, Skrtel, Agger, Flanagan, Gerrard, Henderson, Sterling, Coutinho, Suarez, Sturridge.

    Substitutes: Jones, Teixeira, Toure, Moses, Allen, Aspas, Cissokho

    Tekið af liverpoolfc.com

  25. Óskaplegur kjáni getur Skrtel verið. Fyrst rispar hann lappirnar á Shelvey og gefur algjörlega óþarfa aukaspyrnu og svo kom auðvitað að því að hann fékk dæmt á sig víti fyrir að hanga í sóknarmönnum í teignum. Idiot.

    Að allt öðru….KOMA SVO LIVERPOOL KLÁRA ÞENNANN LEIK! 🙂

Opinn þráður – Rodgers á réttri leið?

Liðið gegn Swansea