Hneigðu þig Brendan Rodgers

Það er ekkert ný saga að stuðningsmenn knattspyrnuliða fari hátt upp eftir sigur og langt niður eftir tap. Oftar en ekki er um allt of ýkt viðbrögð að ræða, sama í hvora áttina er litið. Stuðningsmenn Liverpool eru svo sannarlega engin undantekning og síðustu fimm ár hafa svo aldeilis tekið á.

En hvernig í veröldinni er hægt annað en að fara upp á háaloft þegar maður horfir á Liverpool gjörsamlega slátra sínum helstu andstæðingum á nokkrum vikum og á móti fara alveg niður í kjallara þegar sama lið tapar stigum gegn botnliðunum á sama tímaskeiði?

3-1 tap gegn Hull er ansi nálægt heimsendi ef þú spyrð mig. 0-5 sigur úti gegn mjög góðu Tottenham-liði er eitthvað sem á að fagna og helst með því að fara aðeins framúr sér.

Að vinna Everton 4-0 þegar við erum í bullandi baráttu við þá er stærra en við gerum okkur almennilega grein fyrir hérna heima. Ekki bara það heldur var þeim gjörsamlega slátrað á vellinum líka. Jafntefli gegn Villa og hræðileg frammistaða er svo týpískt Liverpool að það er ekki hægt annað en að fara aðeins framúr sér í bölmóði.

Jafntefli gegn WBA eftir fáránleg varnarmistök er jafn mikið grátlegt og það var týpískt eitthvað. Næsti leikur á eftir er einn sá besti sem við höfum sé frá Liverpool síðan við byrjuðum að fylgjast með liðinu. Besta lið deildarinnar á þessu tímabili slapp mjög vel með einungis 5-1 tap á bakinu frá Anfield. Nákvæmlega sama lið og gat ekki klárað Aston Villa eða WBA nokkrum dögum áður.

Hvernig er ekki hægt að fara aðeins fram úr sér eftir leik eins og við sáum í gær? Þetta lið er gjörsamlega til alls líklegt, besta skýringin sem ég hef lesið á möguleikum Liverpool var endapunkturinn á snilldarleikskýrslu Neil Atkinson hjá The Anfield Wrap:

“At the time of writing Arsenal are top of the league having shipped 11 at Man City and Liverpool. Look me in the eye and say this Liverpool team can’t win the league. Look me in the eye and say they can’t. The league is bananas. We should win it as the most bananas. It is only right.”

Nei ég hef ennþá enga trú á því að Liverpool sé að fara að vinna deildina. Það eitt að vera ennþá með í samtalinu gleður mig alveg óskaplega mikið. Er á meðan er a.m.k. Ef allt er eðlilegt þá töpum við fyrir botnliðinu á miðvikudaginn eftir að hafa slátrað toppliðinu í gær.

Liverpool er með 16 stigum meira núna en eftir sömu leiki í fyrra og þessa tölfræði höfum við stórbætt í síðustu fimm leikjum. Stoke, Aston Villa, Everton, WBA og Arsenal. Þetta eru síðustu fimm leikir Liverpool í deildinni og þetta skilaði okkur einu stigi á síðasta tímabili, jafntefli gegn Everton. Núna erum við að taka 10 stig frá þessum viðureignum og settum 4-5 mörk í öllum leikjunum sem við vorum stressuð fyrir en töpuðum stigum í þeim leikjum sem við þorðum að vonast eftir sigri. Þetta tímabil er tómt rugl hjá Liverpool.

Næstu fimm leikir eru svona:
Fulham (Ú)
Swansea City (H)
Southampton (Ú)
Sunderland (H)
Manchester United (Ú)

Þar á eftir er það Cardiff úti. Þetta er alls ekkert létt prógram, skilaði okkur 9 stigum í fyrra en á sama tíma eru flest liðin sem við erum í baráttu við að spila líka í Evrópu, bikar eða Deildarbikar. Ef einhvern tíma er tækifæri til að ná 4. sætinu þá er þessi kafli gríðarlega mikilvægur, hvað þá ef við erum að horfa á eitthvað meira en 4. sætið.

Eftir 25 umferðir í fyrra var Liverpool með 36 stig í 7. sæti, heilum 26 stigum frá toppliði Man Utd og 9 stigum frá Tottenham í 4.sæti. Núna erum við í 4.sæti eftir 25 umferðir með 50.stig, sex stigum frá toppliði Chelsea (10 stigum á undan Unted sem á leik til góða).

Meiðsli og breytingar milli ára

Hvað hefur breyst svona milli ára? Þessi munur á liðinu er eins og Liverpool hafi keypt þá alla, Costa, Mkhitaryan og Willian í sumar og bætt svo Konoplyanka við í janúar! Ef ekki það þá hljóta öll stangarskotin að vera farinn að rata í netið núna? Nei ekki það heldur?

Markmaður

Ekkert lið í úrvalsdeildinni er með eins mörg skot í rammann eins og Liverpool og af öllum leikmannakaupunum fyrir þetta tímabil höfum við bara fengið inn einn byrjunarliðsmann, Simon Mignolet sem kemur í stað Reina sem var nú ágætur líka. Hann er sá eini af nýju leikmönnunum sem hefur ekki meiðst á þessu tímabili. Allt í allt er Mignolet líklega bæting á Reina m.v. undanfarin ár en ekkert sem útskýrir þennan mun.

Vörn

Hefði einhver sagt mér að við þyrftum að spila 3-4 leiki eftir áramót án Enrique, Sakho, Agger, Johnson og Lucas hefði ég þurft að fara beint út í apotek tl að biðja um lyf við svartsýni. Hvað þá leiki sem skera úr um tímabil eins og gegn Everton og Arsenal.

Sakho hefur allt að bera til að verða frábær miðvörður á næstu árum, hreinlega óhugnalegt að hugsa út í það hversu góður hann getur orðið ef hann bara nær að vaxa eins mikið undir stjórn Rodgers og aðrir ungir menn eru að gera. En hann hefur ekki nýst okkur mikið á þessu tímabili. Það tók sinn tíma að aðlagast og hann hefur verið meiddur síðan í desember. Við eigum hann inni fyrir lokasprettinn.

Jose Enrique hefur sannað sig sem bakvörður hjá Liverpool og við höfum saknað hans töluvert í vetur. Hann er ekkert gallalaus en þegar við miðum hann við t.d. Riise þá hefur Liverpool svo sannarlega oft verið í verri málum. Enrique meiddist í október og aftur í nóvember og er ennþá meiddur.

Minn maður Aly Cissokho kom í staðin fyrir hann og meiddist á innan við tíu mínútum og var frá í nokkrar vikur. Þeir sem þekkja til segja að hans helsta vandamál hafi verið sjálfstraust og við sjáum það núna þegar hann er að spila reglulega að hann er ekki eins vita gagnslaus og hann leit út fyrir í byrjun. Hann gat ekki fengið mikið leiðinlegri byrjun á ferlinum sínum í búningi Liverpool. Ef málið er skoðað betur eru ekki hægt að telja upp mörg mistök hjá honum varnarlega sem hafa kostað okkur mark (nokkur sem gerði það næstum því samt). Hann er betra back-up en meiddur Fabio Aurelio, getum orðað það þannig og þrátt fyrir allt bæting á þessari stöðu frá síðasta tímabili (þurftum breiddina þarna greinilega).

Fyrir tímabilið og bara síðan Rodgers kom hélt ég að Daniel Agger yrði alltaf fyrsta nafn á blað, eitthvað til í því líklega þar sem hann er varafyrirliði félagsins. Hann hefur því miður fundið sitt gamla form á ný og hefur fimm sinnum skráð sig á meiðslalistann í vetur og nánast aldrei verið í 100% standi.

Kolo Tore hefur svo sannarlega verið betri en enginn sem fjórði kostur okkar í miðverðinum, hann er ekki sami Tore og fyrir tíu árum og hann er alls ekki Sami Hyypia (ég varð) en sem fjórði kostur okkar sem mikið hefur mætt á flokkast hann alltaf sem gott free transfer. Hann hefur líka verið að glíma við meiðsli.

Maður ársins í vörninni er auðvitað Martin Skrtel og hann er ein besta skýringin á því hversu ruglað þetta tímabil er. Hann var varla búinn að spila síðan gegn Oldham í janúar þegar hann kom inn sem allra síðasti kostur gegn United og pakkaði sóknarlínu þeirra saman. Hann hefur nánast spilað alla leiki síðan og vaxið í það form sem hann var í fyrir ca. tveimur árum. Ég bjóst ekki við því að segja þetta fyrir tímabilið en ég sé ekki Sakho og Agger slá hann úr liðinu þegar þeir koma aftur. Hann er síðan með 4 mörk (og annað eins af sjálfsmökrum) sem hjálpar. Gleymist samt að hann var meiddur í byrjun tímabils og því Toure í byrjunarliðinu fyrstu leikina.

Ungi maður ársins í vörninni er svo án vafa John Flanagan. Hans saga er gott efni í kennslumyndband fyrir unga knattspyrnumenn. Hann hefur gjörsamlega bjargað okkur í þvílíku bakvarðahallæri og leysir bæði hægri og vinstri bak vel. Rodgers sagði fyrir stuttu að ekkert lið hefði svo mikið sem beðið um að fá hann á láni og í fyrra var hann í basli í varaliðinu. Öfugt við undanfarin ár hefur Flanagan sloppið við meiðsli. Uppfært: Nei hann meiddist líka í mánuð, bara núna nýlega.

Glen Johnson var mjög góður fram að leiknum gegn Fulham (og í þeim leik), þá var eins og slökkt hefði verið á honum og seinna kom í ljós að hann hafði meiðst í þessum leik og þyrfti að fara í viðgerð. Hann var ömurlegur í jólatörninni. Johnson hefur fimm sinnum skráð sig á meiðslalistann í vetur og er á honum núna.

Martin Kelly er síðan að ná sér af langtímameiðslum og mínútunum sem hann fær fjölgar stöðugt. Hver veit nema hann taki Flanagan á þetta líka? Hann gerði það þegar hann kom fyrst inn í liðið.

Þá er ótalinn Sebastian Coates sem tékkaði sig út allt tímabilið.

Niðurstaða, breiddin er klárlega betri en í fyrra þó vörnin leki ennþá allt of mikið af mörkum inn. Betri breidd er best hægt að mæla þannig að John Flanagan er sá eini sem ekki hefur verið frá vegna meiðsla. Blessunarlega eru allir varnarmenn liðsins væntanlegir til baka á næstu vikum.

Miðjan.

Leikstíll Brendan Rodgers er eitthvað sem við hreinlega þekkjum ekki og sama má segja um marga af andstæðingum Liverpool. Hann hefur reyndar ekki verið svo viss sjálfur í vetur og sumar tilraunir voru skrítnar og fóru illa. Miðjan virðist stundum mæta afgangi þegar sóknarlínan okkar er svona góð. En þegar allt smellur hjá okkar mönnum, guð minn góður þá smellur það.

Mikilvægi Lucas Leiva virðist hafa minnkað töluvert í ár, guði sé lof, þó hann hafi verið góður í mörgum leikjum framan af. Rodgers hefur ekki mikið notað eiginlegan DMC og var Lucas t.a.m. að spila mun framar á þessu tímabili en áður. Persónulega hélt ég að tímabilinu væri svo gott sem lokið þegar Lucas meiddist enn á ný og liðið keypti engan mann í staðin. Steven Gerrard virðist ætla að gera þær áhyggjur óþarfar. Lucas meiddist fyrir mánuði og verður frá eitthvað lengur. Hann þarf líklega (og vonandi) að keppa við Gerrard um stöðuna því þeir voru ekki að spila vel saman.

Steven Gerrard missti af jólatörninni og hefur fjórum sinnum verið á meiðslalistanum í vetur. Hann er að læra nýtt hlutverk, 33 ára gamall og virðist ætla vera jafn viðbjóðslega góður þar sem og annarsstaðar. Enn sem komið er hefur hann verið betri en ég þorði að vona, sérstaklega upp á að hefja sóknarleikinn úr djúpinu, varnarlega er hann ennþá smá villtur og að gera mistök en þau skipta aðeins minna máli þegar við erum t.d. 5-0 yfir.

Joe Allen hefur alltaf meiðst þegar hann virðist ætla að nýtast liðinu eitthvað sem er fullkomlega óþolandi. Þetta er góður leikmaður og við getum klárlega notað hann þegar hann er heill en það er allt of sjaldan. Allen er ennþá á flottum aldri og gæti orðið mjög góður leikmaður hjá okkur nái hann smá run-i í liðinu.

Fyrir mér þá hefur Jordan Henderson tekið við hlutverki Lucas Leiva sem vanmetnasti leikmaður liðsins. Hann hefur orkuna sem þarf á miðjuna og lætur allt tikka hjá okkur. Ég skil ekki ennþá hvernig Rodgers datt í hug að leyfa honum að fara til Fulham og tala með stolti um það upphátt. Eins er núna hægt að hlæja að þeim sem töldu verðmiðan á honum allt of háan. Henderson hefur verið frábær í vetur og það gleymist gjörsamlega að hann var að spila með U21 árs liði Englands bara á síðasta tímabili. Menn í þessari stöðu á vellinum toppa jafnan aðeins seinna á ferlinum. Henderson hefur að mestu sloppið við meiðsli en var smá frá í desember.

Coutinho er strákur sem getur vel vaxið í það að verða eitt af stóru nöfnunum í boltanum. Tom í þætti fótbolti.net orðið það vel þegar hann talaði um að hann hefði Kaka auga fyrir sendingum, þær eru það góðar. Nærtækasta dæmi er síðasti leikur þar sem hann tók frábæra miðju Arsenal í kennslustund. Hann er mjög misjafn en það er eins og við höfum oft komið inná mjög eðlilegt. Við töluðum um það fyrir tímabilið meira að segja. Máttum alveg við betra coveri fyrir Coutinho en Moses og þessi strákur á alltaf að vera á miðjunni, ekki kantinum. En þegar hann er on þá er hann eins og masterlykill, getur opnað allt saman, sérstaklega með þetta S tríó fyrir framan sig.
Rodgers hefur engu að síður auðvitað þurft að vinna með meiðsli frá honum í vetur.

Coutinho er rétt rúmlega tvítugur, hversu góður haldið þið að hann geti orðið eiginlega? Til að berjast við þetta eitt mesta efni Brasilíu eigum við svo eitt mesta efni Spánverja sem er að standa sig frábærlega í heimalandinu með lélegu liði. Ef að Sterling, Coutinho, Flanagan og Henderson geta vaxið svona á skömmum tíma er afar spennandi að hugsa til þess að við eigum Suso ennþá. Þá er Alberto ótalinn sem gæti allt eins sprungið út líka.

Sóknin

Það getur ruglað flæði liðsins og holningunna að vera með svo góða sóknarmenn að það er ekki hægt að setja þá á bekkinn. Rodgers er að leysa það með þeim hætti að bráðum verða aðrir þjálfarar farnir að stúdera hans aðferðir til að nýta sjálfir, svipað og Rodgers gerði áður en hann fór út í þjálfun.

Rétt eins og hjá Swansea er hann að vinna með það sem hann hefur. Hjá Swansea var hann með Danny Graham og Fabio Borini frammi og leikur liðsins gekk því ekki bara upp á að koma boltanum strax á sóknarmennina, hjá Liverpool er þetta ekki alveg þannig og hann hefur snúið gjörsamlega frá þeirri stefnu sem við héldum að hann myndi innleiða.

Þetta er þó ekki bara svo einfalt að sóknarlínan hjá okkur sé svo góð að þetta kemur að sjálfu sér, það er hvernig Rodgers leggur þetta upp sem gerir sóknarlínunni kleyft að gera það sem þeir gera. Suarez var vandræðaunglingur (26 ára) í fyrra sem ”margir” vildu að yrði seldur, Sturridge var varamaður hjá Chelsea fyrir rúmlega ári síðan og við vorum búin að afskrifa Sterling fyrir svona 4 mánuðum.

Þetta tríó stenst í dag hvaða sóknarleik sem er í heiminum snúning, Bayern, Barca og Real þ.m.t.

Luis Suarez er á hátindi ferilsins núna og hann er stundum bara með ólíkindum góður. Hann skorar mörk í öllum (bókstaflega) regnbogans litum, leggur meira upp en nokkur annar, tekur aukaspyrnur og er svo eins og Ian Rush hvað varnarleik varðar. Alltaf okkar fyrsti varnarmaður. Það segir sitt að við erum svipað stressuð að ná 4. sætinu upp á að halda honum og að spila í helvítis meistaradeildinni. Standardinn sem hann er að spila á er eitthvað sem við höfum ekki séð síðan Rush skoraði að vild. Owen, Torres og meira að segja Fowler voru ekki nálægt því eins góðir og Suarez. Það gæti ekki verið meira við hæfi að hafa Suarez sem besta mann liðsins í svona klikkuðu liði, hann spilaði ekki fyrstu fimm leiki tímabilsins því hann var ennþá í banni, fyrir að bíta andstæðinginn… aftur.

Hvort viljið þið hafa Michael Owen kórderng frammi eða einhvern jafn góðan og Suarez sem er þannig í skapinu að það þarf í alvöru að segja varnarmönnum að passa sig á honum, hann bítur.

Daniel Sturridge væri líklega öll önnur tímabil í sögu Liverpool stærsta stjarna félagsins með þessari spilamennsku. Það er stórlega vanmetið en þegar Suarez hefur verið frá þá hefur Sturridge fyllt skarðið, saman eru þeir nánast svindl. Rodgers hefur engu að síður þurft að vinna með fjarvistir frá báðum, Sturridge hefur þrisvar skráð sig á meiðslalistann og einu sinni í nokkrar vikur.

Raheem Sterling er síðan að stimpla sig inn í þennan hóp á ljóshraða. Síðan Liverpool tapaði fyrir Hull hefur Sterling loksins spurngið út og hjálpi mér hvað hann er að springa út. Núna eru allir leikirnir sem hann fékk á síðasta tímabili að skila sér. Hann er besta dæmið um leikmann sem ætti kannski ekki að afskrifa alveg þrátt fyrir nokkra erfiða mánuði í aðalliði 18 ára!!! Sterling er að spila og það vel gegn öllum bestu liðum deildarinnar og hann getur þetta líka úti á Brittannia. Hann hefur tekið mikið á því í ræktinni undanfarið ár og er núna að spila eins og sá leikmaður sem búist var við því að hann yrði. Hann var auðvitað keyptur sem eitt mesta efni Englands og hann er að standa undir því, geri aðrir betur.

Það er síðan afar spennandi að hugsa til þess að í varaliðinu og ári yngri er annar leikmaður í svipuðum klassa, Jordon Ibe. Ef ég treysti einhverjum til að koma honum líka í gegn þá er það klárlega Rodgers.

Iago Aspas er síðan í verri stöðu hjá Liverpool heldur en varamarkmaður liðsins. Ég meina það, Rodgers myndi frekar spila án markmanns heldur en að taka Suarez og Sturridge úr liðinu. Aspas er alls ekki lélegur leikmaður og hann á mikið meira inni en við höfum fengið að sjá, loksins þegar hann átti glætu á að sýna það þá meiddist hann. Hann á bara ekki glætu að fá að sýna það með þessa samkeppni. Hann gæti verið góður kostur á næsta ári ef við erum líka að spila í Evrópu.

Sóknarlína með Sturridge, Suarez og Sterling er frábær og back up með Borini, Aspas og Ibe er mjög gott.

Ég tók ekki einu sinni Moses og Alberto með í þessu og ekki heldur Ilori. Rodgers hefur ekki gert neinar stórkostlegar breytingar á leikmannahópnum frá síðasta tímabili og bætti engu við í janúar. Hann fékk heilt sumar til að undirbúnings núna sem hefur hjálpað mikið og það er frábært að vera laus við Europa League en það skýrir ekki muninn milli ára. Stærð hópsins er í samræmi við leikjaálag og stundum tæplega það.

Fyrirliði Swansea, Ashley Williams sagði að Laudrup hefði verið látinn fara þar sem hann var að fara með liðið of langt fá þeirri stefnu og þeim anda og var þegar Rodgers var með liðið. Því réðu þeir 34 ára fyrirliða liðsins sl. 10 ár sem þekkir manna best hvernig stefna Swansea var áður. Hann lýsti Rodgers sem ótrúlegum man-managment stjóra. Ég held að hann sé alveg að sýna það hjá Liverpool í vetur. Nánast allir leikmenn liðsins eru að bæta sig undir hans stjórn og sóknarþenkjandi leikmenn fá að njóta sýn mikið betur. Leikmenn á bekknum eða úr formi hjá öðrum stórliðum ættu að biðja sjálfir um að fá að spila undir stjórn Rodgers.

En förum ekki alveg framúr okkur strax. Þetta er mjög jákvætt núna miðað við undanfarin ár og mikið djöfull máttum við svona tímabili. Liverpool hefur ennþá ekkert unnið í ár og engum árangri hefur verið náð en þetta lið hefur svo sannarlega gefið okkur vonina aftur. Það verður a.m.k. skemmtilegra að gera tímabilið upp í vor heldur en undanfarið enda Liverpool 8 sinnum skorað 4-5 mörk gegn andstæðingum sínum og það gegn okkar helstu andstæðingum.

Eins og meiðslalistinn sem ég hef farið yfir sýnir þá megum við ekki við fleiri skakkaföllum og stundum hafa öll þessi meiðsli kostað okkur, það er alveg ljóst. Hvort við fáum það í bakið að hafa ekki styrkt hópinn betur verður að koma í ljós en Rodgers er a.m.k. að vinna eins vel úr því sem hann hefur haft úr að moða og hægt var að vonast eftir. Það er aldrei að vita hvað þetta lið getur með smá heppni hvað meiðsli varðar á næstunni, álagið er ekki það hrikalegt.

Eins og staðan er núna er Liverpool a.m.k. með 6 stigum meira en ég spáði fyrir þetta tímabil í sæmilega bjartsýnni spá minni um 70 stig. Spilamennskan og aldur leikmanna liðsins gefur okkur alveg klárlega tilefni til að láta okkur dreyma um að það sé eitthvað alvöru í pottunum á Anfield. Stjórinn og saga eigenda félagsins í íþróttum skemma ekkert fyrir heldur. Eins og staðan er núna virðast þeir vita eitthvað hvað þeir eru að gera þó stefna þeirra á leikmannamarkaðnum sé ennþá áhyggjuefni.

Ég stefni svo á að gera annan pistil eftir tapið gegn Fulham á miðvikudaginn, nokkurnvegin andstöðuna við þennan pistil. Þangað til ætla ég að halda áfram að vera gjörsamlega himinlifandi með þennan fáránlega flotta 5-1 sigur í gær.

Babu

69 Comments

 1. Ekki nó með það að við höfum stórbæt okkur í föstum leikatriðum heldur erum við ótrúlega góðir í því að breika úr vörn í sókn, það er ekki neitt lið eins hættulegt í því eins og við í deildinni. Svo er líka mjög gott að flest allir eru ornir sáttir við Brendan Rogders 😉

 2. Skemmtileg og góð samantekt Babú.

  Smá samanburðartölfræði til viðbótar. Stigafjöldinn núna (50) hefði dugað í 7. sætið í fyrra. WBA lenti í 8. sæti í fyrra (49).

 3. Flottur pistill, verður gaman að sjá hvernig menn mæta í leikinn á þriðjudaginn

 4. Cissokho, ég held að ég viti hvert er vandamál hans. Stíllinn er alveg eins og hann sé í of stórum skóm!!
  Getur ekki einhver sagt honum þetta? !

 5. Flottur pistill. Breytingin á hópnum er fyrst og fremst aukinn þroski leikmanna og Henderson, Sterling og Suarez eru töluvert betri en í fyrra.

  Ég setti saman spá fyrir efstu 6 liðin út frá þeim leikjum sem eru eftir, það er alveg heil formúga af innbyrðis leikjum þessara 6 efstu eftir og ég set líklega heldur mörg stig á flest liðin, en mín spá er svona:

  Chelsea: 32 stig = 88
  Man City: 35 stig = 89
  Arsenal: 28 stig = 83
  Liverpool: 29 stig = 79
  Tottenham: 26 stig = 73
  Everton: 21 stig = 66
  Man Utd: 29 stig = 69

 6. Darren Bent að jafna á Manchester United móti í uppbótartímar ekki leiðinlegt

 7. Já og svo hafa Coutinho og Sturridge verið með frá því í ágúst. Munar um minna.

 8. Höfðinginn,

  Held að ég noti “Rauði krossinn” um þetta United lið Moyes, meðan það spilar svona. 🙂

 9. Þetta var fótboltahelgi eins og þær gerast bestar! Ég á pínu erfitt að átta mig á því hvort ég elski Rodgers eða Moyes meira! Þeir eru báðir snillingar á sínu sviði!

 10. Hver fílar Simply Red? Priceless!![img]C:\Users\toshoba\Pictures\Alibaba kvittanir/BgDbAHHCUAAu4dD[/img]

 11. Ívar Örn nr 11, Sturridge hefur sko heldur betur ekki verið með síðan í Ágúst. Ekki Coutinho heldur er það?

 12. Bjarni #15 – ég meina þeir taka heilt tímabil núna, en hálft tímabil í fyrra. Það munar um minna þrátt fyrir meiðsli þeirra.

 13. Sælir félagar

  Þetta er skemmtilegur pistill og miðað við það sem Babu segir í honum þá er BR kraftaverkamaður og snillingur sem mun lyfta liðinu í þær hæðir sem við þráum svo heitt. Því er ekkert eftir annað en segja “amen” sem táknar svo skal vera ef mig misminnir ekki.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 14. Það er einhver fílíngur í Liverpool liðinu, sem ekki er alveg hægt að skýra út með rökrænum hætti. Einhvers konar “high”. Kannski er að verða til nýr stórþjálfari.

 15. Algerlega frábær pistill Babu!

  Það er virkilega ánægjulegt að sjá að stuðningsmenn eru farnir að átta sig á því hvað BR er búinn að gera frábæra hluti með þetta lið okkar.

  Þetta tímabil er búið að vera frábær skemmtun og lið okkar er búið að færa okkur þvílíkar gleðistundir að maður man bara varla eftir öðru eins……eða jú annars ég geri það. Ég er EKKI fæddur eftir 1990 🙂

  Burtséð frá því hvort við náum þessu 4. sæti eða ekki þá er BR frábær þjálfari og ég vil ALLS EKKI missa hann. Hann á lágmark skilið 2 tímabil í viðbót til að koma liðinu á þann stall sem við viljum komast á. Vonandi verða þau ár miklu fleiri og vonandi fær hann þann stuðning frá eigendum sem nauðsynlegur er.

  In Brendan we trust!

 16. svo má manjú ekki tapa fleiri leikjum, ég vil nefnilega að Moyes verði EKKI rekinn 😉

 17. Ein spurning til ykkar. Hversu oft eruð þið búin að horfa á fyrstu 20 mínúturnar af leiknum í gær? Ég er búinnað horfa fimm sinnum à þær.

 18. Frábær pistill að vanda, en þessi meiðsli eru frekar mikil að mínu mati. M.v. leikjaálag þá er alltof mikið um meiðsli eða hvað. Hefur einhver tölfræði um þetta frá öðrum liðum?

 19. Sjálfstraustið hjá Sterling er orðið gríðarlegt og yndislegt að fylgjast með honum vaxa.
  Ekki margir 19 ára sem taka “ronaldinho” trikkið í ensku úrvalsdeildinni gegn Arsenal.

  [img]http://fat.gfycat.com/GranularAthleticBass.gif[/img]

 20. Suarez 6 leikir, Sturridge og Coutinho misstu af leikjum, Lucas mikið meiddur, Enrique varla með, Agger og Sakho mikið meiddir og Glen búinn að vera lengi frá.

  Samt erum við búnir að eiga flott tímabil og nú þarf bara að klára þessa 13 leiki með sóma og ná að láta Arsenal hafa fyrir því í bikarnum og þá verður þetta okkar besta tímabil í mörg ár.

 21. @24: ég held 3svar, og útiloka ekki að maður eigi eftir að horfa á þetta oftar. Þetta eru bara með fallegustu mínútum sem maður sér í fótbolta.

  Það sem hefði samt verið gaman ef neglan frá Suarez hefði legið inni. Svona getur maður nú verið heimtufrekur.

  Já og eitt sem hefur lítið sem ekkert verið talað um: finnst fleirum að leikurinn hafi verið vel dæmdur? Mér fannst dómaratríóið hreinlega ekki stíga feilspor allan leikinn. Í fyrsta markinu hefðu einhverjir línuverðir örugglega veifað rangstöðu, og í þriðja markinu hefðu kannski einhverjir dæmt á Henderson. Eins með aukaspyrnuna sem gaf fyrsta markið. Held að þetta hafi allt verið spot on.

 22. #23 Þessi sending var algjört bjútí.

  En varðandi liðið verður að segjast að það er magnað hversu andinn er góður í hópnum. Gaman að sjá Sturridge rífast við Coutinho þegar sá fyrrnefndi var búinn að skora. Coutinho benti á Sturridge og Sturridge á Coutinho… vildu meina að markið hefði verið hinum að þakka. Sjá eftir 1:03 í þessu vídjói http://www.youtube.com/watch?v=_KQo5nBhIwY
  Frammistaðan í gær var í einu orði sagt einstök.

  Einstaklingurinn virðist ekki þrífast í þessu liði því menn eru allir í þessu saman sem lið sem á að vera einkennandi fyrir þetta lið sbr. YNWA.

 23. Djöfull er maður klikkaður…..en það læðist með manni skrýtin tilfinning, svona “gott á ykkur”tilfinning þegar maður læðir sér inn á http://www.raududjoflarnir.is/.
  Maður er búinn að bíða lengi, láta jafnvel börn á grunnskóla aldri gera grín að liðinu mínu síðustu árin, liðinu sem ég er búinn að halda með síðan 1979.
  Nei, kannski verðum við ekki meistarar í ár enn….mitt lið er betra en Manchester united.
  Áfram Liverpool.

 24. Sammála þér Sigfús, ég hef trú á að United menn séu að fara í ansi langa og djúúúpa lægð. Það eitt að allir vilja fá nýjan stjóra segir bara eitt. Moeys er ekki að fara á þessu tímabili en kannski kyngir Ferguson stoltinu næsta sumar. Þá hefst enn nýja “uppbyggingin”. Bottom line-ið er að mannskapurinn hjá United er ekkert meistaraefni lengur. RIP, en megi Moyes vera sem lengst. Everton er að blómstra núna, hversu skrýtið er að manni líkar það að vissu leyti 🙂

 25. Vá! Tærnar voru rétt fyrst núna að snerta jörðina eftir gærdaginn. Þvílík frammistaða og þvílíkt hentug úrslit annar staðar. Það liggur við að maður vorkenni manjúllunum…liggur við. Annars er óttalega tómlegt um að litast á þessu spjallborði þeirra.

 26. Þakka góð viðbrögð.

  Varðandi United þá held ég að þetta sé meira one off season. Þeir hafa hörku hóp og mjög góða unga leikmenn sem eru að koma upp. Geri ráð fyrir þeim strax á næsta ári (án Moyes) og þori raunar ekki að afskrifa þá alveg strax í baráttunni við okkur. Munum að þetta tímabil er fullkomlega crazy. En þetta mark frá Fulham var ansi skemmtilegt, kom á 95.mínútu og var svo ósanngjarnt að það var stórkostlegt. Fulham gat nákvæmlega ekki neitt í leiknum.

  Nr. 19

  Varðandi Rodgers þá eru engin tímamörk þannig, hann er klárlega að vinna stuðningsmenn á sitt band núna sem er frábært. En það er árangur sem telur og hann þarf að ná honum líka, hann hefur ennþá ekki skilað Liverpool í svo mikið sem 4. sæti sem er lágmark til að vinna sér tíma á Anfield. Ég er alls ekki að segja ð það eigi að reka hann í vor ef það næst ekki en þá má heldur ekkert klikka á næsta ári ef á ekki að hitna verulega undir honum, þetta er fljótt að gerast.

  Rétt eins og með Houllier og Benitez þá er maður alltaf á bakvið stjórann þegar maður sér liðið geta bætt sig og/eða að ná árangri. Rodgers hefur alls ekkert fengið þann stuðning sem hann hefur viljað á leikmannamarkaðnum sem væri fróðlegt að sjá hann fá.

  Eins eigum við eftir að sjá hvernig Rodgers myndi vinna með álagið og pressuna sem fylgir meistaradeildinni.

  Ekki ætla ég að veðja gegn honum þar.

  Baráttan um 4. sætið er samt alls ekkert bara búin að vera við United og í nokkurn tíma núna hef ég haft langmestar áhyggjur af Tottenham. Þeir hafa mjóg góðan og stóran hóp sem getur vel náð þessu sæti haldi þeir áfram á þeirri braut sem þeir hafa verið undanfarið. Þeir vera þarna alveg til loka spái ég.

 27. “Þá er ótalinn Sebastian Coates sem tékkaði sig út allt tímabilið.”

  Var hann ekki lánaður í janúarglugganum aftur heim til Nacional?

  En að öðru leyti, frábær pistill.

 28. Frábær grein Babu!

  Eitt sem mig langar að bæta við hana þegar liðið er skoðað. Það hefur oft verið talað um að í liðinu séu hungraðir, ungir leikmenn með reynslu miklum einstaklingum. Ég hef ekki verið eins spenntur fyrir unglingunum síðan Owen og Gerrard voru að koma úr academiuni. Sterling hefur komið inn eins og stormsveipur í þetta og eins og staðan er núna þá getur maður spurt sig, hefði Konoplyanka gengið inn í þetta lið? Vissulega er erfitt að segja en mín skoðun er sú að ég vill alls ekki missa Sterling úr liðinu fyrir neinn!
  Svo fannst mér Ibe koma skemmtilega inn þessar nokkrar mínútur og ég tel að hann gæti orðið mikilvægur á næstu árum.

  En það sem ég vil bæta við eru þeir leikmenn sem eru á láni frá okkur. Mér fannst aðeins vanta smá punkta um þá. Það var virkilega sniðugt að senda Suso, Borini og Assaidi á láni. Ég held að tilgangurinn var misjafn. Suso þurfti að spila meira gegn stærri nöfnum, ekki bara varaliðum og því tel ég að það hafi verið góð hugmynd að senda hann suður til Spánar. Hinir tveir þurftu að fá meiri spilatíma innan PL til þess að sanna sig. Með því að senda þá á láni var hægt að sjá hvort þeir geti yfir höfuð spilað í þessari deild eða ekki.
  Borini hefur spila vel með Sunderland og verið með þeirra betri leikmönnum. Ef ekki væri fyrir Adam Johnson myndi ég jafnvel setja hann sem þeirra besta leikmann.
  Assaidi hefur komið vel inn með Stoke og skorað ágætis mörk en hann þyrfti að fá aðeins meiri tíma til þess að hægt sé að dæma hann.

  Mér finnst Suso og Borini eiga erindi aftur til okkar næsta ár. Segjum sem svo að við færum í CL. Leikjaálagið mun aukast til muna og mikilvægt að eiga leikmenn sem geta komið inn og sett mark sitt á leikinn, sérstaklega í PL. Borini þekkir nú PL meira og ætti að geta gefið okkur smá auka breidd. Suso hefur staðið sig vel á Spáni og það var skrifuð grein um hann um daginn þar sem þetta kom fram:

  “But it’s his dribbling ability which has been reproduced on highlight reels as much as his eye for a delicate pass. He’s completed 25 takes-ons this season (he’s attempted 46) which is more than the likes of Ever Banega and Neymar, in fact only Granada’s Yacine Brahimi and Lionel Messi have completed more take-ons than the teenager.”

  Vissulega er spænska deildin ekki eins og sú enska en þið sem sáuð leikinn gegn Arsenal vitið hversu mikilvægt þetta er. Fyrir mér hljómar þetta mjög svipað og Coutinho og ekki er væri verra að eiga annan Coutinho.
  Assaidi mun held ég færa sig annað.

  En aftur Babu, bravó! Ég hef verið Rodgers sleikja nánast frá upphafi! Það hefur aldrei verið jafn gaman að horfa á Liverpool og þetta tímabil, óháð úrslitum og það má nánast segja að andinn í liðinu smitist í gegnum sjónvarpið. Þessi liðsheild er ótrúleg en í raun það sem Liverpool stendur fyrir. You’ll never walk alone!

 29. Mr. Rodgers er búinn að vera ótrúlegur síðan hann tók við. Búinn að hreinsa alla leikmenn út sem eru ekki að fara bæta sig eða eru í heimsklassa og fylla liðið mestmegnis af frábærum kjúllum.

  Síðan lætur hann liðið spila GungHo fótbolta þar sem markmiðið er að skora en ekki að verjast. Leikmennirnir eru greinilega að fíla þetta í botn og það er bullandi hugur í liðinu.

  1.sætið er alveg raunhæfur möguleiki en þótt það náist ekki þá er Brendan stjóri ársins í deildinni. Búinn að gjörbylta liðinu frá A-Ö og ég get ekki ímyndað mér að nokkurt lið vilji spila við Liverpool í augnablikinu.

 30. Tomkins kýlir þá allra bjartsýnustu vel niður á jörðina hérna
  http://tomkinstimes.com/2014/02/why-liverpool-wont-win-the-title/

  Þetta fannst mér sérstaklega góðir punktar

  Remember, Manchester City and Liverpool have been the best attacking sides by far this season, with goal tallies into the 60s already, and yet they sit 3rd and 4th. Chelsea and Arsenal, both only in the 40s for goals, have kept more clean sheets, and they sit 1st and 2nd.

  We’ve marvelled at the incredible attacking play by the sides fielded by Pellegrini and Rodgers, yet neither are in double figures for clean sheets; Arsenal and Chelsea both have 11. Is that why they have more points? Perhaps. (Although West Ham have the most clean sheets, with 12. They’re just a bit shit otherwise.

  As observers we get seduced by great forward play – and it’s lovely to watch – but the ability to shut up shop is often more important, as long as you don’t sacrifice the ability to attack.

 31. 63 mörk skoruð nú þegar það er rugl. Ef vörnin væri aðeins sterkari úff…..

 32. Frábær pistill. Sammála því sem margir eru að tala um í tengslum við Brendan Rodgers. Hann hefur staðið sig ótrúlega vel í stykkinu. Eitt af því sem mér finnst samt gleymast er hvernig hann hefur unnið með Gerrard. Þeir eru greinilega algjörlega í takt hvor við annan. Gerrard tekur þau hlutverk í liðinu sem honum er ætlað. Hann hefur verið okkar stærsta stjarna sl. 10 ár og það þarf mikinn þroska að geta tekið svona ný hlutverk. Svo má ekki líta fram hjá því að hann hefur sloppið ótrúlega vel við meiðsli síðan BR tók við. Eitthvað segir mér að það æfingaprógram sem hann notar í dag eigi mikið með það að gera.

 33. Eru Arsenal ekki með neitt íslenskt stuðningsmanna blogg? Væri svo mikið til í að lesa leikskýrslu þeirra eftir slátrunina.
  Anyone?

 34. Sammála því að ég tel Tomkins vera með þetta. Vörnin hjá Liverpool er bara ennþá of óörugg til að við getum eitthvað dreymt um efstu sætin tvö.

 35. Frábær pistill um frábært lið. Það er stórkostlegt að fylgjast með liðinu okkar á góðum degi og þeir dagar hafa svo sannarlega verið margir í vetur. En það koma lakari dagar inn á milli og það er eins og leikmennirnir okkar átti sig ekki alltaf á því að þrjú stig gegn WBA og Hull á útivelli telja jafnmikið og gegn Arsenal, Everton og Man Utd.

  Ég hræðist samt allt tal um sigur í deildinni og hrun Man Utd. Mér finnst við eiga fyrst og fremst að einblína á að komast í Meistaradeild, halda Suarez og þannig halda framþróun liðsins áfram. Allt umfram það er bónus og í raun fjarlægur möguleiki að mínu mati. Rétt eins og algjört hrun Man Utd er fjarlægur möguleiki. Það er vissulega skemmtilegt að velta því fyrir sér en ekkert fast í hendi með það.

  Staðreyndin er sú að Spurs er bara 3 stigum frá okkur en miðað við fjölmiðlaumfjöllun í vetur ætti að muna 30 stigum. Þetta er bara svo langt frá því að vera búið!

 36. Afskaplega er nú gaman að vera til og tilhlökkunin er mikil til miðvikudagsins. Ég hef enga trú á því að liðið mæti í Hrafnakot með draumórahlekki um ökklana. Þeir verða einbeittari og ákveðnari en nokkru sinni fyrr. Allt leggst á eitt, möguleikar, lærdómur, hæfileikar, sjálfstraust – ekkert pláss fyrir hroka, leti, ofdramb eða aðra nautnalesti sem við höfum stundum séð gera vart við sig á verstu stundum. Botnliðið má ofdrembast eftir jafnteflið við rauðu skrattakollana en við þurfum að mæta þeim með sama ógnarþunga og einkenndi fyrri hálfleikinn gegn nöllunum. Beri það skjótan árangur má leyfa litla fólkinu að koma inn á völlinn og hvíla turnana.

  Nú þarf að klöngrast upp töfluna, hænufet fyrir hænufet. Það er erfitt en gerlegt og meðan það er gerlegt þá hljóta menn að leggja allt í verkefnið.

  Hámark tvö stig í súginn í þrettán leikjum! Erfitt en gerlegt!

 37. Er einhver með link af MOTD eftir þessa helgi 🙂 Væri gaman að horfa á þann þátt eftir flugeldasýninguna á Anfield 🙂

 38. Ég trúi því varla að Tottenham séu bara þremur stigum á eftir okkur miðað við allt sem hefur gengið á hjá þeim og miðað við frammistöðu okkar á tímabilinu…

 39. Er mér ljóslifandi þegar að ég var að lesa einhverja erlenda Liverpool frétt þar sem að menn voru að hrauna yfir Rodgers í kommentakerfinu og segja að hann hefði ekki náð fram neinum breytingum. Samt fannst mér strax á fyrsta tímabilinu vera fullt af framförum hjá liðinu og það sést enn betur á þessu tímabili hvað er að gerast.

  Rodgers er að gera góða leikmenn að frábærum leikmönnum, elur á team spirit en ekki einstaklingshyggju, er alveg yndislegt að sjá þegar að við skorum hvað gleðin er mikil hjá öllum. Svo er hann bara svo fáránlega góður í öllu PR, öll viðtöl við hann eru frábær og hann er að byggja upp sama anda og var á Anfield seinast fyrir 25-30 árum.

  Plús að við erum að spila fáránlega skemmtilegan bolta, erum klárlega að fara næla í CL sæti í ár og út frá því getum við loksins tælt einhver stór nöfn til okkar til að bæta hópinn.

 40. Við náum 4 sætinu, jafnvel ofar, tökum 2 major signing í Shaw og Draxler, hættum einhverjum meðalkaupum, með Shaw er vörnin okkar skotheld og Draxler verður arftaki Gerrards, skothelt plan!

 41. Eitt rosalega athyglisvert í þessu. Það hefur verið conventional wisdom að hópurinn hjá LFC sé ekki nógu stór, það skorti breidd (eða a.m.k. gæði í squad players) og þar fram eftir götunum. Einnig að við séum e.t.v. með of marga varnarmenn miðað við aðrar stöður.

  Undanfarið hefur samt verið að vanta ótrúlega marga 1st team menn og sannarlega verið gott að eiga þessa varnarmenn tiltæka. Gegn Arsenal var í raun heil frambærileg byrjunarliðsvörn + DM á meiðslalustanum; Johnson, Agger, Sakho, Enrique + Lucas.

  Ég man ekki alveg hvenær ég sannfærðist um að BR væri rétti maðurinn í starfið, en það var a.m.k. á síðasta tímabili. Hann hefur enn vaxið í áliti hjá mér undanfarna mánuði. Karlinn er án nokkurs vafa stórgóður “man manager”. Suárez fíakósið síðasta sumar, árangurinn sem hann hefur náð út úr mönnum á borð við Flanagan og Henderson, sveigjanleikinn með Gerrard o.s.frv talar sínu máli.

  Karlinn er óviðjafnanlegur í viðtölum. Aldrei að kvabba neitt – valdi a.m.k. mjög réttmætan tíma til þess að láta í sér heyra yfir dómgæslu. Það telur frekar ef men velja sér tíma í stað þess að ummælin hverfi í samfellt suð.

  Við erum í algjöru dauðafæri á að enda í 4. sæti (vonast samt eftir eftir 3.). Klisjan er víst “4th place is Liverpool’s to lose”. Með allt liðið heilt gæfi ég okkur svona 90% líkur á 4. sæti eða ofar. Hvað á maður að segja eins og staðan er í dag? Ekki minna en 2/3, held ég.

  Suárez er búinn að spila eins og engill, þótt aðeins hafi skrúfast fyrir markakranann. Desembermánuður hjá honum er eitthvað sem maður reiknar aldrei með að verða vitni að aftur. Þvílík og önnur eins veisla sem hann bauð upp á. Ekki amalegt að eiga Sturridge líka, þegar LS er kaldur. Þeir sem hafa eitthvað auga fyrir fótbolta sjá samt að Suárez er búinn að vera hrikalega góður í langflestum þessara leikja.

  Liðið okkar er að spila skemmtilegasta boltann í ensku deildinni – þótt víðar væri leitað. Sóknarleikurinn er einfaldlega flugbeittur og við skorum liða mest úr föstum leikatriðum. Önnur klisja segir hins vegar að sókn vinni leiki, en vörn vinni titla. Stöðugleiki baka til myndi hjálpa helling.

  Þetta verður magnaður lokasprettur! Hlakka verulega til hvers leiks. Ekki amaleg staða!

 42. Hvernig er það, erum við ekki bara einu tapi frá 5 sæti?

  Eins mikið og ég elska spilamennskuna, frammistöðuna og úrslitin undanfarið þá neita ég að verða of bjartsýnn strax. Við megum ekki við neinu áfalli meiðslalega séð, erum komnir upp við vegg í vörninni, tæpir á miðju og sókn sem sést kannski á því að BR hefur gert ansi fáar skiptingar í vetur.

  Ég neita því þó ekki að þetta er ótrúlega gaman, langt fram úr björtustu vonum mínum en á sama tíma reyni ég að halda mér við jörðina (næ því ekki alveg!). Hvernig sem þetta endar hjá okkur þá getum við alltaf fagnað þessum frábæru úrslitum hingað til 🙂

 43. Ég hef alltaf studd BR frá byrjun þótt ég vissi litið um hann þegar hann stjórnaði Swansea. Ég var á skoðun að við þurftum fá ungan efnilega þjálfara og þótt ég var ekki ánægður með hvernig fór fyrir King Kenny. Þá var ég ánægður með ráðingu Rodgers.
  Fyrst þá er Rodgers flottur þjálfari og hefur umbylt sóknarleik Liverpool og lætur liðið spilla skemmtlegan bolta. Þarf aðeins þétta miðjuna og vörn. Ég tel þó FSG hafa ekki studd hann nógu vel í siðustu tveimur gluggum og er það gagnrýnisvert. Einnig má segja leikmannakaup Rodgers verið upp og niður því miður. Það verður þó taka tillits til leikmannaáætlun FSG leyfir kannski Rodgers ekki að kaupa þessa leikmenn sem hann vill fá sem fyrsta val.. Í staðinn er farið i val tvo eða þrju. Ef við tökum t.d. lánsmennirnir Aly Cissokho og Moses. Ennig má nefna Aspas og Alberto. Helsta ástæðan þeir komu var að þeir voru ódyrir og ungir.
  Þetta þarf að berytast og FSG þarf koma með betri kerfi til að fá leikmenn sem eru betri gæðaflokk enn þeir.

 44. Mér skilst að það sé líklegt að leikurinn við Fulham verði frestað. Sökum þess að það er verkfall hjá lestarstarfsmönnum í london.

  Bæði gott og slæmt.

  Gott að þá fáum við góða hvíld fyrir leikinn gegn Arsenal í bikarnum

  Slæmt við erum sjóðheitir og þeir eru dauðþreyttir eftir Man utd leikinn.

 45. Sigueina # 57
  Lenda Man utd og Ars semsagt ekki í verkfalli lestarstarfsmanna?

 46. Þetta á víst að koma í ljós á morgun.
  Verð að segja að það væri fáranlegt ef aðrir leikir fara fram á morgun í London. Það er annaðhvort allir á eða allir af( annað væri bull).

 47. Tomkins tekur “verkfræðinginn” á þetta og kemur með ansi öflug og solid rök fyrir því að við vinnum ekki titilinn í ár. Ég er algerlega sammála honum, en fannst þetta samt ekkert mjög skemmtileg lesning. Það er ekki alltaf gaman að lesa eitthvað sem hefur að geyma óþægilegar staðreyndir 🙂

  Fannst pistillinn hans Usher mun skemmtilegri:

  http://espnfc.com/blog/_/name/liverpool/id/2480?cc=5739

  Ég held að fæstir púlarar trúi því í alvöru að við vinnum titilinn þetta árið, en það má samt alltaf láta sig dreyma 🙂 4. sætið er algerlega það sem við eigum að sigta á. Ég er líka ánægður hvað BR er búinn að vera varkár í yfirlýsingum sínum eftir leiki. Við ætlum bara að reyna að ná í eins mörg stig og við mögulega getum og við skulum sjá hvað það skilar okkur langt.

  Gríðarlegur munur á spilamennsku okkar á heimavelli og útivelli gæti reynst okkur dýrkeyptur þegar upp er staðið. Já, ég geri mér grein fyrir því að við erum sennilega eina liðið sem mætti öllum topp 3 liðunum á útivelli í fyrri hluta móts. Tölfræðin talar engu að síður sínu máli. Við erum með versta útvillarárangurinn af topp 8 liðunum! Newcastle er með betri útivallarárangur en við!

  Okkur er algerlega fyrirmunað að vinna leiki 1 -0 eða 2 – 1 eins og liðin fyrir framan okkur og vörnin okkar hefur verið mjög óstabíl, enda höfum við verið hrikalega óheppnir með meiðsli.

  Síðast og alls ekki síst höfum við ekki sömu breidd og topp 3 liðin.

  Svo er líka áhugavert að velta því fyrir sér hvort það sé ekki leiðin hjá botnliðum, eins og Fulham nk. miðvikudag að pakka bara í vörn á móti okkur frá 1. mínútu. Ég held að flest liðin séu farin að átta sig á því að það er glapræði að mæta til leiks á móti okkur og sækja stíft fram á við (sérstaklega á Anfield). Hraðar skyndisóknir eru algerlega okkar helsti styrkleiki um þessar mundir. Við fáum engar hraðar skyndisóknir þegar andstæðingurinn tjaldar bara fyrir framan eigin mark.

 48. Ég er örlítið hræddur um að 4. sætið dugi ekki í meistaradeildina, finnst eins og það sé skrifað í skýjin að Man utd vinni meistaradeildina og hirði þar með síðasta lausa sætið eins og við gerðum á kostnað Everton og Moyes um árið. Þeir virðast reyndar ekki líklegir til þess eins og staðan er í dag, en við vorum heldur ekki með merkilegt lið 2005. 3. sætið og málið er dautt, tja þá er kanski alveg eins gott að vinna bara deildina…

 49. nr. 64.

  Reyndar tókum við ekki Meistaradeildarsætið af Everton. Bæði lið fóru í undankeppnina og Everton datt þar út gegn Villarreal.

 50. Takk fyrir þetta nr. 65. Ég var að fara missa svefn yfir þessu. Það sem sagt fara 5. lið frá Englandi ef United slysast til að vinna CL í mai…

 51. Nei, reglunum var breytt eftir 2005. Spurðu bara Tottenham menn

 52. Nei, 66. Reglunum var breytt eftir 2005. Ef CL sigurvegarinn er ekki í topp fjórum heima fyrir þá taka þeir sætið af liðinu í 4. sæti (sbr. Chelsea 2012)

 53. Var að horfa á þetta aftur. Yndislegt að horfa á Suarez eftir jöfnunarmarkið(2-2), hlaupandi til allra með boltann og segja þeim að hætta að fagna og ná öðru.. Ekki leiðinlegt á að horfa! Passion!!

Liverpool 5 Arsenal 1

Kop.is Podcast #52