Liverpool 5 Arsenal 1

Ég var stressaður fyrir Tottenham úti, ég var kolsvartsýnn fyrir Everton heima og ég hafði nánast enga trú á Arsenal heima.

Þessir leikir fóru 14-1 samtals fyrir Liverpool.

Það að vinna Arsenal 5-1 og vera hálf svekktur að hafa ekki unnið leikinn stærra má líklega best lýsa svona:

08.02.14 - Liverpool fans

Það var ekki að sjá í dag en þetta er nokkuð vel laskað Liverpool-lið sem var að mæta Arsenal. Byrjunarliðið var það sama og gegn Everton og WBA eða svona:

Mignolet

Flanagan – Skrtel – Toure – Cissokho

Gerrard(c) – Henderson

Sterling – Coutinho – Sturridge
Suarez

Bekkur: Jones, Kelly, Ibe, Moses, Aspas, Allen, Alberto

Bæði lið hafa sama drykk sem opinberan bjór félagsins og ef að Carlsberg myndi smíða handritið fyrir byrjun leikja þá væri það nokkurn veginn eins og byrjunin á þessum leik. Ég held að þetta flokkist klárlega sem ein besta byrjun á leik sem nokkurt lið hefur átt í ensku Úrvalsdeildinni, frá upphafi.

Martin Skrtel var búinn að skora eftir 53 sekúndur, eftir stórhættulega aukaspyrnu Steven Gerrard. 1-0.

Arsenal-menn reyndu að koma sér inn í leikinn og áttu nokkrar hornspyrnur á hættulegum stað áður en Gerrard og Skrtel endurtóku leikinn. Núna eftir hornspyrnu … á hættulegum stað. 2-0 eftir 10 mínútur.

Minn maður Aly Cissokho á toppnum að vanda.
Minn maður Aly Cissokho á toppnum að vanda.

Stuðningsmenn Liverpool höfðu ekki tíma til að hugsa hvernig við næðum að klúðra þessari forystu niður því Sturridge var næstum búinn að bæta þriðja markinu við eftir 12 mínútur en skot hans fór rétt framhjá er hann var kominn aleinn í gegn.

Mínútu seinna var Sterling kominn einn upp að endalínu og sendi fyrir en boltinn fór framhjá öllum sóknarmönnum Liverpool áður en Wilshere kom honum í horn.

Arsenal var fullkomlega slegið út af laginu og pressa Liverpool látlaus. Gerrard tók horn á 14. mínútu sem hann sendi fyrir utan teiginn rétt eins og hann hafi haldið að Riise væri mættur aftur. Norðmaðurinn er ekki kominn aftur og því þurftum við að treysta á næstbesta kostinn, Luis Suarez sem var nálægt því að brjóta stöngina á marki Arsenal. Þetta var svo fast að vallarvörðurinn skammaði hann í hálfleik. Toure fékk frákastið nánast í sig og boltinn lak framhjá markinu. Hreint með ólíkindum að staðan væri ekki orðin 3-0.

Veislan hélt þó áfram og á 17. mínútu vann Henderson boltann frábærlega af Özil á miðjunni, lék upp að vítateig Arsenal þar sem hann fann Suarez á hægri kantinum, hann sendi fyrir þar sem Sterling og Sturridge voru báðir klárir að pota boltanum inn og Sterling var á undan. Staðan því orðin 3-0.

Coutinho er að spila annan hvern leik góðan um þessar mundir og hann var hræðilegur gegn WBA. Sendingarnar hjá honum í þessum leik voru skelfilega góðar og hann á 4. markið að langmestu leyti. Hann vann boltann á miðjunni, var fljótur að hugsa og koma með stungusendingu inn fyrir á Sturridge sem slúttaði færinu frábærlega. 4-0 eftir 20 mínútur. WTF!

Fullkomið
Fullkomið!

Ég hef ekki séð Arsenal svona hressilega shell-shocked svo ég muni eftir en þetta var svona það helsta sem gerðist í fyrri hálfleik.

Þegar Liverpool spilar gegn Arsenal þá er ég aldrei rólegur fyrr en helvítis leikurinn er búinn og 4-0 dugar ekki til að ég sé rólegur í hálfleik. Við höfum gert 4-4 jafntefli við þá.

Útvarpsþáttur Fótbolta.net á X-inu hafði samband við Kristján Atla í hálfleik og hann var bara nokkuð kátur með lífið og tilveruna.

Það var því hikalega gott að sjá að liðið var alls ekkert hætt þegar seinni hálfleikur byrjaði og sigurvegari Framfarir & Ástundun-bikarsins, Raheem Sterling, skoraði sitt annað mark á 52. mínútu. Kolo Toure átti stoðsendinguna. Skot Sterling var varið en hann kláraði færið í frákastinu. Staðan því orðin 5-0, gegn Arsenal!

Hann var svo rétt búinn að fullkomna þrennuna á 55. mínútu þegar hann fékk DAUÐAFÆRI eftir enn eina frábæru aukaspyrnuna frá Gerrard en mokaði boltanum framhjá.

Eftir klukkutíma áttaði Wenger sig loksins á því að þetta væri ekki alveg að ganga í dag og gerði breytingu á sínu liði. Þrefalda. Það er alltaf frábært þegar andstæðingurinn gerir þrefalda skiptingu gegn þér því það er merki um örvæntingu. Gibbs, Podolski og Rosicky komu inná fyrir Giroud, Özil og Monreal.

Aukaspyrnur Gerrard voru frábærar í dag en á 63. mínútu bað Suarez um að fá að taka eina, hann var ekkert að senda fyrir markið og var rétt búinn að skora með skoti úr fáránlegu færi. Setti boltann upp í bláhornið en skotið var varið.

Liverpool hélt áfram stórsókn sinni á mark Arsenal og á 67. mínútu var bara ljótt af Henderson að skora ekki. Ekki það að hann hafi gert eitthvað alveg hræðilegt heldur var undirbúningurinn og sendingin frá Coutinho hreinlega klámfengin og átti skilið að verða stoðsending.

Mér varð það á að hrósa Gerrard á 67. mínútu eftir góða tæklingu og hann tók hrósinu glæsilega, tók fáránlega tæklingu á Oxlade-Chamberlain inni í teig á sömu mínútu og gaf Arsenal víti. Mikel Arteta setti skotið beint á markið og staðan því ósanngjarnt 5-1.

Suarez var ótrúlega óheppinn að skora ekki á 79. mínútu. Hann reyndar skoraði en Sterling var dæmdur rangstæður í aðdraganda marksins, frábært spil og rangstaðan á tæpasta vaði. Þeir verða báðir í stórum hlutverkum í martröðum varnarmanna Arsenal í kvöld.

Það síðasta sem gerðist markvert í leiknum var svo þegar Sterling spólaði sig enn einu sinni í gegn en vörn Arsenal náði að loka á hann.

Lokatölur því 5-1. Ég sagði lokatölur 5-1.

5-1!

Maður leiksins:

Mignolet telst nánast ekki með í dag, hann hafði nánast ekkert að gera og verður ekki kennt um að hafa ekki varið vítaspyrnu. Það er æðislegt þegar markmaðurinn hefur nánast ekkert að gera gegn Arsenal og mjög óvenjulegt hjá okkur.

Flanagan var frábær í dag, það er vel hægt að treysta honum varnarlega og hann reynir að koma með í sóknina. Hannn var í öðru sæti hvað Framför & Ástundun varðar.

Cissokho, minn maður gerði ekkert af sér heldur og kemst flott frá þessum leik, hann er ekki eins lélegur og af er látið þó ég fari ekki lengra í hólinu en það. Hlaupastíllinn er eins og hann sé að reyna að ná jafnvægi eftir að hafa verið hrint og það villir bara fyrir andstæðingnum. 🙂

Toure náði að stilla sig af eftir WBA-leikinn og var flottur í dag og kórónaði leikinn með stoðsendingu. Best fannst mér þó þegar hann hreinsaði duglega upp í stúku þó hann væri ekki undir það mikilli pressu. Klárlega brenndur af síðasta leik.

Skrtel við hliðina á honum var að spila sinn besta leik í ár og það voru mörkin hans sem slökktu á Arsenal í dag. Varnarlega gerði hann engin mistök heldur og Giroud var á endanum tekinn af velli. Það er bara ein ástæða fyrir því að hann er ekki maður leiksins. Hann var þó ansi nálægt því.

Gerrard missti af toppsætinu í þessu kjöri með vítaspyrnunni sem hann gaf en var annars fullkomlega geðveikur í þessum leik, pakkaði miðju Arsenal saman og það er eitthvað sem ég sá ekki fyrir mér fyrir leik.

Henderson var að spila mikið betur líka en í síðasta leik og pressan hans á miðjunni fór mjög illa með miðju Arsenal í dag. Þetta var fyrsti leikur Özil á Anfield og hann sagðist vera spenntur fyrir leik, væri gaman að fá annað tíst frá honum núna.

Coutinho var líka frábær í dag, fyrir leik hafði ég miklar áhyggjur af honum og hann er mjög misjafn en eins og hann spilaði í dag þá erum við að tala um leikmanninn sem við höfum verið að slefa yfir síðan hann kom fyrir rúmlega ári síðan.

SAS voru frábærir að vanda og hræddu líftóruna úr vörn Arsenal í dag, Suarez með stoðsendingu og Sturridge með mark. En líklega þurfum við að fara kalla sóknarlínuna okkar SASS (Samtök Sunnlenska Sveitarfélaga) Því það þarf að bæta við einu S-i:

Sterling er klárlega maður leiksins í dag hjá mér og þvílíkur leikur hjá drengnum. Hann er svo fljótur að myndavélin á í basli með að greina hann almennilega, skoraði tvö í dag og ég skil ekki ennþá hvernig hann skoraði ekki fleiri. Ofan á það var hann óheppinn að fá ekki skráða á sig stoðsendingu.

Þessi strákur er að fara til Brasilíu … og hann er að fara slá í gegn þar.

Niðurstaða:

Fullkominn leikur. Alveg eins og þetta lið getur tapað gegn hverjum sem er þá er liðið jafn líklegt til að gjörsamlega rústa hverjum sem er, þessi úrslit í dag eru gott dæmi um þetta.

Þetta var svo mikill léttir að ég er að spá í að vigta mig, efast um að ég mælist meira en 70 kg.

Babu

E.s.

08.02.14 5-1

149 Comments

 1. Slátrun á Anfield Takk fyrir.
  Þvílíkur leikur!!!

  Sterling klárlega maður leiksins!

 2. Við unnum Arsenal 5-1 með Ali í vinstri bak. Segir mikið um manninn í brúnni.

 3. Vá, vá og vá. Ég hefði aldrei í mínum björtustu draumum þorað að vona þetta.
  Gerrard er kóngurinn og Sterling er maður leiksins.
  Það er bara eitt lið sem hefur slátrað þeim svona og það er Man City.
  Við erum ekki komnir þangað ennþá en vá og vá.

  Stolltur stuðningsmaður í dag, og eiginlega alltaf 🙂

 4. Þá er Skrtel búinn að jafna Fernando Torres í markaskorun í deildinni í ár … þetta var bara tímaspursmál!

 5. Ég spáði 1-3 tapi. Ég er algjörlega í ruglinu í spádómum og bara fjandi sáttur með það!! 🙂

  Fyrstu 20 mínúturnar voru einhver flottasti kafli sem ég hef séð í fótboltaleik og hef ég þó séð nokkuð marga. Þetta er lið fært til að gera stórkostlega hluti, það er ljóst. Núna þarf að sýna stöðugleika gegn lakari liðunum á útivöllum. Bring on Fulham!

 6. Lítur vel út. 5 stigum frá toppnum og eigum Fulham, Swansea,Southampton og Sunderland í næstu leikjum. Þarna eiga að nást 10 stig og með því setja LFC svaka pressu á toppliðin sem eru ÖLL í CL og Arsenal eiga svaka prógramm eftir.
  Verður gaman að sjá hver staðan verður eftir 4 umferðir.

 7. Þvílík afmælisgjöf. Var búinn að vera stressaður í allan dag – þessi leikur hefði getað eyðilagt daginn – en guð minn góður, að fá svona sigur á afmælisdegi er óborganlegt. Aðrar afmælisgjafir afþakkaðar.

 8. Stórkostlegur sigur!

  Þetta Liverpool lið sem við erum að horfa á á þessu tímabili er skemmtilegasta liðið sem ég hef horft á síðustu 20 árin. Já, vonbrigðin hafa verið nokkur í vetur, en þvílík veisla að sjá þetta lið vinna Spurs 5-0, Everton 4-0 og Arsenal 5-1. Þetta er frábært lið og Brendan Rodgers er svo sannarlega á réttri leið.

  Núna erum við búnir að taka Stoke, Spurs og Arsenal grýluna og slátra henni.

  Já, og ég gagnrýndi Sterling fyrr í vetur, en þessi strákur er einfaldlega stórkostlegur knattspyrnumaður. Ef hann verður ekki valinn besti ungi leikmaður ársins í ár þá er eitthvað mikið að. Þvílíkur leikmaður!

 9. Njótum þessa leiks ansi lengi, annan eins leik hef ég ekki séð síðan…. eða jú við höfum verið að slátra liðum ansi oft í vetur en þetta var sérstaklega fallegt.

  Sterling er að verða frábær leikmaður og vörnin hélt í opnum leik sem er ansi gott en heiðurinn af þessum leik fær Brendan Rodgers. Sá er að byggja upp skemmtilegt lið.

 10. Rosalega held ég að hinir KOP-snillingarnir öfundi Babu á því að fá að skrifa þessa leikskýrslu 🙂

  Maður á bara ekki orð eftir svona frammistöðu! Þetta lið er bara ekki hægt þegar þeir eru í stuði 🙂 Algerlega yndisleg byrjun á fallegum laugardegi. Félagar, gleðjumst í dag og njótum 🙂

 11. Almenn svartsýni í upphitun fyrir leiki er algerlega að gera sig. Meira svoleiðis takk 🙂

  Liðið frábært, allir með tölu.

  Áfram Liverpool.

 12. Já Sæll!!

  Missti af þessum leik því miður og fjandans ver. Ætla að finna link á hann og glápa. Bíð spenntur eftir skýrslu.

 13. Einkunnir úr leiknum:

  Mignolet 10
  Flanagan 10
  Skrtel 10
  Toure 10
  Cissokho 10
  Henderson 10
  Gerrard 9,9 (-0,1 fyrir vítið)
  Coutinho 10
  Sterling 10
  Sturridge 10
  Suarez 10
  Rodgers 10

 14. Ég get reyndar viðurkennt það strax að ég er mjög svartsýnn fyrir leikinn gegn Fulham, það er einhvernveginn svo klassískt að liðið nái ekki sama dampi gegn einhverju af “minni liðunum”.

 15. Ljúft að vera Liverpoolmaður í dag. frábær frammistaða. Flannó traustur, Raheem geðveikur. Litli brassinn okkar í stuði.
  bara gaman………
  Vitiði þið bara, það er mun auðveldara núna að mæta í vinnuna á mánudögum, fer minna fyrir UTD mönnum þessa dagana 😉

 16. Vá þvílíkur leikur hjá okkar mönnum, og ég var stressaður fyrir leikinn 🙂

  Allir að spila sem vel smurð vél og stigu ekki feilspor í leiknum að frátöldu vítinu.
  SAS er orðið að SASAS 🙂
  Raheem Sterling maður leiksins og Skertel annar, tvö mörk og topp varnarvinna hjá Slóvakanum.

  Til lukku öll með að halda með skemmtilegasta liðinu í deildinni 🙂

 17. Ég er svo band- hoppandi- sótbrjálaður að hafa misst af þessum leik…. Djöfullinn!

  Annars til hamingju fellow reds
  YNWA

 18. Hahahaha Sterling fór á bekkin hjá mér í fantasy og hann refsar mér duglega.
  Stórkostlegur fótbolti og mjög mikilvæg stig í húsi.

 19. Ótrúlegur leikur hjá okkar mönnum. Þetta minnir á gömlu góðu gullaldarárin, þegar liðin lögðust á bæn áður en þau fóru á Anfield.

  ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 20. Að ráða Eyþór inn sem penna og skrifa upphitanir fyrir mestu stressleiki tímabilsins eru klárlega kaup tímabilsins hjá KOP-mönnun. Þurfum að fá þennan dreng til að skrifa fleiri upphitanir því liði gjörsamlega gengur af göflunum þegar hamrar á lyklaborðið.

  Ég trúi því ekki að við vorum komnir 4-0 yfir gegn Arsenal eftir 20mín leik. Nú má sumarið koma!

 21. Æi Daníel og marat eigum við ekki allavega að leyfa þessum degi að líða áður en við byrjum að láta okkur kvíða fyrir næsta leik?

 22. Þó svo að ég sé ekki að spá því.. Ef við vinnum þessa deild þá vil ég að það sé reist styttur af Rodgers í öllum stórborgum í þessum þekkta heimi.

 23. Enginn kvíði í gangi. Bara smá svartsýni með næsta leik, en alveg hoppandi hamingja með þennan sem var að klárast!

 24. Frábær leikur

  Mignolet 8 lítið að gera en stóð sig vel
  Cissokho 8 hans besti leikur og virkaði nothæfur í dag. Flottur leikur
  Skrtel 10 tvö mörk og bjargaði á marklínu var frábær
  Toure 8 flottur leikur í dag
  Flanagan 9 lætur mann gleyma Glen Johnson
  Gerrard 9,5(-o,5 vítið) stórkostlegur leikur vann boltann trekk í trekk og held ég að þetta var hans besti leikur á tímabilinu
  Henderson 10 frábær allan leikinn
  Coutinho 10 stórkostlegur leikur og vel ég hann mann leiksins . Skilaði frábærir varnavinnu og átti frábærar sendingar.
  Sterling 10 var frábær allan leikinn
  Sturridge 9 frábær leikur og hefði getað skorað fleiri
  Suarez 10 eina sem vantaði var markið en var frábær

  Rodgers 10 – ekkert varnarkjaftæði við keyrum bara yfir þá í byrjun.

  Stórkostlegur leikur og vona ég að við náum að fylgja þessu eftir gegn Fulham. Djöffull var þetta gaman

 25. Algjörlega sammála Einari Erni #12. Frábært lið sem besti stjóri sem við höfum haft í háa herrans tíð er að byggja upp. Það besta við þetta allt saman er samt eiginlega að blessað Benítez blætið á þessari síðu er smám saman að minnka :). YNWA my friends 🙂

 26. Það hefði engu skipt þó að þessir 11 Everton-menn sem spiluðu á Anfield um daginn hefðu verið með Arsenal í þessum leik!

  THIS IS ANFIELD!
  YNWA!

 27. Sá ekki leikinn, er staddur í Trysel í Noregi á skíðum , en… Uuuu þetta bara gerðist? Er þetta einhvað risa sameiginlegt grín, því ég á mjög bágt með að kaupa þetta?

 28. Flottur sigur.Hljótum samt að reyna ná 1.sætinu,sem ég tel raunhæft.Meina liverpool sem var í efsta sæti annan í jólum hlýtur en að reyna ná í 1.sætið. En ef 1.sætið verði ekki okkar þá er ég 110% viss um að 4 sætið verði okkar og jafnvel 3.sætið.

 29. Arsenal hlýtur að vera létt að Suarez var ekki í skotskónum og fullkomnað niðurlæginguna..

 30. Fullkominn leikur.

  Hægt að skrifa margt, en þetta er það eina sem manni finnst þurfa.

  Segir allt um veturinn að heyra Kop-stúkuna chanta Rodgers reglulega allan seinni hálfleikinn. Maðurinn er klárlega á leið með þetta lið til gæfu og gjörvileika. Alls konar mýtur sem hann hefur slegið niður í vetur og í dag var hann að vinna stærsta sigur Liverpool gegn Arsenal síðan 1964 og hefur þar með slegið vel á hendur Wenger í leikjunum milli þeirra.

  Þessi hápressa sem hann leggur upp á móti þessum liðum sem koma ofarlega er svo mögnuð að maður bara fær gæsahúð að hugsa um leikinn.

  Svo er náttúrulega ekki hægt annað en að hrósa manni sem hefur stillt þessum fjórum varnarmönnum okkar upp í þá stellingar sem við höfum séð að undanförnu. Fyrir utan þessi hræðilegu mistök Kolo á The Hawthorns og kjánatækling Gerrard í dag hefur liðið náð að stilla þessum strákum flott upp og þeir eru bara að fyllast sjálfstrausti leik frá leik.

  Cissokho er að verða mín költ-hetja…segir kannski ýmislegt. En í dag, kvöld og eitthvað áfram er uppáhaldslagið mitt úr Kop-stúkunni.

  “THERE’S ONLY ONE BRENDAN RODGERS”

 31. Sigureina, af hverju fær Toure bara 8 hjá þér? Hann var frábær, 9,5 að mínu mati. Eins og klettur í vörninni og átti eina stoðsendingu.

  Annars var allt liðið stórkostlegt í dag.

 32. Helvítis frekja í mér að biðja um 6-1 her í pósti fyrir leik, og að biðja um að Liverpool slátraði þessu arsenal liði 🙂 🙂 🙂 🙂

  What a wonderful day 🙂

 33. strákar getiði sett link herna af viðtölum eftir leik sérstaklega af leikmönnum ???

 34. Það sem liðið er búið að bæta sig á þessu eina og hálfa ári frá því að Rodgers tók við.
  Yfirburðir Liverpool í leiknum í dag voru algerir.
  Maður vonaðist eftir að Suarez myndi skora fyrst við vorum að spila við Arsenal. Þetta stangarskot hjá honum átti svo skilið að fara inn.
  Allt liðið var að spila frábærlega, algjör draumur að horfa á þetta.
  T.a.m. fannst mér Flanagan vera frábær. Gaman að sjá framfarirnar hans, eins með Sterling.

 35. 10 og ekki orð um það meir, tala um næsta leik í annari skýrslu.

 36. Svooooooo gott !!!!!
  Og ég sem var svooooo stressaður fyrir þennan leik!
  Æddi um húsið fram og til baka. Á ég að setjast niður og reyna að róa mig? Nei, held að það sé betra að ganga um!
  Tvö stream í gangi á sitt hvorri tölvunni – ef annað skyldi klikka!
  Ætti ég kanski ekkert að horfa – ég þori því varla. Jú, samt.
  Er ég svangur? Neeei, held ekki. Ég held ð mér sé óglatt. Ætli ég þurfi að gubba?
  Þarf ég virkilega á klósettið – aftur !!!
  Svooooo stressaður!
  Og svo ….1-0
  Og svo ….2-0
  Og svo ….3-0
  Og svo ….. 4-0
  Og svo …. 5-0
  Og mér leið svoooooo vel! Svoooooooo gott !!!
  Til hamingju !!!

 37. Mig langar til að bessa þennan leik meða að fara með stutta bæn og við sejum saman:

  Fowler Vor!
  Þú sem ert á Anfield
  verði þín snilld
  tilkomi þín markamet
  gef oss í dag vort daglegt mark
  og vér fögnum marki því sem þú skorar
  Eigi leið þú oss í tapleik
  heldur frelsa oss frá Man shitty
  því að þinn er Anfield, borgin og leikurinn
  um allar leiktíðir spilaðar
  YNWA!

 38. Ofdekraði táningurinn Jack Wilshere reiddist í hvert skipti er vindurinn tók að skipta átt. Sem betur fer var franski maðurinn á hliðarlínunni klæddur svefnpoka á meðan óveðrinu stóð. Hann gat því sigið dýpra og dýpra ofan í pokann með kólnandi veðri. Óveðrið stóð yfir í rúmar 90 mínútur og nýjustu fréttir herma að bréfþurrkur séu uppseldar í Lundúnum vegna gráturs áhangenda ónefnds knattspyrnufélags er hlaut mikinn skaða af óveðrinu. Á sama tíma standa íbúar Liverpool-borgar stoltir og beinir í baki, er þeir líta upp til sólar með von og eldmóð í hjarta. Því þeir trúa að bjartir tímar séu framundan.

 39. Tók einhver eftir því hver fékk fyrirliðabandið þegar Suarez fór útaf?

 40. Hlupastíllinn er eins og hann sé að reyna að ná jafnvægi eftir að hafa verið hrint og það villir bara fyrir andstæðingnum 🙂

  Snilld

 41. 2009/10 63 stig 7.sæti
  2010/11 58 stig 6.sæti
  2011/12 52 stig 8.sæti
  2012/13 61 stig 7.sæti

  2013/14 50 stig 4.sæti og 13 leikir eftir = framför hjá liðinu og gaman að fylgjast með þeim.

  Munið bara að fara ekki alltof hátt upp með sigrum( má samt njóta þess í botn) og ekki of langt niður þegar stig tapast.
  Stórhluti lykilmanna eru enþá ungir að árum og er því eðlilegt að við eigum misjanfa leik.

  En á þessu tímabili erum við búnir að eiga þrjá ótrúlega leiki sem maður mun seint gleyma(Tottenham úti, Everton heima og svo í dag gegn Arsenal heima).

 42. Ég legg til að við verðum sem svartsýnastir á restina af leikjunum í deildinni, það ætti að duga til þess að vinna deildina 😉

 43. Geðveikur sigur! Ég missti því miður af leiknum, vitið þið hvar ég gæti fundið upptöku af honum á vefnum?

 44. “the heaviest Anfield defeat on Arsenal since the day, almost 50 years ago, when Bill Shankly won the first of his league titles.”

  Sjitt, hvað ég er glaður!!!

 45. Eg hef bara eitt um þennan leik að segja til að lysa þessu…

  konan min sendi mer post a facebook eftir halftima leik og spurði kl hvað hun ætti að sækja mig, eg sagði kl korter i 3.. þessi kona veit ekkert um knattspyrnu og vissi líklega ekki við hvaða lið við værum að spila en hun ákvað að segja við mig ja kl korter i 3 okei flott eg var eimmitt að koma ur sturtu og er nakin herna að bera a mig boddylosion og að gera mig sæta fyrir þig og blablabla, hun vildi fa svar fra mer sem var ja okei en æðislegt sæll hvað mig langar i þig eda eitthvað alika en svarið sem hún fekk fra mer var mjog einfalt, FLOTT HJA ÞER ELSKAN MIN, HLAKKA TIL AÐ SJA ÞIG EN ÞU MUNT EKKERT ÞURFA AÐ FULLNÆGJA MER I DAG, LIVERPOOL ER ALGJORLEGA AÐ SJA UM ÞAÐ ÞENNAN LAUGARDAGIN …

 46. Vinur minn sem er harður Arsenal maður stóð í ýmsu veseni til að redda sér bíl, kíkti svo til mín að horfa á leikinn….

  Hann lét sig hverfa eftir 20min

 47. Arsenal liðið líktist liði Derby County tímabilið 07-08 mjög í dag, mætti halda að það hafi verið 11 eintök af Darren Moore í liði þeirra!

 48. Það var tvítað að Arsenal stuðningsmenn fóru að yfirgefa völlinn eftir 20 mín 🙂

 49. Djöfull sakna ég núna þeim 4 stigum sem töpuðust á móti WBA og Villa !

 50. Eins og staðan er núna eru 13 leikir eftir og við eigum ekki erfiðasta prógrammið af þessum toppliðum. Við erum 6 stigum frá toppnum og erum búin að sitja í öllum stóru liðunum nema Arsenal á Emirates. Sá leikur er svo gleymdur að það hálfa væri nóg. Hvílíkt rúst í dag.

  Mér er alveg sama hvað hver segir. Við erum með í þessari toppbaráttu. Þetta lið hefur sýnt og sannað að það getur vel barist um sigur í þessari keppni. Ég er a.m.k. ekki tilbúinn að afskrifa toppbaráttu þegar við erum 6 stigum frá toppnum og það eru 39 stig í pottinum. Það er ekki rökrétt.

  Til hamingju með daginn púlarar nær og fjær.

 51. @50
  Sá sem var að lýsa leiknum þar sem horfði sagði að skrtel hafi fengið það.

 52. Missti af leiknum, besta leikskýrsla sem ég hef lesið, þetta er alltaf svo vandað hjá ykkur, takk fyrir mig.

 53. Hélt það, en vissulega rétti Suarez bandið til Henderson. Sá ekki betur en að Henderson hlypi svo með það áfram, og jú það meikaði sens að láta Skrtel fá bandið.

 54. horfði á leikinn á Frón á Selfossi, í fyrstu heimsókn minni á þann ágæta samkomustað. Gunni Óla úr Skímó var í sófanum fremst og tók ertu þá farinn þegar Arsenal menn byrjuðu að yfirgefa svæðið.

 55. @50

  Skrtl tók við bandinu eftir að Suarez fór útaf.
  Það sást þegar þeir voru að fagna eftir leikinn.

 56. Var líka brjálaður vegna þess að einn af mínum bestu vinum og samtalsfélögum um enska boltann er staddur í togara í smugunni eða eitthvað álíka og ekki hægt að ná í hann !!!!!!!!!!!

 57. #74 Cissokho vann sér inn nokkur prik hjá mér þarna. Hugsar greinilega um liðsfélaga sýna og er með hausinn rétt skrúfaðan á. Hann reynir örugglega sitt allra besta og það er pottétt fjandi erfitt að koma inn í nýtt land og umhverfi og kunna ekki tungumálið. Finnst vera stígandi hjá honum og á hann skilið lof fyrir það.

 58. Þvílík skita og ömurlegur leikur, Rodgers out meða sama,
  Eee sorry fanst bara vanta eitt svona komment.
  En annars frábær leikur og allir að standa sig stórkostlega, hefði kanski orðið öðruvísi ef klúðrið hjá Mignolet hefði kostað mark.
  Young Flanagan er þvílíkt búinn að sanna sig eftir meiðslin, klárt mál að ég vel hann fram ifir G.J. eða þar til Glen er búinn að sanna sig sem einn besti hægri bak sem hann var.
  Sissoko er hættur að frjósa þegar hann fær boltann, eins og hann var vanur að gera í firstu leikjunum, og eins er varnaleikurinn farinn að sína kanski meira hvers vegna Liverpool fékk hann.

  En allavega flottur leikur og frábær úrslit

  Y.N.W.A.

 59. Djöfulsins GARGANDI snilld…. Það er bara of gott að vera Liverpool fan… 🙂 Þegar Suarez gerði heiðarlega tilraun til að brjóta tréverkið hélt ég bara að ég yrði ekki eldri!!!!

  YNWA

 60. @babu

  Ég er að spá í að fá Stebba og Eyfa syngja um Nínu í maí. Nema hvað að þá syngja þeir hvar eru þið Púllarar. Enda ekki verið í topp 4 í einhver 5-6 ár. Þrátt fyrir hvílíka yfirburði og fullnægingar að þá fenguð þið bara 3 stig 🙂

  Kv.
  Furðulostinn Arsenal aðdáendi sem hreinlega skilur ekki hvernig LFC tókst þetta 🙂

 61. Í annað sinn á stuttum tíma er ég á sviði í skólanum þegar Liverpool á stórleiki. Í bæði skipti hafa þeir slátrað andstæðingnum. Ég þarf að komast meira á svið þegar Liverpool er að keppa, þetta er hjátrú í uppsiglingu

 62. Stórkostlegt…

  Horfði einhver á leikinn þar sem Owen var að lýsa? Þegar Wilshere fór seint í Gerrard út við hliðarlínu í fyrrihálfleik tók Owen það skýrt fram að Boss Gerrard myndi ekki gleyma þessu og Wilshere ætti von á einhverju seinna í leiknum. Fyrir mér var það svo eins og að Liverpool hefði skorað sjötta markið þegar Gerrard tók mjög snyrtilega öxl á Wilshere í seinni hálfleik sem lá eftir og þurfti að fá aðhlynningu. Þarna sá maður hver ræður 🙂

 63. Sæl og blessuð. Allt er bjart og fallegt. Kosturinn við að vera svartsýnisrausari er ánægjan sem því fylgir að hafa rangt fyrir sér. Klikkar ekki. Nú þarf að halda áfram á þessari braut. Berjast fram í rauðan dauðann. Tvö stig eftir sem munu glatast samkvæmt minni spá, sem hljómar stundum svo fráleit en stundum svo sönn.

  Set í lokin þetta fallega viðtal við nafna sem er ekkert nema elskulegheitin og auðmýktin, þessi líka van Gogh fótboltans:

  http://www.youtube.com/watch?v=VrfcLbxZcTY

 64. Vinur minn sem er Arsenal aðdáandi sagði mér að hoppa upp í rassgatið á mér þegar ég reyndi að hafa samband við hann í dag – hvað er að fólki???
  En pössum okkur … vonandi verða menn ekki byrjaðir að væla eftir leikinn við Fulham og gagnrýna liðið bak og fyrir. Höldum okkur á jörðinni, ég ætla halda áfram að vona það versta, það virkar ágætlega þessa stundina! Við töpum næstu þremur leikjum og Rodgers lendir í að nást á mynd þegar hann fer í bað með Toure.

 65. Ég get alveg vanist því að fá raðfullnægingu í hádeginu á laugardögum áfram.

 66. #BABU

  Leikskýrslan: Sjaldan séð annað eins……….. kómísk, hnitmiðuð, gargandi snilld!

  Guderian og aðrir Liverpool aðdáendur til sjávar og sveita……….

  Y O U N E V E R W A L K A L O N E

 67. Frábær leikur!
  Vá hvað maður man þegar Skrtel þurfti að koma inní liðið gegn utd í byrjun tímabils vegna meiðsla Toure og maður var ekkert bjartsýnn á þetta en sá hefur staðið sig síðan þá! Búinn að vera frábær í vörninni, jú hann hefur gert að ég held tvo sjálfsmörk en heild yfir er hann búinn að vera frábær sem hefur heldur betur verið mikilvægt miðað við meiðslin í vörninni á þessari leiktíð.
  Sama má segja um Flanagan og Sterling í raun líka. Rodgers er greinilega að ná vel útúr þessum mönnum.

 68. jonny

  æhh Á einhverju stigi er þetta samt gamall maður að detta nokkuð harkalega á rassinn!

 69. Nokkur góð komment af reddit eftir leikinn:

  – Arsenal parked the bus….only problem it was parked outside of Anfield.
  – Um Flanagan: Flan Basten
  – Ef Sterling hefði nú gefið á Aspas þarna í lokin og hann skorað, þá hefðu markaskorararnir verið SaSaSaSpaS
  – The second half of this game was about as pointless as silver polish at the emirates.
  – Evertonian scored against us, Suarez failed to score AGAIN, we didn’t keep a clean sheet and our second half performance was lacking. Overall 2/10
  – Komment frá Arsenal manni eftir 20 mínútur: “SOMEBODY STOP THE DAMN MATCH! FOR THE LOVE OF GOD STOP THE DAMN MATCH! THESE MEN HAVE FAMILIES”

 70. viðurkenni það maður á bara erfitt með að hemja sig eftir þennan svakalega sigur babu !:)

 71. Sælir félagar

  Ég hefi ekki snert gólfið í dag. Ég líð um eins og loftandi og svíf í sælivímu. Þetta er óvenjulegt ástand verð ég að segja og þó er ég þingeyingur. Takk fyrir mig í dag og ég hlakka til að hitta nallann í vinnunni á mánudaginn. Hann er að vísu góður drengur svo ég verð ekki vondur við hann.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 72. Helt að það sem okkur vantar uppá akkúrat núna er það sem Bretarnir kalla “Consistency”, Við megum ekki fara detta í eitt tap hér, tveir sigrar þar, 1 jafntefnli hér og 1 sigur þar…

  Höldum okkur á mottuni og spilum eins og við gerðum í dag í öllum leikjunum sem eftir eru af tímabilinu og við hömpum 3-4 sætinu, KOMA SVO LIVERPOOL!

 73. Mig langar að tjá mig helling um þennan leik en ég hef ekki tíma – ég er upptekinn við að hlæja mig máttlausan yfir leikskýrslu Babu og ummælum ykkar allra!

  Þvílíkur dagur. Þvílík epík hér á Kop.is frá upphafi til enda!

  Stórkostlegt, alveg.

  Það er eins gott að það er Podcast á mánudagskvöldið. Ég þarf að melta þetta í svona tvo daga áður en ég get komið einhverju af viti upp úr mér.

  Fimm eitt!!!

 74. Stórkostlegt. Eintóm hamingja. Þetta er allt á réttri leið. In Rodgers we trust!

 75. Magnaður dagur. Til hamingju félagar.

  Frábært að sjá að menn eru loksins að átta sig á því að Rodgers er hæfur maður í starfið og farnir að gefa honum það credid sem hann á skilið. Þetta var fyrir mér augljóst strax á seinasta tímabili. Það hefur frá byrjun verið augljóst að það er mikið vit í því sem hann er að gera og greinilega útpælt. Liðið er að reyna að spila fótbolta með “reason” og er núna að smella alltaf meira og meira. Það vantar enn aðeins meiri stöðugleika og að LFC geti mætt svona viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Það styttist þó greinilega í að það fari að detta inn miðað við úrslit og stórsigra undanfarinna mánuða. Potentialið í þessum hóp er gríðarlegt.

  Áfram Liverpool

 76. Í dag urðu kaflaskipti í sögu Liverpool. Þetta var Arsenal, lið sem við höfum átt í erfiðleikum með frá því Wenger mætti á svæðið. Nú eru breyttir tímar. Ég er hræddur um að risinn sé að rumska.

  YNWA

 77. Fannst bara skrítið að Stöð2 sport2 logo-ið hafi ekki verið rautt, það að sýna slátrun í beinni er klárlega bannað innan 18…..

  En til hamingju með daginn, sigurinn og áframhaldandi stigasöfnun.

 78. Mér fannst Arsenal liðið einfaldlega óheppið í dag…..

  ..að þurfa að spila við Liverpool.

  Bestu kveðjur frá Englandi, ójá, var á Anfield.

 79. Kæru félagar,

  Ég þurfti að fara út strax eftir leik og var búin að bíða spennt eftir að koma heim og lesa leikskýrsluna. Að sjálfsögðu varð ég ekki fyrir vonbrigðum, frábær leikskýrsla – Takk fyrir mig Babú! Ég er ekki búin að lesa í gegnum öll kommentin, en mér finnst ekkert slæmt að eiga þau öll eftir – fyrirfram takk fyrir mig Kop.is félagar!

  Ég er enn ekki að trúa þessu – að vinna Arsenal 5-1 og Liverpool hefði getað skorað fleiri mörk og neglan frá Suarez – váááá !!!

  Ég þakka fyrir tímaflakkið og að horfa á leikinn aftur – þvílík spilamennska, þvílíkt lið, þvílík geðveiki og þvílík unun að horfa á liðið spila fótbolta!

  Mikið hlakka ég til að lesa yfir öll kommentin frá ykkur.

  Góðar stundir gott fólk!

 80. Markatala okkar gegn topp sjö liðunum þetta timabil 19gegn tíu 8 leikir þar af fimm útileikir ekki slæmt þetta.Svo bara klára þessa deild.

 81. svakalega fynnst mér vanta fótbolta þátt sem fer betur yfir leikina er að horfa á match of the day það er bara sýnt frá leiknum og síðan tala þeir um leikinn í max 4 mín

 82. Almeria var að vinna Athletico Madrid 2-0 þar sem Suso átti stoðsendingu.

 83. Las þetta einhversstaðar:

  “The last time Liverpool put five past against Arsenal, on April 18, 1964, they won the league, the first title under Bill Shankly.”

  hmmm…..

 84. Stærstu töp Liverpool á tímabilinu til þessa eru 2-0 og 1-3.

  Stærstu sigrarnir eru aftur á móti 4-1 (WBA), 4-0 (Fulham), 5-1 (Norwich), 4-1 (West Ham), 0-5 (Tottenham), 4-0 (Everton) og 5-1 (Arsenal).

  Liðið er búið að skora 63 mörk í 25 leikjum á tímabilinu, meira en 2.5 í leik. Þetta er nú alveg eitthvað. 🙂

  En þessi frammistaða í dag, holy sh#t! Maður þarf greinilega oftar að vera skíthræddur við leiki, það virðist kalla á hamramma lærisveina BR!

 85. #LFC previous gameweek 25:
  2008/09 – 54 points
  2009/10 – 44 points
  2010/11 – 35 points
  2011/12 – 39 points
  2012/13 – 36 points
  2013/14 – 50.

 86. Frábær skýrsla Babu.

  Ég er bara orðlaus yfir þessum leik, var búinn að vera mjög stressaður rétt eins og margir aðrir. Ég held að þetta hafi verið akkúrat það sem BR vantaði að sýna fram á sigur gegn þeim liðum sem við viljum nálgast og ætlum okkur að berjast við í framtíðinni. Einnig hlítur þetta að hræða lið sem þurfa að mæta á Anfield á næstunni.

  Það hvað BR hefur náð útúr Sterling og Flanagan á stuttum tíma er svo geggjað. Þetta er bara eins og að kaupa tvo klassa leikmenn. Höfum það alveg á hreinu að til þess að slá Sterling útúr þessu liði m.v. það form sem er á honum í dag er ekkert annað en solid heimsklassaleikmaður. Vissulega þarf hann samt örugglega líka break-ið en hann er einfaldlega búinn að vera geggjaður síðustu 2 mánuði.

  Vonandi byggja okkar menn á þessum sigri, okkur er umtalað um óstöðugleika en samt er ekki hægt að horfa fram hjá því að það hefur verið mikill stöðugleiki í stigasöfnun liðsins síðustu 13 mánuði eða frá janúar í fyrra. Ef eitthvað er hefur sóknarleikurinn orðið miklu markvissari og því alveg rökrétt að trúa því að við séum á styrkingarleið frekar en öfugt. Hinsvegar eru mörg frábær lið í deildinni í vetur en 4 sætið er okkar að tapa segi ég. Allt annað er vitanlega bónus (þ.e. fyrir ofan).

  Þessi frammistaða í dag er sú allra besta sem ég hef séð frá Liverpool frá því ég byrjaði að horfa (undir stjórn Roy Evans).

  YNWA

  ps. Ali cissokho er að verjast á köflum mjög vel.

 87. To be fair to Arsenal, they were missing Kallstrom today.

  Every Arsenal fan should get the iPhone 5s:
  S krtel
  S krtel
  S terling
  S turridge
  S terling

  News just in RVP wants to join Liverpool.

  Maybe Real Madrid wasn’t so dumb after all.

 88. Komment 58: er ekki allt i lagi hja ter og konunni??? Komment 85: hefurdu sed eda lesid kommentin her a kop tegar liverpool tapar eda gerir jafntefli???

 89. Maður er bara í skýjunum! Þvílík frammistaða, þvílíkur karakter að rústa toppliðinu í dag.
  Þeir áttu aldrei breik, ALDREI!

  Einn leik í einu, sé ekki af hverju þetta samstillta lið okkar á ekki að stefna hærra en fjórða sætið. Arsenal, chelskí, manjú, spurs og city öll í evrópukeppnum sem munu draga úr þeim kraft á lokasprettinum.

  Full fart!!

 90. Heyrði að þegar London-lamb er eldað, þá sé best að byrja á háum hita í 20 mín, en svo hægelda í 70 mín. Mjög ljúffent!

 91. Nú er ég búinn að horfa aftur á leikinn. Hvað myndi maður gera ef maður stjórnaði liði sem mætti á Anfield þessa dagana? Reyna einhvers konar spænskt 4-6-0 kerfi e.t.v.? Það er a.m.k. algjört lykilatriði að tapa ekki miðjunni og sér í lagi að færa vörnina ekki of hátt ef miðjan er ekki 100% trygg. Ella er stutt í refsivöndinn. En það er önnur Ella (sem er víst frænka mín!).

  Ég hef fylgst náið með fótbolta í ca 20 ár og Liverpool jafnvel lengur og ég hef ekki séð jafndýnamískt og skemmtilegt lið og núverandi. Þetta lið er hársbreidd frá því að komast í algjöran toppklassa; svona tveir gæðaleikmenn og 1-2 squad players og það er komið – og þarf varla til!

  Eitt í þessu samt. Steven Gerrard yrði besti knattspyrnumaður sögunnar sem ekki varð deildarmeistari (í neinni deild), ef svo illa fer að hans ferli ljúki án þess. Ég hef ENGAR væntingar um þá dollu í ár, en ég vil að meistari Luis Suárez doki við í 1-2 ár til viðbótar og tryggi Captain Fantastic dolluna. SG var án nokkurs vafa einn af 2-3 bestu knattspyrnumönnum heims um miðjan síðasta áratug og hann hefur enn mikið fram að færa. Það sem hann verðskuldar dolluna eftir öll gæðin, alla eljuna og síðast en ekki síst þessa dæmalausu tryggð. Karlinn hefði gengið beint inn í hvaða byrjunarlið sem er og orðið lykilmaður fyrir örfáum árum. Gleymum þessu aldrei, kæru Púlarar.

  Sterling er að fullorðnast fyrir augum okkar. Mikið er gaman að sjá hágæða vængmann í öðrum eins ham. Hérna er hann gegn Arsenal: https://www.youtube.com/watch?v=bw7OHQd7hXs – vá!

  Svo maður setji sig aftur í spor knattspyrnustjóra. Hugsið ykkur gagnsóknagetuna í liði með Suárez, Sterling, Coutinho og Sterling (+ Gerrard með sínar lúmsku 40m sendingar). Þetta er bara bilun. Ef BR og Liverpool tekst að fá stöðugleika í þetta form og þessi gæði, getur allt gerst. Með smá heppni er sögufrægt lið að gerjast fyrir augum okkar. Tottenham fá Everton í heimsókn um helgina og Manchester United mæta (væntanlega) hamrömmum Arsenal mönnum í vikunni. Svo er aldrei að vita hvað Fulham gera… 🙂

  Nú er gaman að vera rauður, svo mikið er víst!

 92. Nyjustu frettir fra englandi að ozil se fundinn
  hann fannst þegar Flanagan tæmdi vasana aður en hann for að sofa

 93. Hélt að ég væri búinn að kommenta en hef líklega bara ýtt á ENTER og það er ekki að virka en hrikalega er ég montin og svo datt ég í það eftir leik en allt var í góðu lagi,,nu, er bara rosa happý.

 94. Svona leið Wenger á bekknum
  [img]https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10202312231301694&set=a.1200013595019.2031747.1068916792&type=1&theater[/img]

 95. var að horfa á leikinn aftur… og holy shiiiit hvað þeir coutinhio og sterling voru vangefnir í þessum leik.. ég er einn af þeim sem vildu hvíla coutinho fyrir Allan í þessum leik því hann myndi skila betri varnarvinnu en djöfull er ég glaður að ég fékk ekki mínum vilja fram.. 😉

 96. Þessi sást líka á netinu:

  Af hverju eru leikmenn Liverpool með sorgarbönd?

  Virðingarvottur, það er verið að jarða Arsenal í dag.

 97. Þetta var alveg frábær leikur og í raun fyrir utan vítaspyrnuna frá þeim þá var þetta eins nálægt fullkomnum leik og maður getur komist.

  Liðsheildin og liðsframmistaðan á leiktíðinni hefur verið frábær í vetur og gærdagurinn var eitt það besta sem maður hefur séð liðið spila. Það sýnir liðsheildina, hæfileikana og viljann í liðinu að liðið er búið að sigra liðin sem eru þeim hvað næst í deildinni (Everton, Arsenal, Spurs) gífurlega sannfærandi með þéttum varnarleik og baneitruðum skyndisóknum.

  Skyndisóknir Liverpool eru frábærar og að liðið skuli nýta sér föstu leikatriðin svona vel er frábært. Skyndisóknirnar eru svo vel útfærðar, beinskeyttar og koma úr ólíkum áttum. Gífurlega skemmtilegt að horfa á þá útfæra slíkar sóknir.

  Liðið er nú aftur komið að toppbaráttunni og er vonandi að búa til forskot á liðin fyrir neðan sig. Mér hefur í mest allan vetur fundist að 4.sætið sé okkar að tapa og hefur það ekkert breyst. Liðið er að vinna leiki með ólíkum hætti í allan vetur: við höfum þurft að grind-a út ljóta sigra eins og í upphafi leiktíðar, unnið sannfærandi sigra með possession bolta og slátrað liðum með skyndisóknarbolta. Liðið er orðið gífurlega flott og fremur óútreiknanlegt. Brendan Rodgers er að gera frábæra hluti með liðið. Nú er nokkuð “auðvelt” prógram framundan og gerir maður kröfur á sigur í þeim öllum!

 98. Frábær leikur og get engu bætt við komment annarra um það, sá hinsvegar frábæran brandara í dag, á fótbolti.net má sjá einkuagjöf úr leiknum, ef ég man rétt frá goal.com. Leikmenn Liverpool fá þar margir ekkert sérstakar einkunnir, sumir 6-7 enda bara að jarða efsta lið deildarinnar. Skrtel sem kláraði leikinn á fyrstu 10 og var magnaður allan leikin fékk td 7!!!!!!!!!!!!!! Wilshere sem átti að vera farin útaf með tvö gul fyrir brot og kjaftbrúk og almenn leiðindi fékk 6 enda átti hann miðjuna í þessum leik eða?

  Hvaða menn fá borgað fyrir að senda svona rugl frá sér.
  Vona bara að okkar menn fai aftur 6-7 hjá þessum snillingum eftir Fulham leikinn því þa´er ljóst hvernig hann fer.

  YNWA

 99. david@135

  það kemur fram í fréttinni hjá fotbolti.net að það sé goal.com sem er að gefa þessar einkunnir

 100. Ég er ennþá í svo góðu skapi að ég mótmælti ekki einsu sinni þegar konan vildi fara í IKEA

 101. David #135

  Lífið er einfaldlega of stutt til að hafa áhyggjur af einkunagjöf goal.com. Þetta er jafnan nokkurnvegin í takti við áreiðanleika annarra frétta á þessari síðu.

 102. Ef maður skoðar þetta tímabil, og ber það saman við tímabilin síðustu 3-4 ár, þá sést það langar leiðir að við höfum bætt okkur einmitt í þeim atriðum sem þurfti að slípa og lagfæra.

  Meðal annars föst leikatriði, Hver man ekki eftir þessum stuttu, skelfilega útfærðu hornspyrnum? Það var skelfing að horfa á okkur klúðra svoleiðis tækifærunum fram og aftur! Svo hefur Varnarleikurinn okkar aldrei verið neitt sérstakur í föstum leikatriðum en þó öllu skárri heldur en sóknarleikurinn… Þetta hefur Rodgers bætt, ásamt fjölmörgum atriðum sem hafa verið “shaky” síðustu ár hjá okkar mönnum.

  Það er, jú full auðvelt að segja þetta núna og hrósa liðinu endalaust þegar það sýnir björtu hliðarnar og einnig auðvelt að drulla yfir það sömuleiðis ef það á slakan dag.. En það sést bara á leik liðsins hversu mikið Rodgers hefur breytt, og bætt. Fyrst þegar Brendan kom inn, þá hafði ég enga trú á honum, enda maður sem hefði verið að þjálfa Swansea.. ég hélt einfaldlega að hann væri ekki tilbúinn til að taka við svona stórum klúbb, að hann væri einfaldlega með of lítið “reputation” til að skila okkur aftur á meðal þeirra bestu, en sá tróð sokk upp í kjaftinn á mér og ég tók hattin ofan af fyrir honum eftir tæplega 4 leiki enda sá maður að þessi Þjálfari væri bæði kominn til að færa líf í okkur, og einnig var hann kominn með smá skemmtun! Í dag spilum við blússandi samba-bolta og allt er að ganga okkur í haginn, Takk Brendan. Þú ert með þetta!

 103. Hefur einhver séð hvað fagnið hjá Sterling táknar? Þ.e. þetta að grípa um andlitið með annarri hendinni?

 104. Hann gerir “W” = WINNING! Eða bara gamla góða “face”. Eða bæði.

 105. Það liggur við að það eina sem skyggir á gleði manns yfir þessum stórsigri er að maður vorkennir Man.U. að þurfa að mæta á Emirates á miðvikudagskvöld og taka út reiði og svekkelsi Arsenalmanna!

  Og þó! Kannski eykur það bara ánægjuna 🙂

 106. Það er auðvitað engu við að bæta þessa frábæru skýrslu og fjölda frábærra kommenta. Við vitum núna hvað liðið getur á góðum degi, nú er mikilvægast að reyna að fjölga góðu dögunum og eiga þá helst alltaf. Ég er nokkuð viss um að 4. sætið sé nokkurn veginn örugglega okkar miðað við þá leiki sem keppinautarnir eiga eftir. Við náum varla að pressa að titli en gætum hæglega barist við Arsenal um þriðja sætið.

  Brendan Rodgers hefur unnið stórvirki á þessu ári. Ég sagði í haust að við hefðum átt að halda Downing og lána Sterling en Rodgers hefur notað hann fáránlega vel og á heiðurinn af þessum stórbrotnu frammistöðum sem hann hefur sýnt upp á síðkastið. Þannig að ég ét þann sokk kátur og glaður. Henderson er farinn að gera tilkall í byrjunarlið Englendinga ásamt Sterling og Sturridge. Ég meina hvernig í fjáranum á Hodgson að geta horft framhjá þessum ótrúlegu leikmönnum? 5-1 gegn Arsenal, þetta gerist varla betra, nema við slátrum United, City og Chelsea líka!

 107. Darren Bent að tryggja Fulham 2:2 jafntefli á ot í uppbótartíma, snilld 🙂

 108. Helgin gæti ekki endað mikið betur, Júnæted var að gera jafntefli við Fulham á heimavelli 2 – 2. Fulham jafnaði þegar 4 mínútur voru komnar fram yfir uppbótartíma!!

  Hversu frábært er það?? 🙂

 109. Frábær sigur okkar manna, og frábært jafntefli hjá Fullham í dag, ég legg til að menn og konur haldi sig ögn á jörðinni og haldi áfram í vonina, langar líka að benda á þá óþægilegu staðreynd að okkar rauðklæddu menn hafa ekki verið að stíga upp og vinna litlu liðin og það gæti komið í bakið á okkur seinna meir, eigum td Fullham á miðvikudag og vona svo sannarlega að sami baráttuvilji verði þar til staðar eins og í gær á móti “The Gunners” Satt best að segja hræðist ég frekar liðin í neðri hluta en efri……. please proof me wrong

Liðið gegn Arsenal

Hneigðu þig Brendan Rodgers