Oldham á morgun í bikarnum

lfc_oldham_2014

Það er bikarhelgi og á morgun taka okkar menn á móti Oldham Athletic á Anfield. Svo undarlega vill til að þetta er þriðja árið í röð sem við mætum þeim á þessum tímapunkti í ensku bikarkeppninni.

Fyrir tveimur árum unnu okkar menn auðveldan 5-1 sigur á Anfield þar sem Stewart nokkur Downing fór á kostum. Í fyrra hefndu Gömlu skinkurnar sín með 3-2 sigri á Boundary Park þar sem Matt nokkur Smith pyntaði vörn okkar manna, kostaði Martin Skrtel byrjunarliðssæti í hálft ár og gerði sennilega út um framtíð Sebastian Coates hjá okkar mönnum.

Matt Smith er annars á mála hjá Leeds United núna í Championship-deildinni. Oldham sitja hins vegar í 19. sæti ensku 1. deildarinnar, eða heilum 60 sætum neðar en Liverpool í heildartöflunni ensku. Þeir eru með 24 stig eftir 23 leiki og -6 í markatölu, hafa tapað 11 af þessum 23 leikjum og eru án sigurs í síðustu 6 leikjum eða síðan 26. nóvember á síðasta ári (3 töp og 3 jafntefli síðan þá).

Það þarf í rauninni ekkert að fjölyrða meira um þetta lið þeirra. Úr leikmannahópi þeirra í tapinu gegn Shrewsbury á nýársdag eru heilir tveir leikmenn sem komu við sögu í sigurleik þeirra gegn Liverpool fyrir ári. Í þessum leik gegn Shrewsbury kom inná ungur leikmaður að nafni Anton Rodgers en hann er einmitt sonur Brendan Rodgers. Þeir feðgar hituðu saman upp fyrir leikinn í viðtali fyrir helgina, skemmtileg lesning það. Annars er búið að ákæra Brendan fyrir ummæli sín í garð dómara eftir Man City-leikinn. Ekkert óvænt þar, hann fær sína 1-2 leiki í bann og Lee Mason verður ekki látinn dæma Liverpool-leiki á næstunni. Fínt mál.

Feðgarnir.
Feðgarnir.

Þurfum við að segja eitthvað frekar um þetta Oldham-lið? Ég stórefa það. Þetta lið á að tapa fyrir U21-árs liðinu okkar í dag þannig að allt annað en auðveldur sigur verður hneyksli, sama hvaða liði Rodgers stillir upp.

Brendan Rodgers þarf annars á því að halda að komast í seinni umferðirnar í þessari keppni. Árið 2013 var frábært hvað varðar framfarir á deildarformi og uppgang í spilamennsku liðsins en eftir situr að Rodgers hefur aldrei farið lengra en 1-2 leiki inn í bikarkeppni með Liverpool. Nú í vor verða liðin tvö ár síðan Kenny Dalglish fór með liðið í þrígang á Wembley og skilaði einni dollu inn í skápinn á Anfield.

Á síðustu leiktíð datt Liverpool út úr deildarbikarnum á heimavelli gegn Swansea í öðrum leik deildarbikarsins og svo strax í fyrsta leik enska bikarsins gegn Oldham. Í vetur datt liðið út í öðrum leik deildarbikarsins, á Old Trafford. Ókei, menn verða seint hengdir fyrir að tapa bikarleik þar enda frekar óheppinn dráttur svo snemma í keppninni, en engu að síður eru þetta þrjár bikarkeppnir (og Evrópudeildin í fyrra sem lauk í 32-liða úrslitunum) án nokkurrar velgengni hjá Rodgers.

Ég taldi slæmt bikargengi Rodgers upp í pistli í desemberbyrjun þar sem ég fór yfir hluti sem ég vildi sjá hann bæta. Ég endurtók þá ósk mína í áramótauppgjörinu í lok árs og ítreka það enn og aftur hér. Auðvitað er það forgangsatriði nr. 1, 2 og 3 að komast aftur í Meistaradeildina í vor en það er engu að síður staðreynd að Rodgers verður fyrr en síðar að fara að skila bikarvelgengni.

Jæja, nóg af slíku röfli. Hvernig verður byrjunarliðið í þessum blessaða leik? Colin Pascoe sat blaðamannafund fyrir helgina og staðfesti þar að Jose Enrique er enn ekki byrjaður að æfa á meðan Daniel Sturridge, Jon Flanagan og Joe Allen eru byrjaðir að hreyfa sig létt og eru væntanlegir aftur innan tveggja vikna. Mamadou Sakho er einnig frá í 1-2 mánuði hið minnsta (helvítis fokking fokk) og því ljóst að enginn þessara verða með í þessum leik á morgun.

Fyrir vikið er ljóst að það mun eitthvað af aðalliðsmönnum spila þennan leik. Það er einfaldlega ekki næg breidd í hópnum til að ætla bara að stilla upp varamönnum og varaliðsmönnum í svona leik. Ég ætla að giska á að Rodgers hvíli þá sem algjörlega, gjörsamlega verða að fá hvíld og muni nota aðra.

Hverjir verða svo að fá hvíld? Fyrstur á blað þar er Luis Suarez sem hefur borið þetta lið á herðum sér síðustu vikur. Rodgers sagði eftir sigurinn á Cardiff að Luis hefði spilað með meiðsli sem hefðu haldið 9 af hverjum 10 leikmönnum á sjúkralistanum. Því er ég nokkuð viss um að ef Suarez verður einhvern tímann hvíldur verður það í dag.

Næstur á blað er Jordan Henderson. Hendo var tjaslað saman hálf-meiddum fyrir Tottenham-leikinn (með aldeilis góðum árangri) og aftur var hann látinn spila hálf-meiddur gegn Cardiff (eftir líkamsárás Eto’o um síðustu helgi). Hann hefur verið að spila það vel og er okkur það mikilvægur að við einfaldlega verðum að leyfa honum að komast í 100% heilsu fyrir næsta deildarleik.

Tveir aðrir á mínum lista eru svo Philippe Coutinho og Glen Johnson sem hafa virkað mjög þreyttir í undanförnum leikjum og hafa jafnan verið fyrstir teknir af velli yfir hátíðarnar.

Suarez, Henderson, Coutinho, Johnson. Ég spái því að þessir fjórir verði hvíldir og liðinu púslað saman úr þeim sem eftir eru. Brad Jones fær svo bikarleikinn að venju:

Jones
Touré – Skrtel – Agger – Cissokho
Gerrard – Lucas – Alberto
Sterling – Aspas – Moses

Fyrir utan þetta lið eru svo Martin Kelly, Brad Smith og hinn kornungi Jordan Rossiter sem koma til greina í þennan leik. Smith og Rossiter hafa verið á bekknum í síðustu 2-3 leikjum og Smith fékk að koma inná gegn Chelsea. Hann gæti alveg leyst Aly Cissokho af í vinstri bakverðinum en ég efa það þó að hann verði látinn byrja þennan leik eins reynslulaus og hann er. Að sama skapi gæti Kelly spilað hægri bakvörðinn en Rodgers hefur ekki verið að treysta Kelly í byrjunarliðinu undir neinum kringumstæðum í vetur og ég er efins um að hann geri það hér.

Ég spái því frekar að þetta sterka lið byrji leikinn og Rodgers freisti þess að ná góðri forystu snemma og hvíla svo leikmenn. 3-0 í hálfleik og þá geta Skrtel, Gerrard og Cissokho vikið fyrir Kelly, Rossiter og Smith í hálfleik og/eða fljótlega eftir hlé.

MÍN SPÁ: Sko, jafnvel með okkar meiðsli og fjóra leikmenn hvílda er ég að horfa á mögulegt byrjunarlið sem ætti að spila eins og Bayern eða Barcelona í samanburði við Oldham Athletic. Það er einfaldlega óafsakanlegt að klúðra þessum leik, sérstaklega eftir að hafa tapað gegn þessu sama liði í þessari sömu umferð í fyrra.

Það eru samt fleiri en Rodgers sem þurfa að yfirstíga þessa hindrun á sínum Liverpool-ferli. Ég ætla að segja það hér og nú; ef Iago Aspas, Victor Moses og Luis Alberto geta ekki heillað okkur á uppseldum Anfield gegn liði sem er tveimur deildum og 60 sætum neðar, þá eiga þeir ekki mikið frekara erindi í rauðu treyjunni. Sérstaklega Aspas og Moses sem fá ekki sama svigrúmið og hinn ungi Alberto.

Ég ætla að spá okkur 4-0 sigri. Gerrard setur tvö fyrir hlé (annað úr víti), Aspas og Moses bæta svo báðir við í seinni hálfleik.

Þetta verður auðvelt. Þetta skal verða auðvelt. Ég tek bara ekki annað í mál. Sigur hér og forðast svo stórliðin á útivelli í næstu umferð. Við verðum að vera með séns á dollu (og Meistaradeildarsæti, að sjálfsögðu) þegar snjóa leysir. Og hana nú!

43 Comments

  1. Það er nauðsynlegt að ná að vinna Oldham í þessum leik, ég held að ég tali líka fyrir alla Liverpool menn þegar að ég segi að ég vill endilega sjá fleiri fótboltaleiki með þeim og það væri snilld að komast í úrslit, alltaf gaman þegar að liðið manns hefur séns á bikar.

  2. ,,Á síðustu leiktíð datt Liverpool út úr deildarbikarnum á heimavelli gegn Swansea í öðrum leik deildarbikarsins og svo strax í fyrsta leik enska bikarsins gegn Oldham.”

    Bendi á eina staðreyndavillu í þessari annars ágætu upphitun hér að ofan. Við duttum út fyrir Oldham í 4. umferðinni í fyrra. Unnum Mansfield í 3. umferð á útivelli 1-2 eins og menn kannski muna.

  3. Flott upphitun, KAR, og nokkuð sammála með byrjunarliðið. Ef að menn eins og Alberto, Moses og Aspas koma ekki dýrvitlausir í þennan leik þá getum við alveg eins losað okkur við þá strax. Maður er að vona að þessir menn fái einmitt að spila sínar stöður á sunnudaginn og Brendan hefur sýnt það á sínum ferli að ef menn standa sig þá fá þeir tækifærið – sviðið er ykkar.

    Ég veit ekki alveg hvað á að lesa í ummæli Pascoe um að Suarez vilji spila alla leiki. Það er gott og blessað en við viljum ekki að hann spili alla leiki. Við þurfum hann í alla leiki og því er lykilatriði að geta hvílt hann í leik sem þessum þegar hann er þegar að glíma við einhver smávægileg meiðsli. Ef ekki nú, hvenær þá?

    Ætla að spá okkur þægilegum 3-0 sigri. Aspas setur eitt, Sterling tvö.

  4. Verður leikurinn hvergi sýndur? Sé hann ekki neinsstaðar á þessum stóru íþróttarásum eins og Sky og BT sports!

  5. Ég spyr eins og Davíð, vitið þið hvort það verði hægt að nálgast stream á leikinn eða þarf maður að láta textalýsingu duga?

  6. Það hlýtur að vera hægt að nálgast stream á leikinn en hann verður hvergi sýndur í sjónvarpi skildist mér á Hjörvari Hafliða þegar þeir sendu fyrirspurn út til Englands varðandi þennan leik.

  7. Bara ein spurning, hvernig ætla menn að “nálgast stream” ef leikurinn er hvergi sýndur?

  8. Sælir félagar

    Nú gerast þau undur og stórmerki að spá mín breytist og það til hins betra. Þessi leikur fer 6 – 0 og Iago Aspas með þrennu Gerrard 2 (annað úr víti) og Sterling 1. Moses verður ekki í byrjunarliði og kemur ekki inná fyrr en staðan er orðin örugg 6 – 0.

    Það er nú þannig.

    YNWA

    PS. Mér finnst spurning Björns Torfa athygliverð.

  9. Auðvitað skyldusigur… 🙂 Og stjóri Oldham búinn að tryggja það fyrir okkur með kjánalegum yfirlýsingum um Suarez!!

    En annað off topic… það er sem sagt officelt núna að í Chelsea eru engir dýfingarmenn.. þá er að finna í öðrum liðum en nei… ekki í Chelsea.. Þetta er satt!! Sá Sérstaki segir það!! Og enska pressan trúir honum! -_-

  10. Vill byrja á að þakka þér fyrir flott upphitun, það eina sem ég persónulega vill helst sjá öðruvísi við byrjunarliðið er að henda Ibe inn í það. Ég bara vona það að ef við erum ekki að fara að henda honum á lán núna í janúar að hann fari að komast ofar í goggunar röðina(allavegna framyfir Moses sem ég höf löngu fengið nóg af vegna áhugarleysis)

  11. Ég vil alls ekki sjá Suarez, Hendo, Johnson né Coutinho í byrjunarliðinu í þessum leik.
    Þeir hafa allir spilað mikið undanfarið og Suarez og Hendo verið hálfmeiddir og hafa ekkert að gera með að byrja þennan leik.

    ————-Mignolet
    Kelly Toure Agger Cissokho
    ——-Gerrard Lucas
    ————-Alberto
    Moses——Aspas—-Sterling

  12. Sammála Bond með byrjunarlið og nauðsynlegt að hvíla eftir jólatörn. Klárum Oldham heima þó lykilmenn séu hvíldir.

  13. Hvernig er það, eru leikurinn ekki sýndur á LFC TV? Nú þekki ég það ekki og leita til ykkar 🙂

  14. Leikurinn verður ekki sýndur á LFCTV en það verður hinsvegar live commentary. Samkv. LFCTV.

  15. þar sem Oldham mun berjast þá þýðir ekkert að hafa Lucas á miðjunni, hefur ekki punginn í þetta. Þurfum eitthvað stál á miðjunna,,,,,,annars hef ég engar áhyggjur af þessu………

  16. Það var einhver leikur í fyrra sem átti ekki að vera séns að sjá en það voru einhverjar veðmálasíður með útsendingu og einhverjar stream síður tóku útsendinguna þaðan… Það er alltaf von 🙂

  17. Ég vona að ég geti horft á leikinn á netinu. Við erum ekki enn búnir að styrkja okkur en vonandi kemur það.

    Hvað varðar þennan leik, spila með sterkasta lið, vinna 7-0 og svo næsta leik. Suarez með 6 , Gerrard með 1. Svo deild aftur. Kvart undan þreytu og álagi, f… it. Við eigum að geta notað alla bestu leikmenn í hvern einasta leik, enda spilum við ca 20 leikjum minna en efstu lið í deild.

    YNWA

  18. Smávegis off-topic. Veit einhver hvort ReAct bjóða upp á númer og nöfn á treyjur? Og þá hvað það kostar umfram basic treyju? Ég er mögulega að fara að kaupa 2-3 stk nefnilega… 🙂

  19. @Eyjólfur
    Er nýbúin að kaupa 2 treyjur í React og þeir bentu mér á Jóa Útherja varðandi merkingar.

    Annars eigum við að hvíla okkar bestu menn í þessum leik og leyfa kjúklingunum að spreyta sig.
    Ef þeir eru ekki nógu góðir til að vinna Oldham að þá þarf að fá nýja kjúklinga!!!

  20. 2:0 eða 3:1 … get ekki ákveðið á milli. En þetta verður ekkert burst.

  21. Algerlega sammála þér Styrmir. Auðvitað eigum við að blóðga þessa kjúklinga okkar á eftir. Leyfa Aspas að spila uppáhaldsstöðuna sína sem fremsti maður. Þessi leikur er klárlega próf sem þeir verða bara að gera svo vel að ná. Viljum samt komast áfram í þessari keppni og megum þ.a.l. ekki taka of mikla sénsa. Þess vegna vil ég hafa Suarez á bekknum, svona just in case. Alls ekki nota hann samt nema það stefni í stórslys, þá kemur hann inn á 55 mínútu og kárar leikinn fyrir okkur.

    Er sammála spá Kristjáns Atla um byrjunarliðið nema ég vil ekki sjá Moses þarna. Við vitum allir að hann er ekki að nenna þessu og fer frá okkur í vor.

    4-0 og bæði Aspas og Alberto skora. Agger skorar aftur með skalla og Gerrard eitt úr víti.

  22. mun leita af streami í dag…set inná síðuna um leið og ég finn, en það veður örugglega um leið og leikur hefst 🙂

  23. Smá þráðrán bara svona til gamans, þegar menn eru að væla yfir leikjaálagi yfir hátíðirnar þá ættu menn aðeins að skoða leikjaplönin frá því á árum áðum. Hér er brot af því frá tímabilinu 1982-83 (set inn úrslit og markaskorara):

    27. des (h) Manch. city 5-2 (Dalglish 3, Rush, Neal)
    28. des (ú) Sunderland 0-0
    1. jan (h) Notts county 5-1 (Rush 3, Dalglish 2)
    3. jan (h) Arsenal 3-1 (Rush, Souness, Dalglish)

    Fimm dögum síðar (8. janúar) var síðan spilað í bikarnum (Blackburn (ú) 1-2 (Hodgeson, Rush).

    Svo má geta þess að tímabilið 1982-83 var keyrt á sextán leikmönnum (einn af þeim spilaði bara tvo leiki og annar spilaði bara fjóra leiki). Alls spilaði liðið 60 leiki þetta tímabil, fyrir utan leiki á undirbúningstímabilinu. Auk þess voru bæði Englendingar og Skotar á HM á Spáni sumarið 1982 og þar átti LFC sex fulltrúa. Gaman að þessu!

    Já og svo vinnur Liverpool í dag 3-0 og Aspas kemst á blað.

  24. Eina sem er stream-að á netinu er lýsing á leiknum, engin mynd.

    @hæhæ það stendur meirasegja í linknum “audio-only”

  25. Það verður lika forvitnilegt að fylgjast með Wisdom og Hughes á móti Chelsea.

  26. Er það rétt munað að Aspas hafi skorað grimmt í upphitunarleikjum? Talaði ekki einhver snillingurinn um “marka-Aspassúpu”? Þeir hafa nú ekki fengið tækifæri til þess að endurtaka þann orðaleik síðan. Kannske kemur að því einmitt núna. Trúi ekki öðru en að þetta sé strímað einhvers staðar. Er ekki löngu uppselt á Anfield?

  27. Ég treysti mönnum til að setja link hér strax inn ef eitthvað dettur inn, allavega mun ég gera það

  28. Ég finn bara audio only stream, getur .að passað að leikurinn sé ekki sjónvarpaður?

  29. búinn að gefast upp… enginn linkur á leikinn, bara hljóð 🙁

  30. Núll, núll að loknum fyrri hálfleik (nú er hlé – ekki hálfleikur (bara tveir hálfleikir í hverjum leik, fyrri og síðari (ekki þrír – enginn “hálfleikur”))). Skv. lýsanda hafa okkar menn komist nærri því að skora og bbc telur sjö skot á mark hjá okkar mönnum. Stefnir í nýja Aspassúpu í seinni hálfleik? Það er eins gott … fyrir suma.

Janúarglugginn opinn

Liðið gegn Oldham