Hull City á nýársdag

Vil vekja athygli á færslunni hér fyrir neðan, áramótauppgjör Kop.is og podcast #49

Liverpool, sem var á toppnum á jóladag, situr í fimmta sæti með 36 stig eftir tvö töp gegn liðunum í öðru og þriðja sæti deildarinnar. Þetta sýnir hve jöfn og erfið þessi deild er. En á sama tíma voru lið eins og Tottenham og Man Utd 6-8 stigum fyrir aftan okkur, tveimur leikjum síðar eru það tvö stig sem aðskilja þessi lið og við utan topp fjóra.

Ef og hefði, það gefur ekki mikið en frammistaðan í þessum leikjum (sérstaklega City leiknum) átti skilið meira en ekkert stig. En eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og leita hefnda. Allir pennar Kop.is sögðu 3-1 tapið gegn Hull City í byrjun desember vera ein mestu vonbrigði ársins 2013 (allir nema Kristján Atli, en hverjum er ekki sama hvað Kristján Atli hefur að segja?:) ). Hvernig er þá best að byrja nýja árið? Jú, laga þennan hrylling sem þessi leikur var.

Hull City kemur í heimsókn á Anfield á nýársdag og hefjast leikar kl. 15:00.

Hull-City-v-Liverpool-Premier-League-2872695

Ef það er einhver leikur á þessu tímabili sem er must win leikur þá er það þessi leikur. Tvö töp í röð, mikil meiðsli innan herbúða liðsins, komnir í fimmta sæti, leikmannaglugginn við það að opna, Man Utd mætir Tottenham og Southampton mætir Chelsea. Þetta er einfaldlega leikur sem við eigum og verðum að vinna.

Hull City

Þeir eru að koma inn í þennan leik eftir frábæran 6-0 sigur á Fulham. 6-0. Leikurinn þar á undan var ósanngjarnt tap gegn Man Utd á heimavelli þar sem Hull komst í 2-0, töpuðu forskotinu niður og tryggðu svo þeim rauðklæddu sigur sjálfir með fáránlegu sjálfsmarki. Hefðu svo getað jafnað í tvígang í lok leiksins en allt kom fyrir ekki.

Þrátt fyrir þennan frábæra sigur gegn Fulham þá var þetta þeirra fyrsti sigur í 6 leiki, eða síðan þeir unnu okkur síðast á KC vellinum þann 1. desember. Uppskeran 6 stig af síðustu 18 mögulegum, einn sigur, tvö töp, þrjú jafntefli.

Hull eru að mínu mati með ágætis lið, þá sérstaklega í þeim Huddlestone, Koren og Livermore á miðjunni. Það kæmi mér mjög á óvart ef þeir breyta liðinu frá því í leiknum gegn Fulham, en þá stilltu þeir upp eftirfarandi liði:

McGregor

Rosenior – Chester – Davies – Figueroa

Elmohamady – Livermore –Huddlestone – Boyd

Koren

Sagbo

Þeir eru sýnd veiði en ekki gefin. Þetta verður erfiður leikur. Þeir eru það alltaf þegar Steve Bruce mætir með sýna menn á Anfield.

steve-bruce-224616262-1382567

Eftir erfið meiðsli sem Tottenham maður var Huddlestone keyptur til Hull City í ágúst 2013 fyrir um 5 milljónir punda. Flott kaup hjá þeim, en Huddlestone hefur verið lykilmaður það sem af er tímabili og er þegar farið að tala um hringingu frá Hodgson (persónulega myndi ég skella á en það er önnur saga). Huddlestone er þessi týpíski enski miðjumaður, mjög sterkur, stór og virkilega flottur skotmaður. Hann liggur aftarlega á vellinum og leyfir Livermore og Koren að sækja meira, er þó ávalt staddur fyrir utan teig í föstum leikatriðum til þess að hirða frákastið og láta reyna á skotfótinn.

Hann tók uppá því að fara í veðmál áður en hann meiddist 2011. Ætlaði ekki að klippa á sér hárið fyrr en hann myndi skora, allt til stuðnings virkilega góðu málefni, lækning við krabbameini. Síðast þegar ég vissi var potturinn kominn í um 15 þúsund pund. En hann skoraði auðvitað loksins um síðustu helgi og fagnaði með því að láta klippa á sér hárið.

tom-huddlestone_2751369b

Liverpool

Við erum að koma inn í þennan leik, eins og áður sagði, eftir tvo erfiða útileiki á þremur dögum. Uppskeran þar, 0. stig og tveir til þrír leikmenn í viðbót á meiðslalistann. Dýrt það!

Við fórum inn í þessa desember törn með þá Gerrard, Sturridge og Jose Enrique á meiðslalistanum. Við það bætast svo Flanagan, Sakho, Allen og svo er Henderson eitthvað tæpur. Við vorum nú ekki með mikla breidd fyrir og megum alls ekki við svona miklum meiðslum. Í raun gæti janúarglugginn ekki komið á betri tíma. Það virðist sem að Salah sé að verða done deal og það munu klárlega fleiri fylgja í kjölfarið. Ég bind miklar vonir við að við bætum einum mjög öflugum miðjumanni við liðið. En það er efni í annan pistil og bíður það betri tíma.

En þrátt fyrir að síðustu tveir leikir hafi ekki farið vel þá erum við fljúgandi þegar kemur að forminu okkar á Anfield. Í síðustu 6 leikjum erum við með fullt hús stiga, 18 stig af 18 mögulegum og aldrei skorað undir 3 mörkum.

Hvernig komum við þá með að stilla upp? Það er góð spurning. Við erum að mæta Hull City sem er með sterka leikmenn og hættulega skallamenn…… bla bla bla. Hugsum bara um okkur. Mér er alveg sama um Sagbo þarna frammi. Spilum bara okkar leik, pressum vel og þá fær hann ekkert boltann. Ég persónulega vil fá meiri ógn í vinstri bakvörðinn en við fáum með Agger, því myndi ég færa Agger í miðvörðinn í stað Sakho (meiddur) og Cissokho í vinstri bak. Gerrard er víst líklegur til að ná þessum leik og myndi ég því setja hann inn í stað Allen (meiddur) og fremstu þrír verða þeir sömu og í síðustu leikjum.

Liðið

Það er aldrei að vita hvað Rodgers gerir. Ef Gerrard er ekki alveg klár er alveg option að láta annaðhvort Aspas eða Alberto inn, Henderson þá aðeins aftar, Coutinho fyrir aftan striker og Aspas sem væng-framherja. Eða þá Alberto fyrir aftan strikerinn. Annar segir slúðrið að Alberto sé ekki að aðlagast lífinu í Liverpool og gerir víst litla tilraun til þess. Sem kannski skýrir þessi fáu tækifæri sem hann er að fá. Sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Eitt er ljóst, að í fjarveru Allen þá væri hrikalega sterkt að fá Gerrard inn aftur. Þ.e. í annað hlutverk en gegn City.

Gerrard bekkur

Pælingar

Ég er frekar smeykur fyrir þennan leik. Það tengist aðalega því að við erum að spila okkar þriðja leik á innan við viku (eins og aðrir auðvitað) en þeir höfðu einum degi lengur en við í hvíld fyrir þennan leik og eru ekki með nærri jafnmarga meidda og við. En ef við viljum vera í þessari toppbaráttu þá er það einmitt svona leikur og við þessar aðstæður sem kemur til með að ráða því hvar við endum. Við verðum ekki alltaf með alla heila, við getum ekki alltaf leitað til Suarez eða Sturridge til þess að skora 1-4 mörk í leik. Við þessar aðstæður skapast tækifæri fyrir aðra, þeir þurfa að stíga upp. Eins og Henderson hefur gert í fjarveru Gerrard, tekið meiri ábyrgð og verið virkilega flottur. Sama má segja um Sterling eftir að Sturridge meiddist, búinn að vera frábær.

Hull City unnu síðasta leik með sex mörkum, fá deginum lengur í hvíld og undirbúning, eru með helvítis Steve Bruce o.s.frv. En útivallarárangurinn þeirra hefur verið skelfilegur. Skoðum formið á þessum tveimur liðum, heima og úti síðustu 12 leikir.

Form tafla

Þeir eru með fjögur töp og tvö jafntefli í síðustu 6 útileikjum. 2 stig af 18 mögulegum á meðan heimaliðið er með fullt hús stiga, 18 af 18 á Anfield.

Ég er samt smeykur fyrir þennan leik, ég ætla ekki að skrifa „við erum bestir og allt undir 4-0 sigri er skandall“ upphitun. Þessi deild hefur heldur betur sýnt það að allir geta unnið alla. Ef við mætum ekki til leiks í standi og tilbúnir til þess að éta hvern einasta helvítis bolta þá töpum við stigum. Það er alveg á hreinu! Við höfum ekki efni á því að vera með farþega í þessum leik (horfir reiður á Glen Johnson), það þurfa allir að mæta til leiks með því hugarfari að sækja öll helvítis stigin, ekki bara mæta og bíða eftir að þau falli okkur í skaut. Við erum jú ekki með einn svartklæddan með flautu í okkar liði (sorry ég bara varð).

Ég ætla að spá okkur 2-1 sigri í mjög erfiðum leik. Suarez skorar bæði mörkin.

LS og hendo

2013 var ágætis ár hjá liðinu. Það var, að mínu mati, það fyrsta í langan tíma þar sem að liðið tók greinilega skref fram á við hvað varðar spilamennsku og stigasöfnun. Við þurfum að gera enn betur 2014 og því verðum við að hefja árið á sigri. Ekkert bull.

Calander year 2012 v 2013

Þar sem þetta er síðasti pistill ársins þá endurtek ég áramótakveðju okkar frá því í síðasta pósti.

Kop.is óskar lesendum sínum sem og landsmönnum gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári. Takk fyrir árið sem er að líða, án ykkar væri þetta góða samfélag okkar ekki til.

Kristján Atli, Einar Örn, Babu, Maggi, SSteinn og Eyþór.

YNWA

20 Comments

  1. Prýðis upphitun, spái 2-1 sigri líka en Suarez skorar bara annað markið, Coutinho hitt.

    Og takk fyrir árið sömuleiðis, án ykkar væri Kop.is ekki heldur til.

  2. Fínasta upphitun. Maður er pínu smeykur fyrir þennan leik, sérstakelga í ljósi tveggja tapleikja, meiðsli lykilleikmanna og ágætis árangurs Hull í síðustu tveimur leikjum. Tilfinniningin er ekki ósvipuð og fyrir ca. ári síðan, ég er farinn að kvíða helginni!

    En samt sem áður hef ég trú á mínum mönnum og þeir sigra nokkuð örugglega 3-0.

  3. Fín upphitun hjá þér.algjörlega sammála,þetta er möst win leikur.það er eitt sem mig langar að velta her upp.tek fram að þetta er mín skoðun.ég skil bara alls ekki þá sem segja að Lucas sé góður leikmaður.í hverju er hann svona góður?skorar hann mörk?leggur hann upp mörk?er hann góður sendingarmaður?Sterkur skallamaður?er hann bara ruslakall og tæklari sem gefur aukaspyrnur rétt utan vítateigs leik eftir leik?Stígum uppúr meðalmennskuhugarfari.annars er eg bara góður og bjartsýnn fyrir hönd okkar manna.gleðilegt ár.

  4. Flott grein og takk fyrir árið púllarar. Það hefur verið kvartað nokkrum sinnum hér og annars staðar yfir að fjölmiðlaumfjallanir í Bretlandi séu Lpool óvilhallar. Móri kom með athyglisverðan punkt á blaðamannafundi um daginn. Flest allir sparkspekingar á Englandi eru gamlir púllarar, já og svo er það Neville. Hvort gamlir púllarar hafi meira vit á fótbolta veit ég ekki, en þeir eru allavega ekki með biaz á móti Lpool.

  5. Takk fyrir þessa flottu upphitun.
    Veit ekki með markatöluna, en við vinnum þennan leik…..við bara verðum að vinna og komast aftur á gott run í deildinni.

    En gleðilegt ár elskurnar og kærar þakkir til ykkar sem halda úti kop.is fyrir veitta þjónustu, og hlýjar kveðjur til ykkar hinna sem halda kommentakerfinu funheitu með útspekuleruðum viskumolum 🙂

    Megi 2014 taka við þeim stíganda sem 2013 var.
    Y.N.W.A.

  6. Það er ekki séns í helvíti að Hull sé að fara að taka stig á Anfield!!!
    3-0 og ekkert kjaftæði.

    Annars vil ég bara þakka öllum þeim sem hafa veitt mér selskap á þessari síðu síðasta árið.
    Megi það næsta verða okkur gjöfult í stigasöfnun á komandi ári!
    YNWA

  7. Flott upphitun.

    Okkar menn girða sig í brók, enda ekkert annað í boði hér. Gríðarlega mikilvægur leikur og við mætum grimmir til leiks og klárum þetta vonandi í fyrri hálfleik. Spái 4 – 1, Suarez 2, Henderson 1 og Gerrard 1 (víti). Náum því miður ekki að halda hreinu………again.

    Líkar ekki hvað menn eru mikið að hrauna yfir Lucas. Það er eins og þeir fatti ekki hans hlutverk í liðinu, þ.e. að vera slátturvél á miðjunni. Leikmenn með hans eiginleika eru vandfundnir. Hins vegar er ég sammála því að hann hefur ekki verið jafn sterkur eftir að hann kom til baka úr erfiðum meiðslum. Hann er samt mjög mikilvægur hlekkur í liðinu þó hann eigi ekki lengur áskrift að byrjunarliðssæti.

    Líst ljómandi vel á árið og félagar okkar hjá “This is Anfield” eru ansi mikið sammála okkur hvað árið 2013 varðar og hvað 2014 mun bera í skauti sér:

    http://www.thisisanfield.com/2013/12/lfc-mid-season-review-progress-made-done/

    Kæru stuðningsmenn, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir gamla. Sérstaklega vil ég þakka síðuhöldurum fyrir að halda út þessari frábæru síðu!

  8. Okkar menn koma dýrvitlausir eftir allan dómaraskandalinn síðustu daga og munu jarða Hull 4-0 Suarez með þrennu !

  9. Trebbi:

    “Það hefur verið kvartað nokkrum sinnum hér og annars staðar yfir að fjölmiðlaumfjallanir í Bretlandi séu Lpool óvilhallar. Móri kom með athyglisverðan punkt á blaðamannafundi um daginn. Flest allir sparkspekingar á Englandi eru gamlir púllarar, já og svo er það Neville. Hvort gamlir púllarar hafi meira vit á fótbolta veit ég ekki, en þeir eru allavega ekki með biaz á móti Lpool.”

    Ég held að menn séu aðalega að vísa til blaðamanna, sbr RACIST! vs “Kick in the teeth” ofl. Þeir sparkspekingar sem hræsnarinn hann Móri vísar til eru væntanlega Neville (utd), Carra (LFC), Redknapp (LFC) og Alan Hansen (LFC). Það er nú kannski ástæða að baki því, bakland þessara klúbba er töluvert stærra en plastfánaklúbbsins, þeir geta jú ekki keypt það.

    Villi G:

    “ég skil bara alls ekki þá sem segja að Lucas sé góður leikmaður.í hverju er hann svona góður?skorar hann mörk?leggur hann upp mörk?er hann góður sendingarmaður?Sterkur skallamaður?er hann bara ruslakall og tæklari sem gefur aukaspyrnur rétt utan vítateigs leik eftir leik?Stígum uppúr meðalmennskuhugarfari.annars er eg bara góður og bjartsýnn fyrir hönd okkar manna.gleðilegt ár.”

    Þegar Lucas spilaði sinn besta fótbolta, fyrir rúmum tveimur árum síðan var hann frábær. Hans hlutverk í Liverpool liðinu síðan hann vann sér inn fast sæti var fyrst og fremst að verja vörnina. Vera afturliggjandi miðjumaður.

    Hann hefur fína sendingargetu. En er ekki mikið í því að senda úrslitasendingar, ekki frekar en aðrir í hans stöðu í gegnum árin (Makalele t.d. án þess að bera þá saman, hlutverk þeirra innan liðsins er engu að síður það sama).

    Ég hef verið mikill aðdáandi Lucas síðustu 4 ár eða svo, en hef ritað mikið um það síðustu 6 mánuði+ að þetta tímabil er stórt hjá honum. Hann hefur enn ekki náð sömu hæðum og hann náði fyrir meiðslin. Ef hann kemur ekki til með að ná því leveli í sínum leik þá kemur að því að honum verður skipt út – þ.e. ef við ætlum okkur stærri hluti.

    Hann er alls ekki lélegur leikmaður, þvert á móti. Hann er mjög mikilvægur partur af leik liðsins. Mér finnst bara vanta stöðugleika í hans leik eftir meiðslin og ef við ætlum að komast í meistaradeildina þá þurfum við menn í meistaradeildarklassa. Mikið vona ég að hann finni sitt gamla form og sýni það, leik eftir leik, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Þá mun hann troða sokk, enn og aftur, upp í ansi marga. Hann hafði þetta, á því leikur enginn vafi. Stóra spurninginn er hvort hann hafi þetta ennþá. Spurðu mig aftur í vor. 🙂

  10. Ég er drullu stressaður fyrir þennan leik. Steve Bruce að mæta á Anfield boðar ekki gott.

    Þetta er samt leikur sem við eigum bara að klára og sér í lagi ef við horfum til útivallarárangurs Hull á leiktíðinni. Allt minna en 3 stig er algerlega óásættanlegt.

    PS.. Glen Johnson : Ef þú sýnir mér ekki í þessum leik að þú getir enn eitthvað í fótbolta kem ég í eigin persónu og rassskelli þig með 100þ. punda seðlabúnti.

  11. Spái 1-1 jafntefli. mikið um meiðsli og mikil þreyta í leikmannahópnum:/

  12. Eyþór ertu með einhverja tölfræði á Bruce gegn Liverpool. Við höfum alveg unnið hann nokkru sinni, allavega er minningin þannig. Gerum oft jafntefli en töpum sjaldnast.

    En allavega Liverpool tapaði gegn Southampton á Anfield 0-1 þannig við erum með 7 sigra af 8.

    Ekkert bull vinnum þetta 4-1. Suarez setur 3 mörk enda ekki skorað í síðustu tveim 🙂

  13. Get bara ekki trúað öðru en að Liverpoooool mæti dýrvitlausir og vinni þennann leik og svo annað City og chel$#” eiga eftir að koma á Anfield. og hættum svo að rífa kjaft. Gleðilegt ár allir púllarar.

  14. Góð upphitun Eyþór. Eg er bjartsýnn.
    Ef Stevie G. kemur inn verður þetta 3 til 6- 0 fyrir okkur.
    Ef ekki þá, 1 til 3 – 0. Gleðilegt nýtt ár!

  15. Takk kærlega fyrir allt kæru Kopverjar. Gleðilegt nýtt ár, Erum við að tala um meistaradeild? Með stórum nöfnum fyrir næsta haust?

  16. Gleðilegt LIVERPOOL-árið og takk fyrir þau gömlu!

    Ég er hræddur við þennan leik EN ætla að vona innilega að heimaleikjaformið okkar haldi áfram að verða frábært og að guttarnir okkar sýni að þeim er dauðans alvara með toppslaginn, sýni metnað og hungur til að klára þetta verkefni.

    Líst vel á þennan hlaupagikk Salah. Ef ég mætti ráða að þá myndi ég vilja 2-3 góð kaup í viðbót. Traust kaup sem myndu styrkja liðið okkar STRAX! Ég treysti BR og co. algjörlega til að vinna vel í þeim málum enda gengur ekki að hafa hópinn svona þunnskipaðan eins og leikirnir tveir síðustu sýndu okkur.

    Ég spái 2-1 sigri í baráttuleik. Það væru algjörlega frábær úrslit því mu-spurs fer í 1-1 jafntefli og southampton mun vonandi hirða stig gegn drullusokkaliðinu frá London.

    Tap er ekki í boði í dag, svo einfalt er málið bara.

    KOMA SVO LIVERPOOL!

  17. Nei Örn, því miður. Skal taka hana saman við tækifæri!

    Kannski situr það bara ennþá í mér að Rafa vann hann ekki á sínum fyrstu 3 árum eða eh álíka. Man það ekki nákvæmlega.

  18. Gleðilegt árið kæru púllarar!

    Líst vel á þennan leik. Okkar menn hljóta að koma vel gíraðir eftir að hafa legið fyrir þeim í byrjun desember, þeir hljóta að vilja hefna fyrir það, hressilega.

    Einnig þarf að koma í veg fyrir þetta: Steve Bruce is looking for a first home-away ‘double’ over Liverpool as a manager since his Birmingham side completed the feat in 2004-05

    Ég spái því að árið 2014 byrji vel, 3-0 fyrir okkur!

  19. staðfest lið Mignolet, Johnson, Cissokho, Skrtel, Agger, Lucas, Henderson, Coutinho, Aspas, Sterling, Suarez

Áramótauppgjör Kop.is – 2013 / Podcast #49

Byrjunarliðið gegn Hull