West Ham á morgun

Það er einfaldlega margfalt skemmtilegra að rita upphitun eftir góð úrslit heldur en eftir slæm. Flókin vísindi, já ég veit, en svona er þetta bara. Það er líka ólíkt skemmtilegra að vera með leikinn ferskan í minni sínu, aðeins örfáir dagar á milli leikja í stað þess að telja slíkt í viku eða vikum. Framundan er ferlega erfið törn hjá okkar mönnum, þrír massívir útileikir gegn Tottenham, Man.City og Chelsea (einn Cardiff heimaleikur inn á milli) en fyrst er það heimsókn frá Hömrunum. Anfield, ekki klikka núna takk.

Ég hef ávallt haft smá soft spot fyrir West Ham, í rauninni alveg þar til að tilkynnt var um að Bigmouth Sam væri að taka við þeim. Síðan það gerðist, þá hvarf þetta “spot” og hvað þá að það sé eitthvað soft núna. Það sorglega í þessu öllu saman er að þeir fáu stuðningsmenn klúbbsins sem ég þekki, þeir eru mér sammála og eru í rauninni heilt yfir alveg hundfúlir yfir þróuninni. West Ham hafa í gegnum tíðina skilað af sér mörgum virkilega skemmtilegum fótboltamönnum, enda þekktir fyrir að spila fínan bolta og góða Akademíu. Í rauninni eru þeir með marga alveg ágæta knattspyrnumenn innan sinna raða og því er það ofar mínum skilningi þegar góðir spilarar taka þá ákvörðun að spila undir stjórn þessa stjóra, sér í lagi þegar um er að ræða miðjumenn.

Mótherjar okkar hafa ekki byrjað þetta tímabil með neinum sérstökum stæl. Þeir hafa afrekað það að tapa gegn liðum eins og Crystal Palace, Norwich, Hull, Stoke og Everton. Aðeins þrír sigrar í húsi og einn af þeim var 0-3 sigur á milljónaliði Tottenham. En sjö töp og fjögur jafntefli er ekki neitt sérlega sannfærandi árangur og sitja þeir því í sautjánda sætinu, þremur stigum frá fallsæti. Þeir mega þó eiga eitt, varnarleikur þeirra hefur verið nokkuð sterkur og hafa þeir einungis fengið á sig 15 mörk í þessum 14 leikjum sínum en einungis 5 lið í deildinni hafa fengið á sig færri mörk og sjö sinnum hafa þeir haldið markinu hreinu. Vandamálið þeirra liggur framar á vellinum því þeir hafa einungis skorað 12 mörk í þessum 14 leikjum sínum. Aðeins Crystal Palace, Sunderland og Cardiff hafa skorað færri mörk. Það mun því mikið mæða á Luis nokkrum Suárez í leiknum og vonandi opnar það á aðra leikmenn að einblínt verði á hann.

Í mínum huga er engin spurning hver það er sem lætur hlutina gerast hjá mótherjum okkar. Diame er virkilega öflugur miðjumaður sem þarf hreinlega að stoppa. Eins hefur vandræðagemsinn Morrison verið að spila vel á þessu tímabili, svoleiðis gerist stundum þegar hæfileikaríkir menn ákveða loksins að gera það sem þeir eru bestir í, það er að spila knattspyrnu. Við þurfum þó ekki að hafa áhyggjur af honum þar sem hann er í banni í þessum leik. Nolan hefur verið lykilmaður hjá þeim, en aldurinn virðist vera farinn að taka toll af honum. Downing þekkjum við eiginlega of vel, hæfileikaríkur leikmaður og allt það, en virðist alveg skap laus og er bara einn af þessum leikmönnum sem getur átt frábæra leiki en svo alveg týnst svo vikum skipti. Vonandi kemst hann ekki í leitirnar á morgun. Einn stór póstur hjá þeim er Jaaskelainen og sá hefur nú nokkrum sinnum gert mann þokkalega pirraðan. Hann virðist eiga það áhugamál að eiga stórleiki gegn Liverpool og það er bara leiðinlegur ávani sem hann má bara láta af á morgun.

En hvað með okkar menn? Oftast hefur nú verið nokkuð auðvelt að ráða í það hvaða liði Brendan muni stilla upp, en það er af sem áður var. Ég hef einfaldlega akkúrat ekki neina hugmynd um það hvernig hann muni stilla upp þessum 11 sem byrja leikinn. Nokkrir póstar eru rock solid þegar kemur að þeirri spá ef heilir séu. Mignolet, Glen Johnson, Steven Gerrard, Coutinho og Luis Suárez. Restin getur verið allavega og allskonar. Ég reikna nú samt með því að hann haldi sig við sama kerfi og hann var með í síðasta leik. Mun hann hringla áfram með miðverðina? Heldur Flanagan stöðunni eða er Cissokho orðinn heill? Lucas eða Allen? Búið að setja Duracell í næturhleðsluna? Sterling? Úff, ég veit bara ekki, bara alls ekki. Ég veit alveg hvernig ég vil helst stilla þessu upp, en að ráða í Brendan núna er nánast ógjörningur. En reynum nú bara samt. Það er ljóst að það eru þrír leikmenn sem spila alls ekki, þeir eru allir í meiðslum sem halda þeim fjarri liðinu næstu vikurnar og rúmlega það. Enrique, Coates (já hann er ennþá til) og Sturridge eru á hnjasklistanum. Ég hef ekki heyrt af fleirum og ekkert hefur verið sagt opinberlega um Cissokho.

Svona held ég að Brendan stilli þessu upp:

Mignolet
Johnson – Skrtel – Sakho – Flanagan
Gerrard – Lucas – Henderson
Sterling – Suarez – Coutinho

Bekkur: Jones, Touré, Agger, Allen, Alberto, Moses, Aspas.

Já, ég held að hann geri tvær breytingar og hér kemur ástæðan. Hann mun henda Sakho inn til að eiga við holdanautið Carlton Cole í framlínu Hamranna. Þeir spila með einn uppi á toppi og hrúga svo mönnum á miðjuna og því tel ég að Lucas verði látinn sitja djúpt og eiga við Diame. Sterling skoraði í síðasta leik og því tel ég ekki líklegt að hann verði tekinn úr liðinu, þrátt fyrir að hafa verið einna sístur okkar manna síðast. Það þarf að berja smá sjálfstrausti í guttann og þess vegna held ég að hann fái sénsinn á að bæta við leik núna og reyna að stimpla sig betur inn.

Föst leikatriði verða hausverkurinn, klárlega. Að fá nokkra turna hlaupandi inn í teiginn í slíkum aðstæðum er ekki góð tilhugsun og menn hreinlega VERÐA að ráðast á þessa bolta og koma þeim út af hættusvæðinu. Við ættum að geta stjórnað leiknum býsna vel, en við verðum að nýta okkur það að “breika” hratt á þá þegar við missum boltann, því hraði er ekki þeirra sterkasta vopn. Mestar áhyggjur hef ég af þolinmæðinni hjá okkar mönnum. Ef við skorum snemma, þá ættum við að geta slátrað leiknum, en verði bið á marki, þá byrja menn að ókyrrast. Við þurfum að halda boltanum á jörðinni og spila boltanum í lappirnar á mönnum, þar eru varnarmenn West Ham hvað sístir. Um leið og boltinn fer í höfuðhæð, þá stanga þeir þetta í burtu. Eins má ekki gefa þessum miðjumönnum þeirra tíma á boltann, það verður að pressa boltamennina þeirra út um allan völl og því tel ég menn eins og Lucas og Henderson algjöra lykilmenn í svona leik.

Ég ætla að spá því að það muni opnast talsvert á okkar menn við það að mótherjarnir verði í eltingarleik við Luis. Ég ætla að spá góðum 2-0 sigri, þar sem Gerrard setur eitt og Coutinho setur hitt. Coutinho þarf að fá frjálst spil að droppa í svæðin sem myndast fyrir aftan Luis og þá ættum við að geta landað þessum þremur mikilvægu stigum, ekki veitir af þeim í baráttunni sem framundan er. Það er algjört lykilatriði að taka öll stig sem í boði eru í þessum tveimur næstu heimaleikjum þannig að við höldum okkur í þessum pakka þegar þessu erfiða prógrammi líkur (í bili) um áramótin. Takist það, þá gætum við verið að horfa fram á æsilegan seinni helming mótsins.

35 Comments

  1. Nett upphitun Steini.
    Maður hefur litlar áhyggjur af þessum leik þar sem Gauji málari og Frú Dóra verða á leiknum – 3-0 Suarez verður spakur og skorar bara þrjú – fulla ferð !!

  2. Það eru 8 lið í úrvalsdeildinni sem hafa skorað færri mörk en Luis Suarez, eitt lið hefur skorað jafn mörg (Tottenham).
    Leikurinn á morgun fer 3-0, Suarez 2, Coutinho 1

  3. Verð á vellinum á morgun. Fyrsta skipti á Anfield. Vona að liðið standi sig. Menn eru vonandi ekkert búnir að gleyma Hull leiknum?

  4. Ég vil sjá Sterling úr liðinu og fá Moses inn. Býr miklu meira í Moses heldur en hann hefur sýnt.

  5. Suarez mun ekki skora nema tvö á morgun, annað hvort verður um 6-1 slátrun að ræða eða 2-1 mar.

  6. SSSSSSSTEINNNNNNNNN 😉

    FANTA FLOTT UPPHITUN OG ÞETTA HÉR ER BARA SNILLLLLLLLLLLLD 🙂

    “Fyrst fékk hann skoppandi bolta yfir miðlínuna eftir skalla Gerrard, lét hann skoppa og sett’ann svo bara með einni lúppu af 40 metra færi. Næst skoraði hann af markteig eftir hornspyrnu Coutinho frá hægri og hafi fyrsta markið verið glæsilegt bætti hann það með því þriðja þegar hann vippaði boltanum yfir Norwich-mann fyrir utan teig, lét hann skoppa hinum megin og klíndi honum svo í fjærhornið af 25 metra færi. Allt óverjandi fyrir greyið John Ruddy sem bara hlýtur að vera andlega skemmdur eftir Suarez síðustu þrjú árin.”

    Ég mun verða uppi á fjöllum í Stavanger að skemmta mér og öðrum, þið bara takið leikinn og skemmtið ykkur á meðan woooooooooohoooooooooooooo

    AVANTI LIVERPOOL – IN BRENDAN WE TRUST – Y N W A

  7. Hefði haldið þetta væri góður tími til að mæta WH. Finnst þetta vera mikilvægur leikur því eins og bent er á í upphitun margir erfiðir leikir framundan. Liverpool gerði vel í að vinna WBA fyrir toppslaginn gegn Arsenal og ég vona þeir klári WH með stæl fyrir þessa erfiðu útileiki.

    Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig Rodgers stillir upp liðinu. Spái 2-0 sigri okkar manna, Gerrard og Suarez með mörkin í fyrrihálfleik.

    Áfram Liverpool !!!

  8. Daníel, þú rífur upp stemmarann á Anfield á morgun. Þér er hér með sett það verkefni fyrir.

    En að leiknum, þá er þetta dæmigerður heimaleikur sem getur farið hvernig sem er. Plúsinn er sá að við höfum hingað til slátrað þessum liðum á heimavelli og megi það lengi lengi halda áfram. Möguleikinn er hins vegar eins og Ssteinn skrifar í skýrslunni, að ef West Ham ná að halda núllinu í 30-40 mínútur þá er ekkert endilega líklegt að við klárum leikinn með sigri. Flott upphitun, koma svo. Segi 3-0 fyrir okkur, Suarez með 2 og Gerrard 1.

  9. Maður sættir sig alveg við 1-0 sigur gegn liðunum hans stóra ljóta sam. Slátrun eins og á miðvikudaginn er þó klárlega velkomin.

    Þar sem að ég trúi ekki á jinx þá segi ég að Downing bæti upp fyrir frammistöðu sína með Liverpool og skori sjálfsmark, Kop megin og hneigir sig úti við endamörkin og uppsker mikið lófatak frá Kop stúkunni og allt verður fyrirgefið. Eftir leik skokkar hann aftur að Kop stúkunni og reynir að kasta treyjunni sinni upp í stúku en treyjan fer í stöngina og festist í netinu og kall greyið gengur niðurlútur inn í búningsklefa…

    Sem sagt, 1-0 fyrir Liverpool og Downing með sjálfmark á 61. mínútu.

  10. Ég er hræddur við þennan leik.
    Við náttúrulega vinnum hann örugglega ef Suarez spilar á sinni getu. Hinsvegar verður þetta erfitt ef hann gerir það ekki enda alltof fáir í þessu liði sem sýna eitthvað frumkvæði í leik sínum.

    Það er a.m.k. ljóst að við megum ekki vanmeta West Ham þrátt fyrir slátrunina gegn Norwich. Tapið gegn Hull ætti að kenna okkur þá lexíu.

    Spái 2-1 sigri og auðvitað verður það Suarez sem skorar bæði mörkin. 🙂

  11. Thetta verdur fjør! Hef mikla tru a lidinu okkar og spai godum 3-1 sigri a morgun. Vona innilega ad Sakho fari ad spila reglulega!

  12. Mér myndi finnast það flott hjá BR ef hann myndi ekki breytta neinu og reyna að fá smá stöðuleika í liðið.
    Ef hann ætti að gera breyttingar þá er ég samála því að taka Agger út fyrir Sakho en ég er á því að halda Allen inn í liðinu á móti liði sem pakkar í vörn.

  13. Verður ekkert auðveldur leikur en eg spái 3-0, Suarez er að fara gera þrennu, hann er i banastuði þessa dagana og brosti allann leikinn gegn Norwich, hann er að fara halda uppteknum hætti a morgun…

    Vona að Lucas komi inn og juju alveg til i að sja Sakho og þá þess vegna fyrir skrtel en ekki agger..

    lís góði guð ekki láta sterling i liðið, juju hann skoraði siðast en i siðustu 2 leikjum erum við nanast manni færri með hann inna vellinum… frekar moses i þá stoðu þótt hann hafi ekki hrifið mann mikið…

  14. Flott upphitun!
    Allt er þegar þrennt er, Luis Suárez #7 skorar 7 mörk þann 7.des
    Skrifað í skýin… ehaggi?

    Annars skipta 3 stig að sjálfsögðu mestu máli, tel það gott ef við förum með 35+ stig inní nýja árið.

  15. Djöfull eru riðlarnir á HM sterkir….vonandi verður maður múraður og sér þetta hell með eigin augum.

  16. Ég veit það ekki, ég myndi helst vilja halda Allen á vellinum enda getur hann sótt hratt og þá yrði það ekki nema einn sem kæmi til greina að fara út og það er Sterling litli en hann skoraði mark í seinasta leik og það er aldrei gott að henda mönnum út eftir svoleiðis.
    Þá er kannski spurning um að hvíla Lucas annan leik og hafa þá Gerrard, Allen og Hendo á miðjunni með þá Coutinho, Suarez og Steling frammi.

    Þetta kallast skemmtilegt vandamál og vonandi stillir Rodgers réttum mönnum upp og klárar þetta West Ham lið.
    Og aðeins varðandi vörnina þá vil ég fá Sakho inní liðið og fá smá tækifæri á móti líkamlega sterku liði.

  17. Er ekki best að reyna að hrófla sem minnst við liðinu núna, það virkaði í góðu jafnvægi miðvikudaginn síðasta og því vonandi að Brendan haldi sig við óbreytta vörn sérstaklega!

    Mignolet
    Johnson Skrtel Agger Flanno
    Hendo Lucas Gerrard
    Sterling Suarez Coutinho

    Fínt að fá Lucas inn í stað Allen, hugsa að það reynist meiri þörf á þessari ball winning týpu á miðjunni í þessum leik, þetta fer 3-1 West ham komast yfir í einhverju bulli í byrjun en Liverpool snúa fljótt taflinu við, Suarez með 2x og Skrtel 1x!

  18. Bond,

    Við getum hvílt Lucas í þeim heimaleikjum þar sem fyrirséð er að við munum stjórna ferðinni og verðum sterkir fram á við. Það auðveldar til muna að drepa slíka leiki í fyrri hálfleik og greiðir fyrir frekari róteringum/tilraunum í seinni. Win-win. 🙂

  19. Getur einhver sagt mér tilhvers hann var að kaupa Aspas, ef hann byrjar ekki á morgunn ??

    Trúi ekki öðru enn að hann byrji með 2 strikera.

  20. Er sammála mönnum sem vilja að Agger fari á bekkinn, einfaldlega ekki boðlegt að geta ekki dekkað menn í teig og vera varafyrirliði Liverpool. Norwich áttu tvær fyrirgjafir í leiknum og það var ekki Agger að þakka að aðeins kom mark úr annari.

    Svo var Sterling ekki góður á móti Norwich og vantar ennþá mikið upp á ákvarðanatökur hjá honum á síðasta þriðjungnum. Best væri fyrir hann að komast á lán í janúar þar sem hann fengi að spila alla leiki og bæta sig jafnt og þétt.

    Ég vill sjá Luis Alberto spila í staðinn enda held ég að hann muni linka vel við nafna sinn Suarez og Coutinho. Hann hefur auga fyrir spili og mörkum og boltinn er góð-vinur hans.

    Vonandi fyrir okkar menn að þeir vanmeti ekki WH og mæti til leiks af krafti.

  21. Ef Arsenal vinna everton eru þeir greinilega feikna sterkir. Ef Everton vinna eru þeir líklegir í topp 4 þetta árið.
    Svakaleg þessi deild.

    Liverpool taka þetta á morgun, nánast ekki í vafa…!

  22. þar sem sterling á nú afmæli á morgun ( sunnudag) þá held ég að hann eigi eftir að byrja og jafnvel skora… skil ekki alveg hvað menn hafa á móti þessum manni og vilja hafa moses í byrjunarliðiðnu frekar… gerum okkur grein fyrir því að sterling er framtíðarleikmaður hjá liverpool… moses er á láni hjá okkur út tímabilið og mun að öllum líkindum ekki vera keyptur eftir þetta tímabil þannig mér finnst alveg réttlætanlegt að leifa 18 ára gaur… ( já hann er 18 ára ennþá ) að spila eins mikið og hann þolir sjálfur… hvernig hefðu menn eins og Owen, Gerrard og Carragher komist á þann stað sem þeir eru ef þeir hefðu ekki fengið tækifæri???

    en hins vegar spái ég þessu solid 4-1 sigri… suarez setur 2, King Gerrard setur 1 úr víti og svo spá ég því blákalt útí loftið að Flanagan eigi eftir að slysast til að skora mark… verður sennilega ljótt en mark er mark… svo skorar Downing fyrir west ham… leikmaður sem ég vær til í að sjá í LFC búning ennþá

  23. Greinilegt ad menn hafa tekid til i rassgatinu a ser eftir Hull-leikinn:
    Flanagan a ekki ad spila med Liverpool og merkilegt hvad Akademian er ad skila litlu til lidsins. Tad er alltaf verid ad profa einhverja gutta sem standa sig nedan vid medaltalid og tad gengur ekki, sbr. Shelwey, sem sumir heldu ekki vatni yfir.
    Notum alvoru menn

  24. Kristjan Eliasson, nokkrir þessara gutta eru núna á láni sem er mikilvægur þáttur í að gera þá að byrjunarliðsmönnum hjá Liverpool

  25. Sælir félagar

    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um ágæta upphitun SSteins. Mín spá er (öllum á óvart) 3 – 1 og ekkert múður.

    Það er nú þannig

    YNWA

  26. ég held það sé vissara að rótera ekki of mikið með hópinn, í mínum huga er helst spurning hvort Lucas komi inn fyrir allen og síðan hvort Sakho eða Toure komi inn í miðvörðinn á kostnað Agger / Skrtel. Það er nauðsynlegt að fá leiðtoga inn í vörnina sem getur líka varist háloftabolta fyrir þennan leik. Það er kominn tími fyrir að BR að finna út hvernig hann vilji skipuleggja þessa vörn sína því þetta hefur verið rosalegur hringlandaháttur hjá honum. Ég get alveg viðurkennt það að ég er hvorki hrifinn af Agger né Skrtel og tel þá báða hafa of mikla veikleika til þess að geta verið lykilmenn í liði sem ætlar sér topp 4 í PL. Einnig finnst mér mikilvægt að maður eins og Glen Johnson stígi upp og reyni að vera þessi klassaleikmaður sem hann er í hverri viku, ekki bara svona við og við.

    Henderson verður lykilleikmaður í okkar liði í dag spái ég, orkan hans og úthald muni valda WH miklum vandræðum. Spurningin er síðan með allen eða lucas, ég á erfitt með að gera upp við mig hvað ég vil sjá þar. Ég er miklu hrifnari af Allen sem leikmanni og trúi innilega að hann geti enn meikað það sem Liv leikmaður en þá þarf hann líka að fá almennilegt rön í byrjunarliðinu og í mínum huga hefur lucas ekki verið nægjanlega sterkur í vetur. Mögulega væri betra að nota hann í þessum hryllilegu útileikjum sem við eigum á næstunni.

    Í framlínunni er síðan Suarez sjálfkjörinn en hvort við sjáum Sterling halda sæti sínu er góð spurning, mark í síðasta leik gæti hafa kveikt smá neista hjá honum og trúi ég því að hann fái allavegana að byrja leikinn og moses verður síðan í startholunum að koma inn á í seinni hálfleik…nú eða Aspas en ég skal svosem alveg viðurkenna að maður er lítið spenntur fyrir hvorugum þeirra. Hinsvegar náðu aspas og suarez vel saman á undirbúningstímabilinu og er það alveg áhugavert að sjá hvort þeir geti tekið þann þráð upp aftur í fjarveru Sturridge.

    Þetta er skyldusigur, engin spurning en m.v. gefna reynslu á móti liðum sam allardice þá verður þetta helvíti erfitt og ég er hreinlega mjög óöruggur um þennan leik. Ég ætla þó að tippa á sigur og að Henderson verði maður leiksins.

  27. Ef það er einhvern tíman viðureign sem gæti rifið mann niður á jörðina aftur eftir frábæran leik gegn Norwich þá er það að mæta West Ham-liði stýrt af Sam Allardyce.

    Það snýst svo mikið um að ná tökum á leiknum snemma og skora sem allra, allra fyrst. Ef Liverpool tekst það þá gæti ég alveg séð fram á nokkuð þægilegan sigur en ef okkur gengur illa að skora eða West Ham komast yfir þá gæti þetta orðið erfiðar 90 mínútur.

    Mér finnst mjög ólíklegt að Rodgers fari að breyta liðinu eitthvað of mikið, þá sérstaklega sóknarlega. Persónulega myndi ég alveg vilja sjá Sakho koma inn fyrir Agger til að díla við þessa hávöxnu fauta í West Ham og það kæmi mér ekki á óvart (muni það gerast) að það yrði eina breytingin á byrjunarliðinu þó maður útiloki svo sem ekki að Lucas komi inn fyrir Allen.

    Ætla að spá 2-0 sigri þar sem okkur tekst loksins að halda hreinu og Surez heldur áfram að skora.

  28. Það verður að nýta sér það að öll augu munu berast að Suarez, stilla þessu pínu óvænt upp í því ljósi.

    Spái sigri í dag…..2-0 mörkin koma úr óvæntum áttum.

  29. Loksins bara 3 dagar milli leikja. Það hefur vantað til að halda skerpunni og fókusnum.
    Fyrir vikið spái ég góðum sigri.
    Sakho kemur inn klárlega fyrir Agger.
    Allen heldur sætinu. Eina spurningin í mínum huga hvort Aspas fái að fara uppá topp og Sterling á bekkinn.
    YNWA

  30. U18 Að leggja Utd. 3-1 með frábærri frammistöðu í seinni hálfleik. Sinclair með tvö og O’Hanlon eitt, skemmtileg tilviljun að þessir leikmenn eru fæddir sama dag (20. Sept 1996, samkvæmt official síðunni).
    Mæli með að þeir sem hafi LFCTV áskrift skoði Sheyi Ojo, virkilega spennandi miðjumaður, fæddur ’97!
    Vonandi setur þessi leikur tóninn fyrir aðalliðið 😛

Liverpool 5 Norwich 1

Liðið gegn West Ham