Liverpool – Norwich

Loksins, loksins, loksins fáum við leik í miðri viku.

Viðurkenni bara fúslega að hafa saknað þess mikið að geta ekki sest niður að kvöldi og stytt vinnuvikuna með Liverpool leik. Mikið óskaplega vona ég að gengi liðsins verði þannig í vetur að ekki verði sama upp á tengingnum þann næsta. Europa League er betra en þessi auðn takk fyrir.

Þó við séum alls ekki búin að afskrifa Meistaradeild.

Þrátt fyrir verstu frammistöðu vetrarins so far á sunnudaginn, beinlínis ömurlegt tap gegn Hull City sem er alveg jafn vont í dag og það var kl. 15:59 þann fyrsta dag desembermánuðar.

Kristján Atli skaut upp pistli þar sem hann kastaði upp spurningum um stjórann og um hann spunnust skemmtilegar umræður sem vel er vert að halda áfram um sinn ef menn vilja skrifa sig frá hörmungunum þeim arna.

Rodgers hefur svo rætt það í fjölmiðlum í dag að Liverpool séu staðráðnir í að svara fyrir sig á þann hátt sem best er…inni á leikvellinum í næsta leik. Sá er á morgun á móti Norwich City. Við gerum meira en að treysta því, við gerum kröfu á að leikmenn verði algerlega dýrbrjálaðir frá fyrstu sekúndu og haldi þeim upptekna hætti allt til loka leiks, þannig að í lok hans stöndum við með örugg þrjú stig í höndunum og búin að rétta okkur aðeins við eftir hrösun helgarinnar.

Mótherjinn

Andstæðingar miðvikudagskvöldsleiksins eru Kanarífuglarnir í Norwich City. Lærisveinar Chris Hughton hafa átt býsna rokkandi gengi að fagna, hangið í kringum fallsvæðið frá fyrsta degi, átt erfitt með að skora og beinlínis lekið mörkum. Flestir veðbankar veðjuðu á það að allt annað en sigur um síðustu helgi myndi leiða til brottvikningar stjórans en með því að sigra Crystal Palace tryggðu lærisveinar það að hann fær að vera á bekknum á Anfield einu sinni enn.

Öfugt við síðasta stjóramótherja Steve Bruce höfum við átt gott með lið undir stjórn Hughton, skemmst er að minnast tveggja stórra sigra í fyrra. Töluvert var gert til að styrkja sóknarlínu þeirra gulgrænu í sumar og einn þriggja framherja sem sóttur var, Gary Hooper skoraði sigurmarkið gegn Palace. Hinir senterarnir sem þeir keyptu, Ricky van Wolfsvinkel og Johan Elmander hafa ekki náð sér á flug, en það er svosem líka eitthvað tengt leikkerfinu.

Norwich munu væntanlega mæta til leiks með leikkerfið 4-5-1 og sitja djúpt. Reyna að beita skyndisóknum sem eiga að vera sköpun Leroy Fer og Johnny Howson, sem báðir eru ansi sveiflukenndir í sínum leik. Vörnin hefur átt mjög erfitt, þar hafa Michael Turner og Sebastian Bassong átt að vera fyrirstaða sem ekki hefur reynst vel.

Norwich hafa leikið 6 útileiki í vetur, tapað 5 af þeim og unnið einn. Margir þeirra hafa þó vissulega verið gegn liðunum í efri hlutanum en það er morgunljóst að liðið á erfitt þegar það ferðast.

Okkar menn

Svei mér þá, það er bara einhvern veginn óþarfi að ræða þetta. Við HEIMTUM bara sigur. Allt annað mun bara gera þungan hug manns ósinnandi um langt skeið.

Það er eilítið erfitt að velta fyrir sér hvernig viðbrögð Rodgers verða. Hvort hann breytir um leikkerfi til að koma Sakho inn í liðið og fá þrjá hafsenta, hvort hann refsar þeim sem léku illa eða hvort hann vill að þeir leikmenn sem áttu erfitt fái möguleika á uppreisn æru. Engu máli skiptir hvað af þessu þrennu hann gerir, hann verður að setja blóð á tennur þeirra ellefu sem hefja leik og halda svo kveikjara undir rassi varamannanna svo þeir verði tilbúnir ef þeir kalla til.

Af því að ég á erfitt með að átta mig á því hvað hann velur ætla ég hér að skjóta töluvert meira út í myrkrið en ég hef áður gert og setja pínulítið minn koll í uppstillinguna líka. Ég geri það sjaldan en leyfi mér það núna á þeim forsendum að hugur hans Brendan held ég að sé mjög blörraður. Ég skýt þessu út í myrkrið:

Mignolet
Johnson – Skrtel – Sakho – Cissokho

Henderson – Lucas – Gerrard – Coutinho

Aspas – Suarez

Helst er ég óviss um hvort að Cissokho verði inná, Flanagan hefur átt fína leiki og gæti vel haldið sæti sínu. Það hefur þó lítið komið út úr honum sóknarlega en með tilkomu Coutinho er minni krafa um að hann fljúgi upp og niður kantinn. En ég er þó á því að Brendan svissi bakvörðum núna og muni þá mögulega færa aftur til gegn West Ham.

Ég get ekki ímyndað mér að Moses fái annan séns, mögulega leyfir hann Sterling að spila í 4-4-2 kerfi og hvílir þá Lucas.

Ef hann ákveður að fækka vörninni í þrjá held ég að við sjáum Hendo detta út úr liðinu hér að ofan og Agger komi þá inn í hafsentalínuna. Þá kæmi Cissokho pottþétt inn.

En svona held ég að þetta verði, hann mun láta Aspas og Suarez spila saman frá byrjun og mögulega henda Moses inn eftir 60 þegar sá spænski fer að þreytast. Við höfum enn ekki séð Aspas og Suarez spila saman síðan á undirbúningstímabilinu svo að ég vona að við fáum prófraun þess gegn Kanarífuglunum hennar Deliu Smith.

Samantekt

Ég er sannfærður um að okkar menn vita upp á sig skömmina, þekkja skitu þegar hún gerir vart við sig. Rodgers fannst mér sýnilega sleginn í kjölfar leiksins og hann lætur engan fara varhuga af þeirri upplifun sinni.

Norwich hafa heldur ekki gleymt síðustu heimsókn og munu pakka til baka, það held ég að Coutinho og Suarez muni nýta sér og að lokum vinnum við leikinn 3-0 þar sem þessir tveir skipta á milli sín mörkum – að leik loknum höfum við svo hækkað okkur um eitt sæti hið minnsta og við munum bara eftir sögunni hans Steina um alla hálfíslensku mennina í borginni Hull og höfum algerlega gleymt því að þar fór fram leikur þann 1.desember 2013.

KOMA SVO!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

35 Comments

  1. Já nú reynir virkilega á liðið, úr hverju eru menn gerðir! Lykillinn að því að vera í topp 4 baráttunni er að klára þessi bottom 10 lið á heimavelli eins og við höfum verið að gera, þar liggur einfaldlega munurinn á Brendan og forverum sínum, þeir gátu ekki klárað þessi litlu lið á heimavelli og varð því niðurstaðan alltaf 6-8 sæti. Ég vil sjá hann henda Lucas út í þessum leik fínt að gefa honum smá frí og auk þess eigum við ekki að þurfa hann í leik sem þessum, þetta er sá leikur sem að liðið á að stjórna allar 90 mínúturnar og keyra þá í kaf.

    Mignolet
    Johnson Toure Sakho Agger
    Hendo Gerrard
    Sterling Alberto Coutinho
    Suarez

    – Fínt að stokka aðeins upp í liðinu og gefa ferskum mönnum séns, þetta verður niðurlæging 5-1, Suarez skorar 4 og Alberto 1! Nú er að duga eða drepast, verðum að halda okkur í þessari baráttu og klára næstu tvo leiki sannfærandi.

  2. Vid thurfum ad fatta hver okkar besta varnarlína er og halda okkur vid hana. Skrtel og toure finnst mer vera of ostodugir og voru langt fra sinu besta a moti hull..

    Vil sja thetta svona..

    Mignolet
    Johnson agger sakho cissokho
    gerrard lucas
    Hendo Coutinho moses
    suarez

    Verdum ad vinna thennan leik annad er ekki i bodi, erum med svo miklu betra lid en kanarifuglarnir.

    Ynwa

  3. Hjartanlega sammála Magga með uppstillinguna og vona að þetta verði svona, það hentar Suarez mjög illa að vera einn frammi og það ætti að hjálpa honum að fá aspas með sér ef hann er tilbúinn í slaginn.

  4. Flott upphitun, Maggi. Og já, maður er drullufeginn að fá leik í miðri viku til tilbreytingar.

    Ég kvartaði rækilega undan Rodgers í pistli í gær en eins og ég sagði þá býst ég engu að síður fastlega við að liðið rétti úr kútnum og taki þetta Norwich-lið létt á morgun. 3-0 kæmi mér ekkert á óvart en ég hugsa að ég myndi frekar vilja 1-0 sigur en 4-2 sigur. Aðalatriðið á morgun er að Rodgers stilli upp góðu liði sem getur haldið hreinu og haldist svo óbreytt um helgina. Fá smá stöðugleika í liðsuppstillingarnar.

    Spái auðveldum sigri á morgun og vona að við höldum hreinu. Koma svo.

  5. Ekki lítið sem maður býður eftir þessum leik svo maður geti tekið hugann frá Hull leiknum.

    Mér finnst erfitt að átta mig á byrjunarliðinu en væri virkilega til í að hvíla Skrtel, ekki það að mér finnist hann hafa spilað neitt illa í vetur….í mörgum leikjum hefur hann átt fína leiki en einhvern veginn finnst mér vörnin með hann innanborðs alltaf óöruggari og ítrekað finnst mér samskiptavandræði vera. Eins og stundum er sagt með heimsklassamenn að þeir geri samherja sína að betri leikmönnum þá finnst mér stundum pínu eins og því sé öfugt farið með Sktrel, þ.e. hann gerir samherja sína örlítið verri leikmenn. Erfitt að henda orðum að þessu en þetta er svona tilfinning sem blundar með mér.

    Helst vildi ég sjá Toure og Agger þar sem þeir virkuðu ansi vel í byrjun tímabils saman í miðverðinum en á móti kemur að ef Sakho á að vera á bekknum mikið lengur þá held ég að við séum mögulega búnir að finna verri fjárfestingu í leikmanni heldur en Aquilani var.

    Ég hef smá á tilfinningunni að Allen fái aftur tækifæri enda virkaði miðjan þreytt og kannski kjörið að hvíla annan hvorn þeirra Henderson eða Lucas. Einnig geri ég fastlega ráð fyrir að Coutinho komi inn. Ég vil og geri ráð fyrir að Gerrard spili á miðjunni, þetta er gríðarlega mikilvægur leikur þá hann sé á móti botnliði og við þurfum á fyrirliðanum að halda til að leiða liðið áfram. Ef vel gengur þá væri sjálfsagt að hvíla hann snemma í seinni hálfleik.

    Í sókninni er helst hægt að henda Aspas inn á og væri áhugavert að sjá hann og Suarez loksins saman. Moses og Sterling komust svo illa frá síðasta leik að erfitt verður að réttlæta þeirra veru frammi þó svo að Aspas hafi ekkert heillað mann upp úr skónum í byrjun tímabils.

  6. Ég vona að liðið verði svona: M.. Johnson , Skrtel, sakho, Agger. Lucas, Gerrard, Allen.. Coutinho, Suarez, Hendo.

  7. hvað með að nota Agger sem djúpan á miðjunni? er ég kannski sá eini sem mundi vilja sjá það?
    Ég mundi stilla þessu svona á morgun.
    Mignolet
    Johnson – Toure – Sakho – Cissokho/Flanagan
    Henderson – Agger/Lucas
    Suarez – Gerrard – Coutinho
    Aspas

  8. Ég ætlast til að við tökum þennan leik! Ég spái 5 – 1 sigri og Gerrard ætlar að rífa þrennu og fá leikgleðina aftur. Það sem ég væri til í að sjá er:

    Mignolet
    Johnson Agger Sakho Cissokho
    Gerrard Alberto
    Ibe Coutinho Sterling
    Suarez

    Vill sjá þessa ungu drengi spila þennan leik.

  9. Mignolet
    Flanno Agger Sakho Cisso
    Gerrard Lucas Hendo
    Suarez Aspas Coutinho

    Væri til í að prófa þetta. Var að sjalla við Brendan.

  10. Nokkrir punktar.

    1. Sterling á ekki að koma nálægt Anfield á morgun.
    2. Aspas á að byrja þennan leik með Suarez frammi.
    3. Cissokho á að byrja í vinstri bakverðinum, einfaldlega sókndjarfari en Flanagan.
    4. Sakho á að byrja í miðverðinum með Agger.

    Sem sagt þá við ég sjá liðið svona.

    Suarez Aspas
    Coutinho
    Hendo Gerrard
    Lucas
    Cissokho Agger Sakho Johnson
    Mignolet

    Þetta er að mínu mati okkar sterkasta lið og vonandi fer Rodgers að hætta að hringla með vörnina, Agger og Sakho eru okkar sterkustu menn (að mínu mati) og sérstaklega Sakho sem er framtíðar miðvörður liðsins.

  11. Rodgers búinn að útiloka að aspas verði með á morgunn :/

    “Iago only returned to training towards the end of last week so he’s not fit yet.”

  12. Aspas var í liðinu í síðasta leik, hann er væntanlega að tala um að hann sé ekki fit í starting XI ?

  13. Enga helvítis 3 miðverði á morgun (afsakið orðbragðið). Setja inn sókndjarft lið og senda skilaboð um að síðasta helgi hafi verið óheppni og ekkert annað með sannfærandi sigri.

  14. Væri alveg til i að sjá Aspas frammi með Suarez, við höfum að mér minnir ekki ennþá séð hann spila á toppnum, sem á vist að vera hans besta staða

  15. Held að Cissoko sé betri í 3-5-2 kerfinu, og ef hann ætlar að nota það kerfi þá sé ekki annað í þeirri stöðu en að Cissoko byrji. Reyndar held ég að hann fái pottétt sénsinn í kvöld, sem er fínt, mér hefur aldrei líkað við það að nota réttfætta leikmenn í vinstribakvarðarstöðunni og öfugt hinummeginn. Það virkar bara ekki eins og á köntunum. Agger er enginn bakvörður að mínu mati, alltof hægur og klaufskur þá hann sé þokkalega góður í löppunum. Það er enginn spurning að eftir skitu meistara Kolo og Skrtel þá á bara að gefa Agger og Sakho tækifærið. Reyndar finnst mér hræðilega að stokka svona mikið upp í vörninni, en það verður bara að vera þannig. Lucas fyrir framan þá og Gerrard með honum. Svo væri gaman ef annaðhvort Allen eða Alberto fengu tækifærið í með þeim. Coutinho í free flow þarna hægra meginn og ég myndi vilja sjá minn mann Sterling á vinstri væng. Er ósammála ykkur flestum að hann hafi skitið jafn mikið á sig gegn Hull og t.d. leikmennirnir sem eru með margra ára reynslu úr deildinni. Notaði líkamann sinn vel, bjó til 2 færi, fiskaði aukaspyrnur og var duglegur að hlaupa upp og niður. Enginn stórleikur en hann var að mínu mati með þeim Flanagan og Migno sem komust best frá leiknum. Og Suarez auðvitað framm.

    Aspas þarf að koma inn í dag. Þurfum sárlega á honum að halda í desember, sem framherja. Hann kemur inn fyrir Sterling eða Allen/Alberto vonandi snemma í seinni. Henderson f. Gerrard og Moses f. Sterling/Allen/Alberto.

    Ef menn eins og Sterling, Allen, Alberto, Moses, Aspas, Cissoko og Sakho ætla vera með í desember þá verða þeir að fá sénsinn í dag, og gegn West Ham að mínu viti. Minnir að Sakho hefur ekki enn spilað 4-3-3 leikkerfið t.d. Nenni ekki að horfa uppá leikmenn vita ekki þeirra hlutverk út af þeim er hent í stórleik gegn City útaf meisðlum annarra eða leikjaálagi.

    Annars er ég nokkuð öruggur um sigur. Veit ekki hvort það sé gott eða slæmt, var það líka gegn Hull. Sjáum til. Mín spá 5-0 og Suarez skorar bara EITT mark. Suarez, Sterling, Aspas, Gerrard og Johnson skora í kvöld.

  16. Hafa Sterling sem lengst frá liðinu, Ibe ætti að fá meiri sjéns en Sterling. Moses er ekki að gera sig og Lucas er búinn…þetta er nú ekki flókið að sjá, eins og maðurinn sagði ..fótbolti er ekki flókin íþrótt..

  17. Ég legg til að pistlar um leiki sem ekki fara vel, eins og t.d. á sunnudaginn, verði kallaðir ristlar. Þeir þurfa þó að vera langir, eins og ristillinn, þannig að pistillinn sem Einar Örn skrifaði um leikinn á móti Hull var ekki beint ristill.

  18. mér er sama hvernig liðið verður i kvöld
    vill bara 3 stig
    og halda hreinu

    er eg að fara fram á of mikið ? 🙂

  19. Jæja!

    Sem betur fer missti ég af leiknum á móti Hull og hef ekki einu sinni áhuga á að horfa á hann eftir á.

    Ég treysti á að menn standi við það sem þeir segja og hafa gert hingað til, rísa upp eftir lélegan leik og klári dæmið í kvöld. Allavega hefur BR ekki ennþá tapað tveimur í röð í deildinni hingað til og það væri svaklegt ef það myndi gerast í kvöld.

    Vil fá Sakho inn og hafa hann þar, hann er klárlega leikmaður sem á heima í hjarta varnarinnar. Ég hreinlega skil ekki af hverju hann fékk ekki inn eftir að hafa brillerað með franska landsliðinu.
    Eins vil ég láta reyna meira á Sissokho, Allen og svo á auðvitað Aspas að fá leiki þarna frammi með Suarez. Kannski verður það baneitrað enda er hann hraður og með sendingum frá Suarez og Coutinho gæti hann sýnt hvað hann getur.

    Ég spái 2-0 sigri (Suarez og Coutinho) og vil ekki sjá það að fá mark á okkur, bara ekki að ræða það!!

    KOMA SVO LEEEEVEEERPOOOL!!!

  20. Það eru margir hérna í ummælum að stilla upp liðinu í 4-2-3-1. Ég er að reyna að rifja það upp hvort Rodgers hafi einhvern tímann stillt LFC þannig upp, en gengur illa. Man það einhver?

  21. Er alveg helvíti svartsýnn en get samt aldrei spáð okkar mönnum tapi. 2-1 Coutinho og Suarez.

  22. Held að menn hljóti að rífa sig upp og rústa þessum leik. Set 5-0 á diskinn minn.

  23. Þetta verður dæmigerður leikur eins og við sáum svo oft í fyrra. Við verðum meira með boltann, Suarez frekar einangraður frammi, Norwich fær svona tvö færi, skorar minnst úr öðru og þetta endar sem 1-1 jafntefli. Ömurlegheit.

  24. Lágmarkskröfur mínar er 5-0 sigur og Suarez skorar allavega fjögur.

  25. Er einhver sem getur tjáð mér hvort og þá hvernig á að horfa á leiki í ipad?

  26. Hvað er málið með Sakho er hann latur á æfingum eða bara mesta flop í sögu Liverpool ?!

  27. já mesta flop í sögu Liverpool. Ekki í byrjunarliðinu eftir 13 leiki og það eru allaveganna 3 aðrir að æfa sömu stöðu og hann og tveir af þeim meira segja búnir að spila saman í nokkur ár . Svo er Sakho 21 árs eða einhvað. Þvílíkt megaflop maður.

Hey, Brendan?

Liðið gegn Norwich