Hey, Brendan?

Þessi leikur í gær, maður minn lifandi. Þetta var sérdeilis ömurleg frammistaða hjá okkar mönnum. Að vissu leyti var ég búinn að gleyma að liðið gæti verið svona lélegt, en að ýmsu leyti var ég einnig ekkert hissa á að það kæmi að þessu á endanum. Að liðið skuli hafa verið í 2. sæti Úrvalsdeildarinnar eftir 12 umferðir og við mánaðarmótin nóvember/desember var vissulega betra en jafnvel bjartsýnustu menn þorðu að vona í sumar en þótt einhverjir hafi verið farnir (fram úr sjálfum sér) að tala um mögulega toppbaráttu í vetur var líklega stór meirihluti Púlara einhvern veginn alltaf að bíða eftir hruninu.

Kannski var það sagan sem kenndi okkur að blaðran myndi springa á endanum, en kannski var það eitthvað annað. Á yfirborðinu var ekki mikið sem mælti gegn því að liðið gæti haldið dampi á meðal þeirra efstu: við erum með heitasta framherjapar deildarinnar, urmull af góðum varnarmönnum, frábæran nýjan markvörð og ekkert álag frá öðrum keppnum eins og liðin í kringum okkur í deildinni.

Af hverju bjóst maður þá svona við hruninu? Af hverju kom þessi skita gegn Hull City A.F.C. Tigers manni nákvæmlega ekkert á óvart? Hvers vegna hafði maður ekki meiri trú á liðinu en þetta, þrátt fyrir frábæra byrjun?

4362__6143__rodgerstraining_52107e4a836dc627644040

Brendan Rodgers er búinn að vera framkvæmdarstóri Liverpool í átján mánuði og ég held að það sé erfitt að finna nokkurn viti borinn aðdáanda Liverpool sem er sannfærður um að hann sé réttur maður eða sannfærður um að hann sé rangur maður fyrir Liverpool. Eftir átján mánuði held ég að langflestir séu enn á báðum áttum. Og það er frekar skrýtin staða að vera í.

Ekki misskilja mig – ég er ekki að spá því að nú fari allt til fjandans hjá Liverpool. Ég er ekki að panikka út af einum leik og drulla hér í löngu máli yfir Rodgers. En í þessum Hull-leik sá ég endurtekin nokkur atriði sem ég hef séð Rodgers klikka á reglulega og því finnst mér alveg í lagi, og kannski ágætis tilefni til eftir svona leik, að nefna þau atriði og skoða þau aðeins.

Og svo ég sé taki það skýrt fram, þá er Rodgers búinn að gera heilmargt gott hjá Liverpool. Undir hans stjórn hafa margir leikmenn blómstrað, ekki síst þeir Sturridge og Coutinho sem komu ódýrt til okkar þar sem þeir áttu að vera búnir að sanna meðalmennsku sína hjá öðrum stórliðum. Rodgers hló að þeirri ákvarðanatöku og reif þá í gang. Það sama væri hægt að segja um Jordan Henderson, Jose Enrique, Martin Skrtel og Steven Gerrard sem hafa allir leikið talsvert betur undir stjórn Rodgers en þeir gerðu undir stjórn Dalglish, svo ekki sé minnst á að Luis Suarez fór fyrst undir stjórn Rodgers að skora af sama magni og hann gerði hjá fyrri liðum sínum.

Rodgers hefur yfirstigið margar hindranir og náð að sameina klúbbinn, komið á stöðugleika í kringum félagið (þótt beri á örlitlu róti í Akademíunni þessa dagana), gert Anfield að vígi á ný og breytt Liverpool í eitt besta sóknarlið Bretlandseyja. Þetta eru allt gríðarlega jákvæðir hlutir sem þykja skýrar vísbendingar um að þessi ungi knattspyrnustjóri sé að læra í starfinu og að allt þokist í rétta átt hjá Rodgers og Liverpool.

Engu að síður eru enn stórar spurningar sem Rodgers á eftir að finna svör við. Eftir leikinn gegn Hull tók ég þessi atriði saman og kynni þau hér með. Þetta eru spurningar sem ég myndi spyrja Brendan Rodgers og það má segja að þessar spurningar séu það sem hindrar mig í að geta samþykkt Rodgers fyllilega sem stjóra okkar. Mér líst vel á hann, eftir eitt og hálft ár, en ég er enn ekki yfir mig hrifinn af honum. Vonandi lærir hann í starfinu og útrýmir þessum spurningum einni af annarri en þangað til eru þetta ansi sórar spurningar sem ég hef áhyggjur af.

Vindum okkur í listann:

01: Sigurhrinur
Eitt af því sem einkennir öll lið sem ná árangri í deildarkeppnum er að þau ná að setja saman sigurleikjahrinur nokkrum sinnum yfir tímabilið. Á tæplega einu og hálfu tímabili hefur Rodgers mest náð að vinna fjóra leiki í röð með Liverpool. Í bæði skiptin (í febrúar/mars og ágúst/september á þessu ári) vann liðið þrjá deildarleiki og einn í annarri keppni áður en hrinunni lauk. Þetta er einfaldlega ekki nóg.

Arsenal hafa það sem af er á þessari leiktíð unnið tíu og fjóra leiki í röð. Og þeir eiga það létt prógram fram undan í deildinni að þessir fjórir verða eflaust að sjö á næstu dögum. Ég myndi allavega veðja frekar á að þeir vinni þrjá „létta“ deildarleiki en að við gerum hið sama. Arsenal vinna leiki, oft og mörgum sinnum í röð. Þess vegna eru þeir alltaf í Meistaradeildinni, þrátt fyrir ýmsar lægðir og leikmannasölur, og þess vegna eru þeir á toppi deildarinnar og efstir í dauðariðli Meistaradeildarinnar akkúrat núna.

Ef þú ætlar þér að vera topplið verðurðu að taka sigurhrinur, oft og reglulega. Rodgers hefur ekki gert það einu sinni á 18 mánuðum með Liverpool. Er þetta eitthvað sem við höfum trú á að Rodgers bæti úr fljótlega? Það er spurningin.

02: “Death by football” – hvað varð um heimspeki Rodgers?
Þessi spurning tengist eiginlega næstu spurningu líka. Þegar Rodgers var ráðinn var það að miklu leyti sagt vera út af ekki bara árangri hans hjá Swansea heldur líka því hvernig fótbolta hann lét Swansea spila. Hann var kynntur til leiks sem maðurinn sem gat innleitt Barcelona-boltann hjá Liverpool, að vissu leyti. Og fyrstu vikurnar virtist hann ætla að láta slag standa og innleiða tiki-taka knattspyrnuna á Anfield. En síðasta árið eða svo hefur þetta breyst. Hann hefur verið að prófa sig áfram með ýmsar leikaðferðir, ýmis byrjunarlið, ýmsar áherslur og ýmsar tegundir knattspyrnu.

Allt frá því að spila með þrjá miðverði á heimavelli gegn minni spámönnum til þess að fleygja allri varkárni út í veður og vind á erfiðum útivöllum. Við höfum séð of varfærnislegt leikjaplan skila tapleikjum heima gegn liðum eins og Southampton (tvisvar) og West Bromwich Albion en við höfum líka séð hann tapa niður forskoti gegn Everton á útivelli (tvisvar) og tapa illa gegn Arsenal, Man Utd, Aston Villa og fleirum með ójöfnum eða hreinlega skrýtnum liðsuppstillingum (eða skrýtnum innáskiptingum, eins og gerðist á Goodison fyrir viku).

Það versta við þetta er að hann virðist ekki vera neinu nær því að finna sína leikaðferð. Eftir að hann yfirgaf tiki-taka pælingarnar (og þá félaga Joe Allen og Nuri Sahin) fyrir um ári síðan og fór að gera tilraunir hefur hann prófað ýmislegt en ekki haldið sig við neitt.

Það er vissulega jákvætt að vera sveigjanlegur og að geta spilað fleiri en eina tegund af knattspyrnu. Slíkt gerir lið ófyrirsjáanleg og það hefur sennilega verið stór þáttur í því hvað Liverpool hefur verið öflugt sóknarlið á árinu 2013. En Það kostar liðið líka helling eins og þrír tapleikir þess í deildinni til þessa bera vitni um. Gegn Southampton á Anfield sýndi hann þeim allt of mikla virðingu og stillti upp varnarsinnuðu 4-4-2 kerfi með fjórum miðvörðum sem gaf þeim tóninn og þeir unnu. Gegn Arsenal á Emirates vorum við allt of fáliðaðir á miðjunni gegn sterkustu miðju deildarinnar og uppskárum eftir því. Í gær, gegn Hull, spilaði hann með tvo djúpa miðjumenn og sterka skallamenn í miðverði af ótta við háa bolta Hull og svo tvo vafasama vængmenn sem skiluðu engu. Allt þetta skildi Luis Suarez og Jordan Henderson eftir ákaflega einangraða og liðið skapaði nákvæmlega ekkert, en enn verra var að þrátt fyrir allar tilraunirnar til að stöðva hina heimsfrægu sókn Hull náðu þeir samt að skora þrjú mörk, ekki síst vegna þess að miðverðirnir okkar virtust ekki kunna að vinna saman.

Hafi Rodgers bætt sóknarleik liðsins talsvert með tilraunastarfsemi sinni hefur hann einnig kostað liðið þó nokkuð af stigum með sömu tilraunum. Ef Rodgers væri markvörður sem kostaði okkur þessi stig myndum við vilja að hann viki úr byrjunarliðinu. Getum við átt von á að Rodgers fari að finna sína leikaðferð og sitt lið á næstunni og hætti að setja allt að því ringluð og stefnulaus lið inn á völlinn einu sinni í mánuði eða svo? Það er spurningin.

03: Sumarkaupin
Undir stjórn Rodgers hefur Liverpool núna klárað þrjá leikmannaglugga. Janúar síðastliðinn var frábær enda fékk liðið þá Coutinho og Sturridge í þeim glugga og þeir styrktu liðið mikið. En hér eru leikmennirnir sem voru fengnir til liðsins sumarið 2012: Fabio Borini, Joe Allen, Oussama Assaidi, Nuri Sahin, Samed Yesil. Og hér eru leikmennirnir sem voru fengnir til liðsins sumarið 2013: Iago Aspas, Luis Alberto, Tiago Ilori, Kolo Touré, Aly Cissokho, Victor Moses, Simon Mignolet, Mamadou Sakho.

Að Mignolet undanskildum er ekki einn af þessum leikmönnum í síðustu tveimur leikmannagluggum að skila sér reglulega inn í byrjunarliðið. Að mínu mati ætti reyndar Sakho klárlega að vera reglulegur byrjunarliðsmaður eins og Mignolet, en jafnvel fyrir utan þá tvo er þetta skelfileg upptalning. Borini, Assaidi og Sahin eru ekki einu sinni lengur hjá liðinu og það er uppi orðrómur um að Cissokho verði hreinlega skilað í janúar og að Ilori (sem enn hefur ekki leikið mínútu fyrir liðið) verði lánaður frá félaginu við næsta tækifæri.

Þá var Suso lánaður til Spánar þar sem hann hefur verið að spila reglulega og gera það gott með Almeria í La Liga, til að rýma fyrir jafn gömlum leikmanni sem hafði verið að spila með B-liði Barcelona og virðist ekki vera neitt augsýnilega betri leikmaður en Suso.

Gleymum því hvað leikmennirnir kostuðu. Horfið bara á hverju þessi hópur hefur skilað í aðalliðið. Svarið er, nánast ekki neinu. Eflaust er of snemmt að dæma einhverja þeirra, kannski blómstrar einhver af Ilori, Yesil, Alberto eða Borini með tímanum en það verður samt að segjast að öll þessi kaup á allan þennan pening tvö sumur í röð og að skila ekki einum einasta manni inn í byrjunarliðið er skelfilegt.

Ég held að síðustu tvö sumur kristallist í Joe Allen. Ef það er einhver leikmaður þarna úti sem Rodgers hefði átt að geta verið viss um, sem hann hefði átt að vita upp á hár hvort hann væri nógu góður til að stíga skrefið upp hjá Liverpool, þá hefði það átt að vera Allen. Samt er eins og hann viti eiginlega ekki alveg hvað hann á að gera við Allen. Hefur hann trú á sínum eigin manni, sem fylgdi honum yfir? Það er ekki að sjá.

Getum við búist við að næsti sumargluggi skili meiri styrkingu í byrjunarliðið en þessi síðustu tvö sumur hafa gert? Það er spurningin.

04: Miðvarðahringlið.
Ef það var ein staða sem var vel styrkt í sumar var það miðvarðastaðan. Carra fór á eftirlaun og í hans stað voru Kolo Touré, Ilori og Sakho fengnir. Allt virtist klárt fyrir harða samkeppni þar sem líklegt þótti að a.m.k. tveir vel spilandi miðverðir myndu finnast og eigna sér stöðurnar. Vandamálið er bara að desember er byrjaður og hann er enn að hringla með miðverðina. Hér er upptalningin á byrjunarliðs-miðvörðunum í hverri umferð hingað til:

 • Stoke: Agger, Touré
 • A Villa: Agger, Touré
 • Man Utd: Agger, Skrtel
 • Swansea: Sakho, Skrtel
 • So’ton: Touré, Skrtel, Agger, Sakho
 • Sun’land: Touré, Skrtel, Sakho
 • C. Palace: Touré, Skrtel, Sakho
 • Newcastle: Touré, Skrtel, Sakho
 • WBA: Touré, Skrtel, Sakho
 • Arsenal: Touré, Skrtel, Sakho
 • Fulham: Agger, Skrtel
 • Everton: Agger, Skrtel
 • Hull: Touré, Skrtel

Þetta er náttúrulega ekki hægt. Liðið hefur aldrei haldið hreinu nema Daniel Agger sé í byrjunarliðinu. Bestu hrinurnar komu fyrst í upphafi tímabils (10 stig af fyrstu 12) þar sem varnarlínan var óbreytt nema af nauðsyn þegar Agger meiddist, og hin besta hrinan kom svo með þriggja manna miðvarðalínuna þar sem liðið náði í 10 stig af 12 þar til tapið gegn Arsenal sannfærði Rodgers um að hætta þeirri tilraun, í bili að minnsta kosti. Og það verður að teljast líklegt eftir frammistöður Touré og Skrtel gegn Hull að hann geri enn og aftur breytingar í þessari lykilstöðu fyrir næsta leik.

Á sama tíma eru Mertesacker og Koscielny búnir að byrja saman í hverjum einasta deildarleik Arsenal á tímabilinu, utan þess að Koscielny fór í leikbann einu sinni. Og það með fyrirliða klúbbsins, Vermaelen, á bekknum. Arsenal fengu á sig eitt mark í deildinni í nóvember. Liverpool fékk á sig átta.

Er einhver von til að Rodgers ákveði sína bestu miðvarðasamsetningu og haldi sig við hana á næstunni? Það er spurningin.

05: Útivallaformið
Gengið í útileikjum það sem af er tímabili er: tveir sigrar, þrjú jafntefli og tvö töp. Gengið í heimaleikjum það sem af er tímabili er: fimm sigrar, ekkert jafntefli og eitt tap. Gengið á síðustu leiktíð, frá 1. janúar, var 5 sigrar, 3 jafntefli og 1 tap á Anfield en 4 sigrar, 3 jafntefli og 2 töp á útivöllum.

Ég tek frá og með 1. janúar þar sem Liverpool var áþreifanlega mikið betra eftir áramót á síðustu leiktíð og það skekkir svona tölfræði að telja með martraðabyrjunina fyrir einu og hálfu ári. Það er hægt að lesa úr þessari tölfræði að á árinu 2013 hefur Rodgers unnið gott starf með gengi liðsins á heimavelli. Anfield er orðið að vígi á ný og þessir fjölmörgu sigrar þar eru það sem er að skila liðinu upp á meðal efstu liða nú í byrjun desember.

Gengið á útivelli er hins vegar alls ekki nógu gott. Ég læt tapið gegn Arsenal vera en að öðru leyti ættum við að líta á útileiki gegn Swansea, Newcastle og Hull og segja að lið sem ætlar sér hluti í deildinni þarf að ná meiru en 2 stigum af 9 mögulegum í þessum þremur viðureignum. Auðvitað er aldrei hægt að vinna alla leiki, hvorki heima né úti, og það er alveg hægt að fyrirgefa t.d. slakt jafntefli (manni fleiri) í Newcastle ef liðið réttir úr kútnum og vinnur næsta útileik. En í þetta skiptið hefur liðið tapað gegn Arsenal og núna Hull og litið afar illa út í báðum leikjum. Og það er varla hægt að segja að útisigrarnir (gegn Aston Villa og Sunderland) hafi verið vel leiknir eða sannfærandi heldur.

Þetta einfaldlega verður að lagast. Það var sérstaklega svekkjandi að sjá liðið svona kraftlaust í Hull degi eftir að hafa séð Arsenal labba yfir Cardiff. Á útivelli.

Það er frábært að Anfield sé aftur orðið að vígi og vonandi festir liðið þá stöðu enn frekar í sessi með heimasigrum gegn Norwich og West Ham í þessari viku. En fram undan eru útileikir gegn Chelsea, Manchester City og Tottenham áður en mánuðurinn er á enda og liðið einfaldlega verður að ná stigum úr þeim leikjum. Ef þeir tapast allir skiptir formið á Anfield litlu máli. Í dag eru þrjú stig upp í annað sætið og þrjú stig niður í 9. sætið fyrir Liverpool. Ef þessir þrír útileikir tapast allir verður liðið í 9. sætinu um áramót, í þessari hnífjöfnu toppbaráttu. Það er einfaldlega ekki svigrúm fyrir svona spilamennsku í hvert sinn sem liðið leikur útileik.

Er þetta eitthvað sem Rodgers getur unnið bót á fyrir jólatörnina? Það er spurningin.

Eins og ég sagði í upphafi er ég að miklu leyti hrifinn af Rodgers og störfum hans hjá Liverpool. Það er gaman að horfa á liðið, það skorar helling og er með nokkra skemmtilega leikmenn innanborðs. Eins er liðið að standa sig vel á Anfield og það virðist loksins vera komin lognmolla í kringum klúbbinn utan vallar.

En Brendan Rodgers var ekki ráðinn, á kostnað King Kenny Dalglish, til að halda Liverpool FC stöðugu í topp 7 í Úrvalsdeildinni. Hann var ráðinn til að skila bikurum í hús, til að koma liðinu á ný í Meistaradeildina, og þaðan í fremstu röð í Englandi. Og það mun einfaldlega ekki gerast fyrr en hann ræður bót á stórum vandamálum, ekki bara vandamálum í leikmannahópnum heldur sínum eigin vandamálum. Hann þarf að nýta leikmannagluggana talsvert betur en síðustu tvö sumur. Hann þarf að finna sitt sterkasta lið og sína leikaðferð og gefa liðinu séns á að finna sig í því kerfi. Hann þarf að mæta til leiks með liðið á útivelli, ekki síst gegn stórliðunum. Og hann þarf að fara að gera upp við sig hvaða tveir miðverðir eru aðal og halda sig við þá. Og hann verður einhvern tímann að ná að vinna fleiri en þrjá deildarleiki í röð.

Ég vona að honum takist það. En eftir átján mánuði verð ég að viðurkenna að biðin gerir mig ekki bjartsýnni.

61 Comments

 1. Svaðalegur pistill

  Rodgers hefur algerlega verið minn maður og er alveg ennþa en Kristján færir morg goð rök fyrir þvi að maður eigi kannski ekki alveg að elska manninn svona mikið..

  Utivallararangur er ekki nógu góður og miðvarðaruglið þarf að laga…

  Shit hvað eg ottast að liðið tapi allavega 4 leikjum bara i desember.. þessi jol hja manni gætu orðið risa martröð.. það verða ekki gleðileg jol og aramot ef okkar menn tapa þremur leikjum a korteri fyrir tottenham, chelsea og city, eftir drulluna i dag og sturridge og enrique meiddir eru finar likur a að við topum ollum þessum leikjum, eg fæ æluna uppi kok og kviðahnutinn uppi hals við tilhugsunina..

  Uff ætla ekki einu sinni að hugsa þetta lengur, viðvorunarbjollur eru komnar i gang, 1 sigur i siðistu 4 leikjum, sturridge meiddur og virðumst engan eiga i hans stað nema keilur i sterling og moses, jesus..

  Jaja eg sofna neikvæður en valla annað hægt eftir leikinn i dag..

  Vonandi verð eg eitthvað jakvæðari a morgun..

  Biðst afsökunar a neikvæðninni

 2. Góður pistill margir áhugaverðir punktar í honum. Eitt sem ég verð að setja út á er að það sé skelfilegt að enginn af sumarkaupunum sé að festa sig í byrjunaliðinu. Ef við förum yfir þessi kaup þá er tvö stræstu kaupinn Mignolet auðvitað fastamaður, Sakho hefur verið inn og út úr liðinu en ég hef trú að hann festi bráðum í byrjunaliðið þarf kannski aðeins að venjast ensku deildini fyrst. Moses og Cissokho voru báðir fengir á láni til að vera back up og auka sammkeppnin og var illori var keyptur sem framtíðamaður. Þá standa eftir spánverjanir tvær Aspas og Alberto sem áttu að styrkja liðið sóknarlega þær hafa vissulega ekki heillað en ég held að það ætti ekki að koma á óvart að þeir séu ekki fastamenn , alberto hefur bara reynslu úr b deilini á spániog aspas er augjóslega ekki að fara byrja inná fram yfir Sturridge og Suarez.

 3. Þessi pistill lýsir skoðun manns á Rodgers vel. Það sem svíður mest er hversu lítið byrjunarliðið hefur verið styrkt, en til að verja BR í þeim efnum er hann að vinna undir stefnu sem horfir lengra fram á veginn en 18 mánuði og lykilkaup þessa sumars fóru mjög illa (Mkhitaryan, Costa myndu skila okkur meiru en Sakho á bekknum). BR getur ekki neytt menn til að koma til klúbbsins, því miður.

  En eftir gengi síðustu ára er maður orðinn vel búinn undir svona Hull-leiki, tekur þessu tapi eins og hverju öðru og bíður rólegur eftir næsta leik.

 4. Já.

  Ég veit ekki alveg hvernig mér á að líða hérna.

  Hull City var skita en á móti vorum við fyrir nokkrum dögum að spila besta leik mjög, mjög lengi í Úrvalsdeildinni, fullkominn “death by football” leik gegn Fulham og þá minnist ég þess nú ekki að við höfum komið hér inn og tínt upp þá hluti sem Rodgers hefur gert gríðarlega vel frá því hann kom til liðsins.

  Eða í síðustu viku að við hrósuðum karakter liðsins við það að lenda undir í lok brjálaðs derbyleiks gegn Everton og í raun réttri átt möguleika á að stela sigri í epískum útileik.

  Sama stigagengi út tímabilið myndi þýða 76 stig sem mun fara mjög nálægt meistaradeildarsæti. Sem væri magnaður árangur.

  Ég spáði LFC 6.sæti í deildinni í ár í lok september og held mig við það enn. Við erum einfaldlega með verri leikmannahóp en bæði Pakistanliðin, Chelsea, Arsenal og Tottenham. Að mínu mati þarf maður að vera ansi rauðlitaður til að viðurkenna það ekki. Spurs virðast eiga mjög erfitt svo að 5.sæti væri mögulega málið til að skoða.

  Fyrstu 11 okkar munu mögulega slaga uppí fyrstu 11 liðanna en ef horft er til fyrstu 22ja þá erum við langt að baki.

  Í leik helgarinnar vantaði annan SAS-liðann. Enrique er frá og Coutinho gat ekki byrjað. Það sem fyrst og síðast sást var að þegar að við grípum til kosta 4, 5 og neðar á sóknarþriðjungnum vantar mikið uppá. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með Victor Moses í síðustu 2 leikjum en vona ennþá að hann geti sýnt okkur ýmislegt og Iago Aspas hlýtur að fá sénsa frammi núna. Þar höfum við ekki enn séð hann.

  En mér finnst þessi umræða bara vera brot af þeirri rökræðu sem að við höfum horft uppá nú mjög lengi. Það eru peningar sem tryggja þér gæði og í mínum huga er ennþá bara 2 leikmannakaup sem þarf að skoða, annars vegar Borini og hins vegar Joe Allen. Leikmenn sem kostuðu 12 og 15 milljónir punda og hafa enn ekki getað neitt. Coutinho hefur vissulega bara komið að einu marki í vetur, eftir horn, en hann ætla ég sko ekki að afskrifa strax eins og sumir eru farnir að muldra.

  Ég sagði í haust og stend enn við það að ég skildi ekki sölurnar á Downing og Shelvey, og áttaði mig ekki á kaupunum á Luis Alberto. Luis Alberto er “vonarskot í myrkri” eftir að hafa verið góðu í B-deild á Spáni, sem er deild sem er mun veikari en Championship deildin. Eins og ég er handviss um að enska deildin er mun sterkari en sú spænska ef þrjú efstu lið Spánar væru skilin frá. Suso er vissulega að spjara sig með Almeria, sem er frábært, en hann er ekki maður sem við hefðum horft til klára eitthvað hjá okkur í vetur. Almeria eru næst neðstir á Spáni, eins og Sunderland í Englandi. Er handviss um að t.d. Raheem Sterling væri lykilmaður hjá Sunderland.

  En hvað þá? Svarið mitt er það sama og hefur verið í nokkurn tíma. Liverpool vantar að kaupa leikmenn sem eru tilbúnir. Ég segi aftur það sama og í gær, ég myndi vilja fá Sakho inn í liðið en í gær valdi Rodgers hann Toure sem líkamssterka manninn. Ansi margir hafa nú vart haldið legvatni yfir Kolo karlinum svo að það eitt og sér finnst mér ekki ástæða til að velta upp að eitthvað hafi “klikkað” í gær.

  Miðað við þær forsendur sem við fengum að vita í gær var þetta eina spurningin um liðsvalið sem möguleg var. Eða vildu menn eitthvað annað lið en það sem var á miðju eða frammi? Ekki ég allavega…

  Umræðan undanfarin grilljón ár hefur snúist um þjálfarana. Hávært öskrandi rifrildi um Benitez, leiðindin öll með Hodgson og bullið um úreltan Dalglish er eitthvað sem ég sakna ekki og ég vona innilega að ekki sé verið að sigla inn í einhverja Rodgersumræðu núna.

  Atburðirnir í akademíunni sýna svo ekki verður um villst að þessi maður er að fá að stjórna þessum klúbb í gegnum hann allan og er bara rétt að byrja. Þessir 18 mánuðir sem eru að baki hafa að mínu viti sýnt klára framför hjá félaginu og ég hef væntingar til þess að það verði bráðum samkeppnishæft. En til þess þá þarf að kaupa fleiri tilbúna leikmenn.

  Eins og Diego Costa hefði verið ef hann hefði verið til í að koma á Anfield. Eða Mkhitariyan. Það þarf að styrkja byrjunarliðið, því hefur Rodgers lýst og ég er honum sammála. Til þess þá þarf að vera tilbúinn að borga 15 milljónir plús áfram, þrátt fyrir að leikmenn sem kosta þann pening spjari sig ekki. Ég er handviss um að Sakho verður fastur punktur í þessu liði og mun sanna þá upphæð. Sturridge hefur gert það nú þegar, en Joe Allen á mjög erfitt og gæti alveg verið á burtleið.

  Við þurfum ekki fleiri 6 – 8 milljón punda menn fyrir breidd. Þeim eigum við nóg af, sem og gríðarefnilegum mönnum sem þarf að lána út og fá betri til baka.

  Bara urrandi gæðaleikmenn sem kunna að spila með gæðaleikmönnum sem við eigum fyrir í þeim Suarez, Coutinho og Gerrard allavega.

  Eins og áður þá ergir það mig örugglega mest þegar farið er að snúa umræðu frá klúbbum, liðum og frammistöðu leikmanna yfir í það að rýna í þjálfarann sem lykilatriði.

  Fyrir 18 mánuðum valdi LFC að fara inn á nýja braut og leggja allt í hendur Brendan Rodgers. Það verkefni tel ég ekki hægt að dæma fyrr en minnst 36 mánuðum síðar, ekki síst þar sem enn er verið að reka og ráða menn til að starfa með honum, sem og færa til og frá þá leikmenn sem eiga að vinna með honum.

  Það var, og er, að mínu mati fullkomlega óraunhæft að telja það líklegt að við getum verið í toppbaráttu með þann leikmannahóp sem við eigum í dag og ef að þetta verður veturinn, hökt til og frá sem skilar okkur í 4.sæti hefur Rodgers náð undraverðum árangri. Undraverðum.

  Ef hann verður neðar, í sæti 5 eða 6 þá er það fullkomlega eðlilegt miðað við leikmannahóp eins og ég sé það….

 5. Maggi, ég verð að svara þér í nokkrum liðum:

  Fyrst, þá þýðir tapið í gær að við erum með 1.85 stig per leik sem gerir 70 stig yfir tímabil. Það hefði nægt okkur í 6. sætið í fyrra en 4. – 5. sætið flest síðustu ár. Þessi 70-stiga tala gæti hækkað ef við vinnum Norwich og West Ham í vikunni en svo sennilega lækkað aftur ef við höldum áfram að drulla upp á bak í útileikjum.

  Næst, þá þýðir ekki bara að bera fyrir sig að við séum með verri leikmannahóp en 4-5 lið. Það er satt hjá þér og enginn véfengir það. En við vorum ekki að spila við þessi 4-5 lið í gær. Við vorum að spila við Hull City, og þar áður við Everton, og þar áður Fulham. Og það er ekki eins og liðið sé að drukkna í álagi síðustu vikurnar. Okkur vantaði Sturridge og Coutinho (aka Janúar-mennina) í gær og þá var þetta bara orðið 2012 aftur. Það er ekki bara breiddarskortur, það er léleg afsökun. Gegn Hull.

  Í þriðja lagi reyndi ég að taka það skýrt fram að ég fíla Rodgers. Ég vil ekki reka manninn og ég held að hann sé á réttri leið. En ég vildi samt sem áður tína til þá hluti við hann sem ég hef ennþá áhyggjur af. Það hlýtur að vera í lagi. Við hljótum að mega rökræða Rodgers þótt Rafa-rifrildin hafi verið orðin þreytt fyrir nokkrum árum.

  Í fjórða lagi þá tók ég það fram í ummælum við upphitun fyrir Hull að ég vildi helst sjá óbreytt lið frá því gegn Everton því það byrjunarlið var að vinna 2-1 eftir klst. leik. Það var ekki fyrr en Rodgers sjálfur veikti miðjuna talsvert í þeim leik að Everton tóku yfir, skoruðu tvö mörk seint og voru skyndilega að vinna leikinn. Að ætla að kenna Daniel Agger einum um það og taka hann út úr liðinu var asnalegt, að mínu mati, og skilaði langtum verri varnarleik í gær. Eins fannst mér Joe Allen verðskulda annað tækifæri í byrjunarliðinu, ekki síst vegna meiðsla Sturridge og Coutinho, en að bregðast við meiðslum þeirra með því að taka Allen líka út og setja BÆÐI Moses og Sterling kalda inn? Það var glapræði og ég hafði orð á því fyrir leik í gær. Þannig að ég áskil mér rétt til að gagnrýna Rodgers fyrir liðsvalið. Ekki síst þar sem þetta er þriðji tapleikur okkar í deild í vetur og að mínu mati á Rodgers stóra sök í þeim öllum með liðsvali.

  Annars er auðvitað enginn að fella neina dóma um Rodgers í dag. Hann verður ekki dæmdur fyrr en í fyrsta lagi eftir þetta tímabil, mögulega eftir það næsta þegar hann er búinn að fá næsta sumarglugga til að rétta sinn hlut á þeim markaði. En við hljótum að mega skoða hvað er gott og hvað er slæmt við hann hingað til, eftir heila átján mánuði. Það er ekki eins og ég sé að hengja hann eftir tíu leiki. Ég er ekki United-stuðningsmaður. 🙂

 6. Þessi pistill er eins og talað úr mínu hjarta.

  Takk fyrir vel rökstudda gagnrýni sem á svo sannarlega rétt á sér.

  Þessi rótering á liðinu er farin að minna aðeins of mikið á hvernig Rafa róteraði liðinu en hann hélt sig oftast við sömu leikaðferð og var ekki hringla of mikið í henni.

  Það hefur sýnt sig að sóknar uppstilling 4-4-2 hjá Brendan hefur virkað hvað best á þessu tímabili. Það er samt staðreynd að það kemur ekki festa í varnarleikinn ef það er stöðugt verið að breyta henni. Í leiknum í gær átti Skertl og Toure í mestu erfiðleikum að verjast út um allann völl. Johnson, Lucas og Gerrard voru ekki skila neinu varnarlega að mínu mati og því varð mjög auðvelt fyrir miðjumenn Hull að setja aukinn þunga á varnarlínu LFC.

  LFC vantar nauðsynlega að hreinsa út af miðjunni, versla góða miðjumenn með reynslu og hafa getu, form og vilja til að hlaupa út um allann völl. Ég er orðinn langþreyttur að horfa á Lucas og Gerrard á miðjunni. Vitrari menn mega svo sannarlega leiðrétta mig en hvenær gerðist það síðast að Gerrard fór oftar en 1 sinni í tæklingu í leik? Mig minnir að hann hafi ekki tæklað einu sinni í leiknum á móti Hull (má vera að ég hafi misst af því 🙂 )

  Sterling sem er kantmaður að upplagi sýndi og það sannaði að hann var bara nokkra mánaða wonder og hann er að taka pláss sem auðvelt er að fylla með öðrum leikmanni sem hefur meiri getu en hann. Hann er alveg skelfilega lélégur. Victor Moses er sóknarmaður að upplagi er það ekki rétt til getið hjá mér (endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál)? Því í andskotanum er verið að nota sóknarmann sem kantmann? Er ekki komið nóg af slíku rugli að spila menn út úr stöðum alltaf hreint?

  Brendan verður að stíga upp og fara læra af mistökum sínum. þegar verið er að mæta liðum sem eru lakari þá þarf að vera sama blóð á tönnunum eins og þegar verið sé að spila á móti Everton eða Man U. Maður gerir þá kröfu ef árangur á að nást að slíkt sé til staðar.

  LFC hefur ekki efni á vanmeta eða slaka á móti neinu liði þegar sagan síðastliðin 20 ár í deildinni er skoðuð.

  Áfram Liverpool.

 7. Fyrir það fyrsta þá skil ég þennan pistil fullkomlega. Ekkert að því.

  Hins vegar er ég hrópandi ósammála því að Joe Allen hefði átt að halda sæti sínu í liðinu. Hann var mjög dapur gegn Everton og gegn líkamsstyrk og leikaðferð eins og í gær skildi ég fullkomlega að Hendo væri settur inn á miðju með Gerrard og Lucas. Vandinn er þá sá að kantmenn eigum við ekki í kippum. Þá vantar.

  Ég er líka á því að rétt hafi verið að færa til í hafsentaparinu. Agger og Skrtel virkaði ekki gegn Everton að mínu mati og skiljanlegt að færa til. Hann valdi Toure fram yfir Sakho í þá breytingu og því var ég ósammála.

  Það að drulla upp á bak í útileikjum…þar erum við sennilega ósammála líka. Þetta er að mínu mati fyrsta skita vetrarins á útivelli og ekki til að vekja mér neitt annað en ógleði. En á móti leyfi ég mér að hrósa Hull og Steve Bruce fyrir þeirra upplegg sem var afskaplega gott og ég er handviss um að þetta lið verður aldrei í fallbaráttu í vetur.

  Enska deildin á þetta ennþá til, að lítil lið nái sér á fulla ferð og staðan í deildinni sýnir það auðvitað best að það er bara eitt lið sem hefur ekki misstigið sig að viti ennþá. Arsenal.

  Ég er ekkert rúllandi af hamingju í dag, öðru nær. Þetta var vond frammistaða leikmanna sem áttu að gera betur. Við erum með betra lið á pappírnum en Hull City og gæðin inni á vellinum í gær áttu að duga. En léleg frammistaða margra leikmanna okkar og frábær frammistaða nokkurra Hull leikmanna þýddi það að við töpuðum.

  Ég er sannfærður í mínum kolli að Daniel Agger og Joe Allen hefðu litlu breytt um það, en eðli skrifa eins og okkar núna daginn eftir leik er að þegar leikur er liðinn þá veltir maður upp hverju ætti að breyta þegar illa gengur.

  Vonandi kallar þessi skita gærdagsins á tvo heimasigra núna gegn Norwich og West Ham og svo því að búið verði að finna það lið sem er líklegt til að taka stig á erfiðum útivöllum…þá hefur skita gærdagsins margborgað sig.

 8. Ég er sammála flestu þarna. Nema þá sérstaklega punkti nr. #1.

  Leikmannagluggarnir hjá okkur síðan Brendan Rodgers tók við hafa verið það lélegir að við “verðum” að spila með s.a. helminginn af þeim leikmönnum sem hafa verið fastamenn síðustu 4-5+ ár. Þetta eru Agger, Skrtel, Glen, Lucas, Gerrard (og Flanno). Ofan á þetta kemur svo unglingur sem er ekki tilbúin (óvíst með hvort hann verði það ehtímann) og lánsmaður sem kemst eflaust ekki í 18 manna hóp hjá Chelsea.

  Hvenær kemur sá tímapunktur að við verðum hugsanlega að viðurkenna að þessir ofangreindu leikmenn, sérstaklega þessir reynsluboltar, eru e.t.v. ekki nægilega góðir (á auðvitað ekki við um alla)? Hve lengi verða menn að vera að spila “undir getu” að mati manna til þess að það skráist sem regla frekar en undantekning? Þetta eru jú leikmenn sem hafa verið að lenda í 5-8 sæti undir fjórum stjórum síðustu 4-5 ár. Er það í alvöru alltaf stjóranum að kenna? Já eða eigendunum (YANKS OUT!)?

  Þetta er alls ekki rant í kjölfar hrillingsins í gær. Þetta er bara pæling sem ég hef nefnt oft hér áður og t.a.m. í síðasta podcasti.

  Skoðum þessa leikmenn aðeins, og þá sérstaklega þrjá:

  Lucas

  Ég dýrka Lucas. Það sem strákurinn gekk í gegnum hér á árum áður. Var hengdur eftir hvern leik, það af eigin stuðningsmönnum. Alltaf kom hann til baka. Alltaf gaf hann sig allann í verkefnið. Honum og Masch var stillt upp saman eftir brotthvarf Xabi, þá var hann tekin af lífi fyrir að vera ekki Alonso.

  Hann steig upp, átti frábæra 12-18 mánuði. Frábæra. Var á tíma farinn að rate-a hann hærra en ég gerði með Masch, sem er mikið því hann var alltaf í smá uppáhaldi hjá mér.

  Hann lenti svo í erfiðum meiðslum sem hann hefur ekki alveg jafnað sig á ennþá, karlanginn. Þetta er viðkvæmt subject hjá mörgum, ég geri mér grein fyrir því og ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að segja að hann sé lélegur, að við eigum að henda honum, selja, bekkja eða hvað það nú heitir. Þetta er bara pæling.

  Allir geta tekið undir það að það sem skilur virkilega góða leikmenn frá öðrum meðalljónum er stöðugleiki. Þ.e. að geta spilað á háu leveli í lengri tíma. Ef þetta er ekki krítería sem þarf til þess að teljast toppklassa leikmaður þá myndum við flokka Charlie Adam sem slíkan.

  Því spyr ég. Þegar menn eru mánuði frá 27 ára afmælisdegi sínum. Hvað þurfa þeir að hafa spilað vel lengi til þess að vera taldnir top top leikmenn eins og við höfum gert í tilviki Lucas okkar síðustu 2-3 ár? Hann er búinn að vera hjá Liverpool síðan það var ennþá góðæri, og verið að spila mjög vel í 12-18 mánuði á þeim tíma. Hvar liggja skilin á milli undantekningar og reglu ? Hvenær var hann að spila á “sínu leveli” og hvenær var hann að spila undir/yfir getu?

  Þeir sem þekkja til mín og minna skrifa vita að ég hef varið hann með kjafti og klóm í lengri tíma og þessu er ekki hent fram í bræði. Þetta er að mínu mati bara mjög sanngjörn pæling.

  Skrtel:

  Ég hef alltaf sagt að Skrtel sé ekki nægilega góður fyrir Liverpool. En ég hef líka alltaf sagt að ef menn eru að spila vel eiga þeir að halda sæti sínu. Því hefur Skrtel verið fyrsti maður á blað síðan í sigrinum gegn ManUtd hér í september.

  Það eina stöðuga í leik Skrtel, síðan hann kom til LFC, er að hann hefur ávalt tekið kafla þar sem hann hefur verið hrikalega slakur. Mönnum finnst hann rosalega ógnandi í útliti og tala um slátrara oft á tíðum. Það er samt afskaplega lítið í leik hans sem réttlætir slíka samlíkingu. Hans akkilesarhæll er þvert á móti stórir og sterkir framherjar. Nú er annaðhvert lið með slíka framherja. Afhverju ætli þessi framherji Hull sem ég nenni ekki að muna nafnið á, hvað þá að fletta upp, hafi spilað í stað Graham í gær? Þetta er ekki beint nýtt vandamál hjá okkur.

  Stöðugleiki, stöðugleiki, stöðugleiki. Það er eitt sem að engin segir í sömu setningu og Skrtel. En er samt sem áður krítería sem að góður leikmaður verður að búa yfir.

  Agger:

  Ef það er til handbók um það hvernig á að koma sér í uppáhald hjá stuðningsmönnum LFC þá er þetta þrennt eflaust í top fimm:

  a) Kallaðu Drogba væluskjóðu og leiktu grátur hans eftir fyrir framan myndavélarnar, í undanúrslitum CL og beint fyrir framan dómaran þegar hann lætir sig detta í 100 sinn.

  b) Gefðu Torres olnbogaskot í fyrsta leik sínum fyrir Chelsea, FAST. Og fáðu ekki einu sinni spjald fyrir það.

  c) Fáðu þér YNWA tattú. Helst á hnúana. .

  Agger hefur spilað 19 deildarleiki per season að meðaltali síðan 2005-2006. Hann náði tvisvar sinnum yfir 20 leiki á sínum fyrstu 6 tímabilum sínum hjá LFC. Síðustu tvö tímabil hefur hann hinsvegar náð 27 og 35 leikjum. Þau eru líka þau slökustu, að mínu mati, sem hann hefur átt í rauðri treyju.

  Fyrir utan meiðsli, hver er nákvæmlega stöðugleikinn í leik Aggers? Auðvitað er margt þarna sem spilar eflaust inní og helst saman í hendur. Markmaður spilar oftast betur með góða vörn fyrir framan sig, og vörnin er betri með góða miðju fyrir framan sig. Þarna er eitthvað sem er ekki að virka hjá LFC og hefur ekki gert síðan við vorum með besta miðju í heimi með þá Alonso, Gerrard & Masch.

  Þú uppskerð eins og þú sáir

  Ef þú ert með fimmta-,sjötta- eða sjöunda besta leikmannahópinn í deildinni. Þá eru allar líkur á því að þú lendir í fimmta, sjötta eða sjöunda sæti í deildinni. Shocking, i know!

  Rafa mistókt að koma þessum köllum í meistaradeildina (undir það síðasta). Woy mistókst það einnig (ótrúlegt, en satt), sama með Kenny og ekki gerðist það í frumraun Brendan Rodgers. Hvað er sameiginlegt með þessum stjórum? Þarna eru menn sem hafa unnið La Liga, ensku deildina, Champions League, sænsku deildina (ég bara varð) og svo mætti áfram telja. En hvað er sameiginlegt með þeim öllum? Jú, sirka helmingurinn af byrjunarliðinu. Menn geta lesið í það eins og þeir vilja.

  Er Brendan þá Messías?

  Ég veit það ekki. Ég á virkilega erfitt með að átta mig á því hvort að það sé svona margt jákvætt hjá LFC eftir að hann kom inn um dyrnar, eða hvort að ég þrái svona heitt að hann sé hinn eini rétti, snillingur, maðurinn sem við munum tala um um ókomin ár. Ég bara veit það ekki.

  Hann segir réttu hlutina, það vantar ekki. En það mun ávalt koma að þeim tíma sem þú verður að koma með eitthvað annað að borðinu en bara orð. Verður að geta sýnt fram á árangur til að réttlæta veru þína í stjórastólnum.

  Ég er ennþá Brendan maður. Það eina sem truflar mig rosalega eru leikmannakaupin hjá honum. Einn frábær gluggi, tveir svo slæmir að þeir leikmenn sem voru keyptir á tugi milljóna punda bæta nákvæmlega engu við lið sem hefur verið í 7 og 8 sæti á síðustu árum.

  Það er erfitt að kaupa gæði þegar þú ert ekki bara að keppa við trilljónalið og verðbólgu í launamálum leikmanna á Englandi. Heldur ert þú að gera það án þess að geta boðið uppá CL. Þú getur ekki einu sinni boðið uppá EL, því við slefuðum ekki inn í hana bakdyrameginn, í gegnum cup-run á síðasta ári.

  Ég gef þeim það, það er erfitt að draga að proven top talent undir þessum kringumstæðum. En það afsakar samt ekki Assaidi, Borini, Alberto, Aspas, Allen, Moses, Sahin o.s.frv. Var ekki sagt að tölfræðin í leikmannakaupum væri sú að s.a. 1 af hverjum 2 gengu upp? Við hljótum að vera eyðileggja það meðaltal allsvakalega.

  Þessir ofangreindu leikmenn komast ekki í Stoke eða Sunderland. Alberto kemst ekki í tíuna þegar tían er meidd. Cissokho nær svo ekki að slá hægri bakvörðin Flanno úr liðinu og Allen gæti ekki skorað þó hann fengi hálftíma, einn á vellinum fyrir framan opið mark.

  Enska deildin er erfiðasta deild í heimi. Sjáið bara töfluna. Það eru 6-7 lið sem eru virkilega öflug. Allir eru að tapa á móti öllum. En við erum ennþá í fjórða sæti, en hve lengi?

  Þetta er maraþon. Við vitum að með okkar núverandi eigendur verður ekkert quick-fix. Við erum samt sem áður mun mun mun betur staddir en við vorum fyrir tveimur árum. Eitt skref áfram er eitthvað sem við horfum á, það er erfitt að taka þau tvö eða þrjú nema að geta eytt hundruðum milljóna punda á einu bretti.

  En við verðum að fara að ávaxta fé okkar betur. Ef við getum ekki dregið til okkar betri leikmenn en þessa sem við höfum gert í s.l. tveimur sumargluggum, þá er e.t.v. betra að bíða þar til betri leikmenn eru í boði. Var t.d. svona mikil þörf á að lána Suso og kaupa Alberto á einhverjar 6-7 millur? Það er margt skrítið þarna, sérstaklega þegar kemur að leikmannakaupum. En það er einnig hellingur sem er jákvæður. Einn tapleikur gegn Hull breytir þar engu. En allir þessir punktar hjá KAR eiga svo sannarlega rétt á sér og er ég sammála þeim öllum nema þeim fyrsta. Brendan Rodgers er ekkert undanskilinn gagnrýni frekar en leikmenn eða eigendur.

  Að mínu mati erum við ekki með top 4 leikmannahóp og getum því ekki gert kröfu um top 4 úrslit og spilamennsku. Við erum nær því en við höfum verið í þónokkur ár, en það vantar samt aðeins uppá. Ég er búin að sjá Man Utd, Chelsea, City og Arsenal öll eiga leiki eins og við áttum í gær. Þetta gerist. Hvernig við svörum í kjölfarið skiptir öllu máli.

  Flottur pistill, góðar pælingar!

 9. Ég er farinn að halda að Rogers ráði ekki við þetta starf. Hann sé bara of lítil reynslubolti fyrir þenna heimsfræga klúbb sem Liverpool er.

  ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!

 10. Frábær pistill og umræður. Gott að sleppa upphrópanaumræðunni stundum.

  Þetta eru allt valid punktar. Ég held að Rodgers hafi gert heldur mikið af mistökum þótt hann hafi líka gert marga hluti vel. Það er líka auðvelt að vera vitur eftir á en ég segi eins og Maggi og aðrir hafa líka sagt, lána Sterling, halda Downing. Þetta eru ein mistökin. Eins og þið segið hérna líka er nauðsynlegt að finna réttu varnarblönduna. Það eru líka frábærir punktar hjá Eyþóri að Lucas, Agger og Skrtel eru kannski einfaldlega ofmetnir hjá okkur.

  Að því sögðu þá verður Rodgers einfaldlega að vita hvernig uppáhalds fyrstu 11 líta út. Hann verður líka að vita hvernig fótbolta hann vill að þeir spili. Hann verður líka að vita hvernig hann á að spila gegn liðum sem pressa hátt og eru með stóra og sterka sentera. Ég efast ekki um það í hálfa mínútu að hann geri sér grein fyrir vandamálunum, það er tímafrekara og erfiðara að finna lausnir á þeim sem virka til framtíðar. Ég er á því að hann ætti að spila með Agger og Sakho næstu leiki. Held að þeir séu bestu haffsentarnir okkar. Það er í sjálfu sér svipað með haffsenta og markmenn, það er ekki gott að rótera mikið þar og þótt það sé gott að hafa samkeppni um stöður þá verður á endanum verra fyrir liðið að enginn haffsent nái upp því sjálfstrausti að spila óhræddur við að gera mistök. Fyrir utan að þetta skapar endalaust óöryggi hjá markmanninum, bakvörðunum og miðjumönnunum.

  Þannig að mín ráð til þín Rodgers:

  Settu núna Agger og Sakho inn í liðið. Settu líka Cissokho í vinstri bakvörðinn og láttu hann hafa næstu 4-5 leiki. Flanagan er ekki tilbúinn. Hann stendur bara upp úr þegar liðið er að drulla upp á bak.

  Leggðu áherslu á að verjast föstum leikatriðum á æfingum. Ekki samt gleyma sóknarleiknum.

  Meðan Sturridge er meiddur þarftu að nota eins mikla sköpunargáfu og hægt er. Gefðu nú Joe Allen séns næstu 4-5 leiki og segðu honum að standa sig, annars verði hann seldur við fyrsta tækifæri.

  Spilaðu með demantamiðju. Lucas djúpur, Allen og Henderson þar fyrir framan og Gerrard fremstur. Gefðu kallinum smá frelsi.

  Coutinho og Suarez upp á topp. Alveg solid sköpun þar með öfluga miðju þar fyrir aftan.

  Fáðu liðið til að fara aftur í tiki-taka boltann. Láta boltann ganga betur, oftar, þreyta andstæðinginn, horfðu á Fulham leikinn og sjáðu hvernig liðið pressaði. Láttu liðið pressa ofar og taktu skurk í því á æfingum.

  Over and out. 3 stig garanteruð á miðvikudaginn.

 11. Við erum með Suarez, Sturridge, Coutinho, Gerrard og Mignolet sem er okkar kjarni. Það er ekki ljóst hverjir eiga vera í vörninni og tel ég þess vegna engan lykilmann vera þar. Bakverðirnir hafa verið meiddir og er það slæmt. Við erum bara í miklu ströggli núna og ég myndi vilja sjá Brendan einfaldlega pakka í vörn og fara vinna 1-0 sigra eins og í upphafi tímabilsins. Hætta að spila einhvern fancy fótbolta sem að Henderson, Moses og Sterling ráða engan veginn við og leggja bara áherslu á að halda hreinu og vinna ljótt.

 12. Deildin hefur aldrei verið jafn erfið eins og hún er í dag. Tökum nokkur dæmi um það, Man city hafa tapað gegn Sunderland úti, Aston Villa úti, Cardiff úti og gerðu jafntefli við Stoke úti. Man utd hafa tapað gegn West brom heima, gerðu jafntefl við Southampton heima og jafntefli við Cardiff úti. Chelsea hafa gert jafntefli við West brom heima, tap gegn Newcastle úti og tap gegn Everton úti. Arsenal hafa tapað gegn Villa heima og jafntefli við West Brom úti.. Öll þessu stóru lið hafa verið að tapa stigum gegn litlu liðinum sem segir okkur að þessi deild hafi aldrei verið jafn sterk. Ég efast ekkert um það ef að þessi leikmannahópur hjá Liverpool hefði verið uppi fyrir nokkrum árum þá værum við að berjast um toppsætið. Og það má ekki gleyma því að Liverpool er í 4 sæti eftir 13 leiki ekki var ég að buast við því. Öll lið eiga lélega kafla og vonandi erum við að ganga í gegnum þann kafla núna og náum að rífa okkur uppúr þessu og við höfum kjörið tækifæri til þess gegn Norwich og West ham. Það koma alltaf skitur á tímabili! hjá öllum liðum svo menn eiga ekkert að vera froðufella yfir þessu.

 13. Tjái mig helst sem minnst um miðverði eftir að hafa afskrifað Hyypia of snemma. En Skrtel finnst mér langt í frá nægilega traustur til að vera byrjunarliðsmaður í Liverpool.

  Ég er einn af þeim sem tel nánast óraunhæft að ná meistaradeildarsæti með þennan mannskap. Finnst sumarkaupin ömurleg og þori ekki að hugsa til þess að Suarez fari annað.

  Varðandi Rodgers, þá sé ég ekki alveg hvert verið er að stefna. En eitt hefur breyst eftir hann tók við, það er orðið gaman að fylgjast með Liverpool spila, ég er spenntur fyrir hvern leik og þrátt fyrir hræðilegan leik gegn Hull þá hef ég ennþá fulla trú á skemmtilegum leik næst. Og þremur stigum.

  En manager í Ensku spilar í 3 leikja deild, vinni hann alla leikina er hann bestur en tapi hann öllum er farið að tala um að reka hann.

  Á heildina finnst mér Rodgers enn örfáum stigum yfir væntingum og spilamennskan góð miðað við gæði leikmanna. Nokkuð gott bara.

 14. Eftir svona áfall fellur maður alltaf í sömu gryfjuna, byrjar að blóta nokkrum vel völdum leikmönnum í sand og ösku, vefengja þjálfarann og hans ákvarðanir. Nokkrum klukkustundum síðar skoðar maður töfluna og fer að hugsa hlutina í aðeins stærra samhengi. Bætingin sem hefur átt sér stað frá því að Rodgers tók við er ótrúleg, ef tekið er saman gengi liðsins frá síðustu áramótum erum við að tala um 3-4 besta árangurinn af liðunum í deildinni. Það tekur sinn tíma að púsla þessu saman á nýjan leik eftir öll trúðslætin sem að hafa verið í gangi hjá Liverpool síðustu 4 ár, innanbúðarvitleysa, Roy Hodgson og svo já ótrúlegt en satt aftur Roy hodgson hugsa að Liverpool verði ekki lausir við þann draug fyrr en að hann er kominn á ellihæli! Það má gagnrýna margt af því sem að Brendan hefur gert hingað til, en ég held að flest allir geti verið sammála um það að jákvæðu hlutirnir vega meira en þeir neikvæðu: hann náði að halda Suarez í sumar, keypti Sturridge og Coutinho, tók hárrétta ákvörðun með því að skipta út Reina fyrir Mignolet sem að hefur örugglega skilað sér í nokkrum stigum í premier league hingað til. Þetta er allt á réttri leið, Rodgers á eftir að finna meira jafnvægi í liðsuppstillingum sem á líður og ég held að þessum útivallaskitum fari minnkandi eftir því. Nú eru framundan tveir heimaleikir á næstu 6 dögum á móti liðum í neðri hluta deildarinnar, ég hef fulla trú á því að stjórinn gíri sína menn upp og taki 6 stig úr þessum leikjum, á meðan að við erum að taka þessa leiki heima á móti þessum lakari liðum verðum við í baráttu um 4.sætið til loka!

 15. Algerlega frábærar umræður hér! Menn eru hreinlega að skrifa sig frá hörmungunum sl. sunnudag sem virkar oft helvíti vel 🙂

  Auðvitað má gagnrýna BR. Hann er alls ekki hafinn yfir gagnrýni frekar en aðrir, sérstaklega ef hún er málefnaleg, sem hún svo sannarlega er hér hjá ykkur KOP-síðuhöldurum!

  Eitt atriði sem ég vil kannski koma aðeins inn á, sem væri gott að fá feedback á. Það eru leikmannakaup BR. Það er alveg á hreinu að heilt yfir þá hafa þau ekki verið að takast nægilega vel, allt of mikið af leikmönnum sem eru alls ekki að virka. En er það svo skrýtið? Við erum allir sammála um að við viljum fjárfesta í gæðum, þá helst leikmönnum sem gera strax tilkall í byrjunarlið. Vandamálið sem BR stendur frammi fyrir hins vegar er að þessir leikmenn eru bara sjaldan (eða nánast aldrei) í boði fyrir okkur. Í fyrsta lagi kosta þeir allt of mikið og í öðru lagi þá gera þessir sömu leikmenn kröfu um að spila meðal þeirra allra bestu, þ.e. í Meistaradeildinni. Þessa criteríu uppfyllum við bara ekki í augnablikinu, því miður. Hvað gerum við þá? Jú, við reynum að finna óslípaða demanta, þ.e. unga leikmenn sem lofa góðu en hafa ekki endilega verið að spila á hæsta leveli. Þetta er auðvitað ákveðið gambl sem langt í frá gengur alltaf upp, eins og við þekkjum allt of vel.

  Ég er í þeim hópi hérna sem hef sterka trúa á BR. Ungur þjálfari sem er enn að læra og gerir svo sannarlega sín mistök. Þolinmæði er lykilatriði hér og já, það er svo sannarlega oft látið reyna á hana hjá manni. Man hins vegar einhver hérna hvað Rauðnefur var búinn að stjórna MU lengi þegar hann landaði fyrsta deildartitlinum sínum? Er BR Messías sem mun koma liðinu á þann stall sem við viljum vera á? Ég hef ekki hugmynd um það. Ég vil samt gefa honum lágmark 3 tímabil til að koma liðinu í Meistaradeildina.

 16. Ég verð bara að segja að þessi pistil á alls ekki vel við skíta yfir BR er fyrir neðan alla hellur og ég verð bara að segja að ég er greinilega ekki viti borinn maður að þínu mati því ég tel hann fulkominn í starfið við erum bara en með þunnan hóp og það mun laggast og það eiga allir lélega spretti þar á meðal þjálfarar.

 17. Stuðullinn á Norwich sigur er 12. Það eru teikn á lofti að Liverpool er að fara í gegnum skitu. Það er enginn vinstri bakvörður, framherjarnir eru ekki fitt og vörnin er ekki með sjálfstraust. Maður veit ekki hvað Brendan hefur úr að bjóða, ef hann vinnur næsta leik þá tek ég ofan fyrir liðinu. Núna er liðið eins og það var fyrir áramót í fyrra, menn eru að fylla í skarðið hér og þar án þess að vera beint með sjálfstraustið í hvínandi botni.

 18. Mér finnst BR hafa staðið sig vel hjá Liverpool. Mér finnst eins og að hann virði klúbbinn og leikmenn hafa trú á honum. Hann kemur oftast vel fram í viðtölum og hann hefur verið að leyfa ungum leikmönum að stíga sín fyrstu skref.
  Ef ég skoða leikmannahópa liðana þá eru Man City, Chelsea, Arsenal, Man utd og Tottenham með bettri leikmanahópa en þegar við skoðum bara byrjunarliðið þá er ég á því að við erum ekki eins langt á eftir.
  Fyrir tímabilið þá var maður að vonast eftir því að við næðum að berjast um 4.sætið og held ég enþá í þá von eftir 13 leiki.

  Við erum ekki að ná að kaupa einhverja fyrirfram snillinga til Liverpool í dag. Við erum einfaldlega ekki búnir að gera nóg í deildini undanfarinn ár til þess að stór nöfn vilja koma til okkar.(við hefðum átt að vanda okkur betur eftir 2009 tímabilið til þess að kaupa leikmenn). En við verðum að ná í fleiri leikmenn eins og Sturridge, Coutinho og Sakho til þess að komast ofar. s.s leikmenn sem hafa hæfileika en eru ekki að fá spilatíma hjá öðrum liðum.

  Framistaðan gegn Hull í gær var skelfileg eiginlega jafn léleg og hún var góð gegn Fulham. Þetta er samt langt tímabil og þarf liðið einfaldlega að spýta í lófana og halda áfram. Við erum búnir að spila marga leiki án Suarez, Glen Johnson , Jose Enrique og núna Sturridge og er okkar leikmanahópur ekki tilbúinn í að takast á við þessi missi á þessum stöðum því að þetta eru þær stöður sem við erum veikastir fyrir(það væri t.d engin heimsendir ef einn miðvörður myndi meiðast smá).

  Við erum að fara í gegnum erfiðan tíma núna og ef við viljum eiga möguleika á að hanga í þessum liðum þá þurfum við að vinna Norwitch og West Ham í næstu tveimur leikjum. Deildin er ótrúlega þétt og getur liðið nánast með sigri komist uppí 2.sætið og með tapi alveg niðrí 9.sæti.
  Ég vona að eigendur liðsins sjá sig færa um að styrkja liðið í janúar og byggja áfram upp liðið okkar, því að ég er á þvi að það vantar ekki mikið uppá að við komust í meistaradeildina og ef það tekst þá er hægt að byggja á því.

 19. Ég hef velt einu fyrir mér, hefur Rodgers ekki nógu mikla trú á leikmönnum sínum? Eins og að liðið muni komist ekki af án Sturridge. Mér finnst allt í lagi að segja það við eigandann, en óþarfi að henda því í fjölmiðla. Ég myndi frekar segja, “það er mjög slæmt að missa Sturridge út, en þetta gefur öðrum leikmönnum tækifæri á að stíga upp”.

  Og í ljósi þess hve útileikmenn okkar skila fáum mörkum þá verðum við að spila með tvo upp á topp. Ég held að það sé alveg spurning um að gefa Aspas sjéns upp á topp við hlið Suarez. Getur ekki verið verri en Moses og Sterling í gær.

 20. afhverju þarf alltaf að snúa sér að rodgers þegar einn skíta leikur kemur .. hvernig væri nubara að fara skoða leikmennina sem eru settir út og fá fúlgu fjár til aðsparka í anskotans bolta. kannski eru sumir leikmenn sem við hælum svakalaega þegar við vinnum ömurlegt fulham lið baraa ekki eins góðir og menn eru bunir að láta vera..

 21. Ein af astaedum tess ad mer finnst kop svo skemmtileg sida er su ad mer( og fleirum) VITUM tad ad engir ahugamenn um fotbo.ta i heiminum ofmeta sitt lid jafn mikid og poolarar a kop 🙂 Ivar orn her ad ofan er kannski adeins farinn ad atta sig a tvi, en uppahalds kommentid mitt sem eg hef lesid a kop kom fyrir leikinn a moti arsenal sem tapadist 2-0, ta skrifadi einhver her: einsog stadan i dag er hja tessum lidum kaemist enginn i arsenal i liverpool lidid i dag. Hilarious stuff 🙂

 22. Takk fyrir góðan pistil. En eitt til að gera stöðuna með Suso og Luis Alberto enn kjánalegri, þá er Suso rúmu ári yngri í þokkabót!

 23. Góður pistil og skiljanlegar pælingar. Ég er einn af þeim sem finnst erfitt að skilja þessar róteringar á miðvörðunum okkar. BR þarf að halda sig við Agger og Sahko, í nokkra leiki. Það er ávísun á að halda hreinu.

  Það var nálægt því að ég hefði þurft áfallahjálp eftir að hafa horft á þessa HÖRMUNG í gær. Þvílíkt skelfilegan leik hef ég ekki séð lengi hjá LFC. Vanmat ? “þreyta” eða hvað ?Leikmenn virkuðu gjörsamlega áhugalausir og ekki til í þessa baráttu, Hull sótti og sótti og hefði getað bætt við mörkum.

  Er ekki hægt að mótivera leikmenn fyrir leiki eða hvað ? Nenna þeir þessu ekki ? Getur BR ekki notað hárblásara aðferðina á leikmenn í hálfleik ?

  Ég er alls ekki sannfærður um að BR sé rétti maðurinn fyrir Liverpool FC. En ég er til í að styðja hann áfram, sem og liðið. Vonumst bara eftir að hann troði gömlum ullarsokki upp í mig eftir desember törnina.

  Nú þarf liðið að peppa sig saman, og sýna okkur að gærdagurinn var bara slys.

 24. Bergur Þór segir:

  Ein af astaedum tess ad mer finnst kop svo skemmtileg sida er su ad mer( og fleirum) VITUM tad ad engir ahugamenn um fotbo.ta i heiminum ofmeta sitt lid jafn mikid og poolarar a kop

  Ég veit ekki hvernig er hægt að drepa þessa mýtu. “Við púllarar á kop.is” erum í langflestum tilfellum að tala liðið niður ef eitthvað er. Við viðurkennum fúslega að liðið er með 4-6 besta hópinn í deildinni. Þetta endurspeglast í 95+% commenta, skoðunarkönnun fyrir tímabilið, pistlum, spá o.s.frv. o.s.frv. Samt eru alltaf einhverjir þarna úti, sérstaklega Man Utd menn, sem tala um að púllarar halda alltaf að næsta ár sé sitt.

  Um daginn kom hér Everton maður sem ætlaði einu ummæli, af hundrað, yfir á alla flóruna. Að þetta eina comment væri lýsandi fyrir skoðun fjöldans.

  Ég þekki marga púllara, mjög marga. Ég þekki samt ekki einn einasta sem hefur haldið því fram og ekki einu sinni látið sig dreyma um að félagið væri að fara vera meistari síðustu 4-5 árin. Líklega var það síðast í kringum 2008-2009 þegar við vorum í öðru sæti.

  Ég fatta því hreinlega ekki hvað menn eiga við þegar þeir koma með svona fullyrðingar eins og þú kemur með. Nema auðvitað þeir ætli að telja minnihlutaálit manna hér inni, þá erum við að tala um kannski 1% ummæla, og heimfæra það yfir á alla aðra sem hér stunda málefnalega umræða (öllu jafnan). Jú, eins og þú vísar í varðandi Arsenal leikinn.

  Ef þú lest þennan pistil og öll þau ummæli þá myndi ég telja að ástæða þess að þú villist hér inn sé einhver allt önnur. Kannski sú að þinn klúbbur heldur ekki úti eins góðri síðu eða þú ert kominn með leið á Moyes out umræðunni, 13 leiki inn í tímabilið. Ef þú ert kominn inn á það að alhæfa eitthvað út frá einstöku commentum þá getum við alveg eins talið að öll íslenska þjóðin sé sömu skoðunar og virku pennanir í commentakerfi DV.

 25. Góður pistill. BR er að geta mikið sem maður verður að hrósa fyrir en hins vegar er líka margt sem hann þarf að laga. Ég skil alveg að breyta aðeins, það eru margir leikir í des og þá reynir á hópinn okkar. Hann er bara að breyta of mikið og of oft. Svo verður hann að taka það á sig þegar hans breytingar eru ekki að skila neinu. Ekki bara kenna leikmönnunum um. Ef við kíkjum á leikinn á móti Hull þá var það augljóst frá byrjun leiksins að þetta var ekki að ganga. Akkuru að bíða fram á 65 mín með að reyna að laga það. Þjálfarar með bein í nefinu myndu gera breytingu strax í fyrri hálfleik.
  Ég er alls ekki ósáttur við BR, langar bara að hann eins og þið að hann finni kerfi og taktík og haldi sig við hana. Móses hefði alveg getað spilað frammi með LS eða Aspas eða þá gefa ungu leikmönnum sjens. Skil ekki þetta kerfi sem hann notaði á móti Hull.
  Núna er bara að sjá hversu margar breytingar hann mun gera á miðvikudaginn.

 26. Að mínu mati leiðinlegur svartsýnispistill og ekki hugarfar sem sýnir stuðning við stjórann! Ég hef enn trú á því að við lendum ofar í töflunni seinustu ár… og ef við endum ekki í topp þrem þá er það ekki Brendan að kenna! hafið þið séð hópinn hjá hinum stóru liðinum?

 27. Gunnar, þetta er meira reality check hjá okkur. Þetta byrjaði allt of vel í haust og kannski hefur liðið verið að overperforma á sama tíma og andstæðingarnir hafa átt vonda leiki, á móti okkur þá. Semsagt staðan kannski orðin betri en hún raunverulega er, aðallega í huga okkar stuðningsmanna. Það er alveg klárt frá mínum bæjardyrum séð að það væri þvílíkur sigur að ná að komast í meistaradeildina á næsta ári, og ég var í alvöru að vona að það gæti gerst, eftir þessa fínu byrjun. Kannski er búið að núllstilla væntingarnar, og þó.

  Eigum við ekki bara að vona að þetta hafi verið virkilega vondur dagur á skrifstofunni, breytingarnar frá Everton leiknum voru greinilega ekki að hjálpa liðinu. Þeir sem komu inn bættu klárlega ekki liðið.

  Í alvöru ég hef ekki séð liðið leika svona lélega lengi og ég vona að það verði bara mjög langt þangað til að ég sjái það aftur spila svona illa og þeir verða að fara stoppa lekann í vörninni án þess að það komi í hausinn á okkur með góðu framspili af miðjunni.

  Glasið mitt er semsagt hálft núna, ég vona að það verði hálffullt fljótlega.

 28. Rodgers talaði um skort á gæðum. Hann keypti Sakho (17m), Allen (15m), Borini (11m), Aspas (7m), Alberto (7m) og Ilori (7m). Samanlagt er þetta um 64m pund. Spurning um að fjárfesta ögn betur?

  Það er eins og Sakho kaupin hafi verið panic kaup eða kaup sem hann hafði ekkert val um. Missir af Mkhitaryan, Costa og Willian sem eru allir bullandi sóknarsinnaðir en kaupir varnarmann á 17m? Einnig kaupir hann Alberto en selur leikmann sem er betri. Mér finnst þetta allt voða furðulegt. Annars spáði ég liðinu 6-7 sæti og stend ennþá við hana, við þurfum á öflugum janúarglugga að halda.

 29. Ég held að næstu 2 leikir gefi okkur 6 stig og við verðum aftur í gírnum og búnir að gleyma þessu tapi. Segi það og skrifa.
  Nei í allri alvoru já þetta var skitan uppá bak en eins og hefur sést þá eru “litlu” liðinn að stela stigum af þeim stærri.
  Neibb ég hef ekki áhyggjur af þessu.

 30. Ég hef verið ósáttur með síðustu tvo sumar glugga. Brendan þarf að fara finna út hvaða leikaðferð hann vill láta Liverpool spila. Pérsónulega finnst mér meðan José Enrique er meiddur og Glen Johnson ekki kominn í sama form og fyrir meiðslinn. Þá þurfum við fara í þriggja manna varnarlínu. Ekkert endilega 3-4-1-2. Það má skoða aðrar útfærslur eins og 3-6-1 eða 3-5-1-1. Helst að við yfirfyllum miðjuna og nota hápressu til að færa spil okkar ofar völlinn.

 31. Byrjaði allt of vel?

  Erum við í alvörunni búin að afskrifa LFC eftir þennan leik í gær???

  Bara búin að ákveða að blaðran sé sprungin?

 32. BR er nákvæmlega eins og búast má við af ungum knattspyrnustjóra með mikla hæfileika. Oftast brilljant en stundum slakur. Ef mig misminnir ekki eru aðeins Villas-Boas og Martinez yngri en okkar maður af þeim sem þjálfa í PL.

  Ekki þarf annað en að líta til ummæla hans eins og “death by football” og alla tiki taka fabúlasjónina til að átta sig á að ákveðinn barnaskapur er í gangi. Þess á milli talar hann eins og sá sem valdið hefur og BR kann á fjölmiðla betur en flestir.

  Þannig heillar BR stundum en stundum ekki sem gerir það að verkum að mikill sannleikur er í orðum Kristjáns Atla að vandfundinn er sá Púllari sem er 100% sannfærður um BR.

  En ef horft er á þennan 18 mánuða þroskaferil kemur í ljós að BR er hægt og bítandi að bæta sig og lið sitt á öllum sviðum. Einn og einn leikur þar sem allt fer fjandans til er því ekkert til að fárast yfir.

 33. Skil ekki af hverju menn eru að kvarta yfir því að Suso sé á láni , hann er fá nauðsynlegan spilatíma hjá Almeria og kemur örrulega til baka sem töluvert betri leikmaður vilja menn freka vilja að hann væri á bekknum eins og sterling og alberto væri það betra fyrir þroska leikmannins?

 34. Að eyða tíma í þennan lestur
  tekur bæði tíma og orku.
  Menn að ræða um hver er bestur,
  niðurstaðan er ekki Skrtel.

  Nú er liðið með meiddan mann
  hann skorar lítið á Standford Bridge
  þið ættuð nú að þekkja hann,
  Jú auðvitað er það Sturridge.

  Grátum ey þótt hann sé frá,
  treystum á að Brendan velji rétt.
  við verðum bara að styðja þá
  því við vinnum næsta leik svo létt!

  Við vitum vel að ungir menn
  geta verið alger flón.
  Skulum bara styðja þá og
  syngja You Never Walk Alone!

  Ég veit að þetta er ekki með rétta stuðla og höfuðstafi, en það skiptir engu máli… bara að þetta geti skilað 3 stigum þá er ég sáttur 😉

  Gaman að lesa góðan pistil og frábær comment!
  Þeir sem eru að fara á leik í vikunni eða næstu helgi þá sé ég ykkur með bjór í annari! YNWA!

 35. „Að mínu mati leiðinlegur svartsýnispistill og ekki hugarfar sem sýnir stuðning við stjórann! Ég hef enn trú á því að við lendum ofar í töflunni seinustu ár… og ef við endum ekki í topp þrem þá er það ekki Brendan að kenna! hafið þið séð hópinn hjá hinum stóru liðinum?“

  Hvað sýnir stuðning við stjórann? Að hrósa honum sífellt fyrir flott útlit, mikið gáfnafar og allt það jákvæða við hann og láta eins og hitt sé ekki til? Ef ég nefni einhvern tímann upphátt eitt af litlu atriðunum í fari konunnar minnar sem pirra mig stundum, þýðir það þá að ég elski hana ekki?

  Þetta er svo vitlaust hugarfar að það hálfa væri nóg. Ég margtók það fram í pistlinum að ég er hrifinn af Rodgers og styð hann. Engu að síður má ég tala um gallana hans, því hann er ekki fullkominn, án þess að vera sakaður um lélegan stuðning.

  Hinu eru ég og aðrir margbúnir að svara hér að ofan. Það að vera ekki með sömu breidd og City, Chelsea o.sv.frv. er ekki afsökun fyrir tapi gegn Hull, sérstaklega ekki þegar liðið er ekki í neinum öðrum keppnum og því ekki að drepast úr leikjaálagi.

  Og Maggi – það er enginn að gefast upp, vinur minn. Ég býst fastlega við að Liverpool vinni næstu tvo leiki og komi sér aftur á beinu brautina, en ég býst líka við að við endum fyrir neðan fjögur efstu nema að veruleg styrking eigi sér stað í janúar OG að Rodgers finni lausn á a.m.k. meirihluta þessara stóru spurninga sem ég velti upp. Það er ekki uppgjöf. Ég sé liðið alveg eiga séns á topp fjórum en ég hef áhyggjur af að endurtekin mistök þjálfarans á leikmannamarkaði og á vellinum verði til þess að það takist ekki.

 36. Mjög góður pistill og mjög svipaðar pælingar og hafa verið að brjótast um í kollinum á mér undanfarið.

  Heilt yfir er ég sáttur við Rodgers og hef ennþá mjög mikla trú á honum sem stjóra Liverpool. Núna er samt komið að þeim tíma að liðið fari að sýna meiri stöðugleika og haldi áfram að bæta sig. Árangurinn eftir áramót 2013 var miklu betri heldur en fyrir áramót og hefur það gengi haldist ágætlega í byrjun þessa tímabils og staða Liverpool í deildinni er ennþá góð. Það er líklega alls ekkert óeðlilegt ef það kemur eitthvað bakslag hjá liðinu á þessu tímabili, slæmur kafli og vonandi verður stigasöfnunin ekki mikið verri en í undanförnum leikjum.

  Það er samt margt sem ég hef ekki alveg skilið hjá Rodgers og margt af því hefur verið rætt hér. Holningin á liðinu hefur mér ekki þótt góð allt þetta tímabil og spilamennskan hefur sjaldnast verið að heilla mig. Fyrir því eru nokkrar ástæður

  Vörnin

  Eins og upptalning Kristjáns sýnir þá er hringlandahátturinn í vörninni allt að því glæpsamlegur. Fyrir það fyrsta erum við með nýjan markmann og því hjálpar það engum að hafa nýja varnarlínu fyrir framan sig í hverjum leik sem og mismunandi útfærslur af varnarleik.

  Rodgers gafst upp á Skrtel á síðasta tímabili og fékk tvo leikmenn inn í hans stöðu og sá þriðji kom á svipað mikinn pening og Skrtel kostaði Liverpool á sínum tíma. Samt er hann nánast búinn að spila alla leiki Liverpool í vetur. Já hann var flottur gegn United og hefur átt ágæta leiki en hvað ætlar Rodgers að gera? Nota Skrtel áfram eða selja hann í janúar?

  Agger hefur verið inn og úr liðinu eins og Skrtel og ég sé ekki hvernig þetta skapar stöðugleika, ekki frekar hringlið með að spila stundum með tvo miðverði, stundum þrjá og stundum jafnvel fjóra.

  Agger og Skrtel hafa ekki spilað eins vel og þeir gerðu undir stjórn Benitez þrátt fyrir að vera á besta aldri, þeir hafa klárlega ekki verið að bæta sig undanfarin ár svo mikið er ljóst. Mögulega eru þeir bara ekki að passa í leikaðferð þjálfarans. Þeir gerðu það svo sannarlega ekki hjá Hodgson og varla Dalglish heldur þó það tímabil hafi verið skárra.

  Sakho spilar sinn besta leik í nokkur ár þegar hann kemur Frökkum á HM en er svo á bekknum næstu tvo leiki á eftir hjá Liverpool. Toure hefur spilað ágætlega, dalað mikið undanfarið reyndar en ætti að mínu mati að vera varaskeifa í flestum tilvikum hjá okkar mönnum.

  Hvað er að frétta með Cissokho veit ég ekki, er hann meiddur eða svo lélegur að Flanagan er talinn betri kostur sóknarlega og varnarlega, vinstra megin? Cissokho er búinn að vera fastamaður í góðum liðum á Spáni og í Frakklandi undanfarin ár. Flanagan stóð sig vel gegn Everton og raunar Hull líka en hann bætir voðalega litlu við leik Liverpool.

  Það er svo bara komið að bænastund þegar Johnson er meiddur.

  Miðjan

  Hér finnst mér helsta vandamál Liverpool liggja. Houllier og Benitez forðuðust það báðir að nota Gerrard á miðri miðjunni þegar hann var á besta aldri og fyrir mér hefur hann ekki verið að heilla mig í þessari stöðu undanfarin ár. Nema þá helst sóknarlega þar sem hann er ennþá að hafa úrslitaáhrif á leiki (oftar en ekki með föstum leikatriðum).

  Ég er alls ekki að halda því fram að hann sé vitavonlaus en ég er ekki viss um að hann væri svona stór póstur í þessu hlutverki hjá öðrum liðum í topp helmingi deildarinnar. Ég hef margoft sagt það áður en fyrir mér ætti Gerrard að vera með samherja sem vinna megnið af skítverkunum fyrir hann og hafa hann í grend við markið þar sem hann hefur alltaf gert mest gagn. Samstarf hans og Lucas hefur ekki verið sannfærandi gegn sterkari liðum deildarinnar þó þeir geti pakkað sumum liðum saman. Það gerist æ sjaldnar samt og ég velti fyrir mér hvort þarna liggi partur af ástæðunni fyrir því að flæðandi fótbolti Rodgers er afar sjaldséður um þessar mundir.

  Liverpool með þríhyrning af Lucas, Gerrard og Coutinho getur verið mjög góður með boltann (sóknarlega) og opnað varnir upp á gátt en án bolta (varnarlega) er of auðvelt að gera áhlaup á okkar miðjumenn eins og Everton notfærði sér ítrekað um daginn, sérstaklega eftir að Rodgers gerði breytingar á 60.mínútu.

  Mótrök væru kannski hvort sú tegund fótbolta (“tiki-taka”) væri að skila okkur meiru enda Liverpool skorað mikið allt þetta ár án þess að yfirgnæfa sendingarprósentuna eins mikið. Þegar maður talar um að Allen verði gefinn séns í liðinu þá er ég alltaf að hugsa hann i nákvæmlega sama hlutverk og Gerrard er að spila í dag, hlutverkið sem hann var í hjá Swansea.

  Sama á við um Henderson, hans besta staða er á miðri miðjunni og þá stöðu mun hann líklega leysa á endanum. Hann spilaði þar hjá Sunderland og yngri landsliðum Englands. Hann er ekki betri leikmaður en Gerrard en eins og staðan er í dag held ég að hann myndi skila öllu kraftmeiri vinnslu inni á miðri miðjunni, bæði í vörn og sókn en Gerrard er að gera.

  Lucas er svo að ég held ennþá aðeins vanmetin hjá stuðningsmönnum Liverpool, eða þá að margir séu aftur farnir að vanmeta hans hlutverk. Ég er alveg sammála því að hann mætti fá samkeppni um sína stöðu en hann er að vinna þessa skítavinnu sem sést ekki alltaf og Liverpool gengur jafnan mikið betur með hann inná heldur en ekki. Tilraunastarfsemi Rodgers held ég að hafi annars alls ekkert hjálpað Lucas í vetur og hann virðist stundum vera einn með ansi stórt svæði.

  Sóknartengiliður

  Er Coutinho sá partner sem Suarez þarf fyrir aftan sig? Miðað við síðasta tímabil þá myndi maður ætla það en hann hefur alls ekki náð sömu hæðum á þessu tímabili sem er eðlilegt. Rodgers reyndi í allt sumar að styrkja þá stöðu sem Coutinho spilar og það segir okkur kannski eitthvað um áformin fyrir janúarmánuð. Luis Alberto er fenginn inn á töluverðan pening í nákvæmlega þessa stöðu en fær ekki sénsinn gegn nýliðum þegar Coutinho er meiddur. Til hvers var hann keyptur? Rodgers var óhræddur við að nota Suso og Shelvey í fyrra.

  Kantmenn

  Liverpool vantar all svakalega kantmenn. Moses hefur valdið svakalegum vonbrigðum og fyrir utan einn hálfleik hefur hann nánast engu bætt við leik Liverpool. Honum er smá vorkun að hafa lítið spilað sína bestu stöðu en m.v. frammistöðuna gegn Hull er spurning hvort hann hafi vilja og hungur í þetta level? Hæfileikana hefur hann þegar hann nennir því.

  Sterling er svo líklega ekki einu sinni besti ungi kantmaðurinn á mála hjá Liverpool eins og er eða hann virðist hafa staðnað mikið. Hann má alveg fá mínútur hér og þar en ætti frekar að vera á láni að þroskast sem leikmaður heldur en í jafn stóru hlutverki og hann var gegn Hull. Það er allt of snemmt að afskrifa Sterling en hann þarf nauðsynlega að spila reglulega ef hann á að bæta sig það mikið að hann geti orðið leikmaður Liverpool í framtíðinni.

  Sóknarmenn

  Suarez og Sturridge eru líklega helsta rót þess að Rodgers hefur hringlað svona með leikkerfið og beygt af stefnu sinni hvað varðar leikstíl. Hann er líka að ná því besta út úr þessum leikmönnum og það er ástæðan fyrir því að Liverpool er ennþá með í ár. Ef að þeir lenda í meðslum eða eiga off dag er þetta bara allt að því vonlaust. KAR kom inná það hvað Suarez fékk nákvæmlega enga hjálp í leiknum gegn Hull og þar með var ógnin frá okkar mönnum bara hrofin. Hann var að spila gegn Alex Bruce og fékk ekki færi í leiknum.

  Sumarkaupin.

  Við furðuðum okkur á því í sumar og enn frekar núna. Til hvers var keypt inn þrjá miðverði til viðbótar við þá 3-4 sem fyrir voru í sumar? Þarna hefur eitthvað klikkað. Coates meiðist auðvitað og væri annars líklega farinn. En til hvers var t.d. bætt Ilori við þegar nýbúið er að semja við Martin Kelly? Toure dílinn skil ég vel og tel hann hafa heppnast mjög vel og kaupin á Sakho er mjög spennandi en ég skil illa afhverju hann er dottinn úr liðinu.

  Martin Skrtel fékk varla leik í fyrra eftir ömurlegar frammistöður en varð lykilmaður núna. Rodgers hefur ekki hugmynd um það hvert sitt besta miðvarðapar er og það er vandamál.

  Cissokho díllinn er mjög góður á pappír en ef hann fær ekki meira traust en þetta óttast ég að þessi staða sé pretty much fucked þar til Enrique kemur aftur. Það er svakalega vont mál. Eins mikið og maður heldur með Flanagan þá væri hann ekkert að spila vinstri bakvörð í mörgum liðum í ensku úrvalsdeildinni í ár.

  Við seljum Shelvey og lánum Suso en kaupum Alberto á meiri pening en við fengum fyrir Shelvey. Var ekki búið að fylgjast nægjanlega vel með þeim leikmanni eða var hann bara svona mikið lélegri en búist var við?

  Kaupin á Aspas eru líka alveg skiljanleg og hann er cover fyrir Sturridge og Suarez. Hvað hann bætir hinsvegar við frá Fabio Borini veit ég ekki (hvað þá Andy Carroll).

  Hefði ekki bara verið nær að kaupa einn góðan fyrir þá upphæð sem fór í Alberto, Aspas og Ilori? Auðvelt að sjá þetta núna en þessir strákar eru ekki einu sinni að fá séns til að sýna það hvort þeir geti eitthvað eða ekki.

 37. Ingimundur. Skítt veri með stuðla, höfuðstaði og rímreglur. Og já, meðan að ég man; ekki hætta í dagvinnunni til að taka upp skáldskap.

  En þú ert svo sannarlega með rétta hugarfarið!

 38. Þoli ekki þegar við erum einnig að fara fram úr okkur þegar við töpum. Tímabilið er ekki búið og við höfum enþá bullandi séns á Topp 4. Blaðran er ekki sprunginn eftir 1 slakt tap! Arsenal, City, United, Chelsea og Tottenham eru öll búinn að eiga slaka leiki líka. Eigum fullt eftir og þurfum einfaldlega að halda áfram að berjast. Áfram Liverpool!

 39. Frábærar umræður. Punktur. Ég hef enn trú á Brendan en eins og ég hef bent á áður þá eru þessu leikmannakaup okkar síðustu árin að megninu til klúður. Því miður. Maður skilur hreinlega ekki hvernig hægt er að fara svona illa með alla þessa peninga.

 40. Eytor gudjòns: eg villist aldrei hingad inn enda hef eg ahuga a enska sem og evropska boltanum, finnst einfaldlega ad tetta se langbesta islenska addaendasidan um boltann, arsenal sidan(lidid sem eg held med) er t.d. omurleg. Tad sem eg atti vid um ofmatid a liverpool var frekar um einstaka leikmenn frekar en ad tid haldid ad pool mundi vinna deildina, reyndar a tetta lika vid um rodgers. Godar stundir.

 41. Klukkan 14.00 á sunnudegi höfum við lið sem hefur alla burði til að ná 4. sætinu. Um 90 mínútum síðar er liðið orðið glatað og með vonlausan stjóra eftir eina brotlendingu. Þetta finnst mér hafa verið einkennandi fyrir skrif margra stuðningsmanna liðsins undanfarin ár.

  Er ennþá gríðarlega vonsvikinn yfir þessu tapi gegn Hull um helgina enda var ég farinn að gæla við stórsigur. Það kom hinsvegar á daginn enda fór liðið inn í leikinn með sama hugarfari og ég. Klárt vantmat þar á ferð!

  Ég efast um Rodgers eins og svo margir enda skiljanlegt.
  Kaup hans hafa bætt litlu sem engu við liðið að Sturridge, Coutinho og Mignolet undanskyldum. Þessu verður hann að breyta í janúar – fái hann pening til leikmannakaupa.

  Við erum með frábært byrjunarlið sem getur skákað þeim bestu. Það er hinsvegar ansi brothætt og má ekki við neinum áföllum vegna þess að það veikist til muna við meiðsli og/eða innáskiptingar.

  Örlög liðsins ráðast á janúarglugganum að mínu mati. Ég sé fram á að liðið nái 4. sætinu ef Rodgers nær eins flottum janúarglugga og hann gerði í fyrra.
  Annars óttast ég að liðið nái ekki 4. sætinu og eigi því í hættu á að missa lykilmenn á borð við Suarez og Sturridge næsta sumar.

 42. Klukkan 14.00 á sunnudegi höfum við lið sem hefur alla burði til að ná 4. sætinu. Um 90 mínútum síðar er liðið orðið glatað og með vonlausan stjóra eftir eina brotlendingu. Þetta finnst mér hafa verið einkennandi fyrir skrif margra stuðningsmanna liðsins undanfarin ár.

  Af hverju alltaf þetta um leið og menn velta fyrir sér hlutunum? Jákvæðum eða neikvæðum. Það er alls ekki almannarómur hérna að allt sé ómögulegt og það var heldur ekkert almannarómur fyrir leik að allt væri frábært.

 43. Varðandi leikmannakaupin og liðsvalið þá finnst mér hæpið að gagnrýnina leikmennina sjálfa og þeirra framlag.

  Það er eitt að vera með sama byrjunarliðið leik eftir leik, annað að rótera, og enn annað að treysta ekki leikmönnum á bekknum. Hvað sem því líður, jafnvel þó Brendan sé óánægður með breiddina innan hópsins, þá verður þú ávallt að búast við því sem stjóri að þú þurfir einhverndaginn að grípa til varamannanna. Fyrstu-11 ýmist meiðast eða þarfnast hvíldar.

  Í byrjunarliðinu á móti Hull var:

  1. Kolo Toure sem hafði ekki spilað leik í mánuð.
  2. Victor Moses sem hafði ekki spilað byrjunarliðsleik í mánuð.
  3. Raheem Sterling sem hafði ekki spilað fótboltaleik í tvo mánuði.

  Að búast við því að leikmenn sem hafa verið utan vallar svo lengi, labbað beint inn í liðið ískaldir og stirðir og halda að þeir geti sýnt sínar réttu hliðar er ákveðinn barnaskapur. Að halda að þrír ryðgaðir menn í ellefu manna hópíþrótt hafi ekki áhrif á leik liðsins er ákveðinn barnaskapur. Sem knattspyrnustjóri hlýtur það að vera á þína ábyrgð að halda þeim mönnum sem eru rétt utan við liðið í sæmilegu leikformi, þannig að þeir séu þá á annað borð nothæfir þegar á þeim þarf að halda.

  Varðandi leikmannakaup sumarsins, þá stend ég við það að þau hafi verið góð, sé á annaðborð tímabært að leggja dóm á þau.

  Það efast enginn um Mignolet. Aðrir liggja undir grun. Skoðum þessa menn.

  Luis Alberto: 21 árs. Framtíðarleikmaður. Hefur samtals spilað 88mínútur í 6 leikjum í deild. Það gerir að meðaltali tæpar 15 mínútur í leik. Það vekur líka athygli mína að í þremur af þeim fjórum (75%) deildarleikja sem við höfum verið að tapa í síðari hálfleik er Luis Alberto settur inná til að redda málunum. Hinsvegar eru minna en helmingslíkur að hann komi inná séum við að vinna leikina. Auk þess kemur hann inná að meðaltali á 70.mín þegar við erum að tapa, en á 80.mín þegar við erum að vinna? Nú spyr ég, finnst Luis Alberto er svona góður leikmaður að hann er ítrekað sendur inná til að redda málunum þegar illa gengur, af hverju er hann þá ekki látinn spila sig í form í þeim leikjum sem við erum að vinna örugglega? Í öllu falli er algjörlega ótímabært að segja til um það hvort Luis Alberto muni reynast góð kaup eða slæm.

  Iago Aspas: Byrjaði tímabilið í erfiðu hlutverki, leysandi af hólmi besta leikmanninn í ensku úrvalsdeildinni Luis Suarez. Var ítrekað látinn spila úr stöðu þangað til sjálfstraustið var komið niður fyrir frostmark og stuðningsmenn byrjaðir að hatann. Hefur ekki spilað eina mínútu fyrir Liverpool í sinni bestu stöðu. Ótímabært að dæma hann.

  Touré: Hefur staðið sig langt framúr væntingum og í mun stærra hlutverki en búist var við fyrirfram, þó hann hafi vissulega dalað eftir heimsklassaframmistöður í byrjun leiktíðar Eðlilega. Niðurstaða: Kaup sem hingað til hafa reynst frábær.

  Aly Cissokho: Kannski stærstu vonbrigðin af kaupum sumarsins. Hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar að eigna sér vinstri bakvarðarstöðuna. Hefur þó einungis spilað 5 leiki í ensku deildinni. Fékk að mínu viti á sig ósanngjarna gagnrýni í kjölfarið á Arsenal-leiknum, þar sem Arsenal menn tvímenntu og þrímenntu á Aly á vinstri vængnum á meðan þeir skildu viljandi handa svæði og tíma handa smástráknum sem spilaði á hægri vængnum. Þessa strategíu Arsenal-manna túlkuðu menn síðan þannig að Flanagan hefði spilað frábærlega en Aly ömurlega. Niðurstaða: Of snemmt að setja hann í gapastokkinn.

  Sakho: Fótboltaheimurinn var sammála um að þarna hefðum við nælt okkur í frábæran leikmann. Höfum við fengið köttinn í sekknum þá verður það tæplega skrifað á glópsku í leikmannanefndinni. Einfaldlega eftirsóttur leikmaður af þeim gæðaflokki sem Liverpool á sjaldnast séns í núorðið. Fór beint inn í liðið á kostnað Daniel Agger, leikmaður sem almennt var talið að væri kominn hálfa leiðina til Barcelona. Var af einhverjum óskiljanlegum ástæðum settur á bekkinn þegar sjálfstraustið var á hápunkti eftir að hafa skotið þjóð sinni á HM. Spurning hvort hann hafi verið of hátt uppi? Niðurstaða: Leikmaður með world class-potential. Mikilvægur fyrir liðið strax frá fyrsta leik, þótt hann spili ekki alla leiki, frekar en flestir aðrir knattspyrnumenn.

  Ilori: Tvítugur stórefnilegur gutti keyptur fyrir framtíðina. Alltaf vitað að hann yrði aftarlega í goggunarröðinni fyrst um sinn. Niðurstaða: Fullkomlega ótímabært að leggja dóm á hann ennþá.

  Victor Moses: 22 ára gamall strákur. Virkilega sterkur hjá Wigan fyrir tveimur árum. Í fyrra var hann árinu yngri og spilaði 43 leiki í liði Rafa Benitez hjá Chelsea og þótti standa sig vel. Finnst að Victor Moses var talinn nothæfur í Chelsea liðinu hans Rafa Benitez – þá finnst mér mjög furðulegt ef hann er of lélegur fyrir Liverpool liðið hans Brendan Rodgers.

  Ég spyr, hvaða menn eru þetta sem eru ekki nógu góðir? Og á hvaða forsendum eruð yður að dæma þá?

  Sé þessi blessaði Rodgers að tala um að hann sé eini knattspyrnustjórinn í hverfinu sem hafi ekki almennilega leikmenn á bekknum sínum – þá finnst mér eins og ég hafi séð hann einhversstaðar áður.

  http://www.youtube.com/watch?v=BQoLxsVV6vs

 44. Ég hafði ekki mikla trú áBR, þegar hann kom. Taldi að hanna væri ekki með reynsluna í að stýra svona stórum klúbb. En ég verða að segja aðhann hefur komið mér á óvart. Árangurinn hefur verið betri en ég bjóst við. Aðtapa á útivelli fyrir Hull City Tigers er einfaldlega skelfilegt. En má ekki skrfia það á breiddina? Ég er sammála aðöll kaup sem BR hefur gert hafa verið bölvað klúður, með nokkrum undantekningum.
  En gleymum því ekkiað hann hefur líka verið að eltast við nokkrar leikmennsem eru hreint út sagt magnaðir, s.b.r Armenann hjá Dormund og Costa. Þegar svona leikmenn vilja ekki koma til LFC þá er kannski spurning hvort við séum ekki með óraunhæfar væntingar og líka með óraunhæfa mynd af LFC? Er staðaLFCekki orðin sú að ef menn vilja vera í fremstu röð þá fara þeir ekki í LFC? BR er ekki vandamálið þarna, það eru annað hvort eigendurnir sem ekki eru tilbúnir að spila leikinn eins og hann er, eða stuðningsmennirnir með væntingar sem eru langt fyrir ofan fjárhagslega getu klúbbsins og kannski stefnu líka. Því held ég að eins og staðan er núna þá verðum við að búast við svona bakslögum á næstuni. Það koma góðir sigrar inn á milli en staða liðsins er einfaldlega ekki betri en þetta. En miðað við allt þá er BR búinn að gera betur en ég átti von á, hann er einfaldlega í mjög erfiðu starfi. þar sem vætingar stuðningsmanna eru lagnt fyrir ofan raunverulega getu liðsins.
  Mín spá er 56 stig. Þegar ég sett inn þá leiki sem komnir eru í mína spá þá er staðan 57 stig.
  Þannig að ég get sagt að árangurinn er framar en mínar spár gáfu tilefni til 🙂

 45. Hérna svarar Rodgers einmitt fyrir þessi 50m punda leikmannakaup sumarsins. http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/rodgers-defends-50m-summer-signings-6363893?

  Óttalega þykja mér þetta þunn svör hjá honum. Að þeir hafi alveg reynt að kaupa byrjunarliðsmenn en svo þurft að hugsa um að kaupa cover þegar leikmenn eins og Jonjo Shelvey hafi verið seldur! Þeir hafi ríka skyldu að hugsa til framtíðar þegar kemur að leikmannakaupum. Það sé ekki hægt að kaupa leikmenn bara til þess að kaupa því slíkt hlaði leikmönnum og launakostnaði upp hjá félaginu.
  Neitar því svo að betra hefði mögulega verið að spara peninginn þangað til í janúar fyrst engin alvöru skotmörk voru að nást! Maðurinn talar stundum í þversögnum og gátum.

  Rodgers virðist ekki fatta er að hann hefur ekki endalausan tíma í starfi til að sanna sig og að Suarez t.d. mun fara frá Liverpool ef hann sér að við erum ekki samkeppnishæfir eða nálægt CL næsta vor. Þessi endurreisn hjá Liverpool er klárlega á uppleið en mikið rosalega gengur þetta hægt eitthvað þegar kemur að leikmannakaupum. Það er alveg ótrúlegt hvað Dalglish og Rodgers hafa fengið að eyða miklum pening í ekki sterkara úrval af byrjunarliðsmönnum.

  Ég bara skil ekki kaupstefnu Liverpool stundum.

 46. Umræðan um sumargluggann er sú sama og oft áður.

  Það verður að dæma sumargluggann 1.september held ég…og svo sjá til einhverjum árum seinna.

  Mig minnir t.d. að í podcasti höfum við bara verið allir nokkuð sáttir við þennan glugga, ég kannski minnst því ég vildi fá einn öflugan kantstriker í viðbót. Á móti vildi ég hafa keypt Moses. Í dag er það ekki gáfulegt, bara fínt að hafa fengið hann og Cissokho á láni.

  Það sem Rodgers segir í viðtalinu við Echo er auðvitað hárrétt. Við vitum það að þegar búið er að ganga frá Aspas, Mignolet, Toure og Luis Alberto áður en tímabilið er búið að þar var verið að bregðast við breiddarkaupum. Mignolet hefur sem betur fer sannað sig og virðist gamblið með Reina hafa gengið upp. Toure byrjaði frábærlega en virðist vera að dala og við eigum enn eftir að sjá Aspas með Suarez. Ég ber væntingar til þess.

  En um engan þessara leikmanna fengum við samkeppni frá þeim fimm liðum sem við erum að keppa við. Ég fullyrði að enginn þeirra hefði verið keyptur í sumar af þeim. Luis Alberto og Aspas eru gamble, það er á hreinu. Gamble sem við verðum að taka því við getum ekki keppt um stór nöfn í miklum mæli. Í dag er ég ekkert viss um að við hefðum fengið Sakho ef við hefðum landað Costa t.d. – og það þarf að fá inn nafn frammi í janúar til að við eigum séns í CL.

  Svo er ég mjög glaður að sjá ummæli hans um Ilori. Ég svitnaði þegar ég sá þessa upphæð sem talað var um, 7 milljónir punda, og er glaður að sjá að þar eru menn langt frá sannleikanum. Þessi strákur er hrár talent sem á mjög fáa leiki að baki og ég hafði engar væntingar til þess að hann kæmi nálægt liðinu. Hins vegar blésu bresku blöðin upp einhverja vitleysu um að margir væru á eftir honum og að Hodgson ætlaði að reyna að fá hann til að skipta um þjóðerni. Þvílíkt rugl og bull. Hann þarf mikinn tíma til að aðlagast virðist vera, var t.d. ekki í U21s árs liðinu sem vann Aston Villa 2-0 í gær og miðað við það sem Rodgers segir verður hann lánaður frá liðinu í janúar.

  Við erum í transition með þetta lið okkar, fullt af mönnum sem eru mjög efnilegir en ekki nógu góðir til að keppa um CL sætið. Við þurfum að fá leikmenn sem eru tilbúnir í byrjunarlið frá 15.ágúst (eða 2.janúar) til að ná því að komast framyfir þau lið sem eru í topp fjórum.

  Ég held að við verðum að vera þolinmóð og vona það að þeir leikmenn sem eru annað hvort í okkar hóp núna (Sterling, Ibe, Luis Alberto og Flanno), eru í láni og fá mikið að spila (Suso og Wisdom) eða eru í lykilhlutverkum í U21 og eiga möguleika á að bæta sig nóg til að lenda í öðrum hvorum hópnum þarna (Texeira, Sinclair, Brannigan, Yesil og Lloyd Jones) muni stíga það hressilega upp að við þurfum að eyða minni peningum í breiddarkaup og við höfum þurft undanfarin ár.

  Svo að nefndin fræga geti bara farið í að safna peningum fyrir quality leikmenn sem bjarga marki allra Hull-liða Englands og skora mörk í jafnri stöðu í leikjum sem við erum ekki að spila vel í.

 47. Nuna hafa leikmenn eins og Aspas og Moses tima fram að aramotum til þess að syna að það hafi verið rett að fa þa til liðsins og með Sturridge fjarverandi þa ættu þeir að fa meiri spilatima.
  Eg man bara að Aspas spilaði vel a undirbuningstimabilinu þegar að hann fekk að spila sem fremsti maður en svo þegar að timabilið byrjaði þa var honum spilað utur stöðu og það gekk illa hja honum og svo lenti hann i meiðslum. Nuna er hann tilbuinn og eg vona að Rodgers gefi honum nokkra leiki með Suarez frammi og þa fær hann kannski að njota sin.

  Það er nokkuð osanngjarnt að dæma hann fyrir það litla sem hann hefur fengið að spila með liðinu. Hann þarf tima til þess að aðlagast og það gerir hann ekki meiddur.

 48. Frábær pistill nafni.

  Tek undir allt varðandi sumargluggan 2013 og 2012. Ég skildi aldrei kaupinn á Alberto, að borga 6.7 millj punda fyrir leikmann sem er lélegri en jafnaldrar hans sem voru fyrir hjá Liverpool. Ekkert vit í þessum kaupum og til að toppa allt var enskur leikmaður Shelvey seldur á 6 millj og Suso lánaður. Afhverju að lána Suso ef bæta þurfti breiddina. Hefði ekki verið nær að hafa Suso áfram og nota peninginn í aðra stöðu eða geyma hann þar til rétti leikmaðurinn kæmi. Ég fullyrði að Alberto kæmist ekki í byrjunarliðið hjá neinu liði í úrvalsdeildinni.

  Aspas keypur á 8 millj, til að auka breyddina í hópnum sóknarlega en á móti var 11-12 milljón punda leikmaðurinn Borini lánaður. Átta mig ekki heldur á því hvernig eignendur og stjórnendur Liverpool fá það út að þeir hafi verið að auka breiddina í liðinu með þessu. Aspas bætir engu við sem Borini hafði ekki fyrir.

  Afhverju að leggja allt kapp á að kaupa Allen á 16 millj punda 2012 til að geyma hann á bekknum. Ekki vantaði stóru orðin frá Brendan um það hversu frábær leikmaður Allen væri þegar hann var skotmark nr. 1 í sumarglugganum 2012.

  Til að Liverpool nái stöðuleika verður Brendan að velja sína bestu vörn og halda sér við hana. Að rótera með öftustu fjóra er ávísun á óstöðuleika varnarlega. Í guðana bænum notið tröllið frá Frakklandi í miðverðinum hann er framtíð Liverpool varnarlega.

 49. Brendan er bjartsýnn fyrir Norwich. Ætli við sjáum nýtt leikkerfi?…hehe, við erum með Suarez svo vonandi skiptir annað ekki máli.

 50. Að mínu mati er alveg klárt hver á að leysa Sturridge af það er Iago Aspas hann spilaði vel á undirbúningstímabilinu þegar hann fékk að vera fremsti maður og vill sjá hann fá annað tækifæri þar. Finnst skrítið að svona margir séu búnir að aðskrifa og flokka hann sem flopp hann er bara búinn að spila sex leiki í deildini og ekki einn í sinni réttu stöðu vona að Brendan gefi honum tækifæri núna þegar Sturridge er meiddur

 51. Okkur vantar mörk frá miðjunni. Það er ekkert leyndarmál.
  Við erum að tala um það að Aaron Ramsey er búinn að skora meira en öll miðjan okkar á tímabilinu. Dýrt að vera með Henderson og Lucas sem skora nánast ekkert, auk Gerrard sem skorar ekki eins reglulega og hann gerði.

  Orðinn frekar þreyttur á því að allt snúist um Suarez og Sturridge. Það er enginn líklegur til að skora fyrir utan þá og á meðan Sturridge er meiddur verður enn erfiðraa að vinna þessa leiki.

 52. Þótt maður skilji stundum ekkert í ákvarðanatökum BR þá er ekki hægt að lýta fram hjá svona tölum

  [img]https://fbcdn-sphotos-h-a.akamaihd.net/hphotos-ak-prn2/q71/s720x720/1457671_689031131128899_1762761568_n.jpg[/img]

 53. Davíð

  Þetta er flottur samanburður en það skekkir myndina svolítið að Rodgers hefur afar lítið getað í Evrópu eða bikarkeppnum á meðan Dalglish fór í tvo úrslitaleiki og Benitez vann meistaradeildina. Það hefur líklega haft sitt að segja hvað árangur í deild varðar hjá þeim tveimur.

  En takist Rodgers að byggja jafnt og þétt ofan á sinn árangur líkt og Benitez gerði eftir erfiða byrjun (í deild) þá erum við í mjög góðum málum.

  Til að það takist þurfum við að fara fá inn menn sem fara beint í byrjunarliðið, ekki einhverja sem gætu hugsanlega kannski gert það eftir nokkur ár (en gera það svo ekki).

 54. Kærar þakkir Kristján Atli kærar þakkir.

  Ég hef verið einn af afar fáum sem ekki hafa verið reiðubúnir að lýsa yfir ánægju með Rodgers. Alltaf fundist hann meðal þjálfari.

  Hef reyndar alltaf þótt ósanngjarnt hvernig meðhöndlun Dalglish hefur fengið eftir eitthvað það mesta óhappa tímabil í sögu ensks knattspyrnustjóra. Hann skilaði þó titli. Fékk nákvæmlega engan séns með liðið. “Úreltur Dalglish” á bara alls ekki við.

  Við skulum samt bíða og vona. Ýmislegt jákvætt í gangi með liðið og vonandi höldum við dampi í desember.

  Áfram Liverpool”

 55. Djöfull væri nú rosa fínt ef margir hérna inni og þar á meðal pistlahöfundur væru að stjórna liverpool í dag. Þá þyrftum við nú ekki að óttast framtíðina, því þið virðist vita uppá hár hvað sé að og hvernig skal laga það. Spurning um að þið setjist niður yfir einum kaffibollta með BR og ræðið þessi mál

 56. @Grétar Ómars
  Hvað ég myndi ekki gefa fyrir að setjast niður í klukkutíma með BR og ræða við hann um fótbolta

Hull 3 – Liverpool 1

Liverpool – Norwich