Breytingar hjá þjálfurum yngri liðanna.

Svona á meðan við bíðum eftir næsta aðalliðsleik, sem er í Hull á sunnudaginn, er ekki úr vegi að rabba aðeins um hin liðin okkar sem hægt er að kíkja reglulega á, þ.e. ef maður eyðir tæpum 50 pundum á viku ári í opinberu síðu félagsins okkar.

Það má með sanni segja að ein þruman hafi komið úr hálfgert heiðskíru lofti í síðustu viku þegar fréttir birtust af því að öxin stóra hafi birst í Kirkby með þeim afleiðingum að tveir æðstu yfirmenn Akademíunnar, þeir Frank McParland og Rodolfo Borrell hefðu verið reknir tafarlaust frá störfum.

Aðeins þremur dögum áður var McParland t.d. að skrifa undir nýjan samning við Marc Pelosi fyrir hönd félagsins. Rodolfo Borrell var svo á leik hjá Derby vikuna á undan að fylgjast með André Wisdom.

Alls staðar er tíkin

Satt að segja þá má nú eiginlega segja það að akademían okkar hefur ansi oft verið í fréttunum undanfarin ár í tengslum við innanhússpólitík hjá klúbbnum og líklega er nýjasta útspilið enn ein beygjan í þeim veruleika.

Ég veit ekki hversu margir fylgdust með því þegar Rafa voru rétt völdin yfir Akademíunni og hann varð til þess í raun að goðsögnin Steve Heighway yfirgaf klúbbinn og í stað hans týndust inn nýir þjálfarar, þ.á.m. báðir þeir sem nú eru reknir.
Rafa var orðinn pirraður á því að fáir ungir menn voru tilbúnir í slaginn hjá aðalliðinu, eftir að Owen, Gerrard og Carra höfðu komið upp með Houllier voru það litlir spámenn, Danny O’Donnell, Partridge, Otsemobor og félagar sem voru prufaðir með litlum árangri.

Borrell var fyrst um sinn þjálfari U-18 og Gary Ablett sá um varaliðið. Varaliðið náði fyrst um sinn góðum árangri en lítið var enn um menn tilbúna í aðallið. Töluvert var keypt af spámönnum utan Liverpool, bæði utan og innan Englands. Borrell átti að vinna með tæknilegu hliðina, rétt fyrir brottrekstur Rafa kom Pep Segura til sögunnar og King Kenny var þá í vinnu hjá Akademíunni líka.

Lítil ástæða er til að tala um tíma Hodgson hjá liðinu og á tíma Kenny var það helst að frétta að Segura var færður upp í stjórn á Akademíunni og Borrell tók við varaliðinu sem varð svo U-21s árs lið. Rafa tímabilið í framhaldi bara.

Brendan Rodgers tók svo við sumarið 2012. Ferill hans sem framkvæmdastjóri er í raun frekar stuttur á miðað við hversu lengi hann vann við unglingaakademíur, bæði hjá Reading og Chelsea. Svo vissulega var forvitnilegt að sjá hvaða leið yrði farin í samskiptum Akademíunnar og aðalliðsins.

Hófst stefnubreytingin sumarið 2012?

Strax mánuði eftir að Rodgers tók við var Segura farinn, fúll yfir því að Mike Marsh var tekinn úr þjálfun U-18 ára liðsins og í aðalliðsþjálfarateymið. Tekinn umfram Segura sem vildi inn í það teymi. Í staðinn réð Frank McParland mann að nafni Steve Cooper til að þjálfa U-18 ára liðið. Cooper þessi var maður sem McParland hafði miklar mætur á. Um mitt síðasta tímabil urðu næstu þjálfaraskipti í Kirkby.

Alex Inglethorpe, U21 manager
Alex Inglethorpe, góður vinur Rodgers, var þá ráðinn stjóri U-21s árs liðsins og staða var búin til fyrir Borrell, svona “technical director” fyrir allt unglingastarf. Inglethorpe var tekinn frá Tottenham þar sem hann hafði unnið mjög gott starf hjá U-21s árs liði þeirra.

Á þessum tímapunkti var Brendan spurður út í breytingarnar á þjálfunarteymi þeirra yngri og þá kom þetta fram í viðtali við hann. Ánægður með ráðningu Alex en dáðist að starfi Rodolfo og Frank.

Ég hef nú legið í alls konar lestri frá síðasta föstudegi til dagsins í dag til að reyna að átta mig á hvað hefur breyst frá því Rodgers tók þetta viðtal og þangað til í síðustu viku að þessir tveir menn sem hafa gegnt gríðarlega stóru hlutverki hjá félaginu hafa verið reknir.

Fyrst kom saga um það að þeir væru báðir að fara að vinna hjá Manchester City. Ekkert er nálægt þeim sögum nema hjá twittermönnum sem eru að verja brottrekstur þeirra. Svo ég held að þar liggi ekki skýring.

Í sumar varð maður var við það að Rodgers var gríðarlega mikið í kringum Akademíuna. Hann fór t.d. og eyddi heilum degi með þeim leikmönnum sem valdir voru í U-12 ára liðið og foreldrum þeirra, auk þess að vera nálægt hverri einustu æfingu skilst manni hjá U-15 og upp í U-18 ára liðin. Sumarið áður hafði hann fengið að taka stóran hóp ungra manna til Bandaríkjanna til æfinga en nú virðist það hafa orðið bitbein milli hans og McParland sem vildi fá að halda ungu mönnunum með sér og fara með þá í æfingaferð til Írlands, sem varð úr.

Á sama tíma var tilkynnt að Steve Cooper hefði verið leystur frá störfum. Fyrst í stað var enginn tilkynntur í staðinn en í september kom í ljós að Liverpool hafði náð í Neil Critchley, unglingaþjálfara hjá Crewe. Það var í raun stórfrétt, mörg lið höfðu áður reynt að ná í þennan unga mann sem náð hefur undraverðum árangri með þetta litla lið og einn mest lærði breski þjálfarinn, er í 16 manna UEFA-Elite þjálfarahóp Englands.

Neil Critchley, U18 manager
Hann var ráðinn til starfa sem U-18 ára framkvæmdastjóri, sem var í raun ný staða. Þjálfarar ráðnir honum við hlið. Á lestrinum undanfarna daga hef ég lesið komment manna sem töluvert hafa fylgst með leikjum í vetur hjá þeim yngri. Þeir vilja sumir meina það að Borrell hafi augljóslega verið kominn úr “innsta hring” liðanna og McParland lítið sést.

Það virðist algerlega hafa verið ákvörðun Rodgers að ráða Critchley eins og Inglethorpe, sumir ganga svo langt að segja honum og McParland hafa lent saman við brottrekstur Cooper, sem hafði átt farsælan feril hjá yngri liðunum okkar.

Svo hvað er þá nú?

Þessir tveir sem nú eru gengnir hafa átt gríðarlegan þátt í þróun leikmanna eins og Sterling, Flanagan, Suso, Wisdom, Ibe og Kelly. Wisdom og Suso hafa sérstaklega talað um hversu stóran þátt Borrell átti í framþróun þeirra. Það verður ekki sagt um unglingastarf undir þeirra stjórn að þaðan hafi engir leikmenn komið. Og fleiri á leiðinni.

Rodgers ræður

Því meira sem ég les um viðburði síðustu viku þá verð ég sannfærðari um það að það sem gerðist í Kirkby var enn ein stóra innanfélagspólitíska ákvörðunin.

“Spænska bylgjan” hjá yngri liðum okkar, sú sem Rafa ýtti í gang, hún er nú gengin yfir. Vissulega er enn verið að reyna að sækja leikmenn þangað en mitt mat á viðburðum er að nú sé það á hreinu að Rodgers ræður yfir félaginu. Frá U-12 og uppúr. Nokkuð sem er mjög óvanalegt á Englandi en á sér vissulega fordæmi í öðrum löndum.

Þegar litið er til þess hvað hefur gengið á í leikmannakaupum í kringum Akademíuna þá má líkja því við frost eftir mikla baðstrandarferð. Aðeins einn leikmaður utan Englands mætt, Rafa Paez sem kom úr unglingastarfi Real Madrid á frjálsri sölu en í staðinn eru vísbendingar um að verið sé að sækja í stjörnur minni liða á Englandi, eins og Herbie Kane sem sóttur var til Bristol City í sumar.

Þegar maður horfir á U-21s árs liðið þá verður maður áþreifanlega var við að það er í miklum samhljómi við aðalliðið, mun meiri en t.d. í fyrra. Liðið spilar 4-2-3-1 með hápressu og overlapping bakvörðum. Við höfum séð Flanno, Kelly, Ibe og Luis Alberto spila með því, Borini í fyrstu leikjunum. Inglethorpe semsagt í raun að vinna töluvert með Rodgers að uppbyggingu liðsins.

Critchley er bara nýtekinn við U-18 liðinu og þar hefur verið stillt upp ungu liði, leikmenn sem eru 16 ára alls ekki óalgeng sjón. Mér hefur fundist þróunin vera í sömu átt, verið að reyna að stilla upp svipuðum hlutum og ofan við. Þó ekki alltaf með góðum árangri, t.d. áttum við ekki breik í “mini-derbyið” í dag þegar við töpuðum 1-3 í þessum aldursflokki. En manni virðist línan vera þessi.

Samantekt

Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að fylgjast með starfi þeirra yngri hjá LFC og viðurkenni eilítið stress yfir þessari beygju sem nú hefur verið tekið. Kannski er það bara af því hversu mikill munur var á starfi Akademíunnar eftir að Heighway hætti sem maður hefur öðlast of mikla trú á því sem McParland og Borrell gerðu.

Vel má vera að aðrir þjálfarar hefðu náð því sama út úr þessum ungu mönnum og auðvitað má maður ekki gleyma að þessir keyptu t.d. Ngoo og Sokolik án mikils árangurs.

Brendan Rodgers hefur mjög mikið vit á unglingaþjálfun, það er morgunljóst. Það er líka ljóst að frá upphafi veru sinnar hefur hann “breskað” allt starfslið félagsins. Það byrjaði með Marsh og hefur nú haldið áfram. Hann virðist algerlega viss í því hvað hann vill fá frá ungu mönnunum og vill greinilega fá menn sem deila þeirri sýn með sér algerlega.

Mín spá er að enginn verði ráðinn í starf Borrell en Rodgers muni reyna að fá Dalglish til að taka að sér starf McParland. Ef það gengur ekki tippa ég á að reynt verði að pússa upp eitthvað annað LFC-legend, breskt, til að verða flaggskipið í flota þjálfara sem munu sjá til þess að leikmenn þeir sem í aðalliðið koma þekkja sín hlutverk algerlega.

Það verður stundum á kostnað hæfileikaríkra manna, en vonandi verður það ekki svo hjá okkur.

Í þessum málum, kannski enn frekar en öðrum hjá klúbbnum, segi ég því að mottóið verður að vera…

In Rodgers we trust

29 Comments

  1. Snilldarpistill hjá þér Maggi.

    Og ég er sammála þessu hér.

    “Í þessum málum, kannski enn frekar en öðrum hjá klúbbnum, segi ég því að mottóið verður að vera…

    In Rodgers we trust”

  2. Erfitt að meta innanbúðarhluti hjá akademíunni en m.v. þá leikmenn sem komið hafa upp undanfarin ár og við væntum að komi upp næstu ár þá er erftitt að sjá að þörf hafi verið á mjög miklum breytingum og ég er alls alls alls ekki spenntur fyrir því að losa sig við spænska kerfið og fá frekar inn breta og breska aðferðarfræði.

    Á pappír var ég a.m.k. mun spenntari fyrir þessum tveimur sem komu frá La Masia (+Dalglish) frekar en U21 þjálfara Tottenham og efnilegum þjálfara frá Crewe, með fullri virðingu fyrir þeim.

    Það hefur a.m.k. sannað sig að það var heldur betur kominn tími á að losa sig við Steve Highway og hans aðferðarfræði sem skilaði nákvæmlega engu í áratug áður en hann var látinn fara.

    FSG leggur gríðarlega mikið upp úr því að búa til svona Barca/Dortmund/Arsenal módel hjá Liverpool og þessar stöður því líklega mjög stórar hjá félaginu. Rodgers hefur mjög mikla reynslu á þessu sviði á mjög háu leveli og veit vonandi hvað hann er að gera. Það er í það minnsta jákvætt ef unglingastarfið er á sömu línu og stjóri félagsins og engin togstreita þar á milli.

    En hvað svo ef að Rodgers verður farinn eftir 1-2 ár…byrjum við enn á ný frá grunni?

  3. “Þegar litið er til þess hvað hefur gengið á í leikmannakaupum í kringum Akademíuna þá má líkja því við frost eftir mikla baðstrandarferð. Aðeins einn leikmaður utan Englands mætt, Rafa Paez sem kom úr unglingastarfi Real Madrid á frjálsri sölu en í staðinn eru vísbendingar um að verið sé að sækja í stjörnur minni liða á Englandi, eins og Herbie Kane sem sóttur var til Bristol City í sumar.”

    Það má nú ekki gleyma Sergi Canos og Pedro Chirivella. Tvær glænýjir frá Spáni í unglingaliðum LFC.

  4. Gleymdi að koma inná að þetta er mjög fróðleg og góð samantekt. Verður fróðlegt að skoða stöðuna aftur eftir 1-2 ár.

  5. Kosturinn við síðu sem þessa – sem er eiginlega eina fótboltasíðan sem ég les þessa dagana á alnetinu – eru pistlar sem þessir.

    Oftar en ekki hefur maður ekki hugmynd um hvað annað er að gerast hjá félaginu annað en það eru æfingar og leikur í hverri viku hjá aðalliðinu.

    Annað gleymist. Jú, stundum heyrist að þessi eða hinn úr “the backroom staff” sé látinn fara og annar kemur inn í staðinn, en maður pælir ekkert í því.

    Bestu þakkir fyrir að hafa metnað í að upplýsa okkur, fáfróðan almenning, um eitthvað fleira sem er í gangi hjá okkar klúbbi, sem snýr að öðru en aðalliðinu 🙂 Þetta var skemmtileg – eða öllu heldur, fróðleg – lesning 🙂

    Homer

  6. Frábær samantekt Maggi,

    Akademían vill oft gleymast í nútímafótbolta, þar sem að enginn hefur tíma til að bíða eftir að óharnaðir unglingar stígi upp og verði að alvöru leikmönnum.

    Bilið á milli þess að vera efnilegur og að verða góður leikmaður á hæsta leveli er mikið. Fallið er hátt, það geta þúsundir “næstum því leikmanna” borið vitni um. Við þekkjum þetta, Liverpool stuðningsmenn, enda búnir að vera að kaupa næsta Zidane (Bruno Cheyrou), demantana (Pongolle & Le-Tallec) ofl. í fjölmörg ár, en orðið fyrir vonbrigðum nánast undantekningalaust.

    Við ættum einnig að þekkja mikilvægi þess að fá slíka leikmenn upp. Það er einfaldlega ómetanlegt! Það er einfaldlega ekki hægt að setja verðmiða á það sem að Carragher & Gerrard, sem dæmi, hafa skilað til klúbbsins. Báðir verið frábærir í meira en áratug og gefið allt sitt til þess að koma klúbbnum á þann stall sem hann á heima.

    Það verður að gæta þess að sitja ekki eftir. Eins og England hefur í raun gert í fótboltaheiminum síðasta áratuginn eða svo. Það eru ekki mörg ár síðan að England og Þýskaland voru áþekk hvað varðar leikstíl, þjálfunaraðferðir oþh. Þarf líklega ekki að fara lengra aftur í tímann en í kringum síðustu aldamót. En tímarnir breytast. Fræðin eru ekki þau sömu í dag og var akademía Liverpool einfaldlega að vera barns síns tíma undir Steve Highway.

    Ég treysti Brendan betur en flestum öðrum þegar kemur að þessu. Enda er hann ungur, hungraður þjálfari með rétta bakgrunninn. Fyrir utan það að hann virðist vera mikill og sterkur karakter sem nær vel til leikmanna. Það er allavega morgunljóst að unglingastarfið hjá Liverpool er mun mun nær því að skila leikmönnum í aðalliðið nú en það hefur verið síðustu 10-15 ár. Og tek ég því undir heilshugar, in brendan we trust.

  7. Virkileg góð grein um Akademíuna Liverool

    Eiit af þeim skemmtilegu breytingum Rodgers hefur gert er láta fyrrum Liverpool stjörnur eins og Robbie Fowler fara byrja sérþjálfa unga leikmenn.

  8. Skemmtileg umræða og þetta er vinkill sem maður hefur ekki kynnt sér nægilega vel en auðvitað fylgst með úr fjarlægð.

    Ég er ákaflega ánægður með Brendan Rodgers og er þess algjörlega fullviss að hann er að vinna skipulega að því að koma fleirum ungum leikmönnum upp í aðalliðið. Það er stysta, ódýrasta og án nokkurs vafa sú leið sem flestir púllarar eru hvað ánægðastir með. Nýjasta ,,vonin” er klárlega Flanagan og ef fram sem horfir þá verður staðan hans. Undir 21 árs liðið okkar hefur verið að gera flotta hluti og það eru blikur á lofti. Framtíðin er björt hjá okkar liði þótt vissulega sé það nauðsynlegt að versla sterka leikmenn einnig.

    Ég bíð mjög spenntur eftir janúarglugganum og ef maður horfir blákalt á stöðuna þá hlýtur Liverpool að vera mjög spennandi kostur fyrir sterka leikmenn sem vilja bæta sig enn frekar. Sem betur fer LFC með þá stefnu að versla klókt en ekki bara kaupa til að kaupa sbr. spurs. Ég get bara ímyndað mér hvernig mórallinn er hjá þeim þessar vikurnar.

  9. flottur Arda Turan ..
    Arda describes himself as an avid fan of Galatasaray. He says that, “Other teams have offered me really big money but my love for Galatasaray is real.” He also declares that, “I want to play in major leagues and my dream team is Liverpool.” He added, “As I always mention, Liverpool attracts me because of their tradition. In Europe, I am a Liverpool supporter, so if I go to play in Europe, I would like to play for them

  10. Ég er ekki sammála að það sé verið að innleiða breskar aðferðir inní akademíuna og það er svolítið villandi að dæma aðferðir þjálfara eftir þjóðerni. Borrell og allir aðrir þjálfarar akademíunar nota mestmegnis aðferðir frá Hollandi og Spáni. Og þó svo að Borrell sé spænskur og unnið meirihluta af ferlinum sínum hjá Barcelona og með Guardiola þegar hann þjálfaði Barca B liðið þá hef ég aldrei séð akademíulið spila eins svipaðan bolta og Barca spilaði þegar Guardiola var stjóri Barca þangað til að Inglethorpe tók við U21 liðinu.

    Ég held að sé best að dæma aðferðir manna eftir hvaða hugmyndum þeir hafa tileinkað sér og vinnu þeirra frekar en þjóðerni.

  11. Ég held að sé best að dæma aðferðir manna eftir hvaða hugmyndum þeir hafa tileinkað sér og vinnu þeirra frekar en þjóðerni.

    Tek svosem undir þetta og þetta er eins og ég segi eitthvað sem erfitt er að dæma strax. Við vitum ekkert hvað gekk á innanhúss og afhverju þessir tveir lykilpóstar eru látnir fara (og Seguera þar áður).

    Þjóðerni skiptir kannski ekki máli en það er í mínum huga ekki jafn spennandi að ná í menn frá Crewe og Tottenham og láta þá sem unnu í La Masia í rúman áratug fara.

    Ég er þá ekki bara að horfa í CV-ið hjá þeim áður en þeir komu til Liverpool (þó það sé MJÖG spennandi) heldur hvað þeir hafa gert undanfarin ár hjá Liverpool m.v. t.d. áratuginn þar á undan.

    Vonandi er Liverpool að fá inn nýja kynslóð breskra þjálfara sem eru á pari við kollega sína í t.d. Hollandi, Spáni og Þýskalandi og Liverpool nær að fá til sín og þjálfa upp unga leikmenn sem komast í aðalliðið… og styrkja það.

    M.ö.o. ég vona að við verðum ekki að tala um það eftir 3-4 ár hversu ógeðslega heimskulegt það var að láta þessa menn fara, svona á svipaðan hátt og “við” tölum um hversu ævintýralega heimskulegur brottrekstur Benitez var. Eru ekki flestir farnir sem hann fékk árið 2009 þegar starfi akademíunnar var síðast umturnað?

  12. Ég er aðallega að tala um þjálfunaraðferðir og aðferðir Inglethorpe eru mjög líkar Rodgers. Critchley er lærður af Dario Gradi sem er með svipaðar aðferðir líka. Borrell og Segura hönnuðu akademíuna hjá LFC eftir aðferðum Ajax og Barcelona þeir ákváðu hinsvegar ekki að ganga alla leið og spiluðu oftast í 4 2 3 1 og voru varnasinnaðri og með ekki eins mikla áherslu á að halda boltanum. Þegar Rodgers tekur við sem stjóri þá er þessu breytt.

    Akademían breytti yfir í 4 3 3 en aðalbreytingin er leikstílinn sem varð sóknarsinnaðri og meiri áherlsa er lögð á að halda boltanum. Í raun og veru er verið að fara alla leið núna í því að hanna LFC akademíuna eins og hjá Barca og Ajax. Þetta kalla ég að fara eins langt frá breskum bolta og hægt er nánast. Ef akademían væri að fara yfir í breskar aðferðir þá væru það svakalegar breytingar. Þar sem ég veit nánast ekki um aðrar þannig sé breskar aðferðir en route one fótbolta ala Pulis.

    Bretar hafa nánast ekki haft mikil áhrif á þróun aðferða nema þeir sem fóru fyrir utan Bretland til þess að komast frá þessu rúgbýhugarfari fyrir löngu síðan. Meðan Rodgers, Inglethorpe og Critchley eru vinnandi þarna þá efast ég stórlega um að það sé vera að fara að nota einhverjar breskar aðferðir. Það má í raun og veru segja að akademían sé nærri því spænskari en þegar Benitez var manager þegar það kemur að aðferðum.

    Ég er ekkert hrifinn af því að Borrell sé farinn en ég hugsaði líka mikið um það um hvernig Borrell myndi líka við þessa stöðu sem Technical Director. Það er talsverður stöðugleiki hjá akademíunni í dag miðað við hvernig hún var fyrir fjórum árum. Og það er kannski ekkert spennandi fyrir mann sem hefur verið þjálfari í nokkra áratugi að vera til staðar til þess að meta störf þjálfara og leikmanna hjá öllum flokkum og vera brú yfir til stjórans og ekki þjálfa. Maðurinn er líklegast of hæfur og ungur fyrir þessa stöðu.

  13. Stærsta vandamál akademíunar er hins vegar hversu lítið af leikjum þeir spila. Það er hægt að hafa frábærar aðstöður og heimsklassa þjálfara en ef leikmenn spila ekki nægilega mikið í þessari blessaðri akademíudeild þá skiptir þetta fyrrnefnda litlu máli. FA, PL og klúbbarnir þurfa að gera eitthvað í þessum málum annars eru allar þessar akademíur ekki til mikils gagns.

  14. Það var augljóst í vor og síðan í haust að U21s árs liðið hafði fært til í sínum áherslum eftir að Borrell hætti og Inglethorpe tók við.

    Reyndar kannski ekki síst í því að Inglethorpe vill vinna mikið með yngri mönnum og þess vegna hefur töluvert verið lánað út úr klúbbnum og til að hækka meðalaldurinn fá inn leikmenn sem æfa með aðalliðinu. Það hefur leitt til þess að liðið er ekki eins stöðugt í leik sínum sem er í sjálfu sér ekkert slæmt finnst mér.

    Og ég er sammála því að þessir menn eru ráðnir af því þeir fylgja sömu línu og Rodgers, eins og ég tala um í pistlinum. Mikið var á tímabili rætt um að Rodgers ætlaði sér að spila Barca-bolta og tiki-taka. Kannski verður það þannig, en LFC er ekki á þeirri línu núna, menn eru mun minna fljótandi í leikstöðum og sækja á annan hátt en Barca gerir…sem er jákvætt því þegar Rodgers var að reyna hitt þá fengum við sjáanlega færri stig.

    Mér finnst það nákvæmlega sama sjást í U21s árs liðinu, menn eru mun fastari í leikstöðum sínum inni á vellinum eftir að Borrell hætti. Hjá honum sáum við menn eins og Suso, Pacheco og Adorjan fljóta mikið um á sóknarþriðjungnum en núna er ekki það sama uppi á teningnum.

    Ég er ekki að segja með þessu að nokkur ástæða sé til að verða eitthvað stressaður en ég er algerlega sammála Babu með það að ég var öruggari með Segura og Borrell en ég er með Inglethorpe og Critchley.

    Vonandi ná þeir síðarnefndu allavega jafngóðum árangri og þeir fyrri voru að skila því ef við erum hreinskilin þá er ansi gott að hafa fengið jafn marga leikmenn inn í aðalliðið “að neðan” eins og við höfum séð síðustu tvö ár. Það er afrakstur McParland, Borrell og Segura…auk Marsh auðvitað!

  15. Sá síðasta svar þitt seint Arnar.

    1000% sammála. Nú eru held ég t.d. 5 vikur á milli leikja hjá U-21s árs liðinu eða eitthvað. Þetta er ástæða þess að varalið fá að spila í deildum í t.d. Þýskalandi og á Spáni.

  16. Sælir félagar.

    Mér finnst þetta ágætt input í þessa umræðu. Það er búið að eyða helling í þessa akademíu okkar en árangurinn er því miður mjög ábótavant. Wisdom og Flanagan, þó ágætir séu og ég vil ekki afskrifa strax, en þetta eru ekki world class leikmenn. Sterling og Suso líklega þeir einu sem eitthvað mark hafa sett á aðalliðið en hvorugur er að gera merkilega hluti hjá okkur í dag, án þess að ég vilji afskrifa þá eitthvað frekar. Getur ekki bara verið að menn hafi hugsað: “nú erum við búnir að kaupa fjöldan allan af gæða leikmönnum en lítið sem ekkert komið upp, nú þarf að gera breytingu”? Rogers er klárlega með ákveðna sýn á unglingamálin og vill gera hlutina í þá átt.

  17. Fyrsta liðið spilar ekki alveg eins og Barcelona, það er hreinlega ekki mannskapur í það eins og er. Barcelona spila ekki einu sinni eins og þeir gerðu undir Guardiola td. en það gerði Barca ekki heldur undir Rikjaard, Van Gaal eða Cruyff. Það er enginn einn máti að spila þessa týpu af fótbolta.

    Guardiola spilaði ekki heldur alltaf eins og hann hefði viljað þegar hann var ekki með mannskapinn til þess. En klúbbar eins og Liverpool og Barcelona þurfa að vinna oftar en ekki og gera það sem gera þarf til þess. U21 liðið hefur oft breytt hlutunum og oftast er breytt útaf það vantar mannskap til að spila eins og er óskanlegt. Það er að segja í 4 3 3 án boltans, 2 3 2 3 í uppbyggingu. Og 3 4 3 eða 2 1 4 3 þegar þeir eru með boltann og 3 0 7 eða 2 1 6 langt inná vallarhelming andstæðingsins.

    En oftast geturuðu samt séð þessi munstur sama hver uppstillingin er án boltans hjá liðunum. Hjá yngri flokkunum skipta úrslit ekki miklu máli og þeir spila oftast á sama hátt. Þegar það er komið uppá U21 stigið þá þurfa menn að læra að aðlagast meira til að geta unnið hvernig sem stendur á. En oftast er einhverju breytt af góðri ástæðu, ef það vantar leikmenn, til þess að koma sem flestum inní liðið í þessum örfáu leikjum sem þeir hafa eða til þess að þróa eitthvað hjá leikmanni sem hann þarf að þróa.

    Af minni reynlsu þá breytir Inglethorpe einhverju útaf því hann þarf þess. En jafnvel þegar hann breytir uppstillinguni þá er grunnurinn af leikstílnum oftast til staðar. Ég er ekki sammála að menn séu fastari í stöðunum sínum eftir að Borrell hætti heldur akkúrat öfugt. Ég hef séð Morgan spila sem réttfættan kantara, kantara sem sækir inn á sterkari löppinni, vinstri og hægri miðjumann, framherja og reynt að spila meira eins og fölsk 9.

    Og þetta er bara einn leikmaður Maggi. Hann spilaði með McLaughlin og Smith sem könturum sem köttuðu inná sterkari fætinum á móti Tottenham. Það er búið að vera svakalega mikil rótering á stöðum síðan Inglethorpe kom inn.

  18. Ég vill samt sammála að myndi líða miklu betur með Borrell og McParland ennþá hjá klúbbnum. Þeir eru í miklu uppáhaldi hjá mér og met það mikils að hafa haft þá. Árangurinn hjá þeim er ekki einu sinni orðinn sýnilegur ennþá enn samt finnst mér þeir hafa unnið mjög vel og ég þarf að taka fram að það árangurinn er ekki fyllilega kominn í ljós. Þeir sem koma frá þeirra starfi eru ennþá mjög ungir og svo hafa þeir bara verið þarna í fjögur ár og það verður spennandi að sjá hvernig krakkarnir sem hafa alist upp við að spila undir þeim aðferðum sem þeir hafa sett inn. Og ég er mjög spenntur að verða vitni af því.

  19. Djöfull sem þetta er skemmtilegt spjall Arnar, eigum kannski að taka þetta á Facebook! 😉 Neinei. Höldum bara áfram hér.

    Það sem ég er að meina að mér finnst minna flot inni í leiknum sjálfum, sá reyndar ekki allan Tottenham leikinn (missti þar af miklu, veit) en ef að Morgan byrjar hægra megin þá er hann allan leikinn hægra megin, eða þá skipt er formlegra.

    Hjá Borrell var kannski Susu úti á hægri og leitaði inn á miðju, þá fór Pacheco út á kantinn og var þar um stund…auk þess sem að mér fannst ég ekki sjá fastan DM-C, allavega ekki eins og nú.

    En stóra breytingin er að maður sér algerlega klárt að U-21s árs liðið er alvöru millileikur milli aðal- og varaliðs, það held ég að sé vegna þess að Rodgers og Inglethorpe treysta hvor öðrum 100% og eru að stórum hluta sammála.

    Svo held ég að við sjáum aldrei tiki-taka á Englandi. Sá leikstíll skilar ekki titli þar að mínu mati…þurfum einmitt þessa líkamsstyrksútfærslu sem við erum að færa liðið okkar í, þar sem menn eru njörfaðri í sínar stöður með minna af floti…sem er alveg að mínu skapi og þess vegna er ég viss um að ég verð ánægður með Inglethorpe eins og ég er núna allavega með Rodgers.

  20. Sæll Innvortis mér finnst þetta allt ágætis spurningar. Mér finnst oft hælt bæði akademíunni og leikmönnum alltof mikið. Ég hef líklegast gerst sekur um það í nokkrum greinum sérstaklega þegar ég byrjaði. Þó ég hafi aldrei kallað einhvern næstu stórstjörnu.

    Það er voðalega erfitt segja hversu góður árangur hefur náðst hjá þeim sem hafa endurmótað akademíuna í raun og veru á þessum tímapunkti. Það eru líka bara fjögur ár síðan og að þróa leikmenn tekur aðeins lengri tíma en það. Það mun taka mörg ár í viðbót áður en við sjáum gutta sem hafa verið þjálfaðir eftir þeim aðferðum sem voru settar inn frá barnæsku. Rossiter, Wilson, Kent eru kannski fyrstu dæmin af því en ég veit ekki hversu langt þeir munu komast.

    Ég myndi ekki segja að það sé búið að eyða einhverjum svakalegum upphæðum í þessa akademíukaup miðað við hvað klúbbar eru með á milli handana. En sannleikurinn er að það er alveg voðalega fáir sem spila fótbolta sem verða að atvinnumönnum og hvað þá heimsklassa leikmenn.

    Jafnvel hjá akademíum eins og Barca og Ajax þar sem aðferðirnar hafa verið næstum eins í marga áratugi þá er stórt hlutfall af leikmönnum sem í fyrsta lagi ná ekki að spila 100 plús leiki með aðaliði klúbbsins aðrir fara til annara liða og síðan eru margir sem halda ekki áfram að spila fótbolta. Þannig að það er hægt að deila um hversu gagnlegar akademíur eru að sumu leyti og það fer allt eftir hverning þú lítur á þetta.

    Ef þú lítur á seinustu kynslóð Barcelona þá myndi ég segja að það sé ekki hægt að setja verðmiða á starfið þar. En ég efast um að við sjáum annað eins allavega ekki á sama mælikvarða í langan tíma. Þjálfun í Englandi hefur verið í hálfgerðum molum í langann tíma þó að það séu margir þjálfarar að vakna við að nota fleiri aðferðir þá vantar bara svo miklu meira uppá. Það er kannski góð þjálfun í akademíum en það er lokað kerfi með alltof fáum leikjum. Það er gríðarlegt verkefni fyrir England að laga þessu blessuðu fótboltamenningu þeirra. Sumir vilja meina að þeir séu bara gera mjög vel í því að þróa góða leikmenn og ég er að hluta til sammála því en oftast eru þeir ekki nægilega alhæfir tæknilega eða með minni taktískan skilning en hjá öðrum þjóðum sem stunda fótbolta mikið.

    Ég tek ekki mikið mark á því að lið séu að vinna bikara eins og NextGen, UEFA Cup eða FA youth cup heldur að því að þú getur verið með vel þjálfað og gott lið án þess að vera með einn einasta einstakling sem nær langt sem atvinnumaður eftir það. Þegar ég fylgist með svoleiðis keppnum þá reyni ég frekar að sjá hversu marga efnilega einstaklinga lið hefur. Nema að þetta lið sem vinnur bikara sé stútfullt af efnilegum leikmönnum þá veiti ég því ekki mikla athygli.

    Fótbolta akademía býður krökkum uppá tækifæri til þess að lifa og hrærast í fótbolta með mjög góðum þjálfurum auk þess að hafa góða menntun og kannski sjéns á framtíð með fyrsta liðinu eða sem atvinnumaður í fótbolta. Þetta á við um bestu akademíur í heimi en auðvitað ekki allar. Þetta eykur líka á tengsl klúbbana við samfélagið en það fer minnkandi af því það eru svo svakalega miklir peningar komnir inní spilið.

    Aðal markmið akademíunar hjá Liverpool er að þróa nægilega góða leikmenn til þess að spila í fyrsta liðinu í mörg ár á hæsta stigi fótboltans en þetta gerist ekki í miklum mæli nema að akademían væri miklu stærra batterí. Það koma alltaf einstaklingar inná milli og stundum nokkrir á sama tíma. En oftast er þetta sjaldgæft. Það er náttúrulega ekki hægt að setja verðmiða að fá leikmann eins og Gerrard eða Iniesta í gegnum akademíu fyrir klúbba að mínu mati. Aðrir geta átt sæmilegan ferill á mælikvarða liðs eins og Liverpool. Aðrir eiga góða ferla hjá öðrum klúbbum.

    Hversu marga einstaklinga akademía nær að hjálpa að verða atvinnumenn eru mælikvarðinn til þess að dæma hversu góð akademía er að mínu mati. En enginn akademía er fullkominn og LFC akademían er ekki sú besta í Englandi en hún er með þeim betri.

  21. Tek undir það Maggi, gaman að fylgjast með spjalli kunnáttumanna. Það eru tvö atriði sem ég hef alltaf furðað mig á með yngri liðin, ekkert bara hjá Liverpool, heldur líka öðrum liðum.

    – af hverju er svona mikill munur á núverandi u-21 keppni, áður reserves, og a-liðskeppninni? Bæði hvað varðar leikjafjölda, gæði leikmanna og skiptingu hópsins í first-team og reserves. Ég hefði alltaf haldið að varamenn og menn sem eru að stíga upp úr meiðslum ættu að spila í reserves og halda sér/koma sér þannig í leikform. Er það þannig núna?

    – þessu tengt, af hverju skila jafnvel efnilegir leikmenn sér svona illa upp í a-liðið? Núna eru það Wisdom, Sterling, Robinson, Flanagan, Kelly og mögulega Suso og Ibe. Ég er nokkuð viss um að við eigum ekki eftir að sjá þessa stráka spila stór hlutverk í liði Liverpool næstu árin. Hérna áður fyrr voru það Danny Guthrie, Jay Spearing, John Walsh svo einhverjir séu nefndir.

    Mér finnst svarið liggja fyrst og fremst í þeim mikla mun sem er á first team og u21, bæði vegna fjölda leikja en ekki síður gæðunum. Nú ætti t.d. Sterling hæglega að geta fengið að þroskast í rólegheitunum í u21 en það virðist ekki duga honum því hann hefur staðnað verulega undanfarin misseri.

    Varðandi þjálfaraskiptin þá trúi ég því að Brendan Rodgers og stjórnin sé með eitthvað plan fyrir þetta og stjórnarmenn sjái framtíðina næstu árin undir stjórn Rodgers. Eins og þið segið þá hefur hann mikla reynslu og þekkingu á uppbyggingu unglingaliða en maður veltir engu að síður árangrinum sem hann hefur náð fyrir sér. Er hann betri en hjá La Masia eða Ajax? Það hef ég miklar efasemdir um en ef hann ætlar að ná sem bestum árangri úr unglingastarfi þá eru þetta akademíurnar sem ætti að horfa til. Ásamt auðvitað nokkrum öðrum eins og t.d. Heerenveen, AZ Alkmaar og fleiri í Hollandi og þýsku akademíanna.

    Ég veit það ekki, við getum lítið mat lagt á þetta fyrr en að nokkrum árum liðnum og þá sjáum við líka hvort McLaughlin eða aðrir ná að stíga þessi skref sem þarf til að komast alla leið.

  22. Já takk fyrir spjallið Maggi 🙂 Ég verð samt að vera ósammála að það sé minna um róteringar jafnvel í miðjum leik. Ég hef séð talsvert af því hjá Inglethorpe einnig hefur hann notað Suso, Texeira, Ibe, Dunn og fleiri til þess að droppa niðrá miðju úr framlínunni til þess að bæta við tölum þar, hópurinn er minni núna reyndar og yngri og þeir sem geta spilað þessar fölsku 9, 7 og 11 mjög vel eru ekki margir, Suso og Texeira eru kannski þeir einu sem geta gert þetta vel. En þetta skeður reglulega hjá þeim finnst mér. Jafnvel margar stöður í sama leiknum.

    Aldrei að vita með það hvort að tiki taka sé líklegast til árángurs á Englandi sem væri helvíti fúlt. En það væri týpískt fyrir England miðað við þeir hafa alltaf viljað þjálfa þessa íþrótt eins og hálfgert rúgbý flestir 🙂

    En ef þú berð saman Barcelona í gegnum árin og Liverpool núna þá get ég ekki séð að það sé mikil munur á róteringum í stöðum samt.

  23. afhverju er manchester united alltaf skrifað í minni letri en textinn sjálfur ?? ég fæ svipaðan kjánahroll og þegar ég sé að HK segjast vera stórveldið í kópavogi í fótbolta.

  24. Það er nr. 1, 2 og 3 að þessir strákar fái einhverja leiki, óháð því hver stjórnar. Enska knattspyrnusambandið þarf eitthvað að fara að endurskoða þessi mál ef það geta liðið margar vikur á milli leikja.

  25. Gísli Fowler

    A – Átta mig ekki alveg á því hvað þetta kemur þessari færslu við þegar enginn er að tala um United?

    B – Þetta var ef ég man rétt látið koma svona í stað fjölmargra miður gáfulegra viðurnefna sem menn notuðu um það ágæta félag, þau breyttust sjálfkrafa í Manchester United með lágstöfum í staðin, semsagt farið milliveginn. (Mögulega óþarft í dag).

  26. Því meira sem ég hugsa um það því meira verð ég sannfærður um að Ajax/La Masia stíllinn hafi aldrei verið innleiddur hjá klúbbnum þangað til að Rodgers varð stjóri. Það virðist vera að ákveðnir hugmyndir verið hafi verið innleiddar en ekki allar þjálfunaraðferðinar sem gera þessi lið að því sem þau eru. Ég held að svipaður stíll og Benitez þjálfar hafi verið notaður en ekki Cruyff osfv.

Kop.is Podcast #47

Og hvað næst?