Liverpool Encyclopedia – bókadómur

Síðustu vikur hef ég legið ofan í ansi mögnuðu riti sem að fjallar eingöngu um félagið okkar.

Þar á ég auðvitað við bókina Liverpool Encyclopedia eftir þá félaga Arngrím Baldursson og Guðmund Magnússon, sem nú nýverið kom út og kom þeim m.a. í útsendingu á Liverpool TV og í samneyti við menn eins og Brendan Rodgers, Jamie Carragher og John Aldridge.

Bókin um allt!

Ég hef lengi fylgst með vef kappanna, www.LFChistory.net. Vefurinn sá er mín biblía, þar leita ég að kaup- og sölutölum, fletti upp tölfræði og les greinar reglulega. Svo ég bjóst við miklu frá strákunum.

En ég held að sama hvað maður hefði búið sig undir þá hefði bókin farið fram úr þeim væntingum. Þessi bók er svo sannarlega “alfræðiorðabók” ef einhver slík er til.

Bókin er sléttar 650 blaðsíður, allar í lit. Á kápunni er sagt að í henni séu um 1100 myndir og 420 þúsund orð. Allir leikmenn sem hafa leikið einhvern leik í opinberri keppni fyrir Liverpool fá um sig texta, ef að einhver mynd er til af viðkomandi þá fylgir hún. Og við erum að tala um alla leikmenn frá stofnun félagsins frá 1892 til vorsins 2013. Þeir sem mestum árangri hafa náð fá auðvitað lengri klausur en þeir sem kannski komu inná í 7 mínútur í einhverri “lítilli” keppni.

Ég er svo skrýtinn njörður í þessu að mér fannst eiginlega skemmtilegast að finna nöfn þeirra sem voru spámennirnir, las um þá sem fengu 1 – 10 leiki meira heldur en marga aðra, aðeins að spá í hvað varð úr þeim og þeirra lífi, því það er ekki bara talað um leikferil hjá Liverpool, heldur líka eftir að þeir fóru þaðan og að auki molar úr “venjulega” lífinu líka.

Svo var líka skemmtilegt að rifja upp sum floppin, fattaði það að í mínum fyrsta leik sá ég bæði Torben Piechnik og Paul Stewart spila fyrir Liverpool…toppiði það elskurnar mínar!!!

Auk upplýsinga um leikmennina þá eru í bókinni textar um marga aðra lykilmenn í sögunni. Eigendur, þjálfara, stjórnarmenn og aðra þá sem markað hafa spor í klúbbinn, en þarna eru líka textar bara um allt annað eiginlega.

Hvort sem við erum að tala um hluti sem við þekkjum vel eins og Kop-stúkuna, Heysel og Hillsborough, eða eitthvað sem færri hafa lesið um, hluti eins og flaggstöngina við Anfield, hvenær Liverbird varð hluti af merkinu okkar, eða The Curlett Cup.

Endalaus annar fróðleikur kemur upp í hugann. Öll met, einstaklings- eða liðsmet. Búningarnir okkar, skemmtilegar sögur um leikmenn eða viðburði þeim tengdum er fléttað inní á skemmtilegan hátt í litlum textaboxum á síðunum (uppáhaldið mitt var og er sagan af vítinu hans Alan Kennedy í Róm) og síðan töflur með alls konar fróðleik sem gaman er að vita í smá stund, gleyma og finna svo aftur.

Ef ég ætti að draga eitthvað inn sem væri hægt að segja að orkaði einhver tvímælis er að textarnir um leikmennina sem við þekkjum betur eru eilítið “gildishlaðnari” en þeir sem fylgja leikmönnum sem við þekkjum minna. Þeir félagar lýsa því eilítið leikmönnum út frá sinni skoðun á velgengni þeirra eða óförum og það er auðvitað eilítið misjafnt hvað fólki finnst. Leikmenn eins og Luis Garcia, Lucas Leiva, John Arne Riise og Stewart Downing t.d. hafa ólíka meiningu í lýsingu Arngríms og Mumma annars vegar og mögulega lesenda hins vegar. Eins þegar t.d. besta “útlendingalið” félagsins er valið…

En það er þvílíkt smáatriði að það er hlálegt að tala um.

Liverpool Encyclopedia er bók sem án vafa gleður okkur öll sem hana eigum. Maður þarf að fara í gegnum hana alla áður en maður byrjar að lesa til að átta sig á hvað í henni er og svo er hún líka rit sem maður hefur ekki langt frá sér í leikjum eða í umræðum. Uppbyggingin hennar er líka þannig að maður mun sennilega alltaf rekast á nýja litla punkta í henni sem er svo skemmtilegt að reka sig á og hugsa “já, var það”.

Í síðasta lestrinum mínum fann ég t.d. skemmtilega staðreynd. Þá að Alan A’Court lék sinn síðasta leik fyrir Liverpool í fyrsta evrópuleik félagsins, gegn KR. Þá sá ég líka mynd af Kenny Dalglish frá Hillsborough sem er alveg svakalega lýsandi einhvern veginn fyrir þann dag. Svona pikkar maður hægt og rólega inn skemmtilega hluti.

Ég kann ekkert að gefa stjörnur eða svoleiðis, lýsi bara hérna minni skoðun…og hún er sú að þessi bók fær fullt hús. Tikkar í öll box. Auðvitað úreldast svona bækur oftast áður en þær koma út þar sem að nýir leikmenn eru komnir og einhverjir sögulegir hlutir gerast. En sem alfræðiorðabók um íþróttafélag verður þessi bók bara alls ekki toppuð og er rós í hnappagat þessara drengja tveggja.

Sem eru auðvitað alveg snargeggjaðir þegar kemur að Liverpool, sem er by the way í þessu samhengi afskaplega jákvætt.

Til hamingju Arngrímur og Mummi…..já og við öll auðvitað fyrir að eiga kost á svona verki…

7 Comments

  1. Það er með ólíkindum að svona ítarlegt rit skuli yfir höfuð vera til. Ótrúleg vinna sem liggur þarna að baki og eiga þeir félagar skilið mikið hrós fyrir.

    .

    Jólagjöfin í ár komin, klárlega!

  2. er hægt að fá þetta ritverk á íslandi, eða þarf maður alltaf að panta þetta frá bretlandi?

  3. Engin spurning að maður verður að versla þessa bók. Lítur gríðarlega vel út. Þeir voru mjög hrifnir á Anfield Wrap.

  4. Búinn að lesa mína bók spjaldana á milli og er þetta algjör snilld. Maður á eiginlega flestar bækur sem gefnar hafa verið út um liverpool(marga tugi) og er þetta ein sú besta því að hún dregur eiginlega allt saman. Players bækurnar eru aðeins ítarlegri um marga leikmenn liðsins en í þessari bók er ekki bara verið að fjalla um leikmenn.

    Af 10 þá fær þessi bók 10. Ef þið þekkið einhvern die hard Liverpool aðdáanda þá er þetta jólabókinn í ár(eða kannski ef hann er virkilega die hard þá væri hann líklega búinn að kaupa hana) 😉

    P.s samála því að þetta besta útlendingalið liverpool í bókini er ja…. ég er allavega ekki samála

  5. Takk strákar, varðandi kaup á bókinni hérna þá erum við Arngrímur með nokkur eintök (fer reyndar ört fækkandi) sem menn geta keypt hjá okkur. Þið getið sent mér email á mummi@lfchistory.net fyrir nánari upplýsingar.

    Eymundsson eru svo að vinna í því að panta inn bókina en það eru einhverjar vikur áður en hún birtist þar. Nokkuð viss um að hún verði dýrari þar en hjá okkur.

Þeir ríku verða ríkari

”Skyldusigrarnir”