Hvað er með leikkerfin?

Undanfarnar vikur hefur nokkuð ný umræða tröllriðið flestum spjallþráðum, bæði hér á kop-inu okkar sem og annars staðar.

Umræða um það leikkerfi sem Brendan Rodgers hefur lagt fyrir fætur leikmannanna okkar nú um sinn, eða frá því að við lukum leik gegn Southampton á Anfield eftir 0-1 tap eftir alveg svaðalega lélega frammistöðu drengjanna í alrauðu. Þá hafði hann reynt að spila með “sínu” kerfi með leikmönnum sem margir hverjir féllu ekki að því kerfi með beinlínis voðalegum árangri.

Í næsta leik á eftir þeim hélt hann með drengina á Old Trafford og lék þar deildarbikarleik gegn Man. United. Tapaði vissulega en náði ágætum leik. Liðið í þeim leik var svona:

Mignolet

Touré – Skrtel – Sakho
Henderson – Gerrard – Lucas – Enrique
Moses
Suarez – Sturridge

Auðvitað ætti ég að leita á netinu eftir stærra taktíkborði og með flottari grafík en ég held við þurfum þess ekkert endilega. Ef að við hefðum séð Rodgers nota þennan sama 11 leikmanna hóp til að spila sitt 4-2-3-1 (eða 4-4-1-1) hefði hann væntanlega stillt svona upp:

Mignolet

Touré – Skrtel – Sakho – Enrique
Gerrard – Lucas
Henderson – Suarez -Moses
Sturridge

Svona einhvern veginn svona. Við vitum auðvitað ekkert hvernig það hefði hugsanlega gengið en í kjölfar þessara tveggja leikja hefur liðið svo náð 7 stigum af 9 mögulegum með að spila fyrra kerfið, árangur sem við getum ekki bölvað yfir. En hvaða munur er á uppleggi þessara tveggja leikkerfa, hvers vegna valdi Rodgers að söðla um?

Varnarsvæðin

Það fyrsta sem maður rekur augun í við að horfa á nöfnin á leikvallarspjaldinu er auðvitað það sem sennilega hefur orðið til þess að sífellt færri lið leika með þessu leikkerfi. Varnarsvæðið sem liggur utan við hafsentana þrjá og fyrir aftan vængbakkarana. Í kringum 1990 léku fjölmörg bestu félags- og landslið heims þetta kerfi með fínum árangri. En upp úr EM 1996 fór að þyngjast róður þessara liða, fyrst og fremst þar sem að lið voru farin að verjast leikkerfinu með að taka sín lið aftar á völlinn og síðan beita skyndisóknum upp í þau svæði sem vængbakkararnir skildu eftir sig, því þeir þurfa heldur betur að sækja. Í raun er skylda þeirra að sækja meiri en að verjast og það er ekki öllum gefið. En til að spila með 4ra manna vörn þá máttu bara sækja á öðrum bakverðinum eiginlega í einu, sá hinum megin má ekki vaða stanslaust upp nema að kantmaðurinn fyrir framan sé varnarlega sinnaður. Eins og við sáum á síðustu leikjum liðsins í fyrra þegar Downing var búinn að læra þetta nokkuð vel með Johnson og Coutinho og Enrique áttu rispur inni á milli.

Við sáum heldur betur gegn Soton að við vorum ekki með leikmenn til að “mastera” það upplegg fjögurra manna varnarinnar og því ákvað Rodgers að stilla upp þriggja hafsenta línu sem bera átti ábyrgð á varnarleiknum og hleypa vængbökkurunum ofar.

Pressa og posession

Það gefur auga leið þegar við horfum yfir myndirnar tvær í hvoru kerfinu þú getur hápressað. Þessir þrír hafsentar okkar hafa yfirleitt þá skyldu að passa upp á einn framherja plús mögulega AM-C og þar með erum við orðin með allavega einn “auka” sem ekki pressar mann. Þegar þú bætir því við að um leið og vængbakkarinn tapar boltanum þá á hann að skila sér “heim” þá ætti okkur öllum að vera ljóst að leikkerfið 3-4-1-2 býður einfaldlega ekki upp á pressu í þeim mæli sem næst með því að spila 4-2-3-1. Þá meina ég taktískt og óháð nöfnum á blaði. Það er einfaldlega miklu einfaldara fyrir mótherjann að losa um pressuna.

Á sama hátt hefur það að pressa ekki áhrif á posession í leiknum. Við einfaldlega leyfum liðum að fá meiri frið á sínum varnarhelmingi á meðan að við erum að koma lagi á okkar varnarstöður og því höfum við reglulega séð andstæðingana hafa hærri prósentutölur á boltann en við náum. En það er að mínu mati ekki nokkur ástæða til að láta eins og það sé til einhvers marks um “daprari” frammistöðu en áður, heldur er þetta einfaldlega beint framhald af uppleggi leiksins.

Sóknarleikurinn

Mér finnst í raun hér vera komið að aðalástæðu þess að við höfum séð Rodgers taka þá ákvörðun, tímabundið, að færa sig frá því leikkerfi sem hann hefur oftast stundað og í það sem við höfum horft uppá síðustu leiki.

Reyndar held ég að við sjáum ekki mörg lið leggja svona kerfi upp á þann hátt sem Rodgers hefur gert, með tvo sentera – SAS drengina og síðan klárlega sóknarmann með mjög frjálst hlutverk, Moses, þar fyrir aftan.

Í raun höfum við horft upp á tvo miðjumenn berjast gegn þremur í flestum þessara leikja, klár undirtala. En málið er það að Lucas og Gerrard náðu fínum tökum á því í leiknum á Old Trafford og Sunderland og náðu að koma í veg fyrir opin færi auk þess að flytja boltann hratt upp völlinn. Hendo leysti Lucas af gegn Palace og gerði það svo vel að mér fannst hann eiga skilið nafnbótina maður leiksins.

Gegn Newcastle um helgina náðu Hendo og Gerrard ekki upp sama takti og hinir óþreytandi röndóttu vinnuhestar unnu miðjuna fljótlega þar sem að Moses var ekki mikið að styðja (sem hann átti sennilega ekki að gera) og það lítur alltaf frekar leiðinlega út þegar slíkt er á ferðum.

EN. Vorum við kaffærðir þegar kemur að færum? Mitt svar er nei. Við áttum miklu fleiri færi í leiknum á meðan við vorum 11 á 11, þá meina ég bara í færum. Því að þetta sóknartríó, Suarez, Moses og Sturridge er ógnarsterkt að mínu viti. Það er auðvitað erfitt að segja hvað hefði orðið en ég er alveg á því að ef að Newcastle hefði haldið sínum mönnum inná og komið og sótt í seinni hálfleik hefðum við fengið enn fleiri opnanir en við þó fengum.

Og að mínu mati áttum við skilið að vinna þennan leik. Suarez hefði skorað í 8 skipti af 10 þegar hann skaut í þverslá eftir, jú gleymum því ekki, frábært hlaup Cissokho upp kantinn. Enn frekar eftir að svissað var um leikkerfi en það er erfitt að átta sig á hvort það var leikkerfið eða þreyta heimamanna sem gerði það að verkum.

Næstu leikir

Ég hef velt þessum leikkerfum fyrir mér töluvert undanfarið. Ég hef ALDREI fílað 3-5-2 á nokkurn hátt. Mér finnst einmitt of stór svæði opnast varnarlega og þú þarft að vera með hafsentana þrjá ótrúlega vel skipulagða til að þetta virki gegn “alvöru” framlínu. Þetta er örugglega draumakerfi framherjaparsins sem er með það marga fyrir aftan sig að þeir fá frjálsar hendur. Mér finnst þó of miklu fórnað til að koma upp framherjapari þegar við töpum posession og fáum á okkur þær kantbylgjur sem við höfum fengið, meira að segja líka gegn Palace á Anfield.

Ég hins vegar hrósa Rodgers fyrir að sjá strax gegn Soton að það þýðir ekki að spila 4-2-3-1 kerfið nema að vera með menn í það. Við eigum ekki hægri kants kombóið sem við áttum þegar Downing var þar og tilraunin til að spila Kolo með Hendo eða Moses var vonlaus. Hvað þá þegar Enrique var tæpur. Þá hugsaði karlinn út fyrir boxið, fórnaði leiknum á Trafford til að læra inn á færslur og hefur náð fullt af stigum út úr þessu leikkerfi, hvort sem ég fíla það eða ekki.

Ég er hins vegar á því að nú sjáum við breytingu á. Johnson er orðinn heill, Lucas er að koma til baka og Coutinho líka. Það sem þarf að sjást núna á næstu vikum er uppsetning sem kemur öllum okkar bestu mönnum fyrir. Þá held ég að við tölum um Suarez, Sturridge, Moses og Coutinho í framlínunni. Þar liggur okkar mesta sóknarhætta og henni þarf að koma fyrir.

Rodgers hefur nú þann hausverkin. Enginn þessara fjögurra mun spila álíka og Downing gerði sem mun þýða það að bakverðirnir okkar fara ekki eins hátt og þeir gerðu í fyrra. Nema þeir verði vængbakkar með þrjá hafsenta fyrir aftan sig. Við eigum engan öskufljótann kantmann sem hnýtir niður bakvörð andstæðingsins og því held ég að við munum sjá enn nýja útfærslu þegar allir verða heilir.

Kannski á einhvern svona hátt:

Mignolet

Johnson – Touré – Sakho – Enrique
Gerrard – Lucas
Moses – Coutinho – Suarez
Sturridge

Ekkert öðruvísi á myndinni en Gerrard, Hendo og Lucas verði settir í að verja miðsvæðið og falla í þá stöðu sem mögulega gæti losnað við það að bakvörður fari upp, en á einhverjum mómentum verði allir fjórir framherjarnir á nýjum stað. Sturridge á hægri kanti, Moses uppi á topp, Coutinho vinstri og Suarez AM-C.

Það er kannski mín ósk, en þó líka spá. Ég held að Moses sé búinn að þrælsanna sig í þetta lið og við þurfum að koma þessum fjórum ásum fyrir og fullnýta þeirra styrkleika. Ég held að það gerist frekar í þessu kerfi en í 3-4-1-2 en lykilatriðið verður auðvitað að SAS samstarfið virki áfram eins og hingað til.

Í því liggur okkar stærsta von og út frá því þarf að leggja upp sóknarleik liðsins!

35 Comments

 1. Vissulega gott að ná í 7 stig af 9 í EPL og það með tveimur útileikjum og þetta eru flottar pælingar með 5-3-2 kerfið (þetta er mikið frekar varnarmenn heldur en miðjumenn og því alveg eins rétt að tala um 5-3-2).

  United leikurinn var ekki góður af hálfu Liverpool og ég hef ekki alveg skilið hvað reynt er að fegra hann. Þetta var ekkert heimsendir neitt en við töpuðum fyrir United liði sem gerði 9 breytingar fyrir þann leik og náðum lítið að ógna þeim. Ég pirraði mig einmitt mjög á þessu nýja leikkerfi og það sérstaklega marki undir í seinni hálfleik enda ógn Liverpool afar lítil og pressan máttlaus. Þar fyrir utan hefur United ekki beint verið að gera merkilega hluti undanfarið.

  Næstu tveir leikir voru svo gegn Sunderland og Palace sem eru núna með 1 og 3 stig á botninum með -14 og -15 í markatölu eftir 8 umferðir. Gegn Sunderland var Liverpool mjög langt frá því að vera sannfærandi og í raun mjög heppið á köflum í leiknum. Unnu vissulega góðan sigur en líka algjöran skyldusigur. Luis Suarez gerði í raun endanlega út um þann leik á 89.mínútu.

  Palace var líklega ennþá meiri skyldusigur en Sunderland og þeir voru líka afgreiddir flott í góðum fyrri hálfleik. Sá seinni skipti í raun ekki máli og var raunar mjög dapur hjá okkar mönnum.

  Þetta eru sex af þessum 7 stigum.

  Að tapa svo tveimur stigum gegn Newcastle manni fleiri í 50 mínútur verður bara ekkert fegrað og hvað þá ef við skoðum spilamennskuna. Stjóri Newcastle sá við okkar stjóra í þeim leik.

  Þess vegna er ég ennþá svo mikið langt í frá sannfærður um þetta nýja leikkerfi okkar, jafnvel þó að þetta þýði að Suarez og Sturridge geti verið saman upp á topp.

  Ég óttast leikina gegn liðum sem eru betri en Palace og Sunderland ef það á að spila svona áfram. t.d. þennan Newcastle leik og eins WBA um næstu helgi.

 2. 3-4-1-2 kerfið hjá Brendan gengur nokkuð vel upp sérstaklega með Lukas inn á en hann liggur aftar og fer ekki fram yfir miðju sem gerir það að verkum að hafsentarnir geta lokað þokkalega á kantana. Einnig er Lukas með mikið af stuttum einföldum sendingum sem losa vel pressu sem myndast og gefur Gerrard frjálsara hlutverk.
  Mér fannst þegar Hendó fór inn á miðjuna í leiknum gegn Soton að þá var það Gerrard sem féll niður og Hendó var út um allan völl. En gegn Newcastle var það Hendó sem féll niður og hann hreinlega sást ekki í leiknum. Hvorki Gerrad né Hendó eru mikið fyrir stuttar og einfaldar sendingar og eru oft með mikið af þessum svo kölluðu Hollywood sendingum sem fóru einfaldlega yfir Moses eða voru bara einfaldlega og erfiðar að taka við. Mínar helstu áhyggjur eru að þegar við spilum gegn sterkari andstæðingum þá komum við til með að falla of aftarlega í með þessu 3-4-1-2 kerfi.
  En það má samt ekki gleima því að báðir bakverðirnir okkar voru að komu úr meiðslum og það var greinilegt að þeir voru ekki í góðri æfingu.

 3. Þetta leikkerfi er í sjálfu sér flott. Bayern Munchen notar mjög svipað nema munurinn á liðunum er að Bæjarar hafa mun sterkari leikmenn. Ástæðan fyrir því af hverju Liverpool getur ekki spilað þetta leikkerfi örugglega er af því að við erum einfaldlega ekki með nægilega sterka miðjumenn. Gerrard hefur verið að ‘underperforma’ þar sem dekkningin og yfirferðin er ekki að skila sér. Ég vona að Joe Allen fái séns á hans kostnað en því miður er það aldrei að fara að gerast þar sem þetta er Steven Gerrard. Gerrard er betri leikmaður en Allen, en hentar hann betur í þetta kerfi? Ef við tökum Swansea leikinn sem dæmi sem mér fannst klárlega okkar versti leikur á miðjunni, að þá unnu Lucas og Gerrard aðeins tvær tæklingar.

  Ég skil ekki hvað Rodgers var að pæla gegn Newcastle að stilla Gerrard og Hendo upp gegn Cabaye, Tiote og Sissoko. Við vorum heppnir að þeir fengu rautt spjald því ég stórefast um að við hefðum náð stigi miðað við hvernig við byrjuðum leikinn og þeir með 11 menn inná, því við áttum nógu erfitt með þá með aðeins 10 leikmenn inná.

 4. Rodgers verður að finna aðra leið til að spila SAS frammi að mínu mati. Það gengur ekki að hafa Gerrard og Moses sem 2 af 3 mönnum á öllu þessu svæði. Moses var hrein hörmung í Newcastle leiknum, týndi tölunni á því hve oft hann sendi boltann rakleiðis í fæturnar á andstæðingnum. Hann er enginn tía, og því ekki við hann kannski að sakast.

  Það væri mögulegt að hafa Lucas, Allen, Coutinho í þessum stöðum en á móti myndu lið eins og Man City valta yfir þá með Yaya Touré, Fernandinho & Co. Þetta væri bara mögulegt í Crystal Palace og mögulega Chelsea leikjum.

  Rodgers er hugaður maður, en hann er aldrei að fara að taka Gerrard úr liðinu. Því verðum við að spila kerfi sem hann getur verið í, en þá er erfitt að spila SAS frammi. Það er því spurning hvort ekki væri hægt að spila 4-2-3-1, með Suarez, Coutinho og Henderson fyrir framan Lucas og Gerrard, þar sem Henderson sinnir varnavinnunni aðeins meira.

  Allaveganna vil ég ekki sjá Moses aftur inn á í #10 hlutverki, og helst ekki þurfa að bíta í tunguna á mér varðand Gerrard, enda er sá maður hvað næst almættinu í öllu Evrópusambandinu og Vatíkaninu.

 5. Áhugaverður pistill.
  En ég er sammála því að við höfum ekkert verið að spila neitt sérstaklega vel með þetta kerfi.
  Já, United leikurinn var slakur á móti varaliði liðs sem situr við miðja deild.

  Crystal Palace og Sunderland eru lið sem eru búin að panta miða í Championship deildina. Geta lítið og eru fallbyssufóður fyrir önnur lið. Samt vorum við ekkert að brillera gegn þeim.
  Newcastle voru einum færri í 50 mínútur og ennfremur með verra lið en Liverpool þó fullmannað. Vorum bara lélegir í leiknum, mjög svo.

  Getum kannski hrósað happi yfir því að við erum að mæta “þægilegum” liðum á meðan þessu stendur. Virðist sem Coutinho sé okkur gríðarlega mikilvægur til þess að ná að stjórna leikjum. Og engan eigum við sem getur leyst Glen Johnson af hólmi sem sókndjarfan bakvörð.
  En ef við höldum þessari tilraun áfram verður okkur slátrað af alvöru liðum sem við erum að fara mæta nú í nóvember og desember.

  Rodgers þarf að finna aftur formúluna sem var að virka svo vel eftir áramót á síðasta tímabili.

 6. Æ hvað það er nú gaman að fá smá taktík-gík pælingar. Ég hef mikið spáð í þessu sjálfur undanfarnar vikur. Það skaðar reyndar “vit” mitt á Liverpool þessa stundina að streyma flestöllum leikjum, mér finnst ég nái ekki nægri yfirsýn á leikinn þannig.

  En varðandi þessi tvö ólíku upplegg Rodgers þá er augljóst að hann er að reyna að ná ákveðnu jafnvægi í liðið. Ég man eftir því í fyrra gegn Southampton (sem tapaðist 3-1), að Sturridge, Suarez og Coutinho voru allir í liðinu og það virkaði þannig að við misstum tökin á miðjunni. Gerrard og Allen voru djúpir á miðjunni og jafnvægið var afar dapurt. Þetta var að vísu á þeim tíma sem Allen var að dofna verulega. En þetta er án vafa áhætta og við þurfum eflaust öflugri miðjumenn til að geta gefið þremur sóknarmönnum það frelsi sem þeir þurfa til að blómstra.

  Að því sögðu þá er 3-4-1-2 kerfið vænlegra ef við ætlum að byggja í kringum þessa þrjá gæja. Þá komum við þeim öllum fyrir í uppáhaldsstöðunum sínum og þeir geta hæglega gert allar varnir deildarinnar gráhærðar. Ég er samt eins og Maggi ekki mjög hrifinn af þessu kerfi per se. Mér finnst það einfaldlega of varnarsinnað. Eins og fjallað er um hér að ofan þá er kjánalegt að fórna sóknarmanni fyrir varnarmann sem er oftast úti á túni allan leikinn og hefur ekkert sérstakt hlutverk nema að verjast og sækja í föstum leikatriðum. Jú, auðvitað þarf vörnin að sinna færslum þegar bakverðirnir fara upp og pláss skapast á bakvið þá. En þetta skemmir líka fyrir uppspili og dregur úr möguleikum okkar til að pressa, eins og fjallað er um hér að ofan.

  Ég held að besta uppstillingin sem við getum hugsað okkur þegar allir eru heilir sé eftirfarandi:

  Mignolet

  Johnson – Toure – Sakho – Enrique

  Gerrard – Lucas

  Henderson

  Suarez – Sturridge – Coutinho.

  Í þessu kerfi erum við með mjög öfluga miðju sem ætti að geta náð tökum á hvaða miðju sem er. Síðan eru þrír senterar sem allir eru “roaming” út um allt þannig að varnir andstæðinganna vita aldrei hvern þeir eru að dekka og þeir eru í sjálfu sér alltaf að finna sér svæði. Henderson hefur þá líka þær skyldur að finna sér pláss og svæði, hvort sem er úti á köntum, á miðjunni eða í annarri bylgju. Þá ætti Gerrard líka að hafa möguleika á að sækja þótt hann og Lucas gegni fyrst og fremst varnarskyldu, sérstaklega þegar annar eða báðir bakverðir fljúga upp kantana.

  Ástæðan fyrir því að Moses er ekki í liðinu er sú að Rodgers spilar ekki með víða kantmenn og Moses er miklu meira sú týpa heldur en sá sem spilar á öfugum kanti og ógnar með innhlaupi. Þess vegna held ég að Moses sé ekki sá leikmaður sem okkur vantar til langframa. Og það er líka ástæðan fyrir því að ég held að Sterling eigi ekkert sérstaka framtíð hjá liðinu. Ég er ósammála Magga með það, mér finnst Moses ekki hafa sannað sig sérstaklega hjá liðinu.

  Ofan á þetta glímir Rodgers síðan við annars konar vandamál núna. Skrtel er ekkert að fara missa sæti sitt frekar en Sakho og Toure fyrr en þeir gera einhver stór og afdrifarík mistök. Og með þrjá haffsenta eru líkurnar á stórum og afdrifaríkum mistökum minni því það eru tveir aðrir haffsentar til að bakka þá upp. Allir hafa þeir spilað mjög vel og eini sénsinn á að hann taki einhvern þeirra út úr liðinu er að einhver þeirra meiðist. Sakho meiddist í síðasta leik en vonandi ekki alvarlega sem þýðir að þeir verða líklega allir áfram í liðinu.

  Til að ljúka þessari romsu þá held ég að Rodgers muni stilla liðinu áfram upp eins og hann hefur gert amk. þangað til einn af haffsentunum meiðist. Svo held ég reyndar líka að við verðum nánast aldrei með “okkar sterkasta lið” því það eru nánast alltaf einhver meiðsli í gangi á fyrstu 11.

 7. Mér finnst liðið hvorki fugl né fiskur í þessu 3-5-2 kerfi. Liðið nær ekki að pressa eins vel á andstæðinginn, það liggur aftar á vellinum og hefur minna possession. Maður stóð í þeirri meiningu þegar Rodgers tók við að þetta væru einmitt þau atriði sem hann stæði fyrir og legði mesta áherslu á að sjá meira af.

  Vissulega höfum við verið að ná ágætis úrslitum en eins og Babu bendir réttilega á fáum við þessi síðustu 7 stig gegn liðum sem teljast seint til þeirra sterkustu í deildinni, eiginlega þvert á móti. Og það nú ekki eins og við höfum verið að spila stórkostlega gegn þeim. Persónulega auglýsi ég eftir því að sjá liðið spila svipað og í fyrra. Fannst mun skemmtilegra að horfa á það heldur en þetta sem við höfum séð til þessa.

  Ég hélt að Rodgers myndi byggja ofan á það sem náðist í fyrra og bæta hópinn m.t.t. þess. En hann virðist einhvern veginn hafa farið í allt aðra átt með liðið. Við höfum bara virkað frekar ósannfærandi í flestum leikjum það sem af er þessu tímabili að mínu mati. Og höfum ekki batnað með þessu þriggja miðvarða dæmi sem er bara engan veginn að gera sig. Við erum ekkert sterkari varnarlega þannig og erum ítrekað að lenda í vandræðum þar sem við náum ekki að færa liðið nógu hratt framar á völlinn.

  Ég held að fjögurra manna varnarlínan sé mun vænlegri kostur þar sem annar bakvörðurinn sækir upp völlinn í einu. Held að ekki sé þörf á stuðningi beggja bakkaranna við sóknina þegar við höfum okkar sterkustu menn fremst á vellinum. Þessu til stuðnings má benda á að við vorum að halda hreinu í fyrstu leikjum tímabilsins með fjögurra mann vörn, það hefur ekki verið raunin eftir að við fórum að nota þrjá miðverði.

  Annars er varnarleikurinn á þessu í undanförnum leikjum eitthvað sem mér finnst bara efni í sérstakan pistil hér á síðunni. Alveg ótrúlegt að horfa upp á reynda atvinnumenn í íþróttinni falla ítrekað í þá gryfju að sofna á verðinum og horfa bara á þegar boltinn kemur fljúgandi inn í teiginn, nefni sem dæmi mark Manure í deildarbikarnum og seinna mark Newcastle um helgina.

  En hei, við erum nálægt toppnum en nú fara í hönd leikir þar sem virkilega mun reyna á styrkleika liðsins og við fáum að sjá fyrir alvöru hvers mikil gæði eru í þessu liði. Ég vona það besta en er farinn að gera ráð fyrir hinu versta.

 8. Ég held að það væri best að fara spila 442 með tígulmiðju, sem er nokkursskonar 4-3-1-2. Gætum haft Lucas djúpan með Henderson og Gerrard fyrir framann og síðan Couthino í holunni fyrir aftan Suarez og Sturridge. Þetta myndi klárlega styrkja hjá okkur miðjuspilið og við gætum haft alla bestu mennina okkar inná í einu og við hefðum Allen og Moses á bekknum. Einnig er mjög auðvelt að breyta í 4-2-3-1 eða 4-3-3.

 9. Flottur pistill! Mjög góður pistill!

  Ég er sjálfur mikill áhugamaður um leikkerfi og annað slíkt, mér finnst ósegjanlega gaman að pæla í slíku. Get líka sagt frá því að ég er mikill aðdáandi Formúlu 1 og pæli mikið í taktík liðanna þar – þó svo að Bernie Eccelstone og FIA séu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að eyðileggja þá göfugustu íþrótt allra tíma. En það er útúrdúr.

  Góður maður sagði eitt sinn, að leikkerfi skipta ekki máli. Lið sækja þegar þau hafa boltann, og verjast þegar þau eru ekki með hann. Svo barnslega einfaldur sannleikur, sem er í takt við þessa íþrótt. Hún er einföld í grunninn, en mönnum hættir til að flækja hana óþarflega.

  Ég er hrifinn af 3-4-1-2 leikkerfinu sem slíku, tel það henta best okkar liði þegar allir eru heilir.

  En vandamál þessa kerfis komu bersýnilega í ljós gegn Newcastle. Það er til lítils að hafa alla þessa varnarmenn, þ.e. 3 stk., ef það er aðeins 1 eða jafnvel einn og hálfur sóknarmaður til að berja á þeim. Þá er illa nýttur mannskapurinn. Það sást þegar Cabaye skoraði, hann fékk að valsa með boltann frá miðju óvaldaður og gat valið sér stað til að leggja boltann í netið með þrumufleyg. Vissulega hefði Mignolet átt að gera betur, en honum til stuðnings segi ég að það átti aldrei að leyfa Cabaye að fá þetta pláss.

  Hefði liðið spilað með tvo DMF, t.d. Lucas og Henderson/Gerrard, þá má færar sterkar líkur fyrir því að Cabaye hefði aldrei fengið þetta pláss. Og þar af leiðandi ekki skorað þetta mark.

  Því segi ég, það á ekki að skipta máli hvaða leikkerfi menn nota í hverjum leik. Lið þurfa að geta aðlagað sig að mótherjanum. Liverpool spilar þannig í dag, að það leyfir mótherjanum að stýra leiknum. Það á ekki að vera þannig, því það felst í hugmyndafræði Brendan Rodgers, að halda boltanum innan liðsins og stýra leiknum sjálfir. Það er ekki að gerast, og því þarf að breyta.

  Næsti leikur er gegn WBA. Mér er sama hvaða leikkerfi Brendan ætlar að nota í þeim leik, svo lengi sem hann ákveður að aðlaga leikstíl liðsins að andstæðingnum. WBA hefur verið að spila einhvers konar 4-4-1-1 að mér skilst, og því er lykilatriði að manna miðjuna þannig að hún fái ráðið við þá 4/5 leikmenn sem verða þar hjá WBA.

  Nema auðvitað að Brendan hafi notað síðustu daga og vikur til þess að berja í leikmennina sína að possession, possession, possession sé númer 1, 2 og 3.

  Það er líka bara rugl að Suarez þurfi að vera á toppnum með Sturridge. Suarez er leikmaður sem þú festir ekkert í eina stöðu. Hann er ekkert síðri á vinstri vængnum, í holunni eða á hægri vængnum. Satt best að segja þá vil ég frekar hafa hann í þeim stöðum heldur en Henderson og Moses. Þannig skellum honum frekar á annan hvorn kantinn, Coutinho í holuna, og Sturridge upp á topp!

  Shii,,, þetta er svo auðveld íþrótt! 🙂

  Homer

 10. Ég væri mest til í 442 þar sem vængmennirnir eru duglegir að fara inn á miðjuna eða gera það sem þeim sýnist. Spila bara svipað og íslenska landsliðið. Ekkert að vera flækja hlutina neitt mikið.

  Mér finnst stóra spurningin hvort eigi að spila Sakho sem er búinn að gera einhver mistök í flestöllum leikjunum hingað til.

 11. skemmtilegar pælingar,

  ég held að Úlfar (comment 9) sé klárlega með bestu uppstillinguna þegar allir eru heilir sem nær því besta úr mannskapnum. Ég held líka að þetta sé sennilega það sem að Rodgers myndi stilla upp nema að það er erfitt að segja hvaða hafsenta hann velur enda mjög góð breidd þar.

  Vandamálið er bara að þar sem að Liverpool vantar breidd í ákveðnar stöður gengur 4-4-2 með tígul miðju eða 4-3-1-2 ekki upp. Liverpool vantar back up bakverði báðum megin sem geta bæði sótt og varist. Um leið og Johnson eða Enrique meiðast þá gengur þetta kerfi ekki upp þar sem að við þurfum bakverði sem geta sótt vel upp kantinn. Annars verður spilið alltof þröngt. 3-5-2 finnst mér nokkuð gott útspil til að nota þangað til menn koma heilir tilbaka. Gegn Newcastle floppaði þetta algjörlega enda mjög undirmannaðir á miðjunni. Þá komu gallarnir á þessu kerfi vel í ljós.

  Hins vegar held ég að sama hvaða kerfi Liverpool notar þá verður að vera með SAS frammi, ekki að annar þurfi að sinna varnarskildu. Suarez var látin gera það nokkrum sinnum á síðustu leiktíð og var oft of langt tilbaka eða búin á því í lok leiks. Þegar framherjarnir eru svona góðir verður að kreista það besta út úr þeim.

  Annað sem ekki hefur komið fram er að láta Gerrard fá meiri séns á að fara fram. Hann er kannski ekki allveg með sama sprengikraft og áður fyrr en ég er nokkuð viss um að hann muni gera mun meiri usla en Moses. Hann getur skorað og átt úrslitasendingar. Ef Liverpool spilar tígulmiðju þá fengi Gerrard meira frjálsræði á kostnað t.d. Henderson eða Allen sem yrðu þá meira tilbaka með Lucas. Það er gott að vera með SAS og Coutinho sem sóknarþunga en ef það er hægt að færa Gerrard framar þá er lítið sem getur stoppað sóknina. Kannski fáum við fleiri mörk á okkur en lið munu óttast þetta og spila passívara fyrir vikið sem gefur þeim minni færi á að sækja á mörgum mönnum. Sóknin er besta vörnin.

 12. Ef við förum yfir þetta 3-4-1-2 kerfi sem liverpool er að spila.

  Mér finnst þetta snilldar kerfi og hentar liðinu frábærlega.

  AFHVERJU?

  jú liðið á fullt af frábærum miðvörðum og þarna fá 3 að njóta sýn í staðinn fyrir að að vera með 2 á bekknum eða jafnvel einn ekki í hóp.

  Liðið á sókndjarfa bakverði sem elska ekki að spila vörn. Þetta kerfi er fulkomið fyrir Glen og Enrique.

  Við spilum með bæði Suarez og Sturridgea á toppnum en það er þeira besta staða og viti menn það er líka pláss fyrir leikstjórnandan Coutinho fyrir aftan þá.

  Í 4-4-2 fengi Couthino ekki að spila í þessu frálsahlutverki og væri settur á kannt eða fyrir aftan framherja með Suarez eða Sturridgea á kanntinum.

  Svo á miðjuni getum við verið með Lucas djúpan og Gerrard að stjórna leiknum eða Henderson og Gerrard saman.

  Mér finnst Rodgers vera að stilla leikerfi eftir styrkleikjum liðsins en ekki öfuggt og finnst mér það algjör snilld.

 13. 14

  Við erum manni færri á miðjunni og náum alls ekki að pressa andstæðinginn eins og æskilegt er. Andstæðingurinn nær umsvifalaust völdum á miðsvæðinu á meðan við erum með extra gaur hangandi aftast.

  Hvað er æðislegt við þetta?

 14. Ég langar sá okkar menn spilla aðeins lengur 3-4-1-2 kerfið sérstaklega þegar Glen og Enrique spilla saman og brassinn kominn i holuna. Annars leist ég vel á þessa 4-4-2 tigul leikaðferð sem Úlfar minntist á.
  Leikhópurinn er bara ekki nógu góður. FSG voru bara ekki nógu duglegir i að styrkja okkur í sumar. Okkur vantaði dekkingu í sumar stöður sérstaklega í miðjunni. Sala Downing var bara rugl eins og staðan er núna. Hann væri góður kostur sem wingback.

 15. Sá í kvöldfréttunum á stöð2 að Ferguson á að hafa látið Gerrard heyra það í sjálfævisögu sinni, einhver með það sem hann sagði?

 16. Mér finnst Rodgers því miður ekki alveg vera með þetta. Ég er ansi hræddur um að við þurfum mann af Wenger/ Rafa klassa til að landa CL sæti. Höfum ekki efni að klúðra mörgum stigum með vitlausum leikkerfum eða of seinum viðbrögðum stjórans til að bkoma með plan B. Bæði Newcastle og sérstaklega Southamton leikurinn sitja enn þungt í mér. Hópurinn lítur vel út þótt þunnur sé, ég er því miður enn langt frá því að vera viss um hvort Rodgers sé maðurinn.

 17. 17 hann sagði m.a.

  “I’m one of the few who felt Gerrard was not a top, top player.”

  adding that it was “absolute nonsense” to suggest either Gerrard or Chelsea’s Frank Lampard were better midfielders than Paul Scholes.

  But the Scot does credit Gerrard with the ability to take on teams single-handedly, and notes the Reds skipper was one of the only players who could hurt United with forward bursts towards the heart of their defence.
  http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/sir-alex-ferguson-admits-tried-6223854

 18. Rauðu Djöflarnir eða Man Utd spjallið eru eflaust með fínustu umræðu um þessa skosku skáldsögu. Höldum þessum þræði um efni pistilsins (já og bara flest allt annað).

 19. Sammála því að það er ekki til nokkurs fyrir nokkurn Poolara með snert af virðingu að tala um upplifun frekjudollunnar gömlu sem vill enn fá sviðsljós. Roy Keane er að mínu mati búinn að kveða þetta bull allt í kútinn. Tölum um Liverpool, ekki bara á kop.is, leyfum facebook og twitter að loga af öðru en bullinu í þessum fyrrum stjóra takk…

  (Innskot Babu: Lokum hér með á þessa umræðu)

 20. Skilur einhver afhverju, Sahin fékk ca. 10 leiki með liðinu og var síðan shjippað í burtu? Það er ekki eins og það er örtröð af miðjumönnum í liðinu.

 21. Það þarf ekkert að flækja þetta.. Mér finnst í lagi að spila með 3 miðverði 3-4 sinnum á tímabili.. SS á útivöllu, þar við við viljum reyna að ná i 1 stig… Að spila þetta kerfi á Anfield er bull og ég skil ekki þetta bull í Brendan.. Hann á alltaf að spila 4-3-3 á heimavelli og líka flesta leiki á útivell.. Það er kannski í lagi að spila 3-5-2 á útivelli gegn United, City, Chelsea , Spurs og Arsenal…

  Ég hef nú trú á því að hann fari í gamla kerfið um helgina, ég vona það allavega… Það bitnar ansi mikið á miðjunni að spila þetta 3-5-2 kerfi… Fyrir mér er best að nota Suarez í holunni, allavega á meða Coutinho er meiddur…

 22. Sorry þraðránið en hvernig stendur á því að þetta er eina síðan á norðurhveli jarðar þar sem linkar opnast ekki í nýjum glugga. Ég dett af þessari síðu nánast í hvert einasta skipti sem ég kem hingað inn. Eiginlega óþolandi og ég tala nú ekki um ef maður er í símanum.

  • Sorry þraðránið en hvernig stendur á því að þetta er eina síðan á norðurhveli jarðar þar sem linkar opnast ekki í nýjum glugga. Ég dett af þessari síðu nánast í hvert einasta skipti sem ég kem hingað inn. Eiginlega óþolandi og ég tala nú ekki um ef maður er í símanum.

   Sæll. Ég þekki ekki margar síður sem opna linka sjálfkrafa í nýjum glugga lengur, einfaldlega af því að það er orðið svo auðvelt að hægrismella (eða halda puttanum á skjánum ef þú ert í snjallsíma eða töflu) og velja “Open in new Tab” eða “Open in new Window”. Þess vegna höfum við þetta ekki sjálfkrafa.

 23. Þú heldur niðri Ctrl og smellir á linkinn, þá opnast linkurinn í nýjum tab. Eins einfalt og hægt er.

 24. Fyrstu 3 leikir tímabilsins, vörnin var Johnson – Toure – Agger – Enrique, 0 mörk fengin á sig… Segi að við höldum okkur við það.

 25. Það er líka hægt að clicka á Scroll takkann á músinni á nýjan glugga 🙂

 26. Eg held að hann muni koma til með að spila 4-2-3-1 i næsta leik.

  Sturridge

  Moses Hendo Suarez
  Gerrard Lucas
  xxxxx xxxxx xxxxx Johnson
  Mignolet

  Eg get ekki seð hann spila með 3 miðverði þegar hann er kominn með Lucas, Hendo og Gerrrard a miðjuna og svo er Allen orðinn heill og Coutonho i þar næsta leik.

 27. Ég er 100% sammála Bond hér að ofan. Þetta er besta liðið sem völ er á og þegar Coutinho kemur inn þá dettur annaðhvort Moses eða Henderson út, ætli það fari ekki eftir aðstæðum.
  Vörnina á enn eftir að slípa saman en þar er allavega nægur mannskapur þannig að varla er hægt að líta á hana sem vandamál.
  Þá erum við með Alberto, Sterling, Aspas, Allen sem okkar varamenn. Þeir allir eru ekki beinlínis búnir að slá í gegn en eiga vonandi eftir að taka framförum.

  Ætli við séum ekki svona 1-2 leikmannagluggum frá því að vera komnir með lið sem managerinn er sáttur við

Newcastle 2 Liverpool 2

West Bromwich Albion á morgun