Crystal Palace á morgun

Tæp vika er alveg ferlega langur tími í fótbolta, heil eilífð. En eilífðin er þó betri eftir sigurleiki en tapleiki, og þannig hefur það verið nú. Á morgun koma nýliðar Crystal Palace í heimsókn á Anfield og flækjustigið er ekki mikið, það er algjör KRAFA að taka þrjú stig úr þeim leik, allt annað er algjörlega óásættanlegt. Meira að segja fer ég fram á aðeins meira en sigur, ég vil hreinlega fara að fá að sjá heilan leik hjá okkar mönnum þar sem þeir eru að spila góðan bolta. Við höfum séð ýmislegt gott það sem af er þessu tímabili, en við höfum líka séð ýmislegt sem er ekki mjög sannfærandi.

Þetta er svolítið merkilegur leikur fyrir okkur hérna á Kop.is í þokkabót. Núna er farin af stað fyrsta hópferðin á okkar vegum á Anfield, og hverjum hefði dottið það til hugar hér fyrir nokkrum árum þegar tveir skrítnir náungar stofnuðu bloggsíðu og byrjuðu að þvaðra þar fram og aftur um áhugamálið sitt, Liverpool FC. Þetta gerðu þeir af því þeir voru búnir að fá leið á spjallinu á liverpool.is. Núna nokkrum árum seinna er verið að fara í fyrstu hópferðina og efast ég ekki um það eitt sekúndubrot að þeir Maggi og Babú eiga eftir að gera þessa ferð ógleymanlega fyrir þá ferðalanga sem eru með í för. Því vonast ég extra mikið eftir frábærum leik frá okkar mönnum til að taka vel á móti fyrstu Kop.is hópferðinni. Hver veit nema þeir félagar bæti við þessa færsu einhverju skemmtilegu úr ferðinni (engar dodsí myndir af Babú samt Maggi).

En hvað um það, Crystal Palace eru í heimsókn og þeir eru núna undir stjórn Ian Holloway, sem er fyrrverandi skemmtilegur stjóri og er að fá sitt annað alvöru tækifæri í efstu deild. Ég hef ekkert farið neitt leynt með þá skoðun mína að mannskapurinn hjá Crystal Palace er sá slakasti í deildinni og að mínu mati fara þeir alveg þráðbeint niður í næstu deild fyrir neðan að tímabili loknu. Þeirra aðal maður á síðustu leiktíð, hann fór á önnur mið og hefur lítið verið að fiska þar (þó sumar fréttir segi að hann skori reglulega og að það fari bara í taugarnar á stjóranum hans), en þeir sem hafa verið fengnir til liðsins eru svona og svona. Þeir hrúguðu gjörsamlega inn leikmönnum og þeir virðast varla hafa vitað hverja og hversu marga þeir fengu, enda kom það í ljós að þeir gátu ekki einu sinni skráð þá alla í hópinn í Úrvalsdeildinni. Tveir leikmenn sem þeir keyptu í lok sumars, fengu ekki að komast á listann og verða því bara á launum þarna til áramóta hið minnsta. Menn greinilega alveg með þetta á þeim bænum og held ég að þetta lýsi þessu ágætlega hjá þeim.

En það er alltaf annar vinkill á hlutina og við erum líklegast að fara að mæta Palace á versta tíma. Þessi lið sem eru með mjög takmörkuð gæði, þau fara oft langt á “kikkinu” í byrjun tímabilsins, “kikkinu” að vera loks að spila meðal þeirra bestu og leggja sig endalaust fram. Það getur þó aldrei orðið nein afsökun fyrir okkar menn á morgun, þetta er bara leikur sem á að vinnast og ekkert röfl neitt meira um það. Ég veit svo sem ekki hvað maður á að fara yfir varðandi leikmennina þeirra, maður hefur heyrt nafnið Speroni, sem er í rammanum hjá þeim. Gabbidon er í vörninni og þeir eru með Bannan á miðjunni í láni frá Villa. Jimmy Kebe kom frá Reading og svo eru þeir með nokkra “þekkta” sóknarmenn í þeim Kevin Phillips (84 ára), Chamakh (fyrrum stórstjörnu Arsenal), Cameron Jerome og svo sinn dýrasta leikmann, Dwight Gale. Eflaust fínir fótboltamenn þarna inn á milli, en eiga að vera fallbyssufóður fyrir flest stóru liðin, í rauninni fyrir flest öll liðin í deildinni. En við vitum það svo sem af biturri reynslu og það vinnst akkúrat ekki neitt á pappírum fyrirfram og stigin þrjú lenda hjá liðinu sem skorar fleiri mörk þegar út á völlinn er komið.

Þá að okkar mönnum. Jákvæðar fregnir úr herbúðum okkar manna þegar kemur að meiðslum, loksins segja sumir. Aly Cissokho er búinn að vera að æfa með liðinu að undanförnu og gæti verið klár í slaginn, en þeir Coutinho, Allen og Glen Johnson ná víst ekki þessum leik. Þeir tveir síðast nefndu ættu samt að vera klárir eftir næsta F****** landsleikjahlé, sem kemur aldrei þessu vant bara á ágætis tíma. Coutinho ætti svo að detta inn fljótlega þar á eftir. Ég viðurkenni það þó fúslega að ég er alveg skít hræddur um að maður eins og Sturridge komi meiddur tilbaka úr því, en það er kannski bara gamla góða paranojan hjá mér.

Ég hreinlega hef átt í erfiðleikum með að gera upp við mig hvort Brendan haldi áfram að spila svipað og hann hefur gert í síðustu leikjum, þ.e. með þrjá miðverði aftast og svo tvo “Wing backs”, eða hvort hann fari aftur í hið hefðbundna þarna aftast. Þetta hefur verið að virka alveg ágætlega, er að verða betra og betra, en við verðum engu að síður að hugsa til þess að við erum núna á heimavelli, gegn Crystal Palace. En ég ætla allavega að tippa á að hann haldi áfram á sömu braut og að einn miðvarðanna verði afar sókndjarfur í leiknum (lesist Kolo Toure). Mín spá er því sú að Mignolet verði að sjálfsögðu í markinu og þeir haldi stöðum sínum aftast þeir Kolo, Skrtel og Sakho. Cissokho verður ekki byrjunarliðsklár fyrir leikinn og því verður Enrique áfram þarna vinstra megin. Stóra spurningin í mínum huga er hægra megin. Lucas er í leikbanni á morgun og Allen ekki ennþá klár í slaginn. Ég er því á því að Hendo verði settur inn á miðjuna og að Kelly komi inn hægra megin, annað verður óbreytt.

Svona er mín spá:

Mignolet

Touré – Skrtel – Sakho
Kelly – Gerrard – Henderson – Enrique
Moses
Suarez – Sturridge

Bekkurinn: Jones, Agger, Aspas, Cissokho, Sterling, Ibe, Alberto

Eins og sjá má á bekknum okkar þá erum við að finna all hressilega fyrir þeim meiðslum og leikbönnum sem eru í gangi núna, en eins og komið var inn á fyrr í upphitun, þá fara þeir hlutir að breytast til batnaðar (svo fremi að einhverjir aðrir fari ekki að taka upp sama áhugamálið). Við vissum fyrir tímabilið að hópurinn væri ekkert alltof breiður, enda ekki í Evrópukeppni. Það er þó alveg á tæru að hver einasti leikmaður sem er á bekknum okkar væri fastamaður í liði mótherja okkar. Menn verða bara að mæta til leiks á morgun og keyra á þetta lið frá fyrstu mínútu. Ég vona svo sannarlega að við náum að brjóta varnarmúr þeirra niður snemma, því þá getum við átt von á því loksins að fá sannfærandi sigur. Við vitum of vel hvernig hlutirnir geta farið ef svona lið ná að halda hreinu lengi framan af leik, þá þarf bara ein mistök og stigin þrjú geta flögrað á braut.

Palace menn hafa bara náð að skora í 2 af þessum 6 leikjum sem þeir hafa spilað, þar af settu þeir 3 mörk gegn Sunderland í sínum eina sigurleik. Þeir töpuðu naumt fyrir Spurs í fyrsta leiknum og Man.Utd vann þá 2-0 á Old Trafford. Þetta er því sýnd veiði, en langt frá því að vera gefin. Ég ætla samt að vera bjartsýnn og spá því að menn hrökkvi loksins í góðan gír og vinni þetta 4-0. Þeir félagar Suárez og Sturridge halda áfram að ná vel saman og Sturridge setur eitt, á meðan Suárez setur 2. Það verður svo Steven Gerrard sem fær að eiga lokamarkið og við förum aftur brosandi inn í landsleikjahlé.

24 Comments

 1. Vonandi fær hópurinn sem er á vegum KOP.IS að sjá liðið spila vel í 90 mínútur í þessum leik, og vonandi fá þeir að sjá eins og 4-5 mörk frá okkar skemmtilega sóknarliði. Það er samt ALGJÖR forgangskrafa að halda hreinu á móti CP.

  Ég spái því að SUAREZ verði í feikna formi og leiki sér að því að klobba varnarmenn CP ca 20 sinnum í þessum leik. “S” in tvö sjá um mörkin fyrir okkur í þessum leik.

 2. Planið á ekki að vera flókið. Hápressa frá fyrstu mínútu. Þrjú töflufundarmörk í fyrri hálfleik og þá hvílum við Sturrige og setjum Aspas í framlínuna. Hver veit nema að hann fari að spjara sig þegar pressan er lítil og andstæðingurinn vængbrotinn. Þá fáum við að sjá hvort ekki býr meira í honum en hann hefur sýnt hingað til.

 3. Vonandi gengur vel og Ibe fái einhverjar mínótur er hrikalega spentur fyrir honum

 4. Ok, ég skal vera þessi svartsýni… segi að við vinnum þetta 2-1 og Aspas komi öllum á óvart, dettur í teignum en boltinn skoppar í hann og rennur svo hárfínt yfir línuna (sigurmarkið). Marklínutæknin bjargar okkur þar fyrir horn. Suarez smellir einum eftir enn eina snilldar sendinguna frá Gerrard. Held samt að við komum til með að eiga 3-4 stangarskot í leiknum að auki 🙂

 5. Sterling er alltaf að fara byrja þennann leik í stað Kelly! Er svo sammála nr 3, vona að þetta verði ca 3-0 í hálfleik og Aspas fái tækifæri til að spila sína aðalstöðu sem fremsti maður. Smellum svo Ibe inná á 63.mínútu í stað Moses.

  Ég vona svo að Kop-gengið hendi svo inn hérna nokkrum vimeo/youtuvbe mynböndum fyrir og eftir leik.

 6. GRS númer 6 segir: Ok, ég skal vera þessi svartsýni… segi að við vinnum þetta 2-1… sé ekki alveg hvernig þetta er svartsýni hjá þér 🙂

 7. Bara sáttur við þessa uppst,,, og þetta verður ansi mörg mörk ,??? þórsmörk. þýskmörk, nei Liv skora þessi mörk , spái 4-0

 8. Höddi #2 ertu þá að segja að Sakho og Skrtel skori þessi mörk?

  Er ofur bjartsýnn fyrir þennan leik sem er alltaf slæmt síðustu árin þegar okkar menn eiga í hlut, en mark á fyrstu 15 mínútum og við göngum frá þessum leik, annars gæti þetta orðið eitthvað leiðindarströggl.

  Verðum við ekki að setja kröfu á eins og 10 mörk fyrst að hópurinn verður að fagna sinni fyrstu hópferð á völlinn?

  Í svona leik verður Rodgers að spila sókndjarft og helst vera búnir að klára leikinn í hálfleik svo hægt sé að koma mönnum sem minna hafa spilað inn á, eða vera djarfur og gefa þeim sjéns frá byrjun.

 9. Glæsilegt að fá King Kenny aftur um borð. Staðfesting á að sagan og framtíðin verðifléttuð saman í nánustu framtíð. Stolt og sigurvilji munu marka veginn áfram.
  Auðvitað vinnum við Palace.
  YNWA

 10. Gaman ad sja ad vid Babu stillum upp eins og Steini nema ad vid erum a tvi ad Wisdom verdi bakvørdur, Rodgers treysti ekki Kelly enn. Annars er Liverpool ad vakna her fallega i dag – frabært fotboltavedur og vid greinum mikla stemmingu fyrir lidinu og leiknum to folk se enn ad varast ad vænta of mikils. Ferdin gengur so far so good, very good. Verst hvad Babu vaknar ekki fallega!

 11. Brendan búinn með skoðunarferð með Gerrard að sjá Bayern Munchen. Fyrirliðinn kveikir á perunni í dag og liðið vinnur 7-0. Góða skemmtun yfir veislunni drengir ( og stúlkur)

 12. Mér verður alltaf hugsað til þessa leiks þegar Palace kemur í heimsókn, þó eigi nú ekki von á jafn mörgum mörkum í dag. Hins vegar á ég von á ágætis markasúpu í dag, 4-0, þar sem Suarez skorar þrennu og leggur upp mark fyrir Sturridge og um leið hækkar verðmiðann á sér um 25%. Djöfull verður þetta gaman… 🙂

  Varðandi 9-0 leikinn þá er hann ekki bara sögulegur út af þessari slátrun á Palace heldur var þetta síðasti leikur John Aldgride en hann fór til Real Sociedad daginn eftir. Hann byrjaði á bekknum en þegar Liverpool fékk víti á 67. mín þá kölluðu áhorfendur á Aldridge og Dalglish henti honum inn á fyrir Beardsley, okkar maður tók vítið og skoraði. Eftir leik kvaddi hann The Kop með því að kasta treyjunni sinni og skóm upp í stúku. Legend.

  Allavega, góða skemmtun í dag, við endum daginn á toppnum, svo væri ekki verra að fá jafntefli hjá West Brom og Arsenal á morgun.

 13. Gott þú hugsar til þessa leiks Steindóri, en ekki til leiksins nokkrum vikum seinna þar sem þeir slógu okkur út úr bikarnum.

 14. S #OB nr. 8… jú svartsýnin byggist einfaldlega á því að þegar allir spá Liverpool þriggja til fjögra marka sigri að þá býst ég við því að við rétt merjum þá… verður sigur en ekki fallegur 🙁

  En málið er bara það að við eigum það til að skíta á okkur gegn svona liðum og lenda í gífurlegum vandræðum í leikjum sem við eigum að vinna mjög örugglega. Ég vona innilega að ég hafi ekki rétt fyrir mér og að við fáum flottan leik hjá okkar mönnum.

 15. Vonandi naum við góðum leik i 90min i fyrsta skiptið a leiktíðinni ef ekki bara fyrir Kop menn sem mig langaði Svíþjóð að fara a leikinn með, en i ljósi þess að við höfum ekki att góðar 90min hingað til þá er ekkert sem bendir til þess núna.

  Ætla samt að sjá glasið haf fullt og spá 3 0

 16. Holloway syngur með You’ll Never Walk Alone, Þetta hef ég aldrei séð áður að þjálfari gestanna tekur undir.

Opinn þráður

Liðið gegn Palace