Leikjabið – opinn þráður

Kominn tími á að hætta að velta sér upp úr tapi deildarbikarleiks á miðvikudaginn, Carra sagði mína skoðun svosem, að það er erfitt að vera jákvæður út í eitthvað eftir tap fyrir United og við það stendur.

Leikurinn okkar um helgina er ekki fyrr en á sunnudag og þegar þetta er skrifað er enn óvíst hver stjórnar liði mótherjanna í Sunderland þó Gus Poyet virðist líklegastur til að fá djobbið að lokum.

Rodgers hefur verið að tjá sig að undanförnu. Fyrst ræddi hann um væntingar sínar til þess að liðið nái að halda sér í topp sex fram í janúar þegar hægt verði að styrkja liðið enn frekar. Það er auðvitað að koma í ljós að okkur vantar enn uppá skapandi leikmenn og ég er handviss að úr því verður bætt í janúar. Mér finnst gott að hann kippi niður umræðunni um meistaratitil sem var aðeins farin að heyrast frá okkar drengjum!

Hann kom svo í Echoið og tjáði sig um það Raheem Sterling þurfi að einbeita sér betur að fótboltanum ef hann vilji ná upp því formi sem hann var í fyrstu mánuði síðasta tímabils. Sterling karlinn hefur verið að koma inná í flestum leikjum okkar og satt að segja ekki litið vel út í neinum held ég. Við megum auðvitað ekki gleyma því að hann verður bara 19 ára í desember og því langur ferill framundan en manni finnst augljóst að eitthvað þurfi hann að taka til í kollinum ef hann vill verða sú stjarna sem við viljum.

Annars er annar stórleikur hjá Liverpool á sunnudaginn. Þá tekur kvennalið félagsins á móti Bristol í leik sem getur tryggt þeim meistaratitil, sem yrði í fyrsta sinn. Liðið var styrkt verulega í upphafi tímabilsins og hefur leikið afar vel. Allt annað en tap þeirra á morgun tryggir titilinn og Brendan sendi þeim baráttukveðjur á opinberu síðunni þar sem hann talar upp samstöðuna innan félagsins og hversu allir eru stoltir af árangri þeirra, óháð því hvað gerist.

Annars er þráðurinn fullkomlega opinn!

11 Comments

  1. Sigrar á útivelli eru ekki daglegt brauð hjá liðinu okkar en sigur í næsta leik er eiginlega nauðsynlegur. Það er fullt af varnarmönnum núna í liðinu en sóknarleikurinn er búinn að vera stirrðbusalegur frá 1.mínútu. Vonandi lagast það núna þegar Suarez kemur tilbaka.

  2. Fúllt að bíða fram á sunnudag eftir leiknum, svo í ofanálag verður barnaafmæli hjá mér á leiktíma sem er vítavert skipulagsklúður af minni hálfu 🙁

    En varðandi leikinn, sigur er krafan eftir tvo tapleiki í röð (bara annar þeirra í deildinni ég veit), að vísu hefði ég viljað hafa Di Canio áfram sem þjálfara í leiknum á sunnudag en í staðinn mæta okkar menn liði sem vill sýna sig fyrir nýjum þjálfara hver sem hann svo verður.
    Þetta breytir því ekki að Liverpool á að vinna leikinn, og ég sætti mig bara ekki við töpuð stig á sunnudag.

    Svo vil ég fá Mata frá Chelsea í janúar 🙂

  3. Sælir, þetta er ekki stór villa, en þú meinar, Maggi, að allt annað en tap þeirra Á SUNNUDAGINN, tryggir þeim titilinn, ekki satt?

  4. Fúllt að bíða fram á sunnudag eftir leiknum, svo í ofanálag verður barnaafmæli hjá mér á leiktíma sem er vítavert skipulagsklúður af minni hálfu

    Hafliði, þetta flokkast nú ekki undir skipulagsklúður heldur frekar að vissri snilld. Alltaf nauðsynlegt að hafa svona pabbahorn í barnaafmælum svo þeir hafi eitthvað að gera líka 😉 Mæli eindregið með þessu 😀

  5. Við þurfum að styrkja okkur vel í janúar og vonandi það vel að það sé hægt að lána Raheem Sterling. Þessi strákur er langt frá því að vera nógu þroskaður og þarf á meiri spilatíma að halda.

    Gríðarlega mikilvægt að vera í þessum topp 4-5 pakka um jólin. Vona að okkar menn verði með í baráttunni fram í lokaumferðina.

  6. Svakalegir leikir í desember,
    Sunday 15 December 2013
    16:00 Tottenham v Liverpool White Hart Lane
    Thursday 26 December 2013
    15:00 Man City v Liverpool Etihad Stadium
    Saturday 28 December 2013
    15:00 Chelsea v Liverpool Stamford Bridge
    Gætum tapað þessu öllu, væri ágætt að vera í topp sex eftir þessa dagskrá 🙂

  7. Leikurinn á sunnudaginn er must win. Man Utd og Arsenal eru að fara vinna á meðan Chelsea eða Tottenham munu tapa stigum. Verðum að sigra.

  8. Sammála með því við verðum spilla til sigur i þessum leik. Meðan Johnson er meiddur þá finnst mér 4-2-3-1 eða 4-3-3 ekki virkja nógu vel. Svo ég vill vill við spilum svipaða taktík og móti djölfanum. Með 2 frammi og 3 i vörn.

  9. Smá yfirlit yfir stöðuna.

    Maður gerir kannski of lítið af því að horfa á önnur lið nema í stuttum útgáfum en ég horfði með fullri athygli á megnið af Tottenham – Chelsea áðan. Miðað við alla okkar leiki þá eru þessi bæði lið komin töluvert lengra en við, sérstaklega í sóknarleiknum. Bæði lið á miklu tempói í ca. 75 mínútur og mjög vel flæðandi sóknarleikur, og það gegn vel spilandi og sterkum vörnum. Þá hafa bæði þessi lið sterkan bekk sem við höfum ekki. Ég geri mér grein fyrir því að við höfum ekki náð að stilla upp okkar sterkasta liði en ef þetta eru liðin sem við eigum að berjast við um 3-4 sætið þá held ég að við eigum varla séns. Fjarvera Coutinho og Johnson hafa svakaleg áhrif á liðið því þetta eru stöður sem við eigum ekki nógu gott back-up í.

    Hvað hópinn okkar varðar þá lýsti ég þeirri skoðun minni í sumar að salan á Downing væri til þess fallin að veikja hópinn. Það hefur nú komið á daginn. Ég vildi frekar lána Sterling þannig að hann fengi nógan spilatíma og gæti unnið stöðugt í því að efla sig, stöðugleikann og spilamennskuna. Við búumst við ansi miklu af þeim gutta og hann virðist vera á einhverjum þröskuldi núna sem hann á erfitt með að komast yfir. Ég hef líka mínar efasemdir um að hann falli sérstaklega vel inn í það kerfi sem Rodgers vill nota. Mér sýnist sem hann sé meira out-and-out-winger meðan Rodgers vill frekar nota miðjusæknari leikmenn í sóknarstöðurnar. Og það á kannski líka við um Moses. Ekkert sérstaklega skapandi leikmaður en getur tekið menn á og er ágætlega hættulegur nálægt boxinu. Bíðum og sjáum.

    Af toppliðunum þá sýnist manni Man U vera með slakasta liðið (ennþá) og Arsenal og Tottenham eru slatta sterkari en maður átti von á. Sama má kannski segja um Man C. Það er því brekka framundan hjá okkar mönnum og fyrir desember þurfum við að vera komnir í ansi vænlega stöðu ef við ætlum okkur í topp 4 baráttuna. Það er samt auðvitað mjög jákvætt að vera komnir með 10 stig eftir ekki svo sérstaka spilamennsku.

Man Utd 1 Liverpool 0

Sunderland á Leikvangi Ljóssins