Man Utd 1 Liverpool 0

Þetta var svekkjandi.

Okkar menn heimsóttu erkifjendurna í Manchester United á Old Trafford í 32-liða úrslitum Deildarbikarsins í kvöld. Eftir opinn og jafnan leik fóru heimamenn með 1-0 sigur af hólmi og lauk þar með þátttöku okkar í þessari keppni þetta árið.

Rodgers endurskipulagði vörnina í þessum leik, byrjaði með þrjá miðverði og vængbakverði í eins konar 3-4-1-2:

Mignolet

Touré – Skrtel – Sakho
Henderson – Gerrard – Lucas – Enrique
Moses
Suarez – Sturridge

Bekkur: Jones, Kelly (inn f. Lucas), Wisdom, Alberto, Ibe, Sterling (inn f. Moses), Aspas.

Það ríkti talsvert jafnræði með liðunum í þessum leik. United byrjuðu betur og höfðu stjórn á leiknum fyrsta kortérið en svo smám saman tók miðjan hjá okkur yfir og Liverpool var meira með boltann fram að hálfleik. Ég var hrifinn af liðsuppstillingunni í kvöld, fannst hún koma jafnvægi á liðið sem hefur skort síðan Glen Johnson datt í meiðsli. Við vorum fjölmennari og sterkari bæði á miðjunni og í vörninni en í síðustu 2-3 leikjum og Moses fannst mér finna sig vel í eins konar frjálsri rullu fyrir aftan framherjana, þar sem hann gat svolítið valið hvort hann sótti upp hægri eða vinstri vænginn en datt svo jafnan inn á miðjuna í svæðið fyrir framan Gerrard og Lucas þegar liðið var án bolta.

Frammi voru þeir kappar Sturridge og Suarez svo loks saman aftur en því miður var eins og það vantaði herslumuninn hjá þeim í kvöld. Sturridge var frekar mistækur og flest það sem hann reyndi heppnaðist ekki á meðan það vantaði klárlega skref upp á snerpuna hjá Suarez. Engu að síður voru þeir tveir, ásamt Moses og Gerrard og góðri breidd frá Enrique og Henderson, iðnir við að búa sér til færi sem hefðu á betri degi getað skilað mörkum í fleirtölu, en í kvöld átti það ekki fyrir að liggja.

Það var á endanum Javier Hernandez sem skoraði sigurmarkið í upphafi seinni hálfleiks. Hornspyrnan kom inn frá vinstri og yfir kollinn á Gerrard þar sem “Chicharito” var óvaldaður þar sem Jose Enrique hafði einhverra hluta vegna ekki klárað að elta hann í hlaupinu inn að miðjum markteig. Skítamark að fá á sig, einbeitningarleysi eins leikmanns í sekúndubrot kostaði okkur frekari þátttöku í Deildarbikarnum. Mjög svekkjandi að tapa þessu á svona marki, það verður að segjast.

Eftir markið sóttu bæði lið áfram og þessi leikur hefði hæglega getað endað 4-4 miðað við færin en varnir beggja liða héldu vel og brutu faglega þegar menn virtust vera að sleppa í gegn (bæði Henderson og Phil Jones björguðu nánast klárum mörkum með slíkum brotum og gulu spjaldi). Því miður náði liðið ekki að jafna leikinn og þetta fjaraði aðeins út í lokin og heimamenn fögnuðu sigri.

Maður leiksins: Sko, liðið var ekki að leika illa í dag, alls ekki. Þetta var meira svona vantar herslumuninn-frammistaða. Enrique sýndi okkur sína getu í hnotskurn í kvöld því hann var algjörlega frábær … 99% leiksins. En hann gerði líka þessi einu mistök sem kostuðu leikinn. því miður er það ennþá dragbítur á hans leik að hann skortir einbeitningu í 90 mínútur því annars er þetta svo mikill gæðaleikmaður.

Restin af vörninni komst mjög vel frá þessum leik, sem og Mignolet í markinu sem varði vel á lykilaugnablikum. Á miðjunni var jafnvægið loksins betra og við misstum ekki öll tök á leiknum eftir hlé eins og venjulega. Þá hef ég þegar hrósað Moses í holunni og þótt Sturridge og Suarez hafi vantað herslumuninn upp á að blómstra í þessum leik er það bara spurningin um hvenær, ekki hvort, held ég. Ég vorkenni næsta liði sem þarf að mæta þeim félögum.

Mann leiksins ætla ég að velja Kolo Touré. Hann gerði allt rétt varnarlega og sótti vel fram á köflum líka. Liðið var þó nánast allt gott í kvöld og erfitt að velja einhvern einn úr. Sem er einmitt það sem gerir þetta tap svo svekkjandi.

Ég hef sennilega oft verið pirraðri eftir tapleik gegn Manchester United en mér fannst ég sjá ákveðin merki um að Rodgers væri að finna gott byrjunarlið aftur í dag. Ég óska bara eftir sama liði á sunnudaginn og þar Liverpool hefur núna spilað tvo og hálfan leik án þess að skora mark geri ég þá kröfu að þeir félagar Suarez og Sturridge bæti úr því gegn Sunderland á sunnudaginn.

48 Comments

  1. Skrýtinn leikur þessi.

    Einhvern veginn fór hann bara aldrei á flug og mér fannst hvorugt liðið hafa mikinn áhuga á þessu.

    Neikvæðast klárlega að það er afskaplega lítil sköpun í gangi á síðasta þriðjungi hjá okkur, nú verður enn minni fótbolti fram að áramótum auk slakrar frammistöðu Sturridge og Gerrard.

    Jákvæðast að Sakho var að mínu mati okkar besti maður, Suarez virkaði áhugasamur og á fullri ferð og að mörgu leyti virkar þetta 3-5-2 kerfi ágætlega, en þegar við erum ekki með betri “wing backs” en voru í þessum leik þá er líklegt að vesen verði að skapa mörk.

    Ekki endir alheimsins en eftir þrjá sigra í byrjun þá er búið að skella okkur á jörðina og nú þarf að taka til í næsta leik gegn Sunderland, þá fyrst og síðast á efsta þriðjungi vallarins.

  2. Ég hef virkilegar áhyggjur af hversu slakan karakter sumir leikmenn hafa að geyma þegar eitthvað bjátar á. Enrique var góður í fyrri en átti hernandes i markinu og missir bara haus eftir það. Sumir segja að sturridge sé lélegur með suarez frammi en það er bara eingöngu sturridge að kenna. Hann fékk fullt af sénsum að koma sér i alvöru færi en ef hlutirnir ganga ekki upp hjá honum í byrjun þá nær hann hausnum á sér ekkert aftur til baka. Vorum samt nokkuð góðir í dag og með betri einbeitningu,áræðni og stundum betri ákvarðanatökum í sóknum okkar þá hefðum við allan daginn átt að vinna united úti sannfærandi

  3. Manjú (B-lið) 1 – LFC 0

    Alger óþarfi að tapa fyrir B-liði Manjú. Margt ágætt í leiknum en við sorglega slakir á síðasta þriðjungi vallarins. Hef miklar áhyggjur af Gerrard og Sturridge. BR verður að hafa guts að henda öðrum þeirra eða báðum á bekkinn fljótlega.

    Mark úr föstu leikatriði……again.

    Er samt feginn að þetta var Mikka mús bikarinn. Eitt jafntefli og tvö töp úr síðustu 3 leikjum. Nú verða menn að gera svo vel að fara að bretta upp ermarnar. Bygone, snúum okkur að leiknum á móti Sunderland nk. sunnudag.

  4. Skil ekki hvernig #4 fær út að þetta sé B-lið Man Utd. Eru Nani, Hernandez, Kagawa, Jones, Smalling, Rooney og fleiri menn allt í einu B-liðs menn? Af því þeir voru með ungan strák í bakverðinum er þetta allt í B-lið? Kláraðu mig ekki.
    Það að LFC gat ekki klárað arfaslakt lið Man Utd kann ég ekki að útskýra. Með eindæmum slakur leikur á síðasta þriðjungi vallarins. Sturridge gjörsamlega AFLEITUR í kvöld. Hann var áhugalaus, latur, baráttulítill, vælinn, lengi á boltanum, eigingjarn og bara einfaldlega lélegur. Hann þarf hvíld þar sem ég merki of mikla stjörnutakta í honum. Suarez komst vel frá sínum leik, var að vonum ryðgaður en reyndi samt helling og skapaði fullt. Menn bara geta ekki hitt á rammann og það er alveg bannað á Old Trafford (lesist Henderson og Kolo Toure)

    Minn maður leiksins er LUCAS LEIVA. Var aggresívur og flottur allan leikinn og hefur verið minn maður leiksins síðustu 3 leiki.

    E.s gott að eiga menn eins og Sterling á bekknum sem koma inn og breyta leikjum, SAGÐI ENGINN

  5. Mér fannst við ekki alveg nógu beittir frammávið í leiknum. Fannst vanta eins og segir í skýrslunni, herslumuninn. Svo þurfa menn náttúrulega að klára færin sín.

    Hefði sjálfur valið annaðhvort Skrtel eða Sakho. Fannst þeir frábærir allan leikinn og stigu vart feilspor. Toure var samt vissulega góður og á titilinn skilið. Er bara mjög spenntur fyrir Sakho. Held að við höfum náðu okkur í góðan miðvörð þar.

  6. Fannst sigurinn léttilega getad dottid bádum megin. Thetta var algjör 50/50 leikur thar sem baedi lid skiptust á ad skapa sér faeri. Fannst samt alltaf ad Man Utd(Rooney) voru skrefi á undan okkur vardandi rétta ákvördunartöku fyrir framan markid thar sem Mignolet hafdi frekar mikid meira ad gera í dag en De Gea.
    Sóknarlínan okkar med Suarez, Moses og Sturridge í fararbroddi voru klaufar thegar komid var ad úrslitasendingum og hefdu their haeglega getad skorad ef ekki vaeri fyrir thessum sí-endurteknu aulamistök.

    Ljósi punkturinn í dag var samt klárlega Suarez. Hann var mjög líflegur í sínum leik og skapadi mikinn usla í vörn Scumbags en Sturridge fannst mér alltaf haegja á spilinu eda taka koooolrangar ákvardanir. Vona ad hann fái ad hvíla í naesta leik og fái ad horfa og laera adeins af Suarez ef hann aetlar ad halda áfram ad reyna ad gera allt uppá sínar eigin spítur.
    Sakho var mjög öflugur í dag sem og Enrique sem var mjög duglegur varnarlega (Fyrir utan risa mistök í markinu) og var flottur sóknarlega en thví midur tók hann skrítnar ákvardanir fram á vid eins og restin af lidinu okkar.

    Flottur leikur samt sem ádur thó úrslitin gef annad til kynna. Ég sé klárlega fleiri bjartsýnis punkta en neikvaednispunkta og ég aetla rétt ad vona ad spjallbordid fyllist ekki af leidindum og veseni. Fokk it, Capital Cup er úr sögunni og nú höldum vid áfram ad einbeita okkur ad deildinni.

  7. Sanngjarnt. Það vantaði punginn í kvöld á köflum. Hendo slappur en djö hvað ég fíla Sakho 🙂
    YNWA

  8. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af sóknarleik liðsins. Þetta er annar leikurinn í röð þar sem okkur mistekst að skora. Einu markaskorarar liðsins í deildinni eru Sturridge og Moses. Þá hefur Mignolet oftar en ekki bjargað okkur fyrir horn í þessum sigurleikjum sem hafa verið mjög tæpir.

    Við erum einfaldlega með alltof litla breidd sóknarlega og erum að gjalda fyrir það núna. Liðið gjörsamlega lamast þegar það missir 1-2 úr byrjunarliðinu sem er e-ð sem keppinautar okkar geta tæklað. Það er ekki spennandi að hafa ekki betri menn en Sterling (18 ára), Alberto (20 ára), Ibe (18 ára) og Aspas einsog hann er að spila á bekknum til að fríska upp á sóknarleikinn.

  9. Sammála flestu í leikskýrslu KAR en get þó ekki alveg tekið undir þessa miðvarðasúpu okkar í síðustu tveimur leikjum. Varnarleikurinn finnst mér litlu meira sannfærandi og satt að segja er ég alls ekki hrifinn af þessu gegn Southamton heima (4 miðverðir) og svona semi varaliði United (3 miðverðir). Liðið var að halda búrinu hreinu með eðlilega fjögurra manna línu sem þekkti sitt hlutverk frá A-Ö.

    Liðið er vængbrotið eins og staðan er í dag. Það er mikið áhyggjuefni hversu sárt saknað Johnson er og ennþá meira áhyggjuefni hversu illa við söknum Coutinho.

    Ég skil svosem alveg að prufa þessa þriggja manna varnarlínu með Henderson og Enrique á vængjunum. Vona samt að þetta sé ekkert framtíðarmúsík en svosem í lagi að reyna. Mótherjinn í dag fannst mér hisvegar ekkert stilla upp liði sem kallaði á svona marga varnarmenn og enn og aftur finnst mér Liverpool undirmannað á miðjunni og stjórna henni illa. Núna gegn Giggs og Jones lengst af!

    Mest pirrar mig þó þegar liðið lendr undir að taka aldrei einn af miðvörðunum útaf og þétta frekar miðjuna. Frekar var Kolo Toure kominn í hálfgert free role út um allann völl þegar leið á leikinn. Kelly fyrir Lucas var síðan fimmti varnarmaðurinn inná (á kostnað miðjumanns) í lið sem þegar var 1-0 undir. Þarna vildi ég heldur sjá einn af miðvörðunum yfirgefa svæðið fyrir bakvörðinn Kelly.

    Ef að Alberto er svona mikið lélegri en búist var við að honum er ekki treyst í liðið þegar við eigum í meiðslaveseni og þurfum að hvíla menn þurfum við að hafa smá áhyggjur. Sérstaklega þar sem tenging miðju og sóknar er alls ekki nógu sannfærandi.

    Sóknarlínan hjá okkur í þessum leik hefði á góðum degi klárað hann og vel það en þetta var ekki góður dagur hjá neinum þeirra. Sturridge var í raun svo slappur að ég var farinn að vonast eftir Iago Aspas inná fyrir hann í sóknina. Moses var reyndar ágætur en sendingar liðsins á síðasta þriðjungi hittu ákaflega illa og liðið glopraði niður ansi mörgum álitllegum sóknartækifærum. Suarez var svo augljóslega ekki í 100% leikformi en hann virkar ekki of langt frá því. Það er erfitt að lýsa því hversu gott það er að þessu banni sé loksins lokið.

    Það er samt á miðjunni sem ég hef ennþá mestar áhyggjur af þessu liði og væri til í að sjá Henderson byrja leik gegn sínum gömlu félögum þar sem hann endaði í dag, á miðri miðjunni. Hann er sá eini í þessum hópi sem virkar ekki dauðuppgefinn og það fer hroðalega í taugarnar á mér. Afhverju er liðið ekki í miklu betra formi núna?

    Tap á Old Trafford hefur svosem sviðið meira og fyrirfram hefði ég tekið stigin þrjú í deildarleiknum frekar en sigur í þessum leik. Ég vill engu að síður sjá miklu djarfari leik frá liðinu á næstu vikum og ekki leggjast svona í vörn gegn liðum sem við eigum að mæta með sóknarleik og koma þannig í bullandi vandræði .

    Þessi varnarlína United og hvað þá miðja á að lenda í meira basli með Liverpool lið sem er fullmannað og sama á við um varnarlínu Southamton. Hvorugar þurftu að hafa of mikið fyrir því að halda búrinu hreinu. Það er langt frá því að vera nógu gott.

    Sigur gegn Sunderland er orðinn mjög mikilvægur núna og hvað þá leikurinn á eftir gegn Palace heima. Sigur í þessum leikjum og maður spáir ekki meira í þessum deildarbikar leik.

    Maður leiksins: Tek undir val á Toure. Hann var fínn í dag og ég vona að hann stjórni vörninni í næsta leik líkt og hann gerði í upphafi móts. Þá einungis með einn annan miðvörð við hliðina á sér.

  10. Ekki oft sem ég er ósammála Magga, en er það núna. Fannst þvert á móti vera talsverð snerpa og mikill áhugi í okkar mönnum, uppstillingin heppnaðist vel og við fengum óvenjulega marga góða sénsa á að gefa úrslitasendingar. Sem svo reyndar mistókust næstum allar. Og það í mínum huga er leikurinn í hnotskurn.

    Suarez, Moses og Sturridge voru aðeins of mikið að reyna að spila frábærlega saman, en eru bara ekki alveg komnir þangað ennþá. Slakur leikur Sturridge bætti ekki úr skák.

    En ég gleðst líka yfir því að í fyrsta skipti á þessu tímabili spilaði liðið seinni hálfleik. Gott að vita að þeir eiga inni fyrir því öðru hvoru.

  11. Sælir bræður,

    Ég ætla bara að leyfa mér að vera hrópandi ósammála fjandi mörgu í þessari leikskýrslu,en án þess að fara að tíunda það allt hér þá bara verð ég að skjóta niður þetta skjall á vinstri bakvörðinn okkar, Enrique. 99%… What ? Er ég að lesa þetta eitthvað vitlaust ? Maðurinn var algerlega úti á túni í þessum leik,ef ég er spurður,og ég tek það fram að ég hef mikið álit á þessum leikmanni.

    Trekk í trekk var drengurinn að skapa hættu til baka og gera feila… Eða vorum við ekkert að horfa á sama leikinn hérna ??? Það stóð allavega ” bein útsending” uppi í horninu á skjánum hjá mér……

    Nú væri ég vel til í að vita hvort fleiri séu mér sammála,eða hvort menn hafi horft á þetta með öðrum gleraugum en ég…..hvor okkar er Meira úti á túni, ég eða Enrique í þessum leik ?

    Ég verð hissa ef menn sáu þetta svona öðruvísi en ég, sérstaklega þar sem allir “sparkspekingarnir” sem ég horfði á boltann með, tóku undir með mér….. Og fannst hann arfaslakur.

    En við þurfum ekki að vera sammála um alla hluti, það er ljóst 😉

    Insjallah
    Carl Berg

  12. Ég veit að það eru nánast helgispjöll að nefna það en mikið finnst mér fyrirliði okkar vera að detta niður í meðalmennsku. Ég hef tekið eftir þvi að hann hefur verið frekar slappur það sem af þessu tímabili, því maður á öðru að venjast á þeim bænum

  13. Enrique er algjör ljóður á liðinu karlpúngurinn. Ég skil bara ekki af hverju hann fær að byrja leik eftir leik eftir leik. Hann var algjörlega út á þekju í mörgum atriðum, hélt að hann væri sóknarmaður sem tók arfaslakar ákvarðanir, gaf fáránlegar sendingar til baka sem sköpuðu stór hættu. Nei takk, það er orðið algjört möst að fá annan mann í bakvarðarstöðuna sem er hægt að treysta á.

    Næsta kolranga ákvörðun að mínu mati, er ekki að senda Gerrard fram í stöðuna sem Coutiniho skilur eftir. Hann er lang besti X factorinn sem við eigum og for crying out loud af hverju í ósköpunum á að breyta Gerrard í einhvern Didi Hamann … Hendó á að spila með Lucas þarna aftarlega á miðjunni.

    Næsta kolranga ákvörðun er að vera með allt að fjóra hafsenta inn á í jafnvel 4 manna varnarlínu. Þ.a.l. er enginn ógn fram á við frá þeim sem lamar þá allt kant spil ….

    Semsagt, ónánægður púllari hér á ferð. Átti von á miklu meiru en jú takk, frá því Coutinio meiddist hefur liðið ekki skorað mark. Og án þess að gera það, vinnur þú ekki leiki.

    Og það er alltaf vont að tapa fyrir júnæted …. sjitt hvað þetta verður erfið vika í vinnunni.

  14. Hef svosem engu að bæta við það sem fram hefur komið, nema að ég hefði alveg verið til í að sjá Sturridge kippt út af í seinni hálfleik og Aspas (eða jafnvel Ibe) inná í staðinn. Eins og Sturridge var að spila hefðum við varla tapað á því.

  15. Er ég sá eini hérna sem vill kenna Gerrard meira um þetta mark heldur en Enrique?
    Hernandez er virkilega snöggur leikmaður og með óútreiknanlegar hreyfingar. Enrique er að bakka í hann þegar Hernandez fer skyndilega á rás og það var aldrei séns fyrir hann að ná honum. Gerrard aftur á móti hleypur á móti boltanum og stekkur upp eins og hann sé með lokuð augun og hittir ekki boltann.
    Mér fannst þetta bara ömurleg framistaða í kvöld, þetta var ekki b-lið hjá United en margir voru að spila sínar fyrstu mínútur á leiktíðinni og það var fertugur maður á miðjunni hjá þeim og annar sem er heill í tvo leiki og meiddur í fimm.

  16. Ég er algjörlega sammála #16.
    Gerrard er á nærstönginni og sér boltann koma allan tímann en á einhvern óskiljanlegann hátt hittir ekki boltann! Hvað var hann að gera, skallaðu þetta drasl í burtu!

  17. Bæði lið spiluðu mjög vel og þetta hefði getað farið í báðar áttir. Þetta lið united var miklu, miklu betra en það lið sem spilaði við okkur í deildinni, og í raun sennilega það besta sem ég hef séð frá united á þessari leiktíð.

    Svo ég myndi fara varlega í að kalla þetta b-liðið ef þetta lineupp outperformar hitt.

  18. Það er allavega ekki hægt að kenna ASPAS um þetta tap 😉 Er BR enn að spila Sturridge meiddum ? Hefði ekki átt að hvíla hann í þessum leik ? BR sagðist hafa verið með nýtt leikkerfi sem leikmenn hefðu æft lítið, skrítið fyrir leik á móti utd, en jæja. Einni keppninni færra hjá okkur.

  19. Allt ferguson að kenna ! Erum miklu betri en þetta skíta man utd lið !

  20. Svosem í lagi með þennann bikar, en Gerrard verður að fá bekkinn, hann biður um boltan og fær hann (fyrirliði) en ekkert kemur úr því og oft spilað til baka, hann virkar þreyttur og bara lasinn, eða þannig. þetta var bara ansi klaufalegt lið, en þetta er rétt að byrja.

  21. Við áttum séns á að sparka í scums þar sem þeir lágu særðir á jörðinni. Þess í stað veittum við þeim hjálparhönd sem þeir tóku. Tvær dollur farnar (deildin nánast skyldumissir) og seasonið rétt byrjað.

    Ég ætla bara að segja það beint út og menn verða bara brjálaðir. Sturridge er ofmetinn leikmaður! Ef hugtakið: “GEFA HELVÍTIS BOLTANN!” yrði lamið inní hann á hann séns. Hann og Suarez eru svipaðir hvað þetta varðar. Óþolandi! Menn gera grín að Wenger en hans fyrsta markmið er að leikmenn spili boltanum.

    Skítt með þennan leik. Hann er búinn og við töpuðum honum frekar en scums vann hann. Ég gef BR tvö ár í viðbót til að breyta liðinu í topp lið. Við verðum bara að halda í 6.sætið í ár og byggja upp liðsanda og bæta við leikmönnum sem eru klárlega betri en Joe Allen, Borini og hvað þeir heita.

    Eins og menn geta lesið úr orðum mínum að þá er ég ekki bjartsýnn í vetur. Ég tel að við töpum einnig stigum gegn Sunderland. Mjög týpískur leikur til að tapa og miðað við leikinn i gær þá óttast ég tap. Gjörið svo vel. Takið mig af lífi núna.

  22. Ég ætla bara að segja það beint út og menn verða bara brjálaðir.
    Sturridge er ofmetinn leikmaður! Ef hugtakið: „GEFA HELVÍTIS BOLTANN!“
    yrði lamið inní hann á hann séns. Hann og Suarez eru svipaðir hvað
    þetta varðar. Óþolandi! Menn gera grín að Wenger en hans fyrsta
    markmið er að leikmenn spili boltanum.

    Sturridge var reyndar hrikalega lélegur í gær, rétt eins og hann var gegn Southampton. En að hann sé ofmetinn skal ég ekki segja til um. Hann er, eins og margoft hefur komið fram, ekki í leikformi og það sést langar leiðir.

    Eins og menn geta lesið úr orðum mínum að þá er ég ekki bjartsýnn í
    vetur. Ég tel að við töpum einnig stigum gegn Sunderland. Mjög
    týpískur leikur til að tapa og miðað við leikinn i gær þá óttast ég
    tap. Gjörið svo vel. Takið mig af lífi núna.

    Fyrir hvað, að segja sína skoðun ? Skulum ekki missa okkur í dramatíkinni. Ég er ekkert alltof bjartsýnn fyrir veturinn heldur, en ég tel að við séum samt sem áður í betri málum en fyrir ári síðan. Þetta mjakast, vonum bara að veturinn verði skref áfram, ekki til baka. Vandamálið er bara að mér sýnist okkar keppinautar, Arsenal & Tottenham, einnig vera að styrkja sig á milli ára.

    Fyrir ári síðan hafði ég mestar áhyggjur af sóknarleik liðsins. Í sumar var það vörnin. Í dag er það miðjan. Menn að detta á aldur, spurningarmerki um Lucas & Hendo. Uppstillingin ekki að hjálpa þeim. Okkur vantar sterkari menn þarna, meiri og betri fótboltamenn.

    Að leiknum í gær. Þetta var svo sem ágætur leikur. Við höfum oft spilað mun verr þarna á OT. En þetta féll ekki með okkur. Leikurinn var samt sem áður bæting frá því gegn Swansea & Southampton. En það þurfti kannski ekki mikið til. Fannst Sakho vera sterkur, við áttum miðjuna meira og minna, og LS var sprækur.

    Sturridge fannst mér mjög slakur og Enrique var bara Enrique. Góður að mestu, en kostaði okkur svo leikinn.

    Nú er bara að girða í brók. Allt annað en 6 stig í næstu tveimur leikjum væri gífurleg vonbrigði.

  23. Mér fannst ýmislegt jákvætt við leikinn og þessi wingback uppstilling BR var að mörgu leiti að virka vel, færslan á liðinu góð og náðist oft flott spil þó það vantaði oft þennan fræga herslumun á efsta þriðjungi. Við áttum auðvitað að skora að lágmarki 2 mörk m.v. færin og ef það hefði tekist værum við allir að lofa frammistöðuna í hástert svo það er stutt á milli. Helstu vonbrigðin fannst mér fyrirliðin sem var einn slakasti maður liðsins annan leikinn í röð. Ef það næst að snúa Gerrard í gang myndi ég vilja sjá sömu uppstillingu í næsta leik. Næstu leikir ráað miklu um tímabilið og gríðarlega mikilvægt að ná megninu af stigunum úr næstu leikjum og halda sig nálægt toppnum áður en sterkari liðin koma inn í prógrammið í lok nóvember. Enn ástæð til hóflegrar bjartsýni finnst mér.

  24. Varðandi umræðu um að United hafi verið með b-lið, þá er það kannski fulldjúpt tekið til orða.

    Engu að síður voru 6 leikmenn ekki í byrjunarliði, sem væru þar að öllu óbreyttu.
    Vidic
    Evra
    Carrick
    Fellaini
    Valencia
    Van Persie

    Miðað við frammistöðu nokkurra þeirra í vetur, er hins vegar spurning hvort að þeir væru yfirleitt að styrkja United.

  25. Verð að lýsa vonbrigðum mínum með margt í okkar leik.

    Tek þó undir með leikskýrsluhöfundi (Kristjáni Atla) að Enrique var frábær í leiknum að undanskildum mistökunum sem enduðu á því að kosta okkur leikinn. Þó að ég vilji ekki líta á það þannig að Liverpool verði alltaf að halda hreinu til að vinna fótboltaleiki.

    Þá kem ég að öðrum punkti. Uppstilling liðsins var vissulega hugsuð til að stoppa í götin er varðar að koma boltanum í spili fram völlinn í gegn um pressu andstæðingsins og einnig til að fá Sturridge og Suarez saman í sóknina: lausnin einskonar 3-5-2 kerfi?

    Þetta gekk ágætlega í fyrri hálfleik eða alveg þangað til að við fengum á okkur markið, þá koma líka pressan… enda slökknaði á okkar mönnum.

    Gerrard átti ekki sinn besta dag og verður að segjast að það er ansi langt síðan hann hefur átt þokkalegan leik. Sömu sögu var að segja með Moses sem virtist svo “stefnuvirkur” að ef hann fékk boltann gat hann með engu móti snúið sér með hann, stórfurðulegt hreinlega. Lucas átti breik í fyrri hálfleik en í þeim seinni völtuðu Jones, Giggs og Rooney yfir hann og Gerrard. Sturridge er svo að verða stærsta vandamálið við uppspil liðsins. Þetta sífellda klapp á boltanum og sú staðreynd að hann virðist ekki vera í takt við hlaup samherja og endar yfirleitt á því að taka röngu ákvörðunina af 3-4 mögulegum. Ásamt því auðvitað að taka taktinn úr spili liðsins.

    Þetta kalla margir “að vera ekki í leikformi” enda missti hann af undirbúningstímabilinu. Maður hefði viljað sjá Aspas fá sénsinn með Suarez í leiknum enda náðu þeir flott saman á undirbúningstímabilinu. Sturridge þarf klárlega meiri tíma til að koma sér í stand.

    Mér langar ennfremur að nefna vonbrigði mín með það að sjá Henderson enn einusinni á kantinum. Yfirferðin á þessum dreng er ótrúleg og manni finnst hann bæta sig með hverjum leik og satt best að segja yrði hann mikil uppfærsla á miðjunni hjá okkur að vera með hann þar. Enda átti hann stóran þátt í því hversu vel liðið spilaði undir lok síðasta tímabils.

    Eins og ég skrifaði í gær þá fannst mér Rodgers falla enn og aftur á prófinu með þessari uppstillingu og hverja hann valdi í liðið. Ég tel að liðið hefði sýnt betri takta með 4-2-3-1/4-3-3 en það gerði með 3-5-2. Þar að auki er Moses klárlega kantmaður en ekki holuleikmaður og mun hættulegri sem slíkur.

    Ég horfi töluvert á fótbolta en hef séð fáa knattspyrnustjóra sem hringla eins mikið í hvaða leikkerfi liðið spilar eins og Rodgers, efa að það sé auðvelt að vera leikmaður þegar alltaf er verið að breyta um kerfi, enda staðreyndin sú að knattspyrnumenn eru líkast til með lægri greindarvísitölu en flestar aðrar stéttir, eins og flestir þeirra hafa ítrekað sýnt.

  26. Það vantaði hraða og greddu til að vinna þetta. Liðið splaði mun betur en á móti Southam. Þetta fer að koma!!!!!!!!!!!!!!!

    ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  27. Verðum að horfa á heildarmyndina og hætta að hefja liðið upp til skýjanna eða taka það af lífi að loknum hverjum leik. Reyndar finnst mér mörg ummæli hér vera mjög skynsamleg. Leikurinn í gær var mikil bæting frá síðasta leik og mér fannst ég sjá mörg jákvæð merki. Með effektívari spilamennsku og smá heppni hefðum við átt að setja 1 eða fleiri mörk í leiknum. Sturridge og Suarez frammi saman er baneitrað kombó sem ég er viss um að eigi eftir að virka vel í vetur. Varðandi Gerrard, þá er hann í nýju hlutverki sem er í raun mun passívara hlutverk en áður. Þess vegna kann hann að virka rólegri eða daufari en áður. En hann var að spila sitt hlutverk vel í leiknum í gær. Moses finnst mér vera virkilega ógnandi og hann hefur hraða, tækni og áræðni sem ég er viss um að eigi eftir að koma að góðum notum. Ég hef smá áhyggjur af Hendo, hann er kraftmikill og sterkur en þarf að bæta sig í ákvarðanatöku í kringum og inn í teig andstæðinga. Margt annað sem hægt er að nefna en ég sé að United menn eru að detta hér inn á skrifstofuna og ég nenni ekki að hitta þá núna…ætla að láta mig hverfa!

  28. Fínir punktar hér að ofan.

    Finnst menn vera full neikvæðir á leik liðsins í gær. BR brást við ömurlegri spilamennsku um helgina og breytti um taktík. Leikur liðsins skánaði mikið frá síðasta leik. Staðreyndin er að við erum í bakvarðarvandræðum og BR varð einhvernveginn að bregðast við því. Menn verða að átta sig á að ein mikilvægasta staðan í leikkerfinu 4-2-3-1 eða 4-3-3 eru bakvarðarstöðurnar, sem gera gríðarlega kröfu sókndjarfa bakverði. Því miður á móti Southampton áttu við enga 100% fit bakverði. Því miður virkaði liðsuppstillingin í þeim leik ekki þar sem að vængmennirnir hurfu algjörlega þar sem þeir fengu enga aðstoð sóknarlega frá bakvörðunum.

    Í gær spilaði liðið 3-5-2 sem mér fannst virka betur sóknarlega en 4-2-3-1 fyrir þann mannskap sem við höfðum í gær. Ég held hins vegar að BR fari aftur í fjögurra manna varnarlínu þegar Johnson kemur tilbaka og það kæmi mér ekki á óvart að keyptur yrði hægri bakvörður í janúar glugganum. Staðreyndin er einfaldlega eins og ég sagði áður að bakvarðarstöðurnar í taktík og leikskipulagi BR eru gríðarlega mikilvægar í sóknarleik liðsins. Í síðustu tveimur leikjum hefur það verið sóknarleikur liðsins sem hefur brugðist frekar en varnarleikurinn. Við höfum fengið á okkur tvö mörk í síðustu tveimur leikjum, bæði uppúr föstum leikatriðum. Eitthvað sem hægt er að skrifa á einbeitningu og samskiptaleysi frekar en taktísk mistök.

    Það eina sem ég myndi vilja sjá BR prófa gera er að fara yfir 4-3-3 með Lucas einan í djúpum og fá Gerrard framar á völlinn. Ástæðan fyrir því er ég myndi vilja fá pressuvörnina á miðjunni framar og mæta þannig andstæðingunum framar á vellinum. Það sem gerist með tvo varnarmiðjumenn er að anstæðingarnir komast ofar á völlinn og við erum að verjast þeim mjög aftarlega. Það sem oft vill gerast er að varnarmiðjumennirnir eru oft komnir of nálægt miðvörðunum og þegar við vinnum boltann þá á liðið langa leið fyrir höndum að sækja á andstæðingana.

    Vissulega er hægt að benda á ákveðna einstaklinga sem eru að spila illa en ég held að það leysi ekki nein vandamál að henda einhverjum einum á bekkinn og láta hann skammast sín. Ég held að með smá lagfæringum í leikskipulagi og endurkomu leikmanna í sínar sínar bestu stöður mun spilamennska leiðsins stórlagast.

  29. Það verður að segjast að þessi leikur var talsvert betri heldur en leikurinn gegn Southamton. Leikkerfið var ekki að klikka því okkar menn voru mun betri en MU síðustu 30 mín í fyrri hálfleik og voru óheppnir að vera ekki yfir. Síðan koma þessi skítamistök í markinu og mér fannst botninn svolítið detta úr þessu hjá okkar mönnum í kjölfarið. Svo kemur það sama og hefur oft gerst hjá Liverpool þegar þeir eru einu marki undir að þá finnst mér alltaf vanta einhverja extra greddu hjá leikmönnum til að sækja boltan og reyna að jafna leikinn.

    En að Enrique. Hann gerði margt gott í leiknum en eins og í síðustu leikjum á hann það til að vera með arfaslakar sendingar og það oft aftarlega á vellinum. Gríðarlega hæpnar sendingar og virkar stundum eins og einbeitningu vantar gjörsamlega. Hann átti síðan sína sök á markinu en hans hlutverk er að elta sóknarmanninn sem hann gerði svo engan vegin.

    En hvað varðar framlínuna að þá fannst mér Moses ekki vera neitt sérstakur í þessum leik. Of oft klikkaði fyrsta snertingin hjá honum og hann missir boltan of langt frá sér og síðan komu sendingar trekk í trekk sem voru fyrir aftan leikmenn sem voru í hlaupinu.

    Sturridge… þarf ekkert að bæta við um hann. Hann var slakur.

    En til að vera jákvæður í lokin: Ég tel þetta vera að koma hjá okkur en held að Sturridge þurfi hvíld í næsta leik til að jafna sig og mér þætti áhugavert (tek fram að það væri áhugavert) að sjá Aspas frammi með Suarez gegn Sunderland. Ég er arfaslakur því ég tel að liðið sé á uppleið og nú er Suarez kominn aftur sem verður að teljast mjög jákvætt og svo kemur Coutinho aftur og við horfum á bjartari tíma 🙂

  30. Er ég eini á því (nota bene, ekki buin að lesa commentin) að brotið hafi verið á Kolo þegar United fengu hornspyrnu sem umrætt mark kom upp úr? Ég kallaði allavegana á dómarann og Kolo var ekki sáttur, og á því augnabliki vissi ég nákvæmlega hvað væri að fara ske… pæling..

  31. Þetta var heilt yfir jafn leikur sem gat dottið báðum megin, því miður datt hann þeirra megin.

    Varalið hja united og ekki varalið, þeir skipta ut allri vörninni sinni fra þvi a sunnudag enda gaf su vörn 4 mörk og gat ekki rassgat i þeim leik, vörn gærdagsins töluvert betri en su vörn, ad skipta svo nani, kagawa og chicarito inn fyrir valencia, young og welbeck er klár styrking a liðinu að minu mati…

    Tek undir margt hjá Babú, eg hef ahyggjur af miðjunni hjá okkur og otrulegt að sja að menn virðast flestir ekki i formi til að spila heilan leik…

    Það vantar mikið i liðið þegar vantar Johnson og Coutinho og maður hefur töluverðar ahyggjur að vera án þeirra. Fyrst var talað um 10 vikur á Johnson en var það svo ekki fært ofan í 4 vikur ? það stenst ekki þvi hann var að losna nuna fyrst við eitthvað af löppinni a ser og er greinilega ekki að koma strax.

    sakho finnst mer mjög tæpur þarna i vörninni oft á tíðum og ætla eg rett að vona að sá drengur se allavega 5 sinnum betri en hann er að syna i þessum fyrstu leikjum.

    Jakvætt að sja Suarez mættan, ekki i leikformi en samt lang líflegasti leikmaður okkar framá við, hann verður bara betri…

    En núna er möst að vinna a sunnudag, það verður erfiður leikur þar sem Di Canio er farin og oft vlja lið vinna leiki þegar skipt er um stjóra en hvað um það við verðum að sækja 3 stig a sunnudag…

    Liðið hlytur að fara skora mörk, komi tími til…

  32. http://www.101greatgoals.com/gvideos/gif-zonal-marking-fail-javier-chicharito-hernandez-man-united-1-0-v-liverpool/

    Ég get alveg tekið undir að Enrique átti að gera betur í varnarleiknum í markinu en mér finnst full harkalegt að skella allri sökinni á hann. Þegar markið er skoðað finnst mér Gerrard eiga meiri sök í markinu. Óskiljanlegt að maður með alla þessa reynslu skuli missa boltan svona einfaldlega yfir sig. Boltinn kemur beint á hans svæði og ef hann hefði einfaldlega staðið vaktina þá hefði hann hreinsað þennan bolta í burtu.

  33. Mér fannst Sturridge svo grátlega einfættur stundum að það minnti mig næstum því á Riise. Þurfti alltaf að byrja á að koma boltanum yfir á vinstri fótinn. Hann er striker en ekki vinstri bakvörður og hlýtur að eiga að geta potað boltanum á markið með hægri ef færið bíður upp á það.

  34. Norsku halfvitarnir sem eg er ad vinna med herna skrifudu komment nr. 31 fyrir mig! Vissulega er eg sammala theim en langar ad koma einni hugleidingu ad sem vidbot vid flotta umrædu herna.

    Ef vid skodum Liverpool vs mu i thessum tveimur innbyrdis leikjum tha verd eg ad segja ad eg kvidi ekki framtidinni okkar og alls ekki thessu timabili. Mer fannst manju stalheppnir ad fa ekki mark a sig og komust drulluvel fra thessum leik sinum. Vid eigum mikid inni, bædi i formi meidslavandamala sem og ad pusla saman nyju leikmønnunum vid tha sem hafa verid lengur.

    Eg treysti BR til ad leida lidid okkar afram i velgengi um komandi ar.

  35. 36

    Hefur þú ekki áhyggjur af því að Man Utd er að leggja okkur af velli, með þá leikmenn sem þeir notuðu í gær…
    vantaði:
    Persie – Rio – Vidic – Carrick (kom reyndar inná) – Evra – Valencia – Fellaini…… t.d.

    þeir voru með leikmann sem er 39 ára og hann var að éta miðjuna í gær á stórum köflum…

  36. eg skrifa þetta mark á Gerrard þessi bolti var beint á kollinn á honum
    ef hann hefði bara staðið kirr 🙁

  37. Hvad eru menn ad kvarta ? LFC spiladi vel i gær , United menn voru bara adeins gradari. Skal taka undir tahd ad fyrirlidinn var frekar slakur i gær en tho ekkert til ad fara a limingunum yfir. Thetta var mun betra en a moti Soton.

  38. Djöfull þoli ég ekki Manure.

    Mér finnst enn vanta töluvert uppá sköpun í liðinu og finnst þeir oft hálf hugmyndalausir þegar þeir eru komnir yfir miðju.

    Ég skil ekki heldur að það skuli ekki enn vera búið að kenna liðinu almennilega dekkningu þegar hitt liðið á föst leikatriði. Fæ alltaf í magann þegar lið eiga föst leikatriði á móti okkur.

  39. Geir#36.
    Nei eg geri thad ekki, serstaklega i ljosi thess ad vid unnum fyrri leikinn, ekki satt? Ekki vantadi mikid i manhu-lidid tha, bara Rooney minnir mig. A sama tima og their voru med thetta svokallada B-lid sitt i gærkvøldi ad tha vantadi okkur Glen og Coutinho plus Sturridge er ekki kominn i fullt form og Suarez var ad spila sinn fyrsta leik i langan tima i EPL.

    Thad sem eg meina med thessu er ad vid versus manju og fleiri lid getum alveg verid jakvædir enda margir jakvædir punktar i gangi hja okkur.
    Ef eg var einhvern timann efins um ad thad hafi verid rett akvørdun ad lata KK fara og rada ungan og ferskan stjora tha vard eg algjørlega fullviss um ad LFC eru a rettri leid thegar KK sagdi i vidtali ad thad væri mikilvægara ad vinna svona dollu i stad thess ad na fjorda sætinu.

  40. Þetta var alls ekki slæmur leikur hjá okkar mönnum, við fengum alveg færin til að skora og með smá betri fyrstu snertingu hefðu komið mörk og Moses átti að gera betur í skallanum, ekki skalla beint á markvörðinn. Vörnin var fín og varðist oft vel hröðum sóknum MU þannig að þetta er allt að koma og ef við vinnum ekki næsta leik þá kemur annað tímabil á næsta ári.

  41. Þetta fannst mér mjög slakur leikur, Þetta byrjaði hratt og ég bjóst við mikilli baráttu en svo hægt og rólega fórum við að Jogga, Og virkuðum áhugalausir, Mér finnst hann vera spila of mikið af sömu mönnunum trekk í trekk og sumir þurfa einfaldlega hvíld Hóst Sturridge. Gerrard var týndur nánast allan leikinn og Lucas var nánast einn á miðjunni, Það vantaði allan kraft í leik okkar manna og það er auðsjáanlegt að við þurfum að spýta í lófana og snúa vörn í sókn gegn Sunderland, Hvernig væri það svo að gefa mönnum séns Herra Rodgers? Allen, Alberto, Llori og Jordan Ibe hefðu allir geta fengið tækifæri í þessum leik en Rodgers ákvað að nota þá ekki, Heilt yfir “lúkkuðum” við rosalega hægir og einhvernveginn bara fúlir! Það er ljóst að það er mikil vinna hjá Rodgers og co Framundan og við þurfum virkilega að bæta okkur, Henderson og Gerrard eru svo nálægt því að tryggja sér sæti á bekknum og Enrique líka.

    Enþó, Suarez er byrjaður aftur.. Það tók hann ekki langan tíma að Klobba mann og annan! Vonandi rífum við okkur upp fyrir leikinn gegn Sunderland, Og ég segi bara Koma Svo Liverpool!

  42. Mér finnst nú sumir gera frekar lítið úr deildarbikarnum. Munum að þegar okkur hefur gengið vel og jafnvel unnið keppnina hefur annað verið uppi á teningnum.

    Þegar allt er talið er það einna helst árangur í bikarkeppnum sem gerir Liverpool að sigursælasta liði Englands fyrr og síðar … og það er góð staða að vera í.

    Við erum úr leik og það er slæmt. Enn verra fanst mér þó að tapa fyrir man utd … í raun svíður ekkert meira.

    Árangur knattspyrnustjóra Liverpool verður alltaf metinn út frá titlum og árangri og Rodgers á langt í land … því miður.

    Áfram Liverpool!

  43. Brendan á enn langt í land. Gerrad í holuna og Henderson aftar og Aspas átti að koma inn á fyrir lélegan Sturridge. Suarez var flottur. Þá voru klár mistök að tala ekki við Rafa þegar hann var laus. Hann á pottþétt eftir að vinna deildina á Italíu og fara mjög langt með Napoli í CL. Annars fannst mér þessi leikur miklu betri en Southamton leikurinn. Hef trú á sigri í næstu tveimur leikjum gott fólk.

  44. Ég vona að stjórnendur sjái sóma sinn og hendi út kommenti nr. 40 frá Óla

    Þótt við höfum tapað þessum leik þá réttlætir það ekki svona skítkast og vanvirðingu, svona komment er ekki boðlegt á svona síðu.

  45. Enn og aftur, láta vita að ég er United maður..

    En að leiknum. Þetta var að mínu viti mjög jafn leikur sem féll með okkur í þetta sinn.. Ég fékk svipaða upplifun úr fyrri viðureign okkar sem féll ykkar megin en sá leikur var þó ögn meira kaflaskiptur. Bæði þessi mörk eftir hornspyrnur þar sem “skorarinn” gerir vel í að losa sig.. burt séð frá því hvað aðrir gera vitlaust varnarlega..

    Af því þetta er ykkar spjall þá ætla ég ekki að eyða miklum tíma í að dásama það sem United gerði vel heldur skoða aðeins ykkar lið.

    Ég veit að Carra sagði liðið ekki geta tekið neitt jákvætt frá þessari viðureign en því er ég ekki alveg sammála.

    Erfið byrjun hjá ykkur fyrstu mínúturnar en mér finnst það ekki vera af því að þið komust ekki í gang strax heldur miklu frekar vegna þess að United gerði heilar 8 breytingar á liðinu hjá sér og menn voru einfaldlega mættir til að sýna sig og sanna. Þess vegna féll “momentum-ið” okkar megin til að byrja með. Bæði lið hefðu getað verið betri á loka þriðjungi vallarins.

    Allt tal um að United hafi verið með varalið er kjaftæði. Vissulega menn inná sem hafa spilað færri mínútur en eins og ég sagði í fyrri pósti þá eru þetta alls ekki lakari spilarar. jújú, varnarlínan ung en þetta eru þeir sem eiga að taka við og hafa spilað nokkur ár hjá okkur og vita útá hvað þetta gengur.

    Hvaða leikmenn stóðu sig með prýði? Já, erfitt að segja en ég sé að margir ykkar eru ekki hrifnir af frammistöðu Gerrard undanfarið.. Ég ætla ekki að leggja svosem mat á hans frammistöðu. Enn og aftur þá fannst mér Jones og Giggs eiga frekar góðan leik (sem er sjokkerandi 🙂 ) á miðjunni og því var erfitt fyrir Gerrard að skara eitthvað sérstaklega frammúr.

    Moses er leikmaður sem ég er virkilega hrifinn af og fylgdist með honum hjá Wigan áður en hann fór til Chelsea. Hann á eftir að verða mjög öflugur fyrir ykkur með meiri spiltíma. Hann var hálf frystur hjá Chelsea og er núna rétt volgna.

    Mál málanna, Suarez. Fannst hann bara ágætur en megin munur á frammistöðu hans nú og áður var hin svokallaða “fyrsta snerting”… Hún var ekkert sérstök í þessum leik en hann var stundum að missa tuðruna of langt frá sér. Gerði það að verkum að ég varð aldrei stressaður þegar hann var með boltann öfugt við það sem vanalega er. Þetta dæmist bara á 10 leikja bann og vöntun á leikformi sem verður komið eftir nokkrar vikur.

    Svipað með Kagawa, lítið spilað og fyrsta snerting var einnig að svíkja hann..

    Góðar stundir.

  46. Gleymdi að koma með það jákvæðasta ! 🙂

    Það var semsagt að mínu mati sú staðreynd að Liverpool var mest allan tímann inní leiknum og þá sérstaklega í seinni hálfleik sem hefur ekki verið að gerast hingað til á tímabilinu!

Liðið gegn United

Leikjabið – opinn þráður