United á morgun

Þá er komið að þriðju umferð enska Deildarbikarsins eða 32-liða úrslit eins og við þekkjum það hér heima. Eftir 4-2 sigur á Notts County í síðasta mánuði voru okkar menn frekar óheppnir með drátt og sendir á Old Trafford í þessari umferð. Það hefði getað verið betra en, ókei, það er þá allavega stórleikur milli erkifjendanna sem er aldrei leiðinleg tilhugsun. Hvort sem það gerist í 32-liða úrslitum eða undanúrslitum þarf nær alltaf að fara í gegnum stóru liðin til að komast á Wembley þannig að það er um að gera að mæta þeim bara strax.

Ekki það að nokkur maður sé mikið að hugsa um lið United eða lið Liverpool í aðdraganda þessa leiks. Allar auglýsingar fyrir þennan leik, allar spurningar, allar vangaveltur, allt snýst þetta um einn mann …

Já, hann er mættur í vinnuna á nýjan leik.
Já, hann er mættur í vinnuna á nýjan leik.

Luis Suarez. Eftir að hafa lokið tíu leikja banni sínu fyrir að bíta Branislav Ivanovic í apríl er besti leikmaður Liverpool mættur til leiks á ný og það er að sjálfsögðu alveg týpískt að hann skuli fá það verkefni að spila á Old Trafford í fyrsta leik. Ég nenni svo sem ekki mikið að rifja upp alla sögu hans og United og Ivanovic og Evra og Arsenal og þetta allt saman, enda þarfnast enginn sem les þessa síðu upprifjunar á því öllu. Þess í stað segi ég bara þetta: ég skrifaði pistil um hann seint í júlí og stend enn við hvert orð sem ég setti fram þar. Ég hef lítið sem ekkert álit á manninum, en ég er feginn að hann er enn að spila fyrir Liverpool því hann er leikmaður í heimsklassa og eins og sumarið sannaði er ekki auðvelt að krækja sér í slíka leikmenn í hans stað. Ég geri ennþá fastlega ráð fyrir að þetta sé síðasta tímabil Suarez hjá Liverpool en á meðan hann spilar í rauðu treyjunni vona ég að hann skori mörk og hjálpi liðinu að ná árangri.

Ég vona líka, umfram allt, að hann hagi sér eins og maður. Frá og með morgundeginum, takk, Luis. Ekkert kjaftæði.

Allavega, aftur að leiknum. Ég nenni ekki að fabúlera mikið um United-liðið. Hjá þeim er helst að frétta að Robin Van Persie er enn meiddur og David Moyes (haha, David Moyes, stjóri United, LOL) sagði í dag að hann myndi ekki spila þennan leik. Það eru fínar fréttir fyrir okkur en ég geri samt ráð fyrir sterku liði Rauðu Djöflanna á morgun. Moyes (haha, LOL) hefur ekki efni á að tapa þessum leik eftir að hafa verið kjöldreginn af nágrönnunum í Manchester City um helgina og því býst ég við 2-3 breytingum en annars þeirra sterkasta liði, frekar en einhverju unglingaliði.

Hjá okkar mönnum býst ég við svipuðum hlutum. Þetta er leikur í bikarkeppni og að honum loknum á Liverpool fram undan sjö deildarleiki á næstu tveimur og hálfum mánuði, sem er rétt rúmlega einn leikur á tveggja vikna fresti að meðaltali. Þannig að það er ekki eins og það verði leikjaálag á liðinu og verandi utan Evrópukeppna sé ég enga ástæðu til annars en að setja alla okkar orku í að komast lengra í þessari bikarkeppni. Þannig að fyrir mér er þetta ekki spurningin um að hvíla leikmenn heldur frekar hvort Rodgers vilji breyta liðinu eitthvað eftir afhroð helgarinnar gegn Southampton.

Það verður áhugavert að sjá hvaða ákvarðanir Rodgers tekur. Glen Johnson, Aly Cissokho og Philippe Coutinho eru pottþétt frá og þá er spurningarmerki með Daniel Agger, Joe Allen og Jose Enrique sem voru ekki í standi til að spila um síðustu helgi (þótt Agger hafi spilað, eins og frægt varð).

Ég ætla að spá því að Rodgers stokki aðeins upp í vörninni og þrátt fyrir að hann segist ekki hafa ákveðið hvort Suarez muni byrja sé ég ekki hvers vegna í ósköpunum hann ætti að vera varamaður í þessum leik. Sturridge fær hvíldina á morgun og fer á bekkinn, sennilega sá eini sem verður hvíldur, en aðrir halda stöðu sinni í miðju og sókn liðsins.

Ég spái eftirfarandi liði:

Mignolet

Kelly – Touré – Sakho – Enrique
Gerrard – Lucas
Henderson – Aspas – Moses
Suarez

Bekkur: Jones, Skrtel, Wisdom, Agger/Allen, Alberto, Sterling, Sturridge.

Sem sagt, alvöru bakverðir í liðinu á ný og annar hvor af Agger eða Allen missir af áfram vegna meiðsla. Sturridge verður á bekknum enda búinn að spila nær hverja mínútu það sem af er tímabilinu, Suarez verður frammi og nú ríður á að Aspas sýni aðeins hvað í hann er spunnið, annars missir hann sína stöðu til Sturridge um helgina (og þá gæti orðið löng bið í að hann fái aftur séns með Suarez og Sturridge báða á undan sér í goggunarröðinni).

MÍN SPÁ: Þetta verður hörkuleikur. Okkar menn mæta með nánast sitt sterkasta lið til leiks og selja sig dýrt enda einn af örfáum sénsum á bikar þennan veturinn. United-menn verða að sama skapi sterkir og munu selja sig dýrt eftir tapið um helgina. Ég spái því að United vinni þennan leik 2-1 með sigurmarki í framlengingu sem yrði svona nokkurn veginn eins pirrandi og ég get hugsað mér. Suarez skorar að sjálfsögðu fyrir okkur.

Ég vona samt innilega að ég hafi rangt fyrir mér. Ég spái vanalega af raunsæi frekar en einhverri von og United verða að teljast sigurstranglegra liðið fyrir þennan leik, það er bara þannig. Mun þó fagna mikið ef ég reynist hafa kolrangt fyrir mér. Áfram Liverpool!

48 Comments

 1. Hópurinn sem fér til Manchester: Mignolet, Wisdom, Kelly, Toure, Skrtel, Enrique, Gerrard, Lucas, Henderson, Moses, Suarez, Sturridge, Jones, Sakho, Allen, Alberto, Sterling, Aspas, Ibe.

  • Miðað við þennan hóp virðist ég hafa rétt fyrir mér með 18-manna hópinn (Ibe með sem nítjándi maður). Þá er bara spurning hvort byrjunarliðið er nærri lagi hjá mér.

 2. Ég hef ekki fundið fyrir svona mikilli eftirvæntingu með endurkomu leikmanns í liðið síðan Fowler kom í annað skiptið. Ekki alveg eins en ég er mjög spenntur að sjá hann loksins aftur bara spila fótbolta eftir alla þessa vitleysu…..sko Martin Kelly.

 3. ,,Ég hef lítið sem ekkert álit á manninum”

  Eg fokking ELSKA Suarez enda er hann einn sa allra besti i verøldinni sem spilar fotbolta! Hef trøllatru a ad hann komi til baka tviefldur og med hausinn rett skrufadann a. Usss… Thad verdur ROSSALEGT!

 4. Ég væri frekar til í að sjá Suarez á hægri kant, Henderson í holunni og Aspas uppá topp! BR talaði um að Suarez þryfti að vinna sig inn í sína uppáhalds stöðu og talaði um að spila honum úti hægra megin.

  Það er allavega klárt mál að Aspas getur ekki spilað AMC. Henderson er flinkur á boltann og getur haldið honum vel sem ætti að hjálpa til við að vörnin komi ofar á völlinn og aðstoði sóknina.

  Aspas spilaði sem fremsti maður hjá Celta Vigo og var þeirra markhæsti maður. Hann hreinilega þarf að fara komast í gang og ég tel að besta leiðinn sé að spila honum uppá topp.

 5. Magnus#5.
  Sammala. Aspas er hreinræktadur framherji med mikinn hrada og gott slutt en ekki playmaker.

  Annars bara vid ad hugsa um Moses, Suarez og Sturridge tharna frammi (kannski ekki i thessum leik) ad tha vottar fyrir semi boner!

 6. Vil sjá Suarez á hægri með Aspas á toppnum. Ekki til að sjá Aspas í sinni stöðu, heldur til að sjá Evra vs. Suarez kljást.usssusssussss 🙂

 7. Ég er drulluhræddur við þennan leik, united beið afhroð í grannaslagnum um helgina og moyes hefur skv. miðlum “krafist þess að menn sínir verði fljótir að sýna sig og sanna”, eins og mbl.is segir.

  Fókusinn verður allur á Suarez sem lítið fer fyrir, og því spái ég 3-0 tapi gegn van persie lausu united liði. Sorrí.

 8. Skrtel inn fyrir Sakho og Aspas út fyrir Sturridge. Hafa Sturridge fremstan og Suarez að klobba menn hægri vinstri fyrir aftan hann.

 9. Væri til í að sjá þetta, Henderson er bara svo miklu betri á miðjunni og Aspas á ekkert erendi í þá stöðu, annars gæti ver hægt að víxla Suarez og Henderson
  Mignolet
  Kelly – Touré – Sakho – Enrique
  Gerrard – Lucas
  Suarez – Henderson – Moses
  Aspas

  Væri frábært að ná góðum úrslitun en ég held við séum svolitið vængbrotinir án Johnson og Cutiniho, og það má búast við að moyse reyni að barna óyrðum á mansester bor með því að tapa ekki öðrum leiknum við Liverpool á stuttum tíma sérstaklega þar sem þeir töpuðu gegn Man City um helgina. það yrði allt vitlaust í borginni ef þeir töpuðu, vonandi fer samt svo.

 10. Hvað þýðir barna óyrðum à manchester bor?
  Er annars sammàla liðinu hjà nr. 10, væri samt til í víxla Gerrard og Hendo.
  1-3 fyrir okkur!

 11. Fulham voru rétt í þessu að vinna Everton. Nú vantar bara jafnskemmtileg úrslit á morgun! 🙂

 12. Vona að Rodgers sleppi því að nota Suarez á morgun. Finnst þetta ekki rétti leikurinn eftir langt bann. Ég er ansi hræddur um að hann fái að finna fyrir því á morgun og meiðist í kjölfarið.

 13. P.S. Aspas hefur ekki gert neitt til að verðskulda það að spila þennan leik.
  Kominn tími á að taka hann út úr byrjunarliðinu og gefa öðrum sénsinn.

 14. Aspas verður hreinlega að fá að byrja þennan leik sem efsti maður. Búið að spila manninum úr stöðu allt þetta tímabil og svo er hann rakkaður niður af aðdáendum sínum fyrir lélega spilamennsku. Maðurinn er klárlega enginn sóknartengiliður og vonandi fer Rogders að sjá það.
  Suarez á kantinn á móti Evra og Sturridge vonandi hvíldur allan leikinn.
  En ég held samt því miður að United vinni á morgun. Því miður.

 15. Sammála liðinu hjá 10, og einnig vil ég benda á það að Daniel Agger virðist oft vera sjálfvalinn í liðið, hann er góður maður á mann og að spila út úr vörninni, en er oft í miklum vandræðum í teignum í föstum leikatriðum varnarlega. Myndi vilja prófa einhverja aðra samsetningu, t.d. Sakho og Skrtel.

 16. Sælir. United maður hér á ferð.. tilkynna það fyrirfram 🙂

  En að leiknum, verður hörkuleikur sem ómögulegt er að sjá fyrir hvernig fari. Bæði lið verða með sterkan hóp á vellinum.

  Þurftu bæði að þola tap um helgina þó að okkar tap hafi nú sennilega sest meira á sálina, ykkar var vissulega svekkjandi fyrir ykkur eftir kröftugt start.

  Ég býst væntanlega við svipuðu Liverpool liði og hefur spilað undanfarið. BR mun eflaust ekki mæta með fjóra miðverði í byrjunarliðið þannig að einhverjar breytingar verða. Svo mun Suarez spreyta sig eitthvað í leiknum. Fullyrði það að hann muni ekki valda ykkur vonbrigðum.. Svona svipað og þegar Rooney lék á móti Chelsea um daginn. Hversu lengi Suarez haldi sig frá leikbönnum verður þó sennilega talið í leikjum en ekki árum. Hef svoldið velt þessu fyrir mér með þennan leikmann. Tel hann vissulega vera veikan andlega en gæti það ekki einmitt verið þess vegna sem hann er svona heimsklassa leikmaður?? Eru þessi leikbönn ekki bara ákveðinn fórnkostnaður í hans tilviki? Vissulega til heimsklassa spilarar sem eru vel settir saman í höfðinu en er þetta ekki einmitt það sem gerir leikinn svo skemmtilegan..

  Efast um að við fáum Evra v.s. Suarez því ég held að Buttner fái sénsinn þar sem þetta er deildabikar. Einnig mun það vinna með okkur að það fá væntanlega leikmenn sénsinn sem eiga skv. pappír að vera minni spámenn en eru í raun betri en þeir sem hafa verið að detta inn á grasið í síðustu leikjum.

  Hlutlaus spá 🙂 3-1 United í hag..

  Góðar stundir..

 17. Nr. 12 Þorsteinn

  Styttist heldur betur í ferðina góðu 🙂 Við hendum pósti á þá sem eru að koma á morgun.

  Varðandi leikinn þá vona ég að eitthvað verði hægt að nota hópinn og vill sjá menn eins og Allen og Kelly spila, jafnvel Sterling en efast þó um að þeir fái sénsinn.

  Suarez myndi ég halda af fari beint upp á topp ef Sturridge er ekki með en ef hann er með sé ég alveg fyrir mér að Suarez fari á hægri kantinn. Um að gera að henda honum bara beint í baráttu við vinstri bakvörðinn þeirra.

  Ég segi hægri kantinn því mig langar að sjá Henderson koma inn á miðjuna. Líklega er Suarez þó alltaf að fara koma inn fyrir Aspas/Coutinho meðan Brassinn er meiddur og í holuna. Veit ekki hvort það myndi flokkast sem fyrir aftan Sturridge enda Suarez pretty much alls staðar, hvar svo sem þú stillir honum upp til að byrja með.

  Óttast að Rodgers taki sénsa á þá leikmenn sem eru tæpir og fari nokkurnvegin með sitt sterkasta lið í þennan leik. Ég veit ekkert hvernig hann hugsar vörnina eins og staðan er í dag en tippa á þetta svona:

  Mignolet

  Wisdom – Toure – Sakho – Enrique

  Lucas – Gerrard

  Henderson – Suarez – Moses

  Sturridge

 18. Hann á eftir að skrattast eitthvað í Evra og fara í bann fram að áramótum. En fyrst setur hann 2-3 mörk !

 19. Ég er spenntur, rosalega spenntur að sjá loksins SUAREZ okkar besta leikmann ! LOKSINS, LOKSINS ! !
  Við vitum að man utd mun tefla fram sterku liði, bara til þess að koma sér á réttara ról, og líka útaf því þeir eru að fara að spila við LIVERPOOL FC.

  Við eigum að geta stillt upp öllum okkar sterkustu leikmönnum sem eru heilir í þennan leik. Ég spái rosalegum leik. Jafnt eftir 90 mín, og við vinnum í framlengingu. 1-2. ASPAS og SUAREZ með mörk okkar. Tröllabarnið með mark manutd.

 20. Líst vel á uppst, hjá babu nr 19 væri til í að sjá Alberto þarna. Held að Suarez fari ekkert ef við náum 4 sætinu. Aspas má aftur á móti fara þar sem hann hefur frekar verið slappur og tekur illa á móti bolta ef hann er ekki að spila rétta stöðu, þá spyr maður af hverju lætur BR ekki gaurinn þangað, held að hann hafi verið að spila fremst og ekkert komið frá honum en KANNSKI fer hann í gang og verður fínn, Lukas var nú ansi lengi að finna sig á Anfild, en ég held að við séum að vinna þennan leik og síðasti leikur hefur örugglega rassskellt okkar menn og það á heimavelli, þvílík andleysa hjá mönnum þar. Tökum þetta bara 1-3 eða þannig, þurfum að fara að skora meira en eitt mark í leik,,,,, KOMA SVOoooo.

 21. Þegar hlutirnir fóru að smella saman hjá okkur undir stjórn Brendan, var það m.a. þegar Downing kom inn og vegna þess hve duglegur hann er þá gátum við farið að nota þrjá á miðjunni. Hendo – Gerrard – Lucas. (Er ég í alvöru að skrifa að við söknum Downing ?)

  Nú þegar við erum búnir að ákveða að spila með tíu, þá vantar okkur mann til að leysa hægri vænginn. Það er staða sem Henderson er búin að vera leysa, allavega hvað varnarskylduna varðar. Við verðum því oftar en ekki undir á miðjunni, þar sem að allir nema Roy Hodgson spila með þrjá miðjumenn og Lucas og Gerrard hafa ekki þol í að covera svona mikið svæði í 90 mín. Þarna spilar eflaust inní aldurinn hjá Gerrard og svo fer maður að setja spurningarmerki við Lucas – þetta var alltaf að fara verða stórt tímabil hjá honum, hvort hann nái sama flugi eftir meiðslin eða ekki.

  Ég þoli ekki Henderson á hægri kanntinum. Það fer í mínar fínustu. Ekki koma með comment um að bara hann geti leyst þessa stöðu m.t.t sóknar- og varnarskyldu. Ef það er rauninn afhverju í andsk. vorum við þá að selja Downing þegar við vorum ekki með mann sem er “náttúrulegur” í þessa stöðu og getur leyst hana án þess að skilja okkur eftir berskjaldaða annarsstaðar ? Það verður að fórna einhverju öðru en miðjunni. Það er alveg hægt að spila með Gerrard fremstan í þriggja manna miðju nú þegar LS er kominn aftur og getur spilað sem “vængframherji” eins og hann gerði svo oft f landslið og Ajax.

  Að leiknum í kvöld. Ég vil ekki sjá Sturridge í hópnum. Ég vil sjá hann komast yfir þessu blessuðu meiðsli sem virðast vera viðloðandi hann frá því að ég man eftir honum, og myndi helst vilja sá liðið á þennan veg:

  Kelly – Toure – Sakho – Enrique

  Henderson – Lucas – Gerrard

  Suares – Aspas – Moses

  Með Suarez sem væng-framherja og Aspas í níunni. Hann er ekki tíu-material. Það væri auðvitað hægt að skella Sterling á hægri og Suarez uppá topp. Já eða Alberto í tíunni og Suarez fremstan.

  Það er frekar erfitt að geta sér til um liðið, Brendan gæti verið, þó ég efast um það, búin að ákveða að spila á Sterling, Ibe, Illori, Kelly ofl. En vonandi fær Allen einhverjar mínútur í þessum leik. Við þurfum á honum að halda í vetur, virkilega. Sérstaklega þar sem að við erum að sjá ansi mörg spurningarmerki varðandi þetta miðju-combo okkar það sem af er tímabili. Höfum ekki náð að stýra leik síðan í fyrri hálfleik gegn Notts County.

  Svo ég haldi nú áfram að fara víða um völl. Þessi gluggi fer alltaf að líta verr og verr út. Við missum tvo í meiðsli og við getum allt í einu ekki stýrt leikjum. Við gætum stillt upp liði af miðvörðum, en eigum samt ekki almennilegt backup í hægri bak.

  Sóknarleikur okkar byggist meira og minna á rúmlega tvítugum strák með hálft ár í reynslu í EPL.

  Við seljum Downing og þurfum að breyta kerfinu og spila mönnum úr stöðu vegna þessa, þar sem að ekki fékkst almennilegur arftaki. Henderson er kominn í svipaða stöðu og hann var í á sínu fyrsta ári hjá LFC, á hægri kannti þó hann leysi meira inná miðju núna en hann gerði þá, en hann er ávalt bundinn við hægri kanntinn útaf varnarskyldum. Við sitjum því eftir með tvo á miðjunni og spilum með tíu sem hvorki hefur reynslu af stöðunni né burði til að leysa hana.

  Þetta hljómar kannski eins og rafa-rant út í allt og alla en er alls ekki meint þannig. Þetta er meira pæling varðandi uppstillingu og þá kosti sem í boði eru. Á meðan Coutinho er frá vegna meiðsla við ég sjá Gerrard í tíunni, já eða gefa Alberto sénsinn.

  En að leiknum, rant-over!

  Þetta verður virkilega erfiður leikur. Utd getur komið með menn af bekknum sem bara styrkir þá að mínu mati. Moyes hefur verið að spila talsvert á Giggs og Young á könntunum. En ég hræðist Nani og Zaha mikið meira en nokkurntímann þá tvo eins og þeir hafa verið að spila. Einnig leit Januzaij mjög vel út þegar hann kom inn gegn Crystal Palace, er Belgi einnig þannig að það er gæðastimpill í dag.

  Rooney var frábær gegn Chelsea, Palace og City. Er mjög heitur þessa daganna og spilar eflaust þennan leik þar sem að hann þarf á mínútunum að halda. Kagawa kemur væntanlega inn, sem veikir þá ekki ef hann fær loksins að spila sína stöðu.

  Þetta verður virkilega erfiður leikur, ég ætla að spá 2-0 tapi í frekar pirrandi leik. Þeir komast yfir nokkuð snemma og við náum aldrei flæði í okkar leik. En við komum svo tvíefldir til leiks gegn vængbrottnu liði Sunderland, en þeir eru jú án Borini í þeim leik.

 22. Flott upphitun. Auðvitað á Suarez að spila þennan leik. Það þarf að koma honum inn í þetta eins fljótt og hægt er.

  Tók einhver annar eftir því að í gær var opið fyrir A. Villa- Tottenham á stöð 2 sport 2 stöðinni (nr. 10 á myndlyklinum), sem er aðalrásin fyrir epl leiki?
  Er þetta eitthvað nýtt, er deildarbikarinn opinn á þessum stöðum núna? Þarf maður kannski ekkert að finna sér pöbb í kvöld. Ef einhver veit meira endilega pósta upplýsingum.

 23. Sæl öll.

  Auðvita verða þeir að vinna það kemur bara ekki neitt annað til greina. Örlög mín í kvöld eru þau að ekki aðeins þarf ég að vinna heldur er ég á vakt með eldheitum stuðningsmanni Man.Utd. og það verður óbærilegt að þurfa að lifa við það allt kvöldið að þeir töpuðu. Ekki það að ég hafi neitt verið að monta mig þegar mínir menn voru í 1. sæti ( bara stöðugt allan tíman sérstaklega við þennan vinnufélaga) heldur sýndi ég háttprýði eins og sönnum Poolara sæmir en ég bara get ekki horft á mína menn tapa fyrir þessum þarna hinu megin……

  Koma svo og vinna bara með einu marki meira en hinir það dugar mér…

  Þangað til næst
  YNWA

 24. Getur einhver svarað því af hverju leikurinn er líka sýndur á Sport 2?
  Get ég sem er með enska boltann þá líka séð leikinn í kvöld?

 25. Í Guðanna bænum hættið að drulla yfir ASPAS. Hann er látin spila út úr stöðu í hverjum einasta leik. Hvernig væri að vera með einhver uppbyggileg komment í hans garð í staðin fyrir þessi drulluskot á hann dag eftir dag. Hann er partur af liði LIVERPOOL. Styðja margir hérna bara part af liði LIVERPOOL eða hvernig stuðningsmenn eru hérna ?

 26. Apas á eftir að verða góður, hann er enn að venjast enska boltanum og hann er látinn venjast honum spilandi í stöðu sem hann hefur aldrei spilað.

  auðvitað hefur ekki spilað vel, það kæmi á óvart ef hann kæmist beint inn í boltann einsog Cutiniho, það væri kraftaverk ef hann kæmist inn í hann spiladi stöðu sem hann kann ekki.

  ef sturage spilar ekki þá á að spila Aspas, og þá frammi ekki sem playmaker, hann kann það ekki og liðið myndi ekkert geta fram á við.

 27. Sem sagt ef þú hefur aldrei spilað viðkomandi stöðu þá geturðu minna en ekkert? Ég skil ekki öll þessi 7-8 mill kaup á algerum viðvaningi og ekki er Louis Alberto eitthvað skárri þótt ungur sé. Alltaf þurfum við að taka þennan séns og seljum svo með 70-90 % afslætti. Er ég einn um að vera þreyttur á þessu helv. kjaftæðiskaupum? Aspas er og verður aldrei í þeim klassa sem við leitum að og ekki heldur Alberto þótt að aldurinn vinni betur með honum.

  Að leiknum í kvöld þá held ég að við munum upplifa erfiðar stundir þar sem að
  United kemur dýrvitlaust til leiks. Spilamenskan hjá okkur hefur ekki verið upp á marga að fiska og staðan í deildinni gefur aðeins ranga mynd af stöðuni hjá okkar mönnum. Ég er heldur svartsýnn og spái 0-4 tapi þar sem allt verður vitlaust á vellinum og Suarez bítur bæði Evra og dómarann og fær lögreglufylgd útaf vellinum. Nei bara djók við vinnum þetta 1-0 Sturridge með markið í fyrri.

 28. Nr. 28

  Það þarf alltaf að hafa einhvern leikmann til að drulla yfir, ég er bara ánægður með að ekki verri maður en Aspas fær það hlutverk eftir að hafa haft Poulsen, Konchesky? Borini o.s.frv

 29. Á öðrum nótum hvað hét aftur Liverpool stream síðan þar sem eru alltaf nokkur stream á Liverpool leiki, var alltaf með hana bookmarked en er í nýrri tölvu.

 30. NR 28

  Það er í fína lagi að gagnrýna og jafnvel drulla yfir mann sem virðist bara ekkert geta í fótbolta!
  Eins og NR.30 bendir á, þurfum við ekki að gera ráð fyrir að maðurinn geti eithvað í fótbolta þrátt fyrir að vera ekki alveg í sinni stöðu? ekki eins og BR hafi verið að prufa hann í markinu í þessum leikjum.

  Svo má drulla, æpa og veina yfir öllum þessum köllum því það mun ekkert setjast á sálina á þeim, þeir lesa nefnilega ekki KOP.IS þótt ég glaður vildi að þeir gerðu það oft á tíðum.

  tímar í leik, þrír tímar í Suares 5. tímar í að við heyrum í flautunni eftir að hafa sigrað Manu á Old Traford!

 31. Er einhver hérna sem horfir á leiki í Ipad og ef svo er er þá eitthvað gott app sem þið mælið með? Hef prófað Ustream en það er alveg vonlaust.

 32. Mignolet
  Toure – Skrölti– Sakho – Enrique
  Gerrard – Lucas
  Henderson -Suarez – Moses
  Sturridge

  Svona held ég að BR eigi eftir að stilla upp liðinu í kvöld. Aspas hefur bara ekki verið að sýna að hann sé tilbúinn ennþá og hvað þá í svona stórleiki. Veit vel að hann er ekki búinn að spila út úr stöðu en þrátt fyrir það er lágmarkið að sýna eitthvað þegar þú á annað borð spilar.

  Fyrst að RVP verður ekki með að þá gæti ég trúað að þessum leik ljúki 1-2 fyrir Liverpool og Sturridge og Suarez skori mörkin. Kæmi ekki á óvart ef Rooney skori fyrir utd. Held að Suarez komi til með að eiga stjörnuleik og klobba bæði Evra og Ferdinand…

  30 Ertu ekki helst til of fljótfær að dæma þessi kaup sem mistök??? Það eru ekki liðnir tveir mánuðir af tímabilinu og strax farið að telja kaup á Alberto og jafnvel Aspas sem mistök er ansi mikil fljótfærni. Það er ekkert óalgengt við það að leikmenn taki heilt tímabil í að komast í gang í nýju liði

 33. Deildarbikarinn er meistaradeild okkar Liverpoolmanna í ár. Koma svo Suarez klobba þessa djöfla á eftir!

 34. Ein spurning fyrir forvitni sakir:

  Afhverju fær Ryan McLaughlin ekki sénsinn þegar allir hægri bakverðirnir eru tæpir eða meiddir? Voru ekki allir að tala um að hann væri gríðarlegt efni?

  Annars vona ég að Sturridge fái hvíldina í kvöld enda erum við búnir að nota hann of mikið. Hann er ekki í 100% standi og þarf hvíld.

 35. Athyglisverð grein sem ég rakst á.
  http://thetravellingkop.com/1918/writers-columns/view-from-the-kop-central-failings/

  Að vissu leyti er ég sammála því, að til að hægt sé að fullnýta Coutinho, Suarez, Moses og Sturridge þá þarf að vera með vangefna vinnslu í þeim 2 miðjumönnum sem eftir standa. Eins góður varnartengiliður og Lucas er, þá hefur hann ekki yfirferðina sem þarf að mínu mati, og Stefán er kominn á aldur fyrir þannig yfirferð. Henderson er hellings efni, og finnst mér sóun að hafa hann úti á vængnum..

  En ég er hræddur við þennan leik, held að utd valti yfir okkur, eins og særð ljón eftir síðustu helgi, og spái 4-1 sigri heimamanna…

  En vona virkilega að ég hafi rangt fyrir mér.

 36. Ég spái því að þetta verður enn einn leikurinn sem hann aspas á eftir að sucka en vona að við vinnum

 37. Mignolet, Enrique, Toure, Sakho, Skrtel, Henderson, Lucas, Gerrard, Moses, Suarez, Sturridge.

  Subs: Jones, Alberto, Aspas, Sterling, Ibe, Kelly, Wisdom.

 38. Athyglisvert upplegg hjá BR í dag.

  Magnaðir þessir boltar hjá Gerrard hátt upp á vinstri á Enrique, sem er búinn að vera öskuduglegur en þó klaufskur á köflum. Góð vinnsla á Moses á köflum líka, en vantar svolítið upp á (hjá öllum) þegar á síðasta þriðjunginn er komið. Gott spil þarf að enda með marktilraun, annars er það lítils virði. Suárez þarf að spila sig aðeins í gang, sýnist mér! Sakho virkar yfirvegaðri en til þessa, er vonandi farinn að venjast EPL.

  Verður fróðlegt að sjá hvort miðjan heldur áfram að virka í síðari hálfleik, því við erum að líta mun betur út en man utd, fyrir utan upphafsmínúturnar og einstaka skyndisóknir. Megum þó alls ekki við doðanum sem við höfum verið að sjá í seinni hálfleik, þar sem okkur tókst ekki að skora í fyrri.

  Það verður seint sagt að Klattinn sé að gefa okkur neitt, en menn eru samt stundum að pirra sig aðeins of mikið á því.

Kop.is Podcast #44

Liðið gegn United