Hversu sterkur er hópurinn núna?

Nú er búið að loka glugganum og eru flestir búnir að segja sitt álit á honum. Ég er mjög sáttur við hann – ekki 100% sáttur, en maður er það sjaldnast – og því finnst mér kjörið að skoða aðeins nánar hvaða áhrif leikmannakaupin sem framkvæmd voru í sumar hafa á liðið okkar.

Í janúar voru keyptir tveir leikmenn og hefur sagan dæmt þá sem tvö kaup sem styrktu byrjunarliðið og ekkert annað. Það vill maður sjá í sem flestum tilvikum en þegar keyptir eru átta leikmenn á einu sumri er erfitt að ætlast til þess að þeir fari allir beint í byrjunarlið á hverjum laugardegi. Þegar við skoðum þessi átta kaup finnst mér hins vegar frekar jákvætt að sjá að allavega þrír, jafnvel heilir sex af þessum leikmönnum voru keyptir með byrjunarliðssæti í huga. Í öllu falli voru þessir sex allir keyptir undir sömu formerkjum; byrjunarliðssætið er þitt ef þú vilt það, þú ert ekki keyptur sem varaskeifa.

Við skulum fara aðeins yfir þessa sex leikmenn lið fyrir lið.

Vörnin styrkt – Mignolet, Touré, Sakho, Cissokho

Með því að skipta Pepe Reina út fyrir Simon Mignolet varð ljóst að endurnýjun varnarlínunnar yrði alltaf mikil. Það er einfaldlega stórmál að skipta út markverði sem hefur verið fastur punktur í liðinu í átta ár. Það sem kom á daginn var að þetta var aðeins byrjunin og að svo gæti hæglega farið að aðeins Glen Johnson verði eftir af þeim fimm eða sex sem byrjuðu alla leiki í vörn og marki hjá okkur á síðustu leiktíð.

sakho_rougeStóru kaupin hér eru Mamadou Sakho. Þetta er leikmaður sem er keyptur beint inn í byrjunarliðið, á því leikur enginn vafi. Það eina sem vefst fyrir mér er hvar Rodgers ætli að nota hann. Fer hann beint við hlið Agger í miðri vörninni eða á hann að taka sæti Agger (sem er ekki langsótt pæling ef þið hafið séð Sakho spila)? Eða ætlar Rodgers að nota Sakho í vinstri bakverðinum? Fyrir mér er þetta mjög heillandi spurning og ég bíð spenntur að sjá hvaða fjórir mynda varnarlínuna okkar í næsta leik. Liðið hefur haldið hreinu í fyrstu þremur deildarleikjunum og það er kannski hart að gera breytingar eftir slíkt gengi en þar kemur strax upp annað vandamál: Kolo Touré lék frábærlega fyrstu tvo af þessum þremur leikjum en Martin Skrtel lék jafnvel enn betur gegn United.

Hvað gerir Rodgers? Ég ætla að tippa á eftirfarandi: Johnson og Agger halda áfram í sínum stöðum, vegna meiðsla Cissokho næstu vikurnar mun Sakho taka stöðu Enrique í bakverðinum (verum hreinskilin, Enrique er veikur punktur í þessu liði þótt það hafi haldið hreinu í 270 mínútur) og síðasta staðan verður á milli Touré og Skrtel. Ég tippa á að Touré komi aftur inn og varnarlínan verði þá Johnson, Touré, Agger og Sakho gegn Swansea.

Hvað verður svo þegar Cissokho kemur inn veit enginn. Ég spái því að það ráðist af spilamennsku annarra á meðan hann er meiddur. Ef Sakho finnur sig ekki gætu Enrique eða Cissokho hirt bakvarðarstöðuna aftur. Ef Touré, Agger eða Skrtel finna sig ekki er hægt að færa Sakho inn í miðja vörnina og nota Enrique eða Cissokho við hlið hans. Aðalmálið hér er að menn þurfa að spila vel til að halda sæti sínu í liðinu og samkeppnin um stöður í vörninni mun vonandi bara verða Liverpool FC til góða.

Breidd í sóknarlínuna – Aspas og Moses

moses_1616741aHafi kaupin á varnarmönnum verið frábær þá er erfitt að segja að maður sé jafn sannfærður um sóknarmennina. Rodgers og FSG reyndu við Mkhitaryan, Diego Costa og loks Willian en þegar allir þessir þrír (rándýru) leikmenn réru á önnur mið var sú skynsama ákvörðun, að mínu mati, tekin að fá Victor Moses að láni. Skynsöm segi ég af því að það er lítil áhætta í lánssamningi og það gefur klúbbnum tíma fram að næsta glugga og/eða næsta sumri til að finna rétta manninn í sóknarlínuna. Það eina neikvæða sem ég sé við þetta lán er að ekki samdist við Chelsea um fast kaupverð að ári, sem þýðir að ef Moses spilar framar björtustu vonum fyrir okkur þurfa þeir bláu ekki að sjá eftir að hafa selt hann (lesist: Daniel Sturridge) heldur geta tekið hann aftur í sitt lið eða heimtað morðfé af okkar mönnum fyrir varanlega sölu næsta sumar.

Að sama skapi er hægt að segja að kaupin á Iago Aspas séu áhættulítil, a.m.k. hvað varðar kaupverð og eftirvæntingar. Hann var aðalgosinn í fallbaráttuliði Celta Vigo og hefur aldrei leikið fyrir landslið sitt, 26 ára að aldri. Hversu góður getur hann verið með slíka ferilskrá? Það er nefnilega það sem er erfitt að meta. Á aðra höndina er auðvelt að kalla þessi kaup metnaðarlítil og afskrifa hann sem Dirk Kuyt fátæka mannsins en á hina höndina er hægt að segja að það er ekki beint til skammar að komast ekki í mögulega besta landslið allra tíma, auk þess sem hann hefur ekki spilað áður með jafn sterkum samherjum og hann fær nú hjá Liverpool. Kannski munu gæðin í kringum hann hjálpa honum upp um getustig.

Bestu samlíkinguna um Aspas sá ég, eins og svo margt annað, á Twitter í vikunni: þessi kaup minna mikið á Maxi Rodriguez. Maxi var ekki oft í byrjunarliði hjá okkur en hann var reyndur og góður knattspyrnumaður sem gat leyst fleiri en eina stöðu, skilaði sínum 10+ mörkum á leiktíð og gerði þjálfaranum kleift að halda stjörnunum ferskum með hvíld á lykiltímum yfir veturinn. Þegar Moses og Luis Suarez eru komnir inn í leikmannahópinn geri ég ekki ráð fyrir að Iago Aspas verði oft í byrjunarliðinu en vonandi getur hann orðið 2013 árgerðin af Maxi Rodriguez. Ég væri sáttur við það.

Að mínu mati mun okkar sterkasta sóknarlína alltaf verða byggð í kringum Suarez, Sturridge og Coutinho í sem flestum leikjum. Það verður síðan taktísk ákvörðun á milli leikja hver fær fjórða hlutverkið í sóknarlínunni fyrir framan Lucas og Gerrard sem eru svipað ómissandi og hinir þrír fyrrnefndu. Þessa dagana er Jordan Henderson að spila út úr korti vel í þessu plássi og kannski eignar hann sér það áfram í vetur, þó mig gruni að Victor Moses og Joe Allen muni sjá leiki þarna líka. Þá hefur Rodgers einnig þann valkost að fjölga í þrjá miðverði sem myndi væntanlega taka þetta pláss upp.

Aðalatriðið er að í sókninni, eins og í vörninni, er núna breidd og samkeppni um stöður. Ef Moses spilar betur en Henderson eða Aspas fær hann að byrja. Ef Sturridge dettur í markaþurrð en Aspas getur ekki hætt að skora mun það ráða liðsvali. Rodgers hefur valkosti sem gefa honum samkeppni um stöður og taktískan sveigjanleika. Kannski hefðum við viljað að hann hefði aðra súperstjörnu innan síns sóknarliðs – til viðbótar við Suarez, Gerrard og að því er virðist Coutinho og Sturridge (m.v. getu árið 2013) – en þetta er engu að síður ljósárum betri sóknarlína en á síðustu leiktíð og liðið skoraði haug af mörkum þá.

Framtíðin – Alberto og Ilori

Þessir tveir ungu strákar eru þeir einu af átta kaupum sem hægt er að segja að séu klárlega ekki hugsaðir sem byrjunarliðsmenn á þessum punkti. Hins vegar er hér ekki verið að kaupa óreynda pjakka sem munu mögulega aldrei sjá sólarljósið innan Anfield. Báðir kostuðu þeir væna upphæð m.v. aldur og þótt þeir séu ekki hugsaðir í byrjunarliðið strax eru þeir varla langt undan miðað við getu og orðspor. Það að Rodgers skyldi setja Luis Alberto inn á ögurstundu gegn United um síðustu helgi segir allt sem segja þarf um trúna sem hann hefur á þeim spænska og ég vænti þess að Ilori og Alberto muni báðir leika stóra rullu í bikarleikjum í vetur, auk þess sem Rodgers mun örugglega nota þá þegar líður á veturinn og þörfin á að rúlla mannskapnum aðeins eykst.

Byrjunarlið og breidd

Sem sagt, minn lokadómur á þennan frábæra sumarglugga er þessi: okkur tókst að kaupa fjölbreytta flóru leikmanna, allt frá gamalreyndum meistara til ungra og hátt skrifaðra stráka í Evrópuboltanum. Stór hluti þessara átta mun koma sér fyrir í byrjunarliðinu á næstu mánuðum en hver einasti þeirra eykur breidd leikmannahópsins og gefur þjálfaranum taktíska valkosti strax í dag. Ekkert „sjáum til eftir þrjú ár með þennan“-kjaftæði. Liðið var styrkt fyrir þetta tímabil.

Í dag myndi ég segja að þetta sé okkar sterkasta byrjunarlið og bekkur:

Mignolet

Johnson – Touré – Agger – Sakho

Gerrard – Lucas
Henderson – Coutinho – Suarez

Sturridge

Bekkur: Brad Jones, Skrtel, Cissokho, Allen, Sterling, Moses, Aspas.

Utan hóps: Ilori, Alberto, Wisdom, Kelly, Enrique, Ibe, Morgan, Yesil, Flanagan, McLaughlin, Coates, Sama, Sinclair, LLoyd Jones, Ward.

Þetta eru 33 leikmenn eða heil þrjú fótboltalið, og þar af hafa aðeins þrír eða fjórir (skáletraðir) ekki leikið leik með aðalliði Liverpool eða öðru liði í efstu deild. Þetta er það sem við köllum breidd, á góðri íslensku.

Það umdeildasta hér er staðsetning Cissokho og Enrique. Með því að setja Sakho í bakvörðinn (sem er í besta falli góð ágiskun og í versta falli kjaftæði hjá mér) eru tveir bakverðir hjá okkur um eitt pláss á bekknum og við höfum ekki hugmynd um hvorn þeirra Rodgers vill frekar nota. Ég setti Cissokho á bekkinn þar sem Rodgers fékk hann inn, öfugt við Enrique. Aðalatriðið er að við höfum þó a.m.k. hörkubreidd á meðal örfættra varnarmanna í vetur, í fyrsta skipti í langan tíma.

Auðvitað eru mörg spurningarmerki í þessum hópi. Til dæmis gæti farið svo að Aspas og Moses bæti engu við sóknarleikinn og Raheem Sterling leiki aftur „of stórt“ hlutverk m.v. aldur, og kannski er Sakho ekki sá gullmoli sem við vonum að hann sé. Það er endalaust hægt að efast en ég kýs að líta svo á að þetta sé ungt og spennandi lið, lið sem er í dag mjög gott fótboltalið og gæti á næstu misserum orðið jafnvel frábært fótboltalið. Eins er þetta ungt lið með gríðarlega möguleika á að bæta sig saman.

Ég er bara gríðarlega spenntur fyrir þetta tímabil. Auðvitað skemmir byrjunin í deildinni ekki fyrir en þegar Suarez er kominn inn úr banni verður gaman að sjá hvernig Rodgers púslar þessu saman. Ég hlakka til að sjá þetta lið leika knattspyrnu saman í vetur og ég hef trú á að Brendan Rodgers nái því besta út úr mannskapnum, eins og hann hefur verið að gera hingað til með menn eins og Sturridge, Coutinho og Henderson sem hafa allir stórbætt sig undir hans handleiðslu.

Ég bara hlakka til þessa tímabils. Sumarið var okkur mjög gott og byrjunin er sterk. Þetta er góður grunnur sem gefur okkur færi á að byggja eitthvað fallegt. Gerum það saman.

44 Comments

 1. Gamla klisjan segir að þú ert ekki sterkari en veikasti hlekkurinn og það vonandi það sem þessi sumargluggi hefur tekið á í sumar. Nýr markmaður og fjórir nýjir varnarmenn segja okkur hvar veikleika Liverpool var að finna. Byrjunin er frábær og kaupin á lokadegi gluggans styrkja hópinn vonandi mikið.

  Mesti veikleiki liðsins í janúar 2013 var að eiga ekki nærri því nægjanlega gott cover sóknarlega. Coutinho og Sturridge gera þetta að ekki svo stóru máli núna þó vissulega megi alltaf bæta við meiri gæðum og við höfum fengið staðfestingu á að það sé á stefnuskránni.

  Engu að síður erum við að mínu mati ekki búin að styrkja þá stöðu sem hefur orðið okkur hvað alvarlegast og mest að falli undanfarin ár. Varnartengiliðurinn okkar er einn sá besti í sínu hlutverki hjá hvaða liði sem er á heimsvísu þegar hann er í fullu formi, en undanfarin tvö ár höfum við alls ekki átt neitt til dempa höggið þegar Lucas meiðist og við erum að hefja enn eitt tímabilið án þess að taka á þessum vanda.

  Hlutverk Lucas í Liverpool liðinu er hlutverk sem við getum enganvegin brúað með öðurm manni í hópnum. Við sjáum það bara í fjarveru „okkar besta leikmanns“ Luis Suarez að hann kemst ekki nálægt því að vera liðinu jafn mikilvægur og Lucas. Þetta hefur meira að segja reddast þegar við misstum markmann eða miðverði í einhvern tíma, en þegar Lucas er frá þá hrynur Liverpool.

  Við höfum marg oft rætt þetta hérna og flestir lesendur kop.is hafa fyrir löngu áttað sig á mikilvægi Lucas Leiva en það var samt magnað að sjá tölfræðina sem hinn frábæri tístari Andrew Beasley ?@BassTunedToRed tók saman fyrir Paul Dalglish um daginn. Skotinn sem er sonur King Kenny spurði hvort einhver ætti tölfærði yfir stigasögnun pabba síns og Rodgers með og án Lucas.

  **Hún er svona: **
  Kenny with Lucas: P30 W16 D7 L7 F51 A28 Pts 55 Points Per Game 1.83.
  Rodgers with Lucas: P29 W16 D7 L6 F58 A30 Pts 55 PPG 1.90

  Kenny without Lucas: P26 W8 D6 L12 F31 A29 Pts 30 PPG 1.15.
  Rodgers without Lucas: P12 W3 D6 L3 F16 A13 Pts 15 PPG 1.25

  Dalglish and Rodgers Total with Lucas: P59 Pts 110 PPG 1.86.
  Dalglish and Rodgers Total without Lucas: P38 Pts 45 PPG 1.18

  Interesting that both of their with & without Lucas records are virtually identical.

  Þessi staða gefur öllum öðrum í kring ferðafrelsi. Liðið getur pressað ofar á vellinum og við bæði skorum mikið meira og fáum færri mörk á okkur.

  Það er með hreinum ólíkindum að þessi staða hafi ekkert verið styrkt undanfarin ár, sérstaklega þegar Lucas meiddist í heilt ár og ég skil ekki ennþá afhverju FSG fann ekki einhvern til að brúa þetta bil í janúar 2012 þegar vitað að hann yrði frá allt árið. Ég man að ég röflaði mikið yfir þessu hér á síðunni og held að þetta hafi verið engu minni partur af banabita stjóratíðar Dalglsih heldur en sumarkaupin 2011. Dalglish var með Spearing til að leysa þessa stöðu eftir áramót 2012 og árangurinn í deildinni var hroðalegur, svo slæmur að hann var rekinn.

  Þegar Lucas meiddist í #$%# deildarbikarleik var Liverpool í 6.sæti í deildinni, þremur stigum frá 4.sæti og bara tveir leikir tapast af þrettán. Liverpool var með jafn mörg stig og Arsenal og tveimur minna en Chelsea sem fóru bæði í topp 4. Ég er ekki að segja að þetta hafi allt skrifast á fjarveru Lucas en tímabilið enduðum við í 8.sæti. Sautján stigum frá liðinu í 4. sæti og með fjórtán tapaða leiki.

  Rodgers gat lítið notað Lucas fyrri hluta síðasta tímabils, a.m.k. ekki að fullri getu. Það spilaði heilmargt inn í annað en fjarvera hans auðvitað en á síðasta tímabili var Liverpool með 25 stig eftir fyrri 19 umferðirnar. Við náðum 36 stigum í seinni 19 umferðunum. Sturridge og Coutinho fá hrósið en endurkoma Lucas og bætt spilamennska hafði klárlega sitt að segja líka.

  Rafa Benitez var með Mascherano, Lucas og Sissoko til að berjast um að spila með Alonso og Gerrard. Við bara þurfum þannig cover aftur og það strax.

  Á meðan þessi hola er í hópnum fær maður fyrir hjartað í hvert skipti sem Lucas svo mikið sem hóstar. Fyrir ári síðan meiddist hann 25. ágúst og var frá í tvo mánuði og a.m.k fram að áramótum að ná leikæfingu sem kom í raun aldrei almennilega. Það heldur því vonandi enginn fram að Allen/Gerrard/Henderson komist nálægt því að leysa þessa stöðu fyrir Lucas? Henderson er sá eini sem mögulega hefði kraftinn í það en alls ekki kunnáttuna.

  Haldist Lucas heill er það lykillinn okkar að baráttu um meistaradeildarsæti.

  Hvað okkar besta lið varðar þá er ég eins og Kristján mjög spenntur að sjá hvar Sakho kemur inn í þetta. Ég þoli ekki þann tíma sem fer í það að þjálfa upp leikmenn sem augljóslega eru miðverðir í stöðu bakvarðar. Ég vill hafa alvöru bakverði í þeim stöðum og halda sömu sóknargetu í öllum leikjum. Því vona ég að Sakho verði ekki notaður í bakverðinum þó það kæmi mér ekki á óvart að hann fengi að venjast enska boltanum í þeirri stöðu á meðan Cissokho er meiddur.

  Ég veit ekki hvort hann geti spilað hægra megin (með Agger) sem miðvörður og grunar helst að hann sé keyptur inn sem bein samkeppni við danann. Varla haldið þið að King Kolo Toure fari úr liðinu aftur á þessum áratug?

  Hvað sem hann gerir við Sahko áður en hann tekur (pottþétt) stöðu miðvarðar þá er ævintýralega jákvætt að bæði styrkja stöðu vinstri bakvarðar og hafa bullandi samkeppni í þeirri stöðu. Þetta hefur verið einn af okkar veikustu hlekkjum og það er tekið á því. Ég er samt alls ekkert á móti Enrique og held að það þurfi eitthvað sannfærandi til að slá hann úr liðinu eins og hann er að spila núna .

  Þannig að fyrir utan Sakho í vinstri bakverði er ég sammála þessu byrjunarliði Kristjáns. Henderson er að spila þannig að það er eiginlega ekki hægt að taka hann úr liðinu. A.m.k. ekki í stóru leikjunum. Gerrard er að vaxa gríðarlega í „Alonso“ hlutverkinu sem fremri varnarsinnaði miðjumaðurinn / leikstjórnandinn.

  Með þessa miðju er opið fyrir mjög markvissan sóknarleik með fljúgandi bakverði, Suarez, Coutinho og Sturridge. Ofan á það betri gæði á bekknum miðað við síðustu tímabil, leikmenn sem geta komið inná ef gera þarf breytingar.

  Að lokum finnst mér aldursdreifingin á þessum hópi vera fín. Fáir en góðir leikmenn sem komnir eru yfir þrítugt. Kjarni á aldrinum 23-28 ára og svo spennandi og hungraðir yngri leikmenn að veita þeim aðhald.

 2. Já og kannski í framhaldi af umræðunni um varnarmenn er hér nýjasti pistill Jamie Carragher. Þar talar hann um hversu sjaldgæft það er að sjá tvo örfætta miðverði saman, sem ýtir undir það að Sakho berjist við Agger um stöðu frekar en að byrja inná með honum, og svo segir hann ólíklegt að Rodgers muni nota 3-5-2 mikið þótt hann hafi gert það í fyrra. Áhugavert.

 3. Ég held að menn séu aðeins að ofmeta Sakho. Hann fór frá PSG þar sem hann varð undir í samkeppni við hinn brasilíska Alex sem er nú enginn súpersnillingur. Þá tek ég undir með Babu að mér finnst hæpið að nota hann í bakvarðarstöðuna, amk. áður en maður sér hann spila. Að öðru leyti er ég sammála þessu mati og sérstaklega það sem Babu segir varðandi Lucas. Breiddin þar og raunar á miðjunni allri er ekki nóg. En það verður vonandi lagað í janúar.

  Breiddin í haffsentastöðunum er orðin ógnvænleg og helsta verkefni Rodgers þar verður að halda mönnum ánægðum. Ég sé ekkert athugavert við að spila með tvo örvfætta haffsenta eins og flest lið spila með tvo réttfætta án vandræða. Mér finnst Agger hafa sýnt af sér óstöðugleika undanfarið, töluvert um það á síðasta tímabili, t.d. tapaði hann fjölda skallaeinvígja í varnarhornum, ég held að menn almennt ofmeti hann nokkuð. Þannig er enginn öruggur í liðið í vörninni nema ef vera skyldi Glen Johnson.

  Ég er hjartanlega sammála mati Kristjáns Atla á sóknni.

  Næstu kaup ættu því að vera djúpur miðjumaður og sterkur hægri bakvörður. Það verður líka að skoða hvernig markaskorun mun ganga og hvort þurfi að kaupa á annan hvorn kantinn.

 4. Smáþráðrán – Suarez skoraði bæði mörk Uruguay gegn Perú í nótt í 1-2 sigri

 5. Skemmtilegar pælingar KAR.

  Ég er ekkert stressaður yfir því að sjá Sakho og Agger saman. Agger er fínn með hægri löppinni alla vega, hafsentastaðan er 90% um það að lesa í leikinn og staðsetningar og það held ég að við sjáum Agger ná að gera á báðum stöðum. Ég held að hann Sakho verði ekki bakvörður nema í neyð, þar sem að Rodgers lítur á sína bakverði sem sóknartýpur og þar á Sakho ekki mikinn séns miðað við tölfræðina.

  Varðandi það sem Carra sagði þá er það fín vangavelta. En í taktík fræðunum þá er nú oft mikil spurning um hvernig er best að bregðast við 4-5-1 (eða 4-2-3-1) leikaðferðum liða sem liggja aftarlega og dúndra svo langt með það að markmiði að sópa upp pressu á frákast.

  Rodgers á nú frábæran valkost gegn Aston Villa, Stoke, Cardiff, Newcastle og öðrum liðum sem hafa dottið inn í þessa pælingu. Agger svípar, Kolo og Sakho sitt hvoru megin mun algerlega duga til að éta löngu boltana OG eru það fínir á boltann að þeir geta allir þrír borið hann sjálfir upp eða sent hann.

  Johnson er frábær “wing-back” og Cissokho hefur oft leikið þá stöðu í gegnum tíðina.

  Svo er það þriggja manna miðjan, fækkað um einn DM, þ.e. nóg fyrir Lucas að sitja framan við hafsentana en hægt að hleypa Gerrard og einum enn framar á völlinn oftar.

  Suarez og Sturridge saman uppi á topp?

  Já takk fyrir mig, en ég er alveg viss um að perlan Carra sem hefur spilað 4ra manna vörn allan ferilinn er meira á henni og skiljanlega.

  Sjáum til, maður er allavega farinn að hlakka til!

 6. Ég held að við séum einmitt ekki að ofmeta Sakho. Ég hef sjálfur gífurlega trú á þeim leikmanni – en ég er kannski ekki alveg hlutlaus þar sem franski boltinn hefur alltaf verið svona “guilty pleasure” hjá mér (ég náði meira að segja einu sinni að fara á reynslu til liðs í Frakklandi, þó ekkert hafi komið út úr því vegna meiðsla, en það er önnur saga!)

  Hann er ekki bara að keppa við Alex heldur einnig Tiago Silva og Marquinhos.

  Alex var keyptur af Ancelotti fyrir slikk, en hann er öflugur varnarmaður sem á það til að skora assgoti falleg og mikilvæg mörk.

  Tiago Silva kom frá AC Milan fyrir einhverjar 40 milljónir Evra, og eins og með okkar kaup, þá kaupa menn ekkert leikmenn fyrir fúlgur fjár nema til að þeir spili alla leiki. Silva er líka einhver besti varnarmaður í heiminum í dag, og fyrirliði Paris SG.

  Marquinhos var einnig keyptur fyrir háa upphæð – og sama gildir þar og um Silva. Það litla sem ég hef séð af Marq þá er hann ekkert ljósárum betri leikmaður en Sakho, þegar báðir eru í sínu besta formi – þó ég viðurkenni fúslega að ég þekki Marq ekki neitt sérstaklega vel.

  Sakho, á einhvern óskiljanlegan hátt, varð að 4ja manni inn í liðið. Það er skiljanlegt upp að vissu marki, en mjög, mjög asnalegt að svo mörgu öðru leyti. Það er oft prédikað – ekki síst af stuðningsmönnum Liverpool og reyndar bara víða í enska boltanum – að það sé mikilvægt að hafa uppalinn leikmann/leikmenn í liðinu. Sakho var það hjá Paris SG, en ég segi að Paris fór sömu leið og ManCity og létu peningana og græðgina ráða för.

  Það er lítil sál eftir í Paris SG – líkt og í ManCity. Chelsea, hitt ofurríkafélagið á Englandi, má þó eiga það að þeir hafa byggt upp lið í kringum uppalda leikmenn í Terry og ég flokka Lampard hér líka. ManUtd, Arsenal, Liverpool hafa öll gert það sömuleiðis, og það er af honum góða, að mér finnst.

  Ég hef sagt áður að ég er mjög, mjög ánægður með Liverpool þessa dagana. Sakho, Cissokho og Moses eru leikmenn sem allir hafa þótt alveg á mörkunum að slá algjörlega í gegn en fallið dálítið í skuggann á öðrum. Þetta er þeirra tækifæri, þeir eru ungir og gráðugir í að sýna hvað í þeim býr – og falla því vel í hópinn með Sturridge og Coutinho frá því í janúar. Rodgers hefur keypt vel, og FSG mega eiga það að þeir hafa bakkað hann upp í þessum kaupum.

  Ég tek því undir með KAR, ég er mjög spenntur fyrir þessu tímabili. Ég er meira að segja svo helvíti bjartsýnn að ég ætla að skjóta á að okkar menn verði í hörkubaráttu um 3-4 sætið. Chelsea verður meistari, ManCity þar langt á eftir í 2 sæti, og skammt undan verða Liverpool, Arsenal, Tottenham og ManUtd – sennilega í þessari röð.

  Homer

 7. Þegar Suarez og Sakho koma inn verður liðið ógnvænlega sterkt. Lucas og Gerrard eru búnir að vera góðir saman á miðjunni og Henderson og Allen eru finir með þeim ef eitthvað fer úrskeiðis. Í versta falli verðum við að vona að Alberto sé tilbúinn að fórna sér.

 8. Þó að Skrtel hafi átt góðan leik vs manutd, þá er hann aldrei að fara spila reglulega í liði sem að ætlar ser að ná 4. sætinu…

 9. Þessi umræða um Lucas gæti sakho kannski spilað hans stöðu ef hann meiðist heyrrðu einhverstaðar að hann gæti vel spilað hana….

 10. Ég vona svo sannarlega að þú hafir rétt fyrir þér varðandi Sakho Homer. Málið er bara að ég hef ekkert sérstakt álit á Alex og Sakho hefði alltaf átt að vera fyrsti kostur með Silva. Veit ekkert um Marquinhos, 19 ára brassi sem á ekki landsleik.

 11. Ég las eitthverstaðar að Silva ætti mjög erfitt með að læra frönsku svo að Alex væri fyrsti kostur við hliðina á honum því þeir tala báðir portúgölsku og Þegar Silva og Sakho spiluðu, töluðu þeir nánast ekkert saman.

 12. Ívar Örn (og fleiri) sem hafa lítið álit á Alex, hafið þetta í huga: Daniel Sturridge komst ekki í Chelsea-liðið fyrir Fernando Torres. Hvorn þeirra mynduð þið vilja hafa í Liverpool í dag?

  Sakho er frábær leikmaður. Hvort sem það var geta, taktík, pólitík eða tungumálaörðugleikar sem olli því að hann var ekki í liðinu skiptir ekki máli. Ég dæmi hann af því hvernig hann spilar fyrir Rodgers og Liverpool. Og ég hlakka til að sjá hvað Rodgers getur gert með þennan strák, miðað við hvða hann gerði við Coutinho (sem komst ekki í grútlélegt Inter-lið) og Sturridge (dittó hjá Chelsea).

 13. ástæðan fyrir því að við séum með hægrifótamann á vinstri kannt og öfugt á hinum kanntinum er sú að við erum með bakverða sem nánast eiga bara allan kantinn og eru góður í því.að setja sahko í bakvörðinn væri hrikalegt fyrir liðið og myndi breyta öllu sóknarlega þó svo hann gæti verið góður varnalega þá finnst mer enrique bara búinn að vera nokkuð solid á þessu tímabili og við höfum ekki enn fengið á okkur mark

 14. Gaman að sjá tölfræðina á bakvið Lucas og að sjálfsögðu er hann mikilvægur og á vissan hátt er það furðulegt að enginn traustur varamaður hafi verið fenginn, bæði uppá samkeppni og sem bein skipti í stöðuna sem liðið er vant að spila með. Spurningin er samt hvort það mætti ekki áætla að núna þegar liðið er komið með svona mikil gæði í varnarlínuna að það sé hægt að spila þriggja manna vörn og hreinlega sleppa djúpa miðjumanninum? Þá er “hlutverk Lucasar” coverað með gríðarlega sterkri þriggja manna varnarlínu og vængbakvörðum. Er það virkilega svo galið?
  Ég væri rosalega til í að sjá Liverpool spila með þriggja manna vörn, sérstaklega þar sem bakverðirnir okkar eru ekkert bestu varnarmenn í heimi og áherslan mætti alveg vera meiri á sóknarhlutverk þeirra. Sé þriggja manna varnarlínan svo nýtt þá getur það líka opnað tækifæri fyrir Agger að fá að bera boltann aðeins upp með Toure og Sakho fyrir aftan sig.

 15. Nr. 17

  Ég held (og vona) að það sé aldrei planið hjá Rodgers að breyta leikskipulaginu þannig að hann taki út varnartengiliðinn og bæti frekar við þriðja miðverði. Það myndi bara færa varnarleik liðsins aftar á völlinn og andstæðinginn nær markinu. Með því værum við svo gott sem að gefa eftir miðjuna og treysta á skyndisóknir.

  Rodgers hefur þennan möguleika og þetta gæti eins og KAR segir gengið gegn stórkallaliðunum en ég vona innilega að þessi möguleiki verði ekki nýttur mikið í vetur.

  Þar fyrir utan, ef það ætti að fækka um einn á miðjunni efa ég stórlega um að Lucas væri einn af þeim sem fengi að víkja. Satt að segja dettur mér ekkert lið í hug sem notar ekki varnartengiliði (eða væri ekki betra með einn slíkan).

 16. Maður lifandi hvað ég er ánægður með guðsgjöfina Liverpool í dag, Virkilega ánægður með öll þessi kaup á varnarmönnum, enda er ég viss um að þau kaup munu bæta þá sem fyrir voru með aukinni samkeppni, sem var algört möst. Ég er hjartanlega sammála Babu varðandi Lucas og verðum við að leita af öðrum eins manni, En það er samt eitt vandamál sem mér finnst ekki í nógu góðu lagi, það er þegar að við erum yfir og ætlum að beita skyndisóknum, mér finnst oft á tíðum skyndisóknirnar ómarkvissar og tilviljunarkenndar, en ég er samt viss um að BR muni laga það eins og hann hefur verið að laga varnarleikinn, og ef þessi framþróun heldur áfram sem ég er alveg viss um að geri, er ég 99,999% viss um að við munum ná meistaradeildar sæti. Svo að lokum finnst mér gaman að sjá hvað það er létt yfir okkur Liverpool mönnum, allir hættir að gagnrína BR og flestir farnir að segja manjú mönnum að GRJÓT HALD……. nú er bara gaman og ég get ekki beðið eftir næsta leik. Áfram Liverpool.

 17. Ég er mikil aðdáandi Lucas Leiva og fer ekki ofan af því að þegar hann meiðist í þessum fræga Chelsea leik, þá dettur einhvern veginn botninn úr leik Liverpool. Það er fyrst á þessu ári sem liðið er farið að sína sínu réttu hlið, með endurkomu Lucas. Málið er að fram að meiðslum Lucas hafði Liverpool verið að spila fantavel (spiluðu sex leiki án taps) og hann var einfaldlega besti leikmaður liðsins.

  Það var og hefur enginn verið til staðar til þess að fylla hans skarð, jaðrar við að það sé nánast ómöglegt (allt tal um “backup” leikmann er hálfgert hjóm í mínum eyrum). Að fá hann inn liðið í sitt gamla form er á þessum tímapunkti á við nýjan leikmann í liðið. Enda hefur Gerrard sagt að endurkoma Lucas hjálpi sér mikið og gefi honum það frelsi sem hann þrífst á. Gerrard er að spila frábærlega þessa stundina, þökk sé Lucas Leiva.

  Eins og sagt var að ofan, þá er Lucas Leiva kannski lykillinn að þessu umtalaða fjórða sæti. Ég er fullkomlega sammála því. Hann er að mínu mati sá næst besti sem spilar þessa stöðu í deildinni (Yaya Toure sá besti).

  Ef ég á að spá í framtíðina þá verður Lucas álitinn einn af bestu leikmönnum sem spilað hefur í treyju Liverpool. Ósérhlífinn, vinnusamur, heiðarlegur. Og umfram allt trúr og tryggur Liverpool sama hvað á hefur gengið (langvarandi meiðsl sem er til að draga kjark úr hverjum manni og vantrú stuðningsmanna Liverpool fyrstu árin sem hann spilaði með félaginu). Líklega bestu kaup Benitez þegar hann var stjóri (Xabi átti 1-2 góð tímabil, sem og Torres en báðir yfirgáfu þeir félagið).

 18. Mjög góður pistill og umræðan líka…ég hef alltaf sagt að meiðsli Lucas L. hafi orðið King Kenny að falli. Spearing og C. Adam sáu þá um miðjuna…pælið í því. Það gat ekki farið vel. Reyndar spilaði Adam mjög vel með Lucas fyrir aftan sig en svo hallaði verulega undan fæti hjá honum eftir að Lucas meiddist. Ég er mjög sáttur við gluggann en tek undir að það er óskiljanlegt að við séum ekki með betra cover fyrir Lucas. Auðvitað getur Henderson farið í þetta spot en útilokað að hann geri það eins vel. Gerrard getur trúlega leyst þetta með sóma en…þá missum við hann framar á miðjunni og ég segi að það sé rándýrt. Við þurfum á Gerrard að halda til að díla og víla….

  Okkar besta lið að mínu mati:
  Mignolet í marki. Vörn: Glen-Agger-Sakho-Chissokho. Miðja: Gerrard-Lucas-Coutinho. Sókn: Suarez-Sturridge-Moses
  Það er fáránlegt að vera ekki með Toure inná en það segir bara hversu breiddin er mikil 🙂 Henderson er búinn að standa sig vel en kemst heldur ekki í byrjunarliðið. Það er líka jákvætt!

  Ég var svo enn og aftur að skoða stöðuna í deildinni. Mikið er þetta fögur sjón að vera #1. Ég bara þreytist ekki á að skoða töfluna:)

 19. Mig langar að benda dyggum lesendum á þessa grein um Sakho. Hún fjallar um það hvers vegna hann datt út úr PSG liðinu fyrir um tveimur árum, sem leiddi til að eitt mesta efnið í franska boltanum er nú hjá Liverpool. Fín lesning.

 20. Varðandi alla þessa umræðu um að okkur vanti backup fyrir Lucas er ekki Momo Sissoko á lausu þessa dagana og væri hann ekki fullkomið backup fyrir hann?

 21. Ég se bara Enrique ekkert vera á leið úr liðinu enda að spila mjög vel þessa dagana. Sakho fer i að berjast um miðvarðarstöðuna og eg spái að Enrique muni halda Cissokho á bekknum þegar sá kemur úr meiðslum..

  Annars frábær breidd í vörninni…

  Þessi gluggi hefði verið draumur ef það hefði komið td Mkhitaryan, Willian eða Yarmolenko ásamt öllum hinum sem komu.

  En vissulega er liðið miklu miklu sterkar nuna a pappír en á sama tíma og í fyrra og maður er mjög spenntur fyrir þessu tímabili…

 22. Ég bara skil ekki Magga, þig Kristján og fleiri sem gagnrýna Enrique fram úr hófi, dag eftir dag hérna. Mér finnst hann bara hafa verið að spila mjög vel fyrir okkur alveg síðan janúar, ALLAVEGA, þó svo hann hafi átt kannski einn og einn “down” leik þá er alls ekki ástæða til að ” taka hann af lífi” hér sem vinstri bakvörð. Hann hefur lagt upp fín sóknartækifæri og mörk fyrir okkur og er síðan örugglega fljótasti bakvörðurinn í enska boltanum í dag. Liverpool er búið að halda hreinu núna í þrjá deildarleiki í röð og það er nákvæmlega ENGIN ástæða til að breyta vörninni fyrir næsta leik. Þeir leikmenn sem voru keyptir inn þurfa að vinna sér inn sæti í liðinu, en eiga það ekki í áskrift, þó svo ég sé mjög spenntur fyrir þeim öllum.
  Þú einfaldlega breytir ekki um vörn sem er búin að halda hreinu í 270 mínútur,,, það veit ég allavega sem fyrrverandi varnarmaður ! ! !

  ENRIQUE er núna okkar besti vinstri varnarmaður, hættiði að dissa hann og byrjið að styðja hann.

 23. Höddi varnarmaður !

  Þessari vörn sem þú talar um var reyndar breytt í síðasta leik, og hélt hreinu með glæsibrag.

 24. Hvað með Kolo Toure, þegar hann kom fyrst til Arsenal þá spilaði hann sem varnarsinnaður miðjumaður og gæti að ég held gert það ennþá ef til þess kæmi.
  Einnig myndi ég treysta Henderson fullkomnlega fyrir því verkefni í dag. En vonandi mun bara ekki koma til þess og Lucas spila alla leiki.

 25. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð marga ausa saur yfir Enrique. Kristján Atli er meira að segja tregur í þessari grein að segja að Enrique sé okkar veikasti hlekkur í vörninni – biður okkur um að vera hreinskilin. Enrique er góður leikmaður og hefur staðið sig vel og það sem mikilvægast er þá er hausinn á honum lang oftast rétt skrúfaður á. En hann er samt að gera of mörg mistök. Missir boltann á hættulegum stöðum og hleypir að mínu mati mönnum of oft framhjá sér. Hann á það líka til að spila menn réttstæða sem er stórhættulegt af bakverði að gera. Þetta er maður sem gjörsamlega bjargaði okkur samt. Kom í algjöru vinstri bakvarðar hallæri og ég man hvað ég var gríðarlega ánægður með hann fyrst eftir að hann kom. Frábær leikmaður – en ekki nógu góður fyrir topp fjóra að mínu mati.

  Ég er að reyna að bæta mig í því hugarfari að hylla réttu mennina. Suárez er okkar besti maður en hausinn er ekki í lagi. Ég mun því ekki nefna köttinn minn Suárez. Frekar Lucas. Þar er maður sem hefur tekið blóðlegri gagnrýni frá stuðningsmönnum Liverpool í gegnum tíðina en hann reis upp og er núna algjört uppáhalds – og alltaf með hausinn í lagi. Menn sem eru góðir en bera ekki virðingu fyrir klúbbnum þeir mega alveg spila fyrir okkur en þeir verða aldrei uppáhalds.

 26. Vil bæta einu við. Af hverju hafa menn áhyggjur af því hafa Agger og Sakho sem miðvarðarpar þó báðir séu örfættir? Er ekki fullt af miðvarðarpörum sem þ.s. báðir hafa verið réttfættir? Af hverju er það þá vandamál ef báðir eru örfættir? Hyypia og Henchoz voru t.d. báðir réttfættir og hreint magnaðir saman þegar þeir voru upp á sitt besta. Ég hef allavega engar áhyggjur af þessu…

 27. Fínar pælingar,

  Ég sé samt hægri bak vera orðna okkar vandræðistöðu. Klúbburinn sagði að Glen Johnson væri með high ankle sprain sem er líklega aldrei undir 4-6 vikum frá hið minnsta. Það veikur okkur talsvert sóknarlega að þurfa að taka Kelly og/eða Wisdom inn. Þekki ekki Cissokho til þess að sjá hvort að hann geti tekið þessa stöðu eitthvað þegar hann kemur til baka, ef GJ verður svona lengi frá.

  Þetta er hausverkur. Ef við værum búnir að vera leka mörkum inn hægri vinstri þá væri lítið mál að koma nýjum mönnum inn í næsta leik. En ef ég miða bara við þá leiki sem búnir eru af þessu tímabili, þmt undirbúningstímabilið, þá væri það Agger sem þyrfti að hafa áhyggjur af sínu sæti í stað Toure.

  Ég sé ekki afhverju það ætti að vera meira vandamál að spila tveimur örfættum leikmönnum í vörninni frekar en tveimur réttfættum, eins og flestir klúbbar gera. Annars finnst mér alltaf frekar skondið þegar menn fá greiddar milljónir fyrir að sparka í boltann að þeir geti ekki gert það sómasamlega með báðum fótum. Tala nú ekki um þegar þeir eru keyptir á 86mp+´en eru samt bara með einn góðan fót.

 28. ég var akkurat að hugsa hvað Enrique væri að spila vel þessa daganna???? finnst hann kallinn er það ekki??? þetta jaðar við einelti hérna..áfram Enrique..;)

 29. Knattspyrnuheimurinn öfundar okkur af því að hafa “stolið” Sakho. Þetta er leikmaður sem er mjög ungur, en samt á heimsklassa. Hann hefði leikandi getað verið allan sinn feril hjá PSG, en fannst hann þurfa nýja áskorun (hann hefur verið fastamaður hjá þeim í mörg ár þrátt fyrir ungann aldur) og honum leist VEL á verkefnið sem er í gangi hjá LFC sem mér þykir það mest spennandi, hann gerir sér grein fyrir að við vinnum deildina sennilega ekki í ár, og mögulega ekki á næsta ári heldur EN vill samt koma til okkar.

  Það voru nokkur lið að leita sér að nýjum halfcent fyrir þetta tímabil, Barca eru þar stærsta nafnið. Þeir höfðu áhuga, en FSG hafði gert mjög vel og náði að kveikja áhuga þessa manns. Hann hefur verið fyrirliði allsstaðar þar sem hann hefur spilað (yngri lið og aðallið), þó svo að það hafi ekki enn gerst með landsliðinu. Staðan er því þannig að við fengum ungann halfcent, með gríðarlega leikreynslu, sönnuð gæði, líkamlega sterkur, hraður, góður á boltanum, hefur unnið titla, hefur spilað í meistaradeild og með landsliði. Hann er svo sannarlega “marquee” leikmaður, alveg á pari við Suarez, Sturridge, Coutinho og Gerrard. Ég er gríðarlega ánægður með að fá hann inn í liðið. Þó að Skrtel hafi átt frábærann leik gegn Man Utd man ég ennþá eftir öllum þeim stundum þar sem maður öskraði sig hásann yfir klúðrunum hans.

  Í vetur getum við alveg átt von á því að sjá Brendan smella í 3-5-2 (lesist 3-2-3-2) í völdum leikjum. Hvað sem því líður þá er project Rodgers komið á gott skrið. Þegar hann var ráðinn gerði ég mér engar grillur um að við tækjum deildina í fyrsta, hins vegar hef ég vonir um að hérna sé verið að byggja upp LIÐ (ekki samansafn af einstaklingum á ofurlaunum) sem skal vera á toppnum í mörg herrans ár. Sir Alex kom tiltölulega ungur inn í Man Utd og það tók hann þónokkur ár að vinna sinn fyrsta titil, það skal ekki gleymast. Rodgers hefur sökkt sér í sögu klúbbsins og lítur á Bill Shankly sem sína helstu fyrirmynd, hvað er það annað en ruglað frábært? Hann skilaði inn 200 blaðsíðna manifesti til eigenda klúbbsins um hvað hann vilji sem stjóri. Maðurinn hefur heildarsýn yfir það hvað fótboltalið er, allt frá yngstu leikmönnum upp í Kop-legends.

  Við MUNUM tapa stigum í vetur. Það munu jafnvel koma nokkrir leikir í röð þar sem ekkert virðist ganga. Ekki tapa trúnni, við erum í uppbyggingu. FSG eru ekki hræddir við að setja peninga í rétta leikmenn. FSG eru ekki hræddir við að stækka Anfield (sem er það sem allir vildu). Brendan Rodgers er ekki hræddur við stóru liðin. Liverpool FC er á leiðinni aftur á toppinn. Við munum aftur verða það lið sem reglulega vinnur deildina, bikarkeppnirnar OG Evrópu. Við erum Liverpool. YNWA

 30. Allt góðar pælingar, menn sem geta verið grútlélegir og hauslausir rísa allt í einu upp og eiga frábæra leiki, sbr. Skrtel og Enrique. Skrtel hafði varla spilað eina mínútu frá því Carra kom inn í liðið í fyrra og límdi saman vörnina og var meiriháttar, pakkaði eins og þið sáuð allir RVP saman …

  Í mínum huga er þetta allt saman langhlaup, þetta byggist upp á því að halda sennilega 16-18 mönnum inni í kerfinu sem þú spilar, dreifir álagi og vonar að “mænan” í liðinu meiðist ekki eða sé frá í lengri tíma. Ég hafði að vísu ekki séð tölfræðina “Með LUCAS” og “Án LUCAS” en hún segir meira en mörg orð. Í gamla daga þegar ég spilaði var maður yfirleitt notaður í 2-3 stöður til að dreifa álagi og líka ef menn voru meiddir eða farnir út í skóla og í dag skiptir máli að leikmenn séu “agile”.

  Ég ætla ekki að meta liðið eða hópinn fyrr en við erum komnir með a.m.k. 10 leiki undir beltið, að sjálfsögðu styð ég minn klúbb og finnst ekkert skemmtilegra en að spyrja united mennina hverjir séu á toppnum.

  YNWA!

 31. Í sumar las ég áhugaverða grein þar sem tekin voru fyrir kaupin á Sturridge og Couthino sem dæmi um hvernig FSG vilji vinna á markaðnum. Mér sýnist kaupin á Sakho vera nokkurn vegin að falla undir það sama.

  Það sem þessi þrjú lið, Chelsea, Inter og PSG eiga sameiginlegt fram að sölum þessara leikmanna er að tíð stjóraskipti höfðu átt sér stað. Hjá Chelsea var það aðeins Villa-Boas sem hafði einhverja alvöru trú á Sturridge sem kom 2009 til liðsins og hafði því stjóra einsog Hiddink, Ancelotti, Di Matteo og Rafa áður en hann var seldur til Liverpool.

  Hjá Inter kom Coutinho á tíma Rafa Benitez hjá klúbbnum sem stóð ekki lengi og í kjölfar hans kom hver stjórinn á fætur öðrum, Leonardo, Gasperini, Ranieri og Stramaccioni (skv. Wiki). Þó svo ekki hafi verið jafn mikil þjálfaravelta hjá PSG þá hefur umhverfið kallað á svipaða pressu á þjálfarana og hjá hinum tveimur klúbbunum, þ.e. að þeir vilja frekar nota reyndari leikmenn en þá ungu og efnilegu því með þeim telja þeir að meiri líkur sé á að ná jafnvægi hjá liðinu sem síðan er hægt að byggja á.

  Menn eru semsagt hræddir við að spila ungum, efnilegum – en um leið óreyndum leikmönnum – þegar þeir eiga sífellt á hættu að fá sparkið frá yfirstjórn félagsins og fyrir vikið fá leikmennirnir ekki þau tækifæri sem þeir nauðsynlega þurfa til að þroskast sem leikmenn og verða að góðum knattspyrnumönnum. Þá kemur Liverpool til skjalana… Báðir voru þeir sendir á lán, Sturridge og Coutinho þar sem þeir stóðu sig vel en engu að síður þorðu stjórarnir ekki að taka sénsinn á þeim þegar þeir komu til baka af ótta við að vera reknir (nema AVB – sem svo varð rekinn).

  Síðan má kannski bæta við þennan hóp Ryan Bertrand sem við reyndum við en ekki fengum í janúar sl. að mig minnir, en hann hefur mátt bíða í skugga Ashley Cole allan sinn feril. Moses er svona leikmaður líka og er ég sammála mönnum um að það sé bagalegt að hafa ekki náð að semja um framtíðar kaupverð fyrirfram (sem var, ekki satt, ástæðan fyrir að við fengum ekki Sturridge í ágúst í fyrra og urðum að bíða fram í janúar þegar við fengum hann og þá á okkar forsendum). Það eru þekkt dæmi um leikmenn einsog þessa sem stór og efnuð lið kaupa og nota síðan ekki og upp í hugan koma fljótt nöfn einsog Scott Parker, Steve Sidwell (sem á sínum tíma þótti efni), Shaun Wright-Phillips, Scott Sinclair, Jack Rodwell o.fl. o.fl….

  Það verður því áhugavert að sjá á hvaða mið verður leitað í janúar eftir slíkum bargain-kaupum sem virðast vera tiltölulega áhættulítil miðað við hversu vel er hægt að hafa uppúr krafsinu. Önnur gerð virðist mér menn einsog Aspas og Kolo vera sem eru til okkar komnir til að sanna sig (-að nýju?) og gefa sig alla í leikina og hefur mér fundist það verða útundan þegar Aspas hefur verið gagnrýndur í sínum fyrstu leikjum að hann er á fullu allan tímann og viljinn til að standa sig – og sanna – er gífurlegur og fleytir honum upp minn virðingarstiga.

  Minn tú-kall á annars líka góðan transfer-glugga (8,5 / 10)…

  YNWA

 32. Höddi B numer 25 er með þetta

  Maður skilur ekki þetta einelti sem Enrique verður fyrir frá nokkrum af stjornendum síðunnar, Maðurinn er að spila frábærlega þessa dagana.

  Hann kemur til liðsins 2011, er frábær fram að áramótum það ár, síðan mætir hann ekkert til vinnu árið 2012 en síðan 1 janúar 2013 er Enrique búin að vera frábær, ég se það bara ekki gerast að hann se eitthvað að fara missa sæti sitt í liðinu. Ég yrði allavega mjög svekktur ef hann yrði tekin útúr liðinu því það á hann alls ekki skilið..

  Enrique er frábær varnarlega, það er vonlaust að komast framhjá honum, hann er mjög sterkur maður á móti manni og hrikalega öflugur að komast framfyrir menn, halda bolta, snúa með boltan og koma honum á samherja í stað þess að negla honum útaf. Hann er einni griðarlega hraður. Sóknarlega er hann oft að gera frábæra hluti, nær vel saman með sturridge og coutinho td. Eina sem hann gæti lagað smá eru langar fyrirgjafir..

  Fyrir mína parta er Enrique einn af minum uppahaldsmönnum í liðinu þessa dagana…

  Það væri kannski alltílagi ef Kristján Atli og Maggi myndu útskyra hvernig þeir sja Enrique sem veikan blett, þeir geta hreinlega ekki verið að horfa a leikinn heiðarlega og dæma manninn ut fra því svo einfalt er það.

 33. Já þessar greinar og jafnvel athugasemdir við þær sem menn benda á skýra ýmislegt. Sem og útskýringar SverrisU. Það hefur greinilega ekki verið allt með felldu undir stjórn Ancelotti hjá PSG þegar svo virðist sem Thiago Silva hafi fengið að velja hvort Alex eða Sakho spiluðu með honum. Áhyggjur mínar minnka með auknum lestri sem og að ná loksins að klára podcastið ykkar. Ég treysti orðum þínum Kristján Atli þegar þú hefur horft á tugi leikja með leikmanninum. Ég á þannig jafnvel von á því að Agger og Sakho byrji næsta leik, þrátt fyrir frábærar frammistöður Toure og Skrtel.

 34. Sá einhverjar pælingar um að vegna meiðsla Johnson vildu einhverjir sjá Rodgers spila 3-5-2. Held að þeir á Anfield Wrap hafi meðal annars rætt þetta.

  Þá yrðu Toure, Agger og Sakho í vörninni, Enrique og Henderson sem wing backs, Lucas og Gerrard á miðjunni, Coutinho fyrir framan þá, Aspas og Moses á köntunum og Sturridge fremstur. Svona til dæmis.

  Veit ekki með að Rodgers breyti um kerfi, en þetta eru amk skemmtilegar pælingar.

 35. Það er alveg sjálfsagt að útskýra hvers vegna ég vel að gagnrýna Jose Enrique. Eins finnst mér eðlilegt að fólk hafi í huga að ég má gagnrýna hvern þann sem ég sýnist á vefsíðu án þess að vera kallaður lélegur stuðningsmaður. Ég styð liðið en segi mína skoðun á leikmönnum. Óþarfi að fara í hnút eða vera með dónaskap yfir því.

  Varðandi Enrique, þá hefur hann allt sem prýða þarf góðan bakvörð. Hann er ruglfljótur, mjög sterkur, frábær með boltann við fætur, sókndjarfur og góður í að vernda sitt svæði. Mín gagnrýni á hann er tvenns konar og þótt leikur hans hafi á síðustu leiktíð (og það sem af er þessari) stórbatnað undir stjórn Rodgers finnst mér að það væri hægt að fá betri mann í þessa stöðu.

  Sem sagt, tvö atriði:

  Fyrst, ákvarðanatakan. Mér finnst hann allt of oft velja lélegri kostinn af tveimur og þá sérstaklega þegar hann er með boltann og undir pressu. Leik eftir leik, jafnvel þegar allt liðið er að leika vel, sé ég talsverðan mun á því hvernig Glen Johnson spilar sig út úr pressu og því hvernig Jose Enrique spilar sig út úr pressu. Lið andstæðinganna vita að það er hægt að koma honum í „uppnám“ með því að pressa hann og gera það þegar þau geta. Það er t.d. ekki tilviljun að Rodgers setti Cissokho inn á kantinn í seinni hálfleik gegn Villa – Enrique var að lenda í miklum vandræðum með Weimann á hægri kantinum og Rodgers ákvað að þétta vörnina til að halda hreinu.

  Hitt atriðið er svo dekkningin. Oft bjargar Enrique sér með því að vera fljótur og ná að hlaupa sinn mann uppi og/eða hirða af honum boltann, sem eru meðal hans sterkustu hliða sem knattspyrnumaður, en það breytir því ekki að það kemur stundum fyrir að hann er gripinn út úr stöðu og andstæðingarnir fá greiða leið upp kantinn hans.

  Þetta er tvennt sem mér finnst að hann gæti gert betur. Ég hef oft lýst Enrique sem leikmanni sem er fær um að gera eitthvað stórkostlega vitlaust í eitt af hverjum fimm skiptum sem hann er með boltann, eitt stórkostlegt í eitt af hverjum fimm skiptum og svo nokkuð eðlilega hluti í hin þrjú skiptin. Ég myndi ekki segja að hann sé svo slæmur að hann sé dragbítur á liðinu en ef það ætti að benda á einhvern veikan blett í þessu liði sé ég ekki hvernig hægt er að færa rök fyrir því að Enrique sé á sama pari og Johnson, Touré, Agger, Lucas, Gerrard, Coutinho, Suarez og Sturridge.

  Kannski gerir samkeppnin honum gott. Hvernig sem fer þá verður hæfasti maðurinn í vinstri bakverðinum, hvort sem hann heitir Enrique eða eitthvað annað. Það er bara gott fyrir Liverpool.

 36. Fyrir það fyrsta þá leiðist mér þegar orð eins og “einelti” er gjaldfellt á þann hátt að það er tiltekið sem hegðun skrifa á svona síðu þar sem verið er að lýsa skoðunum fólks. Það finnst mér eilítið “gengisfella” allavega þann skilning sem ég hef á orðinu…

  Hér inni hef ég t.d. í gegnum tíðina varið menn eins og Lucas, Johnson og Downing í hvívetna. Við afar mismunandi undirtektir. Vegna þess að ég hef fílað þeirra framgang í liðinu okkar þó aðrir hafi verið mér algerlega ósammála. Mun t.d. aldrei samþykkja kaup á manni eins Downing hafi verið flopp, leikmaður sem spilaði meira en 90% deildarleikjanna á tíma sínum hjá okkur.

  Á móti hef ég, eins og Kristján, ekki verið sáttur við Enrique oft á tíðum og af sömu ástæðum og Kristján lýsir. Hins vegar hafa nú væntanlega margir á sama hátt tekið eftir því að ég hef hrósað honum í undanförnum leikjum þar sem mér hefur fundist vörnin smella.

  Mitt mat er hins vegar það að Aly Cissokho sé betri leikmaður en José en það má bara vel vera vitlaust.

  En ég treysti því þá bara að þeir sem að deila ekki þessari skoðun minni á Enrique séu þá eins til munnsöfnuðarins þegar kemur að leikmönnum sem þeir ekki “fíla”. Því ég vona nú að mér hafi ekki orðið alvarlegur fótaskortur á tungunni um það hvernig ég tala um þennan dreng, sem er örugglega fínasti drengur og hefur staðið sig vel hingað til í vetur…en mér finnst samt óneitanlega liðið okkar þurfa betri leikmann í stöðuna en hann.

  Alveg eins og einhverjir görguðu stanslaust á Downing sem mér fannst leggja ýmislegt til og aldrei væla eina sekúndu heldur bara halda áfram að reyna…mér hefur nú ekki fundist allir hafa tekið þá skoðun mína mjög stinnt upp, en þá það!

 37. Stjórnendur síðunar hafa sama rétt og við að segja sína skoðun en það er bara mín skoðun ,,,, vona að sé í lagi …

 38. Auðvitað hafa allir rétt á sínum skoðunum hér, mér finnst menn bara mjög óvægin gagnrýni sem “litli” Spánverjinn okkar fær oft. Hann er búin að vera mjög góður síðan BR lét hann heyra það og hótaði að selja hann og vonandi verður hann það áfram fyrir okkar ástsæla klúbb. Ég tek undir orð Magga að einelti á alls ekki við hérna, enda er það allt annað og MIKLU alvarlegra mál heldur en þegar stuðningsmenn Liverpool eru ekki sammála um einhvern leikmann.
  Ég er allavega ánægður með LE, og ég vona að Maggi vinur minn og Kristján verði sáttari með hann það sem hann á eftir hjá Liverpool. 🙂

  En mikið hlakka ég nú til þegar þetta landsleikjahlé er búið.

 39. Traore, Riise, Dossena, Insua, Warnock.

  Ég veit ekki með ykkur en í gegnum árin þegar eitthvað kom upp hægri vænginn hjá andstæðingunum þá skalf ég gjörsamlega úr stressi.

  Enrique hefur átt sína slæmu leiki og á tímabili fannst mér hann hreint og beint bara heimskur, ekki lélegur en heimskur.

  En hann er búinn að vera frábær fyrir okkur og ég held að fólk sé ekki að meta það nógu mikið hversu góður hann er, 1 á 1, heldur bolta, sókndajrfur, ekki stressaður þegar maður kemur í hann(eins og allir hinir LB í gegnum tíðina)

  Ég veit ekki mikið um Cissokho en ég held að hann hafi verið keyptur til að veita Enrique samkeppni og þegar samkeppni er til staðar, verða menn betri, sem ég held að Enrique á eftir að verða. HANN Á EFTIR AÐ VERA FYRSTI KOSTUR OG VERÐUR BARA BETRI OG BETRI.

 40. Ef Johnson er meiddur í lengri tíma erum við þá ekki bara að fara að sjá Kolo í hægri bak og Sakho í miðverði með Agger?

  Eins og hefur komið fram hér þá þarf nauðsynlega “backup” fyrir Lucas. Vonandi getur Kolo einnig leyst það af hendi eins og á sínum yngri árum með Arsenal ef þarf.

  Svo eru nýju mennirnir okkar komir með númer: Moses fékk 12, Sakho 17 og Illori 26.

Topp 7, sumarglugginn

Spá Kop.is – neðri hluti