Aston Villa á morgun

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD Í OKTÓBER!
SMELLTU HÉR FYRIR FREKARI UPPLÝSINGAR!

Mikið agalega er gott að það sé komið að næsta leik hjá Liverpool FC. Smá hvíld frá öllu þessu rugli sem fylgir þessum blessuðum leikmannaglugga. Sitt sýnist hverjum þar og skoðanirnar á mönnum, fjármálum og frammistöðu stjórnenda, eins misjöfn og stuðningsmennirnir eru margir. Um eitt getum við þó verið sammála um og það er að næla í ein þrjú stig í deildarkeppninni á Englandi seinnipartinn laugardaginn 24. ágúst. En það er alveg á tæru að við getum ekki gengið að neinu sem vísum hlut þegar að því kemur, þannig er jú bara fótboltinn. Ég væri hreinlega að ljúga ef ég héldi því fram að ég væri ekki pínu hræddur við þennan leik.

Aston Villa voru í bullinu á síðasta tímabili. Voru reyndar með ungt lið, spiluðu ágætis bolta inn á milli, en voru svo oft á tíðum alveg skelfilegir. Þeir eru með “ungan” og efnilegan stjóra í Lambert, en þetta var bara ekki að ganga hjá þeim. Nú eru þeir reynslunni ríkari, hann búinn að koma betur inn með sína hugmyndafræði og það hefur skilað sér í feykilega öflugum frammistöðum í fyrstu tveimur leikjunum. Lambert hefur ekki verið að háskæla í fjölmiðlum (eins og sumir, nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn er David Moyes) um erfitt leikjaprógram í upphafi tímabils. Þeir byrjuðu úti gegn Arsenal og unnu þar frækinn 1-3 sigur. Næst fóru þeir á heimavöll Chelsea og töpuðu 2-1 og gátu hreinlega verið svekktir með þau úrslit, áttu til að mynda að fá vítaspyrnu í blá lokin, plús það að Ivanovic sem skoraði sigurmarkið, hefði átt að vera kominn útaf með rautt áður en það gerðist. Sem sagt, Aston Villa hafa mætt alveg feykilega sterkir til leiks og þetta verður ekkert “Walk in the Park” dæmi hjá okkar mönnum, ég býst sem sagt við virkilega erfiðum leik.

Það hefur loðað við Liverpool að við höfum átt í miklum erfiðleikum með líkamlega sterka framherja. Þeir gerast ekki mikið hraustari en Benteke og ég er á því að hann verði þvílík ógn á morgun. Reyndar hefur mér fundist Kolo Toure hafa bætt við talsverðu kjöti í vörnina, hann er heljarmenni á velli og vonast ég til að hann geti aðeins veitt þeim belgíska aðhald. Engu að síður, þá tel ég lykilinn að góðum úrslitum á morgun, vera varnarleikinn og það hvernig okkar mönnum tekst til að halda skyndisóknum Villa í skefjum. Það er heilmikill sprengikraftur í mótherjum okkar og menn verða því að vera á tánum. Annað áhyggjuefni er maður að nafni Brad Guzan. Hann er svona þessi týpíski markvörður sem virðist alltaf eiga leik lífsins á móti okkar mönnum. Við fengum einn slíkan um síðustu helgi og ég býst við viðlíka um þessa helgi. Menn þurfa að fara að finna leið framhjá þessum köppum. En sóknin þeirra er ekki bara Benteke, þeir Agbonlahor og Weimann eru báðir hraðir leikmenn sem mikil ógn stafar af. Vörnin þeirra hefur haldið ágætlega, þó svo að það hljóti að teljast vera þeirra helsti veikleiki. Miðjan er svo ágæt, ekkert meira en það. Stóra málið hjá þeim er að þeir virðast vera að spila vel sem lið, þar sem allir þekkja sitt hlutverk, þó svo að þeir séu ekkert að bugast yfir stærð nafnanna sem inná vellinum eru.

Það er ekki mikið að frétta úr herbúðum okkar manna. Hef ekkert heyrt af nýjum meiðslafréttum, fyrir utan að Coates virðist vera frá mestan part tímabilsins og ekki er vitað hvort Skrtel sé orðinn leikfær. Ég á því ekki von á neinum breytingum á öftustu 5 mönnunum. Ég reikna reynda með að bæði Glen Johnson og Jose Enrique, verði rólegri í framhlaupum sínum vegna hinn snöggu kantara Villamanna. Við erum á útivelli og því tel ég að við sjáum færri “óverlöpp” hjá þessum bakvörðum okkar en oft áður. Lucas verður svo fyrir framan vörnina og mun detta niður í þau skipti sem bakverðir hætta sér fram á völlinn. Lucas verður að mínum dómi algjör lykill í þessum leik. Ef við sjáum hann í flottu formi, eins og hann sýndi gegn Stoke, þá á ég bara von á góðum úrslitum. Gerrard verður svo rétt fyrir framan hann. Stóra spurningin í mínum huga verður hvort Henderson haldi sæti sínu eður ei. Coutinho verður á sínum stað, sama með Sturridge og ég reikna með því sama með Aspas. Brendan gæti dottið í það að henda inn meiri hraða með því að setja Sterling inn. Annar möguleiki er að hann byrji með Allen á miðjunni og hendi Stevie framar á völlinn, finnst það þó ólíklegra. Ég ætla því bara að spá því að við verðum með óbreytt byrjunarlið frá því í leiknum gegn Stoke:

Mignolet

Johnson – Touré – Agger – Enrique

Gerrard – Lucas – Henderson

Aspas – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Jones, Wisdom, Allen, Alberto, Ibe, Sterling, Borini

Sem sagt sama lið, og sami bekkur þar sem ég veit ekki stöðuna á Skrtel og ég efast um að Cissokho komi beint á bekkinn. Afar sóknarsninnað lið og ætti að búa yfir mörkum. Þrenningin Sturridge, Coutinho og Aspas getur rifið hvaða vörn í sig sem er, en í mínum huga snýst þetta algjörlega um að klára þessi fjandans færi sem menn skapa sér marg oft í þessum leikjum okkar. Það er oft fátt hægt að setja út á spilamennskuna sem slíka, fyrir utan einstaka einbeitninarleysi í varnarleiknum, en þegar kemur að sóknarleiknum þá snýst þetta fyrst og síðast um að klára færin. Við virðumst geta skapað okkur endanlausa sénsa, en þeir eru algjörlega gagnslausir ef menn ná ekki að koma tuðrunni yfir marklínuna.

Eins og áður sagði, þá er lykillinn að góðum úrslitum að geta varist hröðum sóknum Villa og svo hinum megin að ná að klára færin okkar. Ég hef litlar áhyggjur af því að við náum tökum á miðjunni og stjórnum leiknum, það er bara ekki nóg ef við erum ekki árangursríkir á sitthvorum endanum á vellinum. Það eru þrjú stig í boði og mikið óskaplega væri nú sætt að vera með fullt hús stiga eftir 2 fyrstu leikina. Ég er bara þó nokkuð bjartsýnn, þó svo að ég telji að þetta verði virkilega erfiður leikur. Eigum við ekki að segja að við tökum þetta 1-2 þar sem Gerrard og Sturridge setja mörkin. Weimann setur svo eitt fyrir Villa í spennuþrungnum leik. Ég tippa á stórleik hjá markvörðunum og að leikurinn verði mikið fyrir augað, mikið af færum og fjöri. Svo getum við byrjað að fara í kafsund í leikmannaslúðrinu strax aftur á sunnudaginn. Næsta vika verður vonandi viðburðarík þegar kemur að því að landa mönnum sem styrkja liðið okkar. Ég ætla að gerast svo grófur að spá því að 2 leikmenn verði komnir við viðbótar núverandi leikmannahóps þann 3. september. Bring it on.

57 Comments

 1. 3-2, aspas,sturridgex2 , og kjöt fjallið benteke setur tvö.

  Annaðhvort töpum við með stæl eða rétt merjum sigur.

 2. Hef trú á sama liði og síðast. Ætti að vera mikið sjálfstraust í liðinu bæði í vörn og sókn. Aspas skorar sigurmarkið.

 3. Verð að vera sammála þér í því að ég er bara frekar smeikur við þennan leik.
  Þetta verður ekkert walk in the Villa park :p

 4. Eg er drullu stressaður fyrir þennan leik, verður einfaldlega gríðarlega erfiður leikur.

  Ef karakter, liðsheild, hungur og sigurvilji verður til staðar a morgun þa klarum við leikinn 1-2 … coutinho og sturridge skora ..

  Óttast samt að þessi leikur endi 1X þvi miður.

 5. Ekkert hræddur við þennan leik, við tökum þetta 0-2. BR er líka reynslunni ríkari eftir síðasta tímabil og KT á að geta látið þennan benteke finna fyrir þvi. Ég hef miklu meiri áhyggjur af leikmannaglugganum hjá okkur. Vantar sárlega varnarmann og vængmann.

 6. Annað áhyggjuefni er maður að nafni Brad Guzan. Hann er svona þessi týpíski markvörður sem virðist alltaf eiga leik lífsins á móti okkar mönnum. Við fengum einn slíkan um síðustu helgi og ég býst við viðlíka um þessa helgi.

  Ummm, bíddu… var ekki Mignolet valinn markvörður umferðarinnar af bæði BBC og Goal?

 7. Gott að fá eitt stykki fótboltaleik til að dreifa huganum frá kaupglugganum, þó það sé ekki nema 90 mínútur af einföldu aksjón og afþreyingu. Gleymist stundum að fótbolti gengur víst út á að sparka í tuðru en ekki bara fjárfestingar og sólstrandagæja með fútúrískar hárgreiðslur.

  Ég skil vel að það sé smá stress hjá mörgum fyrir þennan leik enda Aston Villa virkað öflugir í byrjun móts. Einnig er alltaf erfitt að spila við andstæðing í sínum fyrsta heimaleik á nýju tímabili þar sem stemmningin er oft mikil og leikmenn gefa sig alla í leikinn. Leikurinn í fyrra var erfiður þar sem við vorum undir í hálfleik en tókst að snúa dæminu við eftir hlé.

  Á móti kemur að þá hafa Aston Villa spilað tvo erfiða útileiki á einni viku á meðan okkar menn voru í skallatennis á æfingu í gær. Hörkuleikir sem hafa eflaust verið orkufrekir þó þeir hafi líka gefið Villa-mönnum sjálfstraust með góðri frammistöðu. En einhver þreyta gæti vonandi spilað inní þegar líða tekur á leikinn. Styrkur Villa, eins og Ssteinn og Rodgers sjálfur hafa bent á, felst í skyndisóknum og því gæti fyrsta mark leiksins haft mjög afgerandi áhrif á hvernig hann spilast. Það er hugsanlegt að við reynum að vera klókir og byrja á því liggja smá aftur til að geta fellt A.Villa á sínu eigin bragði með hröðum skyndisóknum. Sturridge, Coutinho og Aspas eru alveg menn í að tæta framhjá þreyttum fótum miðlendinganna.

  Við þetta má bæta til að auka okkur bjartsýni að þá er Villa-park einn af þeim völlum sem okkur hefur gengið afar vel á undanfarið. Síðustu 15 tímabil þá höfum við bara tapað einum deildarleik á þessum velli. Höfum unnið 9 deildarleiki og gert 5 jafntefli ásamt einum deildarbikarsigri til viðbótar. Hefur hentað okkur vel að spila til sigurs þarna en það er þó engin friðþæging í þeirri tölfræði enda ekki hægt vinna leikinn fyrirfram með rökleiðslu og staðreyndum.

  Ég spái okkar mönnum 1-3 útisigri og held að þetta verði nokkuð öruggt í lokin.

  Come on you Reds!

 8. Gott ef Ivanovic var ekki bara líka rangstæður í sigurmarki Chelsea á móti Villa.

  Annars eru Aston Villa með skemmtilegt lið en eiga það sameiginlegt með Liverpool að vera brothættir til baka. Ef Villa skorar á undan þá vinna þeir. Ef við skorum á undan og Strurridge og Coutinho verða sprækir þá hef ég trú á því að við getum farið með sigur af hólmi.

  YNWA!

 9. Þetta verður vonandi skemmtilegur leikur, eins og svo margir undir stjórn Rodgers. Ég vona við séum nægilega sterkir til að sækja á þreytt lið Villa að krafti. Klára jafnvel leikinn snemma eins og City gerði gegn Newcastle. Villa hafa verið frábærir í byrjun móts en ég trúi því við getum keyrt á þá frá fyrstu, vona við förum ekki að liggja til baka til að verjast skyndisóknum.

  Las einhver staðar að Gerrard hefði ekki skorað fleiri mörk gegn neinu úrvaldsdeildarlið en Aston Villa, spái gamli haldi uppteknum hætti og verði með bæði í 0-2 sigri, af hverju ekki?

  Áfram Liverpool !!!

 10. Þetta verður hörkuleikur, það er alveg ljóst. Það sem vinnur með okkur er að Villa eru búnir að spila tvo mjög erfiða leiki. Á móti kemur að þeir stóðu sig virkilega vel í þeim báðum þannig að sjálfstraustið er mikið og fara menn ansi langt á því þó þreyttir séu. Lykillinn hjá okkur er að stoppa Benteke og hlaupin í kringum hann, ég reikna þessvegna með að Lucas verði heldjúpur og vinni framan á Benteke til að vinna seinni boltann og loka á hlaup Aglbanahor og Weimann. Held við stillum upp 4-4-1-1, með bæði Allen og Henderson inni og Aspas fari á bekkinn. Villa mun sækja meira en á útvielli og það ætti að vera meiri möguleikar á að opna þá, meira svæði fyrir aftan vörnina til að vinna í og ættum að geta fellt þá á eigin bragði, en þetta verður leikur…..

  YNWA

 11. Ben #11 Ef Villa skorar á undan þá vinna þeir, og ef við skorum á undan þá hefuru trú á að við getum unnið? Hvaða bull er þetta?

  Þetta er Aston Villa, c’mon. Við eigum að vinna þá á slæmum degi og ég held að við vinnum þá og eigum virkilega góðan dag. 4-0 eða 5-0. Markaskorun dreifist.

  YNWA

 12. Ég veit ekki hvað ég geri ef hann Agger minn ætlar að taka kisuna aftur á þetta eins og hann gerði á móri Stoke. Ég varð bara að segja þetta svo þetta rætist ekki, enda er ég skít hræddur um að Benteke éti hann í loftinu. En eins og ég sagði þá varð ég að segja þetta svo þetta rædist ekki… og svo áfram guðsgjöfin Liverpool.

 13. Vörn. Vörn. Vörn.

  Ef vörnin stendur sig (lesist: Kolo stoppar Benteke) þá vinnum við þennan leik.

 14. Sindri Rafn #14

  Ekkert rosalega flókið, ef Villa skorar á undan hef ég trú á því að okkar menn brotni niður og nái ekki að komast aftur inn í leikinn. Á síðsta tímabili var þetta oftar en ekki uppi á teningnum, ekkert enn sem hefur sannfært mig að það sé breytt.

  Ef mig minnir náðum við að snúa við einum slíkum leik í fyrra á útivelli á móti West Ham þar sem Shelvey skoraði sigurmarkið.

 15. AF því Liverpool eiga ekki séns á að fá þekktustu nöfnin í boltanum þá þurfa þeir að vera klókir. Ég man eftir að hafa séð þennan gaur brillera nokkrum sinnum með úkraínska landsliðinu og í Evrópukeppni.
  Ætli það sé ekki hægt að fá þennan fyrir slikk frá Dnepr??? Bara svona föstudagspæling…
  http://www.youtube.com/watch?v=MpyQvrBhsF4
  Annars verðum að við að stoppa krossa á Benteke um helgina og ég tippa á 0-2 sigur Liverpool þar sem Coutinho og Sturridge skora.

 16. Flott upphitun meistari Steini.
  Sammála með byrjunarliðið, það ætti að velja sig nokkuð sjálft held ég eftir góðan leik í fyrstu umferð. Síðan þá er Suarez ennþá í banni og enginn leikmaður bæst við hópinn nema Cissoko sem ég spái að setjist á bekkinn í þessum leik á kostnað Jordon Ibe.

  Það er kraftur í Villa mönnum, sérstaklega sóknarmönnunum og ég held að Henderson verði áfram í liðinu á kostnað Allen/Sterling. Hann var meira hægra megin í síðasta leik (færði sig mikið þangað) og ég held að við leggjum þetta eins upp gegn Villa.

  Benteke er leikmaður sem kemur upp um helstu veikleika bæði Liverpool og Arsenal og hann hefur gengið frá báðum liðum. Hann er samt ekkert óstöðvandi og ég hef fulla trú á að við getum bæði stoppað hann og eins uppspil Villa manna til hans. Kolo Toure er vonandi miklu betur í stakk búinn til að ganga frá honum en varnarmenn okkar voru í fyrra. Þar fyrir utan erum við með okkar sterkustu vörn.

  Ég veit ekki alveg hvort það er okkur til góða að hafa hvílt meðan Villa átti leik í miðri viku. Þeir segja það allir sem eru að spila að það er miklu skemmtilegra og betra að spila þétt frekar en að æfa heila viku og reyna að halda fókus þannig. Villa menn gætu komið betur undirbúnir hvað þetta varðar. Álagið á þeim hefur heldur ekki verið það mikið, mótið er bara nýbyrjað.

  Þetta verður auðvitað fjandi jafnt og erfitt en ég tippa á 1-2 sigur. Aspas og Henderson með mörkin.

  Annars er hérna fín grein frá kopology (á twitter) um FSG og innkaupastefnu þeirra.
  http://www.thisisanfield.com/2013/08/liverpool-fc-winning-different-way/
  Sammála þessu að flestu leiti nema þó að við þurfum að setja pening í og kaupa svona hungraða og upprennandi leikmenn í Suarez klassanum (og verðflokknum) í bland við Aspas og Coutinho.

  Þessi sem nr.19 bendir á gæti t.a.m. verið ekta þannig dæmi.
  Þetta er leikmaður sem mikið hefur verið látið með undanfarin ár og bara tímaspursmál hvenær hann fer á stærra svið. Hann er fáránlega fljótur með boltann í löppunum btw. m.v. þetta youtube video.

 17. 12. Ef SG setur 2 mörk þá eru það deildarmörk nr. 99 og 100 hjá kappanum. Ef!!!

 18. Frabær upphitun sem eykur bara tilhløkkunina mina fyrir thessum leik. Thetta verdur hørkuleikur og Villa-menn hafa byrjad motid heldur betur vel. Sa chelski leikinn og their attu alveg skilid amk eitt stig thar.

  Hef samt fulla tru a okkar mønnum og tippa a frabæran utisigur. Hversu geggjad væri thad ad mæta manju med fullt hus stiga og skilja tha eftir um midja deild med sigri thar!? Komm on, thetta er vel raunhæft enda er lidid okkar ad spila flottan bolta med lidsandann i hæstu hædum.

  Spai 1-2 med mørkum fra Hendo og Sturridge.

  Thetta verdur rosssalegt!

  YNWA!

 19. Það var einhver að tala um einhvern gæja frá Úkraníu, hvernig væri bara að fá hetjuna Voronin aftur 🙂 Sá var drjúgur.

  Annars fer þetta 6-0 fyrir okkur, Aston villa verða bensínlausir um miðjan seinni hálfleik. 🙂

 20. Flott upphitun að vanda, gríðarlega gaman að koma hingað og lesa pistlana til þess að gíra sig upp fyrir leik.

  Ég hef fulla trú á því að byrjunarliðið verði óbreytt og held að það sé nógu sterkt lið til þess að klára þennan leik.
  Þessi leikur verður í járnum fram að sextugustu mínútu en þá kemur Sterling inná fyrir Henderson eða Aspas og þeir félagar frammi Sturridge, Coutinho og Sterling sprengja upp vörn Villa. Leikurinn endar svo 3-1 fyrir okkar mönnum þar sem Sturridge setur tvö og Toure eitt eftir að hann étur Benteke í hornspyrnu.

  YNWA – Rogers we trust!!!

 21. Sælir félagar

  Takk fyrir góða upphitun. Þetta verður svakalegur leikur þar sem Villa leikur fast og af mikilli ástríðu og gefur ekkert eftir í neinni stöðu. Þetta er því spurning um karakter okkar manna og ef hann er í lagi þá vinnst þessi leikur. Því það er engin spurning um hvort liðið er betra knattspyrnulið.

  Sem sagt: ef okkar menn mæta til leiks í orðsins fyllstu merkingu þá eru þrjú stig í höfn. En þá verða menn líka að taka hundrað prósent á Villa mönnum frá upphafi leiks til enda hans. Mignolet, Kolo og Lucas verða lykilmenn í vörn og Lucas einnig á miðjunni ásamt Gerrard en Sturridge og Coutinho í sókninni. Aðrir leikmenn styðja svo þessa mænu liðsins með mikill færslu á liðinu allan leikinn. Koma svo og ég spái eins og venjulega 1 – 3.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 22. Ég þori ekki að spá í lokatölur en ég held að Gerrard skori eitt og skori sitt 100 mark fyrir Liverpool með hörkuskoti fyrir utan teig í 2-1 sigri á móti United 1. september fyrir framan Kop í uppbótartíma!

 23. Ef Henderson greiðir til vinstri, slátrum við þessu!
  Ef ekki mun Benteke pottþétt skora tvennu!

 24. Jahá takk fyrir flotta upphitun.

  Þetta verður án efa drulluerfiður en skemtilegur leikur, vona bara að Mignolet hafi fillst af sjálfstrausti eftir að hafa varið vítið gegn Stoke, ef ekki og hann verður eins og firstu 75 mínuturnar þá er ég smeikur.
  Og ef Lucas verður einnig í stuði þá vinnum við 0-2.
  Líst annars vel á að halda sama birjunarliði og seinast, voru með flott spil megnið af leiknum og áttum nokkur góð færi.

  YNWA

 25. Jæja.

  Verð að segja að maður er með nettan óþægindahnút í maganum fyrir þessum leik á morgun. Ég hef séð báða leiki Aston Villa á tímabilinu og verð að segja að þeirra lið hefur litið mjög vel út. Sá leikmaður sem mér hefur fundist mjög öflugur í báðum leikjunum er leikmaður sem maður hélt að væri bara útbrunninn en hann hefur verið mjög góður og vona ég að hann sjáist ekki á morgun en það er Fabian Delph. Hann hefur verið mjög öflugur á miðjunni hjá þeim og ásamt El Hamandi haldið aftur af mjög öflugum miðjumönnum Arsenal og Chelsea.

  Eins og fyrr segir er maður með hnút í maganum fyrir leiknum og vonandi er maður að hafa óþarfa áhyggjur. Villa hafa spilað tvo útileiki og ég hugsa að þeir komi mjög grimmir til leiks í fyrsta heimaleikinn á tímabilinu.

  En ef okkar menn spila eins og þeir eiga að geta og “mæta” til leiks á réttum tíma þá eigum við að taka þá.

  Þetta verður mikill prófsteinn á vörnina okkar og vonandi náum við góðum úrslitum á morgun.

  YNWA

 26. Góð upphitun…
  Sá þetta Aston Villa lið spila gegn Chelsea og já þeir áttu svo sannarlega meira skilið út úr þeim leik og miðað við tvo fyrstu leikina þeirra að þá er ég skíthræddur við þennan leik á morgun. Ætla rétt að vona að LFC klári leikinn á morgun og lendi ekki í sama rugli eins og á síðustu leiktíð þ.e. að eiga klassaleik og svo skíta á sig í næsta leik á eftir.

  1-2 fyrir LFC og Sturridge og Lucas (Agger skítur í Lucas og boltinn breytir um stefnu og Lucas fær markið skráð á sig) skora mörkin 🙂

 27. Ég veit ekki með þetta Aston Villa lið, finnst svona eins og þeir spili nákvæmlega þann bolta sem Liverpool á erfiðast með, liggja í vörn, skyndisóknir og með risa [ritskoðað – KAR] frammi sem er rosa góður í fótbolta. En ég held reyndar líka að þessi bolti sem þeir spili þreyti menn svolldið mikið þannig að ég vonast að þeir verði kannski ekki alveg á 100% krafti en þetta er svosem 3 leikurinn þeirra þannig að það þarf ekkert að vera. En ég trúi ekki öðru en að Villa klúðri þessum leik, þeir eru andskotanum ekkert að fara að spila eins og eitthverjir riddarar í hverjum leik.

 28. Held að öklinn á Sturidge fá hvíld fram að 60 min. Aspas á toppinn og Sterling fær að byrja.

 29. 0-3 fyrir Liverpool og við verðum meistarar næsta vor þrátt fyrir að Suarez fari til RM. Þetta verður efni í bíómynd af tímabili afloknu 🙂 Hollywood style 🙂

 30. Gerum bara eins og í gamla daga, skorum bara fleiri mörk en andstæðingarnir sama hvað þeir skora mörg og þá vinnum við hiklaust

 31. Ég er ekki frá því að þetta verði frekar fyrirhafnalítill og jafnvel dálítið ósanngjarn sigur. Villa verði sterkir og eigi fullt í leiknum, en vakni upp við vondan draum þegar við erum allt í einu komnir í 3-0 eftir þrjár eldsnöggar sóknir. 37 mín liðnar og leikurinn búinn. Þeir setji svo eitt eða tvö í seinni hálfleik og við kannski eitt í viðbót. Lokatölur 3-1 eða 4-2.

  Þannig vil ég sjá það amk.

 32. Flott upphitun.

  Við tökum þetta 0-3 eða 2-3. Varafyrirliðinn okkar skorar eitt, fyrirliðinn skorar eitt og Aspas setur debut markið. Ef Aston Villa skorar þá skorar Bentkie bæði.

 33. Afhverju segjiði að glugginn loki 3.sept ?

  Því þeir hjá FA vinna ekki um helgar. 🙂

  sept er sunnudagur, 2. sept er mánudagur og það lokar á miðnætti.

 34. Getum við plís fengið Konoplyanka sem Skrtel (commentnr 19) bendir á, fljótari mann með bolta hef ég ekki séð lengi!

 35. 3 stig væru afskaplega kærkomin

  Svona í minningunni, þá var útivallaárangur okkar heldur betri en heimavallaárangur í fyrra. Það stafar reyndar líklega bara af því að við stóðum okkur ekkert sérstaklega á heimavelli.

  Villa stuðningsmenn eru nokkuð bjartsýnir, telja það helst geta komið í veg fyrir sigur ef þeir verða þreyttir eftir 2 erfiða leiki, en Liverpool ætti ekki að vera mikil fyrirstaða.

  http://www.villatalk.com/index.php/topic/9766-match-thread-please-do-not-talk-about-streams-in-this-thread/

  Þá er víst uppselt á leikinn, sem gerist ekki á hverjum degi hjá þeim, og heilmikið “buzz” í bænum.

  Mér finnst endilega eins og þeir hafi verið nánast í fallbaráttu í fyrra?

 36. Verð mjög hissa ef við fáum eitthvað úr þessum leik. Þetta er klassískt and Liverpool lið og ég spái miklu ströggli á morgun. BR proove me wrong pls.

 37. Það verður fróðlegt að sjáh hvernig Villa mætir til leiks á morgunn. Vissulega er þetta þeirra fyrsti heimaleikur og þeir með sjálfstraustið í botni en þeir eru einnig að spila þriðja leikinn á einni viku. Ég sé planið vera að spila agaðan bolta fyrstu 60 og reyna búa til færi en bomba svo á þá á seinustu 30 mín og vona að þeir verði alveg búnir.

  Þessi leikur er samt mjög mikilvægur fyrir bæði lið hvað “momentum” varðar. Vinni A.Villa er þetta frábær byrjun fyrir þá. Sex stig úr þetta erfiðu programi er gott hjá topliði sem ætlar sér meistaradeildarsæti, hvað þá liði eins og A.Villa. Tapi þeir á morgunn er þessi byrjun ekkert nema okey. Það sama á við hjá okkur. Vinnum við getum við farið í leikinn gegn United eftir rúmma viku með bullandi sjálfstraust og þann möguleika að taka fullt hús stiga eftir þrjá leiki og sigur á United liði með Moyes í brúnni! Ef einhver góð signings fylgdu með gæti sá dagur verið risa statement frá klúbbnum! En til þess að það geti gerst verður leikurinn á morgunn að vinnast!

  Margir lofa og hræðast Benteke hér sem er eðlilegt en það má ekki gleyma Agbonlahor og Weimann. Þratt fyrir að Benteke se með þrju mörk þa eru tvö þeirra úr vítum. Annað vítið fékk Agbonlahor eftir goðan sprett sem og hann lagði upp mark Benteke gegn Chelsea eftir að hafa stungið Ivanovic af. Toure verður að vera ready fyrir Benteke ásamt því að Lucas verður að vera duglegur að tvöfalda á hann. Bakverðirnir verða svo að höndla Weimann og Agbonlahor. Virki vörnin vel vinnum við þennan leik því ég er vissum að við skorum eitt. Ég er hinsvegar skíthræddur að þeir geri eitt líka og ætla ég að giska að þessi leikur fari 1-1. Fari svo að annað liðið skori tvö mörk mun það lið vinna. Hef ekki trú á að bæði lið geti sett tvö. Hjá okkur skorar Henderson en hja þeim skorar Weimann.

 38. Bíddu er Liverpool eitthvað að reyna að kaupa þennan Dinamo Kiev gæja eða ?

  Eina sem maður getur sagt um þennan superman gaur er SHITURINN TITTURINN MELLANN OG HÓRAN, eg er miklu meira spenntur fyrir þessum náunga en Mkhitaryan og Willian til samans…

  Kaupa þennann í hvellinum TAKK

 39. Kop stjórnendur ættu að skoða ummæli #35 Böðmóðs og setja gæjann í 10 leikja bann á síðunni 🙂

  Svar (Kristján Atli): Þessi ummæli (#35) fóru því miður framhjá okkur í gærkvöldi og nú er orðið of seint að eyða þeim út. Ég hef því ritskoðað ærumeiðandi hlutann úr þeim og læt þau standa þannig. En það er rétt hjá ykkur, allt niðrandi tal um kynþátt eða húðlit fólks er stranglega bannað á þessari síðu.

 40. Nu spyr eg sem utanbæjarmaður..Hvar hittist addaendaklubburinn til þess að horfa a leikinn?..Er það a Spot?

 41. Spot er lika orðinn heimavollur liverpool klubbsins, klubburinn samdi við spot fyrir þetta timabil 🙂

 42. sama byrjunarlið á eftir og í leiknum á móti Stoke. Cissokho fer á bekkinn á kostnað Ibe.

  Koma svo LFC!!

 43. Hæhæ, kemur kannski leiknum í dag lítið við en mig langaði bara að benda fólki á síðuna http://www.plus1hd.com. Þar er hægt að streama öllum leikjum í í HD gæðum. Það þarf reyndar að gerast áskrifandi en það kostar rétt um 1300 kr á mánuði. Gæðin eru mjög góð og lítið hökt, sértaklega ef menn eru með ljósnet eða ljósleiðara. Það þarf reyndar að borga í gegnum paypal en það er alls ekki flókið.

  Langaði bara að benda fólki á þessa síðu þar sem að það komast ekki allir á pöbbinn að horfa og svo er áskriftin hjá stöð2 sport2 orðin rándýr. Mæli allavega að menn prófi.

 44. Ég skal bara alveg viðurkenna það að ég hef ekki kannað það. Ég hef allavega aldrei lent í því að klippt sé á útsendinguna eins og ég lenti svo oft í þegar ég streama leikjum og golfmótum í gegnum wiziwig.tv síðuna.

Hvað er í gangi hjá Tottenham?

Liðið gegn Aston Villa