Stoke fyrstu andstæðingar á nýju tímabili

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD Í OKTÓBER!
SMELLTU HÉR FYRIR FREKARI UPPLÝSINGAR!

Líklega verðum við að gefa enska knattspyrnusambandinu smá kredit eftir byrjunina sem þeir buðu okkur upp á fyrir ári síðan. Liverpool spilaði síðast deildarleik 19.maí 2013 og hann skipti ekki miklu máli fyrir utan að við vorum þá aðallega að kveðja Jamie Carragher. Þetta er auðvitað allt of langur biðtími en til að stytta þetta aðeins leyfðu þeir okkur a.m.k. að byrja þetta tímabil á undan öllum öðrum og það á heimavelli.

Liverpool fær Stoke í heimsókn í fyrsta leik tímabilsins í hádeginu á laugardaginn og þó að ég geti varla beðið ætla ég aðeins að nota þessa upphitun til að koma sjálfum mér niður á jörðina. Það var sumt líkt með væntingum okkar þá og nú og ég hef nánast alltaf farið með meiri væntingar inn í tímabilið heldur en í fyrsta leik í fyrra. Þrátt fyrir það man ég ekki eftir öðru eins kjaftshöggi og maður fékk í fyrsta leik Liverpool á síðasta ári.

Fyrstu ummæli við leikskýrslu þess leiks voru reyndar mjög fyndin og meira fylgdi á eftir

001

002

003

Þá eru ótaldir löngu reiðipistlarnir eins og frá mér sjálfum sem endaði á að mér liði eins og ég hefði verið kýldur. Já þetta er eitthvað sem ég ætla rétt að vona að verði ekki á dagskrá um tvö leytið á laugardaginn.

Á eftir opnunarleiknum var erfitt prógramm m.a. gegn þremur af efstu liðunum tímabilið á undan og við sátum eftir fimm umferðir með nákvæmlega 2 stig í 18.sæti. Það er eins og að hafa verið sparkað ítrekað í mann eftir að hafa verið kýldur niður.

Þetta hefur auðvitað ekkert að segja eða gera með leikinn gegn Stoke og raunar var þessi byrjun verri en öll okkar hafa nokkurntíma upplifað sem stuðningsmenn Liverpool. Þetta gleymist þó ekki svo auðveldlega og því fer maður, rétt eins og alltaf með smá kvíðahnút inn í fyrsta leik.

Steini kom þó inná það í pistli sínum á þriðjudaginn að Liverpool í dag er allt annað en Liverpool sem spilaði leikinn gegn WBA 18.ágúst 2012. Ég ber saman leikmenn á eftir en fyrir utan það er magt sem er jákvæðara fyrir þetta tímabil:

– Við erum við núna með lið sem þekkir það að spila saman undir stjórn Brendan Rodgers, hann hefur fengið heilt undirbúningstímabil sem hann hefur að mestu getað skipulagt alveg eftir eigin höfði án þess að missa nánast alla í stórmót (sama á við um mótherjana).

– Liðið endaði síðasta tímabil mjög vel og á jákvæðum nótum og hann hefur náð að skipta út slatta af þeim leikmönnum sem hann vildi ekki fyrir nýja menn sem hann hefur náð að vinna með í allt sumar, þó auðvitað eigi eftir að klára aðalkaup sumarsins.

– Fyrsti leikur í ár er heimaleikur og prógrammið eftir hann er rúmlega helmingi auðveldara á pappír en það sem við fengum í fyrra. Ef við miðum bara við leiki Liverpool á síðasta tímabili við liðin sem við eigum í fyrstu 5 leikjum þessa tímabils þá náðum við 8 stigum í þeim leikjum. Það eru stig í 4 af 5 þessara leikja. Ekkert frábært en betra en þessi tvö sem við vorum með í fyrra eftir jafn marga leiki.

– Það er ekkert fjárans Being Liverpool kjaftæði í ár. Við höfðum áhyggjur af þessu í fyrra svo vægt sé til orða tekið og það er ennþá verið að vitna í mótorhjólið hjá Ayre og umslögin hans Rodgers. Það var reyndar gaman að sjá sumt í þessum þáttum en frá sjónarhóli nýs þjálfara Liverpool var þetta algjör óþarfa bull pressa.

– Margir af ungum leikmönnum Liverpool eru búnir að fá traust og spilatíma og ættu að vera mun nær því að nýtast aðalliðinu heldur en fyrir ári. Þetta hefur alls ekkert verið algilt hjá Liverpool sl. áratugi.

Líklega vegur það mun stærra að núna ættum við að koma mun tilbúnari til leiks hvað leikkerfi varðar. Það breytir því ekki að WBA var líka með nýjan stjóra í fyrsta leik í fyrra en gallinn við hann var að hann vissi miklu meira um Liverpool heldur en sitt lið og reyndar líklega meira en Rodgers vissi um Liverpool þá. Rodgers var að gera töluverðar breytingar á liðinu í fyrra og kom það sérstaklega niður á varnarleiknum og hefur ekki ennþá verið lagað að fullu. Hann hefði klárlega þurft meiri tíma í fyrra en hefur ekki afsakanir í ár. Liðið í fyrsta leik í fyrra var svona og taldist okkar besta lið utan þess að Enrique var meiddur.

Liverpool gegn WBA

Bekkur: Jones, Carragher, Adam, Shelvey, Henderson, Joe Cole, Carroll.

Með því að horfa á þetta lið sjáum við hvað liðið er breytt núna í ár og vonandi sterkara. Reina er farinn og það eru mjög skiptar skoðanir um hvort við séum að styrkja liðið í þeirri stöðu. Hann var reyndar okkar besti maður gegn WBA og varði m.a. vítaspyrnu en liðið fékk engu að síður á sig þrjú mörk í þeim leik. Yfir veturinn fékk liðið það oft á sig tvö mörk eða meira í leik að það ætti ekki að vera of mikið áhyggjuefni að prufa nýjan markmann. Mignolet var með betri markmönnum síðasta tímabils.

Staðan í vinstri bak er nákvæmlega eins, við vorum að bíða eftir cover fyrir Enrique og bjuggumst við því í vikunni eftir WBA leikinn en það hefur ekki ennþá skilað sér. Hann er heill núna og við erum í alvöru orðuð gríðarlega sterklega við cover fyrir hann í þessari stöðu. Ég tippa á að sá leikmaður slái Enrique mjög fljótt úr liðinu en ekki í leikjum gegn Stoke.

Vörnin er það sem mest er þörf á að bæta og raunar getum við stillt um sama miðvarðapari í ár og gegn WBA. Þeir Agger og Skrtel settu tóninn fyrir tímabilið í þeim leik, gáfu báðir víti, Skrtel gerði hroðaleg mistök og Agger var í banni eftir leikinn. Vonandi verður hann heill gegn Stoke en það er ljóst að eftirmaður Carragher tekur sæti Skrtel í þessum leik, Kolo Toure. Carragher kom reyndar inná í leiknum gegn WBA og var gjörsamlega afleitur gegn Lukaku og félögum. Með eins varnarleik og í fyrsta leik í fyrra er ljóst að Stoke slátrar okkur.

Martin Kelly spilaði þannig í leiknum fyrir ári að umræðan snerist um að hann hefði tekið tvö skref aftur sem leikmaður. Stuttu seinna meiddist hann eins og vanalega og við höfum varla séð hann síðan og hann á um 1-2 mánuði í land ennþá í byrjunarliðið. Glen Johnson verður því vonandi á sínum stað í hægri bakverði, ekki vinstri eins og gegn WBA.

Miðjan er líklega sá partur af leikskipulaginu sem kemur hvað mest endurbættur til leiks í ár. Sama þó að við myndum stilla upp sömu miðju og byrjaði gegn WBA þá býst ég við þeim öllum ca. helmingi betri. Lucas var allt síðasta tímabil varkár og virkaði á svona 70-75% hraða m.v. hvernig hann var áður en hann meiddist. Hann náði að spila slatta á síðasta tímabili og óx eftir því sem á það leið og hefur virkað ferskur í vor, öfugt við hvernig hann var fyrir síðasta tímabil.

Gerrard var afar ósannfærandi í fyrsta leik og fyrstu leikjum Liverpool raunar. Rodgers setti hann í nýtt hlutverk og hann stórbætti sig þegar leið á tímabilið. Á endanum var hann einn af okkar bestu mönnum og að spila sitt besta tímabil í nokkur ár. Hann er kominn í minna áberandi hlutverk hinsvegar og fær kannski ekki alltaf það lof sem hann á skilið.

Joe Allen verður svo vonandi miklu betri í ár. Hann var reyndar fínn í upphafi móts í fyrra og spilaði t.a.m. vel í fyrri hálfleiknum gegn WBA. Öfugt við síðasta ár eru núna nánast engar væntingar á honum, verðmiðinn lítið sem ekkert til umræðu og hann heill af meiðslum og búinn að taka fullt og óhindrað undirbúningstímabil. (Hann fór á ÓL rétt fyrir mót í fyrra). Þetta er raunar sá leikmaður sem ég býst við hvað mestum framförum af í vetur.

Fyrir utan þessa þrjá þá var Henderson búinn að spila sig inn í aðalliðið í fyrra og er núna búinn að taka út eitt tímabil í þroska hjá Liverpool og U21 árs landsliðinu (sem fyrirliði). Haldi hann áfram á sömu braut og í fyrra erum við þar að fá frábæran leikmann og afar mikilvægan miðjuspili Liverpool. Luis Alberto kemur frá Barcelona skólanum í stað Jonjo Shelvey sem varð að komast í burtu til að fá spilatíma. Þar veikjumst við ekki neitt og ef nýjasta slúðrið er rétt þá ætlar Liverpool í baráttuna um Willian sem myndi stökkbreyta miðjunni hjá okkur sóknarlega.

Sóknartríóið verður líklega alveg nýtt í fyrsta leik m.v. síðasta tímabil og getur a.m.k. ekki náð verri árangri í fyrsta leik en þeir gerðu í fyrra. Suarez var líkur sjálfum sér í fyrsta leik í fyrra, skapaði helling af færum en klúðraði þeim öllum sjálfur. Það lagaðist nú reyndar heldur betur þegar leið á tímabilið.

Downing er farinn og Borini er líklega ekki í byrjunarliðsplönum Rodgers þó þar gætum við reyndar átt inni 11m punda sóknarmann sem við sáum lítið sem ekkert af í fyrra. Hann hefur núna náð að aðlagast og er með afar litla pressu á sér öfugt við síðasta ár.

Hérna búumst við auðvitað við Coutinho og Daniel Sturridge í byrjunarliðinu og með þeim í fyrsta leik verður líklega nýji leikmaðurinn Iago Aspas. Þeir fyrrnefndu hafa tekið þátt í langflestum mörkum Liverpool síðan þeir komu til Liverpool en eru jafnframt þeir sem ég hef mestar áhyggjur af fyrir þetta tímabil. Núna eru væntingarnar miklu meiri og þeir koma ekki ferskari en allir aðrir inn í tímabilið öfugt við janúar í fyrra þegar þeir höfðu lítið spilað. Þetta er stóra tækifærið fyrir Sturridge til að sanna að hann sé alvöru leikmaður því hann hefur áður tekið svona kafla eins og seinni hluta síðasta tímabils. Coutinho gæti aðeins strögglað líka enda miklu meiri pressa á honum núna.

Hvað þriðja sóknarmanninn varðar þá getur Aspas ekki haft mikið minni áhrif á sóknarleikinn heldur en Downing gerði. Spurning hvernig hann tæklar varnarleikinn og vængspil Stoke en Aspas er vonandi bæting á Downing.

Bekkurinn segir okkur kannski einna mest hvað liðið var illa undirbúið í fyrsta leik í fyrra og ef við spilum vel á leikmannakarkaðnum síðustu daga opnunartímans gætum við mögulega sagt það sama að ári. Gegn WBA vorum við með Charlie Adam á bekknum sem fór í kjölfarið í stórkallabolta Tony Pulis hjá Stoke. Með honum var einnig Andy Carroll sem var lánaður til West Ham í andfótbolta Big Sam. Joe Cole var einnig á bekknum og hann er líka hjá West Ham núna. Ekki má svo gleyma Downing sem var í byrjunarliðinu, einnig hjá West Ham. Allir að spila fótbolta sem við viljum alls ekki sjá nokkrun mann spila hjá Liverpool…og henta líklega allir miklu betur í þá tegund fótbolta. Hinir voru Carragher, Henderson og Shelvey og raunar var þetta ekkert alsæmur bekkur.

Þannig að m.v. fyrsta leik í fyrra býst ég við sex breytingum í fyrsta leik í ár og að sjö stöður verði öðruvísi mannaðar. (Glen Johnson færi sig yfir). Þetta eru kannski ekki svo miklar breytingar ef við höfum í huga að Enrique var í meiddur í fyrra og Suarez er í banni í ár en þó nokkuð breytt lið fyrir því. Þökk sé janúarglugganum erum við með miklu betra lið núna en þá en einnig hefur tíminn vonandi unnið með okkur og þeir leikmenn sem við héldum eftir frá því í fyrra orðnir miklu betri og í betra standi.

Svona spái ég sem sagt að byrjunarliðið verði í fyrsta leik gegn Stoke:

LiverpoolSóknarsinnað 4-3-3 þar sem mesta áhyggjuefnið er hjálpin sem Johnson fær á kantinum. Persónulega myndi ég líklega byrja tímabilið aðeins varkárari og setja Henderson á kantinn fyrir Aspas en ég efast um að Rodgers sé sammála.

Þetta er lítil breyting og hvað þá bæting frá liðinu sem lauk leik á síðasta tímabili, ef þetta er þá betra lið. Mignolet, Toure og Aspas þurfa að fylla og helst bæta þau skörð sem Reina, Carragher og Downing skilja eftir sig. En þetta er miklu betur undirbúið lið og vonandi betra en byrjaði fyrsta leik á síðasta tímabili.

Agger er reyndar sagður vera tæpur á meiðslum og Martin Skrtel líka en vonum það besta og að a.m.k. Agger geti spilað þennan leik.

Andstæðingurinn.

Ef að við erum með fiðring í maganum fyrir fyrsta leik og óviss með framhaldið þá er það líklega ekki neitt m.v. andstæðinga okkar, Stoke City. Þetta verður gríðarlega stór dagur fyrir það félag því að loksins loksins eru þeir lausir undan stjórn og stíl Tony Pulis.

Stjóramál Stoke

Fáir hafa reynst Stoke betur í seinni tíð en sá sérstaki maður en það breytir því ekki að hans hugmyndir um knattspyrnu eru einhverjar þær leiðinlegustu í heiminum. Stoke er að mínu mati, öfugt við skoðun margra með ágætlega manna lið sem þeir hafa eytt slatta af pening í og það er aldrei að vita hvað þeir geta gert með því að leyfa þeim aðeins að spila fótbolta. Peter Coates er ekki hálfviti eins og t.d. eigendur Liverpool hafa verið undanfarin ár og ætlar ekkert að umbreyta liðinu á einni nóttu með því að taka hreina U-breygju en það er samt hellings breyting að skipta úr Tony Pulis yfir í Mark Hughes. Sá síðarnefndi hefur a.m.k. komið út fyrir Bretlandseyjar og meira að segja spilað á Spáni.

Aðdáendur Stoke ættu engu að síður að fara varlega í að fagna því að Pulis var látinn fara. Hann hafði komið á stöðugleika hjá Stoke sem hafði ekki sést marga áratugi á undan. Fá lið skiptu oftar um stjóra en Stoke árin áður en hann tók við og raunar var þetta í annað sinn sem hann var með liðið. En eyðimerkurganga Stoke í þjálfaramálum er rosaleg og hreint ótrúlega óspennandi. Skoðum bara þann tíma sem við höfum eitthvað fylgst með þeim.

1999 var Gary Megson stjóri Stoke í fjóra mánuði áður en þeir skiptu honum út fyrir stjóra sem er líklega ennþá meira out of date heldur en bæði Pulis og Megson, Guðjón Þórðarson. Gaui var með liðið í þrjú ár og eins og honum er von og vísa tókst honum að láta reka sig loksins þegar hann kom liðinu upp um deild (í næst efstu deild). Steve Cotterill tók við í fjóra mánuði árið 2002 áður en Tony Pulis tók við og lagði nánast bann á notkun íslenskra leikmanna. Hann var með liðið til 2005 er hann var rekinn eftir ósætti við Íslenska eigendur Stoke. Johan Boskamp tók þá við 2005 og var með liðið til 2006 er Peter Coates keypti klúbbinn og réði Tony Pulis aftur til félagsins. Hann hefur því verið hjá þeim síðan þá, kom þeim loksins upp í efstu deild og hefur haldið þeim þar. Einnig komst félagið í fyrsta skipti í sögunni í úrslit FA Cup en tapaði gegn Man City í þeim leik. Pulis verður því líklega ávallt fagnað í Stoke, en bara þar.

Mark Hughes

Eftirmaður Pulis er Mark Hughes og við sem höfum gullfiskaminni hlóum upphátt að þeirri ráðningu. Loksins þegar þeir losuðu sig við Pulis réðu þeir Hughes. Hann hefur ekki beint verið að gera góða hluti undanfarin ár en kannski ættum við aðeins að horfa betur yfir ferilinn hans og gefa honum smá kredit. Þetta er ekki eins vitlaus ráðning og maður hélt í fyrstu.

Hans fyrsta þjálfaraverkefni var landslið Wales, þar var hann frá 1999 til 2004 með viðunandi árangri þar til hann hætti til að taka við Blackburn þar sem stefnan var að forðast fall. Það gerði hann og tímabilið eftir fór Blackburn fram úr öllum væntingum og endaði í topp 6. Hann byggði upp gott lið hjá Blackburn og náði 10. og 7. sæti tímabilin á eftir og kom liðinu þrisvar í undanúrslit í bikarnum. Eitthvað sem hafði ekki gerst í 40 ár áður en hann tók við. Blackburn var líkamlega sterkt lið og neðst á öllum agalistum (brot, spjöld o.þ.h.) öll tímabilin fjögur sem hann var með Blackburn.

Sumarið 2008 var Hughes ráðinn af Taksin Shinawatra til Man City. Þar fékk hann að eyða pening í leikmenn eins og Kompany og Zabaleta. Liðið náði 10.sæti Umhverfið hjá þeim stökkbreyttist svo í 1.sept 2008 þegar Abu Dhabi tóku við og fóru á eyðslufyllerí. Hann fékk að halda áfram með liðið en var látinn fara í des 2009 með liðið í 6.sæti með leik til góða.

Sumarið 2010 tók Hughes við af Roy Hodgson hjá Fulham, þar tók hann eitt tímabil, náði 8.sæti og sagði upp að því loknu með þessum orðum “As a young, ambitious manager I wish to move on to further my experiences”

Hann var atvinnulaus í hálft ár og tók við sirkús Queens Park Rangers í janúar 2012 og ef við erum sanngjörn er vera hans hjá þeim eina ástæða þess að ráðning Hughes var tekið með þeim hætti sem hún var. Hjá QPR gjaldféll hann rosalega sem stjóri eftir að hafa náð að byggja aðeins ímynd sína upp hjá Fulham. Áður en hann tók við QPR hafði Hughes aldrei lent með sitt lið í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar og fyrir mér virkar Stoke sem betra lið og mun betur rekinn klúbbur en QPR. Því gæti ég vel trúað því að ef Hughes fær tíma þá nái hann alveg að gera ágæta hluti með Stoke. Hann stendur ekki fyrir neinum gæða fótbolta en a.m.k. mun skárri bolta en forveri hans í starfi bauð uppá. Þannig að ekki vanmeta Mark Hughes.

Hópurinn hjá Stoke.

Eins og ég hef áður sagt þá er Stoke ekkert með hræðilegt lið og að mínu mati eru þarna leikmenn sem réttur maður gætur alveg látið spila meiri fótbolta heldur en þeir voru að gera.

Þeir eru á einhvern ótrúlegan hátt með tvo af betri markmönnum Bretlandseyja á sínum snærum, Begovic og Butland sem er nýkominn frá Birmingham.

Líklega kemur Mark Muniesa í hægri bakvörðinn á einhverju stigi í vetur. Sá piltur sem er þó nokkuð efni sem hreinlega viltist til Stoke frá akademíu Barcelona. Bandaríkjamaðurinn Geoff Cameron var þó í hægri bak í síðasta æfingaleik fyrir mót. Hinumegin voru þeir að fá Hollenska landsliðsmanninn Erik Pieters. Hvernig þessi 25 ára landsliðsbakvörður var ekki eftirsóttari veit ég ekki en hann er a.m.k. kominn í lið Stoke og ætti að styrkja þá mikið.

Ryan Shawcross er einn af betri miðvörðum deildarinnar og hefur vaxið undanfarin ár. Reyndar hefur Stoke aðeins átt erfitt uppdráttar en ég efa ekki að hann verði lykilmaður hjá Hughes. Líklega er Bandaríkjamaðurinn Geoff Cameron með honum í miðverðinum en þeir eiga einnig menn eins og Robert Huth sem byrjaði hjá þeim í vikunni.

Á vinstri vængnum er Matthew Etherington líklegur til að vera á sínum stað. Hinumegin er búið að semja á ný við Pennant sem var gjörsamlega kominn í frost hjá Pulis. Michael Knightly var búinn að taka þá stöðu. Eins eiga þeir Johnatan Walters sem spilaði kantframherjann um daginn.

Á miðri miðjunni eru nokkrir leikmenn með reynslu af EPL og sumir þeirra voru meira að segja einu sinni ágætir. Við þekkjum Charlie Adam vel og líklega verður hann í stóru hlutverki hjá Hughes. Wilson Palacios var einu sinni talinn öflugur miðjumaður og hann er þarna ennþá. Jermaine Jenas er á mála hjá Stoke sem og Maurice Edu sem kom frá Rangers er þeir fóru á hausinn. Stephen N´Zonzi var einu sinni mikið efni líka. Glenn Whelan á svo 164 leiki í efstu deild og 50 með landsliði Íra.

Frammi eiga þeir menn eins og Crouch, Kewayne Jones, Johnatan Walters og Cameron Jerome. Engin flugeldasýning en allt menn með mikla reynslu af EPL og tilbúnir í líkamleg átök sem Hughes fer fram á líkt og forveri sinn.

Svona var byrjunarliðið hjá þeim í síðasta leik fyrir mót, óvíst hvort það verði nákvæmlega svona gegn Liverpool en a.m.k. mjög nálægt því.

Stoke

Bekkurinn var svona: Sorensen, Muniesa, Whelan, Pennant, Jones, Wilson, Kightly, Wilkinson, Shotton, Jerome, Cuvelier.

Ég verð að viðurkenna að það kemur mér á óvart hversu margir spá Stoke falli í ár og satt að segja er ég vel hræddur fyrir þennan leik, ég hata Stoke leikina af ástríðu. Þar sem saga Liverpool í opnunarleik tímabilsins er ekkert of glæsileg þá fagnaði ég því ekki að mæta Stoke á þessum degi væntinga.

Vonandi er þetta samt góður tími til að mæta þeim, en eins og ég segi, bara m.v. þetta byrjunarlið (og bekk) þá hef ég alveg séð verri hópa hjá EPL liðum. Þá skortir a.m.k. alls ekki reynslu sem gæti verið forskot sem þeir hafa á okkur í fyrsta leik.

Spá: 

Síðast þegar Liverpool vann leik á opnunardegi tímabilsins var árið 2008 gegn Sunderland. Við áttum að endurtaka leikinn 2011 er við skutum í slá og glopruðum víti í 1-1 jafntefli á Anfield. Gáfulegast væri líklega að veðja á jafntefli en við nennum ekki svoleiðis og því ætla ég að gerast svo djarfur að segja 1-0 fyrir Liverpool með marki frá Sturridge.  Það í alveg agalega leiðinlegum leik.

35 Comments

 1. Geggjud upphitun… Takk fyrir!

  Get ekki bedid, motid er ad f*** byrja!

  Bannad ad minnast a Suarez fyrir thennan leik!!!

 2. Andskotinn. Ég var bara nokkuð fullur tilhlökkunar áður en ég las þetta stöðumat þitt á Stoke, Babú. Nú er ég varla viss um að ég þori að horfa á leikinn.

  Þetta bara verður að vinnast, gefa tóninn fyrir haustið. Ég gjörsamlega nenni ekki að byrja enn eitt tímabilið á afturendanum, í fallsætunum eftir nokkrar umferðir.

  Spái okkur 2-0 sigri. Er þó skíthræddur við 0-2 tap. Djöfulsins Stoke.

 3. Babú bara með flugeldasýningu í fyrstu upphitun vetrarins, snilldar upphitun og eg var svo sem að kafna úr spennu fyrir en þetta eykur hana bara…

  Stoke er aldrei að fara falla, 10-15 sæti spái ég.

  Ég er drullufucking sktísmeykur við þennan leik og sé hann alveg enda með jafntefli eða eins marks tapi þar sem stoke á eitt skot á rammann en við 31 en allt slíkt má bara ekki gerast.

  Ég og við allir megum ekki við neinu öðru en þrem stigum í hús og ég ætla að spá 2-0 þar sem Gerrard opnar þetta og Sturridge með annað markið…

  Arrggg hvað eg er orðinn suddalega spenntur, samt pirrandi að vera í hádeginu, hefði verið meira gaman að vera kl 14 eða 16,30 en kannski er bara ágætt að tylla sér á topp deildarinnar strax um kl 14 a laugardag og horfa svo á hina leikina pollslakur og brosandi i sófanum….

 4. geðveik upphitun hjá þér svakalega verður þetta æðisleg skemmtun rétt merjum þetta 1-0 steve g með markið úr vít´´i!

 5. Vonandi muna menn það sem við sögðum brjáluð eftir síðasta leik gegn Stoke. Menn verða að mæta í þennan leik tilbúnir til að BERJAST. Við vinnum þennan leik ekki á einhverju sóknartikitakakjaftæði. Þetta er spurning um að fara 100% í alla bolta og éta þessa nagla í Stoke. Við getum spilað fallegan bolta seinna en núna gildir ekkert annað en harkan!

 6. Ætla að vera hóflega bjartsýnn og spá okkur 3-1 sigri. Coutinho, Toure og Aspas með mörkin á meðan Adam setur eina neglu í andlitið á Kop.

  Bring it on!

 7. Við tökum þetta 4 0 en þetta verður erfið fæðin og fyrsta markið kemur i seinni halfleik

  Hvar a höfuðborgarsvæðinu ætla liverpool menn að hittast og horfa a leikinn

 8. Mikið rosalega er Suarez sjafsag sáttur að spila ekki þennan leik, miðað við meðferina a honum i fyrra

 9. Djöfulsins upphitun er þetta hjá Babú …

  … og setur tóninn fyrir hina pistlahöfundana varðandi upphitanir tímabilsins …

  🙂

  Teningunum hefur verið kastað!

  Homer

 10. Ég held að við byrjum tímabilið á rólegu nótunum – 6-0 (Coutinho 3, Aspas, Johnson, Gerrard)

 11. þetta verður erfiður leikur ekki auðvelt að byrja á móti Stoke sömu tuddarnir í vörninni Huth og Showcross suicidal,ekki mörg mörk held ég vonandi 2-0 fyrir okkur en það þýðir ekkert annað en að mæta Stoke með hörku og vera fyrri á boltann. Getur einhver svarað þeirri spurningu af hverju eru Spurs alltaf að koma inn í málið þegar við sýnum áhuga á eða erum orðaðir við einhvern leikmann?

 12. Ein spurning. Hvaða þrjú nöfn voru í umslaginu hjá Brendan? Hefur það nokkurn tímann verið uppljóstrað?

 13. 0-16 stoke í hag. .það hefur virkað ágætlega að vera smá svartsýnn. ..tek undir með öðrum djöfulsins stoke….nei ég held að þeir séu hættir að spila þennan bolta..og þá erum við að fara rústa þessu..aspas með 2 og gerrard með eitt af 33 metrum og sínir suarez hvernig á að gera þetta á meðan hann situr með fýlusvip í stúkunni. ..er það ekki…usss..þetta verður gaman..;)

 14. Eiríkur (#14) segir:

  Ein spurning. Hvaða þrjú nöfn voru í umslaginu hjá Brendan? Hefur það nokkurn tímann verið uppljóstrað?

  Downing, Reina og Shelvey.

  Nei annars hef ég ekki hugmynd. Mig minnir að ég hafi lesið einhvers staðar að Rodgers sagði að umslögin hefðu verið tóm, þetta hafi bara verið taktík til að mótívera mannskapinn. Er ekki viss, samt. Kannski dreymdi mig það bara.

 15. Svo er það spurningin hvort stuðningsmenn Liverpool á Anfield munu ættleiða hvatningslagið sem Mignolet var með hjá Sunderland…

 16. Ég er að deyja úr spenningi og ég hef ekki sofið í þrjá daga 😀 En Strákar ég er með Sturridge sem Captain í Fantasy er eitthvað vit í því eða?

 17. Ég er að spá, vitiði um einhverja síðu sem maður getur horft á leiki fljótlega eftir að þeir eru búnir ef maður getur ekki horft á leikinn LIVE?

 18. Afsakið þráðránið en fyrir þá sem ætla sér að kaupa áskrift hjá 365 að enska boltanum, þá bendi ég á að það er ódýrara að fara 38 sinnum á pöbbinn í vetur og eyða tvö þúsund og fimm hundruð kalli í hvert skipti.

 19. Helgi #22. Ég er ekki alveg svo viss um að þú sért að reikna dæmið rétt þar sem miðað við þína útreikninga væriru að eyða 95þ með því að fara á barinn ef þú ætlar að horfa á alla deildarleikina. Ef þú bætir síðan bikar og deildarbikar inní þetta þá ertu kominn um eða yfir 100þ

 20. Snilldar upphitun, gaman að fá svona dekurmeðferð frá ykkur snillingunum og gerir þennan vetur ennþá skemmtilegra.

  Það sem ég óttast í þessum leik er að Stoke muni liggja mjög aftarlega og drepa allt spil niður og vona að Liverpool menn fari á taugum.
  Það hefur alltaf reynst okkur illa ef við komum ekki inn marki snemma þannig að það er gríðarlega mikilvægt að setja tóninn í þennan leik og gefa allt í byrjum og negla inn marki snemma og þá tökum við þetta.

  Og mikið agalega er gott að vera kominn með gervihnattadisk (HD) þetta árið eftir að vera búinn að streama leiki seinustu 3 ár eða svo.

 21. Sko, að fá gamla Tony Pulis Stoke í fyrsta leik er martröð og þannig leikur er aldrei að fara að vinnast. Í besta falli jafntefli og svoleiðis leikur spilast alltaf þannig að Liverpool er með 87% possession og 300+ marktilraunir án þess að vinna leikinn, það er bara þannig.

  En Mark Hughes Stoke er vonandi ekki það sama og guð hvað væri nú gaman að vera ekki farin að spá í leikmannaglugganum í Janúar strax í Ágúst, svona einu sinni.

  Tilfinninginn fyrir þessum leik er samt að þetta verði erfitt og ekki 3 stig.

 22. Sælir

  Ég er mjög spenntur fyrir þessu tímabili. Á síðasta tímabili þá byrjuðum við illa en núna er Rodgers búinn að finna taktinn. Við getum því gert á fullu gasi frá byrjun.

  Við vorum í fjóðra sæti yfir þau lið sem skorðuðu flest mörk í fyrra. Núna er það að laga vörnina og við rjúkum upp töfluna.

  Það sem ég er mest spenntur fyrir er að við töpuðum c.a. 2 leikjum fleiri en keppninautar okkar. Við gerðum 13 jafntefli! Það þýðir að okkur vantar herslumuninn að gera betur. Minnkum jafnteflinn um helming og þá fáum við 14 fleiri stigum. Sem þýðir14 stig og þá hefðum við náð Arsenal sem var með 73 stig í fjórða sætinu í fyrra. Við enduðum með 14.

  Við lendum í sæti 1-6.

 23. Sælir félagar

  Þetta er allsvakaleg upphitun hjá Babu en bölsýnin er of mikil. Ég er með góða tilfinningu fyrir þessum leik og segi eins og Loftur#6 3 – 1 án þess að ákveða hverjir skora.

  Það er nú þannig

  YNWA

 24. líkleg byrjunarlið á morgun… og við vinnum þetta 2 – 0

  Liverpool

  Migolet
  Johnson – Toure – Agger – Enrique
  Leiva – Henderson
  Aspas – Gerrard – Coutinho
  Sturridge

  Stoke

  Becovic
  Pieters – Huth – Showcross – Cameron
  Etherington – N´Zonsi – Adam – Muniessa
  Crouch – Jones

  Áfram LIVERPOOL… YNWA…

 25. Það gekk nú yfirleitt best að spá illa í fyrra, best að halda því bara áfram. Segi 0-1, Huth með markið eftir hornspyrnu frá Charlie Adam. 65% possession og 20 skot á mark frá okkur.

 26. Fékk martröð í nótt þar sem var tekinn ákvörðun um að rekstur á okkar ástkæra liði yrði hætt. Það var mikil umfjöllun til hvaða liða leikmenn Liverpool myndu fara til og ég velti mikið fyrir mér hvaða öðru liði ég gæti hugsamlega séð mig fært um að halda með eða hvort ég ætti bara segja þetta gott og snúa mér að öðrum áhugamálum.

  Í dag hef ég ekki yfir neinu að kvarta. Ætla bara að njóta þess að horfa á leikinn á eftir:)

  Áfram Liverpool.

 27. Rosa fín upphitun en ég vil sjá Luis Alberto í stað Allen en kannski er allen orðin fínn í dag. Við tökum þetta strákar, hef ansi sterka tilfinningu fyrir því, 3-1.

 28. Hver þarf bók, þegar svona flottar upphitanir koma hér viku eftir viku? svo bara takk fyrir 🙂

  En er svona semí bjartsýnn á að það takist að landa 3 stigum þrátt fyrir ömurlegan fótboltaleik.

  Já og Bond (24) það væri snilld ef þú seigðir okkur meira frá hvaða áskrift þú ert með og kostnað

 29. Þá er liðið komið…

  The Reds team in full is: Mignolet, Enrique, Agger, Toure, Johnson, Gerrard, Lucas, Henderson, Aspas, Coutinho, Sturridge.

  Substitutes: Jones, Wisdom, Allen, Alberto, Ibe, Sterling, Borini.

 30. fínn fyrri hálfleikur, fullt af færum og liðið að spila bara vel á móti Stoke.
  Nú er bara að halda áfram í síðari hálfleik og klára þessi færi sem við erum að fá.

Áminning: allt að fyllast í ferðina!

Liverpool hefja viðræður um kaup á Willian