Vangaveltur um FSG

Fyrir tæplega þremur árum vorum við mikið að velta því fyrir okkur hvernig eigendur við vildum fá hjá Liverpool. Að losna við þáverandi eigendur var augljóslega forgangsatriði og flest vildum við fá eigendur sem myndu reka félagið með þeim hætti að það stæði undir sér og að leikmannasölur og rekstrartekjur færu aftur í leikmannakaup. Engin krafa á vafasama milljarðamæringa með botnlausar fjárhirslur eða slíkt.

 

Mig langar aðeins að skoða hvort að við fengum ekki nokkurnvegin það sem við vorum að óska eftir í október 2010 og eins skoða aðeins samkeppnina. Þeim virðist hafa fjölgað hratt liðunum með moldríka eigendur sem gera samkeppnina harðari og það er erfitt að meta stöðu Liverpool, hveitibrauðsdagar FSG eru a.m.k. á enda og skiptar skoðanir um það hvernig þeir eru að standa sig.

Til að byrja með held ég að það sé ágætt að hafa í huga að Gillett og Hicks áttu Liverpool í 3,5 ár, stóðu nánast ekki við orð af því sem þeir lofuðu og félagið hrapaði frá því að fara aftur í úrslit meistaradeildarinnar niður í það að verða nánast gjaldþrota, hrikaleg vonbrigði á þremur árum svo afskaplega vægt sé til orða tekið. FSG hafa núna átt liðið í tæplega þrjú ár og það er ekki hægt að líkja þeim saman við tíma H&G. Salan gekk í gegn á síðustu stundu (fyrir gjaldþrot) og var vel fagnað af öllum púllurum þó vissulega hafi FSG (þá NESV) verið tekið með varúð.

Kristján Atli tók þetta saman í lok þessa stóra dags og punktaði niður helstu kröfur stuðningsmanna Liverpool til FSG. Ég ætla að skoða stöðuna núna tæplega þremur árum seinna aðeins út frá þessum punktum Kristjáns og eins út frá svörum John W Henry frá 30.okt 2010 er hann svaraði spurningum lesenda RAWK.

Svona lýsti Kristján skoðun sinni á komu NESV (FSG í dag) og talaði a.m.k. fyrr mig líka:

Það er hins vegar alveg ljóst að þótt þetta fyrirtæki líti talsvert betur út á pappír en fráfarandi eigendur að þá munu stuðningsmenn Liverpool engu treysta. Í dag fögnuðum við því að vera laus við Hicks og Gillett en tókum jafnframt á móti NESV með varkárni og vantrausti. Þeir þurfa að öðlast traust okkar og ólíkt fyrri eigendum, sem héldu að það væri nóg að lofa upp í ermina á sér, þá virðast þessir menn átta sig á að það eru verkin sem tala hæstri röddu, allavega ef eitthvað er að marka viðtöl við Henry í dag þar sem hann ítrekaði hvað eftir annað að hann vildi engu lofa heldur bað fólk bara að dæma þá félaga í NESV af verkum sínum á komandi mánuðum og árum

Því næst listaði Kristján upp hvað það væri sem við helst væntum af nýjum eigendum.

Fyrst, að skuldsetja klúbbinn ekki eins og fráfarandi eigendur gerðu. Afborganir af lánum til Royal Bank of Scotland voru orðnar svo háar að þótt klúbburinn sjálfur væri í góðum rekstri og skilaði hagnaði hvarf sá hagnaður, og undir það síðasta leikmannasölur líka, inn í skuldasúpuna í stað þess að fara í að styrkja liðið. Með yfirtökunni í dag borguðu NESV upp lánið til RBS og er Liverpool FC því í dag skuldlaus klúbbur, fyrir utan eðlilega rekstrarrisnu. Eina loforðið sem Henry gaf fréttamönnum í dag var að hann myndi ekki skuldsetja félagið vegna yfirtökunnar og honum er hollara að standa við þau orð.

Henry sagði stuttu seinna við RAWK að  ekki stæði til að skuldsetja félagið en það bæri eðlileg lán vegna leikvangsins. Þeir blanda ekki saman rekstri félagsins og byggingu nýs leikvangs og eins og flestir vita er búið að eyða töluverðum aur í undirbúning fyrir breytingar eða byggingu á heimavelli Liverpool. Svar Henry var svona:

4. How have NESV funded the £300m acquisition?
This simple answer is that we paid cash for LFC and left £37 million of stadium debt in place – even though there is no stadium in place – just a lot of expensive plans etc. We view stadiums as separate from clubs. They are separate entities.

 

We have some very successful partners – some of whom are big EPL fans – and we are well-financed internally. But NESV has always had debt from the first day we purchased the Red Sox. We have some partners who look at Internal Rate of Return and almost demand that we have debt as a consequence. Debt increases IRR.

Enn sem komið er hefur félaginu ekki verið steypt í viðlíka skuldir og fyrri eigendur afrekuðu, sala á leikmönnum virðist fara í að kaupa nýja leikmenn og ef við getum treyst því sem sagt er þá er verið að vinna hörðum höndum við undirbúning þess að stækka Anfield þannig að hann fari að skila töluvert meiri tekjum. Það var líka næsti punktur Kristjáns Atla daginn sem FSG keypti félagið.

Í öðru lagi er mikilvægasta mál félagsins til framtíðar þróun heimavallarins. Það er óljóst hvað þeir ætlast fyrir, hvort þeir vilja byggja nýjan völl eða þróa Anfield og ég efast um að þeir séu búnir að ákveða það sjálfir svo snemma í ferlinu. Það var óvinsæl ákvörðun hjá þeim á sínum tíma að þróa Fenway Park, heimavöll Red Sox, í stað þess að byggja nýjan völl en útkoman var glæsileg og félaginu til sóma. Þá jók það enn á vinsældir þeirra að halda í sögu Fenway Park sem er tilfinningalega tengdur aðdáendum félagsins, á svipaðan hátt og við tengjumst Anfield öll tilfinningaböndum. Ef þeir geta þróað Anfield með einhverjum hætti svo úr verði fornfrægur völlur sem bæði hýsir frægustu stúku í heimi, ótrúlega sögu og um leið mikið af VIP-boxum og allavega 60 þúsund áhorfendur held ég að fáir muni kvarta. Það verður spennandi að fylgjast með hvaða leið þeir velja að fara í þessum málum.

Öfugt við fyrri eigendur var ekki lofað því að hafist yrði handa innan 60 daga við gerð nýs heimavallar. Þeir sögðust strax frá upphafi ætla að skoða málið mjög vel og virðast i dag hafa tekið ákvörðun um að stækka Anfield og eru að vinna að því að koma því verki af stað. Það er einfaldlega of snemmt að dæma FSG fyrir “aðgerðarleysi” hvað þetta mál varðar þó vissulega sé farið að lengja verulega eftir nýjum eða verulega endurbættum velli. Þeir sögðu frá því 2010 að þeir væru hérna til lengri tíma og völlurinn er vonandi ennþá ofarlega á “to do” listanum.

9. Liverpool FC needs a sustained period of stability. Liverpool supporters will be patient as long as we can sense that we are moving in the right direction. How long are you planning on staying? Are we a long-term (10 years+) or a shorter term project?
Long-term. Everything we do is for the long-term.

Kristján Atli hélt áfram í pistli sínum frá 15.okt 2010

Í þriðja lagi er, eins og hefur bersýnilega komið í ljós á fyrstu mánuðum tímabilsins, algjörlega nauðsynlegt að styrkja leikmannahópinn strax í janúar og áfram í næstu leikmannagluggum þar á eftir. Þegar Hicks og Gillett tóku við liðinu var það skammt frá toppi ensku deildarinnar og á leið í úrslit Meistaradeildarinnar í annað sinn á þremur árum en þökk sé skuldsetningu þeirra hrapaði liðið frá því að vera með tindinn í augsýn og liggur nú ökklabrotið og súrefnislaust við grunnbúðirnar. Hér bíður mikið verk nýju eigendanna og einn stærsti þáttur þessa verks verður eflaust að skoða gengi liðsins á næstu vikum og ákveða hvort þeir treysta Roy Hodgson eða einhverjum öðrum fyrir því verki að koma Liverpool FC aftur á toppinn.

Þetta var heldur betur gert og stórar ákvarðanir teknar sem reyndar höfðu því miður þær afleiðingar að aðeins var farið rólegar í skakirnar sumarið 2012. Salan á Torres losaði um mikinn pening sem og salan á Babel. Báðir voru á góðum launum. Fyrir þá komu Suarez og Carroll á einum ótrúlegasta lokadegi félagsskiptagluggans frá upphafi og allt var gert til að fá Charlie Adam líka en tókst ekki. Þarna var búið að reka Hodgson loksins og ráða Dalglish í hans stað. Sumarið eftir var losað burt hellling af vonlausum leikmönnum á vondum samningum og fengið í staðin unga leikmenn sem þjálfarateymið óskaði eftir eða menn með reynslu af EPL. Fyrir peninga sem við höfum ekki oft séð Liverpool eyða.

Það hjálpaði FSG vissulega ekki að þekkja fótbolta svona lítið og þeir skiptu ansi fljótt um stefnu þegar þeir gáfust upp á Comolli og Dalglsih en maðurinn sem þeir fengu í staðin er líklega mun nær því að vera sá sem þeir vildu fá til liðsins til að byrja með. Ungur maður með ferskar hugmyndir, hungraður í að sanna sig og mjög viljugur í að vinna með og móta unga leikmenn.

Tíminn sem það tók að losna við Hodgson var mjög pirrandi, þeir voru greinilega ekki tilbúnir í að taka ákvarðanir eins og að skipta um stjóra strax og þeir tóku við.  Það tafði allt ferlið og var einnig mjög pirrandi þegar Dalglish var látinn fara og mest allt starfslið Liverpool sem gerði það að verkum að við vorum svolítið að byrja frá grunni í fyrrasumar, enn eina helvítis ferðina. En það er ekki hægt að dæma um það strax hvort það var til góða fyrir framtíðina. Þeir eru engu að síður á síðasta séns hvað þetta varðar, það gengur ekki lengur að skipta um stenfu án þess að bakka nýjan mann upp fyrir alvöru. Liðin sem við erum á eftir eru öll að styrkja sig verulega.

Að lokum sagði Kristján Atli þetta um væntingar sínar til nýrra eigenda

Þetta eru helstu verkefnin, í mjög einfölduðu máli, sem bíða nýrra eigenda en þó er vert að minnast á eina kröfu sem ég geri til þeirra og vona að sem flestir séu því sammála. Í fleiri áratugi var það háttur Liverpool FC að sinna sínum málum á virðingarverðan hátt. Mál voru leyst innandyra en ekki viðruð í fjölmiðlum og klúbburinn var þekktur sem virtasta stofnun enskrar knattspyrnu. Frá og með haustinu 2007 fór þessi virðing út um gluggann og síðan þá höfum við mátt búa við endalaus rifrildi og pólitískar árásir fyrir opnum dyrum á milli eigenda, stjórnarmanna og knattspyrnustjóra. Ég vona innilega að nýir eigendur og nýr knattspyrnustjóri – hvort sem hann heitir Roy Hodgson eða eitthvað annað – geti unnið saman að því að gera Liverpool FC aftur að ekki bara sigursælu knattspyrnuliði heldur virtri knattspyrnustofnun.

FSG hafa fengið ansi erfið mál á sitt borð síðan þeir keyptu félagið og menn með misjafnar skoðanir um þeirra meðhöndlun á þeim en við getum líklega öll verið sammála um að þeir eru ekkert að tala mikið af sér í fjölmiðlum og allir hjá félaginu nokkuð samstíga. Það lekur nánast ekki neitt frá þeim nema þeir vilji það og m.v. fyrri eigendur er þetta eins og að bera saman enskt götudagblað og félagsrit frímúrarareglunnar. Þetta er miklu nær fyrri vinnubrögðum Liverpool.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af varðandi FSG er traust þeirra á Financial Fair Play. Þeir sögðu alveg frá upphafi að það væri lykilþáttur í að þeir keyptu félagið og sáu fram á að geta vel keppt við alla aðra undir þeim leikreglum. Sérstaklega hefur maður áhyggjur nú þegar nýr milljarðamæringur kaupir sig inn í fótboltann í hverjum leikmannaglugga og upphæðirnar sem fara í leikmannakaup hækka og hækka. Liverpool er nú þegar töluvert langt á eftir helstu keppinautum sínum þegar kemur rekstrartekjum og það er ekkert að fara breytast ef liðið heldur áfram að berjast um 7.sætið og spila í Europa League (eða ekki eins og núna). Þegar Gillett og Hicks keyptu liðið vorum við að keppa um alla titla og oftar en ekki í úrslitum þeirra keppna sem við tókum þátt. Þeir áttu að koma með þann pening sem þurfti til að taka Liverpool á næsta skref, byggja nýjan völl og bæta leikmannahópinn.

Hugmyndafræði FSG er fín og þeir virðast kunna að reka fyrirtæki og eru að sækja á nýja markaði sem Liverpool hefur á glæpsamlegan hátt vanrækt allt of lengi. En eru þeir fyrir utan það að gera mikið meira en David Moores var að gera? Hann var þó gallharður stuðningsmaður og hafði vit á fótbolta. Félagið var alveg skuldugt undir hans stjórn og hann sá ekki fram á að geta tekið þátt í leiknum með Roman og byggt nýjan völl en félagið stóð alveg undir sér í rekstri og var að kaupa góða leikmenn og keppa um titla. (ATH: ég er ekki að fullyrða neitt bara velta þessu upp).

Svona listaði Henry upp hestu markmiðum þeirra til framtíðar.

8. All of the questions I would want answered are to do with things he really needs to reflect on awhile. I’d be interested at this stage however, to know what his five key milestones for the next three years would be.
We are focused on getting the club positioned to win trophies within the Financial Fair Play rules that are being imposed next year. That means off the field we are intent on increasing LFC revenues worldwide. On the field we have to be smarter. Arsenal and ManU have depth that is young and capable. We do not. We have a lot of work to do there. A lot of work. And we will, but we have to be smart about it.

Þarna talar hann um að auka tekjurnar á heimsvísu og líklega er það takmark að takast. Eins nefnir hann að vera snjallari en andstæðingurinn og kaupa unga leikmenn sem geta orðið stjörnur. Hann nefnir bara Arsenal og United en núna þremur árum seinna erum við einnig að lenda fyrir neðan Everton, Tottenham, Chelsea og City og virðumst ekkert vera að nálgast þau lið, nema síður sé.

Financial Fair Play er eitthvað sem menn brosa af þegar það er talað um það og þetta ætti að vera töluvert áhyggjuefni fyrir okkur Púllara og ég myndi alls ekki útiloka að FSG sé til í að selja félagið þó þeir þverneiti fyrir það núna. FFP var lykilforsenda fyrir því að þeir keyptu Liverpool og höfðu trú á því að þeir gætu keppt um titla. Á móti kemur þá held ég að Liverpool sé rekið undir þeir takmörkunum sem FFP á að setja á lið. Við erum ekki að kaupa mikið nema fyrir þann pening sem fæst fyrir sölu á leikmönnum eða er sparaður í launaskostnaði. Eftir síðasta sumar hefði maður haldið að félagið hafi sparað það mikið í launum og fengið það mikið úr sölu leikmanna að hægt væri að kaupa stór nöfn og gera mun betri atlögu á næsta tímabili. Glugginn er ekki ennþá lokaður en enn sem komið er ekkert svoleiðist nafn komið til Liverpool. Frekar virðumst við vera nær því að missa einu alvöru stjörnuna (ef við teljum Gerrard ekki með) frekar en að bæta þeim 2-3 við sem við þurfum. Tala nú ekki um ef við seljum okkar besta mann til liðs fyrir ofan okkur.

Vonandi eru þetta óþarfa áhyggjur og við of óþolinmóð. FSG hafa átt félagið í tæplega þrjú ár sem er ekkert gríðarlega mikið og það má ekki gleyma því hvað beið þeirra eftir að kaupin voru frágengin. Liðið er mun heilsusamlegra í rekstri í dag og maður sér gríðarlegan mun á efnivið sem líklegur er til að stíga upp á næstu árum frekar en allar ofborguðu fallandi stjörnurnar sem voru hjá Liverpool þegar þeir tóku við. Svo við berum ekki sama fótboltan sem við spilum í dag m.v. þann sem var í boði hjá Hodgson.

Ég vona innilega að FSG sýni mátt sinn fyrir lok þessa glugga og að við sjáum stórbætt Liverpool lið frá síðasta tímabili, rétt eins og búið er að lofa. Það er skýlaus krafa ef við ætlum að koma liðinu eitthvað uppá við á næstu árum. Ég er eins og fyrir þremur árum meira hrifinn af FSG módelinu þegar kemur að því að reka knattspyrnufélag frekar en með vafasömu olíugróða a la DIC eða Yaya Kirdi pizzatrúð við stýrið eins og við vorum farin að sjá fram á 2010. FSG hefur ekkert verið að svíkja neitt af því sem þeir sögðu strax í upphafi og eru ennþá alveg ágætlega á áætlun. En núna er líka kominn tími á að taka 2-3 skref uppávið.

Samkeppnin er a.m.k. alls ekkert að fara minnka nema síður sé. Öll liðin sem enduðu fyrir ofan okkur eru líkleg til að styrkja sig verulega og við erum nú þegar komnir í þá óvanalegu stöðu að Arsenal telur sig geta keypt okkar besta leikmann.

Hér er hægt að sjá óformlegan Wikipedia lista yfir eigendur í enska boltanum. Þarna er auðvitað ekki hægt að sjá mjög ítarlegar upplýsingar um þessa menn né hvað þeir eru að setja í liðin sín en það er a.m.k. ljóst að FSG virðast ekki vera neinir stórlaxar á heimsvísu. Þó ber að hafa í huga að þetta eru margir eigendur og einkafélag sem gefur ekki upp fjárhagsupplýsingar eins og t.d. fótboltafélög gera. Þeir gætu verið sterkari en við gerum okkur grein fyrir en það er a.m.k. ljóst að þeir eru ekki mikið að setja pening í leikmannakaup aukalega við það sem fæst úr leikmannasölum eða öðrum rekstrartekjum.

Markmiðið hjá mér upphaflega var að skoða andstæðinginn betur og hvað þeir eru að gera á markaðnum bæði á Englandi og í Evrópu. Læt það kannski bíða betri tíma en skoðum þetta þó aðeins.

Fyrir það fyrsta er Liverpool komið í samkeppni við miklu fleiri lið um leikmenn en áður og lið sem við gátum áður keypt leikmenn af tala hálfpartinn niður til okkar, oftast í krafti yfirburðarstöðu heimafyrir og áskriftar af meistaradeildinni.

Eftir að enska úrvalsdeildin gekk frá nýjum og risastórum sjónvarpssamning hafa lið eins og Swansea, Southamton og Norwich svo dæmi sé tekið látið til sín taka á markaðnum og fengið leikmenn sem annars voru orðaðir við stærri lið. Wanyama og Bony sem dæmi. Sama má segja um önnur lið í úrvalsdeildinni.

Tottenham hefur ávallt selt sína bestu menn á toppverði og notað peninginn vel til að fylla í skarðið. Núna hafa þeir mjög gott lið sem þeir hafa bætt verulega við í sumar, ungan og mjög öflugan stjóra sem er líklegur til frekari afreka og leikmann sem getur verið þeirra x factor í vetur eða skilað þeim met fjárhæð í kassann verði hann seldur. Eins og staðan er núna er Liverpool ekki einu sinni líklegt til að ná Spurs.

Everton er í öllu erfiðari málum og þeim eigum við að ná og það afgerandi. Áhrif þess að skipta um stjóra eiga alveg eftir að koma í ljós. Martinez er óskrifað blað með stærra lið en Wigan og hann er mikil breyting frá Moyes sem náði ávallt góðum árangri með Everton m.v. fjárráð. Þeir þurfa eins og við að vera snjallari en keppinautarnir á leikmannamarkaðnum.

Arsenal virðast vera langt komnir með að borga fyrir nýjan og glæsilegan völl sem skilar þeim gríðarlegum tekjum á hverjum leikdegi. Nánast helmingi meiri tekjum en Anfield skilar Liverpool. Það er gríðarlegt forskot sem þeir hafa þar á t.d. Liverpool og núna loksins virðast þeir vera tilbúnir að spenna bogan aðeins hærra þegar kemur að leikmannakaupum og launum. Tilboð þeirra í Suarez kemur reyndar svolítið eins og þruma úr heiðskýru lofti og fyrst hélt maður að þetta væri sýndarmennska fyrir áhorfendur til að sýna að félagið gæti alveg barist um bestu bitana en annað hefur komið á daginn. Það má ekki gleyma að þeir eru með fáránlega auðuga menn á bak við sig sem gætu vel breytt Arsenal á næstu árum Kronkite sem á ráðandi hlut er talinn vera þrisvar sinnum auðugri heldur en t.d. John W Henry og Usmanov sem einnig á ráðandi hlut í félaginu er ríkasti maður Rússlands. Það gerir hann t.d. töluvert ríkari en Roman eiganda Chelsea!

Chelsea eru komnir með Mourinho aftur og eins og alltaf þegar hann tekur við liði fær hann óútfylltan tékka til að kaupa leikmenn. Hann tekur núna við gríðarlega góðu liði sem búið er að eyða háum fjárhæðum í undanfarin ár og ljóst að hann er að fara bæta við þann hóp áfram.

Man United er auðvitað spurningarmerki eftir stjóraskiptin en þó líklega það vel smurð vél að þeir halda áfram í baráttunni um toppsætið. Það er engu að síður mikið verk hjá Moyes að taka við af Ferguson og ekki má gleyma því að einhverjir lykilmenn eru komnir á aldur eða hættir. (Giggs, Scholes, Ferdinand). Það er talað um að Moyes fái um 100m til að eyða í leikmenn og hafa þeir nú þegar verið orðaðir við Fabregas og Bale í sumar. Svoleiðis leikmenn gætu enn frekar stimplað United í toppbaráttuna því fyrir er liðið með hóp sem hefur alltaf verið í annaðhvort efsta sæti eða öðru sæti.

Svo er það samkeppnin um leikmenn frá Evrópu sem hjálpar ekki. Okkar helsta skotmark fór til Dortmund sem hingað til hefur lítið sem ekkert eytt í leikmenn en eru nú komnir í baráttuna. Bayern fá þá sem þeir vilja og keppa ekki í sömu deild og Liverpool. Á Ítalíu eru Juventus og Napoli helst að eyða peningum. Bæði Madrídar liðin eiga nóg af peningum í sumar og hafa bæði selt dýra sóknarmenn. Barcelona eru búnir að kaupa heitasta bitann á markaðnum. Monaco og PSG í Frakklandi eru að bjóða upphæðir í leikmenn sem enginn ræður við og líklega eigum við eftir að sjá fáránlega ríku liðin í Rússlandi láta eitthvað til sín taka í sumar. Porto á nóg af pening líka og er áltitin góður stökkpallur fyrir leikmenn frá t.d. Brasilíu.

Það kemur að öðru vandamáli fyrir Liverpool og ensk lið, eignarhald á leikmönnum. Það eru ekki sömu reglur í evrópu um þetta mál sem er fáránlegt. Flest stóru nöfnin í Brasilíu eru í eigu þriðja aðila en slíkt er bannað t.d. í Englandi eftir vandamál West Ham með Tevez og Mascherano. Það er því mun skárra fyrir eigendur 20-24 ára gamals leikmanns að hann fari til liðs sem leyfir eignarhald þriðja aðila og eiga hann þar til hann er kominn í hámarksvirði. Það er t.a.m. talið að Falcao hafi ekkert haft allt með það að segja sjálfur hvort hann færi til Monaco, þeir buðu fjárhæð sem ekki var hægt að neita.

Ofan á þetta telja lið eins og Shaktar og Ajax það ekki gott fyrir leikmenn sína að fara frá þeim til liða eins og Liverpool og Tottenham.

Þannig að það er ljóst að FSG er bara rétt búið með grunnbúðir og nú er næsta verk að hlaupa upp í næstu búðir og helst stoppa ekki þar heldur halda áfram upp fjallið. Því meiri tími sem við eyðum í meðalmennsku því stærra verður bilið. Meistaradeildin er eins og við höfum séð í sumar lykillinn að næsta klassa á leikmannamarkaðnum sem og að halda okkar mönnum og þangað þurfum við að komast aftur og það strax. Þar á Liverpool alltaf að vera.

Ef að þetta módel FSG gengur ekki upp og FFP er gagnslaust er ljóst að við þurfum að fara leggjast á bæn um að moldríkir olíufurstar kaupi Liverpool og kaupi félagið inn í baráttuna á ný.

Mikið vona ég að það verði ekki framtíðin.

58 Comments

  1. Frábær pistill, takk fyrir mig Babú

    Sammála þér með það að upphaflega planið varðandi FFP virðist ekki vera að ganga þar sem aðrir fara ekki eftir því. Hvað er annars með það? Af hverju er þessu ekki fylgt eftir?

    En við stefnum lóðbeint í 7-8 sæti að óbreyttu, tala nú ekki um ef Suarez fer og ekkert sambærilegt kemur inn í staðinn

  2. Ég er löngu hættur að skilja þetta FFP mál. Umræðan um þetta er algjörlega stórfurðuleg. Af hverju er enginn að spyrja um þetta? Af hverju er ekki hægt að fá þetta á hreint? Getur svona stórt mál bara “dáið út?”. Af hverju leyfa menn svona máli að deyja út, þeir sem hafa hagsmuna að gæta og miða sinn rekstur útfrá þessu? Nýríku liðin halda áfram að eyða eins og brjálæðingar, og það heyrist ekki múkk í nokkrum einasta manni, hvorki þeim sem áttu að setja reglurnar, eða þeim sem ætluðu að miða rekstur sinn útfrá þessum reglum. Stórkostlega fáránlegt í alla staði. Liverpool, Arsenal og fleiri lið, af hverju eru forráðamenn þessara liða ekkert að láta í sér heyra?

  3. Áhugaverðar pælingar. Ég viðurkenni að ég á svolítið erfitt með að meta störf FSG þessa dagana. Hluti af mér er pirraður að við skulum ekki vera grimmari á leikmannamarkaðnum en hluti af mér skilur það og er feginn að þeir séu ekki að taka neina sénsa með fjármuni félagsins. Að lesa gamla pistilinn minn, sem þú vísaðir á hér að ofan Babú, var ágætis upprifjun.

    Þeir hafa staðið við flest sem ég bað um á þeim pistli. Flest, en ekki allt. Ég er t.d. ekki viss um að nokkur Púllari hefði sætt sig við ef við hefðum sagt þeim í október 2010 að það yrði ekki komin lending á vallarmálin þremur árum seinna. Eins höfum við margfarið yfir það að þeir hafa staðið sig frekar illa í PR-málunum síðustu tvö árin sérstaklega (Suarez/Evra-málið, þar sem Dalglish var hengdur til þerris af klúbbnum og fékk engan stuðning, og svo Jen Chang/Duncan Jenkins-fíaskóið í fyrra, og nokkur önnur minni atriði).

    Svo eru það leikmannakaupin. Eins og ég segi er erfitt að meta þau. Á annan háttinn eru þeir greinilega að halda sig algjörlega við Financial Fair Play. Það þýðir að jafnvel þótt það séu til peningar fyrir meiri útlátum eru þau ekki samþykkt ef þau brjóta launastrúktúr félagsins. Þeir eru grimmir í þeim málum, sem sást nú síðast á því að Pepe Reina var ALDREI að fara að sitja á bekknum í vetur með yfir 100 þúsund pund í vikulaun. Eins er slúðrið að segja núna að þeir hafi ekki viljað fá Aly Cissokho að láni af því að hann heimtaði launahækkun fyrir að koma. Þannig að við fáum ekki einu sinni lánsleikmenn ef þeir eru á of háum launum.

    Þetta er, eins og ég segi, bæði jákvætt og neikvætt. Jákvætt af því að við þurfum þá allavega ekki að óttast annað fjármálahrun eins og Hicks & Gillett stóðu fyrir en neikvætt af því að þeir eru að mínu mati að setja allt, allt, allt of mikið traust á FFP. Liðin í kringum okkur eru að drulla yfir FFP hægri og vinstri – City eru búnir að eyða 100m í leikmenn í sumar, og eflaust ekki hættir, og sjáið hvað PSG og Mónakó eru að gera. Real Madríd skuldar hátt í 500 milljón Evrur, 150 milljón Evrum meira en Valencia, en samt eru Valencia að selja sinn besta mann upp í skuldir á meðan Real gera heimsmetstilboð í Gareth Bale.

    Ég get ekki séð að Financial Fair Play geri nokkurn skapaðan hlut í umhverfinu í kringum Liverpool og á meðan liðin fyrir ofan okkur halda áfram að eyða meiru í leikmenn en við munum við ekki nálgast þau.

    Ég tók að gamni saman leikmannakaupin og sölurnar síðan FSG keyptu félagið, fann tölurnar að sjálfsögðu á LFCHistory.net:

    Janúar 2011: Kaup 57,8m – Sölur 55,8m
    2011-2012: Kaup 52,65m – Sölur 23,3m
    2012-2013: Kaup 49,9m – Sölur 13m
    2013-2014: Kaup 22,8m – Sölur 21m

    Samtals höfum við keypt fyrir 183.150.000 pund og selt fyrir 113.100.000 pund síðan FSG keyptu félagið. Á sama tíma höfum við einnig lagað heildarlaunapakkann mjög mikið.

    Þannig að 70 milljón punda nettó eyðsla á þremur árum, og lækkaður launapakki leikmannahópsins, er mjög FFP-leg útkoma en um leið ekki neitt sem öskrar á mann að metnaðurinn sé í fyrirrúmi.

    Ef við seljum t.d. Assaidi eða Spearing erum við komnir í jákvæða eyðslu nettó þetta sumarið sem er nákvæmlega ekki það sem við þurfum til að klifra ofar í töflunni. Svo ég tali nú ekki um ef menn ætla að láta sér nægja að selja Suarez og fá 1-2 lánaða í staðinn.

    Ég er sem fyrr segir sáttur með margt sem FSG gera en ekki sáttur með allt. Leikmannakaupin finnst mér erfitt að meta og ég ætla eiginlega að sitja á mér til 1. september með það. En ég hef alltaf haldið því fram og segi það aftur að það er algjörlega óviðunandi að vera að lenda á núllinu nettó í eyðslu í sumar. Það bætir liðið ekki frá því sem var í fyrra. Þetta snýst í sjálfu sér ekki um tölur – Coutinho kostaði 8,5m í janúar en við myndum ekki selja hann á undir 20-25m í dag – en þetta snýst um að þeir sýni bæði metnað og smá kraft á leikmannamarkaði.

    Eins og Rodgers sjálfur sagði í upphafi júlí: nú er búið að bæta breiddina og þá er næst að kaupa 1-2 ása sem bæta byrjunarliðið. Ef það gerist ekki … þá gangi þeim vel að reyna að sannfæra okkur um að það að skipta Carra og Reina út úr byrjunarliði fyrir Mignolet og Kolo Touré muni gera okkur að Topp 4-liði. Ain’t gonna happen.

  4. Flottur pistill það vantar ekkert upp á það. Held því miður að þú hittir naglann á höfuðið í lokin. Financial Fair Play er ekki að virka og kanarnir okkar hafa ekki fjármagn til að gera Liverpool samkeppnishæft á leikmannamarkaðnum viðtoppliðin. Því lengur sem þetta verður óbreytt því lengra drögumst við afturúr.

    Það sem mér finnst grátlegast í þessu öllu er að mér sýnist við hafa góðan framkvæmdastjóra í Rodgers sem var með liðið á ágætisróli eftir áramót og það vantar ekki svo mikið uppá til að geta barist um 4 sætið. Halda Suarez, sýna honum að það sé einhver metnaður í þessu og kaupa tvo sterka menn sem labba inn í fyrstu 11 og við erum að berjast um 4 sætið.
    Ef þetta er framtíðin (6-7-8 sæti) þá segi ég inn með olíufurstana!

  5. Jæja.

    Búinn að liðka málbeinið og puttann. Aftur, flottur pistill Babú og nákvæmlega það sem umræðan er um og á að vera á þessum tímapunkti. Kristian Walsh kom með pistil í morgun um sama efni:

    http://espnfc.com/blog/_/name/liverpool/id/1269?cc=5739

    Ég hef átt erfitt með að átta mig á FSG frá því í mars 2012. Þegar þeir byrjuðu að reka starfslið, þ.á.m. Comolli sem þeir höfðu mánuði áður hrósað sjálfir í viðtali á Wembley eftir deildarbikarsigurinn. Sem var bæ ðe vei inní búningsklefa, nokkuð sem engir eigendur í Bretlandi, fyrr eða síðar hafa gert. Í því viðtali hrósuðu þeir Comolli, Kenny, Clarke og félögum fyrir að hafa stabíliserað Liverpool á mettíma.

    Tveimur mánuðum síðar hófust svo uppsagnirnar miklu sem kostuðu fleiri milljónir í uppsagnarfé og síðan innkaupum á stjóra, þjálfara og njósnarateymi. Sums staðar er talað um 20 milljóna heildarkostnað, ég veit ekkert hvort það er rétt eða ekki, en það er ljóst að töluvert þurfti klúbburinn að eyða.

    Werner bjó til bandarískan blaðamannafund og kynnti Rodgers með þeim orðum að hann væri fenginn til að vinna titilinn og gera Liverpool að stórliði í Evrópu.

    1.september rann upp og eigendurnir höfðu veikt liðið okkar. Vildu ekki borga aukamilljón fyrir Dempsey, voru ekki til í launapakka Gylfa en samþykktu sölur og lán út úr klúbbnum án þess að blikna. Vildu bara fá Sturridge á láni en ekki borga 15 milljónir fyrir hann. Óháð því hvað okkur finnst/fannst um þessa leikmenn sagði ég þá, og stend við það enn, að Rodgers var kominn í aukahlutverk í kaupum og sölum á leikmönnum og það er ennþá ekkert sem ég sé hafa breyst í því. Það er ameríska leiðin en hún virkar ekki að mínu mati í enskum fótbolta.

    Svo í janúar kaupa þeir Sturridge. Fyrir 12 milljónir og fengu sums staðar hrós fyrir að hafa sparað sér 3 milljónir. Einmitt. Seasonið okkar var ónýtt og það fyrir þrjár milljónir. Njósnateymið nýja fann Coutinho sem var frábært og er í raun enn í dag það eina últrajákvæða sem ég finn við leikmannamálin hjá þeim félögum.

    Sumarið byrjaði afar vel en eftir að armenskur kantframherji sagði nei við okkur hefur botnfrosið í öllu. Eins og Kristján segir virðist nýjasta skrefið vera að borga ekki frönskum landsliðsbakverði þau laun sem hann óskar en fara frekar í ungan Para-gæja sem hefur ekki átt fast sæti í liði í Evrópu hingað til, spilaði 21 leik með Benfica í fyrra og er t.d. töluvert slakari en Insua nokkur sem við seldum miðað við þann sem hefur spjallað við mig um portúgalskan fótbolta og verið nokkuð réttur varðandi leikmenn sem fara á milli þessara landa.

    Ég er alveg sammála Babu í mörgu, en ég deili miklum pirringi meðal Scousera um hversu lengi gengur að klára vallarmálin. Það er óásættanlegt að enn sé ekki klárt hvað á að gera, á meðan að svo er þá er ansi erfitt að skipuleggja einhverja framtíð fyrir félagið. Það er lífsspursmál að menn klári málin hratt.

    En þar liggur held ég vandinn. Þessir kanar vinna ekki á þeim nótum. Þeir ætluðu sér að vinna innan FFP sem er ljóst að mun ekki lifa, það er bara einfalt. Engin merki eru um neitt slíkt, UEFA mun ALDREI stíga á tær Barca, Real, PSG og allra hinna stórliðana sem munu bara kvitta upp á reikninga með alls konar fiffi. Aldrei.

    Ágætis spjall átti ég í vetur við mann sem fullyrti það að ástæða brottreksturs Comolli hafi verið að þeim hafi ekki líkað vinnulag hans, hann hafi t.d. gengið lengra í samningaviðræðum við Suarez, Henderson og Downing en þeir vildu. Við munum eftir myndinni er það ekki þegar Suarez skorar gegn Stoke og brosið á Comolli var stærra en völlurinn. Við unnum United í kapphlaupi um Hendo og Arsenal var að keppa við okkur um Downing. En Comolli kláraði það.

    Sá sami vildi meina það að Comolli hafi sagt þeim í kjölfar Carling sigursins að nú yrðu menn að taka djörf skref um sumarið og koma liðinu hratt upp. Rifrildi hafi komið upp og Comolli rekinn.

    Fyrst átti að ráða annan en svo endaði málið á þann hátt að Ian Ayre, þeirra mesti jámaður var ráðinn í djobbið og hann hefur fylgt þeirra stefnumálum síðan.

    Það er ennþá rispaða platan mín hér á ferð. Þessir menn hafa ekki sannfært mig eitt gramm og ef að ekki verður skörp breyting á stöðnuðum leikmannamálum þar til 1.september mun ég skrifa á mitt skilti…yanks out.

    Þó vissulega þeir hafi bjargað klúbbnum frá gjaldþroti og leyst ákveðna hluti ágætlega þá er ekki boðlegt að vera hættur að láta sig dreyma um að keppa við bestu lið álfunnar nema ef að þeim hugnast að fá æfingaleik.

    Olíufursta eða ekki, þá einfaldlega þýðir ekkert að keppa á einhverjum FFP grunni þegar enginn annar gerir það.

  6. Ég er reyndar sammála að ég furðaði mig frekar mikið á því þegar að daglish og co voru reknir og fannst það vel súrt, en það má samt alveg segja að liðið hafi ekki verið að ná að smella saman, og leikmenn sem við eyddum alveg fjalli af peningum í voru ekki að performa.

    Daglish og Comolli völdu væntanlega alla þessa leikmenn, Carroll, Downing, Henderson, Suarez.

    Þetta enska þema var hrikalega bad move, við yfirborguðum fyrir leikmenn sem hefði vel verið hægt að finna á minni pening. Af þessum fjórum eru Hendo og Suarez þeir sem eru ekki mistök finnst mér.

    Eftir að BR fann grúvið sitt eftir áramót og sturridge og coutinho bættust í hópinn og gerðu sóknarlínuna okkar aðeins minna one dimensioned þá hefur liðið verið að spila held ég bara skemmtilegasta og besta bolta sem liðið hefur gert í mörg ár.

    Er alveg sammála því að ég vill sjá allavegana eitt big signing áður en tímabilið hefst, en eins og er þá lýst mér bara sæmilega á komandi tímabil með núverandi hóp og getum náð meistaradeildarsæti, sem er vafalaust það eina sem við eigum breik í eins og er.

  7. Aldrei tekið undir það að FSG hafi gert mikið rangt í Suarez/Evra málinu, þeir gátu gert eitthvað betur en ég var sammála línu klúbbsins þá og er það ennþá. Þeir hefðu komið illa út hvernig sem væri hjá bresku pressunni sem var búið að fella sinn dóm um leið sem og megnið af almenningi. Félagið skirfaði harðorða yfirlýsingu um málið (dóminn) strax og hann kom og létu þá sem sáu um daglegan rekstur Liverpool um að díla við þetta.

    Dunkan Jenkins var PR slys en ekkert ofsalegt stórmál þannig og fljótlega leyst úr því að eigendum félagsins með að láta viðkomandi fara.

    M.ö.o. jú þeir hafa ekkert verið fullkomnir og þeir hafa fengið hrikalega erfið mál á sitt borð en samanborið við fyrri eigendur hafa þeir verið frábærir í PR málum.

  8. Fyrir utan það.. að eins og staðan er í dag þá eru bara alltof mörg lið sem eru vænlegri kostur fyrir menn sem eru orðnir þekkt nafn. Liverpool er ekki búið að geta neitt í hartnær 4 ár, höfum ekki verið í CL í svipaðann tíma og erum frekar óskrifað blað.

  9. Flottur pistil!!… Kemur í ljós eftir þennan glugga hvers konar eigendur þeir eru í raun og veru!…. Hvort það verði farið í þetta “all in” eða bra endalaust lækka launakostnað og gera LFC að “seljanlegum klúbbi”!!… En að allt öðru, var að klára viðtal við Joshua Jackson… Sem greindist með hvítblæði 2007 og svo aftur 2010… Þið munið kannski eftir honum þegar hann leiddi Gerrard inn á völlinn gegn Villa þann 31.mars nú í ár… Tók saman smá pistil og spjallaði við þessa litlu HETJU.. Endilega kíkið á : http://www.kopice86.wordpress.com Takk!…. @kopice86

  10. Frábær pistill og líka góð samantek í commenti frá Kristjáni um eyðsluna of FFP.

    Ég hef mikið pælt í þessum eigendum okkar. Þeir hafa einungis átt klúbbinn í 3 ár en hafa nú þegar tekið massíva rússíbanareið með öllu sem á hefur dunið (3 framkvæmdastjórar og svakalegir leikmannagluggar). Fyrsti heili glugginn þeirra einkenndist af miklum fjárfestingum og næsti sumargluggi var afar dræmur (sökum hræðslu um að gera sömu mistök og í fyrsta glugganum). En samhliða þessu hefur verið skipt um helling af starfsfólki sem kemur að leikmannakaupum og virðist sem ferlar séu orðnir nokkuð samræmdir þegar kemur að þessum málum (vonandi til þess að hækka % af heppnuðum leikmannakaupum).

    Leikmannakaup: Þeir hafa stigið varlega til jarðar eftir Dalglish / Commolli ævintýrið. Hafa styrkt hópinn en í dag finnst mér vanta að þeir bæti þessum extra gæðum í hópinn sem BR talaði um. Er ekki sannfærður um að það komi í þessum glugga en það þarf að gerast fljótt engu að síður.

    Laun: Þeir töluðu í upphafi um að það væri ekki markmið að minnka launakostnað sem slíkan heldur að þeir fengju value fyrir þau laun sem þeir væru að borga. Þeir hafa að öllum líkindum lækkað launakostnaðinn verulegu undanfarið en eru engu að síður með hóp sem er ekki lakari eða skilar allavegana sambærilegum árangri en sá sem þeir tóku við (sem sýnir bersýnilega hversu mikið klúbburinn var að ofborga ákveðnum leikmönnum). Persónulega býð ég samt ennþá eftir því að launin hækki aftur með tilheyrandi gæðum í leikmannahópnum.

    Leikvangur: Þau mál fóru á hreyfingu núna í sumar en ég er enn sem komið er ekki sannfærður og verð líklegast ekki fyrr en ég labba persónulega inn á endurbættan Anfield eða nýjan völl.

    Samantekt: Mér finnst FSG hafa staðið sig frábærlega við að styrkja innviði klúbbsins og koma rekstrinum í viðunandi ástand án þess að veikja liðið á vellinum. Hópurinn í dag er að mörgu leiti rosalega spennandi og ætti að vera hægt að vinna áfram með mikið af þeim leikmönnum sem eru til staðar í dag til þess að gera liðið samkeppnishæft við þau bestu. En til þess að það gerist þá þarf FSG að “step up their game” og taka næstu skref í framþróun klúbbsins. Slíkt skref felst í því að fá leikmenn til liðs sem bæta virkilega við núverandi gæði ásamt því að ganga frá leikvallarmálum en á meðan slíkt er ekki að gerast þá er ég ekki sannfærður um hvort FSG ætli sér raunverulega að vinna titla með Liverpool eða einfaldlega að búa til ákaflega huggulega söluvöru úr klúbbnum.

    YNWA
    alexander

  11. Það mun ekkert meira gerast í sumar nema einhverjir no name-ar eins og þessi Melgarejo sem ég hef ekki grænan gvend hver er en hann spilar víst vinstri bak. Ef Suarez verður áfram verður engin frambærilegur keyptur. Ef Suarez fer kaupum við líklega einhvern. Það á bara að enda þetta sumar á sléttu eða í plús því þessir kanar hafa engan metnað. Held að það sé alveg ljóst að þessir kanar hafa aldeilis ekki í hyggju að gera Liverpool að contender klúbbi aftur þeir ætla bara að mjólka eins og þeir geta og reka klúbbinn þangað til þeir geta grætt á því að selja eða a.m.k. sloppið við tap með því að selja. Held að það sé alveg að verða tímabært að dusta rykið af “YANKS OUT” skiltunum.

  12. jæja nýbúið að lána Reina og FSG ekki tilbúnir að taka yfir launapakka Ali Cissoko sem er væntanlega umtalsvert lægri.

    Mér var sagt að í vor hafi staðið til að grynnka launapakkann um 200k á viku til viðbótar. Það hefur væntanlega gengið eftir. Carra og Reina væntanlega um 180k saman.

    Ég er reyndar sammála því að FSG hafi komið skikki á ýmis óreiðumál sem voru til staðar þegar þeir tóku við og ég hef litlar áhyggjur af því að þeir komi liðinu í nokkur fjárhagsleg vandræði. Hins vegar er maður góðu vanur og vill meira, en því miður virðast FSG ekki tilbúnir að bæta við því sem þarf til að stíga næstu skref upp á við.

    Betra er þó að bíða með yfirlýsingar og sjá til hvernig sumarið verður. Á þó von á að bætast í Yanks out hópinn í september.

  13. Það er engin metnaður í þessum eigendum og því þarf nýja eigendur sem eru tilbúnir að leggja peninga og metnað í verkefnið.
    Menn eru alltaf að bíða eftir þremur leikmönnum sem eiga að styrkja byrjunarliðið, hvaða toppleikmenn eru tilbúnir að koma til Liverpool þar sem við erum ekki einu sinni að spila í evrópu á komandi tímabili? Mig grunar að við fá engin stór nöfn í sumar fyrir komandi tímabil.
    Suarez vill fara og skil ég hann vel.
    YANKS QUT now

  14. þessar FFP snúast um meira en bara takmörkun á tapi félaga. og Það eru t.d. FFP reglurnar sem koma í veg fyrir að Malaga taki þátt í evrópukeppni í ár. Fyrstu refsingar vegna of miklu tapi hjá félögum koma nú í lok tímabilsins sem er að hefjast og það verður spennandi að fylgjast með hvernig þeir ætla að tækla Man City PSG og Monaco. svo eru einnig komnar inn reglur hjá úrvalsdeildinni þar sem lið geta misst stig fari þau ekki eftir svipuðum reglum.

    Það veit enginn hversu mikil áhrif þessar reglur eiga eftir að hafa á fótboltann en FSG virðast hafa mikla trú á þessum reglum og þeir eru að veðja á að reglurnar virki eins og auglýst er.

    það er ekki fyrr en að áhrif FFP koma í ljós sem við getum dæmt FSG. annaðhvort hafa þeir lagt grunninn að vel reknum klúbbi með mikla möguleika á árangri eða látið plata sig allsvakalega og nánast staðfest okkur sem miðlungslið.

    ég vona allavega að FSG hafi rétt fyrirsér!

  15. Eg skil vel ad folk se otholinmott en eg skil hins vegar ekki ad folk skuli gefa ser thad ad eigendurnir seu metnadarlausir og hafi ekki ahuga a ad styrkja lidid enn frekar.
    Enn og aftur, er thad einhver trygging fyrir arangri ad kaupa thekkt nøfn og randyra einstaklinga? Nei, thad er thad ekki!

    Fotbolti er skritid sport thar sem arangur næst med skipulagi og vinnu. Thad skiptir engu mali hvada nøfn leikmenn bera eda hvada verdmida their hafa a enninu.

    Eg er hins vegar sammala thessu vardandi FFS dæminu. Thad verdur mjøg spennandi ad vita hvernig tekid verdur a thessum malum. Vonandi verdur thad gert med fastatøkum og tha er LFC i finni stødu hvad thad vardar.

    Eg se bjarta tima framundan, einfaldlega vegna stefnu klubbsins nuna. Ef billjonamæringur dukkar upp sidar tha mun hann taka vid flottu fotboltaveldi, thar sem møguleikarnir eru miklir, i stad thess ad thurfa ad yfirtaka endalausar skuldir.

    YNWA!

  16. Ég held, svona eftir að hafa fylgst með umræðunni hérna inni sem og víða annars staðar á alnetinu, að stuðningsmenn Liverpool séu almennt á þeirri skoðun í dag, að nú sé kominn tími á að FSG sýni mátt sinn og megin.

    Þetta er ekki fyrsti pistillinn sem ég les og eflaust ekki sá síðasti, þar sem rifjað eru upp þær yfirlýsingar sem FSG gaf á sínum tíma. Í gegnum þeirra feril sem eigendur Liverpool hafa þeir iðulega talað um mikilvægi þess að fá value for money, svona í bland við það að minnka launakostnaðinn.

    En hversu langt geta þeir gengið í að lækka launakostnaðinn, þegar þeir hafa sjálfir keypt og gert samninga við 99% af þeim leikmönnum sem eru á launaskrá LFC?

    Reyndar held ég að menn ættu ekki að vera of fastir í því að það hafi allt botnfrosið þegar Armeninn ákvað að velja Dortmund fram yfir Liverpool. Hann var okkar aðalskotmark í sumar, Rodgers ((((nutc…. nei, djók!)))))) hefur viðurkennt það. Þá fara menn bara í plan b – sem ég ætla að þeir séu með. En það þarf vissulega að vinna meira til að koma plan b í gagnið en plan a.

    BR hefur sagt að hann þurfi 1-2 leikmenn í viðbót, byrjunarliðskantídata. Það þýðir einfaldlega að kaupa betri leikmenn en þá sem fyrir eru. Skoðum það aðeins.

    Hvernig ætla menn að fá betri leikmann en Suarez/Sturridge/Gerrard/Downing/Coutinho?

    Þetta eru allt okkar helstu sóknarmenn, og jafnvel má bæta Sterling þarna við. Til að fá leikmenn sem getur slegið þá út úr liðinu, þá þarf að eyða meira en 5 milljónum punda, og meira en 10 milljónum punda. Nema auðvitað að þú getir dregið upp demant a-la Coutinho, en það er afar, afar ólíklegt.

    Eriksen væri frábær kostur, en hann er 15+ milljón punda maður. Að mínu mati yrði þar 15 milljón+ pundum vel varið í einn af mest spennandi ungu leikmönnum í Evrópu þessa dagana.

    Þá má spurning hvort það er þörf á annað hvort vinstri bakverði eða miðverði. Þeir eru auðvitað ekkert ókeypis, ekkert frekar en aðrir leikmenn. Papadoupolous, sem var orðaður við Liverpool, er verðmetinn á um 15 milljónir punda, og líklegt má telja að ef liðið ætlar að fá topp varnarmann þá þurfi einfaldlega að punga út slíkum fjárhæðum.

    Liðið er nú komið aftur til Liverpool borgar, og því allar líkur á því að ef við fáum að sjá fleiri leikmenn koma, þá verði fullur kraftur settur í það núna. Það eru ennþá 3 vikur, tæpar, í fyrsta leik tímabilsins og því nægur tími til stefnu – þó svo menn hafi viðurkennt að það sé betra að kaupa snemma heldur en í lok gluggans.

    Eriksen og Aly á minn disk, takk fyrir. Þá verð ég sáttur 🙂

    Tökum svo stöðuna aftur þegar glugginn lokar í september. Þá skulum við dæma FSG. Þeir vita líklega mætavel að það er afar grant fylgst með þeim í þessum glugga. Ef þeir vita það ekki, þá eiga þeir ekkert erindi í þennan bransa.

    Homer

  17. Frábær pistill og ekki síður góð komment og umræða. Ég er á því að þetta sé á réttri leið. Jafnframt geri ég mér grein fyrir því að bæting liðsins tekur langan tíma. Ég tel enn ólíklegt að við komumst alla leið upp í 4. sætið, jafnvel þótt þessir 2-3 sem við viljum verði keyptir. Ástæðan fyrir því að Cissokho var ekki fenginn var sú sama og fyrir því að Reina þurfti að fara eftir komu MIgnolet. Menn vilja ekki hafa hálaunaða varamenn.

    Það má sannarlega deila um slíka stefnu, því það þarf í öllum tilvikum að halda mönnum á tánum með virkri samkeppni. Ég hef ekki hugmynd um þennan sem á að koma í vinstri bakvörðinn, nú er slúðrað um að Skrtel fari til Rafa og Papadopolous komi. Ef sú verður raunin er vonandi komin nokkuð góð mynd á hópinn og fyrir mér er hann ekki líklegur til að koma okkur í 4. sætið. Og það þótt Suarez verði áfram.

    Mér finnst þetta sumar nefnilega segja töluvert stóra sögu um hvort FSG séu að meina það sem þeir segja og hvort þeir ætli að koma klúbbnum á toppinn. Þeir vilja reka heilbrigðan klúbb þar sem þeir hafa menn í ákveðnum hlutverkum og fái borgað samkvæmt því. Það er hið besta mál en svo eins og menn fjalla um hér að ofan, eru vallarmálin kannski það helsta sem enn ríkir óvissa um.

  18. Eitt örlítíð í viðbót sem mig langaði að koma inn á og kannski fluktar aðeins við ummæli númer #19 hjá Station.

    Ég er ekki viss um að það sé rétt að dæma FSG einfaldlega út frá einstökum leikmannagluggum, miklu nær væri að dæma þá útfá árangri klúbbsins á komandi tímabili. Ég veit að fyrstu 3 árin voru rír uppskera og langt frá okkar væntingum en kannski það sem vekur mér helst von í brjósti þetta haustið er sú staðreynd að við erum að fara í fyrsta skipti undir stjórn FSG að spila tímabil sem er byggt á grunni síðasta árs þ.e. við erum ekki að byrja upp á nýtt með nýjan stjóra, nýtt skipulag, nýjar áherslur eða einhvers konar allsherjarhreinsun á leikmönnum (þó vissulega hafi orðið breytingar á hópnum).

    Ef klúbburinn tekur framförum frá síðasta ári þá er það eitt og sér vissulega jákvætt og dæmi um batamerki og held ég að það sé alltaf eitthvað sem hægt er að vinna með. Þó svo að við náum ekki CL sæti á komandi vetri þá gæti bæting frá árangri síðasta árs gefið mönnum von um að Liverpool væri klúbbur sem væri á uppleið frekar en hið gagnstæða og jafnvel þá laðað til sín nöfn sem hafi trú á að fyrr en seinna sé þessi klúbbur á leiðinni í toppbaráttu og CL fótbolta.

    Að sama skapi myndi verri árangur gjörsamlega ganga frá manns litla Liverpool hjarta. Ég fyrir mitt leiti ætla samt að bíða og sjá hvernig veturinn þróast og neita að horfa bara á þennan leikmannaglugga sem einhvern sérstakan mælikvarða.

  19. Að stinga upp á því að FSG hverfi frá Financial Fair Play viðhorfinu, er skoðun út af fyrir sig en er aldrei að fara að gerast.

    Ég get ekki séð betur en að við vitum nákvæmlega hvar við höfum FSG og getum því alveg reiknað með hvernig þeir haga sér í rekstri klúbbsins, leikmannakaupum og launamálum.

    Að ætlast til þess að þeir fari að ausa eigin peningum inn í klúbbinn og vona að það skili árangri og auknum tekjum í framtíðinni er bara áhættan sem þeir eru ekki að fara að taka…

    Það er ekkert óvænt að fara að gerast hjá FSG í rekstri klúbbsins… ef þeir gefast upp þá selja þeir, og þá verða þeir að selja fyrirtæki í heilbrigðum rekstri þrátt fyrir að árangur á fótboltavellinum hafi ekki náðst.

    Ég held að Maggi þurfi betur að útskýra hver þessi skarpa breyting eigi að vera í leikmannamálum sem eigi að gerast fyrir 1. september

    Það sem við vitum er að FSG:

    Verðmeta leikmenn sem þeir hafa áhuga á og borga ekki lengur yfirverð fyrir leikmenn.
    Vilja hafa heilbrigðan launastrúktur þar sem stór hluti launanna er reiknaður út frá árangri,spilatíma o.s.frv… bónusar semsagt.
    Eru tilbúnir að borga hátt verð fyrir leikmenn… enda reikna þeir með að geta selt þá aftur á meiri pening… sem skilar sér í því að þeir kaupa ekki menn á topp pening á hátindi ferilsins, en leita sérstaklega að ungu talenti.
    Vilja gjarnan taka leikmenn á lán til þess að minnka áhættuna við innkaup.
    Þeir eru síðan grimmilega að reka sig á það… að þetta er erfitt í ljósi þess að Liverpool er ekki í meistaradeildinni, sem skilar sér í minni áhuga leikmanna á að koma til Liverpool.

    Ef ég skil og greini þetta rétt Maggi, þá geturu skrifað Yanks Out á skiltið þitt strax í dag.

  20. Yibbí another no name 3 choice left back frá benfica. Yes við erum að fara að vinna deildina.

  21. Frabær grein..Serstaklega fyrir tha sem eru ekki a kafi i malum LFC dagsdaglega 🙂
    FSG hljota ad vera ad læra a thetta allt saman, eflaust ekki audvelt ad kaupa PL lid thar sem krafan um arangur er mikil serstaklega thegar thad hefur gengid illa i mørg ar. Their hafa vafalitid gert mørg mistøk en svo lengi sem their eru ekki alltaf ad endurtaka sømu mistøkin tha horfir thetta allt til betri vegar.
    had er hinsvegar oft thannnig ad menn segja eitt og gera annad..og fyrir sliku geta legid ymsar astædur. Fyrir FSG er thetta fyrst og fremst business og akvardanir theirra munu fyrst og fremst stjornast af thvi hvad kemur theim vel..sem betur fer tha fer thad oftast saman vid thad sem kemur LFC vel…
    Vardandi FFP tha do thad daginn sem heimavøllur Man City fekk nafnid Etihad stadium…kostadi thad ekki annars 100 milljon pund 🙂

  22. Ég var síðasta sumar kominn með uppí háls FSG, en núna hef ég verið að lesa greinarnar hérna og kommentin sérstaklega hvað varðar leikmannakaup og nota sumarfríið í að velta þessu fyrir mér.
    Ég tel liðið vera mun sterkara núna en við upphaf síðasta tímabils svo það komi strax fram.
    Varðandi Nýju leikmennina þá ætla ég að gefa þeim séns á að sanna sig ég hef t,d mikla trú á að aspas verði talin kosta kaup þegar líður á veturinn eftirþví hvernig er talað um hann af þeim sem virðast til hans þekkja.
    Síðasta sumar drullaði FSG uppá bak ég viðurkenni það strax en svo kom janúar og strax farið að tala um Sturridge sem mér leist alls ekki á, mundi eftir honum á láni hjá Bolton og hreifst af honum þar en fyrst chelsea gat ekki notað hann sá ég þetta ekki alveg vera að ganga. Svo var talað um Snejder VÓÓ!!! hvað mig langaði að fá þennan “útbrunna Hollending” en nei þeir kaupa einhvern Brassa gutta frá Inter í staðin hvílík vonbrigði! það tók mig uþb 3 leiki að skipta um skoðun.
    Í dag myndi ég ekki vilja skipta á Snejder og Coutinho, frábær leikmaður!!! og Sturridge sem man utd kunningi minn sagði að væri miðlungsleikmaður svipaður og Welbeck og ég var sammála en í dag segi ég: F!”# YOU Sturridge er miklu betri en welbeck.
    Og þetta er ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að gagnrýna kaup sumarsins strax ég velti því fyrir mér hve margir lesendur þessarrar síðu sáu Coutinho ganga beint inní liðið hjá okkur eins og hann gerði, og er þetta ekki einmitt það sem FSG er all about, koma auga á geimsteina áður en þeir springa út, og 3 faldast í verði.
    Fyrir mér er það gáfulegra en að hlaupa út og kaupa allt sem hreyfist eins og gerðist fyrir 2 árum þó ég eigi mjög erfitt með að gagnrýna kaupin á Henderson sem mér finnst eðal leikmaður.
    Annað sem menn hafa gagnrýrnt er brott rekstur KING KENNY, ég var á báðum áttum með þetta alltsaman en það pirraði mig undir stjórn Kóngsins að þegar við lentum undir varð liðið eins og höfuðlaus her, það virtist ekki vera neitt plan B og það kom upp ákveðið ráðaleysi, Eitthvað sem maður þekkti ekki undir Benitez þar sem allt var lagt niður nákvæmlega, mér finnst Brendan vera með fast mótaðar skoðanir á hvernig leikurinn skal spilaður þannig að ég held að þetta hafi verið heilla spor, kannski var það bara satt að Kóngurinn var búinn að vera of lengi í burtu frá stjórastarfinu?
    Þannig að eftir allt þetta bull í mér ætla ég að henda þeirri skoðun minni fram að þó engar fleiri breytingar verði á hópnum þá eigum við að getað komið okkur í alvöru baráttu um meistardeildar sæti.

  23. Svo nota bene, þá man ég á seinasta tímabili að menn voru að fussa og sveia yfir því afhverju liverpool gæti ekki gert það sama og newcastle og swansea og verið að kaupa leikmenn á klink sem væru svo baneitraðir.

    Get ekki betur séð en að við séum akkúratt að gera það, auðvitað rætist ekki alltaf úr öllum svoleiðis kaupum en so far þá held ég að við höfum verið að gera fín kaup fyrir lítinn pening.

  24. Ég verð að segja að ég er overall bara mjög sáttur með FSG. Það sem þeir hafa gert jákvætt fyrir klúbbinn:

    Ráðið einn efnilegasta manager/coach á Bretlanseyjum Brendan Rogders sem leggur höfuðáherslu á að spila skemmtilegan possession sóknarbolta. Þetta á við um varaliðið og unglingaliðin líka.

    Komið fjárhagnum á beina braut með að borga skuldir, lækka launakostnað, markaðssetja klúbbinn world wide og fengið góða sponsora.

    Sett raunveruleg markmið í stadium development sem er erfiðara en að segja það. Það var og er enn margt sem þurfti að gera en ég er nokkuð viss um að á næstu árum munum við sjá Anfield með 60.000 sæti.

    Fengið Steven Gerrard til að brosa. Hefur ekki alltaf verið auðvelt 🙂

    Og bara fagmannlega farið að öllu að mér fynnst því það hefur sárvantað síðustu ár.

    Það sem hefði mátt fara betur:

    Daglish ráðninging virkaði frekar desperat ásamt kaupum á Carroll, ráðning á Comolli og fleirum. En Þarna eru þeir nýjir í viðskiptaheiminum á Bretlandi og þeir hafa greinilega lært af mistökunum. Sjá ráðningu á núverandi staffi og síðustu leikmannakaupum eins og Coutinho.

    Kaup á stærri nöfnum og betri leikmönnum en þarna er það ekki alfarið þeim að kenna því það er erfiðara að lokka stærstu bitana ef liðið er ekki CL.

    Ef Liverpool kaupir einn leikmann í viðbót fyrir 20m í sumar þá er nettó eyðsla á árinu í leikmenn 40m sem verður að teljast ágætt miðað við klúbb sem er ekki í evrópukeppni. Og hópurinn orðinn mun sterkari en byrjun síðasta tímabils.

    Ef Liverpool lenda í 4. sæti á næsta ári þá eru þeir í sterkri stöðu á leikmanna markaðinum með Suarez og Reina sem líklega menn til að fara fyrir háar summur og stærri budget útaf tilkomu í CL.

    Ég veit að þetta er mörg EF en við verðum bara að vera þolinmóðir þótt það getur stundum verið efitt því ég hef það á tilfinningunni að eftir 2-3 ár verðum við að horfa á Liverpool í meistaradeildinni með 60.000 áhorfendur. Þá skulum við ræða hvort við séum ánægðir með hvað FSG hefur gert fyrir klúbbinn.

    YNWA

  25. Eins og birkir.is hefur nú væntanlega séð þá eru efasemdir mínar um FSG ekki nýjar.

    Ég skil fullkomlega þetta sem þú talar um að sé þeirra stefna, nú nýjast að kaupa leikmann sem Benfica ætlaði sér ekki að nota í vetur, en reyndar fá hann lánaðan fyrst (Benfica búnir að kaupa nýjan vinstri bak).

    Ég veit líka að þeir keyptu liðið vegna FFP reglnanna og lofuðu engum risaleikmannakaupum. En þú mátt nú heldur ekki gleyma því að þeir hafa alltaf sagst ætla með klúbbinn aftur í bestu keppni heims, Meistaradeildina, og kynntu Rodgers til sögunnar sem manninn til að vinna, “not a title, but titles”.

    Og þeir eiga alveg mína vorkunn að sumu leyti. Á meðan að þeir vilja hafa klúbbinn vel rekinn og söluvænlegan eru menn að leika sér með fótboltalið. Ekki lengur bara í Englandi heldur líka Evrópu. Í Englandi eru í dag fimm lið klárlega fyrir ofan okkur, við getum ekki látið öðruvísi, klúbburinn okkar hefur ekki farið upp fyrir 7.sæti í þrjú ár.

    Menn tala um að liðið okkar í dag sé sterkara núna en í fyrra. Það skil ég ekki. Reina út og Mignolet inn. Carra út og Toure inn. Shelvey út og Luis Alberto inn. Engin þessara breytinga mun þýða stökk úr sæti 7 í sæti 4 í deildinni. Við megum heldur ekki gleyma því að það var aldrei nein pressa á okkar lið í fyrra og við enduðum samt 12 stigum frá CL sæti.

    Eina upgrade-ið sem vert er að skoða er Iago Aspas sem mér líst afar vel á. En ég er þó á því að í fáum leikjum sjáum við hann, Sturridge og Suarez alla inná.

    Það vantar ennþá klárlega uppá leikmennina sem tryggja okkur sigurinn í lykilleikjum. Til að komast í 4.sætið þurfum við að vinna stór lið bæði heima og úti og satt að segja sé ég okkur bara alls ekki gera það með okkar hóp.

    Svo ég er í dag í mesta lagi að gera mér vonir um 6.sæti í deildinni næsta vor og það mun þýða mikla pressu á Rodgers og að fleiri leikmenn en bara Suarez vilja fara.

    Ég enda þetta alveg eins og Babú, ef FSG hugmyndin er ekki að virka eftir fjögur ár (miðað við að þeir beygi ekki skarpt núna í ágúst) þá verðum við að fá inn sterkari fjárfesta.

    Jafn mikið og ég vill að klúbburinn minn sé vel rekinn þá er ég með æluna í eyrunum yfir að hlusta á brandara frá stuðningsmönnum United, City, Arsenal, Chelsea, Tottenham og allverst af öllu, Everton!!!

  26. Mér finnst menn vera soldið að gleyma því þegar þeir tala um að bæting frá því í fyrra væri engin með nýjum kaupum, mesta lagi á pari segja sumir og aðrir segja að þetta sé lakara. þarna er ég að meina Toure fyrir Carra, Mignolet fyrir Reina og Alberto fyrir Jonjo.
    Aspas lofar góðu plús það að við vöðum inn í þetta tímabil með þá tvo leikmenn sem ég var hvað hrifnastur af eftir áramót, Coutinio og Sturridge. Leikur liðsins og úrslit snar batnaði með komu þeirra þannig að mér finnst erfitt að dæma liðið og útkommuna eingöngu eftir fyrri part tímabilsins.
    Boltinn sem spilaður var eftir áramót og ef að við höldum okkar bestu mönnum (Suarez) þá eigum við fullt erindi í að berjast við Ars, Tott og fokkings everton um fjórða sætið.
    Ef að við svo dettum inn á einn til tvo gullmola sem styrkja byrjunarliðið okkar þá erum við held ég bara ef að allt gengur eftir með meiðsli, leikbönn og annað í flottu færi í að para vini okkar frá Manchester.
    Mín spá fyrir tímabilið veltur á kaupum Liverpool til viðbótar við það sem við höfum nú.
    Ef einhver rudda kaup eiga sér stað fyrir lokunn gluggans þá er þetta mín spá.
    1.City
    2.Chelsea
    3-4. Liverpool/Manu

    Ef að ekki verður bætt við þá verður þetta
    1.City
    2.Chelsea
    3.Manu
    4-5.Liverpool/arsenal
    6.Tottenham
    7.Everton tekur okkar sæti þetta árið.

    Ég er með eindæmum getspakur maður og býð ykkur að nota þessa spá að vild.
    Einnig er ég bjartsýnn mjög og bið ykkur sem ekki eruð það að taka mig til fyrirmyndar í hvívetna:)

  27. póstur 32 er skólabókardæmi um bjartsýnu poolara klisjuna…….

  28. Maggi þegar ég skrifa að Liðið sé sterkara enn í fyrra meina ég augljóslega þegar við héldum af stað inní síðasta tímabil þar sem sóknarlínu liðsins var haldið uppi af einum manni þannig að frá fyrra hausti höfum við styrkst mikið af mínu mati.
    Einnig eins og ég hef áður sagt held ég að góður leikur liðsins seinnihluta tímabilsins sé eitthvað til að byggja á og því er ég algjörlega ósammála því að við séum 7 sætis lið, Þær jákvæðu breitingar sem voru á liðinu seinnihluta tímabilsins frá fyrri held ég að séu nægilega góðar til að rífa okkur aðeins hærra.
    Og Maggi bara Þessi Brassa gutti sem ég talaði um áðan gerir það verkum að við erum mun betri en í fyrra haust.

  29. Glæsilegur pistill og er ég sammála mörgum commentum og sérstaklega #30. Skiljanlegt a? vi? erum vel flestir or?nir vo?alega óþolinmó?ir og sérstaklega ég því mig dreymir þa? allra mest um a? komast á eitt eitur rafmagna? evrópukvöld á Anfield.

    Þa? sem pirrar mig mest er útfrá commenti eins ágætis Ei?ur Smára þegar hann var spur?ur útí þa? á sýnum tíma hversu lengi þa? tæki Liverpool a? komast aftur á efsta stall í evrópu og me? keppnishæfan hóp í deild þegar hinir bandarísku trú?arnir keyptu félagi? og Benitez var vi? stjórn. Hann nefndi a? erfitt væri a? byggja upp nýjan hóp og vi? þyrftum a? bí?a og sjá í 3-4 ár.

    Nú tæpum 8 ÁRUM sí?ar erum vi? á sama byrjunarreit, þannig þa? er a? mínu mati réttlætanlegt hjá bestu stu?ningsmönnum í heimi a? vera a? fara úr lýningunum! VI? VILLJUM FÁ OKKAR FRAMGEGNGT OG VINNA LOKSINS HELVÍTIS A?ALDOLLUNA!!! Og svo hitt allt líka……

  30. Hér er langur og góður pistill og ekki mikið styttri eða verri komment um ameríska fjárfesta sem ætluðu sér að gera góðann díl á einu fræasta og sigursælasta liði heims og það virðist vera að ganga upp hjá þeim.
    Þeir sögðust líka ætla að vinna marga titla,en það var bara PR stöff sem margir hafa kokgleipt á þessu bloggi.
    Staðreyndin er samt allt önnur og fleiri og fleiri eru að sjá að þrátt fyrir risa auglýsinga og búninga og TVsamninga er nánast engu eitt í uppbygginu á liðinu en launakostnaðurinn sístematiskt lækkaður í hverjumm glugga og ekkert bólar á stækkuninni á Anfield.

    Þó að sparnaðurinn sé mikill er samt ekkert sparað þegar kemur að því að ljúga að stuðningsmönnum og meira að segja þjálfarinn dregur ekki af sér á þeim vettvangi.
    Ég er svo ekki í nokkrum vafa um að þessir fjárfestar hafa ætlað sér að kassera inn á Suarez í sumar en sennilega mun þetta fáánlega verð sem komið er á Bale bjarga okkur frá því að hann verði seldur núna þar sem að FSG eru bissnessmenn og vita að Suarez er betri en Bale og munu þess vegna ekki vilja selja hann fyrir minna verð en Bale fer á. Guði sé lof.

    Ég hef sem sagt misst trúna á kanana og vil þá út en ég veit samt að það skeður ekki á meðan Suarez er óseldur ,hann er jú að verða það eina sem er einhverss virði fyrir þá og það gæti svo kanske bjargað okkar ástkæra klúbbi af því að án hans eigum við engann sjens á topp 4,en með hann um borð getur allt gerst.

  31. Ég verð bara að segja eitt: Ég verð þunglyndur að lesa og sjá hvernig FSG eru að fara með okkar leikmannamál í dag, týma ekki að borga mönnum laun. Hvernig eigum við að vera samkeppnishæfir í deild, meistaradeild og á leikmannamarkaðnum ef þeir eiga ekki pening fyrir því að henda LFC á hærri stall!

    Þolinmæðin mín er á þrotum, út með FSG!

    Hvað fæ ég mörg læk á það?

  32. Hvað vilja menn eiginlega, sugardaddys ?

    Ég get ekki betur séð en við erum búnir að eyða fullt af peningum í leikmenn undanfarin ár. Það er bara búið að fara illa með peningana.

    Hvernig hljóma þessar nettó eyðslu tölur hjá okkur í samanburði við Arsenal, Everton, Tottenham og ManU síðan kanarnir tóku við klúbbnum? og….hvernig lítur launakostnaðurinn út hjá okkur samanborði við Asenal, Everton og Tottenham ?

    Held við séum á hárréttri leið undir núverandi eignarhaldi. Þeir eru búnir að vera að læra, læra af misstökum sínum og hafa hingað til ekki verið óhræddir við að eyða peningunum í leikmenn. sbr Downing, Henderson, Suarez, Carroll osfr

    Varðandi Anfield þá er það miklu stærra og flóknara mál og liggur að miklu leiti á borði skipulagsyfirvalda í Liverpool og eigenda húsa í kringum Anfield.

  33. Burt með þessar helv. Kanamel…… Mikið agalega væri ég til í að fá inn einhverja menn sem væri til í að spreða í alvöru leikmenn!

  34. Velti því fyrir mér hvort sumir séu ekki fullharðir gagnvart því að dæma núverandi eigendur. Skoðum aðeins uppáhaldsumræðuefnið okkar Suarez. Væru þeir svona money gráðugir eins og sumir vilja meina, væru þeir ekki þá búnir að selja karlinn? Veit svo sem ekki hver framvindan verður á þessu en ég ætla að halda áfram mínu Liverpool Pollíönnu andliti og hafa trú á því sem er í gangi.

    Tek svo heilshugar með nr. 28 en nr. 33 hlýtur að vera Leeds aðdáandi.
    Nr. 36. Hysja upp um sig brækurnar og endurnýja trúnna.

  35. Jájá….fínt að ræða svona hluti áður en tímabilið byrjar. En þetta er auðvitað too deep in the shæt. Þetta snýst auðvitað eingöngu um það hvort við séum að fara að styrkja liðið og ná þessu fjórða sæti eða ekki.

    Staðreyndin er líka sú að það er ekki hægt að hengja allt sem miður hefur farið undanfarin ár á eigendurna. Þjálfarinn á nú oftar í hlut þegar lélegar ákvarðanir eru teknar. Við sjáum hvað gerðist þegar Souness tók við völdum á níunda áratugnum og svo setti Dalglish tærnar á sér við hælana á honum með hræðilegum kaupum á miðlungs leikmönnum….eitthvað sem Rogers hefur verið að fægja burt undanfarið.

    Þetta er ekki svart og hvítt eins og margir hérna halda, þetta er bara eins og fyrirtæki. Þegar árferðið er gott er eytt meira í leikmenn en minna eftir klúbburinn gerir slæm kaup. Brendan hefur allavega náð í mest spennandi leikmann seinni ára á á aðeins rúmlega 10 millj. punda á meðan aðrir þjálfarar hafa eytt í minni spámenn fyrir mun meira. Þetta er bara eins og með stelpunar, það er hægt að finna gullmola í Bónus en svo eru bara innantómar glansmyndir á djamminu.

    Brendan er að gera frábæra hluti og virðist hafa þokkalegan stuðning til þess frá eigendunum. Það skiptir öllu máli.
    Við vitum öll að Liverpool er ekki með múltí-dollar eigendur líkt og City eða Chelsea (líklega undir 5% capacity miðað við sykurpabbaliðin). En samt virðast menn og konur halda annað á þessu spjalli.

    Ég er allavega drullu spenntur fyrir tímabilinu, við erum með fullt af skemmtilegum leikmönnum sem eru að springa út, Sterling, Aspas, Borini (já ég sagði Borini!), Allen, Hendo svo ég tali nú ekki um……..Coutinho 🙂

  36. Maggi segir í raun allt sem segja þarf i kommenti nr 8, er honum alla leið sammála..

    Það er buið að liggja ljóst fyrir nuna i eina 3-4 glugga að þessir kallar hafa ekki það sem til þarf til að koma liðinu i meistaradeildina því miður. eitthvað mikið þarf að breytast hratt núna ef við ætlum að eiga breik i vetur. nyjasta nytt er að við seum að fá óþekktan vinstri bakvörð að láni, kommon hvað er að frétta ?

    Til þess að komast i meistaradeildina þarf að eyða slatta af peningum úr eigin vasa, FSG men hafa ekki gert það i siðustu gluggum eins og kristjan atli synir fam á her fyrr i þræðinum, þeir virðast i raun vera bunir að jata sig sigraða i barattunni um að komast i meistaradeildina sem er sorglegt. Stærsti klúbbur Englands á að vera í henni en eins og staðan er í dag er nkl ekkert sem bendir til þess að okkar ástkæra lið komi til með að taka þátt í þeirri keppni á næstu árum svo einfalt er það.

    Eg hlakka mikið til ef ekkert almennilegt verður keypt nuna fyrir 1 september þegar mótmælin hefjast á Anfield, eg trui þvi ekki að stuðningsmenn Liverpool ætli að láta bjóða sér 5-8 sætið eina helvitis ferðin enn. Það reyndar sást vel í fyrra að stemmningin á Anfield er orðinn oft á tíðum eins og í jarðarför sem er afar sorglegt.

    Ég fýla Brendan Rodgers í drasl og vildi engan annan vilja hafa i sætinu hans en það er ekki hægt að gera meiri kröfur á hann með þetta lið en að enda i 6-8 sæti, hópurinn okkar er bara ekkert betri en það í dag frekar en hja Dalglish, Hodgson og undir lokin hja Benitez,..

    Maður er ekki að fara fram á að liðið vinni dolluna næsta vor en eru ekki lágmarks kröfur hjá einu af 5 stærstu knattspyrnuliðum evrópu allavega þær að liðið se með i keppninni sem 32 bestu lið evrópu taka þátt í ??? liðið er ekki með i keppninni þar sem 32 bestu liðin taka þátt og ekki heldur með i keppninni þar sem næst bestu 32 liðin taka þátt, þetta er skandall….

    eg se nkl ekkert hja þessum eigendum sem bendir til annars en að þer muni afram bjoða okkur uppá að keppa um 5-8 sætið svo einfalt er það, er það það sem menn eru bara alsælir með eða ? þetta er svipað og að stuðningsmönnum KR yrði boðið uppá það mörg ár i röð að keppa bara um sæti 4-7 i deildinni, se það ekki gerast sko…

    æji eg veit það ekki, mer finnst þetta sorglegt, erum með marga fína leikmenn, frábæran knttspyrnustjóra sem eg er handviss um að hafi allt sem þarf til að koma liðinu i hæstu hæðir en því miður mun honum aldrei nokkurn timann takast það þegar hann fær ekki stuðning eigendanna því miður…..

    Því fyrr sem menn byrja að mótmæla því sáttari verð eg….

    Já eg er bara neikvæður í dag sorrý drengir…

  37. Rúnar nr 40

    það má vel vera að FSG menn seu fégráðugir þó þeir hafi ekki enn selt suarez, ef eg ætti bíl sem eg gæti fengið 2 milljónir fyrir þá sel ég hann ekki a 1,2 milljónir heldur bíð þar til eg fæ þessar 2 milljónir..

    FSG selur ekki suarez a 40 milljónir ef þeir vita að þeir geti fengið 50-55 …

  38. Neikvædur Vidar? Alls ekki, raunsær. Staðan er nefnilega nákvæmlega þessi. Eigendur okkar hafa núna ut gluggann til þess að sanna sig fyrir okkur, 1-2 stór kaup auk halda Suarez. Ef ekki, þá heldur rugl okkar afram 6-8 sæti. Sa enn einn brandarann i dag um Liverpool… mikið til í honum.

    “Liverpool officials have made it clear they do not intend to sell Luis Suarez to a club in direct competition with Liverpool.

    “We didnt know Sunderland and Swansea could afford him”

    Við erum himinn og haf frá liðunum í topp5. Chelsea-Man U-Man City-Arsenal-Tottenham. Ef eigendur okkar gera ser ekki grein fyrir að það se nuna eda aldrei þa skil eg ekki af hverju þeir voru ad fjarfesta i einhverju merkasta iþrottafelagi veraldar.

    Come on Yanks, komið okkur a ovart 🙂

  39. Sammála Viðari í flestu. Mér hefur í langan tíma þótt vera greinilegt hvað kanarnir eru að gera við klúbbinn okkar. Þeir eru að gera hann að arðvænlegri söluvöru fyrir sig eftir einhvern x tíma. Nenni ekki að stagla á einhverjum smáatriðum en ef menn skoða stóru myndina hljóta menn að sjá þetta. Slá um sig með einhverju pr stuffi og auðtrúa einstaklingar kokgleypa einhvern velling sem út úr þeim kemur. Árangurinn undanfarinn ár segir bara allt sem segja þarf. Hann er enginn og ég þoli það ekki mikið lengur. Ég vona bara að þeir selji klúbbinn sem fyrst. Ég sagði það í fyrra og segi það aftur núna FSG eru ekkert að fara koma okkur í fremstu röð aftur með svona launa og kaupstefnu.

    Kanana út og það sem fyrst

  40. Það væru góð tíðindi fyrir alla stuðningsmenn Liverpool að fá 2-3 leikmenn sem mundu detta inní byrjendaliðið hjá Liverpool,,,, en það er ekki að fara að gerast hjá þessum eigendum því miður,,,,, eru menn strax búnir að gleyma í fyrra þegar Brendan sagði “‘I would need to be a nutcase even to consider at this moment to let Carroll go out, unless there are other solutions for that.’
    Og hvað gerðist?? Carroll fór og engin kom í staðinn.
    Þessir eigendur eru fínir að eiga lið sem er að berjast um 10-6 sæti en þar á Liverpool ekki heima.

  41. Ja mikið hlakka ég til þegar tímabilið hefst þá er alla vegna hægt að ræða leiki liðsins í stað þess að pæla í hvort okkur vanti tvo eða þrjá leikmenn í viðbót við hópinn. Það er í raun alveg sama hvaða leikmaður er bendlaður við klúbbinn ef hann er á 20 -30 millur þá finnst okkur þetta alltof hátt verð fyrir leikmanninn. Nú ef hann er nánast óþekkt nafn þá er alveg vonlaust að vera að fjárfesta í slíkum leikmönnum.

    Ég ætla nú bara að vera jákvæður (sama hvað öðrum finnst um það). Ég tel að klúbburinn sé bara ágætlega rekinn fjárhagslega og það tekur tíma að byggja upp gott lið. Það er heilt teymi sem vinnur við að kanna leikmannamarkaðinn og finna réttu leikmennina fyrir klúbbinn og eina sem ég get er að treysta á að þeir vinni sína vinnu, annars verða þeir reknir.

    Hópurinn í dag er alveg ágætlega skipaður og liðsheildin virðist öflugri en oft áður. Eitthvað sem Man utd. er þekktir fyrir, öfluga liðsheild og það er það sem skiptir máli. Svo er langt síðan við höfum átt svona marga efnilega og góða unga leikmenn. Þannig að ég tel að framtíðin sé björt og við eigum eftir að vera stórveldi á nýjan leik.

  42. Jæja, óskapar neikvæðni ræður hér ríkjum hjá sumum!

    Ég tel að við séum með betra lið en við vorum fyrir ári síðan. Við höfum misst, lánað eða selt leikmenn. Og keypt nýja leikmenn í staðin.

    Kolo Toure kom í stað Carragher
    Simon Mignolet kom í stað Reina
    Sturridge kom í stað Carroll

    Mér sýnist ofangreind upptalning vera nokkrun veginn á pari og þó, kannski ekki til að ná betri árangri en við höfum náð síðast liðin ár.

    Nokkrir gamlir voru þegar farnir fyrir síðasta keppnistímabil, s.s. Dirk Kuyt, Maxi o.fl.

    Nýjir leikmenn eru m.a. snillingurinn Coutinho, Luis Alberto og Iago Aspas. Það hlytur að teljast til bóta.

    Það sem mér finnst hins vegar gleymast er að megin hluti hins unga liðs okkar er orðið árinu eldri (eins og við öll reyndar!) og ættu að hafa þroskast sem fótboltamenn. Þegar leikmenn eru komnir vel yfir þrítugt er óliklegt að þeim fari mikið fram en þetta okkar unga lið, sem fékk nýjan þjálfara, tel ég að eigi eftir að slípast og verða betra. Ég get nefnt Sterling og Ibe sem dæmi. Kannski Wildom og Kelly. Þessir drengir hafa fengið að spila og öðlast því reynslu. Ég er ekki á móti því að kaupa góða leikmenn sem falla inn í þann fótboltastíl sem BR er að þróa – en slík kaup geta líka misheppnast. Sem dæmi þá held ég að rangt hefði verið að kaupa Sahin. Við fengum hann að láni og því miður féll hann ekki inn í liðið.

    Við hljótum að mæta sterkari til leiks og betur undirbúnir en fyrir ári síðan.

  43. Ég fíla eigendurna, stjórnina, þjálfarann, liðið, unglingana og kaupin á árinu.

    Ég er bara almennt bjartsýnn á framtíð Liverpool FC og sé fyrir mér að liðið bæti sig samfellt milli næstu tímabila og að innan tveggja ára munum við sjá frábæra blöndu manna úr unglingastarfinu og nokkurra aðkeyptra snillinga vera að berjast um alla helstu titla sem í boði eru!

    En svo er ég líka bjartsýnn og jákvæður að eðlisfari. Það gæti haft einhver áhrif á þessa skoðun mína.

  44. Þetta er nákvæmlega eins og ég hef alltaf spilað football manager, er að elska það sem er í gangi hjá Liverpool…

  45. það verður gaman að sjá hvernig hljóðið hérna verður 1 september kl 3 þegar við verðum nýbúnir að niðurlægja Moyes á Anfield og komnir með 9 stig í 3 leikjum!

    Annars voru Sjeikarnir voru búnir að eiga Man City og dæla í það peningum í þrjú ár áður en félagið lyfti fyrsta bikarnum undir þeirra stjórn.
    Rodgers er búinn með eitt season, hvernig væri að sýna smá þolinmæði?

  46. NÆSTI LEIKUR
    Indonesia – Úrvalslið
    Indonesia
    Vináttuleikur
    20. júlí kl. 13:30

    En að öðru.
    Nú í upphafi leiktíðar eru flestir sem geta spilað Brendan stílinn og verðum þaraf leiðandi ekki eins hrikalega slakir og í upphaf seinustu. Sem gefur okkur einhver aukastig( komast allavega upp fyrir everton).

    En gaman væri að fá að vita hversu mikið sé búið að draga saman í launa málum síðan þessir kanar tóku við, finnst eins og í öllum gluggum sé verið að losa um pening með því að láta launaháa kalla fara, þrátt fyrir að hafa not fyrir mennina.

    Samt sem áður þá er ég þokkalega sáttur við liðið og tel ekki þörf á miklum kaupum þar sem það eru þónokkrir piltar sem eru að koma vel uppúr ungl. starfinu sem og þeir sem hafa verið keyftir frá áramótum(flestir).

    Enn allavega tek pollýönnu á þetta og reyni að horfa á þetta með bjartsýnis augunum fram að áramótum allavegana.

    YNWA

  47. Mér finnst Liverpool vera að sóa ákveðnu tækifæri til að nálgast bestu liðin. Manchesterliðin og Chelsea eru öll að skipta um stjóra og Tottenham að missa sinn langbesta mann. Það er ekkert ólíklegt að byrjunin verði erfið fyrir nýju stjórana, sérstaklega Moyes, og að þau muni vera óstöðug á meðan nýir stjórar eru að venjast starfinu og leikmenn að venjast nýjum stjóra. Þarna finnst mér að stjórnendur Liverpool hefðu átt að vera sniðugir og sjá að núna er stóra tækifærið til að nálgast þessi lið. Splæsa í að styrkja byrjunarliðið með 2-3 virkalega góðum leikmönnum og reyna að ná fljúgandi starti.

    Núna finnst mér tækifærið vera til að nálgast stóru liðin og vona að FSG sjái það líka, held reyndar að þeir geri það ekki því miður.

  48. Úr því sem komið er verður Liverpool allavegana ekki enskur meistari næstu þrjátíu árin hið minnsta.

    Nú eru liðin 23 ár frá síðasta titli og á því tímabili hefur liðið eiginlega ekki blandað sér almennilega í baráttuna í amk. 16 skipti. Það sem breyttist frá fyrra tímabili Dalglish var að innstreymi fjármagns jókst gríðarlega í formi sjónvarpstekna, auglýsingastyrkja, sölu á merkjavöru og innkomu á leikdag. Það fyrstnefnda varð til að jafna keppnisgrundvöllinn fyrir fleiri lið þar sem sjónvarpstekjunum er dreift ótrúlega jafnt miðað við önnur lönd, en Liverpool var alltof lengi sofandi á verðinum þegar kom að því að nýta sér styrk vörumerkisins og uppfæra völlinn. Auðvitað er einfalt að gagnrýna aftur í baksýnisspegilinn en ákveðin íhaldssemi hjá stjórn klúbbsins og áhangendum hélt honum niðri með þeirri trú að nú þyrfti bara að a) gefa stjóranum sjö ár eins og Ferguson og b) kaupa 1-3 toppleikmenn og þá væri Liverpool aftur komið á sinn stall.

    Stjórar fengu góðan tíma og mikla þolinmæði (Houllier, Benitez) og leikmenn á borð við Kuyt, Torres, Suarez, Mascherano, Alonso, Reina, Kewell og Hamann hafa borið rauðu treyjuna. Þeir sem hafa séð um rekstur klúbbsins á meðan hafa með einni undantekningu verið góðir og ábyrgir rekstrarmenn.

    En…

    Enska úrvalsdeidin er ekki lengur íþróttakeppni þar sem menn uppskera árangur erfiðis síns fyrir metnaðarfullt starf í þjálfun aðalliðs og uppeldi ungra leikmanna, ábyrgs reksturs félagsins og klókindi í markaðssetningu og vörumerkjastjórnun.

    Vegna reglna eða regluleysis um eignahald og rekstur hefur eins deildin eins og áður hefur komið fram breyst í pissukeppni óligarka, fursta og einræðisherra. Man City og Chelsea eru klárlega ekki íþróttalið, þau eru leikföng ríkra, frekra krakka sem eiga foreldra sem kaupa leikvöllinn ef börnin þeirra tapa leik og ýta öðrum útaf honum. Man Utd náði góðri stöðu á árdögum úrvalsdeildarinnar með fyrirmyndar stjórn og huguðum rekstri en varð svo Gordon Gekko að bráð og gæti verið að sigla inn í varhugaverða tíma eins og sést á leikmannamarkaðinum í sumar.

    Tottenham og Arsenal mega eiga það að þau hafa sýnt meiri ráðdeild og skynsemi en þessi félög og verið hugaðri og nútímalegri í hugsun en Liverpool en það dugir þeim þó rétt til þess að hanga í 3-5 sætinu með kjafti og klóm. Þau eiga ekki breik í meistaratitilinn á meðan við notum olíu og gas og EPL / UEFA / ESB og breska ríkisstjórnin leyfa ástandinu að haldast óbreytt.

    Mesta hættan fyrir Liverpool er sú að á meðan vægi landsliða og landsleikja minnkar og vægi Evrópukeppni eykst virðist æ líklegra að stærstu félögin hlaupi á brott og stofnuð verði Ofurdeild Evrópu (amk. Evrópu). Það er svo greinilega blautur draumur í Bayern og Barcelona að hann hlýtur að verða að veruleika að lokum. Vilja menn vera með þar eða ekki? Hafa menn burði til þess þegar til þess kemur?

    En á meðan enska úrvalsdeildin er svona mikið skrípi er ég sáttur við að félagið reyni að sýna ábyrgð vegna þess að hætt er víð því að leið Man City og Chelsea verði jafn hröð niðurávið og hún var uppávið ef heldur sem horfir. Hvað ef Abrahamovic fær hjartaáfall eða Abu Dhabi fjölskyldan missir áhugann? Þetta fyrirkomulag að leyfa mönnum að fjármagna gríðarlegan hallarekstur með blóðpeningum þriðja heimsins er allavegana búið að eyðileggja ensku deildina í bili. Þetta er ekki íþrótt og ekki bisness, heldur eitthvað allt annað sem manni líst ekki allskostar á.

  49. Ég gæti ekki verið meira sammála Óskari Barnes (54), sá pirringur sem er hjá okkur mörgum er einmitt komin til vegna þess hve stutt er í að við getum verið alvöru contenders. Það er í það minnsta minn pirringur. Öll liðin fyrir ofan okkur og sum fyrir neðan eru að fara inn í tímabilið með miklar breytingar. City og Chelsea eru að mínu mati með sterkustu hópanna en við erum ekki svo langt frá hinum og verðum í slagnum en þá þurfum við að bæta BYRJUNARLIÐIÐ. Við sjáum þetta öll og þá er ekki skrítið að við séum pirruð að kanarnir sjái þetta líka. Alvöru miðvörður og alvöru sóknartengiliður og við erum í fínum málum, stjórinn er góður, hópurinn er fínn en það vantar bara smá extra til að klára dæmið.

    Kanarnir hljóta að sjá þetta eins og við hin, það er svo stutt á milli í þessu og á sama tíma og liðið verður betra og samkeppnishæft fá þeir auka gretid fyrir að gera eithvað í málunum. Þannig að með því að fjárfesta almennilega í liðinu núna geta þeir sýnt okkur öllum að þeim er alvara í því sem þeir eru að gera og fá þannig alla liverpool aðdáendur á sitt band. Ef þeir hinsvegar gera ekkert er ekki von á góðu bæði innan vallar sem utan. Núna er rétti tíminn til aðgerða og ég ætla að bíða með að dæma þangað til glugginn lokar, þeir geta farið úr næstum zero í hero ef þeir sýna okkur núna að þeim er alvara, koma svo!! komum Liverpool aftur þar sem það á heima, núna er tækifærið!

  50. Varð nú að svara þessu quote-i ..

    Til þess að komast i meistaradeildina þarf að eyða slatta af peningum
    úr eigin vasa,

    Eru Arsenal ekki búnir að vera í nánast áskrift að CL sæti undanfarin ár þrátt fyrir að vera yfirleitt á 0 eða plús nettóeyðslu?

    Hvað varðar það að hópurinn sé ekkert sterkari frá því á seinasta tímabili þá er það bara vitleysa.. liðið er komið með svo stjarnfræðilega betri framlínu núna miðað við upphaf seinasta tímabils og miklu meiri breidd.

    Eftir jól í fyrra, eða í raun eftir að Sturridge og Coutinho komu í liðið þá var árangur liðsins sá 4 eða 5ti besti í deildinni. Svo út frá því að sami hópur sé orðinn samstilltari og BR kominn með skýrari hugmynd um hvernig hann vill spila þá er CL alls ekki óraunhæft markmið.

  51. Afhverju tala margir her eins og thad se øruggt ad LFC nai ekki 4 sætinu !
    Eg held ad LFC eigi godan sens a topp 4. Lidid spiladi vel seinnihlutan i fyrra.
    Thad er bara tvennt sem tharf ad hafa ahyggjur af…1) LS fari i fylu og hagi ser eins og asni…2) Vørnin , Mer list ekki a Kolo Toure…

Thailand 0 – Liverpool 3

Ágúst er mættur (opinn þráður)