Upphitun: Carragher kveður gegn QPR

Þessi leikur snýst bara um eitt og ekkert annað, eins fáránlega og það nú hljómar þá verður þetta í síðasta skipti sem við sjáum Jamie Carragher í hjarta varnarinnar hjá Liverpool í alvöru leik.

Annan heimaleikinn í röð er Kop búið að skipuleggja mosaic mynd, nú að sjálfsögðu til að heiðra kappann og hvet ég alla til að sjá dalinn sem verður í þeirri mynd sem kemur til af því að litli hobbitinn hann Carlberg ku verða á staðnum.

Síðasta færsla fór í að kveðja Carragher og því svosem hægt að skoða aðeins þennan leik sem er jú auðvitað síðasti leikur tímabilsins og án vafa síðasti leikur einhverra fleiri leikmanna Liverpool.

Eftir nokkur ár er ég nokkuð viss um að þessa tímabils verði varla minnst enda hreint ákaflega tíðindalítið á mælikvarða Liverpool, vonandi skilar þessi nauðsynlega og sársaukafulla uppbygging sem félagið hefur þurft að taka undanfarið sér í heilsusamlegra og betra félagi til næstu ára og vonandi höldum við okkar bestu leikmönnum.

Meðalaldurinn er töluvert lægri núna heldur en á sama tíma í fyrra, liðið býr yfir miklu betri möguleikum til framtíðar í sóknarleiknum og það sem við helst öskruðum á í fyrra hefur verið lagað, við erum komin með gríðarlegan hraða, kraft og tækni í sóknarlínuna, m.ö.o. mörk/færi frá fleiri stöðum en bara Gerrard og Suarez. Það er það lang jákvæðasta við þetta tímabil. Vörnin hefur ekki verið vesen í tæpa tvo áratugi en núna er sannarlega mikilvægt að vanda valið þar svo við lendum ekki í sama veseni og á miðjum tíunda áratugnum. Brotthvarf Carragher gæti verið félaginu erfiðara en við áttum okkur á núna.

Úrslit leiksins sjálfs skipta nákvæmlega engu máli en þetta er engu að síður skyldusigur og krafan á að halda hreinu hefur sjaldan verið meiri. Gerrard og Agger eru báðir frá þar sem þeir voru báðir sendir strax í aðgerð sem annars átti að gera eftir tímabilið. Gerrard er með vesen í öxl en Agger í baki. Joe Allen er auðvitað ennþá frá vegna meiðsla í öxl, Sterling sem líklega fengi séns núna gegn sínum gömlu félögum er meiddur rétt eins og Martin Kelly sem þó er að jafna sig í hnénu. Luis Suarez er í banni, man ekki fyrir hvað og Martin Skrtel er tæpur vegna veikinda.

Liðið verður því líklega einhvernvegin svona:

Carragher

Carragher – Carragher – Carragher – Carragher

Carragher – Carragher- Carragher

Carragher – Carragher – Carragher

Til vara giska ég á það svona:

Reina

Johnson – Carragher – Coates – Enrique

Henderson – Lucas – Shelvey

Downing – Sturridge – Coutinho

Giska á Shelvey rétt á undan Borini sem gæti mjög vel líka komið inn í byrjunarliðið og ætti það skilið eftir innkomu í síðustu leiki. Hann lofar góðu núna m.v. upphaf þessa tímabils, eðlilega kannski.

Fyrri leikur liðanna fór eins og margir hjá okkar mönnum gegn minni liðum á þessu tímabili, 3-0 með mörkum frá Suarez og Agger. Suarez sá um þá á Anfield í fyrra líka í leik sem við unnum 1-0. Ef við vinnum þennan leik bætum við árangurinn frá síðasta tímabili um 9 stig sem er töluverð bæting og setur okkur kannski á svipaðan stað og við vorum tímabilið 2009/10 er liðið náði í 63 stig og 7.sæti eins og nú. Munurinn er að núna erum við vonandi á leiðinni upp, ekki þverhnípt niður eins og þá.

Gengi liðanna hefur annars verið ósköp svipað síðan þau mættust í desember og núna eftir að töframaðurinn Harry Redknapp kom hefur QPR verið á fljúgandi siglingu, hann er meira að segja nú þegar farinn að draga úr væntinum félagsins fyrir næsta ár svo hann geti ennþá haldið hinum mjög svo óverðskuldaða hetjustimpli sem hann hefur hjá pressunni.

Svona er gengi liðanna síðan þau mættust í desember.

 • Liverpool – P: 17 W: 8 D: 6 L: 3 F: 39 A: 17 GD: +22 Pts: 30
 • Q.P.R. – P: 17 W: 3 D: 6 L: 8 F: 14 A: 23 GD: -9 Pts: 15

Redknapp og félagar hafa ekki unnið neinn af síðustu átta leikjum, sex þeirra hafa tapast og tveir endað með jafntefli. Félagið hefur bara unnið fjóra leiki í vetur og skorað fæst mörk allra (30). Þeir hafa spilað 15 leiki í vetur án þess að skora. Ég var aldrei neinn andstæðingur QPR, þvert á móti, en mér finnst ljómandi gott að sjá þetta stjarnfræðilega heimskulega viðskiptamódel þeirra springa laglega í andlitið á þeim. Stjórnendur félagsins láta Christian Purslow næstum því líta út fyrir að hafa eitthvað vit á fótbolta, samt alls ekki.

Liverpool hefur á móti skorað 70 mörk á þessu tímabili sem er það mesta hjá okkur síðan félagið skoraði 77 mörk 2008/09. Þetta er bara í fjórða skipti sem við skorum  70 mörk eða meira á tímabili síðan enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar. Félagið hefur ekki tapað í sjö síðustu leikjum sem er jákvæð þróun, fjórir hafa endað með jafntefli og þrír sigrar. Þegar lið eins og Liverpool er að vinna sig úr því að tapa svona mörgum leikjum á tímabili eins og við höfum verið að gera er óhjákvæmilegt að liðið geri töluvert af jafnteflum áður en liðið fer að breyta þeim í sigra, vonandi tökum við það skref á næsta tímabili. Rodgers er mjög vel meðvitaður um þetta vandamál. Eins er ekki hægt að saka Liverpool um að gera svona mörg jafntefli með því að spila bara varnarbolta, þvert á móti sem er mun jákvæðara upp á framtíðina.

(Færsla lauslega unnin út frá frábærri upphitun á TTT. Mælum enn og aftur með þeirri síðu, gjaldið sem þeir rukka einn helsti kostur síðunnar enda sanngjarnt verð og heldur mestu tröllunum frá.)

Spá: 
Liverpool er að ég held alls ekkert komið í sumarfrí í huganum og það verða nógu margir inná hungraðir í að gera vel í þessum leik. Þveröfugt við ömurlegt lið gestana sem virðist hafa tapað öllum karakter og afskaplega fáir leikmanna á mála hjá QPR hafa það hjarta sem þarf í öll lið. Það virðist a.m.k. alls ekki slá fyrir QPR.

Liverpool á heldur betur ekki við þetta vandamál að stríða á morgun, ekki í þessum leik, svo mikið er fullkomlega öruggt. Jamie Carragher verður heldur betur up for it og guð hjálpi þeim liðsfélaga hans sem er það ekki líka.

Ég hef alls ekki verið mjög bjartsýnn fyrir leiki Liverpool í vetur en í þetta skiptið ætla ég að tippa á öruggan 4-0 sigur. Sturridge (2), Downing og Coutinho sjá um að skora.

Guð minn góður hvað það er gott að þetta tímabil er að verða búið og hjálpi mér hvað ég er ekki að nenna þessum þremur mánuðum þar til næsta season byrjar.

Að lokum: 
Enn og aftur, takk fyrir mig Jamie Carragher, við höfum svo sannarlega farið í gegnum súrt og mjög sætt saman. Á vefsíðum eins og þessari (þó að við reynum) þá kemur það ekki alltaf nægjanlega vel fram hvert álitið á ýmsum málum og leikmönnum er í Liverpool borg, Eina staðnum þar sem það skiptir máli, það er stundum fróðlegt að sjá og heyra í scouserunum eftir að hafa séð misgáfulegar umræður á netinu.

Það sem heimamenn horfa fyrst til í fari leikmanna og þá er ég að tala um númer 1,2 og 3 er að hann gefi sig gjörsamlega allann í verkið, það er hægt að fyrirgefa ótrúlegustu mistök ef viðkomandi sýnir að hann er að gefa sig allann í verkið og gefst ekki upp. Dirk Kuyt kemur strax upp í hugann.

Jamie Carragher skoraði snemma á ferlinum tvö sjálfsmörk í sama leiknum gegn United og hefur aldrei verið neitt tæknitröll. En hann hefur samt náð að verða næst leikjahæsti leikmaður í sögu Liverpool og er klárlega meðal helstu goðsagna úr sögu félagsins. Sérstaklega þegar kemur að því að gefa allt sem hann á í leikinn og nákvæmlega fyrir það verður hans minnst næstu áratugi í sömu andrá og leikmanna sem kannski unnu mun fleiri titla en hann. Reyndar hefði Carragher komist í flest ef ekki öll lið í sögu Liverpool og það hafa flestir viðurkennt.

Ég verð illa svikinn ef Anfield Road eigi ekki eftir að kveðja Nr. 23 með sögulegum style.

Super Danny Murphy á lokaorðin í síðustu upphitun ársins hér á kop.is um vin sinn og fyrrum liðsfélaga:

“What they’ll miss the most about him when he’s gone is that every player can be replaced to a point, but it’s what he brings off the pitch – the mentality of knowing what that club means, what it’s like to play for Liverpool and every single day on that training pitch getting the best out of others.”

 

19 Comments

 1. Takk fyrir mig Babu, og þakka ykkur Kop mönnum að halda úti svona frábærri síðu án endurgjalds(þó svo margir okkar vildu gjarnan hjálpa til við að borga kostnað en það er gömul umræða).

  Carra YNWA

 2. Já hans verður sárt saknað. Hann lofar að fara ekki að grenja við kveðjustundina. Ég er ekki viss um að ég geti lofað því sama! 🙂

 3. Takk fyrir góðan vetur hérna á síðunni, uppgötvaði Kop.is fyrir rúmu ári og er orðin fíkill í síðuna.

  Liverpool sigra þennan leik svo gjörsamlega að QPR byrjar í Football League næsta haust. 5-0. Sturridge 2, Cotinho eitt, Borini eitt og verður maður ekki að spá Carra einu, svona til að klára ferillinn 🙂

 4. 2-0 lítið eftir, víti, Carra á punktinn, þrumar upp í miðja kop stúku, hlegið í hálfa öld á eftir. Carra hefði sko húmor fyrir því.
  YNWA

 5. Carragher er með þetta og setur eitt kvikyndi. Lífið er ljúft. Takk fyrir allt herra Liverpool.

 6. Tilhugsunin um að Carra sé að hætta er fáránleg, frá því ég man eftir því í seinni tíð hefur hann verið viðloðandi liðið og ég man varla eftir Liverpool án hans. Ég lýg því ekki, mér líður eins og einhver mér nákominn mér hafi látið lífið, svo miklar tilfininngar hef ég til hans og Liverpool. Það er mín von að í framtíðinni muni einhver einstaklingur með svipaða andlega hæfileika og Carra koma upp í gegnum unglingastarf Liverpool…en það er bara von.

 7. Mikið verður lífið undarlegt þegar maður sér ekki lengur Carra í hóp Liverpool á leikdegi. Vonandi koma fleiri svona leikmenn fljótlega upp úr ungu liðum Liverpool. PRICELESS leikmaður, fyrir hvaða félag sem er, en við vorum svo heppnir að hann spilaði fyrir Liverpool FC. Spái Liverpool 3-0 sigri, vona að við fáum víti og að Carra skori.

  Vona að Birkir “litli” skemmti sér á leiknum 😉

 8. Ég man það eins og hann hafi fengið krampann í gær. Ég mun aldrei gleyma krampanaum sem Carragher fékk 2005, og hristi af sér á einni sekúntu til þess eins að henda sér í aðra tæklingu tveim sekúntum seinna. Er hann maður eða vél? Ég er ekki viss.

 9. Farvel Carra, þessi leikur verður þinn þinn þinn. Klárum þetta með sigri og leyfum hr. Liverpool að njóta dagsins.

 10. Sælir Félagar, Carl Berg sendir ykkur kveðju úr Liverpoolborg.

  Hér snýst gersamlega allt um síðasta leikinn hans Carragher. Það er alveg ótrúlegt að koma inní búðirnar hérna þar sem búið er að endurinnrétta bókstaflega og nánast ekkert nema Carragher-vörur á boðstólnum, allt frá músamottum og marshmellows uppí fáránlega flottar handútskornar styttur …. Carra bara á þessa helgi algerlega skuldlaust og ég man ALDREI eftir því að hafa heyrt talað jafn fallega um nokkurn mann eins og maður heyrir fólkið hérna tala um hann.

  Það skiptir engu máli með hvaða liði menn halda hérna, eða hvort menn fylgjast með fótbolta yfir höfuð, það vita allir um hvað sunnudagurinn snýst og það tala allir um manninn eins og þeir séu að tala um Jesús sjálfan bara… Það er dálítið merkilegt í sjálfu sér og andrúmsloftið eftir því skemmtilegt.

  Ég gat ekki sofið lengur en til kl 08, því eftirvæntingin er svona um það bil þrjátíu sinnum meiri en á síðustu jólum. Ég skal skjóta á ykkur lengri sögu þegar ferðin er afstaðin og nokkrum góðum “gisti og restaurant” tipsum sem ég uppgötvaði í þessari ferð, og á eflaust eftir að nýtast einhverjum sem vilja spara pening.

  All the best guys og heyrumst seinna…

  Insjallah
  Carl Berg

 11. þakkir til ykkar sem halda þessari síðu gangandi, það er ávallt spennandi að kíkja á hana og pæla í hlutunum, Tökum þetta á eftir ca 5-1 og ef við fáum víti þá á Carr að taka það. 🙂

 12. Ég er búinn að fæja F5 takkann þar sem silly season er handan við hornið!

We all dream of a team of Carraghers

Liðið gegn QPR