We all dream of a team of Carraghers

Maður þarf að vera ansi ótengdur fréttum af Liverpool FC til að vita ekki af því að sunnudaginn 19. maí lýkur næstlengsta ferli knattspyrnumanns í sögu Liverpool Football Club. Ferill sem hófst haustið 1996 endar vorið 2013, 733 keppnisleikjum síðar. Einungis goðsögnin Ian Callaghan hefur náð fleiri leikjum undir merkjum okkar dásamlega félags.

Við erum að sjálfsögðu að tala um öðlinginn James Lee Duncan Carragher. Hér á eftir ætlum við, hver og einn penni Kop.is að koma með smá mola honum tengdum. Væntanlega verður hægt að finna á öðrum síðum langar útgáfur af ferileftirmælum en við viljum þakka honum sitt framlag á þennan hátt.

Fyrstu árin (Maggi)

Eins og margar aðrar Liverpool hetjur kemur Jamie úr bláa hluta borgarinnar. Var dyggur stuðningsmaður Everton eins og fjölskylda hans, fór oft á Goodison Park og var m.a. á undanúrslitaleik Everton og Norwich 15.apríl 1989 og hefur oft rifjað upp viðbrögð þeirra sem voru á þeim leik þegar fréttirnar frá Hillsborough fóru að detta inn.

Á þessum tíma voru félögin ekki með yngri lið en U-14 ára sem voru í alvöru þjálfun heldur voru skólaliðin aðalliðin en liðin buðu drengjum til æfinga tvisvar til þrisvar í viku. Jamie var boðið í slíkan æfingahóp hjá Liverpool 12 ára gamall árið 1990 og eftir vandlega umhugsun ákvað hann að reyna fyrir sér hjá rauðliðum, skref sem varð afdrifaríkt í fjölskyldunni. Ferill hans í unglingaliðunum var farsæll, árgangur hans var góður og besti vinurinn varð Michael nokkur Owen. Saman leiddu þeir unglingalið félagsins til sigurs í FA Youth Cup vorið 1996 og í októberlok það ár skrifaði hann, þá 18 ára gamall, undir sinn fyrsta atvinnusamning. Stjóri félagsins á þeim tíma var Roy Evans og hefur hann sagt að leiðtogahæfileikar stráksins, þrek og kraftur auk eindregins sigurvilja hafi verið þeir kostir sem hafi orðið til þess að hann fékk samning, þó Jamie stæði aftar á öðrum sviðum eins og tækni og hraða. Í janúar 1997 kom strákur inná í fyrsta sinn, þá í deildarbikarleik gegn Middlesboro og síðan í deildinni gegn West Ham. Hann lék svo sinn fyrsta leik í byrjunarliði í 3-0 sigri gegn Aston Villa, þá sem djúpur miðjumaður. Í vörninni voru frá hægri talið Kvarme, Wright, Matteo og Bjornebye. Fyrir aftan þá ÍBV-drengurinn David James! Ég man eftir því að hafa horft á þann leik í beinni og sérstaklega var maður glaður þegar hann poppaði upp og skoraði með skalla upp úr horni.

Maður var bara sáttur að sjá duglega djúpan miðjumann sem gæti skorað annað slagið vera að koma inní liðið okkar … hversu rangt gat maður eiginlega haft fyrir sér?

Carragher og knattspyrnustjórarnir sex (Babu)

Lagið um sem stuðningsmenn Liverpool syngja um kappann er engin tilviljun, svona karakter er draumur hvers þjálfara og alltaf meðal fyrstu manna á blað. Ferill Carragher hjá Liverpool sannar þetta ágætlega því frá 1996 til 2013 hafa 38 misgóðir og misgamlir varnarmenn gengið til liðs við Liverpool, samt hefur Carra varla misst úr leik og af þessum 38 eru 33 ekki lengur á mála hjá Liverpool. Ef einhver hefur hentað betur en Carragher í einhverri stöðu hefur hann bara verið færður í aðra, alltaf hafður inná samt.

Hann er karakter sem minnir smá á hvernig körfuboltamanninum Larry Bird er lýst: ekki sá fljótasti, ekki endilega sá besti, ekki sá stærsti og þar fram eftir götunum en þrátt fyrir það stóðust honum ákaflega fáir snúning, ef einhver. Leikmaður sem steig upp þegar mest á reyndi, týpan sem þurfti að sannfæra um að fara útaf þrátt fyrir að hann væri fótbrotinn.

Roy Evans gaf honum tækifæri 1997, eitthvað sem kom engum á óvart sem hafði fylgst með honum í yngri flokkum. Eins og Maggi segir þá kom hann inná sem varnartengiliður undir lok tímabilsins 96/97, staða sem hann spilaði mikið í yngri flokkum áður en hann komst í aðalliðið.  Strax á næsta tímabili spilaði hann helminginn af tímabilinu hjá Evans 19 ára gamall, samtals 23 leiki. Síðan þá hefur hann varla misst sæti sitt fyrr en kannski um tíma á þessu tímabili.

Gerard Houllier kom inn 1998 með sinn varnarbolta. Hjá honum var Carragher algjör lykilmaður og spilaði yfir 50 leiki öll tímabil Houllier nema þegar hann fótbrotnaði. Mest var hann hægri bakvörður, en þegar Babbel eignaði sér þá stöðu fór hann bara í vinstri bakvörðinn. Hann var alveg gangslaus sóknarlega og fór varla yfir miðju í 6 ár en það skipti engu máli hvað sóknarmaðurinn hét eða fyrir hverja hann spilaði, Carragher át þá alla (nema Thierry Henry eins og Carra hefur sjálfur viðurkennt, réði aldrei við hann – innsk. KAR).

Rafa Benitez kom með allt annað leikskipulag en Houllier og setti Carragher eins og skot í miðvörðinn. Þar átti hann sín bestu ár og var á tíma klárlega meðal bestu varnarmanna í heiminum og náði frábærlega saman við Hyypiä. Sérstaklega á árunum 2005-2009 er hann var alltaf eins og klettur í hjarta varnarinnar og komst tvisvar í úrslit Meistaradeildarinnar. Það verða sagðar sögur af frammistöðu hans í undanúrslitum og úrslitum Meistaradeildarinnar 2005 næstu áratugi en framganga hans þar skyggir svolítið á fjölmarga aðra leiki þar sem hann var hreint ótrúlegur.

Roy Hodgson dreymir líklega ennþá um leikmenn eins og Carragher enda uppfyllir hann líklega allar kröfur sem Hodgson gerir til sinna leikmanna. Blessunarlega samt hefur hann fengið betri stjóra á sínum ferli sem fara fram á mun meira og nýta hæfileika Carragher mun betur.

Hjá Dalglish var hann enn á ný lykilmaður og leiðtogi þó aldurinn væri aðeins farinn að segja til sín. Skrtel og Agger áttu að heita okkar aðalmiðvarðapar en einhvern veginn var nú Carra oftast í liðinu, helst að meiðsli hafi haldið honum á hliðarlínunni.

Hugmyndafræði Brendan Rodgers er með þeim hætti að nú héldu flestir að tími Carragher væri endanlega kominn, hann er orðinn 34-35 ára, hægur og hefur aldrei verið sakaður um að vera bestur í að koma boltanum frá sér. Carragher trúði þessu meira að segja á tíma sjálfur og var á bekknum í nokkrum leikjum í röð. Engu að síður hefur hann núna þegar tímabilið er að klárast spilað alls 28 leiki í deild, bikar og Evrópu, enn eina ferðina slegið samkeppnina gjörsamlega út úr hugmyndafræði þjálfarans og oftar en ekki borið af í varnarleik Liverpool.

Það er einfaldlega ekki hægt að kaupa leikmenn eins og Carragher og líklega væri hann engan veginn sami leikmaður hjá öðru félagi sem stæði hjarta hans ekki svona nærri. Öll þau ár sem hann hefur spilað fyrir Liverpool hefur félagið þurft að glíma við moldríka andstæðinga við að halda okkar bestu leikmönnum, það segir líklega meira en margt að þrátt fyrir að vera á tíma talinn meðal bestu varnarmanna í boltanum datt engum í hug að reyna að kaupa hann frá Liverpool, sú hugmynd þótti einfaldlega hlægileg. Eins hafa aldrei komið fréttir af samningamálum Carragher nema rétt þegar það er tilkynnt að hann hafi skrifað undir nýjan samning.

Mikið djöfull vona ég að það sé að koma annar Carragher úr yngri flokka-starfinu. Það er varla að maður muni eftir Liverpool án hans og sú tilhugsun heillar ekkert.

Þrennan 2001 (Kristján Atli)

Áður en Carra gerðist miðvörðurinn og herstjórinn í hjarta varnarinnar árið 2004 má eiginlega segja að hann hafi flakkað á milli staða í byrjunarliði Liverpool. Hann var bakvörður, miðvörður, varnarsinnaður miðjumaður. Það var oft hætt við að stuðningsmenn liðsins afskrifuðu Carra sem þúsundþjalasmið, sem einhver sem gat spilað allar stöður en var ekki besti maður liðsins í neinni stöðu. Þetta virtist framan af hindra hann í að festa sig í sessi og eigna sér tiltekna stöðu í byrjunarliðinu en þegar litið er til baka má kannski líka segja að þetta hafi haldið ferli hans hjá Liverpool á lífi á fyrstu árunum.

Í aðdragandanum að þrennutímabili Houllier var vörnin mjög traust. Sá franski notaði Stephane Henchoz og Sami Hyypiä í miðri vörninni og hafði fengið til sín þýsku landsliðsmennina Markus Babbel og Christian Ziege í bakverðina. Það var erfitt að sjá hvar Carra ætti að finna sér pláss í liðinu og oft hefur það leitt til þess að leikmenn sem komast ekki að í „sinni stöðu“ eru seldir eða leita sjálfir á önnur mið til að fá að spila reglulega. Sömu örlög hefðu getað hent Carragher ef hann hefði ekki verið svona fjölhæfur. Það hélt honum jafnan í liðinu eða leikmannahópnum að um leið og einhver meiddist, hvar sem er í vörninni, var hægt að treysta á að Carra kæmi inn og skilaði sinni vinnu.

Þannig var það að hann spilaði alltaf reglulega, bæði í liðinu og sem varamaður, og smám saman varð hann mikilvægari og mikilvægari. Ef ég man rétt meiddist Christian Ziege einhvern tímann um mitt tímabilið 2000/2001 (þrennutímabilið) og Carra fór í vinstri bakvörðinn. Hann hafði leikið nær alla leiki og oftast í byrjunarliði en víðs vegar í vörninni. Í vinstri bakverðinum lék hann það vel í liði sem stóð sig vel í deildinni og vann þrjá bikara að þegar Ziege var kominn til heilsu á ný komst hann ekki að og þurfti á endanum frá að hverfa. Jamie Carragher var orðinn ómissandi hluti af vörn Liverpool.

Þannig gekk ferill þessa mikla meistara. Vorið 2001 vann liðið þrjá bikara og um haustið skellti liðið Evrópumeisturum Bayern og urðu Meistarar meistaranna í Evrópu. Í öllum þessum leikjum sýndi Carragher það sem við áttum eftir að venjast frá honum – að hann steig jafnan upp og lék hvað best þegar mest lá við. Þessi leikmaður var fæddur til að leika fyrir Liverpool, kunni betur en flestir að standa undir álagi og pressu og gaf sig jafnan 110% í alla leiki. Minningar af honum að skutla sér fyrir fyrirgjafir og skot Arsenal-manna í bikarúrslitaleiknum 2001 voru bara þær fyrstu af mörgum.

Istanbúl og Meistaradeildin 2005 (Kristján Atli)

Það er kannski ósanngjarnt að ætla að tína til bikarsigrana eina og sér hjá Carra, eins og hann hafi aldrei gert neitt af viti í deildinni. Það er auðvitað ekki satt, Carra hefur verið stöðugur klettur í vörn Liverpool í vel á annan áratug núna í deildinni og það verður mikið skarð að fylla þar. Engu að síður er það staðreynd að þegar við hugsum til baka yfir hans glæstustu stundir sem Liverpool-leikmaður koma nokkrir ótrúlegir bikarleikir upp í hugann. Um framgönguna á þrennutímabilinu hef ég þegar fjallað en það er í raun ekkert miðað við hvernig hann stóð sig á bestu mánuðum ferilsins, í hinni fræknu sigurgöngu í Meistaradeildinni árið 2005.

Þar eru helst þrír leikir sem standa upp úr. Fyrstan ber að nefna útileikinn gegn Juventus í 8-liða úrslitum keppninnar. Liðið fór með 2-1 sigur þangað gegn einu sterkasta liði Evrópu. Sá sigur hafði komið mikið á óvart á Anfield og bjuggust flestir við að Juve myndu vinna það upp á heimavelli með menn eins og Zlatan Ibrahimovic og Pavel Nedved í fararbroddi. Það gerðist þó aldeilis ekki og markalaust jafntefli þýddi að Liverpool var komið áfram. Það voru margar hetjur í þeim leik, menn eins og Xabi Alonso, Sami Hyypiä og Didi Hamann léku frábærlega. Enginn lék þó betur en Jamie Carragher sem henti sér fyrir allt og alla sem að marki komu eins og hans var háttur. Sú frammistaða var toppurinn á hans ferli þegar hér var komið sögu en það átti eftir að koma í ljós að það var rétt svo byrjunin.

Í næstu umferð náði liðið markalausu jafntefli á útivelli gegn Chelsea og komst svo snemma yfir á Anfield með marki Luis Garcia. Dómari leiksins hefur oft sagt að ef sá bolti hefði ekki farið inn hefði Petr Cech verið rekinn út af fyrir brotið á Baros og Liverpool fengið víti. Eftir á að hyggja hefði það sennilega verið betra því Liverpool hefði getað komist yfir úr vítinu og fengið að leika einum fleiri. Það sem gerðist í staðinn var að ellefu Chelsea-menn (fáránlega sterkt lið) lenti undir og gerði í kjölfarið stórsókn að Liverpool-markinu í góðar 90 mínútur. Stundum var heppnin með okkur (eins og þegar Eiður Smári skaut framhjá á lokasekúndunum) en oftast strönduðu sóknir þeirra á sama manninum: Jamie Carragher. Eiður Smári lét hafa það eftir sér eftir leikinn að Carra hefði spilað eins og andsetinn maður og það er sko ekki ofsögum sagt. Okkar menn voru komnir í úrslit Meistaradeildarinnar og það var að miklu leyti Carra að þakka.

Þá að úrslitunum sjálfum. Mótherjarnir AC Milan og varla gátu okkar menn unnið í þriðju umferðinni í röð gegn miklu sterkara liði? Við þekkjum söguna öll. Carra og Hyypiä komu engum vörnum við er Milan skáru í gegnum vörnina eins og hnífur í heitu smjöri í fyrri hálfleik en stórkostleg endurkoma jafnaði metin eftir hlé. Og þá var komið að vörninni, enn og aftur voru þeir kallaðir til að drýgja hetjudáðir og halda möguleikum Liverpool á lofti. Sem þeir og gerðu. Við eigum margar minningar frá þessum ótrúlega leik en fyrir mér er ein sú sterkasta að sjá Carra verja markskot í horn í framlengingunni, fá krampa í kjölfarið, teygja aðeins á, skakklappast á fætur og ná samt að skalla hornspyrnuna frá marki. Þannig var Jamie Carragher bara í hnotskurn.

Það voru margar hetjur í liðinu sem vann Meistaradeildina þetta árið. Þjálfarar, leikmenn og ekki síst stuðningsmenn. Fáir þeirra stóðu þó jafn hátt og Jamie Carragher að mínu mati og ég er sannfærður um að án hans hefðum við aldrei unnið þessa keppni.

Það er vart hægt að koma að því með orðum hvað við eigum eftir að sakna Carra. Hann var aldrei besti eða hæfileikaríkasti leikmaður liðsins en hann var alltaf mesti leiðtoginn með mesta viljann og hjartað og það gerir hann að goðsögn í hugum okkar allra.

Ég þakka fyrir mig, Nr. 23.

Persónan Carra (SSteinn)

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa hitt meistara Jamie Carragher þó nokkuð oft í gegnum tíðina. Maður var búinn að sjá hann margoft í sjónvarpinu og kom hann manni fyrir sjónir sem mjög einbeittur náungi sem tók hlutverk sitt inni á vellinum mjög alvarlega. Því kom það mér mikið á óvart þegar maður sá hversu hrikalega léttur og skemmtilegur karakter hann var svona utan vallar. Hann mætti alltaf á æfingasvæðið snemma og ef hann var ekki syngjandi, þá var hann trallandi, ef hann var ekki trallandi þá var hann að segja brandara. Maður sá aldrei fýlusvip á kappanum. Þegar maður svo mannaði sig upp í að ræða aðeins við kappann, þá kom hann fram eins og við hefðum þekkst bara þó nokkuð lengi, lagði hönd yfir axlir manns og kom með “how’yah doin mate?”. Ég held nefninlega að fæstir geri sér grein fyrir hversu gríðarlega stórt skarð verður nú til í leikmannahópi okkar ástkæra félags, Carra er bara einfaldlega maðurinn og þá sérstaklega utan vallar (án þess að ég geri lítið úr áhrifum hans innan vallar).

Ein góð saga af kappanum segir mikið um hvernig týpa hann er. Ég var í ferð á leik Liverpool og Charlton og með í för var vinur okkar hann Siggi heitinn og hafði okkur tekist að redda miðum fyrir hann í Players Lounge eftir leikinn í gegnum Robbie nokkurn Fowler. Við höfðum reynt að fá tækifæri til að hitta Carra í kringum þennan leik, til að afhenda honum verðlaun fyrir að hafa verið kosinn leikmaður tímabilsins á undan af stuðningsmönnum Liverpool á Íslandi. Það var ekki hægt, allt uppbókað fyrir slíkar uppákomur. Við tókum verðlaunin hans engu að síður með okkur því ég vissi að ég myndi ná að hitta kappann þarna í Players Lounge. Um leið og ég sagði honum af þessu þá sagði hann að málið væri einfalt, við skyldum bara mæta upp á Melwood morguninn eftir og segja einfaldlega að við værum að koma þangað í boði hans. Bara frábært. Við mættum að sjálfsögðu, en þá kom það á daginn að þeim hafði verið gefið óvænt frí frá æfingum og skilaboð lágu í hliðinu um að við ættum að koma morguninn eftir. Það var frekar skrítið, því það var daginn fyrir leik í Meistaradeildinni og það fær aldrei neinn utanaðkomandi að koma á æfingasvæðið deginum fyrir leik.

Svona sjáum við karlinn frá næsta hausti, fer honum nú betur að vera í rauðu!
Við mættum nú samt og inn fórum við. Daman í móttökunni á Melwood sagði okkur að Carra væri bara nýbúinn að klára æfingu og væri væntanlega í sturtu núna og að “sjæna” sig. Við gætum því þurft að bíða aðeins og bauð okkur bara sæti í sófanum. Það liðu ekki nema kannski 5 mínútur, þá var kappinn mættur fram skælbrosandi og hress að vanda. Það sem passaði ekki alveg inn í myndina var það að hann var bara á handklæðinu einu til fara. Auðvitað var framkoman eins og vanalega, eins og hann hefði þekkt okkur lengi. Hann tók á móti verðlaununum sínum og var hrifinn af þeim, en við vorum verð ég að segja hálf vandræðalegir, bjuggumst við þessu aðeins öðruvísi. En þetta virtist vera bara einfaldasti hlutur í heimi, hann að taka á móti verðlaunum, á handklæðinu einu klæða og var hissa á að við vorum ekki búnir að rífa upp myndavélarnar. “Ætlið þið ekkert að taka mynd af verðlaunaafhendingunni?” Þarna stóð hann, með verðlaunin sín og notaði hina höndina til að leggja yfir axlirnar á manni. Ég beið hreinlega eftir því að handklæðið myndi detta og að við fengjum mjög svo óviðeigandi mynd.

En þetta er Carra. Einlægur, jarðbundinn, skemmtilegur, mikill karakter, léttur og umfram allt, maður fólksins. Svo sannarlega ein af mestu goðsögnum í sögu félagsins.

Carra23Gold takk fyrir allt og ég hlakka til að sjá þig á skjánum hjá Sky.

Með hjartað á erminni (Maggi)

Söngurinn sem hljómar um Jamie gengur út á það að syngja númerin frá 1-11 og síðan 23 og biðja um að í öllum treyjum sé Jamie Carragher. Ég er ekki viss um að það lið myndi spila blússandi sóknarfótbolta enda ekki verið að vísa í það.

Söngurinn vísar í ódrepandi baráttuvilja hans og ást á borginni og fuglinum í merki félagsins. Vissulega blár í upphafi en eftir að hann fór að leika fyrir Liverpool varð hann án vafa harðasti LFC Scouser sem hægt er að finna og bakgrunnur hans og saga gerði hann að átrúnaðargoði íbúa á Merseyside. Dýrkun sem er margföld á við þá sem við ímyndum okkur sem mest sjáum leikinn í sjónvarpi.

Ekki reyna þetta vinur!

Vorið 2001 var ég úti í Liverpool í rúma viku og spjallið á börunum snerist mjög mikið um ungu Scousearana í liðinu sem voru þá nokkrir. Einn auðvitað var Jamie og þá heyrði ég oft þá setningu sem ég vísa í hér feitletraða. “He wears his heart on his sleeve” og meiningin kannski svipuð og að segjast ætla að “deyja fyrir klúbbinn”. Ég sá magnaðan 2-3 sigurleik okkar manna í “away end” stúkunni á Goodison Park þar sem McAllister skoraði sigurmark í uppbótartíma og gerði allt vitlaust. Að leik loknum vorum við lokuð inni á meðan að völlurinn var rýmdur og sungum stanslaust. Einhverjum mínútum eftir að leik lauk kom allt í einu leikmaður hlaupandi út úr búningsklefaálmunni alrauður leikmaður yfir völlinn og alveg að hópnum. Löggurnar hlupu til og komu í veg fyrir að sá kæmist upp í stúku til okkar. En þá stóð Jamie bara aftan við þá og söng hástöfum alveg helölvaður af sigurgleði og endaði á að grýta treyjunni inn í hópinn þegar að löggan beinlínis rak hann í burtu.

Frá þessari mínútu varð Jamie Carragher einn af uppáhalds leikmönnum mínum all time og ég mun sakna hans miklu meira en orð fá lýst.

Ég er ekki viss um að við eignumst aftur annan Carra!

Takk fyrir okkur gæskur!

Legend – einfalt!

Hér að neðan verða einungis leyfðar athugasemdir um meistara Carra. Við erum vissir um að hann er mikið á Kop.is & Google Translate og skorum því á rauða aðdáendur kappans að skrifa hér að neðan uppáhalds minningu sína um hann svo hann geti litið á það milli þátta í sjónvarpinu!

37 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir þráðinn um Carra minn mann, ykkar mann, okkar mann, sem sagt manninn. Carra hefur lengi verið minn uppáhaldsleikmaður og mér afar hjartfólginn. Ekki alltaf en án nokkurs vafa hefi ég haft hann í sérstöku afhaldi undanfarinn áratug amk.

    Nokkuð oft hefi ég lent í orðaskaki vegna þessa eðalmanns. Það hefur þá oftast verið við (að ég held) yngri stuðningmenn sem ekki hafa áttað sig á hvílíkur máttarstólpi hann hefur verið liðinu þrátt fyrir að draga megi í efa knatttæknilega getu hans. Hinsvegar er skapgerðin, fórnarlundin og hið heisteypta Liverpoolhjart með algerum einsdæmum. Ég á vart orð til að lýsa hversu vænt mér þykir um þennan leikmann og hvað ég kem til með að sakna hans á komandi tímum.

    James Lee Duncan Carragher. Ég þakka þér af hjartans einlægni fyrir að vera til sem maður og sem leikmaður liðsins sem ég elska. Megi dagar þínir vera margir og góðir. YNWA

    Það er nú þannig.

  2. þótt við eyddum 100m í varnarmann þá kæmi enginn í stað Carra. Meiri Liverpoolara fáum við ekki.Takk fyrir mr Liverpool.

  3. Djöfull sem ég er enþá að vona að sú staðreynd að hann hafi enþá það sem þarf, samanber það að honum hefur ekki verið ýtt út úr liðinu aftur eftir að Rodgers setti hann inn fyrir Skrtel mundi láta hann vilja taka eitt tímabil til viðbótar!
    Kallinn á skilið flott starf í sjónvarpi en mikið væri ég til í að hann væri að fara að starfa fyrir klúbbinn, þvílík fyrirmynd sem einn maður er og hvað hann gæti gefið af sér um ókomin ár.
    Mín uppáhalds minning er þegar það þurfti að ýta manninum útaf vegna fótbrots.
    Ekkert væl á þeim bænum og ekki teknir nokkrir væluhringir í grasinu þótt hann hafi verið tæklaður upp í nára.
    Harðhaus af guðsnáð!
    Takk fyrir mig Nr. 23 – og upp í rjáfur með treyjuna!

  4. “Maður var bara sáttur að sjá duglega djúpan miðjumann sem gæti skorað annað slagið vera að koma inní liðið okkar … hversu rangt gat maður eiginlega haft fyrir sér?”

    Vel sagt 🙂

  5. Mín uppahálds minning af honum er klárlega Istanbúl, eftir að fyrri hálfleik lauk, þegar maðurinn fleygði sér vinstri hægri fyrir alla bolta.
    Það er einmitt svona hugsun sem poppar alltaf fyrst í huga minn þegar það er talað um Carra, fórnar sér fyrir alla bolta, eldrauður í framan eftir 5min leik, útrúlegustu tæklingar og endalausa vinnusemin.

    Takk fyrir allt meistari Carragher! Þvílíkur maður!
    YNWA

  6. Eins og það hefur verið mikil ánægja að hafa haft Carra í liðinu undanfarin 15 ár þá er maðurinn gjörsamlega óskiljanlegur í tali.

    Búinn að skoða youtube myndbönd með honum og það er erfitt að reyna skilja hvað hann er að segja. Verður skemmtilegt að sjá hann með Redknapp og Neville stelpunni á Sky næstu tímabil. Sky verður að senda hann í einhverja kennslu í tali. Annað er nú ekki hægt.

  7. Snillingur mikill hans verður sárt saknað ég gleymi því aldrei að horfa á hann í framlenginguni í Istanbul. Eina mínútuna lá hann í grasinu og gat ekki hreyft sig með krampa þá næstu var hann komin í split að bjarga skoti á markið. We all dream of a team of Carragers

  8. Það verður mikill söknuður af þessum manni, hann er sannur PÚLLARI!!!!!!!!!!!

  9. Maður á eftir að sakna þess að heyra hann garga inn á vellinum. Það fór aldrei á milli mála hver var að tjá sig þegar Carra byrjaði að spangóla.

  10. Alvöru legend og ein af mínum uppáhaldsleikmönnum það eina sem leiðinlega við hætti eftir hafa ekki unnið ensku deildina en samt mun ég alltaf munu sú nótt þar sem Liverpool vann Meistaradeildina og vona það hann munu samhliða sjónvarpsvinnunni og muni líka vinna sem þjálfari í Liverpool þar sem ég ef alltaf séð hann sem næsta knattspyrnustjóra Liverpool eftir nokkur ár.

    Takk Fyrir Allt Carragher #Legend

  11. Menn eins og Carra einkennast af sterkri löngun til að ná árangri og gríðarlegu úthaldi við að ná sínum markmiðum. Liverpool FC þarf á slíkum manni að halda.

    “Hard work beats talent when talent doesn’t work hard”

    Takk fyrir allt Carra

  12. Ég hló upphátt af Carra á handklæðinu 🙂

    Konan spurði af hverju ég væri að hlæja og ég sagði þú myndir aldrei skilja það nema elska LFC og Carra. Hún hristi bara hausinn. Þetta er núna mín uppáhalds stund þegar ég hugsa um Mr. Liverpool Jamie Carrager.

  13. Það kemur bara einn J.C. á um 2.000 ára fresti

    Frábært ef treyjan yrði “friðuð” og hengd upp Kop meginn. Takk fyrir allt KingCarra

  14. Margar góðar minningar af Carra. Sú minning um Carra sem stendur hæst er akkúrat þessi. Maður finnur hrikalega til með honum en honum er svo drullusama.

    Fyrir þá sem vilja sjá Fergie fara fögrum orðum Carra, þá uploadaði ég þessu:
    http://t.co/QjmNmow93u

  15. Ég verð ofboðslega meyr þegar ég hugsa um þessi móment í Istanbul, þótt ég hafi bara horft á þetta í sjónvarpinu með nokkrum góðum félögum á Þingeyri. Það er satt sem menn segja, það er eins og hann hafi verið í trans eða andsetinn allan leikinn. Það var einhver ótrúleg orka sem knúði hann áfram í 120 mínútur – og svo hélt transinn áfram þegar hann var að segja Jerzy okkar Dudek hvernig hann ætti að verja vítin. Og það svínvirkaði svona líka. Það var eitthvað mystískt við þennan leik og Jamie Carragher átti svo sannarlega sinn þátt í því að gera þetta kvöld svona ógleymanlegt og sögulegt. Ég hafði t.d. ekki tekið eftir því fyrr en í vídeóinu frá Sverri Birni #21 að Carra var upphafsmaður sóknarinnar sem jafnaði leikinn.

    Takk fyrir greinina strákar, þið eruð höfðingjar og kunnið að meta höfðingja, rétt eins og langflestir Púllarar.

  16. Djöfull vona ég að við fáum víti á mó QPR og Carra fái að taka það.
    Væri geðveikt að kallinn skori í sínum síðasta leik líkt og sínum fyrsta.

    Takk fyrir allt J.C og djöfull væri ég til í tattoo af kallinum!!!

  17. Gaurinn er bara legend, alveg rétt hann er ekki bestur í neinni stöðu sem hann leikur en hann leikur með hjartanu, hjartanu og hjartanu. Það kemur manni oft á ótrúlega staði. Takk fyrir allt Carrager. Verst að þú verður í jakkafötum næsta vetur.

  18. Ef ég fæ 2000 þumla upp frá íslenskum ljóshærðum karlkyns Liverpool aðdáendum fyrir miðnætti þá skal ég fá mér Carra #23 húðflúr yfir allt bakið á mér.

    Respect Carra #23

  19. Við erum fimm félagarnir sem ákváðum í vetur að skella okkur á Anfield saman. Af hagkvæmnisástæðum völdum við leikinn gegn QPR en hefðum kannski alveg viljað sjá grannaslaginn við Everton. Kannski allt í lagi eftir á að hyggja að við misstum af þeim leik. Síðan gerist það að Jamie Carragher tilkynnir að þetta verði hans síðasta tímabil, og við áttum okkur á að við erum að fara á kveðjuleikinn. Kannski verða einhverjar minnisgloppur í ferðinni en sunnudagurinn verður ógleymanlegur því þá heiðrum við feril James Duncan Carragher hjá Liverpool Football Club. Flugið er í fyrramálið og ef einhverjir okkar geta sofið í nótt fyrir tilhlökkun er alveg öruggt að þá dreymir um Carragher í hverri stöðu á vellinum.

    YNWA Carra mate. Legend.

  20. Eitt af mínum uppáhalds momentum tendum Carragher kom eftir leikinn í Istanabul og lýsir honum eiginlega alveg í hnotskurn. Hann var löngu hættur að geta gengið áður framlengingunni lauk og búinn að henda sér fyrir gjörsamlega allt sem Milan sótti fram með og átti erfitt með að standa þega vítakeppnin fór fram.

    Þrátt fyrir það var það Carragher sem sigraði spretthlaupið að Dudek eftir að hann tryggði okkur evrópumeistara titilinn og það sannfærandi. Gjörsamlega brjálaður af adrenalíni fagnaði hann Dudek sem vala heldur sló hann létt og rauk beint að stúkunni og fagnaði þar, hitti ef ég man rétt beint á pabba sinn.

    Það sem meira en þetta kom líklega nákvæmlega engum á óvart.

  21. Algjör goðsögn og hans verður saknað sárt!

    Ég var svo heppinn að sjá hann spila tvisar með berum augum og það fór ekkert á milli mála að hann var inn á vellinum.

  22. Liverpool hjartað mitt sló alltaf og mun alltaf slá með Liverpool hjartanu í Carragher.

    Algjörlega meiriháttar leikmaður. Veit ekki alveg hvernig maður fer að því að vita ekki af honum í liðinu.

    Áfram Liverpool!

  23. Já það heillar ekkert sérstaklega að hafa Carra í liðinu. Eins og flestir sem hafa farið á leik með okkar góða liði þá er ekki nokkrum blöðum um það að fletta hver það er sem stjórnar í liðinu. Gerrard er auðvitað betra fyrirliðaefni enda meiri Magic heldur en Larry Bird ef við höldum áfram með körfuboltalíkinguna, en ef leikmönnum hefði verið sagt að til að fá að spila þá þyrftu þeir að hlaupa á útivöllinn, þá grunar mig að Carra hefði verið löngu hlaupinn af stað áður en hinin væru farnir að hugsa hvar hlaupaskórnir væru.
    Já, þetta er helvítis helvíti.

  24. Ég hef fengið þann heiður að sjá meistara Carragher spila en það var á leik Liverpool-Blackburn árið 1998. Ég verð að viðurkenna að maður þekkti lítið til hans á þeim tíma og síðar í þessum leik kom Steven nokkur Gerrard inn á völlinn. Ég hvíslaði að Gústa vini mínum “hvaða slúbbert er þetta?

    Ef ég hefði vitað þá hvaða áhrif þessir tveir leikmenn ættu eftir að hafa á sögu kúbbsins hefði ég eflaust reynt að taka betur eftir þeim á þessum leik.

    Jamie Carragher er í hóp leikmanna sem fer sífelld fækkandi í dag vegna peningaflæðis fótboltans. Það er hópur leikmanna sem er tryggur sínu félagi. Tryggð er ekki hægt að kaupa né verðmeta og Carragher fer í hóp frábæra leikmanna á borð við Paulo Maldini, Matt Le Tissier, Paul Scoles, Ryan Giggs og Steven Gerrad sem allir hafa það sameiginlegt að vera framúrskarandi knattspyrnumenn og fengið gríðarlega virðingu bæði frá samherjum og andstæðingum fyrir að sýna æskuklúbbnum sínum einstaka tryggð.

    Hér er samantekt frá Liverpool echo um minnistæð atvik frá ferli meistara Carra:
    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/23-carra-gold-jamie-carraghers-3321896

    Ætla að enda þetta á orðum Eiðs Smára um Carragher eftir undanúrslitaleik við Chelsea árið 2005:

    I thought it was going in but it seemed Carragher cloned himself. he was everywhere.

    Takk fyrir allt Jamie LEGEND Carragher

  25. Eru ekki örugglega allir búnir að setja Carra í fantasy liðið sitt. Síðasti séns. Hann á það skilið.

  26. Þakka ykkur fyrir frábæra færslu og að deila minningum ykkar og reynslu af Carra. Ótrúlegt að lesa þetta frá Sigursteini, frábært að fá svona sögu:) Ég sá Carra spila nokkrum sinnum á Anfield og þar sá maður vel hvað hann var gríðarlega sterkur hlekkur í liðinu. Það verður skrítið að sjá hann hætta að klæðast Liverpool skyrtunni og gera öllum öðrum en Púlurum lífið leitt á grasinu. Ég vona að klúbburinn fái að njóta krafta hans áfram þó það hann sé ekki lengur í takkaskóm. Takk Carra – orð fá ekki lýst þeirri virðingu sem ég ber fyrir þér 🙂

    ps. Ég var hræddur um að Carra yrði baldinn pési og ætti ekki langt líf í treyjunni rauðu eftir atvikið í partýi Paul Ince í upphafi ferilsins. Hann mætti þar víst mjög hress og vann það til afreka að elskast með strippara undir borði í stofunni hjá Ince og rústa svo einum bílnum hans eftir að hafa verið hent út! Já, Carra þroskaðist mikið og fljótt og viðlíka æskuglöp voru augljóslega lögð af!

  27. Ég mun gráta á sunnudaginn því Carra er í alvörunni að hætta,Ef ég væri Brendan þá hefði ég grátbeðið hann um að taka eitt tímabil enn.
    En hann er sko búinn að skila sínu og gott betur ef hann skilaði ekki líka fyrir aðra leikmenn sem voru með allt niðrum sig.
    Treyjan upp í rjáfur,ambassador fyrir klúbbinn,þjálfari og plz manager LFC before i die.
    Já eða ráða hann strax sem öskurstjóra á öllum leikjum.

    YNWA Legend thanks for all the brilliant memorys.

  28. Gaf sig alltaf 110% í leikinn 🙂 þó hann væri ekki sá fljótasti þá reif hann alla með sér í eldmóði, alltaf eldrauður í framan eins og hann væri á seinustu metrunum 🙂

One Ping

  1. Pingback:

Botninum náð?

Upphitun: Carragher kveður gegn QPR