Fulham 1 – Liverpool 3

Liverpool liðið okkar lauk ferðalögum sínum á þessu tímabili á bökkum Thames-árinnar í London þegar þeir léku við hvítsvarta Fulham liða.

Harla margt óvænt var að finna í uppstillingu Rodgers í þessum leik.

Byrjunarliðið var sett upp svona:

Reina

Wisdom – Coates – Carragher

Johnson – Henderson – Lucas – Shelvey – Downing

Sturridge – Coutinho

Á bekknum sátu: B Jones, Enrique, Assaidi, Borini, Suso, Coady, L Jones

Semsagt, útfærsla á 3-5-2 þar sem Coutinho var ætlað að liggja á milli miðju og framherja. Skrtel veiktist í nótt og Coates og Wisdom voru hafsentar með Carra.

Í stuttu máli sagt þá gekk þetta ekki upp nema rétt í byrjuninni. Fulham voru með yfirráðin á miðsvæðinu og bakverðirnir þeirra voru duglegir að nýta svæðin milli hafsenta og bakvarða án þess þó að skapa sér afgerandi færi. Þeir skoruðu eiginlega úr fyrsta færinu sínu, á 33.mínútu þegar einmitt hægri bakvörðurinn komst á bakvið Downing, Coates var að sópa en náði ekki að loka á sendingu sem endaði á kollinum á Berbatov aleinum og hann stýrði þeim bolta örugglega í markið og kom sínum mönnum yfir.

En sú staða varði ekki lengi, tveim mínútum síðar vorum við búin að jafna. Andre Wisdom fær skráða stoðsendingu þegar hann hreinsaði úr vörn í sókn þar sem Daniel Sturridge fékk boltann á vítateignum, fíflaði varnarmann upp úr skónum og klíndi tuðrunni með hægri á nærhorn Scwarzer. Staðan 1-1 og þannig hélst hún út hálfleikinn.

Við vorum í bölvuðu basli, tölfræðin sem kom upp á skjáinn hjá mér var að Fulham hefði verið með boltann 61% í leiknum og í raun höfðum við ekki skapað neitt. Ég var því afskaplega ánægður að sjá að Rodgers ákvað að hætta tilraunastarfsemi með leikkerfið og fór í hefðbundnari áttir. Tók Wisdom út og setti Enrique inn. Wisdom var ekkert verri en einhver annar, en það þurfti að breyta. Uppstillingin í seinni því svona:

Reina

Johnson – Coates – Carragher – Enrique

Henderson – Lucas – Coutinho

Downing – Sturridge – Shelvey

Coutinho undir senter og Shelvey ýtt út á kant. Skemmst er frá því að segja að við áttum seinni hálfleikinn frá upphafi til enda. Vissulega getum við þakkað Mark Halsey dómara að dæma ekki á okkur víti í stöðunni 1-1 þegar Lucas fékk boltann í hendina á þann hátt að dæma átti víti en við vorum að rúlla boltanum hratt og örugglega á milli manna og bara allt annað flæði.

Forystan varð okkar á 62.mínútu. Fulham fór í sókn og töldu brotið á sínum leikmanni að sleppa í gegn (fullkomið bull að mínu mati), boltinn fór til Johnson sem sendi langt á Coutinho, hann rann í skottilrauninni sinni en í stað þess að skotið tækist endaði boltinn í fótum Sturridge sem lagði hann yfirvegað fyrir sig og setti kvikindið framhjá Schwarzer.

Staðan því 1-2 og þetta mark sögulegt því aldrei í sögu okkar í Úrvalsdeild höfðum við gert eins mörg mörk á útivelli í deildinni. Áhugaverð statistík þar á ferð.

Næstu 20 mínútur syntum við í dauðafærum. Sturridge lét Scwarzer verja tvisvar frá sér einn gegn einum (sennilega átti hann að senda á opinn mann í annað hvort skiptið allavega), Shelvey rann í markteignum, Borini skaut í stöng og lét markmanninn verja einn á einn, sem hann gerði líka gegn Downing.

Heimamenn komu framar á völlinn í lokin og maður óttaðist að þeir stælu stigi, en tvær frábærar vörslur frá Reina héldu okkur í forystu, annað tilvikið einstaklega skemmtilegt en þá greip hann flotta aukaspyrnu Riise.

Það var svo á 85.mínútu að við kláruðum leikinn, unnum boltann á okkar vallarhelmingi, snillingurinn Coutinho rak hann inn í miðjuhring og snuddaði nettri utanfótarsendingu beint á hægri fótinn á Daniel Sturridge sem setti boltann glæsilega yfir Schwarzer og fullkomnaði þrennu sína. Svo við bættum útivallametið um tvö mörk í vetur.

Það sem eftir lifði kláruðum við leikinn bara og öruggur sigur að lokum staðreynd.

Rodgers virðist hafa áhuga á að stilla upp með þremur hafsentum annað slagið. Það held ég að sé vonlaust þegar við erum ekki með tæknilega betri varnarmenn en við eigum í Carra, Coates og Wisdom. Það er fínt að eiga þennan möguleika en var algerlega dauðadæmt í dag fannst mér og það gladdi mig mikið þegar hann skipti um takt.

Seinni hálfleikurinn var virkilega góður hjá öllu liðinu og ánægjulegt að við erum að halda dampi síðustu leikina.

Rodgers hefur talað um að gefa “fringe players” sénsinn og það gerði hann í dag. Wisdom átti erfitt eins og liðið allt í fyrri hálfleik og verður sennilega ekki dæmdur af þessum leik. Coates á erfitt að spila boltanum frá sér en stöðuskilningurinn hans í seinni var flottur. Held þó að Skrtel fái að spila með Carra síðasta leikinn og líklega Úrúgæjinn á leið í burt.

Shelvey komst ekki í takt við fyrri hálfleikinn og var settur út á vinstri kant í síðari hálfleik, nokkuð sem hann er ekki vanur að spila. Hann fékk þó möguleika á að sýna sig en kom ekki vel út úr því. Spái Borini í byrjunarliði gegn QPR, hann átti fríska innkomu strákurinn.

En þrátt fyrir að liðið léki vel stóð einn uppúr. Daniel Sturridge var unplayable í þessum leik. Hann skoraði frábært mark í fyrri hálfleik og var bestur okkar þar en síðari hálfleikurinn var sýning í því hvernig spila á senter. Hann hefði hiklaust getað gert sex mörk í þessum leik ef ekki hefði verið fyrir Schwarzer. Það hlýtur að vera öllum ljóst að þessi strákur nýtist lang best uppi á topp og nú er viðfangsefnið að spila honum og Suarez í sama liði. Hann er búinn að gera 11 mörk í 15 leikjum sem er algerlega frábært og þessar 15 milljónir sem við greiddum fyrir hann líta út sem hið fullkomna grín. Kaupin á honum og Coutinho að mínu mati það jákvæðasta sem úr vetrinum kemur.

Fín skemmtun í dag og vonandi endum við tímabilið á góðum nótum, bæði fyrir okkur og Carra.

24 Comments

 1. 13 deildarleikir, 10 mörk

  Ágætis kaup…

  Annars átti Fulham auðvitað að fá víti rétt fyrir annað markið, veit svo ekki alveg með Coates og ömurleg dekkning í fyrsta markinu.

 2. Takk Chelsea fyrir Sturridge – takk takk. Þið megið alveg eiga torres.

 3. Gaman að sjá léttleikandi lið Liverpool í þessum leik. Nú er þetta tímabil að verða búið, ekki skemmtilegt tímabil. Vonandi verðu það næsta betra hjá okkur. Verðum að gefa Rogers jákvæða strauma og styðja hann, hann virðist vera á réttri leið með liðið. Við Púllarar erum bara svo óþolinmóðir eftir titli. Ég trúi því að hann komi á næsta tímabili!!!!!!!!!!!!!!!!

  ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!

 4. Flottur sigur, smá heppni á mikilvægu augnabliki en heilt yfir hefðum við átt að vinna með stærri mun.

  Sturridge og Coutinho sýna leiðinlega vel hversu risastór mistök áttu sér stað í lok ágúst og hreinlega eyðilögðu þetta tímabil. Við skulum vona að það sé mun betra skipulag í gangi á Anfield í sumar og sumarið verði 100% betra en 2-4 síðustu sumur.

  Frábært að sjá Sturridge skora þrjú mörk og samt var maður pirraður á honum í 2-3 skipti fyrir að sjá ekki samherja sína, Shelvey átti t.a.m. tvisvar frábær hlaup og var í dauðafæri en fékk ekki sendinguna. Borini kom líka mjög frískur inn og var óheppinn að skora ekki.

  Sturridge er maður leiksins en Coutinho þar ekki langt á eftir. Liðið var ekkert að funkera rétt í fyrri hálfleik þegar Rodgers var að prufa þetta leiðinda þriggja miðavarða kerfi sem hann darp síðasta leik með, eftir að Enrique kom inná í hálfleik og við fórum í það kerfi sem gefist hefur vel á þessu tímabili átti Fulham ekki séns.

  Gaman líka að Liverpool hefur aldrei skorað svona mörg mörk á útivelli síðan Úrvalsdeildin var sett á laggirnar, efa þó ekki að við höfum oft átt betri vörn.

 5. Einn Brassa í viðbót takk fyrir, það væri ágætt. Frábær leikur hjá DS og Brassanum okkar. Næsti leikur er sá síðasti á frekar döpru tímabili. Sigur í honum og svo gott sumar, gera eins og þrjú góð kaup. Meiri gæði og betri leikmenn.

 6. Sælir félagar

  Mjög sáttur við seinni hálfleik en sá fyrri var ömurlegur. Gott að BR brást við og stillti liðinu upp á nýtt og 4-3-3 rúlluði liðið leiknum upp. Í færum talið hefði leikurinn getað endað 6 til 8 – 1 en – ókei hann hendaði vel. Útivallarárangur í mörkum talið í lagi en óteljandi jafntefli eins og í síðasta leik eyðileggja leiktíðina.

  Það er nú þannig

  YNWA

 7. Er sammála með að wisdom var klárlega ekkert lélegur, átti stoðsendingu, það var bara leikskipulagið sem gekk ekki upp og vona ég svo innilega að BR sé hættur með það. Annars bara nokkuð skemtilegur seinnihálfleikur og eins og staðan er í dag þá held ég að BR prófi fleirri gutta í seinasta leiknum.
  Coutinho Fowler minn góður, ekki er hann bara snillingur í fótbolta, heldur er hann alveg hrikalega myndarlegur svona með nýu greiðsluna, meira að seigja konan fóra að efast um kynhneigð mína um tíma hehe.
  Ef þetta tímabil ætlar að enda svona þá er alveg hægt að smæla framan í heiminn.

  Takk fyrir mig

 8. Daniel Sturridge búinn að skora 10 deildarmörk fyrir Liverpool í 13 leikjum.
  Fernando Torres búinn að skora 14 deildarmörk fyrir Chelsea í 81 leik.

 9. Voru þetta ekki 12m fyrir Sturridge?

  En mér fannst við sleppa vel í þessum leik. Headline Halsey átti vægast sagt skrítinn dag og við hefðum getað spilað seinni hálfleikinn manni færri ásamt auðvitað augljósu víti á Lucas.

  Engu að síður sýndu menn flottan karakter og Reina hélt okkur inni í þessu þegar leikurinn virtist ætla að detta í enn eitt jafnteflið.

  Svo ef Sturridge bætir aðeins ákvörðunatökuna hjá sér þá erum við að tala um 20+ marka mann næsta season ásamt frábærum teamplayer sem leggur upp á samherja.

 10. Ég vildi 4-0 sigur þar sem ég á 40 ára afmælisdag en 3-1 sigur gerir sama gagn!

  Virkilega sterkt að koma til baka á útivelli og klára sannfærandi. Það býr mikið í liðinu okkar og BR. Framtíðin okkar er björt.

  Og annað, ég man vel eftir þeim tíma þegar manjú gátu ekki mikið og við Liverpool stuðningsmenn hlógum að þessu liði. Sá tími mun koma aftur, er alveg sannfærður um það. Þetta er búið að ganga alltof vel hjá þeim undanfarin 20 árin en öll partý taka enda.

  YNWA!

 11. a) Hvar væri Liverpool án Suarez

  b) Hvar væri Liverpool án Gerrard

  c) Slakið á, þetta var nú bara Fulham

  (kaldhæðni kemst ekki alltaf til skila, læt þetta því fylgja 🙂 )

  Frábært að sjá samvinnu Coutinho og Sturridge enn og aftur. Ávalt líklegir til þess að skora. Nú er bara að enda tímabilið vel og klára QPR. Held að við getum svo sem ágætlega við unað, erum sífellt að bæta okkur og vonandi verður næsta tímabil framhald af því. Munurinn á spilamennsku liðsins frá því í haust!

  Annars nokkuð sammála mönnum með Jonjo, ég er ekki alveg að átta mig á hans bestu stöðu. Eflaust er það fyrir aftan senter, en við spilum bara ekki þannig kerfi. Hann virkar geldur í kannt/striker stöðunni og hefur ekki nema 1/10 af yfirferð Jordan Henderson þegar kemur að box-to-box miðjumanni. Sé hann ekki fá margar mínútur á næstu leiktíð, ekki í búningi LFC amk. Sérstaklega mtt að það verður engin evrópa.

  Ég hefði verið til í að sjá Suso inná miðjunni og Borini koma fyrr inn. Þeir fá eflaust tækifæri í næsta leik, amk sá síðarnefndi.

 12. Ég froðufelli við að sjá þessa sendingu frá Coutinho, hvað ætli verðmiðinn sé búinn að hækka mikið?

  Drengurinn var oft á tíðum að gera failsendingar og tapa boltanum en það sem er ótrúlegt við hann að hann má ekki fá örlítið space þá nær hann að búa eitthvað til. Að mínu heimsklassi miðað við aldur.

  Sturridge átti einnig frábæran leik og ég skil hann vel að reyna að ná þrennunni sem hann náði auðvitað á endanum, Mark Schwarzer átti þvílíkar markvörslur! Borini kom líka sterkur inn í leikinn og það þarf líklega að fá nýtt mark þar sem stöngin er líklega beygluð eftir þessa þrumu. Það er mjög mikilvægt að enda tímabili á sigrum.

  Ég hlakka til lokaleiksins og það er heiður að eiga afmæli á sama dag og Carra hættir. Það er eins gott að sá dagur endar með sigri!

 13. djöfull elska ég pop n’ lock dansinn hjá Sturridge þegar hann skorar!

 14. eftir að minn fyrsti liverpool leikur hafi verið vonbrigði síðustu helgi þá er ég mjög ánægður að hafa séð þennann leik.,verð að segja að það er eiginlega skemmtilegra að fara á away leik þar sem allir standa og syngja allan tímann og stemmingin var rosalega góð þrátt fyrir að leikurinn hafi varla skipt neinu máli.

  ég verð líka að bæti því við að hlaupinn hjá borini eru búinn að vera mjög flott þessa tvo leiki, er ekki viss um að það sjáist svo vel í sjónvarpinu en þegar aðrir leikmenn byrja að læra betur á hann þá er ég viss um að hann eigi eftir að skila mörgum mörkum á næsta tímabili, sérstaklega ef coutini-o-o-o heldur áfram með þessar svakalegu sendingar.

 15. Ég hef ekki hafa minnstu áhyggjur af Suarez-lausri byrjun á næsta tímabili ef Ungfrú Janúargluggi 2013 heldur áfram að dansa svona.

 16. Enn of aftur stilli Brendan Rodgers upp algjöru bull liði, og við uppskerum eftir því. Fyrri hálfleikur var mjög slakur.

  Sem betur fer þá sá hann að sér og breytti liðinu greinilega í seinni hálfleiknum, sem ég reyndar horfði ekki á.

  Mér finnst mjög neikvætt hvað BR stillir liðinu oft vitlaust upp, EN, það eru plúsar að A) hann sér yfirleitt að sér og breytir lðinu, til dæmis í hálfleik, og b) þá er þetta líklega tilraunastarfsemi sem við munum ekki sjá á næsta tímabili.

  Flottur sigur og stórkostlega ánægður með Sturridge. Með hann, Suarez, Coutinho og ein gæðakaup í viðbót erum við ágætlega mannaðir þarna fram á við.

 17. Frábær seinni hálfleikur. Það er virkilega gaman að sjá þá Coutinho og Sturridge leika saman. Ég varð nú pínu stressaður yfir því að menn voru að droppa dauðafærum í gríð og erg og átti allt eins von á jöfnunarmarki sem hefði alveg getað komið ef ekki hefði t.d. komið heimsklassavarsla frá Reina sem hefur lifnað töluvert við seinni helming tímabilsins. Það er svo magnað að sjá sendingarnar frá Coutinho, slíkir gæjar eru svo mikið raritet í boltanum í dag og liv hefur ekki haft slíkan í langan tíma.

  Mjög mikilvægt að enda þetta af krafti hef ég alltaf sagt enda þarf að vera hægt að mótivera menn í litla leiki því það eru oftast þeir leikir sem skilja liverpool að frá toppliðunum á vorin.

  Shelvey kallinn virðist heillum horfinn og einhvern veginn dettur þetta ekki fyrir hann. Í seinni hálfleik fannst mér þó hann taka flott hlaup inn í teig og bara beið eftir boltanum frá Sturridge sem ætlaði sko ekki að gefa hann enda þrennan innan seilingar.

  Borini kom sprækur inn (sem hann reyndar gerir oftast) og var óheppinn með stangarskotið sitt en síðan klúðraði hann deaddara á móti Schwarzer, það litla sem ég hef séð frá þessum leikmanni þá finnst mér hann hafa mjög flottan skilning á kerfi BR og nær að búa reglulega til færi fyrir sjálfan sig og samherja. Hinsvegar hefur hann verið óheppinn með færa nýtingu og verður að laga það sem ég hef alveg trú á ef hann fær smá “run” í byrjunarliðinu. Ég gæti trúað því að hann verði þar næsta vetur á kostnað Downing.

  Síðan bara halda áfram um næstu helgi á þessari braut og kveðjum þetta mjög svo erfiða tímabil með smá bros á vör.

 18. Áhugavert og vonandi eitthvað sem við getum byggt á næsta tímabil er að eftir 19 leiki (fyrri hálfleik tímabilsins) var Liverpool með 25 stig og markatalan var +2 mörk. Núna erum við með 33 stig og með sigri á QPR 36 stig og markatalan er +27 mörk.

  36 stig eru tæplega 2 stig af hverjum 3 stigum mögulegum og Meistaradeildarform.

  Það er ótrúlega mikilvægt að sumrinu verði ekki eina ferðina enn klúðrað og það er enginn ástæða til að hafa ekki trú á þeim sem eru að stjórna hjá okkur núna. Við erum að klára þetta nauðsynlega uppbyggingartímabil og erum núna vonandi með mikið sterkari grunn til að byggja á fyrir næsta tímabil. Þetta sýnir okkur líka kannski eitthvað hvað EL álagið hafði að segja með stigasöfnun okkar manna sem við verðum laus við næsta tímabil. Persónulega hef ég ekki gert upp við mig hvort það sé gott eða slæmt að vera í Europa League, á þessu tímabili var gott að gefa ungum mönnum reynslu en þetta tók líka athygli og kraft frá deildarleikjum, eitthvað sem við höfðum ekki mannskap í.

  Höldum sama hóp og þjálfarateymi og bætum aðeins við og þá er engin ástæða til að ætla annað en að við fikrum okkur ofar og bætum árangurinn í deildinni líkt og við höfum verið að gera að mörgu leyti í ár. Bilið í liðin fyrir ofan okkur gæti líka orðið styttra ef þau ætla flest að skipta um stjóra, við þekkjum vel hversu langan tíma það getur tekið. United og City skipta um stjóra en ég sé okkur ekki verða í mikilli baráttu við þá. Chelsea skiptir vonandi um stjóra og Everton þarf auðvitað að finna nýjan mann. Þarna gætu verið tækifæri fyrir okkur. Krafan er a.m.k. að fara ná Arsenal, Tottenham og Everton. M.v. form eftir áramót erum við ekkert langt frá því.

  Brendan Rodgers hefur sýnt það eftir áramót að hann lærði helling um það lið sem hann hefur í höndunum á fyrri hluta tímabilsins, við eyðilögðum mótið undir lok ágúst í fyrra en viðbætur í janúar gefa vonir um að Liverpool sé ekki með álög á sér á leikmannamarkaðnum.

 19. Ég sá bara seinni hálfleikinn og virðist því hafa séð betri helminginn. Sturridge og Coutinho flottir, hvað voru Inter að hugsa að láta Coutinho fara? Það er gleðilegt að hann er, a.m.k. í mínum bókum, orðinn byrjunarliðsmaður sama hver er heill – honum verður komið fyrir á vellinum með einhverjum hætti (fremsti miðjumaður eða á kanntinum, í 4-3-3).

  Þetta leiðir hugann að því hvert sé planið fyrir sumarið, m.ö.o. hvert á að stefna á næsta tímabili. 4. sætið hlýtur að vera lágmarkskrafa en það verður erfitt. Mig langar í Baines en halda Enrique, við þurfum virkilega sterkan half-cent með Agger, miðjan getur sloppið (t.d. Gerrard, Coutinho, Lucas og með ungu leikmennina Shelvey og Henderson) en ég tel að liðið gæti vantað drjúgan sóknarmann (a.k.a. “stórt nafn”) í framlínuna sem tekur þá væntalega sæti af Downing.

  Að allt öðru. Í sambandi við evrópusæti á næsta ári, þá sagði Gummi Ben í Messunni um daginn að L’pool gæti náð í Europa league á gundvelli fair play reglna þar sem Southampton (minnir mig), sem voru ofar á listanum, gaf það út að það ætlaði ekki að nýta sér slíkan þátttökurétt. Í kjölfarið kíkti ég inn á uefa.com og skoðaði þessar reglur um að fair play (prúðasta liðið í sinni deild) gefi sæti í EL, fyrstu umferð. Þrjú aðilasambönd að UEFA gefa slíkt sæti og gat ég ekki betur séð en að það væru Swe, Nor og Fin sem væru þar efst, en svo Eng í fjórða.

  Getur einhver sagt mér af hverju Gummi Ben nefndi þennan möguleika varðandi Liverpool, því ég hafði ekki heyrt um hann áður og það virðist að ensk lið fái ekki þennan rétt hvað varðar næsta tímabil (nema e.t.v. að sætinu sé útdeild m.v. stöðu þjóðanna á keppnistímabilinu þar-áður, en ég gat ekki séð neitt um það).

  Ég vil nefnilega sjá Liverpool í Evrópu, það þýðir bara að ég get horft á leiki oftar. Liverpool er ekki hafið yfir þessa keppni og getur unnið hana þrátt fyrir að vera ekki í elítu-klassa um þessar mundir. Það þarf ekki annað en að skoða sögu Liverpool og tímasetningar bikara heima og í Evrópu, t.d. á lfchistory.net, til að sjá að það er alls ekki regla að ef vel á að ganga heima fyrir þá er ekki hægt að ná árangri í Evrópu – önnur lið hafa sýnt það sama. Þetta hlýtur sérstaklega að eiga við ef takmarkið er “aðeins” 4. sætið en ekki endilega sigur í deild. Þessi umræða er svo sem mute ef þetta er misskilningur hjá Gumma Ben, en kannski veit þetta einhver sem les þetta hér.

 20. Fínustu úrslit og gaman að sjá að liðsheildin spjarar sig þó “aðalmennina” vanti.
  Sturridge er afar markagráðugur sem er gott að mínu mati, einhverjir pirra sig á því en ekki ég, endalaus leit af manni í “betra færi” skilar sjaldnast mörkum.

  Coutinho er maður framtíðarinnar hjá Liverpool, þvílíkt auga sem þessi drengur hefur fyrir sendingum 🙂

  Nú er bara að loka tímabilinu með sigri í síðasta leik og silly season má byrja.

 21. Þetta fór betur en ég bjóst við. Kúdos á Rodgers fyrir að sjá strax í fyrri hálfleik að 3-5-2 kerfið var ekki að virka og kúdos á Sturridge fyrir að nenna að spila eins og óður maður þótt það væri ekkert í húfi.

  Ég hlakka eiginlega svolítið til lokaleiksins. QPR á Anfield? Það ætti að verða alvöru slátrun. Önnur þrenna fyrir Sturridge þar og þá förum við allavega brosandi inn í sumarið.

 22. Kristján Atli. Það er erfitt að fara brosandi inn í sumarið þó við slátrum QPR, ef tekið er mið af genginu í vetur. 7 sætið og annað árið í röð á eftir Everton. Þetta er skelfilegt! En, liðið virðist á uppleið og með skynsömum ákvörðunum í sumar verður hægt að berjast um CL sæti í haust. Það er auðvitað tilefni til að brosa eilitið 😉

  En leikurinn á móti Fulham var í heildina fínn og Sturridge og Coutinho eru bara listamenn!

 23. Þurfum að fá Andy Carrol til baka. Hann er maðurinn sem við eigum að spila í physical leikjunum þar sem við höfum oft verið í tómu basli eins og t.d. á móti Stoke, Aston Villa og Everton. Það sem gleymist oft er hversu mikilvægt er að hafa svona mann í vörninni í föstum leikatriðum sem getur hreinsað þessar fyrirgjafar frá án þess að honum sé ýtt fram til til baka og auðvitað í sókninni líka. Það hljóta allir að sjá hversu mikið vandamál þetta hefur verið í vetur hjá okkur. Síðan þarf eitthvað eitt vöðvatröll í vörnina líka sem getur eitthvað í fótbolta. Með þessu móti ættum við að geta varist þessum föstu leikaatriðum miklu betur.

  Síðan væri auðvitað ekkert vera að fá Robben en það er nú líklega ekki að fara að gerast.

 24. Keifti sturidge í fantasy og setti sem captain um leið og Suarez fór í bann 🙂 34 sti þar, en fokk afhverju fær Coutinho alltaf bara 1 bonus stig þrátt fyrir 2 assist. brjálaður.
  En hlakka stórkostlega til seinasta leiksins,

  YNWA

Byrjunarliðið á Craven Cottage

Botninum náð?