Fulham á morgun

Forsala á nýju Liverpool-treyjunni er hafin í ReAct!

Það eru víst tveir knattspyrnuleikir eftir á þessari leiktíð og Liverpool leikur annan þeirra síðdegis á morgun þegar liðið heimsækir Fulham FC á Craven Cottage í London.

Það er erfitt að gíra sig upp fyrir þennan leik og ég er nokkuð viss um að það sé erfitt fyrir leikmennina líka. Jafnteflið gegn Everton um síðustu helgi þýðir að við erum öruggir í 7. sætinu (7 stigum á undan West Brom með tvo leiki óspilaða) og förum ekki ofar en það heldur (5 stigum á eftir Everton). Það er því að nákvæmlega ekki neinu að keppa á morgun. Hvort það hefur góð eða slæm áhrif á Liverpool-liðið verður alveg að koma í ljós.

Að mínu mati getur Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri, einna helst reynt að búa til stemningu í leikmannahópi sínum með því að setja þetta upp sem leik þar sem sumir þeirra sem hafa ekki fengið sénsa undanfarið í byrjunarliði fái að sýna hvað í þeim býr. Joe Allen og Martin Kelly voru komnir í sumarfrí fyrir, sem og Luis Suarez (þetta verður þriðji leikurinn í banni hans) og í vikunni bættust þeir Daniel Agger (bak) og Steven Gerrard (öxl) í hópinn. Liðið hefur verið óbreytt frá því að Suarez var dæmdur í bann og því er bara spurning hverjir koma í stað Agger og Gerrard í liðinu.

Fyrst að Agger. Okkur vantar miðvörð í byrjunarliðið og margir hafa kallað eftir að Andre Wisdom fái sénsinn í sinni uppeldisstöðu á morgun. Ég er einn þeirra sem væri til í að sjá hann spila þar en er þó nánast viss um að Martin Skrtel byrji. Rodgers ítrekaði í gær að Skrtel væri enn í framtíðarplönum hans en við vitum vel að svo er ekki og líklegast verður þessi leikur nýttur sem tækifæri til að setja hann í „sölugluggann“ svokallaða. Skrtel kemur því inn á morgun.

Þá að miðjunni. Gerrard verður fjarri góðu gamni og það hefur verið talið líklegast að Jonjo Shelvey komi beint inn í hans stöðu. Rodgers ýjaði að því í gær og það verður að teljast líklegt. Hins vegar held ég að hann fari aðra leið og setji Fabio Borini í liðið. Philippe Coutinho hefur verið að spila miðsvæðis í síðustu tveimur leikjum á meðan Jordan Henderson hefur verið úti vinstra megin. Um síðustu helgi gerði Rodgers þá skiptingu að hann setti Borini inn vinstra megin og færði Henderson inn á miðjuna og ég held að hann geri það aftur hér.

Byrjunarliðið verður því svona á morgun, að mínu mati:

Reina

Johnson – Skrtel – Carragher – Enrique

Henderson – Lucas – Coutinho

Downing – Sturridge – Borini

Þá aðeins að mótherjunum. Við höfum átt misjafna daga á Craven Cottage síðustu árin. Til að mynda unnum við 5-2 þar fyrir tveimur árum í einni af bestu frammistöðum liðsins undir stjórn Kenny Dalglish en í fyrra varð niðurstaðan 1-0 tap í grátlega pirrandi leik. Það er því erfitt að vísa í fyrri viðureignir.

Fulham-menn eru hins vegar eitt þeirra liða sem virðast hafa farið óvenju snemma í sumarfrí í ár. Stuðningsmaður þeirra segir í viðtali við LFC.com að þeir séu með versta form allra liða í deildinni og tölfræðin styður það alveg fyllilega. Í síðustu sex leikjum þeirra í deildinni hafa þeir gert eitt jafntefli og tapað fimm, og í síðustu sex heimaleikjum hafa þeir unnið tvo og tapað fjórum. Þeir eru einfaldlega ekki með lengur á þessari leiktíð.

Hins vegar er Liverpool vinur litla mannsins og því alveg eins hægt að spá Fulham stigi eða stigum á morgun.

Mín spá: Þetta verður afslappaður og rólegur leikur. Ekki mikið fyrir augað, ekki mikið að gerast. Bæði lið skora og ég segi að við tökum þetta 2-1 en svei mér þá, þegar úrslitin skipta hvorugt lið nokkru einasta máli er ekki nokkur leið að vita við hverju er að búast.

Vonum samt hið besta. Maður er náttúrulega hálf klikkaður að ætla að horfa á svona tilgangslausan leik í stað þess að fara út í góða veðrið eða eitthvað og því vona ég að okkar menn verðlauni okkur með sigri.

8 Comments

 1. Rafa tókst að koma Chelsea i meistaradeildina á sínu fyrsta og eina ári með nánast nýtt lið,engar afsakanir á þeim bæ um að það þurfi nokkur ár til að gera góða hluti.
  En þessi leikur á morgun skiftir engu máli og því vinnur sennilega Liverpool og Brendan verður dásamaður hér af flestum,hann er jú svo ungur og efnilegur srákurinn.

 2. Við vinnum þennan leik og svo þann síðasta á tímabilinu gegn QPR. Endum með 61 stig. Everton tapar á morgun gegn West Ham og einnig gegn Chelsea í næstu umferð og enda með 60 stig. Við förum upp fyrir þá í 6. sætið.

  Gæti alveg gerst ….

 3. Rafa tókst að koma Chelsea i meistaradeildina á sínu fyrsta og eina
  ári með nánast nýtt lið,engar afsakanir á þeim bæ um að það þurfi
  nokkur ár til að gera góða hluti.

  Án þess að taka eitthvað af Rafa – bjuggust menn við því að það tæki mörg ár að koma ríkjandi CL meisturum aftur í keppnina ?

 4. Mér persónulega finnst það lámarkskrafa að menn gíri sig upp í alla leiki, sama hvort menn séu að spila um allt eða ekkert og nái að koma inn eins mörgum stigum og hægt er. Eins og Haukur #2 sagði þá er allt hægt, Westham gætu vel tekið Everton sem og chelsea, þannig að minn aðaldraumur um að komast upp fyrir Everton gæti verið möguleiki 🙂 Einnig gætu menn verið hálf vængbrotnir með brotthvarf þeirra stjóra.
  Eins til lukku Rafa með meistaradeildina, þó svo hann fái ekki að njóta þess að hausti.

  En hörkuleikur á morgun semsagt, held við sjáum jafnvel eitthvað af okkar ungu mönnum á bekknum í það minsta.

  YNWA

 5. Tippa á 3-1 sigur. Sturridge, Coutinho og Borini fyrir okkur. Reina ver víti.

 6. Eigum við ekki bara að taka jákvæðina á þetta og segja að þetta fari 0-7 þar sem við fáum 7 mismunandi markaskorara. Come on Reds

 7. 7 ég hef alltaf verið fylgjandi því að vera bjartsýnn og ekki ósjaldan sem ég spái 7-0. Sé nefnilega engan tilgang í að vera svartsýnn, þá er alveg eins gott að halda sig heima og sinna húsverkunum frekar en að horfa á leikinn.

Ferðaskýrsla: Liverpool – Everton

Byrjunarliðið á Craven Cottage