Everton á morgun

Þetta er í fyrsta skipti sem ég skrifa upphitun svona mörgum dögum fyrir leik en þar sem ég verð í Liverpool-borg þegar þetta birtist þá verður bara svo að vera. Hér sit ég á fimmtudagskvöldi og reyni að spá í spilin fyrir leik sem spilaður er á sunnudegi. Yfirleitt er maður nú kominn með eitthvað info um það hvort einhverjir séu meiddir og slíkt þegar maður ritar upphitun, en svo er það ekki núna. Við pennarnir á Kop.is, sem búum á Íslandi, verðum sem sagt allir saman í Mekka fótboltans um helgina.

Það þarf nú vart að kynna þessi lið fyrir lesendum síðunnar. Liverpool FC eru búnir að staðfesta það að The Kop verði með sérstaka mósaík fyrir leik þar sem þeim bláu er þakkaður stuðningurinn í gegnum þetta Hillsborough-ferli í heild sinni. Það er vel til fundið og eins og ég kom inná í síðasta podcasti, þá hefur viðhorf mitt gagnvart þeim bláu breyst verulega undanfarið. Þeir eiga mikla virðingu skilið fyrir hvernig þeir hafa stutt við bakið á okkur í gegnum þetta allt saman, sér í lagi núna að undanförnu. Það verður því gaman að vera á staðnum og taka þátt í þessari athöfn.

En þó svo að menn séu nú sameinaðir utan vallar (flestir) þá get ég algjörlega vottað það að það verður ekki innan vallar á sunnudaginn. Nei, heiðurinn er í húfi og okkar rauðu menn þurfa að vinna leikinn til að eiga séns á að enda ofar en þeir í töflunni. Fimm stig skilja liðin eins og staðan er núna og það gæti orðið skemmtileg barátta í restina ef við næðum að minnka það niður í tvö stig. Reyndar verður að segjast eins og er að Everton er eitt af þessum liðum sem hentar okkur afar illa. Þeir eru líkamlega sterkir og með góða skallamenn og það hefur ekki verið að gera gott mót hjá okkar mönnum. Ég var á Goodison Park fyrr í vetur þegar við vorum rændir sigrinum (langaði að hella mér yfir línuvörðinn þá þar sem hann var mjög nálægt mér) og þar sáum við afar kaflaskiptan leik. Brendan Rodgers var á tánum þá, breytti liðinu þegar lítið var að ganga og eins og fyrr sagði áttum við að vinna hann með algjörlega löglegu marki í uppbótartíma.

En það þýðir víst lítið að fárást yfir því núna, það er liðin tíð og nýr leikur framundan. Lykillinn að því að landa sigri verður að ná að stoppa Fellaini og eins Mirallas á kantinum. Sá síðarnefndi hrelldi okkur mikið í síðasta leik liðanna og getur verið algjör lykill hjá mótherjum okkar. Á móti kemur erum við komin með talsverðan hraða í framlínuna okkar og ættum að geta hrellt símastaurana þeirra með þeim hraða. Umfram allt verður það baráttan sem vinnur í þessum leik. Halda ellefu mönnum inni á vellinum allan tímann en berjast fyrir hverjum einum og einasta bolta. Svei mér þá, ég færi nú bara nokkuð glaður inn í sumarið (fótboltalega séð) ef við myndum landa góðum sigri í þessum leik. Já, ekki miklar kröfur úr því sem komið er, en það þarf líka oft lítið til að gleðja brothættar sálir.

Þetta Everton-lið er að mínum dómi að ná mun betri úrslitum en mannskapur þeirra býður uppá. Moyes virðist hafa verulega gott lag á því að ná því besta út úr litlu. Þeir eru með algjörlega frábæran bakvörð í Baines (þann besta í deildinni og jafnvel þótt víðar væri leitað) og svo er Jagielka mjög sterkur miðvörður. Á miðjunni er Fellaini svo ógnarsterkur leikmaður og bæði Pienaar og Mirallas eru flinkir og góðir í fótbolta. Restin eru bara svona fínir fótboltakallar, ekkert meira og ekkert minna, en þetta Everton-lið hefur svo sannarlega sýnt fram á að fótbolti er liðsíþrótt en ekki einstaklingssport. Þeir vinna saman sem ein heild og ná í fín úrslit og eru því þar sem þeir eru og eiga það algjörlega skilið. Þetta er lið sem er bara fjandi erfitt að eiga við.

Þá að okkar mönnum. Það er að verða hálf sjálfskipað í liðið hjá okkur. Luis Suarez tekur út annann leikin sinn í tíu leikja banninu og svo er alltaf eitthvað um meiðsli. Ég held að Rodgers muni því stilla upp sama liðinu og kjöldró Newcastle um síðustu helgi. Einhverjir kunna að segja að hann breyti yfir í það kerfi sem hann breytti í í hálfleik í síðasta leik gegn þeim en ég held ekki. Ég er á því að hann sé ekkert að fara að brjóta upp liðið sem spilaði um síðustu helgi. Ef þetta byrjar illa er hægt að bregðast fljótt við og fara í hitt kerfið. Ég ætla því að giska á að liðið verði svona:

Reina

Johnson – Carragher – Agger – Enrique

Gerrard – Lucas – Henderson

Downing – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Jones, Coates, Skrtel, Assaidi, Suso, Shelvey, Borini.

Sem sagt, Coutinho verður áfram í holunni (kemur ekki alveg rétt út á myndinni hér fyrir ofan) og þeir Downing og Henderson dragi sig aðeins út á vængina. Við þurfum að reyna að koma í veg fyrir að andstæðingar okkar fái föst leikatriði því þar eru þeir ógnarsterkir. Svo er það bara að spila boltanum með jörðinni og halda áfram að vera með færanýtingu eins og í síðasta leik. Við sköpum okkur alltaf færi, þetta snýst bara um að nýta þau. Ef við gerum það þá núllum við út okkar veikleika í vörninni og þá sér í lagi í þessum föstu leikatriðum.

Ég hef aldrei farið á Merseyside-derby og séð okkar menn tapa og ég bara neita að taka þátt í slíku. Á Anfield eigum við bara að vinna þessa bláu nágranna okkar, annað kemur bara engan veginn til greina. Ég skunda því bjartsýnn af stað til Keflavíkur með það fyrir augum að við séum að fara að vinna 3-1 sigur. Ég held að Coutinho setji eitt, Gerrard skorar að sjálfsögðu og þriðja markið kemur svo frá Sturridge. Hvernig sem fer mun ég samt syngja mig hásan á sunnudaginn, fyrir leik, á leiknum og eftir leik. Bring it on!

16 Comments

  1. Góða skemmtun drengir.

    Ég spá því að þetta endi 2-2 og þið fáið að sjá Carrager skora

    Svo verður að sjálfsögðu að minnsta kosti eitt rautt spjald að fara á loft svo að þetta verði alvöru leikur.

  2. Amen

    4-0, framhald frá síðasta leik (Sturridge 2 / Agger / Henderson)

  3. Það verður gaman að sjá hvort Liverpool geri eitthvað tákrænt fyrir leik til að þakka stuðning Everton vegna hinna 96. Eg vona að við fáum enhverja fallega stund svona rétt fyrir blóðsúthellinganna.

    JFT96

  4. Þetta getur ekki klikkað með ykkur snillingana í Kop.

    Ef ég ætti eina ósk myndi ég óska mér þess að Carra skoraði sigurmarkið á 88 mín. í 2-1 háspennuleik.

    YNWA

  5. Skemtið ykkur vel á leiknum og vonandi fer hann á besta veg áfram Liverpool!

  6. Baráttan um borgina!

    Góða skemmtun og í Fowler bænum öskrið fyrir mig þegar við skorum mörkin okkar.

    Vinnum 2-1 með mörkum frá Sturridge og Glen.

  7. Carragher er ekki að fara að tapa sinni síðustu viðureign á móti Everton.
    Það er bara ekki að fara að gerast!!!

  8. Ég vil ekki sjá þennan Alex Pearce í Liverpool, ætlum við að fara kaupa köttinn í sekknum aftur ? ætlum við að fara hirða upp rusl hjá liðum sem er löngu fallið ?? Reading getur ekki notað hann þannig að hann hlýtur að þá komast í byrjunarliðið hjá okkur. Ég vill sjá stór kaup í sumar Falcao, James Rodríguez , Káka, Damien Duff eða Reus. Ég veit reyndar að þeir væru allir að taka sirka 3-4 skref niður á við á ferlinum sínum ef þeir kæmu en er ekki oft sagt að stundum þurfi maður að taka skref tilbaka til að taka skref áfram ?

    En að leiknum, algjört lykilatriði að Downing verði í stuði ef við ætlum okkur stig í leiknum. Held líka að Jones ætti að spila þessa lokaleiki til að undirbúa hann fyrir treyjju nr 1 á næstu leiktíð þar sem Reina fer til Barca í sumar. Coates verður að fá spilatíma. Spái 3-2 sigri. Downing 2 og Sturridge 1 og Jelavic 2

  9. Liverpool neitaði þessari frétt um Pearce fyrir nokkrum dögum síðan. Þetta var algjör uppspuni frá Richard Buxton. Annars frábært að þið félagarnir verðið á lokaderbyleik Carra og ég hef fulla trú á því að eigi eftir að hafa þau áhrif sem þarf. Látið heyra vel í ykkur 🙂

  10. Damien Duff? Er auto correct að stríða þér?

    Spái 0-0 jafntefli því miður.

  11. Ummælandi númer 10 er alveg með þetta. Auðvitað er Damien Duff maðurinn sem kemur með englandsmeistarartitilinn á Anfield.

Strákarnir í Liverpool borg

Liðið gegn Everton