Wigan á morgun

Loksins, loksins. Þvílík þurrkatíð sem hefur verið í boltanum hjá manni undanfarið, alveg skelfilega langt frá síðasta leik og sem betur fer er biðin á enda. Wigan á morgun á útivelli, og það er á hreinu að það getur orðið “tricky” leikur. Reyndar er það nú svo að þetta Wigan lið ætti að henta okkur alveg ágætlega, fyrir utan þann sem stendur í markinu. Þeir eru oftast að reyna að spila boltanum á jörðinni og eru lítið í skotgröfunum. Það er nákvæmlega það sem við viljum helst í fari mótherja okkar. Reyndar er þarna eitt stykki markvörður sem hefur gert það að sérgrein sinni að vera góður shotstopper. Það hentar okkur aftur á móti afar illa. Af hverju geta lið ekki skilið raunir okkar stuðningsmanna Liverpool Football Club og hætt bara að láta þessa markverði sína eiga leiki lífs síns þegar við mætum þeim?

Þetta Wigan lið er algjört ólíkindatól og hafa verið það í nokkur ár. Þeir geta spilað frábæran fótbolta einn daginn, en steinlegið svo 8-0 þann næsta. Þeir eru með 24 stig eftir 27 umferðir og hafa lekið næst flestum mörkum í deildinni eða 51 kvikindi. Aðeins Aston Villa (52) hafa lekið meira þegar kemur að því að halda knettinum fyrir framan marklínuna. Þeir bæta þetta þó örlítið upp með því að skora talsvert, en þeir hafa sett 33 mörk í þessum 27 leikjum. Þar sem að þeir eru með frekar slaka vörn, við frekar góða sókn og vice versa, þá má búast við fjörugum markaleik á morgun. Maður yrði allavega alveg hund svekktur ef svo yrði ekki, vonandi verða þau bara öll okkur í hag.

Þeirra lang hættulegasti leikmaður er Arouna Kone, sem hefur verið iðinn við kolann í vetur. Hann og Di Santo hafa leitt sóknarlínuna, en sá síðar nefndi er svona týpa af leikmanni sem okkur hentar hvað verst, stór og sterkur strákur sem getur valdið usla í loftinu. Eins og áður sagði, þá er vörnin þeirra mjög veik og sé ég fyrir mér að menn keyri vel og hratt á menn eins og Caldwell, enda mjög hægur miðvörður. Wigan unnu góðan útisigur á Reading í síðasta leik, þannig að þeir ættu að koma inn í leikinn með fínt sjálfstraust. Ekki það, okkar menn ættu svo sannarlega að gera það líka.

Eitthvað er víst tæpt á að Sturridge geti spilað á morgun, hann fékk eitthvað högg á æfingu í gær og er sagður mjög tæpur á að geta leikið. Fjandakornið, við erum að tala um að núna er heil vika alltaf á milli leikja og ég bara neita að trúa því að ekki sé hægt að tjasla honum saman fyrir leikina, hann getur hvílt sig í ellinni. Við skulum orða það sem svo, ef hann spilar á morgun, þá er ég afar viss um að við vinnum þægilegan sigur. Málið er nefninlega það að hann tekur svo mikið til sín á vellinum að það skapar auka pláss fyrir Suárez. Ég held að þeir eigi eftir að jarða þessa vörn verði þeir báðir inná. Annars er lítið að frétta af meiðslamálum, Martin Kelly byrjaður að æfa aftur, en talsvert í endurkomu hjá honum. Og svo er Borini væntanlega frá út leiktíðina.

Já, vika á milli leikja, næg hvíld, úti úr öllum öðrum keppnum og því vil ég sjá okkar sterkasta lið í hverjum einasta helvítis leik. Menn fá gott sumarfrí næsta sumar þannig að nú verður ekki hlustað á neitt hvíldarvæl. Reynum að klára þetta tímabil með smá sóma og leiðum þessi minni lið til slátrunar. Já ég veit, ég fer ekki fram á mikið, vinsamlegast bara uppfylla þessar óskir. Glen Johnson hefur verið frábær undanfarið, og hann byrjar í sinni stöðu. Enrique verður vinstra megin og Reina í markinu. Eitthvað segir mér nú samt að það gæti verið að Skrtel kæmi aftur inn í miðvörðinn, þó svo að ég ætli nú að tippa á að Carra haldi sinni stöðu með Agger. Lucas verður þar fyrir framan með Gerrard og ég vona svo sannarlega að Henderson fái áfram tækifærið á kostnað Joe Allen. Downing verður hægra megin og ég ætla að stilla liðinu upp miðað við það að Sturridge verði heill, annars kæmi Coutinho inn.

Reina

Johnson – Carragher – Agger – Enrique

Gerrard – Lucas – Henderson

Downing- Sturridge – Suárez

Bekkur: Jones, Skrtel, Wisdom, Shelvey, Sterling, Allen, Coutinho.

Það er ekki hægt að segja að menn séu þessa dagana að spila undir mikilli pressu. Þetta er svona “allt er bónus” ástand. Það væri ásættanlegt að bæta sig frá síðasta tímabili þegar kemur að stöðu í deildinni, en menn mega bara ekki fara að masa um þetta blessaða fjórða sæti, það er bara jinx dauðans og það fer alltaf allt á versta veg þegar menn byrja á þeim vellingi. Liðið hefur verið mjög sprækt undanfarið og nú þarf bara að nota gömlu góðu klisjuna með að taka bara næsta leik fyrir og hugsa ekkert lengra en það. Sigur í þessum leik, hætta að horfa á töfluna og snúa sér svo beint að þeim næsta. Þetta á að vera vel vinnanlegur leikur, en þeir vinnast samt aldrei fyrirfram. Ég er þó ekki í nokkrum vafa með það að ef við höldum áfram sömu spilamennskunni, þá vinnum við góðan sigur.

Eins og alltaf, þá er fáránlega mikilvægt fyrir okkar lið að skora snemma, geri menn það, þá er oft eins og menn segi “ó já, svona eru mörk skoruð” og halda svo bara áfram þeirri iðju. Það vantar stundum fleiri svona karaktera eins og Luis Suárez inn í liði, menn sem gera nánast allt til að vinna og greinilega þola bara alls ekki að tapa. Ég ætla að spá því að hann taki sig til og slátri þessu Wigan liði og setji þrennu í 4-1 sigri. Við fáum svo eitt víti sem Stevie skorar úr. Leikur á morgun og ég hlakka alveg gríðarlega til, long overdue.

Koma svo.

18 Comments

 1. Sæll hvað er langt síðan að seinasti leikur fór fram.
  Vonandi fáum við skemmtilegan leik með fullt af mörkum.

 2. Vonandi vinnur liðið leikinn og rest. 4.sætið er möguleiki!!…not

  Tippa á 3-1 Suarez, Sturridge og Coutinho

 3. Reina
  Johnson Skrtel Agger Enrique
  Lucas
  Gerrard Henderson
  Sturridge Suarez Coutinho

  Þetta lið á að fara létt með þetta, maður veit samt aldrei spurning hvernig menn eins og G.Johnson mæta til leiks, frábær leikmaður en á það til að missa einbeitingu, vonandi að hann sé ekki að taka stærðfræðina of alvarlega þessa dagana.

  2-4 sigur, Suarez og Sturridge með sitthvor 2!

 4. Frábært að fá loksins leik aftur

  Takk fyrir upphitunina og podcastið ykkar um daginn.

  Varðandi liðuppstillingu SSteinns þá get ég tekið undir hana. Er þetta ekki basically okkar langsterkasta lið í augnablikinu? Kannski bara spurning um Downing og Coutinho……

  Ég er allavega bjartsýnn fyrir leiknum og svei mér þá að maður skelli sér ekki á Roadhouse eða einhvern stað og njóti leiksins yfir góðum börger og bjór.

 5. 1-0 fyrir Wigan. Staðfest. Al Habsi heldur okkur úti og svo tekur Koné Carra á sprettinum á 83. mínútu og skorar fram hjá Reina úr fyrsta skoti þeirra sem hittir á markið.

 6. “Já, vika á milli leikja, næg hvíld, úti úr öllum öðrum keppnum og því vil ég sjá okkar sterkasta lið í hverjum einasta helvítis leik.”

  djöf er ég sammála!

  YNWA

 7. Var að skoða stöðuna í deildinni, og svo +/- markatölu liða og það er frekar fyndið.

  United er með 33 mörk í plús
  CIty með 26 í plús
  Tottenham með 15 í plús
  Chelsea með 25 í plús
  Arsenal með 12 í plús
  Everton með 7 í plús
  WBA með 2 í plús
  Liverpool með 15 í plús.

  Við erum semsagt með jafngóða eða betri markatölu öll liðin, nema city,united og chelsea, en erum samt húkandi í 8 sæti.

 8. 8 – Það er einmitt vandamálið. Leikirnir fara oft annað hvort 0-1 eða 5-0. Allt eftir því hvort við setjum mark snemma og völtum svo yfir andstæðinginn í framhaldinu eða við klúðrum fyrstu 2-3 færunum og þá virðist uppskriftin vera sú að allt stíflast og svo laumar hitt liðið inn einu til tveimur í lokin. Óþplandi en satt.

 9. aðal vandamálið okkar er að vörnin er allveg hræðileg á útivelli!

  á heimavelli höfum við fengið á okkur 12 mörk sem er jafn mikið og chelsea og einu meira en Man City sem eru með bestu vörnina á heimavelli.

  en ef við skoðum stöðunna á útivelli þá höum við fengið á okkur 22 mörk (9 sæti) meðan arsenal er efst með 11 og Man City í öðru með 13.

  en við erum á fínu róli hvað markaskorun varðar með 49 mörk i fimmta sæti,

  þannig að í raun erum við ekkert svo langt frá því að berjast um topp sætin þetta snýst um að þétta vörnina á útivelli.

 10. Með Sturridge í liðinu þá höfum við ekki tapað leik… ef frá er talinn leikurinn gegn united, en hann fór reyndar 1-1 ef við teljum aðeins mörk skoruð eftir að hann kom inná 🙂

 11. Þú ert alltaf duglegur að drulla yfir liðið okkar en svo sé ég þig ALDREI koma eftir sigurleiki og tala um hversu vel það var gert.
  Ef þú ætlar að drulla yfir liðið vertu þá maður í þér og hrósaðu liðinu þegar að vel gengur.

Opnun: ReAct – Ný Liverpool Verslun!

Byrjunarlið gegn Wigan