Hvar stöndum við?

Það er óhætt að fullyrða að síðustu fjögur tímabil hafa verið með þeim erfiðari sem stuðningsmenn Liverpool hafa upplifað síðan um miðja síðustu öld, þá auðvitað hvað málefni félagsins varðar ekki harmleiki eins og Heysel og Hillsborough, síðustu ár hafa verið leikur einn í þeim samanburði.

Stríð milli eigenda, gjaldþrot, tíð þjálfaraskipti, stefnubreytingar, eigendaskipti, daglegar heimsendafréttir af Liverpool o.fl. hefur tekið sinn toll, innan sem utan vallar og því langaði mig af gamni að skoða hvar við stöndum í raun núna í samanburði við síðustu tímabil m.v. sama leikjafjölda, 27 leiki. Fyrst í samanburði við síðustu fjögur tímabil og eins sl. 15 tímabil.

Þetta tekur ekkert mið af því hvaða liðum við höfum verið að mæta eða hvernig leikjaálagið var. Hvort liðið var í meistaradeild, evrópudeild, þungu prógrammi í bikar eða þannig bara hvernig okkur hefur gengið eftir 27 leiki í deildinni. Enda er deildin það sem við höfum mestan áhuga á og hitt ætti því ekki að skipta máli þannig séð. Allt í lagi samt að hafa í huga tímabil eins og 2005, 2007 og 2012 er fókusinn fór af deildinni í lokin vegna annarra keppna en það var oftast eftir 27.umferð.

Svona lítur stigataflan út sl. 4 tímabil. (2009-2013)

Tölfræði - Síðustu 4 tímabil

 (Hægt að sjá mynd stærri með því að smella á hana)

Fyrir það fyrsta kom mér mest á óvart að sjá hvað hið ótrúlega óstöðuga lið Liverpool hefur verið stöðugt í meðalmennsku sinni sl. þrjú tímabil. Við höfum alltaf verið með 39 stig eftir 27 umferðir. Raunar eru Dalglish og Rodgers hnífjafnir ef við berum saman þetta tímabil og það síðasta. 10 sigurleikir, 9 jafntefli og 8 töp.

Það sem er frábrugðið í ár er að leikir Liverpool eru miklu skemmtilegri heldur en fyrir ári, a.m.k. ef við skoðum markatöfluna. Við þurfum að leita aftur til tímabilsins 1998/1999 er Houllier var fenginn til að aðstoða Roy Evans og laga hræðilegan varnarleik Liverpool til að finna tímabil þar sem liðið skoraði meira af mörkum. Það merkilega er að við þurfum einnig að leita aftur til tímabilsins 1998/1999 til að finna tímabil þar sem vörn Liverpool var jafn léleg eftir 27 leiki, þá einnig með 34 mörk fengin á sig og Björn Tore Kvarme ennþá á mála hjá félaginu.

Þá eins og nú var Liverpool að breyta töluvert miklu í sínu leikskipulagi og ef þú ruglar skipulaginu í vörninni er hætt við því að það taki tíma að finna jafnvægið aftur. Vörnin þá var búin að vera mjög lek á mælikvarða Liverpool en liðið var með fullt af góðum sóknarleikmönnum. Undanfarin ár hefur vörnin verið ein skásta staða Liverpool en liðið skorað lítið af mörkum.

Benitez byggði upp betra lið með hverju tímabili er hann var með liðið og fékk að bæta það milli ára (í hænuskerfum eins og menn muna). Það var ekki þannig fyrir síðasta tímabilið hans sem var hans versta. Þó var liðið með 6 stigum meira eftir 27 leiki (45 stig) heldur en síðustu þrjú tímabil og markatalan var +16 mörk (hans versta síðan 2005). Það góða er að núna er markatalan kominn á svipað ról og hún var hjá Benitez (+15mörk) og ef Rodgers nær betra jafnvægi í leik Liverpool og lagar varnarleikinn rétt eins og hann hefur tekið miðju og sókn í gegn er ég ekki í vafa að hann geti stórbætt þetta hlutfall á næsta tímabili og næstu árum. Gefið að FSG standi við bakið á honum, þá er ég að tala um betur heldur en síðasta sumar.

Þetta tímabil er ekki búið og á því síðasta endaði Liverpool mjög illa. Rodgers er því ennþá í dauðafæri að bæta árangur Dalglish frá því á síðasta tímabili hvað stigasöfnun varðar (ekki úrslitaleiki í bikarkeppnum). Færanýting Liverpool í ár hefur oft á tíðum verið rannsóknarefni, liðið er að klúðra ævintýralegu magni af færum. Það góða er samt að við erum að skapa miklu miklu fleiri færi heldur en í fyrra, skora miklu meira og það eru mun fleiri leikmenn að skora fyrir okkur. Trikkið í ár er að dreifa þessu á fleiri leiki.

Á þessu stigi í fyrra var Liverpool búið að skjóta svipað oft í tréverkið og það var búið að skora af mörkum (30 mörk). Ég efast um að við fáum nokkurntíma að sjá annað eins. Ofan á það gat liðið sem var uppfullt af þekktum vítaskyttum ekki einu sinni skorað af því færi meðan við ennþá fengum þannig. Núna fara um helmingi færri skot í tréverkið, við erum farin að fá eitt og eitt víti aftur og liðið hefur skorað 49 mörk. Það er rosaleg breyting milli ára (19 mörk) og sýnir kannski smá áherlumun þjálfaranna.

Rodgers virðist stundum bara hafa Plan A og þegar vel gengur og liðið nær að sækja getur það spilað stórkostlegan fótbolta, markatalan hefur t.a.m. stórlagast núna undanfarið. Dalglish gat alveg látið liðið spila sóknarbolta líka þó ekki eins góðan og í ár en hann gat líka breytt alveg um taktík og pakkað í vörn…og náð í 1-3 stig þannig. Enda var Liverpool búið að fá á sig 26 mörk á sama tíma í fyrra m.v. 34 mörk núna. Hvorugt er gott þó 26 mörk sé á pari við það sem við höfum verið að fá á okkur undanfarin 15 ár að meðaltali.

Að fá á sig 8 mörkum meira núna í ár er heilmikil breyting milli ára sem hægt er að skýra að mestu með því að liðið fær sjaldan á sig bara eitt mark, ef andstæðngurinn skorar virðast leikmenn Liverpool (sérstaklega varnarmenn) tapa trúnni og þar með einbeitingu og fá sig annað mark stuttu seinna. Þetta hefur gerst í 20 leikjum (í öllum keppnum) á þessu tímabili. Þetta er því vel hægt að laga strax á næsta tímabili þó það komi líklega eitthvað niður á sóknarleiknum.

Annað sem Rodgers hefur aðeins náð að bæta frá síðasta tímabili er heimavallarformið. Andstæðingar Liverpool pökkuðu oftar en ekki í vörn á síðasta tímabili (eins og nú sem og áður) og eftir 27 umferðir var Liverpool bara búið að vinna 4 leiki á Anfield sem var að gera flesta geðbilaða öfugt við sjö sigra núna.

Við töluðum oft um óheppni í fyrra og fram að þessum tíma er erfitt að þræta fyrir að heppnin var ekki beint með okkur í liði. Liðið var búið að gera 8 jafntefli á Anfield Road í fyrra og í ansi mörgum þessara leikja var búið að skjóta ítrekað í tréverkið eða klúðra svo góðum færum að þau voru jafnvel af vítapunktinum. Dalglish var bara búinn að tapa einum leik á Anfield

Útivallarformið í ár er hinsvegar að leika okkur grátt. Rodgers hefur náð í 6 jafntefli á útivelli og oft alveg grátleg töpuð sig meðan Dalglish var búinn að vinna 6 leiki á útivelli. Rodgers er hinsvegar búinn að tapa bara 4 meðan Dalglsih var búinn að tapa 7 leikjum. Þetta sýnir helst hvað fjárans jafnteflin eru dýr og hversu mikilvægt það er að hafa markaskorara sem skilur á milli í svona leikjum.

Til að klára samaburð á þessu tímabili og því síðasta er ég ekki í vafa um að Dalglish og Clarke hefðu bætt árangur Liverpool milli ára og verið með meira en 39 stig núna. Bæði með því að stjórna leikmannakaupum um sumarið og byggja áfram upp það lið sem þeir voru að byggja upp. Við höfum t.d. séð það í ár að þeir eru ekki allir eins vonlausir og af var látið leikmennirnir sem þeir keyptu og hentuðu betur í þeirra hugmyndafræði.

Hinsvegar er ég ennþá á því að það sem Rodgers er að reyna byggja upp sé líklegra til árangurs til lengri tíma og í lengri tíma. Dalglish hefði haft það forskot í sumar að þurfa ekki að breyta eins mikið um stíl og Rodgers “þurfti”. Hann hefði bara getað fínpússað sinn leikstíl áfram og eins og við sögðum oft á síðasta ári voru ansi margir leikir þar sem hægt var að bæta árangurinn. Ég leyfi mér t.d. að efast um að Dalglish og Clarke hefðu aftur verið með 8 jafntefli á Anfield á þessu tímabili og hvað þá endað eins illa og í fyrra.

Þess vegna þarf Rodgers núna að fá að klára þetta ár, vonandi með betri árangri en Dalglish náði og byggja ofan á það í sumar, með betri og hraðvirkari árangri en Dalglish gerði. Eftir 27 leiki á næsta tímabili hef ég t.d. trú að við verðum með meira en 39 stig haldi liðið áfram á svipaðri línu.

Síðustu 15 tímabil

Tölfræði - 1998-2013

Ef við stækkum dæmið og skoðum síðustu 15 ár og stöðu Liverpool eftir 27 umferðir kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Þetta hafa ekkert verið bestu 15 ár í sögu félagsins þó inn á milli hafi komið góð og jafnvel mjög góð moment.

Það sem helst vekur athygli og kemur kannski lítið á óvart er hversu hrikalega langt við höfum fallið sl. fjögur tímabil m.v. fjögur tímabil þar á undan. Tímabilið 2004/2005 er ekki inni í þessari jöfnu en það ár skipti deildin á endanum nákvæmlega engu máli. Það var samt mikið breytinga ár hjá Liverpool sem kom mikið niður á gengi liðsins í deildinni rétt eins og öll önnur tímabil er skipt hefur verið um stjóra (og betra á þessu stigi en tímabilið á undan).

Við vorum með 11-16 stigum meira eftir 27 umferðir frá 2005-2009 heldur en 2009-2013. Það er gríðarlega mikið en bæði á þessu tímabili sem og því síðasta finnst mér spilamennska Liverpool gefa von um að þetta sé hægt að bæta mikið milli ára. Munurinn núna og t.d. 2010 og 2011 er að liðið er miklu yngra og efnilegra og rekstur félagsins virðist vera miklu heilbrigðari. Tíminn leiðir í ljós hvort þessar væntingar verði enn einu sinni að vonbrigðum en svona er hugarástandið hjá mér eins og staðan er núna.

Brendan Rodgers þarf samt alveg að hafa áhyggjur áfram því að sl. 15 ár hefur það ekki brugðist að ef Liverpool er aðeins með 39 stig eftur 27 umferðir verða gerðar breytingar í þjálfarastöðunni.

Evans og Houllier byrjuðu saman tímabilið 1998/1999 sem gekk ekki vel og endaði á því að Evans “sagði af sér” á miðju tímabili. Þar var reyndar illa farið með góðan dreng en liðið var þetta ár með 39 stig eftir 27 umferðir.

Síðasta tímabil Houllier var liðið líka með 39 stig eftir 27 umferðir en var þá reyndar öfugt við núna að spila hræðilegan fótbolta.

Roy Hodgson náði blessunarlega ekki 27 deildarleikjum en Liverpool var með 39 stig eftir þann leikjafjölda árið sem hann var rekinn, einnig að spila hræðilegan fótbolta.

Dalgish var með 39 stig eftir 27 umferðir í fyrra. Það var reyndar ekki eins neikvætt og árið áður enda liðið að spila vel og ennþá í báðum bikarkeppnum. Hinsvegar hrundi gengi liðsins í deildinni á síðasta fjórðungi mótsins.

Rodgers er því ekki öruggur þó að ég trúi ekki öðru en að hann lifi þetta tímabil vel af. Ég mun samt alls ekki segja það sama verði Liverpool enn á ný með 39 stig á sama tímapunkti á næsta ári. Núna er komið að því að stíga skref fram á við. Þó ekki væri nema að hífa liðið upp á sama stall og Houllier var með það að meðaltali og svo á þann stað sem Benitez var með það eða hærra. Ég bið ekki um meira. 39 stig á þessum tímapunkti fjögur tímabil í röð er ekki ásættanlegt hjá Liverpool F.C. Aðstæður hafa verið sögulega erfiðar undanfarin ár en núna þarf að fara stíga skrefin fram á við.

Það að sjá Liverpool skora 49 mörk á þessum tímapunkti er mjög flott mál. Taflan lýgur samt ekki og á næsta tímabili þori ég nánast að veðja að við verðum með færri mörk skoruð og mun færri fengin á okkur, já og með öllu fleiri stig (segjum 6-9 stigum meira).

Liverpool nær engum stöðugleika með því að leka svona mikið af mörkum og þetta verður að laga, það er alls ekki eðlilegt að tveir af bestu leikmönnum liðsins allt að því tapi hæfileikanum til að spila fótbolta á sama tíma. Hvað þá þegar við erum að tala um marg reynda leikmenn og eina af fáum leikmönnum Liverpool í dag sem eru á þeim aldri að þeir ættu að vera toppa sem leikmenn. Hvað þá þegar báðir hafa sloppið ótrúlega við meiðsli m.v. sögu þeirra. Daniel Agger og Martin Skrtel hafa skiptst á að eiga slæman dag og hafa heilt yfir verið svipað mikil vonbrigði í ár. Sérstaklega var maður að vona að Agger myndi finna sig í þessu leikkerfi og að Skrtel myndi nú aðeins spila í takti við orðspor og berja á sterkum leikmönnum andstæðinganna. Liðið virðist leka alveg jafn illa með Carragher í vörninni og Coates ætti núna að vera mun nær aðalliðinu m.v. væntingar þegar hann kom en er líklega ennþá lengra frá því ef eitthvað er.

Ég bara neita að trúa því að þeir hafi báðir (Agger og Skrtel)  tapað hæfileikunum svona gjörsamlega og skal frekar trúa því að það taki bara þetta langan tíma að ná jafnvægi á liðið. Samspil miðju og varnar er alls ekki búið að vera í lagi og líklega er þetta eðlilegur fylgifiskur þess að breyta um leikstíl. Það skal enginn segja mér að Barcelona sem var í næstum áratug að þróa leik sinn hafi ekki átt í basli til að byrja með. Hvað þá Swansea. Eflaust þarf að finna leikmenn sem passa betur inn í kerfið og í það allra minnsta keppa við Agger og Skrtel um stöðu (og leysa Carragher og Coates af hólmi) en ég a.m.k trúi því að breyting á taktík spili stærri part í getuleysi varnarmanna Liverpool frekar en annað.

Hvað Reina varðar þá er ljóst að hann hefur ekki verið eins góður og hann var þegar hann kom fyrst en líklega gildir það sama með hann. Hann er búinn að spila í takti við leik liðsins. Þetta er bara sama lögmál og í handboltanum, ef að vörnin er í standi er markvarslan í lagi (og öfugt) og um leið og Rodgers nær að slípa varnarleikinn og tengja hann betur við miðju og sókn fer Reina að sýna sitt “rétta” andlit aftur.

Benitez, Hodgson og Dalglish lögðu mun meiri áherslu á varnarleikinn heldur en Rodgers hefur gert í ár sem skýrir líklega að hluta afhverju bestu menn Liverpool undanfarin ár hafi oftar en ekki verið varnarmenn. Eins er fróðlegt að sjá að við vorum búin að fá á okkur 32 mörk tímabilið sem Hodgson var og Dalglish kom inn (leikkerfið það ár fór frá Benitez í Hodgson og þaðan í Dalglish).

Til að einfalda, ég verð pirraður þegar miðvörður er tekinn útaf af óþörfu í miðjum leik því það ruglar öllu leikplaninu, þetta er síðasta staðan til að rugla með. Það er því kannski ekki skrítið að allt sé í steik ef þú hefur sömu varnarmenn undir 4 mismunandi þjálfurum, með 4 mismunandi leikkerfi í frekar slöppu liði.

Ef við tökum meðaltal af síðustu fjórum tímabilum 2009-2013 vs 2005-2009 þá skoraði Liverpool að meðal tali 39 mörk og vann 11 leiki í fyrstu 27 umferðunum árin 2009-2013 á móti því að skora 41 mark og vinna 14,8 leiki 2005-2009. Munurinn liggur í því að liðið fékk á sig 30 mörk að meðaltali árin 2009-2013 á móti 19 mörk tímabilin 2005-2009.

Annað sem hefur ekki hjálpað Rodgers við að ná upp stöðugleika hjá Liverpool á þessu tímabili er sæmilega sársaukafull breyting sem var gerð á hópnum. Við misstum út marga mjög reynda leikmenn og veikjum eflaust hópinn til skemmri tíma í sumar. Kuyt, Maxi, Bellamy, Adam, Aurelio og Carroll (og Aquilani) voru ekki að spila í samræmi við launaumslagið í fyrra og félagið þurfti að losa sig við þessa menn af launaskrá en í staðin höfum við verið að treysta á mjög mikið af 17-20 ára leikmönnum og það í fjölmörgum leikjum. Það gæti skilað sér margfalt á næstu árum en það hefur alls ekki hjálpað upp á stöðugleiki í vetur svo mikið er víst. Sem dæmi þá er Kuyt að spila í meistaradeild og einu besta liði Tyrklands, Bellamy í toppliði 1.deildar, Carroll er byrjunarlliðsmaður í úrvalsdeildarliði, Adam er byrjunarliðsmaður í úrvalsdeildarliði (og Aquilani er lykilmaður í góðu liði á Ítalíu). Veit ekki stöðuna á Maxi og Aurelio en það væri meiri breidd hjá okkur með þessa menn ennþá í stað ungra leikmanna sem ennþá eru að gera mistök og ekki með skrokk í heilt tímabil í úrvalsdeild. Eins hafa þeir sem komu í staðin enganvegin verið að standa sig nógu vel, ekki fyrr en eftir janúargluggann. Allen og Borini hafa engu bætt við þá sem fóru og Assaidi og Sahin hafa verið mikil veiking. Sama má segja um Joe Cole, hann bætti engu við liðið en fékk svosem ekki mörg tækifæri til að sýna sitt rétta andlit og er núna lykilmaður í úrvalsdeildarliði.

En brottför þessara manna skilur eftir pláss fyrir nýja leikmenn á launaskrá sem okkur hefur verið lofað í sumar (og komu í janúar) og mjög efnilegir leikmenn hafa fengið nauðsynleg tækifæri í liðinu.

Niðurstaða:

Það er ekki til nein regla um það hvenær eigi að skipta um stjóra eða hversu mikinn tíma eigi að gefa hverjum stjóra fyrir sig. Það er t.d. ekkert þreyttara heldur en Ferguson dæmið. Hann þurfti 7 ár til að ná árangri hjá United og það hentaði þeim nógu vel þá. Það hefur ekkert með þjálfaramál hjá öðrum liðum með allt aðrar væntingar og stjórnunarhætti að gera. Frekar vill ég horfa til Houllier og Benitez. Báðir breyttu miklu þegar þeir tóku við og byrjuðu ekkert sérstaklega. Báðir þurftu dágóðan tíma til að byggja upp lið sem gat farið að keppa til verðlauna og blanda sér í titilbaráttu. Það sem þeir gerðu var að þeir voru að bæta liðið ár frá ári og báðir töluðu frá upphafi um 3-5 ára plan. Þeir keyptu leikmenn á góðum aldri sem þjónuðu klúbbnum vel og lengi og gera jafnvel enn. Báðir voru óheppnir og lentu í aðstæðum sem urðu þeim að falli. Houllier var aldrei sami maður eftir að hann veiktist og átti hræðilegan leikmannaglugga sumarið 2002 og náði aldrei að taka liðið á næsta level.

Benitez lenti í stríði milli eigenda félagsins og ævintýralegri pressu úr ólíklegustu áttum. Hann fékk á endanum ekki að halda áfram að byggja upp lið Liverpool eins og hann hafði verið að gera hægt og örugglega árin á undan og það varð honum að falli (sem er ennþá versta ákvörðun Liverpool öll þessi 15 tímabil sem við erum að taka mið af).. Benitez var nánast alltaf með aðra hönd bundna fyrir aftan bak og í dag er slóð heimsklassa leikmanna að spila sem hægt var að fá fyrir örlítið meira fjármagn en fékkst ekki, leikmenn í Alonso, Torres og Mascherano verðklassa (eða ódýrari) sem hafa síðan orðið 2-3 verðmætari. (Dæmi, Dani Alves, Pato og David Silva).

Árangur Rodgers á þessu fyrsta tímabili sínu er eins og áður segir á pari við árið á undan og árið þar á undan. Sagan sýnir okkur þó að góðan stjóra er ekki hægt að meta að neinu viti fyrr en eftir a.m.k tvö tímabil og oftar en ekki meira en það. Þetta er auðvitað misjafnt eftir aðstæðum en góður stjóri toppar sjaldnast á fyrsta tímabili. Eðlilega ekki. Eins kemur það fyrir að stjóri er augljóslega ekki heppilegur fyrir starfið og þá réttast að leiðrétta mistökin strax (hneigðu þig Hodgson).

Eina krafan sem mér finnst að við ættum að setja á Rodgers og FSG er að liðið sé að bæta sig milli ára, jafnvel þó það geti hikstað inn á milli. Þetta var mín skoðun með Houllier og ennþá sterkar með Benitez. Miðað við aðstæður var gjörsamlega galið og gífurlega ósanngjarnt að reka hann á þeim tímapunkti sem það var gert og við súpum enn seiðið af því. Fyrir mér má Rodgers ná svipuðum árangri í deildinni í ár og liðið náði í fyrra, m.v. leikjaprógramm sem við eigum eftir held ég að það sé ekkert óðelilegt að fara fram á 5-6 stigum meira en engin kraftaverk.

Á næsta ári þarf hann að byggja ofan á það og a.m.k. berjast um 4.sætið. Eftir það vill ég svo sjá byggt ofan á það og svo koll af kolli. Ef allt er eðlilegt þarf svo ekki að panikka ef liðið tekur væga dýfu inn á milli, bara að maður trúi því að liðið sé á uppleið (eða a.m.k. í öruggum höndum).

Aldurinn á þessum stjóra og meðalaldurinn á þessum hæfileikaríka mannskap sem er hjá Liverpool núna gefur aðeins til kynna að framtíðin er bjartari næstu 4 tímabil heldur en hún hefur verið sl. 4 tímabi. Hvað þá ef við lesum frábært viðtal við þjálfara unglingaliðsins sem Steini póstaði í gær.

Svona sé ég þetta a.m.k. eins og staðan er núna en veðrið getur auðvitað verið fljótt að breytast í Liverpool.

Babu

(Upplýsingar um stöðu í deildinni á hverjum tíma er fengin af þessari frábæru síðu).

21 Comments

 1. Þetta er áhugaverð umræða. Maður hefur verið svo fúll yfir “hruninu” síðustu þrjú árin að maður hefur varla pælt í því hvað liðið hefur verið stöðugt í meðalmennskunni.

  Þetta skilur eftir sig ákveðnar spurningar: er liðið að spila undir getu … eða er það bara ekki betra en þetta? Erum við að ofmeta leikmenn eins og Agger, Skrtel, Reina, Lucas, Gerrard, Carra og Johnson sem hafa verið burðarásar í þessu liði frá 2009? Okkur finnst alltaf eins og þessi kjarni eigi að geta skilað okkur hærra en 6.-9. sæti, aðallega af því að þeir voru allir (utan Johnson) í liðinu sem skilaði okkur í 2. sætið fyrir 4 árum. En kannski eru þeir bara ekki betri en þetta?

 2. Takk fyrir frábæran pistil Babú. Ég sé þetta ekki breytast fyrr en ákveðinn rammi er byggður í kringum liðið, frá toppi til táar og hann sé látinn standa. Fjárhagsstaða liðsins og útivera frá Champions League gerir það ennþá mikilvægara að það sé ekki verið að róta endalaust í liðinu, þar að segja hvernig fótbolta liðið spilar og hvernig týpur af leikmönnum séu verið að kaupa.

  Sumir vilja meina að það skipti engu máli þó að skipt sé um stjóra hvenær sem er. Ég er sammála að sumu leyti um það og það fer eftir aðstæðum hvers liðs.
  Við erum ekki með peningana sem til þess þarf, sérstaklega launalega sem getur keypt hollustu atvinnumanna sama hvernig aðstæður eru, maður þarf ekki að líta lengra en til Zenit þar sem Hulk getur spilað þrátt fyrir morðhótanir eigin aðdáenda.

  Við erum með nokkra mjög góða leikmenn en ég trúi ekki að við getum haldið í þá án þess að það sé einhver stöðugleiki fer að taka mynd í kringum skipulag klúbbsins fótboltalega séð. Það er ekki endalaust hægt að breyta um stefnu og áherslur inná æfingarsvæðinu. Þetta tekur of mikinn tíma og of mikið á taugar leikmanna. Ofan á tímann sem það tekur að innleiða nýjar aðferðir innan leikskipulags, þá er gert ráð fyrir því að liðið sé á leiðinni í topp fjögur. Þetta er raunveruleikafirring á háu stigi, vil ég meina. Það getur allt skeð vissulega en með eins mörg lið sem eru samkeppnishæf um þessi sæti í dag og miðað við breidd liðs sem stanslaust er rótað í, er það hálfgjör vitfirring að hafa þetta sem raunsætt markmið.

  Ef liðið endar í sæti á milli 6 til 8 í lok tímabils, þá verð ég ennþá bjartsýnn að Rodgers geti náð betri árángri næsta tímabil. Mér fannst þessi staða raunhæf í byrjun tímabils, þrátt fyrir litla sem enga breidd fyrr en núna þar sem við fengum loksins að sjá þá sem keyptir voru í janúar að spila frá byrjun á sunnudaginn. Með það í huga gætum við verið í miklu verri málum núna, td. Suarez var markahæsti leikmaður okkar seinasta tímabil með 11 deildarmörk.

  Mín von er að við náum sæti milli 5 og 7 í ár og Rodgers fái að halda áfram. Að nægur tími sé til þess að undirbúa næsta tímabil í sumar, bæði liðsins á æfingarsvæðinu og í leikmannakaupum.

  Ef liðið sé styrkt í sumar en árángur ekki í samræmi við það í lok næsta tímabils, þá þarf að spyrja alvarlegar spurningar til hæfileika Rodgers sem stjóra Liverpool. Ef allt fer á versta veg og hann yrði látinn fara. Þá myndi ég vilji að ramminn sé ennþá í nánast sömu mynd. Þannig að það sé auðveldara fyrir leikmannahópinn frá akademíu til fyrsta liðs til að halda áfram án mikilla breytinga. Og næsti stjóri geti gengið á miklu auðveldari hátt að starfinu. Og þurfi bara að sparsla uppí liðið þar sem hann sér veikleika. Og liðið sé meira samanlímt.

  Það væri mjög skemmtilegt að komast áfram á fimmtudaginn en góð frammistaða myndi nægja mér. Ef ekki þá hefur liðið þann möguleika að einbeita sér algjörlega að þeim deildarleikjum sem eftir eru. Hvet líka alla sem áhuga hafa að horfa á Sporting taka á móti strákunum í Liverpool í NextGen annað kvöld. Leikurinn er sýndur beint á LFCTV og hann verður erfiður þar sem lið Sporting er mjög sterkt. Það er Liverpool líka og fyrir mig hafa leikirnir í þessu móti verið með þeim skemmtilegri sem ég hef horft á þetta tímabil og það eru allar keppnir teknar með, sérstaklega Dortmund og Inter leikirnir.

 3. Rodgers hefur bara breytt einu: Liðið er að spila skemmtilega og er gaman að horfa á leiki liðsins (svona að verstu Oldham-Westbrom skitum frádregnum). Liðið skorar meira en hefur ekki styrkst og er ekki betra en það var, ekki ennþá.

  Liðið skortir breidd í vörninni og það vantar einn topp-klassa miðvörð, helda að Skalli og Tattú séu ekki málið til frambúðar nema sem squad players. Coates er búinn að skíta á sig, (miðvörður sem getur ekki dekkað, halló?), litlu strákarnir í bakvörðunum sömuleiðis (er sumsé ekki að tala um Wisdom). Glen Johnson getur dottið niður og þyrfti að hvíla meira, en til þess þarf heilan Martin Kelly. Reina ætti að hressast ef vörnin hressist og mér finnst hann vera orðin mubla og áhættusamt að skipta honum út að frumkvæði klúbbsins.

  Á miðjunni er það helst aldurinn á Kafteininum sem er áhyggjuefni en við skulum vona að hann eigi 2-3 góð ár eftir og svo smá Giggs/Scoles þar á eftir. Er annars að verða sáttari og sáttari með þann mannskap.

  Sóknin er mjög sterk byrjunarliðslega séð með Stu-arez, Borini væri fínt cover ef hann væri ekki alltaf meiddur strákgreyið, litili ítalinn er vinnusamur og það kann ég að meta.

 4. Ég hef mikla trú á Rodgers. Hann er samt ungur ennþá og á eftir að bæta ýmislegt.
  Finnst hann vera of fastur í þessari hugmyndafræði sinni og of tregur til að breyta henni þegar hún gengur ekki upp.

  Þá á það algjörlega eftir að koma í ljós hversu fær hann er á leikmannamarkaðinum.
  Sumarkaupin hans virkuðu enganveginn. Finnst Allen og Borini ekki komið inn með það sem maður bjóst við miðað við hvað þeir kostuðu.
  Hinsvegar tel ég að hann hafi gert gríðarlega góð kaup í Coutinho og Sturridge núna í janúar sem gefur manni smá von.

  Það verður spennandi að fylgjast með þessu Liverpool liði í framtíðinni.
  Við erum með unga stráka sem læra meira með hverjum leiknum sem þeir spila.
  Þannig að næsta tímabil verður mjög athyglisvert. Sérstaklega ef við náum að krækja í 3-4 leikmenn sem koma með alvöru “impact”.

 5. Flottur pistill og áhugaverð lesning.

  Afleitt gengi eftir jól í fyrra kostaði að ég held Dalglish starfið og BR mun vera undir svipaðri pressu ef liðið lendir í sambærilegri lægð. Ég er alveg sammála að það þarf að gefa nýjum þjálfara tíma. Klárlega verður þó lagt mat á hans árángur að tímabili loknu.

  Persónulega er ég hundfúll með að vera ekki í toppbaráttunni en ég er líka raunsær og miðað við það sem BR hefur haft í höndunum þá tel ég að ef tímabilið skilar jafngóðri eða betri niðurstöðu en í fyrra þá sé það engin spurning að hann haldi áfram. Reyndar er ég mjög hrifinn af þessari hugmyndfræði hans og væri eflaust til í að gefa honum mun meira svigrúm en mörgum öðrum.

  Það að hann skuli ná svipuðum árangri í fyrra en með mun minni tilkostnaði er jafnframt batamerki, við skulum ekki gleyma því. Það er ekki spennandi árangur fyrir stuðningsmenn að flagga en engu síður viss árangur.

  Rétt eins og skipti á þjálfurum og leikstílum tefja uppbyggingu klúbba þá tel ég þessar endalausu leikmanna hreinsanir innan klúbbsins líka færa okkur skref afturábak. Hópurinn í dag er frekar þunnskipuður og hafa síðustu 2 gluggar einkenst af varúð. Ég vil ekki sjá enn eina hreinsunina næsta sumar, miklu fremur vil ég að við stígum varlega til jarðar í kaupum og sölum. Við höfum fullt af ungum drengjum sem hafa verið að stíga sín fyrstu skref og þeir þurfa áfram að fá spilatíma til þess að geta bankað enn frekar á dyr aðalliðsins. Ég er ekki spenntur fyrir því að þurfa að selja fleirri leikmenn til þess að kaupa nýja.

  Vonandi dugar salan á Carroll (geri ráð fyrir því að hann fari) + brotthvarf Carra af launaskrá til þess að fjármagna sumarkaupin.

 6. Takk kærlega Babú fyrir áhugaverðan pistil. Ég hreinlega elska þessa síðu og þann metnað sem henni fylgir.

  Tölfræðilega séð er þá Rodgers jafn góður og Houllier á loka sísoninu sínu og jafn glataður þá og Hodgeson / Dalglish og Dalglish …. en það væru tölfræðilega réttar ákvarðanir. Þó á eftir að fara yfir hvaða leikir voru búnir á við hverja, til þess að fá alveg nákvæma mælingu á þetta. Nú er ég bara að beita fyrir mig akademískri hugsun og horfa fram hjá þeirri staðreynd hvað á undan hefur gengið.

  Mitt persónulega mat er að Rodgers hefur gert vitleysur í uppstillingu á liðinu og farið í leiki með kolvitlaust hugarfar, s.b.r. Stoke leikir, Oldham FA og margt annað sem ég nenni ómögulega að rifja upp. Hann hefur þó náð því að liðið er að spila mun skemmtilegri bolta en það hefur áður verið að gera og líka komið út með úrslit sem eru stórgóð, s.b.r. fjórum sinnum náð að skora 5 mörk í vetur, sem mig minnir að hvorki Hodgeson eða Kenny náðu að gera. Hann er búinn að taka til í framhluta spilsins en er enn ekki byrjaður á varnarleiknum. En þó, jú hann er búinn að gera þá breytingu á liðinu að hann er ekki að spila með tvo þunga miðjumenn eins og margir fyrrv. þjálfarar voru að gera, t.a.m. Lucas og Jay litla eða Lucas og Poulsen, heldur er Gerrard ætluð rulla aftar á vellinum sem hann leysir vel.
  Þá hefur hann líka exposað meira vörnina sem gerir þá skrölta og dagger erfiðara fyrir, líka þar sem bakverðirnir okkar eru farnir að sækja oft á köflum fáránlega langt fram. Það er eitthvað sem Kenny var ekki að gera né Hodgeson.

  En þegar á öllu er botnin hvolft, finnst mér kallinn vera á réttri leið með liðið. Hann þarf þó að fá meira stabilití í liðið og hætta að láta liðið leka svona mörgum mörkum. Ef það næst þá held ég að við getum farið að pæla í meistaradeildinni. Það verður ekki á næsta sísoni, enda erum við ekki klárir í það. Það væri fínt að ná 5-6 sæti sem ég vil gera kröfur á, og fá Europa leauge sæti, sem væri gott að nýta unglingana í að spila í, fá einn til tvo virklega reynda leikmenn inn í liðið í næsta glugga og þá gæti þetta farið að smella betur saman.

 7. Góður pistill Babu, ef ekki er hægt að meta árangur framkvæmdastjóra fyrr en eftir tvö keppnistímabil, af hverju var þá Daglish látin fara eftir síðasta tímabil. Hann var rétt byrjaður á sinni vinnu, skilaði okkur í úrslit í báðum bikarkeppnunum og einn bikar í hús. Núna erum við dottnir út úr FA eftir niðurlægingu á móti einhverju litlu liði frá manchester. Ég sé eftir Daglish, fer ekkert leynt með það en ég er til í að gefa BR sjénsinn. Þó svo að þessi bolti sé skemmtilegur sem Liverpool er að spila þá getur hann breyst í andhverfu sína á móti liðum sem hafa auðveldlega átt svar við okkar leik, pressa okkur hátt uppi og eru skipulögð í vörn, stoke,wba,aston villa sem við eigum alls ekki að tapa svona mörgum stigum gegn. Við höfum fengið 1 stig í tveimur leikjum á móti stoke, ekkert í tveimur leikjum á móti wba, og ekkert í heimaleik á móti aston villa.
  Er BR ekki með neitt annað plan á móti svona liðum, ég hef ekki getað séð það. Var bara eitt “ríkisleikkerfi” á þessum 180 bls sem hann var með fyrir FSG ?
  Ég hef áhyggjur af varnarleiknum, og því að við gjörsamlega skítum uppá bak á móti “minni” liðum þegar þau spila á móti okkur.

 8. Höddi #9

  Já vissulega tapar BR leikjum en það gerði Dalglish líka. Ég held að sú tegund af bolta sem við spilum hafði ekkert að gera með tapið á móti WBA eða A.Villa. Gegn þessum liðum gekk fátt upp og margir einstaklingar voru bara virkilega lélegir. Annað er leikurinn á móti Stoke en sá bolti sem þeir spila mun alltaf valda okkur vandræðum. Hann gerði það þegar Dalglish var við stjórn og gerir það enn með BR við stjórn.

  Ástæða þess að Dalglish var látinn fara vil ég meina að hafi verið vegna þess að hann var aldrei að fara vera nein framtíð. Aldurinn hans leyfir það því miður ekki. Ég held að FSG hafi viljað byrja á ákveðnum byrjunarreit og ráða ungan þjálfara sem hafði nútímalega hugsun á fótboltanum. Það hafði Dalglish t.d. ekki. Núna erum við með þjálfara sem þeir vilja hafa áfram og fær vonandi tíma til að móta liðið.

  Þú spyrð einnig hvort BR hafi ekkert annað plan á móti liðum eins og Stoke, Villa, WBA. Þá spyr ég á móti. Hvað átti hann að gera öðruvísi gegn WBA? Liðið dominate-aði leikinn en það vantaði bara að skora. Það var einnig þekkt vandamál í fyrra. Einnig getum við spurgt hvar var plan-b hjá Daglish í fyrra þegar við vorum rasskelltir af Bolton sem síðan féll. Hvar var Plan B þegar við töpuðum gegn Stoke úti og þegar við töpuðum gegn öllum hinum liðunum.
  Við höfum alveg séð að Rodgers hefur tekið upp plan B. Móti United á Old Trafford og á móti Everton á Goodison eru mér ofarlega í minni.

  Pointið mitt er það að þú virðist vera tilbúinn að horfa framhjá því að Daglish hafi tapað eða ekki haft plan B einungis vegna þess að hann lagði allt í sölurnar fyrir bikarinn og vann annan þeirra. En svo þegar BR tapar stigum þá er það vegna þess að einungis er eitt “ríkisleikkerfi” svo er einnig svo rangt.

  Annars er ég diggur stuðningsmaður BR og held að fái hann tíma til að vinna þá mun hann gera góða hluti. Þeir gerast ekki strax en ef við lýtum á þolinmæði sem dyggð og virðum það þá munu hlutirnir gerast aftur.

 9. Eigum við að treysta BR? Svarið er JÁ , liðið er í framför og það væri heimska að láta mann fara sem er með lið í framför. Síðast þegar við vorum með heimsklassalið var Benites við stjórnina, við erum með sama markmanninn, betri bakverði , svipaða miðju og álíka sterka sókn í dag. Helsti getu munurinn finnst mér vera á liði BR og Benites er miðvarðaparið, þegar við vorum með menn eins og Hippia og Carrager upp á sitt besta. Ég er þó mjög ánægður með það sem ég heyri í slúðrinu í dag og vona að eitthvað af því reynist rétt 3-5 miðverðir hafa verið linkaðir við Liverpool þó ég taki kannski ekki mikið mark á sögusögnum þá er ég sannfærður um að BR kaupi 1-2 miðverði í sumar. Svo er ég orðinn svolítið þreyttur á plan B og plan C umræðunni og er sú umræða ofmetin að mínu mati þá á ég við þegar við lendum á móti liðum sem eru í lægri klassa en Liverpool að þá þurfum við að stilla upp svona og hinsegin liði. Barcelona myndi ekki breyta neinu þó þeir myndu mæta Stoke eða ManU þeir myndu bara einfaldlega spila sinn bolta sem þeir kunna best, ég held það að BR ætli að innleiða það. Að lokum ætla ég að lofa ykkur því þegar við verðum komnir með betri miðverði og spilamennska sem BR er að innleiða verði slípaðri, þá verða lið eins og WBA, Fulham og fleiri miðlungslið lítil fyrirstaða. ÉG ER SANNFÆRÐUR UM ÞAÐ!!!

 10. Glæsilegur pistill, gaman að fá alvöru tölfræðipælingar hingað. Þetta held ég að sé nákvæmlega leiðin til að horfa á dæmið; Liverpool er einfaldlega 6. sætis lið eins og staðan er núna og það þýðir ekkert að pirra sig á því. Þá meina ég vitanlega ekki að menn eigi ekki að stefna hærra en raunhæfar væntingar (miðað við gengi síðustu ára) eru bara ekki mikið hærri. Raunar hefur liðið bara einu sinni náð því sæti síðustu 4 tímabil, þökk sé frábæru rönni eftir komu Suárez í byrjun árs 2011.

  Sumarið þar á eftir settu eigendurnir brjálaðar fjárhæðir í að styrkja liðið, sem að Dalglish og félagar sóuðu (svo vægt sé til orða tekið) og skiluðu nákvæmlega engu. Þessi martraðarkaup, sem mér finnst persónulega hafa talsvert verið grafið yfir af stuðningsmönnum Liverpool (hversu oft var talað um á þessari síðu að mörkin hjá Carroll væru “alveg að koma”?), eru ástæðan fyrir stöðnun í gengi liðsins. Hefði þessum fjármunum verið varið skynsamlega væri Liverpool nú að keppa við Arsenal og Tottenham um fjórða sætið en ekki Swansea og West Brom um það sjöunda.

  Á jákvæðari nótum þá spilar liðið talsvert gáfulegri fótbolta undir Rodgers en síðustu þjálfurum, þó árangurinn hafi ekki enn skilað sér. Ég held að það sé einmitt lykilatriði í komu efnilegra spilara til klúbbsins (sbr. Sturridge og Coutinho sem hafa nú þegar skilað liðinu meiru en Carroll og Downing á heilu tímabili).

 11. Nr 9 – Höddi B

  Góður pistill Babu, ef ekki er hægt að meta árangur framkvæmdastjóra fyrr en eftir tvö keppnistímabil, af hverju var þá Daglish látin fara eftir síðasta tímabil.

  Góð spurning og ég kom nú inn á þetta í pistlinum (og Birkir svarar þessu að mestu þar fyrir utan). Ég er nokkuð viss um að Dalglish hefði byggt ofan á síðasta tímabil og náð betri árangri í ár heldur en Rodgers er að gera núna (og hann var að gera í fyrra). Dalglish fékk 18 mánuði hjá okkur og við vitum auðvitað ekki hvað gekk á bak við tjöldin. En mig grunar samt að Dalglish hafi aldrei verið langtímaplan hjá FSG og því hafi þeir verið tilbúnir að klippa svona fljótt á hann. Árangurinn í deildinni eftir áramót var reyndar alveg hræðilegur og hefur haft eitthvað að segja og eins gæti ég trúað að bilið hafii verið of mikið milli unglingaliðsins og aðalliðsins.

  Til skemmri tíma hafa þessi stjóraskipti líklega ekkert komið sér vel fyrir okkur, Rodgers breytti mjög miklu frá síðsta tímabili, liðið losaði sig við mjög marga leikmenn og eins og ég kom inn á í pistlinum þá kom Liverpool líklega veikara til leiks eftir sumarið heldur en það endaði tímabilið áður.

  Vonandi skilar þetta sér til lengri tíma, rekstur félagsins er mun heilbrigðari, meðalaldur leikmanna mun lægri og líklegra að menn eigi sín bestu ár eftir öfugt við nokkra af þeim sem fóru í sumar. Ofan á það er liðið er að spila spennandi fótbolta sem fellur vel í kramið hjá flestum stuðningsmönnum Liverpool þó augljóslega þurfi að fínpússa hann gríðarlega.

  Ég gef eins og aðrir frekar lítið fyrir þessa Plan B umræðu enda Rodgers eins og flestir stjórar með ákveðið leikplan sem hann breytir ekki mikið út frá, liðið er líka að verða meira sannfærandi með hverjum leik spilandi þetta kerfi. Benitez gat alveg breytt skipulaginu á meðan leik stóð rétt eins og Dalglish og Rodgers hafa oft gert en Hodgson t.d. hefur ekki frétt af öðrum kerfum en 4-4-1-1 eða þá í mesta lagi hið vilta 4-4-2. Þeir treystu samt allir aðallega á sín leikkerfi og breyttu ekki mjög mikið milli leikja. Helsta sem ég sakna hjá Rodgers sem Benitez og Dalglish vildu hafa var að eiga alltaf stóran sókarmann í hópnum sem gæti boðið upp á eitthvað nýtt í sóknarleiknum í sumum leikjum, Daniel Sturridge er kannski frábær millivegur hvað þetta varðar.

  Hvað Stoke, WBA o.s.frv leikina varðar hef ég ekki teljandi áhyggjur af þessu í bili. Ef Rodgers verður að gera sömu mistök og Liverpool eins illa í stakk búið að mæta þessum liðum á næstu árum og það er núna skal ég hafa áhyggjur en mun líklegra þykir mér að liðið komi til með að bæta sig verulega gegn þessum liðum. Reyndar held ég að öllum nýjum stjórum Liverpool hafi gengið illa gegn Stoke á sínu fyrsta tímabili og þeir koma áfram til með að stríða okkur eins og öllum öðrum liðum.

  Semsagt mér finnst ég ekki geta dæmt Dalglsih sem stjóra á þessum 18 mánuðum sem hann fékk og útiloka alls ekki að hann hefði náð góðum árangri og bætt liðið ár frá ári. Ef einhver í sögu félagsins átti skilið að njóta vafans var það klárlega Kenny Dalglish. En kannski er það gott fyrir okkur að eigendur Liverpool eru ekki eins tengdir honum og stuðningsmenn og tóku þessa ákvörðun á sínum forsendum.

  Það breytir allavega ekki því að stóri dómur fellur varla um hinn 40 ára gamla Brendan Rodgers eftir 12 mánuði í starfi, hvað þá á tímabili mjög mikilla breytinga á hóp og leikkerfi. Það má vel vera að FSG hafi bara þolinmæði fyrir honum í 12-18 mánuði en meðan hann tapar ekki klefanum alveg eða fær allt félagið upp á móti sér þá vona ég að hann nái að byggja upp betra lið á Anfield og fái sæmilegan vinnufrið til þess. Ég er skíthræddur um að FSG verði oft fljótt að láta hausa fjúka eins og þeir hafa sýnt bæði hjá Liverpool og Red Sox en ég held að þetta sé miklu stærra mál í fótbolta hjá liði sem er ekki með GM heldur en í hafnabolta.

  Traust mitt á FSG þegar kemur að svona ákvörðunum er ekki mikið þó ég hafi verið sammála þeim í bæði skiptin sem þeir hafa skipt um stjóra. Eigendur FSG vita líklega allir mun minna um fótbolta en flestir sem lesa þessa síðu en hafa vonandi ráðgjafa sem vita sínu viti og þeir kunna að reka íþróttafélög öfugt við flest okkar hér.

 12. Nr. 12 Hjalti

  Smá spurning, ég er ekki að mótmæla því að kaup Dalglish voru hrikaleg fyrir síðasta tímabil og styrktu liðið grátlega lítið. En erum við ekki að sjá aðeins í vetur að þetta var ekki allt vonlaust og er ekki hægt að ætla að þessir menn hefðu jafnvel enn fyrr getað fundið sig í ár undir stjórn Dalglish? Það er oft ágætt að miða við að ca. 50% leikmannakaupa gangi upp og er það ekki að verða raunin á endanum?

  Henderson er ekki lengur flokkaður sem léleg kaup, eða ég hef ekki heyrt það lengi. Downing hefur stórbætt sig þó hann sé ennþá ekkert frábær og kostaði allt of mikið rétt eins og aðrir samlandar sínir. Enrique er líka farinn að spila vel með reglulegu millibili. Andy Carroll var farinn að spila vel í lok síðasta tímabils og var góður í sumar á EM, er ekki líklegra að hann hefði bætt sig á öðru ári líkt og félagar hans gerðu? Dalglish hafði trú á honum öfugt við Rodgers og hugðist klárlega nota hann áfram. Sama á við um Coates, hefði hann ekki passað betur í leikstíl Dalglish? (Charlie Adam held ég að sé að spila á sínu leveli).

  Það er auðvitað vonlaust að segja til um þetta og í fyrra voru þetta hræðiileg leikmannakaup sem nýttust nánast ekki neitt. En flokkast þetta ennþá sem eins mikil hörmung? Erum við ekki líka að lenda í því sama (svipuðu) núna? Þeir leikmenn sem komu í sumar þurfa meira en eitt tímabil til að finna sig? (ekki algillt en algengt). Það þarf t.d. ekkert að vera að saga Joe Allen verði eins og Lucas og Henderson en saga þeirra kennir okkur að dæma Allen ekki alveg strax. Sama má segja um Borini sem fékk kallgreyið aldrei nægan tíma til að sanna sig almennilega. Daniel Sturridge byrjar frábærlega hjá okkur núna en það gerði Jose Enrique líka t.d. Hver veit nema hann detti í lægð eftir nokkra mánuði eins og Enrique gerði.

  Að lokum þá fékk Dalglish mikinn pening til að eyða í leikmenn en það var líka töluvert sem við fengum inn í leikmannasölum og lækkun launakostnaðar sem jafnaði þetta mjög mikið út.

 13. Síðasta árið hans Benitez þegar peningarnir voru búnir þá bara hrundi allt. Leikmenn urðu óánægðir þrír stórkostlegir leikmennn héldu á braut Alonso, Torres og Mascherano. Þetta voru leikmenn sem hjálpuðu liðinu úr 4-6 sæti í 2-4. sætið. Hodgson kom inn og fékk afleita leikmenn inn í staðinn og svo réðum við Dalglish sem ekki hafði verið við knattspyrnustjórn í áraraðir. Það hlýtur að vera einhver einkennilegasta ráðning seinni tíma en það er önnur pæling. Núna er verið að byggja eitthvað upp aftur og við verðum að sætta okkur við að þetta tímabilið er liðið líklega ekki betra en 5-6 sætið og verður það bara teljast ásættanlegt ef það næst og vona að leikmannakaup verði góð næsta sumar.

 14. Þess má nú líka geta að það eru fleiri sterk liði í deildinni í dag en þegar Benitez var uppá sitt besta. Tottenham eru miklu sterkari í dag og City eru nánast töpuð 3 til 6 stig á tímabili þannig að það munar um minna.

 15. Frábær grein Babú og nákvæmlega grunnurinn sem þarf til að umræða verði góð í kjölfarið. Sem hún er, með afbrigðum.

  Ef við förum bara í þjálfarana í tímaröð þá var ég sammála því að reka Houllier, og hefði viljað að það gerðist fyrr en gert var, liðið hætti að taka framförum eftir veikindin. Ég var reyndar svo ansi óheppinn að vera á leiknum gegn Leeds árið 2002 þegar hann var sendur á spítala í hálfleik.

  Varðandi Benítez þá var öllu kippt undan honum en hann náði auðvitað ekki lengra með liðið og ég var þess vegna líka hlynntur brottrekstri hans. Maður vissi auðvitað ekkert hvað var í gangi á bak við tjöldin og einmitt eins og fjallað er um, hvernig hann náði þó þessum árangri með aðra hendina bundna. Mér fannst alltaf eins og hann hefði tapað klefanum og menn hefðu ekki trú á því sem þeir voru að gera þegar líða tók á árið 2010. Ég held að sumarglugginn hafi líka haft sitt að segja. Þegar lykilleikmenn sjá að lítið bætist við liðið í leikmannaglugganum þá eru þeir líklegir til að missa trúna á verkefnið. Jafnvel þótt liðið hafi í sjálfu sér verið orðið ansi gott.

  Hodgson þarf ekkert að ræða, hann var aldrei rétti maðurinn í starfið þótt ég hafi alveg verið tilbúinn að gefa honum séns. Mér fannst vera orðið mjög pínlegt að horfa á liðið undir stjórn hans, boltalausir meira og minna og tapandi sannfærandi gegn Úlfunum og fleirum á heimavelli.

  Dalglish var síðan auðvitað draumaráðningin og ég var ansi vonsvikinn þegar hann var rekinn en það var samt ákveðið ráðaleysi yfir leik liðsins og það tók engum sérstökum framförum undir hans stjórn. Eins og fjallað er um hér að ofan þá er eins og menn hafi lagt árar í bát, bæði út af bikarkeppnum en ekki síður vegna þess að kóngurinn virtist ekki hafa nein ráð í erminni til að leysa þann vanda sem hann og liðið stóð frammi fyrir. Sama staðan var uppi, t.d. gegn Swansea og hjá Hodgson, liðið átti erfitt með að vinna boltann af andstæðingunum og var á svipaðan hátt og núna, mjög viðkvæmt fyrir áföllum.

  Ég ætla ekki að segja að Rodgers sé töfralausnin okkar, ekki frekar en Sturridge eða Suarez. Málið er það að liðið sýnir í fyrsta skipti í fjögur ár framfarir. Og það ber að virða. Auðvitað tapast leikir sem eiga ekki að tapast. En liðið er í nokkuð stöðugri framför, stjórnar flestum leikjum, eru fljótir að vinna boltann og eru farnir að skora nokkuð vel. Sama viðkvæmnin er samt fyrir hendi og við fáum á okkur allt of mikið af mörkum. Engin geimvísindi hér.

  Ég held hins vegar að Rodgers fái áframhaldandi séns núna, einfaldlega á þeim forsendum að liðið tekur framförum mánuð frá mánuði og liðið, félagið og stuðningsmennirnir þurfa stöðugleika. Hvort sem Rodgers nær að koma okkur í meistaradeildina með fjórða sætinu vorið 2014 og nær síðan ekki lengra en það, þá á að gefa honum þann séns. Ef hann nær hins vegar ekki að koma okkur í meistaradeildina það vor þarf að skoða stöðuna. Ef hann nær síðan ekki að brjótast upp í topp 2 á 4-5 árum þá má kannski fara að huga að breytingum. En ekki fyrr en liðið hættir að taka framförum. Þá og aðeins þá finnst mér að megi fara hugsa um að skipta um þjálfara. Öndum rólega, trúum á okkar menn og verum ekki að heimta hausa. Það væri brilljant að fá einn haffsent næsta sumar, sem er helst betri en Skrtel og Agger, ná síðan í kannski tvo öfluga sóknarmenn í viðbót, helst sem geta spilað allar fjórar sóknarstöðurnar. Svo treystum við á að Allen og Borini nái sér betur á strik á næsta ári og þá þurfum við ekki meiri breytingar og verðum komin með mjög öflugan hóp, gefið að aðeins Assaidi, Coates og Carragher yfirgefi skútuna.

 16. Birkir #10. Babu kemur aðeins inná það sem ég get alveg kallað “Plan B” það er til dæmis að brjóta upp leikinn eins og á móti þessum liðum sem ég nefni í fyrra kommenti mínu með því t.d. að hafa stórann framherja á bekknum. Ég kaupi ekki að Daglish sé of gamall til þess að stjórna fótboltafélagi, alls ekki, hann á nóg eftir. BR á eftir að læra mikið, og FSG enn meira um það að reka fótboltafélag. Ég er alveg sammála þér Babu með það að ég held að Daglish hefði náð betri árangri en BR hefði hann fengið að vera hjá LFC annað tímabil. Ég er samt til í að gefa BR sjéns og er alveg sammála að fótboltinn sem við spilum er skemmtilegri, en það vinnur ekki endilega eitt og sér fleiri leiki. Allir viljum við jú árangur.
  Ég hef áhyggjur af varnarleik LFC og ég vona að BR hafi burði í að bæta hann hjá okkur á næsta tímabili, eða bara strax á þessu. Það tekur á að vera svona langt á eftir manutta, man city og celski eins og raun ber vitni. Sérstaklega af því ég ólst upp við það að LFC var best í Evrópu og í heiminum. Síðan vorum við að nálgast þá með Benitez, og svo erum við að reyna að nálgast þá aftur núna, að byrja uppá nýtt. Það á eftir að taka nokkur ár, vonandi fá ár.

  Takk annars fyrir gott spjall hérna strákar, og stelpur. Næsta verkefni er fimmtudagurinn.

 17. Höddi.

  Það fer auðvitað eftir því hvernig þú skilgreinir framtíð. Er það nægilegt að stjórna liði í 10 ár en þá verður Dalglish 73 en BR 50 ára. Ef vel gengi hjá báðum einstaklingum, hvor væri að fara vera 10 ár til viðbótar? Ef FSG horfa á stöðugleika og lýta á Man U og Arsenal sem dæmi þar sem sami þjálfarinn hefur verið og skilað þeim ávalt í CL, þá erum við að fara horfa á þjálfara sem á að vera lengur en til 10 ára býst ég við.

  Það er auðvitað gefið að BR er ekki eins reyndur og KD en gleymum því ekki að BR hefur verið að grúska í boltanum sem þjálfari seinustu 15-20 árin. Hann er ungur og með mikinn metnað og ég hef trú á því að þegar hann segir:
  “I will fight for my life for the supporters and the people of this city”

  En það er rétt Höddi, FSG og BR eru enn að læra en ef við gefum ekki tíma til þess að læra og ekki svigrúm til þess að gera mistök, þá verður engin lærdómur dreginn af einu né neinu.

  Hann þarf líka að fá fleiri glugga til að bæta mannskapinn. Eins og er þá finnst mér flest kaup Liverpool eftir að hann kom vera mjög jákvæð. Ég skil ekki Assaidi þar sem hann 25 ára á þessu ári og því telst varla ungur lengur. Borini hefur því miður ekki fengið tímann til að sýna sig sökum meiðsla og tel ég að enginn stuðningsmaður hafi efni á því að dæma hann strax. Joe Allen hefur verið vonbrigði en ég er viss um að það býr meira í honum en hann hefur sýnt. Hann mun vonandi sýna það og sanna að hann á heima í þessu liði. Svo hefur Sturridge komið frábærlega inn í liðið og Coutiniho byrjar mjög vel.

  Vonandi bætast við varnarmenn sem veita Agger og Skrtel meiri samkeppni og sýna þeim að þeir verða að vera 100% með hlutina til þess að halda sér í liðinu.

 18. Flottur pistill og skemmtinleg lesning.
  Ég verð nú bara að viðurkenna að ég áttaði mig ekki á því hvað við erum í rauninni nálægt fjórða sætinu. Það eru 33 stig eftir í pottinum fyrir okkur og 6 stiga leikur við Tottenham á Anfield. Ef leikmenn loka augunum fyrir stigatöflunni fram á vorið og einbeita sér að einum leik í einu, gæti þetta orðið spennandi endasprettur á þessu tímabili.
  Allavega finnst mér algert bull að sætta sig við það á þessum tímapunkti að liðið eigi ekki séns á meira en 6-7 sæti. Liðið er farið að spila þrusu fótbolta geta léttilega halað in slatta af stigum ef menn mæta spólgraðir í hvern leik, og hugsa bara um 3 að ná í 3 stig í einu.

 19. jafnvægi … jafnvægi … liðið er með geðhvörf og það þarf lithium í formi kappa eins og McAllister!!

Verulega gott viðtal við Alex Inglethorpe

Zenit á morgun