Oldham á morgun

Annað árið í röð mætum við Oldham Athletic í FA Cup en núna á heimavelli þeirra, Boundary Park, einum elsta og versta heimavelli deildarliða á Englandi. Ferðalagið er alls ekki langt enda nánast hægt að flokka Oldham sem úthverfi Manchester en ég kom inn á þetta og margt fleira tengt félaginu í upphitun fyrir leikinn í fyrra, sjá hér.

Þegar þessi lið mættust á síðasta ári var Luis Suarez málið í hámæli enda FA nýlega búið að fella fáránlegan dóm sinn og þessi viðburður var of mikið fyrir einn leikmanna Oldham sem tók upp á því að fara grenja í miðjum leik og bar því að hann hafi orðið fyrir kynþáttaníði. Seinna kom ef ég man rétt í ljós að hann var sá eini sem “heyrði” þetta og var líklega eitthvað að blanda saman eigin skoðun og þeirri staðreynd að það voru þrír stuðningsmenn Liverpool saman í í stúkunni í stuðningsbolum fyrir Suarez.

Þetta mál dó a.m.k. út en kom auðvitað á æðislegum tíma fyrir Liverpool og var helsta umræðuefni fjölmiðla eftir leik sem voru búnir að vera í herferð gegn öllu tengdu Suarez. Blessunarlega er ekkert svona bull í gangi um þessar mundir og verður vonandi ekki. Ég bíð samt spenntur eftir að sjá hvort stuðningsmenn Oldham taki lagið um Suarez því eins og ég kom inná í upphitun í fyrra er þetta svæði þekkt fyrir áratuga baráttu gegn kynþáttafordómum.

Leikurinn í fyrra var mjög mikilvægur fyrir Oldham sem er alls ekki í góðri stöðu fjárhagslega og alls ekki í góðu formi í deildinni núna. Liðið hefur aðeins náð í eitt stig úr síðustu átta leikjum og tapað sjö leikjum á heimavelli í deildinni það sem af er þessu tímabili. Paul Dickov er ennþá stjóri liðsins en framtíð hans er í óvissu og um jólin var staða hans gerð miklu erfiðari þegar þriggja manna starfsliði hans var sagt upp og hann skilinn einn eftir með alla vinnuna. Hann var nýlega í viðtali við The Guardian þar sem hann viðurkenndi að síðustu vikur hefðu verið erfiðar og að hann væri að vinna 26 tíma á sólarhring eftir að starfsliði hans var sagt upp.

Ofan á þetta hefur æfingasvæði Oldham verið frosið sl. vikur og liðið fengið að æfa í innanhússaðstöðu Man City á meðan. Til að toppa allt saman hefur snjóað gríðarlega á Englandi undanfarna daga og því nokkur óvissa hvort leikurinn geti farið fram á morgun.

Svona leit völlurinn út í morgun (og seinna um daginn)

Oldham völlurOldham völlur 2

Heimasíða Oldham inniheldur meira af fréttum um að þeir ósku eftir sjálfboðaliðum með skóflur til að hreinsa völlinn og svæðið í kring heldur en fréttir af leiknum sjálfum. Auðvitað til að leikurinn geti farið fram og verið er að vinna á fullu svo að það geti orðið.

Oldham moka
Þarna má sjá Jose Baxter pabba Andy (leikmanns Oldham) og Chris Bailey vallarstjóra Boundary Park taka til hendinni til að leikurinn gegn Liverpool geti farið fram.

Oldham er sem stendur í 19.sæti í þriðju efstu deild (League 1) og er 4 stigum fyrir ofan fallsvæðið en hafa spilað tveimur leikjum fleira en flest liðin í kringum sig.

Gengi Oldham er eins og gefur að skilja mun betra í bikarnum en til að fá þennan leik gegn Liverpool hafa þeir þurft að leggja Kidderminster, Doncaster og Nottingham Forrest á útivelli. Þannig að þeir eru komnir einni umferð lengra í ár heldur en í fyrra þar sem liðin mættust í þriðju umferð á síðasta tímabili.

Kenny Dalglish tók þennan leik, líkt og aðra bikarleiki mjög alvarlega á síðasta tímabili og stillti upp nokkuð sterku liði Reina, Aurelio (Flanagan – 71′), Coates, Carragher, Kelly, Gerrard, Maxi, Spearing, Shelvey, Kuyt (Carroll – 87′) og Bellamy (Downing – 74′)

Oldham komst yfir í fyrri hálfleik í þessum leik en Gerrard og Bellamy náðu að leiðrétta það fyrir hlé. Shelvey, Carroll og Downing innsigluðu svo 5-1 sigur í seinni hálfleik.

Af þeim 14 leikmönnum Liverpool sem spiluðu þennan leik í fyrra eru 6 farnir og liðið á morgun verður ennþá meira breytt milli leikja en það. Reina er meiddur (nári) en ætti að verða klár gegn Arsenal. Enrique er líka meiddur en ætti að fara koma aftur fljótlega. Martin Kelly er sá eini sem er ekki væntanlegur í bráð en auk þessara er Assaidi að keppa í Afríkukeppninni og því ekki með á morgun…sem hann yrði hvort eð er ekki að öllum líkindum.

Nokkrir leikmenn þurfa að fá spilatíma hjá okkur og nokkrir góðir hafa ekki verið í liðinu undanfarið, líklega verða þeir í aðalhlutverki á morgun.

Spái að þetta verði ca. svona:

Jones

Wisdom – Carragher – Coates – Robinson

Allen – Lucas
Borini – Shelvey – Suso

Sturridge

Ég hef nákvæmlega ekkert yfir mér í þessari ágiskun. Tippa þó á að Suarez og Gerrard hvíli í þessum leik, a.m.k. til að byrja með og svo er orðrómur í gangi þess efnis að Johnson sé eitthvað tæpur og hann verður þá vonandi ekki notaður heldur. Blessunarlega á Rodgers fjölmarga aðra kosti í stöðunni og ef eitthvað er að marka fréttir gæti einn til viðbótar bæst við strax í næstu viku, brasilíumaðurinn Coutinho frá Inter.

Mínútu þögn til minningar um Gary Ablett fyrir leik í fyrra

Spá: Tökum þetta nokkuð örugglega, 0-4 og Sturridge kemst í sögubækur Liverpool með að skora í fyrstu fjórum leikjum sínum fyrir Liverpool. Hann gerir gott betur en það og hleður í þrennu í þessum leik. Borini skorar engu að síður fyrsta mark leiksins.

16 Comments

 1. Frábær upphitun, vonandi getur þessi leikur farið fram og ég vona að Coates nokkur fái tækifæri í þessum leik, sem og Shelvey. Vinnum þennan leik 0-2, Sturridge og Suraez með mörkin.

 2. Ég held það liggi enginn vafi á því hvernig þetta fari!
  Liverpool mun liggja í dauðafærum en samt mun leikurinn ekki vera búinn fyrr en eftir 90 min og því erfitt að slíta sig taumlausann frá skjánum! 🙂

  Sturridge mun eiga flottan leik, stíga nokkur feilspor hér og þar, en það sakar ekki fyrir stráklinginn að spila svolítið og sperra lappirnar eftir erfiðan vetur í London! 🙂

  Hér er gott fótbolta-video sem ég rakst á á veraldarvefnum og hef ekki náð að borða matarbita síðan! 🙂

  http://www.youtube.com/watch?v=uSp75VrNi0A

 3. Þetta verður markaregn sem kemur frá LIVERPOOL og það regn bræðir allann snjóinn, eða þannig, vonum það.

 4. Vonandi sýna Oldham góðan leik og skora 2-3 mörk en við skorum sigurmarkið á 90 mínútu með hendinni á Suarez eftir dýfu í eigin markteig.

 5. Ég held að þetta verði nokkuð öruggur sigur að þessu sinni en er því miður hræddur um að við missum einhverja í meiðsli í snjódrullunni – þessar aðstæður eru langt því frá að vera að boðlegar fyrir fótboltaleik.

  0-4 (Sturridge, Coates, Borini, Sterling)

 6. bara sigur takk. Slæmur völlur, vont veður, þurfum ekkert meira en sigur. En það sem er meira spennandi eru næstu dagar. Nú er talað um að Coutinho sé kominn í læknisskoðun en vafi með atvinnuleyfið fyrir hann. Svo er það Coates út og nýr haffsent inn, spurning hvort þetta takist fyrir lok gluggans.

 7. Alltaf jafn fyndið hvað menn verða bjartsýnir á útileik gegn neðri deildar liðum í FA cup 🙂

 8. Væntingar mínar krefjast flugeldasýningar, sætti mig við eitt stjörnuljós. Ekkert gefið í FA Cup.

  YNWA

 9. drengir, eruð þið link á leikinn á netinu? altsvo bestu gæðin

 10. Skv sænsku Liverpool siðunni LFCfans.se er þetta byrjunarliðið, sókndjarft lið.
  Jones, Wisdom, Robinson, Coates, Skrtel, Allen, Henderson, Sterling, Borini, Sturridge, Suarez.

Vika eftir af glugganum – Couthino – opinn þráður

Byrjunarliðið gegn Oldham í 4.umferð FA cup