Man.Utd á morgun

Hversu stórkostlega furðulegt er það að vera búinn að halda upp á fertugs afmælið sitt og vera samt með algjörlega fáránlegan hnút í maganum yfir leik sem fer fram í margra þúsund kílómetra fjarlægð á morgun? Jú, það er fullt af fólki sem finnst þetta algjörlega út í hött. Hvað er fullorðið fólk eiginlega að spá? Láta eins og kjánar og skipta skapi vegna einhverra stráktitta úti í heimi sem eru í ofan á lag, gjörsamlega ofborgaðir og ofdekraðir. Hvað er eiginlega að? Hvað er að þér, þú þarna lesandi sem kemur inn á svona síðu sem fjallar bara um lið úti í heimi? Af hverju ertu ekki að gera eitthvað annað, eitthvað uppbyggilegt? Skógrækt? Landvernd? Pólitík? Tónlist? Önnurlist? Neibbs, so sorry, hef smá slatta af áhuga á öllu þessu, en allt það upptalda fær mig ekki til að missa svefn, í rauninni fær það mig ekki til að missa eitt eða neitt.

Menn hafa einfaldlega mismunandi áhugamál, mitt er fótbolti og nánari skilgreining á þessari þráhyggju minni er Liverpool Football Club. Ég hef oft verið sakaður um að geta ekki sett mig í spor annarra, en því er ég ekki sammála. Ég til dæmis hef oft lent í rökræðum við fólk sem ekki fýlar enska boltann, um einmitt hann. Þetta fólk skilur ekki ástríðu mína fyrir félagi sem er þúsundir kílómetra í burtu frá mér. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu fólki, en ef ég á erfitt með að setja mig í spor annarra, hvað má það segja um þetta fólk. Þau eiga það nefninlega flest sameiginlegt að fýla ekki enska boltann, en er allt gjörsamlega kol kreisí fyrir framan imbann þegar “Strákarnir Okkar” eru að spila handkastleik við Ómaklegudóníu, á HM í bakhrindingum! Ekki misskilja mig, ég dýrka það að horfa á handkastið í janúar á hverju ári, það svona nokkurn veginn fyllir minn kvóta fyrir því sporti. En þetta sama fólk, gjörsamlega gengur af göflunum einu sinni á ári, í JANÚAR. Mitt svar er, HEY ÞIÐ, svona líður mér í hverri einustu viku í heila 10 mánuði á ári.

Já, ég get alveg viðurkennt það, Liverpool genin mín eru margfalt sterkari og öflugri en Íslands genin. Það var engin meðvituð ákvörðun hjá mér að svoleiðis væri þetta, þetta er bara svona. Ég gæti þóst finna hitt og þetta fyrir og eftir leiki, en það er bara ekki ekta. Það er engin uppgerð eða fyrirfram ákveðin hegðun. Ég bara fer í eitt andsk… helv… fokkings kerfi nokkra daga fyrir leiki Liverpool og Man.Utd og án gríns þá skiptir ekkert í íþróttaheiminum meira máli en að vinna þessa erkifjendur okkar á morgun. Fyrir mér væri ég til í að senda strákana okkar heim á morgun ef það gæti tryggt mér eins og eitt stykki sigur á skrattanum sjálfum.

En það er nú bara ég, og ætla ég alls ekki að draga úr áhuga manna á öðru sporti, síður en svo. Menn eru misjafnir eins og þeir eru margir og kannski var þetta bara aum tilraun til að segja frá því af hverju næstum því tæplega ungur maður er svona fáránlega “affective” vegna fótboltaleiks sem fram fer, jú nó ver.

Það er gömul tugga en svo gjörsamlega sönn að það skiptir engu máli hvar þessi lið séu í deildinni, þetta eru alltaf stærstu leikir ársins. Einhverjir reyna eflaust að malda í móinn með það, einhverjir Nallarar eða Chelsea stuðningsmenn, en þeir vita það sjálfir innst inni að þetta er bara svona. Í rauninni væru þetta stærstu leikirnir líka þótt liðin væru bæði að spila í næst efstu deild. Sagan, rígurinn, atvikin, titlarnir og allt hreinlega, gera þessa leiki að því sem þeir eru. Fyrir svona leiki eru einhverjar pepp ræður hjá stjórum algjörlega óþarfar. Ef einhver leikmaður þarf á slíku að halda þá er hann bara einfaldlega ekki á réttum stað. Stóra málið er að reyna að halda spennustiginu niðri og halda öllum mönnum inni á vellinum, því miður hefur það ekki gengið sem skildi undanfarin ár.

Ég ætla ekkert að fara yfir gengi liðanna í vetur, um það vita allir sem sækja þessa síðu. Þeir Robin Van Persie og Luis Suárez eru búnir að vera fáránlega góðir í deildinni í vetur og að mínum dómi bera höfuð og herðar yfir aðra leikmenn á þessari leiktíð það sem af er. Bæði lið eiga það sameiginlegt (allavega síðustu c.a. tvo mánuðina) að hafa akkúrat engan áhuga á jafnteflum. En eins og svo oft áður, þá hefur lafði lukka verið á einn veg og virðist bara geta verið hjá einu liði í einu. Ekki það að það sé eingöngu hún sem skýrir muninn á liðunum, getumunurinn er bara talsverður, þó svo að mínum dómi ekki jafn mikill og stigamunurinn segir til um. En stóri munurinn er klárlega þetta hugarfar sem alltaf er hjá þessum Man.Utd liði. Þegar nýjir leikmenn koma þar inn, þá bara detta þeir inn í pakkann, inn í umhverfið. Þetta umhverfi er svona Never Say Never umhverfi. Þeir bara hafa akkúrat enga trú á því að þeir geti tapað leikjum, þó svo að þeir séu 2-0 undir og nokkrar mínútur eftir að leiknum. Þetta attitude skilur þá frá liðum eins og Liverpool. Þess vegna einmitt eru oft ekkert margir leikmenn þeirra sem ég slefa yfir þegar ég sé þá spila fótbolta. En attitude-ið maður minn.

Traktorinn er búinn að segja að Rooney verði ekki með þeim á morgun, það eykur líkurnar á því einmitt að hann verði í byrjunarliðinu. Hef varla tekið eftir því að þessi maður hafi verið beint heiðarlegur þegar kemur að fjölmiðlum og býst ekki við neinni breytingu þar á. Annars er talað um að þeir séu með algjörlega fullskipað lið. Ég get hreinlega ekki líst því hversu heitt ég þrái það að sjá fýlusvip á honum eftir gott tap sinna manna, rauður og þrútinn í framan eftir að hafa öskrað sig hásann fyrir aðstoðardómarann, dómarann, fjórða dómarann og öryggisvörðinn. Úff, góður draumur maður. Annars er mér eiginlega nokk sama hvernig hann stillir upp þessu liði sínu, Van Persie verður þarna frammi og því miður hefur hann haft þann leiðinlega ávana upp á síðkastið, að slátra okkar mönnum. Á síðasta tímabili töpuðum við fyrir Arsenal þar sem við sundurspiluðum þá, nei, þá þurfti þessi leiðinda pési að poppa upp og setja’nn. Á Anfield fyrr á þessu tímabili, þá vorum við að sundurspila Man.Utd. En hvað þá? Hann tekur málin í sínar hendur (reyndar var Headline Halsey búinn að því aðeins áður) og klárar leikinn. Það verður bara að stoppa þennan mann á morgun.

Veiki punkturinn hjá mótherjum okkar er klárlega vörnin og markvarðarstaðan. Það er nokk sama hvað þeir stuðningsmenn þeirra reyna að telja sjálfum sér trú um, þetta markvarðarpar þeirra sæmir ekki styrkleika og stærð liðsins. En hvað kemur á óvart þar? Tim Howard var nú bestur í heimi á sínum tíma, eða alveg þar til hann fór frá þeim. Blindi Feneyjingurinn var að þeirra sögn algjör undramaður (ég var reyndar sammála þeim, bara undramaður á annan hátt). Barthez var bestastur í öllum heiminum þegar hann var þarna. Núna er það De Gea sem er langbestasturogmiklubetrienþessiReina. Ekkert nýtt svo sem, en þarna liggja veikleikarnir. Rio Ferdinand er þar fyrir framan og oftast var það nú Johnny Evan sem stóð við hliðina á honum. Þeir hafa legið mörkum og minnt helst á illa þvegið sigti. En því miður, þá hafa þeir bara efni á því vegna þess að hinum megin á vellinum eru menn að tryggja það að fyrir hverja gjöf sem Rio og félagar gefa, þá fylgja tvo þung hnefahögg í magann og málið klárað.

En hvað um það, að okkar mönnum. Sahin farinn, Joe Cole farinn og Daniel Sturridge kominn í þeirra stað. Martin Kelly og Jose Enrique eru báðir meiddir og Borini er byrjaður að æfa aftur, en þessi leikur kemur líklegast aðeins of snemma fyrir hann. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig Brendan ætlar að stilla þessu öllu saman upp. Treystir hann Wisdom í svona stóran leik? Hefur hann einhvern annan kost? Að mínum dómi hefur hann ekkert annað option en að spila stráknum. Downing er nú ekki beint reyndur í vinstri bakverðinum og Wisdom er hreinlega sterkari varnarlega. Ég spái því að aftasta línan verði sú sama, eða Wisdom, Skrtel, Agger og Johnson. Lucas VERÐUR hreinlega að vera á sínum stað og svo verður Gerrard við hlið hans. Þetta er nokkuð fastmótað en stóra spurningin er í kringum það hvernig Brendan stillir þessu upp þar fyrir framan. Hann hefur klárlega úr meiru að moða núna en áður. Í mínum huga snýst þetta um Henderson / Allen / Shelvey inn á miðjuna og þó ég sé ansi hreint á því að hann pikki Allen, þá er ég svo sannarlega að vona að Henderson verði fyrir valinu, enda verið frábær undanfarið. Svo er það spurning hver verður fremsti maður, verður það Luis eða Sturridge? Hver af Sterling, Downing og Suso fá að hefja leikinn? Ég ætla að spá liðinu svona:

Reina

Wisdom – Skrtel – Agger – Johnson

Gerrard – Lucas – Henderson

Suárez – Sturridge – Downing

Bekkur: Jones, Carragher, Coates, Allen, Shelvey, Sterling og Suso

Já, svona ætla ég að tippa á þetta. Þetta verður massaður leikur og mikið vona ég að það verði fyrst og fremst fjallað um þennan atburð sem fótboltaleik seinnipartinn á morgun, ekki einhvern ömurlegan skandal, hvort sem það er vegna dómarans eða annars. Er bara kominn með upp í kok af slíku. Ég vona svo sannarlega að Luis Suárez láti skrílinn á Old Trafford ekki ná til sín og troði í staðinn heilu sokkabuxunum upp í þá með góðum leik þar sem hann fíflar Evra upp úr skónum ítrekað. Ég vil sjá traktorinn niðurlægðan með góðri spilamennsku, ekki á neinn annan hátt. Ég vil sjá og heyra stuðningsmenn okkar syngja fallegu og góðu Liverpool söngvana sína sem fyrst og síðast snúast um það að styðja sitt lið og vonandi verður ekkert um ömurlega framkomu hjá stuðningsmönnum liðanna sem alltof oft hefur sést í gegnum tíðina. Ég vil sjá liðið spila eins og það spilaði gegn þessu Man.Utd liði síðast, nema hvað að nú mættum við halda okkar mönnum inni á vellinum og breyta skortöflunni aðeins okkur í hag.

Hnúturinn í maganum er ekkert að hverfa neitt, hann er þarna áfram, hann fer ekki fyrr en þessi leikur hefur verið flautaður af. Þá er það bara spurning hvað tekur við. Verður það velgja sem mun fylgja manni næstu dagana og vikurnar eða verður það alsæla sem fylgir manni líklegast lengur en það? Eða verður þetta nokkuð hlutlaust bara og þvert á alla lógík, þá endi þetta með jafntefli? Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að við fáum hörkuleik þar sem hvort lið muni skora 2 mörk og einu stigi úthlutað til hvors þeirra. Ekki ideal, væri heldur betur til í öll þrjú stigin, en heldur engin martröð. Ég ætla að spá því að Sturridge skori aftur og að sjálfsögðu mun Suárez setja eitt út af áðurnefndum sokkabuxum. Ohh, get ekki beðið. BRING IT ON, FULLA FERÐ, ALLT Í BOTN.

YNWA

39 Comments

  1. Flottur Pistill. Mikið er ég sammála þessu með Liverpool genin vs Íslenska landsliðið genin. Ef Liverpool tapa þá er maður svekktur í nokkra daga útaf þessum leik og í skýjunum ef við vinnum með sigurvímu í maga og andliti næstu daga. Ef Íslenska landsliðið hand og fótbolta tapar eða sigrar þá er mér nánast slétt sama. Þessi leikur verður að mínu mati mjög skemmtilegur. Okkar lið hefur allt aðra holningu á sér, meiri tækni og hraða en oft aður. Get einfaldlega ekki beðið eftir þessum leik.

    YNWA

  2. Liverpool hefur sannað það að þeir geta unnið öll lið, reyndar geta þeir einnig tapað “stórt” fyrir öllum liðum þannig þetta gæti verið athyglisvert. Sama mætti etv segja um Man Utd, vinnum Chelski, Man City og Liverpool úti en töpum á móti Norwich.

    Vonandi verða engin umdeild atvik á morgun því annars fær maður engan frið næstu vikur, samanber eftir seinustu viðureign liðana. Því miður er það oft þannig í stórum leikjum að dómaramistök eru oft áberandi en ég benda mönnum á að slíkt jafnar sig oftast út og segja má að sé hluti af leiknum. Hérna læt ég fylgja með link inn á síðu sem heitir umdeilanlegar ákvarðanir.

    http://www.debatabledecisions.com/previous-seasons

    Það er góður punktur sem ssteinn kemur með í sambandi við handkastið og hvert hollustu manns er beint. Sjálfur man ég eftir að hafa blendnar tilfinningar þegar íslenska landsliðið í knattspyrnu var að spila við það norska, ég bara gat ekki öskrað á Solskjær, Ronny eða Henning Berg. Ástríða íslenskra karlmanna á enskum fótbolta er eftv efni í góða sálfræðiritgerð.

  3. Flottur pistill. Það er alveg ótrúlegt hvað LFC skipar stóran sess í lífi manns og það getur oftar en ekki eyðilagt fyrir mann heilan dag og nokkra daga á eftir ef gengi þess er ekki eins og maður hefði vonað. “Banterið” er löngu byrjað á Fésbókarsíðunni minni og menn löngu byrjaðir að skjóta á hvorn annan þó svo að Man Utd menn eru þar fremstir í flokki og leiðast ekkert að skjóta á okkur Liverpool stuðningsmenn. Skot eins og “þetta er ekki leikur tveggja stórliða. Liverpool er bara miðlungslið núna” og “þetta verða easy 3 punktar á sunnudaginn” eru skot sem maður hefur séð en Man Utd hefur því miður alveg efni á að skjóta duglega á okkur þar sem gengi liðsins hefur verið vægast sagt hræðilegt undanfarna 18 mánuði plús. Viðurkenni að það myndi gera HELLING fyrir blessaða sálartetrið ef LFC myndi nú troða kork í marga af þessum stuðningsmönnum og taka öll 3 stigin á morgun og það mætti jafnvel vera á ósanngjarnan hátt til að jafna út leikinn á Anfield fyrr á tímabilinu.

    Ég er samt gríðarlegar stuðningsmaður Íslands þegar landsliðin okkar í knattspyrnu og handbolta eru að keppa. Ég sit alveg brjálaður yfir sjónvarpinu og missi mig sérstaklega yfir handboltanum þannig að þetta jafnast út hjá mér.

    Game on, gangi okkur vel á morgun !!

  4. Ég er einn af þeim sem hef mikinn áhuga á enska boltanum. En minn áhugi snýst nær eingöngu um Manchester United ! Ég nenni ekki að horfa á aðra leiki en þá sem þeir spila. Verð að viðurkenna að ég þekki mjög fá nöfn í Liverpool liðinu. Suarez kannast ég við, Reina og Gerrard en það er ekki mikið meira. En leikurinn á sunnudaginn verður örugglega hörku leikur. Liverpool er að þokast upp töfluna og koma örugglega grimmir til leiks á Old Trafford. Þetta eru alltaf leikir sem maður hlakkar til að sjá og ekkert skemmtilegt að tapa svona leik 🙂
    Eigum við ekki bara að segja að þetta fari 4-2 fyrir United – tvö víti og tvö rauð spjöld og að Howard Webb verði kosinn maður leiksins !

  5. Gætum prufað sömu taktík og þegar traktorinn kemur í heimsókn á Anfield.
    Henda Agger á miðjuna, Carragher á hægri kant og Robinson á vinstri!
    Verður amk fróðlegt að sjá hvort utd verði með meiri pung á heimavelli eða stilli aftur upp 7 varnarmönnum

  6. Snilldar Pistill.

    Spái þessu 1-3 Suarez, Suarez, Gerrard. Svo v.Persie á 86 min.

    Þarf eitthvað meira en það?

    YNWA

  7. Liðið eins og ég vil sjá það. Við erum ekki með síðra lið en ManU og á góðum degi er sigur mikill möguleiki.

  8. Spái að leikurinn fari 1-2 fyrir Liverpool. Það verða Suarez og Gerrard sem setja hann fyrir okkar menn, er nokkuð saman hver skorar fyrir hina.
    P.S. Evra verður rekinn út af á 52 mín fyrir brot á jú nó hú 🙂

  9. Ég þori engu að spá. Er þegar farin að missa svefn og geðheilsu og sé fram á að þurfa að fá mér allnokkra í kvöld til þess að eiga möguleika á dúr í nótt.

    Annars vona ég bara hið besta og býst við hinu versta.

    En mega props til Utd stuðningsmanna sem koma hérna inn og eru málefnalegir og ekki með neitt skítkast – vona að kop-ararnir sýni sömu kurteisi! 🙂

  10. Nú hefur United oftar en ekki unnið ósanngjarnt á Anfield sbr síðasta leik. Að sama skapi fannst mér 1-4 leikurinn á Old Trafford vera eins ósanngjarn og getur verið. í minningunni átti Liverpool 1-2 skot á markið og United átti spilið. Var ekki sjálfsmark, aukaspynra og víti, ef mig minnir rétt. Ég treysti mér ekki til að horfa á þetta aftur. Til að fullkomna niðurlæginguna skoraði Dossena eitt mark, því gleymi ég ekki. En að sjálfsögðu vann United síðan titilinn og Liverpool hélt lokahóf þetta kvöld.

  11. Liverpool er lífið, það er bara þannig ! !:-) Þetta verður rosalegt á morgun, vona bara að dómarinn verði ekki í aðalhlutverki, en óttast það samt.

    100% Sammála þessum pistli varðandi Liverpool vs. Ísland.

  12. Leikurinn fer 1-4 fyrir okkur. Þeir komast yfir með víti frá Van Persie. Við jöfnum síðan þegar Suarez skorar uppúr engu (jafnvel sendingu fram af Skrtel sem er samt eiginlega hreinsun). Við fáum síðan óvænt víti og eina sem heyrist frá ManU mönnum er: “Að þið sögðu að Howard Webb væri United maður” og allt verður brjálað.
    Í seinni hálfleik verður við undir smá pressu fyrstu 15-20 en Vidic fær þá rautt spjald og Downing skorar óvænt í aukaspyrnu!
    Dagurinn verður svo fullkomnaður með óvæntu marki Jamie Carragher sem kemur inná í lokin.

  13. sælir.. chelsea ad rulla upp stoke.. Lampard með frabæran leik. Er ekki bara verid ad hota Lampard, med öllu thessu tali um ad hann fari… svo hann syni hvad i honum byr.

  14. Leikir dagsins voru gríðarlega jákvæðir fyrir Liverpool. Tottenham, Everton, Swansea og Norwich gerðu öll jafntefli á meðan Stoke, West Ham og West Brom töpuðu. Það þýðir að staðan í kringum okkur er óbreytt og Liverpool heldur sér í 8. sætinu, í nánast óbreyttri stöðu í sinni baráttu, hvernig sem fer á morgun.

    Það losar aðeins um pressuna. Liðið getur einbeitt sér að því að ná úrslitum á morgun án þess að hafa áhyggjur af nokkru öðru.

    Það getur auðvitað allt gerst í þessum leikjum og þótt ég eigi fastlega von á United-sigri er alltaf gaman að láta sig dreyma um hið óvænta. Ég hlakka bara til á morgun og vona að leikmennirnir geri það líka.

    Höfuðið segir 3-1 fyrir United. Hjartað segir 3-2 fyrir Liverpool. Koma svo hjarta…

  15. Trebbi segir:
    12.01.2013 kl. 16:10
    Nú hefur United oftar en ekki unnið ósanngjarnt á Anfield sbr síðasta leik. Að sama skapi fannst mér 1-4 leikurinn á Old Trafford vera eins ósanngjarn og getur verið. í minningunni átti Liverpool 1-2 skot á markið og United átti spilið. Var ekki sjálfsmark, aukaspynra og víti, ef mig minnir rétt. Ég treysti mér ekki til að horfa á þetta aftur. Til að fullkomna niðurlæginguna skoraði Dossena eitt mark, því gleymi ég ekki. En að sjálfsögðu vann United síðan titilinn og Liverpool hélt lokahóf þetta kvöld.

    ég mæli með að þú horfir á þann leik aftur.. liverpool voru miklu betri í þeim leik kannski burt séð frá 15-20 mín í seinnihálfleik…

    en ég spá iþessu 0-2 og sturridge ver’i með bæði í seinni hálfleik og súsi með assist í báðum…

  16. Ég spái 3-1 fyrir heimamenn. En úrslit helgarinnar eru heldur betur að falla með okkur og alveg týpískt að það gerist helgina sem við mætum United úti… Stoke tapa, WBA tapa, Everton og Swansea gera jafntefli, Tottenham sömuleiðis…

  17. Þetta er svo stór leikur að mig dreymdi hann í alla nótt, og guð minn góður hvað þetta var góður draumur Suarez var með þrennu og við unnum 0-3.

    Megi draumurinn minn rætast ! 🙂

  18. Gott fólk.

    Eftir úrslit dagsins er ég farinn að byggja skýjaborgir.

    Góðar stundir

    Hilsen Hallur

  19. Vá hvað ég væri til í að sigra þennan leik með sigurmarki frá Suarez eftir að hann tæki boltann með báðum höndum og kýldi boltanum í hausinn á Evra og inn í markið.
    Eftir marga mjög svo ósanngjarna ósigra á móti þessu liði þá er vonandi komin tími á að lukkan snúist við og við náum að stela 3 stigum á þeirra heimavelli.

  20. Smá vangaveltur fyrir leik.

    Þekkir einhver tölfræðina á samvinnunni milli Gerrards og Suarez í vetur?
    T.d. hvað Suarez hefur fengið margar stoðsendingar frá Gerrard og öfugt.

    Hver myndi mynda sambærilegt tvíeyki við Persie?

  21. Úff ér er ekki bjartsýnn á þennan leik og til að bæta gráu ofan á svart þá er ég að fara heim til afa að horfa á leikinn með pabba og bróður mínum og þeir eru báðir eldheitir Man Utd. stuðningsmenn svo er afi Arsenal þannig að þetta gæti verið mjög gaman en þætta gæti líka endað með hörmungum er eigilega bara með kvíðahnút í maganum.

  22. Tek algerlega undir með Kristjáni nr. 17. Hausinn segir utd en Hjartað lætur sig dreyma.

    Höfum ekki unnið neitt lið sem er fyrir ofan okkur í deildinni so far, enn hvað er gaman af þessu ef maður lætur sig ekki dreyma, 1-2 Liverpool. Heppnin verður loksins aðeins á okkar bandi og við vinnum í hörkuleik.

  23. Ég er mjög óviss um hvernig þetta fer en hef þó sterka tilfinningu fyrir að þetta verði ekki jafn leikur heldur verði a.m.k. 2-3 marka munur. Annað hvort rúlla þeir yfir okkur eða við tökum þá sannfærandi.

  24. ég spái því að það verði 1-1 í hálfleik, en hitt liðið nær svo að skora á 85min 2-1. Persie og Chicharito fyrir hitt liðið, Gerrard fyrir LFC….. Ég er hræddastur um að Suarez muni gera e-ð gífurlega heimskulegt sem leiðir til þess að hann fái enn einu sinni neikvæða umsögn í fjölmiðlum eða þá rautt (og að sjálfsögðu ennþá verri umsögn í fjölmiðlum). Ferguson veit alveg hvern hann þarf að æsa upp í ruglið.

  25. NR 18. Nei ég mun ekki horfa á þennan leik aftur. Ekki séns. Ég man bara hvað ég var dolfallin hvað allt gekk upp hjá Lpool en ekkert hjá ManU, sem stjórnaði leiknum. Leikurinn á morgun verður erfiður, það er alltaf erfitt að spila við miðlungslið sem hefur einhverja smá sögu. Þau ná einhvern veginn að gíra sig upp í svona leiki – og tapa svo fyrir Vík í Mýrdal í næsta leik.

  26. Hverjum er ekki skítsama hvað breskir fjölmiðlar segja um Suarez og hvað áhangendur annara liða finnst um hann? og hvaða heimskulega hluti hefur Suarez gert eða sagt síðan Evra málið átti sér stað? Ferguson er apaköttur, einstaklega hlutdrægur og ómögulegt að taka mark á neinu sem hann segir þessa dagana og vonandi svarar Suarez honum líkt eins og gerði David Moyes. Ég er bara einstaklega ánægður að hafa þennan dreng í mínu liði og gæti haldið langa lofræðu um hann en þar sem enginn annar en Gary Neville gerir það svo einstaklega vel í þessari grein þá ætla ég bara að leyfa honum að komast að. http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2261403/Luis-Suarez-nasty-little-player-youd-want-team-Gary-Neville.html

  27. sífellt tuð og væl í dómurum er til dæmis eitt dæmi um heimskulega hluti.

  28. Það er á annað þúsund km milli Englands og Íslands…. Just sayin…

  29. Það má vel vera að það séu á annað þúsund kílómetrar til Englands en í mínu hjarta er mun styttra á Anfield en Laugardalsvöllinn.

  30. Er ég einn um það að vita ekki hvernig eigi að haga sér fyrir þennan leik. Hnútur í maga, tíminn stopp, ekkert gerist nema stressið eykst og eykst.

    Ráð?

  31. Mig dreymdi að Gerrard myndi skora 2 mörk í dag.. fannst eins og það væri staðan í hálfleik samt frekar óljóst. En alveg skýrt að hann skoraði 2..

  32. Liverpool: Reina, Wisdom, Johnson, Agger, Skrtel, Lucas, Gerrard, Allen, Downing, Sterling, Suarez. Subs: Jones, Henderson, Sturridge, Carragher, Borini, Shelvey, Robinson.

    ég hefði viljað sjá Sturridge byrja í stað Sterling, veit síðan ekki með Allen frekar en Henderson. Annars 2 sóknarmenn á bekk, það er meira en oft áður á tímabilinu

  33. sturrige kemur og bjargar þessu. Þeir hafa of góðar gætur á Suarez

Sahin farinn (staðfest)

Liðið gegn United