Að metast við United-menn

2093975034Liverpool og Manchester United. Fyrir stuðningsmenn annars liðsins er ákveðin listgrein að tala við stuðningsmenn hins liðsins. Í gegnum tíðina hafa þessir hópar einkennst af metingi, rembingi og stöku háði. Ef þú styður annað liðið og þekkir vel einhvern sem styður hitt liðið veistu hvað ég meina þegar ég segi að sunnudagurinn er gríðarlega mikilvægur. Hann getur skipt sköpum hreinlega um það hversu auðvelt er að stunda vinnu, skóla eða félagslíf næstu daga eða vikur á eftir.

Þetta er, í stuttu máli, eitt það skemmtilegasta við að vera stuðningsmaður Liverpool eða United. Það er, metingurinn við þá sem styðja hitt liðið.

Síðustu átján mánuðina eða svo hefur þessi metingur hins vegar beygt af leið og haldið niður ljóta blindgötu. Í stað metings hefur rígurinn einkennst af skítkasti, rifrildum og jafnvel dónaskap. Hlutirnir hafa verið á frekar neikvæðum nótum vegna mála sem við þekkjum öll en þurfum ekkert að tíunda enn og aftur.

Ég er orðinn þreyttur á þessu rugli. Mig langar að fá gamla, góða metinginn aftur og því hafði ég samband við Tryggva Pál Tryggvason, einn af vefstjórum United-vefsíðunnar RauðuDjöflanna.is. Ég sagði honum að ég ætlaði að skjóta fast á hann og skoraði á hann að svara fyrir sig. Úr varð þessi metingur okkar, upp á gamla mátann. Sjáum hvernig til tókst.


KAR: Sæll Tryggvi. Er ekki frekar sárt að hafa þurft að leita eftir hjálp frá Arsenal til að geta unnið Manchester City í deildinni? Er það ekki svindl að nota Van Persie?

TPT: Er ekki frekar sárt að hafa eytt 322 milljónum punda síðustu 6 árin og vera í besta falli með miðlungslið? United kaupir það sem þarf til að vinna titla og ef leikmenn Arsenal eru nógu góðir fyrir Barcelona eru þeir nógu góðir fyrir Manchester United.

KAR: Hver einasti United-maður sem ég hef talað við í vikunni þykist skíthræddur við Liverpool í þessum leik. Eru þeir í alvöru svona hræddir við Liverpool eða eru þeir bara hræddir við að móðga mig? Og af hverju eru United-menn svona hræddir yfir höfuð?

TPT: Þetta er bara sálfræðihernaður a la Sir Alex Ferguson. Taktík til þess að byggja upp væntingar þínar fyrir leikinn. Þú verður væntanlega alveg bugaður um kl. 4 á sunnudaginn út af þessu. United-menn eru ekki hræddir við neitt, nema líklega þá stund þegar Sir Alex tilkynnir það að hann sé hættur.

Andsvar KAR: Ekki tala við okkur Púllara þegar sá dagur rennur upp. Við verðum á djamminu.

KAR: Hver myndirðu segja að sé besti kostur United-klúbbsins? A) Rækjusamlokurnar. B) Borðdúksbúningarnir. C) Hárið hans Wayne Rooney?

TPT: Miðað við hvað hárígræðsla Wayne Rooney tókst vel myndi ég veðja á C. Stórglæsilegur maður með yfirburðarhárlínu.

KAR: Luis Suarez er búinn að skora einu marki minna en Robin Van Persie. Hvað heldurðu að hann væri búinn að skora mörg ef hann spilaði fyrir topplið deildarinnar? Og hvor þeirra er þá betri í vetur?

TPT: Hann væri líklega búinn að skora færri mörk en væri með fleiri stoðsendingar þar sem hann væri ekki umvafinn hálf-atvinnumönnum sem geta ekki fyrir sitt litla líf skotið til hliðar við markmenn. Ef Luis Suarez spilaði fyrir topplið deildarinnar þyrfti hann ekki að bera þennan níðþunga vagn einn.

KAR: Hefurðu séð Chevrolet-auglýsinguna? Hverjir þeirra passa best og verst saman? Og hversu mikill glæpur gegn náttúrunni er þessi auglýsing?

http://www.youtube.com/watch?v=UEjnY6dzUGs

TPT: Ég veit ekki hvaða mannvitsbrekku í auglýsingadeild Chevrolet datt í hug að þetta væri góð hugmynd, að minnsta kosti ekki ef ætlunin er að selja bíla í Manchester- eða Liverpool borg. Reyndar er þessi auglýsing alveg skelfileg burtséð frá þv hvort að LFC og MUFC sé blandað saman, ef þetta væru bara einhverjir random leikarar væri hún samt alveg hræðileg. Það passar enginn með Rio Ferdinand, hann er einstakur. Mér fannst samt gaman að sjá Paul Scholes og Jonjo Shelvey. Jonjo leit svolítið út eins og Paul Scholes í einhverjum framtíðartrylli sem gerist árið 2632 þar sem líkamshár eru bönnuð.

Andsvar KAR: Shelvey er klárlega fallegri útgáfan af Scholes.

KAR: Hvort væri verra, að tapa fyrir Liverpool á Old Trafford og vera yfirspilaðir allan leikinn, eða að tapa gegn gangi leiksins á síðustu mínútu með ólöglegu marki frá Luis Suarez?

TPT: Ég get alveg sætt mig við að tapa gegn liði sem yfirspilar United, þó það gerist ekki oft. Þannig að mark á síðustu mínútu leiksins, gegn gangi leiksins frá Luis Suarez, ólöglegt eða löglegt væri sérstaklega hræðilegt.

KAR: Steven Gerrard hefur klárlega verið betri leikmaður en Paul Scholes! Svar?

TPT: Þú hefðir átt að velja einhvern annan leikmann en Paul Scholes til þess að bera saman við Steven Gerrard. Það eru ekki margir miðjumenn í heiminum sem koma vel út úr þeim samanburði. Berum þetta snöggvast saman. PS vs SG. Úrvalsdeildartitlar: 10-0. FA-bikar: 3-2. Meistaradeildin: 2-1. Klárum þetta með nokkrum vel völdum tilvitnunum.

Pele: “If he was playing with me, I would have scored so many more.”
Maradona: “His teqhnique is unique”
Zidane: “My toughest opponent? Scholes of Manchester. He is the complete midfielder.”
Xavi:In the last 15 to 20 years the best central midfielder that I have seen – the most complete – is Scholes
Guardiola: “Out of everyone at Manchester United, I would pick out Scholes – he is the best midfielder of his generation.
Messi:”At La Masia his name was mentioned a lot. He’s a teacher.”
Xabi Alonso: To me Paul is a role model. He is the best midfielder I’ve seen in the last 15 or 20 years.
Meira?

Andsvar KAR: Iss, það er hægt að finna svona tilvitnanir um alla toppleikmenn. Þessir gæjar hrósa hver öðrum í hringi, endalaust. Og titlarnir skipta engu máli heldur. John O’Shea hefur unnið deildina miklu oftar en Stevie G, ætlarðu að segja að hann sé betri líka? Farðu út í sjoppu og kauptu þér betri rök.

KAR: Hvað er að frétta af markvörðunum ykkar? Viljið þið fá Pepe Reina lánaðan? Hann hefur unnið gullhanskann í Úrvalsdeildinni þrisvar sinnum.

TPT: Fyrir svona þremur árum var Pepe Reina besti markmaðurinn í deildinni. Því miður fyrir ykkur er hann aðeins skugginn af þeim leikmanni. David de Gea er betri markmaður en Reina í dag og mun verja mark United næstu 20 árin, sama hvað ýmsir sparkspekingar reyna að telja okkur trú um.

Andsvar KAR:
bubbi_meme

KAR: Ef Liverpool vinna á sunnudag, af hverju mun það þá gerast? Og ef United vinna, af hverju? Rökstyddu.

TPT: Það skiptir engu máli í hvaða sæti þessi lið eru þegar þau mætast. Ef Liverpool vinnur leikinn mun það væntanlega vera vegna þess að Luis Suarez dýfði sér í teignum, fékk Evra rekinn útaf og skoraði svo sjálfur úr vítinu. Ef United vinnur mun það án efa vera vegna þess að við erum með miklu betra fótboltalið og besta leikmann deildarinnar, Robin van Persie.

Svona án gríns er ómögulegt að segja fyrir þennan leik hvað mun leiða til sigurs fyrir annaðhvort liðið. Þetta verður baráttuleikur en því miður fyrir ykkur Liverpool-menn eru þið að mæta á Old Trafford og fara að spila gegn besta liði deildarinnar. Og Howard Webb dæmir.

KAR: Takk fyrir svörin, líka þau sem ég er gjörsamlega ósammála. Að lokum: hvernig spáirðu leiknum á sunnudag? Ekkert 1X2-kjaftæði, úrslit takk.

TPT: Þetta fer 3-0 fyrir United. Lucas Leiva púllar Mascherano á þetta og fær rautt spjald fyrir tuð eftir korter, Pepe Reina skorar sjálfsmark og Wayne Rooney, ferskur eftir tveggja vikna hvíld skorar tvo. Set því 1 á þennan leik.


Ég þakka Tryggva fyrir heiðarlegan og blóðugan bardaga og fyrir að halda þessu á skemmtilegu nótunum. Svona hafa samtöl milli Liverpool- og United-stuðningsmanna verið í gegnum tíðina og svona eiga þau að vera. Engin högg fyrir neðan beltisstað, enginn dónaskapur, bara rígur.

Það verður gaman að heyra hljóðið í Tryggva þegar Liverpool er búið að vinna leikinn á sunnudag.

23 Comments

  1. Það er alltaf hægt að metast við Man U menn þeir eru alltaf til í ríg. En þegar maður ætlar að rökræða við þá um fótbolta og þá sérstaklega í smb við L’pool þá er skilar það mun meiri árangri að negla hausinum í stein c.a. 10 sinnum eða þar til maður missir meðvitund 🙂

  2. Fannst þetta vera KO hjá Tryggva. Annars mjög skemmtilegt að lesa þetta, það er mjög erfitt að rökræða við Man Utd menn þessa dagana, enda hafa þeir vel efni á því að hrokafullur.

  3. Skemmtilegt spjall. Tek hjartanlega undir með þér Kristján Atli að umræðan sl. ár hefur verið leiðinleg á milli áhangenda þessara liða. Það er eðlilegt að það sé rígur á milli en hann þarf ekki að vera rætinn.

  4. Sæl öll.

    Sammála þessum pistli. Í mínum huga hafa þau alltaf verið 2 stórliðin í ensku deildinni þ.e.a.s Liverpool og Man. Utd. hvað væru þau án hvors annars. Undanfarin ár hefur hins vegar borið á leiðinda móral eins og segir í pistlinum og það er fótboltanum ekki til framdráttar. Suaréz líður fyrir þetta núna því hann er nánast lagður í einelti og ég tel að það hafi allt byrjað með Evra/Suaréz málinu. Einhver verður að taka fyrsta skrefið og hætta að rífast (eins og maður sagði við börnin sín í denn) Sá vægir sem vitið hefur meira er frægur málsháttur og við Poolarar ættum að byrja að tala alltaf af virðingu um Man.Utd. stuðningsfólk því innst inn við beinið erum við öll eins. Við styðjum okkar lið og allt okkar líf mótast svolítið af því. Næst þegar Man. Utd. stuðiningsmaður fer að drulla yfir okkar lið þá skulum við ekki æsa okkur upp og drulla á móti, heldur skulum við bara segja ” já er það” og fara að tala um eitthvað annað. Þegar þeim gengur vel ( sem er alltaf þessa dagana) skulum við koma þeim á óvart og óska þeim til hamingju. Gagnrýni á alltaf rétt á sér en hún á að vera málefnaleg og byggja á staðreyndum ekki því sem okkur finnst. Man.Utd. spilar flottan bolta eins og við og við getum ekki sagt þeir séu lélegir, þeir eru hluti af því að við erum lið með sögu og sögur liðanna eru samtvinnaðar.

    Á sunnudaginn mætast þessi lið og ég óttast það mest að sá leikur fari í einhverja vitleysu og að ásakanir um kynþáttaníð,dýfingar og annað verði það sem talað verður um ekki um flottan bolta og fótboltamenn í heimsklassa.

    Þess vegna skulum við stíga fyrsta skrefið og sýna Man.Utd. stuðningsmönnum eins og stuðningsmönnum annara liða virðingu því þá uppskerum við virðingu þeirra og getum átt svona skemmtilegar samræður hvort við annað

    Þangað til næst
    YNWA

  5. Takk fyrir Þetta Kristján Atli – Orð að sönnu og vel skrifuð TAKK 🙂

    Hér í Noregi er ekki öll vitleysan eins… eins og sést á þessum link ef mér leyfist að setja hann inn 😉 (smá auglýsingarbútur fyrst og svo kemur gusan 🙂

    Man U eru ALVEG MEÐ’ETTA …

    Mér hefur alltaf tekist að halda góðum umræðum og samræðum við MU menn en sumum hefur ekki alltaf líkað það 😉 svona erum við misjöfn 🙂

    Tókst meira að segja að selja MU stuðuningsmanni meðlimskort LFC í Stavanger – bara af því að þá gat hann keypt sér ódýrar ÖL – LOLOLOL

    Njótið þess að vera LFC Stuðningsmenn og konur framm í rauðann dauðann 😉

    Y N W A –

  6. Snilld!

    Djøfull hvad eg er viss um ad strakarnir mæti trylltir i thennan leik med SG fremstan!

    Get ekki bedid!

  7. Gaman að sjá menn úr þessum kúbbum tala saman á léttu nótunum,ekki með skítkasti:)

  8. Sahin farinn,Shelvey og Henderson stóðu sig það vel þannig að hann átti bara ekki breik afsakið þráðránið

  9. Hvað segiði Skúsarar, Af hverju flutti Fellaini frá Liverpool? híhíhí

  10. Sjitt hvað þessi Chevrolet auglýsing er mikill hryllingur.

    Berum þetta snöggvast saman. PS vs SG. Úrvalsdeildartitlar: 10-0. FA-bikar: 3-2. Meistaradeildin: 2-1.

    Í alvöru talað? Ég er með annan samanburð. Djimi Traore vs Luis Suarez. Meistaradeildartitlar: 1-0.

    Annrs gæfi ég annan handlegginn ef við myndum vinna 0-1 þar sem Suarez myndi skora sigurmarkið með hendi.

  11. Ágæti Trebbi #15#

    Þú spyrð ekki alveg á réttum stað, því þetta er Liverpoolsíða og síðast þegar ég vissi spilaði Fellaini með Everton sem er hitt liðið í Liverpool. Blöðin segja hann ekki hafa þolað ágang kvenna. Þar sem hann spilar með Everton þá býr hann þeim megin og þar kunna dömurnar greinilega ekki mannasiði og hópast að þessum ágæta dreng svo mikið að hann sér sig knúinn til að flýja.

    Eitt get ég þó sagt þér minn kæri Trebbi að við Liverpoolkonur erum dömur fram í fingurgóma og komum fram við karlmennina okkar bæði þá sem við eigum löglega og þá sem við teljum okkur eiga( leikmenn liðsins) af fyllstu kurteisi og virðingu enda hefur engin liðsmaður frá okkur flúið. Okkar strákar eru líka svo kurteisir og miklir karlmenn að þeir myndu ALDREI flýja undan ágangi kvenna.

    Fellaini ætti því að flytja aftur til Liverpoolborgar en bara réttu megin og ganga til liðs við klúbb þar sem samheldni og kærleikur er aðalsmerki klúbbsins og allra sem að honum koma. Við dömurnar hjá Liverpool myndum taka vel á móti honum og láta hann alveg í friði ef hann vildi.

    Þangað til næst
    YNWA

  12. Haha nokkuð gott!

    Og sammála með skítkastið, en því miður er fótboltaumræðan í dag almennt um hvað dómarinn er lélegur og hver var með dýfu o.s.v.fr.

    Ps. Mér sýnist annars greinahöfundur hafa farið ansi illa út úr þessu;)

  13. Mér finnst þetta vera svona 50/50 leikur (ok, 60/40 ManU í vil þar sem þeir eru á heimavelli). Liverpool er að spila sig betur og betur saman þó svo það hafi komið nokkur bakslög (A. Villa og Stoke leikirnir). En það er góður stígandi í liðinu og stemningin er góð. Gerrard að komast í sitt eðlilega form sem kannski má þakka endurkomu Lucas. Vörnin fín, bakverðir í góðu formi, þá sérstaklega Glen. Suarez að spila brjálæðislega vel.

    Og… persónulega finn mér Liverpool vera með sterkara lið en það sem vann 4-1 á Old Trafford í mars 2009. Bæði er liðið yngra og leikmenn virka með meiri hraða.

    Ég vil sjá Sturrige í stað Sterling – Reina, Wisdom, Skertl, Agger, Johnson, Lucas, Henderson, Gerrard, Sturrige, Downing, Suarez. Gott lið sem er á góðum degi engu síðra en ManU.

    En hey, Liverpool er að fara að spila við besta lið deildarinnar á þeirra heimavelli og til þess að vinna þarf liðið að eiga topp dag. Hef trú á því.

  14. Sælinú félagar,
    ef Man.U. fá ekki gefins rugl víti, löglegt mark verður ekki dæmt af okkur, LFC fær ekki rugl rautt spjald og leikurinn verður ekki framlengdur þar til Rauðnefur bendir til Man U. mannsins í svarta eða græna búningnum að hann megi anda hátt og hvellt (blása) í flautuna, þá vinnum við 0-1!
    Ekki flókinn leikur.
    Spámannsskikkjan segir Captain Fantastic; víti; 0-1.
    YNWA

    Ps Ekk hætta að horfa á leikinn sama hver staðan er eða hversu mikið er eftir. Munið 25.05.2005.

  15. “Og Howard Webb dæmir.” Rosalegt að enda setninguna svona!

  16. Oh, man! Hversu mikið er í húfi? Það vart hægt að ofsegja það!

    Mun Vefarinn mikli frá manchester ráða úrslitum með vafasömum dómum? Eða ríður viðbótartíminn baggamuninn?

    Fótboltahópurinn minn skiptist ca til helminga í Liverpool og ManUre aðdáendur. Stemmningin í búningsklefanum á mánudag mun 110% ráðast af þessum leik.

    Hversu mikil snilld? Hversu mikil geðveiki?!?!? Svona á þetta að vera! 🙂

  17. Frábært, virkilega skemmtilegt framtak.

    Ég harður Man Utd maður en hef alltaf borið virðingu fyrir Liverpool FC, þrátt fyrir að bera ekki virðingu fyrir öllum stuðningsmönnum þeirra eða leikmönnum. Við sem eldri erum munum vel eftir gullaldarárum Liverpool og ef þú berð virðingu fyrir besta leik í heimi þá hlýtur þú að bera virðingu fyrir verkum Paisley og Daglish.

    Ekki veit ég um ykkur hina ég sakna þess að keppa við Liverpool og Arsenal um deildina á ákveðnum jafnræðisgrundvelli. Á maður að bera virðingu fyrir svona liðum eins og Chel$ki eða Man Shitty sem hafa keypt sér leið í topp baráttuna?

One Ping

  1. Pingback:

Um Manchester United

Sahin farinn (staðfest)