Áramótauppgjör Kop.is – 2012

Undanfarin ár hafa verið erfið fyrir okkur stuðningsmenn Liverpool og 2012 var svo sannarlega engin undantekning þó ekki megi gleyma því að núna erum við aðallega að spá í gengi liðsins okkar, leikmannamarkaðnum og slíku.  Ekki innanbúðar stríði með herferðum gegn eigendum eða stjórum liðsins. Það er alls ekkert allt í blóma á þeim bænum samt og mörgum spurningum ósvarað, en þær pælingar er hægt að ræða á málefnalegri og rólegri nótum en við þekktum fyrir 2-3 árum. Líklega hefðu fáir trúað því að brottrekstur King Kenny Dalglish yrði svona hljóðlegur, þó ennþá sjái ekkert fyrir endan á því hvernig FSG kemur út úr því. Dalglish var alls ekki hataður líkt og Hodgson og skipti hópnum alls ekki eins mikið og Benitez sem kannski skýrir þetta að hluta. Gengi liðsins í deild allt þetta ár hefur verið með þeim hætti að líklega þekkir enginn okkar annað eins. Liverpool átti sína verstu byrjun í yfir hálfa öld á þessu tímabili og er samt með betri árangur í síðustu 19 leikjum heldur en í síðastu 19 leikjum síðasta tímabils. Þetta kallast afhroð hjá Liverpool.

En hvort sem Liverpool á góð eða slæm tímabil er alltaf líf og fjör á kop.is og er árið í ár sannarlega engin undantekning. Við þökkum ykkur öllum kærlega fyrir að hafa lesið síðuna, hlustað á þættina og tekið þátt í umræðunum. Það eru ekki við sem gerum þessa síðu merkilega, það eruð þið!

Hér er áramótauppgjör okkar á Kop.is árið 2012:


Einar Örn:

Besti leikur ársins 2012: 
Sigurinn á Everton á Wembley. Yndislega sætt að ná að slá þá útúr bikarnum þrátt fyrir að þeir hafi komist yfir.

Lélegasti leikur ársins 2012: 
Töpin gegn Aston Villa og Stoke hljóta að vera ofarlega á lista.

Bestu leikmannakaupin 2012:
Joe Allen sýndi mikið í upphafi, en dofnaði enda var hann að spila gríðarlega mikið. Ég hef enn trú á að hann geti verið mikilvægur leikmaður fyrir okkur í framtíðinni.

Besti leikmaður Liverpool árið 2012: 
Luis Suarez. Enginn annar kemur til greina.

Mestu vonbrigðin 2012: 
Leikmannaglugginn síðasta sumar var stórkostleg vonbrigði og allt tímabilið hefur miðast við það.

Hvað stendur upp úr árið 2012: 
a) Sigur í deildarbikarnum.
b) Þjálfaraskiptin – þau voru mikil áhætta, en ég hef trú á að Rodgers eigi eftir að standa sig vel ef hann fær stuðning frá eigendum.

Stutt spá fyrir 2013: 
Við lendum í 7-8. sæti í deildinni, en FSG munu styrkja Rodgers duglega næsta sumar og við munum sjá mikla bætingu á næsta tímabili.

Áramótaheitið 2013:
Ég ætla ALDREI að gera mér vonir um að Liverpool komist í Meistaradeildina, sama hversu vel liðið spilar.

Liverpool og Everton saman á Wembley á ný. Ánægjuleg sjón og góður dagur. Síðar kom í ljós að það var mjög viðeigandi að þessi lið skyldu mætast 14.apríl og auðvitað nýta hann til að minnast Hillsborough og krefjast réttlætis.

Maggi:

Besti leikur ársins 2012: 
2-1 sigurinn á Everton á Wembley

Lélegasti leikur ársins 2012:
1-3 heimatap fyrir Aston Villa

Bestu leikmannakaupin 2012:
Satt að segja og án gríns koma engin upp í hugann…Joe Allen er hingað til minnsta klúðrið

Besti leikmaður Liverpool árið 2012:
Luis Suarez

Mestu vonbrigðin 2012:
a) Lok félagaskiptagluggans án nokkurs vafa
b) Enn ein þjálfarskiptin vorið 2012
c) Hrikalega dapurt heimavallarform allt árið

Hvað stendur upp úr árið 2012
a) Ræða David Cameron í þinginu þar sem hann loksins sagði það sem allir alvöru Liverpool aðdáendur vita, það að öll ábyrgð á dauða 96 aðdáenda Liverpool var á ábyrgð South Yorkshire lögreglunnar en hins vegar vissum við færri af því hversu langt upp yfirhylmingin og lygarnar náðu í breska stjórnkerfinu!
b) Fyrsti bikarinn síðan 2006
c) Góð stjóraráðning fyrst að verið var að skipta

Stutt spá fyrir 2013:
Verðum á bilinu 7. – 9.sæti í deildinni, munum styrkja liðið í sumar og verðum í baráttu um Meistaradeildarsæti lengur en áður næsta vetur.

Áramótaheitið 2013:
Verða enn betri stuðningsmaður en áður!

Réttlætið sigrar að lokum

Kristján Atli:

Besti leikur ársins 2012:
2-1 sigur á Everton á Wembley. Gerist ekki mikið sætara en það og ekki skemmdi fyrir að sigurmarkið skyldi koma í lok leiksins. Átti gríðarlegan fögnuð yfir því marki á bensínstöð í Stykkishólmi þar sem svona tíu púllarar fögnuðu ákaft en einn Everton-maður rauk á dyr.

Lélegasti leikur ársins 2012:
Liverpool 1 Aston Villa 3 núna í desember. Það væri einnig hægt að tilnefna 2-1 tap fyrir Wigan á Anfield í vor eða 3-1 tap gegn skítlélegu Bolton-liði á Reebok Stadium í febrúar. Af nógu er að taka þetta árið. En hrunið gegn Aston Villa toppar allt.

Bestu leikmannakaupin 2012:
Samed Yesil. Enn sem komið er hefur hann valdið okkur minnstu vonbrigðunum. Vonandi, vonandi, VONANDI verð ég ekki á sömu skoðun um hina fjóra (Allen, Sahin, Borini, Assaidi) eftir ár.

Besti leikmaður Liverpool árið 2012:
Glen Johnson. Og það er ekki eins og hann hafi átt eitthvað stjörnuár.

Mestu vonbrigðin 2012:
a) Endalok Dalglish-endurkomunnar. Þetta var ástarsamband sem margir höfðu beðið lengi eftir en því miður fór þetta allt of hratt út um þúfur. Maður var rétt að venjast því að hafa kónginn þarna aftur þegar hann var farinn.
b) Sumarið 2012. Að því undanskildu að mér leist vel á að fá Rodgers í stjórastólinn voru leikmannakaupin algjör skita. Fleiri fóru en komu inn og jafnvel þótt allir þeir sem komu myndu spjara sig vel væru þetta allt, allt of fá kaup. Sviptu hulunni af getuleysi FSG og nú er fram undan risastórt árið 2013 fyrir þá. Við þurfum meira. Rodgers þarf meira.
c) Að vera búnir að falla svo langt frá þeim staðli sem Rafa Benitez gerði eðlilegan að við erum skyndilega að láta okkur dreyma um að ná Everton í deildinni. Annað árið í röð. Og jafnvel það er langsótt. Nei annars, endurorðum þetta: það eru gífurleg vonbrigði að Tom Hicks og George Gillett skuli ennþá vera á lífi. Helvítis andskotar.

Hvað stendur upp úr árið 2012
a) Hillsborough. Loksins, loksins kom gegnumbrotið fyrir aðstandendur þeirra sem létust. Að segja að það hafi komið meðvindur í þetta mál er of vægt til orða tekið og þegar litið er til baka eftir mörg ár verður 2012 alltaf minnst fyrst og fremst fyrir það að loksins bar baráttan fyrir réttlæti árangur.
b) Við unnum bikar. Það heldur Arsenal- og Everton-stuðningsmönnum allavega frá okkur … í bili.
c) Raheem Sterling. Mesta efni okkar síðan Gerrard datt inn í aðalliðið.

Stutt spá fyrir 2013:
FSG eyðir peningum en ekki nógu miklu að okkar mati. Liverpool-liðið bætir sig en ekki nóg að okkar mati. Brendan Rodgers stendur sig vel en ekki nógu vel að okkar mati. Við höldum áfram að kyngja brostnum vonum.

Áramótaheitið 2013:
Ég heiti því hér og nú að styðja liðið mitt sem aldrei fyrr. Ef þið getið ekki stutt liðið þegar það gengur illa eigið þið ekki skilið að styðja það þegar gengur vel. YNWA!

Margir “spekingar” vildu meina að Kenny Dalglish hafði misst touch-ið á fótboltanum, verið of lengi frá. Það má vel vera en það tekur það enginn af honum að hann ratar ennþá frá Liverpool til Wembley og við fengum að upplifa King Kenny með bikar enn á ný.

Babú:

Besti leikur ársins 2012:
Hvað leik varðar var 3-0 sigurinn á Everton betri heldur en 2-1 sigurinn í undanúrslitum bikarsins. Sá leikur var hinsvegar miklu sætari og maður fagnaði miklu meira. Því set ég þetta á bikarleikinn þó satt að segja hafi þetta verið hrikalega dapurt ár í þessari deild.

Lélegasti leikur ársins 2012:
Þetta ár byrjaði hræðilega og koma allt of margir leikir til greina hérna. Fyrir mér toppaði samt allt að tapa niður öruggum tveggja marka sigri gegn grútlélegu  QPR liði á lokamínútum leiksins. Þetta var ein versta skita sem ég hef orðið vitni af hjá Liverpool og er þó af allt of miklu að taka undanfarið.

Bestu leikmannakaupin 2012:
Joe Allen án vafa, enginn annar kemst nálægt því að koma til greina. Eins og allt of oft áður er maður að tala um að geta ekki metið leikmannakaupin strax sem gerð voru 3-5 mánuðum fyrr og þetta er nánast orðið normið á Anfield. Sl. sumar slær samt flestu út og ég kem að því á eftir. Joe Allen er sá eini sem fengið hefur að spila eitthvað af viti af þeim sem við fengum í sumar og hefur heilt yfir staðið sig ágætlega.

Besti leikmaður Liverpool árið 2012:
Fyrir mér er Suarez ekki bara besti heldur óhugglega mikið langbesti leikmaður Liverpool. Hann er allt of langt á undan næsta manni á eftir og það er eitt af því sem verður að laga eins og skot. Svona var þetta klárlega árið 2012 þó árið hafi byrjað hræðilega fyrir hann með ósanngjörnu 8 leikja banni sem við fengum 116 bls “útskýringu” / “tilraun til réttlætingar” á nákvæmlega á þessum degi fyrir einu ári síðan.

Mestu vonbrigðin 2012:
a) Félagsskiptagluggar ársins 2012, bæði janúarglugginn sem og sumarglugginn. Eftir janúargluggann reyndu margir að skilja stöðu FSG og trúðu að sumarglugginn yrði þá þeim mun stærri. Þeir byrjuðu með látum 2011 þó þau leikmannakaup hafi ekki gengið eftir að neinu leyti og því alveg hægt að vera nokkuð vongóður. Niðurstaðan varð sú að félagið skeit hærra upp á bak heldur en Houllier og Parry gerðu árið 2002 þegar Cheyrou, Diouf, Diao og Diarra komu á einu bretti. Houllier kaupin voru þó gerð í góðri von um að þarna væru feitustu bitarnir á markaðnum. FSG og Rodgers hafa enga þannig afsökun og það sem verra er þá létu þeir fjölmarga nothæfa leikmenn fara öfugt við sumarið 2002. Þetta var versta ár Liverpool á félagsskiptamarkaðnum síðan Souness fékk að sjá um þessi mál hjá klúbbnum, svo slæmt var þetta.
b) Brotthvarf King Kenny Dalglish. Skil að mörgu leyti afhverju þeir vildu gera breytingar en finnst hræðilegt að það hafi ekki náðst í meiri sátt og samlyndi við Dalglish en raun bar vitni. Eins hefði ég eftir á að hyggja viljað gefa Dalglish þetta tímabil þó ekki væri nema bara til að vera stjóri Liverpool þegar niðurstaða skýrslunnar um Hillsborough lá fyrir. Ráðning Rodgers flokka ég ekki sem vonbrigði en brotthvarf Dalglish getur ekki verið neitt annað.
c) Af mjög mörgum úrslitum, bikarúrslitaleikur þ.m.t. held ég að 3-0 tap gegn WBA slái þeim öllum við. Það féll vissulega ekkert með okkur í þessum leik og liðið spilaði vel a.m.k. hálfan leikinn en þetta var bara copy/paste af tímabilinu á undan og kýldi mann hressilega niður eftir erfitt sumar. Ég var með nokkuð hófsamar væntingar fyrir byjun þessa tímabils og gerði mér alveg grein yfir að fyrstu 10 leikirnir hjá nýjum stjóra með mikið til nýtt lið yrði erfið, hvað þá miðað við leikjaprógrammið. En 3-0 tap gegn WBA var hvergi í handritinu.

Hvað stendur upp úr árið 2012
a) Hillsboruogh skýrslan. Þvíkík uppreisn æru sem aðstandandur þeirra sem létust á Hillsboruough fengu og mikið rosalega áttu þau það skilið. Sama má segja um stuðningsmenn Liverpool og Everton í heild sem hafa staðið með þeim frá fyrsta degi, oftast í gríðarlegu mótlæti og gjörsamlega einir á móti nánast öllum. Þetta tók 23 ár sem er með ólíkindum og enn í dag eru að leka út gögn um hvernig Englandi var stjórnað á þessum tíma sem gefur betri mynd á aðstæður á þessum tíma.
Ég hreyfst með eins og aðrir og gerði færslu um bæði Hillsborough og Heysel slysin. Líklega hef ég ekki unnið eins mikla grunnvinnu fyrir neina færslu sem ég hef skrifað hingað inn og lærði um leið helling um þessa atburði sem ég vissi ekki…og hef ég þó kynnt mér þetta nokkuð vel.
b) Ráðning Brendan Rodgers (og brotthvarf Dalglish). Þetta stendur klárlega uppúr á árinu þó dómur hafi alls ekki fallið ennþá um það hvort þetta var jákvætt eða neikvætt. Ég hef ennþá bullandi trú á Rodgers en finnst hann hafa unnið með báðar hendur bundnar fyrir aftan bak það sem af er sem stjóri Liverpool og afar lítið fallið með honum.
c) Tvær ferðir á Wembley og þrátt fyrir allt einn bikar. Eins gæti það verið mikilvægt (þó við sjáum það alls ekki núna) að Liverpool sé aftur komið í Evrópukeppni með þessum sigri. Vonandi nýtist þessi reynsla ungum leikmönnum okkar vel er liðið snýr gengi undanfarinna ára við og heldur aftur upp á við. Við verðum að trúa því að liðið stefni aftur í þá átt von bráðar.

Stutt spá fyrir 2013: 
Brúðkaupsferð FSG lýkur núna í janúar. Þeir hafa aldrei náð að sannfæra gríðarlega skeptíska stuðningsmenn Liverpool enda erum við vel brennd. FSG hafa engu að síður sannarlega fengið að njóta vafans hingað til hjá stuðningsmönnum Liverpool. Annað svona ár á leikmannamarkaðnum og við erum að tala um Liverpool í mjög djúpum skít. Við fáum þessa tvo leikmenn (Sturridge og Ince) og jafnvel einn á láni en gengi liðsins verður óásættanlegt alveg til loka þessarar leiktíðar og við dettum fljótlega úr bikar og Evrópu.

Ég er núna 50/50 á að Rodgers verði stjóri Liverpool í upphafi næsta árs þó ég voni það og býst við að sumarglugginn verði miklu fagmannlegri og ánægjulegri frá FSG…en samt ekkert út úr kortinu æðislegur.

Áramótaheitið 2013: Áramótaheitið í fyrra var að koma með betri spá núna en ég gerði þá. Samt stóð Liverpool sig verr árið 2012 en ég spáði fyrir um. Heitið núna er að gefa Rodgers tíma áfram og trúa á hann fram yfir næsta sumar. FSG, not so much.

Brendan Rodgers tók við á árinu og nýtur trausts okkar ennþá þrátt fyrir dapurt gengi.

SSteinn:

Besti leikur ársins 2012:
Veit ekki alveg hvort þetta sé besti leikur ársins, en hann klárlega veitti mér hvað mesta gleði, Liverpool – Everton 2-1 FA Cup Semi Final

Lélegasti leikur ársins 2012:
Stoke – Liverpool 1-3, algjör fokkings hörmung

Bestu leikmannakaupin 2012:
Það er ekki eins og að það hafi einhver slegið í gegn, en ég hef einhvern veginn mikla trú á Joe Allen svona til framtíðar litið.

Besti leikmaður Liverpool árið 2012:
Luis Suárez, yfirburðarmaður

Mestu vonbrigðin 2012:
a) Leikmannaglugginn síðasta sumar, hvernig menn andskotuðust til að klúðra honum jafn svakalega. Ég get ekki líst tilfinningunni þegar ég sá tilkynninguna um að Ayre og félagar væru farnir heim rétt fyrir lokun þann 31. Ágúst.
b) Bara almennt gengi liðsins, þrátt fyrir oft á tíðum fína spilamennsku
c) Af leikmönnum hefði ég sagt Enrique fyrir nokkrum mánuðum síðan, en hann hefur svo sannarlega tekið sig á og er að spila vel. Ætli ég verði ekki að segja bara Nuri Sahin, ég bjóst við talsvert meiru af honum.

Hvað stendur upp úr árið 2012:
a) Hillsborough dæmið í heild sinni, loksins, loksins, loksins komst skriður á þau mál.
b) Unnum bikar, þetta félag gengur út á það og sama hvað þeir heita, það er alltaf jafn hrottalega gaman að lyfta einum slíkum.
c) Luis Suárez, þrátt fyrir allar þessar mótbárur, þá er hann trekk í trekk að sanna það að hann sé einn sá allra besti í veröldinni.

Stutt spá fyrir 2013:
Getur bara batnað. Þrettán er óhappatala fyrir alla aðra en Liverpool (fingers crossed)

Áramótaheitið 2013:
Hætta að pynta sjálfan mig, hættur að horfa á Stoke leiki í sjónvarpinu og ætla að beita mér fyrir því að allar sjónvarpsstöðvar setji upp stillimyndina á meðan þeir spila sína leiki (já, RÚV líka)


Endum þetta á lagi ársins 2012


Við óskum ykkur gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir það liðna!
Kristján Atli
Einar Örn
SSteinn
Maggi
Babú

37 Comments

  1. Smá athugasemd: ég sé að kollegar mínir völdu allir Suarez sem leikmann ársins. Ég valdi Glen Johnson af því að mér fannst ég ekki geta valið Suarez vegna leikbannsins sem kostaði okkur mikið á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Ekki að það hafi verið honum að kenna en ég ákvað því að kjósa Johnson í staðinn. Ef valið hefði verið mars-des hefði Suarez fengið fullt hús stiga.

    Annars óska ég lesendum bara gleðilegs árs og þakka innilega fyrir áframhaldandi stuðning á árinu sem er að líða. Það heldur áfram að vera æðislegt að fá að halda utan um þetta litla samfélag okkar sem skrifum og ykkar sem lesið síðuna og takið þátt í umræðum. Takk fyrir mig.

  2. Gleðilegt ár snillingar og takk fyrir allar greinarnar á liðnu ári.

  3. Gleðilegt ár strákar og þakkir fyrir alla pistla, greinar, upphitanir og leikskýrslur á árinu. Þið eigið heiður skilið fyrir að skila frábæru og óeigingjörnu verki hér inná kop.is. KIárlega besta aðdáendasíða í heimi !

    Áramótaheit: Styðja enn betur við bakið á Liverpool FC. Það er mest þörf á stuðningi þegar illa gengur.

    Takk fyrir árið !

    YNWA

  4. Gleðilegt árið Kop.is Meistarar og allir Púllarar nær og fjær. Lífið væri tómlegt án ykkar! 🙂

    Það er alltaf spennandi tímar framundan hjá Liverpool. Never a dull moment… 🙂

    YNWA

  5. Flott uppgjör strákar. Ég var að sjá það á skysports að Liverpool er með fjórða versta árangur í úrvalsdeildinni fyrir árið 2012, það segir meira en mörg orð um árangurinn á árinu sem er að líða. Óska öllum Liverpool aðdáendum gleðilegs nýs árs og vona svo sannarlega að árið 2013 verði okkur farsælla en það sem er að líða.

    Það verður mjög fróðlegt að sjá hvað BR gerir í tilraun sinni til þess að fá fleiri gæðaleikmenn inn, í því skyni að halda Suarez hjá klúbbnum í nokkur ár til viðbótar og að reyna að bjóða honum uppá CL fótbolta með Liverpool í náinni framtíð.

  6. Gleðilegt ár allir Poolarar og síðuhaldarar fá sérstakar þakkir fyrir frábæra síðu.

  7. Takk fyrir mig. Er búin að vera YNWA í 48 ár(5ára). Hef alltaf farið með tilhlökkun inn á síðunna eftir leiki. Takk fyrir ykkar framlag skrifarar og gleðilegt ár. Tveir Suarasar(ok ekki rétt stafsetning) og við værum í topp 3. Elska þetta félag og 5-6 núna en verðum að vera meðal 4 efstu næasta tímabil, annars verður slæmt ástand hjá ja veit ekki áfram við stuðningsmenn. Takk enn og aftur fyrir ykkar pistla. Heldur Liverpoolandanum gangandi!

  8. Vil bæta því við númer 5. Suarez á það virkilega inni að spila í meistaradeildinni. Hvílíkur gæðaleikmaður og vonandi höfum við efni á hans samherja í liði Uruguay Cavani sem spilar með Napoli. 20.milljón pund er ekkert fyrir gæðaleikmann. Suarez 22 mill punda. Það yrði sko besta framlína forever. Byrja að pressa.

  9. Takk fyrir ótrúlega skemmtilegar leikskýrslur og viðhalda húmornum jafnvel þótt að gengið hjá Liverpool sé ekki til að hrópa húrra yfir.
    Vonbrigði ársins: Andy Carroll, þvílík áhætta að kaupa þennan 35 milljóna mann án þess að kaupa barnfóstruna Kevin Nolan með sem eldaði víst ofaní hann og las sögur fyrir svefninn. Pardew var verðlaunaður fyrir söluna með 8 ára samningi. Kenny og Commoli reknir hjá okkur. FSG undirstrikuðu svo aftur (ef einhver var í vafa) í sumar að þeir hafa enga reynslu á leikmannamarkaðnum.

  10. Tvær ferðir á Wembley, bikar, Hillsborough niðurstaðan, Suarez að finna Ajax-formið og Lucas endurheimtur breytir því ekki að 2012 var slæmt. Virkilega slæmt.

    Það er búið að vera allt of mikið rót á félaginu undanfarin ár og það mun taka dágóðan tíma að byggja upp top-4 lið aftur. Þangað til fagnar maður öllum sigrum vel, en reynir að sýna stillingu þegar liðið er kjöldregið af stórveldum eins og Stoke.

    Gleðilegt ár þjáningarbræður og takk fyrir góð skrif á árinu.

  11. Gleðileg tár kæru þjáningabræður og -systur, og takk fyrir þau gömlu

  12. Vantaði að minnast á sem eftirminnilegt: Heimaleikur Everton gegn Liverpool í haust, ekki vegna úrslita eða leiksinns yfirleitt heldur vegna minnigarathöfninar um hina 96

    YNWA

  13. Skemmtileg lesning og maður getur alveg verið sammala langflestu þarna.

    Eitt sem greip mig þó var það hvernig i oskopunum kristjani atla tokst að velja ekki suarez besta leikmann arsins, johnson er reyndar buin að eiga flott àr en kommon, kristjan þu bara hlytur að hafa verið eitthvað pirraður uti suarez þegar þu valdir johnson leikmann arsins hja okkur. Suarez er buin að vera okkar langbesti leikmaður þetta arið og i raun þarf ekki einu sinni að ræða þetta…

  14. Var ekki buin að lesa kommentin þegar eg sendi mitt inn svo eg sa ekki að kristjan atli var buin að svara þvi hvers vegna hann valdi ekki suarez leikmann arsins.

  15. Gleðilegt nýtt ár með þökkum fyrir það gamla þið kempur á kop.is. Þakka frábæra síðu sem er líklega sú besta norðan Alpafjalla og þó víðar væri leitað í universinu.

    Aðrir félagar og stuðningsmenn Liverpool fjær og nær. Mínar bestu nýárskveðjur og takk fyrir allt. Megi nýja árið verða okkur gjöfult í stigum og góðum leikmönnum. Lifið heil.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  16. Nr.1 KAR
    Held að það sé vel hægt að færa rök fyrir því að Suarez hafi líka verið meðal okkar bestu manna þegar hann var í átta (eiginlega níu) leikja banni í upphafi ársins 🙂

  17. Takk fyrir mig :c) TAKK til YKKAR!

    Y N W A –
    L F C 4 L I F E –
    J U S T I C E 4 T H E 9 6 –
    I N – B R E N D A N – I – T R U S T –

  18. Gaman að lesa svona frábæra pistla frá ykkur, takk fyrir allt saman.

    Þeir leikmenn sem hafa staðið sig vel að mínu mati eru.

    Agger: Klettur í vörninni hjá okkur og gaman að sjá karlinn setja eitt og eitt mark.
    Johnson: Klárlega á topp 3 yfir bestu bakverðina í ensku deildinni.
    Enrique: Var nánast kominn á sölulista en hefur girt sig vel í brók og komið gríðarlega sterkur til baka og er lykilmaður í vörninni.
    Suarez: Okkar langbesti leikmaður sem vonandi heldur áfram á næsta ári eins og hann endaði þetta ár.

    Restin af liðinu hefur ekki spilað á fullri getu og vonandi koma menn sterkari til baka og fara að spila eins og menn á næsta ári.

  19. Gleðilegt ár drengir og takk fyrir það gamla.

    Verðum að trúa því að Brendan og FSG rétti þetta af, en þeir fá ekki endalausan tíma.
    En á meðan erum við allir (og Sigríður) stuðningsmenn fram í rauðan dauðan !

    YNWA!

  20. Jæja strappið mig niður, Kallinn er klár í Silly Season! Gleðilegt nýtt ár!

  21. Kæru félagar.

    Þið sem eruð með mér í geðveikinni sem fylgir því að vera Poolari, takk fyrir þið Kop.is menn pistlarnir ykkur eru uppfullir af fróðleik og létta mér og fleirum lífið. Allir þeir sem nenna að kommenta hér og setja hér inn allan þann fróðleik sem þeir hafa hnotið um það léttir biðina líka. Við höfum gengið í gegn um súrt og sætt (aðallega súrt) þetta árið og næsta ár verður líka upp og niður (vonandi meira upp en niður) við eigum það eitt sameiginlegt þó við fæst þekkjumst eitthvað að elska fótboltalið, í bresku borginni Liverpool, næstum því meira en allt annað og líf okkar ansi margra snýst um árangur þessa liðs. Þökk sé okkar ástkæra liði þá eigum við gleðileg ára mót fyrir höndum lituð sigurgleði eftir leikinn í gær.

    Kæru vinir takk fyrir samfylgdina á liðnu ári og megi næsta ár verða enn betra og skemmtilegra , stærri og lengri pistlar og Kop. is og fleiri kurteis og skemmtileg komment. Megi árið verða troðið af marglitum mörkum okkar manna og mörgum sigrum.

    Takk fyrir mig kæru Poolara og munið að við göngum aldrei ein.

    Þangað til næst.

  22. Gleðilegt ár öll sem eitt.
    Takk fyrir frábæra síðu sem og samfélagið sem hún hefur skapað.
    Hlakka til að taka þátt í því á nýju ári.

    YNWA

  23. Takk fyrir árið.Gleðilegt nýtt ár allir POOLARAR,og bjarta framtíð.

  24. Takk fyrir árið. Vonandi mun 2013 færa okkur betra gengi en síðustu 3 ár. Takk enn og aftur forráðamenn kop.is fyrir frábæra vefsíðu.

  25. Gleðilegt ár pistlahöfundar/umsjónarmenn, og takk fyrir síðasta ár. Megi bölmóðurinn fara til Manchester á næsta ári.

  26. Gleðilegt nytt àr allir og takk kop.is fyrir að vera til…..

    Nu er spennan hafin, 1 januar komin og hvað gerist? Erum við að tala um það að kaupin a sturridge verdi tilkynnt a morgun eða hvað?

    Það eru allavega vægast sagt spennandi dagar framundan og nu er bara að vona að við verðum ekki fyrir vonbrigðum eina ferðina enn 🙂

  27. Gleðilegt nýtt ár kopparar nær sem fjær 😀

    Ofboðslega er gaman að Janúarglugginn er nú opin.

  28. Klukkan orðin hálf tvö hérna í Noregi og enginn leikmaður kominn
    ennþá!! 🙂

    Það er allt lokað til 2. janúar 🙂

  29. Eftiraldir menn verða kynntir á morgun(þið sáuð það fyrst hér): Sturridge,Villa,Ince,Alonso og wes sneijder.
    Gleðilegt ár allir sannir poolarar og megi þetta ár verða betra en það fyrra.
    kv Snorri

  30. Takk fyrir árið. Afsakið hvað ég var opinskár oft á tíðum.
    2013 verður betra en 2012.

QPR – Liverpool 0-3

Sunderland 2.janúar á Anfield