Rodgers ræðir við LFC miðla / Janúarglugginn

Brendan Rodgers gaf helstu Liverpool vefsíðunum (fyrir utan Kop.is) færi á spjalla við sig í síðustu viku, líkt og hann gerði fyrr á þessu tímabili. Frábært move hjá honum enda er þarna maður sem getur talað á mannamáli og nokkuð umbúðalaust við stuðningsmenn og með þessu er hægt að koma skilaboðum til stuðningsmanna og svara spurningum án þess að þurfa að óttast að innihaldið fari forgörðum og úr verði fyrirsögn með frétt sem er nánast aukaatriði.

Anfield Wrap er með link á þennan rúmlega klukkutíma langa blaðamannafund hérna

En ég ætla aðeins að skoða þetta út frá þeim punktum sem Dan Kennett (fulltrúi Tomkins Times) tók saman að fundi loknum með mínum vangaveltum í bland.

Rodgers um vandræði innanvallar
Stærsta vandamálið er upp á toppi, liðið er ekki að nýta færin nógu vel þó hann sé ánægður með hvað liðið er að skapa mikið af færum. Hann hefur t.d. talað við Raheem Sterling og sagt honum að til að halda sæti sínu í liðinu verði hann að skora meira og búa til meira af mörkum. Ákvarðanataka inni í teig hefur oft á tíðum verið slæm í vetur hjá liðinu.

Rodgers  um Aston Villa
Vikan fyrir Aston Villa leikinn var fyrsta vika tímabilsins sem var alveg hrein. Þ.e. engin leikur eða landsleikur í miðri viku. Daginn fyrir leik voru allir spenntir og tilbúnir í slaginn en eins og gegn Arsenal var þetta meðal verstu leikja okkar í vetur. Eitthvað sem hann skrifar á kæruleysi og maður les milli línana að Rodgers hefur farið hressilega yfir þetta tap eftir leik.

Rodgers um lausnir til að laga vandræði liðsins
Liðið er búið vera í mikilli sérþjálfun á æfingavellinum undanfarna mánuði. Rodgers hefur verið að reyna stimpla inn í hvern og einn hvernig hlaup eigi að taka og slíkt, sérstaklega inni í vítateig. Jose Enrique hefur t.a.m. hlustað vel og er farinn að gera það sem fyrir hann er lagt með mjög góðum árangri. Hann segist hafa nýtt sl. 6 mánuði í að reyna ná hámarksárangri út úr því sem hann hefur í höndunum (eins og allir stjórar ættu reyndar að gera).

Hann útskýrði t.a.m. af hverju Johnson hefur verið að spila vinstri bakvörð þrátt fyrir að vera einn besti hægri bakvörður í heimi, það kom liðinu betur. Enrique og Downing eru að taka of mikið af sömu hlaupunum sóknarlega og flækjast þannig fyrir hvor öðrum. Enrique vill alltaf overlappa þegar hann sækir framávið og þarf að spila með einhverjum sem tekur hlaup inn á miðju frekar en sama hlaup upp vænginn. Þess vegna passar það mikið betur þegar Johnson spilar hægramegin með Downing fyrir framan sig. Þaðan á hann mikið auðveldara með að koma með hlaup inn á miðju og eins og Fulham fékk að kynnast getur það verið stórhættulegt.

Shelvey skoraði 6 mörk í 11 leikjum þegar hann spilaði sem vinstri kantframherji hjá Blackpool sem skýrir af hverju hann hefur verið að spila þá stöðu sl. þrjá leiki. Hann er þá hugsaður sem leikmaður sem getur komið með hlaup inn á miðju og opnað fyrir hlaup frá bakverðinum.

Shelvey og Downing eru líklega hvorugur eitthvað sem Rodgers sér í þessum stöðum til eilífðar en það skásta sem hann hefur úr að moða núna í því sem hann er að reyna að gera. Sama má segja um Suso eða Sterling (o.s.frv.) og þetta skýrir ágætlega af hverju hægrifótarmaður er á vinstri kanti og öfugt.

Rodgers um núverandi hóp
Leikurinn gegn Fulham var 30.leikur ársins. Við erum með of lítinn hóp.

… um Jose Enrique
Liverpool hefur eignast leikmann í vetur sagði hann um spánverjann.

…um Jordan Henderson
Verðmiðinn hefur hamlað honum en það er enginn vafi að hann er góður leikmaður. Hann er frábær íþróttamaður og vill alltaf hlusta og læra til að bæta sig.

Rodgers um síðasta leikmannaglugga
Hörmung. Dempsey var helsta skotmarkið en það átti aldrei að gerast að enda uppi svona fáliðaðir.

Rodgers um janúar gluggann
Janúar snýst um að forgangsraða og finna út hvað það er sem við þurfum núna. Því fyrr því betra. Spurningunni um hvernig fullkominn janúar líti út þá sagði Rodgers að tveir leikmenn, hámark þrír væri frábær gluggi. Það er búið að gera fjárhagsáætlun fyrir allt árið en sama klúður og í sumar er ekki í boði núna. Ef réttir leikmenn eru í boði á láni eða lítinn pening verður það skoðað.

Rodgers um næsta sumarglugga
Það verður forgangsraðað öðruvísi næsta sumar. Vinstri bakvörður er klárlega staða sem við viljum styrkja segir Rodgers. Jack Robinson hefur verið frábær en þarf núna að fá leikreynslu og spila fleiri leiki gegn leikmönnum á réttu getustigi m.v. hvar hann stendur núna. (Hljómar eins og hann sé að fara á láni sem og reyndar fleiri leikmenn).

Eins þarf að kaupa leikstjórnanda ‘‘einhvern sem spilar tíuna“. Það er eitthvað sem hljómar mjög mjög vel að mínu mati.

Rodgers um hvort það sé stefna að kaupa unga leikmenn
Liðið þarf að finna jafnvægi milli eldri og yngri leikmanna. Eigendurnir elska unga hæfileikaríka leikmenn sem geta verið hjá okkur í 10 ár eða meira. Fyrir Rodgers snýst þetta um að finna bestu leikmennina í boði hverju sinni. Hann áréttar að Liverpool sé ekki selling club. (m.ö.o. hressandi common sense).

Rodgers um sóknarmenn
Hann vill duglega leikmenn. Leikmenn sem hafa hungur og vilja skora. (Borini).

Eins þarf liðið einhvern til að spila milli vítapuntsins og marksins. Náttúrutalent, leikmann sem er það eðlislægt að skora.  Skiptir engu máli hvort hann er lítill eða stór svo lengi sem hann er hreifanlegur og hefur getu og vilja til að skora. (Mikil vonbrigði að enginn stakk upp á Robbie Fowler).

Rodgers um Luis Suarez
Hann sér Suarez ekki fyrir sér í því hlutverki sem hann er að spila í dag. Þessa níu upp á toppi sem leiðir sóknarleikinn. Hann getur spilað í holunni milli miðju og sóknar eða á öðruhvorum vængnum. Hans helsti styrkleiki er hvað hann er skapandi og hreifanlegur en með þannig leikmann er nauðsynlegt að hafa einhvern fyrir framan hann til að njóta góðs af og klára færin.

Þetta hljómar líklega eins og tónlist fyrir fleiri en bara mig.

Rodgers um hans nálgun
Honum er skítsama um leikkerfið þannig séð, hann hugsar aðallega út í leikstílinn. Skiptir hann engu hvort það er 4-5-1, 4-3-3, 4-2-3-1 eða hvað sem er meðan liðið spilar hans pressu fótbolta. Hann vill byrja leiki af krafti og halda haus í 90 mínútur í hverjum leik. Hann vill stjórna leikjum og pressa stöðugt. Gefa andstæðingnum aldrei frið.

Rodgers um dómara
Hann vildi ekki ræða dómara mikið eða kenna þeim um per se en það skapaðist umræða um þessa ótrúlegu dómgæslu sem við höfum fengið í vetur, hann sagði að loksins þegar við fengjum víti myndi þeim rigna inn og eins kom Rodgers inná að krakkinn sem var á línunni í Norwich leiknum, þegar Suarez fékk ekki augljósasta víti allra tíma var sami línuvörður og dæmdi markið af okkur á lokamínútunum gegn Everton. Hann sagði reyndar líka að línuvörðurinn hafi verið alveg miður sín eftir Everton leikinn er hann fór á fund dómara eftir leik. (Gott, sögðu fulltrúar vefsíðanna:)

Hann er búinn að tala við formann dómarasamtakanna, sem gerði bara ill verra og hann fékk meira að segja Kevin Friend, EPL dómara á æfingu til að dæma hjá liðinu og skýra út hvað þeir eru að gera vitlaust því liðið hefur hreinlega ekki fengið neitt frá dómurum í vetur.

Rodgers að lokum um frammistöðu liðsins til þessa og markmið
Hann var nokkuð sáttur við liðið þar til fyrir Villa leikinn m.v. þau spil sem hann fékk að spila úr. Liðið setti sér markmið í upphafi tímabilsins og skv. Rodgers getum við ennþá náð þeim, kemur m.a. inná að liðið geti ennþá náð topp 4 í deildinni. Hann bjóst við að vera með fleiri stig núna heldur en liðið er með og sagði að liðið þurfi að koma sér í betri stöðu. Hann er núna með 3 ára samning og hefur trú á að hann muni bæta leik liðsins á hverju tímabili. Hann er núna að innleiða sína hugmyndafræði og strúktúr og segir liðið vera á réttri leið og þurfi að halda áfram.

Vonandi fylgir árangur þegar þessum markmiðum hefur verið náð.

Með Brendan Rodgers við stjórnvölin finnst mér svona fundir algjör snilld og þetta hjálpar mikið til við að skilja hans sýn á hlutina þó maður hafi að einhverju leiti ónotatilfinningu yfir því að stefna klúbbsins sé rædd svona opinskátt. Líklega er maður bara svo óvanur því.

Ég er ekki viss um að svona fundir væru alveg janfn sniðugir meðan við vorum með Dalglish og hvað þá Roy Hodgson, raunar held ég að það hefði verið hörmung hjá þeim seinni. Rafa Benitez hefði á móti líklega unnið mjög marga á sitt band með þessu móti og er að mér finnst líkur Rodgers að mörgu leiti.

Rodgers er að tala á mannamáli og það er alveg skýrt hvað hann er að reyna gera á Anfield. Það er margt sem ég hef efasemdir um hjá Liverpool í dag en Rodgers er ekki eitt af því og svona fundir hjálpa til við að styrkja þá skoðun. Reyndar fer tal um möguleika á 4.sæti eða gengi í næstu leikjum í taugarnar á mér og ég held að það hafi tekið fókusinn af Aston Villa leiknum í síðustu viku.

Núna fyrir þessa umferð sjáum við svo okkar gamla stjóra neita að tala neitt um væntingar til tímabilsins eða neitt í þá áttina. Fókusinn var bara á að vinna næsta leik sem var gegn Aston Villa fyrir tilviljun…sem þeir unnu 8-0 og voru óheppnir að vinna hann ekki stærra. Þessi svör Benitez fyrir Villa leikinn hljómuðu mjög kunnuglega enda það sem hann innleiddi hjá Liverpool og þetta er eitthvað sem Rodgers sem og aðrir starfsmenn Liverpool í dag þurfa að tileinka sér.

Það er ekkert rosalegt sem kom fram hjá Rodgers og ekkert sem kemur gríðarlega á óvart, þetta er að mestu common sens þó vissulega geti maður núna varla beðið eftir næstu leikmannagluggum. Það er reyndar eitthvað sem við höfum gert frá 1.september.

Janúarglugginn

Annars langar mig að enda þetta á að velta aðeins fyrir mér janúargluggangum og minnimáttarkennd margra stuðningsmanna Liverpool fyrir leikmannakaupum. Ég veit að janúar glugginn er erfiðari en sumarglugginn en hann er langt frá því að vera vonlaus og við höfum fengið fullt af góðum leikmönnum til liðsins í þessum glugga.

Liverpool getur ekki boðið upp á meistaradeildarsæti þó liðið stefni klárlega á að geta það á næstu tímabilum. Eðlilega gerir þetta það að verkum að hluti markaðarins er lokaður fyrir okkur, leikmenn á vissum aldri eða stað á sínum ferli vilja bara spila fyrir þá klúbba sem eru að keppa á toppnum og í dag bjóðum við ekki upp á það þó við séum á móti alveg samkeppnishæf við marga meistaradeildarklúbba í því sem skiptir meira máli en þessi keppni, launum.

Ég bara skil ekki þessa rosalegu minnimáttarkennd sem komin er í marga þegar kemur að leikmannakaupum Liverpool. Ég náði þessu ekki í fyrra og fannst FSG sleppa helvíti vel frá síðasta janúarglugga hvað varðar pressu frá stuðningsmönnum, sumarið var svipað en núna komast þeir ekki hjá því að styrkja liðið og virðast vita það.

Stærsti hluti leikmanna í Evrópu (og heiminum) væri meira en til í að spila fyrir Liverpool gæti ég vel trúað enda liðið að spila á stærsta sviðinu, eitt það frægasta í heiminum og ætti vel að geta selt leikmönnum það að liðið sé á uppleið og stefni miklu hærra á nýjan leik.

Eins og ég segi þá eru nokkur lið sem við erum ekki að keppa við um heitustu bitana en það afsakar ekki algjört aðgerðarleysi, þessi ríkustu lið eru meira að segja oftar en ekki yfirfull af gæðaleikmönnum sem vilja fara til að fá að spila fótbolta á ný. Nuri Sahin nærtækt dæmi um það.

Ef við notum útilokunaraðferðina þá eru nokkur lið sem við getum líklega ekki keypt bestu leikmennina frá (þó oft megi finna out of favor leikmenn í þessum liðum sem gætu reynst öðrum góðum liðum mjög vel).

England
Man Utd – Eina liðið í heiminum sem við getum útilokað að kaupa leikmenn frá og þannig verður það meðan Ferguson er hjá þeim (og eflaust eftir hans tíma).

Man City, Chelsea, Arsenal, Tottenham, Everton – Lítið þarna sem við getum lokkað til okkar í augnablikinu þó reyndar sé búið að orða okkur hvað mest við Walcott, lykilmann í Arsenal og Sturridge sem var fyrir stuttu mikilvægur partur af Chelsea.  Þetta sýnir hvað þetta er í raun og veru ekki lokað ef aðstæður eru réttar.

Leikmenn í öllum öðrum liðum á Englandi sé ég alveg vilja spila fyrir Liverpool og við höfum verið að  kaupa lykilmenn frá öðrum EPL liðum undanfarið.

Þýskaland
FC Bayern – Líklega er þetta eina liðið sem við getum alveg útilokað að kaupa leikmenn frá nema þá leikmenn sem þeir vilja losna við.

Dortmund og Schalke eru líklega með á þessum lista þar sem bæði eru ennþá í meistaradeildinni en bæði lið eru eins og önnur þýsk lið fyrir utan FC Bayern, til í að selja fyrir réttan pening. Satt að segja hef ég aldrei skilið af hverju Þýski markaðurinn er ekki skoðaður meira, öll lið eiga að hafa a.m.k einn þjóðverja.

Spánn
Bacerlona og Real Madríd eru svo langt frá öðrum að þau eiga bæði hóp af varamönnum sem kæmust í flest önnur lið í heiminum. Við njótum nú þegar góðs af því (má þó deila um það) og erum orðaðir við lánsdíla við Barcelona sem gætu komið báðum liðum vel. Þannig að þó þeirra lykilmenn séu gjörsamlega out of reach fyrir okkur þá eru margir á mála hjá þeim sem við getum alveg skoðað. Þar fyrir utan eru bæði lið með gamla Liverpool menn í lykilhlutverkum sem sýnir hversu sterkt Liverpool liðið var fyrir mjög stuttu síðan.

Valencia, Malaga og A. Madríd eru líklega líka out of reach fyrir okkur eins og er. Valencia er í meistaradeildinni en reyndar þar fyrir utan í allskonar veseni. A Madríd er í banastuði á Spáni eins og er og Malaga er í sama flokki og PSG, City o.s.frv.

Önnur lið á Spáni ættu alveg að vera fair game og þar eru alveg leikmenn sem við gætum skoðað og átt möguleika á. Skoðið t.d. Sevilla og Athletic Bilbao til að nefna dæmi.Annað dæmi er t.d. að Santi Carzorla kostaði Arsenal heilar 11 m punda og Michu kostaði Swansea 2m punda. Eitthvað segir mér að það sé slatti til af leikmönnum á Spáni sem við höfum ekki heyrt mikið af en væri mjög vel hægt að horfa til.

Frakkland
PSG – Þeir selja okkur ekki nema þá leikmenn sem þeir nota ekki.

Aðrir ættu að vera nokkuð fair game fyrir réttan pening og réttar aðstæður. Lyon selur þá leikmenn sem skila þeim góðum gróða og önnur lið eru ekkert nálægt Liverpool í stærðarflokki.

Ítalía
Juventus – Gæti trúað að þeir séu out of reach fyrir okkur sem og lykilmenn í nokkrum liðum sem spáð er bjartri framtíð á hæsta leveli og stórum leikmannasölum.

Napoli, Roma, AC, Inter – Allt lið sem eiga lykilmenn og risanöfn sem Liverpool á ekki möguleika á en eins gætu öll átt leikmenn sem væru mikið til í að spila í EPL og fyrir Liverpool. Fer allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Öll önnur lið ættu að vera nokkuð fair game.

Holland
Kaupin á Luis Suarez sýna mjög vel að allir leikmenn Hollands eru fair game fyrir okkur enda var hann besti leikmaður deildarinnar þar og Liverpool í verri stöðu ef eitthvað er þegar hann kom.

Rest af Evrópu
Af þeim sem ég hef ekki talið upp nú þegar og eru ennþá í meistaradeildinni held ég að við getum útilokað leikmen frá Porto og Shaktar, a.m.k. núna í janúar. Myndi ekki einu sinni segja það sama um t.d. Galatarsaray og Celtic þó mér detti engan í hug þar sem við ættum að hafa áhuga á úr þeim liðum.

Það koma í hverjum glugga góðir leikmenn í lið á Englandi sem við höfðum aldrei nokkurn tíma heyrt um og oftar en ekki fyrir skít á priki. Ég er ekki að segja að Liverpool eigi að stefna bara á þannig leikmannakaup en frekar vill ég fá 2-3 þannig leikmenn og eitt risanafn frekar en 2-4 miðlungsmenn sem allir kosta of mikið (en eru þekkt nöfn).

Rest af heiminum.
Þetta var bara Evrópa. Besti leikmaður Liverpool í dag er frá Uruguay og einn af þeim bestu kemur frá Brasilíu. Báðir hafa liklega rúmlega tvöfaldast í verði síðan þeir komu. Heimsmeistarar félagsliða koma frá Brasilíu. Það eru gæðaleikmenn  að spila fótbolta út um allt hinumegin við tjörnina. Allt frá N – Ameríku til S – Ameríku. Ég hef ekki vit á því hverjir geta hvað en ég var að vona að Liverpool væri með útsendara á þessum stöðum sem gætu fundið þessa leikmenn. M.v. þá leikmenn sem hafa verið að koma yfir til Evrópu undanfarna áratugi hef ég enga trú á öðru en að hægt væri að gera mjög góð kaup á þessum slóðum með 10-15 m punda. Þá er Afríku markaðurinn eftir en þaðan hafa góðir leikmenn farið út um allt í Evrópu.

Auðvitað er setið um alla góða leikmenn, minn puntur er að ef við eigum 10-20m pund til að eyða í leikmannaglugga og höfum hálft ár til að undirbúa okkur hefði ég búist við því að hægt væri að leita lengra en bara til Aston Villa, Newcastle x 2, Blackpool x 2, Sunderland eða varalið Chelsea. Sérstaklega þar sem leikmenn úr þessum liðum kosta í 100% tilvika miklu miklu meira en leikmenn í sama eða betri gæðiflokki annarsstaðar í heiminum og sérstaklega þegar lið eins og Liverpool er að spyrjast fyrir um þá.

Knattspyrnustjórar leita á þann markað sem þeir þekkja og því miður (hvað þetta varðar) hafa þrír síðustu stjórar Liverpool verið breskir á tíma sem breskir leikmenn eru ekkert að slá sérstaklega í gegn. Það skal enginn segja mér að Liverpool sé ekki að leita út fyrir landsteinana vegna þess að þeir geta ekki lokkað leikmenn þaðan til sín, þetta snýst um stjórann hverju sinni og það er ástæðan að lang stærstum hluta fyrir því að við keyptum menn eins og Cole, Konchesky, Downing, Henderson, Carroll og Allen (alla á yfirverði?). Rodgers nýtur klárlega vafans ennþá og hann hefur svosem lítið verið á leikmannamarkaðnum (fengið leikmenn frá Ítalíu, Englandi, Hollandi og Spáni/Þýskalandi).

Að því sögðu lýst mér svosem ekkert hræðilega á kaupin á Daniel Sturridge sem ætti að hafa lokið læknisskoðun hjá Liverpool í dag, hann tikkar í mjög mörg box sem leikmaður og ég hef mikla trú á að Brendan Rodgers geti bætt hann mikið. Sérstaklega horfi ég í það að hann hefur hraða sem vantar í Liverpool.

Eins útiloka ég ekkert Tom Ince þó kaup á honum hreinlega öskri “meðalmennska” svona fyrirfram og setji stórt spurningamerki við stjórnun klúbbsins enda misstum við hann á klink fyrir einu og hálfu ári. Kannski verður hann frábær leikmaður og þessi peningur sem fer í að kaupa hann til baka allt að því hlægilegur. Við ættum a.m.k. að þekkja þennan leikmann.

Báðir leikmenn eru á þannig aldri og með þannig verðmiða að líklega verður alveg hægt að selja þá aftur á góðan pening nái þeir ekki að festa sig í sessi hjá Liverpool. Báðir hafa skap sem sumir segja vera til vanræða, veit ekkert um það en lýst ágætlega á að fá inn menn með smá karakter og egó.

Ég er tilbúinn að gefa þeim báðum séns eins og öllum öðrum leikmönnum Liverpool (ef þeir koma). En það breytir því ekki að ég hef miklar áhyggjur af innkaupastefnu FSG og finnst hún mjög langt frá því að vera eins metnaðarfull og ég var að vonast eftir þegar þeir keyptu félagið (byrjuðu reyndar með látum, Suarez). Heimurinn er svo miklu stærri en bara England og Liverpool er heillandi fyrir leikmenn úr öllum heimshornum.

Ennþá finnst mér ég samt alveg ná að skilja hugsunina á bak við öll leikmannakaup Rodgers. Fyrirfram hefði ég reyndar haldið að hann myndi fyrst leita til leikmanna með spænskt knattspyrnuuppeldi en hann hefur svosem ekki fengið að gera mikið ennþá, kaup á Allen og Borini var alveg hægt að skilja enda leikmenn sem hann þekkir, eins ætti Sahin að smella mikið betur inn í liðið en við höfum fengið að sjá og Sturridge og Ince eru tegundir af leikmönnum sem Rodgers vill hafa í framherjastöðunum.

Mikið djöfull vona ég að þetta hitti í mark hjá honum í janúar og þessir menn smelli í Liverpool liðið frekar en að bætast við flopp hópinn.

Hef meira að segja sæmilega trú á því, ef þeir þá koma á annað borð.

Babu

33 Comments

 1. Flottur pistill, eitt varðandi Tom Ince, ég sá viðtal við Comoli um daginn þar sem hann sagði söguna varðandi Ince. Þetta snérist ekki um peninga. Umhverfið var bara ekki rétt fyrir strák eins og hann á þeim tima, við vorum annaðhvort ekki að spila bolta sem hentaði honum ekki eða við vorum að kaupa inn slatta af mönnum sem áttu að keyra þetta áfram (Downing og fl).

  Set söguna hérna með.

  Ince left Liverpool for the Seasiders in August 2011 for a compensation fee of £250,000 after his contract expired and the player felt best to leave the club.

  Comolli has insisted that Ince was “never released” and that the club made several attempts to keep the player.

  “When I arrived (at Liverpool in November 2010) Tom was at the end of his contract,” Comolli explained to talkSPORT radio.

  “One of the first things I did was meet him and his dad, and Paul was concerned the style of play (under Roy Hodgson) was not suited to his son, who was a quick winger.”

  “When Roy went I think we made four or five contract offers to Tom which he kept turning down…he didn’t feel it was the right place for him to stay.

  “The last offer would have made him the highest-earning player beneath the first team but to be fair to him I don’t think money was the issue.

  “We never released him. You don’t release a player like this, you can’t force him to stay. I am very pleased that he is doing well. If they buy him back, good for him and good for Liverpool.”

 2. Alveg ljóst að Tom Ince var ekki látinn fara „frítt“ með glöðu geði og eins og kemur fram þarna hafði hann sínar ástæður…og hafði klárlega rétt fyrir sér og er í góðri stöðu í dag.

  Frá sjónarhóli Liverpool kemur þetta samt ekkert æðislega vel út enda sömu eigendur og misstu hann núna að reyna kaupa hann á 24. hærri upphæð en hann var seldur (líklega meira). Eigum reyndar rétt á 35% af kaupverðinu sem lætur þetta líta aðeins betur út.

  Engin ástæða til að afskrifa Ince strax en fyrirfram lítur þetta svolítið mikið út í anda byrjunar FSG á leikmannamarkaðnum.

  Comolli ætti síðan að hafa vit á því að tala ekki um það upphátt að hann lét Ince fara nánast frítt þar sem hann komst ekki í liðið…vegna þess að þeir keyptu Downing á 16-20m punda. Hann á að vera þessi wizard í að spotta efnilega leikmenn.

 3. Takk fyrir frábæran pistill fyrir okkur sem vorum búnir með Jólainkaupinn er þetta ómetanlegt YNWA!

 4. Frábær pistill Babu.

  Þetta Comolli viðtal var á TalkSport um daginn. Hægt að ná í 30min podcast af þessu viðtali þar sem þetta kemur allt fram.

  Sé persónulega ekkert að því að kaupa Ince aftur ef þetta er maðurinn sem Liverpool telur sig vanta. Hann er að standa sig vel og ætti að aðlagast fljótt. Þekkir vel til.

  Annars bara frábær árangur hjá Rodgers að mínu mati að vera í 8 sæti eftir 18 umferðir við stjórn og aðeins 5 stigum frá meistaradeildarsæti. Og eins og ég hef oft sagt, það er ekkert lið sem telur sig eiga 3 stig gegn Liverpool. Ég held ennþá við endum í 6-8 sæti, sem ég tel flott í dag.

  Held það verði mikill vilji innan liðsins að vinna Stoke á annan í jólum. Og er nokkuð bjartsýnn á góð úrslit. Sem er sigur.

  Það er mikið að gera þessa dagana, og frábært að geta gluggað hingað inn og verið fullviss um að ekkert tengt LFC hafi farið framhjá manni. Þetta er klárlega Liverpool síðan.

 5. Væri alveg til í Ince en þessi Zaha strákur er að heilla mig rosalega og ég held að hann sé næsta stjarna Breta kannski á eftir Sterling

 6. Snorri Nr.7
  Sammála því að þessi Zaha hljómar spennandi þó ég hafi lítið séð af honum. Hann er mjög sterkur og kraftmikill…og verðlagður svo fáránlega út úr öllu korti að það er dæmigert fyrir efnilegan Englending.

  En það er mjög áhugavert að skoða bara tölfræðina hjá Tom Ince í vetur og Zaha. Ince er meira að segja í öllu verra liði.

  Tom Ince
  Leikir – 21
  Mörk – 13
  Stoðsendingar – 9
  Skot að marki – 56

  Wilfred Zaha
  Leikir – 22
  Mörk – 5
  Stoðsendingar – 3
  Skot að marki – 35

  Þetta segir auðvitað alls ekkert alla söguna en ég viðurkenni að þetta kom mér á óvart.

 7. Góður pistill!
  Þetta virðist vera ógurlegt pússluspil hjá Brendan. Hægri kantur er besta staða Downing, hann hefur sagt það sjálfur en þá er Sterling líklega ömurlegur á meðan á vinstri miðað við þessar útskýringar. Enrique virðist samt allavega eiga meira upp á pallborðið hjá Brendan heldur en Downing, því hann var valinn framyfir á vinstri vængnum. Þar með myndaðist gat í vinstri bakverði þar sem Downing datt aftur inn í myndina í samkeppni við hægri bakvörð. En þar sem ekki nokkur maður er að skilja hvað Brendan er að pæla þá er allavega ágætt að vita að menn eru komnir aftur í sínar uppáhaldsstöður á vellinum….sem er ágætt því jólin eru á morgun.

 8. Babu sló mig hreinlega útaf laginu ótrúlegt hvad breskir ileikmenn geta verid ‘hypeadir’ af pressunni.

 9. Ég er í smá klemmu. Er meira spenntur fyrir 8-0 sigri Rafa en 4-0 sigri Liverpool. Á ég að fara til sálfræðingins eða jafnvel græðara(á mér)?

 10. Ég er eiginlega ánægðastur að heyra þetta með Suarez og hef lengi verið á þeirri skoðun. Hann ætti að vera með free-role í þessum þremur stöðum fyrir aftan genuine striker. Striker sem er mættur inn í markteig til að slotta heim þegar Suarez er búinn að draga til sín 3-4 varnarmenn. Einhvern sem hefði skorað úr færinu sem Agger klikkaði úr gegn Fulham. Sá gæji gæti skorað mark í leik.

  Ég hef líka verið mjög spenntur fyrir Pato eftir að slúðrið um hann fór að hitna en eftir að hafa lesið stuttlega um hann, þá hefur hann öll tímabil síðan hann kom til Ítalíu verið töluvert mikið meiddur. Missir alltaf slatta úr hverju tímabili. Og það hjá Milan, þar sem mönnum er heldið gangandi vel fram yfir fertugt. Gæti trúað því að hann sé út úr myndinni þess vegna. En hann er með suddalegt markahlutfall, sérstaklega ef síðustu tvö ár eru tekin út (þar sem hann er með 15 leiki og 1 mark), þá er hann með mark í rúmlega öðrum hvorum leik í deild. En síðustu tvö ár eru auðvitað skelfileg og maður veltir fyrir sér hvort hann sé búinn á því, 23 ára gamall veg

  Varðandi Ince, þá virkar hann mjög spennandi, á svipuðu leveli og Shelvey. Að sama skapi virðast kaupin á Assaidi vera flopp (þótt hann hafi verið ódýr). Hann virðist ekki vera inni í myndinni hjá Rodgers, en maður vonaði og hélt að hann væri kostur á vinstri vænginn. Hann er þá einfaldlega leikmaður sem þarf að losa út hið fyrsta, tekur pláss frá ungum og efnilegum leikmönnum.

  Ég óska bæði pistlahöfundum, stjórnendum og kommenturum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs. Vonandi gáfu okkar menn tóninn í síðasta leik fyrir því sem koma skal um jól og á næsta ári!

 11. Týpist að eyðileggja jólin fyrir mér. Eurosport að sýna Liverpool leik. Og hvað haldið þið? LIverpool er 3-0 undir.

  Æji kannski ég horfi á seinni hálfleik. Þetta virðist vera í Tyrklandi 2005.

  Gleðileg jól.

 12. Brasilía.. Ekki Braselía.. Nema að þetta sé djók sem ég hef misst af… 🙂

  (Takk, lagaði þetta – Babu)

 13. Assaidi voru víst ekki kaup Rodgers. Mig minnir að ég hafi heyrt það í The Anfield Wrap að njósnaliðið hafi valið hann og viljað kaupa hann og stjórnin samþykkt það. Held samt að Rodgers hafi ekkert verið á móti því að kaupa hann. Gott líka að sjá að hann sjái framtíð fyrir Henderson en þeir í The Anfield wrap sögðu að þetta hafi víst verið lándíll sem átti að gera við Fulham og fá Dempsey. Það átti ekki að skifta á Henderson og setja pening til að fá Dempsey. Heldur átti Henderson að fara á lán til Fulham í ár og þeir fá pening. Mér finnst það talsvert líklegra heldur en að við ætluðum að gefa hann til Fulham eftir að hafa borgað hellings pening fyrir hann.

  Mjög flottur pistill eins og alltaf hjá ykkur.

 14. gleðileg jól allir sem einn.. en var að spá ef/þegar kaupinn á Daniel Sturridge eru genginn í gegn sem verður 1 janúar eða snemma á 2 janúar er hann þá ekki löglegur með liverpool á móti sunderland 2 janúr eða hvernig eru reglurnar með það??

 15. Bragi. Án þess að vera viss þá held ég að hann verði löglegur ef hann er skráður fyrir hádegi deginum fyrir leikdag.

 16. okey takk fyrir þetta.. þannig að hann verður mjög líklega þá bara í bikarinum 6 jan þar sem að ég geri sterklega ráð fyrir að skrifstofurnar hjá FA verði lokaðar á nýársdag..

 17. Takk fyrir frábæran jólapistil. Enn eitt dæmið um gæðaefni á þessari frábæra síðu. Hvað ætli maður sé búin að heimsækja þessa síðu oft á árinu? Eins gott að enginn sé að telja 🙂 Eins og alltaf eru spennandi tímar framundan hjá okkur púlurum. Ég hlakka a.m.k. til þess sem koma skal og hef fulla trú á því sem er í gangi á Anfield. Held að Sturridge eigi eftir að blómstra hjá okkur og raða inn mörkum með vorinu. Óska síðan gleðilegra jóla.

 18. Hann var langur og góður þessi pistill. Virkilega gaman að geta stytt sér stundir og lesið eitthvað svona á aðfangadag meðan maður bíður eftir að jólin hringi inn. En ég verð að viðurkenna að ég hef dálitlar áhyggjur af innkaupum Liverpool. Kannski er það minnimáttarkennd en innkaup seinustu ára hefur ekki verið að skila okkur neinu sérstöku ef frá er talið kaupin á Suarez. Lélégur sumargluggi var svo ekki til þess að bæta það. Þannig ég skil vel þegar menn eru með smá efasemdir. Sturridge er frábær leikmaður án efa en hvort hann sé leikmaðurinn sem að Liverpool þarfnast veit ég ekki. Vona að hann smellpassi inn í kerfið og fari að raða inn mörkum. Hann hefur svo sannarlega sýnt að hann er fær um slíkt bæði með Bolton og Chelsea.

  En það er víst lítið annað sem maður getur gert en að bíða og vona það besta. Ég verð ávallt fyrstur til að viðurkenna ef ég hef rangt fyrir mér þegar kemur að Liverpool. Mun að sjálfsögðu styðja Sturridge eins og aðra leikmenn Liverpool núverandi og tilvonandi 🙂

  Gleðileg jól kæru Liverpool félagar og hafið það sem allra best um jól og áramót.

 19. Góður pistill Babu. Ég vona svo sannarlega að Liverpool FC sé með njósnara í suður ameríku því þar er hægt að finna miklu betri og ódýrari leikmenn heldur en á bretlandi. celski er t.am. með nokkra góða brassa sem ég væri alveg til í að hafa í LFC.

 20. Frábært viðtal við Rodgers í Independent.

  Og mikið er ég ánægður með það að við erum báðir jafn ánægðir með fyrirliðann okkur, þ.e. ég og Rodgers.

  Vona að Gerrard fái minnst þriggja ára samning í viðbót, hann á nóg eftir!

 21. Ekkert diss hér á ferðinni en hefði ekki bara verið einfaldara hjá Brendan að gefa mönnum tækifæri í sínum stöðum frá upphafi. Hann virðist hafa afskrifað nokkra leikmenn fyrirfram og verið í vandræðum að velja í liðið þegar kannski lausnin var allan tímann beint fyrir framan hann. Ég hefði skilið að gera breytingar ef tímabilið hefði byrjað klúðurslega en afhverju leit byrjunarliðið svona út í upphafi

  Suso Suarez Sterling

  Allen Gerrard Lucas

  Johnson Agger Skrtel Wisdom

  Reina

  í staðinn fyrir eðlilegt lið eins og það lítur út í dag.

  Sterling Suarez Downing

  Allen Gerrard Lucas

  Enrique Agger Skrtel Johnson

  Reina

  þetta þýðir kannski að Carroll á sjéns hjá Liverpool eftir allt saman? Hehe, það voru nánast allir leikmenn að undirperforma í kerfinu hjá Dalglish, afhverju ekki að gefa mönnum sjéns aftur. Downing virðist allavega kunna ágætlega við tækifærið.

 22. Það eina sem mér dettur í hug og styður við póstinn hjá Babú er Sterling. Maðurinn hefur slegið í gegn hægra megin og verið stjarna liðsins fyrir utan Suarez náttúrulega, en maðurinn hlýtur að vera ömurlegur vinstra megin því hann er aldrei látinn spila þar. Þá passar það sem Brendan segir að Enrique og Downing geta ekki spilað saman. Það er allavega búið að prófa allt þarna vinstra megin, bæði í bakverði og á vængnum en hefði ekki verið neitt vandamál ef Sterling hefði bara flutt sig um kant. Hann var allavega ekki í liðinu í síðasta leik þannig að lausnin kom að sjálfu sér en það verður forvitnilegt að sjá hvað gerist í næsta leik. Sterling hlýtur að byrja vinstra megin og Downing hægra megin annars er Downing aftur út úr liðinu.

 23. Það skein ansi vel í gegn í byrjun tímabils að Enrique og Downing voru einfaldlega með allt niður um sig og það hefur sjálfsagt skilað sér inn á æfingasvæðið, þeir einfaldlega höfðu ekki erindi inn á völlinn í byrjun tímabils. Að auki var þarna tímabil þar sem Enrique var meiddur. Finnst það reyndar vera Rodgers til hróss hversu vel hann er búinn að ná Enrique í gang núna og jafnvel Downing. Ef tilboð upp á 8-10 milljónir kemur inn fyrir Downing er ekki hægt að neita því, sérstaklega í ljósi kaupanna á Sturridge og Ince en sjálfur myndi ég bíða til sumars með að selja hann og athuga hvort eitthvað smáræði sé hægt að fá til baka í framlagi fyrir alla kaupupphæðina.

 24. Glen besti hægri bak í heiminum…mér finst hann koma nú bara´i humátt á eftir einum sem er að stíga vel upp hjá united. Rafael da silva, skulum alveg róa okkur félagar.

 25. Er ekki bara spurning um að kaupa 2 sóknarþekjandi men og svo einn alvöru DM svona þegar Lucas getur ekki spilað þá held ég að við verðum óstöðvandi

 26. Er menn að missa sig aftur hér á spjallinu þó að við unnum einn leik í röð, eigum við ekki að minnka væntingar því að við eigum Stoke næst.

 27. Veit ekki hvernig þú getur fengið það út Raven að það hafi skinið að Enrique og Downing voru með allt niður um sig í byrjun tímabilsins. Þeir voru ekki að spila haha

 28. Hvernig tjá þjálfarar sig í verki gagnvart leikmönnum sem eru með allt niður um sig á æfingasvæðinu og líta illa út í samanburði við aðra leikmenn? Það er þetta sem manni finnst fyndnast…það halda flestir að líf leikmanna einskorðist við 90 mín um helgar.

Liverpool – Fulham 4-0

Gleðileg jól / Vinningshafi jólaleiksins