Aston Villa á morgun

Eftir að hafa horft á 2 leiki í viku í talverðan tíma, þá finnst manni orðið óratími á milli leikja þegar líður heil vika á milli. En ég er nú pottþéttur á því að það sé jákvætt núna rétt fyrir jólatörnina, góð vinna á æfingasvæðinu gæti skilað enn betri árangri. Næsta lið til að heimsækja Anfield er Aston Villa, sem má svo sannarlega muna fífil sinn fegurri. Það má reyndar með sanni segja að ekki sé langt á milli liðanna í stigum talið, en Villa menn hafa ekki verið sannfærandi og eru bara hreint út sagt með sitt slakasta lið í áraraðir. Það eru afar fáir spennandi leikmenn innan þeirra vébanda þessa dagana.

Það er búin að vera ákveðin bjartsýni í gangi núna undanfarið, enda fáránlega stutt í þetta blessaða Meistaradeildarsæti. Það verður að segja að eftir það sem hefur á undan gengið þá fær maður alltaf smá ónot í magann þegar maður sér tækifærið blasa við manni. Eitthvað sem segir manni að nú komi “set-bakkið”. Það hefur verið ákveðinn stígandi í liðinu og sjálfstraustið greinilega að gera vart við sig. Vonandi er þessi smá kvíði bara algjörlega óþarfur og okkar menn haldi bara áfram á sömu braut.

Þó svo að það sé ekki mikið um spennandi leikmenn hjá andstæðingum okkar á morgun, þá eru þar nokkrir leikmenn sem klárlega geta gert okkur erfitt fyrir. Menn eins og Benteke og Weimann hafa verið að setja mörk og svo vitum við alveg hvað maður eins og Agbonlahor getur gert á góðum degi. Þeir verða þó án nokkurra öflugra manna eins og Darren Bent (sem hefur reyndar lítið spilað), Richard Dunne (sem að mínu mati styrkir þá að vera án), Ron Vlaar og fyrirliðans Stilian Petrov.

Þetta er þó áfram sama gamla góða tuggan, ef við náum að spila okkar leik og allt er eðlilegt, þá eigum við að vinna þetta Villa lið á Anfield alla daga. En við vitum vel að leikir vinnast ekki á pappírunum einum saman og það þarf að spila og spila vel. Villa menn geta verið hættulegir í skyndisóknum, en manni sýnist að miðjan hjá þeim sé þeirra veikasti hlekkur og á hana þurfa okkar menn að herja. Þó svo að þeir sem ég taldi upp hér að ofan, séu allt sóknarmenn og að þar séu þeir best mannaðir, þá hefur þeim gengið illa að koma boltanum í netið hjá andstæðingum sínum. Ekkert lið í ensku deildinni hefur skorað færri mörk en þeir, eða 12 stykki. Meira að segja QPR hafa skorað meira en þeir. Það verður að segjast eins og er að það er ansi hreint dapurt að hafa aðeins skorað 12 mörk í 16 leikjum. En kannski er að rofa til hjá þeim, þeir unnu Norwich í vikunni og skoruðu 4 mörk í þeim leik. En vonandi verða þeir í deildargírnum sínum á morgun.

En þá að okkar mönnum. Við náðum frábærum úrslitum á útivelli gegn West Ham um síðustu helgi, og það án Luis Suárez. Menn töldu það fyrirfram útilokað, en við settum 3 mörk. Nú er kappinn kominn aftur, búinn að fá fína hvíld og ég býst við að hann sé alveg orðinn glor hungraður. Nú vofir ekkert bann yfir honum vegna gulra spjalda, hann hefur hreinsað það út og nú getur hann tekið aftur upp þá fínu iðju sína að klobba andstæðinginn og skora mörk. Það er bara hreinlega bráðfyndið (á vissan hátt) að líta yfir markaskoraralistann okkar í deildinni. Þar trónir Luis að sjálfsögðu efstur með 10 mörk, en þar á eftir koma heilir 8 leikmenn með eitt mark hver. Annars er mér nákvæmlega sama hvort hann sjái einn um markaskorun eða ekki, bara ef við skorum einu marki meira en Villa á morgun, þá verði ég drullu sáttur bara.

Þegar kemur að meiðslalistanum okkar, þá er hann óvenju stuttur að þessu sinni. Kelly og Borini eru frá til lengri tíma, en svo er það bara Jose Enrique sem hefur verið í smá basli með meiðsli. Hann átti að æfa í dag og maður hefur ekkert heyrt hvort af því varð. Ég ætla bara að tippa á það að hann verði búinn að ná sér og verði í byrjunarliðinu á morgun. Ef svo er, þá velur vörnin sig bara sjálf. Ef hann verður ekki heill, þá tippa ég á að Wisdom komi inn og Glen fari í vinstri bakvörðinn. Lucas hefur fengið góða hvíld núna og byrjar á miðjunni og Allen verður þar með honum og Gerrard aðeins framar. Þetta virðist vera sú miðja sem Brendan kýs helst að hafa, þó svo að Henderson hafi verið að banka hraustlega á dyrnar að undanförnu. Ég sé hann einfaldlega ekki kippa Allen út og ég er ekki heldur að sjá hann setja Gerrard út í hægri kantframherjastöðuna eins og svo margir vilja sjá.

Luis verður svo að sjálfsögðu uppi á toppnu Sterling þar rétt hjá. Í mínum huga er aðal óvissan um hina kantframherjastöðuna. Downing er búinn að spila þar síðustu tvo leiki og Suso kallinn hefur nánast ekki fengið innlit. Svo kom Joe Cole inn með mark í síðasta leik og ég hallast helst að því að baráttan um þetta sæti verði á milli Downing og Cole. Reyndar gæti vel verið að Brendan myndi nota tækifærið og hvíla Sterling, en ég er á því að hann muni frekar gera það í jólatörninni, t.d. þegar við heimsækjum harðhausana í Stoke. Ég er búinn að kasta upp á þetta og ætla að tippa á að Joe Cole fái sitt fyrsta start í deildinni í mjög langan tíma:

Reina

Johnson – Skrtel – Agger – Enrique

Gerrard – Lucas – Allen

Cole – Suárez – Sterling

Bekkurinn: Jones, Coates, Carragher, Henderson, Shelvey, Downing og Suso

Þetta er bara alls ekki flókið, allt annað en þrjú stig er óásættanlegt. Lucas hefur verið að gefa bakvörðum og miðjumönnum kost á að sækja mun meira en áður og það þarf að nýta. Plássið sem menn hafa verður ekki mikið, ég býst við mjög þéttum varnarleik hjá mótherjum okkar og því er hrikalega mikilvægt að skora snemma til að opna þetta aðeins. Nái Villa að verjast eitthvað fram eftir leik, þá er alltaf sama hættan á að menn sofni eitt andartak og fái slíkt í hnakkann. Við sáum það gegn Norwich á sínum tíma að það opnuðust flóðgáttir þegar skorað var snemma, reyndar var það ekki raunin gegn West Ham um síðustu helgi, en núna erum við á heimavelli og bara það að ná Villa framar á völlinn tel ég að muni skila okkur góðum sigri. Ég ætla að vera bara nokkuð bjartur á þennan leik og spá okkar mönnum flottum 3-0 sigri. Luis verður með tvo kvikindi og Gerrard blessaður vaknar upp af markaþurrðarblundinum sínum og setur eitt (ekki þó úr víti, enda rannsóknarlögreglan ekki á staðnum til að rannsaka líkamsárás, enda virðist það vera eina sem gæti færst okkur eitt slíkt).

Fulla ferð, allt í botn, þrjú stig takk.

26 Comments

  1. Liverpool án framherja en er búið að skora 22 mörk í deild. Aston Villa með nóg af framherjum en er búið að skora 12 mörk en stjóri þeirra vill einhverra hluta ekki nota tvo bestu framherjana þeirra. Við tökum þetta 3-0. Suraez með 8 klobba og tvö mörk.

  2. Fín skýrsla.
    Ég er bjartur fyrir leikinn sem við vinnum með einu til tíu mörkum : )

  3. Er ekki best að spá tapi, svo það gerist nú örugglega ekki? Þessi leikur verður aldrei auðveldur fyrir okkar menn, ekki frekar en aðrir leikir. Það verður jú gott að fá Suarez inn en ég vona að Gerrard verði settur út hægra megin og Shelvey fái að byrja sem fremsti miðjumaður. Fleiri mörk í liðinu þannig. Það má samt alveg rökstyðja að Cole eigi að fara að fá sénsana og hann gæti sannarlega byrjað líka. Segi 2-0 fyrir okkur, Suarez og Gerrard með mörkin.

  4. Það yrði e-ð svo dæmigert að klúðra þessum leik. Sérstaklega því við höfum verið á góðu skriði og stuðningsmennirnir bjartsýnir eftir því.
    Ætla samt að spá 3-1 sigri. Suarez verður spólgraður og skorar þrennu! 😉

  5. Takk fyrir fína upphitun,,vonast eftir öruggum sigri og 3-4 mörkum öllum frá Suarez!

  6. Flott upphitun. Auðvitað eigum við að taka þennan leik en það sækir að mér einhver pínu ónotatilfinning og mér finnst að menn séu aðeins að fara fram úr sjálfum sér vegna tveggja sigurleika í röð í deildinni. Bæði leikmenn og þjálfarar eiga nú að hamra járnið meðan það er heitt og taka einn leik í einu en ekki að vera með þessar yfirlýsingar í fjölmiðlum. Eigum ekki að missa okkur í einhverri svakalegri bjartsýni og setja á okkur óþarfa pressu. Var ekkert voðalega ánægður að lesa viðtal við BR áðan þar sem hann segist nú setja stefnuna á 2. sætið!

    http://soccernet.espn.go.com/news/story/_/id/1263897/liverpool-boss-brendan-rodgers-sets-sights-on-second?cc=5739

    Eigum við ekki aðeins að slaka á með væntingarnar?? Það er að mínu mati engin spurning um að BR er svo sannarlega á réttri leið með liðið, en við erum með ákaflega þunnskipaðan hóp og þ.a.l. er liðið ansi brothætt. Þetta uppbyggingarstarf mun taka mun lengri tíma og mér finnst því alger óþarfi hjá þjálfara og leikmönnum að setja svona mikla pressu á sig. Ég fullyrði það að enginn Liverpool-stuðningsmaður lét sér detta það í hug fyrir 2 mánuðum síðan að við myndum gera atlögu að 4. sætinu…….hvað þá 2.

    Myndi ráðleggja þjálfara og leikmönnum að halda fókus og einblína á einn leik í einu. Þetta verður drulluerfiður leikur en ef við náum að setja mark á þá snemma þá gæti þetta orðið veisla hjá okkur. Annars verður þetta fjandans basl.

    Hvað sem þessum pælingum mínum líður þá verð ég bara að segja að það er mjöööög langt síðan ég hef haft svona gaman að því að sjá lið mitt spila. Erum með fullt af ungum flottum strákum í liðinu sem eiga eftir að safna fullt af dollum fyrir okkur í framtíðinni. Hlakka mikið til leiksins á morgun. Koma svo LFC!!

  7. Já er sammála með að stilla væntingunum aðeins í hóf, ég verð bara skíthræddur alveg þegar ég les svona fréttir! Mun betra bara að einbeita sér alltaf að næsta leik og ekkert meira en það.

  8. Ætla halda áfram að blóta Joe Cole í sand og ösku það virkaði seinast.
    Annars flott upphitun 🙂

  9. Ég hefði nú frekar viljað að Brendan Rodgers hefði sett stefnuna á 1 sætið. Liverpool FC á alltaf að stefna á 1 sæti þangað til tölfræðimöguleikar eru ekki fyrir hendi. Ef þú ert að stjórna eða spila fyrir Liverpool og stefnir ekki á toppinn þá ertu á röngum stað. Ég þoli ekki þessa hugsun að stefna á góðan eða ágætan árangur en ekki þann besta. Þetta er líka dálítill íslenskur hugsunargangur (kannski vegna fámennis) og ég tel að hann eigi þátt í því að Íslendingar hafa ekki unnið gull á ÓL.

    Liverpool hefur spilað mun betur heldur en stigataflan segir og ef bætt verður við sóknina í janúar er alveg möguleiki á að gera góða hluti. Þótt ég geri mér alveg grein fyrir að Brendan Rodgers sé í uppbyggingu og að hópurinn er þunnur og ég býst ekkert við toppsætinu þá á Liverpool FC alltaf að stefna á fyrsta sætið. Bill Shankly stefndi aldrei á 2 sæti þótt að hann tók við lélegu liði enda náði hann að koma inn winner hugsanargangi sem varði næstu áratugi á eftir.

    I am in it to win it…………þangað til annað kemur í ljós

  10. Sammála þessu liði nema að Nuri Sahin (get ekki betur séð en hann er heill) muni hið minnst komast á bekk jafnvel byrja inn á fyrir allen

  11. Sælir félagar

    Ég mun því miður missa af leiknum á morgun en er alveg skellibjartur á góð úrslit. Sammála SSteini í góðri upphitun að ég vil fá Gerrard sem hægri kantframherja hvað sem öðru líður.

    Það verður að vísu slæmt ef við missum ógnunina sem orðin er af Enrique þó er ekki víst að hann missi af þessum leik. Það kemur í ljós eins og kerlingin sagði. Mér finnst Downing hafa verið að bæta sinn leik mikið undanfarið og er ekki vonlaus um að hann geri mark. Ég á aftur á móti ekki von á að Suarez skori því það verða á honum tveir til þrír menn allan leikinn sem aftur ná móti losar um aðra leikmenn.

    Af þessu leiðir að leikurinn fer 4 – 1 í dreifðri markaskorun okkar manna. Gerrard 1, Downing 1, Sterling 1 (loksins) og Skrtel 1. Hver skorar fyrir Villa verður Villi að vita sjálfur því ekki veit ég það.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  12. Algjörlega sammála mönnum með að halda væntingum í hófi. Á það ber að líta að í síðasta leik snerist dæmið ekki almennilega við fyrr en WH misstu einn af sínum bestu mönnum útaf. Maður hefur sumsé ennþá á tilfinningunni að Liverpool liðið sé brothætt, þó vissulega sjáist batamerki. Ég geri mér a.m.k. engar grillur um að nú séu örugg 12 stig í næstu 4 leikjum. Á maður að spá? Segjum 1 – 1 jafntefli.

  13. Þjálfarinn er orðinn glaður og farinn að tala um 2.sætið. Þá hlýtur hann að vita eitthvað meira heldur en ég. Hlakka til leiksins.

  14. Væri alveg til í að sjá þetta lið á morgun:
    Reina
    Johnson-Skrtel-Agger-Downing
    , Shelvey-Lucas-Gerrard
    Suso————Sterling
    Suarez

  15. hef fulla trú á okkur mönnum en bara passa sig að vanmeta villa ekki ! segji 3-0 suarez með 2 og henderson með 1

  16. Væri gaman að sjá Rodgers hvíla Allen eins og 1 leik, fá Sahin inn í staðinn enda mun skemmtilegri leikmaður.

    Reina
    Johnson Skrtel Agger Enrique
    Lucas Sahin
    Gerrrard
    Sterling Suarez Downing

    Þetta lið á alltaf að pakka Villa, 3-1 sigur, Suarez, Downing og Gerrard með mörkin!

  17. Ef BR telur þetta möguleika þá trúi ég því.
    LFC yfirspilaði manjú, manshitty og unnum neverton án þess að fá þriðja markið skráð, einhverra hluta vegna! Þarna liggja 7 stig sem við hefðum átt að vera með aukalega við þessi 22 sem við erum með núna og samt með þetta þunnskipaða lið. Um að gera að setja markið hátt og hætta að hugsa eins og middlesbourugh stuðningsmaður sem yrði sáttur við 6 sætið. Þetta er Liverpool, einn sigursælasti og fallegasti klúbbur veraldar og við eigum að setja stefnuna hátt.

  18. Voðalega finnst mér það héralegt þegar menn hér inni fara á límingunum ef einhver hefur miklar væntingar til liðsins.

    Jafnvel skíthræddir að trúa á góðan sigur yfir Villa af öllum liðum.

    Út með kassann og verum kokkí. Tökum svo hverjum úrslitum sem karlmenn með kassann úti. Ég trúi fyrir hvern leik en eins og í öðrum trúfélögum þá rætast ekki allar bænir og eitt og eitt kraftaverk dettur inn.

    Þarf reyndar hvorki bænir né kraftaverk í dag, þetta verður léttur aftansöngur.
    YNWA

  19. Sammála síðasta ræðumanni. Er BR bara ekki i einhverjum mindgames. Er alveg viss að hann haldi sínum mönnum á jörðinni þótt mér hafi fundist yfirleitt hættulegt þegar menn byrji að tala svona að það komi bakslag.

    Vinnum þennan 3-1
    YNWA

  20. 9

    Ef við skoðum síðustu 6 leiki þá er staðan svona:

    MU = 15 stig
    Stoke = 14
    Norwich = 12
    Liverpool, Southampton, Swansea og Man City = 11

    Ef við skoðum síðustu 12 leiki:

    MU = 30
    MC = 25
    Tottenham = 21
    Liverpool, Stoke, Norwich = 20
    Everton = 19
    Arsenal = 16
    Chelsea = 13

  21. Reina, Johnson, Skrtel, Agger, Downing, Allen, Lucas, Gerrard, Sterling, Shelvey, Suarez.

    Jones, Wisdom, Suso, Cole, Carragher, Henderson, Coates.

Framtíðarstefnan…og slúður (opinn)

Byrjunarliðið gegn Aston Villa