Tottenham á miðvikudag

Taktu þátt í jólaleik Merkjavara og Kop.is. Verðlaunin eru ferð á Liverpool-leik! Sjá nánar hér!

Liverpool situr í 11. sæti í deildinni núna þegar nóvember er að renna sitt skeið og það er ósköp einfaldlega alls ekki nógu gott. Það er að einhverju leyti skiljanlegt að margir nenni ekki að horfa lengra en bara á þessa tölfræði enda sú eina sem skiptir máli og fara mikinn í umræðum við aðra um hvað þetta er lélegt og það verði að reka og/eða selja allt og alla. Misjafnt eftir vikum hver það er helst sem þarf að hypja sig.

Þetta er þó auðvitað ódýrt röfl og gerir lítið annað en drepa niður málefnalega umræðu. Þó það líti ekki alveg þannig út í dag er ekki alveg heimsendir í nánd hjá klúbbnum þó vissulega sé pressa á að gera þurfi miklu betur og það fljótlega. Ég er mjög stressaður fyrir leikjaálag jólamánaðarins því ég hef aldrei séð eins þunnskipaðan Liverpool hóp og finnst lykilmenn nú þegar vera farnir að sýna þreytumerki, en heilt yfir og til framtíðar hef ég hellings trú á núverandi leikmannahópi og treysti nýjum stjóra og eigendum sæmilega til að styrkja þann hóp. Það þarf ekki marga inn, en það þarf hinsvegar góða leikmenn inn.

Brendan Rodgers fékk hræðilega erfiða byrjun sem stjóri Liverpool og sá kafli fór ekki nógu vel, þrír tapleikir strax í fyrstu fimm umferðunum og jafntefli við Man City sem var fullkomlega í boði Skrtel í leik sem átti að vinnast. Eftir þessa byrjun hefur Liverpool ekki tapað einum einasta deildarleik, ótrúlegt að hugsa til þess m.v. hvað liðið byrjaði illa og er samt neðarlega í deildinni. Þrír leikir hafa unnist og fimm endað með jafntefli sem er vægt til orða tekið óþolandi. Þetta verður síðan allt að því óbærilegt þegar það gerist tvisvar á svona stuttum tíma að tekið er af okkur löglegt mark, hvað þá þegar eitt þeirra er gegn Everton í uppbótartíma. Hitt núna í síðasta leik.

Liverpool er núna níu stigum á eftir Chelsea í 4.sæti og fimm stigum á eftir Everton í 5.sæti. Liðið er að bæta leik sinn nánast í hverjum leik og ljóst að hugmyndafræði þjálfarans er smátt og smátt að skila sér inn í leik liðsins. Það má ekki gleyma því að sumarið var mjög erfitt fyrir Rodgers, lykilmenn voru að taka þátt í stórmótum alveg fram í ágúst sem tafði bara fyrir nýjum manni með nýjar hugmyndir og eins voru gerðar mjög miklar breytingar á leikmannahópnum og við sáum marga leikmenn síðasta tímabils yfirgefa liðið.

Þetta er allt eitthvað sem við vitum flest þó stundum (full oft sumstaðar) vilji menn gleyma sér í pirringi og drulla yfir allt og alla. Einhvern tímann kemur að því að löglegt mark fái að standa hjá okkur og svei mér ef það gerist ekki bara strax á næsta ári að Suarez fái vítaspyrnu sem gæti ráðið úrslitum (líklega samt bara með landsliðinu). Við grátum öll stig sem við gefum frá okkur með klaufaskap eða eru tekin ósanngjarnt af liðinu en á meðan liðið er alltaf að bæta sig hefur maður trú á verkefninu.

Brendan Rodgers sagði leikinn gegn Swansea sýna hversu mikið Liverpool hefur bætt sig frá því síðast þegar þeir spiluðu í Swansea í vor. Mikið er til í því þó aðstæður séu ekki alveg sambærilegar. Þeir fengu a.m.k. ekki að einoka boltann núna og Liverpool var ekki alveg áhugalaust. Talandi um þann leik sem var lokaleikur síðasta tímabils þá er 11. sæti núna bæting á gengi liðsins eftir áramót í fyrra, eins sorglega og það nú hljómar. Gott gengi í bikarkeppnum tók sinn toll en í deildinni var liðið alveg hræðilegt og spilamennskan versnaði með hverjum leik að manni fannst.

En þetta er s.s. 3-7-3 núna í upphafi tímabils = 16 stig
Síðustu 13. Umferðir síðasta tímabils fóru svona 4-1-8 = 13 stig.
Eftir áramót var þetta 5-3-11 = 18 stig

M.v. þetta erum við a.m.k. að breyta tapleikjum í jafntefli og þannig byrja lið vanalega sem eru í uppbyggingarferli, mjög sjaldan sem lið snúa þessu bara alveg við. Eins og Rodgers sagði sjálfur eftir Swansea leikinn, haldi liðið áfram að bæta sig smátt og smátt eins og það hefur verið að gera fara þessi jafnteflisleikir að detta meira með okkur. Þó ekki væri nema bara ef við fengjum rétta dómgæslu.

Orðum þetta svona, ég geri mér vonir um að Liverpool fái meira út úr næstu 13 leikjum heldur en 16.stig og eftir áramót (í síðustu 19 umferðunum) geri ég mér vonir um mun meira en bara 18.stig. Gangi það ekki eftir verður Brendan Rodgers mjög óöruggur í starfi.

Að því sögðu var ekkert ofarlega á óskalistanum að mæta Tottenham úti akkurat núna stuttu eftir nokkuð lýjandi útileik gegn Swansea. Þeir hafa reyndar verið misjafnir í upphafi móts en eru Liverpool alltaf erfiðir og bjóða upp á leiðinlega góða vængmenn sem hafa oft komið okkar mönnum í vandræði. Tottenham er eitt af þessu liðum sem er hræðilegt að mæta án varnartengiliðs, gegn svona liðum opinberast af hverju menn eins og Allen eða Sahin eru ekki eiginlegir varnartengiliðsskriðdrekar og vörnin fær ekki nægjanlega vernd.

Tottenham er með 20 stig, hafa unnið 6 leiki og tapað 5 og eru með 2 jafntefli. Innkaupastefna Spurs er nokkuð merkileg en þeir virðast bara nota njósnaranet Liverpool og yfirbjóða okkar takmörk svo í launum. Það verður af þessum sökum fróðlegt að sjá móttökurnar sem menn eins og Dempsey og Gylfi Þór koma til með að fá frá stuðningsmönnum Liverpool. Líklega verður þeim ekki beint hrósað neitt þó þetta verði heldur ekkert Chelsea vs. Benitez.

Hvað hóp Liverpool varðar þá óttast ég að það séu u.þ.b. 100% líkur á því að einhver af okkar lykilmönnum dett í meiðsli á næstu vikum. Leikjaálagið er það mikið og hópurinn það lítill að þetta gengur ekki upp. Sérstaklega hef ég áhyggjur af miðjumönnunum okkar. Gerrard og Allen virðast báðir virkilega þurfa hvíld og eins þyrftum við að geta hvílt Suarez. Tottenham úti er samt engan veginn leikurinn í þess háttar pælingar og liðið verður tiltölulega lítið breytt. Tippa í raun bara á að Wisdom komi inn aftur fyrir Downing og ég væri að ljúga ef ég segðist hlakka til að sjá hann kljást við Gareth Bale. Guð hjálpi okkur haldi Downing stöðu sinni í bakverðinum samt.

Reina

Wisdom – Skrtel – Agger – Johnson

Gerrard – Allen – Henderson

Sterling – Suárez – Enrique

Henderson hefur komið ágætlega inn undanfarið og er ferskari heldur en Sahin sem verður áfram á bekknum. Enrique verður einnig áfram á sínum stað en hann er einn af fáum í okkar hópi þessa dagana með alvöru hraða og eins það sem hefur átakanlega vantað í allt of marga leikmenn Liverpool; passion. Hann er að berjast eins og ljón út um allt og verið einna ferskastur okkar manna hvað þetta varðar á eftir Suarez sem verður bara aldrei sakaður um að sýna ekki sigurvilja og passion. Spurning hvort Rodgers eða aðrir úr þjálfaraliðinu hafi eitthvað verið að vinna í þessum lið hjá Enrique og eru að ná svona miklu meiru út úr honum en hann var að gefa af sér mest allt síðasta tímabil. Hjálpar honum líka að hann hefur ekki spilað eins mikið og aðrir lykilmenn liðsins.

Spá:
Setjum X á þennan leik og fyrirfram væru það ekkert hræðileg úrslit þó Liverpool á móti verði að fara skila þremur stigum í hús. Segi að Bale skori fyrir þá (þó mark frá Gylfa sé reyndar skrifað í skýin) og ætla að vera svo djarfur að segja Suarez fyrir okkur. Engar áhyggjur samt, ég tippa nánast aldrei á rétt úrslit.

Fyrir rúmlega ári síðan töpuðum við 4-0 á þessum velli í ömurlegum leik þar sem tveir leikmenn Liverpool fengu rautt spjald og Dalglish bauð upp á Skrtel í hægri bakverði þar sem hann var svipað mikið á heimavelli og Þráinn Bertelsson á Alþingi.

En í guðanna bænum farið fram úr mínum væntingum og vinnið þennan leik.

55 Comments

 1. Við eigum það sameiginlegt Babu að vona að Liverpool “komi á óvart” og vinni þennan leik. Við höfum ekki riðið feitum hest frá white hart lane undanfarin ár held ég og ég bara man ekki hvenær við unnum þar síðast. Ég held að það sé alveg rétt hjá þér að það er farin að sjást þreytumerki á Gerrard og Allen og mikið vildi ég óska þess að Lucas væri komin á almennilegt ról, en það þýðir ekkert að tala um það.

  Heldurðu að BR spili með 4-3-3 uppstillingu í þessum leik. Ég held að það verði meira 4-5-1. Mér væri alveg skítsama þó við værum aðeins með boltann 15% í þessum leik, ef við bara skorum fleiri mörk en þeir. Síðan vona ég að “moneygrabberinn” hjá tottenham sitji á bekknum í þessum leik. Hann verður valinn varamaður þessa leiks. 😉

 2. Spursarar verða svipað þreyttir og við, þeir hafa þó breiðari hóp. Þreytan er aðallega komin til vegna Evrópuleikjanna á fimmtudaginn en bæði lið spiluðu auðvitað þá. Þeir útileikmenn Spurs sem byrjuðu bæði Evrópuleikinn og leikinn þeira um helgina voru Vertonghen, Walker, Caulker, Huddlestone, Lennon, Sandro og Defoe.

  Dembele er nýstiginn upp úr meiðslum og verður smá ryðgaður ef hann byrjar, Ade er enn í banni held ég, Assou-Ekkoto, Kaboul og Parker eru svo enn meiddir.

  Ég held að það verði nauðsynlegt að hafa Johnson hægra megin fyrir þennan leik á móti Bale, það gengur varla að hafa tvo unglinga á móti honum í Wisdom og svo Sterling þegar hann bakkar og hjálpar til, auk þess sem sóknargeta Johnson myndi valda því að Bale þyrfti eitthvað að verjast sjálfur en það er eitthvað sem Wisdom hefur ekki. Verðum að hafa reynsubolta á móti honum og Johnson hefur verið að spila mjög vel að undanförnu.

  Ef það verður raunin fer Enrique vonandi aftur í vinstri bakvörð frekar en Downing og leyfist mér að segja að kannski kominn tími á að Cole fái tækifæri vinstra megin? Hann spilaði mjög vel í Evrópuleiknum og er tiltölulega óþreyttur.

  Svo gæti auðvitað verið að þetta verði 4-5-1 eins og nefnt var að ofan en ég vona svo sannarlega að Johnson verði hægra megin, sama hvað. Bale er stórhættulegur.

  Annars munu hlutir batna um leið og Lucas er kominn í smá leikform, eini leikmaðurinn sem hefur getuna til að brjóta upp spil andstæðinga mjög vel. Allen er eini leikmaðurinn sem hefur getað spilað þessa stöðu í fjarveru Lucas en það hefur valdið þvi að aðrir miðjumenn þurfa að koma dýpra til að hjálpa honum, sem hefur svo leitt til að sóknarleikurinn okkar á miðjunni hefur ekki verið sá besti. Allen var auðvitað keyptur til að taka á móti boltanum frá Lucas og bera hann aðeins upp völlinn, það er hans langbesta staða og munum við sjá hversu góður hann er í því þegar Lucas spilar reglulega aftur. Ég get varla beðið.

 3. Frábær upphitun að vanda og virkilega þarfur pistill í fyrri hlutanum. Maður þarf að minna sig á það hversu ömurlega erfiða byrjun Rodgers fékk hjá Liverpool. Við erum að tala um 39 ára gamlan, lítið reyndan stjóra sem tekur við einu stærsta liði heims og þetta er byrjunin:

  • Hann þarf að vera stjarnan í 6-þátta heimildaröð.
  • Ameríkutúr með hálft liðið enn að keppa með landsliðum.
  • Margir leikmenn yfirgefa liðið, miklu fleiri en við áttum von á í vor.
  • Lucas meiðist aftur nýkominn inn úr löngum meiðslum.
  • Carroll/Dempsey-klúðrið.
  • Hver skandallinn á fætur öðrum hjá Suarez.
  • Þrjú efstu lið síðustu leiktíðar í fyrstu þremur umferðunum. Slíkt hefur aldrei gerst áður hjá liði í Úrvalsdeild.
  • Vafasamt rautt, tvö víti og stórmark upp úr engu í fyrsta deildarleik.

  Það er einfaldlega ekkert búið að ganga skv. áætlun hjá Rodgers og næg voru vandamálin fyrir þótt hann færi ekki að vera óheppinn líka. Að ungur stjóri skuli hafa komist í gegnum þetta allt án þess að gera mikið af mistökum er ótrúlegt að mínu mati.

  Síðan þá hefur liðið gert of mörg jafntefli, jújú, en hann er allavega að stabílísera liðið og það tapar ekki mörgum leikjum nú til dags og engum í deild. Tottenham og Everton eru að tapa fleiri leikjum en eru samt ofar af því að þau klára leiki, aðallega heimaleikina sína. Samt væri Liverpool jafnt þeim að stigum ef mörkin gegn Everton og Swansea hefðu fengið að standa.

  Þetta er ekki svo mikill munur þarna á okkur og Tottenham, Everton og Arsenal í þessari deild, og við erum nú þegar fyrir ofan Newcastle. Þess vegna skilur maður ekki tal um að selja þennan eða hinn nýkeypta leikmanninn og þar af síður tal um að reka Rodgers. Hann á enn eftir að fá Lucas og Borini (dýrustu kaupin sín í sumar) inn í þetta lið og svo gera menn fastlega ráð fyrir að hann fái að kaupa 1-2 leikmenn í janúar.

  Sjáum frekar hvort hann nær ekki að byggja á þessum jafnteflum og fara á meira skrið eftir áramót. Og höfum í huga að miðað við allt sem á undan gekk í sumar og haust þá er þetta bara sæmilegur árangur (Hodgson var t.d. með okkur í fallbaráttu um þetta leyti vetrarins) og einnig að þetta var alltaf að vera árið þar sem liðið væri núllstillt og því erfitt að heimta árangur strax.

  Hugsið ykkur sumarið 2013, ef við náum t.d. að selja Downing og kaupa 1-2 leikmenn sem spjara sig í janúar. Þá erum við með ungan og þéttan leikmannahóp næsta sumar, margir af ungu strákunum árinu reyndari og ekki nýliðar lengur og allir möguleikar á að liðið byrji haustið 2013 á góðu rönni.

  Ég sé allavega enga ástæðu til annars en bjartsýni. Þess vegna skil ég ekki tal um brottrekstra og útsölur. Rodgers er búinn að standa það versta af sér og er að bæta þetta lið með hverri umferð. Við bara verðum að bíða þolinmóðir þar til í janúar eftir að sóknarleikurinn batni mikið. Breiddin þar er engin og við verðum áfram bitlausir í einhverjum af næstu leikjum þar til Borini kemur inn og 1-2 leikmenn til viðbótar verða keyptir.

  Spái Spurs sigri á morgun. Er samt sem áður bjartsýnn á framhaldið.

 4. Þetta var rangstaða gegn Swansea… Skil ekki hvernig þú getur ekki séð það. Enrique er fyrir innan aftasta varnarmann, munar ekki miklu en nóg til að það sjáist vel. Ef við hefðum fengið svona mark dæmt löglegt gegn okkur þá hefði allt farið á hliðina hérna.

  Þó að það sé svekkelsi að Sterling fleygurinn hafi ekki legið inni (ég var stokkinn úr sófanum!) og þetta mark var dæmt af okkur þá megum við ekki gleyma því að vera fair. Þó að það sé gegn okkar liði..

 5. Fyrir mér er Rodgers nokkurn veginn á pari með þetta lið. Og ekki ólíklegt við verðum komnir neðar í deildinni eftir næstu helgi og þar að leiðandi enn lengra frá evrópusæti. Tottenham á morgun, Southampton á laugardag. Eftir þá leiki ferðast liðið til Ítalíu.

  Það er eins gott að sýna þessu verkefni þolinmæði. Því þó svo við höfum verið óheppnir með til dæmis ragnstöðudóma á móti Everton og Swansea þá erum við að mínu mati heppnir með aðra hluti eins og lítil meiðsli og við höfum verið að mæta liðum á góðum tímum. Það er reyndar smá breyting þar á þar sem bæði Tottenham og Southampton er á góðum stað þessa dagana og erfiðir leikir framundan.

  Áfram Liverpool !!!

 6. Ég spái líka tapi á morgun, Tottenham leiðist ekkert að spila á móti okkur og eins og Babú bendir á þá munu Lennon og Bale verða okkur erfiðir.

  Maður hefur verið að spá mikið í forminu það sem af er leiktíðar og 11. sæti er auðvitað ekki nógu gott. En formið eftir áramótin í fyrra var gjörsamlega ömurlegt og 5 sigurleikir af 19 er auðvitað glatað. Ég hef trú á því að liðið sé sífellt að bæta sig undir stjórn Rodgers og að formið eftir áramótin verði ekki svona afskaplega vont. En ef það verður þannig má vissulega efast um stöðu Rodgers, því miður.

 7. Nr. 4

  Sky kom með nokkuð gott sjónarhorn á þetta atvik á laugardaginn (eftir Chelsea – City leikinn) þar sem sást að Enrique var í línu við varnarmann Swansea (sjónarhorn sem línuvörðurinn átti að hafa).

  Það er svosem enginn að drulla yfir línuvörðinn fyrir þetta enda hægara sagt en gert að sjá svona atvik en í það allra minnsta er sóknarmaðurinn ekki að njóta vafans, sú regla virðist ekki eiga við þegar Liverpool skorar “rangstöðumark”.

  Væri fínt ef einhver lumar á .gif mynd af þessu sjónarhorni sem Sky kom með?

  Nr. 5
  Mér finnst við nú ekkert hafa verið heppnir með meiðsli í vetur! Lucas, Kelly og Borini allir í langtímameiðslum. Reina og Enrique í nokkurra vikna veseni sem og fleiri leikmenn. Höfum svosem séð það svartara en liðið er langt í frá meiðslalaust.

 8. Inn í þessa punkta hjá Kristjáni Atla nr. 3 mætti líka bæta við HERFILEG dómaramistök í 2 leikjum (Manutd og Everton) sem kostuðu okkur stig. Þetta eru augljósustu dómarmistökin sem kostuðu okkur stig, en svo má auðvitað benda á að ekki eitt einasta vafaatriði hefur fallið okkur í vil inn í vítateig í öllum 13 leikjunum á þessu tímabili. Þó hefur í sumum tilfellum verið um augljósar vítaspyrnur að ræða.

 9. Fann ekkert .gif en hérna er þó mynd af þessu.

  Fyrir mér er þetta bara 50/50, aðstoðardómarinn metur þetta á augabragði og að sjálfsögðu fellur það gegn okkur, búhú 😀

 10. Hér er mynd af þessu sjónarhorni sem línuvörðurinn ætti að hafa http://www.lfchistory.net/Images/other/enriqueonside.jpg. Hinar myndirnar sem #9 og #11 setja inn eru þær myndir sem Sky voru að sýna af atvikinu í hálfleik gegn Swansea. Þá var ég sammála því að ákvörðun línuvarðarins væri rétt.

  Það að hendin á Jose Enrique sé fyrir innan á ekki að hafa áhrif því hann má ekki skora með þeim líkamshluta (held ég sé ekki að fara með fleypur þarna).

 11. Ítreka að þetta er svosem enginn skandall neitt og enginn að halda slíku fram. Bara pirrandi hvað öll vafaatriði virðast falla á móti okkur þessa dagana (mánuðina) og þetta er að kosta okkur full mikið af stigum.

 12. Klárlega ekki rangur eins og sést á þessum myndum og Sky Sports fóru vel yfir eftir leikinn. Í víðara sjónarhorninu þá er erfiðara að sjá þetta, en varnarmaður Swansea fyrir miðri vörninni er með löppina yfir innan og eini líkamspartur Enrique sem er fyrir innan er höndin og hún telst ekki með þar sem hann má ekki leika knettinum með hendinni. Þetta er því klárlega ekki rangstæða.

  En auðvitað er erfitt að sjá svona á augabragði, en sóknarmaður á að njóta vafans, en gerir það sjaldnast. Sem sagt rangur dómur, erfitt að sjá live (mér sýndist hann ekki vera rangur í fyrstu), markið átti einfaldlega að standa og sóknarmaðurinn að njóta vafans.

 13. Sóknarmaður á klárlega að njóta vafans… aðstoðardómarinn hefur metið þetta svo að Enrique er að upplagi varnarmaður og því gildir “vafa” reglan öfugt um hann!

 14. 3 Kristján Atli. Virkilega góðir punktar og dregur upp skýra mynd af erfiðleikum Rodgers síðan hann tók við liðinu. Mér finnst hann búinn að ná að tækla þetta vel og leikur liðsins batnar nánast með hverjum leiks sem við spilum. Hann hefur líka sýnt að hann er ágætist taktíker með breytingum í miðjum leikjum. Liðið er að spila betur enn í fyrra en á við sama vandamál að glíma. Þ.e. að það vantar að reka smiðshöggið á sóknirnar. Guð hjálpi öðrum liðum þegar það tikkar inn. Varðandi leikinn á morgun þá spái ég því miður Tottenham sigri og þá 2-1. Og svona til að toppa það þá ætla ég að spá því að Dempsey hrökkvi í gang og skori sem og Gylfi beint úr aukaspyrnu. Hjá okkur verður það Cole eða Cple sem setur hann.

  YNWA

  Anfield á laugardaginn.. hell yeahhhhh

 15. Kristján Atli :

  Þú segir :

  “Þrjú efstu lið síðustu leiktíðar í fyrstu þremur umferðunum. Slíkt hefur aldrei gerst áður hjá liði í Úrvalsdeild.”

  WBA var ekki í Top 3 á síðasta tímabili.

 16. Ekki gleyma gjöf Skertels í leiknum gegn Man.City sem kostaði okkur 2 stig! Ég spái sigri LFC á morgun … það mun svo vera kveikjan að einhverju stórkostlegu í framhaldinu 🙂

  (Innskot Babu: Tók það fram í upphitun, erfitt að gleyma þeirri gjöf)

 17. Staðan er snúin. Það er ekki að lesa í Rodgers núna að hann fái pening í janúar, frekar á hann að fá menn að láni. Það veldur manni ennþá heilabrotum hvað eigendur okkar ætla sér með Liverpool FC. Klárlega er margt á réttri leið en því miður er það alls ekki nóg. Liverpool er stórt vörumerki, eitt frægasta knattspyrnufélag allra tíma en það eru að vaxa úr grasi kynslóðir sem sjá annað, meta Liverpool bara sem meðal-klúbb og ekkert annað. Við keppum aldrei við peninga City eða Che (félög sem eru skammarlegir klúbbar) en við erum farnir að láta Tottenham yfirbjóða okkur. Eigendur Liverpool þurfa að sýna stuðning.

 18. Þetta verður áhugaverður stórslagur annað kvöld milli tveggja ágætlega mannaðra liða með nýlega stjóra og ný leikkerfi. Með því að komast almennilega í gang þá gætu bæði þessi lið átt raunhæfan séns á 4.sætinu eins og deildin er að spilast. Hún er það jöfn í augnablikinu að það er góður möguleiki á því fara hratt upp töfluna með smá sigurgöngu.

  Ég gæti alveg séð Rodgers ákveða að vera með 3 miðverði ásamt vængbakvörðum fyrir þennan leik til að bregðast við hættulegum vængmönnum Spurs. Hefur beitt því áður og gæti verið góður valkostur fyrir vígaþreytt lið. Maður yrði alveg sáttur með jafntefli enda Tottenham beinn keppinautur okkar og fínt að tapa ekki fyrir þeim. En það væri ansi tímanlegt að fara að vinna toppslag.

  Babu talar um jafnteflin líkt og ég gerði einnig í gær. Að tapa ekki leikjum er alltaf góður grundvöllur og gott fyrir lið sem er að spila sig saman í nýrri taktík til að fá trú á verkefnið. Að sama skapi er áhyggjuefni að liðið ströggli svona mikið við að kreista fram sigra úr jöfnum leikjum og við höfum því miður verið að missa niður leiki sem við höfum komist yfir í (þrír í deild og 2 í Evrópu). En samt höfum við einnig átt nokkur kombökk (3 í deild og 3 bikar/Evrópu) líka.

  Þannig að það er vilji og stolt til að tapa ekki en næsta stig er erfiðasta skrefið við að stíga upp í að vera sannkallaður sigurvegari. Vonandi mun íþróttataugasálfræðingurinn bæta hugarfarið en mér finnst að einn partur af því vera líka sá að áhangendur jafnt og leikmenn hætti að bera þennan fórnarlambastimpil. Við erum að rembast við að kreista út gremju og óréttlæti yfir of mörgu líkt og rangstöðumark Enrique sem manni virðist sæmilega sannað að var réttur dómur. Hann er með búkinn fyrir innan alla varnarlínuna fyrir utan einn varnarhæl sem stendur út. Þetta er rangstaða. Lets drop it.

  Við höfum lent í einum skandal í Everton-leiknum, ManYoo-leikurinn var illa dæmdur og svo nokkur víti tengdum Suarez, en höfum líka sloppið með bakhrindingu á Brúnni ásamt nokkrum tæpum tæklingum. Í fullkomnum heimi værum við með fleiri stig en það er ekki alltaf jólin (þó þau nálgist). Hættum að bera okkur eins og fórnarlömb og sýnum sigurkarakter. Verum gerendur, ekki þolendur.

  Það sem stendur eftir er að stóra vandamál liðsins er að við strögglum við að skora. Eins og sagði í gær þá hefur þetta bæði verið vandi LFC frá því að Rafa hætti ásamt því að Swansea undir Rodgers var engin markamaskína. Tölurnar tala sínu máli um ójafnvægið. Af 17 deildarmörkum hefur Suarez skorað 10 en næsti maður er Owen Goals með tvö (seigur sá).

  Það er stórfínt að Suarez sé að setj’ann enda matchwinner á sínum betri dögum. En hann tekur líka langflest skot í liðinu (6 skot í leik), reyndar líka allri deildinni og næsti samherji er ekki hálfdrættingur á við hann í skotfjölda (Gerrard með rúm 2 skot). Dreifingin á mörkunum er líka hörmuleg en bara í 4 leikjum af 13 skorum við yfir 1 mark í deildarleik. Svona dugar einfaldlega ekki til margra sigra.

  Sem lið er Liverpool líka að taka mjög mörg skot (yfir 18 per leik) og þriðju flest í deildinni, en koma lélegu hlutfalli af þeim á rammann (innan við 5). Oft er Suarez sökudólgurinn og virðist hafa algert skotleyfi úr hvaða færi sem er. Menn skora ekki nema að skjóta en það þarf samt að finna betra jafnvægi og oft má sýna meiri þolinmæði og spila upp á betra færi. ManYoo eru t.d. afburðagóðir í þessu; hafa skorað 32 mörk í færri skotum (16 per leik) en LFC og setja fleiri á rammann (6 per leik). Þeir spila sig einfaldalega í betri færi!

  Í það minnsta hélt ég að það ætti að vera mantran með possession-football að halda boltanum meira og sýna yfirvegun í nálgun okkar. Bæði sem sóknar- og varnartaktík (andstæðingurinn skorar ekki meðan við höfum boltann). Það hefur sést á köflum en ég bar saman tölurnar frá því í fyrra og það hefur ekki orðið nein kaflaskipti ennþá. Erum með álíka possession (56% vs 55%), ögn fleiri sendingar í leik (433 vs. 400) og ögn betra hlutfall heppnaðra sendinga (85% vs. 81%). Við þessu mátti búast miðað við stíl Swansea og trúboð Rodgers en þetta er samt ekki jafn róttækt og maður hélt…..enn sem komið er.

  Stóri munurinn liggur hins vegar á þeirri breytingu að fækka fyrirgjöfum (Blackburn 1995 – King Kenny uppskriftin) stórlega úr 22 í leik í fyrra niður í 16 í vetur. Á móti er áherslan á hlaup með bolta (dribbles) og hefur þeim fjölgað úr rúmum 15 per leik í fyrra upp í tæp 24 dribbl í leik. Augljós áherslubreyting frá hefðbundnum vængmönnum yfir í vængframherja. Sýnir líka ákveðna þolinmæði til að halda boltanum frekar en að krossa bara beint í tóman vítateig líkt og í fyrra. Væri gott ef að sama nálgun á þolinmæði væri yfirfærð á skotin og að menn hafi hugrekki í að spila sig í betri marktækifæri.

  Vonandi heldur þessi hægfara framför áfram og fær aukin skriðþunga. Starting at the Lane.

  YNWA

 19. Fái BR ekki pening í janúar þá er liðið ekki að fara að halda Suarez lengi.

  Bæti FSG ekki upp fyrir ágústklúðrið núna í janúar, geta þeir ekki búist við að þeim verði teknið opnum örmum næst þegar þeim þóknast að láta sjá sig á vellinum.

 20. Er spursari og veit ekki af hverju, en þegar ég ákvað að líta hingað inn, bjóst ég við aðeins málefnalegri og betri upphitun en þetta. Leiðist þegar menn benda mikið á dómarana, þeir komu ykkur ekki í þá stöðu sem þið eruð í. Það eru alltaf svona atriði, þau eru bara meira áberandi þegar þau koma fyrir Liverpool og United, Fact 🙂

  Mér finnst reyndar Brendan Rodgers vera að standa sig ótrúlega vel með hópinn sem hann hefur og er að láta Liverpool spila virkilega góðan bolta, í fyrsta skipti í langan tíma. Þess vegna skil ég ekki alveg, ef það er einhver óánægja með hann. Svona tekur tíma.

  Þetta finnst mér grátleg fullyrðing. “Innkaupastefna Spurs er nokkuð merkileg en þeir virðast bara nota njósnaranet Liverpool og yfirbjóða okkar takmörk svo í launum.”
  Afhverju í ósköpunum ætti Tottenham að gera það, við höfum að mínu mati verið að standa okkur betur en Liverpool bæði á vellinum og utan hans, undanfarin ár. Og því er það frekar ólíklegt að við séum bara á eftir leikmönnum sem Liverpool er á eftir, þar sem að Spurs hefur verið að standa sig vel á leikmannamarkaðnum. Og ekki detta það í hug að við séum að yfirbjóða ykkur í launum og kaupum þótt það hafi komið einu sinni fyrir með Gylfa sem er ekki að fá jafn há laun og þið haldið, Spurs er með mjög góðan launa strúktur og eru mjög hófsamir í bæði kaupum og launum. Miðað við tekjur félagsins. Eftir seinasta félagskiptaglugga erum við t.d. 17 m punda í plús og eigum þar af leiðandi vonandi eftir að bæta við okkur i janúar. Guð sé lof.

  Annars er ég alls ekki bjartsýnn fyrir leikinn á morgun, þar sem liðið okkar er einfaldlega ekki enþá búið að smella saman svipað og þið.. En býst samt við hörku leik og líklegt að þið verðið meira með boltan en Spurs beiti skyndisóknum. Gangi ykkur vel, nema í leiknum á morgun 😉

  Coys

 21. Nr. 24

  Heilt yfir er staða Liverpool ekki dómgæslu að kenna og vonandi kom það ekki þannig út í þessari upphitun. Við erum einungis að tala um nokkur áberandi atvik í byrjun tímabilsins sem hafa ekki fallið með okkur og telja klárlega núna. Satt að svonalagað gerist hjá öllum liðum (misjafnlega oft) og Liverpool hefur verið ansi “óheppið” með þetta það sem af er vetri. Tek þó ekki undir að margir leikmenn fái álíka meðferð og Suarez hefur fengið sl. tvö ár, það er önnur Elín.

  Ef þú skilur ekki ef það það er einhver óánægja með Rodgers þá vísa ég til fyrstu setningarinnar, Liverpool situr í 11.sæti. Smá óánægja er ekkert rosalega illskiljanleg. Krafa á að skipta um stjóra núna er samt hjá afar litlum minnihluta ennþá.

  Þetta finnst mér grátleg fullyrðing. „Innkaupastefna Spurs er nokkuð merkileg en þeir virðast bara nota njósnaranet Liverpool og yfirbjóða okkar takmörk svo í launum.“

  Þetta var nú (að mér fannst) augljóslega smá grín enda voru Spurs og Liverpool á eftir sömu leikmönnum í sumar.

  Rolex.

 22. Sælir félagar

  Takk fyrir góða upphitun Babu og þarft innlegg í umræðu síðustu daga. Það er nú svo að ekkert er óeðlilegt við að menn séu nokkuð vosviknir með stöðuna og úrslit undanfarinna leikja. Samt er ekki ástæða til að heimta að hausar fjúki því hin marg-um-talaða þolinmæði er nauðsynleg ef stuðningmenn ætla að hanga á límingunum. Gefum því BR og liðinu tíma og hugsum jákvætt.

  Hvað sem aðrir segja hér þá er ég með góða tilfinningu fyrir leiknum á morgun. Ef skoðuð eru úrslit leikja undanfarið hjá þessum liðum þá er útkoma okkar manna betri. Tottenham hefur átt í verulegum erfiðleikum og sjálfstraust stjórans og leikmanna er örugglega í lágmarki. Liðið mun því liggja aftarlega og treysta á skyndisóknir enda er hraðinn þeirra beittasta vopn. BR er að mínu viti góður taktiker og mun sjá við firnasnöggum bakvörðum andstæðingsins og gelda þá gersamlega. Það þýðir aðeins eitt. Sigur okker manna. Svo einfalt er það. Frábært. Ég er strax farinn að hlakka til niðurstöðunnar, leiksins og ánægjunnar sem hann mun gefa okkur.

  Mín spá er því 1 – 3 og mun Suarez skora þrennu. Það mun að sönnu fara ósegjanlega í taugarnar á mörgum. Líklega flestum öðrum en okkur púllurum. Í framhaldinu mun Chelsky gera 45 kúlu tilboð í strákinn og bjóða Torres í bónus. Rafael Benitez verður brjálaður og neitar að samþykkja að El Nino fari og Rúblugarkinn mun reka hann í framhaldinu. Síðan ræður hann Mark Huges – Sparky sem stjóra í þrjár vikur enda ferill hans ósegjanlega magnaður og hugmyndafræðin fengin að mestu frá Rúdolf Rauðnef.

  Torres fær hinsvegar að fara til Spánar á jóladag en neitar svo að koma til baka. Þetta verður svakalegt drama sem endist allan stjóratíma Sparky´s sem verður talinn í þeim klukkustundum sem eru í 13 sólarhringum. Þá mun Olíurúblugarkinn taka við liðinu sjálfur og Chelsky fellur með brauki og bramli í lok leiktíðar. Þetta er skelfileg framtíðarsýn ég viðurkenni það. En hvað get ég svo sem sagt. Ekki ræð ég þessu því miður sem betur fer.

  En sem sagt ég spái 1 – 3 á morgun og allir kátir nema sumir og það verður bara svo að vera er það ekki.

  Það er nú þannig

  YNWA

 23. Flott upphitun. Ég hef svo sem áður lýst því yfir að jafntefli á morgun væru fín úrslit. Svo verðum við að og taka gott run á heimaleikina (Southampton, Aston Villa og Fulham). Ættum að geta hirt þarna 9 stig (sem er þó engan veginn sjálfgefið). Deili áhyggjum margra hérna af þreytu lykilmanna. Verðum á einhverjum tímapunkti að hvíla Gerrard, Allen og Suarez. Svo verður flott að fá Lucas aftur, vonandi í næstu viku. Það verður þreyta í báðum liðum á morgun og auðvitað vinnur það með okkur að sjálfstraust Spurs er ekki upp á marga fiska um þessar mundir. Á móti kemur að okkur hefur gengið bölvanlega með Spurs í gegnum tíðina. Væri náttúrulega frábært að vinna þennan leik, það yrði heldur betur boost fyrir liðið. Koma svo LFC!!!

 24. Jón (#17) segir:

  WBA var ekki í Top 3 á síðasta tímabili.

  Ég meinti fyrstu þrjá heimaleikina. Mismælti mig. Fyrstu þrír heimaleikirnir voru City, Arsenal og United.

 25. BR á ekkert annað skilið en þolinmæði. Meðalaldur hópsins er sá yngsti í ensku deildinni. Við misstum líka reynsluboltana Bellamy, Kuyt og Maxi og það var ekkert sem hann gat gert í því. Einu mistökin hans var að fá enga aðra sóknarþenkjandi leikmenn inn í staðinn en það er örugglega hægt að kenna FSG að hluta til um það.

  Það eru stórefnilegir leikmenn að koma upp núna. Suso, Shelvey, Sterling, Wisdom og Jack Robinson eru allir leikmenn sem geta auðveldlega verið fastir byrjunarliðsmenn eftir 1-2 ár. Þá eru ótaldir aðrir mjög efnilegir eins og Yesil, Sinclair, Flanagan, Adorjan, Ibe og Teixeira. Framtíðin er ótrúlega björt en þetta tekur tíma og því þarf þolinmæði.

  Ég skoðaði stigatöflu á netinu þar sem búið var að taka tillit til allra dómaramistaka. Þar vorum við í 6. sæti deildarinnar (og United í 3. fyrir forvitna). Það er ekkert leyndarmál að dómar hafa alls ekki fallið með okkur þetta tímabilið, helstu skandalarnir eru auðvitað þegar Valencie henti sér niður í teignum á Anfield og þegar mark Suárez var dæmt af gegn Everton. Þessi 3 aukastig hefðu gert það að verkum að við værum í 8. sæti núna og í raun í mikilli baráttu um 4. sætið (ef maður hefur trú á að WBA gefi eftir á endanum).

  YNWA.

 26. Guð minn almáttugur förum að hætta þessu væli um dómarana. Ef og hefði….svona er þetta bara.

  You win some, you loose some !

 27. Ágætt að benda mönnum á það fyrir þá sem eru greinilega ekki með reglurnar á hreinu að “sóknarmaður skal njóta vafans” og það þýðir ekki að ef rangstaðan sé tæp að þá eigi ekki að dæma rangstöðu. Heldur tekur reglan einungis til ef dómarinn er í VAFA!

 28. Eru þið ekki að grínast? dómarinn er ekki með ljósmynd af atvikinu frá 2-3 sjónarhornum heldur sér hann þetta bara gerast á núll einni og vörnin að færast frá markinu og hann að markinu og hann þarf að taka ákvörðun á nokkrum sekúndubrotum. Fáránlega erfitt að dæma og í þessu tilfelli hafði maðurinn bara rétt fyrir sér

 29. 24 “Er spursari og veit ekki af hverju” Ég þurfti ekki að lesa lengra… 🙂

 30. Var aðeins að skoða síðustu tíu viðureignir milli þessara liða í deild á WHL. og við höfum unnið þrjá leiki, gert tvö jafntefli og tapað fimm. Alls ekki eins slæmt og ég hélt í fyrstu.

 31. Flott upphitun að vanda!

  Ég spái hröðum og opnum leik á morgun og ég hef góða tilfinningu fyrir honum. Er kannski óvenju bjartsýnn maður en ég tel að liðið okkar muni detta í gott rönn á næstunni. Mikið rosssalega verður það yndsilegt!! 🙂

  0-1 og you know who með markið á 56mín!

 32. Nú finnst mér byrjun á upphituninni farin að líkjast annsi mikið almennum skrifum um gengi Liverpool og aðeins of mikið af bölmóð farið að læðast inn. Babú er samt með afbrigðum góður upphitunar-pista-höfundur og upphitun fyrir Evrópuleiki er að jafnaði mörgum sinnum skemmtilegri og fróðlegri en þessi.

  Spái samt jöfnum leik á morgun, trúi á okkar lukku núna og1-2 sigur okkar manna (Skrtel og shelvey með mörkin). Áfram Liverpool!

 33. Ég segi bara eins og Ragnar Reykás sagði í London 1991: “Tottararnir eru lélegir, Tottararnir eru lélegir (sjá mínútu 2:43 í þessari klippu). Verst að Ragnar var stuðningsmaður ManU. Anyway, Púlarar vinna þennan leik (finn það á mér, mikill happadagur).

 34. Það er auðvitað ekki annað hægt en að koma með spá, Tottenham vinna 3-1. Ég er aldrei bjartsýnn fyrir leik á White Heart Lane. Suarez setur markið í stöðunni 2-0 en hverjir skora fyrir Tottenham er ég ekki viss um.

  Það er bara algjörlega á hreinu að staða Liverpool FC er alls ekki ásættanleg. Sammála Spurs manninum sem talar um að við séum að spila betri bolta en oft áður en okkur vantar greinilega fleiri vopn í sóknina, slúttara. Það verða eigendur að bæta strax í janúar, ekki með láni á Darren Bent sem ekki kemst hóp hjá Villa (er víst í slöku formi) heldur skal fjárfest í klassa manni/mönnum eins og t.d Huntelaar. FSG verða að sýna okkur stuðningsmönnum smá lit eftir klúðrið í sumar og koma með eitt til tvö góð “sign” núna í janúar.

 35. Varla hægt að hafa sama lið og í síðasta leik. Þar fjaraði allt út í hálfleik. Sé svosem ekki heldur hvaða breytingar er hægt að gera. Shelvey kannski inn í byrjunarliðið. Ég myndi hallast að tapi ef Tottenham væru ekki í ruglinu sömuleiðis. Eigum við ekki að segja 4-2 í bragðdaufum leik. Suarez, Enrique, Shelvey og Gerrard víti.

 36. Væri til í að sjá þetta lið í kvöld:

  Súarez
  Sterling—-Gerrard
  Sahin-Allen-Hendo
  Enrique-Agger-Skrtel-Johnson
  Reina

 37. @40 Hvernig gæti leikurinn mögulega orðið bragðdaufur ef hann færi 4-2? 6 mörk! Ég hef ekki séð svoleiðis leiki hjá Liverpool í deild lengi.

 38. Ok þessi þráður er ekkert sérstaklega upphitunar lengur, það er mál manna (annarra en okkar sófasérfræðinganna) að L,pool er vel spilandi lið, það vantar bara fleiri en Suarez til að klára. Ef við fáum meiðsla brassann okkar heilan í eins og hálft tímabil, kaupum kannski tvo í janúar þá verðum við í 4-7 sæti þetta árið.
  Hættum svo þessu stjóra- og dómaravæli. Minnir svolítið á 7 ára stelpur. Meira að segja hjá Chelsea fá menn meira en 5-6 leiki til að sanna sig en sumir hér inni vildu reka BR í september!
  Koma svo ekki tapa leiknum fyrirfram – Vinnum Tottenham í kvöld fair and square.

 39. Nr. 43 Róbert

  Ok þessi þráður er ekkert sérstaklega upphitunar lengur

  Blessunarlega ráðum við þessu nú nokkuð sjálfir hverju sinni. Var ég eitthvað að klúðra formúlunni?

  Hættum svo þessu stjóra- og dómaravæli. Minnir svolítið á 7 ára stelpur. Meira að segja hjá Chelsea fá menn meira en 5-6 leiki til að sanna sig en sumir hér inni vildu reka BR í september!

  Má bara ekki telja upp risaatvik í nokkrum leikjum þegar maður er að skoða fyrstu leiki tímabilsins? Allt í lagi að leiðast umræðan en róum okkur aðeins í að ýkja hlutina upp úr öllu valdi. Hver er að grenja hérna eins og 7 ára stelpa eða skrifa gengi liðsins eingöngu á lélega dómgæslu?

  Talandi um að ýkja hlutina þá hafa mjög fáir viljað reka stjórann þessa fyrstu mánuði hans í starfi. A.m.k. ekki það margir að það þurfi að gefa þeim of mikinn tíma hérna enn sem komið er. Að líkja okkur við stuðningsmenn Chelsea er bara kjánalegt enda afrekuðu þeir það núna í vikunni að vilja stjórann burt áður en hann byrjaði.

  Nr. 36 Anton

  Nú finnst mér byrjun á upphituninni farin að líkjast annsi mikið almennum skrifum um gengi Liverpool og aðeins of mikið af bölmóð farið að læðast inn.

  Aftur þetta er ekkert ein ákveðin formúla sem við bara verðum að fara eftir. Við erum að gera ca. 50-60 upphitanir á hverju tímabili og þær eru ekkert allar nákvæmlega eins. Þessi kom líka snemma og aðeins opnað á víðari umræðu.

  Hvernig þú lest of mikinn bölmóð út úr þessu skil ég ekki alveg þar sem hugmyndin var einmitt að reyna sjá aðeins ljós í myrkrinu, sem er ekkert of erfitt að gera. (Kalla það að vera í myrkrinu þegar maður horfir á Liverpool í 11.sæti þegar langt er liðið á tímabilið).

 40. Rólegur Babú ég er ekkert að sjá bara bölmóð út úr þessu öllu saman hjá þér en finnst kannski bera í bakkafullan lækinn að stönglast á 11.sæti og dómasa-mistök endalaust! Byrjunin á pistlinum er aðeins svoleiðis en annars flott upphitun. Horfum fram á veginn og vinnum þetta í kvöld. Áfram LIverpool!

 41. Heill og sæll Babú
  Ég var nú svo sem alls ekki að skjóta á síðuhöfunda eða þig. Heldur á skrifara/bloggara hér almennt. Hér er of mikil neikvæðni í gangi á meðan þjáningarbræður og systur sem styðja Liverpool gætu notað þetta kommentkerfi til að líta á það sem vel er gert. Dómarinn er ansi oft til umræðu eftir tapleik eða jafntefli en reyndar lítið þegar við vinnum. Eitt dæmi enn. Ég horfði á síðasta leik, ok fyrirliðinn var að margra mati ekki sannfærandi að margra mati eins og oft áður. Hann er samt í hópi 15 bestu í heiinum samkvæmt annarrra mati, það er ekki mikið skrifað um það.
  E ojæja, hver er nú byrkjaður að væla? 🙂
  takk fyrir mig

 42. nr 48
  hver í ósköpunum var að segja að Gerrard sé einn af 15 bestu leikmönnum í heiminum í dag?
  hann var kannski einn af 10 bestu fyrir 3 árum, en það eru 3 ár síðan.

 43. @49 Samkvæmt UEFA er Gerrard allavega einn af 15 bestu miðjumönum í Evrópu…

 44. @51 Það er útaf því að hann stóð sig vel með landsliðinu, Þið sjáið samt muninn þar og hjá Liverpool þar sem hann var með mörg assist útaf hann var að spila með betri leikmönnum. Það vissu allir að hann myndi ekki vera máttarstólpinn í þessu liði endalaust. Það sem er að gerast núna hjá honum er að hann er að verða eldri og er að reyna breyta hvernig leikmaður hann er, það ganga allir leikmenn í gegnum þetta og jafnvel Torres er búinn að vera ganga í gegnum þetta síðan hann meiddist og missti hraðann sinn í fyrstu tveimur metrunum. Sumir leikmenn ná þessu aldrei en við þurfum bara að bíða og vona 🙂

 45. heppnin er með ykkur GALLAS byrjar inná, vegna óvæntrar fjarveru Caulker. Þetta er bókaður sigur hjá ykkur því miður. Gallas á ekki séns í Suarez, Caulker hefði hinsvegar étið hann eins og á olympiu leikunum í sumar 😉
  En jæja boltin er víst svona, gengur ekki allt upp

 46. “Það eru leikmennirnir sjálfir sem kjósa en rúmlega 50 þúsund atvinnuknattspyrnumenn víðs vegar að úr heiminum greiddu atkvæði.”
  Skiptir litlu hvað þér finnst #49.

Jólaleikur Merkjavara og Kop.is!

Liðið gegn Tottenham