Liverpool – Wigan 3-0

Svona lagað gerist alls ekki nægilega oft: þægilegur og mjög öruggur Liverpool-sigur á Anfield. Afskaplega kærkomið og verður vonandi algengari sjón á næstu vikum og mánuðum. Liðið virðist smátt og smátt vera ná betri takti og svona sigrar eru partur af því.

Rodgers stillti upp áhugaverðu liði í dag þar sem Enrique var á vinstri kantinum. Vörnin var sú sama og þegar við héldum síðast hreinu (nokkra leiki í röð) og það skiptir mjög miklu máli fyrir leik liðsins.

Liðið var svona í dag:

Reina

Wisdom –Skrtel – Agger – Johnson

Allen – Gerrard
Sterling – Suso – Enrique
Suarez

Vörnin eins og hún hefur verið best á þessu tímabili, Reina kominn til baka úr meiðslum og Agger með þrátt fyrir tal um tveggja vikna meiðsl.

Fyrri hálfleikur var reyndar bara tímasóun og allt of kunnuglegur. Liverpool mun betra og meira með boltann og í færum en náðu ekki að skora mark. Suso komst einna næst því en hann var engu að síður tekinn af velli á 36. mínútu fyrir Henderson. Það var helsta umræðuefnið í hálfleik sem og hversu lélegur þessi leikur væri.

Pressan á Liverpool liðinu er farin að verða frekar áberandi og þá sérstaklega á Anfield þar sem allt virðist vera aðeins erfiðara heldur en á útivöllum.

Það er þó einn leikmaður sem er algjörlega ónæmur fyrir því og hann sá um að losa pressuna á 48. mínútu og eftir það var ekki aftur snúið. Raheem Sterling, sem verður betri og betri með hverri mínútunni sem hann spilar, stal boltanum af varnarmanni Wigan og komst óvaldaður upp að endamörkum, þar leit hann upp og sá Luis Suarez í teignum, renndi boltanum af yfirvegun á Suarez sem afgreiddi boltann af öryggi í netið.

Liverpool tók öll völd á vellinum eftir þetta og tíu mínútum síðar var Suarez búinn að bæta öðru marki við eftir frábæra sendingu inn fyrir frá Jose Enrique.

Spánverjinn kláraði leikinn síðan sjálfur á 66. mínútu er hann potaði boltanum í netið af markteig eftir frábæran undirbúning Raheem Sterling. Sterling tætti vörn Wigan í sig með léttum þríhyrning við Suarez og átti skot sem var varið út í teiginn á Enrique.

Henderson var mjög nálægt því að bæta fjórða markinu við stuttu seinna og raunar var þetta aðeins spurning hvort Liverpool næði að bæta við marki í restina. Það tókst ekki þrátt fyrir fjölda færa en góðum 3-0 sigri vel fagnað í leikslok.

Enginn tímamót að vinna Wigan 3-0 á Anfield en þegar við höfum ekki lagt þá í síðustu fimm leikjum liðanna er alveg í lagi að fagna smá. Þetta Wigan lið er annars ekkert svo galið og það var erfitt að brjóta þá á bak aftur í dag, ég held að þeir haldi sér nokkuð örugglega upp á þessu tímabili.

Næstbesti maður leiksins:
Það er tilgangslaust að ræða mann leiksins þessa dagana í Liverpool leikjum, það kemur bara einn til greina. En það er aðeins erfiðara að velja þann næstbesta, þeir sem gera tilkall eru Sterling, Enrique og Henderson að mínu mati.

Það er æðislegt að horfa á Sterling bæta sig sem knattspyrnumaður í hverri einustu viku, hann var mjög góður í seinni hálfleik í dag og er að ná vel saman við Suarez.

Henderson kom inná í fyrri hálfleik við litla ánægju stuðningsmanna Liverpool en hann kom með kraft á miðjuna sem gerði það að verkum að við náðum yfirhöndinni þar og Henderson spilaði mjög vel. Tippa á að hann fái mun fleiri mínútur á næstu vikum. Hann setur a.m.k. töluverða pressu á menn eins og Sahin og Allen sem hafa verið daprir undanfarið.

Ég verð samt að gefa mínum manni, Jose Enrique nafnbótina næstbesti maður leiksins í dag. Hann átti stoðsendingu og skoraði gott mark og var trekk í trekk til vandræða á vallarhelmingi Wigan. Hann er líka að vinna vel varnarlega og hraðinn sem hann býr yfir er eitthvað sem við getum notað. Það er ótrúlegt hvað hann getur spilað illa en ég ætla a.m.k. að njóta þess meðan hann er að spila vel eins og hann er að gera um þessar mundir.

En niðurstaðan kærkomin og örugg þrjú stig og mjög flott spilamennska í seinni hálfleik, það má byggja ofan á svona frammistöðu.

66 Comments

  1. 3 mörk – Búrið hreint og við græðum á dómaramistökum.
    Þetta gerist ekki á hverjum degi. Flottur leikur og erfitt að velja á milli Suarez og Enrique,

  2. Fyrri hálfleikur og seinni eins og svart og hvítt. Gott að það var til lýsi á Anfield í hálfleik. Enrique og Suarez menn leiksins.

  3. Virkilega verðskuldaður sigur okkar manna í dag, og sannfærandi.
    Eftir jafnræðis fyrri hálfleik tóku okkar menn öll völd um leið og flautað var til seinni hálfleiks.

    Margir leikmenn að gera flotta hluti í dag og í raun enginn að stíga feilspor.
    Sterling, Enrique og Johnson að spila verulega vel, en maður leiksins er að mínu mati snillingurinn okkar Suarez.

    Mjög flott að sjá Enrique að komast í formið sem við sáum hann í fyrir ári síðan, það munar um minna.

    Allt á uppleið : )

  4. Frábær sigur okkar manna á að vísu frekar slöku liði Wigan. Striker-inn okkar sá um 2 og maður leiksins Jose Enrique sá svo um þriðja markið.
    Brendan las leikinn hárrétt, eins og alltaf, og 3 sæt stig í höfn.
    Mjög sáttur með daginn, takk fyrir mig.
    Framtíðin er björt !
    YNWA.

  5. Eg vil bara bjoða Enrique hjartanlega velkomin til baka ur rumlega 10 manaða jolafriji. Frabær siðustu helgi gegn chelsea og svo algjorlega storkostlegur serstaklega i seinni halfleik i dag.

    Frabært svo að sja suarez gera tvo i dag og gaman að sja hvað hann er farin að vera yfirvegaður i færunum sinum.

    Djofull er gaman að vera til nuna 🙂

    Bara allir til hamingju með þennan dag, væri ekki leiðinlegt að enda þetta a að sja norwich klara man utd 🙂

  6. Góð spilamennska og varnarvinna allan leikinn. Var sáttur með frammistöðu Jones í markinu en eru ekki allir rólegri með Reina þarna?

    Bakverðirnir mjög flottir, Johnson og Enrique verða lykilmenn ef þeir spila svona áfram. Allt að gerast upp vinstri í fyrri hálfleik en svo kom sá hægri með í síðari.

    Góð spilamennska hjá miðjunni. Suarez er bara einn sá besti í heimi. Fyrra mark hans var sérlega vel klárað, því Sterling setti hann aðens of aftarlega við Suarez en þó ekki meira það að úr varð kraftmikið skot og flott mark.

    Maður spyr sig hvort Sterling sé látinn spila of mikið? Hann var reyndar mjög góður í dag.

  7. Flottur leikur hjá okkar mönnum. Suarez og Enrique klárlega menn leiksins. Í raun með ólíkindum hvernig staðan hjá okkur er í deildinni miðað við allt sem á undan er gengið. Það eru reyndar enn 8 stig í 4. sætið, en það er nú ekki mikið til að hafa áhyggjur af, enda WBA. Annars er ég alls ekki að gera kröfur um að 4. sætið náist, það væri bara flottur bónus 🙂 Margt mjög jákvætt í gangi og þrír sigrar og 4 jafntefli í síðustu 7 leikjum. Enginn spurning að BR er á réttri leið með liðið! Downing verður klárlega seldur í janúar og vonandi verslum við 1-2 framlínumenn til að minnka smá pressuna á Suarez. Ótrúlegt hvað er stutt í þessi lið sem við höfum verið að máta okkur við, þ.e. 2 stig í Tottenham, 4 stig í Arsenal og 5 í Everton og einungis 12 umferðir búnar! Vonandi fylgjum við þessum sigri eftir með góðu “rönni”. Full ástæða til þess að brosa í dag 🙂

  8. Loksis loksins komnir með mann á vinstir kantinn sem getur búið eitthvað til og ógnar framávið. Með hann og Sterling á köntunum kemur þetta hjá liðinu.

  9. Frábær sigur á frábærum tímapunkti, hefðum við tapað værum við á slæmum stað neðarlega í töflunni, en einn sigur og við erum allt í einu tveimur stigum á eftir tottenham og með góðu rönni núna í næstu leikjum sem að ég efast ekki um eftir spilamennsku liðsins í seinustu tveimur leikjum þá tel ég okkur fullfæra um baráttu um 4 sætið í vor!
    Svo má ekki gleyma að við eigum markahæsta leikmann úrvalsdeildarinnar í augnablikinu, Suarez með 10 mörk! Maður sér það að í staðinn fyrir að taka þetta einelti inn á sig undanfarin misseri og hengja haus þá ætlar Luis Suarez einfaldlega að svara fyrir sig inn á vellinum með boltanum! In your face haters……………

  10. Liverpool byrjaði deildina svona: 0 sigrar 2 jafntefli 3 töp.

    Síðan þá: 3 sigrar 4 jafntefli 0 töp. Taplausir í 7 leikjum, hefðum viljað sjá fleiri sigra í þessum 7 (hóstEvertonhóst) en þetta er allavega allt í rétta átt. Menn að skríða inn úr meiðslum og það styttist óðum í janúargluggann.

    Til samanburðar hafa Tottenham víst tapað 4 af síðustu 5 í deildinni og Chelsea, Everton og Newcastle töpuðu öll líka í dag. Við erum núna komnir upp fyrir Newcastle í deildinni og erum bara 2 stigum á eftir Tottenham og bara 5 stigum á eftir Everton í Evrópusætinu. Það er allur munurinn eftir þeirra bestu byrjun í áratugi og okkar verstu byrjun í áratugi.

    Og við erum með heitasta leikmann deildarinnar. 15 mörk og 6 stoðsendingar í öllum keppnum í haust – þrefalt húrra fyrir Luis Suarez.

    Ég er ekki að segja að það sé skyndilega allt dásamlegt hjá Liverpool. En þetta er klárlega á réttri leið.

    Ég ætla að brosa í dag.

    Já, og næstu tveir deildarleikir eru á útivelli gegn Swansea og Tottenham, liðunum í næstu sætum fyrir ofan okkur. Ég hlakka til.

  11. Fannst Allen vera slæmur þangað til að Hendo kom inná, fannst þeir ná ágætlega saman, Allen aftar á fullu og Hendo framar á fullu, varð miklu meiri pressa og við héldum miðjunni miklu betur.

    Gerrard var eins og hann væri á gúmmífótum stundum, nett þreyta í honum..

  12. Sælir félagar

    Maður vissi ekki hvert liðið var að fara í fyrri hálfleik. Frammistaðan var með þeim hætti að það hvarflaði að manni að sleppa bara seinni hálfleiknum því hvílíkt ömurlegur var leikur liðsins.

    Það var svo Suarez (hver annar) sem gaf tóninn í upphafi þess seinni og eftir það var bara eitt lið á vellinum. Sammála skýrslunni um menn leiksins og dásamlegt að sjá endurfæðingu Enrique sem er að verða alger martröð fyrir andstæðinga Liverpool.

    Frábær og vel þegin 3 stig í höfn og nú liggur leiðin upp á við það sem eftir er leiktíðar.

    Það er nú þannig

    YNWA

  13. “Enrique has more assist and goals in the Premier League as a winger in 90min than Stewart Downing has in the league since joining Liverpool”

    Hvaða galdramaður lét Enrique geta eitthvað í fótbolta aftur? Er ekki hægt að láta hann spjalla aðeins við Cole og Downing líka?

  14. Fyrri hálfleikur svona og svona, en þá fór allt í gang og er bara alsæll, eða þannig

  15. Ánægður að sjá hvernig framlínan er farin að vinna vel saman.Suso á eftir að verða frábær leikmaður,en á sama tíma gaman að sjá Henderson koma sterkan inná.Hann virðist vera með hausinn í lagi,þó að blási á móti þá heldur hann sínu striki æfir eins og óður og hlustar á þjálfarann.En sammála skýrslunni og lítið við hana að bæta KOMA SVO!

  16. Sæl öll.

    Til hamingju með þennan stórkostlega sigur. Hann er mun stærri í okkar hjörtum heldur en annarra því við höfum beðið svo lengi eftir honum. Ég trúi alltaf á sigur alveg þar til annað kemur í ljós og núna hafði ég sko rétt fyrir mér.

    Ég sá ekki leikinn ég var upptekin í 20 ára afmæli yngstu dóttir minnar en tilfinningin þegar ég frétti af þessum sigri var næstum þvi eins og þegar ég fékk dóttir mína í fangið fyrir 20 árum síðan. Gleðin var ólýsanleg og ég var svo stolt þannig leið mér líka í dag og vonandi upplifi ég þessa tilfinningu oftar í framtíðinni. Þar sem ég hætt að eiga börn eru það bara mínir menn sem geta framkallað þessa yndislegu tilfinningu.

    Nú er það bara rautt í glas, góður matur og að tala um þennan dásamlega sigur yfir matnum.

    Þangað til næst félagar

    YNWA

  17. þurfum klárlega að kaupa okkur stræker því allir sjá að Suarez er bara enginn markaskorari……

  18. þetta er nátturalega frábært að koma svona í seinni hálfleik, sem ég sagði við minn sessunaut en 3 stig, bara frábært..

  19. Hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að Enrique hafi frelsast í austurlöndum í seinasta landsleikjahléi.

  20. Gleði Gleði Gleði.

    Eitt sem gleður mig mikið og það er að við erum ekki lengur háðir góðum leiks Gerrards, áður fyrr þá unnum við sjaldan leik þegar Gerrard átti slæman dag, núna er hann búinn að eiga undanfarna leiki ferkar slæma,,,, en það hefur ekki skaðað okkur sem áður fyrr, Enriqui hefur verið mjög góður tvo leiki í röð,,, enn samt held ég að hann eigi ekki að vera ( vera settur aftur) barvörður hjá okkur eins og sýndi sig, henn getur verið góður framm enn er frekar dapur varnarmaður að mínu mati.
    Hlakka til næstu leikja okkar , ég hef trú á stefnu Brendan.

    YNWA

  21. commentators í enska að horfa á Norwich – Man utd. þegar gefnar voru 4 mínútur í aukatíma. Its Fergie time, he as done it again…

    Segir allt sem segja þarf um tak sir-sins á enska boltanum

  22. Við þurfum klárlega Framherja Suarez getur þetta ekki allt einn allt sessonið frábær leikur takk fyrir mig Liverpool 🙂

  23. Góður sigur, en Allah minn góður, við skulum passa okkur á því að missa okkur í gleðinni.
    ADHA liðið hérna gæti náð rock bottom hérna ef við myndum nú tapa bæði í Wales og Lundúnum.

    En, allavega, gaman að vera poolari í dag. Bæði unnum við góðan og öruggan sigur á Anfield auk þess að okkar helstu keppinautar voru að tapa stigum.

    Hvað leikinn varðar þá sá ég fyrri hálfleik afar takmarkað og mér skilst að ég hafi ekki misst af miklu.

    Hvað frammistöðu leikmanna varðar þá:
    Vörnin virkaði mjög solid. Man bara eftir einu stangarskoti hjá Wigan annað var höndlað mjög vel.

    Sammála manni hér að ofan með að Allen virkaði betri með Hendo á miðjunni og Hendo sjálfur var virkilega öflugur á miðjunni. Pressaði eins og moþþafokkah auk þess að maður sá ekki þennan passíva aumingja sem maður var orðinn vanur á að horfa. Gott hjá honum og haltu þínu striki.
    Gerrard má ekki spila tvo leiki í viku að því virðist. Virkaði orkulítill og sá maður sem minnst sást í leiknum.
    Jose, best að njóta þessa Jose á meðan því stendur. Skilst að talsvert sé í nýjan FIFA tölvuleik þannig að það gæti þá verið einhverjir mánuðir.

    Sterling bara vex með hverjum leik og maður er vongóður um næsta áratug ef hann heldur þessu áfram. Ekki taka Lee Sharpe á þetta Raheem!
    Luis Suarez…. bara snilld. Maður hefur verið þakklátur að hafa fengið þau forréttindi að geta fylgst með Kenny Dalglish, Ian Rush, Robbie Fowler og Steven Gerrard spila með uppáhalds knattspyrnuliði sínu. Nú nýtur maður þess að horfa á þennan SNILLING sýna listir sýnar. Gaman að horfa á varnarmenn andstæðinganna skjálfa í hnjánum vitandi það að þeir gætu verið á leiðinni á Youtube sem “Sökker dagsins” ef Suarez ákveður það……

    En allavega. Rantið búið og takk fyrir mig. Hlakka til næsta sunnudags í Wales.

  24. Ruddy er maður leiksins þegar Norwithc jarðaði erkifjendur okkar 🙂 .
    Næstum ÖLL úrslit í dag fóru þannig að við brosum út í bæði í kvöld.

    Skál kæru félagar, of lítið búið að vera af sigrum og réttum úrslitum en núna loksins gerðist það 🙂 🙂

  25. Held að skiptingin á Suso og Henderson hafi gert gæfumuninn. Flott mörk, og vonandi að þetta haldi svona áfram! Grunar að Rauðnefur vildi hafa Wisdom frekar en Rafael í hægri bak 🙂

  26. Frábær Úrslit í öllum leikjum dagsins.

    Ef ég hefði mátt velja úrslit allra leikja dagsins þá hefði þau orðið eins og þau urðu.

    Man utd tapaði gleði gleði.

    Everton tapaði gleði gleði gleði gleði endalaus gleði.

    Tottenham tapaði gleði gleði

    Newcastle tapaði gleði gleði

    QPR tapaði gleði gleði

    Trúir einhver því að ég sé GLAÐUR í dag.

    Áfram Liverpool

  27. BR virðist nota fyrri hálfleikinn aðallega til að lesa í mótherjann og ræðan í hálfleiknum byggir á þeim lestri. Allavega erum við að sjá þetta mynstur trekk í trekk þar sem liðið sýnir miklu betri seinni hálfleik. Væri gaman að sjá tölfræðina m.t.t. skoraðra marka í fyrri og seinni hálfleik.

  28. Við erum 2 stigum á eftir Tottenham og 4 á eftir Arsenal….. just sayin’

  29. Það er svo þægilegur skammtur af kommentum að lesa eftir sigurleiki. Vonandi heldur það áfram.

  30. Liverpool vinnur í dag, Man Utd. tapar……….just a perfect day 🙂

  31. þetta er bara æðislegur dagur. Ég ætla að njóta þess að vera LIVERPOOL stuðningsmaður alla næstu viku.

  32. Afhverju héldum við ekki Steve Clark? WBA í fjórða sæti….. vá

  33. Mér fannst Enrique og Glennarinn ná mjög vel samann á vængnum, enrique pressaði á eftir wigan mönnum þegar þeir ætluðu upp vinstri og Glen pressaði á móti og þeir náðu held ég ekki 1 sinni að gefa fyrir vinstra meginn. Klárt mál að Enrique á að vera vinstri vængur. Joe allen fannst mér allur koma til einhvern veginn eftir að hendo kom inná, þeir náðu ágætlega samann. Og svo er Suarez bara SNILLINGUR.

    héldum hreinu
    3 mörk
    3 stig

    Þreföld hamingja 🙂

    YNWA

  34. Ég sá í fyrsta skipti þann Henderson sem ég sá hjá Sunderland og var ástæða þess að hann var keyptur til Liverpool. Frábært að sjá hungrið og kraftinn í honum…hann var líka alltaf mættur í teiginn. Eitthvað sem Gerrard gerði ekki.

    Það er ekki hægt annað en að hrósa Brendan Rogers. Hann virðist vera með hlutina á hreinu eins og í dag. Hann sér að Gerrard er ekki í 100% formi og færir hann framar þar sem varnarvinnan er minni og Hendo kemur inn með rosalega vinnslu. En einn leikur er ekki nóg, við þurfum meira frá þessum efnilega leikmanni. En hann getur þetta allavega.

    Ef Brendan heldur áfram að ná sem mestu út úr mannskapnum á Anfield þá er ástæða til þess að lyfta glasi. Öfugt við undanfarin ár þar sem leikmenn virtust venja sig á að spila undir getu. Sagan um Enrique er auðvitað ótrúleg.

    Þetta var auðvitað “bara” Wigan á heimavelli en það er klárt að hann er á réttri leið með liðið. Þessi gæji á eftir að vera þarna í mörg mörg ár.

  35. Cavani til liverpool er ekki of gott til að vera satt heldur ALLTOF GOTT TIL AÐ VERA SATT.

    Hef akkurat ekki neina tru a að það se svo miki sem 1prosent til i þessu

  36. Fyrri hálfleikur var náttúrulega skelfilegur hjá okkar mönnum. Engin sköpun, héldum bolta illa og sköpuðum engin færi.

    Seinni hálfleikurinn var síðan allt annað. Náðum að knýja fram mistök hjá Wigan og skora og eins og Babú segir í skýrslunni, losuðum pressuna. Spiluðum vel eftir það, vorum síógnandi þótt færin hafi kannski ekki komið á færibandi í þessum leik.

    Eins og Kanill segir líka þá virðist Rodgers ná einhverju hungri út úr leikmönnum. Ég sé þetta þannig fyrir mér að hann hafi ákveðið að hvíla Sahin í dag þar sem hann hefur ekki spilað nógu vel upp á síðkastið, Shelvey átti í einhverjum meiðslum og því fékk Henderson tækifærið. Með því að “svelta” Henderson nær hann fram mikilli ákveðni, dugnaði og áræðni hjá honum. Sama má segja um Enrique. Hann lét hann heyra það fyrr í haust og með hæfilegu svelti nær hann sömu áhrifum. Ég veit ekki með Downing, hann hefur spilað þokkalega á köflum í vetur í Evrópudeildinni en það er undir honum komið að nýta þau tækifæri sem hann fær. Spurning hvort þeim tækifærum sé lokið.

    Ég velti líka fyrir mér hvort sama þurfi að gerast hjá Gerrard. Hann hefur verið slakur síðustu vikurnar og kannski er komið að því að fara að skipta honum út af á 60.mínútu ef hann spilar ekki nógu vel. Hann má ekkert verða heilagri en aðrir.

    Það borgar sig samt ekki að fara hamförum í gleðinni, við erum bara rétt um miðja deild og tveir erfiðir leikir framundan þar sem við náum varla í 6 stig, 4 væri góður árangur. Þetta er á uppleið og handbragð Brendan Rodgers er að koma smátt og smátt í ljós.

  37. Mikið gekk ég sáttur ùtaf Illunni í dag, Hósi maður leiksins og Sárus að sjálfsögðu alltaf jafn yndislegur – YNWA

  38. Eitt sem maður hefur tekið eftir, og sást svo greinilega í 2. markinu í dag, er að Suarez er snillingur í að taka á móti bolta án þess að snerta hann. Fær sendingu, lætur boltann fara framhjá sér, snýr sér við, og er kominn á ferð í áttina að markinu. Eru margir aðrir sem gera þetta jafnvel og hann?

  39. Hver er svo að segja að United hafi ekki unnið í dag?

    1: Sheffield United 4 – 1 Stevenage

    2: Colchester United 2 – 0 Bury

  40. Drengir, frábær leikur og það virkaði eins og bara allt gengi upp með liverpool. reina að sóla menn og ég veit ekki hvað og hvað, virkaði bara eins og við gætum gert hvað sem er og komist upp með það ! Ég veit ekki með ykkur en ég man varla eftir leik í langan tíma sem maður hefur haft þessa tilfinningu !
    Og djöfulli er gaman að horfa á Suarez þessa dagana, hann er ekki svona pirraður eins og hann var alltaf, kvartandi og kveinandi í dómörunum og eitthvað, núna bara spilar hann með bros á vör og skorar og skorar whats up with that ?

  41. Sá ekki leikinn í dag en er búinn að sjá “highlights” úr honum.. hverju var eiginlega sprautað í rassinn á Enrique? Hefur aldeilis tekið sig á!

    Flottur leikur hjá okkar mönnum og góð þrjú stig.

  42. Þetta var góð afmælisgjöf sem sonurinn fékk enda var hann á vellinum og fagnaði 25 ára afmæli sínu.

  43. Enrique að breytast í Bale, Luis “skorar aldrei” Suarez markahæstur, Pepe mættur, Lucas að detta inn, Cavani á leiðinni í janúar, taplausir í átta leikjum og bara 5 punktar í meistaradeildina (tel eðlilega WBA ekki með).
    Er einhver neikvæður hérna á síðunni? Com on lads!

  44. Frábær sigur í dag – fyrri hálfleikur reyndar drepleiðinlegur, en sá síðari mikið mun skárri. Flott spil í mörkunum þremur.

    Sammála mönnum með menn leiksins, Suarez, Sterling & Enrique.

    Svo er skemmtilegt til þess að hugsa, að Liverpool tapar gegn “skítaliðum” eins og WBA (vann Chelsea fyrr í dag), vinnur “þetta var nú bara” Norwich (unnu Utd í dag, Arsenal fyrir ekki svo löngu síðan á sama velli) og svo núna er þetta jú bara litla Wigan (sem sótti öll stigin á White Hart Lane fyrir 2 vikum síðan).

    Merkilegt nokk hvað sumir hverjir berjast við að tala (skrifa) niður allt sem klúbburinn gerir gott. 3 stig eru 3 stig, þau telja öll jafn mikið sama hvort þau komi gegn Utd, City, Norwich eða Wigan. Kanski eitthvað sem okkar ástkæri klúbbur mætti átta sig á, það eru ekki bara stóru leikirnir sem eru þess virði að mæta í.

  45. Það sem kom mér mest á óvart í leiknum var njálgurinn í Henderson, ef hann getur verið að pressa svona í leikjum þá hljótum við að vera í góðum málum. Svo er frábært að Enrique er kominn á blað hjá félaginu. Sterling og Suarez eru svo auðvitað aðalfákarnir þarna frammi. 17 ára gutti og Maradona, ágætis blanda.

  46. Sko nú eru menn að hitta á markið og nú verður ekki aftur snúið, tökum það sem eftir er,,,,ó já.

  47. Ég verð að segja að mér býður við roberto martinez í viðtali við hann þar sem hann heldur því fram að SUAREZ hafi viljandi þrampað á löppina á leikmanni wigan. Enn heldur þetta áfram hjá framkvæmdastjórum þar sem þeir reyna allt til þess að draga athyglina frá því hvað Suarez er ótrúlega góður leikmaður, og hann er seinn í eitt návígi og þá er allt vitlaust, heimtar rautt spjald og ég veit ekki hvað. Einnig afsakar roberto sig með því að wigan hafi verið með svo marga leikmenn að spila landsleiki í miðri viku, ( bíddu hvað voru margir Liverpool leikmenn að spila landsleiki).

    Sú litla “virðing” sem ég hafi fyrir þessum stjóra er algjörlega horfinn og fyrir mér er þetta bara enn einn vitleysingurinn, eins og eigandi wigan.

    Respect til BR sem talar alltaf af virðingu um andstæðinginn, eins og Liverpool er venja er hjá stjórum LFC.

  48. Mér finnst að við ættum að hætta að tala um Raheem Sterling og tala bara um “young Raheem” eins og meistari BR.

  49. Já Young Raheem er heldur betur að styrkjast sem leikmaður með hverri vikunni og það virkar ógnvekjandi fyrir andstæðingana að mæta honum. Ekki myndi ég vilja fá það erfiða hlutverk að halda honum í skefjum hehehe…

    Annars er ég búinn að liggja yfir video-um eftir leikinn þar sem ég missti af leiknum og ég get ekki lýst því með orðum hvað ég er ánægður með gærdaginn. Þetta virðist allt að vera smella núna!

    Ef við lítum yfir deildina að þá erum við ekki búnir að tapa í 7 síðustu leikjunum okkar og síðasta tapið var ránið mikla á móti manjú. Einn mesti dómaraskandall sem ég hef orðið vitni af á minni tíð. Ef það hefði farið eðlilega að þá værum við ekki búnir að tapa í síðustu 9 leikjum. Vissulega of fáir sigrar og of mörg jafntefli en þau tikka þegar sigrarnir koma og þeir munu koma!

    Annað áhugavert hef ég tekið eftir að Liverpool er yngsta liðið í deildinni samkvæmt listanum inni á Official síðunni okkar. Það er ekki amalegt OG svo styttist í janúar gluggann ásamt Lucas til baka.

    Við erum með sókndjarft lið sem vex með hverri vikunni og við erum með klókann og metnaðarfullan þjálfara sem virðist vera tilbúinn að fórna heilsunni fyrir liðið okkar. Það er eitthvað sem ég tel ómetanlegt. Við erum með besta sóknarmann deildarinnar og You Know Who er svo sjóðheitur að það rýkur úr honum þegar hann er inni á vellinum!

    Svona á að gera þetta:
    http://www.youtube.com/watch?NR=1&v=TspYx7EaF5A&feature=fvwp

    Ég sé enga ástæðu til að vera með einhverja minnimáttarkennd gagnvart öðrum liðum. manjjú, tottenham, chelskí, everton og fleiri gerðu í brók um helgina og þetta er langhlaup. Ég er alveg fullviss um að við erum með réttan þjálfara sem mun fara langt með okkar lið á meðan hann hefur vinnufrið og auðvitað fær að koma sínum hugmyndum fram með leikmannakaupum og öllu sem því fylgir. Það kemur örugglega og verður betra með tímanum enda er verið að hreinsa upp óþarfa eyðslu núna. Síðasta rykkornið er Joe Cole sem við þurfum að losa okkur við. Væri frekar til í að nota þá peninga í að greiða ungu strákunum hærri laun.

  50. Svavar Station ….linkurinn vísar í Celtic stuðningsmenn að syngja um sitt félag???

  51. Já það er rétt hjá þér, ég hef greinilega hent inn röngum link. Engu að síður frábærir stuðningsmenn sem vinaklúbburinn okkar hefur þarna… Usss! 😉

  52. Enn ekki náð að horfa á allan leikinn, sá bara síðustu 35 og var við hliðina á Steina þegar Enrique skoraði og setti leikinn í 3-0. Fyrir þá sem ekki nenna að hlusta á allt síðasta podcast var þetta nákvæmlega spá meistara Brynjólfssonar!!!

    Ég var gríðarlega sáttur að sjá að Brendan lét Sahin horfa á þennan leik og mikið var gott að sjá Henderson svona öflugan. Hef mikla trú á þessum strák og vona innilega að hann fái séns áfram á næstu vikum.

    Annars er allt komið fram hér sem þarf, mikið vona ég að þessi sigur gefi liðinu aukið sjálfstraust og bara gott að sjá Martinez pirraðan eftir leik. Einmitt vinur, þú valdir það að vera hjá Wigan í stað þess að ræða við LFC. Það var skynsöm og góð ákvörðun hjá þér…….fyrir okkur!!!

  53. Brendan Rodgers lét eftir sér fyrir ekki svo löngu að hann væri óánægður með framlag sumra leikmanna liðsins. Enga vísindamenn þurfti að sjá við hverja hann átti (Downing, Enrique ofl) og meðal annars gagnrýndi hann Downing opinberlega. Downing gagnrýndi BR fyrir að gagnrýna sig og augljóslega sér maður hvert það hefur skilað honum. Á meðan hefur Enrique litið í eigin barm, brotið sér leið inn í liðið og spilar nú betur en nokkru sinni.

    Nú kallar maður eftir því að fá að sjá úr hverju fyrirliði liðsins er gerður, en að mínu mati hefur hann verið sérlega slappur undir stjórn BR, (eins og hann var reyndar líka á lokaári Benitez og í valdatíð Hodge og Dalglish).

  54. Ég myndi nú ekki afskrifa alveg Downing. Það eru ennþá 2 mánuðir í janúar og hópurinn okkar er frekar beyglaður. Hann er skásti kosturinn okkar að mínu mati með Johnson og Enrique þarna vinstra megin. Kaup á sóknarmanni er náttúrulega möst en vinstri bakvörður hlýtur að vera á listanum líka, nema að ég sé svona gamaldags og Johnson er framtíðarmaður vinstra megin.

Liðið gegn Wigan

Opinn þráður – Tom Werner um janúargluggann