Dómgæslu hugleiðingar

Dómgæsla í fótbolta er oft það sem mest er talað um eftir leiki helgarinnar á Englandi og víðar. Lengi hefur verið talað um það hvernig megi bæta hana þannig að stór vafaatriði verði rétt dæmd og að slæmar ákvarðanir vegi minna í úrslitum leikja. Ég rakst á pistil um daginn á vefsíðunni 433.is sem mér finnst gott dæmi um það á hversu miklum villigötum þessi umræða oft er. Ég ætla að fara aðeins yfir mína sýn á þessum málum og ég ákvað að gera það núna, í stað þess að gera það þegar allt var vitlaust fyrir stuttu síðan vegna fjölmargra hrikalegra ákvarðana á einni helgi sem réðu úrslitum í nokkrum stórum leikjum.

Í þessari grein kom einmitt þessi punktur sem UEFA hefur oft flaggað þegar þessi umræða ber á góma. “Fegurðin við fótboltan felst í því að leikurinn er spilaður eins á Eskifirði og Old Trafford”. Þetta er auðvitað rakalaust bull þegar kemur að þessari blessaðri dómgæslu. Staðreyndin er sú að fótboltinn er ekkert spilaður alls staðar eins og það getur verið stór munur þar á. Er það sama t.d. uppi á teningnum þegar kemur að yngri flokkum vs. þeim eldri? Nei, þar er oft á tíðum aðeins einn dómari sem dæmir heilu leikina. Í Evrópukeppnum eru þeir 6 (með aukadómaranum). Er uppbótartími t.d. gefinn upp á spjaldi á Eskifirði? Nei, og þar eru heldur ekki fjórði og fimmti dómari. Þannig að þessi rómantíska setning á bara hreinlega ekki við, enda er umgjörðin gjörólík á Old Trafford og á Eskifirði og langt frá því að það sé jafn mikið í húfi.

Greinarhöfundur skilur samt vel að marklínutækni verði tekin inn, hversu langt haldið þið að sé í það að hún verði kominn á Eskifjörð? Það er einmitt málið, marklínutækninni er ætlað að hjálpa til við það að dómarar geti tekið réttar ákvarðanir. Eru dómarar á Eskifirði með fjarskiptabúnað þar sem þeir geta talað við hvorn annan og tekið ákvarðanir saman? Nei, ekki mér að vitandi. Í rauninni var það þannig fyrir stuttu síðan að aðeins einn dómari hér á landi hafði slíkar græjur og þær átti hann sjálfur. Allt þetta er verið að taka inn í leikinn til að auðvelda það að réttar ákvarðanir séu teknar, eru menn virkilega á því að það skemmi þessa fallegustu íþrótt í heimi? Í alvöru? Það er bara draumsýn og langt frá veruleikanum að leikurinn sé eins spilaður á Old Trafford og á Eskifirði, sér í lagi það sem snýr að málefnum dómgæslunnar, þeir sem halda öðru fram eru einfaldlega að ljúga að sjálfum sér.

Menn verða að sníða stakk eftir vexti og þar sem ekki er hægt að nýta sér tæknina, þá er bara einfaldlega ekki hægt að nýta sér hana. En þarf það endilega að þýða það að fyrst ekki er hægt að gera ákveðna hluti á Eskifirði að þá eigi heldur ekki að gera slíkt í úrslitaleik HM (hættur að nota þetta Old Trafford dæmi úr greininni)? Nei, að sjálfsögðu á að reyna að aðstoða þá sem mest sem eiga að dæma þessa leiki. Fegurð fótboltans byggir ekki á því að rangar ákvarðanir séu teknar sem geta ráðið úrslitum leikja eða þess hvort að leikmenn lendi réttilega eða ranglega í leikbönnum. Leikurinn heldur fegurð sinni og rúmlega það ef fjöldi réttra ákvarðana eykst. Þess vegna fagna ég mjög marklínu tækninni. Hana er verið að gera með það að leiðarljósi að rétt ákvörðun þar verði tekin á augabragði og þar tel ég einmitt kjarna málsins vera.

Í stærstu keppnunum í dag er búið að bæta við tveimur auka dómurum sem eru staðsettir við endalínurnar, gott og vel, betur sjá ennþá fleiri augu en bara augu. En af hverju væri t.d. ekki hægt að staðsetja þessa tvo aukadómara í sæti við hliðina á aukadómaranum á bekknum? Hafa þá alla þrjá í sætum með skjái fyrir framan sig þannig að þeir gætu yfirfarið atriði nánast um leið og þau gerast? Myndi það hægja á leiknum? Nei, held ekki. Í dag eru þessir aðilar hvort eð er í beinum samskiptum í gegnum þar til gerðan búnað. Aðaldómarinn gæti því spurt viðkomandi aðila strax út í einhvern ákveðinn hlut sem gæti skipt sköpum í leiknum. Eitt kall í kerfið, svar tilbaka og það tæki minni tíma heldur en það tæki að veifa burtu óánægðum leikmönnum og reikistefnu úti á vellinum. Þetta yrði sem sagt alltaf ákvörðun dómarans sjálfs, ekki liðanna eða annarra þátttakenda í leiknum. Með þessu móti gætu þessir þrír á bekknum skipt með sér verkum og verið búnir að sjá atvikið mun betur á örskots stundu.

Ég er nefninlega alls ekki fylgismaður þess að taka upp svipað kerfi og gengur og gerist í Bandarískum íþróttum. Ég hef einmitt nánast hætt að fylgjast með þeim vegna þess hversu mikið er um hlé og tafir þar. Ég er ekki á því að liðin geti pantað endursýningu með þar til gerðum töfum, leikurinn þarf að fá að fljóta áfram, það er einmitt eitt af því sem gerir fótboltann jafn yndislegan og raun ber vitni. Við þurfum nefninlega að reyna að viðhalda því fram í rauðan dauðann, en samt sem áður að reyna að aðstoða dómarann við að taka sem réttastar ákvarðanir. Þessi aðferð yrði aldrei 100% örugg og yrði ekki notuð í hvert skipti sem leikbrot á sér stað, heldur yrði hún notuð þegar dómarinn er að meta það sem svo að um stórt atriði sé að ræða sem gæti haft mikil áhrif á gang leiksins. Áfram yrði sem sagt treyst á dómarann sjálfan, það væri bara verið að auka aðstoðina við hann.

Dómarar eru nefninlega í þessum bransa af metnaði. Ég veit það að þeir hafa metnað fyrir því að ná sem lengst, hvort sem það sé dómari sem dæmir leiki á Eskifirði eða dómarar í ensku Úrvalsdeildinni sem eiga sér þann draum heitastan að dæma stóran úrslitaleik eða í lokakeppni stórmóts. Ég er líka sannfærður um það að dómarar væru glaðastir manna ef þeir fengju aðstoð við að taka sem réttastar ákvarðanir, þannig komast þeir áfram og upp metorðastigann og þeir vilja fara í gegnum leikina með sem minnst af mistökum á bakinu, alveg eins og leikmenn liðanna sem spila á vellinum. Fótboltinn tekur breytingum og sem betur fer eru þær yfirleitt til góðs. Ég efast um að nokkur fótboltaaðdáandi myndi vilja snúa aftur yfir í það að gefa megi tilbaka á markvörðinn, það var virkilega flott breyting. Það að geta aðstoðað við að gera dómurum mögulegt að taka sem réttastar ákvarðanir í stærstu atriðunum, án þess að það hafi teljandi áhrif á flæði leiksins, myndi líka verða það í þeim tilvikum sem það er hægt.

If it ain’t broken don’t fix it er gott og gilt, en er samt ekki um að gera að lagfæra það sem er í raun broken ef möguleiki er á?

47 Comments

  1. Frábært og ég er 100% sammála.

    Þess má til gamans geta að fótbolti er ekki meira eins, en svo að á sumum stöðum er spilað á grasi, öðrum möl og sumum gerfigrasi. Á sumum grasvöllum er fullt af holum og þúfum og á öðrum er vel hugsað um grasið þar sem það er slétt og fallegt. Vellir eru ekki jafn stórir og mörk jafnvel ekki úr sama efni! boltarnir úr misjöfnum efnum sem hefur áhrif á hraða hans og flug, og að ekki sé talað um að í englandi eru í húfi milljónir á milljónir ofan fyrir sigur eða tap en á eskifirði er lítið annað en ánægjan í boði fyrir að vinna leiki. Ef peningar væru til staðar á eskifirði myndu þeir líka nýta nýjustu tækni í að gera fótboltann betri, en þeir hafa bara ekki efni á því. Það gerir enska úrvalsdeildin hinsvegar og gott betur! Því er einnig mjög mikilvægt að vafaatriði séu rétt í sem flestum tilfellum en ekki að slúðurpésarnir séu uppfullir af röngum ákvörðunum og væli í kringum það, helgi eftir helgi. Það gerir boltann hvorki skemmtilegri né fallegri!

  2. Er mjög sammála pistlahöfundi og hefur lengi leiðst þessi þvæla um að fótbolti sé eins á Eskifirði og á Old Trafford (eða hvaða veli sem menn vilja setja þarna í staðinn). Enda réttilega bent á að umgjörð og dómgæsla er alls ekki eins á þessum tveimur völlum. Eins er það óþolandi að lið skuli tapa leik, og missa þar með af stigum eða falla úr keppni, vegna þess að dómari sér ekki brot/telur sig sjá brot/er fífl. Að sama skapi er ekki nokkur glæsibragur yfir því að vinna leiki á þennan hátt. Einnig er það ömurlega lúin tugga að “þetta jafnist út með tímanum” – veit ekki með ykkur en ég trúi ekkert sérstaklega á “karma”, slík trú virðist vera grundvöllur þessarar fullyrðingar.
    En erum við ekki að fara aðeins framúr okkur hvað varðar upptökur? Nú hef ég ekki neina sérþekkingu á upptöku- eða útsendingastjórn, en hef grun um að hún sé alfarið í höndum tæknimanna á vegum þess er keypt hefur sjónvarpsréttinn. Einshver útsendingastjóri er til staðar og hann getur (væntanlega) handstýrt því sem sýnt er – hvaða leikmaður er í player cam o.s.frv. M.ö.o. þá er ekkert (í dag) sem tryggir að upplýsingar (myndbrot) séu un-biased. Ekki óyfirstíganlegt vandamál, en þarna verður að vera öryggisventill. Sem þýðir meiri kostnaður og meira umstang og hugsanlega leiðinlegri útsending.
    Vona samt að af þessu verði.

  3. Hvers á eiginlega Eskifjörður að gjalda?

    Ég gæti ekki verið meira sammála greinarhöfundi. SSama hvernig ég sný mér get ég ekki skilið þessa umræðu. Get ómögulega séð það að fleiri vafaatriði í dómgæslu skemmi á einhvern hátt leikinn. Lykilatriðið er að leikurinn fái að fljóta. Með því að hafa dómara á bekk með skjá er hægt að tryggja það. Þetta mun ekki koma í veg fyrir öll mistök en svona regla myndi fækka þeim verulega.

  4. Amen eftir efninu.

    Besta sjónvarpsefni í heimi á skilið að leikir séu ekki skemmdir af ákvörðunum sem hægt væri að leiðrétta og dómari myndi vilja að yrði breytt.

    Þetta er svo alls ekki spurning um hvort heldur bara hvenær…

  5. Alveg sammála því sem sagt er í pistlinum og eitt sem ég hef einmitt tekið eftir er að þeir sem eru á móti myndavélatækni koma alltaf með þau rök að þá sé verið að eyðileggja “það sem gerir fótboltann svo skemmtilegan”. Mér finnst það þvílíkt bull.

    Margir kalla fótboltann hina fullkomnu íþrótt, en hann er það bara alls ekki. Það er margt sem þarf að laga og stærsta vandamálið er dómgæslan. Það er alveg ótrúlegt að menn séu ekki byrjaðir að nota tæknina til að hjálpa veslings dómurunum, nú þegar við lifum á tímum mikilla tækniframfara.

    Ég er 100% fylgjandi marklínutækni, og jafnvel, eins og bent er á í pistlinum, að hafa þessa þrjá menn úti við hliðarlínu, en aðeins ef það væri hægt að nota þá án allra tafa á leiknum.

  6. Hjartanlega sammála. Þessi leið sem Ssteinn bendir á er góð, það þarf raunar ekki svona nefnd til að gera úrskurð um hvað skal dæma hverju sinni. Einn aukadómari sem þegar er að störfum við leiki getur hæglega leyst þetta mál. Og fyrst Maggi dómari er sammála þá er þetta engin spurning. En samt, hefur þetta eitthvað verið rætt á vettvangi dómara hérna á Íslandi? Væri hægt að gera þetta í Pepsi-deildinni t.d? Þar er nú ekki alltaf augljóst á upptökum hvort um sé að ræða rangstöðu eða mark eða rautt eða slíkt.

  7. Rangir dómar fara oft langt með að eyðileggja leiki fyrir liðum eins og t.d. í manu leiknum og Everton leiknum, svo ekki sé nú talað um þennan leik hérna á móti Fulham.

    Þess vegna verður að fara að taka tæknina í gagnið.

  8. Afsakið þráðarán en ég er að fara kaupa sport pakka hjá stöð 2 borgar sig að kaupa stærri pakkan?? með fyrir fram þökk 🙂

  9. Einfaldasta lausnin er að fækka myndavélum og þá verður erfiðara að sýna vafatriðin 🙂 Hugsið ykkur, þið sem eruð komnir til vits og ára ef við fengjum bara leikina í gegnum 1 – 3 myndavélar eins og í denn. Dómarar gætu mætt brosandi heim í faðm fjölskyldunnar eftir leiki og við gætum rætt um fótboltan sem slíkan en ekki alltaf bara vafaatriðin. En hvað veit ég……….. 🙂

  10. 100% sammála greinarhöfundi. Burtu með þessa endalínudómara sem dæma hvort eð er aldrei neitt og upp í stúku með þá fyrir framan skjáin. Nenni nú ekki einu sinni að ræða þessa fíflalegu hugmyndafræði sem sumir halda fram að fótbolti eigi allsststaða að vera spilaður við nákvæmlega sömu aðstæður – einhver hallærsilegasti frasi sem komið hefur fram. Miklu skemmtilegra að ræða um leikina heldur en alla röngu dómana sem eru að ráða úrslitum í mörgum þessara keppna. Ég t.d. trúi því að tjallarnir hefðu tekið þýska stálið á sýnum tíma hefði mark Lampard staðið og þá væri fótboltasagan önnur en hún er. Líka ef marka Maradona hefði ekki staðið o.s.frv.

  11. Þarf ekkert að henda inn einhverri tækni í fótboltann, FA á bara að setja hærri standard. Kannski spurning um að fá nokkra dómara frá Þýskalandi og kenna þeim eitt, tvö trix.

  12. Þetta er gáfulegasta pæling um þessa dómara tækni sem ég hef lesið. Mjög flott. Sendu þetta á Blatter og Platini eða hvað þeir heita þessir kallar.
    Og… If it aint broken don’t fix it Mýtan er hættulegasta orðatiltæki sem til er. Ávísun á stöðnun og hreinlega afturför!

  13. Til hvers villtu hafa þrja gaura við þessa skja? Er ekki nog að einn maður sem kann reglurnar skoði endursyninguna einu sinni og lati vita i gegnum kerfið hvað se rett eða rangt?

    Mer mundi að visu finnast alltilagi lika að hver þjalfari gæti latið stoppa leikinn einu sinni i hvorum halleik ef hann vildi lata skoða eitthvað betur, þa mundi hann bara vera þed eitthvað spjald sem hann mundi retta 4 domara, leikur stoðvaður, tekur kannski eina til 2 minutur en svo haldið afram.

    Lyst annars ekki illa a utfærsluna hans steina en se engan tilgang i að hafa 3 gaura að skoða skjaina.

  14. Fótbolti er besta íþrótt í heimi, við getum allir hérna verið sammála um það.
    Stór partur af því er sá að við getum endalaust talað (og rifist) um leiki. Ég vill meina að það sé ekki til sú íþrótt sem menn geta talað jafn mikið um og hvert einasta smáatriði er greint í þula. Við erum t.d. hér inni alla daga og hlustum svo á podcöst (sem væru mun færri án vafaatriða) þegar við erum ekki við tölvu.
    Dómaramistök eru stór hluti af fótbolta, alveg eins og mistök leikmanna á vitlaus ákvörðun þjálfara. Fótbolta áhugamenn hafa rifist um hendi guðs, markið hjá Garcia og milljón önnur atvik sem gera einmitt umgjörðina í kring um leikinn skemmtilegri. Auðvitað hef ég verið brjálaður yfir ruglinu sem gerðist á Goodison, vítinu sem manutd fékk á móti okkur ofr. en ég er samt einn þeirra sem vill fara MJÖG varlega í að breyta leiknum. Mín rök eru samt ekki þau að fótbolti ætti að vera eins allstaðar, enda er hann það ekki, en það sem ég er hræddur við er að fótbolti missi sjarman. Ég meina hvaða afsökun eigum við að hafa í daglegu riflildi við óvini okkar þegar við getum ekki kennt dómaranum um stöðu okkar í deildinni?

  15. Hafið þið heyrt eitthvað um þessar stóru fréttir sem eiga að koma í blöðunum á morgun? Eitthvað tengt leikmannamálum Liverpool? Twitter logar af hræðslufréttum.

  16. Ok, það virðist vera að fréttin sem um ræðir sé Suarez til Man City, þeas City vilja fá Suarez fyrir 40Mpunda.

    Finnst rétta að taka það fram að mér sýnist að þetta sé ekki innantómt slúður því þetta er frá traustum blaðamönnum. Nú er bara spurningin hvort að FSG vilji selja og hvort Suarez gæti hugsað sér að yfirgefa Liverpool.

    Janúar glugginn verður risa stór fyrir okkur!

  17. En er ekki bara málið að taka því tilboði? Það væri þá hægt að kaupa Andy Carroll frá West Ham… nei bíddu…

  18. Góður pistill.

    Ég er einn af þeim sem er ekkert sérlega hrifin af því að taka upp myndavéladómgæslu. Marklínutækni endilega takk!!!!!

    Það sem ég spyr hinsvegar oft að þegar verið er að ræða dómgæslumál er afhverju eru ekki settir tveir dómarar inn á völlinn? Það virkar í handbolta, körfubolta og fleiri íþróttum… afhverju ekki fótbolta?

    Èg er þá ekki að tala um að það eigi að vera einhver sérstök verkaskiptin heldur dæma þeir bara saman og skiptast á að vera á mismunandi svæðum. Ég held nefnilega að hluta til sé vandamálið það að einn maður hefur í raun öll þessi völd. Bæði er erfitt fyrir hann að, í fyrsta lagi sjá allt, í öðru lagi að þurfa að taka ákvörðunina einn og í síðasta lagi mögulega þurfa að verja ákvörðunina einn. Þetta er ekkert disrespect fyrir starfi línuvarða, en þeir eru bara of bundnir á ákveðnu svæði og þeir eiga að sjálfsögðu að vera áfram.

    Bara pæling

  19. Get ekki verið meira sammála því sem stendur í þessum pistil. Magnað að það skuli ekki búið að taka þetta upp árið 2012 og bráðum 2013. Mikið svakalega yrði ég ánægður að þurfa ekki að tala um vafasama dómgæslu sem breytir gang leikja og jafnvel eyðileggja þá. Íþróttin hefur þróast, er svakalega hröð. Öllu er sjónvarpað og hærri upphæðir í húfi en ég vill hugsa um sem eru í húfi. Dómarar myndu líklegast vera manna ánægðastir með þessar breytingar myndi ég halda.

  20. Ef að FSG selja suarez til city eða chelsea fyrir 40-60 eda jafnvel 80 milljonir þa mum eg ekki kvarta þott einhver snillingurinn kveiki i husum þeirra henry og werner með þa innamborðs.

    Gleymið þvi að eg meiki annað eims bull og fyrir 2 arum þegar chelsea tok torres korteri fyrir lok gluggans.

    Djok arsina er samt ef þeir mundu bjoða 40 milljonir punda i besta leikmann deildarinnar og einn af þeim allra bestu i heiminum. Þetta er ekki umjigsunarvert að minum domi nema að liðið se ekki fra englandi og tilboðið se heimsmet eða yfir 80 milljonir punda

  21. Ég held að þessi útópía gangi ekki upp.

    Ef þrír aðilar horfandi á sjónvarpsskjá þarf að taka ákvarðanir á´svipstundu, án þess að fá endurtekningu, eins og Steini vill þá færðu áreiðanlega mýmörg dæmi um að menn komist ekki að niðurstöðu; eru ekki sammála.

    Það er ennþá verið að rífast um atvik eins og þetta:
    http://www.youtube.com/watch?v=VTxl799Q2t4
    Hvernig eiga þrír dómarar við skjá og einn á velli að geta komist að niðurstöðu á örskotsstundu í svona dæmi?

    Ég er orðinn sammála marklínutækninni eftir að hafa verið í margra ára mótþróa. Hins vegar er ég alveg sammála Steina að það má ekki fara koma með einhver challenge; fegurðin við fótboltann er einmitt flæðið.

    Tvennt vil ég aftur á móti sjá:

    Annars vegar hugmyndina hans Graham Poll, að leiktíminn í knattspyrnu verði líkt og í körfuknattleik. Tíminn stoppar þegar boltinn er ekki í leik. Þetta myndi draga mikið úr töfum og flæðið myndi batna.

    Hins vegar að afnema vítaspyrnur og gefa bara óbeina aukaspyrnu fyrir brot innan við einhverja bogalínu sem væri á svipuðum stað og núverandi vítateigur. Vítaspyrna er of afgerandi refsing fyrir mörg brot sem eiga sér stað og dómarar verða því ragir að dæma fyrir hluti eins og áflog í hornspyrnum en það vandamál fer sífellt versnandi. Hver er lókíkin í því að dæma vítaspyrnu þegar leikmaður er á leið út úr vítateignum og andstæðingur fellir hann?

  22. maður hefur margsinnis séð og heyrt fólk tala um að rautt spjald og víti (á aftasta mann) sé of mikið en þegar ég spyr viðkomandi fólk á móti ef sama brot væri utan teigs þá geta þau ekkert sagt.

    20 talar um tveggja dómara kerfi. Hver ætti þá að ráða ef dómararnir væru ósammála? Ætti að hafa þá á sitthvorum helmingnum?

    Mundi fólk vilja að leikmaður færi útaf í 5-10 mín ef viðkomandi fengi gult spjald?

  23. Skemmtileg umræða. Ég held að það hljóti allir að vera sammála um að rétt ákvörðun dómara sé alltaf það sem er best fyrir leikinn. Ef hægt er að koma því við án þess að tefja leikinn óþarflega mikið, þá á án nokkurs vafa að gera það.

    Rök eins og “þetta er hluti af leiknum og það er svo gaman að hafa eitthvað til að tala um jarí jarí jarí…” er þvílík endalaus vitleysa. Ég hefði haft miklu meira gaman að tala um glæsilegt sigurmark Luis Suarez gegn Everton en þessa bull dómgæslu sem hafði af okkur markið.

    Og þó svo að það taki einhverjar sekúndur að fá niðurstöðu í það hvort um rangstöðu/brot/mark hafi verið að ræða, þá er það bara ekkert mál í samanburði við tafir vegna mótmæla leikmanna eftir svona rugl dóma. Ég er sannfærður um að það sé hægt að gera þetta á einhvern hátt sem ekki tefur leikinn með þeirri tækni sem er til staðar í dag.

    Ég vill mikið frekar fá rétta dóma sem oftast heldur en einhverja controversial drama bull dóma sem breyta stórum leikjum eins og Everton-Liverpool 2012, England – Þýskaland á HM 2010 osfrv.

  24. @Makkarinn #23

    Mér finnst þú koma með áhugaverða pælingu varðandi vítaspyrnurnar, ég hef einmitt oft velt þessu fyrir mér og mér finnst engin lógík í að dæma vítaspyrnu þegar leikmaður er t.d. á leið út úr teignum og andstæðingur fellir hann. Leikmaðurinn var í engum séns að skora og ætti því ekki að fá vítaspyrnu, heldur frekar óbeina aukaspyrnu t.d. Ég vil hins vegar ekki ganga svo langt að afnema vítaspyrnur því ef leikmaður er klárlega rændur upplögðu marktækifæri inni í vítateignum með því að brotið er á honum þá á sá leikmaður að sjálfsögðu að fá vítaspyrnu. Ég myndi því vilja sjá einhverskonar útfærslu þannig að dómari metur case by case hvort að með broti hafi leikmaður verið rændur upplögðu marktækifæri eða ekki og þá um leið hvort að dæma eigi vítaspyrnu eða eitthvað annað sem menn þá ákveða í reglunum, t.d. óbeina aukaspyrnu. Þetta setur auðvitað fleiri ákvarðanir í hendur dómara og passar því kannski ekki mjög vel inn í þá umræðu sem er í þessum þræði en mér finnst þetta vera pæling til að íhuga.

  25. Hvernig væri bara að taka upp íshokkísírenu og sendi í boltann? Alltaf þegar boltinn fer yfir línuna er mark dæmt, fullt af vafasömum dómum úti á vellinum. Ég er búinn að leysa vandamálið!

  26. Sammála pistlinum og kommentum að mörgu leiti. Eitt í pistlinum finnst mér lýsa vandamáli fótboltans í hnotskurn og það er notkun SSteins á orðinu ákvörðun… “sem réttastar ákvarðanir”. Ef allt væri klippt og skorið í fótboltanum væru bara réttar eða rangar ákvarðanir og ekkert þar á milli. Reglurnar um snertingar, tog, tæklingar, dýfur og fleira finnst mér bara ekki nógu fullkomnar og þess vegna fáum við oft atriði þar sem í raun er ekki hægt að segja 100% hvort ákvörðun dómarans var rétt eða röng. En að öðrum hlutum pistilsins…

    Marklínutækni? Já takk! Get ekki fundið neitt slæmt við hana.

    Auka dómari við skjá? Vandamálið er einmitt eins og Makkarinn bendir á, það er endalaust rifist um atriði þótt þau séu sýnd frá mörgum mismunandi sjónarhornum og rædd fram og til baka af spekingum. Var þetta t.d. bakhrinding á Suarez í jöfnunarmarkinu um síðustu helgi? Ég myndi ekki treysta mér til að taka þá ákvörðun á nokkrum sekúndum.

    Víti ekki víti? Ég er gríðarlega sammála uppástungunni að reglubreytingum á vítaspyrnudómum. Ef það væri farið að dæma óbeinar aukaspyrnur á öll brot innan teig sem ekki ræna upplögðu marktækifæri þá yrði sennilega minna um það að menn reyndu að fiska víti því í langflestum tilvikum eru menn ekki í upplögðum marktækifærum þegar þeir reyna að fiska. Tel að þetta myndi hjálpa dómurum mikið.

    Svo í lokin fannst mér þetta komment standa uppúr í #20 – “Þetta er ekkert disrespect fyrir starfi línuvarða” – bara þessi setning er örugglega gríðarlegt disrespect að mati AÐSTOÐARDÓMARA! … óborganlegt 🙂

  27. Ég er algerlega sammála pistlinum varðandi það að þetta kjaftæði með Eskifjörð og Old Trafford er bara bull og vitleysa. Leikir á þessum stöðum eru ekki eins og verða það aldrei. Einnig er ég sammála því að ef hægt er að gera dómurum auðveldara að taka rétta ákvörðun án þess að skemma flæði leiksins verulega er það hið besta mál en það er alveg ljóst að útfærslan verður alltaf gríðarlega flókin og erfitt að tryggja sanngirni fyrir alla. Tökum sem dæmi markið hjá Suarez á móti Everton hefði verið mjög auðvelt að leiðrétta á 15 sekúndum með sjónvarpsdómara. Á móti kemur gæti Suarez verið sloppinn einn í gegn, línuvörður flaggar ranglega rangstæðu og dómari flautar. Suarez hættir þá að sjálfsögðu við að reyna að skora. Sjónvarpsdómari sér að um rangan dóm er að ræða, er þá eitthvað hægt að gera til að leiðrétta þennan ranga dóm? Einnig ef Suarez hefði haldið áfram og skorað en markvörðurinn hætt að reyna eftir að hann heyrir í dómaraflautunni. Á þá að láta markið standa?

    Og það er alveg fullt af svona atriðum sem þarf að hugsa út í. Ég er alveg til í að skoða það að nýta tæknina en það þarf að huga gríðarlega vel að útfærslunni.

  28. Já, líflegar og skemmtilegar umræður, bjóst nú reyndar ekki við öðru. #13, Viðar Geir, ástæðan fyrir því að ég lagði til að þessir aukamenn í dag (4 & 5 dómarinn) færu báðir fyrir framan skjáinn, myndu að mínu mati gera það að verkum að þeir gætu skipt betur með sér verkum og því gætu menn verið strax búnir að skoða endursýningu á ákveðnum hlut nokkrum sekúndum eftir að hann á sér stað og því tæki þetta mun styttri tíma.

    -# 14, þarna erum við bara ósammála. Það er hægt að ræða fullt af hlutum þó svo að ákvarðanir dómara verði betri. Get ekki séð að það geri leikinn betri eða skemmtilegri þegar kolrangar ákvarðanir ráða úrslitum leikja.

    -# 23, Af hverju ekki endurtekningu? Ég er heldur ekki að tala um að þetta sé notað í öllum ákvarðanatökum heldur að dómari geti kallað til viðkomandi og spurt um álit og hvort atriðið hafi sést skýrt. Ég held að það hljóti bara að gera það að verkum að hann sé í betri stöðu með að taka ákvörðun. Auðvitað verður þetta aldrei 100% þótt þetta verði tekið upp, það geta verið tilvik þar sem menn geta hreinlega ekki séð þetta strax á upptökum, en við hljótum að búast við því að þessum atriðum myndi fækka til mikilla muna. Annars er ég hrifinn af þessari hugmynd um að stöðva leikklukkuna, held að það myndi einmitt draga úr töfum og flæðið myndi batna. Er ekki jafn hrifinn af þessu með bogalínuna.

    All in all, þá held ég að með svona löguðu þá gætum við fækkað þessum stóru röngu ákvörðunum mikið, þó þetta verði aldrei 100%, og það án þess að það hafi einhver teljandi áhrif á flæði leiksins. Til að mynda með gulu og rauðu spjöldin, dómari getur látið leikinn halda áfram við tæklingu sem verðskuldar annað hvort spjaldið, sjónvarpsdómarar halda áfram að greina það og gefa svo hreint og klárt til kynna hver refsingin eigi að vera. Oft er þetta vafamál hvort um gult eða rautt er að ræða, og það verður áfram þannig, en þetta myndi gera þetta betra.

  29. Algjörlega sammála pistlahöfundi. Ég hef nú ekki mjög sterkar skoðanir á mörgum málefnum en í þessu finn ég til gríðarlegrar réttlætiskenndar. Ég verð alveg svakalega heitur þegar menn koma með “Alls staðar eins” rökin og “Gaman að hafa eitthvað til að tala um” rökin. FRÁBÆR PISTILL!

  30. Er sammála að mestu leiti. Marklínutæknin er góð því þar er um þá staðreynd að ræða að mark var skorað og á því alltaf að telja. Hvort þú áttir að fá víti (sem ekki er 100% öruggt að þú skorir úr (ekki einu sinni Messi)) eða innkast, fríspark ofl. er annað mál. Ég er hins vegar á því að þegar mark er skorað sem er síðan dæmt af vegna rangstöðu eða “brots” (eins og hjá okkur á móti Everton) þá ættu dómarar að skoða myndband af atburðinum og dæma eftir það. Þetta ætti bara við ef mark væri skorað. Ég tel að réttlætinu væri þá náð í fleiri tilfellum, fleiri mörk meiri skemmtun.

  31. Veit ekki hvort þetta sé í lagi enn er þetta eitthvað sem þarf að hafa áhyggjur af?

    And have a little look at the timeline of @MullockSMirror for a very interesting take on the City-Suarez link. @philmcnulty 1 hour ago

    Man City firmly deny Suarez interest – but I totally trust the Merseyside-based reporters who wrote those stories this morning. Intrigue. @philmcnulty 1 hour ago

    Torres also left Liverpool in huge January deal but crucial difference is Suarez seems very happy at Anfield. Torres wasn’t. #bbcfootball @philmcnulty 12 hours ago

    As @DTguardian rightly says – if name on Suarez-City story is Daily Express’s Paul Joyce then you can guarantee that story is correct. @philmcnulty 12 hours ago

    Ætla kanarnir að selja?

  32. Nr. 33 nei auðvitað ekki. Við eigum að bæta við okkur fleiri heimsklassamönnum, en ekki fækka þeim örfáu sem eru hjá okkur núna. Þá sökkvum við bara enn dýpra.

  33. ég er með lausn á þessu öllu saman. Dómarinn fær að vera með ipad eða iphone touch eða hvad sem þetta heitir í vasanum, og þegar upp kemur vafaatriði þá tekur hann tækið úr vasanum og fær endursýningar af atvikinu um leið, tekur 5 sek og málið afgreitt.

  34. Pétur Hjaltested (aths. 35)

    Svo klikkar 3G eins og svo oft áður, allt verður brjálað og annar hver leikur verður 2klst+ 🙂

  35. Nei Ingvi þetta er sko ekki í lagi. Hér eiga að vera umræður um dómgæslu en ekki þetta Man City-Suarez götublaðsbull.

    Þið kæru síðustjórnendur… er mögulega hægt að hafa einn fastan opin þráð fyrir svona leikmannaslúður? Gæti hækkað mjög standardinn á síðunni ef þetta væri sigta frá góðri og málefnalegri umræðu.

    Að umræðuefninu þá er ég hjartanlega sammála SSteinn með margt. Ég fæ t.d. kjánahroll og grænar bólur þegar einhver fer að tala um að fegurðin við fótbolta sé að hann er alveg eins á og Eskifirði og HM.
    Það vill enginn að evrópski fótboltinn verði eins og sá bandaríski með tilheyrandi töfum og 3-4 tíma leikjum og auglýsingahléum en leikmenn eru bara orðnir það færir í að blekkja dómara og leikurinn svo rosalega hraður að þeir þurfa hreinlega hjálp við að dæma lykilatriði.

    Það er líka stórundarlegt að marklínutæknin hafi ekki verið tekin upp á stærstu mótunum fyrir löngu enda tæknin verið til í mörg ár. Tefur leikinn sama og ekkert og tekur af 99,9% vafa hvort mark hafi verið skorað eður ei. Bara pjúra gamaldags íhaldssemi, hræðsla við framtíðina og þróa fótbolta áfram sem íþrótt. Íþróttin á mikla hættu á að staðna ef úrslit stærstu keppna ráðast reglulega á tilviljanakenndum dómum. Sé hvatinn og löngunin til að vinna á svindli tekinn frá knattspyrnumönnum vegna nær gallalausrar dómgæslu þá einbeita þeir sér vonandi frekar að því að bæta sig sem fótboltamenn fremur en að liggja passívir í vörn og/eða hafa áhrif á mistæka dómara með dýfum og umkringja þá á velli eða í fjölmiðlum (a la Jose Mourinho/ Alex Ferguson).
    Við gætum þá kannski fengið að sjá betri og sóknasinnaðri fótbolta um heim allan.

    Mikilvægt þó að nota ekki myndavélatækni í einhverjum öfgum. Mér finnst að hægt eigi að dæma leikmenn í leikbönn eftirá þó dómarinn tiltaki atvikin ekki í leikskýrslu. Þetta ætti t.d. við extra ljót brot og dýfur. Þjálfari og fyrirliði liðs ættu einir að geta krafist þess 1-2 sinnum í leik að dómarar skoði atvik og mikilvæga dóma með aðstoð myndavéla.

  36. ” Þjálfari og fyrirliði liðs ættu einir að geta krafist þess 1-2 sinnum í leik að dómarar skoði atvik og mikilvæga dóma með aðstoð myndavéla.”

    Algjörlega ósammála. Látum dómarna um að dæma leiki.

    Hinsvegar finnst mér í góðu að taka upp marklínutækni enda um staðreyndir að ræða þar. Svo má alveg dæma menn eftirá ef menn haga sér eins og bavíanar.

    Að öðru leiti má ekki skemma þennan fallega leik sem knattspyrnan er og dómarinn er stór partur af leiknum.

  37. Að öðru leiti má ekki skemma þennan fallega leik sem knattspyrnan er og dómarinn er stór partur af leiknum.

    Skemmir það virkilega leikinn ef dómararnir fá meiri aðstoð við að taka réttari ákvarðanir án þess að það komi að neinu viti niður á gangi leiksins? Það er einmitt þetta sem ég bara botna ekkert í, burtséð frá aðferð.

  38. Hvernig er það með myndavélakerfið, minnkar það ekki spillingu hjá dómurunum…….verður að múta öllum en ekki bara einum.
    Annars veit ég ekki

  39. En hvar endar þetta þá ? Það er ráðist að dómara fyrir að tékka ekki á þessum myndavéladómurum í hvert einasta skipti sem eitthvað gerist í leiknum. Stjórar heimta video skoðun á hvert brot, hverja rangstöðu osfr Hver dæmir svo, dómarinn á vellinum sem sér ekkert heldur heyrir bara í eyrunum frá þrem dómurum að þetta hafi hugsanlega verið brot, hugsanlega ekki osfr

    Flott að nota marklínutækni en um önnur almenn brot þá finnst mér að dómarinn eigi að ráða þessu einir ásamt sínum aðstoðarmönnum inná vellinum.

  40. Ég hef sagt það áður og segi það aftur, við þurfum bara að versla tvo dómara í næsta glugga, þá fara þessi “vafaatriði” að lenda okkar megin 🙂

  41. Úff maður fyllist stolti að heyra Eskifjörð nefndan svona oft hér… enda fallegur staður…. en að bera saman Eskifjarðarvöll og Old. traford er nátlega bara glæpur… Grasstúkan á Eskifirði er mun fallegri 🙂

    Annars flott grein SSteini, og auðvita á að auðvelda dómaranum að taka sem réttastar ákvarðanir, hvernig svo sem það er framkvæmt, á þann hátt að skemma ekki skemtanagildi leiksins og tefja han óþarflega… það vill enginn sjá yfir 5 mín í uppbótatíma út af dómaranum….

  42. ok heyrðu nú er ég með þetta, fimmti dómari situr einhversstaðar og horfir á endursýningar af vafaatriðum og talar við línuvörð of dómarann með talstöðvatækjum. málið afgreitt á 2-3 sek.

  43. Hjartanlega sammála greinarhöfundi um að það sé löngu tímabært að nýta sér nútímatækni til að bæta dómgæsluna þar sem því er við komið. Það er of mikið í húfi í stærstu mótum fótboltans í dag til þess að hægt sé að réttlæta að leiðrétta ekki mistök sem hafa áhrif á úrslit leikjanna. Rómantík rangra ákvarðana er afar takmörkuð og bundin við örfá sögufræg atvik. Heilt yfir eru kolrangir dómar bara hundleiðinlegir og til þess eins fallnir að menn rífist á spjallborðum og kaffistofum. Einnig eru óheyrilegar upphæðir í húfi fyrir lið, leikmenn og líka alla þá sem veðja leikina. Rétt skal vera rétt.

    Marklínutækni væri fín en hún er ekki ókeypis og líklega ekki óskeikul. Vafaatriðin um bolta yfir línu eður ei eru ekki það mörg að það réttlæti múltímilla fjárfestingu að mínu mati. Þess utan ætti að vera hægt að leysa úr augljósustu atvikunum með aukadómara við sjónvarpsskjá. En ef stærstu deildirnar vilja splæsa í græjurnar þá er það í fínu mín vegna.

    Ég er mjög fylgjandi dómgæslu með sjónvarpsendursýningum í einhverju formi. Sú útfærsla sem Ssteinn nefnir með að dómari leiti ráðgjafar vídeódómara er góðra gjalda verð en hún hefur líka ákveðna galla. Hvenær á dómari að biðja um aðstoð? Þegar hann er í vafa? En ef hann er ekki í vafa þó hann geri augljós mistök? Á þá nefndin að láta hann vita? Leikmenn og þjálfarar væru eflaust heimtandi endurskoðun á hverju einasta atriði og það myndi bara auka á slæm samskipti milli allra aðila. Og hversu oft á að endurskoða? Bara við stóru atriðin eða líka horn og innköst?

    Persónulega líst mér best á einhvers konar útgáfu af “coaches challenge” að amerískri fyrirmynd. Heppilegast væri að hvor þjálfari hefði 2-3 áfrýjunarrétti yfir heilan leik. Ef að áfrýjunin væri á rökum reist þá héldi liðið áfram sama fjölda af áfrýjunum. Ef hún er röng þá mætti skoða einhver viðurlög líkt og í þeim ameríska þar sem time-out tapast. Mætti jafnvel fjölga innáskiptingum upp í 4-5 en fækka þeim við hverja ranga áfrýjun. Það myndi minnka líkur óþarfa áfrýjunum.

    Kosturinn við þetta væri sá að allar líkur eru á að þjálfarar myndu eingöngu notast við áfrýjun dóma um meiriháttar atriði og þegar miklar líkur eru á að dómari hafi rangt fyrir sér. Þessi útfærsla hefði því ekki of miklar breytingar í för með sér og ekki stanslausar endurskoðanir við hvert atriði, en stærstu og afdrifaríkustu mistökin hefðu möguleika á leiðréttingu. Það hefði einnig ákveðna spennu í för með sér hvort og hvenær þjálfari myndi beita áfrýjuninni. Flest lið myndu eflaust vera með sitt eigið teymi við sjónvarpsskjá og fengju boð um hvenær skynsamlegt væri að notast við vald sitt. Einnig myndi álagið og ábyrgð dómarans vegna mistaka minnka og hans hlutverk haldast nánast óbreytt fyrir utan einstaka inngrip og leiðréttingar. Þjálfarar og liðin fengju ábyrgðina og vald leiðréttinganna til sín. Þeirra væri völin og kvölin.

    Ég er alfarið á móti því að breyta sumum vítaspyrnum í óbeinar aukaspyrnur. Til hvers? Ef að leikmaður eru nógu vitlaus til að brjóta á andstæðing innan vítateigs vitandi viðurlögin þá á hann skilið að fá á sig víti. Og ef að stórir dómar eins og víti væru endurskoðaðir af sjónvarpsdómara þá ætti ranglega dæmdum vítum útaf leikaraskap eða öðru að fækka það mikið að engin þörf væri á breytingum á því hvenær víti eru dæmd.

    Aðrar reglur sem ég vildi sjá breytt:

    Einfalda rangstöðuregluna. Ef EINHVER er fyrir innan þá á að dæma rangstöðu. Hætta að verðlauna leti og engin matsatriði um áhrif á leik eða álíka. Einfalt.
    Hætta að refsa tvöfalt með víti og rauðu spjaldi útaf broti í upplögðu marktækifæri. Er nú þegar til endurskoðunar og líklega stutt í breytingu.
    Taka aftur upp refsingu fyrir röfl með því að færa aukaspyrnu fram um 10 metra. Stórfín regla sem var sorglegt að var tekin af. Bætti samskipti og minnkaði tuð. Fjölgaði hættulegum aukaspyrnum.
    Hætta að dæma “ranglega tekin” innköst. Það hefur reyndar ákveðið skemmtanagildi fyrir skrattann í manni sjálfum þegar atvinnumenn í knattspyrnu klúðra innkasti ´vegna tæknigalla. Eins og þeir séu að falla á greindarvísitöluprófi. Alger niðurlæging. En raunverulega, hverjum er ekki sama hvernig innköst eru tekin? Af hverju ekki bara að leyfa allar hugsanlegar útgáfur? Innköst tekin með sendingu fyrir aftan bak a la basketball. Það væri fönkí. Bara koma tuðrunni aftur í leik.
    Dæma gul spjöld á leikaraskap eftir leiki ef ekki var tekið á því meðan á leik stóð. Einnig að gefa gul spjöld þegar leikmenn sem brotið hafa af sér saka brotaþola um að hafa tekið dýfu. T.d. var gróflega brotið á Suarez innan vítateigs gegn Norwich fyrr í vetur en sökudólgurinn vildi strax klína dýfustimplinum á nr.7 til að fela eigin sök. Og það virkaði að því marki að það skapaði óvissu í huga dómarans og LFC fékk ekki vítið. Í raun var hann bara að blekkja dómarann með sínu látbragði og einnig að reyna að koma mótherja í klandur. Síðast þegar maður vissi þá var það spjaldhæft að heimta gult spjald með leikrænum tilþrifum og það sama ætti að gilda hér.
    Taka tímagæsluna af dómaranum. Í flestum öðrum íþróttum þá er það bara gaurar sem stýra stigatöflunni sem sjá um klukkuna. Stoppa líka klukkuna þegar bolti er ekki í leik og gera það þannig að áhorfendur sjái tímann. Svo gellur flauta á slaginu 45 mín. Fátt meira pirrandi en huglægt mat dómara á hversu miklum tíma eigi að bæta við leiki. Og svo hinn gríðarlega leiðinlegi ávani margra þeirra að flauta helst ekki af nema að boltinn sé hátt uppi í loftinu. Stundum bíða dómarar í tugi sekúndna eftir að markvörður taki útspark til þess eins að flauta af þegar boltinn er í flughæð. Why? Pirrandi.

    Úff, of langt hjá mér. Góðar stundir.

    YNWA

  44. Það má alveg færa rök fyrir því að einstaklingur sé á móti þessu, en þessi grein á 433.is er svo mikil klisja að það hálfa væri nóg.

  45. Ég hef séð margar góðar og aðrar verri hugmyndir hér en á eitt verðum við öll sammála, það þarf að bæta dómgæslu, samkvæmt óháðu mati hefur Liverpool tapað sjö stigum á röngum dómum á þessu tímabili, ef Scum Udt hefði tapa þessum fjölda stiga á röngum dómum þá væri örugglega búið að gera eitthvað í þessu.

    http://www.debatabledecisions.com/english-premier-league-tables

Kop.is Podcast #30

Opinn þráður – Suarez ekki til sölu, Lucas mættur til æfinga o.fl.