Anzhi 1 Liverpool 0

Okkar menn heimsóttu í kvöld Anzi Makhachkala á leiguheimavelli þeirra í Moskvu í fjórðu umferð Evrópudeildarinnar. Leikurinn endaði með 1-0 tapi eins og hafði svo sem verið fastlega búist við fyrir leik.

Brendan Rodgers skildi nánast allt aðalliðið eftir heima í Liverpool til að halda mönnum ferskum fyrir stórleikinn gegn Chelsea um helgina og því var fátt um fína drætti í liði kvöldsins:

Jones

Wisdom – Coates – Carragher

Flanagan – Shelvey – Coady – Henderson – Downing
Joe Cole

Morgan

Bekkur: Gulacsi, Wilson, Sama, Robinson, Suso (inn f. Coady), Assaidi (inn f. Cole), Pacheco (inn f. Morgan).

Þetta var frekar tíðindalítill leikur og fór eins og maður bjóst við. Liverpool voru mjög þéttir varnar- og miðjulega en sköpuðu lítið sem ekkert fram á við nær allan leikinn. Liðið var mikið með boltann en Anzhi vörðust auðveldlega máttlitlum sóknartilburðum okkar manna og nýttu svo vel þessi fáu færi sem þeir sjálfir fengu.

Eina mark leiksins kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Miðvörður Anzhi sendi langan bolta yfir miðjuna og hann lenti fyrir framan Lacina Traore sem sneri baki í mark Liverpool og var með Coates í bakinu. Traore potaði boltanum aftur fyrir sig inn fyrir vörnina, sneri við og skildi Coates eftir, hljóp inn að vítateignum þar sem Jones kom út úr markinu og gerði sig stóran en Traore setti boltann auðveldlega yfir hann og í tómt markið. 1-0 og það urðu lokatölurnar.

Liverpool ógnaði lítillega í seinni hálfleik með innkomu Suso á miðjuna en aðrir buðu upp á lítið sem ekkert af sóknartilburðum. Flanagan og Henderson spiluðu sig einu sinni í gegn í fyrri hálfleik en Henderson reyndi að gefa úr dauðafæri í stað þess að skjóta. Downing komst nokkrum sinnum í góða stöðu upp kantinn en fyrirgjafir hans hittu undantekningarlaus andstæðinga og Assaidi tókst lítið betur upp í seinni hálfleik. Aðrir börðust og reyndu en það var vitað fyrirfram að það væru nánast engin sóknargæði í þessu liði og það reyndist bara rétt.

Maður leiksins: Coates virkaði skelfilega þungur og illa staðsettur í markinu og hefði átt að gera miklu betur þar en að öðru leyti var vörnin fín í dag. Miðjan var þétt og kannski helst jákvætt að sjá Coady leika betur en bæði Henderson og Shelvey í dag að mínu mati. Downing og Flanno reyndu á vængjunum en buðu upp á lítið og Morgan fékk nánast ómögulegt starf, aleinn frammi og verður ekki dæmdur af þessum leik.

Um Joe Cole er best að segja sem minnst.

Besti maður okkar í þessum leik var Brad Jones og ég vel hann því mann leiksins. Hann lá ekki beint undir einhverri stórskotahríð en í 2-3 skipti varði hann vel úr dauðafærum Anzhi-manna og hélt liðinu á lífi í leiknum.


Hver er þá staðan í þessari Evrópudeild? Staðan er merkilega góð, þrátt fyrir töp gegn Udinese og núna Anzhi. Staðan er svona góð af því að Young Boys gerði okkur mikinn greiða í kvöld og vann Udinese á Ítalíu. Fyrir vikið er staðan þessi eftir fjórar umferðir:

  • 1: Anzhi – 7 stig
  • 2: Liverpool – 6 stig
  • 3: Young Boys – 6 stig
  • 4: Udinese – 4 stig

Þetta lítur út fyrir að vera hnífjafnt, en málið er að Young Boys kemur í heimsókn á Anfield í næsta leik á meðan Udinese fer til Moskvu og spilar við Anzhi. Ef við vinnum Young Boys á Anfield og Udinese ná ekki að vinna Anzhi í Rússlandi verður Liverpool búið að tryggja sér annað af tveimur efstu sætunum fyrir lokaumferðina.

Lokaleikurinn, úti gegn Udinese, gæti því hæglega verið þýðingarlaus!

Þetta kemur til vegna þess að ef við vinnum Young Boys erum við þremur stigum á undan þeim fyrir lokaumferðina og með sigur í báðum innbyrðis viðureignunum en þær gilda þegar lið enda jöfn að stigum. Þar með væri öruggt að bæði Young Boys og Udinese væru fyrir neðan okkur, eins lengi og Udinese nær ekki að sigra í Rússlandi.

Næsta umferð kemur því til með að skipta öllu máli fyrir framhaldið. Þið getið búist við að Rodgers stilli upp sínu sterkasta liði á Anfield eftir tvær vikur þegar Young Boys koma í heimsókn og freisti þess að klára þennan riðil með einn leik til góða. Það yrði ótrúlegt afrek eins og þessi riðill hefur spilast.

Jæja, nóg um það í bili. Stórleikur gegn Chelsea á sunnudag og nú bara hefst maður handa við að gleyma þessum leik í kvöld sem allra, allra fyrst.

64 Comments

  1. Núna um leið og vélin lendir í Liverpool á Rodgers að hunskast á Melwood og rifta samningum við leikmenn eins og Cole, Downing og jafnvel Henderson.

    Þetta er alveg með ólíkindum að þessir leikmenn séu í byrjunarliði hjá klúbbi eins og Liverpool.

  2. Jæja þá þurfum við allavega ekki að hafa áhyggjur að neinn af þessum mönnum byrji inná á sunnudaginn nema þá kannski Brad Jones.

  3. Ég er nákvæmlega ekkert svekktur yfir þessum úrslitum, en er Jordan Henderson Í ALVÖRU svo STEINGELDUR og SKÍTHRÆDDUR að hann þorir ekki að skjóta á markið einn á móti markmanni NÁNAST INNI Í MARKTEIG, heldur reynir að gefa hann fyrir í staðinn ? Í alvöru ? grow a set drengur!!

  4. Mér er nokk sama um þessi úrslit. B til C lið á vellinum á móti erfiðum andstæðingi í miðju Rússlandi. Það hefði verið major blow fyrir Anzhi ef þeir hefðu tapað þessum leik. En það er allt opið í þessum riðli sem er bara frábært.

    En ég er sammála með Henderson, hann hefur valdið mér vonbrigðum því hann er ekki nógu agressivur í sínum aðgerðum. Svo er Cole alveg gjörsamlega búinn kallinn sem er synd en mig grunar að Hodgson fái helminginn af launum hans við útborgun næstu árin. ( lesist sem gjörsamlega fáránlegur samningur )

  5. (4) enda virðist Hendonum ekki vera í plönum BR og er vonandi á útleið í janúar.

  6. (5) Joe Cole kom til Liverpool á undan Hodgson. Samdi við stjóralaust lið. En vissulega glórulaus samningur sem þessi (ræningi) kom sér í

  7. Leikur þróaðist nákvæmlega eins og maður bjóst við.

    Eigum góða kafla.
    Höldum boltanum vel.
    Sendum boltann vel á milli.
    Ótrúlega hægir fram, mikið betra að halda bara boltanum á miðjunni.
    ———— (Sumir halda greinilega að við fáum stig fyrir það)
    Vörnin lekur.
    Steingeldir í sóknarleiknum.

    Held samt að flestir sjái að það sem vantar eru betri menn. Það er bara svo einfalt.

  8. Það er flóknara en bara að segja það að “rifta” samningum. Joe Cole kom til Liverpool sumarið 2010 og gerði fimm ára samning. Ef hann á þá ca 130 vikur eftir á 90 þúsund pundum per viku erum við að tala um u.þ.b. 11,5-12 milljónir punda sem hann á eftir að fá í laun.

    Ykkur er óhætt að svelgjast á þeirri upphæð. Það borgar honum ekkert heilvita lið þessi laun í dag og þess vegna sitjum við væntanlega uppi með hann að öllu eða einhverju leyti fram á sumarið 2015, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það besta sem við getum vonast eftir er að einhverjir vilji fá hann að láni og borga hluta launanna, eins og Lille gerðu í fyrra.

    Það er líka ekki Joe Cole að kenna að hann er á svona háum launum. Hann gerði ekkert af sér, þáði bara þau laun sem honum var boðið og getur bara það sem hann getur í fótbolta. Ég er lélegri en Joe Cole í fótbolta og ég myndi hirða svona samning án nokkurrar samvisku ef einhver væri svo vitlaus að bjóða mér hann. Ég myndi líka aldrei taka það á mig að lækka í launum eða gefa eftir hluta af laununum af því að félagið gerði “mistök” í að gefa mér samning.

    Ef þið viljið vera reiðir við einhvern, verið reiðir við Christian Purslow. Hann bauð samninginn fyrir hönd Liverpool FC þegar félagið var á milli knattspyrnustjóra.

    Annars er ég að bíða eftir að leikur Udinese og Young Boys klárist áður en ég klára leikskýrsluna.

  9. Kristján Atli,

    Nei maður segir bara svona, mikill kostnaður sem fer í það að rifta samningum manna.

    Ég er lélegri en Joe Cole í fótbolta og ég myndi hirða svona samning án nokkurrar samvisku ef einhver væri svo vitlaus að bjóða mér hann”.

    Eftir frammistöðu hans í vetur þá verð ég að efast um þetta feitletraða! 🙂

  10. Eg sa ekki þennan leik og eftir það sem eg hef lesið lytur ut fyrir að eg hafi komist eins nalægt þvi og hægt er að vinna i lottóinu. Djofull er eg sattur að hafa akveðið að sja ekki leikinn.

  11. Liggur ekkert á skýrslu maður les bara aftur og aftur landfræði 403 frá Babu, ekki veitir af að rifja upp sína landfræði visku síðan á síðustu öld

  12. Jæja, leikskýrslan er komin inn. Fer aðeins yfir stöðuna í riðlinum neðst í henni. Bottom line: Young Boys gerðu okkur mikinn greiða með sigri í Udinese í kvöld og við getum fyrir vikið tryggt okkur inn í 32-liða úrslitin með því að vinna Young Boys á Anfield í næstu umferð!

  13. Það vantar bara gæði og pung í svo marga sem voru að spila í kvöld að þegar suso kom inná þá leit hann út eins og heimsklassa leikmaður, sem hann er nú ekki orðin ,en verður vonandi…það er eins og enginn af þessum strákum geti tekið 1 mann á og þorað að negla á markið…úff..ég fór á barinn og eyddi 105 min og 3000 kalli..fyrir svona getulausa stráka..;) en það var nú bara lagt upp með jafntefli í þessum leik…kemur næst..:) Eiður hinn þolimóði

  14. ekki sammála mönnum með Henderson var kanski ekki að brillera en átti sendingar sem hefðu skrifast sem stoðsendingar ef menn eins og Suarez hefði tekið við þeim.Varðandi Joe Cole þá er hann búinn að eiga of mörg afmæli til að gera eitthvað í fótbolta

  15. Fannst þetta bara í takt við það sem við höfum séð og er sammála Rodgers í hans mati á leiknum.

    Varnarlega var liðið að leika vel á erfiðum útivelli, fyrir utan Coates sem gerði upp á bak. Að fá á sig mark á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks á þennan hátt er óafsakanlegt hvar sem er í heiminum og ég bara verð óvissari um stóra Úrú-gæjann með hverjum leiknum. Hann er stanslaust dreginn út úr stöðu og missir þá oft menn á bakvið sig. Það að líkja honum við Hyypia er alveg glórulaust enn um sinn, Finninn frábæri áttaði sig einmitt svo vel á því hvað hann varð að passa upp á staðsetningu sína á vellinum út frá skort á hraða. Rússarnir voru sko alls ekki búnir að skapa mikið þegar komið var að þessu. Skil bara alveg að Carra sé á undan honum á bekkinn miðað við það sem ég sá til hans í kvöld og í síðustu viku gegn Swansea. Ef Carra hefði átt slíkar frammistöður í síðustu tveim leikjum myndi allt hér loga.

    Við fórum í leikinn með 5-4-1 kerfi til að halda jafntefli. Það höfum við nú séð áður hjá betri Liverpoolliðum hjá stærri nöfnum í stjóraboxinu en Brendan Rodgers. Og vorum ekki langt frá því í raun..

    Styð skýrslu Kristjáns varðandi leikmannaframmistöður, var óskaplega glaður að sjá Coady sýnast eiga séns á að fá hlutverk hjá klúbbnum og fannst Flanno og Downing fínir í bakvörðunum. Miðjan eftir að Suso kom inná leit allt öðruvísi út, eftir það held ég t.d. að við höfum fengið 7 fína krossa inn í boxið en þar var ekki í neinu tilfelli maður í fjólublárri (by the way, búningurinn er hrylliegur í sjónvarpi allavega) treyju að reyna að skora. Svo kannski hefði átt að taka bara Cole útaf fyrst og leyfa Adam Morgan að spreyta sig.

    En sammála því mati að eini mögulegi leikmaðurinn til að leika á sunnudaginn að öllu eðlilegu væri Brad Jones.

    Takk Young Boys…

  16. Við þessu var svo sem að búast.. miðað við styrkleikann á x11 sem LFC stillti upp í kvöld!!

    Stiklað á stóru!!!
    Flanno var að mínu mati maður leiksins, stóð sig mjög vel
    Coady stóð sig líka vonum framar!!
    Coates og Carragher eru eitthvað sem ég vill ekki sjá nálægt x11 í EPL.. Carra búinn að gera allt sem hann getur fyrir okkar ástkæra klúbb en hann er því miður bara búinn:)
    Cole..sghhhh!!!!!! #Nuffsaid

    Við stillum svo bara upp blöndu af Fringe players og okkar bestu mönnum í leiknum gegn Young Boys og förum upp úr þessum riðli, ég veit menn segja ,, þetta er bara UEFA CUP,, en við erum LIVERPOOL FOOTBALL CLUB og eigum réttmæta kröfu á að fara upp úr þessum riðli, allt annað er vonbrigði!!!!!!

    Svo er það bara Chel$ki á sunnudaginn….

    Hlakka bara til,
    fínt að fara þangað sem ,,underdogs,,

    Förum þangað og vinnum 0-1 sigur og að sjálfögðu skorar okkar langbesti maður LUIZ SUAREZ

    Vill sjá Gerrard í AMR í þessum leik, Sterling í AML og Suarez upp á topp (ST)

    Twitter:
    @ragnarsson10

  17. Ég sá ekki leikinn en það er einhver misskilningur hjá þér Maggi að Carra sé betri en Coates í dag. Það er líka misskilningur að hann eigi ekki framtíð hjá klúbbnum, þvert á móti verður hann lengi hjá Liverpool og mikil hetja.
    Þó hann hafi gert nokkur mistök undanfarið þá er hann betri í loftinu en bæði Skrtel og Agger en vantar smá reynslu til að halda stöðu og sýna aðeins meiri klókindi.
    Carra þurfti nú heldur betur leiki til að fá næga reynslu en auðvitað fór undirbúningurinn mest fram þegar hann var í bakverði og var ekki beint líklegur til að gera góða hluti.

    Það þýðir ekki að horfa í hvert einasta atriði hjá þessum unga og stórefnilega leikmanni, hann þarf tíma eins og aðrir.

  18. Er ég sá eini sem er orðinn þreyttur á því að Brendan Rodgers tali alltaf um að leikmenn liðsins hafi verið frábærir, stórkostlegir og núna í kvöld frammúrskarandi eftir tapleiki og jafntefli? Og að menn hafi verið óheppnir! Hvað með að segja bara beint út að menn hafi verið lélegir og að það geti enginn klárað færin sín í þessu liði nema Luis Suarez?! Helvítis helvíti, prump og skítur… orðinn þreyttur á þessum jafnteflum og töpum 🙁

  19. Brendan Rodgers út núna!

    Harry Redknapp er á lausu, drífa þetta af.

  20. Það sló mig rosalega að lesa aðra málsgrein skýrslunnar og horfa svo á liðsuppstillinguna
    “Brendan Rodgers skildi nánast allt aðalliðið eftir heima í Liverpool til að halda mönnum ferskum fyrir stórleikinn gegn Chelsea um helgina og því var fátt um fína drætti í liði kvöldsins:”

    Svo eru menn eins og Henderson, Downing, Cole og Coates þarna. þetta eru leikmenn sem voru keyptir á háar summur í fyrra (fyrir utan Cole). Tala nú ekki um þá leikmenn sem eru farnir nú þegar. Þvílík kaupstefna sem þetta hefur verið. Mér finnst ekki skrítið að eigendur hafi ekki ætlað að falla í þessa grifju aftur og láta stjórann svitna aðeins og móta liðið áður en hann fær einhverjar fjárhæðir til þess að eyða.

  21. Maður er örlítið hugsi yfir BR þessa dagana. Ég styð hann 100% og hef alltaf gert. En reynslan er ekki mikil vægast sagt.

    Hann var rekin frá Reading eftir sex mánuði í starfi eftir hörmulega frammistöðu. Tekur svo við Swansea og kemur þeim upp. (Guðjón Þórðar kom Stoke upp á milli deilda líka )

    Hann byrjar svo illa í úrvalsdeildinni en fær Gylfa Sig að láni um áramótin. Gylfi skoraði helling af flottum mörkum sem komu uppúr nákvæmlega engu. Það voru aukaspyrnur og langskot osfr og hann vann nokkra leiki fyrir þá. Þeir enduðu í 11 sæti og hann er svo ráðinn til Liverpool !! Ekki beint glæsilegur ferill.

  22. Kommon….haldið þið að einhver annar stjóri væri farinn að gera betri hluti með þessar rústir sem hann tók við með jafn lítið fjármagn. Nei.

  23. Þar sem ég hef verið að sjá neikvæðni í þessum þræði gagnvart Downing, þá verð ég að segja að mér fannst hann vera a.m.k. með okkar allra skástu mönnum í leiknum í dag. Alveg vel solid. Mér finnst hann reyndar oftast solid.

  24. 25 – Hugo Lloris – Mark
    28 – Kyle Walker – Vörn
    20 – Michael Dawson – Vörn (F)
    5 – Jan Vertonghen – Vörn
    16 – Kyle Naughton – Vörn
    7 – Aaron Lennon – Miðja
    6 – Tom Huddlestone – Miðja
    46 – Tom Carroll – Miðja
    11 – Gareth Bale – Miðja
    18 – Jermain Defoe – Sókn
    10 – Emmanuel Adebayor – Sókn
    Varamenn
    13 – William Gallas
    22 – Gylfi Sigurdsson
    23 – Carlo Cudicini
    29 – Jake Livermore
    27 – Yago
    38 – Ryan Mason
    2 – Clint Dempsey
    Þetta er liðið sem Spurs stillir upp í dag, skelfilegt að sjá hversu mikill munur er á breiddinni hjá liðið eins og Tottenham og okkur, segir manni kanski hvert þessi klúbbur hefur verið að stefna síðustu ár.

    Vonandi koma betri tímar, gefum Rodgers nokkur ár

  25. Voru mistök að hvíla leikmenn eins og Luis Suarez, Steven Gerrard og Joe Allen?

    Rodgers svarar “No, not at all. I think that’s disrespectful to the players who are here. They have been magnificent and done really, really well tonight”

    Það er enginn að segja að frammistaða leikmanna hafi verið “framúrskarandi” í kvöld. Hann segir þá hafa staðið sig mjög mjög vel. Hann segir ungu leikmennina hafa verið “terrific” en ég get ekki séð að honum hafi fundist leikmennirnir framúrskarandi? Hann kýs að draga það jákvæða frá leiknum…. Þetta eru leikmenn sem hafa aldrei spilað saman Evrópuleik, Coady á miðjunni, Morgan frammi, Flanagan…. þeir rétt töpuðu, á útivelli, í Moskvu. Voru hundsvekktir. En reynslunni ríkari.

    Áfram Rodgers!!!

  26. A) Totaal voetbal. Frábær tegund fótbolta. Langskemmtilegast. Hraði, spil, combinationir, þríhyrningar, mörk! Hjá Ajax skipti ekki öllu máli hvað liðið fékkmörg mörk á sig, bara ef það skoraði fleiri. En, það er ekki bara ákvörðun að leika totaal voetbal – það þarf að hafa mannskapinn í það; allir geta sótt, allir geta spilað, allir geta skorað…. Við höfum því miður ekki þennan mannskap
    B) Coates. Að mínu mati frábær leikmaður, einn sá besti í hópnum. En það er ekki einfalt (og alls ekki sem miðvörður) að spila öðru hvoru og þá með mismunandi menn sér við hlið. Þessi piltur á bara eftir að verða hrikalega góður miðvörður. Dreginn út úr stöðu, ekki viss. Í totaal voetbal verða allir að geta spilað allar stöður. Hjá Ajax og Hollenska landsliðinu verða bakverðir og miðverðir stundum að varast að verða ekki rangstæðir í sókninni! En – þá verða aðrir að geta dottið í þeirra stöður. Það er totaal voetbal.

  27. @Kanill já ég er nokkuð viss um að ef að Kenny daglish væri t.d. þarna enþá þá værum við í betri stöðu en raun ber vitni. Ég fyrir mitt leiti er bara orðin hundleiður á þessu ofurbitlausa skipulagi sem að Brendan Rodgers spilar og mér bara hreint út sagt hryllir við tilhugsuninni hvernig væri komið fyrir okkur ef að Luiz Suarez væri ekki í liðinu okkar. Hann hefur á skorað meira en helmingin af mörkunum okkar á þessu tímabili og er líka búin að detta inn með einhverjar 3 stoðsendingar án hans værum við klárlega í fallsæti. Flest mörkin hans koma líka út af einstaklings framtaki hjá honum en ekki út af einhvurri snilldar uppbyggingu. Ég satt best að segja skil bara ekki hvað menn sjá við Brendan Rodgers það eina sem hann gerir ágætlega er að skipuleggja miðjuna svo hún geti haldið boltanum og sparkað honum á milli sín. En hann er glataður í öllu sem heitir varnar skipulag sem sýnir sig í því hvað við erum búnir að fá fáránlega mörg mörk á okkur þrátt fyrir að vera með þokkalega sterka varnarlínu. En út af leikskipulaginu sem hann spilar þá eru þeir sífellt að missa menn á bakvið sig eins og í leiknum á móti Newcastle um helgina, ég vissi það þegar leikmenn Newcastle voru að hlaupa yfir miðjulínuna að það væri mark í uppsiglingu. Brendan hefur heldur ekki hugmynd um hvernig á að byggja upp sterkan sóknarleik þetta er eitthvað sem að ég held að þarfnist ekki frekari útskýringa enda sést það langar leiðir hversu afleitir við erum sóknarlega. Það sást t.d. allavegana 3svar í Newcastle leiknum þá kemst Suarez hver annar upp að endamörkum lítur upp og þá eru bara 5 leikmenn Newcastle inni í teig en enginn rauð treyja. Þetta endar með því að Suarez reynir vonlaust skot úr þröngu færi því það er eini kostur hans í stöðunni þetta öskrar bara lélegt skipulag og leikmenn vita ekkert hvað er ætlast til af þeim sóknarlega og eru ekkert að bomba inn í teig og bjóða sig. Spurninginn er bara hversu lengi við eigum eftir að þjást undir Rodgers því ég hef nákvæmnlega enga trú á því að þetta komi til með að batna neitt þó við kaupum einhverja framherja í Janúar því ég efa stórlega að BR fái nógu mikin pening til þess kaupa eitthvað almennilegt.

    kv. Einn sem er alveg búin að missa trúnna.

  28. Það er grafalvarleg staða á Anfield þessa dagana. Liðið vinnur bara mjög sjaldan fótboltaleiki. 17 leikir á þessu seasoni c.a. og einhverjir 6 sigrar og þar af marðir sigrar gegn Reading, Hearts, Anzhi, og Young Boys. Come on!!!Brendan verður að hætta að hrósa alltaf liðinu fyrir hvað allt er frábært og allir frábærir (nema Downing) og fara að fá menn upp af rassgatinu. Ef stjórinn er alltaf sáttur eftir tap og jafntefli þá verða leikmennirnir það líka. Markmið BR virðist vera að halda boltanum en ekki að vinna fótboltaleiki. Stuðningsmenn Liverpool vilja vinna fótboltaleiki og ekki vera aðhlátursefni viku eftir viku. Alveg væri ég til í að sjá Willian frá Shakthar fremstan á miðjunni hjá Liverpool, Edinson Cavani með Suarez og Marko Reus, Kevin GroSkreutz eða Mario Götze á miðjuna. Mætti selja Downing, Henderson og Joe Allen til að fjármagna þetta og bæta svo við nokkrum mills. Maður lætur sig dreyma. Kv. einn langþreyttur.

  29. Afhverju reyndi Liverpool ekki að fá Harry redknapp í sumar ?? og ég var að spá í eitt áðan , Liverpool er núna að berjast um evrópusæti í deildinni og voru líka að gera það í fyrra, svo núna þegar Liverpool er að spila í þessari evrópukeppni þá stillir Liverpool upp B- liði, tilhvers ? ok þeir vilja vera með sitt sterkasta lið gegn Chelsea til að fá mikilvæg stig í baráttunni um evrópusæti. svo verður þetta sama hringekja á næsta tímabili.

  30. Gott að við unnum Reading. Nú höfum við nefnilega unnið fleiri leiki á Anfield á árinu heldur en Arsenal!!

  31. Hvað getur maður sagt eftir svona leik. Skelfileg mistök hjá Coates, og svo Jones að koma svona út á móti Traore. Svona er þetta, leikir vinnast oft á því að hitt liðið gerir fleiri mistök en andstæðingurinn. Ég get ekki að því gert en mér finnst margir hérna á spjallinu gjörsamlega “taka Cole af lífi” sem knattspyrnumann, vælandi út af því hann fær 90.000 pund á viku. Hvað er eiginlega að ykkur ??? Ekki er það honum að kenna að umboðsmaður hans samdi um þessi laun við Liverpool ! Ég get rétt ímyndað mér hvernig honum líður, búin að vera óheppinn með meiðsli, lánaður út, með þrjá framkvæmdastjóra og er greinilega ekki með snefil af sjálfstrausti, (svipað og Downing var). Hvernig væri að standa bara að baki þeim 11 leikmönnum sem byrja leikinn í staðin fyrir að drulla yfir einstaka leikmenn Liverpool FC. Þetta er það sem við höfum eins og er, það breytist ekkert fyrr en í janúar en þangað til eru þessir leikmenn að gera sitt besta fyrir LFC. Ég veit að úrslitin hafa ekki verið uppá marga fiska í haust en hópurinn er mjög þunnskipaður og því verður BR að nota það sem hann hefur. Ég er jafnpirraður og flestir hérna, en í guðs bænum farið að hætta að kenna Cole um allt sem miður fer í þeim leikjum sem hann fær að spila. Hann varð ekki lélegur fótboltamaður um leið og hann skrifaði undir hjá Liverpool.

    Vonandi fer þetta að koma hjá Liverpool FC. Ég fer allavega ekki að hætta á horfa á þá núna. Byrjaði að horfa á þá í svart hvítu með Bjarna Fel að lýsa viku gömlum leikjum, og mun horfa á þá þar til ég kveð þennan heim. 🙂

  32. Ég trúi því ekki að menn séu að röfla eftir þennan leik. Áttið ykkur á því að þetta er Evrópudeildin, ferðalagið var til fokking Rússlands og næsti leikur er útileikur gegn ríkjandi Evrópumeisturum eftir 3 daga. Liðið sem fór út til Rússlands voru þeir sem ekki eiga að vera í byrjunarliðinu í næsta leik. Liðið spilaði samt vel og tapaði á ótrúlega laglegu einstaklingsframtaki. Jafnvel með okkar besta lið væri 1-0 tap úti gegn Anzhi ekkert fáránleg úrslit. Við erum bara ekki með hópinn til að spila í svona mörgum keppnum og fara í svona löng ferðalög.

    Það var að mínu mati hárrétt hjá Rodgers að fara með þennan hóp til Rússlands. Við erum í meiðslavandræðum, við erum með þunnan hóp og við þurfum að versla. En það er teljandi á fingrum annarar handar þeir leikir sem við höfum verið lakari aðilinn í. Verum þolinmóð, við vissum að þetta yrði erfið byrjun hjá Rodgers, en stöðugleikinn kemur hægt og rólega og góð úrslit um leið.

  33. Eftir að hafa lesið þessi komment þá man ég vel af hverju ég hætti að lesa spjall á Liverpool.is. Sýnist þessi frábæra síða þurfa að banna kommet 24tíma eftir tapleik.

    Punktar frá að hafa lesið þetta.

    Kaupa heimsklassaleikmenn sem Liverpool á ekki pening fyrir.(Við gátum ekki keypt Dempsey fyrir4-6millur).
    Reka Rogers og byrja aftur uppá nýtt.( 5000kr að sömu menn vildu Rafa burt, hverju skilaði það?)
    Fá Harry Redknapp, Já hugsum um framtíðina maðurinn er fæddur 1947. ( Þarf 2.3 ár að gera liðið eins og hann vill hafa það)
    Það vantar gæði í þennan hóp. (Sherlock Holmes hefði þurft hjálp við að fatta þetta).

    YNWA og at the end of a storm is a golden sky!

  34. Ég sá nú ekki þennan leik en mikið finnst mér gaman að sjá hversu sprækur hann Suso er þegar hann fær að vera á miðjunni.
    Horfið á þetta myndband af þessum 18 ára gutta úr leiknum í gær.
    http://vimeo.com/53127041

    Þessi strákur á að fá að spila á miðjunni og Gerrard framar á völlinn.
    Varðandi coates þá verður einfaldlega að fara að lána hann svo hann staðni ekki á bekknum hjá okkur. Þessi strákur verður að fá að spila í hverri viku og þá getur Carra verið á bekknum.

  35. ég held að mestu vonbrigðin séu að þurfa að stilla upp svona lélegu varaliði, segirallt um hvar klúbburinn stendur!

  36. Það sem ég tek út úr þessum leik er það að Shelvey á ekki að fá að skjóta á markið utan vítateigs… Annars fín frammistaða hjá liðinu.

  37. Þreytt að lesa alltaf þessi komment þegar illa gengur hjá liðinu. Ef þið þarna mynduð fá að ráða þá væru 2-3 stjórar á ári og engar framfarir. Núna er s.s. verið að byggja grunn fyrir framhaldið og verið að reyna að finna leiðir til hafa liðið ekki endalaust háð duttlungum eins manns. Þetta tekur tíma og tekur meira en 3-4 mánuði.

    Í Brendan Rodgers hefur Liverpool ekki bara einn efnilegasta heldur einn best skólaða knattspyrnustjóra á Englandi í dag. Hann hefur verið í þjálfun síðan hann var 20 ára gamall ásamt því að hafa unnið undir Mourinho og ferðast um Evrópu og lært knattspyrnufræði, m.a. lært á Spáni og í Hollandi. Stundum þarf ekkert endilega að hafa verið á stóra sviðinu í langan tíma á meðan menn þekkja leikinn og hafa virðingu leikmanna og er ég alveg 100% að leikmenn Liverpool beri virðingu fyrir honum. Dæmi um mann sem er að slá í gegn og hefur ekkert betri gráðu en Rodgers er Tito Vilanueva, menn segja kannski að það þurfi ekki að stýra Barcelona, en það þarf nú samt að plana leikinn taktískt og hann er að gera það.

    Þegar það er verið að tala um hvernig Rodgers hafi verið rekinn frá Reading þá var hann bara hjá Reading í 6 mánuði. Þarna var hann að taka við liði sem var ekkert þekkt fyrir einhvern samba-bolta. Þegar hann tekur svo við Swansea þá er hann að taka við liði sem hafði verið að spila svipaðan bolta í nokkur ár og liðið þurfti mun minni aðlögunartíma. Liverpool hafði á meðan verið með Dalglish og Hodgson sem eru ekkert þekktir fyrir að vera léttleikandi. Bætum ofaná þetta slæmum leikamannakaupum og þroskaheftum fjárfestingum og þá er ótrúlegt að klúbburinn standi ennþá.

    Stuðningsmenn þurfa að læra að meta hvað þeir eru með í höndunum í Rodgers. Þetta er maður sem á eftir að bylta klúbbnum. Hann gæti farið auðveldu leiðina og farið að spila bolta sem leikmennirnir þekkja og náð sæmilegum úrslitum eða hann getur fórnað tímabundið, kennt nýtt og unnið síðar. Stundum er betra að spara fyrir einhverju góðu heldur en að kaupa drasl aftur og aftur og aftur… og aftur.

  38. Það skemmtilega við þetta lið okkar er hvað það er ungt – og samt var Sterling ekki með! Nokkrir 18 ára og yngri! Ef liðið kæmi til Íslands og upp kæmi einhver pest og veikindi lentu nokkrir liðsmannanna (yngri en 18) á Barnaspítala Hringsins !!!

  39. Það er ekki Rodgers að kenna hvernig staðan er og ég skil vel að eigendurnir séu ekkert að ausa peningum í leikmenn. Núverandi eigendur byrjuðu á því að greiða niður 200 milljón punda skuld (sem er þeirra verðmætasta framlag til klúbbsins. Annars væri Liverpool væntanlega í svipaðri stöðu eins og Leeds eða Rangers??) og eyddu svo t.d. 35 milljón pundum í þennan sóknarmannn hér http://soccernet.espn.go.com/player/_/id/91478/andrew-carroll?cc=5739 sem hefur skorað 0 mörk og átt 0 stoðsendingar í 8 leikjum fyrir West Ham á tímabilinu. Peningarnir sem farið hafa í að kaupa leikmenn hafa farið að miklu leyti til spillis, því miður. (auðvitað samt ekki að öllu leyti).

  40. 39

    Brynjar, þetta var vel orðað hjá þér og orð í tíma töluð. Liðið er að spila virkilega vel og flottan bolta. Auðvita væri gaman að sjá liðið skora meira, en það kemur. U21 lið Liverpool er held ég taplaust það sem af er á þessu tímibili, og margir skemmtilegir leikmenn þar. Ef eigendur Liverpool og stuðningsmenn halda áfram að styðja við liðið og stjórann þá verðum við þar sem við eigum heima eftir smá tíma. Góðir hlutir gerast hægt 🙂

  41. Félagi minn er í LONDON á sunnudaginn.. honum sár-VANTAR miða á leikinn

    Chel$ki vs LIVERPOOL

    Helst í AWAY section, en líka alveg í Chel$ki partinum..

    Edilega hafið samband ef þið hafið hugmynd um hvernig sé best að ná miða…
    (ÉG VEIT FÁRANLEGA LÍTILL FYRIRVARI)

    Twitter
    @rangnarsson10

  42. Hárrétt ákvörðun hjá Rodgers að hvíla lykilmenn og þetta tap skiptir engu ef við komumst áfram (sem verður mjög líklega raunin eftir 2 vikur). Ég hef meiri áhyggjur af því hvað þjálfarinn okkar er hrikalega ánægður með frammistöðuna hjá liðinu og hrósar öllum leikmönnum mikið fyrir agaða en steingelda spilamennsku leik eftir leik.

    Það er eitt að byggja upp sjálfstraust hjá ungu liði og láta klúbbinn líta útávið í fjölmiðlum eins og allt sé á uppleið og leikmenn séu farnir að skilja þínar hugmyndir og leikkerfi. Það er annað að virðast hæstánægður með þá algeru meðalmennsku sem sumir leikmenn sýna.

    Oflof getur líka verið háð og látið stjórann líta útfyrir að hann ráði ekki við djobbið eða sé að reyna niðurlægja leikmenn og jafnvel að kaupa sér tíma í starfi. Hann gæti misst traust lykilmanna og orðið að athlægi í ensku pressunni ef hann virkar úr jafnmiklum tengslum við veruleikann og Roy Hodgson t.d. sýndi frammá.

    Enginn að tala um að hann eigi að hrauna yfir liðið ef það tapar, bara að láta leikmenn vita til hvers sé ætlast af þér ef þú ert leikmaður Liverpool FC. Hrósa þeim sem standa sig vel og finna einhvern milliveg með þá sem eiga að geta gert mun betur.

    Mér líst líka illa á það ef Rodgers ætlar lítið útfyrir sitt “comfort zone” og ætlar að kaupir að mestu leikmenn sem hann hefur unnið með áður (Allen, Borini og orðaður við Sturridge og einhvern varnarmann Reading o.sfrv.) eða menn á einhverjum bargain kaupverði. Hann bara verður að fara landa 1-2 virkilega stórum leikmannakaupum á þessu ári eða sýna oftar svipuð taktísk snilldarbrögð og hann gerði í seinni hálfleiknum gegn Everton svo hann haldi trúverðugleika.

    Þetta er eitthvað sem Rodgers má fara laga og það fljótlega. Hann er ekki hjá Swansea lengur.

  43. Liverpool búið að brenna oft af færum eins og Henderson var í á þessu tímabili þar sem vantaði að gefa sendinguna inn í teig. Brendan líklega búinn að öskra á menn að laga þetta og Henderson farið á taugum þegar hann af öllum mönnum slapp í gegn. Hann horfði ekki einu sinni á markið í dauðafæri.

  44. Hann hefði nú frekar átt að hvila menn bara á sunnudaginn við erum ekki að fara að vinna Chel$ki þó við fengjum að hafa 14 manns inná.

  45. Fínn fílingur fyrir sunnudeginum. Turning point?
    Upp með Gerrard.
    Allen og Henderson DM.
    Johnson skrtel coates Agger Downing
    Henderson Allen
    Gerrard Suarez Sterling

  46. Geta menn ekki lesið í aðstæður hérna? Mér er svo slétt sama hvort þetta hafi verið tap eða ekki. Hann stillur upp b-c liði á mót sterku liði, sem spilar í Rússlandi, um vetur, og völlurinn ekki beint í tiki-taka ásigkomulagi. Eto’o vs. Morgan til dæmis.. Gæðamunurinn er svona þúsundfaldur.

    Þessi leikur er rétt á eftir erfiðum N’castle leik, stutt í Chelsea, á hann að taka með Suarez, Gerrard, Skrtle, Reina, Sterling og Agger til dæmis? menn hefðu hengt hann fyrir það. Hvernig geta menn mögulega verið hissa yfir þessu.

    Brendan er að spila þessar keppnir mjög taktískt rétt. Notar sterkaleikmenn í heimaleiki í minni keppnum og sendir þá sem fá minna að spila í ferðalög, mjög skynsamt og rökrétt. Þó svo að úrslit í deild séu ekkert til að hrópa húrra fyrir þá er hann alveg að gera ágætishluti miðað við aðstæður, mun betur en margir gera með breiðari hópa.

    Það verður réttmætara að ætla dæmann eftir janúar og næsta sumar þar sem hann verður kominn með meira ” sitt lið”. Ef það gengur eins á þá, þá meiga menn fara að baula.

  47. Hver er tilgangurinn við að hvíla í evrópu þegar hann er hvort eð er bara að skíta upp á bak í deildinni skiptir í bara engu máli. Í evrópu eigum við þó allavegana möguleika á bikar í deildinni er eina vonin um einhverja spennu sú að við gætum blandað okkur í fallbaráttuna.

  48. Æji Deus djöfull ertu orðinn pirrandi. Hættu að copy paste alla leiðindar póstana þína hingað. Endalust væl í þér alla daga.
    Hvað viltu fá í staðinn fyrir Rodgers ?
    Hvaða töframaður á eftir að rífa þennan hóp sem Rodgers er með upp töfluna hraðar en hann sjálfur ?

  49. Rodgers er í allsherjar uppbyggingu með klúbbinn. Að vilja hann burtu núna er algjörlega galið og bara til að búa til enn meiri vitleysu í kringum klúbbinn. Auðvitað er hundfúlt að vera um miðja deild og vera að ströggla en hann er að vinna vel úr því sem hann hefur. Dalglish og co fengu tékkann og sólunduðu honum ævintýralega. Rodgers hefur ekki fengið neinn slíkan tékka. Hann er að gera það sem við höfum ekki séð í mörg ár, koma upp með unga hörkuleikmenn. Það á eftir að skila sér. Forgangsatriðið núna er að styrkja sóknina í janúar. Þar eru spennandi bitar sem verða samningslausir næsta sumar. Vonandi fær Rodgers þann stuðning sem hann þarf við það og þá held ég að þetta gæti orðið ágætis tímabil.

  50. er þessi medvirkni sem kemur fram í langflestum komentum hér ekki full mikid af þvi góda ? vid vitum öll ad Rodgers er rétt komin af stad og ad þetta tekur tima . en þad þýdir ekki ad þad megi ekki gagrýna manninn , hann er jú búin ad gera fullt af mistökum . en þad væri rugl ad reka hann núna

  51. Liðið sem vinnur Chelsea

    Suarez
    Suso Gerrard Sterling
    Sahin Allen
    Enrique Agger Skrtel Flanagan
    Jones

  52. @ GBS

    Það er verið að tala um Anzhi leikinn hérna. Ég vil meina að Rodgers hafi tæklað hann eins vel og mögulegt er. Hver voru mistökin að þínu mati?

  53. Það var alltaf vitað mal að uppbyggingin tæki tim, eg er ekkert undrandi a stöðu liðsinns, þetta mun lagast og við verðum i toppbarattunni ef ekki a næsta ari þa þvi þarnæsta, það er að segja ef við stöndum með Rogers, ef ekki þa verður þetta svona a næstu arum, það er grundvallar atriði að hafa sjora sem er öruggur i starfi og stöðuleika i rekstri klubbsinns. Það næst ekki með þvi að vera stöðugt að skipta um stjora.

    JFT96 YNWA

  54. @Bond hef nú tekið þátt í umræðunni hér í mörg ár og ætla ekki að fara hætta því núna. Ef það fer fyrir brjóstið á þér að ég skuli ekki vera með sömu skoðanir á hlutunum og þú þá skaltu bara sleppa því að lesa það sem að ég skrifa.

  55. Hvernig er hægt að velja Brad Jones mann leiksins þegar hann á markið skuldlaust ?? Þessi leikur hefði mjög líklega farið 0-0 ef hann hefði ekki ætt út úr markinu eins og einhver bavíani.

  56. Það er enginn að kvarta yfir að þú sért ekki með sömu skoðanir og aðrir, Deus, það er einfandlega verið að kvarta yfir því að þú segir sama hlutinn í hverjum einasta “bíbb” þræði, oft oftar en einu sinni.

    Í öllum tilfellum er það illa rökstutt og enn verr sett fram. Hvaða lausnir bíður þú ? Þú hefur ekki Guðmund um hvað á að gera, nema að það eigi að reka nýja stjórann 10 leiki inní tímabilið. Það er svo yfirgnæfandi vitlaust að ég veit ekki hvar á að byrja, ef maður ætlar sér að rífast um þetta við þig. Því sleppi ég því bara. Þú ert eflaust ein af þessum týpum sem telur alla hina algjöra vitleysinga af því að þeir hafa ekki sömu, róttæku, skoðanir og þú. Þó þú sért 1:1000 þá eru allir hinir vitleysingar.

    Þú mátt hafa þínar skoðanir, en ég gæti ekki verið meira ósammála þeim. Reyndar finnst mér þær svo mikil vitleysa að bara vegna þín ætti að taka þumal niður optionið upp aftur. Það vita allir að vandamál klúbbins eru mikil, en það eru bara þeir sem stynga höfðinu í sandinn sem halda að þjálfarinn sé þar efstur á lista. Ég gef mér það að þú kaust vinstri græna í síðustu kosningum.

Liðið gegn Anzhi Makachkala

Chelsea á morgun