Swansea á miðvikudag & ýmislegt annað

Ath.: Þetta er upphitun fyrir bikarleikinn gegn Swansea en fyrst ræði ég gærdaginn í ensku Úrvalsdeildinni aðeins. Ef þið viljið sleppa þeim hluta getið þið rennt beint niður á myndina af Brendan Rodgers og lesið upphitunina þaðan.

Ég er orðinn þreyttur á enskri knattspyrnu.

Kannski er það að hluta til eðlilegt. Ég og Einar Örn stofnuðum Kop.is fyrir átta og hálfu ári og síðan þá hefur rekstur hennar tekið hluta af hverjum degi hjá mér. Ég hef alltaf verið harður Púllari og eytt tíma í að lesa um og fylgja mínu liði og fylgjast almennt með enska boltanum en síðan Kop.is fór í loftið hef ég fylgst nánast yfir mig mikið með enskri knattspyrnu.

Á þessum tíma, og í gegnum árin, hafa alltaf komið upp umdeild atvik í enska boltanum. Eric Cantona var gríðarlega umdeildur leikmaður, stuðningsmenn United elskuðu hann en allir aðrir hötuðu hann. Fleiri slíkir hafa prýtt stórliðin, menn eins og Didier Drogba, Patrick Vieira, Roy Keane, Ashley Cole, Cristiano Ronaldo, John Terry og svo mætti lengi telja. Það eru alltaf einn eða tveir svona í hverri deild, til dæmis hefur Kjartan Henry Finnbogason gegnt þessu hlutverki á Íslandi síðustu sumrin.

Þessir leikmenn eiga það allir sameiginlegt að vera frábærir knattspyrnumenn. Það er lykilatriði – ef leikmaðurinn væri bara umdeildur og ekkert sérstaklega góður (dæmi: Michael Brown eða Robbie Savage) þá væri auðvelt að hata hann en um leið auðvelt að hundsa hann, og stuðningsmenn liðs viðkomandi væru ekkert svo æstir í að verja viðkomandi.

Það er öðruvísi þegar um einn af betri leikmönnum heims ræðir. Cristiano Ronaldo fór ómennskt mikið í taugarnar á flestum stuðningsmönnum annarra liða en United-menn elskuðu hann því hann spilaði jú líka ofurvel fyrir þá, auk þess að vera umdeildur. Það sama gildir um alla hina.

Í dag er það verkefni okkar manns, Luis Suarez, að bera þennan kyndil, auk kannski einna helst John Terry hjá Chelsea. Það er ekki tilviljun að þeir hafi báðir lent í sams konar máli síðasta árið. Það eru slík mál, auk annarra umdeildra atvika þeirra félaga, sem hafa komið þeim í þessa stöðu. Báðir eru frábærir leikmenn sem lið þeirra treysta á en um leið virðist hneykslunin elta þá.

Þið þekkið sögurnar.

Málið er bara að það sem veldur mér mestum vonbrigðum er blinda stuðningsmanna gagnvart leikmönnum annarra liða. Stuðningsmenn United voru brjálaðir yfir þeirri meðferð sem Cristiano Ronaldo fékk í mörg ár á Englandi en þeir hika ekki við að ganga harðast fram gagnvart Luis Suarez. Stuðningsmenn Liverpool hötuðu Ronaldo og verja Suarez með kjafti og klóm í dag en munu pottþétt ekki hika við ef þeir fá aftur tækifæri til að drulla yfir næsta United-mann. Chelsea-mönnum fannst gott á Suarez að lenda í leikbanni fyrir ósannað kynþáttaníð en voru brjálaðir þegar Terry fékk sömu örlög, og öfugt.

Ef það er „minn“ leikmaður er ég brjálaður ef hann er hlunnfarinn á nokkurn hátt. Ef það er leikmaður „hinna“ er mér alveg sama þótt hann verði fyrir öllu ósanngjörnu. Og svo endalaust framvegis.

Undanfarið finnst mér þetta hins vegar hafa versnað til muna. Í átta og hálft ár hef ég fylgst með nánast öllu sem tengist enskri knattspyrnu og mér finnst þetta hatur á milli stuðningsmanna liða hafa versnað fram úr öllu hófi síðustu eitt eða tvö árin. Ég veit ekki hvað veldur, maður verður brjálaður yfir hinu og þessu á hverjum einasta vetri en núna er eins og umræðan sé orðin ljótari en nokkru sinni fyrr.

Ég leitaði að gamni mínu að orðinu Suarez á íslensku á Twitter í dag og fann nokkur góð dæmi um það hvers konar umræða ríkir á Íslandi. Hér eru nokkur ummæli sem féllu um Suarez yfir leiknum í gær og eftir leik:

Ég þekki engan þessara manna persónulega og ætla ekki að alhæfa neitt um þá. Þetta eru eflaust allt fínir Íslendingar eins og ég og þið hin. En þeir þekkja Luis Suarez ekki neitt heldur persónulega. Þeir sjá að hann skorar mörk, spilar vel, rífst í dómurum, tekur stöku dýfu til að vinna aukaspyrnur og brýtur af og til af sér og fær gul spjöld. Svona bara eins og 99% knattspyrnumanna í heiminum.

Rotta. Viðbjóður. Kunta. Ógeð. Viðjóðslegur karakter. Og svo framvegis, og svo framvegis…

Þetta er maðurinn sem þeir eru að tala um. Enginn þeirra þekkir hann persónulega en hann er nánast réttdræpur af því að hann tekur stundum dýfur á knattspyrnuvelli. Mér þætti gaman að sjá þá dæma til dæmis frændur sína eða vini jafn hart ef þeir gerðust sekir um slíkt.

Auðvitað er hægt að finna svona dæmi um Drogba, Terry, Ronaldo og alla hina. Liverpool-stuðningsmenn hata þegar Suarez er úthúðað svona en eru svo ekkert betri í garð leikmanna annarra liða. Það er það sem ég á við. Umræðan er orðin fáránlega ljót og ógeðsleg, svo ljót að það er varla við hæfi barna að ætla að lesa Facebook og Twitter í kringum stórleiki og Kop.is væri svo sannarlega ekki við hæfi barna ef við ritskoðuðum ekki ummæli hérna.

Ég er orðinn verulega þreyttur á þessu, og ég vildi óska þess að þetta hætti. Þegar allt kemur til alls og leikmenn skipta úr búningum liða sinna og yfir í hversdagsfötin, þá fara þeir allir heim til fjölskyldna sinna og reyna að lifa sínu lífi eins og við hin. Ég vildi óska að stuðningsmenn hefðu þetta aðeins oftar í huga og þá sérstaklega þegar leikmenn andstæðinganna eiga í hlut.

Eins þreyttur og ég er orðinn á umræðunni er samt annað sem pirrar mig meira við enska knattspyrnu.

Eins og ég sagði hér að ofan eru umdeild atvik ekki ný af nálinni. Leikmenn, atvik og leikir, allt hefur þetta verið umdeilt og reglulega rifist um hvað er sanngjarnt og hvað ekki. Hins vegar sér það hvert heilvita mannsbarn að það stefnir í óefni hvað varðar knattspyrnu á heimsmælikvarða og dómgæslu.

Mér finnst alltaf jafn leiðinlegt að kvarta yfir dómaranum. Ég hef alltaf haft það að leiðarljósi að viðurkenna ósigur þegar hann ber að hendi og ég hef aldrei þolað gæjann sem snýr út úr og forðast að viðurkenna að hans menn hefðu getað gert betur.

Dæmi: Arsenal komu á Anfield í haust og unnu verðskuldað. Voru betri aðilinn og áttu skilið sigur.

En svo koma stundum upp atvik, það er bara þannig, þar sem maður verður að taka það fram að úrslit leiksins eru ekki endilega í takt við gang leiksins.

Dæmi: Manchester City komu á Anfield í haust og fengu gefins jafntefli. Liverpool átti að vinna þann leik en ein slæm mistök kostuðu liðið sigur og gáfu City stig á silfurfati.

Ekkert að þessu heldur og lítið um þetta rifist. En svo kárnar gamanið þegar kemur að dómurunum. Að Martin Skrtel gefi City stig er pirrandi en menn verða að kyngja því. Það stoðar lítið að vera betri aðilinn þegar einn af ellefu leikmönnum liðsins gefur stig.

En þegar dómarinn á í hlut? Þá sýður á manni. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf. Á síðustu leiktíð fannst mér með ólíkindum hvað Liverpool naut lítillar sanngirni dómara. Ég spurði mig oft hvort þetta væri paranoja í okkur Púllurum, hvort við gætum verið sanngjarnari við dómara en ég komst jafnan að þeirri niðurstöðu að þetta væri bara hrikalega svekkjandi og ósanngjarnt. Ekki var á bætandi hjá liðinu í fyrra en stórar ákvarðanir í allt of mörgum leikjum féllu gegn okkur og gerðu illt verra.

Í haust hugsaði ég með mér að þetta gæti varla annað en batnað. Það væri ekki séns að við myndum upplifa annan eins vetur þar sem liðinu virtist fyrirmunað að fá vafaatriði sér í hag.

Það hefur þó heldur betur orðið raunin. Óháða vefsíðan Debatable Decisions heldur utan um öll stóru atriðin í hverjum leik í Úrvalsdeildinni. Það er að segja, atriði sem kosta lið mörk eða færa liði mörk og voru umdeild. Það er skemmst frá því að segja að fyrir umferð helgarinnar var Liverpool neðst í þessari deild. Fimm umdeild atriði alls í fyrstu átta umferðunum og ekki eitt þeirra hafði fallið rétt, Liverpool í hag. Fimm umdeild atriði sem skv. vefsíðunni höfðu kostað Liverpool þrjú stig.

Við getum breytt því í sex umdeild atriði sem hafa kostað Liverpool fimm stig, núna.

Og þetta er einfaldlega hætt að vera fyndið.

Enskir blaðamenn og knattspyrnustjórar keppast við að úthúða hinu og þessu. Rasisminn er að eyðileggja fótboltann, blótsyrði Wayne Rooney og fleiri eru að eyðileggja fótboltann, dýfingar eru að eyðileggja fótboltann, peningar eru að eyðileggja fótboltann.

Vitið þið hvað er í alvöru að eyðileggja ensku deildina? Dómgæslan. Ef þið trúið mér ekki skulið þið horfa á nokkra leiki með stærstu liðunum á Spáni, í Frakklandi og Þýskalandi um næstu helgi. Það er eins og svart og hvítt að horfa á þá leiki og þótt stöku mistök séu gerð eru þau langt því frá jafn víðtæk og sjást í ensku Úrvalsdeildinni.

Gærdagurinn var eins og hálfgert skyndinámskeið í stöðu enskrar dómgæslu. Eftir að Arsenal fengu ólöglegt sigurmark ranglega dæmt gilt á laugardag (+2 stig fyrir þá) skoraði Luis Suarez löglegt sigurmark gegn Everton í gær en það var ranglega dæmt af af því að aðstoðardómarinn hélt að það væri rangstaða (-2 stig). Tveimur tímum seinna fékk Manchester United svo gefið gilt sigurmark gegn Chelsea sem var rangstaða (+2 stig) og fyrir vikið dróst Liverpool tveimur stigum til viðbótar aftur úr erkifjendum sínum, í stað þess að draga á þá tvö stig eins og helgin hefði með réttu átt að skila.

Og sigurmark United? Það kom eftir að Fernando Torres var rekinn út af fyrir „dýfu“ sem við höfum séð viðgangast án refsingar í hverri umferð í mörg, mörg ár. En af því að umræðan um dýfur hefur verið mikil undanfarið var sennilega búið að gefa út nýja línu í dómgæslunni og fyrir hana leið Torres í gær. Svipað og Javier Mascherano leið fyrir umræðuna í kjölfar hegðunar Ashley Cole í garð dómara á White Hart Lane fyrir fjórum árum. Þá komst Cole upp með mikil ólæti við dómara, umræðan gekk í heila viku um að það yrði að taka hart á svona og að menn yrðu að sýna dómurum virðingu, og svo mætti Mascherano á Old Trafford og fékk tvö gul með nokkurra sekúndna millibili fyrir algjöran tittlingaskít.

Suarez dýfir sér gegn Stoke og sleppur. Welbeck dýfir sér gegn Wigan og sleppur. En svo nær umræðan hámarki og Torres er rekinn út af fyrir lítið sem ekkert.

Sjáiði mynstur hérna?

Og hvernig bregðast stuðningsmenn liðanna við? Jújú, Liverpool-menn eiga að þegja af því að Everton var víst snuðað um löglegt mark gegn Newcastle fyrr í haust. Chelsea-menn eiga að þegja af því að einhverjir dómar féllu með þeim gegn United á síðustu leiktíð. Og næst þegar Liverpool eða Chelsea fá eitthvað sem þeir eiga ekki skilið munum við benda á leikina í gær sem réttlætingu. Ég má alveg stela frá Jóni af því að Pétur stal frá mér um daginn, nananana búbú!

Og þess vegna gerist ekkert. Af því að í stað þess að menn séu einu sinni sammála um að kvarta almennilega yfir dómgæslunni leysist umræðan alltaf upp í vitleysu og typpakeppni milli stuðningsmanna liðanna. Menn verja sína og sjá aldrei lengra en yfir eigin landamæri. United-menn geta ómögulega viðurkennt að þeir hafi fengið sigurinn gefins í gær, eða á Anfield fyrir mánuði, og benda frekar á síðustu skipti sem þeirra menn voru hlunnfarnir til að snúa út úr. Everton-menn gera það sama. Við líka, við erum ekkert betri þegar Liverpool fá hlutina gefins. Það er bara svo helvíti langt síðan Liverpool fékk stóru atriðin frítt frá dómurum að maður er farinn að taka skýrar eftir þessu núna.

Þetta er bara orðið svakalega þreytt, allt saman. Dómgæslan er að eyðileggja boltann, ekki síst þegar ákveðnir leikmenn virðast ekki eiga að spila á sömu reglum og aðrir. Ég er ekki bara að tala um Luis Suarez. Ég er að tala um menn eins og Marouane Fellaini…

Hér var dæmd aukaspyrna á Joe Allen. Í alvöru.

Það er líka orðið þreytt þegar stuðningsmenn beita ógeðslegum orðum um leikmenn annarra liða, eða hver aðra. Þetta er bara allt orðið svo ljótt og þreytt. Stundum segi ég við sjálfan mig að ég muni fljótlega hætta að horfa og fara að gera eitthvað annað, eitthvað uppbyggilegra við tímann. Það á eflaust aldrei eftir að gerast. En mikið djöfull er ég hættur að nenna þessu.


Tölum um eitthvað jákvæðara. Swansea City koma í heimsókn á Anfield á miðvikudag í fjórðu umferð Deildarbikarsins og þar sem við setjum inn nýjan Podcast-þátt annað kvöld hitum við upp fyrir leikinn núna.

Við þekkjum þetta Swansea-lið ágætlega svo sem. Brendan Rodgers og Joe Allen komu til okkar frá Swansea í sumar og þeir voru spútnikliðið í fyrra. Eru um miðja deild það sem af er í ár, stigi ofar en Liverpool, sem telst ágætt á þeim bæ. Michael Laudrup tók við liðinu af Rodgers og hefur verið að leika sókndjarfan bolta í upphafi tímabils. Hann fékk til sín frá Spáni framherjann Michu sem er markahæsti maður deildarinnar með sjö mörk, takk fyrir. Þeir unnu Crawley Town á útivelli í síðustu umferð með varaliði sínu en ég á fastlega von á að þeir stilli upp sínu sterkasta liði á Anfield á miðvikudag.

Af okkar mönnum er það helst að frétta að Kelly, Lucas og Borini eru meiddir og Reina og Johnson verða báðir tæpir í þennan leik. Ég geri fastlega ráð fyrir að Rodgers taki ekki séns á þeim í þennan leik enda heilir sjö leikir fram undan út nóvember og því mikilvægt að þeir nái fullri heilsu frekar en að spila þeim hálfheilum og sjá þá meiðast aftur.

Að sama skapi er ég næsta viss um að menn eins og Agger, Skrtel, Gerrard og Suarez verði hvíldir. Þótt það sé áhætta gegn Úrvalsdeildarliði hefur t.d. Suarez spilað 5 leiki á 18 dögum með Liverpool og Úrúgvæ og fyrst bæði hann og Gerrard spiluðu í 90 mínútur gegn Anzhi á fimmtudag, og aftur um helgina, verða þeir pottþétt ekki í byrjunarliðinu á miðvikudag.

Ég spái svipuðu liði og gegn WBA í síðustu umferð. Strákarnir fá séns sem og nokkrar varaskeifur:

Jones

Wisdom – Coates – Carragher – Robinson

Henderson – Allen – Shelvey

Downing – Yesil – Assaidi

Wisdom spilar því Johnson getur svo leyst hann af gegn Newcastle næsta sunnudag, og Enrique tekið vinstri bakvörðinn. Wisdom hefur verið í liðinu í síðustu leikjum en átti dapran dag í gær og hefði gott af smá hvíld. Joe Allen var ekki í byrjunarliðinu gegn Anzhi eins og Gerrard og Sahin og því spái ég að hann byrji gegn sínum gömlu félögum.

Á bekknum verða svo Suso og Joe Cole auk hetja eins og Suarez, Gerrard og Sterling ef þörf er á.

MÍN SPÁ: Þetta verður hörkuleikur og ég sé alveg fyrir mér mörk í þessu á báða bóga. Mér finnst hins vegar vera að koma ágætis bragur á leik okkar manna þegar líður á veturinn og ég spái okkur 3-2 sigri í hörkuleik og mögulega framlengingu.

Svo bara vona ég að það verði frammistaða leikmanna, ekki dómara, sem ráði úrslitum í þessum leik.

77 Comments

 1. Mikið sem þetta er satt hjá þér! Eitthvað sem allir ættu að taka til sín.

 2. Það er einsog þú hafir lesið hugsanir mínar og komið þeim í orð, frábær pistill og mjög svo þarfur.

  Held að við spilum þéttan leik á miðvikudag og löndum 2-0 sigri 🙂

 3. Þetta dómaramál er það nákvæmlega sama og ég hugsaði á sunnudaginn eftir að hafa horft upp á hver dómaraafglöpin á fætur öðrum og hugsað svo út í það að þetta á væntanlega ekkert eftir að skána. Þetta er án djóks litlu skárra en það sem fram fer á ítalíu með hliðrun úrslita. Ég er virkilega að spá í að taka mér hvíld frá þessu. Það gjörsamlega sýður á mér í hvert skipti sem ég sé dómaramistök kosta svona mikið og ég get hreinlega ekki verið annað en sammála Hödda Magg að það að nota ekki nútímatækni í fótbolta þegar það þarf á engan hátt að koma niður á leiknum sjálfum eða leiktíma alveg gjörsamlega fáránlegt! Ég vil taka það fram að mér finnst ekkert skárra þegar umdeild atriði (röng) falla með mínu liði frekar en á móti, hvernig sem á það er litið var það rangt!

 4. Frábær grein sem allir hafa gott af því að lesa, óháð því hvaða lið þeir styðja.

  Því miður eru áhugamenn um fótbolta og samskiptamiðlar ein versta blanda sem ég veit um. Þegar menn (oftast ungir strákar) fara að ræða um sitt lið á netinu verða þeir gjörsamlega blindir og mjög grimmir. Það er erfitt að hunsa svoleiðis, en kannski er best að hætta að fylgjast með kommentum við fréttir hjá fotbolti.net og 433.is. Þetta er ömurlegt, en hægt að hunsa.

  Það sem mér þykir verra er þegar fótbolta”frétta”miðlar geta ekki verið hlutlausir þegar þeir skrifa fréttir. og Því miður les fólk fjölmiðla oftast sem einhvers konar heilagan sannleik, en átta sig ekki á því að 99% netfrétta eru einungis gerðar til þess að fá “click”. Því fleiri “click” sem síðan þín fær, þeim mun dýrara er að kaupa auglýsingu á síðunni þinni. Í dag er það bara þannig að ef þú setur nafnið á Suarez í fyrirsögn hjá þér, þá munu allir sem hata hann og allir sem elska hann lesa fréttina og hafa skoðun á henni, algjörlega óháð gæði fréttarinnar.

  Ég er hræddur um að Suarez verði bolað burt frá okkur. Hann er örugglega óþolandi fyrir andstæðinginn, en menn verða að átta sig á því að það væri ótrúlegur missir af honum fyrir enska boltann.

 5. Eins og talað frá mínu hjarta fyrri hluti þessa pistils, maður er í alvöru farinn að hugsa hvort maður eigi að eyða tíma í að horfa á þennan bolta. Það er alltaf gaman að fara á pöbbinn og horfa á bolta en þegar helgi eftir helgi sýður á manni vegna lélegrar dómgæslu þá er í alvöru ástæða til að endurskoða hlutina.

  Maður tekur því þegar liðið manns er ekki að spila vel og tapar eða þegar leikurinn er mjög spennandi og getur farið hvernig sem er. En þegar dómarar eru eina umræðuefnið eftir leik þá má spyrja sig til hvers maður er að þessu.

 6. Ég er ekki alveg sammála nafna í þessum efnum, að dómgæslan sé að eyðileggja leikinn, vissulega hefur umræðan og fjölmiðlaumfjöllunin verið á þann veginn í dag. Munurinn á dómgæslunni má að miklu leyti rekja til þess hraðamunar sem að er í leikjum í þessum deildum, sjáið bara til dæmis þá spænsku og ensku sem við hér á landi þekkjum hvað best. Það er bara ekkert grín orðið að dæma í þeirri ensku eins og hún er í dag.

  Þessir guttar í dag detta við minnstu snertingar og svo er hlaupið að dómaranum og spjöld ýmis gul eða rauð heimtuð. Og hverjum er um að kenna?? Ég segi stjórendum liðana. Af hverju? Jú ef þeir segðu allir sem einn við leikmenn sinna liða að þeir skuli gjöra svo vel að standa í lappirnar, hætta öllum leikaraskap og hætta að umkringja dómarann við hvert tækifæri muni þessum umdeildu atvikum í boltanum fækka. Mun það gerast? Nei, vegna þess gríðarlegs fjármagns sem komið er í boltann mun þetta frekar ágerast en hitt.

  Hvað er þá til ráða, marklínutækni eða vídeódómari? Getur verið. Í það minnsta þarf að fara að dæma þá er svindla á einn eða annan hátt eftir vídeóupptökum, hvort sem dómarinn sá atvikið og refsaði fyrir eður ei, dæma þá í bann og svo aftur í lengra bann ef þeir endurtaka leikinn og þau núllast ekki á milli tímabila. Bann er það eina sem að kemur við kauninn á þessum gaurum og stjórnendum liðina.

  Leikurinn er orðinn svo hraður, menn orðnir svo leiknir í að leika á dómarana og svo ósvífnir í umgengni við þá að dæma leikmenn í bann eftir á, nema náttla að eigendur og stjónendur liðina fari að taka við sér og fara af þessari braut til glötunnar!!

 7. Fyrri hluti pistilsins á skilið að ná til breiðari hóps en les kop.is, og mér finnst að þetta eigi að birta í blöðum, Fréttablaðið, Mogginn, DV, bara hvað sem er. Allir sem fylgjast með fótbolta og styðja eitthvað lið hafa gott af því að lesa svona pistil.

  Þetta eru frábær skrif og eiga skilið tilnefningu til nobelsverðlauna.

  Að öðru en þó tengdu þessu máli að þá hef ég haft þá skoðun í all mörg ár núna að stjórar eiga að fá að véfengja dóma í hverjum leik á meðan leik stendur. Sé þetta fyrir mér einhvernvegin á þennan veg að stjórar liða eiga að fá 1-2 tækifæri í hverjum leik til að lyfta einhverju spjaldi í átt að aðstoðardómaranum og þá yrði aðstoðardómarinn að skoða myndbandsupptöku af viðkomandi vafaatriði og þar með gæti stjórinn hnekt einhverri ákvörðun dómarans, þetta ætti að vera lítið mál á öllum stórum völlum í stæðstu deildunum þar sem aðstoðardómarinn er með lítinn monitor við hliðarlínuna og sér í raun sömu útsendingu og áhorfendur, þetta ætti ekki að taka eina einustu stund og við erum ekki að tala um auglýsingarhlé ala NFL eða einhverjar amerískar íþróttir.

  FIFA var alfarið á móti myndavélatækninni hvað varðar marklínuna því að rökin voru þau að það mætti ekki vera mismunun á milli deilda, atvinnumennsku/áhugamennsku, 5 flokks/meistaraflokks og ef að það væri ekki hægt að bjóða uppá þessa tækni allstaðar að þá væri ekki hægt að notast við hana, en nú hefur þessu verið breytt og því sé ég ekkert því til fyrirstöðu að notast við einhverskonar útfærslu af myndavélartækni þegar kemur að stórum vafaatriðum í þessum stóru deildum.

  Því þetta er eins og Kristján Atli segir, orðið alveg verulega þreytt og er í raun að skemma þessa gullfallegu íþrótt sem knattspyrnan er.

 8. góður pistill og margt til í þessu.

  enn svo við tölum um dómaramistök gærdagsins,,,þá átti Suarez ekki að vera enn þá inná vellinum til að skora þetta mark sem var dæmt af,,hann átti að vera búinn að fá rautt

 9. Frábær pistill og ég er sammála öllu. Ég held að hatrið sé ekkert endilega að versna, en með tilkomu Twitter og samfélagsmiðla og kommentakerfa við fréttir þá verða einfaldlega skoðanir allra meira áberandi. Snillingar, sem eru sannfærðir um að Suarez eða Ronaldo séu synir djöfulsins hafa allt í einu vettvang til að dreifa sínum sóða boðskap fyrir allra augum í stað þess að gera það á kaffistofunni í vinnunni.

  Þetta er sama og með pólitíkina. Það er ekki allt í einu að koma fram einhver ný kynslóð fólks sem að hatar Davíð og Jóhönnu og Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn, heldur gefst í dag fólki betri tækifæri til að básuna illa rökstuddu blaðri eða hreinræktuðu skítkasti á netinu.

  Kallinn á kaffistofunni, sem að hatar vinstri menn og femínista er allt í einu orðinn kommentari á DV í stað þess að sitja útí horni og tuða þar í þeim tveim sem voru svo óheppnir að lenda með honum á borði.

 10. Spurning um að stofna Facebook grúppuna “Karlmenn sem hata Luis Suarez” þar sem svona ummælum væri safnað saman.

 11. Mjög góður pistill sem á lof skilið!

  Það er eins og þú hafir lesið hugsanir mínar og skrifað þær niður! (á mun betri hátt en ég hefði nokkurntíman geta gert)

  Þessi pistill er skyldulesning fyrir alla sem fylgjast með knattspyrnu, svo einfalt er það.

 12. Margt til í fyrri partinu (þ.e ekki í upphituninni) þótt hún hafi dregið línuna svolítið með Liverpool þótt pistilinn væri um akkúrat andstæðuna.

  En það sem mér finnst menn ættu líka að skoða að dómararnir eru settir undir svakalega pressu! Ef lið tapar þá er það dómaranum að kenna en ekki leikmanninum sem fær milljónir ef ekki tugi milljóna í laun á VIKU fyrir að æfa og spila fótbolta!!

  Það er ekki langt síðan að dómarar voru að kenna á daginn eða sekta fólk fyrir að keyra of hratt og dæmdu fyrirframan tugþúsundi áhorfenda á kvöldin og fyrir leikmenn með milljónir á viku…. þeir fá í dag kannski einhverja nokkra hundraðþúsund kalla á mánuði fyrir að halda sér í toppformi og sjá öll smáatriði á meðan leikmenn fá milljónir á viku.

  Er það sanngjarnt að koma eftir leik og kenna honum um að lið tapaði vegna þess að hann sá ekki allt (spurning um sentimetra í 20 metra fjarlægð hvort leikmaður var rangstæður eða ekki) á móti milljóna leikmanni sem klúðrar úr dauðafæri og hann þarf ekkert að gera “nema” spila fótbolta?

  Í síðustu viku var leikmaður að kvarta yfir að þjáfarinn spilaði ekki “rétt” leikkerfi og sá fær líklega um 20 milljónir á viku…. ætli hann hafi ekki frekar valið að liggja yfir FIFA 2013 en að læra leikkerfið?

  Menn verða líka að skoða sanngirnina í þessu gagnvart dómurum og oft er það “auðveldast” að dæma með stóru köllunum eða liðinu þeirra þótt það réttlæti að sjálfsögðu ekki neitt.

 13. Spurning hvort fyrri hlutinn ætti að vera aðskilinn frá umfjölluninni um Swansea leikinn? Moka svo traffíkinni allri hingað í gegnum Facebook linka o.s.frv? Því ég er sammála Ísak, þessi skrif þurfa mun fleiri að sjá en lesendur þessarar frábæru síðu!

 14. Vel mælt.

  Eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér, í kjölfar ummæla David Moyes í aðdraganda leiksins varðandi Luiz Suarrez.

  Ef leikmaður eða þjálfari kemur í fjölmiðla og dregur í efa heiðarleika dómara, er hann umsvifalaust kærður og settur í leikbann. En það virðist vera að hver sem er megi koma í viðtal og úthúða hinum og þessum leikmanni, og það þykir bara í fínasta lagi. Er það eðlilegt?

 15. Ég er United maður og á í raun ekki mikið erindi á þessa síðu, en ég las þessa grein þín Kristján á fotbolti.net og varð bara að koma hingað inn og hrósa þér fyrir magnaða grein. Þetta er eins og talað úr mínu hjarta. Ég hef því miður oft gerst sekur um að segja viðbjóðslega hluti um leikmenn andstæðinganna og þá einna helst John Terry og þetta er ekkert annað en fáránleg hegðun hjá manni. Þetta er eitthvað sem ég mun svo sannarlega bæta hjá mér og ég vona virkilega að allir knattspyrnuunnendur geri slíkt hið sama.

  Þetta snýst um að dást af fótboltanum en ekki leggja fótboltamenn í einelti með viðurstyggilegu orðbragði.

 16. Horfa bara á þýska boltann. Enski orðinn þreyttur, þvílíka dramtíkin í kringum allt þarna… Umræðan hætt að snúast um fótbolta. Þýsku liðin með sinn einna snertinga bolta miklu skemmtilegri eins og FC Bayern, Dortmund, Hamburger og Schalke ofl.

 17. Það er nauðsynlegt að setja þennan pistil á feisið svo frábær er hann og fl.miðla ef hægt er.

 18. Ég skil ekki að menn séu að æsa sig yfir þessu! Og hvað þá að æsa sig yfir ummælum stuðningsmanna andstæðinganna, hvort sem það eru Liverpool stuðningsmenn eða stuðningsmenn annarra liða!

  Auðvitað styðja menn sitt lið og vonast til þess að þeir vinni sem flesta leiki og það sem mér finnst mikilvægast að þeir spili góðan fótbolta, eitthvað sem lítið hefur verið af undanfarin ár en er á mikilli uppleið og verður bara betra eftir því sem leikirnir verða fleirri!

  En þetta er fótbolti í Englandi, ekki á íslandi! Það er alveg sama hversu reiður, pirraður og vitlaus þú verður út af rangstöðumarki sem að liðið þitt fékk á sig eða fékk á sig dæmda rangstöðu þegar maðurinn var réttstæður, það er alveg sama hvað þú skrifar um andstæðinginn, það breytir ekki neinu! Við erum hérna á Íslandi og skiptum engu máli!

  Eyðum frekar þessum kröftum okkar í íslensku liðin sem við styðjum því að þar getum við skipt máli og höfum svo bara gaman að því að horfa á liðið sem við styðjum úti í heimi!

 19. Mér fannst reyndar dómarinn (vatnsgreiddur sítt að aftan) sem dæmdi síðasta Evrópuleik hjá okkur helvíti góður. Hann hreinlega dæmdi varla aukaspyrnu í leiknum samt voru menn að detta niður út um allan völl. Flestallt fyrir minniháttar brot. Suarez var orðinn brjálaður á honum en mér fannst það góð dómgæsla.

 20. Núna er NFL ein fullkomnasta og skemmtilegasta íþrótt í heimi og hefur áhugi minn á henni stóraukist síðustu tvö ár eftir að ég fékk mer gervihnattadisk og fór að horfa á meira! og þeir sem seigja að hún sé ömurleg og alltof hæg og alltof mikið að af stoppum er yfirleitt fólk sem þekkir íþróttina ekki nógu vel og nennir ekki að kynna sér hana ! Ég missi aldrei af leik með Liverpool og er alltaf spenntur en núna tjékka ég fyrst hvaða leikir eru í NFL um helgina áður en ég tjekka á enska.

  Þar er dómgæslan nánast fullkomin! þar tapa lið ekki svona mörgum leikjum á útaf dómara ! og öll stoppin í nfl eru minnst vegna þess að dómarinn er að stoppa leikinn það er aðalega útaf öllum leikhléunum sem liðin hafa og því það þarf að skipta um varnar og sóknarlið ! Það má taka margt úr henni til að bæta fólboltan

  Það sem ég myndi vilja sjá að í öllum STÓRU ATVINNUMANNA deildunum í knattspyrnu fengju lið að skora á dómaran! semsagt hvort lið hefði fjórar innáskiptingar en tvær áskoranir á dómaran og í hvert skipti sem dómarinn hendir ínn rauða flagginu til að skora á dómaran þá missir liðið eina innáskiptingu og dómararnir (4 dómari) myndu kikja eldsnöggt á myndbandsupptöku !! Þetta myndi nánast ekki tefja neitt, minna en tekur að fagna marki ! og leikurinn yrði fullkomin !

 21. Virkilega góður pistill. Hittir svo naglann á höfuðið að hið hálfa væri nóg. Vil líka hrósa United manninum #19 sem kemur hér inn eftir að hafa lesið pistilinn á fotbolti.net og tekur undir með þér með uppbyggilegum hætti. Vonandi getum við allir sem unnum fótbolta tekið orð þín til fyrirmyndar og eftirbreytni.

 22. hvert skipti sem “ÞJ’ALFARINN” hendir inn!! átti þetta að vera 🙂

 23. Veit ekki hvort ég fæ að tjá mig hér, í bing-bang-biff 5sekúnduraðsvara umræðum á twitter beitti ég orðalagi sem Kristján Atli oftúlkaði og fyrtist við.

  Anyway.

  Ég er sammála þessu að langmestu leyti. Þetta er ekkert nýtt að stuðningsmenn hata annarra leikmenn, áður kom það fram einu sinni á tímabili, þegar hitt liðið kom í heimsókn, það sem er nýtt er twitter og blogg og milljón viðbrögð á sekúndu þar sem smá pirringur breytist í æsing á innan við mínútu.

  Beisik issúið er: Sumir leikmenn gera eitthvað sem þeir ættu ekki að gera, hvort sem það er að dýfa sér eða beita kynþáttaníði (og ég endurtek það sem ég sagði við KAR, þú ‘lendir ekki í’ að beita kynþáttaníði, ekki frekar en þú ‘lendir í’ svo mörgu öðru þegar fólk brýtur lög). Síðan taka andstæðingarnir það og magna upp, og stuðningsmennirnir verja hvað af tekur.

  Ég get alveg sagt þér, Kristján Atli, hvað mér fannst mest aðfinnsluvert við þessa grein. Myndin af Suarez. Ég efast ekki um að Luis Suarez sé góður við börnin sín. Ég hef ekki kallað hann þessum nöfnum sem twittarar að ofan gerðu. En ég get sagt þér alveg hreint út, hann er dýfari og eyrnabítur. Og þó að þú sért ekki sammála mér, þá getur þú ekki alfarið afskrifað þá skoðun mína sem studd er dómi að hann hafi beitt Patrice Evra kynþáttaníði. Eins og þú hefur sjálfur sagt, það er mál sem vinir sem halda með sitt hvoru liðinu eru alveg hættir að nefna. Það er bara ekki hægt að vera meira ósammála en menn eru um það.

  Ronaldo var dýfari, en bætti ráð sitt að mestu. Nani er dýfari sem bætir yfirleitt ráð sitt en versnar eftir landsleikjahlé. Ashley Young er auðvitað bara fyndinn dýfari.

  Dómgæslan í leiknum í gær, var eins og ég hef sagt annars staðar hér, léleg. En hún var ekki samsæri. Það var seinna atriðið sem ég fann að við þig, mér fannst þú helst til vælinn undan dómum gegn Liverpool. Það eru fyrst og fremst rangir dómar gegn Luis Suarez sem eru að hrjá ykkur, og við vitum hvers vegna það er.

  Er það góð dómgæsla að dæma ekki á þegar brotið er á dýfara? Nei, auðvitað ekki. Þarf að bæta það? Að sjálfsögðu. Hver getur bætt það? Annars vegar dómarar, og hins vegar Luis Suarez.

  Að endingu. Vídeódómgæsla þarf að gerast og það eins fljótt og hægt er og/eða eftir á spjöld á dýfara líka. En getur einhver hérna staðið upp og sagst ætla að taka að sér videódómgæslu? Ég hef horft á sama atvikið fimm sinnum… og svo skipt um skoðun í það sjötta. Ég öfunda engan af að þurfa að dæma svoleiðis. Það verða ALLTAF vafaatriði. Gott dæmi: Hendin á Luiz í gær. Móti: þetta var bolti í hönd. Með: Þegar varnarmaður teygir út hendur til að gera sig stóran fyrir framan fyrirgjöf, er það eitthvað annað en viljandi þegar svo hendin stoppar fyrirgjöfina? Svarið vita varla dómararnir. Við fáum ‘hefði mátt dæma á þetta’ aftur og aftur. Er einhver von til þess að við fáum samræmi?

  Hjálmar hér að ofan er alveg með þetta hvað varðar vandann við að vera dómari.

 24. Suarez er dirty leikmaður og það er ekki fyrir dýfur,,heldur fyrir að bíta andstæðing, traðka á andstæðing, kynþáttaníð o.f.l.

  að birta mynd af suarez með barnið sitt er mjög ´cheap´…þetta er eiginlega bara sorglegur pistill,,,Suarez atti aldrei að vera inná vellinum til að skora þetta mark sem var dæmt af,,hann átti að vera buinn að fá rautt.

  grátkórinn er að ná nýjum hæðum,,,mjög slappur pistill

 25. Gísli nr. 28: Ef þú hefðir lesið pistillinn værirðu búinn að átta þig á því að hann snýst ekki nema að litlui leyti um Suarez. Viltu ekki frekar gagnrýna inntak pistilsins?

 26. Mjög flottur pistill, eitthvað sem maður þarf að taka meira til sín og eitthvað sem höfum að einhverju leyti reynt að viðhalda hérna. Þessi lesning (linkur á hana) ætti reyndar að mínu mati að vera partur af „Reglu“ Nr. 8 héðan í frá í Reglum kop.is.

  Annars held ég nú að gamli banter-inn milli stuðningsmanna liða á Englandi sem annarsstaðar lifi alveg ennþá en samskiptamiðlar hafa þann ókost að þeir eru nánast gerðir til að farið sé ítrekað yfir línuna.

  Ég er reyndar á móti alhæfingum um stuðningsmenn því oft eru svona rifrildi hér eða á samskiptamiðlum skoðanaskipti fárra aðila sem verður til þess að alhæft er yfir allann hópinn og núna getur nánast því hver sem er fengið að útvarpa sínum skoðunum. Einar Örn orðar þetta frábærlega Nr.11 (og létt LOL í Nr. 12).

  Hvað okkur Liverpool menn varðar er kannski ekki að undra að þreyta sé kominn í einhverja enda nánast hvert tímabil undanfarin ár farið í umræðu um eitthvað sem átti sér stað utan vallar. Fyrst var það Benitez þar sem bæði var rifist innbyrgðis og við aðra. Ofan í það var það Gillett og Hicks. Hodgson sameinaði hópinn reyndar vel en það var það eina góða sem hann gerði og skapaði mjög leiðinlega tíma fyrir okkur. Suarez vs. Evra í fyrra og það má kannski segja að byrjun þessa tímabils séu ennþá smá eftirköst af því síðasta. Svei mér ef við ættum ekki bara að kaupa Joey Barton í janúar og hafa hann bara í að sjá um skandalana, svokallaðan yfirmann skandala.(kaldhæðnitákn)

  Með sömu rökum er reyndar ekki hægt að segja annað en að það er aldrei lognmolla í kringum Liverpool og félagið hefur búið til helvíti margar fréttir undanfarin ár. Vonandi fara þær úr þessu að snúast meira um atburði inni á vellinum heldur en fyrir utan hann, það að umræðan sé aftur farin að snúa að dómaranum er nú þrátt fyrir allt stref í rétta átt hvað það varðar 🙂

  Luis Suarez hefur opnað augu margra (a.m.k. Púllara) töluvert mikið undanfarið ár fyrir mismunandi umfjöllun og meðferð sem leikmenn fá á Englandi (Kristján Atli bendir réttilega á nokkra fleiri sem hafa gert það áður hjá öðrum liðum) þó ég hafi nú ekki séð annað eins og núna undanfarið ár. Tilkoma samskiptamiðla hefur líklega haft eitthvað um það að segja.

  Hvað dómara varðar þá er ég ennþá svo einfaldur að trúa ekki að þeir gangi til leiks með það fyrir augum að hjálpa öðru liðinu frekar að vinna, ekki einu sinni United. Margt utanaðkomandi sem hinsvegar hefur líklega áhrif á dómgæsluna. Það er ekkert bara á Englandi sem stóru liðin virðast komast upp með meira en þau minni.

  Eins tek ég ekki undir að enskir dómarar séu verri en annarsstaðar, helsti munurinn er að þeir eru undir miklu öflugri smásjá heldur en kollegar þeirra í minni deildum með miklu fleiri aðstoðardómara heima í stofu. Auðvitað eiga þetta að vera alvöru menn enda fá þeir vel borgað og maður verður alveg sjóðandi illur þegar atvik eins og um helgina kemur upp en þau eru því miður partur af leiknum (ennþá).

  Persónulega held ég að það hafi haft e-ð að segja hver skoraði og að leikurinn var á heimavelli Everton (ómeðvitað hjá línuverði sem þarf að taka ákvörðun strax og var augljólega ekki viss) en þetta voru alltaf mannleg mistök fyrir því og líklega sá hann eftir þessu strax eftir leik.

  Þó að dómgæslan sé ekki eins mikið í umfræðunni hér eða á Englandi eftir leiki í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi o.s.frv. þíðir það ekki að þeir gagnrýni hana ekki eins mikið og gert eftir eftir leiki á Englandi. Það sjá það bara miklu færri. Bara hérna á Íslandi þar sem við höfum töluvert færri myndavélar á hverjum leik er dómgæslan oftar en ekki aðal umræðuefni eftir leik.

  En aftur, kudos á Kristján Atla fyrir að koma þessu svona snyrtilega niður á „blað“.

 27. Mikið er ég glaður að þú varst fyrri til Kristján. Var í þvælingi í borginni í dag og var alla heimleiðina að hugsa pistil sem þú svo skrifaðir. FRÁBÆRLEGA.

  Ég hef örugglega einhvern tíma orðið svo ofboðslega reiður að ég hef misst út úr mér eitthvað í hita leiksins, eins og t.d. þegar Evra dansaði fyrir framan Suarez í fyrra. Kalla líka Ferguson of oft Rauðnef. Svo ég get ekki sagt að ég sé alsaklaus, en er þó alltaf að reyna að bæta mig.

  Eitt besta dæmið argar nú á okkur, það er hvernig Unitedmenn tala um Van Persie. Svona gerist þetta víst bara. Mér finnst svo sorglegt að sjá jafn góða drengi (þekki tvo þessa twittara persónulega) skrifa svona ummæli um nokkurn mann á opinberan hátt og gerir mig enn staðráðnari í því að standa mig betur.

  Ég viðurkenni það hér og nú að ég fílaði Cantona. Sorry, sekur! Framkoman við hann á Englandi var beinlínis ógeðsleg lengstum og aðalástæða þess að hann hætti fyrr en hann þurfti. Togarasamlíkingin hans við mávana var legendary en Bretarnir (sem þykjast svo sophisticated) urðu fúlir og sneru þessu upp á eitthvert hrokadjók. Þeir sem lesa þessa síðu vita það að ég held með portúgalska landsliðinu í stórmótum og þess vegna viðurkenni ég líka það að fíla Ronaldo. Hef hitt hann einu sinni “live”, spjallaði við hann í tvær mínútur áður en við fengum nokkrir að taka af okkur mynd með honum og sá virkaði kurteis og gaf sér góðan tíma, sem hann auðvitað þurfti ekki. Hann er líka farinn og Portúgalirnir sem ég umgengst eru harðir á því að tvennt hafi séð um að koma CR7 í burtu, veðrið og viðhorfið gagnvart honum.

  Messi er búinn að segjast aldrei munu spila á Englandi. Haldiði að Úrúgæjarnir standi í röðum og bíði ef framkoman er svona áfram.

  Setningin sem ég hélt ég myndi aldrei hugsa er kominn hér í þessum pistli. Ég er orðinn þreyttur á enska boltanum. Mér finnst hann á góðri leið með að verða svo úrkynjaður af endalausum illindum og niðurrifi í allar áttir að maður er í alvöru farinn að ýta honum aftar á vinsældarlistanum. Gerði þvílíkt til að ná Evertonleiknum, var u.þ.b. farinn að grenja eftir hann en lét véla mig í það að horfa á seinni hálfleik United og Chelsea. Horfði á Arsenal daginn áður. Jesús minn, jesús.

  Ég hef undanfarin ár fengið að starfa sem dómari á Íslandi í neðri deildum og 2.flokki karla og kvenna. Finnst það afspyrnu skemmtilegt lengstum og ætla mér það eitthvað áfram. Hvort sem nokkur trúir því eða ekki þá held ég að dómgæslan í Englandi og umfjöllun um hana smitist til Íslands og þá niður í þær deildir sem ég hef komið nálægt. “Á nú að verða Headline-Halsey” hef ég heyrt. Í lok síðustu leiktíðar sat ég sem áhorfandi nálægt þjálfarabekk þar sem einstaklingur sem komið hafði að enskri knattspyrnu missti sig á dómaratríóið og las þeim pistil um að “það eru alls staðar sömu athyglissjúku hálfvitarnir í þessum treyjum, hvort sem þið heitið Howard Webb, Graham Poll eða Jón Jónsson (þarna kom nafn dómarans).

  Semsagt, hlutverk dómarans er nú ekki lengur að stýra leiknum heldur eru menn og konur komin með hugmyndir um það að þeir starfsmenn ætli sér að ráða úrslitum leikja. Sem ég fullyrði að hefur ekki hvarflað að neinum dómara sem ég hef starfað með. Hins vegar er fas breskra dómara í þá átt sem ég nefni stundum “I’ve got the power” og takið eftir því hversu ólíkt þeir dæma leiki heimafyrir og í Evrópukeppnum. Það fas kallar á alls konar ákvarðanir og það fas fer yfirleitt út um þúfur og stútar leikjum. Enskir dómarar eru ekki góðir. Það er bara svoleiðis.

  En það er ekki allt. Í Englandi eru tugir myndavéla á hverjum leik. Það tekur örfáar sekúndur fyrir mann við sjónvarpsskjá að skoða atvik og tala um það við starfandi dómaratríóið.

  By the way, komin samsæriskenning um að Marriner hafi sagt “this must be offside” í kallkerfi dómaranna og þá hafi flaggið komið upp…

  Ég veit ekki um alla, en ef að Grundfirðingar væru með slíkan kvikmyndavélafjölda í næsta heimaleik sem ég dæmdi þar, eða Þróttur Vogum þá væri ég mikið til í að fá aðstoð við atvik sem hafa áhrif á hvort mörk eru skoruð eða ekki.

  Því ekkert er til ömurlegra í kolli dómara en að taka ranga ákvörðun sem ræður úrslitum. Ég bara fullyrði það útfrá þeim mönnum sem ég hef starfað með að það væri alltaf betra að breyta rangri ákvörðun (sem tekin var af góðum hug) en að hún standi og verði til að leikur endi á annan veg en ef rétt ákvörðun væri tekin.

  Svo að sjálfsögðu á ríkasta knattspyrnudeild í heimi að fylgja fordæmi NFL og taka upp aðstoð videodómara!!!

  Því þetta getur skipt sköpum. Ef að United vinnur deildina með 87 stigum gegn 86 stigum Chelsea og Arsenal lendir í 4.sæti með 67 stig gegn 66 stigum Liverpool þá mun liðin helgi að sjálfsögðu rifjast upp.

  Og ég er handviss um það að það eru fleiri en ég og Kristján og þeir sem hér hafa tekið undir orð hans sem hugsa sinn gang varðandi áhorf á ensku deildina. Vonandi það margir að eitthvað breytist.

  Því þetta er einfaldlega ekki hægt!

 28. Ég er mikill áhugamaður um NFL deildina og vill benda mönnum á mjög sniðuga reglu sem tók gildi núna á þessu tímabili (2012-2013)

  Nú eru öll “scoring plays” skoðuð, þ.e.a.s í hvert skipti sem boltinn fer yfir marklínu, inní markið, er það skoðað aftur á myndbandsupptöku og staðfest að þar sé um að ræða löglegt mark.

  Við þetta þarf ekki að stöðva leikinn, þar sem hann stöðvast “sjálfkrafa” eftir að dómarinn dæmir og flautar mark. (Með því skilyrði að marklínu tækni sé notuð)

  Til þess að snúa við dómnum þurfa að liggja fyrir 100% sönnunargögn á myndbandsupptöku sem sýna að um rangan dóm sé að ræða.

  Þetta tel ég að gæti virkað vel þar sem þetta stöðvar ekki flæði leiksins og enn væru nóg af vafa atriðum fyrir þá íhaldssömu t.d. var þetta brot eða ekki? o.s.frv

 29. Frábær pistill KAR og ég var búinn að hugsa á þessum nótum í allan dag.

  Það þurfti að segja þetta og jújú kannski hallar aðeins á liverpool líkt og einhverjir (á fótbolta.net) benda á en það er enginn að fela það að þetta komi frá liverpool stuðningsmanni.

  Síðan Björn Friðgeir #27
  Takk fyrir að gera akkúrat það sem greinin er að gagnrýna. Fara beint í skotgröfina og geta bara alls ekki horft hlutlaust á málið. Benda á alla utd gaurana sem eru dýfarar en eru samt búnir að bæta ráð sitt. Suarez er akkúrat líka að gera það enda sást hvað best með fagninu hans þar sem hann tróð sokk í Moyes. En nei, hann er djöfullinn í mannsmynd. Það skín í gegn hjá þér akkúrat það sem KAR er að gagnrýna.

  Áfram þú Kristján Atli

  YNWA

 30. Ég er orðinn hundleiður á ensku deildinni. Búinn að vera að hugsa það í u.þ.b. 2 ár og hélt alltaf að ég væri einn á þessu. Ég greinilega á ekki nógu marga púllara fyrir vini. Takk fyrir Kristján að benda mér á að ég á samferðamenn.

  En að þessu mikilvægasta: Nananana búbú

  Hvaðan í fj****** kemur þetta. 3 ára sonur minn hefur verið að segja þetta mikið undanfarið og ég hef ekki hugmynd hvaðan þetta kemur. En nógu fyndið er það.

 31. Sælir félagar

  Ég ætla aðeins að tjá mig um fyrri hluta þess sem sem KAR skrifaði hér fyrir ofan. Um það vil ég segja eftirfarandi; það sem KAR setur þerna á blað er einfaldlega eitt það magnaðasta sem ég hefi séð á prenti um fótbolta umræðu og fótbolta umfjöllun.

  Þarna eru svo sannarlega orð í tíma töluð og væri okkur öllum best að líta okkur nær í þessum efnum. Það verður því vonandi svo í framtíðinni að við sem tjáum okkur hér á þessarri spjallrás förum eftir þessarri umvöndun og vönduðum okkur við umræðuna og séum málefnalegir og látum persónuníð lönd og leið.
  Hafðu þökk fyrir Kristján Atli.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 32. Nr. 34
  Það er nú kannski skiljanlegt að pistill sem var skrifaður á kop.is sé smá miðaður út frá Liverpool. Það er nánast skilyrði 🙂

  Vel gert frekar hjá .net að grípa hann strax á lorfti og setja á síðuna.

 33. Babu #37

  Já nákvæmlega 🙂

  Þess vegna fannst mér fyndið gagnrýnin að þetta væri of liverpool miðað líkt og einhverjir voru að benda á í kommentum á .net. Grein tekin af kop.is 😉

 34. Má vera að ég sé í skotgröf. Má vera.

  Skal íhuga þetta aðeins. Sjáum nú til. Hvað á að gera ef andstæðingurinn er dýfari (Suarez, Young, Welbeck), fáránlega heimskulegur tæklari (Scholes), hættulegur umhverfi sínu (Joey Barton, Karl Henry)? Bara líta framhjá því? (það er gert með Scholes, hefði mátt hætta því fyrir svona 15 árum). Eða gagnrýna það? Hvernig get ég gagnrýnt Luis Suarez án þess að ég sé í skotgröfum? Er ég að gagnrýna hann fyrir eitthvað sem hann hefur ekki gert, og það viljandi?

  Eins og ég segi, lang, lang LANGstærstan hluta pistils KAR, og flott komment Magga og Babu get ég tekið undir. Og mér finnst alveg óþarfi að níða skóinn að Suarez með einhverju skítaorðbragði. En ég get ekki afsalað mér því að mér finnst dýfingar hans hrikalegar, sér í lagi sögulega. Hann hefur vissulega bætt ráð sitt og ef ekki fyrir þetta Stoke bull hans um daginn væri hann í enn betri málum. Eftir stendur samt að hann, og John Terry eru þeir tveir leikmenn sem ég virkilega get ekki litið réttu auga í enska boltanum. Þið megið giska hvers vegna.

 35. góður pistill, menn eru að verða alltof liðblindir. Sem er líka alveg skemmtilegt, þegar manns eigin liði gengur vel. Ég sagði þó við félaga minn í gær: “Þetta er nottla bara orðið einelti á Suarez… en hann hefur svo sem alveg unnið fyrir því líka.” Hann ætti að slappa aðeins af og róa sig Suarez, og koma svo í United, þetta er þvílíkur töframaður á góðu degi. Gemmér likes poolarar, þið vitið að þetta er rétt.

 36. Flott grein um dómgæslu á Englandi kannski er viðhorfið að breytast sérstaklega annað risa mál í Englandi um “ósæmlega svar” Clattenburg gagnvart Chelsea mönnum svo finnst mér virkilega fyndið á Englendingar kvarta yfir Fifa gerir ekki neitt um að láta video dómgæslu í HM t.d. “drauga mark” Lampard árið 2010 en sem samt virðast þeir tregir að láta video gæslu í ensku deildinni.

 37. Þessi helgi var alveg eftir bókinni, Man Utd fær allt á silfurfati og Liverpool ekki baun í bala. Sem poolari er maður hættur að kippa sér upp við einhverja dómaraskandala, við eru hvort sem er ekki að fara vinna deildina á a.m.k næstu 5 árum erum einfaldlega langt á eftir hinum toppliðunum.
  Væri ég kannski Chelsea maður væri ég þá örugglega brjálaður.
  Legg svo til að allir United menn taki United gleraugun af sér til tilbreytingar.

 38. Allen fékk brotið á Fellaini dæmt á sig fyrir hindrun sem átti sér stað rétt áður en gif myndin fer af stað þó að Fellaini hafi sannarlega brotið duglega af sér eftir á.
  Vonandi fáum við samt skemmtilegan leik á morgun á móti Swansea, sé fram á að ungu strákarnir taki þetta eins og gegn WBA!

 39. Jæja, Tilraun númer tvö til þess að skrifa það sem liggur mér á hjarta.

  Til að byrja með vil ég bara hrósa þér Kristjón Atli fyrir frábæra grein og ég er virkilega ánægður með að hún skuli vera birt á fotbolti.net og vonandi mun hún skapa jákvæða umræðu milli sem flestra fótbolta aðdágenda, sama hvaða liði þeir halda með.

  En það sem ég vildi segja er að þessi grein endurspeglar eitthvað sem ég hef hugsað um í mörg ár. Persónulega þá hef ég alltaf haft þá að reglu að tala ekki niðrandi um leikmenn eða lið annara félaga. Að sjálfsögðu hef ég skoðun á leikmönnum annara liða en Liverpool og skoðun á vissum liðum og ég tjái mig alveg um það en geng aldrei of langt. T.d. hef alltaf verið illa við John Terry en ég mun aldrei ganga jafn langt, og ætla ekki að hafa eftir fólki sem hefur látið útúr sér um þann mann.

  Og hver ætti tilgangurinn með því að vera?

  Tilgangurinn með þessu er nákvæmlega enginn nema sorgleg og barnaleg tilraun til þess að stuða einhvern upp og stofna til tilgangslausra riflindra.

  Þessi pistill hjá Kristjóni mun vonandi vekja einhverja upp til umhugsunar þannig þeir hugsi aðeins áður þeir skrifa eitthvað niður í fljótfærni.

  YNWA

 40. Þessi pistill er eins og talaður ur minum munni, takk kristjan atli. Eg kommentaði eftir leikinn i gær og sagdi nanast það sama, madur er að fa nog af enska boltanum þvi þetta er orðið svo augljost kjaftæði að það halfa væri nog, verst er svo að engim segir neitt og þetta er latið viðgangast.

  EN GLÆSILEGUR PISTILL 🙂

 41. Nú hef ég fylgst með umræðunni hér, twitter og .net um þennan pistil og þar er eitt sem er mér ofarlega í huga. Stuðningsmenn annara liða eru duglegir að bauna á okkur “væl” stimplinum en rosalega er það að snúast við hjá þeim stóra hluta stuðningsmanna annara liða á englandi sem eru alls ekki að fatta innleggið í pistlinum.

 42. Frábær pistill. Það eru málefnanlegar umræður á þessari síðu um fótbolta og ég fagna því mikið. Á Facebook, Twitter og fleiri vefmiðlum eru menn að láta hafa eftir sér hluti sem eru ekki sæmilegir. T.d. þessi Ragnar Jóhannsson á twitter. Sennilega lesa börnin hans þetta einhverntímann. Ef ég væri hann, þá myndi ég ekki vilja láta hafa svona eftir mér. Það sem eitt sinn fer á netið er þar um alla tíð. Málfrelsið er því miður þannig að misvitrir menn segja misvitra hluti – oftast í bræði.

  Ég man eftir því að hafa kommentað eitt sinn hér um hversu mikið ég elskaði Liverpool og að fyrir mér væri Liverpool stærsti klúbbur í heimi. Einhver United maður drullaði yfir mig og skildi eftir slóð á bloggið sitt. Eftir að hafa kíkt á það, þá sá ég að þessi maður lá mjög vel við höggi og það hefði verið hægt að gera mjög rætið grín að honum. En ég ákvað að láta það eiga sig. Vont karma.

  Á Íslandi er fullt af mjög sorglegum fullorðnum karlmönnum sem geta ekki látið nægja að styðja sitt lið, heldur verða einhvernveginn að drulla yfir alla aðra stuðningsmenn. Og þetta er íþrótt. Andskotinn hafi það!!! Hafa menn virkilega ekkert skárra að gera?

  Það skal tekið skýrt fram að ég er alveg jafn svekktur og allir aðrir á því að markið hjá Suarez hafi verið dæmt af. Þetta er virkilega ósanngjarnt og það hallar heldur betur á okkur í dómgæslunni framan af tímabili. Og hvað gerir ágætis vinur minn (sem er United maður?) daginn eftir þetta? Hann gerir grín að eymd okkar. Þetta er planið sem þið skuluð ekki leggjast á, kæru félagar. Alveg sama hvað gengur á. Einbeitum okkur að okkar mönnum, því þeir þurfa á því að halda.

  Ég er á því að knattspyrnan versni ár frá ári í eiginlega öllum skilningi. Það er ekki búið að leysa nein af gömlu vandamálum knattspyrnunnar, en fjölmörg ný vandamál hafa bæst við í staðinn. Ég segi það fyrir mitt leyti að ég á erfitt með að horfa á knattspynu stundum. Það þykir mér mjög miður.

 43. Frábær grein og einnig góð greining hjá Magga.

  Já, maður er að verða ansi þreyttur á þessari ensku deild og nenni þessu varla mikið lengur. Konan er farin að kvíða helgunum (meira en ég) og dauðvorkennir mér. (Einu sinni bölvaði hún Liverpool eftir tapleik þar sem ég var gráti næst – hún sagði “ég hata Liverpool”. Ég ávítti hana auðvitað en henni til vorkunnar hefur hún engan áhuga á fótbolta, bara minni hamingju.) Það er varla að maður nái eðlilegum svefni eftir tapleik, ég tala ekki um eftir leik þar sem óréttlætið hefur ráðið úrslitum.

  Eins og ég sagði, mig langar mest af öllu að gefa skít í þennan enska bolta. Af hverju er maður láta stráka sem sparka í bolta hafa áhrif á geðheilsu manns (og þá sem eru í kringum þig) og það stráka sem búa í þokkabót í útlöndum? Hvað er maður að standa í barnalegur rifrildi við fólk um hluti sem skipta ekki nokkru máli? Aldrei víti, jú víst, við áttum það inni eftir allt undangengið óréttlæti (sem eru náttúrulega hrikalega léleg rök – Ferguson beitti þessum rökum eftir leikinn í gær), þið eigið eftir að falla, hí á þig og þitt lið o.s.fr. Ætti maður ekki að frekar að eyða tímanum í málefnalegar rökræður um framtíð íslensku krónunnar, kvótakerfið, náttúrvernd eða virkjanir, hitt og þetta sem skiptir mann virkilega máli? Eða lesa heimspekilegar fagurbókmenntir? Eða eyða þá meiri tíma með okkar nánustu?

  En svo getur maður ekki beðið eftir næsta leik með sínum mönnum. Það er engin leið að hætta að horfa á sína menn. Og ef eitthvað er, þá ágerist þetta. Eitt er víst, það er ótrúlega gaman að horfa á fótbolta og tala (málefnalega) um fótbolta. Við verðum bara að finna leið til að láta þetta ekki hafa of mikil áhrif á sálarlífið. Ein leið er að hætta að lesa bresku pressuna.

  Svo vinna okka menn næsta leik, ekki spurning. Við erum með gott lið og frábæran stjóra og þetta á bara eftir að batna þegar líður á tímabilið.

  Ps. Varðandi þetta hatur og fordóma út í hina ýmsu leikmenn og ógeðslegt orðfæri í þeirra garð (og virðist tröllríða allri umræðu nú til dags) þá kemur upp í huga minn þessi setning úr bókinni “Harmur englana” eftir Jón Kalman Stefánsson: “Skyldi ævinlega vera styttra til helvítis en himnaríkis í manneskjunni?”

 44. Svipað og @19 þá er ég United maður sem las greinina þína á fotbolti.net og langaði að þakka þér fyrir vandaðann pistil. Það er orðið gífurlega leiðinlegt og bara pirrandi hvað stuðningur á liðunum í ensku er hætt að vera áhugamál og orðið að nokkurs konar klíkuskap og trúarbrögðum. Ef manneskja heldur ekki með sama liði og þú þá þarftu að vera ósammála. Orðið svipað eins og staðan er á Alþingi.

  Varúð – Skoðun United manns: Eitt af því sem mér finnst orðið ansi leiðinlegt með enska boltann er að í hvert einasta skipti sem vafa atriðin falla í hag Man Utd þá sé það vegna þess að þeir séu á launum hjá United. Trúið mér, ég horfi á flest alla United leiki og það kemur líka reglulega fyrir að umdeilduatvikin falla á hinn veginn. En þá er ekkert sagt. Ekki misskilja mig, Liverpool hafa verið sérstaklega óheppnir í þessum málum seinasta eina og hálfa árið og ég er alls ekki að draga úr því. En það þýðir hins vegar ekki að þegar annað lið er ekki jafn óheppið á þá skuli það vera vegna mútumáls. Það er gífurleg fjölmiðlaathygli á enska boltann og ef það væri verið að borga dómurunum þá væri það líklega komið eitthvað meira um það en bara á spjallsíðum Liverpool manna. Tímarnir eru fljótir að breytast í fótboltannum og ekki er langt síðan stuðningsmenn Man Utd töldu FA vera í algjöri andstöðu við klúbbinn þegar sum furðuleg bönn voru dæmd. Núna er ásakanir að þeir séu hliðhollir þeim sem hljómar hálfsúrelískt ef þú manst eftir gömlu umræðunni.
  Finnst líka athyglisvert hversu brjálaðir sumir eru vegna veru David Gill í FA. Sem aðstoðar chairman deildar þá ert þú ekki mikið í að stjórna því hvernig hún spilast heldur frekar að fylgjast með að hún sé rétt rekinn og auglýsa hana út á við. Chairman FA er líka eldheitur stuðningsmaður og fyrrum stjórnarformaður Man City en ekki heyrist neitt útaf því.

  Ég biðst afsökunar af vera að tjá mig um þetta á Liverpool-síðu en mig langaði bara að koma að þessum punkti og þar sem ég veit að þetta er sú stuðningsmanna síða sem einna minnst er af “blindum” stuðningsmönnum þá varð hún fyrir valinu. 🙂

 45. Takk fyrir Kristján góður pistill.
  Get ekki verið meira sammála. Skítkast og önnur leiðindi er að eyðileggja fyrir okkur hinum sem hafa gaman af að horfa á fótbolta.
  Verum jákvæð og njótum að horfa á þessa fögru íþrótt.
  Takk fyrir Kristján
  YNWA

 46. Góð grein og það væri í lagi að siðvæða alla umræðu , hvort sem hún er yfir fótbolta eða annað. Það er jú fólk sem er oft verið að tala um og það er “fólk” sem er að skrifa um það.
  Ég man sérstaklega eftir þvi að einn leikmaður bruddi mínar fínustu, það var Richardo Caravallo hjá Chelsea, mér fannst hann alvega hrikalega leiðinlega týpa, en hann var lúnkinn varnarmaður góðar staðsettningar og hafði að því er mér fannst hafa góðan leikskilning. En var hann rotta, viðbjóður, eða kunta? eða eitthvað annað vera? Svona lýsingarorð notar maður einfaldlega EKKI um fólk. Þeir sem kjósa að nota svona orðbragð, dæma í raun allt annað sem frá þeim kemur sem algjörlega marklaust bull. Takk fyrir góða umræðu

 47. Ég held það mætti líka horfa á þessa videodómara umræðu út frá sjónarhóli dómara líka, þetta bjargar þeim frá því að missa geðheilsu sína vegna andartaks viðbragða sem að snaræsa milljónir manna útum allan heim- væru þeir ekki mun betur settir ef vídeodómari bjargadi þeim frá slïkri niðurlægingu sem engum manni er holl. Ímyndið ykkur t.d. hvernig aumingja manninum líður sem dæmdi Suarez rangstæðan á sunnudag, í alvöru. Hataður, gjörsamlega, af Liverpool stuðningsmönnum um heim allan, milljónum manna frá Katmandu til Kópavogs. Hefði hann ekki nú viljað að einhver hefði bjargað honum frá þessum mistökum sínum? Ég held það.

 48. Frábær pistill. Mig langar samt að koma með snúning á þetta einelti sem Suarez má sæta. Svo virðist sem leikmaðurinn sjálfur sé ónæmur fyrir bullinu að öðru leyti en því að hann kvartar og tuðar sem hann gerir hvort eð er alltaf. Suarez er samt ekki að missa hausinn á sér í rugl þótt hann sé tæklaður upp í hársrætur og pönkast á honum eins og hann væri harðfiskur á leið á þorrablót.

  Suarez heldur kúlinu og heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það er nákvæmlega þetta element sem fer mest í taugarnar á andstæðingum LFC. Sama hvað er reynt Suarez er ekki að breyta sínum leik heldur virðist honum þvert á móti vaxa ásmegin. Fyrir þá sem ekki þola Suarez fyrir er þetta versta refsing sem hægt er að hugsa sér. Hann verður einfaldlega betri og ákafari leikmaður eftir því sem djöflast er meira á honum. Þessi ummæli sem KAR tók af netinu sýna hvað kappinn fer rosalega í taugarnar á andstæðingum LFC. Það er vitanlega það allra besta þegar að leikmaður rænir andstæðinguna vitinu og glórunni! Er það ekki nákvæmlega uppskriftin að árangri svo lengi sem leikmanninum er sama?

  Suarez er, að mínum dómi, stórkostlegur náungi fyrir þá verðleika sína að gefa skít í hvað andstæðingunum finnst en spila af þess meiri krafti fyrir aðdáendurna. Það er ekki nóg að vera góður í fótbolta; það þarf líka að vera sterkur persónuleiki og það er Úrúgæjinn big time!

  Ég held að allir séu logandi hræddir við Suarez og þar eru dómarar meðtaldir. Dómaramistökin sem framin hafa verið á kostnað Suarez eru óteljandi og vekja sífellt meiri athygli. Síðasta ruglið var aðeins eitt margra þar sem dómarinn verður sér til skammar. Þetta er síðan sýnt milljón sinnum, rætt og menn hlægja sig máttlausa yfir heimsku dómarans. Það er ógaman hjá línuvarðarfíflinu þessa vikuna trúi ég.

  Það sem gerist síðan er að þetta jafnar sig út og leitar yfir á hinn veginn. Ég spái því að í næstu leikjum njóti Suarez meira sannmælis þótt að við blasi að okkar maður verður alltaf maður umdeildra atvika. Það er einfaldlega hans leikstíll og þökkum almættinu fyrir það.

 49. Athyglisvert hvað maður var miklu öruggari með eðlilega dómgæslu á móti Anzhi í síðustu viku. Maður hafði engar áhyggjur í þeim leik og dómarinn hefði umsvifalaust dæmt vítaspyrnu ef brotið hefði verið á Suarez held ég.

  Þegar að ensku dómararnir mæta síðan til leiks er maður að upplifa eitthvað allt annað. Kannski ef Suarez yrði skotin í hausinn með byssu yrði dæmt en varla annars.

 50. Flottur pistill hjá þér Kristján. Maður brosir svo út í annað þegar maður les tröllakomment hér inni líkt og #28 Þú átt eiginlega skilið að fá snuð fyrir þetta komment. Tími ekki Thule í þig 🙂

  Ég trúi ekki öðru en að dómaranefnd FA muni núna fara rækilega yfir sín mál með leiki helgarinnar að leiðarljósi. Þetta mál sem er sprottið upp með Clattenburg er náttúrulega sérstakt og við skulum bara bíða eftir niðurstöðu þar um. Við höfum (eins og í Suarez vs. Evra) ekkert í höndunum um hvað þarna fór á milli. En öll þessi vafaatriði og/eða röngu dómar sem voru ákveðnir hljóta að setja spurningamerki um áherslur hjá dómurum. Óttast reyndar mest að núna verði enn eitt “fordæmið” sett í dómgæslu sem verði síðan ofnotað eða oftúlkað af einhverjum dómurum.

  Varðandi ljótt orðbragð manna hér á klakanum þá má mætti það lið kannski spyrja sig hvort það hefði áhuga á að vera jafn gáfað og þessi einstaklingur frá Leeds sem óð inn á völlinn og sló Kirkland? Eitt er að láta fótboltann fara í skapið á sér en allt annað er að láta þetta fara frá sér út á alnetið. Þetta er svona eins og að öll langar okkur stundum til að taka í lurginn á einhverjum en fæst eru svo vitlaus að setja það út á netið og láta það þ.a.l.verða að hótun.

  Í hnotskurn er það þannig að samstarfsmenn mínir og vinir mínir styðja hin og þessi lið. Þeir eru ekkert verri einstaklingar en ég eða aðrir fyrir vikið. Sumir þeirra mættu nú alveg hugsa sinn gang áður en þeir skrifa ljót orð um stuðningsmenn annarra liða. Svo sem ekki nema 2-3 sem ég þekki og skrifa reglulega drullu þegar kemur að Lpool. Sama meiga svo andstæðir bræður þeirra gera sama hvort þeir stiðja okkar ástkæra eða annað lið.

 51. Algerlega frábær pistill Kristján, og gleður mig að sem flestir knattspyrnuáhugamenn og konur geti lesið hugrenningar þínar á fótbolti.net, þegar ég var hálfnaður með lesturinn var það einmitt það sem ég ætlaði að gera þ.e. stinga uppá birtinu hjá þeim : )

  Einnig vil ég hrósa áhagnendum annara liða sem koma hingað á kop.is til að taka undir með þér, enda er þetta mein sem hefur áhrif á knattspyrnu í heild, ekki bara á Liverpool eða Man Utd.

  Varðandi seinnihlutann, þá er eitthvað sem segir mér að okkar menn lendi í vandræðum með Swansea : (

 52. Sælir félagar

  Ég vil byrja á að þakka fyrir þá (nánast alveg) málefnalegu umræðu sem hefur farið fram hér á kommentakerfinu. Sérstaklega eiga þeir (nær allir) stuðningmenn annarra liða sem hér hafa tjáð sig hrós skilið fyrir sín innlegg.

  En þá að leiknum á morgun: Ég er sammála Hafliða í því að ég held að leikurinn verði hunderfiður og úrslit hans tvísýn. Ekki síst vegna þess að það verður (að mínu viti) nauðsynlegt að hvíla lykilmenn eins og t. d. Gerrard og Suarez. Samt vonast ég eftir góðum úrslitum og spái 2 – 1 þar sem Carra skorar bæði.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 53. Varðandi leikinn á morgun þá tel ég öruggt að Allen verði á miðjunni með Henderson og ég myndi vilja sjá Suso fá tækifæri í sinni bestu stöðu.

  Assaidi Yesil Downing
  Suso Allen Hendo

  Enrique Carra Coates Flanagan
  Reina

  Ég vil sjá Rodgers hvíla Agger, Skrtel, Gerrard, Suarez og Sterling.
  Þetta lið á að vera nægilega sterkt til þess að klára Swansea á heimavelli og það væri gaman að sjá Suso spila á miðjunni þar sem hann er í sinni bestu stöðu.

 54. Ajax expect January bid from Liverpool for Christian Eriksen and will sell for €30 million. (via Duncan Castles Freelance sports journalist for The Sunday Times, The National, Sports Illustrated, Champions magazine)

  sá þetta er á stuðnigsmannasíðunni á facebook er eitthvað að marka þetta??

 55. hvernig er þetta er Liverpool swansea ekki sýndur neinstaðar.. hann er ekki tekinn fram í framundan í beinni á stöð2??? og ef einhver veit um góða stream síðu þá..

 56. Hef akkurat enga trú á að það sé eitthvað samsæri í gangi í boltanum. Ég held hinsvegar að sumir dómarar láti brjálað aðdáendur og eða ákveðna Stjóra hafa áhrif á sig stöku sinnum í hita leiksins og þessir dómarar munu yðrast þess.

  En það gerist í hverjum einasta leik í öllum deildum, alltaf, að dómari tekur rangar ákvarðanir. Auðvitað gera dómarar sitt besta, því þeir eru jú, annað en stjórnmálamenn, dæmdir af verkum sínum. Ef að dómari á englandi hefur hug á að dæmi í evrópudeildinni, stórmótum osfr þá verður hann að gera eins vel og hann getur í leikjum sínum heimavið.

  Svo sitjum við heima með 10 sjónarhorn og öll brot sýnd hægt afturábak og áfram og við brjálumst við hver einustu mistök sem gerð eru. Þessir menn eru mannlegir og partur af leiknum. Það kemst engin upp með að dæma bara með Utd, móti LIverpool osfr Þetta jafnast yfirleitt allt á endanum.

  Ég er nokkuð viss um að dómarar í deildinni vilja ekki vera í fréttum vikuna á eftir vegna hörmulegra mistaka sem kosta lið sigur, alveg 100% ekki. Þessi blessaði línuvörður sem dæmdi rangstöðuna á Suarez fær alveg örugglega að heyra það vel og vandlega frá vinnufélugum, vinnuveitenda, vinum, kunningjum osfr og á örugglega ekki sjö dagana sæla þessa dagana. Þetta gerir engin viljandi og menn læra af mistökum sínum.

  Ég er ekki búinn að gefast upp á enska boltanum og Liverpool og hlakka alveg jafn mikið til næsta leiks líkt og undanfarinn áratug.

 57. Gaman að sjá raunsæ og uppbyggileg comment frá Liverpool sem Manchester mönnum hér eins og SB o.fl . Svo er auðvitað stöku vitleysa hér eins og við er að búast.

  Mér fannst greinin að mörgu leyti góð. Suarez umræðan er farinn út í öfgar. Mér finnst Suarez oft á tíðum ekki að vera gera neitt til að lægja storminn. Af hverju að dífa sér fyrir framan Moyes í fagninu. Má ekki gagnrýna manninn fyrir leikræna tilburði? Síðan dífir Neville sér í leiknum. Hvað gerir maðurinn, hann biðst afsökunar segist ekki ætla að gera þetta aftur og segist dauðskammast sín. Ber virðingu fyrir því. Held að Suarez þurfi að sýna smá auðmýkt og taka smá ábyrgð, lofa bætri hegðu og standa við það til að lægja storminn. Í staðinn fyrir að fara bara í vörn nú þegar knattspyrnustjórar og fleiri gagnrýna hann. Það er fótur fyrir gagnrýninni, þetta er ekki alveg tilhæfulaust einelti 🙂 Finnst hann mála sig full mikið sem fórnarlamb, eða að honum sé bara skítsama.

 58. Moyes sagði nú í viðtali eftir leikinn að hann hefði haft gaman af fagninu hjá Suarez og hefði jafnvel gert það sama ef hann hefði unnið leikinn. Held að það viti það allir heilvita menn að fagnið er bara góðlátlegt grín að umræðunni sem verið hefur undanfarið. Finnst nú helvíti hart ef það á að fara að refsa mönnum fyrir skemmtileg fögn. Þá er í raun hægt að refsa í hvert sinn sem menn fagna nálægt varamannabekk eða stúku andstæðinganna.

 59. Spot on.

  Verð á leiknum á morgun, fín upphitun fyrir aðalleikinn á sunnudaginn sem verður líklega svakalegur.

  Gæti orðið erfitt á morgun en ég og guttinn öskrum okkur hása og fáum svo Gerrard og Suarez inná á 60. mín til að wrappa þessu upp.

  YNWA

 60. Guderian i komment 55; amem, frabært komment og med þvi betra sem eg hef sed a þessari siðu, att hros skilið fyrir þetta 🙂

 61. Veit einhver ykkur (Einar Örn?) hvort leikurinn er sýndur í Stokkhólmi, þá helst í nágrenni við Stureplan??

 62. Það er o’learys upp eftir birger jarl götunni og líka á central lestarstöðinni. Mestar líkur þar, fullt af skjáum.

 63. Ein uppástunga, hvernig væri að við myndum safna saman linkum á leikinn? Hvetjum alla til að deila góðum linkum á leikinn til þess að sem flestir af okkur geta séð leikinn.
  Hvernig myndi það leggjast í ráðamenn síðunnar?

 64. Thessi pistill hefdi matt sja dagsljosid fyrir 8 arum sidan en allt sem thu ritar tharna hefur undirritadur fundid fyrir i langan tima. Thad ser enginn lengra en hvad sitt eigid lid vardar rett eins og “litlu bornin” a Althingi.

  Enska urvalsdeildin (og oll enska deildarkeppnin) er longu komin i thann farveg ad regluverkid verdi tekid i gegn adur en thad endar med ad folk verdi hreinlega faelt fra boltanum. Nylegasta daemid um hversu afvegaleiddir addaendur eru ordnir gerdist i leik Sheff Wed. vs Leeds tegar krakkafifl hljop inna og stuggadi vid Kirkland.

  Thetta gerist ekki i t.d. Rugby (sem vinsaelt er i UK fyrir tha sem thekkja ekki), en thar geta adaendur beggja lida setid saman og notid leiksins og sidan fengid ser pint eftir leik og farid i fridi heim. Menn blota kannski eitthvad adeins en ekkert rugl gerist eins og i kringum fotboltann.

  Ef regluverkid verdur tekid i gegn fra A til Z erum vid ad tala um ad hreinsa ut dyfingar, ogedslegar taeklingar sem domurum yfirsest, hjalpa linuvordum/domurum, refsa med leikbanni og miklu haerri sekt leikmonnum og thjalfurum fyrir hluti sem eru ad eydileggja leikinn. Thad virdist alltaf koma upp skita atvik i kringum storu leikina og thad sem gerist er aldrei tekid a med fullum thunga. Skita sekt og malid dautt. Ef menn fengju 3ja leikja sekt eda rautt spjald fyrir ad reyna ad plata domarann yrdu lidin ad fara ad vara sig. Sama ma segja um ogedslegar taeklingar, olnbogaskot osfrv.

  Eg er ordinn of pirradur til ad skrifa meira…..

 65. Ég er búinn að vera með sama óbragð yfir þessu öllu saman KAR í langan tíma!! Og ég skal taka undir þetta hjá þér að dómgæslan á Englandi er arfaslök. Þetta enska knattspyrnusamband er bara í ruglinu. Ótrúlegur andskoti miðað við að þetta á að heita ein sterkasta fótboltadeild í heimi. Það er einhver lávarðastemming í þessu enska knattspyrnusambandi sem er óskiljanleg með öllu. Að ekki skuli vera metnaðarfyllri gæðastimpill á dómgæslu hjá þeim en raun ber vitni er merki um að sambandið er rotið innan frá. Og það er ekkert bara dómgæslan hjá þeim sem er í ruglinu. Það er bara allt heila klappið frá a til ö. Er það einhver tilviljun að Englendingar hafa aldrei getað blautan í heimsboltanum í landi þar sem helmingurinn af mannskapnum – í það minnsta í karlaboltanum- er að spila í einhverskonar fótboltadeild!! Nei.. ég er líka þreyttur á þessu!!!

  YNWA

Everton 2 – Liverpool 2

Kop.is Podcast #29