Everton 2 – Liverpool 2

Tillögur að fyrirsögnum fyrir bresku blöðin eftir þennan leik.

Dómari rænir Suarez fullkomlega löglegu marki
Dýfarar einsog Phil Neville eru að eyðileggja leikinn

Okkar mönn fóru á Goodison Park og gerðu þar jafntefli 2-2.

Rodgers stillti liðinu svona upp í byrjun:

Jones

Wisdom – Skrtel – Agger – Enqrique

Gerrard – Allen – Sahin

Suso – Suárez – Sterling

Á bekknum Reina, Carragher, Shelvey, Coates, Downing, Henderson, Assaidi.

Fyrri hálfleikurinn var svakalegur. Liverpool var mun betra liðið til að byrja með og eftir bara 14 mínútur var Liverpool komið yfir. Liðið komst upp vinstri kantinn, boltinn kom fyrir markið þar sem að Luis Suarez skaut föstu skoti í Baines og þaðan í markið. 1-0 fyrir Liverpool og Suarez fagnaði markinu með besta fagni tímabilsins þegar hann dýfði sér beint fyrir framan á Moyes.

Fimm mínútum seinna skoraði Suarez svo mark með skalla eftir aukaspyrnu frá Gerrard.

En þá hættu okkar menn að spila fótbolta í fyrri hálfleik og í hálfleik var maður (ótrúlegt en satt) frekar sáttur með að fara með jafna stöðu inní hálfleik, því að Everton voru yfirburðalið á vellinum og á 13 mínútutna kafla náðu þeir að jafna. Fyrst skoraði Leon Osman með skoti eftir að Jones hafði blakað boltanum beint til hans. Svo skoraði Naismith jöfnunarmarkið.

Í hálfleik gerði Rodgers breytingar. Sahin (sem var afleitur) og Suso fóru útaf og Coates og Shelvey komu inná og Rodgers skipti yfir í 3 manna vörn með Coates, Skrtel og Agger. Við það jafnaðist leikurinn mjög mikið og Gerrard og Allen náðu mun betri tökum á miðjunni gegn helvítinu honum Fellaini.

Ég var búinn að sætta mig við jafntefli í leiknum, en línuvörðurinn ákvað að taka málin í sínar hendur. Liverpool fékk aukaspyrnu, sem Gerrard tók inná teig. Coates skallaði á Suarez, sem skoraði. Ekkert skrýtið og Suarez byrjaði að fagna. En nei nei, þá ákveður línuvörðurinn að veifa rangstöðu sem bara hann sá. Glórulaus dómur sem rændi okkar menn sigri.

Jafntefli voru þó sanngjörn úrslit miðað við yfirburði Everton í fyrri hálfleik, en við hefðum þó auðveldlega getað klárað leikinn. Þetta er besta Everton lið sem ég hef séð spila við Liverpool í mörg ár. Þrátt fyrir það þurftu þeir dómaraskandal til að fá jafntefli gegn Liverpool á heimavelli. Það segir allt sem segja þarf um Everton.


Maður leiksins: Jones gerði mistök í fyrra markinu, en annars var hann fínn. Vörnin hélt ágætlega, sérstaklega með þriggja manna varnarlínu í seinni hálfleiknum. Coates átti góða innkomu þar.

Á miðjunni þá voru Fellaini og co alltof dóminerandi í fyrri hálfleik, en Allen og Gerrard bætt sig í þeim síðari. Sérstaklega fannst mér Allen góður. Frammi sýndi Suso lítið, en Sterling ógnaði ágætlega og klúðraði verulega góðu færi.

En maður leiksins var að mínu mati Luis Suarez. Suarez skoraði mark, lagði upp sjálfsmark og skoraði sigurmarkið okkar sem var dæmt af á glórulausan hátt. Ef að Steven Gerrard hefði skorað þetta mark þá værum við að fagna sigri í dag. Það var púað á hann allan tímann, þjálfarai mótherjanna dissaði hann fyrir leik og Everton mennirnir brutu á honum við hvert tækifæri, en Suarez stóð uppi sem winner í dag.

En það er ekki hægt að ljúka þessari leikskýrslu án þess að kvarta aðeins yfir ranglæti heimsins. Núna hafa dómarar tekið af okkur 3 stig gegn okkar erkifjendum. Dómarar gáfu Man U sigur á Anfield og rændu okkur núna sigri á Goodison. Það hafa einfaldlega öll vafaatriði farið gegn okkar liði á þessu tímabili. Það er grátlegt.

Núna erum við í 12. sæti deildarinnar með 10 stig, 7 stigum á eftir Tottenham, sem er í 4.sætinu. Það er alltof mikið, og næstu leikir eru ekki auðveldir – heima gegn Newcastle og úti gegn Chelsea. En það þýðir ekkert að gráta það, heldur verða menn að fara að safna stigum, sama hver mótherjinn er.

116 Comments

  1. Hvernig í fjandanum var hægt að dæma þetta mark ólöglegt hjá Suarez þarna í lokin ?
    Annars frábær leikur og Suarez og Skrtel menn leiksins.

  2. Ungbarnasund … hver er eignlega karlmaðurinn á þínu heimili? …. 🙂

  3. Helvítis andskotans aðstoðaradómara drasl. Lélegur allan leikinn þessi línuvörður, gerði mistök strax eftir 36 sekúndur og ákvað svo að vera bara í bullinu það sem eftir er.

  4. Léleg ákvörðun hjá línuverðinum. Því endar þetta jafntefli. Kannski hefði hann ekki lyft flagginu ef einhver annar en SUAREZ hefði skorað þarna ?

  5. Djöfulsins andskoti. Suarez skoraði löglegt mark á lokasekúndunum en það er ranglega dæmt af vegna rangstæðu. Fáránlegur dómur sem kostaði okkur sætan sigur í þessum leik.

    Annars hef ég ekki yfir miklu að kvarta. Þetta á að vera besta Everton-lið í mörg ár og veikt Liverpool-lið og þeir voru samt heppnir að sleppa með stig. Liverpool voru miklu betri í 25 mínútur, eftir það stjórnuðu Everton leiknum og jöfnuðu en í seinni hálfleik áttu okkar menn öll færin og ef Sterling, Suarez eða Shelvey hefðu nýtt betur, já eða ef dómarinn hefði verið starfi sínu vaxinn á lokasekúndunum, hefðum við átt að innbyrða þrjú stigin.

    Sáttur við leikinn. Hundfúll með að hafa ekki fengið sigurinn þarna í lokin. Fokking fokk.

  6. Maður er orðin vanur því að dómarinn gefi anstæðingum mark þar sem seinna markið átti aldrei að standa hjá Everton, maður er orðin vanur því að markmenn liverpool gefa eitt mark og vonandi þarf maður ekki að fara venjast því að liverpool fái ekki lögleg mörk ekki dæmd sem mörk annan leikinn í röð.

  7. Kristján Atli skulum samt ekki kenna dómaranum um. Hann var frábær í leiknum en þessi tvö fífl sem eru með honum urðu sér og íþróttinni til skammar í dag.

  8. Hvað ætli það komi margir fram í blöðum eftir þennan leik og segi Neville vera að eyðileggja fótboltan?
    Hvað þá línuvörðinn, það var enginn á einum einasta tímapunkti fyrir innan everton mann í þessari sókn. Rán.

  9. Sælir félagar

    Í sjálfu sér ásættanleg niðurstaða þó fullkomlega löglegt mark hafi verið dæmt af Suarez. Í svona leikjum getur sigurinn fallið hvoru megin sem er og því var þetta ekki svo slæmt. Það besta í þessum leik var innkoma Enrique sem var mjög góður í leiknum og vonandi fer hann að ná vopnum sínum.

    Það er nú þannig

    YNWA

  10. Jagielka kvartaði ekki neitt þegar Coates vann skallaeinvígið, everton-menn vissu að þetta var löglegt mark en línuvörðurinn reddaði þeim.

  11. Jón ertu að trolla? Afhverju dæmdi hann þá rangstæðu en ekki brot á Coates?

  12. Jón #9, hvað hefurðu fyrir því að Coates hafi brotið af sér, Eina sem þulirnir á Espn töluðu um var að þetta hefði verið fullkomnlega löglegt mark og það yrði allt vitlaust líklegast eftir leik út af dómgæslunni í þessu atviki.

  13. Svekkjandi. En eruð þið viss um að dómurinn hafi verið vegna rangstöðu? Þetta var aldrei rangstaða en kannski var Coates dæmdur brotlegur í aðdraganda marksins. Mér finnst það allavega líklegra.

  14. Já ég skil ekki hvernig línuvörðurinn fór að því að dæma rangstöðu á þetta þar sem að þetta var ekki einu sinni tæpt þetta vara bara langt frá því að vera rangstaða það voru allavegan tveir Everton menn langt fyrir innan hann allan tíman.

  15. hlakka til að sjá menn skeggræða dýfuna hjá phil neville næstu 1-2 mánuði eða svo!

  16. Ef þetta hefði verið United sem hefði skorað svona mark þá hefði markið staðið jafnvel þó að leikmaðurinn hafi verið rangstæður.

    Fáránlegur dómur en samt svo týpískt enskir dómarar að ræna Liverpool svona stigum!

  17. Nú væri lag hjá Brendan Rodgers að koma með komment um hvað Neville er að eyðileggja íþróttina með dýfum…

  18. Hvað er í gsngi, Suarez með alla dómarastett Englands á móti sér á móti sér!!! Ríkur úr manni af pirringi og reiði!!!

  19. Svo skoraði Arteta mark í gær sem var rangstæða. Þessir dómarar eru alveg ruglaðir.

  20. Þeir vour að fara yfir þetta á sky, og Suarez er löngu byrjaður að fagna og kominn útur teignum þega fíflinu dettur í hug að lyfta flagginu… hvernig er það hægt ?

  21. Ætlar þessu dómara einelti ekki að ljúka?
    Þau eru orðin ófá stigin sem mistök þeirra eru farin að kosta þetta lið.

  22. Algjört rugl. Souness og Neville töldu að hér hafi verið dæmt löglegt mark af Suarez. Aldrei rangstæða. Dómarinn á að sjá um að dæma brot (ef það var þá brot á Coates) sem hann gerir ekki. Því skilur maður þessa ákvörðun línuvarðarins engan vegin. Rán.

    Hin Neville systirin baðst innilegrar afsökunar á dýfunni og lofaði að gera þetta aldrei aftur. Engin ástæða fyrir Rodgers að fara í sama skítaleikinn og aðrir stjórar.

  23. Sælir aftur

    Aldrei þessu vant ætla ég að hrósa dómaranum. Dæmdi þennan erfiða leik mjög vel. Rangstöðudómurinn í lokinn skrifast ekki á Mariner.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  24. Þú bara tekur ekki af okkur sætasta sigur á Everton síðan Gary McAllister með svona rosalega glæpsamlega röngum dómi! Djöfulsins helvítis helvíti.

    Er fullkomlega brjálaður eftir þetta.

    Liverpool var lélegt í þessum leik annars fannst mér þó þetta hafi auðvitað verið ekta “derby” slagur.

  25. Joe Allen maður leiksins. Hreint út sagt frábær leikur hjá manninum.

  26. Skandall á móti manU og núna á móti everton. Hvað á þetta eiginlega að þýða?

    Vilja þessir menn ekki láta taka sig alvarlega?

    Djöfulsins trúðar sem þessir dómarar eru.

    Það verður gaman að sjá hvort dýfa Neville eða fáránleg ákvörðun línufíflsins verður í umræðunni næstu vikurnar…því ef að Suarez hefði dýft sér myndi enska pressan brenna hann á báli.

  27. Skil ekki hvað menn eru að blanda Coates í þetta mark. Línuvörðurinn lyftir flagginu þegar Suarez var komin langleiðina út úr teig að fagna. Þulirnir sem ég hlustaði á voru með það á hreinu að þarna hefði fullkomlega löglegt mark verið dæmt af. Og það sást vel í sjónvarpinu hvenær hann lyfti flagginu. Kannski sanngjörn úrslit á heildina litið en breytir því ekki að Liverpool átti að vinna ef rétt hefði verið dæmt. Að tapa á þennan hátt á ekki að þegja um og ég vona að þeir sem stjórna hjá Liverpool opni nú aðeins á sér munnin.

  28. Ég er ekki sammála þér Babú að Liverpool hafi verið „lélegt“ í dag. Þetta var ekki góður leikur en þetta var ekki lélegur leikur heldur. Það voru vonbrigði að hleypa þeim strax í 2-2 eftir að lenda 2-0 undir og við áttum í ákveðnum vandræðum með Mirallas í fyrri hálfleik en Rodgers las það hárrétt, gerði skiptingar sem lokuðu á þetta allt og við vorum eina liðið í alvöru færum í seinni hálfleik.

    Þetta var engin klassaframmistaða, bara baráttujafntefli í derby-slag á útivelli þar sem fimm leikmenn voru að spila sinn fyrsta derbý. Og ekki gleyma því að við UNNUM þennan helvítis leik, þótt dómarinn hafi ekki leyft því að viðgangast.

    Liverpool á ekki eftir að vera svona óreynt og passíft á Goodison aftur í mörg, mörg ár og Everton eru að spila sinn besta bolta í mörg, mörg ár. Það var samt ekki nóg til að þeir gætu tekið okkur.

    Allt á uppleið…

  29. Djöfull sýður á manni!

    Ég get bara ekkert sagt.

    Ég er bara gjörsamlega að farast úr pirringi!

  30. Að línuvörðurinn hafi getað séð eina rauða treyju í hafi 6-7 blárra treyja og sagt að rauða treyjan væri fyrir framan hinar er svo mikil lygi og ósannanindi að það hálfa væri hellingur. Þetta er sami línuvörðurinn og gaf Everton innkastið sem seinna markið kom úr. Rangur innkastsdómur er kannski ekki eins afdrifamikill (skelfileg vörn Jose Enrique) og rangur rangstæðudómur. En það er samt rangt og hefur mikil áhrif á leikinn. Þennann línuvörð vil ég sjá (eða aldrei sjá) í neðstu deild Englands! Annars fannst mér þetta skrifast algjörlega á uppstillingu BR. Klárlega mistök að byrja bæði Jose og Brad Jones inná, og það sama á við um Wisdom, Sahin og Suso.

  31. Luis Suarez er ógeðslega góður og ógeðslega svalur.

    Hann skoraði allt að því þrennu í dag þó svo að aðeins eitt mark sé skráð á hann. Hið framtíðarumdeilda stökk fyrir framan Moyes yndislegt. Að fagnað sé á vafasaman hátt minnir mig á Fowler og það er ekkert nema jákvætt.

    Hins vegar er ég ánægður með Moyes fyrir að hafa brýnt fyrir dómaranum að taka á leikrænum tilburðum. Það átak var til fyrirmyndar í dag.

  32. Hins vegar hefði Moyes líka mátt rifja upp rangstöðuregluna með dómarateyminu.

  33. Er ég eini sem fannst Enrique flottur í dag?

    En ótrúlegur dómur bara! Línuvörðurinn sér Suarez ekki af því að Distan er fyrir og þar af leiðandi getur Suarez ekki verið rangstæður! Svo ef það er rétt að hann hafi flaggað svona löngu seinna þá má fara að senda manninn á hæli.

  34. Vissulega mikil vonbrigði að hafa ekki fengið öll stigin út úr leiknum. Hins vegar eru dómaramistök partur af leiknum og lítið við því að gera. Það er allt í lagi að benda á að við fengum tvö til þrjú góð færi til að klára leikinn í síðari hálfleik, þ.á.m. algjört dauðafæri sem Sterling klúðraði á virkilega slæman hátt. Finnst það óttalega þreytt að kenna dómara um tapið þegar menn geta sjálfum sér um kennt að hafa ekki nýtt færin sín.

  35. Eigum við samt eitthvað að ræða um það hversu mikill kóngur Suarez er !! Kemur inn í þennan risaleik með skelfilegt umtal á bakinu, smellir í “þrjú” mörk, tekur besta fagn sem sést hefur eftir að Fowlerinn tók línuna í nefið.. Þar að auki stóð hann í lappirnar allan leikinn en el captain hjá þeim tekur hressilega dýfu, bara til að smyrja sokkinn sem Úrugvæski kóngurinn tróð upp í nágranna okkar bláu

  36. Komon Arnór #42. Löglegt mark dæmt af í blálokinn. Auðvitað er það ekkert annað en skandall. Gengur ekki að skoða önnur atvik í leiknum og draga þau frá og fá út 0.

  37. Arnór það er þreytt að kenna dómara um þegar við höfum fengið færin og klúðrað þeim……. en þegar hann rænir sigrinum svona má bara alveg kenna honum um. Btw hann flaggaði ekki rangstöðu fyrr en suarez var kominn út úr teignum fagnandi!! Semsagt 4-5 sekúndum eftir að boltinn liggur í markinu, síðast þegar ég vissi átti sóknarmaður að njóta vafans þannig að ef hann var efins þá átti hann ekkert með það að flagga, enda var það kolrangur dómur hjá honum þegar þessi blessaði línuvörður já hann verður ekki kallaður réttu nafni eftir svona stuld.

  38. Ég trúi ekki að það séu til stuðningsmenn Liverpool sem vilja selja Suarez, trúi því bara hreint ekki!

  39. Skemmtilegur leikur. Rodgers sá að sér í hálfleik og Moyes gerði rétt með að pressa á Wisdom sem réði ekkert við Mirallas í fyrri hálfleik. Það var besta skipting leiksins fyrir okkur að Mirallas fór útaf!

    Athyglisverð breyting á liðinu og leiðinlegtað Assaidi hafi ekki fengið tækifæri eftir frábæra frammistöðu á fimmtudag. Hann hefði mátt byrja fyrir Suso.

    Það segir líka margt um stöðu Jamie Carragher að hann byrjaði ekki inná fyrir Wisdom (hefði verið hægt að gera það v. reynslu, sérstaklega í grannaslag) og hann kom ekki inn á heldur Coates, og svo Henderson).

    Niðurstaðan er svekkjandi jafntefli, sér í lagi þar sem við skoruðum löglegt mark og svo áttum við líklega (hef ekki séð þetta aftur reyndar) líklega að fá innkast sem Everton fékk og skoraði upp úr þegar það jafnaði.

  40. Flott úrslit í lokin, en að sjálfsögðu svíður svakalega að fá ekki gilt mark í okkar fang, hversu sanngjarnt sem það hefði orðið, áttum alveg inni fyrir sauðaþjófnaði og aðstoðardómarar eru settir í svona stöðu, í uppbótartíma í svona leik til að taka réttar ákvarðanir. Þessi var kolröng og kostaði mikið. Mjög mikið.

    En fyrirfram var ég sáttur við eitt stig og tek því svosem. Leist ekkert á stöðuna í lok fyrri hálfleiks en stjórinn fær monsterplús frá mér að fara í að bregðast við þeim vanda sem við áttum við að eiga þá.

    Og ég ELSKA Luis Suarez. Maðurinn er snillingur og það var súrrealískt flott að sjá frammistöðu hans og Nevillekjánann dýfa sér. Éttu þetta David Moyes!!!

    Rock on…

  41. Jæja, Ashley Young með rosa dýfu og Ivanovich fær rautt. Ætli það verði eitthvað rætt eins og að hann hefði átt að standa lappirnar eins og hamrað er endalaust að Suarez eigi að gera? Ég held ekki? Nei, og svo rétt í þessu er Torres sparkaður niður og fær annað gult og þá rautt fyrir leikaraskap??? Dómarastéttin á Englandi, ásamt umræðan um dýfur, er í ruglinu og er að eyðileggja leikinn, ekki “dýfurnar” sjálfar!

  42. Jæja nákvæmlega eins og ég spádi um (sjá komment 19)

    United ad skora kolólöglegt mark. Baunin langt fyrir innan og audvitad fá teir markid.

    Tad tyrfti ad fara ad skoda tessa dómarastétt á englandi.

  43. Til hvers í helvítinu er maður að borga fyrir að horfa á enska boltann þegar dómararnir eru löngu búnir að ákveða hvernig þetta fer…

  44. Þetta er alveg meira en glatað og orðið langþreytt. scummararnir fá rangstöðumark gild og við rændir sigri með löglegu marki í nágrannaslag við everton. Svo er torres hent útaf vegna umræðu um dýfur og hvað Suarez er mikill svindlari. Ég segji að það sé lélegt hjá utd ef þeir vinni ekki þessa deild þegar þeir eru 14 (já 2 línuverðir líka) á móti 11 í flestum leikjum. Kannski er ég of svekktur núna núna en menn hljóta að vera orðnir þreyttir á þessum dómum sem falla utd í vil en ekki okkur.

  45. Arteta rangstæður, Hernandez líka en Suarez ekki.

    Fyrrnefndu tvö atvikin eru dæmd mörk, en ekki það síðarnefnda. Hættið nú öll elskurnar að skammast fyrir það að tala um aðaugljós mistök starfsmanna leiksins kosti liðið okkar stig en önnur ekki.

    Löngu kominn tími á að alvöru deildir heimsins fari að taka upp heimtingu á tæknilegri aðstoð dómara og sjónvörp fái að koma að erfiðum ákvörðunum.

    Eftir þessa helgi munu fáir tala um fótbolta en flestir um dómarana. Það er skelfilegt.

    Sækja Rafa ræðuna um “facts” elskurnar. Þar var ekki eitt gramm lýgi eða ýkjur….

  46. Sæl öll.

    Ef ég ætti hund myndi hann heita Suaréz, ef ég ætti kött myndi hann heita Suaréz, ef ég ætti son myndi hann heita Suaréz. Þar sem ég á ekkert af þessu langar mig að heita Suaréz en það verður víst ekki samþykkt hjá þjóðskrá. En það eru til konur sem heita París og Aþena og þess vegna ætla ég að fara á morgun og láta breyta nafni mínu í Sigríður Liverpool til heiðurs mínu ástsæla liði. Liði sem mætir allskyns hindrunum á leið sinni til sigurs dómarar dæma af lögleg mörk, þjálfarar annarra liða tjá sig meira um okkar leikmenn ( neikvætt) heldur en jákvætt um sína eigin. Breska pressann elskar að hata Suaréz og alla okkar leikmenn. Viku eftir viku mæta þeir samt tilbúnir til leiks og spila flottann bolta, okkar tími mun koma og þá getum við brosað og verið stolt af okkar strákum.
    Fagnið hans Suaréz sýnir okkur hversu mikill karakter hann er og að hann ætlar ekki að láta þjálfara annarra liða hafa nein áhrif á sinn leik.
    Að mínu mati unnu okkar menn þennan leik 3-2 og þar til mér verður sýnt það svart á hvítu að rangstaðan hafi verið rétt mun ég halda þeim úrslitum.

    Þangað til næst
    YNWA
    Sigríður Liverpool.

  47. Ætli það takist einhverju blaði þarna útí englandi að birta einhverja níðgrein um Suarez eftir þessa helgi, það yrði stórkostlegt afrek útaf fyrir sig hehe 🙂 En þvílíkur brandari dómgæslan í þessum 2 stórleikjum þessarar helgi! Og aðrir menn sáu um að láta spjalda sig fyrir dýfur þessa helgina, Neville, Torres og Valencia ! Suarez er maður helgarinnar fyrir glæsilega frammistöðu og frábært fagn !

  48. Dómararnir að skandalisera í leiknum á milli Chelsea og manutd. búnir að reka 2 útaf án mikilla saka og þar af Torres fyrir meintan leikaraskap sem var ekki rétt og svo láta þeir rangstöðumark standa fyrir United. Meiri vitleysan, er ekki málið bara að henda öllum þessum ensku dómurum í ruslið og fá bara verktaka í málið?

  49. Það verður sannanlega kátt hjá David Gill og félögum á skrifstofu FA á morgun.

  50. Þvilikur brandari þessi domgæsla. Maður er an djoks að gefast upp a þessari vitleysu sem enski boltinn er orðinn. Þvilikt djok að þarkoð hans suarez sem var aldrei rangstaða er dæmt af og svo korteri siðar skora united sigurmark med rangstoðu marki og fa það gilt. Einnig atti torres aldrei að fa rautt spjald.

    Er þetta ekkert að verða rannsoknarefni hvað allt fellur med united og einnig hvað olysanlega margt fellur gegn okkar monnum?? Maður er alveg hættur að skilja þetta. Af hverju segir engin neitt og þessi vitleysa bara latin viðgangast viku eftir viku manuð eftir manuð og ár eftir ár? Hvernig væri td ef þjalfarar annarra liða i deildinni tælju sig allir saman og færu i herferd gegn man utd? Færu að benda latlaust allir a það sem fellur með man utd og jafnvel fara i eins miklar og rottækilegar adferdir og þarf þangað til þetta breytist.

    Nuna er buið að gefa man utd sigra bæði a anfield og stamford bridge bara a þessu seasoni, a þetta bara að fa að ganga svona afram og allir halda kjafti? Madur er orðlaus yfir þessu helvitis bulli sem enski boltinn er að verda.

  51. Getur verið að dómarastéttin sé að eyðileggja enska boltann ekki Suarez ? Maður bara spyr sig.

    Suarez er náttúrulega bara snillingur og svo eru einhverjir sem vilja selja manninn frá félaginu. Nei takk þetta er alger skemmtikraftur sem unun er að horfa á spila fótbolta. Hápunktur leiksins var að sjálfsögðu þegar hann tók upp peninginn og stakk honum í skóinn sinn.

    Áfram Liverpool

  52. Þetta var hámark eineltisins sem að Suarez er búinn að þola. Núna þegar að dómarar eru hættir að dæma á hann augljós brot ákveður einhver snillingurinn að taka af honum mark líka. Það er búið að gjörsamlega brennimerkja Suarez okkar í ensku deildinni, sem kynþáttahatara og svindlara. En ekki má gleyma af hverju hann er lagður í einelti. Það byrjaði allt þegar alex nokkur ferguson hvatti hinn trúverðuga patrice evra til að kæra Suarez fyrir kynþáttaníð. Það verður skálað í kampavíni þegar sá hundur fellur frá!

  53. Fær Suarez ekki bann eða refsingu fyrir þessa frábæru dýfu;) Kæmi ekki á óvart.

  54. Gleymum samt ekki að suarez átti að fá rautt, hann verður að fara að brýna toppstykkið

  55. Er ég sá eini hérna sem er orðinn saddur á Gerrard okkar? Þetta nær náttúrulega engri átt. Algjör happadrætti ef hann kemur boltanum yfir fyrsta varnarmann í hornspyrnum. Tókuð þið síðan eftir aukaspyrnunni hjá honum á 89 mín? Markið lá í loftinu hjá okkur, allir komnir inná teig og svo kom spyrnan….nei afturfyrir markið.

    Spyrnugeta hans er með allra slakasta móti og búin að vera þannig síðustu 2 tímabil.

    Seljum hann í janúar og kaupum einhvern alvöru í staðinn.

    Get ekki meir.

    YNWA

  56. Þetta er rosalegt í endursýningu. Línuvörðurinn er ekkert smá lengi upp með flaggið, engin leið fyrir hann að vera viss. Ætli hann hafi ekki verið að hugsa ” Bíddu við, þetta er Suarez umdeildasti leikmaðurðinn í boltanum og svindlari, Staðan er 2-2 á 93. mínútu. Allir á vellinum segja að þetta hafi verið rangstaða. Ég er ekki viss en best að taka enga sjénsa.”

    Held að línuvörðurinn hafi panickað all hressilega þarna.

  57. # 70, bíddu komu ekki tvö mörk í þessum leik upp úr aukaspyrnu frá Gerrard?

  58. Sir Alex Ferguson has made it clear to Howard Webb that he will have to fight for his first team place.

  59. Skemmtilegur leikur. Ánægður með skiptinguna í hálfleik sem varð til þess að það komst betra jafnvægi á leikinn. Shelvey kom sterkur inn og virðist hafa “strong presence” þarna á miðjunni sem vantaði alveg í fyrri hálfleik. Finnst eins og það sé smám saman að komast betra jafnvægi á liðið sem er vonandi eitthvað sem hægt er að byggja á. Nú er bara að hala inn þrjú stig á móti Newcastle í næsta deildarleik því síðan kemur erfiður útileikur við Chelsea. Er ansi hræddur um að við þurfum að kljást við ellefu Chelsea leikmenn allan tímann, annað en sum lið.

  60. Þessi leikur var háspenna lífshætta og með fullt af atriðum til að rífast yfir. Þannig á þetta að vera en þessi heigulsdómur þarna í blálokin tók alveg botninn úr. Ég er sammála mönnum um að það hafi skipt máli að Suarez skoraði markið. Alveg ótrúlegt!!

  61. Þetta var gríðarlega spennandi leikur. Þetta er fáránlegasti rangstöðudómur sem ég hef séð. Suarez er ekki einu sinni nálægt því að vera rangstæður. Ég á ekki orð.

  62. 72 Það var ágætis spyrna í skallamarkinu. Suarez fær samt allt kredit hjá mér fyrir að stíra boltanum í bláhornið. Óverjandi og þvílíkt vel gert.

    Annars var Gerrard útá þekju í þessum leik. Hægur og virkaði þungur.

    Pakksaddur af honum, fáum ekkert meira útúr honum.

    YNWA

  63. Er einhver með tengil á myndband þar sem sést hversu lengi línuvörðurinn er að flagga? Ég sá þetta ekki í sænsku útsendingunni.

  64. Væri gaman ef línuvörðurinn gæti útskýrt hvers vegna hann var svona lengi að ákveða hvort Suarez var rangstæður eða ekki!! Ef þú ert viss þá flaggar þú strax, ef þú ert ekki viss þá sleppir þú því 🙂

  65. Kaflaskiptur leikur hjá okkur – góðar skiptingar hjá BR í hálfleik, við vorum frekar flatir í lok fyrri hálfleiks. Var allt annað að sjá til liðsins í síðari hálfleik.

    70

    Er ég sá eini hérna sem er orðinn saddur á Gerrard okkar?

    Ég vona það, þessi skrif eru til skammar.

    Algjör happadrætti ef hann kemur boltanum yfir fyrsta varnarmann í
    hornspyrnum. Tókuð þið síðan eftir aukaspyrnunni hjá honum á 89 mín?
    Markið lá í loftinu hjá okkur, allir komnir inná teig og svo kom
    spyrnan….nei afturfyrir markið.

    Tókst þú eftir:

    a) Aukaspyrnu hans á Suarez sem gaf mark nr #2
    b) Aukaspyrnu hans á Coates í markinu sem var dæmt af ?

    Það lítur frekar út sem svo að þú sért að leita þér að eh ástæðu til að geta sett út á hann. Verður afskaplega vandræðilegt þegar þú notar þessi rök, já eða rökleysu.

    Spyrnugeta hans er með allra slakasta móti og búin að vera þannig
    síðustu 2 tímabil.

    Eins og við fengum að sjá á stoðsendingunum hans með Englandi í sumar og það sem af er tímabili, sbr: http://www.liverpoolfc.com/news/have-you-seen/top-chance-creators-1st

    Seljum hann í janúar og kaupum einhvern alvöru í staðinn.

    Selja einn besta leikmann í sögu klúbbsins, sem hélt tryggð við okkur öll þessi ár. Þú myndir passa vel inní plastfánahafið á brúnni.

    Get ekki meir.

    Nákvæmlega sama tilfinning og ég hef núna eftir að hafa lesið þessa vitleysu.

  66. Hugsanlega er stærsta vandamál enska fótboltans fjárhagsleg staða félaganna og því tengt sá söfnuður lukkuriddara, pabbadrengja og glæpamanna sem á mestan part þessara frægu félaga.

    Næst stærsta vandamálið hlýtur að vera dómgæslan. Nú horfi ég á leiki í spænska og þýska boltanum reglulega og raunar fleiri deildum. Hvergi er annað eins ástand og í Englandi. Ég horfði á báða stórleiki dagsins og í báðum tilfellum hafði fáránleg dómgæsla ráðandi áhrif á hvernig leikirnir fóru. Nú er LFC í sjálfu sér ekki að keppa um Englandsmeistaratitilinn í þetta sinnið. Ég get heldur ekki ímyndað mér að svo verði nokkru sinni meðan Suarez er leikmaður Liverpool enda gilda reglurnar ekki þegar brotið er á honum eins og allir vita. Það er á hinn bóginn nýtt það sem gerðist í dag, þ.e. að ræna hann fullkomlega góðu marki töluvert eftir að hann skoraði það, en kemur samt ekki á óvart.

    En segjum sem svo að ManU verði meistari þessa leiktíðina en Chelsea í öðru sæti. Í því tilfelli hafa skelfileg byrjendamistök dómarans meiri áhrif en glötuð 2 stig til okkar í dag. Algjör blunder rænir heiðri frá leikmönnum, ánægju frá stuðningsmönnum og milljörðum frá félaginu. Sama hvað mönnum finnst um Chelsea – leikir eiga að vinnast eða tapast á forsendum leikmanna ekki dómara frá helvíti. Án þess að hafa rannsakað það vísindalega hugsa ég að algengasta inntak forsíðuumfjöllunar í enskum blöðum síðustu árin séu ekki afrek leikmanna heldur mistök dómara.

    Dómarar á Englandi eru langt að baki gæðum leikmannanna sjálfra og langt, langt að baki dómurum á Spáni og í Þýskalandi. Þar verða alvarleg dómaramistök auðvitað eins og gengur en miklu fremur sem undantekning en reglan eins og á Englandi!

    Þetta er hreinlega ömurlegt að mínum dómi. Dómarar á Englandi njóta líklega minna trausts en Alþingi Íslendinga.

  67. Er bara mjög sáttur, 8 stig úr síðustu 4 deildarleikjum. Það eru ekki mörg lið sem eiga eftir að sækja stig á þessum velli. Rodgers klárlega á réttri leið með liðið. Erfiðir 2 leikir framundan (Newcastle og Chelsea). Væri sáttur við að ná í 4 stig úr þeim leikjum.7 stig í 4. sætið er ekkert til að hafa áhyggjur af. Það eru “bara” 29 umferðir eftir af mótinu. Arsenal, Tottenham og Everton eiga öll eftir að tapa helling af stigum enda augljósir veikleikar í öllum þessum liðum og mótið er rétt að byrja. Gerrard hefur átt betri dag, en að halda því fram að hann eigi ekki heima í byrjunarliðinu er að mínu mati þvæla. Við gerum bara svo gríðarlega miklar kröfur til hans. Hvílum hann hins vegar í þessum bikarleikjum. Fáum svo flottan striker í janúar. Bjart framundan, verum jákvæðir og þolinmóðir 🙂

  68. Það er ekki bara að 2 Everton menn séu fyrir innann Suarez – Coates er líka fyrir innann Suarez og því hefði í raun engu átt að breyta hvar Everton mennirnir eru – þetta er margföld vitleysa hjá dómaranum.

    Ég kalla eftir því að menn fari að nota myndabandstæknina. Tekur ekki nema nokkrar sekúndur að fara yfir svona atriði á myndbandi þannig að það þyrfti ekkert að tefja leikinn. Munið eftir því að Stoke tekur að meðaltali ca 25 sekúndur í hvert innkast. Síðan ætti hvort lið ca 2 áfrýjanir í hverjum leik sem það gæti notað í tilvikum eins og þessum.

  69. Ekki sammála því að það eigi að nota tæknina í rangstöðum, en fylgjandi því að nota hana til þess að sjá hvort boltinn er inni eins og á að gera

  70. Fyrst við erum hætt að ræða Suarez og dýfur hans þá langar mig til þess að bæta við Gerrard umræðuna.

    Steven Gerrard var frábær í dag. Hann átti vissulega eina eða tvær erfiðar, langar sendingar sem skiluðu sér ekki á rétt frímerki en lang flestar ákvarðanir hans voru hárréttar og liðinu til góðs. Hann kemur boltanum afskaplega vel frá sér, er stórhættulegur sóknarlega og vinnur gífurlega vel fyrir liðið. Mig minnir að það hafi verið á 84. mínútu þar sem hann tók vænan sprett aftur eftir að hafa tekið þátt í sóknaruppbyggingu okkar manna og hljóp svo völlinn þveran til þess að bæta upp fyrir svæði sem einhver annar hafði skilið eftir. Til fyrirmyndar.

    Þessi leikmaður gæti varla hafa lagt meira af mörkum fyrir þetta félag og er af mjög mörgum talinn besti leikmaðurinn í sögu félagsins. Ef við hins vegar núllum það allt saman út og árið núll var þegar deildin hófst í haust þá hefur hann verið frábær. Hann tekur sinn tíma, eins og aðrir, í að aðlagast leikkerfi BR en hann gefur alltaf sitt og er stórhættulegur í sóknaruppbyggingum. Ef að hann væri nýr leikmaður þá værum við í skýjunum yfir spilamennsku hans í vetur og ekki nokkur væri að heimta hann seldan. Staðreyndin að hann sé búinn að fróa okkur með tugum scream-era í gegnum tíðina gerir það að verkum að margir hverjir vilja að hann bæti 4-5 í safnið í hverjum leik.

    Njótum þess að hafa Steven Gerrard í liðinu á meðan hann hefur lappir í það, við eigum eftir að sakna hans þegar hann hættir.

  71. Guderian 81 :

    Skoðaðu Catania-Juve núna um helgina og endurskoðaðu þessi orð þín aðeins. Dómgæslan á Ítalíu hefur verið, er og verður mun vafasamari en nokkurn tímann á Englandi.

  72. Jón nr.89 Hann minnist ekkert á Ítalíu, enda vita allir ástandið þar

  73. Einhver lykt af spillingu innan FA sem tengist Manure? Ég veit ekki, seg þú mér… 10.000 kall fyrir þann sem færir sönnun fyrir því 😉

  74. “Suarez átti að fá rautt”
    Alveg það sem maður bjóst við í fyrirsögnum dagsins.

  75. Menn bara leggja sig fram við að reyna búa til neikvæðar fyrirsagnir um Suarez í þetta skiptið. Gult fyrir dýfuna fyrir framan Moyes…sem fékk ekki einu sinni skammir fyrir ummæli sín fyrir leik. Það er erfitt að átta sig á þessum reglum sem gilda á Englandi fyrir leikmenn og stjóra vs hinar reglurnar sem gilda bara um Suarez. http://fotbolti.net/fullStory.php?id=135747

    Þetta kom svo líka:
    Graham Poll, trying to explain why linesman flagged to disallow Suarez winner “perhaps the pressure of the timing of the goal affected him”.

  76. Það er ljóst að dómarar ráða mjög miklu um stigafjölda liða í ensku deildinni. Eins og staðan er í dag hefur manu 21 stig og Liverpool 10 stig þetta er 11 stiga munur. Með betri dómgæslu ætti þessi stigamunur að vera mun minni. Ég ætla að velja þrjá augljósa leiki til að færa rök fyrir þessu.

    Fyrst er það hræðileg dómgæsla Headline Halsey í síðasta leik Liverpool og manu sem klárlega hafði allt að segja um úrslit leiksins. Í versta falli hefði sá leikur enda með jafntefli ef dómarinn hefði dæmt eins á bæði lið. manu -2 stig og Liverpool +1.

    Leikur tvö Everton – Liverpool þar sem dómari/línuvörður dæmdu löglegt sigurmark af Liverpool. David Moyes sagði í viðtali eftir leik að markið hefði átt að standa. Liverpool +2 stig, Everton -1 stig.

    Leikur þrjú var líka í gær Celskí – manu þar sem Mark Clattenburg fór hamförum. Sigurmarkið var rangstæða og seinna gula á Torres var bull dómur.(Evans kemst upp með fleiri tæklingar en nokkur annar leikmaður í deildinni). Í eðlilegum heimi dómgæslunnar hefði sá leikur í versta falli endað með jafntefli. manu -2 stig.

    Með réttu ætti manu að vera í 17 stigum í dag og Liverpool í 13 stigum, þetta er 4ra stiga munur í stað 11 stiga. Eins væri Everton í 15 stigum.

    Hver segir svo að ekki sé gott að hafa dómarana á sínu bandi !

  77. Svona til að gæta sannmælis Krizzi þá hefðu United t.d. átt að fá víti heima gegn Tottenham í leik sem tapaðist þannig að eins ótrúlegt og það hljómar þá hafa United fengið dóm á móti sér á heimavelli á leiktíðinni. En það mun líka ekki gerast aftur, það er klárt og Foy mun ekki dæma United leik í bráð.

  78. Varðandi Chelsea – United. Sami línuvörður og sleppti rangstöðunni á Hernandez sleppti líka hendivíti á David Luiz (sem hefði auðveldlega mátt dæma án þess að nokkur kvartaði mikið) og Torres hefði átt að fara útaf fyrir að tækla Cleverley í magann í fyrri hálfleik

    Samsæri? Onei.

  79. Einar #78

    Í MOTD http://www.101greatgoals.com/gvideos/everton-2-liverpool-2-motd/ má sjá þetta mjög vel hversu lengi línuvörðurinn er að lyfta flagginu. Ég tók smá screenshot sem má sjá í linknum hér fyrir neðan þar sem Suarez er byrjaður að fagna og enn er flaggið niðri. Þetta er algerlega ömurlegur dómur í alla staði. Sést líka skemmtilega hvernig Leon Osman pantar þarna rangstöðuna og já, þá hlýtur þetta að vera rangstaða og línuvörðurinn flaggar.

    http://i46.tinypic.com/2laszzm.gif

  80. Hvar endar þessi vitleysa!? Nú eru menn farnir að nota Graham poll til að ausa yfir Suarez bara til að hafa eitthvað!! Þetta er löngu komið nóg og kominn tími til að fara láta heyra í sér, hvort sem að það kosti leikbönn eða jafnvel harðari refsingu þá bara hreinlega verður að fara stoppa þetta einelti sem Liverpool verður fyrir eftir hvern einasta leik.

    Samt fyndið að hugsa til þess að þegar kemur að evrópuleikjum þá er varla minnst orði á dómara skandal eða nokkuð á þann veginn…. Það ýtir undir þá kenningu að FA eru hreinlega með eitthvað stórt plott í gangi gegn Liverpool! Eru menn virkilega ennþá svona sárir yfir því að Liverpool domineraði nánast allt í 20 ár á sjöunda og áttunda áratugnum!? Þvílíka minnimáttarkennd hef ég ekki orðið vitni að á minni lífsleið!

  81. Nr. 99

    Róum okkur nú kannski aðeins eins og sást um helgina kom léleg dómgæsla ekki bara niður á Liverpool og við meira að segja stundum fáum (eða fengum) dóma með okkur.

    Suarez er hinsvegar annað mál, það eru augljóslega miklir fordómar gegn honum og bókstaflega ALLT tekið til sem hægt er að finna gegn honum. Núna er umræðan að mestu um að hann ætti að hafa fengið rautt en ekki hvernig marki var stolið af honum á ömurlegan hátt. Þetta er svona eftir hvern einasta leik.

    Fínt að sjá Gerrard tjá sig um þetta, mætti gera mikið mikið meira af því.

  82. Suarez fer að verða algjört Guð í mínum augum og mér er alveg sama þó svo að hann hafi verið að dýfa sér áður fyrr. Hann er greinilega að taka sig á í þeim málum og það er eitt sem hann hefur, hann tjúnast upp við mótlæti þannig að endilega fjallið áfram að rakka hann niður í fjölmiðlum. Hann var stórkostlegur í þessum leik, hefði reyndar alveg mátt sleppa síðbúnu sparki í löppina á einum bláum og svo er það spurning hvort þetta hafi verið viljandi þegar hann steig á ökklann.

    Engu að síður er þessi leikmaður algjör galdramaður með boltann og fólk talar um að hann sé slappur slúttari, hann skoraði þrjú mörk í þessum leik, með aðstoð varnarmanns í fyrsta markinu, skallamarkið var snilld og minnti mig á Fowler ( annan Guð) og þriðja markið segir allt sem segja þarf um viðbrögð hans og tækni. Luis Suarez er algjör snillingur og þessi fagnaðardýfa hans var mjög réttmæt og flott hjá honum. Ég vona að menn haldi áfram að tala manninn okkar niður því hann spilar af ástríðu og er alltaf að verða betri og betri með hverjum leiknum. Bring on swansea og alla hina vælukjóana og endilega espið Suarez upp þangað til! 🙂

  83. Mér finnst það alltaf hæpin röksemdafærsla, (líkt og Poll notar um að Suarez hefði átt að fá gult fyrir fagnið) að týna til atvik áður en leikmenn fá gult spjald, og segja að þar hefðu þeir átt að fá spjald og því hefði seinna spjaldið átt að vera rautt. Lang flestir leikmenn spila öðruvísi á gulu spjaldi og hefðu því oftast ekkert fengið það spjald, hefðu þeir verið komnir með spjald fyrir fyrra atvikið.

  84. Getum við í alvörunni hætt að tala um Mancs hérna. Að pottið sé með þeim og allt það crap. þetta er orðið ansi þreytt þessar samsæriskenningar.

    Einnig langar mig svakalega til þess að Rodgers fari að hjóla í fjölmiðla og FA vegna Suarez. Hann á að vernda þennan mann með kjafti og klóm sem og alla sína leikmenn. Ef hann fær sekt eða leikbann. þá verður bara að hafa það. En við getum ekki látið þessa neikvæðu umfjöllun halda áfram. PR mennirnir hjá okkar klúbbi eru enn einu sinni gjörsamlega að skíta upp á bak og eru með allt lóðrétt niður um sig. Stundum finnst mér vanta pung í klúbbinn okkar.

    Enn og aftur , þá þakka ég fyrir að kop.is er til og þá vinnu sem síðuhaldarar leggja á sig við að halda henni úti.

  85. Sýnir þetta ekki bara svart á hvítu að vafadómar falla með andstæðingum. Ég er enginn almannatengslafulltrúi en Liverpool verður náttúrulega að fara gera eitthvað í þessu. Kemur á óvart að Liverpool er ekki búið að kvarta meira yfir þessum leik. Chelsea eru búnir að senda frá sér kvörtun og Liverpool á náttúrulega að gera það líka.

  86. Það er ekki að hrósa Luis Suárez of mikið á köflum. Stórbrotinn knattspyrnumaður og karakter. Ef maður myndi horfa á match highlights úr síðustu 20-30 Liverpool leikjum í einni lotu, sæi maður lítið annað en #7, #7, #7 og #7 í hættuluegustu aðgerðum okkar. Hann er stórkostlegur á boltanum, frumlegur og ósérhlífinn.

    Í Liverpoolborg búa menn sem sagt við þau forréttindi að fá að njóta krafta byrjunarliðsmanns (og lykilmanns) í sjöunda hæst skráða landsliði heims, manns sem gæti gert tilkall til sætis í hvaða liði sem er í heiminum – öögulega besta leikmannsins í EPL. Ef við ætlum að gera alvöru atlögu að enska titlinum og öðrum stórum á næstu 4-5 árum, verður Suárez án efa algjör lykilmaður í þeim plönum. Samningur til 2016 segir sína sögu um hvar hjarta hans slær.

    Fjölmiðlasirkusinn í Englandi er auðvitað kominn út í algjört rugl og knattspyrnusambandið og dómgæslan verður seint sögð til fyrirmyndar. Það þarf sterkan einstakling til að þola annað eins mótlæti og beinlínis einelti. Ég skil ekki þá Liverpool aðdáendur sem bíða að er virðist slefandi eftir næstu molum sem hnjóta af borði Rauðnefs og sumra í ensku pressunni – og kjamsa síðan á með bestu lyst.

    Hvað tryggð við félagið varðar má einnig segja margt af ofansögðu um fyrirliðann okkar, Steven Gerrard. Ár eftir ár hefði hann getað valdið sér hvaða stórlið sem er í leit að dollum, en hefur haldið tryggð við Liverpool. Hann verðskuldar tryggð á móti. Nú er ég ekki að segja að hann eigi að byrja alla leiki og spila í 90 mínútur óháð formi og getu, en sumir hafa viðrað beinlínis stórfurðulegar hugmyndir um stöðu hans og mikilvægi fyrir klúbbinn.

    Ef við fáum 1-2 sóknarmenn í háum klassa, verður liðið til alls líklegt. Ég öðlast æ meiri trú á BR og því sem hann er að gera. En það mun ekki allt smella saman á nokkrum vikum.

    YNWA!

  87. Orðið tímabært að menn fari að gera sér grein fyrir því að við erum ekki Skátahreyfing. Liverpool er sigursælasti og langflottasti klúbbur í sögu enska boltans. Skökum þess eigum við að horfa yfir sviðið og taka ákvarðanir í samræmi við það. Steven Gerrard er búinn að vera gífurlega mikilvægur fyrir klúbbinn okkar. Hinsvegar eru margir sammála mér um að hans tími sé liðinn. Síðustu 2-3 ár hefur hann verið undir getu. Spilar sjálfsagt inní mikið af meiðslum og vissulega farinn að eldast, orðinn 32 ára. Nú er lag fyrir okkur í janúarglugganum og stokka upp spilin. Getum fengið plús/mínus 10 milljónir punda fyrir hann. Auðvitað eigum við að selja hann á meðan við getum fengið góðan pening fyrir. Þá á ég við ekki til liðs á Englandi, það myndi aldrei ganga upp.

    Brendan Rodgers er frábær þjálfari og sé ég hann fyrir mér hjá okkur næstu 10-20 árin. Ungur, ferskur og með bein í nefinu.

    YNWA

  88. Orri, #106,

    mér lízt vel á mínus tíu milljónirnar fyrir Gerrard.

  89. 106…….Ég hef oft gagnrýnt Gerrard og hann hefur átt sína lélegu leiki en að rakka hann niður núna eftir þennan leik sem átti þátt í 2 mörkum er bara fáránlegt og vilja selja hann fyrir 10 mills er bara brandari…

  90. Varðandi ummæli hér að ofan (mörg) þá getum ég tekið undir um ágæti BR og treysti honum 100% en með SG er ég 100% ósammála mörgum hér að ofan sem vilja hann burt! Þess heldur meira sáttur að BR er að stjórna en ekki einhver annar því hann mun seint selja Gerrard, margir aðrir á útleið fyrst sem ekki eru í hóp.

    Lausnir margra í Liverpool-röðum eru of oft að finna blóraböggul hjá andstæðingum, dómurum eða í eigin liði. Eina sem gerir Liverpool FC sterkara er hvernig við sem lið(áhorfendur, stuðningsmenn, stjórar, leikmenn og annað starfsfólk) bregst við og bætir sinn leik hvort sem hann er utan vallar eða innan. Eina sem þú færð breytt er þín hegðun og viðbrögð, eina sem liðið getur gert er að bæta smáatriði sem má gera betur og vinna þannig að bættum heildar árangri. Gengur frekar seint að ætla að breyta öðrum áður en þú breitir þínu! Gagnrýni á alltaf rétt á sér með rökum og að bera virðing fyrir leiknum, dómaranum og andstæðingunum er ekki sama og lítilsvirðing fyrir þér og þínu liði!
    Tökum vel á móti Swansea og tökum vonandi vel á Swansea innanvallar. Utanvallar förum að huga að næsta leik og framtíðinni í stað þess að svekkjast á fortíðinni!

    Áfram Liverpool!

  91. Nr. 97 Björn Friðgeir Hendi á Luiz er nú bara þessi endalausa umræða stundum er dæmt á þetta stundum ekki, yfirleitt ekki þegar varnarmaður er svona ofan í sóknarmanni. Og þú vilt fá beint rautt á Torres fyrir brotið sem hann fékk sitt fyrra rauða fyrir og ert sá fyrst sem ég heyri skella þessu fram enda verðskuldaði þetta ekki meir en gult spjald, ef þetta væri rautt þá væri nú ekki mjög gaman að horfa á knattspyrnu er það?
    Og þetta þessi tvö atvik eiga sem sagt að gera að verkum að leikurinn í gær var bara ágætlega dæmdur eða hvað?
    Mexikaninn er fyrir innan ALLA leikmenn Chelsea liðsins í markinu og ekki þarf að fjölyrða um rauða spjaldið á Torres.
    http://l.yimg.com/bt/api/res/1.2/fhWC6QTK1YSfYuLeaLXTkQ–/YXBwaWQ9eW5ld3M7cT04NQ–/http://media.zenfs.com/en/blogs/sptussowexperts/A6T5Ga8CYAIcXCm.jpeg

  92. Ég er ekkert endilega að horfa á bara þennan leik með Gerrard. Heldur síðustu 2-3 ár meira.
    Hann er búinn að vera slakur heilt yfir. Geri mér hinsvegar ekki alveg grein fyrir hvað við getum fengið fyrir hann. Vonandi miklu meira en 10 milljónir punda.

    Ef við tökum upp léttara hjal þá finnst mér Suarez vera orðinn besti leikmaður deildarinnar. Þvílíkur kóngur sem allir óttast sem endurspeglar allt þetta neikvæða tal um hann. Hvers vegna? Jú vegna þess að hann er heimsklassa.
    Dýrka hann.

    YNWA

  93. Gaman,, nei ekki gaman að segja frá því að ef með réttu við hefðum unnið the mancs um daginn og dómarinn ekki unnið leikinn fyrir þá upp á sitt einsdæmi,

    Liverpool hefði unnið leikinn gegn Neverton með þessu löglega marki LS í lokin

    og Dómarinn hefði ekki unnið leikinn fyrir the mancs gegn Chel$ki í gær……

    Værum við með 16 stig og þeir 15

    Viðerumekkieinslangtáeftireinsogmennhalda !!!!!

    Twitter
    @ragnarsson10

  94. Gunnar Ólafur, ef þetta er ekki það heimskulegasta sem ég hef lesið..

  95. ZZ: Nei, nákvæmlega EKKI. Þessi tvö atriði sýna að leikurinn var EKKI vel dæmdur og að hann var EKKI dæmdur United í hag í einhverju samsæri.

Liðið gegn Everton

Swansea á miðvikudag & ýmislegt annað