Norwich 2 – Liverpool 5

Í dag er 29.september og sjötta umferð í ensku deildinni. Það er afar jákvæður dagur í alla staði, þar sem fyrsti, en alls ekki síðasti deildarsigur Brendan Rodgers sem stjóri LFC vannst!

Byrjum á liðsuppstillingunni:

Reina

Wisdom – Skrtel – Agger – Johnson

Gerrard – Allen – Sahin

Suso – Suárez – Sterling

Bekkur: Jones, Carragher, Henderson, Downing, Assaidi, Coates, Borini.

Ég var stressaður um hversu mikið sjálfstraust væri í liðinu okkar, en eftir 65 sekúndur varð manni strax ljóst að það væri til staðar! Allen og Johnson unnu sig upp vinstri kantinn og sendi bakvörðurinn inn í teig þar sem Sahin átti flott hlaup, varnarmaðurinn pikkaði boltanum frá honum í fæturnar á Luis Suarez sem tók eina snertingu á vítateigslínunni og klíndi boltanum í markið. Leikurinn varla byrjaður og við strax yfir.

Næstu tíu mínúturnar held ég að Norwich hafi verið 15% með boltann, við einfaldlega stýrðum allri traffík en náðum ekki að skapa mörg færi. Þá kviknaði smá lífsmark hjá heimamönnum og þá varði Reina vel. Gerrard skallaði að marki eftir rúman hálftíma en Ruddy varði svakalega vel og Suarez komst einn í gegn og klúðraði framhjá við mikinn fögnuð heimamanna sem létu hann heyra það. Norwich tók útsparkið, varnarmaður þeirra gleymdi sér augnablik, Luis Suarez stal boltanum af honum, klobbaði viðkomandi í ofanálag og klíndi hann utanfótar í markið – talandi um að vera svalur!!! Bara hlýtur að verða til að Norwichaðdáendur hugsi sig um áður en þeir bulla yfir hann – eða hvað?

Þannig lauk fyrri hálfleik.

Á fyrstu 90 sekúndum síðari hálfleiks fengu Norwich tvö dauðafæri sem þeir nýttu ekki en þá var komið að stoðsendingu fyrir Úrúgæjann okkar magnaða, fékk flotta sendingu að vítateig, vann sig framhjá vörninni og eftir að varnarmenn stoppuðu fyrstu sendingu hans sendi hann aftur inn í markteig á Nuri Sahin og staðan 0-3. Á 57.mínútu var svo komið að því að Suarez fullkomnaði þrennuna sína annað árið í röð á Carrow Road þegar hann skrúfaði boltann í fjærhorn enn af vítateignum.

Því miður gáfum við svo mark á mínútu 61, Reina kastaði illa út á bakvörð sem komst í skotfæri, Reina varði boltann illa út í teig þar sem Morrison klíndi hann í markið og staðan 1-4. Norwich ætluðu að pressa áfram og gera eitthvað en á 68.mínútu kláraði Steven Gerrard leikinn eftir vel útfærða skyndisókn. Verulega góð afgreiðsla. Þaðan fórum við bara að halda boltanum en því miður gerðum við enn varnarmistök, nú á 87.mínútu þegar Martin Skrtel missti boltann klaufalega undir sig og Grant Holt kláraði það færi.

En leiknum lauk með okkar sigri, 2-5 í afar góðum fótboltaleik.

Liðið okkar lék afar vel allan tímann. Mér fannst sérstaklega miðjan frábær, þeir Sahin, Gerrard og Allen algerlega stýrðu öllu sem þeir vildu. Kantmennirnir héldu vídd, þó Sterling hafi átt betri leiki, og Suarez var algerlega magnaður.

Varnarleikurinn er enn ekki nógu góður, Reina átti fyrra markið að mínu mati og Skrtel það seinna. Agger og Johnson voru frábærir, Wisdom stressaður í byrjun en vann sig vel í leikinn. Varamennirnir sem inn komu, Assaidi, Hendo og Carra komu inn þegar leikurinn var búinn.

En maður leiksins er einfalt val í dag, Luis Suarez var stórkostlegur. Punktur og pasta.

Leitt að enda neikvætt, en það varð algerlega ljóst (ef einhver var í vafa) að Luis Suarez þarf að láta lífið inn í teig til að fá víti. Það að Leon Barnett var ekki rekinn útaf og við fengum víti er svo hlægilegt að meira að segja allir lýsendur Setanta í dag bentu á þetta, kölluðu það “Stonewall penalty”. Rodgers hringdi í Mike Riley í vikunni til að kvarta, veltið fyrir ykkur vítunum sem WBA og United hafa fengið gegn okkur í vetur, berið saman við þetta og svarið svo hvort að deild sem krefur ákveðinnar línu af dómurum sínum og talar um samkvæmni eigi ekki aðeins að skoða málin.

En nóg um það, brandarnir þessa helgina verða ekki um okkur, nú erum við með frábært tækifæri til að virkilega ramma sjálfstraustið inn hjá okkar mönnum, fjórir leikir á Anfield eru einmitt það sem við nú þurfum!

Liðið gegn Norwich

Mánudagspælingar – Opin umræða