Hillsborough – afsökunarbeiðni Cameron

Í dag er stór dagur á Merseyside.

Því í dag kom út skýrsla biskupsins í Liverpool um atburðina á Hillsborough þann 15.apríl 1989. Í stuttu máli sagt þá er ljóst að sjaldan hefur blanda af vanhæfni, stjórnunarvanda og ógeðslegri yfirhylmingu eins og sú sem þar er beint kastljósi verið meiri en í kringum þennan hryllilega atburð.

Í 23 ár hefur verið barist fyrir því að sannleikurinn í málinu komi fram og í dag voru fyrstu skrefin tekin þar sem umrædd skýrsla byggir á málsgögnunum sem fyrri skýrslur hafa verið unnar uppúr, en í þeim tilvikum staðfært, eytt og logið upplýsingum til að dreifa ábyrgðinni.

Í þinginu í dag ræddi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron skýrslu biskupsins í breska þinginu.

Skemmst er frá að segja að þar vísaði hann allri ábyrgð á slysinu á óvönduð vinnubrögð lögreglu og neyðarhjálparstarfsfólks og dró fram þær lygar sem settar voru í gang og viðbjóðsleg vinnubrögð aðila innan stjórnkerfisins til að reyna að koma sök á aðdáendur Liverpool Football Club.

Hann hefur rætt við ríkissaksóknara möguleikann á því að málið verði enduropnað og þar með gefinn möguleiki á fyrir fjölskyldur hvers og eins hinna látnu að bregðast við því sem nú er orðið ljóst að var andlát vegna vanhæfis þeirra sem gæta áttu öryggis.

Undir lok ávarpsins bað hann fjölskyldur hinna látnu og samfélagið í Liverpool afsökunar á því að slysið skyldi henda og einnig því að í kjölfarið og til margra ára hafi verið dregin upp mynd af því að aðdáendur Liverpool hafi átt einhvern þátt í slysinu.

Þetta er stór dagur og stór frétt, loksins hefur baráttan um að sannleikurinn í Hillsboroughmálinu nái fram unnið áfangasigur og vonandi, vonandi gefur þetta fyrirheit um að aðstandendur þeirra 96 sem létust þennan dag geti nú loksins fengið botn í spurningar sem hingað til hefur ekki mátt ræða!

JUSTICE FOR THE 96 – MAY THEY NEVER BE FORGOTTEN!!!

(Uppfært Babu) – Ég gerði óvart færslu á sama tíma læt hana fylgja með hérna líka

Eftir 23 ára baráttu stuðningsmanna Liverpool, Everton, annara liða sem og íbúa Liverpool og auðvitað aðstandenda þeirra 96 sem létust 15.apríl 1989 hafa öll gögn í málinu loksins verið gerð opinber og útkoman er mögnuð og ljót þó hún komi engum á óvart sem hafa kynnt sér þetta mál.

Niðurstaðan er í stuttu máli sú að þessir aðilar sem hafa barist allann þennan tíma höfðu rétt fyrir sér og barátta þeirra fyrir réttlæti átti svo sannarlega fullann rétt á sér.

Hillsborough harmleikurinn er tvíþættur. 96 SAKLAUSIR aðdáendur létust vegna mistaka lögreglu og þeirra yfirvalda sem sáu um framkvæmd leiksins. Lögreglan hleypti allt of mörgum inn á völlinn, höfðu enga stjórn á því hvert þeir fóru sem endaði þannig að allir fóru inn í sama afgirta hólfið á stúkunni. Þeir brugðust síðan mjög seint og afar illa við þegar skaðinn var skeður og gerðu satt að segja nánast því ekkert rétt þennan dag.

Hinn harmleikurinn sem á eftir fylgdi var yfirhalningin. Það er staðfest í dag að lögrelgan breytti orðalagi í vitinsburði til að fegra sinn þátt. Þeir kenndu stuðningsmönnum um harmleikinn og rannsóknin sem á eftir fylgdi var aðallega til að þess að finna sannanir til að sverta þátt suðningsmanna. Segja þá hafa verið drukkna og miðalausa eins og það væri nýlunda eða afsökun.Ríkisstjórnin með Járn Herfuna við völd var engin hjálp.

Ofan á það fylgdi ótrúleg umfjöllum The Sun sem gekk skrefinu lengra. Lesið þetta hérna  og passið ykkur að kaupa aldrei þetta blað, ekki vitna í það og bara ekki tala um það.

Það var bara verið að opinbera skýrslu óháðrar nefndar sem fór yfir yfir 450.þúsund gögn í tengslum við þetta mál. Gögn sem hafa ekki verið gerð opinber áður og fjölskyldurnar hafa barist fyrir að fá aðgang að.

David Cameron forsætisráðherra bað fyrir hönd þings og þjóðar afsökunar á þessu máli og breska þingið hefur í morgun sannarlega fordæmt niðurstöðu þessarar skýrslu og m.a. umfjöllun Sun um málið. Ótrúlegt að þetta tók 23 ár en vonandi er þetta upphafið á endanum á þessu máli.

Hér er ræða Cameron frá því í morgun

Til að kynna sér málið betur mæli ég með þessum tveimur frásögnum stuðningsmanna Liverpool sem voru á Hillsborough 15.apríl 1989. Annar þeirra er Brian Reade, þekktur blaðamaður í Liverpool og þá starfandi fyrir Liverpool Echo.
Þetta var birt í gær (áður en skýrslan var opinberuð) en fáir hafa barist meira fyrir deginum í dag heldur en Brian Reade. http://www.mirror.co.uk/sport/football/hillsborough-documents-released-brian-reade-1318730

Hér er síðan mögnuð frásögn stuðningsmanns Liverpool frá 2005
http://www.mirror.co.uk/news/uk-news/hillsborough-documents-released-survivor-damian-1317380

Það er ennþá verið að opinbera skýrsluna og hægt að sjá það hér, nú rétt í þessu var einn að spyrja hvort það væri einhver á blaðamannafundinum frá The Sun, blaðamann þeirra væru ekki velkomnir. http://www.liverpoolfc.com/news/latest-news/our-coverage-as-panel-reports

Við uppfærum þessa færslu eða gerum nýja í dag.

JFT96

47 Comments

 1. Ég horfði á ávarp Cameron við breska þingið fyrir hádegi og fylgdist um leið með viðbrögðunum á Twitter. Ég, eins og fleiri, var kjaftstopp. Niðurstöðurnar eru ekki bara til að staðfesta grun og skoðanir fjölskyldna þeirra sem létust heldur voru þær í raun verri, ef eitthvað er.

  Þetta er risavaxinn dagur fyrir fjölskyldurnar, klúbbinn, aðdáendurna og Liverpool-borg í heild sinni. Og þetta er mál sem á bara eftir að vinda upp á sig núna og vonandi fá þann endi að réttir menn verða sóttir til saka fyrir sinn þátt í þessum hörmungum.

  Einnig skal ég hundur heita ef The Sun biðst ekki loksins afsökunar. Og þótt fyrr hefði helvítis verið.

  Ótrúlegt. Síðan ég var lítill hefur leitin að sannleikanum verið hluti af Liverpool FC. Nú er sannleikurinn kominn í ljós. Þetta breytir öllu. Ég vona að ég þurfi aldrei aftur að standa á Anfield og láta stuðningsmenn gestaliðsins hrópa að mér og öðrum, “You murdered your own fans.”

  Fólk veit hið sanna núna.

 2. Sælir félagar

  Loksins nær réttlætið fram að ganga. Ártuga sögu sem hefur tekið mikið á aðstandur og klúbbinn er lokið með fullnaðarsigri réttlætisins. Nú er bara að sjá hvort þeir sem um sárt eiga að binda fá ekki einhverjar bætur fyrir það óréttlæti og og níð sem þeir hafa orðið fyrir í gegnum tíðina. Brot og falsanir lögreglu eru ótvíræð. Þess vegna eru bætur eðlilegar þó aldrei verði fullbætt fyrir ástvinamissi og lýgi undanfarinna ára.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 3. Stór dagur fyrir Liverpool og fótboltann.

  Þetta hefði getað komið fyrir hvaða stuðningsmannahóp sem er og þetta sýnir hvers konar fyrirlitning var kerfislæg í lögreglunni og stjórnkerfinu gegn fótboltaáhorfendum á þessum tíma, fyrirlitning sem átti rætur sínar í stéttaskiptingu og fyrirlitningu á verkamannastétt.

  En, Kristján Atli, það verður aðeins orðalagið sem breytist, því að ekkert sem gerðist í dag breytir því að einstaklingar í bæði þínum stuðningsmannahóp og mínum munu halda áfram að syngja sjúka níðsöngva. Því þegar báðir segja ‘þú byrjaðir’ hættir hvorugur.

  Ég get bara sagt það að ég hef ekki séð neinn United mann segja neitt annað í dag en að fagna þessari mögnuðu niðurstöðu. Sjálfur geri ég það, og vona að framhaldið verði ákærur og sakfellingar á þeim sem bera ábyrgð á þessari viðbjóðslegu spillingu sem afhjúpuð var í dag.

 4. Nr. 5 Björn
  Held nú að flestir séu á sömu línu þegar kemur að svonalöguðu, þetta slys snerti Everton litlu minna en Liverpool og þeir hafa verið alveg jafnfætis alla leið í þessari baráttu. Leikmenn, blaðamenn og stuðningsmenn með tengsl í alla klúbba taka þessum fréttum líklega með svipuðum viðbjóði og ég eins og þú hef ekki séð neinn í dag níða stuðningsmenn Liverpool eða þá sem létust (ekki skoðað það mikið reyndar).

  En það var bara síðast á Everton – United sem lag um Hillsborough sem heyra má á nánast hverjum United leik var sungið (og svarað af Everton mönnum). Vonandi hættir eða minnkar töluvert sú vitleysa enda voru svo áberandi margir að taka þátt að þetta heyrðist mjög vel. Alveg sama á við um Munich slysið sem, ótrúlegt að svonalagað megi ennþá heyra á leikjum.

 5. Ég á ekki orð yfir að stuðningsmenn gestana hafa stundum öskrað „You murdered your own fans.“

  Ég á ekki orð yfir að stuðningsmenn Man.Utd syngja níðsöngva um Hillsborough harmleikinn á pöbbum Manchester borgar fyrir leiki. (skiptir ekki máli hvort það sé Liverpool eða önnur lið sem þeir eru að fara að keppa við. Þetta hef ég heyrt frá mönnum sem hafa verið þarna)

  Ég á ekki orð yfir að það tók 23 ár að fá afsökunarbeiðni og sannleikan frá stjórnvöldum.

  Sem Liverpool aðdándi er maður hálf orðlaus í dag eftir þessa skýrslu. Ég vissi að stjórnvöld höfðu leynt hlutum en ég bjóst aldrei við þessu. Þetta er smánarblettur á breskt samfélag allt þetta mál! Ég vona innilega að engin fótboltaklúbbur í heiminum þurfi að ganga í gegnum það sem fólkið í Liverpool og fjölskyldur þeirra 96 hafa þurft að ganga í gegnum!

  R.I.P 96

 6. Þetta eru natturulega bara frabærar frettir. Verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu….

 7. Það er magnað að lesa þessa skýrslu.

  Hérna er vinnubrögðum lögreglunnar lýst. Þeir ákváðu að taka saman “frásagnir” lögreglumannanna á svæðinu, ekki opinberar skýrslur, og lögreglumennirnir máttu bara skrifa þetta sjálfir niður eins og þeim sýndist. Þetta var ekki gert á stöðluð vitnaeyðublöð, heldur aðeins óformlega (http://hillsborough.independent.gov.uk/report/main-section/part-2/chapter-11/page-2/)

  Svo það sem tekið var út og laut allt að skipulagsleysi og skorti á yfirstjórn innan lögreglunnar á svæðinu. Allt þurrkað út áður en það var sent út úr húsi (http://hillsborough.independent.gov.uk/report/main-section/part-2/chapter-11/page-4/)

 8. “Einnig skal ég hundur heita ef The Sun biðst ekki loksins afsökunar. Og þótt fyrr hefði helvítis verið. ”

  Ég sé að fyrrum ritstjórinn er búinn að biðjast afsökunar á þessu. En sýnist líka að það sé að falla í grýttan jarðveg fyrir að vera of lítið og of seint.

 9. Mikið óskaplega er maður glaður þegar svona dagar koma, David Cameron fær plús hjá mér. Hann talar af virðingu en jafnframt er hann ákveðinn og hvass í orðum sínum gagnvarð þeim sem eiga það skilið.

  En ég verð að koma að þeim viðbjóði sem ekki má nefna á þessari síðu né annarstaðar þar sem Liverpool kemur við sögu. The s** og Kelvin MacKenzie, þessi ömurlega tilraun til afsökunarbeiðni er í besta falli viðbjóður, mann helvítið (já ég má kalla hann það) hefur ekki vott að æðruleisi né manndóm í því að koma með afsökunarbeiðni.

  Í staðinn 23 árum seinna þegar loks koma fram gögn sem sýna fram á það sem Liverpool menn hafa alltaf vitað og ávallt haldið fram. Hvað gerir hann hann kemur með AFSÖKUN á því sem hann skrifar, þar sem hann bendir á aðra og kennir þeim um að hafa látið hann hafa rangar og upplognar upplýsingar sem hann síðan birtir í blaðinu. Þessum fréttamiðli ætti að vera lokað fyrir fullt og allt og fyrir löngu síðan.

  Að afsaka sig er ekki það sama og biðjast afsökunar, langur og breiður skurður þar á milli.

 10. Magnaður dagur. Ótrúlegt að sjá þetta loksins gerast eftir öll þessi ár. Nú er sannleikurinn loks kominn í ljós og næsta verkefni er þá að fá réttlæti – að þeir sem ákváðu að hylma yfir og ljúga upp á saklausa verði látnir svara til saka..

  Verður athyglisvert að sjá hvernig Sun tækla þetta á morgun, en það er eiginlega sama hvað þeir gera – hvernig blaðið hagaði sér á þeim tíma og allar götur síðan þýðir að það verður erfitt að líta þann snepil án þess að kúgast…

 11. Ég held að margir hafi eins og ég upplifað mikinn létti í dag. Réttlætið mun ná fram að ganga og lygarnar hafa verið afhjúpaðar. Eftir alla þessa sögu þá sat þetta svo djúpt í manni án þess að maður gerði sér í raun grein fyrir því.

  Ég sat með bræðrum mínum og horfði á þennan leik fyrir 23 árum og ég gleymi því aldrei, en kannski er núna hægt að leggja þessa minningu að hluta til hvíldar þar sem hið rétta er komið í ljós.

  Ótrúlegur dagur og ótrúlega hreinsandi að fá loksins sannleikann frá byrjun til enda.

  JFT96

 12. RIP 96 You Will Never Walk Alone.

  Ótrúlegt að það sé búið að taka 23 ár að fá Sannleikan viðurkenndan.

 13. Bara einfaldlega drukkið inn í mig fréttir dagsins, maður situr bara hálfmáttlaus, í 23 ár hefur alltaf annað slagið verið skotið inn alls konar horbjóði um að “þar sem er reykur er eldur” – kommentum með tungu í kinn, sem áttu að láta fólk halda að Liverpoolaðdáendur ættu þátt í slysinu.

  Lesning dagsins vekur manni hroll og viðbjóð. Ég skrifaði grein 2009 um slysið og viðaði þá að mér enn fleiri gögn en ég hafði áður lesið og var sannfærður um að myndin sem ég hafði teiknað upp, út frá sjónarhóli aðdáenda Liverpool og aðstandenda þeirra sem létust, væri sú rétta. Vanhæfni lögreglu og kaos aðalmálið, fáránleg staðsetning leiksins á velli sem var alltof lítill og óhagstæður einnig vafasamt.

  Í desember fór ég á skrifstofu Hillsborough Justice Campaign með þessa grein mína, hitti fólkið þar og náði sambandi við hann Kenny sem varð fyrir varanlegum meiðslum á Hillsborough á sínum tíma. Við ræddum lítið um daginn þann, hann mundi afskaplega lítið, enda missti hann meðvitund í troðningnum og vaknaði ekki fyrr en nokkru síðar, þá á spítala.

  Við ræddum um hvað yrði með þessa skýrslu. Kenny var ekki viss um að sannleikurinn yrði sagður. Hann var handviss um það að lögreglan hefði alla tíð falið upplýsingar og stjórnmálamenn myndu ekki þora að segja satt. Hann vonaði að fólki yrði hleypt að einhverju leyti að upplýsingum um sinn fjölskyldumeðlim sem hefði látist en reiknaði með að fjöldamörg ár þyrfti til að fá allar skýrslur opnaðar.

  Að því leyti er þessi dagur frábær. Allt er opið.

  En í hina röndina hefur maður bara setið lamaður yfir viðbjóðnum sem hefur viðgengist á meðal breskra yfirvalda og þagað var yfir í 23 ár. Alls 164 vitnisburðum lögreglumanna var breytt af ólíkum rannsakendum, 116 vitnisburðir þurrkaðir alfarið út. Eftir 3:15 voru a.m.k. 41 hinna slösuðu á lífi. Ákveðið var að búa til “trúverðuga” sögu sem allir myndu halda sig við, þar sem aðdáendur Liverpool fengu hluta sakarinnar. Teknar voru blóðprufur úr börnum til að reyna að sanna óeðlilega áfengisneyslu.

  Jesús minn, Jesús. Hillsboroughslysið tók í dag á sig nýja mynd. Sannleikurinn sem Kenny beið eftir, og við öll, er sárari og ógeðfelldari en nokkur gat reiknað með. Megi þeir skammast sín allan hringinn og svara sinni spegilmynd. Sama hvort þeir heita Duckenfield, McKenzie, Patnick eða einhverjir þeirra sem komu að rannsóknunum sem voru samsettar lygamyllur frá upphafi.

  Framundan er svo auðvitað að leita réttlætisins. Nú verður loksins hægt fyrir fjölskyldur fórnarlambanna að fá dánarskýrslur ættingja sinna, væntanlega með réttri dánarstund hvers og eins og læknisfræðilegar ástæður andlátsins. Hverjir í hópnum voru enn á lífi kl. 3:15 en voru ekki aðgættir?

  Hverjir verða látnir svara? Margir yfirmannanna sem voru við störf þarna eru enn yfirmenn lögreglunnar í dag. Verður í alvöru til “The Sun” á næstu vikum, mánuðum og árum?

  Svo margt fram undan. En áfangasigur hefur unnist í Hillsborough og það eru einkunnarorð dagsins.

  Af því sem ég hef lesið í dag finnst mér þetta yfirlit hér vera mest vert að verða lesið og linkað. Stutt upprifjun á því hvað hefur gerst á tímabilinu 15.apríl 1989 til 12.september 2012.

  http://www.fleetstreetfox.com/2012/09/hooligan-n-rough-lawless-person.html

  Í dag geta allir Liverpool aðdáendur horft í andlit þeirra sem tala um “reyk og eld” og ullað fast og örugglega framan í þá.

  Sannleikurinn er kominn, nú er bara að lesa hann og dreifa honum!

  Justice for the 96!

 14. Er þetta ekki 23 árum of seint hjá blaðinu sem kennir sig við sólina ?

 15. þetta mál er yfir allan ríg hafið. Ég samgleðst/hryggist.

 16. Auðvitað hlaut þetta alltaf að koma í ljós. Þeir gátu bara ekki vegna ótrúlegrar þrautsegju aðstandenda og annara í Liverpool borg legið lengur á þessum viðbjóði. Þetta var vitað í Liverpool, það þurfti bara að opinbera þennan viðbjóð yfirvalda frá þessum atburði. Stórt skref stigið í rétta átt með þessari skýrslu.

  Það er eflaust mörgum létt, þó svo það færi þeim ekki ástvini tilbaka.

  RIP 96

 17. @8 Fói
  Nei nei nei, ekki láta þennan dag snúast um ríg við United. Það munu alltaf vera til fífl, bæði hjá United og Liverpool mönnum. Man Utd menn syngja um þetta meðan Liverpool menn syngja um Munichen flugslysið. (Og please ekki fara meta slysin, öll slys á saklausu fólki eru skelfileg. Superga flugslysið, Valley Parade bruninn og Ibrox troðningurinn; slys virðast elta fótboltann.)

  Fannst þetta flott ræða hjá Cameron, eins og Andri Þór sagði “hann talaði af virðingu en jafnframt er hann ákveðinn og hvass í orðum sínum gagnvarð þeim sem eiga það skilið”. Að sjálfsögðu er maður hneysklaður yfir vinnubrögðum The S*n en mest er ég samt sjokkeraður yfir lögregluþjónunum. Þetta eru menn í gífurlega ábyrgðarfullu starfi og það er hreint ótrúlegt að þetta skuli hafa gerst í landi eins og Bretlandi. Það er líka alveg óviðunnanlegt að það hafi tekið 23 ár að fá þetta staðfest.

  Þessi dagur er hafinn yfir allan félagaríg, ég styð Everton en skiptir bara engu máli í dag. Þetta er stórfréttir fyrir enska boltann í heild sinni og frábært að loksins sé sannleikurinn (opinberlega) kominn í ljós.

 18. Loksins, loksins!

  Í dag er stór dagur í sögu klúbbsins okkar ástkæra og borgarinnar sem hann hýsir. 23 ára barátta hefur borið árangur og fjölskyldur fórnarlamba sem hafa leitað réttlætis á harmleik og rangindum hafa fengið uppreisn æru. Í dag vann Liverpool sigur – langsóttan og bitran, en réttlátan sigur. Þó bara áfangasigur sannleikans því að fyrr en réttlætið nær fram að ganga þá er ekki hægt að tala um fullnaðarsigur.

  Það hefur verið undarleg upplifun að heyra fréttirnar og melta upplýsingarnar sem mann hefur grunað svo lengi að leyndust þar á bakvið. Við lestur og áhorf hefur maður klökknað og tárast eða þurft að bíta á jaxlinn. En oft er maður bara dofinn og tómur. Tilfinningarnar sem sækja að manni eru margar:

  Gleði – yfir að loksins, loksins hafi fjölskyldurnar uppskorið laun erfið síns. Hugur manns og hjarta stendur fyrst og fremst með aðstandendum.

  Léttir – yfir að hinn dimmi skuggi óréttlætis sem Hillsborough hefur varpað á Liverpool sé að minnka og að rofa til í gylltri skýjabreiðunni.

  Sorg – vegna atburðarins sjálfs og þeirri vitneskju að hægt hefði verið að forðast harmleikinn og bjarga mannslífum. Hinir 96 munu aldrei gleymast.

  Reiði – yfir óréttlætinu, ömurleikanum og skaðanum sem þetta mál hefur valdið. Og til hvers? Hvers virði er mannleg þjáning? Hvað varð um heiðvirði og mannlegheit? Svar óskast frú Járnfrú og hyski þitt.

  Stolt – yfir sigri réttlætisins og að sannleikurinn hafi komið fram í dagsljósið. Stolt yfir þrautseiglunni og úthaldinu sem allir sem að baráttunni hafa komið hafa sýnt. Steyttur hnefi og stolt.

  Von – um þetta sé byrjun á nýju upphafi. Að nú þurfi Liverpool ekki lengur að þola upplogna skömm, svívirðilega söngva eða yfirgengilegt óréttlæti. Von um að byrðinni sé létt og að mannorðið sé hreinsað.

  Í dag hefur maður tekið rússíbana tilfinningana upp og niður. Fyrir mér er þetta ekki síður mikilvægt í sögu klúbbsins en 6 brjálaðar mínútur í Istanbúl, 4 mínútna hat-trick, skjálfandi hnéskeljar í Róm eða aðrir eftirminnilegir atburðir. Harmleikurinn hefur þjappað okkur púlurum saman og gert það að verkum að enginn upplifir LFC sem “venjulegan” klúbb. Hann er eitthvað miklu meira en það. En sorgin og skugginn hefur líka sært okkur, fryst okkur í fortíðinni og óneitanlega haft áhrif á velgengni klúbbsins. Yfirgengilegt óréttlæti hefur þau áhrif að ofsaleg orka fer baráttuna og biturleikann. Nú er það vonandi á enda.

  En að þessari útrás á hugsunum lokinni ætti maður að geta hallað höfði og sofnað með gleði í hjarta. Góða nótt og til hamingju með daginn.

  YNWA

  JFT96

 19. Hef alltaf (eftir að ég fór að kynna mér málið) litið á þennan harmleik sem sameiginlegan hjá bæði Liverpool og Everton enda hitti þetta stuðningsmenn liðana nokkuð jafn illa en svo má segja. Rígurinn í Liverpool er kannski fráburgðin öðrum að því leiti að hann hefur ekkert með búsetu eða trúarbrögð að gera, nema þá í þeim skilningi að Liverpool FC eða Everton FC eru helstu trúarbrögðin.

  Heimasíða Everton og verslunin þeirra í miðborg Liverpool sýndu líka mikinn klassa í dag eins og sjá má hér http://www.evertonfc.com/news/archive/2012/09/12/blues-remember-the-96

  Þarna má líka líklega sjá bestu skýringuna á hversu mikið þetta gat komið fyrir hvaða stuðningsmenn sem er og eins og fékkst loksins endanlega staðfest í dag, hafði ekkert með hegðun stuðningsmanna Liverpool að gera. Everton var að spila á sama tíma í sömu keppni á Villa Park:

  Paul Corbishley
  Was at Villa Park that day with my dad. Luck of the draw that we went to Birmingham and Liverpool to Sheffield. We would have had the same end and the same problems. Hope the families finally get some closure today. They have carried themselves with so much dignity over the years. RIP.

  Hér er önnur eldri frásögn frá Everton manni sem lýsir þessu mjög vel http://footyscene.com/?p=1114

  Atburðir dagsins sýna síðan mjög vel hvernig ástandið var á þessum tíma og ætti að ná lant út fyrir Liverpool borg og í raun fótbolta.

 20. Samgleðst ykkur innilega að hið rétta sé komið í ljós, samhryggist að sama skapi innilega með ykkur og fjölskyldum þeirra sem mistu ástvini 15 april 1989 á Hillsborough. Þegar svona hörmungar verða þá stöndum við saman sem einn maður sama með hvaða liði við höldum.

 21. Þetta er stór dagur fyrir alla stuðningsmenn Liverpool. Í raun svo stór að Liverpool hjartað í manni stækkaði til mikilla muna. Að ná fram réttlæti eftir allan þennan tíma er stórkostlegt. Það sýnir manni einnig hvað baráttan fyrir staðreyndum og sanngirni getur verið löng og ströng en samt algjörlega hennar virði.

  Ég man vel eftir þessum atburðum og horfði á þá í sjónvarpinu. Man meira að segja hvar ég var þegar það gerðist. Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að slysið hafi haft meiri áhrif á framtíð Liverpool en menn gerðu sér grein fyrir. Kenny Dalglish hætti skömmu eftir þennan mikla sorgardag eftir að hafa sýnt fjölskyldum þeirra sem dóu ótrúlegan skilning og virðingu. Viðbrögð hans munu aldrei gleymast.

  Einnig, þegar maður hugsar til baka, finnst manni eins og Liverpool hafi aldrei almennilega borið sitt barr eftir þetta. Kannski fékk liðið einnig strangari dóm eftir Heysel slysið í kjölfar hinnar neikvæðu umræðu um Hillsboroug slysið? Hið langa bann sem gerði til að mynda manu kleyft að sigla fram úr Liverpool fjárhagslega.

  Það er samt eitt sem situr í mér og ég verð að koma frá mér. Ég las einhverntíman í sumar grein þar sem farið var yfir brostin loforð núverandi eigenda. Það sem sló mig var ábending um að eigendurnir hefðu frekar farið að sjá fyrsta leik Boston Red Sox í bandarísku hafnaboltadeildinni í stað þess að vera við minningarathöfn í Liverpool um þá 96 sem létust þann 15. apríl 1989. Kannski las ég vitlaust eða misskildi greinina en svo mikið er víst – þetta er ekki leiðin að hjarta áhangenda Liverpool.

  Til hamingju með daginn íbúar og áhangendur Liverpool. Réttlætið náði fram að ganga.

 22. Sem Stuðnings maður Manchester United langar mig að rita nokkur orð þessu tengdu:

  Sorgleg niðurstaða, og ekki á nokkurn hátt gleðileg. Því að þáttur þeirra bresku lögreglumanna og þeirra stjórnmála og embættismanna er snéri að því að breiða yfir það hvað raunverulega gerðist þennan umrædda Apríl dag þann 1989, er mun ógeðfeldara en orð fá lýst. Því að í mínum huga hafa orsakir þess sem gerðist legið í augum uppi miðað við þau myndskeið sem til eru að þetta var skipulags klúður þeirra sem sáu um öryggismál þennan umrædda. Er það ekki í fyrsta skipti eða eina skiptið sem slíkkt gerist, sem dæmi get ég nefnt og geri ég ráðfyrir því að felstir hér hafi fylgst náið með fréttum af hriðjuverkunum í Noreg, í Oslo og Útey. Að nú er komið í ljós að reynt var að fegra að komu Norsku lögreglunar í viðbrögðum þeirra við því sem var að gerast, lýkt og viðbrögð Bresku lögreglunar við Hillsborugh slysinu, þó svo að málin séu að öðruleiti ekki á nokkurn hátt sambærileg. Ég gæti eflaust týnd fleyri dæmi hvað varðar fegrunar aðgerðir á aðgerðum lögreglu og annara yfirvalda víða um heim hvað varðar að komu að slysum, hriðjuverkum, náttúruhamförum etc.

  Aftur að Hillsborugh slysinu, ég hugsa þó að þessar skýrslu byrtingar í gær verði ekki endir þessa máls heldur upphafið að því að draga þá til ábyrgðar sem báru ábyrgð á því sem gerðist. Framkomann við stuðnings menn Liverpool hvort sem þeir misstu ástvinni eða voru á staðnum þennan umrædda dag af hálfu þeirra lögreglumanna og stjórnmálamanna í kjölfarið er þeim til háborinnar skammar og algjört hneygsli.

 23. Í ummælum mínum #8 var alls ekki ætlunin að koma með einhver Man. utd ríg. Ég nefndi bara þetta af því einhver talaði um utd á undan. En ég er alltaf jafn hissa á grimmdinni sem fólk sýnir þegar það syngur níðsöngva um Hillsborough sama hvaða liði þeir tilheyra. Ég hef aldrei og mun aldrei gera lítið úr Munchen 1958 og fordæmi aðra sem gera slíkt líkt og með Hillsborough slysið.

 24. Hossi #33 Heysel slysið var 1985 þar af leiðandi er það 4 árum á undan Hillsborough-slysinu.

  Annars er þetta rosalega stór dagur fyrir Liverpool aðdáendur um allan heim en ennþá stærri fyrir aðstandendur þeirra sem dóu og voru viðstaddir þennan hörmulega atburð. Það er alveg ótrulegt hvað menn leggjast lágt til að komast undan því að bera ábyrgð á svona hörmungar atviki!!! Það er vonandi að þeir verði látnir taka ábyrgð á gerðum sínum.

 25. Þetta er mikill sigur fyrir Liverpool FC og fjölskyldur þeirra sem fórust í þessum harmleik.
  Hef trú á réttlætinu og að Sunderland verði teknir í bakaríið um helgina.
  YNWA

 26. Nr. 38
  Eitthvað held ég að þeir sem starfa hjá Sun núna óski þess að þeir hefðu tekið Dalglish á orðinu 20.apríl 1989 og haft “WE LIED” á forsíðu blaðsins.

  Afsökunarbeiðni 23 árum seinna hjálpar þessum klósettpappír lítið þó lítið sé við núverandi starfsfólk Sun að sakast í þessu tilviki (hvað með önnur tilvik þar sem þeir ljúga og hlera síma til að selja fréttir?) Eina sem hægt er að sakast við núverandi starfsfólk Sun er eins og einn Scouserinn orðaði það, “Það var þeirra ákvörðun að vinna fyrir The Sun/The SCUM”.

 27. Já, sammála. Af afsökunarbeiðni að vera er þessi þó býsna góð, eins langt og hún nær. Skaðinn og skömmin verða þó aldrei aftur tekin.

 28. Afsökunarbeiðni sem er gerð þegar að það er búið að “bösta” þig er ekki góð og gild afsökunarbeiðni í mínum augum.

 29. The Sun ætti að sjá sóma sinn að fjalla aldrei um þetta slys aftur á meðan þessi skítasnepill lifir (sem verður vonandi ekki lengi) Veit ekki betur en þeir eru enn og aftur að fá inn pening vegna Hillsbourough, eitthvað hlýtur þetta tölublað núna að seljast!

  Eftir 23 ár þegar gögn sýna og sanna það sem allir vissu þ.á.m Sun að aðdáendur Liverpool áttu enga sök á þessu slysi þá fyrst stíga þeir upp og biðjast afsökunnar. (enda ekki annað í stöðunni miðað við gögnin)

  Heimurinn er ekki svona einfaldur að Liverpool aðdáendur taki þetta blað í sátt eftir eina afsökunarbeiðni. Neibb ekki séns!

 30. Ligg hér heima að jafna mig eftir aðgerð og horfi á TV á meðan. Er búinn að vera að flakka á milli UK fréttastöðva og þetta mál er í öllum fréttatímum, eðlilega. Maður er eiginlega fullur viðbjóðs og manni sýnist þetta vera miklu svartara í raun heldur en maður hélt. En núna er s.s.sannleikurinn kominn fram og þá þarf réttlætið að ná fram að ganga.Og það skal takast.

  Get ekki beðið eftir næsta heimaleik okkar og þar býst maður við að allir taki undir sönginn: Justice For the 96!

 31. Eftir því sem maður les fleiri fréttir fær maður meira óbragð í munninn. Maður vissi svosem að það hefði ýmislegt brugðist og mörgum spurningum var ósvarað en það sem hefur komið í ljós er margfalt verra en maður bjóst við.

  Ljóst er að það eru ansi margir sem hafa þurft að lifa síðustu 23 ár með ansi slæma samvisku og það er ekki aðeins bundið við einstaklinga, heldur líka heilu stofnanirnar.

  Mest er búið að fjalla um þátt lögreglunnar í þessu máli og þeirra aðkoma að málinu er með ólíkindum að maður situr agndofa. Ótrúleg þöggun og skipulögð atburðarrás sem hefur átt sér stað þar á bæ. Ég ætla ekki minnast einu orði á skömm ónefnds fjölmiðils. Þá brugðust stjórnvöld með algjöru skeytingaleysi.

  Það sem mig langar að minnast á er þáttur FA sem ég tel að beri ábyrgð á því að þessi atburður átti sér stað. Það var vitað að Hillsborough völlurinn stæðist ekki kröfur um að halda slíkan kappleik og hafði völlurinn fallið á öryggisprófi skömmu áður en leikurinn fór fram engu að síður var leikurinn látinn fara fram á vellinum. Ekki fyrr en í dag, 23 árum seinna, kemur fram afsökunarbeiðni frá sambandinu!!! Ég myndi telja full ástæða til þess að krefjast rannsóknar á starfsemi sambandsins á þessum tíma og jafnvel öllum samskiptum sambandsins og aðgerðum þess gagnvart Liverpool FC síðan.

  Næsta skref er að draga menn til ábyrgða og vonandi fá þeir seku makleg málagjöld.

 32. Í gær stóð ég upp og klappaði.
  Í dag les ég og græt.

 33. Ég hélt að æðsti draumur Pookara væri að vinna ensku deildina aftur en það er ekki svo. Draumurinn er réttlæti fyrir tessa 96 sem dóu.

Þriðjudagspunktar

Hálf fullt eða hálf tómt?