Spá Kop.is – fyrri hluti

Þá er komið að því, kick-off stutt undan og ekki aftur snúið!

Við drengirnir höfum undanfarin ár látið frá okkur gríðarlega magnaðar spár og ætlum okkur að gera slíkt hið sama nú. Það þó að við höfum aldrei haft rétt fyrir okkur um lokastöðu Liverpool og að í fyrra var einn sem giskaði á rétt meistaraefni og eitt falllið af fimmtán mögulegum varð staðreyndin!
Spáin er þannig reiknuð út að við röðuðum liðunum í sæti frá 1 – 20 og stigagjöfin virkaði öfugt, þ.e. meistararnir fá 20 stig og neðsta liðið aðeins 1 stig. Mest er því hægt að fá 100 stig og minnst 5 stig.

Ekki er eftir neinu að bíða, við skulum vinda okkur í spána og byrjum neðan frá. Þetta árið erum við töluvert ósammála með neðri hluta deildarinnar en meira sammála með þann efri.

20.sæti: Wigan Athletic – 15 stig

Já takk, enn eitt árið ætlum við að spá Wigan falli en þó er þessi stigatala sú langhæsta sem neðsta lið hefur fengið hingað til. Við teljum að nú nái liðið ekki að bjarga sér eftir ótrúlegar reddingar undanfarin ár og að tími þeirra í efstu deild sé liðinn. Þeir misst Rodallega og Diame frá sér en hafa í staðinn náð í Ivan Ramis og Arouna Kona úr spænska boltanum, auk þess að sækja sér Miyaichi í láni frá Arsenal. Miklu máli skiptir fyrir þá að halda í Victor Moses eða þá fylla skarð hans almennilega.

Lykilmaður: Gary Caldwell (varnarmaður)

19.sæti: Norwich City – 16 stig

Við spáðum Norwich falli í fyrra og gerum aftur í ár. Kemur þar aðallega tvennt til, þá annars vegar hið alræmda „second season syndrome“ og svo það að þei misstu frá sér stjórann sem við teljum hafa verið lykilinn í velgengni þeirra. Þeir hafa þó náð að halda lykilmönnum frá í fyrra og bætt ágætlega við sig mönnum eins og Robert Snodgrass og Steven Whittaker, auk þess sem að Chris Hughton hefur náð ágætum árangri sem stjóri. En samtalan frá okkur segir að þetta muni ekki duga þeim gulgrænu og þeir muni falla.

Lykilmaður: John Ruddy (markmaður)

18.sæti: Reading – 19 stig

Einu nýliðarnir sem við teljum að muni falla er hið rótgróna Íslendingalið í Reading. Þeir eru með lið sem vill spila fótbolta og gætu vissulega orðið hið nýja Blackpool eða Swansea en þeir hafa hingað til ekki styrkt leikmannahópinn nægilega til að halda sér á meðal þeirra efstu. Þó hafa Danny Guthrie og Nicky Shorey fína úrvalsdeildarreynslu og mikið mun mæða á því að Pavel Pogrebnyak nái sér á strik. Rússneskir eigendur félagsins hafa látið eins og þeir ætli sér að eyða verulega í að styrkja liðið en hingað til hefur ekki borið á þeirri styrkingu, ef það gerist fyrir 1.september gæti margt gott gerst hjá þeim.

Lykilmaður: Pavel Pogrebnyak (sóknarmaður)

17.sæti: Southampton – 21 stig

Southampton er á ný meðal þeirra bestu eftir nokkurra ára fjarveru. Leikvöllurinn og umgjörðin er eins og á að vera í Úrvalsdeildinni og stjórinn þeirra Nigel Adkins er á meðal þeirra mest spennandi á Englandi. Hann náði góðum árangri með solid varnarleik og vel skipulögðum skyndisóknum sem byggja á hröðum leikmönnum. Í sumar hafa þeir keypt leikmenn úr marka góða leikmenn úr næstefstu deild og ætla þeim að halda liðinu uppi, sem við teljum að muni takast á lokadeginum.

Lykilmaður: Dean Hammond (miðjumaður)

16.sæti: West Ham – 26 stig

Stigatala „Hamranna“ bendir til að þeir sleppi létt við fall, en satt að segja þá erum við félagarnir ansi mikið ósammála. Við sem teljum þá halda sér uppi skrifum það alfarið á Sam Allardyce og þá ömurlegu list hans að spila árangursríkan „kick and run“ bolta sem er andstætt öllu sem þessi klúbbur stendur fyrir. Eigendurnir eru metnaðarfullir refir og munu sjá til þess að styrkja leikmannahópinn nægilega til að halda þeim uppi.

Lykilmaður: Kevin Nolan (miðjumaður)

15.sæti: W.B.A. – 30 stig

West Brom er fyrsta liðið í upptalningunni sem enginn okkar spáir falli. Við teljum að Steve Clarke muni ná að vinna áfram með öflugan varnarleik fyrirrennara síns og að viðbótin í sumar, sér i lagi framherjarnir Rosenberg og Lukaku muni sjá til þess að liðið verður ekki í alvarlegri fallbaráttu en gæðin í leikmannahópnum eru of lítil til að fara ofarlega í deildinni. En áfram á meðal þeirra bestu.

Lykilmaður: Jonas Olsson (varnarmaður)

14.sæti: Aston Villa – 33 stig

Birminghamstórveldið verður ofan við fallbaráttuna en ekki mikið meira. Aston Villa hefur verið „selling club“ undanfarin ár og byggt á ungum leikmönnum sem hafa verið óstöðugir í leik sínum. Paul Lambert er klárlega uppfærsla í stjórastarfinu en enn sem komið er virðist eigandi liðsins ætla honum lítinn pening til að styrkja liðið almennilega, þó brotthvarf Emile Heskey muni þó hjálpa til! Verða gríðarlega háðir því að framherjarnir þeirra verði með rétt reimaða skóna í vetur og að Ron Vlaar nái að styrkja varnarleikinn.

Lykilmaður: Darren Bent (sóknarmaður)
?
13.sæti: Swansea – 37 stig

„Swansalona“ munu sigla lygnan sjó á svipuðum slóðum þrátt fyrir brotthvarf stjórans til okkar manna. Gæðin í leikmannahópnum eru enn töluverð og flott kaup nýja stjórans á öflugum leikmönnum eins og de Guzman, Manuel Flores og Michu ættu að leiða til þess að þeir geti haldið sínum leikstíl áfram með góðum árangri. Stjórinn sá, Michael Laudrup spilar lykilhlutverkið í vetur, við höfum trú á honum og að hann nái að aðlaga sig enskum fótbolta með meginlandsfótboltanum sem hann fær í arf.

Lykilmaður: Leon Britton (miðjumaður)

12.sæti: Fulham – 45 stig

Fulham er nú sennilega eitt mest óspennandi klúbburinn í deildinni, en við erum allir á því að Martin Jol verði með liðið á svipuðum slóðum og síðustu zilljón ár, rétt fyrir neðan miðju. Liðið missir nokkra leikmenn sem spiluðu mikið í fyrra (Murphy, Etuhu, Johnson o.fl.) og það mun skipta máli fyrir þá hvernig Dempsey málið fer. En þeir munu versla inn fyrir gluggalok og Martin Jol er refur sem kann þetta allt og mun tryggja enn eitt solid season við Thames-ána.

Lykilmaður: Moussa Dembele (sóknarmaður)

11.sæti: Stoke – 46 stig

Held að við séum allir sammála um að ræða sem minnst um and-knattspyrnuliðið Stoke. Tony Pulis er búinn að raða saman liði sem nennir að standa í vörn án bolta 75% leiksins, studdur af háværum áhangendum sem eru svo glaðir að vera „fúlir-á-móti-klúbburinn“ í deildinni. Lygn sjór allt tímabilið, því miður.

Lykilmaður: Matthew Etherington (sóknarmaður)

7 Comments

  1. Hendi inn póstinum frá mér um 11.-20.

    11.Fulham Veltur smá á hvað gerist með Dempsey og fyrir lok gluggans en þeir verða nokkuð safe.

    12.Aston Villa Einn mest óspennandi klúbbur í deildinni. Andinn verður miklu betri hjá þeim innan sem utan vallar í ár og Lambert kreistir allt úr þessu liði sem hægt er að kreista. Stærsta fyrir tímabilið er að Heskey er farinn og styrkir þá gríðarlega.

    13.Reading Tippa á öfugt við það sem ég sagði í Podcasti að þeir verði nýja Blackpool og Swansea. Eru með stjóra sem vill spila fótbolta, unnu deildina í fyrra á fáránlegum endaspretti og ég tippa á að þeir verði í stuði.

    14.Stoke Óskhyggja því líklega verða þeir fokkings ofar!

    15.Swansea Bjarga sér alveg í ár aftur og festa sig í sessi í deildinni í smá tíma. Laudrup á samt gríðarlega stórt verk fyrir höndum og gæti alveg Skallagrímsfallið með þetta lið.

    16.W.B.A. Ekki eins ofarlega og á síðasta tímabili en segjum að Clarke haldi þeim a.m.k. uppi. Hafa reyndar styrkt sig ágætlega fyrir þetta tímabil.

    17.Southamton Held að þessi klúbbur sé á uppleið og haldi sér uppi í ár á kostnað…

    18.West Ham Þetta fer allt í bál og brand hjá West Ham, stuðningsmenn liðsins vilja ekki sjá þennan fábjána með liðið og hvað þá þennan ömurlega bolta hans sem er eins langt frá West Ham eins og Hodgson var hjá Liverpool. Allardyce verður sá fyrsti sem verður rekinn.

    19.Wigan Kötturinn hefur níu líf, einu minna en Wigan sem er búið með sín. Nákvælega engin eftirsjá af þessum klúbb ef þeir falla og borgarbúar geta þá aftur snúið sér að Ruby.

    20.Norwich Óttast að annað tímabil verði þeim erfitt og að Lambert hafi verið maðurinn á bak við þeirra velgengni. Fá reyndar góðan stjóra inn en hann fær ekki nógu góðan hóp.

  2. Wigan er ekki að fara falla, hef sagt það í tvö ár að það þarf kunnáttu og hefð til að falla, alveg eins og það þarf kunnáttu og hefð til að vinna. Wigan hefur aðeins 1 sinnu í sögu klúbbsins fallið um deild, þegar þeir féllu í annari deild niðrí þá þriðju. Annars hafa þeir alltaf verið svona miðlung og í fallbaráttu í öllum sínum deildum. Þeir enda í 17 sæti enn eitt skiptið og Martienz fer frá þeim í kjölfarið.

  3. Fólk hefur litla trú á Villa? þeir hafa litið vel út á undirbúningstímabilinu og auðvitað komnir með stjóra sem er einn sá besti í deildinni. Vlaar ætti að vera góð kaup og þegar Paul Lambert verslar gerir hann það vel. Fái hann smá pening í janúar þá er ég viss um Villa geri vel og endi nær 10. sætinu.

WBA á morgun

Spá Kop.is – seinni hluti